Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11 og 12/2020 Furugerði

Árið 2020, miðvikudaginn 20. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 11/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Espigerðis, staðgreinireit 1.806/807, vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar við Furugerði og Espigerði, Reykjavík, þá ákvörðun borgar­ráðs Reykjavíkur frá 28. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Espigerðis, staðgreinireit 1.806/807, vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Furugerði 12, og eigendur, Furugerði 10, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem hið síðara kærumál, sem er nr. 12/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður það sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. mars 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 31. október 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Espigerðis fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 15. nóvember 2018 og var hún kynnt með fresti til athugasemda á tímabilinu frá 23. s.m. til 7. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá hluta kærenda. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 24. júní 2019. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 26. júní 2019 sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 4. júlí s.á. Með erindi, dags. 13. september 2019, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulags­breytinguna sem skipulagsfulltrúi brást við og tók afstöðu til í umsögn, dags. 14. nóvember s.á. Vísaði hann deiliskipulagstillögunni til borgarráðs, sem samþykkti hana á fundi sínum 28. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2020.

Kærendur byggja meðal annars á því að deiliskipulagstillagan feli í sér brot gegn 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og meginreglu stjórnsýsluréttar um réttmætar væntingar. Þá sé ljóst að deiliskipulagið uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Borgaryfirvöld benda á að ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði og geri Reykjavíkurborg þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda í málinu.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk teljist deiliskipulag ógilt og fari þá um það í samræmi við 41. gr. laganna. Svo sem áritað er á deiliskipulagsuppdráttinn lauk athugasemdafresti vegna tillögu til hins kærða deiliskipulags 7. janúar 2019. Auglýsing um samþykkt þess birtist hins vegar ekki í B-deild Stjórnartíðina fyrr en 22. janúar 2020, eða rúmu ári síðar. Hin kærða ákvörðun var því ógild skv. nefndri 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreinings um ógilda ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.