Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2020 Fífuhvammur

Árið 2020, föstudaginn 8. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 31/2020, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 6. apríl 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 6. apríl 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að verða tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 7. maí 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 7. október 2019, sótti eigandi Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 sólstofu ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð var fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulagsráð erindið og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs.

Kærendur benda á að hin fyrirhugaða bygging sé á lóðamörkum lóðar kærenda og lóðar Fífuhvamms 25. Hún samrýmist ekki götumynd og auki skuggamyndun á lóð kærenda, einkum í garði, og takmarki þannig nýtingarmöguleika þeirra. Útgáfa byggingarleyfisins fari í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni hin fyrirhugaða framkvæmd lækka verðmæti eignarinnar.

Eigandi Fífuhvamms 25 vísar til þess að í málinu liggi hvorki fyrir samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdunum né hafi byggingarleyfi verið gefið út samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Því sé ekki fyrir hendi kæranleg ákvörðun í málinu og því síður skilyrði til að stöðva framkvæmdir.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að samþykki skipulagsráðs feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn heldur sé það hlutverk byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir umrætt gróðurhús og hafi lóðarhafi því ekki fengið heimild til að hefja framkvæmdir. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða og því séu framkvæmdir hvorki yfirvofandi né hafnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs, sem og ákvörðun bæjarstjórnar um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs, er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Er því ekki að svo stöddu fyrir hendi samþykkt byggingarleyfi sem kæranlegt er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.