Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 24. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2020, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir IKAN ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá afgreiðslu Borgarbyggðar sem kæranda var kynnt með bréfi, dags. 17. janúar 2020, að hafna afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6. Er þess krafist að úrskurðað verði að Borgarbyggð beri að afhenda kæranda umbeðin gögn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 9. apríl 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði á lóðinni Egilsgötu 6. Á árinu 2018 sótti eigandi Egilsgötu 6 um byggingarleyfi til að breyta umræddu húsnæði og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2019 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út umsótt byggingarleyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf síðan út byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dags. 14. s.m., óskaði kærandi eftir öllum gögnum varðandi öryggisúttekt og lokaúttekt. Hinn 17. janúar 2020 synjaði sveitarfélagið beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna með vísan til þess að um væri að ræða gögn undanþegin upplýsingarétti, sbr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Með úrskurði 20. mars 2020, í kærumáli nr. 129/2019, var kæru kæranda vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að kærandi ætti ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að þau gögn og svör sem sveitarfélagið hafi látið kæranda í té til þessa taki ekki af öll tvímæli um að lokaúttekt og öryggisúttekt hafi yfirhöfuð farið fram á íbúðunum að Egilsgötu 6. Það hljóti að vera sveitarfélaginu í hag að afhenda umrædd gögn og sanna með þeim hætti að rétt hafi verið staðið að úttektunum.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kærunni verði vísað frá nefndinni. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst nefndinni. Bréf sveitarfélagsins sé dagsett 17. janúar 2020 en kæran sé dagsett 23. febrúar. Því hafi kæran borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þar komi fram að kærufrestur sé einn mánuður frá því kæranda hafi orðið kunnugt um hina kærða ákvörðun. Þá hafi úrskurðarnefndin í kærumáli nr. 129/2019 komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti ekki lögvarða hagsmuni vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs á nágrannahúsi og geti því ekki talist aðili málinu í skilningi stjórnsýsluréttar. Með vísan til þess hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá afhent hin umræddu gögn, sem öll tengist lokaúttekt á mannvirki sem ekki sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórn­sýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Ljóst er að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuna annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðar­nefndinni vegna slíkra leyfisveitinga fyrir Egilsgötu 6. Aftur á móti hefur útgáfa lokaúttektar­vottorðs á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra, sbr. 15. og 36. gr. þeirra laga. Hefur kæranda verið hafnað um kæruaðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni vegna útgáfu loka­úttektarvottorðs fyrir umþrætt húsnæði, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 20. mars 2020 í kærumáli nr. 129/2019. Að sama skapi getur hann ekki talist aðili máls í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga þegar kemur að aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða útgáfu umrædds lokaúttektarvottorðs. Verður því kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

51/2019 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2020, föstudaginn 24. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar í Árnes­hreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur lóðar og íbúðarhúss í landi Eyrar í Árneshreppi, sem einnig eru eigendur lóðar með verksmiðjuhúsi á sama stað, þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 að veita Vesturverki ehf. framkvæmdaleyfi til viðhalds á 16 km kafla vegar 649 og F649 frá brekku ofan Eyrar við Ingólfsfjörð að Hvalá í Ófeigsfirði.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2019, er móttekið var 16. s.m., kærir og hluti eigenda jarðarinnar Seljaness sömu ákvörðun. Verður sá hluti þess kærumáls, sem er nr. 64/2019, sameinaður máli þessu, enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi að fjallað sé um ákvörðunina í einu og sama kærumáli.

Kærendur krefjast þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarn­efndinni en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júlí 2019. Í kjölfar þess fóru kærendur í máli nr. 64/2019 fram á það við nefndina að hún endurskoðaði þá afstöðu sína. Tilkynnti úrskurðarnefndin leyfisveitanda og leyfishafa um framkomna beiðni og í bréfi leyfishafa, dags. 23. ágúst 2019, var því lýst yfir að ekki yrði ráðist í framkvæmdir í landi Seljaness á árinu. Hæfust þær ekki að nýju nema landeigendum og úrskurðarnefndinni yrði tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara. Með tölvubréfi til nefndarinnar 12. september 2019 var fallið frá beiðni um endurupptöku bráðabirgðaúrskurðarins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi 10. og 18. júlí 2019 og 25. mars 2020.

Málavextir: Vesturverk ehf. vinnur að undirbúningi Hvalárvirkjunar í Árneshreppi. Fram­kvæmdin hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2017 um það mat. Þá hefur Árneshreppur samþykkt skipulagsáætlanir er varða framkvæmdina.

Hinn 6. júní 2019 var á fundi skipulagsnefndar Árneshrepps tekin fyrir umsókn Vesturverks ehf., dags. 4. s.m., um framkvæmdaleyfi vegna viðhalds á Ófeigsfjarðarvegi á um 16 km kafla frá brekku ofan Eyrar í Ingólfsfirði að Hvalá í Ófeigsfirði. Í umsókninni var m.a. tekið fram að sótt væri um leyfi fyrir viðhaldi vegarins þannig að hann nýttist sem aðkomuleið að framkvæmdasvæði vegna undirbúningsrannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Ekki væri gert ráð fyrir endurbyggingu eða breytingum á veginum nema á um 100 m kafla við Sýrá. Allar framkvæmdir yrðu í innan við 6 m fjarlægð frá miðlínu vegarins til hvorrar hliðar. Gert væri ráð fyrir ræsum til að þvera Seljadalsá og Sýrá og einnig til bráðabirgða Eyrará. Efni til viðhaldsins yrði sótt í Urðirnar utan við Mela og í námu ES18 við Hvalá. Einnig kom fram að samið hefði verið við Vegagerðina um tímabundið veghald og viðhald Ófeigsfjarðarvegar til fimm ára og yrði samningur þess efnis undirritaður á næstu dögum. Afgreiddi skipulagsnefnd erindið á þann veg að ekki væri gerð athugasemd við umsóknina með fyrirvara um samning umsækjanda við Vegagerðina. Á fundi hreppsnefndar 12. júní 2019 var fundargerð skipulagsnefndar lögð fram til umræðu og afgreiðslu og hún samþykkt. Var og bókað að skipulagsnefnd hefði samþykkt framkvæmdaleyfi með vísan til 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og óskað eftir að skipulagsfulltrúi auglýsti leyfið þegar samningur lægi fyrir við Vegagerðina. Fyrrnefndur samningur Vegagerðarinnar og Vesturverks ehf. var undirritaður 19. júní 2019 og 21. s.m. gaf skipulagsfulltrúi f.h. Árneshrepps út framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar (649). Í leyfinu eru m.a. tíundaðir verk­þættir þess, forsendur laga og reglugerða fyrir leyfisveitingunni, sem og fyrirvarar og skilyrði framkvæmdaleyfisins.

Hinn 27. júní 2019 var tilkynning um samþykkt leyfisins birt á vefsvæði Árneshrepps og sama dag barst sveitarfélaginu tölvupóstur frá Minjastofnun Íslands þar sem fram kom að ekki væri leyfilegt að hefja framkvæmdir við veginn fyrr en umsögn stofnunarinnar lægi fyrir. Munu framkvæmdir þá hafa verið stöðvaðar en þær síðan hafist að nýju þegar umsögn stofnunarinnar hafði borist sveitarfélaginu. Var niðurstaða Minjastofnunar sú í umsögn, dags. 17. júlí 2019, að ekki væri lagst gegn framkvæmdinni að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Einnig var þess m.a. óskað að send yrði greinargerð varðandi það hvernig tæki myndu fara um veg er lægi í gegnum verksmiðjuhús á Eyri og hvernig tryggt yrði að byggingarnar, sem væru víða hrörlegar, yrðu ekki fyrir skemmdum.

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 12. júní 2019 var jafnframt samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Hinn 14. s.m. var svo birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt sveitarfélagsins á deiliskipulagi Hvalár­virkjunar vegna rannsókna. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 7. ágúst 2019 var einnig samþykkt umsókn Vesturverks ehf. um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í námu ES3 í Ingólfsfirði til viðhalds Ófeigsfjarðarvegar. Á sama fundi var og hafnað beiðni leyfishafa um leyfi til að sækja efni í landi jarðarinnar Eyrar til viðhalds vegarins í allt að 12 m frá miðlínu vegarins. Á fundinum var einnig fært til bókar að forsendur væru til þess að jarðrask færi út fyrir 6 m helgunarsvæði vegarins í landi Eyrar þar sem slíkt væri eðlilegur þáttur í að verja vegstæðið og verja veginn fyrir framburði/grjóthruni, enda yrði það gert í samráði við sveitarfélagið. Ákvað hreppsnefnd að sama skyldi gilda fyrir land Ingólfsfjarðar, sem væri líka í eigu sveitarfélagsins.

Svo sem fyrr greinir liggur fyrir samningur milli Vegagerðarinnar og Vesturverks ehf. um tímabundið veghald Ófeigsfjarðarvegar. Hluti landeigenda að Seljanesi við Ingólfsfjörð kærði ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarrétt, veghald og vegagerð á Ófeigsfjarðarvegi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Með úrskurði ráðuneytisins 9. september 2019 var ákvörðun Vegagerðarinnar staðfest um að Ófeigsfjarðarvegur væri þjóðvegur og Vegagerðin veghaldari hans. Taldi ráðuneytið m.a. að ekki væri tilefni til að gera athugasemdir við að vegstæðið teldist ná allt að 6 m til beggja handa frá miðlínu vegarins í skilningi 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Ætti það við þegar annast þyrfti reglubundið viðhald vegarins, lagfæringu og styrkingu hans o.fl., enda væri ekki um það að ræða að gera ætti teljandi breytingar á legu hans.

Ákvarðanir Árneshrepps, um samþykkt fyrrnefnds deiliskipulags og framkvæmdaleyfis vegna gerðar vinnuvega og efnistöku, hafa einnig sætt kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og eru þau kærumál nr. 23/2019, 48/2019, 55/2019, 59/2019 og 65/2019, auk kærumáls nr. 64/2019 að hluta. Var afgreiðslu þeirra mála frestað þar sem greindum ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hálfu hluta eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi. Með úrskurði Landsréttar kveðnum upp 26. mars 2020 var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa bæri málinu frá þar sem sóknaraðilar hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta og eigi því kæruaðild. Kærendur, sem eiga fasteignir að Eyri, taka fram að umrædd framkvæmd hafi hafist fyrir ofan íbúðarhús þeirra að Eyri og fyrirhugað sé að halda henni áfram í landi þeirra, þ. á m. í gegnum verksmiðjubyggingu sem sé í þeirra eigu og inn Ingólfsfjörð. Sjónræn áhrif framkvæmdanna verði óafturkræf og bygging þeirra í hættu. Jafnframt sé heimilað rask á Eyrará sem renni fast upp við lóð íbúðarhúss þeirra.

Kærendur sem eiga hlut í jörðinni Seljanesi taka fram að vegur F649 liggi um land Seljaness, afar nærri íbúðarhúsum og búsetu- og atvinnuminjum á jörðinni. Umferð að sumarlagi sé að meðaltali 15 bílar á dag og vilji landeigendur að Seljanesi standa vörð um þann ferðamannaveg sem vegurinn sé. Menningartengd ferðaþjónusta sé stunduð í Seljanesi og gönguferðir skipulagðar frá enda vegarins. Sé 12 m breitt framkvæmdasvæði fráleitt á þessum vegi og myndi hafa á óafturkræfan hátt áhrif á hagsmuni eigenda Seljaness til allrar framtíðar. Hafi þeir ekki afsalað sér landi undir slíkt vegstæði. Auk eignar- og grenndarréttar vísi kærendur til frelsis skoðana og sannfæringar sem verndað sé af 73. gr. stjórnarskrár, sbr. einnig dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Chassagnou gegn Frakklandi 29. apríl 1999 og málinu Herrmann gegn Þýskalandi 26. júní 2012.

Af gögnum málsins sé ljóst að með hinni kærðu ákvörðun sé heimiluð framkvæmd sem tengist beint Hvalárvirkjun án þess þó að ætlun leyfishafa og leyfisveitanda sé að hið kærða leyfi sé hluti hinna umhverfismetnu framkvæmda. Fallist sé á það með leyfisveitanda að þetta séu meiri háttar framkvæmdir sem framkvæmdaleyfi þurfi til skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um sé að ræða veg um byggðir sem farið hafi í eyði. Ástæða þess að Ófeigsfjarðarvegur sé á vegaskrá sem landsvegur sé sú að ástæða þyki til að halda honum opnum með lágmarksþjónustu í þágu ferðaþjónustu, en ekki vegna virkjanaframkvæmda, sbr. lokamálslið í athugasemdum í frumvarpi með d-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Aðrar sérstakar ástæður fyrir lágmarks­þjónustu og lagalegri skilgreiningu vegar F649 sem landsvegar liggi ekki fyrir. Engin laga­heimild sé fyrir hendi til að breyta eðli vegarins og notkun í aðkomuleið að virkjunarsvæði.

Hin kærða ákvörðun sé haldin fjölmörgum og verulegum efnis- og formannmörkum sem leiða eigi til ógildingar hennar. Jafnframt sé hún haldin smærri frávikum frá málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, skipulagslaga og sveitarstjórnarlaga, sem geti ekki talist smávægileg þegar litið sé heildstætt á málið.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé efnistaka háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar en slíkt leyfi hafi ekki verið gefið út. Ljóst sé af lýsingu framkvæmdarinnar í umsókn að af henni geti ekki orðið nema til komi töluverð efnistaka. Framkvæmdaleyfi til efnistöku þurfi að gefa út til tiltekins tíma. Í því skuli gera grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði. Hafi það ekki verið gert og því sé enginn grundvöllur fyrir efnistöku. Að auki virðist sem ekki sé að öllu leyti uppfyllt sú skylda sveitarfélagsins að leita umsagna Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar.

Verulegir annmarkar séu á undirbúningi ákvörðunarinnar og sé rannsókn málsins því verulega ábótavant. Umsókn um leyfi hafi ekki fylgt tiltekin gögn sem mælt sé fyrir um í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Umsókninni hafi ekki fylgt uppdráttur og greinargerð, sbr. 5. mgr. nefnds reglugerðarákvæðis, og ekki hafi fylgt afstöðumynd í læsilegum mælikvarða sem sýni fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi. Umsókninni hafi heldur ekki fylgt hönnunargögn, þannig að gögn væru nægjanlega skýr til að hægt væri að ganga úr skugga um að kröfur um faglegan undirbúning, öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni framkvæmda væri fullnægt. Þá sé það verulegur annmarki á umsókninni að framkvæmdinni sé ekki lýst betur en raun beri vitni, en m.a. þurfi að lýsa fram­kvæmdinni og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Upplýsingar um aðstæður á framkvæmdasvæði séu af mjög skornum skammti. Standist umsóknin ekki greindar kröfur þegar hafðar séu í huga aðstæður. Loks hafi umsókninni ekki fylgt viðbótargögn sem 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar áskilji. Fylgja skuli m.a. yfirlitsmynd í mælikvarðanum 1:10.000-1:2.000, en yfirlitsmynd sú sem fylgt hafi umsókn sé í kvarða sem sé fjórum sinnum stærri en heimilt sé, eða u.þ.b. 1:40.000.

Líta verði til þess að um veg um eyðibyggðir sé að ræða. Í umsókn komi hvorki fram umfang, þ.e. breidd og hæð, núverandi vegar né fyrirhugaðs vegar. Um þröngan slóða sé að ræða. Hafi leyfisveitanda borið að afla ítarlegra gagna frá leyfishafa um núverandi ástand vegarins og fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem lýst væri á fullnægjandi hátt hvernig leyfishafi hygðist standa að vegagerðinni með tilliti til núverandi hlutverks vegarins samkvæmt vegalögum og stöðu hans í þeim lögum.

Hin kærða ákvörðun hafi ekki verið tekin að undangenginni lögmæltri álitsumleitan hjá Minjastofnun Íslands. Verði ekki úr því bætt nema með nýrri málsmeðferð og ákvörðun. Hafi upplýsingar úr fornminjaskráningu gefið tilefni til að rannsaka mun betur hvaða áhrif hin umbeðna framkvæmd hefði á menningarminjar á svæðinu. Ekki hafi heldur verið leitað umsagna Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefndar sem ekki hafi veitt umsögn um þessa fram­kvæmd við gerð og meðferð skipulagsáætlana er taki til þessa landsvæðis. Ákvörðunin byggi því ekki á lögmætum grunni og sé slíkum annmörkum háð að hana beri að ógilda, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá komi ekki fram að litið hafi verið til annarra laga við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Á umræddu svæði sé ekki í gildi deiliskipulag og því einungis heimilt að veita framkvæmda­leyfið að undangenginni grenndarkynningu. Engin slík kynning hafi farið fram. Kærendum hafi aldrei verið gert kunnugt um fyrirhuguð áform og hafi þeir fyrst frétt af þeim í fjölmiðlum, en þá hafi framkvæmdir verið hafnar. Dvelji kærendur að Eyri á meðan fært sé að íbúðarhúsi þeirra. Eigi undanþága skv. lokamálslið 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga ekki við, enda sé ekki gerð grein fyrir og fjallað ítarlega um framkvæmdina í aðalskipulagi. Í aðalskipulagi sé umrædd veglína einungis teiknuð upp á skipulagsuppdrætti sem „aðrir vegir, til skýringa“. Þá hafi leyfisveitandi ekki leitað umsagnar viðeigandi umsagnaraðila, svo sem undantekningarlaust sé skylt.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sé skylt að taka fundargerðir nefnda fyrir sem sérstök mál og afgreiða með formlegum hætti innihaldi þær ályktanir eða tillögur sem þarfnist staðfestingar sveitarstjórnar, sbr. samhljóða ákvæði 2. mgr. 29. gr. samþykktar um stjórn Árneshrepps sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 9. janúar 2019. Hafi skipulags­nefnd ekki verið framselt vald til að veita framkvæmdaleyfi. Ályktun skipulagsnefndar um málið hafi ekki verið tekin fyrir sem sérstakt mál á fundi hreppsnefndar og varði það ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þar við bætist að bókun hreppsnefndar hafi takmarkast við það að fundargerð skipulagsnefndar væri staðfest. Þá komi hvorki fram í bókun skipulagsnefndar né hreppsnefndar að tekin hafi verið afstaða til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við gildandi skipulag.

Fundur hreppsnefndar hafi ekki verið boðaður með nægilegum fyrirvara lögum samkvæmt og þegar af þeirri ástæðu séu ákvarðanir teknar á fundinum ógildanlegar. Kærendur hafi ekki séð auglýsingu um fundarboð frekar en flestir sem hagsmuna gætu haft að gæta. Ekki hafi verið kynnt í fundarboði að afgreiða ætti ályktun skipulagsnefndar um málið og sé hin kærða ákvörðun þegar af þeirri ástæðu svo verulegum formgöllum háð að ógildingu varði. Hafi dagskrá fundarins ekki gefið til kynna að efni hans væri að fjalla um umsókn um leyfi tengt Hvalárvirkjun á nokkurn hátt, hvað þá vegagerð í Ingólfsfirði. Dagskrárliðurinn hafi ekki uppfyllt lágmarks­kröfur um skýrleika. Hafi boðun fundarins því einnig verið ólögmæt af þessum ástæðum. Jafnframt sé vísað til auglýsingar nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna. Sé ritun fundargerðar skipulags­nefndar í ósamræmi við það hvað skylt sé að lágmarki að bóka í fundargerðir sveitarstjórna og fastanefnda.

Málsrök Árneshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að ekki sé um að ræða þá framkvæmd sem endanleg skýrsla um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar vísi til. Þá hafi verið fallið frá því að setja bráðabirgðaræsi í Eyrará og umfang framkvæmdar með því takmarkað frekar. Varðandi aðild kærenda þá sé bent á að Ófeigsfjarðarvegur liggi um jörðina Seljanes, en framkvæmdir við viðhald vegarins fari fram innan veghelgunarsvæðis. Álitamál sé um aðild landeigenda að kærumálum vegna viðhaldsframkvæmda veghaldara á slíku svæði. Sjónarmiðum um hvað felist í lagalegri skilgreiningu vegarins sé mótmælt en þau hafi enga stoð í gildandi löggjöf. Virðist gert ráð fyrir því að staða vegarins sem landsvegar takmarki með einhverjum hætti heimildir til veghalds. Þannig að staðan feli í sér einhvers konar „vernd eyðibýla“ sem takmarka muni samgöngur til framtíðar. Þessi sjónarmið séu fráleit. Markmið vegalaga sé að stuðla að öruggum og greiðum samgöngum, sbr. 1. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vegakerfinu og veghaldi sé ætlað að þjóna því markmiði og flokkun vega skv. 8. gr. vegalaga sé liður í því. Á einstökum jörðum/fasteignum á svæðinu sé starfrækt ýmiss konar atvinnustarfsemi og eðlilegt að veghald Ófeigsfjarðarvegar tryggi örugga umferð stærri tækja.

Vafi geti leikið á því hvort umdeild framkvæmd teljist háð framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt óformlegri eftirgrennslan hjá Vegagerðinni sé venjulegt viðhald vega almennt ekki talið meiri háttar framkvæmd sem áhrif hafi á umhverfið og þá ekki háð útgáfu framkvæmdaleyfis. Ef viðhaldsframkvæmdir séu umfangsmiklar geti þó verið óskað eftir framkvæmdaleyfi. Í öllu falli séu þetta framkvæmdir sem séu þáttur í veghaldi samkvæmt vegalögum, sbr. einkum 12. gr. laganna, og fari þær fram innan veghelgunarsvæðis. Hvað sem þessu líði hafi verið gengið út frá því af hálfu Árneshrepps að framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld. Varði meintir annmarkar á leyfinu ekki ógildingu þess með vísan til meginreglna stjórnsýsluréttar um ógildingu stjórnvaldsákvarðana. Hvorki séu til staðar verulegir efnis- né formannmarkar á leyfinu.

Hið kærða framkvæmdaleyfi feli í sér nýtingu náma sem gert sé ráð fyrir í aðalskipulagi. Einnig sé m.a. gert ráð fyrir nýtingu námu ES18 í framkvæmdaleyfi sem veitt hafi verið vegna gerðar rannsóknavega Hvalárvirkjunar. Við meðferð þeirrar umsóknar hafi m.a. verið óskað sérstakrar umsagnar náttúruverndarnefndar. Hafi umræddar skipulagsáætlanir farið í gegnum lögbundið umsagnarferli og forsendur legið fyrir til að veita framkvæmdaleyfið með vísan til loka­málsliðar 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það standist ekki skoðun að sérstök framkvæmdaleyfi verði gefin út fyrir einstakar námur heldur geti nýting þeirra verið hluti leyfis. Varði leyfið óverulega efnistöku sem eðli máls samkvæmt komi fram við framkvæmdir og eftirlit. Skilmálar framkvæmdaleyfis varðandi námur taki mið af því að framkvæmdaleyfi varði ekki einungis nýtingu námu.

Að teknu tilliti til eðlis þeirrar framkvæmdar sem um ræði liggi fyrir nægjanleg gögn vegna umsóknarinnar, sbr. 3. mgr. 13. gr. skipulagslaga og ákvæði skipulagsreglugerðar, þ.m.t. gögn sem vísað sé til í framkvæmdaleyfisumsókn. Viðhaldsframkvæmd Ófeigsfjarðarvegar sé á veghelgunarsvæði, en jafnframt sé í umsókninni vísað til samnings Vesturverks ehf. við eiganda Ófeigsfjarðar, en vegurinn liggi um land jarðarinnar, þ.m.t. þar sem gert hafi verið ráð fyrir lagfæringu vegar við Sýrá. Ekki séu forsendur til að draga í efa eignarréttarlegar heimildir til veghaldsins og framkvæmda.

Framkvæmdin sé í samræmi við Aðalskipulag Árneshrepps 2005-2025. Skilyrði hafi verið til útgáfu framkvæmdaleyfisins skv. 4. og 5. mgr. 13. gr., sbr. 44. gr., skipulagslaga. Stofnmarkmið aðalskipulags Árneshrepps sé að unnið verði að virkjun Hvalár. Við breytingu aðalskipulagsins hafi verið fallið frá því að breytingin tæki til endurbóta á Ófeigsfjarðarvegi sem matsskýrsla vegna Hvalárvirkjunar hafi tekið til. Í aðalskipulaginu sé fjallað um Ófeigsfjarðarveg, t.d. á bls. 68 í kafla 5.8.2. Þar segi: „Þá er nauðsynlegt að breyta lélegum slóðum frá Ingólfsfirði, sem hefst við Eyrará, til Ófeigsfjarðar, sem endar við göngubrú yfir Hvalá.“ Með þeirri afmörkun sem gerð hafi verið við málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi þessari umfjöllun ekki verið raskað. Standist það enga skoðun að aðalskipulag takmarki viðhald og lagfæringar veghaldara á Ófeigsfjarðarvegi.

Gert sé ráð fyrir veginum á aðalskipulagi, hann sé landsvegur og hafi veghelgunarsvæði í samræmi við vegalög. Viðhald á veginum í þeirri veglínu sem fram komi í aðalskipulagi og eðli þess minni háttar viðhalds sem gerð sé grein fyrir í framkvæmdaleyfi feli án nokkurs vafa í sér að falla megi frá grenndarkynningu. Bæði vegna þess að gerð sé grein fyrir framkvæmdinni og ítarlega um hana fjallað í aðalskipulagi, sbr. lokamálslið 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og vegna þess að einfaldar viðhaldsframkvæmdir innan veghelgunar­svæðis leiði ekki til þess að nágrannar eigi hagsmuna að gæta í skilningi 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Sinni Vegagerðin oft sambærilegu vegviðhaldi og heimilað sé í hinu umdeilda leyfi, þ.e. innan 6 m frá miðlínu. Oft sé það án framkvæmdaleyfis og ekki séu þekkt dæmi um að slíkar framkvæmdir fari í grenndarkynningu. Á sama grundvelli sé ljóst að kærendur eigi engra hagsmuna að gæta varðandi þær breytingar sem verði á vegi við Sýrá. Þar sé um að ræða óverulega breytingu á veglínu og falli hún innan vegsvæðis eins og það sé greinanlegt á aðalskipulagsuppdráttum, sbr. sveitarfélagsuppdrátt í mælikvarðanum 1:50.000.

Ágallar á því hvort gætt hafi verið að ákvæðum laga nr. 80/2012 um menningarminjar varði ekki ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar. Hvíli afgreiðsla hreppsnefndar sem og útgáfa framkvæmdaleyfisins á þeim upplýsingum er fram hafi komið í umsókn um framkvæmdaleyfi. Jafnframt hafi sveitarfélagið haft gögn varðandi fornleifaskráningu og staðsetningu fornleifa við Ófeigsfjarðarveg. Ekki sé fyrirsjáanlegt að minjastaðir spillist vegna framkvæmdanna í ljósi upplýsinga sem fyrir liggi um fornleifaskráningu, skýrra ákvæða um merkingu fornleifa í umsókninni, legu Ófeigsfjarðar og eðlis þess viðhalds sem umsóknina varði. Þar sem vegur liggi þegar nærri fornleifum taki friðhelgin mið af stöðu vegarins. Við útgáfu leyfisins hafi því ekki verið kallað eftir umsögn Minjastofnunar en hún hins vegar síðar haft aðkomu að málinu. Geri ákvæði 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga ráð fyrir að skipulagsfulltrúi geti brugðist við sjónarmiðum stofnunarinnar varðandi framkvæmd án þess að ákvörðun sveitar­stjórnar verði ógilt. Í ljósi gagna og framkvæmdalýsingar sé alls ekki skýrt að lögbundin álitsumleitan Minjastofnunar hafi verið sniðgengin. Ætla megi að upplýsingar um fornminjar, þekking framkvæmdaraðila á þeim þáttum og lýsing á þeim í umsókn sé með besta móti miðað við þau tilvik þar sem veghaldari hyggi á einfalt viðhald vegar. Erfitt sé að sjá hvaða frekari skilyrði verði sett fyrir framkvæmdinni en þau er felist í skilmálum leyfisins. Þá verði ekki séð að ákvæði 7.-9. mgr. 13. gr. skipulagslaga geti átt við.

Samþykkt umsóknarinnar og útgáfa framkvæmdaleyfisins, sem og samskipti vegna þess, hvíli á 13. gr. skipulagslaga og ekki séu forsendur til að raska gildi þeirrar ákvörðunar. Með vísan til fundargerða skipulagsnefndar og hreppsnefndar sé ekki nokkrum vafa undirorpið að fallist hafi verið á framkvæmdaleyfisumsókn. Málefni leyfisins hafi verið sérstaklega tilgreind í fundar­gerð hreppsnefndar. Athugasemdir kærenda varði að öðru leyti ekki atriði sem leitt geti til ógildingar. Að hluta til varði þær málefni tengd fundarréttindum kjörinna fulltrúa og langsótt að kærendur geti borið slíkar málsástæður fyrir sig. Athugasemdir varðandi m.a. fundarritun og fyrirkomulag bókana varði bætta stjórnsýsluframkvæmd. Óheppilegt sé að dregist hafi að birta dagskrár hreppsnefndarfundar á heimasíðu sveitarfélagsins en hún hafi verið birt með rúmlega sólarhrings fyrirvara.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum kærenda verði hafnað.

Kærendur eigi ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun og geti því ekki átt aðild að málinu fyrir úrskurðarnefndinni. Sé því hafnað að eignarhald kærenda á jörðinni Seljanesi, á íbúðarhúsi við Eyri í Ingólfsfirði og á hluta í gömlu verksmiðjunni þar, leiði til þess að litið verði svo á að þeir teljist eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá sé úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 43/2018 bindandi og skýrt fordæmi þegar lagt sé mat á það hvort kærendur njóti kæruaðildar vegna lagfæringar á veginum. Kærendur að Seljanesi séu sex af tuttugu eigendum jarðarinnar Seljaness. Hver þeirra eigi 1,7857% í jörðinni og samtals eigi þeir því 10,7142%. Hagsmunir þeirra séu því einnig óverulegir í þeim skilningi óháð öðru. Verði fallist á að þeir kærendur eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins geti hagsmunir þeirra eingöngu tekið til lagfæringar vegarins sem liggi um land þeirra í allra nánasta umhverfi en ekki til framkvæmdarinnar í heild. Geti kröfur kærenda að Eyri einnig aðeins átt við þann hluta leyfisins sem varði framkvæmdir á þeim hluta vegarins innan jarðarinnar Eyrar sem næstur sé lóð íbúðarhúss kærenda og þann hluta sem liggi í gegnum verksmiðjulóðina að Eyri. Þá hafi ekki verið lögð fram fullnægjandi umboð í máli nr. 64/2019 og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa því máli frá.

Samkvæmt efni sínu veiti hið kærða leyfi eingöngu heimild til lagfæringa á Ófeigsfjarðarvegi. Hvorki sé um nýframkvæmd að ræða né sé verið að breyta gerð vegarins þannig að hann verði eftir lagfæringarnar með öðrum hætti en hann sé í dag. Ekki sé því um nein óafturkræf sjónræn áhrif að ræða. Um sé að ræða óverulegar lagfæringar til að ljúka megi rannsóknum vegna Hvalárvirkjunar. Í verkinu felist venjubundið viðhald og lagfæring rása í vegköntum, auk þess sem efni verði borið í núverandi vegstæði þar sem ástandið sé hvað verst. Framkvæmdir séu að öllu leyti í núverandi vegstæði að undanskildum 100 m kafla við Sýrá í Ófeigsfirði. Séu framkvæmdir afmarkaðar innan veghelgunarsvæðis núverandi vegstæðis.

Framkvæmdum á grundvelli leyfisins í nágrenni við eignir kærenda að Eyri sé raunar lokið. Ekki hafi verið hreyft við veginum frá Melum í Norðurfirði að Eyri nema lagfærð hafi verið vatnsrás í beygjunni fyrir ofan hús kærenda. Engin þörf hafi verið á að lagfæra veginn í gegnum verksmiðjulóðina að Eyri og því hafi ekki verið ráðist í neinar framkvæmdir þar. Næstu lagfæringar verði eftir lóðarmörk verksmiðjunnar á Eyri, í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá verksmiðjunni, og vegurinn lagfærður að landi Seljaness. Á veginum í gegnum Seljanes þurfi að lagfæra vatnsrásir, færa veginn frá svokölluðu „Bergi“ með því að breikka veginn í beygjunni þar um u.þ.b. 2 m fram í sjó og lagfæra og mýkja beygju fyrir Seljanesið, ásamt því að setja niður ný ræsi. Í umsókn um framkvæmdaleyfi komi fram að áhersla sé lögð á að halda framkvæmdum í lágmarki og lagfæra rask samhliða þeim. Grenndargróður verði nýttur þar sem við eigi, gætt verði að ákvæðum náttúruverndarlaga og vistgerðum með hátt eða mjög hátt verndargildi verði ekki raskað. Engin grenndaráhrif séu af framkvæmdum á grundvelli hins kærða leyfis í kringum eignir kærenda á Eyri, þ.e. hvorki við lóðir þeirra né á þeim. Sjónræn áhrif framkvæmda lengra í burtu séu engin og eigi kærendur enga lögvarða hagsmuni af þeim. Gildi hið sama um kærendur sem eigi hluta Seljaness. Séu hagsmunir kærenda ekki nægjanlegir til þess að þeir teljist vera einstaklegir og lögvarðir og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Til stuðnings kröfunni sé jafnframt vísað til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála í málum nr. 124/2019 og nr. 128/2019 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að íbúar sem byggju í um 100 m fjarlægð frá fyrirhugaðri byggingu væru ekki taldir eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn máls, m.a. vegna fjarlægðar húsa frá skipulagssvæðinu. Eigi sömu rök við í máli kærenda, enda verði engin breyting á veginum við Eyri eða verksmiðjuna og hús og lóðir kærenda séu í mun meiri fjarlægð frá meginþorra hinna kærðu framkvæmda en verið hafi í áður­greindum málum. Einnig verði lítil sem engin breyting á veginum í gegnum Seljanes. Muni framkvæmdir þar heldur ekki leiða til aukinnar umferðar enda eingöngu hugsaðar til þess að mögulegt verði að koma nauðsynlegum rannsóknartækjum að rannsóknarsvæðum í Ófeigsfirði. Einnig sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 19/2009 þar sem talið hafi verið að hagsmunir íbúa sem búið hafi í 1,6 km fjarlægð frá fyrirhuguðu vegstæði gætu ekki talist einstaklegir eða lögvarðir. Þá hafi úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu til sömu sjónarmiða og málsástæðna í máli nr. 43/2018. Hafi hvorki verið talið að kæruaðild kæranda yrði byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum. Styrkari stoðum hafi verið skotið undir niðurstöðu máls nr. 43/2018 með úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 9. september 2019, þar sem staðfest hafi verið að umræddur Ófeigsfjarðarvegur nr. 649 væri landsvegur og þar með á forræði Vegagerðarinnar skv. 1. mgr. 13. gr. vegalaga, sem og að upptaka vegarins í tölu þjóðvega hafi verið í samræmi við gildandi málsmeðferð. Með hliðsjón af úrskurðinum liggi fyrir að viðhald á Ófeigsfjarðarvegi og á veghelgunarsvæði hans byggi á skýrri lagaheimild. Skýrt sé þannig að kærendur eigi ekki kæruaðild byggða á eignarrétti, þ.e. á þeim forsendum að viðhald Ófeigsfjarðarvegar og á veghelgunarsvæði hans sé í landi kærenda. Þá sé jafnframt skýrt, samkvæmt framangreindum úrskurðum, að kærendur eigi ekki kæruheimild byggða á grenndar­sjónarmiðum. Einnig sé bent á að kærendur séu ekki eigendur jarðarinnar Eyrar í Ingólfsfirði heldur Árneshreppur. Ef játa eigi fasteignareigendum aðild með jafn takmarkaða hagsmuni og kærendur liggi fyrir að sérhver fasteignareigandi eigi þar með kæruaðild að málum sem lúti að venjubundnu viðhaldi Vegagerðarinnar eða eftir atvikum sveitarfélaga. Þá sé vísað til sjónar­miða í dómi héraðsdóms, sem staðfestur hafi verið með dómi Landsréttar í máli nr. 54/2020.

Krafa um höfnun á kröfum kærenda sé byggð á sömu sjónarmiðum. Kærendur eigi ekki það land sem hinar fyrirhuguðu framkvæmdir taki til heldur sé um að ræða vegstæði sem sé hluti þjóðvegakerfisins og á forræði Vegagerðarinnar. Kærendur eigi aðeins afmarkað land í kringum íbúðarhúsið Eyri 2 og lóð verksmiðjunnar.

Því sé mótmælt að ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfisins sé haldin verulegum form- eða efnisannmörkum. Jafnframt sé því andmælt að um meiri háttar framkvæmd sé að ræða. Þrátt fyrir að leyfishafi hafi talið að framkvæmdin væri ekki framkvæmdaleyfisskyld hafi verið sótt um leyfi til að gæta að vandaðri og gagnsærri stjórnsýslu í málinu, auk þess sem umsóknin hafi byggst á samningsskuldbindingu samkvæmt samningi leyfishafa við Vegagerðina.

Því sé hafnað að skilyrði séu til að ógilda framkvæmdaleyfið þar sem ekki hafi verið leitað álits Minjastofnunar Íslands. Með umsókn hafi legið til grundvallar ítarlegar upplýsingar þar sem m.a. hafi verið gerð grein fyrir menningarminjum í nágrenni Ófeigsfjarðarvegar, sbr. m.a. skýrslu þar um frá desember 2017. Leyfishafi hafi einnig upplýst Minjastofnun um eðli hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar og orðið við öllum ábendingum og/eða kröfum sem settar hafi verið fram af hálfu stofnunarinnar. Hafi einhver vafi verið um hvort menningarminjum stafaði hætta af framkvæmdunum eða hvort leitað hafi verið umsagnar Minjastofnunar þá hafi a.m.k. verið bætt úr því nú. Í umsögn stofnunarinnar komi fram að hún leggist ekki gegn framkvæmdinni að því gefnu að búið sé að merkja og girða minjastaði sem liggi nálægt núverandi vegstæði Ófeigsfjarðarvegar. Hafi það verið gert við framkvæmdirnar síðastliðið sumar og farið verði yfir umræddar girðingar og merkingar áður en framkvæmdir hefjist að nýju.

Því sé hafnað að umsókn um leyfi hafi verið ófullnægjandi og/eða hafi ekki uppfyllt áskilnað 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Sýni afgreiðsla Árneshrepps með glöggum hætti hvaða gögn hafi legið til grundvallar við afgreiðslu málsins. Það sé því rangt að verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar eða að gögn hafi skort.

Umrædd framkvæmd sé ekki deiliskipulagsskyld, enda um viðhaldsframkvæmd að ræða. Engin lagastoð eða fordæmi séu fyrir því að ráðast þurfi í gerð deiliskipulags vegna slíkrar framkvæmdar sem hér um ræði. Mótmælt sé þeirri fullyrðingu að tilgreining Ófeigsfjarðarvegar í aðalskipulagi sé ófullnægjandi og að ekki hafi verið skilyrði til að sleppa grenndarkynningu. Komi vegurinn með skýrum hætti fram í aðalskipulagi Árneshrepps. Hafi því ekki verið þörf á grenndarkynningu sé litið til eðlis framkvæmdar, umfangs og grenndaráhrifa.

Umfjöllun kærenda um skort á framkvæmdaleyfi vegna efnistöku sé röng en í útgefnu framkvæmdaleyfi sé tekið fram hvar efnistaka verði. Hafi úrskurðarnefndin verið upplýst um að notast yrði við námuna við Urðir og gert ráð fyrir að sumarið 2019 yrðu teknir þar um 3.500 rúmmetrar af efni. Fyrir liggi minnisblað frá Vegagerðinni þar sem ekki séu gerðar athugasemdir við það hvernig staðið hafi verið að þeim framkvæmdum sem ráðist hafi verið í.

Auk alls framangreinds sé bent á að þegar kærendur hafi keypt lóðina að Eyri 2 hafi sérstaklega verið samið um umferðarrétt þungavinnuvéla um lóð kærenda vegna fyrirhugaðrar Hvalár­virkjunar. Umrætt samkomulag sé þinglýst og séu kærendur bundnir af þeirri kvöð sem hafi verið ein af forsendum samkomulagsins.

—–

Í máli þessu hefur Skipulagsstofnun skilað umsögn, dags. 16. ágúst 2019. Kemur þar fram það mat stofnunar­innar að ekki sé í umsókn um leyfi gerð nægileg grein fyrir umfangi þeirra fram­kvæmda sem sótt sé um leyfi fyrir. Jafnframt kemur fram í umsögninni að framkvæmdaleyfi fyrir vega­framkvæmd, sem feli í sér breytingu á veglínu, hækkun vegar og breikkun úr 4 m í allt að 12 m með skeringum og/eða landfyllingum og nýjar brýr eða ræsi til að þvera ár, þurfi að byggja á skipulagi. Ekki sé gert ráð fyrir slíkum framkvæmdum á Ófeigsfjarðarvegi í gildandi aðalskipulagi.

—–

Kærendur árétta í viðbótarathugasemdum sínum að þeir eigi augljósa eignarréttarlega hagsmuni og grenndarhagsmuni af úrlausn málsins og benda á að almennt verði að gæta varfærni við að vísa málum frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 171/2004 og í máli nr. 137/2012. Einnig hafi úrskurðarnefndin talið að varlega yrði að fara í að útiloka lögvarða hagsmuni kærenda í m.a. úrskurði nefndarinnar í máli nr. 83/2018. Mörg dæmi séu um það úr dóma­framkvæmd að huglæg upplifun eins og nautn útsýnis, sjónmengun og óeðlileg umferð njóti verndar. Í óáfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-4226/2015 hafi verið viðurkennd aðild hluta stefnenda á grundvelli nábýlisréttar. Þá hafi mörg mál komið til kasta Hæstaréttar Danmerkur þar sem nábýlis- og grenndarréttur hafi verið viðurkenndur. Megi þar nefna Ufr. 1985:1515, Ufr. 1996:540 og Ufr. 1995:466. Fordæmisgildi úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 19/2009 og nr. 43/2018 sé hafnað. Því sé alfarið hafnað að um venjubundið viðhald sé að ræða í máli þessu. Öll atvik sýni að hér sé um að ræða hluta af undirbúningi fyrir hugsanlega virkjun. Úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 124/2019 og nr. 128/2019 sem leyfishafi vísi til eigi ekki við en málin séu fráleitt sambærileg máli kærenda. Þá hafi tilvísun í úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 9. september 2019 ekki þýðingu varðandi kæruefni þetta.

Í viðbótarathugasemdum Árneshrepps er bent á að það sé grundvallaratriði að fjalla þurfi um stöðu viðhalds­framkvæmda Ófeigsfjarðarvegar óháð mögulegri Hvalárvirkjun, og þar með mati á umhverfis­áhrifum virkjunarinnar og tengdrar framkvæmdar um heildaruppbyggingu Ófeigsfjarðarvegar. Þetta grundvallaratriði eigi við jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um að viðhaldsframkvæmdir vegarins tengist framkvæmd rannsókna vegna mögulegrar Hvalárvirkjunar. Sýnt sé að Minja­stofnun hafi byggt fyrstu viðbrögð sín á ákveðnum misskilningi um þessa stöðu auk þess sem umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 16. ágúst 2019, hafi ekki gert skýran greinarmun þar á. Efnistöku úr námu í Urðum sé lokið en heildarnýting efnis þaðan hafi verið 342 rúmmetrar. Veitt hafi verið framkvæmdaleyfi til nýtingar námu í Ingólfsfirði í ágúst 2019 og feli það í sér heimild til töku á allt að 3.500 rúmmetrum af malarefni. Nýting þeirrar námu komi í stað Urða, en það fyrirkomulag sé m.a. heppilegt vegna sjónarmiða sem komið hafi fram hjá Minja­stofnun um að takmarka þurfi umferð vegavinnutækja við gömul verksmiðjumannvirki á lóðum við Eyri. Ljósmyndir frá framkvæmdum í Ingólfsfirði staðfesti að um sé að ræða takmarkaðar framkvæmdir, þ.e. að vegur verði ekki hækkaður frá fyrri hæð, en ofaníburður notaður til að jafna hæð og breidd á afmörkuðum svæðum.

Aðilar máls þessa hafa skilað inn frekari athugasemdum og röksemdum til áréttingar máli sínu sem ekki verða rakin frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Að lögum eru almennt ekki gerðar formkröfur til umboða, s.s. um að þau séu vottuð, þegar þriðji maður kemur fram fyrir hönd málsaðila í stjórnsýslumáli. Í máli þessu liggja fyrir skrifleg umboð kærenda til tilgreinds aðila til að koma fram fyrir þeirra hönd í kærumáli þessu og hefur úrskurðarnefndin gengið úr skugga um uppruna þeirra og efni. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum að fullnægjandi umboð skorti, svo sem leyfishafi hefur farið fram á.

Samkvæmt vegaskrá Vegagerðarinnar liggur Ófeigsfjarðarvegur af Strandavegi hjá Melum í Árneshreppi, um Eyri í Ingólfsfirði, fyrir Ingólfsfjörð, um Seljanes og að Hvalá í Ófeigsfirði. Veganúmer hans er F649, en að Eyri 649. Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi vegarins á 16 km kafla ofan Eyrar við Ingólfsfjörð að Hvalá í Ófeigsfirði. Leyfið heimilar viðhald vegarins á allt að 6 m svæði beggja vegna hans frá miðlínu. Að kæru í máli þessu standa annars vegar eigendur tveggja lóða úr jörðinni Eyri. Á annarri lóðinni stendur gamalt verksmiðjuhús og liggur Ófeigsfjarðarvegur þar í gegnum, en á hinni lóðinni er íbúðarhús sem kærendur segjast nýta þegar þangað sé fært. Hins vegar er um að ræða hluta eigenda Seljaness, en vegurinn liggur um þá jörð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt verður að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að lögvarða hagsmuni skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni viðkomandi að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Ófeigsfjarðarvegur telst til landsvega skv. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007 frá Eyri í Ingólfsfirði að Hvalá í Ófeigsfirði. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna skiptast þjóðvegir í stofnvegi, héraðsvegi, tengivegi og landsvegi, en fram kemur í d-lið ákvæðisins að landsvegir séu vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki tilheyri hinum þremur vegflokkunum og aflagðir byggðavegir á eyðilendum. Á vegum þessum skal einungis gera ráð fyrir árstíðabundinni umferð og minna eftirliti og minni þjónustu en á öðrum þjóðvegum.

Eigendur hluta Seljaness vísa til þess að umræddur vegur liggi afar nærri íbúðarhúsum og búsetu- og atvinnuminjum á jörðinni auk þess sem þeir hafi ekki afsalað sér landi undir vegstæði sem taki til 12 m breiðs framkvæmdasvæðis. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var kveðinn upp úrskurður í samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneytinu 9. september 2019 þar sem staðfest var sú ákvörðun Vegagerðarinnar að Ófeigsfjarðarvegur væri þjóðvegur og að Vegagerðin væri veghaldari hans. Féllst ráðuneytið og á að vegsvæði teldist hluti vegar og væri það svæði sem nauðsynlegt væri til að unnt væri að sinna veghaldi. Gerði ráðuneytið ekki athugasemd við þá túlkun Vegagerðarinnar að vegsvæðið teldist ná allt að 6 m til beggja handa frá miðlínu vegarins og af því leiddi að veghaldara væri heimil vinna við viðhald innan þess svæðis, enda fæli það á engan hátt í sér að unnt væri að líta svo á að um væri að ræða ráðstöfun á landspildu, eins og kærendur hefðu haldið fram. Loks taldi ráðuneytið samning Vegagerðarinnar við Vesturverk ehf. um tímabundið veghald Ófeigsfjarðar­vegar vera í samræmi við heimild þess fyrrnefnda til framsals veghalds skv. 2. mgr. 14. gr. vegalaga. Kærendurnir hafa ekki gert annan reka að því að fá eignarrétt sinn viður­kenndan að vegsvæðinu, t.a.m. fyrir dómstólum, og er ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að leysa úr slíkum eignarréttarlegum ágreiningi. Í ljósi framangreinds verður nefndum kærendum ekki játuð aðild að kærumáli þessu á grundvelli beins eignarréttar.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vegalaga eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og breytist það eðli Ófeigsfjarðarvegar ekki við viðhaldsframkvæmdir þær sem leyfðar hafa verið. Þá er hið kærða framkvæmdaleyfi veitt til viðhalds innan vegsvæðis þess vegar sem fyrir er. Þótt það viðhald kunni að leiða til einhverra breytinga á ásýnd vegarins þá verður ekki talið að útsýni fyrrgreindra kærenda muni með því skerðast eða að með því verði gengið á grenndarhagsmuni þeirra að öðru leyti. Kemur ekki heldur til greina að játa kæruaðild á þeim grundvelli að kærendur kunni að verða fyrir ónæði vegna umferðar. Þrátt fyrir að um fáfarinn þjóðveg sé að ræða sem eftir viðhald verður notaður sem aðkomuleið að rannsóknarsvæði verður ekki séð að umferð og það ónæði sem af henni kann að hljótast muni aukast að því marki að lögvarðir hagsmunir kærenda af því að svo verði ekki geti talist verulegir í skilningi stjórnsýsluréttar. Kærendur hafa jafnframt vísað til þess að búsetu- og atvinnuminjum stafi hætta af framkvæmdunum. Slíkir hagsmunir eru jafnan almannahagsmunir sem kærendur geta ekki borið fyrir sig, en það er þó ekki útilokað í máli þessu þar sem kærendur kveðast stunda menningartengda ferðaþjónustu á jörðinni. Til þess er þó að líta að þótt að í umsögn Minjastofnunar, dags. 17. júlí 2019, sé tekið fram að meðfram Ófeigsfjarðarvegi sé fjöldi minjastaða í innan við 15 m fjarlægð þá er jafnframt tekið fram um Seljanes að þar séu skráð varða og rétt sem hvorugt teljist í hættu vegna framkvæmda við núverandi veg. Er því ekki hægt að fallast á að hagsmunir kærenda séu svo verulegir að þeir teljist lögvarðir í skilningi stjórnsýsluréttar, sbr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Þar sem kæruaðild kærenda sem eiga hlut í Seljanesi verður hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum verður kröfum þeirra vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hvað aðra kærendur varðar verður ekki litið hjá því að með hinu kærða framkvæmdaleyfi er heimilað viðhald á vegi sem, eins og fyrr greinir, liggur í gegnum verksmiðjuhús að Eyri sem er m.a. í þeirra eigu. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að útiloka að heimilaðar framkvæmdir geti haft áhrif á hagsmuni þeirra kærenda. Telur úrskurðarnefndin, eins og atvikum er hér háttað, að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi leyfisins, sem heimilar m.a. viðhald á þeim hluta vegarins sem liggur í gegnum eign kærenda. Í því sambandi skipta ekki máli eftirfarandi atvik, s.s. hvort framkvæma hafi þurft viðhald á umræddum vegspotta eða hvort framkvæmdum sé lokið á umræddu svæði. Þá er vegna fyrrgreindra staðhátta ekki unnt að líta svo á að atvik máls þessa séu sambærileg atvikum í þeim málum sem leyfishafi vísar í máli sínu til stuðnings. Verða þeir kærendur því taldir eiga einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í kærumáli þessu. Loks þykir ekki tækt að telja þá eingöngu eiga aðild að máli til ógildingar hluta leyfisins, s.s. leyfishafi fer fram á með vísan til meðalhófs. Verður kröfum þeirra kærenda því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Fram kemur í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Hefur hreppsnefnd Árneshrepps metið það svo að hin umdeilda framkvæmd sé framkvæmdaleyfisskyld og verður í kærumáli þessu því tekin afstaða til þess hvort hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi að lögum verið áfátt að formi til eða efni. Hvort framkvæmt hafi verið umfram það sem leyft var er hins vegar ekki til umfjöllunar í máli þessu. Sætir framkvæmdin enda eftirliti af hálfu sveitarstjórnar skv. 1. og 2. mgr. 16. skipulagslaga og er heimildir til beitingar þvingunarúrræða að finna í X. kafla laganna. Ákvörðun um að beita eða synja um að beita slíkum úrræðum hefur hins vegar ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Kærendur hafa gert ýmsar athugasemdir viðvíkjandi málsmeðferð hins kærða framkvæmda­leyfis og telja henni áfátt hvort sem litið sé til sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 eða skipulags­laga.

Mælt er fyrir um boðun og auglýsingu funda í 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Skal fundarboð berast sveitarstjórnarmönnum eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund en einnig skal sveitarstjórn birta opinberlega innan sömu tímafresta fundarboð og dagskrá, enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi. Sama ákvæði tiltekur að auglýsing á vefsíðu sveitarfélags teljist fullnægjandi. Eru gerðar sömu kröfur um fresti og boðun funda fyrir íbúa sveitarfélags í 11. gr. samþykktar nr. 1320/2018 um stjórn Árneshrepps. Óumdeilt er að auglýsing um fund hreppsnefndar 12. júní 2019 var birt á vefsíðu Árneshrepps deginum áður og því ekki innan tilskilinna tímamarka. Þá er í 10. gr. samþykktar nr. 1320/2018 tekið fram að á dagskrá hreppsnefndarfundar skuli taka fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, svo og ályktanir og tillögur sem fram komi í þeim fundargerðum og þarfnist staðfestingar hreppsnefndar, og skuli tilgreina þær sérstaklega í dagskrá. Það var hins vegar ekki gert og einskorðaðist tilvísun dagskrár með boðuninni að þessu leyti til svohljóðandi dagskrárliðar 6: „Fundargerð skipulagsfundar lögð fram til umræðu og afgreiðslu hreppsnefndar.“ Í 41. gr. sveitarstjórnarlaga er jafnframt kveðið á um að ef fundargerðir nefnda innihalda ályktanir eða tillögur sem þarfnist staðfestingar byggðarráðs eða sveitarstjórnar beri að taka viðkomandi ályktanir og tillögur fyrir sem sérstök mál og afgreiða þau með formlegum hætti. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 7. gr. auglýsingar nr. 22/2013 um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 17. janúar 2013, að ályktanir eða samþykktir í fundargerðum nefnda sem þarfnist staðfestingar sveitarstjórnar skuli færa sérstaklega í fundargerð. Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu tók skipulagsnefnd umsókn um hið kærða leyfi fyrir á fundi 6. júní 2019 og gerði ekki athugasemd við umsóknina með fyrirvara um samning leyfishafa við Vegagerðina. Á fundi hreppsnefndar 12. s.m. voru fundar­gerðir skipulagsnefndar frá 6. og 11. s.m. lagðar fram til umræðu og afgreiðslu undir sérstökum dagskrárlið, án þess að tilgreint væri frekar að fundargerðirnar innihéldu ályktanir eða tillögur sem þörfnuðust staðfestingar hreppsnefndar.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir ljóst að ekki hafi verið farið í einu og öllu að fyrirmælum sveitarstjórnarlaga, samþykktar um stjórn Árneshrepps og leiðbeiningum um ritun fundargerða sveitarstjórna. Við mat á því hvort þeir annmarkar eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu leyfisveitingar verður að líta til markmiðs þeirra ákvæða sem um ræðir. Í III. kafla sveitarstjórnarlaga er fjallað um sveitarstjórnarfundi, m.a. boðun þeirra og auglýsingu, ályktunarhæfi og atkvæðagreiðslu, svo og fundarstjórn og fundargerðir. Er tekið fram í athugasemdum með nefndum kafla í frumvarpi því sem varð að sveitarstjórnarlögum að nauðsynlegt sé að kveða á um lágmarksreglur um fundarsköp, m.a. til að tryggja rétt einstakra sveitarstjórnarmanna til að geta með fullnægjandi hætti sinnt því starfi sem þeir eru kjörnir til. Þá kemur fram í athugasemdum með 19. gr. að fundargerðir séu mikilvægt sönnunargagn um það sem fram hafi farið á fundi og verði þær að innihalda mikilvægustu upplýsingar svo sem hverjir tóku þátt, lyktir atkvæða, niðurstöður mála o.s.frv.

Á fund hreppsnefndar 12. júní 2019 mættu allir þeir sem í henni eiga sæti og greiddu atkvæði einum rómi með veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis. Bókað var um dagskrárliðinn sem tók til fundargerða skipulagsnefndar að á fundi nefndarinnar 6. júní 2019 hefðu verið tekin fyrir fjögur atriði og var áfram bókað um atriði 2 að óskað væri eftir framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar, skipulagsnefnd hefði samþykkt framkvæmdaleyfið með vísan til 13. gr. skipulagslaga og óskað eftir því að skipulagsfulltrúi auglýsti leyfið þegar samningur lægi fyrir við Vegagerðina. Loks var bókað að fundargerð skipulagsnefndar væri samþykkt. Verður að telja að með greindri afgreiðslu hreppsnefndar hafi legið fyrir afstaða hennar til leyfis­veitingarinnar þótt nokkuð hafi skort á hvernig sá vilji var færður til bókar. Með vísan til alls framan­greinds verða greindir ágallar hvað varðar boðun, dagskrá og fundargerð hreppsnefndar því ekki látnir leiða til ógildingar hins kærða framkvæmdaleyfis.

Í fyrrnefndri 13. gr. skipulagslaga, sem fjallar um framkvæmdaleyfi, er nánar kveðið á um gerð og undirbúning slíkra leyfa. Kemur fram í 3. mgr. lagagreinarinnar að sá sem óski framkvæmda­leyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð. Eru þau gögn talin upp í 1.-6. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 7. gr. skal fylgja umsókn afstöðumynd, hnitsett í mælikvarða 1:2.000 – 1:500 eða í öðrum læsilegum mælikvarða sem sýnir fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og að landi, t.d. mannvirki sem fyrir eru á svæðinu. Í 2. tl. 2. mgr. 7. gr. kemur fram að umsókn skuli fylgja hönnunargögn, eftir því sem við á, sem séu nauðsynleg til að framkvæma eftir. Skuli gögnin vera nægjanlega skýr til að hægt sé að ganga úr skugga um að kröfur um faglegan undirbúning, öryggi, endingu, útlit og hagkvæmni hlutaðeigandi framkvæmda sé fullnægt. Þá er tekið fram í 3. tl. 2. mgr. 7. gr. að skila þurfi lýsingu á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum. Jafnframt skuli tilgreina framkvæmdatíma, hvernig fyrirhugað sé að standa að framkvæmdinni og fleira sem máli skipti.

Við meðferð málsins var lögð fram skrifleg umsókn um leyfi þar sem því var m.a. lýst að einungis væri um viðhald vegarins að ræða nema á um 100 m kafla við Sýrá. Almennt væri ekki gert ráð fyrir að bæta veginn þar sem hann þveraði ár, fyrir utan ný ræsi í Sýrá og Seljadalsá. Einnig voru áform um að setja ræsi í Eyrará til bráðabirgða en fallið var frá því. Allar framkvæmdir yrðu í innan við 6 m fjarlægð frá miðlínu vegar til hvorrar hliðar. Efni til viðhaldsframkvæmdanna yrði sótt í Urðirnar og í námu ES18 við Hvalá. Sérstök áhersla yrði lögð á að halda framkvæmdum í algjöru lágmarki og skráðum fornleifum hlíft eins og kostur væri. Þá kom fram að áætlað væri að ljúka við nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings Hvalárvirkjunar fyrir næsta vetur. Umsókninni fylgdi annars vegar yfirlitsmynd þar sem Ófeigsfjarðarvegur er sýndur og m.a. mörkuð lína vegna viðhalds vegarins og hins vegar yfirlitsmynd þar sem sýndar eru fyrirhugaðar breytingar á veginum við Sýrá í Ófeigsfirði. Að auki fylgdu umsókninni aðalskipulagsuppdráttur, matsskýrsla fyrir Hvalárvirkjun ásamt viðaukum, álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, rannsóknarleyfi Orkustofnunar fyrir Hvalár­virkjun, samningur umsækjanda við eigendur Ófeigsfjarðar um nýtingu vatnsréttinda og samningur Vegagerðarinnar og umsækjanda um tímabundið veghald Ófeigsfjarðarvegar. Ekki er að sjá að önnur gögn, t.d. upplýsingar um stærð og gerð fyrirhugaðra ræsa, hafi fylgt um­sókninni, svo sem æskilegt hefði verið. Sé litið til eðlis hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, svo sem henni er lýst í umsókn, og til meðfylgjandi gagna verður þó að líta svo á að fyrir hrepps­nefnd hafi legið þær upplýsingar og nauðsynleg gögn í skilningi 13. gr. skipulagslaga sem framkvæma mætti eftir, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Má enda ljóst vera af framangreindri lýsingu að ekki er um svo meiri háttar framkvæmd að ræða, eins og fram hefur verið haldið. Er og áréttað í útgefnu framkvæmdaleyfi að einungis sé um viðhald að ræða en ekki endurbyggingu eða breytingu að frátöldum 100 m kafla við Sýrá sem hefur þann tilgang að hlífa skráðum fornleifum. Þá er, eins og áður segir, ekki umfjöllunarefni í máli þessu hvort framkvæmt hafi verið umfram það sem leyft hefur verið.

Ekki er í gildi deiliskipulag á umræddu svæði. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er að finna heimild til útgáfu framkvæmdaleyfis án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmd er í samræmi við aðal­skipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laganna er heimilt að falla frá grenndar­kynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Svo sem fyrr er rakið liggur Ófeigsfjarðarvegur í gegnum fasteign kærenda og geta því framkvæmdir á veginum haft áhrif á hagsmuni þeirra. Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess að túlka ber undantekningarákvæði þröngt þykir ekki hafa verið sýnt fram á að framkvæmdin varði aðeins hagsmuni Árneshrepps og leyfishafa. Undantekningarákvæði 2. málsl. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga á því ekki við í máli þessu.

Hins vegar er einnig mælt fyrir um í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga að þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Er og tiltekið í lokamálslið 5. mgr. 13. gr. að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánar er kveðið á um í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi að heimilt sé að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags sé þar gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað á ítarlegan hátt um umfang, frágang, áhrif hennar á umhverfið og annað sem við eigi.

Í Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025 er veglína Ófeigsfjarðarvegar sýnd á uppdráttum. Er tekið fram í aðalskipulaginu að stofnmarkmið vegna samgagna sé að vegur norður í Ófeigsfjörð verði byggður upp í sömu veglínu og núverandi slóði liggur. Í umfjöllun um virkjun Hvalár segir að í tengslum við virkjunarframkvæmdir sé gert ráð fyrir að þjóðvegur úr Ingólfsfirði verði framlengdur og lagfærður að Hvalárósi. Þá kemur fram varðandi aðstæður í Árneshreppi að nauðsynlegt sé að breyta lélegum slóðum frá Ingólfsfirði, sem hefjist við Eyrará, til Ófeigsfjarðar, sem endi við göngubrú yfir Hvalá. Í samþykktri breytingu á aðal­skipulaginu kemur fram í lok kafla 3.1.8 að ekki sé gert ráð fyrir að breyta legu Ófeigsfjarðar­vegar í þessum áfanga aðalskipulagsbreytingar fyrir Hvalárvirkjun og er áréttað í kafla 5.1 að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á Ófeigsfjarðarvegi. Hin umdeilda framkvæmd er þannig í samræmi við aðalskipulag og er þar gerð grein fyrir henni. Við mat á því hvort þar hafi verið nægilega ítarlega fjallað um hana til að falla hafi mátt frá grenndarkynningu verður að líta til eðlis þeirrar framkvæmdar sem leyfið er veitt fyrir og áður er lýst. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að því meiri kröfur verði að gera til ítarlegrar umfjöllunar því meiri sem framkvæmd sé að umfangi. Að því virtu er það niðurstaða nefndarinnar að skilyrði 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið fyrir hendi og að heimilt hafi verið að veita hið umdeilda leyfi til viðhalds Ófeigsfjarðarvegar í sömu veglínu, auk lítilsháttar tilfærslu á veginum við Sýrá, án grenndar­kynningar þótt í aðalskipulagi hefði ekki verið á ítarlegan hátt fjallað um umfang, frágang eða áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Enda verður að telja að þau atriði liggi almennt nokkuð ljós fyrir við framkvæmd eins og þá sem hér um ræðir. Þá verður það ekki látið varða ógildingu að við afgreiðslu hreppsnefndar hafi ekkert verið bókað um hvort fjallað hefði verið um og tekin afstaða til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Hefur enda úrskurðarnefndin áður komist að þeirri niðurstöðu að slíkt samræmi væri fyrir hendi, auk þess sem í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að framkvæmdin sé í samræmi við Aðalskipulag Árneshrepps 2005-2025, eins og því hefur verið breytt. Loks bar sveitarstjórn ekki að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar, sbr. þágildandi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis fyrir viðhaldi vegar. Hefur það ekki þýðingu í þessu sambandi þótt undirbúningsrannsóknir vegna nefndra virkjunarframkvæmda sé tilefni þess viðhalds.

Fram kemur í 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga að öll efnistaka á landi sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Skuli gefa leyfið út til tiltekins tíma og í því gera grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt því, auk þess sem leita skuli umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi samþykkt aðalskipulag sem framangreindir aðilar hafi gefið umsögn sína um, sbr. 1. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga. Telja verður að tilgreint ákvæði girði ekki fyrir að sama leyfið sé veitt til framkvæmda og til efnistöku sé öðrum skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Ljóst er að svo er ekki að öllu leyti, en í samþykktri framkvæmdaleyfisumsókn og útgefnu leyfi segir einungis að efni til viðhaldsins verði sótt í Urðirnar og í námu ES18 við Hvalá án þess að tiltekið sé magn efnis. Þó kemur fram í umsókninni að sérstök áhersla verði lögð á að halda framkvæmdum í algjöru lágmarki og því altént ljóst að ekki yrði um mikið efnismagn að ræða. Þá er nánari lýsingu á greindum námum, stærð þeirra, gerð efnis og heildarmagni, að finna í aðalskipulagi Árneshrepps með síðari breytingum sem Umhverfisstofnun hefur gefið umsögn um. Getur því ekki raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar að í leyfinu hafi ekki í öllu verið gerð grein fyrir þeim atriðum sem 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga áskilur. Þá verður það ekki látið varða ógildingu þótt ekki verði séð að náttúruverndarnefnd hafi gefið umsögn um þá aðal­skipulagsbreytingu þar sem fjallað er um námu ES18 við Hvalá, en umhverfisnefnd Ísafjarðar­bæjar, sem áður gegndi hlutverki náttúruverndarnefndar skv. 6. tl. 62. gr. samþykktar nr. 211/2001 um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, gaf umsögn um aðal­skipulagið fyrir staðfestingu þess.

Áður en sveitarstjórn gefur út framkvæmdaleyfi skal, skv. 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga, þess gætt, eftir því sem við á, ákvæða IV. og VI. kafla laga um menningarminjar. Fram hefur komið að ekki var leitað umsagnar Minjastofnunar Íslands áður en hið umþrætta leyfi var samþykkt eða gefið út. Því var lýst í framkvæmdaleyfisumsókn að skráðum fornleifum yrði hlíft eins og kostur væri og var því tilefni til að leita slíkrar umsagnar. Hins vegar lá við veitingu leyfisins fyrir skýrsla um innmælingu á fornleifum vegna breytinga og vegbóta á veginum frá Norðurfirði að Hvalá í Ófeigsfirði og kemur þar fram að í bréfi Minjastofnunar frá 6. febrúar 2017 hafi stofnunin farið fram á að minjar sem væru innan 100 m frá veglínu beggja vegna vegar yrðu mældar inn og að því verki loknu gæti stofnunin lagt til mótvægisaðgerðir. Er og meðal skilyrða leyfisins ákvæði er lúta að fornminjum, svo sem þau eru sett fram í umsókn um leyfið. Minja­stofnun skilaði síðar inn umsögn og lagðist ekki gegn framkvæmdinni að nánari skilyrðum tilgreindum. Var með því bætt úr framangreindum hnökrum á málsmeðferð vegna leyfisins. Verður því ekki fallist á með kærendum að hana þurfi að endurtaka.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið verður hið kærða framkvæmdaleyfi ekki talið haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að ógildingu varði og verður kröfum kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist þar sem málsmeðferð þess var frestað á meðan nátengd málsatvik voru til meðferðar hjá dómstólum.

Úrskurðarorð:

Kæru hluta landeigenda Seljaness er vísað frá.

Hafnað er kröfu annarra kærenda um ógildingu á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að veita framkvæmdaleyfi til framkvæmda á 16 km kafla vegar 649 og F649 frá brekku ofan Eyrar við Ingólfsfjörð að Hvalá í Ófeigsfirði.

88/2019 Álftamýri

Með

Árið 2020, mánudaginn 6. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Álftamýrar 21, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019.

Málavextir: Á árinu 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðanna Álftamýrar 1-5 og 7-9. Fól tillagan m.a. í sér heimild til að byggja hæð ofan á tveggja hæða hús við Álftamýri 7-9. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá eigendum raðhúsa við Álftamýri 15-27, þ. á m. kæranda, þar sem lagst var gegn hækkun byggingarinnar. Var í kjölfarið fallið frá fyrirhugaðri hækkun en í stað þess var í samþykktri deiliskipulagsbreytingu, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 23. mars 2005, veitt heimild til byggingar tveggja hæða viðbyggingar á baklóð. Mun lóðarhafi ekki hafa sótt um byggingarleyfi fyrir þeirri viðbyggingu.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 13. febrúar 2019 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri. Í breytingunni fólst m.a. að byggja eina hæð ofan á núverandi tveggja hæða byggingu, að hækka viðbyggingu á lóðarmörkum um tvær hæðir til jafns við aðalhúsið og að fjarlægja byggingarreit fyrir viðbyggingu á baklóð. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 22. febrúar s.á. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu 4. mars s.á. með athugasemdafresti til 15. apríl s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá íbúum og eigendum raðhúsa við Álftamýri 15-27. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var tillagan lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, en þar var lagt til að tillagan yrði samþykkt með uppfærðum bílastæðaskilmálum. Með vísan til umsagnarinnar var tillagan samþykkt og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 6. júní s.á. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að árið 2005 hafi verið gerð tilraun til þess að afla samþykkis fyrir hækkun húsanna á lóðunum Álftamýri 1-5 og 7-9 en því hafi verið hafnað. Náðst hafi samkomulag um umtalsverðar breytingar á húsunum við Álftamýri 1-5, m.a. hækkun þeirra um eina hæð, en samræmi í hæð húsanna hafi verið meginrök þeirra breytinga. Með hinni kærðu ákvörðun 14 árum síðar sé brotið gegn þessu samkomulagi. Sjónarmiðið um samræmi virðist ekki lengur henta borgaryfirvöldum. Íbúar hverfisins megi vænta þess að Álftamýri 1-5 hækki enn frekar samræmisins vegna og höfrungahlaup borgarinnar í hækkun húsa haldi áfram. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé ekki tekið á athugasemdum um hækkun húsa með vísan í fyrri deiliskipulagsbreytingu frá árinu 2005. Þá verði birta og yfirbragð allt annað þegar búið sé að hækka húsið, sem muni þá gnæfa enn meira yfir nálæg raðhús. Af svörum skipulagsfulltrúa megi ráða að þar sem Álftamýri 1-5 og 7-9 séu nærþjónustukjarni þá megi gera hvað sem er með tilliti til hæðar húsanna. Borgaryfirvöld taki hagsmuni húseigenda og atvinnurekenda fram yfir hagsmuni íbúa í grónu íbúðarhverfi og engu varði fyrra samkomulag.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að það samkomulag sem kærandi vísi til sé breyting á umræddu deiliskipulagi frá árinu 2005. Tillaga að breyttu deiliskipulagi hafi falið í sér stækkun húseignarinnar Álftamýri 1-5 í fullar tvær hæðir og að bætt yrði einni hæð ofan á Álftamýri 7-9, þannig að hún yrði samtals þrjár hæðir. Einnig hafi tillagan falið í sér heimild til að rífa bílskúr sunnanmegin á lóðinni Álftamýri 1-5 og koma fyrir byggingarreit fyrir bílaapótek á austurhluta lóðarinnar. Kærandi hafi ásamt fleirum sent inn athugasemdir við stækkun húsanna. Niðurstaðan hafi orðið sú að samþykkja tillöguna á þann hátt að byggingaraðili hafi verið beðinn um að skoða þá möguleika „að hafa inndregna ofaná byggingu á framhúsi eða tveggja hæða viðbyggingu sunnan við fram hús við Álftamýri 7-9 en að ofanábyggingar við Álftamýri 1-5 verði inndregna um a.m.k. 3 m til suðurs“. Með hinni kærðu ákvörðun sé einungis verið að breyta skipulagi fyrir Álftamýri 7-9. Við mat á tillögunni hafi m.a. verið horft til þess að hækkun hússins hefði ekki í för með sér aukið skuggavarp á nágrannalóðir vegna staðsetningar þess norðan raðhúsabyggðarinnar, en húsið á lóð Álftamýri 7-9 sé í um 23-37 m fjarlægð frá raðhúsunum. Deiliskipulagið hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr., skipulagslaga nr. 123/2010, og hafi málsmeðferðin verið í fullu samræmi við þær málsmeðferðarreglur sem kveðið sé á um í skipulagslögum og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Álftamýrar – Safamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri, sem felur m.a. í sér heimild til að byggja eina hæð ofan á núverandi tveggja hæða byggingu, að hækka viðbyggingu á lóðarmörkum um tvær hæðir til jafns við aðalhúsið og að fjarlægja byggingarreit fyrir viðbyggingu á baklóð. Kærandi er eigandi raðhúss í raðhúsalengjunni nr. 15-27 við Álftamýri og stendur hús hans í u.þ.b. 25 m fjarlægð frá hinni umdeildu byggingu.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulags­áætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Við gerð deiliskipulags ber að gæta þess að skipulagið, og þá jafnframt breytingar á því, rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, sem og að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Að loknum athugasemdafresti var hún afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og tillagan síðan staðfest af borgarráði. Tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var þannig farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin Álftamýri 7-9 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB13, sem sé fullbyggt og fastmótað. Lóðin sé ætluð fyrir nærþjónustukjarna fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Í aðalskipulaginu kemur fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deili­skipulagi. Verður því ekki séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting, er felur aðallega í sér aukið byggingar­magn á fyrrgreindri lóð, gangi gegn stefnu aðalskipulags um svæðið og er því áskilnaði laga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Þá kemur fram í umdeildri deiliskipulagsbreytingu að markmiðið með henni sé að yfirbragð byggðar verði heillegt og sterkt með því að heimila fyrirhugaðar breytingar. Búa því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Umdeild deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til að hækka húsið að Álftamýri 7-9, en sem fyrr segir er lóð kæranda í u.þ.b. 25 m fjarlægð frá byggingunni. Ljóst er að sú breyting hefur grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda með tilliti til breytts útsýnis. Að virtum skýringaruppdráttum deiliskipulagsbreytingarinnar, þar sem finna má rýmismyndir og skuggavarp vegna heimilaðra breytinga, verða grenndaráhrif hennar þó ekki talin svo veruleg að réttur kæranda sé fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 6. júní 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Safamýrar – Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 7-9 við Álftamýri.

86/2019 Gulaþing

Með

Árið 2020, mánudaginn 6. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2019, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Gulaþings 62, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. október 2019.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 15. júlí 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21. Í breytingunni fólst annars vegar að vegghæð suðausturhliðar húss lóðarinnar myndi hækka úr 6,3 m í 7,5 m og hins vegar að vegghæð norðvesturhliðar hússins myndi hækka úr 6,3 m í 7,0 m. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan grenndarkynnt með bréfi, dags. 17. s.m., og kostur gefinn á að koma að athugasemdum til 14. ágúst s.á. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá kæranda. Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 19. s.m. ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagsins um athugasemdir kæranda. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 22. ágúst 2019. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umdeild breyting feli í sér umtalsverða hækkun hússins á lóðinni Gulaþingi 21, sem muni hafa áhrif á skuggamyndun á lóð kæranda. Teikningar sem fylgt hafi umsögn deiliskipulagstillögunnar hafi verið mjög óskýrar. Þannig liggi ekkert fyrir um áhrif skuggamyndunar frá júlí til september eða október. Í umsögninni segi að ekki sé hægt að sjá að skuggavarp muni hafa meiri áhrif gagnvart lóð kæranda en núverandi skipulag heimili. Þó sé ljóst að umrædd skipulagsbreyting muni hafa áhrif á útsýni frá húsi sem byggt verði á lóðinni. Skilyrði til breytingar á deiliskipulagi í þá veru sem hér um ræði séu ekki fyrir hendi þar sem ekki sé um svo óveruleg frávik að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sú fullyrðing í athugasemdum með deiliskipulagstillögunni sé með öllu ósönnuð og enginn rökstuðningur sé fyrir hendi til að fallast á breytingartillöguna.

Kæranda hafi ekki verið kynnt hvaða rök séu fyrir því að fallast á tillögu lóðarahafa Gulaþings 21 um breytingu á deiliskipulagi. Í íslenskum rétti sé viðurkennt að deiliskipulag sé bindandi bæði fyrir lóðarhafa og sveitarfélög og treysta megi því að deiliskipulagi verði ekki breytt nema til komi almannahagsmunir. Þá taki fræðimenn sérstaklega fram að gjalda skuli varhug við óskum einstakra lóðarhafa um breytingar. Lóðarhafi Gulaþings 21 hafi ekki mátt gera ráð fyrir því að honum yrði heimilað að hækka hús sitt jafnmikið og fyrirliggjandi breyting heimili. Einnig hafi kærandi mátt geta treyst því að deiliskipulag stæði áfram óbreytt eins og það hefði verið samþykkt. Ekkert réttlæti að sveitarfélög hlaupi á eftir óskum einstakra lóðarhafa um breytingar gegn hagsmunum annarra lóðarhafa án þess að brýna nauðsyn beri til.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting teljist óveruleg breyting á deiliskipulagi, eins og hún hafi verið grenndarkynnt lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi á málsmeðferðartíma verið óskað eftir skuggavarpsteikningum, sem sýnt hafi að litlar breytingar myndu verða á skuggavarpi við breytinguna. Hvað varði tilgang deiliskipulags sé það svo að þrátt fyrir að deiliskipulag eigi að gefa ákveðna sýn á skipulag tiltekins svæðis sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að skipulag haldist óbreytt um ókomna tíð. Skipulagsvaldið sé í höndum bæjarstjórnar innan marka sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga, og hafi hún talsvert svigrúm við þróun byggðar og umhverfis þess. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21, sem felur í sér heimild til að hækka vegghæðir á suðaustur- og norðvesturhlið húss þess sem mun vera í byggingu á lóðinni, úr 6,3 m í 7,5 m annars vegar og úr 6,3 m í 7,0 m hins vegar. Lóð kæranda stendur öndvert handan götu til austurs í um 25 m fjarlægð frá umræddu húsi.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Var því ekki um það að ræða að beitt hefði verið ákvæði 3. mgr. 43. gr. eins og kærandi heldur fram. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Breytingin snýr aðeins að einni lóð þar sem heimiluð er hækkun húss á lóðinni um 0,7-1,2 m. Hvorki er um það að ræða að nýtingarhlutfall eða notkun lóðarinnar breytist né að vikið sé að marki frá útliti eða formi byggðarinnar samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Var því heimilt að grenndarkynna deiliskipulagstillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hún var svo afgreidd í skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laganna. Að lokum var breytingin samþykkt í bæjarráði Kópavogs lögum samkvæmt. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinni kærðu breytingu eykst vegghæð hússins á lóðinni Gulaþingi 21 á suðaustur- og norðvesturhlið, eins og að framan er rakið, en lóð kæranda er samkvæmt núgildandi skipulagi í um 25 m fjarlægð frá því húsi. Af skýringarmyndum deiliskipulagstillögunnar og gögnum um skuggavarp verður ekki ráðið að breytingin raski grenndarhagsmunum kæranda að nokkru marki umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi, svo sem vegna skerðingar á útsýni, breytingar á skuggavarpi eða með öðrum hætti. Verður með hliðsjón af því ekki talið að umfang breytingarinnar sé slíkt að raski lögvörðum hagsmunum kæranda raskist á þann hátt að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar.

Með vísan til  þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðarinnar Gulaþings 21.

79/2019 Héðinsgata

Með

Árið 2020, mánudaginn 6. apríl fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis, Reykjavíkurhöfn, sem fól í sér stofnun nýrrar lóðar undir smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Þingvangur ehf., eigandi Héðinsgötu 1 og 2 og Köllunarklettsvegar 3, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis, Reykjavíkurhöfn, sem fól í sér stofnun nýrrar lóðar undir smáhýsi fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 3. júlí 2019 var tekin fyrir tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Köllunarkletts til að unnt væri að koma fyrir einu til fimm smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkur, hvert um sig u.þ.b. 30 m2 að flatarmáli. Tillagan gerði ráð fyrir nýrri lóð, Héðinsgötu 8, fyrir smáhýsin á núverandi bílastæði á borgarlandi. Lagðar voru fram á fundinum umsagnir Faxaflóahafna sf. og Minjastofnunar, auk athugasemda sem bárust á auglýsingartíma tillögunnar. Í umsögn Faxaflóahafna sf., dags. 2. janúar 2019, kom fram að ekki væri lagst gegn staðsetningunni og breytingu á deiliskipulagi ef ákvæði aðalskipulags stæðu ekki þar í vegi. Ekki væri talið heppilegt að stofna sérstaka lóð fyrir smáhýsin þar sem þau ættu aðeins að vera til bráðabirgða. Lagt var til að Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg gerðu með sér samning um skammtímaleigu í afmarkaðan tíma. Ljóst væri samkvæmt aðalskipulagi að íbúðir væru ekki heimilar á svæðinu. Hafa þyrfti samráð við lóðarhafa nærliggjandi lóða og kynna fyrir þeim áformin með viðeigandi hætti. Þá var að auki lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. júní 2019.

Tillagan var samþykkt og henni vísað til borgarráðs, sem staðfesti hana á fundi sínum 18. júlí 2019. Í bréfi frá Skipulagsstofnun, dags. 29. ágúst s.á., kemur fram að fyrirhugað sé að koma fyrir allt að fimm tímabundnum íbúðareiningum sem hver um sig geti verið allt að 30 m2 að stærð. Ekki sé gert ráð fyrir að búseta verði varanleg á lóðinni heldur sé um tímabundið neyðarúrræði að ræða fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Ekki var á fundi borgarráðs gerð athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulags-breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að hin kærða ákvörðun samrýmist ekki gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Kunni það að skýrast af því að í deili­skipulagstillögunni sé eldra aðalskipulag lagt til grundvallar, sbr. það sem segi í greinargerð með tillögunni: „Miðsvæði merkt M18, Köllunarklettur er skilgreint: „Einkum skrifstofur, ýmis þjónusta og léttur iðnaður auk íbúða.““ Eins og aðalskipulaginu hafi verið breytt með auglýsingu nr. 760/2017 hafi heimild til byggingar íbúða verið felld niður, en um þá ákvörðun segi á bls. 8 í greinargerð með aðalskipulagsbreytingunni „10. Köllunarklettur (reitur 29). Lagt er til að ekki verði heimilt að byggja íbúðir á umræddu svæði (miðsvæði M18), þar sem reiturinn er aðskilinn frá nærliggjandi byggð með stofnbrautum, og stendur nálægt lóðum þar sem iðnaðarstarfsemi er heimil. Reitur 29 verður því felldur út sem byggingarreitur fyrir íbúðabyggð …“

Kærandi hafi í samstarfi við Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir unnið að gerð heildar­deiliskipulags fyrir reitinn. Sú vinna sé langt komin, þ.m.t. vinna við forsögn og lýsingu. Í þeirri vinnu hafi ekki verið minnst einu orði á þá breytingu sem birtist í hinni kærðu tillögu og hvorki hafi verið haft samráð við kæranda né Faxaflóahafnir áður en tillagan hafi verið auglýst.

Þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram komi hvaða áherslur sveitarstjórnin hafi við deiliskipulags­gerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. mgr. ákvæðisins komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggi fyrir í aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé á umræddu svæði einungis gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði. Þar komi fram að áætluð aukning slíks húsnæðis sé um 85 þúsund m2.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga komi fram að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og skuli jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi því er orðið hafi að skipulagslögum komi fram að með þessu hafi ætlunin verið að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þótt að slíkt geti þó stundum átt við. Hin umdeilda tillaga sæki því heimild til undantekningarreglu, sem beri samkvæmt viðurkenndum skýringaraðferðum laga að túlka þröngt. Kærandi telji engin skilyrði til beitingar fyrrgreinds undantekningarákvæðis.

Með deiliskipulagi sé markmiðið m.a. að útfæra nánar ákvæði aðalskipulags, taka ákvarðanir um notkun lóða og stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands. Við skipulagsgerð skuli og tryggja réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt almannahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulagslaga. Hvorki verði séð að hin umdeilda tillaga sé í samræmi við markmið deiliskipulags né að hún uppfylli þær kröfur sem lög geri til slíkra tillagna. Tillagan hljóti því að teljast fara í bága við landnotkunarákvæði gildandi aðalskipulags auk þess sem hún samræmist ekki ákvæði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga og öðrum meginreglum um gerð deiliskipulags.

Reykjavíkurborg hafi leitast við að slá ryki í augu þeirra sem gert hafi athugasemdir við tillöguna og fullyrt að ekki væri um hefðbundna búsetu að ræða heldur tímabundið úrræði fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar. Þessi fullyrðing fái ekki staðist að mati kæranda. Búseta skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar hljóti að teljast hefðbundin búseta á allan hátt. Það eina sem kunni að vera tímabundið í þessu sambandi sé búseta hvers og eins skjólstæðings, þar sem einn taki við af öðrum. Hljóti að vera út frá því gengið af hálfu borgarinnar að úrræðið sé viðvarandi og þar af leiðandi geti búseta ekki verið annað en hefðbundin og viðvarandi.

Sveitarfélagið hafi ekki gætt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telji afgreiðslu borgarinnar á athugasemdum sínum, Alanó samtakanna og rekstrarfélags Drauma­setursins vera byggða á ófullnægjandi rannsókn á aðstæðum og atvikum öllum. Sveitarfélagið hafi með hinni kærðu ákvörðun brotið í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt reglunni skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærandi hafi ítrekað boðið borginni að reisa fyrirhuguð smáhýsi á lóð kæranda að Köllunarklettsvegi 3. Kærandi telji unnt að reisa smáhýsi, eins og þau sem lýst sé í hinni umdeildu tillögu, á grund­velli stöðuleyfis til eins árs í senn og að slík ráðstöfun samræmist betur aðalskipulagi og þeirri deiliskipulagsvinnu sem þegar hafi verið unnin. Þá telji kærandi að verulega skorti á að hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd með viðhlítandi hætti, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaganna.

Til viðbótar framangreindu bendi kærandi á að hann hafi haft réttmætar væntingar til þess að einungis atvinnuhúsnæði yrði reist á grundvelli þess deiliskipulags sem unnið hafi verið að í samvinnu aðila. Hafi framkoma borgarinnar í þeirri skipulagsvinnu einungis styrkt kæranda í þeirri trú, sem samræmist jafnframt gildandi aðalskipulagi. Annars konar starfsemi á deiliskipulagsreitnum kunni að leiða til verðrýrnunar á eignum kæranda innan reitsins og gangi slíkt gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum hans, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að í umræddri deili­skipulagsbreytingu felist að stofnuð sé 806 m2 lóð undir allt að fimm smáhýsi, sem þjóna eigi sem tímabundið búsetuúrræði fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en ekki sé gert ráð fyrir varanlegri búsetu á svæðinu. Þannig sé ekki um hefðbundna búsetu að ræða. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé reiturinn á miðsvæði M18 og sé svæðið skilgreint sem þéttingarsvæði Þ47. Heimilt sé að vera með þjónustustarfsemi á svæðinu. Samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar geti íbúðarhúsnæði verið á miðsvæðum. Í gildandi stefnu aðalskipulagsins sé ekki gert ráð fyrir almennri og umfangsmikilli íbúðar­uppbyggingu á svæðinu, sbr. skilgreiningar á mynd 13 í kaflanum Borgin við Sundin. Hins vegar verði að líta svo á að í aðalskipulaginu sé heimild fyrir því að skilgreina í deiliskipulagi á svæði M18 minniháttar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Það yrði þó alltaf metið sérstaklega m.t.t. nálægðar við atvinnustarfsemi. Á Héðinsgötu 8 sé verið að skilgreina í deiliskipulagi búsetuúrræði fyrir heimilislausa, sem verði ávallt að líta á sem tímabundna húsnæðislausn fyrir viðkomandi, auk þess sem smáhýsin sem gert sé ráð fyrir séu færanlegar byggingar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hvorki í skipulagslögum nr. 123/2010 né skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé að finna heimildir til að fara á svig við skipulag á einstökum svæðum með þeim hætti sem Reykjavíkurborg leitist við, þ.e.a.s. með því að skáka í því skjóli að íbúðarhúsnæði sé á einhvern hátt færanlegt og falli því ekki undir skilgreiningu íbúðarhúsnæðis. Kærandi telji einsýnt að um hefðbundna búsetu sé að ræða og þótt vera kunni að íbúar komi og fari, eins og almennt gerist, einkum þegar íbúar eigi ekki húsnæði sem þeir búi í, þá séu áhrifin þau sömu á þá sem hafi með höndum starfsemi á svæðinu. Kærandi bendi sérstaklega á að í skipulagi skuli nota landnotkunarflokka skv. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð. Í a-lið sé fjallað um íbúðarbyggð, sem bent sé á að eigi ekki við um það svæði sem um sé að tefla. Ekki sé gert ráð fyrir öðrum flokkum fyrir íbúðarbyggð. Engar sérreglur gildi því um tilgreiningu landnotkunar, burtséð frá því hverskonar húsnæði sé þar byggt eða hverjir kunni að búa þar hverju sinni. Þá séu heimildir til þess að skipuleggja frístundabyggð jafnframt þess eðlis að föst búseta sé þar óheimil.

Áréttað sé að tilvísanir til þess að reiturinn M18 sé á þéttingarsvæði styðji ekki kröfur Reykjavíkur­borgar, enda sé vandséð hvernig smáhýsi, hvort sem þau séu þung, létt, færanleg eður ei, geti samrýmst markmiðum um þéttingu. Bendi kærandi á að hin kærða ákvörðun sé að þessu leyti sem öðru í hróplegu ósamræmi við aðalskipulag. Ekki verði séð að kröfur Reykjavíkurborgar fái nokkra stoð í þeim röksemdum að heimilt sé að hafa þjónustustarfsemi á svæðinu, enda felist ekki í því heimild til íbúðarbyggðar, þvert á móti.

Varðandi þau rök borgarinnar að íbúðarhúsnæði geti verið á miðsvæðum samkvæmt skilgreiningu skipulagsreglugerðar þá bendi kærandi á að tilvísun Reykjavíkurborgar sem að þessu lúti fái ekki stoð í skipulagsreglugerð eða öðrum réttarheimildum. Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð sé fjallað um stefnu um landnotkun. Í b-lið sé fjallað um miðsvæði og segi þar orðrétt: „Svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis.“

Reykjavíkurborg hafi sem fyrr segi einnig vísað til þess að þrátt fyrir að í gildandi stefnu sé ekki gert ráð fyrir almennri og umfangsmikilli íbúðaruppbyggingu á svæðinu þá verði engu að síður að líta til þess að í aðalskipulagi sé heimild til að skilgreina í deiliskipulagi á svæði M18 minniháttar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Kærandi vísi þessum röksemdum til föðurhúsanna. Meðal staðfestra breytinga á gildandi aðalskipulagi sé breytingin „Íbúðarbyggð og blönduð byggð 2010-2030“, dags. í júní 2017 og uppfærð 11. ágúst s.á. Á bls. 7 í 4. kafla sé fjallað um breytingartillögurnar sem síðar hafi verið gerðar. Tekið sé fram að þær lúti að því að uppfæra íbúðarheimildir á reitum sem þegar séu skilgreindir í stefnunni um íbúðarbyggð eins og hún birtist á mynd 13. Síðan sé tekið fram að reitur 29, Köllunarklettur, verði felldur út af mynd 13, og landnotkun viðkomandi miðsvæðis verði endurskilgreind. Í kafla 4.1. sé vísað til þess að þar sé að finna breytingar á mynd 13, Íbúðarbyggð og blönduð byggð 2010-2030. Undir 10. tl. sé síðan að finna tillögur varðandi reit 29 sem hafi verið samþykktar, en þar segi orðrétt: „Lagt er til að ekki verði heimilt að byggja íbúðir á umræddu svæði (miðsvæði M18), þar sem reiturinn er aðskilinn frá nærliggjandi íbúðarbyggð með stofnbrautum, og stendur nálægt lóðum þar sem iðnaðarstarfsemi er heimil. Reitur 29 verður því felldur út sem byggingarreitur fyrir íbúðar­byggð, af mynd 13, en heimildir um magn atvinnuhúsnæðis á svæðinu verða auknar sam­svarandi í töflu 3, Miðsvæði í AR2010-2030, bls. 52 í kaflanum Skapandi borg, sjá kafla 4.4. hér að neðan.“

Kærandi bendi á að framangreindar röksemdir Reykjavíkurborgar stangist samkvæmt þessu algjörlega á við gildandi aðalskipulag og að tilvísanir til þess að heimilt sé að skipuleggja minniháttar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á umþrættum reit séu í besta falli á misskilningi byggðar.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var stofnuð ný lóð, Héðinsgata 8, þar sem gert er ráð fyrir fimm smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Er lóðin á miðsvæði, M18, í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, reit 29.

Í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er miðsvæði skilgreint sem „svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslanir, skrifstofur, þjónustustofnanir, hótel, veitinga- og gistihús, menningarstofnanir og önnur hreinleg atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis“, sbr. b-lið greinarinnar. Í gr. 4.3.1. er fjallað um viðfangsefni og efnistök aðalskipulags. Er meginviðfangsefni þess stefnumörkun sveitarstjórnar um landnotkun og þróun byggðar og skal í skipulagsgögnum gera grein fyrir og marka stefnu um tilgreind málefni og setja þau fram með ákvörðunum um landnotkun eftir því sem við á. Meðal þeirra málefna er blöndun byggðar og íbúaþróun, sbr. b- og d-liði greinarinnar, og er þar m.a. átt við blöndun íbúða við aðra landnotkun, t.d. þar sem blanda á íbúðum og verslunar-, menningar- og þjónustustarfsemi í þéttbýli. Gæta skuli sérstaklega að búsetuhagsmunum íbúa, svo sem með því að blanda ekki íbúðum við starfsemi sem ætla megi að valdi nágrönnum óþægindum, t.d. vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar. Staðsetning nýrra íbúða eða starfsemi hamli ekki starfsemi sem fyrir sé á svæðinu.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kom áður fram að á svæðinu M18 væru einkum skrifstofur, ýmis þjónusta og léttur iðnaður, auk íbúða, og er vísað til þessa í greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Með aðalskipulagsbreytingu, sem tók gildi með birtingu auglýsingar þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2017, var heimild til íbúðar­uppbyggingar á þessu svæði felld brott. Í breytingunni kemur eftirfarandi fram: „M18 við Köllunarklett: Þar sem heimildir um íbúðarhúsnæði á svæðinu eru alfarið felldar út, er lagt til að atvinnuhúsnæði á svæðinu verði aukið samsvarandi. Lagt er til að heimildir um atvinnuhúsnæði aukist um 25 þúsund fermetra.“ Þá var tafla nr. 3, á bls. 52 í kaflanum Skapandi borg í aðal­skipulaginu, uppfærð til samræmis við þetta, þ.e. að engin fjölgun íbúða sé heimil og að um sé að ræða bindandi stefnu.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Með hinu kærða deiliskipulagi er veitt heimild fyrir fimm smáhýsum á nýrri lóð, Héðinsgötu 8, fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar í því skyni að veita einstaklingum þann stuðning sem þeir óska eftir til að halda heimili. Eru smáhýsin því ótvírætt ætluð til íbúðarnota. Er hin kærða deiliskipulagsbreyting því ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag, svo sem áskilið er í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Hefði, með hliðsjón af framangreindu ákvæði skipulagsreglugerðar í gr. 4.3.1., jafnframt þurft að gera grein fyrir þessari blöndun byggðar í aðalskipulagi, en svo var ekki gert.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettasvæðis, Reykjavíkurhöfn.

44/2019 Gráhelluhraun

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2019, kæra á ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar frá 2. maí 2019 um að synja beiðni kæranda um að lagður verði af göngu­stígur í Gráhelluhrauni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2019, er barst nefndinni 11. s.m., kærir hestamannafélagið Sörli þá ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar að synja beiðni kæranda um aflagningu göngustígs í Gráhelluhrauni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að Hafnarfjarðarbær tilkynnti úrskurðarnefndinni 13. júní 2019 að ekki yrði farið í framkvæmdir á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni verður ekki tekin afstaða til fram­kominnar stöðvunarkröfu og málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 27. júní 2019.

Málavextir: Hinn 10. apríl 2019 lagði kærandi inn formlegt erindi til Hafnarfjarðarbæjar þar sem óskað var eftir því að göngustígur í Gráhelluhrauni yrði lagður af með öllu og að öll gangandi umferð yrði leidd inn á nýgerðan göngustíg fyrir neðan Hlíðarþúfur. Ásókn gangandi og hjólandi vegfarenda á útivistarsvæðið fyrir ofan athafnasvæði kæranda væri gríðarlegt og gönguleiðin í Gráhelluhrauni kæmi inn á aðalreiðveg kæranda, sem væri að mati félagsmanna barn síns tíma. Reiðleiðahringirnir tveir á svæðinu væru í raun æfingasvæði félagsmanna kæranda, sem vildu  hafa tök á að vera þar á lítið gerðum og lítið tömdum hrossum. Hættulegt væri að vísa gangandi og hjólandi umferð inn á þessa tvo reiðleiðahringi þar sem hestar væru lifandi skepnur og í eðli sínu flóttadýr sem gætu auðveldlega hræðst ef eitthvað „óvenjulegt yrði á vegi þeirra“.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar 2. maí 2019 var erindi kæranda synjað með þeim rökum að umræddur göngustígur væri samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015-2030.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að sjónarmið hans hafi komið fram í erindi því sem sem synjað hafi verið með hinni kærðu ákvörðun. Að auki bendir kærandi á að hönnun umrædds göngustígs sé stórgölluð þar sem fólki sé nánast beint inn á aðalreiðleið félagsmanna. Skammt frá umræddri gönguleið sé ný göngu- og hjólaleið með góðu aðgengi að upplandi Hafnarfjarðar og því sé nýja framkvæmdin óþörf og stórhættuleg. Skipulagið taki ekkert mið af aðstæðum í dag og stóraukinni umferð gangandi og hjólandi, en nú þegar hafi oft legið við slysum á þessum stað og óhöpp orðið. Félagið hafi mætt algjöru skilnings­­leysi af hálfu skipulagsyfirvalda og miklum fjármunum hafi verið kostað til að auka umferð á þessu svæði á kostnað hestamanna, sem vilji fá að hafa það óáreittir. Göngustígurinn sé aðför að öryggi félagsmanna kæranda og beri lagning stígsins þvert á reiðleiðir kæranda og synjun á lokun hans um Gráhelluhraun þess gleggst vitni.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Að hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að umdeildur göngu­stígur sé í samræmi við Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2015-2030 og því hafi erindinu verið synjað af umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að viðstöddum fulltrúum bæjaryfirvalda og kæranda.

———-

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni var afgreiðslu málsins vísað til skipulags- og byggingarráðs, sem synjaði erindi kæranda 27. ágúst 2019 með þeim rökum að umræddur göngustígur væri samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2015-2030 og gildandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í því máli sem hér um ræðir var hin kærða ákvörðun tekin á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs 2. maí 2019 en kæra var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 11. júní s.á. Málinu var í kjölfarið vísað til skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar, sem annast afgreiðslu mála samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, og var fyrri ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs þar staðfest 27. ágúst 2019. Verður því litið svo á að kærufrestur vegna umdeildrar afgreiðslu bæjaryfirvalda á erindi kæranda hafi ekki verið liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.

Í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skipulagslaga skal skipulagsnefnd, sem kjörin er af sveitarstjórn, starfa í hverju sveitar­félagi og er hún því fastanefnd innan stjórnsýslu sveitarfélags. Framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðargreiðslu mála þarf að koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins skv. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Að sama skapi kemur fram í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Í gildi er samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Í 40. gr. hennar kemur fram að bæjarstjórn staðfesti erindisbréf fyrir ráð, nefndir og stjórnir þar sem kveðið sé á um hlutverk, valdsvið og starfshætti þeirra í samræmi við lög, reglugerðir og almennar samþykktir bæjarstjórnar. Samkvæmt 41. gr. samþykktarinnar er ráðum þeim sem upp eru talin í 1.-5. tölul. A-liðar 39. gr. heimilt að afgreiða mál á verksviði þeirra á grundvelli erindisbréfs skv. 40. gr. án staðfestingar bæjarstjórnar, ef í fyrsta lagi lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn því og í öðru lagi að þau varði ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið sé á um í fjárhagsáætlun og þau víki ekki frá stefnu bæjarstjórnar. Undir þetta ákvæði falla umhverfis- og framkvæmdaráð, sbr. 4. tölul. A-liðar 39. gr., og skipulags- og byggingarráð, sbr. 5. tölul. ákvæðisins. Ekki er að sjá að aðrar heimildir til fullnaðarafgreiðslu nefnda bæjarins sé þar að finna. Staðfest erindisbréf er til staðar fyrir skipulags- og byggingarráð þar sem segir í 6. gr. að ráðið fari m.a. með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010. Í 7. gr. erindisbréfsins er síðan m.a. tekið fram að samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra, skuli vísað til bæjarstjórnar, ásamt afgreiðslu erinda sem kveðið sé á um í skipulagslögum. Fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 27. ágúst 2019 var lögð fram til kynningar í bæjarstjórn 4. september s.á.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga skal samþykkt um stjórn sveitarfélags send ráðuneytinu til staðfestingar og skv. 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. sömu laga skal sveitarstjórn ræða samþykktir og aðrar reglur sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra við tvær umræður. Samþykktir sem staðfestar eru af ráðherra skulu vera birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005. Af því leiðir að erindisbréf sem ekki hefir hlotið framangreinda málsmeðferð getur ekki verið viðhlítandi heimild fyrir framsali á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála. Erindisbréf skipulags- og byggingaráðs var undirritað af bæjarstjóra 7. desember 2011 en hvorki liggur fyrir að það hafi hlotið staðfestingu ráðherra né að það hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Valdheimildir skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar voru því bundnar við þær heimildir sem fram koma í lögum og samþykkt sveitarfélagsins, enda hafði sveitarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar ekki framselt það vald skv. 2. máls. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Í samþykktinni er það eitt sagt um nefndina í 1. mgr. 71. gr. að hún fari með mál sem heyri undir skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki nr. 160/2010, lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og umferðarlög nr. 50/1987. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að skipulags- og byggingarráð geri tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fái til með­ferðar og að þá geti bæjarstjórn falið ráðinu og einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg, sbr. 41. og 42. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga teljast ályktanir nefnda sveitarfélags tillögur til sveitarstjórnar hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða í samþykkt um stjórn sveitar­félagsins. Umdeild ákvörðun skipulags- og byggingarráðs telst samkvæmt framangreindu tillaga til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um afgreiðslu máls.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður slík ákvörðun ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bæru stjórnvaldi. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

81/2019 Laxabakki

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:  

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings. Skilja verður kæruna á þann veg að þar sé átt við ákvörðun sveitarstjórnar Árborgar frá 21. ágúst 2019. Gerir kærandi þá kröfu að skipulags- og byggingarnefnd Árborgar samþykki umsókn hans um byggingarleyfi samkvæmt útgefnum og samþykktum teikningum fyrir Laxabakka 4.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 18. september 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka og fylgdu teikningar að tveggja hæða einbýlishúsi sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 19. júní 2006. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5. Var það og gert og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingar­leyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017, þar sem umsókn kæranda var hafnað. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Synjun þessi var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fékk málið númerið 112/2017. Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni 28. nóvember 2018, þar sem byggingarfulltrúi hafði ekki fjallað um erindi kæranda og ekki lá því fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagði úrskurðarnefndin fyrir byggingarfulltrúa að taka umsókn kæranda um byggingar­leyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóðinni nr. 4 við Laxabakka til efnis­legrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar.

Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn um endurnýjun byggingarleyfis í byrjun desember 2018. Lögmaður kæranda ítrekaði erindið með bréfi, dags. 8. mars 2019, þar sem farið var fram á útgáfu byggingarleyfis. Við athugun málsins hjá sveitarfélaginu kom í ljós að deiliskipulag Fosslands hefði aldrei birst í B-deild Stjórnartíðinda og því ekki tekið gildi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. maí 2019 var því ákveðið að grenndarkynna erindi kæranda að nýju fyrir sömu aðilum og áður. Grenndarkynningin var send út 24. s.m. og bárust athugasemdir á kynningartíma frá öllum þeim er grenndarkynnt var fyrir. Lutu athuga­semdir þeirra að því að bygging á tveimur hæðum hefði í för með sér mikil grenndaráhrif, hún myndi ekki falla inn í hverfið og að við samþykkt deiliskipulag hefði verið gert ráð fyrir að réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu myndi falla niður að þremur árum liðnum. Mætti því eingöngu byggja einnar hæðar hús. Að grenndarkynningu lokinni tók skipulags- og byggingar­nefnd erindið fyrir á fundi hinn 26. júní s.á. Á fundinum var bókað að lagt yrði til við bæjar­stjórn að tillögunni yrði hafnað. Á fundi bæjarráðs 4. júlí s.á. var tillögunni hafnað í samræmi við tillögu skipulags- og byggingarnefndar. Með bréfi, dags. 22. s.m., var kæranda tilkynnt að skipulags- og byggingarnefnd hefði lagt til við bæjarstjórn að tillögunni yrði hafnað. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 14. ágúst s.á. Fundargerð bæjarráðs frá 4. júlí s.á var staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. ágúst 2019 og barst kæra í máli þessu 22. s.m., svo sem áður greinir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. desember 2019 var erindi kæranda hafnað og var honum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 5. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að enginn rökstuðningur hafi fylgt höfnun á erindi hans. Byggingarfulltrúi Árborgar hafi þó tjáð kæranda að ástæða höfnunarinnar hafi verið sú að nágrannar vildu ekki tveggja hæða hús á lóðinni. Kærandi hafi haft réttmætar ástæður til þess að ætla að hann fengi umsókn sína samþykkta í fyrsta skipti sem hún hafi verið lögð fram. Þannig séu til samþykktar teikningar af húsi á lóðinni og samtöl við embætti byggingarfulltrúa hafi ekki gefið annað til kynna en að umsóknin yrði samþykkt.

Deiliskipulag það sem vitnað sé til í svarbréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar í fyrra skiptið sem kærandi hafi kært höfnun sveitarfélagsins sé hvorki aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins né á vef Skipulagsstofnunar. Kærandi hafi því enga ástæðu haft til að ætla að umsókn hans um byggingarleyfi yrði hafnað.

Tveggja hæða hús megi finna á lóðunum nr. 15 og 16 við Hellubakka og á lóð nr. 1 við Lækjarbakka, en það séu þær tvær götur sem standi beggja vegna götunnar Laxabakka. Með því að hafna umsókn kæranda sé því verið að brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna þeirra húsa sem byggð hafi verið í hverfinu undanfarin fjögur ár, þrátt fyrir að sótt hafi verið um breytingar á teikningum í a.m.k. einhverjum tilfellum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin efnisleg ákvörðun af hálfu byggingar­fulltrúa um samþykkt eða höfnun byggingarleyfis á lóðinni Laxabakka 4, líkt og gert sé ráð fyrir í 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verði undir úrskurðarnefndina.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að hafnað verði kröfum kæranda um að samþykkt verði umsókn hans um byggingarleyfi. Í kjölfar fyrra kærumáls hafi komið í ljós að farist hefði fyrir að auglýsa deiliskipulag fyrir Fossland á sínum tíma og það því ekki tekið gildi. Hefði sveitarfélagið því talið nauðsynlegt að grenndarkynna að nýju umsókn kæranda um endurnýjun byggingarleyfis. Hafi það einnig verið í samræmi við 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem mæli fyrir um að grenndarkynning skuli fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndar­kynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. Þá hefðu orðið breytingar á eignarhaldi stórs hluta þeirra fasteigna sem fyrri grenndarkynning hefði tekið til. Mikil andstaða hefði komið fram í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Þau sjónarmið hefðu komið fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á öllum aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, auk þess sem af því yrðu mikil grenndaráhrif. Við ákvörðunartökuna hefðu legið málefnaleg sjónarmið til grundvallar, sem sveitarfélagið hefði talið leiða til þess að ekki væri unnt að veita umrætt byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar. Sveitarfélagið hafi ákveðið að láta uppfæra fyrirliggjandi deiliskipulag fyrir hverfið og muni það hljóta meðferð samkvæmt skipulagslögum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur af og frá að stjórnvöld komist upp með að fría sig ábyrgð vegna sömu mistaka tvisvar í röð og mótmælir frávísunarkröfu sveitarfélagsins. Kærandi hafi skilað inn byggingarstjóratryggingu að beiðni byggingarfulltrúa og sá hefði mætt á staðinn til að gera botnúttekt. Aukinheldur hefði byggingarfulltrúi beðið starfsmenn verkfræðistofu um að setja út fyrir púða á lóðinni og mæla hæðarpunkta. Slíkt hefði hann vart gert ef ekki hefði staðið til að gefa út byggingarleyfi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. ágúst 2019. Í kjölfar fyrirspurnar frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók byggingarfulltrúi sveitar­félagsins málið fyrir á afgreiðslufundi 3. desember s.á., enda er það byggingarfulltrúi sem tekur lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og nánar er lýst í fyrra máli aðila fyrir úrskurðarnefndinni nr. 112/2017. Ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin eftir að kæra barst í máli þessu. Er hún efnislega samhljóða hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar og virðist tilefnið hafa verið fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um hvort byggingarfulltrúi ætti enn eftir að taka málið fyrir. Í ljósi þess að byggingarfulltrúi hefur nú tekið lokaákvörðun í málinu verður ekki fallist á frávísunarkröfu Sveitarfélagsins Árborgar, enda þykir ekki rétt að kærandi beri hallann af þeim vanköntum við meðferð málsins sem að framan er lýst. Því verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun sé í reynd synjun byggingar­fulltrúa frá 3. desember 2019 og að krafist sé ógildingar hennar, enda einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar, en það fellur utan þeirra valdheimilda að taka nýja ákvörðun, t.d. um veitingu byggingarleyfis, svo sem kærandi hefur krafist.

Deiliskipulag fyrir Fossland mun hafa verið samþykkt árið 2004 en ekki tekið gildi þar sem það var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda, svo sem áskilið er. Uppbygging svæðisins hefur að miklu leyti farið fram á grundvelli þess skipulags og liggja fyrir samþykktar teikningar, dags. 19. júní 2006, að tveggja hæða húsi á lóð Laxabakka 4. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu sótti kærandi um endurnýjun byggingarleyfis á grundvelli teikninganna rúmum 10 árum síðar og við meðferð umsóknarinnar kom í ljós að vegna framangreinds er Laxabakki 4 á ódeiliskipulögðu svæði.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir leyfisumsókn fyrir þeim nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefur þeim kost á að tjá sig um hana. Grenndar­kynning fór fram í samræmi við greint lagaákvæði. Bárust athugasemdir á kynningartíma, en í þeim öllum var lagst gegn leyfisveitingu. Í athugasemdum kom m.a. fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, byggingin væri til þess fallin að valda skuggavarpi á nágrannalóðum, óþægindi yrðu vegna útsýnis af efri hæð hússins yfir á verandir og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast og verðmæti nálægra húsa myndi skerðast.

Líkt og áður segir er eitt af skilyrðum þess að byggingarleyfi sé veitt, að undangenginni grenndarkynningu þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir, að framkvæmdin sé í samræmi við byggðamynstur. Í ljósi mikillar andstöðu nágranna við áformin og þess að öll önnur hús við Laxabakka eru einnar hæðar verður að telja málefnalegt af byggingarfulltrúa að hafna byggingar­leyfisumsókninni að svo stöddu. Þykir rétt að benda á í þessu samhengi að athugasemdir við grenndarkynningu væru til lítils ef byggingarfulltrúa væri óheimilt að taka mið af þeim við leyfisveitingu. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 5. desember 2019, voru efnislegar athugasemdir við umsóknina reifaðar. Vísaði byggingarfulltrúi þar til þess að í ljósi þeirra hefði ekki þótt tækt að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar og því verið tekin ákvörðun um höfnunina. Færði byggingarfulltrúi með þessu móti haldbær rök fyrir synjun sinni, en slíkum rökstuðningi átti kærandi ekki rétt á að stjórnsýslulögum fyrr en lokaákvörðun lá fyrir í málinu. Það hefði þó verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að svara fyrr beiðni kæranda um rökstuðning frá 14. ágúst 2019, enda á sá sem beinir skriflegu erindi til stjórnvalda jafnan rétt á að honum verði svarað skriflega svo fljótt sem auðið er, sbr. og 9. gr. stjórnsýslulaga. Loks verður ekki talið að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. þeirra laga, þar sem þau tveggja hæða hús sem kærandi hefur vísað til að finna megi í nágrenninu voru byggð á árunum 2004-2006. Auk þess geta þau ekki talist sambærileg við fyrirhugað hús kæranda, en hús þessi eru annars vegar staðsett innst í botngötu og hins vegar á horni botngötu og safngötu. Þá hefur það ekki þýðingu varðandi mál kæranda þótt sveitarfélagið hafi í villu um gildi deiliskipulags Fosslands látið hjá líða að grenndarkynna framkvæmdir vegna upp­byggingar í hverfinu, svo sem hefði borið að gera.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 3. desember 2019 um að hafna umsókn um endurnýjun byggingarleyfis fyrir Laxabakka 4.

53/2019 Heiðargerði

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 við Heiðar­gerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Heiðargerðis 27 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 að veita byggingarleyfi fyrir stækkun efri hæðar hússins nr. 29 að Heiðargerði í Reykjavík með því að byggja yfir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Skilja verður kæruna svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 17. apríl 2018 sóttu eigendur Heiðargerðis 29, Reykjavík, um byggingarleyfi til að stækka efri hæð hússins með því að byggja fyrir svalir á 2. hæð og til að klæða húsið með litaðri stál- eða álklæðningu. Á teikningum sem fylgdu umsókninni koma fram þær breytingar sem snúa að yfirbyggingu svalanna og breyting á glugga á suðurhlið hússins. Í umsögn skipulagsfulltrúa var óskað eftir því að gögn yrðu endurbætt og að sýnt yrði fram á að framkvæmdir samræmdust deiliskipulagsskilmálum svæðisins. Ný gögn bárust skipulags­fulltrúa 29. maí 2018 og gerði hann ekki skipulagslega athugasemd við áformin í umsögn sinni frá 1. júní s.á. og var umsóknin samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. s.m. Í júní 2019 barst byggingarfulltrúa ábending frá kæranda þess efnis að framkvæmdir væru hafnar án þess að byggingarleyfi væri fyrir hendi. Var kæranda tjáð að byggingarleyfi væri til staðar en haft var samband við eigendur Heiðargerðis 29 og þeim bent á að leyfið gerði ráð fyrir yfir­byggingu úr timbri en ekki steypu. Var af því tilefni sótt um leyfi til að breyta byggingarleyfinu þannig að útveggir byggingarinnar yrðu steinsteyptir og einangraðir að innan auk þess sem plastklæðning yrði fjarlægð og í staðinn sett múrkerfi á allt húsið. Breyting þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júlí 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tveir nýir gluggar muni verða á suðurhlið Heiðargerðis 29, sem valdi miklu ónæði þar sem útsýni frá gluggunum í garð og stofu kæranda verði algert. Eðli máls samkvæmt hafi gluggar á efri hæðum húsa meiri nábýlisáhrif en gluggar á neðri hæðum. Þá kröfu verði að gera að leitað sé samþykkis nágranna fyrir breytingum sem þessum. Kærandi hafi hins vegar ekki verið látinn vita af breytingunum, hvorki með grenndar­kynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi fyrst orðið var við framkvæmdirnar 10. júní 2019, þegar búið hafi verið að slá upp Dokaplötum og steypuvinna hafi hafist, en hafði fyrir það ekki vitneskju um að til stæði að ráðast í breytingar á húsinu. Engin umræða virðist hafa farið fram á fundum byggingarfulltrúa eða umhverfis- og skipulagsráðs um áhrif breytinganna gagnvart nær­liggjandi húsum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúa frá 26. júní 2018. Rúmt ár sé liðið síðan ákvörðunin hafi verið tekin og því ljóst að kærufrestur sé liðinn, en kæra hafi borist úrskurðarnefndinni 5. júlí 2019. Verði að skýra þetta ákvæði í samræmi við ákvæði stjórnsýslu­réttarins um kærufresti, en þar komi fram að kæru skuli ekki sinnt sé ár síðan hún hafi verið tilkynnt aðila.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi hafi verið upplýstur um tilvonandi framkvæmdir í júní 2018 og ekki hafi komið fram neinar athugasemdir við framkvæmdirnar. Ekkert óhagræði fyrir kæranda felist í framkvæmdunum og þær séu í samræmi við deiliskipulag fyrir Heiðargerði, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2003.

Við flest öll hús í götunni, þar sem stofa hafi verið stækkuð, hafi þurft að byggja yfir svalir vegna leka og mörg fordæmi séu fyrir slíkri framkvæmd. Þá séu fordæmi fyrir því að fleiri en einn gluggi séu á suðurhlið húsa. Byggt hafi verið yfir svalir húsa bæði við sömu botngötu og Heiðar­gerði 27 standi við og víðar í Heiðargerði. Útsýni úr þeim glugga sem hafi verið lokað fyrir hafi verið mun meira í garð kæranda en úr nýjum glugga á suðurhlið hússins. Þá hafi leyfishafi aldrei séð og muni ekki sjá inn í stofu kæranda þar sem húsin standi nánast hlið við hlið. Nýr gluggi gegni m.a. hlutverki neyðarútgangs úr rýminu.

Veitt hafi verið leyfi til að byggja yfir svalir Heiðargerðis 31 hinn 6. ágúst 2008 og hafi sú framkvæmd hvorki verið grenndarkynnt né leitað eftir samþykki eigenda Heiðargerðis 29. Sú framkvæmd hafi þó verið enn umfangsmeiri en sú framkvæmd sem kærð sé. Ekki hafi verið þörf á grenndarkynningu þar sem hin umdeilda framkvæmd sé í samræmi við deiliskipulag og kærandi hafi verið upplýstur um framkvæmdina í júní 2018. Þá hafi kærandi aldrei notið þess einkasvæðis sem vitnað sé til í kæru þar sem eigendur fasteignarinnar beint á móti hafi fulla sýn yfir allan garð kæranda, sem og inn í stofu og svefnherbergi, frá svölum og herbergis­glugga á annarri hæð.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Á það er bent að tveir nýir gluggar verði vestarlega á suðurhlið viðbyggingarinnar. Umræddir gluggar snúi í suður og í átt að garði kæranda. Úr gluggunum sé fullkomin yfirsýn yfir allan garð hans sem áður hafi ekki verið til staðar. Fyrir breytingu hafi verið lítill gluggi á svalahurð, en sá gluggi hafi verið lengra frá húsi kæranda, eða um fjórum metrum norðar. Sjónlína í garðinn hafi þar verið allt önnur og yfirsýn minni. Áréttað sé að útsýni frá efri hæðum húsa sé meiri en frá neðri hæðum og hægt sé að setja upp grindverk allt að 180 cm á hæð sem geti hamlað útsýni frá neðri hæðum. Þrátt fyrir að bílskúr sé á milli húsanna þá skýli hann á engan hátt yfirsýn af efri hæð. Staðhæfingar um annað sýni að Reykjavíkurborg hafi takmarkaða innsýn á málið.

Ákvörðun hafi ekki verið tilkynnt kæranda, hvorki með grenndarkynningu né öðrum hætti. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um fyrirhugaða stækkun fyrr en 10. júní 2019 þegar fram­kvæmdir hafi hafist. Þá skuli á það bent að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir framkvæmdunum í endanlegri mynd fyrr en 26. júní 2019 og að sú breyting hafi verið samþykkt af byggingar­fulltrúa 2. júlí s.á.

Breytingin gangi gegn skilmálum gildandi deiliskipulags og meginreglum nábýlisréttar. Í deiliskipulagi komi fram að byggingarskilmálar taki mið af þeirri húsakönnun sem gerð hafi verið fyrir hverfið í kjölfar deiliskipulagsvinnunnar. Sé þar mælst til þess að við frekari endurbætur verði hús færð nær uppruna sínum. Um sé að ræða 32 hús sem öll séu eins byggð við Heiðargerði og upprunalegir gluggar séu austarlega á suðurgafli húsanna. Sú breyting að setja tvo glugga á umrætt hús samræmist því ekki því markmiði deiliskipulagsins að varðveita upprunaleg útlits­einkenni og samræmi milli húsanna.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út 26. júní 2018. Engin gögn benda til þess að kærandi hafi vitað eða mátt vita um tilvist þess fyrr en framkvæmdir hófust. Fyrstu skráðu samskipti kæranda og Reykjavíkurborgar eru með tölvupóstum frá 21. júní 2019, en í þeim vísar kærandi til símtals þann sama dag og segist munu senda byggingarfulltrúa mótmæli. Kærandi var upplýstur um kæruheimild til „úrskurðarnefndar“ 27. s.m. Kærandi kveður framkvæmdir hafa hafist 10. júní 2019, en kæra í máli þessu barst nefndinni 5. júlí s.á. Verður því við það að miða að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni innan mánaðar frá því að kærandi varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hið kærða byggingarleyfi í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá var endanlegt byggingarleyfi samþykkt af byggingarfulltrúa 2. júlí 2019. Kæra þessi er því fram komin innan kærufrests og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndar­kynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag ef deiliskipulag liggi ekki fyrir. Í gildi er deiliskipulag Heiðargerðisreits sem samþykkt var í borgarráði 19. júní 2003 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí s.á. Var því ekki þörf á að grenndarkynna hið umdeilda byggingarleyfi.

Í deiliskipulagi Heiðargerðisreits eru svokallaðir viðbyggingarreitir hverrar lóðar skil­greindir. Þannig kemur fram að á lóðinni Heiðargerði 29 er m.a. heimilt að reisa tveggja hæða viðbyggingu, merkt C, við suðvesturhorn hússins. Verður því ekki fallist á með kæranda að viðbyggingin sem slík sé í andstöðu við deiliskipulag svæðisins. Þrátt fyrir að mælt sé fyrir um að taka skuli mið af húsakönnun í skilmálum deiliskipulags getur almennt orðalag þess efnis að hús skuli færð nær upprunalegri gerð ekki gengið framar skýrri heimild til að byggja viðbyggingu við Heiðargerði 29. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif umræddra framkvæmda verði önnur og meiri en búast hafi mátt við samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags. Að þessu virtu verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinu kærða byggingarleyfi sem leitt geti til ógildingar þess.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. júní 2018 vegna hússins nr. 29 við Heiðargerði.

8/2020 Dýraspítalinn í Víðidal

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2020, kæra vegna eftirlits með bálförum gæludýra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hamrakór 9, Kópavogi, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vegna eftirlits með bálförum gæludýra. Gerir kærandi m.a. þá kröfu að skorið verði úr því hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna. Jafnframt er Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis kært fyrir að vísa ekki í gilt starfsleyfi til brennslu gæludýra í umdæminu. Loks er Dýraspítalinn í Víðidal kærður fyrir ætlaða sviksemi í þjónustu sinni við gæludýraeigendur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. mars 2020.

Málsatvik: Hinn 27. desember 2019 fór kærandi með hund sinn í aflífun til Dýraspítalans í Víðidal. Samkvæmt gögnum málsins borgaði kærandi fyrir sérbrennslu og þar til gert box fyrir ösku. Kærandi sendi fyrirspurn með tölvupósti 30. s.m. til Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur og spurðist fyrir um hvort dýraspítalinn hefði starfsleyfi til bálfara eða fyrir bálstofu gæludýra. Var honum svarað því til að dýraspítalinn hefði gilt starfsleyfi. Bálstofan væri ekki tiltekin sérstaklega í því en væntanlega hefði verið litið svo á að hún félli þar undir. Brennsluofninn og skráningar sættu skoðun í reglubundnu eftirliti með starfsemi dýraspítalans. Kærandi sendi tölvupóst að nýju til eftirlitsins 2. janúar 2020 þar sem farið var fram á að það kannaði hvort brennsluofninn á dýraspítalanum hefði verið notaður á tímabilinu frá 28. desember 2019 til 6. janúar 2020. Vísaði kærandi til þess að hann hefði borgað 50.000 kr. fyrir förgun á hundinum sínum, en samkvæmt upplýsingum frá sorpeyðingarstöðinni Kölku í Reykjanesbæ brenni þeir gæludýr fyrir Dýraspítalann í Víðidal fyrir u.þ.b. 2.000 kr. Tiltók kærandi og að hann hefði ekki séð ofn dýraspítalans virkjaðan eða í gangi á tilgreindu tímabili.

Heilbrigðiseftirlitið svaraði erindi kæranda með tölvupósti 22. janúar 2020. Var vísað til þess að í reglubundnu eftirliti undanfarin ár hefði verið staðfest að brennsluofn dýraspítalans væri eingöngu starfræktur á nóttinni. Sjálfvirk tíma­stýring væri á ofninum. Dagbrennsla hefði ekki farið fram síðan árið 2016. Samhliða var kærandi í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í þeim tilgangi að fá felld niður gjöld ársins 2020 vegna hundsins og krafðist hann þess jafnframt að kannað yrði hvort dýraspítalinn hefði látið bálför dýrsins fara fram hjá Kölku, Reykjanesbæ. Var honum svarað svo með tölvupósti 21. janúar 2020 að samkvæmt eftirgrennslan eftirlitsins væri dýraspítalinn með brennsluofn og sæi sjálfur um brennslu. Þá var kæranda tilkynnt að reikningur vegna gjalda ársins 2020 hefði verið felldur niður.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tilgangur kærunnar sé að fá úr því skorið hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna fyrir gæludýr eða hvort bálfaraofnar á þeirra vegum séu skraut til að blekkja gæludýraeigendur til að borga okurverð fyrir þjónustu sem sé ekki framkvæmd af þeim sjálfum heldur sorpbrennslustöðum annars staðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er farið fram á frávísun málsins þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin af hálfu eftirlitsins og því sé engin kæranleg ákvörðun fyrir hendi. Heilbrigðiseftirlitið vísar til þess að dýraspítalar séu starfsleyfis- og eftirlitsskyldir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum byggðum á lögunum sem eigi við um slíka starfsemi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi eftirlit með Dýra­spítalanum í Víðidal og sé hann með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hafi verið endurnýjað 20. apríl 2010, og gildi það til 20. apríl 2022. Kalka á Suðurnesjum sé rekin á starfsleyfi útgefnu af Umhverfisstofnun. Dýraspítalanum beri að meðhöndla úrgang á fullnægjandi hátt, þ.m.t. geymslu, flutning og förgun hans. Dýra­hræjum sé ýmist fargað á urðunarstaðnum í Álfsnesi eða þau brennd í brennsluofni á staðnum að ósk eigenda dýranna. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki eftirlit með þjónustu Dýraspítalans við brennslu á einstökum dýrum og beri ekki skylda til að hafa eftirlit með afdrifum einstakra dýra sem send séu til brennslu á Dýraspítalanum eða fargað á annan hátt að öðru leyti en því að skráningar yfir fjölda brennsla í brennsluofni og kvittanir fyrir förgun á dýrahræjum í Álfsnesi séu skoðaðar í reglubundnu eftirliti. Ekki hafi verið gerð athugasemd við meðferð og förgun dýrahræja undanfarin ár, en krafist hafi verið ítarlegri skráningar á brennslu dýrahræja, þ.e. fjölda dýra og þyngd, við eftirlit 31. ágúst 2016. Búið hafi verið að bæta úr því við síðasta eftirlit 1. nóvember 2018. Vegna kvartana um ólykt frá brennsluofni hafi brennsla dýrahræja aðeins farið fram á nóttunni síðustu ár.

Haft hafi verið samband við forsvarsmenn Dýraspítalans í kjölfar kærunnar og hafi engar breytingar orðið á meðferð og förgun dýrahræja frá síðasta eftirliti. Heilbrigðiseftirlitið hafi yfirfarið skráningar og komi þar fram að hundur kæranda hafi verið brenndur með sérbrennslu á Dýraspítalanum í Víðidal 28. desember 2019.

—–

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja var upplýst að það hefði enga aðkomu að þessu máli, enda hefði það hvorki eftirlit með sorpeyðingarstöðinni Kölku né Dýraspítalanum í Víðidal.

—–

Niðurstaða: Starfsemi dýraspítala er starfsleyfisskyld skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og V. viðauka laganna, og skal starfsleyfi til þeirrar starfsemi gefið út af heilbrigðisnefnd, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 54. gr. sömu laga fer fram eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta. Kæruheimild er að finna í 65. gr. laganna þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Kærandi gerir einkum að ágreiningsefni hvernig staðið hafi verið að brennslu gæludýrs hans af hálfu dýraspítala sem hann leitaði til um þá þjónustu. Ágreiningur þeirra á milli er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til og því er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að fjalla um hann.

Kærandi leitaði jafnframt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem eftirlitsaðila með starfseminni og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var hann upplýstur um að fyrir lægi gilt starfsleyfi fyrir henni sem jafnframt tæki til brennsluofns. Einnig var kærandi upplýstur um að reglulegt eftirlit færi fram með starfseminni. Í kjölfar kæru hefur eftirlitið yfirfarið skráningar dýraspítalans þar sem fram kemur að hundur kæranda hafi verið brenndur þar með sérbrennslu 28. desember 2019. Aðspurt upplýsti Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis einnig að dýraspítalinn hefði starfsleyfi og að þar væri sinnt brennslu. Jafnframt felldi eftirlitið niður gjöld vegna hundahalds kæranda 2020. Verður ekki séð af þessari atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, sbr. og 1. gr. laga nr. 130/2011, eða skv. almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kom Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki að málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

95/2019 Pizza-Pizza

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis frá 22. ágúst 2019, þess efnis að viðskiptavinir hafi greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla fari fram á staðnum, en að öðrum kosti skuli svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum sé óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

                                                                        úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Pizza-Pizza ehf., Lóuhólum 2-6, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 22. ágúst 2019 að „viðskiptavinir skuli hafa greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla fari fram á staðnum að öðrum kosti skuli svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum sé óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.“ Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 30. október 2019.

Málsatvik: Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis framkvæmdi eftirlit á tveimur sölustöðum kæranda í Kópavogi og tveimur í Hafnarfirði í mars, apríl og maí 2019. Í skoðunarskýrslum sem gerðar voru í kjölfar eftirlitsins, dags. 8. apríl 2019 og 17., 20. og 21. maí s.á., voru m.a. skráð samhljóða frávik vegna þess að í biðaðstöðu staðanna væru borð og stólar en engin snyrting. Í afgreiðslusölum fyrirtækisins væru borð og stólar fyrir viðskiptavini en samkvæmt reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti flokkaðist fyrirtækið þá sem veitingastaður. Samkvæmt 31. gr. reglugerðarinnar skyldu viðskiptavinir því hafa greiðan aðgang að salerni. Var í skoðunarskýrslunum þess krafist að fyrirtækið fjarlægði alla stóla og öll borð úr afgreiðslusölum eða kæmi upp viðeigandi fjölda salerna fyrir gesti. Fram kom að tímasetta úrbótaáætlun ætti að senda til heilbrigðiseftirlitsins innan tveggja vikna. Eftirfylgni við hana yrði metin og tekið fram að öllum úrbótum skyldi lokið innan þriggja mánaða.

Í framhaldi af skilum á skoðunarskýrslum áttu frekari samskipti sér stað milli kæranda og heilbrigðiseftirlitsins. Í tölvupósti kæranda 3. júní 2019 kom fram að skilningur fyrirtækisins væri sá að heimilt væri að vera með stóla í umræddum verslunum þar sem þeir væru hugsaðir sem stólar fyrir biðstofu. Í svarpósti heilbrigðiseftirlitsins frá 4. s.m. kom fram að samkvæmt 16. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skyldu viðskiptavinir veitingastaða eiga greiðan aðgang að snyrtingu. Skilgreiningu veitingastaða væri að finna í 18. gr. reglugerðarinnar og þar væri umrædd starfsemi, veitingasala, skilgreind sem staðir þar sem fram færi sala veitinga sem ekki væru til neyslu á staðnum enda væri slík sala meginstarfsemi staðarins. Túlkun eftirlitsins á fyrrgreindum ákvæðum væri sú að ef stólar, háir eða lágir, væru á staðnum og viðskiptavinir notuðu þá til að tylla sér á meðan þeir borðuðu það sem væri til sölu á staðnum skyldi staðurinn bjóða upp á salerni fyrir viðskiptavini, annars þyrfti að fjarlægja stólana. Kærandi spurði þá samdægurs hvort heimilt væri að taka borðin niður en vera með lágan bekk sem fólk gæti tyllt sér á meðan það biði eftir pizzu sem það væri að sækja. Í svari heilbrigðisfulltrúa kom fram að það væri í lagi þeirra vegna og var tekið fram að eftirlitið væri ekki á móti því að fólk fengi að setjast niður þegar það væri að bíða eftir afgreiðslu.

Með bréfi, dags. 6. ágúst 2019, mótmælti kærandi fyrrgreindu svari eftirlitsins og sérstaklega þeirri fullyrðingu í skoðunarskýrslum að staðurinn flokkaðist sem veitingastaður skv. reglugerð nr. 941/2001 fyrir þær sakir eingöngu að þar væru staðsettir stólar á biðstofu. Benti kærandi á skilgreiningu 3. gr. reglugerðarinnar á veitingastað og tók fram að hann teldi að ljóst mætti vera að matur væri ekki framreiddur á stöðum sínum til neyslu á staðnum. Óskaði kærandi eftir að dregin yrði til baka krafa um að fyrirtækið fjarlægði stóla og borð og að ekki kæmu frekari athugasemdir þess efnis í skoðunarskýrslum. Í svarbréfi  heilbrigðiseftirlitsins, dags. 22. ágúst 2019, kom fram að uppsetning stóla og borða á afgreiðslustöðum kæranda gæfi tilefni til að hægt væri að neyta veitinga á staðnum og því væri það skýlaus réttur viðskiptavina fyrirtækisins að hafa aðgang að salerni á staðnum, enda væri sú krafa sett fram til að viðskiptavinir gætu tryggt sig með smitvörnum, þ.e. handþvotti. Ítrekaðar væru fyrri kröfur um að viðskiptavinir skyldu hafa greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla færi fram á staðnum að öðrum kosti skyldi svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum væri óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum. Var bent á að sætti aðili sig ekki við þessa afgreiðslu mætti vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem kærandi og gerði, svo sem áður greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur lagaskilyrði hafa skort fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi sé því mótmælt hve mikill greinarmunur sé gerður á því hvort til staðar séu stólar og borð eða eingöngu stólar. Í verslunum kæranda hafi um margra ára skeið verið staðsettir stólar og/eða sófar ásamt borðum, sem hafi verið ætlaðir fyrir viðskiptavini sem bíði eftir því að sækja mat á staðnum. Önnur notkun sé í sjálfu sér ekki beinlínis bönnuð, enda hafi kærandi ekki litið svo á að slík boð sé hlutverk hans. Verslanir kæranda tilheyri flokknum veitingaþjónusta og veitingaverslun skv. d-lið 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, enda fari þar fram sala veitinga sem ekki sé til neyslu á staðnum. Þótt hægt sé að neyta veitinga á staðnum þá mótmæli kærandi því að sú staðreynd leiði ein og sér til þess að verslanir kæranda flokkist sem veitingastaðir í skilningi reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti með þeim kröfum um aðgengi að salerni sem því fylgi. Veitingastaðir séu skilgreindir í 3. gr. reglugerðarinnar sem staðir þar sem framreiddur sé matur og/eða drykkur til neyslu fyrir viðskiptavini á staðnum, þar með talin mötuneyti, skyndibitastaðir og söluskálar. Í tilviki kæranda sé ekki miðað við neyslu á staðnum og eigi því tilvitnun til 31. gr. þeirrar reglugerðar ekki við.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Af hálfu eftirlitsins er bent á að hin umdeilda krafa þess styðjist við skýr ákvæði laga og reglugerða. Samkvæmt reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald falli umræddir staðir undir að vera veitingastaðir. Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar eigi viðskiptavinir veitingastaða að hafa greiðan aðgang að salerni. Í ákvæðinu sé hvorki gerður greinarmunur á flokki né tegund veitingastaða. Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar vikið frá þeim kröfum þar sem ekki sé aðstaða til neyslu veitinga á grundvelli túlkunar Umhverfisstofnunar á reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Krafan sé gerð til að viðskiptavinir veitingastaða geti tryggt sig með einni mikilvægustu smitvörn sem hægt sé að treysta, þ.e. aðgengi að handþvotti. Í leiðbeiningum frá landlækni um sýkingarvarnir almennt sé fullyrt að handþvottur sé mikilvægasta sýkingarvörn sem hægt sé að viðhafa.

Niðurstaða: Samkvæmt 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt lögunum eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni kærumáls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til kæranda, dags. 22. ágúst 2019, þar sem áréttuð er krafa eftirlitsins sem gerð var í skoðunarskýrslum um að viðskiptavinir þeirra staða sem eftirliti sættu skyldu eiga greiðan aðgang að salerni þegar neysla matvæla færi fram á staðnum og ef að slíkt væri ekki til staðar skyldi svo búið um hnútana að neysla matvæla á staðnum væri óheimil og borð fjarlægð af afgreiðslustöðum.

Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti var sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 til að stuðla að framkvæmd hollustuverndar. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að markmið hennar sé að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og samræma heilbrigðiseftirlit í landinu. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur til einstakra þátta sem þar er fjallað um. Eftirlit er skilgreint í 3. gr. hennar sem athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur. Samkvæmt sama ákvæði eru eftirlitsaðilar m.a. heilbrigðisnefnd, en síðan segir að heilbrigðisfulltrúi annist eftirlit í umboði þeirra. Heilbrigðisnefndir bera m.a. ábyrgð á heilbrigðiseftirliti og framkvæmd þess. Samkvæmt 60. gr. reglugerðarinnar nær heilbrigðiseftirlit m.a. til almennrar skoðunar á húsnæði, búnaði og umhverfi, töku sýna og skoðunar á skráðu og skjalfestu efni, ásamt því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd er falið. Eftirlitsaðili skal gera eftirlitsskýrslu og afhenda rekstraraðila, sbr. 63. gr. Komi fram í eftirlitsskýrslu að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga, reglugerða eða starfleyfis, skal eftirlitsaðili að jafnaði gefa rekstraraðila kost á að tjá sig um efni skýrslunnar innan hæfilegs frests. Telji eftirlitsaðili, að liðnum þeim fresti, að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfa getur eftirlitsaðili gripið til þvingunarúrræða. Loks kemur fram í 70. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um þvingunarúrræði, að telji eftirlitsaðili eftir að rekstraraðila hafi verið gefinn kostur á að koma að andmælum sínum, sbr. 63. gr., að ekki sé fylgt eftir ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfis geti hann veitt rekstraraðila skriflega áminningu og krafist úrbóta innan tiltekins frests. Skuli í áminningu sérstaklega geta afleiðinga sé úrbótum ekki sinnt innan tiltekins frests.

Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr., eins og hún var orðuð á þeim tíma sem eftirlit með stöðum kæranda fór fram og skoðunarskýrslur voru gerðar, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum, t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Ákvæðinu var breytt með 15. gr. breytingalaga nr. 58/2019 og er heimildin nú bundin við Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, sem veitt geta viðkomandi aðila áminningu og jafnframt veitt hæfilegan frest til úrbóta ef hans er þörf. Þá segir í 1. mgr. 61. gr. að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt.

Líta verður svo á að umrætt bréf heilbrigðiseftirlitsins til kæranda frá 22. ágúst 2019 feli í sér áréttingu á túlkun eftirlitsins á gildandi lögum og reglum og á þeirri skoðun að frá þeim hafi verið vikið af hálfu kæranda, eins og fram kom í skoðunarskýrslum. Í bréfinu verður hins vegar ekki talin felast sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem leggur rekstraraðila á herðar skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfinu kemur hvorki fram ákveðinn frestur til úrbóta, svo sem bæði lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 941/2002 gera ráð fyrir, né að beitt verði þvingunarúrræðum ef ekki verði brugðist við þeim tilmælum sem komi þar fram. Af því leiðir að krafa sú sem fram kemur í bréfinu felur ekki í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilmæli og áréttingu um úrbætur. Kæruheimild vegna slíkra tilmæla fyrirfinnst ekki, enda eru þau einungis skref í átt að beitingu frekari úrræða, sem eftir atvikum væru kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þykir styðja þá niðurstöðu að heilbrigðiseftirlitið hefur skráð sams konar frávik við reglubundið eftirlit með umræddum stöðum kæranda í það minnsta frá árinu 2016 án þess að til frekari aðgerða, s.s. áminningar eða dagsekta, hafi komið. Verður máli þessu, með vísan til framangreinds, því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.