Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

110 og 125/2020 Gufunesviti

Árið 2020, föstudaginn 11. desember fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2020, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 56, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Hamrahverfis og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða. Gerð er krafa um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Í tölvupósti 17. nóvember s.á. gerir hann jafnframt þá kröfu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2020, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Leiðhömrum 54, sömu ákvarðanir. Þar sem kæran varðar sömu ákvarðanir, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 125/2020, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag Hamrahverfis sem tók gildi 1985. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Reykjavíkur 2. október 2019 var samþykkt deili­skipulagsbreyting fyrir svæðið án grenndarkynningar eða auglýsingar, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með deiliskipulagsbreytingunni sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019 var skipulagssvæðið stækkað og mörk þess færð til norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Kveðið var á um að tvö möstur með innsiglingarmerkjum yrðu fjarlægð og í stað þeirra sett nýtt innsiglingarmastur með innsiglingarmerki fyrir nýja innsiglingalínu sem hliðrað væri til um 105 m til norðausturs frá þeirri sem fyrir var. Með deiliskipulagsbreytingu sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2020 var gert ráð fyrir að mastrið með siglingamerkinu yrði um 15 m hátt í stað 10 m og akslóði að því gerður varanlegur en ekki tímabundinn eins og gert var ráð fyrir í fyrri deiliskipulagsbreytingu. Hefur þeirri skipulagsbreytingu ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. ágúst 2020 var tekin fyrir og samþykkt umsókn Faxaflóahafna um leyfi til að koma fyrir mastri með innsiglingamerki á Gufuneshöfða. Byggingarleyfi var gefið út 2. október s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að ríkar takmarkanir gildi um hvað og hvernig megi byggja á Gufuneshöfða. Nauðsynlegt sé að stíga varlega til jarðar og að væntan­legar breytingar á deiliskipulagi séu kynntar vel og vandlega fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum, bæði stofn­unum sem og nágrönnum. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­­mála beri að túlka ákvæði skipulagslaga svo að skyldan til grenndarkynningar sé mjög rík.

Gerðar hafi verið tvær breytingar á deiliskipulagi Gufuneshöfða. Fyrri breytingin hafi falið í sér að fjarlægja skyldi innsiglingamerki við Gufuneshöfða og koma fyrir nýju innsiglingamerki um 105 m til norðausturs, vestan Leiðhamra/Krosshamra. Við þessa breytingu hafi deili­skipulagssvæðið verið stækkað og mörk þess færð norðvestur yfir hverfisverndarsvæði Gufuneshöfða að strandsvæði. Þar hafi komið fram að uppdrættir hafi hlotið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þessi breyting hafi ekki verið grenndarkynnt. Seinni breytingin hafi falið í sér að leyfileg hæð masturs yrði 15 m í stað 10 m ásamt því að akfær slóði yrði varanlegur en ekki tímabundinn. Þessi breyting hafi verið grenndarkynnt frá 27. apríl til 25. maí 2020.

Hafi hækkun á mastrinu og breyting á slóða verið grenndarkynnt en ekki ný staðsetning, sem hafi jafn mikil ef ekki meiri áhrif á útsýni og notkun svæðisins fyrir íbúa hverfisins. Það sé því skýrt brot á 43. og 44. gr. skipulagslaga. Fari kærendur því fram á að byggingarleyfi fyrir mastrið sem gefið hafi verið út á grundvelli deiliskipulags sem hafi ekki fengið rétta efnislega meðferð verði fellt úr gildi, og sömuleiðis deiliskipulagsbreytingin frá 2019.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að hið umþrætta byggingarleyfi sé í fullu samræmi við breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða þar sem heimild liggi fyrir að reisa mastur á svæðinu fyrir innsiglingamerki. Sérstaklega skuli á það bent að kærendur geri ekki neinar efnislegar athuga­semdir við byggingarleyfið sjálft, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess.

Kærufrestur sé liðinn vegna gildistöku tveggja breytinga á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna Gufuneshöfða og beri því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Viðbótarathugasemdir annars kærenda: Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 7/2019 um að undanþágur frá reglum um deiliskipulagsbreytingar beri að túlka þröngt, þar með taldar undanþágur frá grenndarkynningu. Deiliskipulagsbreyting sem tók gildi með auglýsingu nr. 1002/2019 í B-deild Stjórnartíðinda hafi ekki verið grenndarkynnt. Þar af leiðandi hafi hagsmunaaðilum ekki verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir við nýja staðsetningu á innsiglingarmastrinu, aðkomu að því og hæð. Hinn 24. september 2019 hafi Umhverfisstofnun skilað skýrslu til Faxaflóahafna þar sem meðal annars hafi komið fram: „að mati Umhverfisstofnunar mun innsiglingamerkið hafa áhrif á ásýnd svæðisins og geti haft neikvæð áhrif á verndargildi hverfisverndarsvæðisins og náttúruminjar.“ Enn fremur hafi staðið í skýrslunni: „Þar sem framkvæmdarsvæðið er tiltölulega óraskað leggur Umhverfisstofnun til að raski verði haldið í lágmarki og við framkvæmdir svo sem vegaframkvæmdir verði gróður­torfur lagðar til hliðar þegar það á við og þeim komið fyrir á yfirborði í lok frágangs til að draga úr neikvæðum áhrifum á gróður. Í greinargerð kemur fram að gengið verður frá þeim svæðum þar sem mastur eru fjarlægð á þann veg að ummerki hverfi með uppgræðslu og skal notast við staðargróður í þeim tilgangi. Umhverfisstofnun telur heppilegast að notast sé við lyngmóavist og grasengjavist og forðast sé að nota lúpínu við uppgræðslu.“

Nokkuð ljóst þyki að nægur tími hafi verið til að kynna væntanlegar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu sem og notendum svæðisins og óska eftir athugasemdum og að samkvæmt ofan-töldum athugasemdum beri að túlka áhrif breytinganna á umhverfið sem allverulegar og þar af leiðandi sé enn ríkari ástæða til að kynna þær fyrir nágrönnum og eðli málsins samkvæmt hafi málsmeðferðin jafnframt áhrif á kærufrestinn og undanþágur vegna hans.

Heimilt sé að víkja frá tímamörkum um kærufrest í ákveðnum tilfellum og það beri að túlka kærufrest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem ár frá því að kæranda hafi verið tilkynnt eða hann upplýstur um málið, sbr. úrskurð í máli nr. 36/2020. Kærandi hafi fengið staðfestingu á deiliskipulagsbreytingunni þegar svar hafi borist frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar við athugasemdum við seinni deiliskipulagsbreytinguna 8. júlí 2020. Þessi kæra sé vel innan tímamarka miðað við þá dagsetningu og því sé gerð sú krafa að úrskurðarnefnd taki málið til efnislegrar meðferðar.

Af meðfylgjandi myndum megi sjá að heilmikill munur sé á aðkomu að núverandi innsiglingar­merki og að byggingarsvæði nýja innsiglingarmerkisins. Slóðinn að byggingarsvæðinu sé uppbyggður vegur, ekki jöfnuð jörð til að auðvelda aðkomu ökutækja að svæðinu. Það virðist því vera að byggingaraðilar hafi farið fram úr sér hvað gerð og staðsetningu slóðans varði, það megi meðal annars sjá þegar bornar séu saman myndir af vettvangi og lýsing í skýrslu Umhverfisstofnunar sem og byggingarleyfið sjálft.

Varðandi byggingarleyfið þá sé það byggt á deiliskipulagi sem hafi ekki farið rétta leið í kerfinu, þar af leiðandi beri að fella það úr gildi. Að auki hafi ekki verið rökstutt nægjanlega af hverju það þurfi varanlegan slóða að innsiglingarmerkinu, af hverju það þurfi að vera 15 m á hæð, samtals 51 m yfir sjávarmáli, hvað ljósmerkið þurfi að ná langt út á sjó og nauðsynlega hæð yfir sjávarmáli til að ná þeirri drægni.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Auglýsing um gildistöku eldri deiliskipulagsbreytingarinnar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. nóvember 2019. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 21. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 6. og 20. nóvember 2020 eða tæpum 11 mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kæru­fresti. Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni. Sú ákvörðun sem deilt var um í máli nr. 36/2020 sem kærandi vísar til sætti ekki opinberri birtingu. Eiga því ekki sömu sjónarmið við og í þessu kærumáli.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir að reist verði 15 m hátt mastur með búnaði efst með stefnuvirkandi ljósi. Þá er heimiluð lagning akfærs aðkomuslóða að mastrinu frá útivistarstíg sem liggur vestan íbúðarbyggðar. Ekki verður annað séð en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og málsmeðferð þess hafi verið í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki. Verður kröfu um ógildingu þess af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. ágúst 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir innsiglingarmastri við Gufuneshöfða.

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 2. október 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis er vísað frá úrskurðar­nefndinni.