Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

108/2020 Hverfisgata

Árið 2020, föstudaginn 4. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hverfisgötu 73, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73. Var byggingarleyfi gefið út 12. október 2020. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. nóvember 2020.

Málavextir: Á svæði því sem lóðin Hverfisgata 73 tilheyrir er í gildi deiliskipulag Skúlagötu­svæðis sem samþykkt var 13. maí 1986. Með umsókn, dags. 28. maí 2018, var sótt um breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í henni fólst að heimilt yrði að hækka hús á lóðinni og stækka til norðurs, setja kvisti á norður- og suðurhlið þess og svalir á fyrstu hæð og rishæð samkvæmt uppdráttum. Einnig lá fyrir samþykki með­lóðarhafa, dags. 29. júní 2018. Var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og samgöngu­ráðs sem samþykkti að auglýsa framlagða skipulagstillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst frá 27. júlí 2018 með athugasemdarfresti til 13. september s.á., en engar athugasemdir bárust. Tillagan var samþykkt á embættis­afgreiðslu­­fundi skipulags­fulltrúa 21. september 2018 með vísan til heimilda skv. viðauka 2.4. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. Auglýsing um samþykkt deiliskipulags­breytingar­innar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2018.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 var samþykkt byggingar­leyfisumsókn um að byggja viðbyggingu og endurnýja matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 með vísan til fyrrgreindrar breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Umsókninni fylgdi umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 2. janúar 2019. Byggingarleyfi var síðan gefið út 12. október 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hann eigi í óskiptri sameign með byggingar­leyfishafa baklóð þá við Hverfisgötu sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi nú heimilað framkvæmdir á, auk þess sem hann eigi hlut í húsi því sem standi við Hverfisgötu 73. Hann hafi samþykkt byggingaráform byggingarleyfishafa fyrir sitt leyti á fyrri stigum málsins. Samþykkið hafi hann þó dregið afdráttarlaust til baka 25. ágúst 2020 þegar hann hafi gert sér grein fyrir því að áætlanir leyfishafa hafi verið langt umfram það sem hann hafi gert sér grein fyrir. Haft hafi verið samband við embætti byggingarfulltrúa og póstur sendur 25. ágúst s.á. þar sem gerð hafi verið skýr grein fyrir málsástæðum og afturköllun samþykkisins. Af einhverjum ástæðum hafi þó starfsmenn byggingarfulltrúa ekki komið mótmælum og afturkölluninni í málið. Eins og lesa megi af tölvupóstinum sé sérstaklega farið fram á að embætti byggingar­fulltrúa upplýsi um framgang málsins en það hafi hann ekki gert. Þvert á móti hafi hann beinlínis lagt sig fram um að veita ekki upplýsingar og svara ekki erindum kæranda.

Með því að heimila leyfishafa að byggja á lóð kæranda gegn vilja hans sé verið að brjóta gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti sem verði ekki gert bótalaust. Þá komi fram í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 meginreglur um samskipti stjórnvalda við borgarana, t.a.m. að stjórnvald eigi að svara erindum. Í 24. gr. laganna segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í máli því sem hér sé kært hagi einmitt svo til að ákvörðun byggingarfulltrúa byggi á röngum upplýsingum, þ.e.a.s. að fyrir liggi í málinu samþykki lóðareiganda. Það sé hins vegar rangt og hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Ein af meginreglum íslensks skaðabótaréttar hafi lengi verið að takmarka skuli tjón eins og frekast sé unnt. Í málinu sé ljóst að byggingarfulltrúi hafi ekkert gert eða aðhafst til þess að takmarka tjón. Ljóst sé að eftir því sem tíminn líði og byggingarframkvæmdir haldi áfram því meira verði tjónið. Kjarni málsins sé því sá að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að veita byggingarleyfi á lóð í eigu kæranda gegn vilja hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að kært byggingarleyfi sé samþykkt og gefið út í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br. Áður en til útgáfu byggingarleyfis hafi komið hafi byggingarfulltrúa borist undirritað samþykki meðeiganda, dags. 29. júní 2018. Bent sé á að byggingaráform hafi verið samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. apríl 2019 en byggingarleyfi gefið út 12. október 2020.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að þau hafi frá upphafi haft samráð við kæranda. Hafi hann ekki sett sig upp á móti framkvæmdunum til þessa. Þvert á móti hafi hann stutt byggingaráformin enda séu þau honum til hagsbóta þar sem hann muni eignast sér inngang inn í fasteign sína og þurfi ekki lengur að búa við það að leyfishafar nýti sér kvöð um inngang í gegnum fasteign hans. Þá séu breytingarnar til þess fallnar að viðhalda og fegra friðaðan timburhúsareit í borginni og hafi þær allar verið unnar í nánu samstarfi við Minjastofnun.

Kærandi hafi allt frá því deiliskipulagsbreytingar voru auglýstar í júlí 2018 haft tækifæri til að koma að athugasemdum vegna málsins. Það hafi hann ekki gert fyrr en byggingarleyfið hafi verið gefið út. Þau rök að kæranda hafi ekki gert sér grein fyrir áætlunum byggingarleyfishafa dugi skammt enda hafi umfang framkvæmdanna komið fram í deiliskipulagi frá 21. september 2018 og kæranda því fullkunnugt um þær. Að lokum sé bent á að um sé að ræða eignarlóð sem sé að hluta til séreign og að hluta sameign, sbr. eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2003. Framkvæmdirnar séu innan þess hluta sem leyfishafar telji sína séreign. Ekki fáist séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal eftir atvikum fylgja umsókn um byggingarleyfi samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Þá tilkynnir byggingarfulltrúi samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga um samþykkt byggingar­áforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Jafnframt er tekið fram í 13. gr. að eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Skúlagötusvæðis frá árinu 1986. Samþykkt var breyting á nefndu skipulagi 21. september 2018 vegna lóðarinnar nr. 73 við Hverfisgötu. Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að auka þakhæð timburhúss á lóðinni og byggja kvisti í samræmi við aldur og byggingarstíl þess. Heimilt sé að hækka húsið með því að portbyggja rishæðina og einnig sé heimilt að byggja kvist á þak báðum megin. Gert sé ráð fyrir að byggja tvílyfta viðbyggingu til norðurs og færa inngang á suðurhlið hússins. Þar er nánar lýst skilmálum, s.s. að byggja megi allt að 25 m² viðbyggingu við húsið innan byggingarreits til norðurs og að leita þurfi umsagnar Minjastofnunar um breytingarnar. Hámarksbyggingarmagn lóðarinnar fari í 263,9 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 1,0. Í greinargerðinni eru einnig skýringarmyndir, s.s. götumyndir og lóðarmynd eftir heimilaðar breytingar.

Byggingaráform vegna hinna umdeildu framkvæmda voru samþykkt 16. apríl 2019 og byggingar­­leyfi gefið út 12. október 2020. Á árituðum aðaluppdráttum kemur m.a. fram að fyrirhuguð stærð eftir breytingar verði 242,8 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,94. Í byggingar­lýsingu er tiltekið að byggingin sé innan skilmála skipulagsyfirvalda um hámarkshæð og stærðir. Þak verði rifið og bætt við nýrri léttri portbyggðri rishæð. Viðbygging verði steyptur kjallari, einangraður að innan, sökkull og plata, en efri hæð verði létt timburbygging og timbur­svalir. Liggur ekki annað fyrir en að samþykkt byggingaráform og útgefið byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Kærandi samþykkti fyrrgreinda breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir sitt leyti með áritun sinni á deiliskipulagsuppdrátt, dags. 22. maí 2018. Svo sem að framan hefur verið rakið er að finna nákvæma lýsingu í greinargerð skipulagsbreytingarinnar á því hvað sé heimilað að byggja á lóðinni og hversu mikið. Þá er þar jafnframt að finna skýringarmyndir sem sýna á myndrænan hátt heimilaðar breytingar á lóðinni. Verður því ekki önnur ályktun dregin en að með umdeildu samþykki hafi kærandi fallist á fyrirhuguð byggingaráform leyfishafa í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, en það samþykki lá fyrir við samþykki umsóknar um hið kærða byggingarleyfi. Tekið skal fram að það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til gildis afturköllunar samþykkis kæranda. Það álitaefni ræðst af túlkun reglna samningaréttar og verður eftir atvikum til lykta leitt fyrir dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hin kærða ákvörðun sé haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. apríl 2019 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu og endurnýjun matshluta 02 í húsinu að Hverfisgötu 73 í Reykjavík.