Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2020 Mjallargata

Árið 2020, föstudaginn 27. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar á umsókn um stöðuleyfi fyrir einn 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Snerpa ehf., afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar á umsókn fyrirtækisins um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bak við bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Er þess krafist að skipulags- og mannvirkjanefnd verði gert að fallast á að tilvist gámsins sé til að geyma nauðsynlegt ljósleiðarefni og að geymsluhúsnæði fyrir atvinnustarfsemi í næsta nágrenni sé ekki í boði. Þá er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 18. nóvember 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 30. júlí 2020, sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Í umsókninni kom fram að gámurinn væri kominn á staðinn og hefði staðið þar skemur en í tvo mánuði.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. ágúst 2020 var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar umsókn á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði. Gámurinn skal fjarlægður fyrir 30. september 2020.“ Kæranda var tilkynnt um synjunina með tölvupóst 31. ágúst s.á.

Með bréfi, dags. 25. september 2020, óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Málið var tekið fyrir á fundi skipulag- og mannvirkjanefndar 28. október s.á. og bókað að nefndin stæði við fyrri ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að erindi hans hafi verið synjað „á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði.“ Það sé rangt að lóðin sé á íbúðasvæði, heldur sé um blandaða byggð að ræða. Hins vegar sé rétt að öll Eyri á Ísafirði sé undir hverfisvernd. Ákvæði í hverfisvernd taki á engan hátt til stöðuleyfa fyrir geymslugáma. Lóðir á sama götureit og Mjallargata 5 séu allar með húsnæði skráð sem atvinnuhúsnæði nema lóð kirkju kaþólska safnaðarins. Kærandi hafi brugðist við með því að reifa ástæður umsóknarinnar nánar og óska eftir endurupptöku fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd. Vísað hafi verið til þess m.a. að nefndin hafi látið farast fyrir að rannsaka málið nægilega áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Með síðari afgreiðslu sinni hafi skipulags- og mannvirkjanefnd kosið að líta fram hjá öllum skýringum kæranda án nokkurs rökstuðnings fyrir ákvörðun sinni sem hljóti að ganga í berhögg við lögmætisregluna. Þá felist í afgreiðslunni sú mismunum að hafnað hafi verið umsókninni um stöðuleyfi en öðrum umsækjendum í sambærilegri stöðu hafi verið veitt slíkt leyfi.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um endurupptöku 28. október 2020 hafi engin afstaða verið tekin til málsraka kæranda og afgreiðsla á erindinu hafi ekki verið rökstudd. Skipulags- og mannvirkjanefnd hafi vísað til ákvörðunar skipulagsfulltrúa en hvergi komi fram að sá hafi komið að ákvarðanatöku í málinu. Ranglega hafi verið fullyrt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála myndi ekki fresta réttaráhrifum vegna synjunar stöðuleyfis.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hverfisvernd sé ekki sett fram í deiliskipulagi Eyrarinnar heldur sé hún sett fram í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sem H8, bæði á þéttbýlisuppdrætti og greinargerð.

Kærandi vísi til þess að nefndin og bæjarráð hafi ekki gætt ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1998 um andmælarétt og hvorki verið kynnt kæruúrræði né kærufrestur. Bætt hafi verið úr þessu og erindi kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju með synjun á sömu forsendum. Almenn umræða hafi verið um efnið og það sé ekki ætlast til þess að menn séu með geymslugáma í íbúðar- og/eða blandaðri byggð. Að einhverju leyti hafi þó verið vikið frá þessu í þeim tilfellum þar sem hafi verið staðið að endurbótum á húsnæði og þurft að vera  með vinnu- og/eða kaffigám. Um sé að ræða blandaða byggð, ekki iðnaðar- og atvinnusvæði. Umræddur gámur sé ætlaður til geymslu á keflum og öðrum aðföngum er tengist fyrirtæki í rekstri. Henti húsnæði ekki undir rekstur fyrirtækis sé e.t.v. kominn tími til að finna hentugra húsnæði m.t.t. þess reksturs.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að blönduð byggð feli í sér atvinnurekstur og atvinnusvæði. Það fylgi atvinnurekstri að það geti komið upp tímabundinn verkefni í rekstrinum sem krefjist aukins geymslupláss. Ekki sé hægt að ætlast til þess að rekstraraðilar byggi nýtt húsnæði þegar þörf fyrir geymsluplássi sé tímabundin og/eða menn vili tryggja að lausafé utandyra hindri ekki snjómokstur eða koma í veg fyrir að hætta geti stafað af foktjóni vegna þess. Í þessu sambandi henti umræddur gámur mjög vel og hann standi í stæði sem beinlínis sé ætlað undir geymslugám. Því sé ekki svarað af stjórnvaldinu hvort þau geti bent á annan hentugan stað fyrir gáminn.

Kærandi hafi nýverið skipt um húsnæði og aukið fermetrafjölda starfsemi sinnar um ríflega 50%. Ekki sé borið við húsnæðisskorti, enda komi það málinu ekki við. Leysa hafi þurft úr því að lausafé utandyra fengi viðunandi geymslu og mögulegt hafi verið að leysa þá þörf með því að leigja tímabundið hentugt húsnæði, en það hafi ekki verið í boði. Því hafi verið ákveðið að nota geymslugám, enda hafi hann verið fullnægjandi úrræði og hefð hafi verið fyrir gám á sama stað. Málið hafi verið rætt við skipulagsfulltrúa áður en gámnum hafi verið komið fyrir og kynnt að þarna hefði áður staðið gámur. Hafi verið í gildi stefna um að ekki skyldi veita stöðuleyfi í blandaðri byggð hafi skipulagsfulltrúa borið þá þegar að uppfylla leiðbeingar-skyldu um slíkt.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Mælt er fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki í 60. gr. þeirra og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni, það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis geti orðið án aðkomu byggingarfulltrúa, en auk þess er ekki í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið samkvæmt nefndu ákvæði.

Svo sem lýst er í málavöxtum tók skipulags- og mannvirkjanefnd á fundi sínum 26. ágúst 2020 ákvörðun um að synja umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir geymslugám og hafnaði því að endurupptaka málið á fundi 28. október s.á. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið neina ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki, eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Umsókn kæranda var því ekki afgreidd af þar til bæru stjórnvaldi. Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir þó rétt að vekja athygli á því að dragist hún eftir uppkvaðningu úrskurðar þessa getur kærandi skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kært óhæfilegan drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.