Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2019 Tangabryggja

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðu­-maður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2019, er barst nefndinni 8. s.m., kærir húsfélag Tangabryggju 13-15 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að byggingar­­­fulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, eftir að verktaki ljúki við bygginguna að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. nóvember 2019 og 2. og 28. apríl 2020.

Málavextir: Á árinu 2016 var sótt um byggingarleyfi til þess að byggja fimm hæða fjölbýlis­­-hús með 63 íbúðum á lóðinni nr. 18-24 við Tangabryggju, sem síðar var breytt í Tangabryggju 13-15. Umsóknin var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 14. mars 2017. Leyfishafi sótti þrívegis um breytingar á samþykktu byggingarleyfi og voru þær umsóknir samþykktar á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa dagana 23. janúar og 14. ágúst 2018 og 2. apríl 2019. Hinn 23. apríl 2019 sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa og óskaði eftir því að fá að koma að athugasemdum áður en lokaúttekt færi fram, sem hann og gerði. Með tölvupóstum 27. s.m. og 31. maí s.á. kom kærandi að frekari athugasemdum vegna loka­-úttektar. Lutu athugasemdir hans m.a. að því hvernig aðgengi og loftræsingu væri háttað. Hinn 20. maí s.á. sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til hlutaðeigandi aðila og upplýsti um að tekinn hefði verið frá tími fyrir lokaúttekt 5. júní 2019. Jafnframt tók byggingarfulltrúi fram að áður en boðað yrði til úttektar þyrftu tiltekin gögn að berast embættinu, þ. á m. staðfesting þess að bílastæði fyrir hreyfihamlaða stæðust kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skoðun á mannvirkinu fór fram 5. júní 2019 en endanleg lokaúttekt átti sér stað 21. s.m. Sama dag gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Í vottorðinu kemur fram að gögn sem hafi borist staðfesti að úrbótum hafi verið lokið vegna athugasemda sem gerðar hefðu verið í skoðun á mannvirkinu 5. s.m., en þær lutu einkum að brunavörnum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að markmið hennar sé að tryggja aðgengi fyrir alla. Samkvæmt gr. 6.2.4. skuli fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða vera við íbúðarhús með 63 íbúðir. Fjögur slík stæði séu til staðar en þau séu öll staðsett í læstri bílageymslu hússins. Samkvæmt sama ákvæði sé heimilt að hafa bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslu sé það tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna þar. Þessum ákvæðum sé ekki fylgt þar sem um læsta bílageymslu sé að ræða og bílastæðin fjögur séu þinglýst eign ákveðinna íbúða í eigu ófatlaðra einstaklinga. Einnig segi í ákvæðinu að eitt af hverjum fimm bílastæðum hreyfihamlaðra, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði um 3 m að lengd. Stæði fyrir hreyfihamlaða í bílageymslunni séu öll jafnstór og öll af minni gerð, en ekkert athafnasvæði sé til staðar. Þá séu þau ekki merkt á yfirborði heldur aðeins með lóðréttu skilti, en báðar merkingar eigi að vera til staðar samkvæmt ákvæðinu.

Þar sem gerð sé krafa um algilda hönnun bygginga skuli skv. gr. 6.4.2. í byggingarreglugerð gera ráð fyrir sjálfvirkum opnunarbúnaði fyrir inngangsdyr í aðalumferðarleiðum. Slíkan búnað sé ekki að finna á þeim fimm hurðum sem marki aðalumferðarleið frá bílageymslu að lyftum í Tangabryggju 15, en öll stæði hreyfihamlaðra í eigninni tilheyri íbúðum í Tangabryggju 15. Samkvæmt skilalýsingu byggingarinnar skuli stæði fyrir hreyfihamlaða vera ofanjarðar og malbikuð eða hellulögð. Hins vegar séu engin stæði fyrir hreyfihamlaða ofanjarðar. Því sé aðgengi hreyfihamlaðra íbúa og gesta skert, en það brjóti í bága við ákvæði reglugerðarinnar um aðgengi fyrir alla.

Ekki sé til staðar útsog úr eldhúsum íbúða, af gangi eða stigahúsum. Þar af leiðandi séu ekki eðlileg loftskipti á þessum stöðum í samræmi við gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð. Á uppdráttum komi fram að öll gluggalaus eða lokuð rými verði loftræst. Matarlykt leiði nú um íbúðir og fram á ganga. Gangar og stigahús séu gluggalaus, en á efstu hæð stigahúss sé þakgluggi til reykræsingar. Sorpgeymsla sé án læstrar hurðar og gólf þar ómeðhöndlað. Það leiði til þess að erfitt sé að þrífa gólfið, en skv. gr. 6.12.7. skuli sorpgeymslur þannig frágengnar að auðvelt sé að þrífa þær. Einnig segi í gr. 6.12.8. að gólf í sorpgerði/sorpskýli skuli vera úr efni sem auðvelt sé að þrífa. Þá vanti loftræsingu í sorpgeymslu svo hægt sé að læsa henni, sbr. gr. 6.12.7. Samkvæmt gr. 6.12.1. skuli ganga þannig frá tæknirýmum að þau „séu ávallt læst ef í þeim eru tæki, búnaður eða efni sem eru viðkvæm, geta valdið slysum eða verið hættuleg börnum eða fullorðnum.“ Rafmagnstöflur séu ólæstar í sameiginlegu rými, sem sé skilgreint sem hjóla- og vagnageymsla/tæknirými. Þar sé óhindrað aðgengi fyrir börn og fullorðna sem geti valdið slysum og tjóni fyrir íbúa hússins.

Svo virðist sem húsið hafi ekki verið tekið út samkvæmt ákvæðum skoðunarhandbókar og skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð. Hefði skoðunarhandbók og skoðunarlistum verið fylgt við áfanga- og lokaúttektir á byggingunni hefði komið fyrr til úrbóta. Ekki sé hægt að gefa út lokaúttektarvottorð þegar ekki séu uppfyllt skilyrði varðandi aðgengi, hollustuhætti og öryggismál, sbr. gr. 3.9.4. í reglugerðinni

Loks hafi leyfishafa verið sendar fleiri athugasemdir er varði öryggiskröfur, m.a. varðandi frágang á reykþéttum eldvarnarhurðum, frágang á einangrun á loftræsirörum í sameign og skort á lýsingu á gönguleið að bílastæðum, sbr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er vísað til þess að ekki verði séð að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi verið í ósamræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Verði ekki á öðru byggt en að við lokaúttekt 21. júní 2019 hafi byggingarfulltrúi haft til hliðsjónar athugasemdir kæranda frá 23. apríl s.á. Ekki verði önnur ályktun dregin af útgáfu vottorðs um lokaúttekt en að ekki hafi þótt ástæða til þess að gera athugasemdir við bygginguna, sbr. gr. 3.9.3. í byggingarreglugerðinni, og að hún hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um hana gildi. Ekki sé ástæða til að draga í efa yfirlýsingu byggingarfulltrúa þess efnis, þ.e.a.s. um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að endurtaka lokaúttekt samkvæmt skoðunarlista, sbr. gr. 3.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð, sbr. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna skal við lokaúttekt gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá er mælt fyrir um það í 4. mgr. ákvæðisins að ef mannvirkið uppfylli ekki að öllu leyti ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim þá geti útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varði aðgengi skuli þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu kom kærandi að athugasemdum við byggingarfulltrúa áður en lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15 fór fram. Gerði kærandi aðallega athugasemdir er vörðuðu aðgengi hreyfihamlaðra að fjölbýlishúsinu og benti m.a. á að öll bílastæði fyrir hreyfihamlaða væru staðsett í bílageymslu hússins og tilheyrðu tilteknum íbúðum þess. Því væru ekki til staðar bílastæði hreyfihamlaðra fyrir gesti eða aðra íbúa en þá sem byggju í þeim íbúðum sem bílastæði hreyfihamlaðra tilheyrðu. Einnig benti kærandi á að aðgengi að íbúðum frá stæðum í bílageymslu væri um dyr með þungum hurðum, sem væri erfitt fyrir íbúa eða gesti í hjólastól. Í tölvupósti byggingarfulltrúa til leyfishafa um niðurstöðu lokaúttektar segir um þessar athugasemdir kæranda: „Í deiliskipulagi og á aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir gestastæðum fyrir fatlaða. Opnunarþunga hurða má stilla á hurðapumpum. Engin ákvæði eru til sem banna að merkja bílastæði fatlaðra ákveðnum íbúðum.“

Í fyrrnefndri gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð er fjallað um bílastæði hreyfihamlaðra og segir þar í 4. mgr. að eitt af hverjum fímm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skuli vera 4,5 × 5,0 m að stærð og við enda þeirra athafnasvæði, um 3 m að lengd. Mælt er fyrir um það í 5. mgr. að fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skuli að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Í þeirri töflu kemur fram að þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 41-65 skuli vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Í 9. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um að fækka megi bílastæðum á lóð mannvirkis samkvæmt töflu 6.01 sem nemi fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílageymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.

Fjölbýlishúsið að Tangabryggju 13-15 er með 63 íbúðum og skulu því þar vera fjögur bílastæði fyrir hreyfihamlaða, sbr. nefnda gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð. Sá fjöldi slíkra stæða er til staðar, en á samþykktum uppdráttum má sjá að þau stæði eru öll í sameiginlegri bílageymslu og eru þau stæði merkt fjórum tilteknum íbúðum í húsinu. Þá verður ekki séð að neitt bílastæðanna sé 4,5 × 5,0 m að stærð með athafnasvæði, um 3 m að lengd, eins og mælt er fyrir um í sama ákvæði. Er því ekki uppfyllt skilyrði gr. 6.4.2. um aðgengi gestkomandi að bílastæðum hreyfihamlaðra. Breytir engu í því efni þótt nefnt fyrirkomulag sé í samræmi við deiliskipulag og samþykkta aðaluppdrætti, enda er skýrt kveðið á um það í lögum um mannvirki að samþykktir aðaluppdrættir skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð, sbr. 11. gr. laganna. Sem fyrr greinir skal þáttum sem varða aðgengi ávallt vera lokið við gerð lokaúttektar, sbr. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga. Var byggingarfulltrúa ekki heimilt að víkja frá þeim kröfum og gefa út hið kærða vottorð um lokaúttekt. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Það athugist að fari lokaúttekt fram að nýju kann byggingarfulltrúa að vera rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem kærandi hefur gert við meðferð máls þessa, s.s. um að gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð sé ekki fullnægt þar sem útsog sé ekki til staðar í eldhúsum íbúða.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

48, 23, 64, og 65/2019 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2020, föstudaginn 22. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kæra nokkrir eigendur jarðarinnar Drangavíkur þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 að samþykkja deiliskipulag vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. að veita framkvæmdaleyfi fyrir  gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins yrði frestað og að framkvæmdir á grundvelli framkvæmdaleyfisins yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nokkrir eigendur lóða úr landi Eyrar við Ingólfsfjörð og nokkrir eigendur jarðarinnar Seljaness fyrrgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna. Krefjast kærendur þess að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að viðurkennt verði að deiliskipulagið sé ógilt. Er það kærumál nr. 23/2019.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir hluti eigenda jarðarinnar Seljaness áðurnefnda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Einnig var með sama bréfi kærð ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar, en sá hluti málsins, sem er nr. 64/2019, var sameinaður kærumáli nr. 51/2019 og var kveðinn upp úrskurður í því 24. apríl 2020.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Fornasel ehf., eigandi jarðarinnar Dranga, áðurgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er það kærumál nr. 65/2019.

Þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða kærumál nr. 23/2019, nr. 64/2019 að hluta og nr. 65/2019 sameinuð máli þessu.

Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júlí 2019 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað sem og kröfu um frestun réttaráhrifa. Í kjölfar þess var farið fram á það við nefndina að hún endurskoðaði þá niðurstöðu sína, en síðar var fallið frá þeirri beiðni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi  27. maí 2019 og í júlí s.á. og 16. apríl 2020, en afgreiðslu málsins var frestað þar sem hinum kærðu ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hluta eigenda Drangavíkur.

Málavextir: Fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2017 um það mat.

Hinn 18. október 2018 var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september s.á. að samþykkja deiliskipulag ásamt umhverfisskýrslu er tæki til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár. Sætti ákvörðun hreppsnefndar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði sínum 16. nóvember 2018, í máli nr. 57/2018, vísaði kærunni frá. Var niðurstaða nefndarinnar sú að hin kærða ákvörðun hefði verið ógild þegar auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda þar sem auglýsingin hefði ekki birst innan lögbundins frests. Lægi því ekki fyrir gild ákvörðun er réttarverkan gæti haft að lögum.

Tillaga að deiliskipulagi Hvalár v/rannsókna var auglýst til kynningar að nýju í nóvember 2018 í samræmi við ákvörðun hreppsnefndar þar um. Málið var tekið fyrir á ný á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Samþykkti hreppsnefnd fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi, dags. 25. febrúar 2019, með breytingum sem gerðar voru eftir auglýsingarferlið. Jafnframt var samþykkt afstaða til umsagna og athugasemda. Þá var skipulagsfulltrúa falið að svara þeim er gert höfðu athugasemdir og senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar. Með bréfi stofnunarinnar til Árneshrepps, dags. 28. mars 2019, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og var það gert 14. júní 2019. Samkvæmt auglýsingunni tekur deiliskipulagið, sem fyrr segir, til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár, nánar tiltekið til lóðar fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði, vinnuvega frá Ófeigsfjarðarvegi upp á Ófeigsfjarðarheiði og efnistöku. Þá kemur fram í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé um 13,4 km² að stærð.

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 12. júní 2019 var tekin fyrir umsókn Vesturverks ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun, en skipulagsnefnd hafði fjallað um erindið 11. s.m. Taldi hreppsnefnd að lagaskilyrði væru til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og samþykkti umsóknina með nánar tilgreindum skilyrðum. Var jafnframt samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þegar deiliskipulagið Hvalárvirkjun v/rannsókna hefði verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Afgreiðsla hreppsnefndar um samþykkt framkvæmdaleyfisins var auglýst í Lögbirtingablaðinu 26. júní 2019 og í Morgunblaðinu 27. s.m. Hinn 1. júlí 2019 gaf skipulagsfulltrúi f.h. Árneshrepps út framkvæmdaleyfið.

Svo sem áður greinir var afgreiðslu máls þessa frestað þar sem greindum ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hálfu hluta eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi. Með úrskurði Landsréttar kveðnum upp 26. mars 2020 í máli nr. 54/2020 var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa bæri málinu frá þar sem sóknaraðilar hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Hinn 24. apríl 2020 tók úrskurðarnefndin fyrir mál er lutu að framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar. Vísaði hún frá kröfum tiltekinna kærenda um ógildingu leyfisins og hafnaði sömu kröfu annarra kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta sem eigendur jarðanna Drangavíkur, Dranga, Eyrar og Seljaness.

Kærendur sem eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Drangavíkur taka fram að hið kærða deiliskipulag varði eignarréttindi þeirra á fernan hátt. Í fyrsta lagi sé virkjunarsvæðið skilgreint innan landamerkja jarðarinnar Drangavíkur í aðalskipulagi Árneshrepps og sé deiliskipulagið byggt á því skipulagi. Í öðru lagi myndi vegur sem sýndur sé í deiliskipulaginu liggja um landareign kærenda að Eyvindarfjarðarvatni. Í þriðja lagi myndu óbyggð víðerni innan landamerkja jarðarinnar skerðast verulega við vegaframkvæmdir þær sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu. Í fjórða lagi sé deiliskipulagið órjúfanlegur hluti af áætlunum um virkjunarframkvæmdir og framkvæmdinni Hvalárvirkjun. Með þeim yrði raskað á margvíslegan annan hátt en með vegagerðinni svæðum og fyrirbærum sem lúti að eignarréttindum kærenda, m.a. vatnsréttindum. Af sömu ástæðu eigi kærendur sérstakra og einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta varðandi samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis.

Við undirbúning og töku hinna kærðu ákvarðana hafi verið brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Auk þess fari þær í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, löggjöf er varði mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismat áætlana, skipulagslöggjöf og meginreglur umhverfisréttar, auk sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá skerði umræddar ákvarðanir eignarrétt kærenda, en slík skerðing sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærendur hafi hvorki heimilað miðlun vatnasviðsins með stíflu neðan Eyvindarfjarðarvatns og jarðgangagerð til suðurs né vegagerð að vatninu. Af orðalagi í framkvæmdalýsingu verði ekki annað ráðið en að hinar kærðu framkvæmdir séu beinlínis hluti af heildarframkvæmdinni Hvalárvirkjun. Það sé fáheyrt í íslenskri virkjanasögu að skipulagsáætlunum og framkvæmdaleyfi sé skipt upp með þeim hætti sem gert sé í máli þessu og gangi það þvert gegn þeim meginsjónarmiðum er liggi að baki lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda um að litið sé heildstætt á framkvæmdirnar. Umsagnir fagstofnana þar að lútandi hafi hingað til verið hunsaðar. Í hinum kærðu ákvörðunum sé fjallað um fyrsta hluta framkvæmdanna án þess að fjallað sé þar um sjálfar virkjunarframkvæmdirnar. Þannig sé fjallað um vegagerð sem eyði óafturkræft óbyggðum víðernum svo hundruðum ferkílómetra skipti án þess að fjallað sé um rask á vatnasviði. Hvorki víðerni né skerðing þeirra séu kortlögð í samræmi við lög. Samvirk áhrif með öðrum tengdum framkvæmdum séu ekki metin. Gengið hafi verið á svig við grundvallarsjónarmið um að framkvæmdaraðili verði að leggja fyrir almenning og leyfisveitanda gögn er sýni heildarmyndina. Liggi fyrir úrskurðarnefndinni að fara gaumgæfilega yfir sjónarmið um svokallað „project splitting“ í tengslum við þetta mál,  en það sé sú aðferð að skipta verkþáttum upp til að komast hjá því að fjalla um verk heildstætt í mati á umhverfisáhrifum. Umrædd framkvæmd sé ekki sú sama og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, t.a.m. séu  kjarnaborun og könnunargryfjur þær, sem séu hluti af hinum kærðu ákvörðunum, ekki meðal þess sem Skipulagsstofnun hafi fjallað um í áliti sínu frá 3. apríl 2017. Engin nauðsyn sé til að leggja vegi um alla heiði til að sinna kjarnaborun.

Verulegir gallar séu almennt á því á hvern hátt leyfisveitandi hafi haft hliðsjón af þeim athugasemdum er borist hafi. Leyfisveitanda hafi ekki verið heimilt að líta fram hjá skýrslu Environice um þann kost að friðlýsa óbyggð víðerni við Drangajökul skv. 46. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en honum hafi verið kynnt skýrslan 18. janúar 2019. Það mat leyfisveitanda í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að skipulagið sé ekki líklegt til að takmarka möguleika á stofnun þjóðgarðs á svæðinu sé órökstutt og ekki stutt neinum gögnum. Rask sem heimilað sé gangi mun lengra en þörf sé á og raski verndarhagsmunum náttúruverndarlaga. Eyðileggingin verði mikil og sé í því sambandi vísað til skýrslu International Union for Conservation of Nature (IUCN) frá janúar 2020.

Jarðarmörk þau sem komi fram á yfirlitsuppdrætti og afstöðuuppdráttum sem fylgi með framkvæmdalýsingu séu ekki í samræmi við þinglýstar heimildir að því er varði norðurmörk jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Uppdrættirnir sýni ekki heldur merki milli jarðanna Drangavíkur og Engjaness í samræmi við þinglýstar heimildir og seinni jarðarinnar sé ekki getið. Jörðin Eyvindarfjörður, sem þar sé merkt og getið um í texta, finnist ekki í landamerkjaskrám eða öðrum heimildum. Vísi kærendur til landamerkja jarðarinnar Drangavíkur á uppdrætti, dags. 19. júní 2019, sem dregin séu upp í samræmi við þinglýstar eignaheimildir

Jörðin Seljanes sé næsta jörð við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Hvalá. Ljóst sé að þær framkvæmdir sem gert sé ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi hafi veruleg áhrif á landeigendur að Seljanesi og Eyri svo og virkjunarframkvæmdin í heild sinni. Hafi framkvæmdirnar bein áhrif á einstaklingsbundin, lögvarin réttindi kærenda og varði mikilsverð réttindi þeirra, sem fólgin séu í eignarrétti þeirra að Seljanesi og Eyri.

Við mat á lögvörðum hagsmunum kærenda verði að hafa í huga að ef að líkum láti muni fleiri deiliskipulög er varði framkvæmdir á svæðinu líta dagsins ljós. Umrætt deiliskipulag og framkvæmdaleyfi sé hluti af stórri virkjunarframkvæmd í næsta nágrenni við fasteignir kærenda og augljóst að þeir hafi lögvarðra hagsmuna að gæta af ákvörðun um slíka framkvæmd. Geri hinar kærðu ákvarðanir ráð fyrir því að lagðir verði vegir sem notaðir verði til að ferja ýmis tól og tæki að framkvæmdasvæðinu. Verði þeir vegir tengdir við veg sem liggi í gegnum jörðina Seljanes í eigu kærenda og þétt við hús kærenda að Eyri. Muni það leiða til aukinnar umferðar um þann veg og þá sérstaklega umferð hinna ýmissa vinnutækja. Verði af þessu sjón-, hljóð- og loftmengun og hafi deiliskipulagið þannig bein áhrif á hagsmuni kærenda.

Heimilaðar framkvæmdir verði sjáanlegar frá jörðinni Seljanesi og muni iðnaðarsvæði blasa við. Slíkt hafi í för með sér umtalsverða sjónmengun og töluverða hljóð- og loftmengun. Takmarki slíkt ýmsa mögulega hagnýtingu á jörðinni Seljanesi og að húsinu að Eyri, s.s. í ferðamannaiðnaði, enda sé helsta aðdráttarafl svæðisins náttúrufegurð og friðsæld. Auk þess takmarki framkvæmdirnar möguleika kærenda til að njóta þeirrar friðsældar sem þar sé. Séu hagsmunir kærenda alls ekki fjarlægari en t.d. hagsmunir kærenda í málum hjá úrskurðarnefndinni sem varðað hafi laxeldi, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 3/2018, nr. 4/2018, nr. 5/2018 og nr. 6/2018.

Ljóst sé að umræddar ákvarðanir muni hafa í för með sér gríðarlega eyðileggingu á óbyggðum víðernum auk þess sem gríðarlegt tjón muni verða á vistkerfum og vatnasvæðum sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess sé ógild eða ógildanleg. Þannig hafi meðferð málsins ekki verið í samræmi við 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Nánar tilgreindur sveitarstjórnarmaður hafi verið vanhæfur skv. 1. mgr. 20. gr. þeirra laga og 3. gr. stjórnsýslulaga. Skort hafi verulega á að tekið hafi verið tillit til ýmissa athugasemda eða rökstutt hvers vegna svo hafi ekki verið gert. Hið umdeilda deiliskipulag sé í reynd hluti af heildarframkvæmdunum. Óheimilt sé að skilja þær framkvæmdir frá, hvort sem sé í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða umhverfismati áætlunar. Samræmist það ekki skipulagslögum nr. 123/2010 að skipuleggja heila virkjunarframkvæmd í bútum heldur þurfi að taka málið fyrir í heild sinni. Með þessari málsmeðferð sé verið að eyðileggja aðra valkosti, s.s. eflingu byggðar á grunni náttúruverndar, áður en endanleg ákvörðun um virkjun verði tekin. Sé því mótmælt að uppskipting skipulagsins eigi sér eðlilegar skýringar. Verulegir annmarkar séu á valkostaumfjöllun í umhverfismati skipulagsins og ekki hafi verið uppfyllt ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/42/EB. Ekki hafi verið lagt mat á áhrif valkosta sem hefðu minni áhrif á umhverfið en sú sem hreppsnefnd hafi valið. Sú röskun óbyggðra víðerna sem sé heimiluð sé í andstöðu við verndarmarkmið náttúruverndarlaga. Því sé sérstaklega mótmælt að vegagerð sé haldið í lágmarki. Þvert á móti standi til að leggja vegi eins og um virkjunarframkvæmdir sé að ræða. Þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við svör við umsögnum og athugasemdum.

Eigandi Dranga tekur fram að hann eigi beinna, verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta sem landeigandi þar sem hin kærða ákvörðun sé hluti framkvæmdar sem skerða muni óbyggð víðerni innan jarðarinnar og hamla lögmæltu og yfirstandandi friðlýsingarferli hennar skv. 46. gr. náttúruverndarlaga.

Málsrök Árneshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í ljósi niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Dómurinn hafi afdráttarlaust fordæmisgildi um þá réttarstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni eigenda Drangavíkur varðandi hinar kærðu ákvarðanir. Ekki séu forsendur til þess að úrskurðarnefndin leggi mat á lögvarða hagsmuni kærenda með öðrum hætti en dómstóll hafi gert. Hið kærða deiliskipulag hafi afmarkað skipulagssvæði sem liggi allt sunnan Eyvindarfjarðarár og Eyvindarfjarðarvatns innan marka jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Samkvæmt þeim landamerkjum sem upplýsingar hafi legið fyrir um liggi land jarðarinnar Engjaness milli lands Drangavíkur og skipulagssvæðisins, sem sé sunnan Eyvindarfjarðarár. Umrædd málsástæða hafi bein tengsl við eignarréttarlegan ágreining en slíkar málsástæður geti úrskurðarnefndin ekki lagt mat á. Til hliðsjónar sé t.d. vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 71/2016 og nr. 116/2012. Gert sé ráð fyrir því að vegur verði lagður að Eyvindarfjarðarvatni, sunnan megin, en óljóst sé hvort sá vegslóði liggi að nokkru leyti innan meints lands Drangavíkur. Í öllu falli sé ljóst að aðeins geti verið um að ræða lítið brot af framkvæmdinni.

Lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu geri ráð fyrir að rannsóknarleyfi verði gefin út án tillits til afstöðu landeigenda. Falli skipulagssvæði deiliskipulagsins innan þess svæðis sem rannsóknarleyfið taki til. Í ljósi markmiða deiliskipulagsins og eðlis þeirra framkvæmda sem leyfið varði virðist framkvæmdirnar geta farið fram á grundvelli réttarstöðu sem rannsóknarleyfið veiti óháð afstöðu landeigenda.

Í ljósi umfjöllunar Landsréttar í máli nr. 54/2020, um lögvarða hagsmuni, sönnunarkröfur og eðli framkvæmda, beri að vísa frá kærum kærenda að Seljanesi og Eyri. Verði ekki fallist á frávísun sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Kærendur séu ekki aðilar að þeirri stjórnvaldsákvörðun sem felist í samþykkt deiliskipulagsins. Landareignir og húsbyggingar sem kærendur vísi til um eignarhald á falli ekki innan marka deiliskipulagssvæðisins. Fasteignin Eyri lóð 2 standi við Ingólfsfjörð. Aðrir kærendur eigi hlut í jörðinni Seljanesi, en sú jörð liggi að jörðinni Ófeigsfirði. Liggi skipulagssvæði deiliskipulagsins innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og ekki að landamerkjum við jörðina Seljanes. Ekki sé dregið í efa að frá jörðinni Seljanesi geti sést inn á skipulagssvæðið og til mannvirkja að einhverju leyti. Lögvarðir hagsmunir séu þó ekki til staðar, sérstaklega sé haft í huga eðli þeirra mannvirkja sem deiliskipulagið varði og þau er verði helst sýnileg, en einkum sé um samgöngumannvirki að ræða. Framkvæmdir sem deiliskipulagið varði yrðu í verulegri fjarlægð frá landi jarðarinnar Seljaness þegar litið sé til grenndarhagsmuna.

Sjónarmið um hljóð- og loftmengun vegna framkvæmda sem skipulagið varði séu með öllu óútskýrð. Hvað varði umferð um veg þá séu lögvarðir hagsmunir ekki til staðar þótt hugmynda um ferðamannaiðnað sé getið, enda séu þær óútskýrðar. Þar fyrir utan verði ekki séð að umrætt deiliskipulag takmarki með nokkru móti heimildir kærenda til nýtingar á fasteignum sínum. Því fari fjarri að þeir sem búi í nágrenni við þjóðvegi geti vísað til þess sem lögvarinna hagsmuna við deiliskipulagsákvarðanir að framkvæmdir á grunni skipulags geti leitt til einhverrar aukningar á umferð. Gera megi ráð fyrir að umferð á öllum Ófeigsfjarðarvegi og Strandavegi aukist vegna framkvæmdanna, en hún geti einnig komið til af fjölda annarra ástæðna.

Loks liggi jörðin Drangar ekki að framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar. Ákvarðanir um friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd séu á forræði stjórnvalda umhverfismála, en ekki landeigenda.

Varðandi efni málsins taki sveitarfélagið fram að engar afgerandi málsástæður liggi fyrir um að form- eða efnisannmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum sem leitt geti til ógildingar þeirra. Málsmeðferð við framkvæmd deiliskipulagsins hafi í öllum meginatriðum verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 þar um. Fyrirkomulag deiliskipulagsins hvíli á aðalskipulagi Árnesshrepps, sbr. breytingu á því frá árinu 2018. Undir markmiðskafla aðalskipulagsins komi fram að skapa eigi svigrúm til frekari rannsókna innan virkjunarsvæðisins og leggja þannig grunn að ákvarðanatöku um framhald verkefnisins. Hvíli deiliskipulagið á þessari forsendu. Með því fyrirkomulagi að skipta upp deiliskipulagi sé unnt að vinna sem best að því að rannsóknir sem nauðsynlegar séu vegna undirbúnings stórframkvæmdarinnar taki sem mest tillit til umhverfissjónarmiða. Það fyrirkomulag sem viðhaft sé við gerð deiliskipulagsins samræmist vel markmiðum skipulagslaga. Vangaveltur um svokallaða uppskiptingu framkvæmdar og skipulags standist því enga skoðun. Ljóst sé að margar af stærri vatnsaflsvirkjunum á Íslandi hafi verið rannsakaðar með nýtingu vega sem lagðir hafi verið í þágu rannsókna, áður en endanlegar skipulagsáætlanir fyrir virkjun hafi verið samþykktar. Hvalárvirkjun hafi verið flokkuð í orkunýtingarflokk á grundvelli þingsályktunar en skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun séu þær áætlanir bindandi við gerð skipulagsáætlana. Það sé algert grundvallaratriði að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi farið fram og með því hafi verið fjallað um umhverfisáhrif á heildstæðan hátt, þ.m.t. vegna tengdra framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Vísað sé til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020, en málið hafi beint og ótvírætt fordæmisgildi um lögvarða hagsmuni kærenda máls nr. 48/2019. Jörðin Drangar sé enn lengra frá en Drangavík og niðurstaða dómsins hafi því einnig fordæmisgildi hvað þann kæranda varði. Geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af framkvæmd sem sé að langmestu leyti í tæplega 10 km fjarlægð og að litlu leyti í 4 km fjarlægð. Auk þess skilji að fjöll, vogar og firðir. Framkvæmdir séu ekki sjáanlegar frá Dröngum og grenndaráhrif þeirra því engin. Þá feli framkvæmdaleyfið ekki í sér heimildir til neinna framkvæmda sem skert geti möguleika til friðlýsingar jarðarinnar Dranga. Fullyrðingar um annað séu rangar og misvísandi.

Jafnframt sé augljóst með hliðsjón af greindri niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 að kærendur að Seljanesi og Eyri geti ekki átt lögvarða hagsmuni, m.a. vegna fjarlægðar frá framkvæmdum. Einnig sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 51/2019. Þá fjalli kæra þeirra aðeins að litlu leyti um það deiliskipulag sem samþykkt hafi verið á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019. Sé kæran fremur með því sniði eins og um væri að ræða deiliskipulag fyrir virkjunarframkvæmdina í heild. Hin kærða ákvörðun varði ekki einstaklega og lögvarða hagmuni nefndra kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kæru.

Við mat á því hvort kærandi geti átt kæruaðild á grundvelli grenndarréttar hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Þær rannsóknir sem deiliskipulagið lúti að kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun. Gert sé ráð fyrir vinnubúðum, en þær verði í u.þ.b. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi og enn lengra frá Eyri í Ingólfsfirði. Þarna á milli sé önnur byggð og því ekki um ósnortið land eða víðerni að ræða. Þótt hluti kærenda geti mögulega séð til granna sinna í vinnubúðunum frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika á jörð þeirra. Þá geti þeir kærendur sem séu að hluta eigendur jarðarinnar Eyrar ekki með nokkru móti byggt kæruaðild sína á grenndarrétti enda staðsetning jarðarinnar þannig að þeir verði ekki fyrir nokkurri sjón-, loft- eða hljóðmengun. Hvorki vegna vinnubúða né vegaframkvæmda.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kærenda og snerti hvorki vatnasvið jarðanna né skerði hagnýtingarmöguleika eigenda þeirra. Skráður eignarhluti kærenda í jörðinni Seljanesi sé undir 10% og um 60% í jörðinni Eyri lóð 2, sem sé agnarsmár hlutur í heildarjörðinni Eyri. Hafi sameigendur þeirra ekki mótmælt deiliskipulaginu eða kært afgreiðslu þess. Þrátt fyrir að Ófeigsfjarðarvegur sé fáfarinn þá snerti það tímabundna ónæði sem verði vegna flutnings tækja og búnaðar ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kærumálinu.

Meðferð málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, laga nr. 105/2006 um mat á umhverfisáhrifum áætlana, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og annarra laga og reglugerða. Öllum fullyrðingum um annað sé mótmælt og málsástæðum kærenda hafnað. Deiliskipulagið byggi á stefnu aðalskipulagsins í samræmi við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og hafi virkjunarframkvæmdin ávallt verið unnin sem ein heild í því skipulagi. Málið hafi verið kynnt með ítarlegum hætti frá upphafi og reynt að vinna það í sátt og samráði við hagsmunaaðila. Fjallað sé um núllkost í greinargerð deiliskipulagsins. Þá sé því ranglega haldið fram að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda.

Viðbótarathugasemdir kærenda að Drangavík: Kærendur telja að ekki hafi verið færðar fram neinar röksemdir eða gögn til sönnunar á því að leyfishafi hafi þau eignarráð er þurfi til hagnýtingar alls þess vatnsafls sem um ræði. Kærendur hafni sem fráleitum þeim sjónarmiðum að full sönnun falli á þá gegn einhliða fullyrðingum leyfishafa um landamerki. Landamerki þau sem þinglesin hafi verið árið 1890 hafi ekki verið umdeild á þessu svæði og séu þar enda engin önnur landamerki til. Kærendur byggi hvort tveggja á eignarrétti og grenndarrétti. Þurfi úrskurðarnefndin aðeins að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi gert nægilega sennilegt að þeir eigi lögvarða hagsmuni. Það hafi þegar verið gert með landamerkjakorti því sem þeir hafi lagt fram. Frekari sönnunarkröfur verði ekki lagðar á eigendur Drangavíkur þar sem að af hálfu leyfisveitanda og leyfishafa hafi ekkert verið lagt fram sem styðji fullyrðingar þeirra. Jarðamörk á kortum, sem teiknuð hafi verið af hálfu annarra en til þess séu bærir, þ.e. landeigendum sjálfum, séu ekki landamerki í skilningi laga nr. 41/1919 um landamerki, auk þess sem þau mörk séu alls staðar birt með fyrirvara. Sönnunarkröfu verði að leggja á leyfishafa og leyfisveitanda fyrir fullyrðingum um landamerki.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu en í ljósi niðurstöðu málsins verða þær ekki raktar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana sveitarstjórnar Árneshrepps. Annars vegar ákvörðunar frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og hins vegar ákvörðunar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir virkjunina. Er gerð krafa um frávísun málsins með þeim rökum að kærendur eigi ekki kæruaðild fyrir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og að þeir hagsmunir séu verulegir. Þó verður almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að lögvarða hagsmuni skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni viðkomandi að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Ljóst er að hinar kærðu ákvarðanir eru undanfari fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda, enda tekur mat á umhverfisáhrifum þeirra m.a. til vinnuvega. Það er þó ekki hægt að játa kærendum kæruaðild á þeim grundvelli einum að þeir telji sig eiga hagsmuna að gæta af því að af virkjunaráformum verði ekki, heldur verður að gera þá kröfu að efni hinna umdeildu ákvarðana raski einstaklingsbundnum og verulegum hagsmunum þeirra. Stendur enda ekkert því í vegi að skipulag eða veitt leyfi taki eingöngu til hluta framkvæmda sem mat á umhverfisáhrifum hefur tekið til og kann það raunar að vera nauðsynlegt þegar um flóknar stórframkvæmdir er að ræða.

Í greinargerð deiliskipulagsins er því lýst að tæplega 14 km² skipulagsvæði sé í landi Ófeigsfjarðar, en liggi ekki að landamerkjum jarðarinnar og taki aðeins til svæðis umhverfis starfsmannabúðir, vinnuvegi og efnistökusvæði. Gert sé ráð fyrir 5,8 ha lóð fyrir tímabundnar starfmannabúðir og vinnusvæði við Hvalá neðan Strandarfjalla. Innan byggingarreits sé heimilt að reisa einn eða fleiri skála með svefnaðstöðu fyrir allt að 30 manns, hreinlætisaðstöðu, mötuneyti, geymslu og skrifstofu. Samanlögð stærð bygginga megi vera allt að 400 m² og hámarksmænishæð 7 m. Byggingar skuli staðsettar þannig að þær falli sem best að landslagi og landmótun skuli haldið í lágmarki. Skuli efni, form og litaval bygginga falla vel að landslagi og umhverfi. Ef fallið verði frá virkjunaráformum falli tilheyrandi heimildir niður einu ári eftir að rannsóknum ljúki. Öll mannvirki skuli fjarlægð og gengið frá vinnusvæðum innan þess tíma. Ganga skuli um skipulagssvæðið með það í huga að um tímabundna landnotkun sé að ræða.

Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir vegum frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra-Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og Rjúkanda hins vegar, samtals um 25 km. Einnig sé gert ráð fyrir vegi að námu ES19 við Neðra-Hvalárvatn. Aðeins sé um malarvegi að ræða. Ekki sé gert ráð fyrir neinum borplönum eða sambærilegum framkvæmdum utan vega. Um sé að ræða um 6,2 km langan vinnuveg frá þjóðveginum við Hvalárfoss að fyrirhugaðri Hvalárstíflu. Þar kvíslist vegurinn í tvær áttir. Annars vegar sé gert ráð fyrir 11,9 km löngum vinnuvegi að Rjúkanda og hins vegar 6,8 km löngum vinnuvegi að fyrirhugaðri Eyvindarfjarðarstíflu. Vegurinn verði 4 m breiður með útskotum. Um 600 m ofan Hvalárfoss liggi vegurinn um nýja einbreiða stálbrú yfir Hvalá, sem hvíla muni á steyptum burðarbitum sem staðsettir verða við hvorn enda brúarinnar. Brúin verði um 22 m að lengd og tæplega 6 m breið í heild, en akstursbreidd verði 4,2 m. Huga skuli að því að sýnileiki vega verði eins lítill og kostur sé. Þetta eigi bæði við um veglínu upp Strandarfjöll og á heiðinni. Vegir skuli vera eins lítið uppbyggðir og kostur sé og falla vel að landslagi þannig að þeir hafi sem minnst áhrif á víðernin. Í fyrstu séu vegirnir ætlaðir fyrir aðkomu tækja til rannsókna á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar. Leitast skuli við að halda vegaframkvæmdum í algjöru lágmarki á þessu stigi og skuli umfang þeirra takmarkast við það að nauðsynleg tæki komist að rannsóknarsvæðum. Þar sem það sé mögulegt skuli vegagerð sleppt. Samhliða vegagerðinni skuli hugað að frágangi svæðisins og öllu raski haldið í lágmarki. Komi til virkjunarframkvæmda skuli vegirnir nýttir sem aðkomuvegir að lónum og stíflum. Ef fallið verði frá virkjunaráformum skuli vegirnir og brúin fjarlægð og ummerki þeirra eins og kostur sé. Loks er samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins gert ráð fyrir þremur nýjum efnistökusvæðum í tengslum við vegagerð og uppbyggingu starfsmannabúða. Efnistökusvæði ES18 við Hvalárósa, svæði ES19 vestan megin við Neðra-Hvalárvatn  og efnistökusvæði ES20 í Hvalá, rúmum kílómetra ofan við Hvalárfoss.

Fellur framkvæmdalýsing í fylgigögnum með útgefnu framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku að því sem áður er rakið úr deiliskipulaginu, en leyfið tekur ekki til starfsmannabúða. Að auki er í nefndum gögnum að finna nánari lýsingu á fyrirhuguðum rannsóknum.

Kærendur máls þessa eru hluti eigenda Drangavíkur, eigandi Dranga, nokkrir eigendur lóða í landi Eyrar við Ingólfsfjörð, sem og hluti eigenda jarðarinnar Seljaness. Vísa þeir til eignarhalds síns um lögvarða hagsmuni sína sem þeir telja raskað með hinum kærðu ákvörðunum.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var dómsmáli hluta eigenda Drangavíkur vísað frá af dómstólum, sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. 54/2020, þar sem þeir hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Tók dómurinn fram að eigendurnir teldu þinglýstar landamerkjaskrár frá 1890 staðfesta eignarrétt þeirra yfir mun stærra landsvæði en áður hefði verið talið og miðað hefði verið við í opinberum gögnum. Sóknaraðilar hefðu ekki fyrr gert reka að því að fá skorið úr ágreiningi um landamerki Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar og yrði ekki leyst úr slíkum ágreiningi án aðildar eigenda síðargreindu jarðanna. Þá tók dómurinn fram að þegar litið væri til grenndarsjónarmiða, án tillits til stöðu landamerkja, hefðu aðilar í ljósi fjarlægðar jarðarinnar frá framkvæmdum ekki sýnt fram á slíka röskun á hagsmunum Drangavíkur, svo sem vegna hávaða, sjónmengunar eða annarra atriða, að eignarréttindi þeirra sem nytu verndar meginreglna nábýlis- og grenndarréttar væru skert.

Líkt og í nefndu dómsmáli byggja kærendur að Drangavík á því fyrir úrskurðarnefndinni að fyrirhugað virkjunarsvæði, svo og vegaframkvæmdir sem hinar kærðu ákvarðanir heimili, verði að hluta innan landamerkja jarðarinnar. Við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir muni óbyggð víðerni innan landamerkjanna skerðast. Hafa atvik breyst að því leyti að tilteknir eigendur Drangavíkur hafa nú höfðað landamerkjamál og er aðalkrafa stefnenda í því máli sú að Drangavík verði talin eiga landamerki að jörðinni Ófeigsfirði, þau verði dregin sunnan við Neðra-Eyvindafjarðarvatn og raunar sunnar en landamerki Engjaness og Ófeigsfjarðar hafa verið talin liggja. Varakrafa í dómsmálinu lýtur að því að landamerki Drangavíkur og Engjaness verði talin liggja um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn.

Á sveitarfélagsuppdrætti gildandi Aðalskipulags Árneshrepps 2005-2025 eru landamerki Ófeigsfjarðar og Engjaness m.a. sýnd um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn og mörk jarðanna Engjaness og Drangavíkur nokkru norðar. Norðanverð mörk virkjunarsvæðis fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar eru á uppdrættinum sýnd meðfram Eyvindarfjarðará, sem skilur að Ófeigsfjörð og Engjanes, í átt að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni. Áður en komið er að vatninu er dregin lína til norðurs að sýndum landamerkjum Engjaness og Drangavíkur sem mörk virkjunarsvæðisins fylgja að sýndum landamerkjum Engjaness og Dranga og þaðan vestur að Drangajökli. Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að deiliskipulagssvæðið sé að fullu innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og kemur það heim og saman við þau mörk jarðarinnar sem áður er lýst og sýnd eru til skýringar, en án staðfestingar, í aðalskipulagi. Nyrsti hluti deiliskipulagssvæðisins er skammt sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns og nái aðalkrafa kærenda fram að ganga í nýhöfðuðu landamerkjamáli mun lítill hluti skipulagssvæðisins, þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum framkvæmdum en vinnuvegi, fara inn á land kærenda.

Í Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025, sem öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2014, kemur fram að ýmsar tafir hafi orðið á framgangi og staðfestingu aðalskipulagstillögunnar og sé ástæða þess m.a. áætlun um virkjun Hvalár. Við upphaf skipulagsvinnu hafi verið gert ráð fyrir tiltölulega litlum breytingum á landnotkun en virkjun Hvalár einungis verið kynnt sem framtíðarmöguleiki. Það hafi breyst við þá ákvörðun hreppsnefndar að stefna að því að staðfesta virkjunarsvæði við Ófeigsfjörð með virkjun Hvalár. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin veturinn 2007-2008. Ágreiningur um eignarréttindi, sem stafar af óvissu um hvernig túlka beri þinglýstar landamerkjaskrár, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur undir dómstóla. Eins og fram er komið hefur nú verið höfðað landamerkjamál um þann ágreining, en þar til úr honum hefur verið skorið verður að telja líkur á því að opinber gögn, s.s. skipulagsáætlanir, sýni þá legu landamerkja sem almennt hafi verið talin rétt. Miðað við það er meira en kílómetri frá landamerkjum Drangavíkur að deiliskipulagssvæðinu sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns þar sem vinnuvegur endar, en frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar sunnar á skipulagssvæðinu. Drangar eru norðan Drangavíkur og því lengra frá skipulagssvæðinu. Jörðin Seljanes liggur að jörðinni Ófeigsfirði austan megin, en frá landamerkjum jarðanna eru a.m.k. 3 km að skipulagssvæðinu þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Eyri í Ingólfsfirði er enn lengra frá skipulagssvæðinu.

Kærendur geta ekki byggt einstaklingshagsmuni sína á atriðum sem varða almannahag, s.s. sjónarmiðum um verndun víðerna eða náttúru, án þess að sýna sérstaklega fram á hvernig einstaklingsbundnir hagsmunir þeirra skerðast. Í þágu undirbúningsrannsókna gera hinar kærðu ákvarðanir eingöngu ráð fyrir lagningu vinnuvega, efnistöku og gerð starfsmannabúða, sem samkvæmt framansögðu verða í mesta lagi 400 m2 að flatarmáli og að hámarki 7 m háar. Í ljósi þeirra takmörkuðu framkvæmda sem um ræðir, sem og þess að skipulagssvæðið er í töluverðri fjarlægð frá eignum kærenda, munu hagsmunir þeirra ekki skerðast í þeim mæli að það skapi þeim kæruaðild jafnvel þótt einhverjir þeirra kunni að heyra hljóð berast frá framkvæmdum á skipulagssvæðinu eða kærendur að Seljanesi t.d. eygi þær starfsmannabúðir sem heimilað er að reisa. Munu þær búðir t.a.m. ekki skerða útsýni þeirra kærenda þótt ásýnd lands verði breytt að nokkru. Af sömu sökum er ekki hægt að líta svo á að möguleikar kærenda að Seljanesi og Eyri til uppbyggingar, t.d. ferðaþjónustu, séu takmarkaðir í nokkru. Verður atvikum þessum ekki jafnað saman við atvik í þeim kærumálum vegna fiskeldis sem kærendur hafa vísað til.

Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum öllum og eins og atvikum máls þessa er háttað þykja þær framkvæmdir sem leyfðar hafa verið og sækja stoð sína í umdeilt deiliskipulag ekki þess eðlis að þær snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist þar sem málsmeðferð þess var frestað á meðan hinar kærðu ákvarðanir voru til meðferðar hjá dómstólum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

4/2020 Kjalvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 22. maí fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2019 um að uppbygging Kjalvegar í Bláskógabyggð skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Fannborg ehf., rekstraraðili ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. desember 2019 að uppbygging Kjalvegar í Bláskógabyggð skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að fyrirhuguð vegaframkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 24. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 15. apríl 2019 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Vegagerðinni um fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á Kjalvegi í Bláskógabyggð, frá Árbúðum að Kerlingarfjallavegi. Var tilkynningin send á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 2.03 í 1. viðauka laganna.

Skipulagsstofnun óskaði umsagna frá Bláskógabyggð, forsætisráðuneyti, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Bárust umsagnir frá öllum aðilum í maí 2019. Frekari upplýsingar frá framkvæmdaraðila bárust í lok þess mánaðar.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila er því lýst að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér endurbætur á 17,3 km kafla á Kjalvegi. Á vegkaflanum verði vegurinn af vegtegund C8 þó þannig að hann verði byggður upp sem 6 m breiður vegur með 50-80 km/klst. hönnunarhraða. Vegkaflinn verði í um 0,5-0,7 m hæð yfir aðliggjandi landi. Um verði að ræða nýlagningu á tæplega 5 km kafla og tilheyrandi efnistöku. Áætlað sé að raskað verði á einhvern hátt 170.000 m2 svæði umfram núverandi veg og áætluð efnisþörf sé samtals um 172.600 m3.

Í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar kemur fram að Vegagerðin hafi áður endurbætt tæplega 40 km kafla sunnanverðs Kjalvegar og standi nú eftir um 60 km kafli af mjóum niðurgröfnum malarvegi. Eingöngu um 3 km kafli af fyrri endurbótum hafi fengið umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Um það mál hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðað árið 2016. Í úrskurði nefndarinnar segi meðal annars: „Það er álit úrskurðarnefndarinnar að almennt verði ekki við það búið að skoða eingöngu stakar framkvæmdir án þess að huga að samhengi þeirra við framkvæmdir, sem þegar hafa átt sér stað og fyrirhugaðar eru, þegar augljóst er að þær tengjast. Er enda ljóst að almennt er sá háttur að hluta niður framkvæmdir til þess fallinn að fara á svig við […] markmið laga nr. 106/2000 […]“ Þótt hin áformaða framkvæmd sé takmörkuð að umfangi verði að mati Skipulagsstofnunar að horfa til þess að hún sé liður í stærri framkvæmdaáformum um endurbætur á Kjalvegi, þ.e. þeim næstum 40 km kafla sem þegar hafi verið byggður upp og endurbættur sunnan Árbúða og svo um 40 km kafla norðan Kerlingarfjallavegar, sem enn sé mjór, niðurgrafinn malarvegur.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skyldi framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að hann hafi um langt skeið rekið ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum og eigi óumdeilda lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hann hafi staðið fyrir umtalsverðri uppbyggingu á starfsemi sinni undanfarin ár og muni mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar hafa neikvæð áhrif á starfsemi hans.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 83/2015 þar sem framkvæmdir á um 2,9 km kafla Kjalvegar hafi verið til umfjöllunar. Úrskurðurinn hafi að geyma ágæta lýsingu á þeim endurbótum sem hafi verið unnar á Kjalvegi undanfarin ár og séu fyrirhugaðar framkvæmdir í beinu og eðlilegu framhaldi af þeim framkvæmdum og í raun aðeins viðbót við þær. Að mati kæranda séu aðstæður varðandi fyrirhugaða framkvæmd mjög sambærilegar og lýst sé í tilgreindum úrskurði. Um eðlislíka framkvæmd sé að ræða nú nema kannski að því er varði lengd vegakaflans. Um sé að ræða algerlega sambærilega gerð vega, enda nýi kaflinn í beinu framhaldi af þeim eldri, sem að áliti nefndarinnar hafi verið hvorki mikill að umfangi né áhrifum. Hafi nefndin ekki talið tilefni til þess að koma í veg fyrir svokallað „salami slicing“ í fyrrgreindum úrskurði og engin rök séu til að gera það nú. Ekki sé hægt að benda á neitt viðmið í 2. viðauka með lögum nr, 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem hafi áhrif á matsskylduna umfram það sem hafi verið til skoðunar í framangreindum úrskurði. Framkvæmdin falli að auki ekki undir skilgreiningu p-liðar 3. gr. laganna á umtalsverðum umhverfisáhrifum, en framkvæmdin sé t.a.m. ekki óafturkræf og sé hægt að beita mótvægisaðgerðum til að draga úr umhverfisáhrifum vegna hennar.

Þá telji kærandi augljóst að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa jákvæð áhrif á suma umhverfisþætti eins og andrúmsloft og veðurfar, heilsu og öryggi, vistkerfi, hagræna og félagslega þætti. Ferðatími á Kjalvegi hafi styst verulega vegna nýlegra lagfæringa á veginum, það þýði minni olíumengun, minnkað kolefnisfótspor og minna dekkjaslit og örplastmengun. Sléttara yfirborð vega þýði jafnframt minni skemmdir á bílum en núverandi vegur sé með mjög grýttu yfirborði og tilheyrandi hættu fyrir rafmagnsbíla. Þar sem hin kærða ákvörðun muni fyrirsjáanlega valda miklum töfum á fyrirhuguðum framkvæmdum virðist hún í beinni andstöðu við breyttar áherslur í loftlagsmálum og loftlagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem stefni m.a. að orkuskiptum í samgöngum.

Hvað form varði hafi Vegagerðin tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða vegaframkvæmd 15. apríl 2019. Hafi það verið gert á grundvelli 6. gr. laga nr.106/2000 og vísað sérstaklega til liðar 2.03 í 1. viðauka laganna. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna skuli Skipulagsstofnun innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn berast taka ákvörðun um hvort að viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Af ákvörðuninni megi ráða að öll gögn sem Skipulagsstofnun byggði ákvörðun sína á hafi borist stofnuninni 24. maí 2019. Frestur til þess að taka ákvörðun hafi því verið löngu liðinn þegar ákvörðunin hafi verið tekin nær sjö mánuðum síðar, eða 20. desember 2019. Hafi ekki aðeins orðið tafir hafi orðið á afgreiðslu málsins heldur hafi stofnunin ekki haft heimild til þess að taka umrædda ákvörðun þegar frestir nefndrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið liðnir.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er tekið fram að meðferð málsins hafi dregist á langinn hjá stofnuninni og verið umfram lögbundinn afgreiðslufrest. Það megi fyrst og fremst rekja til sumarfría og manneklu. Hins vegar hafni stofnunin því að drátturinn leiði til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Bent sé á að svo að til greina komi að telja tafir á afgreiðslu máls geti valdið ógildingu ákvörðunar verði þær að hafa haft áhrif á niðurstöðu ákvörðunar málsins. Efnisleg niðurstaða í hinu kærða máli hefði ekki breyst þótt stofnunin hefði tekið matsskylduákvörðunina fyrr.

Kærandi mistúlki úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 83/2015. Að mati Skipulagsstofnunar hafi úrskurðarnefndin lagt áherslu á sjónarmið um „salami slicing“ og samlegðaráhrif framkvæmda. Nánar tiltekið beri ekki aðeins að líta til hinnar tilkynntu framkvæmdar heldur einnig til annara framkvæmda, sem þegar hafi átt sér stað og séu fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti þeirri framkvæmd sem tilkynnt sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sæta ákvarðanir um matsskyldu framkvæmdar skv. 6. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fer um aðild o.fl. samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. þeirra laga geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal þeirra eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi í máli þessu er einkahlutafélag í atvinnurekstri sem uppfyllir ekki skilyrði framangreinds ákvæðis. Verður hann því að uppfylla þau almennu skilyrði til kæruaðildar sem áður greinir.

Hin kærða ákvörðun veitir ekki leyfi til framkvæmda heldur mælir hún fyrir um að fyrirhugaðar vegaframkvæmdir við Kjalveg skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að hann sé ósammála niðurstöðu Skipulagsstofnunar og telji jákvæða umhverfisþætti vega þyngra en þá neikvæðu. Framkvæmdin leiði til minni mengunar og akstur utan vega hverfi að mestu. Hin kærða ákvörðun muni fyrirsjáanlega valda miklum töfum á fyrirhuguðum vegaframkvæmdum sem sé í andstöðu við áherslur í loftslagsmálum, en að óbreyttu sé vegurinn vart fær rafmagnsbílum. Þau atriði sem kærandi nefnir teljast jafnan til almannahagsmuna. Þegar horft er til þess að starfsstöð kæranda er í um 10 km fjarlægð frá Kjalvegi verður ekki séð að einstaklingsbundnum hagsmunum hans verði raskað í neinum mæli vegna hinnar kærðu ákvörðunar, s.s. vegna þess að sú mengun minnki í ekki bráð sem hann telur stafa af umferð um veginn eins og hann er í dag. Þá er ekki hægt að játa kæranda kæruaðild á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun leiði til tafa á framkvæmd sem hann hefur ekki forræði á þótt hún kunni að leiða til betra aðgengis að starfsstöð hans. Hefur hann enda ekki verulega hagsmuni umfram aðra af því að þær samgöngur verði bættar. Þar sem kærandi verður ekki talinn eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kæru hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

5/2020 Álfaskeið

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 20. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 5/2020, kæra á umsögn byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 18. desember 2019 um endurnýjun rekstraleyfis fyrir gististað í flokki II að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. janúar 2020, er barst nefndinni 28. s.m., kærir eigandi, Álfaskeiði 10, Hafnarfirði, neikvæða umsögn byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 18. desember 2019 um endurnýjun rekstraleyfis fyrir gististað að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 6. mars 2020.

Málsatvik og rök: Kærandi hefur verið með leyfi fyrir rekstri gististaða í flokki II að Álfaskeiði 10, Hafnarfirði. Gildistími leyfisins var til 18. janúar 2020, en kærandi mun hafa sótt um endurnýjun þess fyrir þann tíma. Með tölvupósti 18. desember 2019 veitti  byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar Sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu neikvæða umsögn vegna endurnýjunar leyfisins. Var tekið fram í umsögninni að endurnýjunin samræmdist ekki aðalskipulagi.

Kærandi bendir á að í grein 2.2.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram að í íbúðarhverfi sé heimilt að hafa aðra þá starfsemi en þjónusti íbúa viðkomandi hverfis svo framarlega sem ekki verði ætlað að starfsemin valdi „óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né drag[i] að sér óeðlilega mikla umferð“. Gistirými kæranda, sem sé smátt sniðum, falli að þessari skilgreiningu. Það sé í húsi á stórri lóð innst í botngötu og sé hraun allt um kring. Gestir hafi eigið bílastæði og inngang. Engar kvartanir hafi borist frá nágrönnum. Eignin hafi verið keypt til þessara nota og umfangsmiklar og kostnaðarsamar umbætur verið gerðar til að uppfylla reglur um gistirými. Í kjölfar þess hafi jákvæðar umsagnir verið gefnar af öllum umsagnaraðilum og leyfi verið veitt. Vegna endurnýjunar hafi kærendur þegar greitt heilbrigðiseftirlitsgjald og endurnýjunargjald sem ekki hefði verið gert hefði afstaða byggingarfulltrúa legið ljós fyrir.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er á því byggt að það samrýmist ekki gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 að reka gististað í flokki II í íbúðarhverfi. Í gr. 2.2.1 í greinargerð með aðalskipulaginu sé kveðið á um að á öllum íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Samkvæmt orðalagi greinarinnar sé ljóst að einungis sé gert ráð fyrir að heimilt sé að hafa starfsemi í íbúðarbyggð sem eðlilegt sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis. Rekstur gistiheimilis falli ekki þar undir. Að virtum þessum sjónarmiðum gefi byggingarfulltrúi neikvæða umsókn í sambærilegu málum. Dæmi séu um að sambærileg mál hafi áður fengið jákvæða umsögn byggingarfulltrúa en þeirri stjórnsýsluframkvæmd hafi verið breytt, enda ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Að framangreindu virtu verði að telja umsögn byggingarfulltrúa vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og byggi hún á lögmætum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististarfsemi þá sem hér um ræðir, eða eftir atvikum synjun um slíkt leyfi, er tekin af sýslumanni skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Er ákvörðun hans þar að lútandi kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sbr. 26. gr. þeirra laga, en í þeim lögum er ekki að finna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Við málsmeðferð umsókna um rekstrarleyfi skal sýslumaður m.a. leita umsagna sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Þær umsagnir verða hins vegar ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ber af þeim sökum að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

11 og 12/2020 Furugerði

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 20. maí, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 11/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 28. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Espigerðis, staðgreinireit 1.806/807, vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar við Furugerði og Espigerði, Reykjavík, þá ákvörðun borgar­ráðs Reykjavíkur frá 28. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Espigerðis, staðgreinireit 1.806/807, vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. febrúar 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Furugerði 12, og eigendur, Furugerði 10, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem hið síðara kærumál, sem er nr. 12/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður það sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. mars 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 31. október 2018 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á deiliskipulagi Espigerðis fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 15. nóvember 2018 og var hún kynnt með fresti til athugasemda á tímabilinu frá 23. s.m. til 7. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá hluta kærenda. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 24. júní 2019. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 26. júní 2019 sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 4. júlí s.á. Með erindi, dags. 13. september 2019, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulags­breytinguna sem skipulagsfulltrúi brást við og tók afstöðu til í umsögn, dags. 14. nóvember s.á. Vísaði hann deiliskipulagstillögunni til borgarráðs, sem samþykkti hana á fundi sínum 28. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2020.

Kærendur byggja meðal annars á því að deiliskipulagstillagan feli í sér brot gegn 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og meginreglu stjórnsýsluréttar um réttmætar væntingar. Þá sé ljóst að deiliskipulagið uppfylli ekki ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Borgaryfirvöld benda á að ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar nr. 23 við Furugerði og geri Reykjavíkurborg þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda í málinu.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk teljist deiliskipulag ógilt og fari þá um það í samræmi við 41. gr. laganna. Svo sem áritað er á deiliskipulagsuppdráttinn lauk athugasemdafresti vegna tillögu til hins kærða deiliskipulags 7. janúar 2019. Auglýsing um samþykkt þess birtist hins vegar ekki í B-deild Stjórnartíðina fyrr en 22. janúar 2020, eða rúmu ári síðar. Hin kærða ákvörðun var því ógild skv. nefndri 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreinings um ógilda ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

31/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2020, föstudaginn 8. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 31/2020, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 6. apríl 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 6. apríl 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að verða tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 7. maí 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 7. október 2019, sótti eigandi Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 sólstofu ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð var fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulagsráð erindið og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs.

Kærendur benda á að hin fyrirhugaða bygging sé á lóðamörkum lóðar kærenda og lóðar Fífuhvamms 25. Hún samrýmist ekki götumynd og auki skuggamyndun á lóð kærenda, einkum í garði, og takmarki þannig nýtingarmöguleika þeirra. Útgáfa byggingarleyfisins fari í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni hin fyrirhugaða framkvæmd lækka verðmæti eignarinnar.

Eigandi Fífuhvamms 25 vísar til þess að í málinu liggi hvorki fyrir samþykki byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdunum né hafi byggingarleyfi verið gefið út samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Því sé ekki fyrir hendi kæranleg ákvörðun í málinu og því síður skilyrði til að stöðva framkvæmdir.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að samþykki skipulagsráðs feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn heldur sé það hlutverk byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir umrætt gróðurhús og hafi lóðarhafi því ekki fengið heimild til að hefja framkvæmdir. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða og því séu framkvæmdir hvorki yfirvofandi né hafnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun skipulagsráðs, sem og ákvörðun bæjarstjórnar um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs, er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Er því ekki að svo stöddu fyrir hendi samþykkt byggingarleyfi sem kæranlegt er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

133/2019 Torfur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 7. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 21. nóvember 2019 um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grundar I, Grundar IIa og Finnastaða, Eyjafjarðarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að samþykkja deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Farið var fram á það að málið yrði munnlega flutt fyrir úrskurðarnefndinni skv. 2. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2020.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðar­sveit 24. janúar 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Jörðin Torfur er í ábúð og er staðsett sunnan við kirkjujörðina Grund í Eyjafjarðarsveit. Tilgreint fyrirtæki festi kaup á 18,8 ha spildu úr landi Torfa og hefur haft uppi áform um að byggja þar svínabú. Skipulags- og matslýsing vegna vinnu við deiliskipulag fyrir búið var samþykkt til kynningar á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 1. október 2018 og auglýst á tímabilinu 2.-16. s.m. Í kjölfarið yfirfór Skipulagsstofnun lýsingu deiliskipulagstillögunnar samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, sbr. bréf stofnunarinnar þar um, dags. 24. s.m. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók umsagnir og athugasemdir vegna þessa fyrir á fundi sínum 5. nóvember 2018 og vísaði þeim áfram til áframhaldandi vinnu við deiliskipulag.

Á fundi sínum 29. nóvember 2018 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarveitar tillögu skipulags­nefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð fyrir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gylltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló­, samtals 80 m² að grunnflatarmáli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Tillagan var kynnt á tímabilinu 27. desember 2018 til 14. febrúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Á 302. fundi skipulagsnefndar 14. mars 2019 var fjallað um innkomnar athugasemdir og m.a. bókað að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. var málið tekið fyrir og bókað að fundargerð 302. fundar skipulagsnefndar væri tekin til afgreiðslu eins og einstakir liðir bæru með sér. Undir lið 1.1 var fjallað um umsókn um uppbyggingu svínahúss í landi Torfa og tekið fram að sveitarstjórn teldi skipulagsnefnd hafa svarað málefnalega öllum liðum þeirrar athugasemdar sem beint hefði verið að sveitarstjórn. Þá var eftirfarandi bókað: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum. Athugasemdafrestur var til 14. febrúar 2019.“ Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 49/2019, uppkveðnum 14. nóvember 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðsla sveitarstjórnar uppfyllti ekki þau lágmarks­­skilyrði sem gera yrði til skýrleika ákvarðana hennar, í skjóli þess valds sem sveitar­stjórn væri falið samkvæmt skipulagslögum og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Var umrædd afgreiðsla því ekki talin fela í sér ákvörðun sem batt enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og var þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni er laut að deiliskipulagstillögunni.

Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019. Var þar tekið fram að fyrirhuguð framkvæmd vegna svínabús að Torfum væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. og lið 1.10 í 1. viðauka í lögum nr. 106/2000. Væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laganna, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin var birt á vef Skipulagsstofnunar 13. mars 2019 og einnig auglýst í Fréttablaðinu 14. s.m. Kom þar fram að samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 mætti kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur til 15. apríl 2019. Kærandi kærði umrædda ákvörðun Skipulagsstofnunar, en kæran barst ekki fyrr en rúmlega tveimur mánuðum eftir að kærufrestur var liðinn, eða 24. júní 2019. Í áðurgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar var lagt til grundvallar að ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu sættu opinberri birtingu í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var því kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar einnig vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 49/2019 tók sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar, á fundi sínum 21. nóvember 2019, aftur fyrir fundargerð 302. fundar skipulagsnefndar sem haldinn var 14. mars s.á. Bókaði sveitarstjórn m.a. að „fenginni tillögu skipulagsnefndar, sem liggur fyrir fundinum um afgreiðslu málsins, samþykkir sveitarstjórn deiliskipulag fyrir svínahús í landi Torfna, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar eru í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 3 c), 3 e), 6 c), 7 f) og 8 a)“.

Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þótt úrskurðarnefndin hafi vísað frá fyrri kæru kærenda varðandi matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar vegna útrunnins kærufrests sé sú matsskylduákvörðun engu að síður lögbundinn réttargrundvöllur deiliskipulagsákvörðunar sveitarstjórnar. Úrskurðarnefndinni beri því skylda til að kanna lögmæti matsskyldu­ákvörðunarinnar við mat á lögmæti deiliskipulagsins. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 beindi umboðsmaður þeim leiðbeiningum til úrskurðarnefndarinnar að endurupptaka mál þar sem nefndin hefði ekki gefið gaum að lögmæti deiliskipulagsákvörðunar sem hefði legið til grundvallar byggingarleyfi. Hafi umboðsmaður talið það engu skipta að kærufrestur deiliskipulagsins hafi verið útrunninn þegar kæran barst.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 hafi verið röng að formi. Um brot hafi verið að ræða á þátttökurétti almennings samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála við töku ákvörðunar um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulags­stofnun eigi ekki einungis að leita álits leyfisveitanda og framkvæmdaraðila heldur einnig annarra eftir eðli máls hverju sinni. Eðli og umfang hins fyrirhugaða deiliskipulags sé slíkt að Skipulagsstofnun hafi verið skylt skv. nefndri 3. mgr. 6. gr. að hafa samband við næstu nágranna búsins áður en ákvörðun væri tekin um matsskyldu. Sé ljóst að kærendur hafi haft verulega og sérstæða hagsmuni af því að fá að tjá sig um matsskylduákvörðun stofnunar­innar áður en sú ákvörðun væri tekin.

Kærendur telji jafnframt að sú ákvörðun hafi verið röng að efni til. Að mati kærenda hafi verið um matsskyldu að ræða og hefði mat á umhverfis­áhrifum átt að fara fram. Í 1. mgr. 5. gr laga nr. 106/2000 sé tilgreint að framkvæmdir í flokki A samkvæmt 1. viðauka laganna skuli ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. 6. gr. laganna sé hins vegar tilgreint að framkvæmdir sem falli undir flokk B og C í 1. viðauka skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Kærendur telji að um matsskylda framkvæmd í A-flokki hafi verið að ræða. Jafnframt telji kærendur að um matsskylda framkvæmd hafi verið að ræða ef B-flokkun eigi við. Það sé grundvallarröksemd að um leið og heildaráhrif framkvæmdar í B-flokki 1. viðauka verði jafnmikil eða meiri en grunnviðmið A-flokks framkvæmda hljóti slíkar B-flokks framkvæmdir nær undantekningar­laust einnig að vera matsskyldar samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Við málsmeðferð deiliskipulagsins hafi Eyjafjarðarsveit borist mikill fjöldi umsagna bæði frá stjórnvöldum og almenningi. Í athugasemdunum hafi nánast undantekningarlaust komið fram sömu eða sambærilegar athugasemdir á þá leið að svínabúið fæli í sér umhverfisraskanir sem hefðu neikvæð áhrif á nánasta umhverfi. Í athugasemdunum hafi nágrannar sérstaklega lýst áhyggjum yfir mengun vegna úrgangs og lyktar sem kynni að dreifast yfir svæðið. Auk þess hafi fjölmargir lýst yfir áhyggjum yfir framtíðarnýtingu fasteigna á svæðinu, enda gæti svo stórt svínabú haft varanleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístunda­byggðar. Athugasemdir nágranna og almennings hafi hins vegar haft afar takmörkuð áhrif. Athugasemdirnar hafi verið afgreiddar af hálfu sveitarfélagsins sem smávægilegar eða minniháttar. Þá hafi áhrif deiliskipulagsins ekki verið talin verulega neikvæð heldur fremur hlutlaus og að jákvæð áhrif framkvæmdanna kynnu að vega þyngra en neikvæð áhrif.

Nær öll rannsókn málsins og eftirfarandi niðurstöður hafi byggst á huglægu mati eða ágiskunum stjórnvaldsins. Kærendur hafi óskað eftir gögnum málsins frá sveitarfélaginu og hvergi í þeim gögnum hafi verið að finna skýrslur eða mat sérfræðinga á aðstæðum eða forsendum sem hafi legið til grundvallar við gerð umhverfisskýrslu deiliskipulagsins, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Sem dæmi megi nefna umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar þar sem mögulegri lyktarmengun hafi verið lýst, en engin frekari rannsókn eða formlegt mat virðist hafa átt sér stað. Kærendur efist um að úrgangur úr rúmlega 4.200 svínum nemi einungis 9.000 m³ á ári. Þetta þyrfti að rannsaka og sannreyna en engar slíka aðgerðir virðist hafa verið framkvæmdar í deiliskipulagsferlinu.

Ekki sé hægt að bera hefðbundinn landbúnað saman við stórtæka verksmiðjuframleiðslu kjöts. Fremur mætti fella slíka framleiðslu undir þungaiðnað. Áhrif framkvæmdanna verði veruleg. Ljóst sé að þau muni koma til með að valda kærendum tjóni í formi verðlækkunar á landareignum og kunni skaðabætur vegna þess að verða sóttar á öðrum vettvangi. Gera verði miklar kröfur til rannsókna af hálfu stjórnvaldsins við undirbúning deiliskipulags, t.d. með því að kalla eftir mati sérfræðinga og fagaðila á viðkomandi sviðum. Það virðist ekki hafa verið gert miðað við þau gögn sem kærendur hafi fengið frá sveitarfélaginu.

Kærendur telji andmælarétt þeirra ekki hafa verið virtan vegna skorts á samstarfi sveitar­félagsins við Skipulagsstofnun þegar mat á matsskyldu framkvæmdanna hafi átt sér stað. Skýrar leiðbeiningar hefðu átt að berast til allra þeirra nágranna sem gert hefðu athugasemdir við skipulagsgerð um að málið væri til úrvinnslu hjá Skipulagsstofnun vegna matsskyldu­ákvörðunar. Hefði átt að gefa frest til athugasemda, ásamt því að leiðbeina um að kærufrestur væri til staðar vegna þeirrar ákvörðunar. Þetta hafi ekki verið gert og telji kærendur það brjóta gegn IV. kafla stjórnsýslulaga. Við mat á framangreindu sé óhjákvæmilegt að líta til 14. gr. skipulagslaga um tengsl ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu og deiliskipulags sveitarfélags í tilvikum matsskyldra framkvæmda.

Ekkert raunverulegt valkostamat hafi farið fram á hinu kærða deili­skipulagi. Um það vísist í fyrsta lagi til þess að ekkert valkostamat hafi verið til staðar í upphaflegri auglýstri deiliskipulagstillögu frá 19. september 2018. Þá hafi ekki heldur verið að finna umhverfismat í upphaflegri auglýstri deiliskipulagstillögu. Á síðari stigum skipulags­ferlisins hafi komið inn valkostamat og umhverfismat. Kærendur hafni því að um raunverulegt valkostamat hafi verið að ræða heldur hafi sú tillaga fremur verið til málamynda. Allt valkosta­mat ferlisins sé bundið við það vandamál að koma svínabúinu fyrir í Eyjafjarðarsveit með hliðsjón af 500 m radíus reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Svo virðist sem svæði deiliskipulagsins og nærliggjandi sveita séu orðin svo þéttbyggð að engir aðrir raunhæfir kostir hafi verið taldir fyrir hendi til stað­setningar svínabúsins.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 575/2016 vegna Suðurnesjalínu 2 megi sjá mikilvægi þess að gerð sé grein fyrir raunhæfum valkostum í tillögum og matsskýrslum í deiliskipulags- og mats­ferlinu. Þá telji kærendur einnig rétt að benda á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 131/2012, „Ásar minkabú“.

Að lokum skori kærendur á úrskurðarnefndina að rannsaka mögulegt vanhæfi sveitarstjórnar­manna og  skipulagsnefndar vegna funda og ákvarðana sem teknar hafi verið vegna hins kærða skipulags. Oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðasveitar sé bróðir eiganda framkvæmdaraðila þótt af fundargerðum sveitarstjórnar verði ráðið að hann hafi vikið af fundum þegar málefni svínabúsins hafi verið tekin fyrir. Annar sveitarstjórnarfulltrúi hafi setið alla fundi sveitarstjórnar og skipulagsnefndar sem varði svínabúið frá 24. september 2018 til 11. febrúar 2019, en þá hafi hann vikið af fundi undir fundarlið sem varði svínabúið. Á næsta sveitarstjórnarfundi hinn 14. febrúar 2019 hafi sami fulltrúi lýst sig vanhæfan undir fundarlið sem varði svínabúið og áfram vegna þess á næstu fundum. Að lokum hafi formaður skipulagsnefndar setið fundi hennar sem varðað hafi svínabúið frá 24. september 2018 til 11. febrúar 2019, en þá vikið af fundi undir dagskrárlið svínabúsins. Eftir það hafi hann vikið af fundum.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Sveitarfélagið krefst þess að kærunni verði vísað frá eða að kröfum kærenda verði hafnað.

Hinn 22. ágúst 2019 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 70/2019 að vísa bæri kæru kærenda frá vegna framkvæmdaleyfis framkvæmdaraðila á þeim grundvelli að íbúðarhús þeirra væru staðsett langt utan fjarlægðarmarka. Ekki verði betur séð en að sömu rök eigi við varðandi þessa kæru. Íbúðarhús kærenda séu í um eins kílómeters fjarlægð frá spildunni að Torfum þar sem hið fyrirhugaða svínabú eigi að rísa. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína sé áskilið að svínabú með meira en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum en mörkin séu 500 m á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Í ljósi þessarar fjarlægðar verði að telja að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af kærunni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í þessu sambandi sé einnig rétt að hafa í huga að landsvæði það sem um ræði sé skipulagt landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar, sem staðfest hafi verið af Skipulagsstofnun 8. mars 2019. Það verði ekki séð að tilkoma svínabúsins skerði möguleika kærenda á að nýta jarðir sínar. Einnig muni rekstraraðili búsins þurfa leyfi frá Umhverfisstofnun og verða bundinn af reglum um bestu aðgengilegu tækni (BAT).

Líkt og í kæru kærenda frá 24. júní 2019 sé í þessari kæru fjallað í löngu máli um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdin þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum og færð séu ýmiskonar rök fyrir því að sú ákvörðun sé röng. Kæru kærenda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 þar sem kærufrestur hafi verið útrunninn. Því sé ljóst að ákvörðunin sé endanleg og verði henni ekki breytt. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar feli í sér bindandi réttaráhrif varðandi ákvörðun Skipulagsstofnunar og hún verði ekki kærð öðru sinni, líkt og kærendur virðist leita eftir. Rétt sé að hafa í huga að sveitarfélagið hafi engar heimildir til að endurmeta ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu og ekki verði séð að það sé hlutverk Eyjafjarðarsveitar að hafa skoðun á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í deiliskipulagsferli geti sveitarfélag ekki gert annað en lagt til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar um mats­skyldu. Það myndu alltaf teljast ómálefnaleg sjónarmið af hálfu sveitarfélags að synja um samþykkt deiliskipulags á þeim forsendum að því líkaði ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ekki sé með nokkru móti hægt að sjá að unnt sé að ógilda deiliskipulagið á þeim grundvelli að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé áfátt eða ábótavant, enda sé hún endanleg og verði ekki breytt. Eyjafjarðarsveit hafi ekki átt annarra kosta völ en að leggja hana til grundvallar í deiliskipulags­ferlinu.

Í kæru setji kærendur fram órökstudda fullyrðingu um að hið fyrirhugaða svínabú hafi í för með sér meiri röskun á umhverfisaðstæðum en sumar, raunar ótilgreindar, framkvæmdir sem falli í A-flokk. Niðurstaða málsins verði ekki grundvölluð á almennum fullyrðingum sem þessum gegn áliti bæði Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum og skýrri afstöðu þessara aðila um að slíkt mat sé ekki til þess fallið að varpa fram nýjum upplýsingum um umrædda framkvæmd.

Meðferð deiliskipulagsins og atvika sem því tengist hafi verið til fyrirmyndar í málinu öllu. Á öllum stigum málsins hafi sveitarfélagið gætt að því að málsmeðferð væri í samræmi við lög, fjallað ítarlega um málið og ráðið því til lykta með ýtrustu eftirfylgni við lög og reglur sem um það giltu. Sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn skyldi ekki hafa tekið nægjanlega skýra ákvörðun um samþykkt deiliskipulagsins á sínum tíma hafi komið á óvart. Nú hafi hins vegar verið bætt úr því með samþykkt sveitarstjórnar 21. nóvember 2019, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m.

Athugasemdir kærenda um varanleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístunda­byggðar á svæðinu séu ekki tæk sjónarmið. Áhrifasvæðið sé landbúnaðarland, þar með talið það land sem sé í eigu kærenda, en kærendur stundi sjálfir umfangsmikinn landbúnað. Land­notkun á svæðinu hafi ekki verið breytt við heildarendurskoðun aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar og engar óskir hafi komið um það frá kærendum eða öðrum. Mótmælt sé staðlausum fullyrðingum um að athugasemdir í skipulagsferlinu hafi verið afgreiddar af sveitarfélaginu sem „smávægilegar eða minni háttar“. Séu þetta ómaklegar aðdróttanir í garð starfsfólks og kjörinna fulltrúa Eyjafjarðarsveitar um huglægt mat eða ágiskanir stjórnvalds. Fyrirliggjandi gögn séu ítarleg, þar með taldar ítarlegar umsagnir sérfróðs­ stjórnvalds um umhverfisáhrif af fram­kvæmdinni. Óvenjulega ítarleg vinna hafi átt sér stað af hálfu stjórnvaldsins í málinu.

Sú breyting sem hafi verið samþykkt með deiliskipulaginu hafi falið í sér verulega breytingu á landnýtingu. Farið hafi verið ítarlega eftir þeim reglum sem um það gildi á öllum stigum. Rangt sé hins vegar að fyrirhuguð áform um svínabú skuli fella undir þungaiðnað. Slík fullyrðing kærenda sé gildishlaðin og ekki studd lögmætum sjónarmiðum. Áformað svínabú sé landbúnaðarstarfsemi á landi sem í aðal­skipulagi sé skilgreint sem landbúnaðarland. Nýleg reglugerð nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit, muni gilda um starfsemi svínabúsins. Þá muni rekstrar­aðili lúta eftirliti Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Augljóst sé að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, sem og deiliskipulag, sé undanfari veitingar starfsleyfis, sbr. ákv. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Þar segi að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu skuli liggja fyrir og að ný atvinnustarfsemi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé þetta breytt laga- og regluumhverfi frá því sem áður hafi verið þegar örðugra hafi verið að sjá fyrir hver áhrif yrðu af áformum um uppbyggingu svínabúa.

Fullyrðingum um að samþykkt skipulagsins og framkvæmd muni valda kærendum sem land­eigendum tjóni sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum. Landsvæði kærenda sé land­búnaðar­land og skipulagt sem slíkt. Fyrirhuguð landnýting sé skynsamleg og eðlileg fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð sé. Óvíða sé orðið hægt að finna svæði, jafnvel á landbúnaðar­svæðum, þar sem hægt sé að setja niður starfsemi sem þessa og uppfylla um leið reglur um fjarlægðar­mörk, svo sem gert sé í tilviki umsækjenda. Hér þurfi því, um heimild landeigenda og umsækjenda til að ráðstafa landbúnaðarlandi sínu undir atvinnustarfsemi sem fyrirhuguð sé, að líta til þess að þau áform njóti verndar eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða 72. og 75. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 og verði því ekki skert nema skýr og afdráttarlaus lagaheimild standi til þess. Í nýstaðfestu og endurskoðuðu aðalskipulagi fyrir Eyjafjarðarsveit sé umþrætt landsvæði skipulagt sem landbúnaðarland, eins og áður greini. Framkvæmdin sé í samræmi við áherslur í aðalskipulagi. Engar forsendur séu til annars en að líta svo á að hið kærða skipulag sé að fullu og öllu í samræmi við lög og reglur.

Kærendur vísi í dóm Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 til stuðnings því að þeir eigi fyrirsjáanlega rétt á skaðabótum vegna framkvæmdarinnar. Þessum skilningi sé mótmælt enda séu aðstæður ekki þær sömu og hafi reglur breyst frá því sá dómur hafi fallið. Tekið hafi gildi mjög ítarlegar reglur um landbúnaðarstarfsemi og um starfsemi svínabúa varðandi meðferð úrgangs og starfsemi þeirra að öðru leyti, svokallaðar BAT-reglur, sem framkvæmdar­aðili verði bundinn af.

Andmælaréttur kærenda hafi verið virtur, en fyrir liggi að þeir hafi á fyrri stigum málsins komið að sjónarmiðum sínum og haft jöfn tækifæri á við aðra um það. Af fram kominni kæru kærenda verði ekki séð að í henni sé að finna upplýsingar eða ábendingar um atvik sem séu til þess fallin að varpa nýju ljósi á málið eða breyta þeim sjónarmiðum sem afgreiðsla sveitarfélagsins hafi grundvallast á. Gildi þar rannsóknarreglan um að mál skuli rannsakað að því marki sem nauðsynlegt sé til að taka megi efnislega rétta ákvörðun í máli.

Rangt sé að ekkert valkostamat hafi farið fram sem byggjandi sé á. Ítarleg valkostagreining hafi farið fram við vinnslu og meðferð málsins. Í deiliskipulagstillögunni sé að finna kafla 5.7. og 5.8. þar sem bornir séu saman valkostir. Annars vegar við Melgerðismela og hins vegar núllkost. Það sé ósanngjarnt og ómaklegt af hálfu kærenda að halda því fram að valkostamat á Melgerðis­melum hafi verið sett fram til málamynda. Raunveruleg greining og vinna hafi farið fram um það mat og megi vísa til fundargerða skipulagsnefndar. Þannig hafi við meðferð deili­skipulagstillögunnar verið gerð grein fyrir valkostagreiningu og raunverulegt mat lagt á kosti þess að reisa svínabúið á Melgerðismelum. Afstaða nefndarinnar hafi verið í samræmi við áherslur í aðalskipulagi, sem þá hafi verið í vinnslu, um að landbúnaðarstarfsemi skuli vera á land­búnaðarlandi, en Melgerðismelar séu útivistarsvæði, þar sem meðal annars fari fram starfsemi hestamannafélaga og svifflugfélags, auk trjáræktar. Gerð hafi verið nokkuð skilmerkileg grein fyrir valkostamati í greinargerð deiliskipulags, sem auglýst hafi verið á milli jóla og nýárs 2018, og almenningi þannig gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

Málatilbúnaður kærenda um að við valkostamat hafi borið að leita fanga í öðrum sveitarfélögum hvíli ekki á lögmætum grunni. Ekkert liggi fyrir um að umsækjandi hafi haft raunhæfa mögu­leika á að sækja um land í eigu annarra í öðrum sveitarfélögum og ekki verði séð að lagaheimildir séu til staðar til að unnt sé að leggja þá skyldu á hann. Þessar hugleiðingar kærenda séu því fráleitar. Sveitarfélagið sé á hinn bóginn eigandi Melgerðismela og með ráðstöfunarrétt á því landi og því hafi verið raunhæfur valkostur að kanna samanburð við þá framkvæmd að reisa svínabú á því landi. Tilvísun til máls um Suðurnesjalínu hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu, enda um að ræða framkvæmd sem hafi verið háð reglum um mat á umhverfisáhrifum.

Í kæru sé fjallað um úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 131/2012 sem varði minkabú að Ásum. Hvað varði það mál sé nauðsynlegt að hafa í huga þær lagabreytingar sem átt hafi sér stað síðan úrskurðurinn var kveðinn upp. Lög nr. 138/2014 hafi breytt lögum um mat á umhverfis­áhrifum og framkvæmd sem hér sé þrætt um hafi verið gerð tilkynningarskyld, sbr. 6. gr. laganna. Lögin mæli fyrir um ítarlega málsmeðferð Skipulagsstofnunar varðandi ákvarðanatöku um nauðsyn matsskyldu. Þessum reglum hafi verið fylgt í málinu. Einnig hafi farið fram ígrundað mat á raunhæfum valkostum varðandi staðsetningu búsins. Í umhverfisskýrslu framkvæmdar­aðila sé einnig að finna ítarlegt mat á valkostum, annars vegar Melgerðismelum og hins vegar Torfum. Staðsetningin að Torfum hafi þótt best henta með hliðsjón af fjarlægð frá manna­bústöðum, vindáttum, aðgengi að vatni o.s.frv. Þá hafi verið innleiddar í íslenskan rétt ítarlegur reglur um bestu aðgengilegu tækni hverju sinni (BAT). Það verði því ekki séð að úrskurður varðandi minkabúið að Ásum geti talist hafa fordæmisgildi í málinu eða feli í sér rök fyrir kröfum kærenda.

Kærendur vísi ekki til þess að hæfisreglur hafi verið brotnar heldur virðist fremur vera um að ræða tilraun til að gera málsmeðferðina tortryggilega. Oddviti sveitarstjórnar hafi ekki komið að afgreiðslu málsins á neinu stigi, en hann sé bróðir fyrirsvarsmanns framkvæmdaraðila. Umræddur sveitarstjórnarfulltrúi og annar landeigenda að Torfum séu systkinabörn og skyld að öðrum lið til hliðar. Landeigendur að Torfum hafi gert samning við framkvæmdaraðila um spilduna að Torfum þar sem búið skuli rísa. Nefndur landeigandi sé því ekki aðili að framkvæmdinni eða málinu sem sé til meðferðar og komi ekki að rekstri eða ákvarðanatöku í félaginu sem að henni standi. Um ættartengsl segi í 2. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga að nefndarmaður sé vanhæfur ef hann er skyldur málsaðila að öðrum lið til hliðar. Hins vegar gildi í þessu tilviki 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem kveðið sé á um að þeir sem skyldir séu í beinan legg, eða einum legg til hliðar, séu vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu máls. Skyldleiki sveitarstjórnarfulltrúans og landeigandans sé því minni en svo að vanhæfi valdi. Misskilnings virðist hafa gætt þegar fulltrúinn hafi sjálfur kosið að víkja af fundi, en skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi eftir sem áður verið ályktunarhæf og bær til að fjalla um og taka ákvarðanir um málið.

Þá hafi formaður skipulagsnefndar vikið af fundi þegar hann hafi sest í stjórn félags sem félag það sem að framkvæmdunum standi hafi átt í viðskiptalegum tengslum við vegna verkefnisins. Fyrir vikið hafi verið eðlilegt að formaðurinn viki af fundum meðan sú stjórnarseta varði og viðskiptahagsmunir. Hann hafi nú hætt störfum í stjórn þessa félags.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá. Íbúðarhús kærenda séu staðsett langt utan fjarlægðarmarka, eða í um 950 til 1000 m fjarlægð, frá hinu fyrirhugaða svínabúi, en áskilið sé að svínabú með meira en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Jafnframt skerði tilkoma svínabúsins ekki nýtingar­möguleika kærenda á jörðum sínum, enda sé þar skipulagt landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar.

Verði kærunni ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Í fyrri málum hafi verið færð ítarleg rök fyrir því að röksemdir og málatilbúnaður kærenda eigi ekki við rök að styðjast og honum beri að hafna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna því eindregið að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Á jörðum beggja kærenda haldi fjölskyldur lögheimili og þær horfi fram á að risavaxið svínabú hefji starfsemi í nánd við heimili þeirra. Þá hafi kærendur verulega fjárhagslega hagsmuni af úrlausn málsins. Í málinu gangi umræddur 500 til 600 m radíus frá hinu fyrirhugaða svínabúi að mestu leyti inn á aðrar jarðir, þ. á m. jarðir kærenda að miklu leyti. Það sé einföld staðreynd þessa máls að verði af byggingu hins fyrirhugaða svínabús muni staðsetning þeirrar byggingar skerða verulega nýtingarrétt kærenda á jörðum sínum, jafnvel að svo miklu leyti að jafna mætti við de facto eignarnám. Hljóti það að teljast til algjörra undantekninga að skipulag vegna framkvæmda einkaaðila hafi svo mikil áhrif á nágrannaeignir. Gera verði ýtrustu kröfur til framkvæmdaraðila slíkra framkvæmda að velja eða finna landsvæði undir slíkar framkvæmdir þar sem slíkur radíus nái ekki inn á landsvæði annarra jarðeigenda og takmarki með því verulega nýtingarrétt þeirra á eigin jörðum. Um framangreint séu röksemdir kærenda um fyrri fordæmi úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Ljóst sé að framkvæmdaraðili hefði hæglega getað fundið ótal landsvæði, lóðir eða jarðir í ná­grenni Eyjafjarðasveitar þar sem hann hefði getað byggt umrætt svínabú án þess að trufla eða íþyngja nágrönnum með lyktarmengun og skertum nýtingarrétti landa þeirra. Það standist því engin skilyrði um meðalhóf eða jafnræði að svo íþyngjandi staðsetning sé valin að óþörfu.

Frá upphafi máls þessa hafi sveitarfélagið haldið því fram að varla eða ekki sé til pláss í sveitarfélaginu fyrir staðsetningu á svínabúi aðra en þá sem valin hafi verið. Kærendur vísi til samskipta sinna við landfræðinga og aðra sérfróða aðila þar sem fram komi að það landsvæði í sveitarfélaginu sem sé um 0-100 m yfir sjávarmáli sé byggt nokkuð þétt en að byggð ofar sé mun strjálbýlli. Nokkur reynsla sé í Eyjafjarðarsveit af rekstri búskapar í meira en 100 m hæð yfir sjávarmáli. Annað svínabú sem framkvæmdaraðili málsins reki sé t.d. staðsett 100 til 150 m yfir sjávarmáli og sé búskapur stundaður í búum í sveitarfélaginu sem séu staðsett um 300 m yfir sjávarmáli. Óski kærendur þess sérstaklega að rannsakað verði hvernig staðið hafi verið að vali á valkostum og mögulegri staðsetningu hins fyrirhugaðs svínabús. Sérstaklega hvort sveitarfélagið hafi bundið valkostamat og mögulegar staðsetningar við lægstu byggðir, sem séu þéttast byggðar, og hvort að strjálbýlli byggðir í meiri hæð yfir sjávarmáli hafi verið undanskildar frá matsmeðferðinni.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum. Kærendur búa í nokkurri fjarlægð frá byggingarreitum svínabúsins, en íbúðarhúsið á Finnastöðum er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabúsins til norðvesturs, og íbúðarhúsin að Grund I og IIa eru í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitunum til norðausturs. Styttri fjarlægð er hins vegar frá landamerkjum jarða kærenda að lóð svínabúsins. Í ljósi eðlis þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir er ekki unnt að útiloka að hún geti snert hagsmuni kærenda, t.a.m. vegna lyktarmengunar, en því var ekki að heilsa í kærumáli úrskurðarnefndarinnar milli sömu aðila nr. 70/2019, sem laut að framkvæmdaleyfi fyrir vegtengingu að lóð svínabúsins og borun eftir neysluvatni. Eiga kærendur því lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og uppfylla þar með skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til kæruaðildar. Verður kæru þeirra því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni, svo sem krafist hefur verið af hálfu sveitarfélagsins og leyfishafa.

Svo sem rakið er í málavöxtum var með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 49/2019, sem kveðinn var upp 14. nóvember 2019, komist að þeirri niðurstöðu að þar sem kærufrestur væri liðinn bæri að vísa frá kæru kærenda á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús á Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Kærendur fóru fram á frekari rökstuðning vegna þeirrar niðurstöðu og var svarað með bréfum, dags. 29. nóvember og 20. desember 2019, þar sem m.a. var bent á að úrskurður nefndarinnar væri rökstuddur í samræmi við fyrirmæli 31. gr., sbr. 22. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að úrskurðurinn væri fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi, sbr. 6. gr. laga nr. 130/2011. Í máli þessu gera kærendur nefnda matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar að töluverðu umtalsefni, en sú ákvörðun kemur ekki til endurskoðunar hér með vísan til nefndrar 6. gr. laga nr. 130/2011, enda hefur fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar ekki verið hnekkt. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun hennar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærileg ákvæði er ekki að finna vegna skipulagsgerðar og sækir hið kærða deiliskipulag ekki stoð sína í fyrirliggjandi matsskylduákvörðun, þótt hún lúti að sömu framkvæmd og skipulagið tekur til. Atvik eru því ósambærileg þeim sem fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016, en þau lutu að því hvort deiliskipulag sem grundvöllur byggingarleyfis hefði verði birt með fullnægjandi hætti og því talist gilt.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. mars 2019, er skipulagssvæði hins kærða deiliskipulags 15 ha spilda á skilgreindu landbúnaðarsvæði, en á landbúnaðarsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni, sbr. q-lið í grein 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Meðal meginmarkmiða aðalskipulagsins er að Eyjafjarðarsveit verði áfram öflugt landbúnaðarhérað og þess verði gætt að standa vörð um fjölbreyttan landbúnað sem meginatvinnuveg sveitarfélagsins. Með hinu kærða deiliskipulagi er heimilað að reisa tvö eldisgrísa- , gyltu- og fráfærugrísahús, samtals 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílós, hauggeymslu og starfsmannahúss. Hið kærða deiliskipulag byggir því á stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Deiliskipulagið var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess, sem þeir og gerðu. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók athugasemdirnar til umfjöllunar á fundi sínum 14. mars 2019 og tók afstöðu til þeirra skv. 3. mgr. nefndrar 41. gr. Var m.a. bent á að um landbúnaðarsvæði væri að ræða og myndi fyrirhugað svínabú ekki koma í veg fyrir byggingu landbúnaðarmannvirkja á áhrifasvæði þess. Hvað varðaði lyktarmengun var bent á að um starfsleyfisskylda starfsemi væri að ræða, sem um giltu skilmálar um notkun bestu aðgengilegu tækni (BAT) skv. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Í sömu reglugerð væri kveðið á um viðmiðunarmörk fyrir losun tiltekinna efna í andrúmsloftið. Teldi skipulagsnefnd og að gildandi regluverk tryggði fullnægjandi frágang hauggeymsla. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var málið tekið fyrir og var eftirfarandi m.a. bókað: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum.“ Athugasemdir kærenda voru því ekki virtar að vettugi þótt ekki hefði verið fallist á þær allar, enda felur skylda til samráðs það ekki í sér að svo skuli gert. Með erindi, dags. 10. apríl s.á., var Skipulagsstofnun send deili­skipulagstillagan til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 3. maí s.á., tilkynnti Skipulags­stofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, sem var og gert.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var komist að þeirri niðurstöðu með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019 að ekki hefði komið fram með skýrum hætti í bókun sveitarstjórnar frá 28. mars 2019 hvort deiliskipulagstillagan væri samþykkt heldur eingöngu að samþykktar væru tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu á þeim athugasemdum sem borist hefðu. Því hefði umrædd afgreiðsla ekki falið í sér ákvörðun sem bundið hefði enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarstjórn brást við þessari niðurstöðu með því að samþykkja deiliskipulagið á fundi sínum 21. nóvember 2019 með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá var samþykkt að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og fór birting slíkrar auglýsingar fram 25. nóvember 2019.

Með vísan til þess sem að framan greinir liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar vék af fundum þegar umrædd deiliskipulagstillaga var til meðferðar og afgreiðslu og það gerði formaður skipulagsnefndar einnig frá þeim tíma sem hann varð vanhæfur vegna þátilkominnar stjórnarsetu. Þá liggur fyrir að sveitarstjórnarfulltrúi sá er vék sæti þegar meðferð deiliskipulagstillögunnar var á veg komin og landeigandi að Torfum eru systkinabörn. Sá skyldleiki veldur þó ekki vanhæfi, enda fellur hann undir undantekningu 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnalaga nr. 138/2011 um að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki í þeim tilvikum, auk þess sem nefndur landeigandi er ekki aðili málsins. Hæfisreglur voru því ekki heldur brotnar við meðferð málsins.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Var og unnin umhverfis­skýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Kærendur hafa vísað til þess að samanburði valkosta hafi verið áfátt og m.a. nefnt í því sambandi möguleika á uppbyggingu svínabúsins ofar í landi eða í öðrum sveitarfélögum. Tekið er fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 að umhverfisskýrsla skuli hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt sé að krefjast að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu áætlunarinnar í stigskiptri áætlanagerð. Samkvæmt f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. skal í umhverfisskýrslu m.a. koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar. Í h-lið ákvæðisins segir jafnframt að í skýrslunni skuli m.a. vera yfirlit yfir ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir.

Svo sem fram hefur komið hefur Eyjafjarðarsveit markað sér þá stefnu í aðalskipulagi að sveitarfélagið verði áfram öflugt landbúnaðarhérað. Hafi önnur landnotkun ekki verið skilgreind er sú stefna mótuð að landnotkun neðan 300 m.y.s. sé landbúnaðarsvæði, þó þannig að á þeim jörðum þar sem landbúnaður er að fullu aflagður eru þau svæði sem áður voru landbúnaðarsvæði nú skilgreind sem óbyggð svæði. Ofan 300 m.y.s. eru svæði skilgreind sem óbyggð svæði þótt svæði þar séu nýtt fyrir landbúnað sem heimahagar og afréttir fyrir búfé. Landbúnaðarsvæðið er frekar þéttbýlt en á því er að finna hátt í 200 lögbýli samkvæmt upplýsingum úr lögbýlaskrá fyrir árið 2019. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er mælt fyrir um fjarlægðir, m.a. frá svínabúum. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði skulu vera 500 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi að lágmarki. Ljóst má vera miðað við greind fjarlægðarmörk og staðhætti í Eyjafjarðarsveit að svínabúi verður ekki komið fyrir hvar sem er. Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins eru borin saman áhrif af byggingu svínabúsins samkvæmt deiliskipulagi við líklega umhverfisþróun án framfylgdar deili­skipulagsins, þ.e. núllkost. Þá er sá valkostur að byggja svínabúið á Melgerðismelum metinn til samanburðar, en sú staðsetning var til skoðunar hjá framkvæmdaraðila. Þá er fjallað um hvernig deiliskipulagið falli að meginmarkmiðum gildandi aðalskipulags. Þeir umhverfisþættir sem koma nánar tiltekið til skoðunar við áhrifamatið eru landslag og sjónræn áhrif, samfélagsleg og hagræn áhrif, gróður og lífríki, heilsa og öryggi, frárennslismál og úrgangsmál. Niðurstaða umhverfis­skýrslunnar er m.a. sú að áhrif uppbyggingar á Melgerðismelum yrði hin sama og uppbygging í landi Torfa fyrir utan möguleg neikvæð samfélagsleg áhrif að Melgerðismelum þar sem núverandi hestaíþróttasvæði þyrfti að flytjast að hluta til af svæðinu. Ef ekki kæmi til framfylgdar deiliskipulagsins er talið að áhrif á alla umhverfisþætti yrðu óveruleg fyrir utan möguleg neikvæð samfélagsleg og hagræn áhrif auk neikvæðra áhrifa á gróður, lífríki og úrgang.

Þótt deiliskipulagsáætlunin einskorðist við ákveðna framkvæmd er umhverfismati áætlana ekki ætlað að vera svo nákvæmt að það geti komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, en slíks mats er ekki krafist vegna þeirrar framkvæmdar sem hér er deilt um. Að mati úrskurðar­nefndarinnar fullnægir umhverfisskýrsla deiliskipulagsins sem áður er lýst áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald, m.a. að teknu tilliti til efnis og nákvæmni skipulagsins, sem og stöðu þess í stigskiptri áætlanagerð, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Raunhæfir valkostir voru skoðaðir og mat lagt á áhrif þeirra og verður ekki fallist á með kærendum að þörf hafi verið á að rannsaka eða skilgreina frekar valkosti að teknu tilliti til markmiða með gerð skipulagsins og landfræðilegs umfangs þess, sbr. f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. Þá verður ekki látið valda ógildingu hins kærða deiliskipulags að í umhverfisskýrslu hafi ekki með skýrum hætti verið að finna yfirlit yfir ástæður þess að sá kostur að reisa svínabú að Torfum var valinn, sbr. h-lið nefnds ákvæðis, enda verður af skýrslunni ráðið að sú staðsetning svínabús hafi þótt henta m.a. með vísan til fjarlægðar frá mannabústöðum og hagstæðra vindátta, sem muni draga úr lyktarmengun.

Eins og rakið er hér að framan vísa kærendur til þess að rannsókn Eyjafjarðarsveitar við málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið ábótavant. Meðal annars hafi hvorki farið fram rannsókn á mögulegri lyktarmengun né á því hversu mikið af úrgangi falli til af búinu á ári. Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að samhliða deiliskipulagsgerð fór fram málsmeðferð vegna mögulegrar matsskyldu framkvæmdarinnar. Var fyrirhuguð framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og var hún því ekki talin háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um frá 12. mars 2019. Í þeirri ákvörðun er fjallað um úrgang og lykt og í umhverfisskýrslu með deiliskipulaginu er fjallað um heilsu og öryggi, þ.m.t. lyktarmengun, og um úrgang. Í greinargerð hins kærða deiliskipulags kemur fram að hagstæðar vindáttir muni draga úr áhrifum lyktarmengunar og eins og áður er rakið var athugasemdum um lyktarmengun svarað og bent á að skilmálar um notkun bestu aðgengilegu tækni (BAT) myndu gilda um starfsemina. Þá er því skilmerkilega lýst hvernig úrgangsmálum á búinu verði háttað, magni sem til muni falla, flutningi úrgangs í þar til gerða haugtanka og að samningar verði gerðir við bændur varðandi afhendingu og móttöku á úrgangi. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og gögnum málsins er ekkert fram komið sem bendir til annars en að málið hafi verið nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga áður en deiliskipulagið var samþykkt.

Staðsetning svínabúsins fer ekki í bága við 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015, sem eins og áður segir kveður á um að á skilgreindu landbúnaðarsvæði skuli lágmarksfjarlægð frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi vera 500 m. Vegna reglna um lágmarksfjarlægðir í reglugerðinni er þó ljóst að áhrifa vegna svínabúsins mun gæta á landi kærenda þar sem uppbygging til framtíðar kann að verða takmörkunum háð vegna reglnanna. Er áhrifasvæðið sýnt miðað við 600 m radíus á mynd 2 í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi. Til þess er þó að líta að um skilgreint landbúnaðarsvæði er að ræða og að ræktun svína er heimil á slíku svæði, en fjölbreyttur landbúnaður sem meginatvinnuvegur í öflugu landbúnaðarhéraði er meðal stefnumiða aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar. Með hliðsjón af því að aðrir kostir voru kannaðir og rannsókn málsins var ekki ábótavant þykir ekki hafa verið gengið lengra en góðu hófi gegnir við beitingu skipulagsvalds sveitarstjórnar til að ná nefndum markmiðum. Verður atvikum að þessu leyti ekki jafnað saman við atvik í kærumáli nr. 131/2012 sem kærendur hafa vísað til. Verða hagsmunir kærenda ekki heldur taldir hafa verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga, en eðli máls samkvæmt getur aðila greint á um uppbygginu lyktarsterks landbúnaðar í svo miklu nábýli sem hér um ræðir þótt á landbúnaðarsvæði sé. Með hliðsjón af aðstæðum þykir þó rétt­ að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags eiga þeir eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 21. nóvember 2019 um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit.

89, 90 og 91/2019 Héðinsreitur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Vesturgötu 69, Reykjavík, þá ákvörðun borgar­ráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, stað­greinireits 1.130.1. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. og 15. september 2019, sem bárust úrskurðarnefndinni 14. og 16. s.m., kæra eigandi, Vesturgötu 73, og húsfélagið  Vesturgötu 69-75, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem framangreind kærumál eru samofin og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða þau kærumál, sem eru nr. 90 og 91/2019, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 8. febrúar 2007 var samþykkt deiliskipulag Héðinsreits. Deiliskipulagsvæðið er staðgreinireitur 1.130.1, sem markast af Mýrargötu, Ánanaustum, Vesturgötu og Seljavegi. Á reitnum eru tvær lóðir, Seljavegur 2 og Vesturgata 64. Helsta markmið deiliskipulagsins var „að stuðla að uppbyggingu og endurnýjun á reitnum í samræmi við forsendur og markmið Aðal­skipulags Reykjavíkur og rammaskipulags fyrir Mýragötu og slippasvæði“. Í skipulaginu fólst heimild til að fjarlægja allar núverandi byggingar á lóðum við Vesturgötu og Ánanaust og að byggingarmagn yrði 35.935 m². Var þar og gert ráð fyrir fimm til sjö hæða byggingum..

Hinn 9. janúar 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Breytingartillagan tók til byggingarreita, byggðamynsturs, lóða­marka, hæða húsa og starfsemi á jarðhæðum. Felld var úr gildi byggingarheimild fyrir hjúkrunarrými og heimild bætt inn fyrir samsvarandi byggingar­magni undir íbúðir og heimiluð bygging hótels við Seljaveg samkvæmt uppdrætti, greinargerð og hönnunarhandbók, dags. 20. desember 2018. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 17. janúar 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 28. s.m. til 8. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma, þ. á m. frá kærendum. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags­­fulltrúa, dags. 10. maí 2019. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 15. maí 2019, sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 16. s.m.

Með erindi, dags. 28. maí 2019, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 13. júní 2019, að hún gæti ekki tekið endanlega afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem skilmálar er vörðuðu hljóðvist þyrftu að taka mið af umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, skilmálar er vörðuðu bílageymslur þyrftu að taka mið af umsögn Vegagerðarinnar og sýna þyrfti lóða­mörk með skýrum hætti. Skipulagsfulltrúi tók afstöðu til athugasemda stofnunarinnar í umsögn, dags. 28. júní s.á. Skipulags- og samgönguráð samþykkti tillögur skipulagsfulltrúa um breytingar í umsögn hans frá 3. júlí s.á. og vísaði breyttri deiliskipulagstillögu til borgarráðs, sem samþykkti hana á fundi sínum 18. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu aug­lýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið tekið tillit til efnislegra athuga­semda þeirra, en svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum hafi ekki verið fullnægjandi og illa rökstudd. Fyrirhuguð áform séu yfirgengileg og sennilega þrisvar sinnum umfangsmeiri en eðlilegt geti talist. Verði þau að veruleika muni lífsgæði kærenda skerðast vegna aukinnar umferðar, útsýni muni minnka og mengun og slysahætta aukast. Jafnframt muni verðmæti eigna kærenda skerðast. Ólíðandi sé hvað byggingatíminn sé langur og óviðunandi að leggja slíkt á fólk og íbúðarbyggð.

Í athugasemdum húsfélagsins Vesturgötu 69-75 er áréttað að ekki sé auðvelt að átta sig á því hvað lagt sé til að byggingarmagn verði aukið miðað við gildandi deiliskipulag, en fram komi að um sé að ræða að á reitnum verði allt að 330 íbúðir og 220 hótelherbergi. Bent sé á að þegar sé heimilað of mikið byggingarmagn í gildandi deiliskipulagi. Þétting byggðar í hverfi 101 verði að taka mið af þeirri byggð sem fyrir sé. Bent sé á að stofnbrautir beri ekki aukna umferð en einungis tvær stofnbrautir séu út úr hverfinu, Hringbraut og Mýrargata. Grundvallaratriði sé að leysa umferðarmál áður en hugað sé að því að fjölga íbúum í hverfinu. Ónæði á byggingartíma verði mikið en fram komi að uppbygging á reitnum eigi að taka fimm ár og sé það vegna þess óheyrilega byggingarmagns sem lagt sé til. Útsýni hjá íbúum á Vesturgötu 69, 71 og 73 muni skerðast en ekki virðist tekið tillit til þess í núverandi byggingartillögum. Byggingar verði of háar og byrgi útsýnið gjörsamlega. Þótt ljóst sé að útsýni sé ekki lögvarinn réttur íbúðareigenda sé ekkert því til fyrirstöðu að reynt sé að koma í veg fyrir útsýnisskerðingu og verðfall þeirra eigna sem fyrir séu í stað þess að hunsa hagsmuni nærliggjandi byggðar. Endurskoða þurfi byggingar­áformin með tilliti til þessa.

Fyrir utan hagsmuni íbúa í grennd við Héðinsreit verði ekki séð að hugsað sé um heildar- og langtímahagsmuni í skipulagsbreytingunni. Íbúar, sem búi annars staðar og leið eigi um hverfið, verði fyrir áhrifum vegna aukinnar umferðar. Íbúar sem búi á svæðinu hafi kannski næmara auga en aðrir fyrir skipulagsslysum í uppsiglingu í þeirra nærumhverfi og því ekki óeðlilegt að þeir séu líklegri til að spyrna við fótum heldur en þeir sem búi fjær.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að fram komi í A-hluta Aðal­skipulags Reykjavíkur 2010-2030 bindandi stefna og markmið um landnotkun, byggingar­magn, þéttleika, yfirbragð byggðar og samgöngur, sbr. ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í fyrsta stefnuatriði aðalskipulags, „Borgin við Sundin“, segi að þrjú svæði gegni lykilhlutverki í þróun Reykjavíkur á næstu áratugum, þ.e. Vatnsmýri, Elliðaárvogur og Miðborgin/Gamla höfnin. Á þessum svæðum sé gert ráð fyrir að rísi þétt blönduð byggð sem falli að markmiðum aðal­skipulagsins um sjálfbæra og hagkvæma borgarþróun, snúið verði við áratugalangri út­þenslu Reykjavíkur og vexti borgarinnar beint inn á við. Uppbygging á Héðinsreit sé hluti af framfylgd þessa stefnumiðs. Í aðalskipulagi sé reiturinn skilgreindur sem „þéttingasvæði nr. 5: Héðins­reitur“, þar sem heimilaðar séu 275 íbúðir með vikmörkum -10%/+20%, þ.e. hámarks­fjöldi íbúða 330 og hæðir húsa 5 til 7.

Landnotkun fyrir reitinn samkvæmt aðalskipulagi sé blönduð miðborgarbyggð – skrifstofur og þjónusta, merkt M1b, með það að markmiði að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi, sem falli að íbúðarbyggð. Sú landnotkun heimili fjölbreytta atvinnustarfsemi, þ. á m. gisti­starfsemi. Núgildandi deiliskipulag hafi tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. febrúar 2007. Skilmálar þess hafi heimilað niðurrif hluta bygginga á svæðinu ásamt upp­byggingu blandaðrar byggðar. Tvær sviðsmyndir hafi verið heimilaðar varðandi upp­byggingu á reitnum. Annars vegar allt að 25.365 m² hámarksbyggingarmagn (A-rými) fyrir allt að 375 íbúðir og atvinnustarfsemi. Hins vegar allt að 35.935 m² hámarksbyggingarmagn (A-rými) ef byggðar væru þjónustu- og umönnunaríbúðir auk almennra íbúða. Byggingarheimildir í deili­skipulaginu frá árinu 2007 hafi verið gefnar upp sem A-rými, ofanjarðar. A merki lokað mannvirki eða lokað rými í opnu mannvirki, B merki lokað rými að ofan en opið á hliðum að hluta eða öllu leyti og C merki rými opið að ofan.

Samkvæmt tillögu að breyttu deiliskipulagi sé heimilað byggingarmagn ofanjarðar (A- og B-rými) 39.400 m² og hámarksfjöldi íbúða 330. Embætti skipulagsfulltrúa telji breytingu á byggingarmagni milli eldra skipulags og þess nýja vera óverulega, enda hafi verið tekið tillit til þess að byggingar­heimildir frá 2007 væru gefnar upp án B-rýma, líkt og gert hafi verið árið 2019. Sé það mat embættisins að B-byggingarmagn myndi auka byggingarmagn skipulagsins frá 2007 um 10%, sé tekið mið af sambærilegum þéttingarverkefnum í borginni, en m.t.t. þessa hefði byggingar­magn A- og B-rýma ofanjarðar samtals getað orðið um 39.500 m² ef byggt hefði verið samkvæmt heimildum eldra skipulags. Nýtingarhlutfall muni breytast óverulega. Í gildandi deiliskipulagi frá 2007 sé nýtingarhlutfall ofanjarðar á bilinu 2,45 til 3,68. Samkvæmt umdeildri deiliskipulagsbreytingu sé nýtingarhlutfall ofanjarðar á bilinu 2,71 til 3,25, en lægra nýtingar­hlutfall náist m.a. með stækkun lóðar til norðurs móts við Ánanaust, bættri nýtingu á landi þar sem áður hafi verið bílastæði og með því að styrkja borgarmiðað gatnakerfi, líkt og aðalskipulag kveði á um.

Nýtingarhlutfall sé í hærra lagi miðað við aðliggjandi lóðir en þó lægra en Mýrargötu 26 og sé það innan gildandi heimilda eldri skipulags. Með vísan til skipulagslegrar stöðu „lóðarinnar“ samkvæmt aðalskipulagi, samanburði á byggingarmagni eldra deiliskipulags og hins breytta deili­skipulags, sé ljóst að byggingarmagn, nýtingarhlutfall og fjöldi íbúða sé innan heimilda Aðal­skipulags Reykjavíkur 2010-2030 og eldra deiliskipulags frá 2007. Starfsemi gististaðar samrýmist ákvæðum aðalskipulags fyrir landnotkun M1b og sé ekki talin þörf á að setja slíkum rekstri skorður á lóðinni, til að stuðla að fjölbreyttri starfsemi á reitnum og til að dreifa gisti­starfsemi um borgina utan M1a. Tímalengd framkvæmda sé ekki talin umfram það sem framkvæmdir af þessum toga almennt taki. Tillagan geri ráð fyrir að fjöldi hæða verði frá fjórum upp í sjö, lóðréttu og láréttu uppbroti á byggingarmössum og nýjum göngutengingum gegnum reitinn, en sambærilegir skilmálar voru ekki í deili­skipulaginu frá 2007. Hæðir húsa séu innan heimilda aðalskipulags sem heimili allt að sjö hæðir.

Í gildandi aðalskipulagi sé stefnt að því að auka hlutdeild almenningssamgangna og gangandi og hjólandi umferðar innan borgarinnar. Upp­bygging í úthverfum myndi stuðla að frekari mengun í borginni. Hámarksfjöldi bílastæða á reitnum sé 318 stæði og sé sú tala niðurstaða af samgöngumati sem hafi verið unnið fyrir lóðarhafa og Reykjavíkurborg. Þar sé tekið tillit til markmiða aðalskipulags Reykjavíkur um breyttar ferðvenjur og samnýtingu stæða á milli atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Umferðaraukning vegna uppbyggingar á reitnum geti orðið um 650 fleiri bílferðir á dag um svæðið, sé tekið mið af tveimur bílferðum á dag og fjölda bílastæða í kjallara samkvæmt tillögu. Sérfræðiaðilar hafi rýnt umferðaflæði við Mýrargötu/Ánanaust með tilliti til nýrra gatnamóta við göturnar. Hafi rýnin leitt í ljós að núverandi þjónustustig við hringtorgin sé B til C á háannatíma eftir hádegi, sem skipulagsfulltrúi telji vera vel innan ásættanlegra marka. Þá hafi það jafnframt verið leitt í ljós að vegirnir þoli 30% meiri umferð áður en þjónustustig lækki á háannatíma en að breytt gatnamót með ljósastýringu myndu auka umferðarrýmd um 20% í samanburði við núverandi útfærslu með hringtorgum.

Óskert útsýni sé ekki bundið í lög. Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hagsmunum. Hið breytta deiliskipulag muni ekki valda skerðingu á útsýni umfram gildandi heimildir. Hvað varði áskilnað Húsfélagsins Vesturgötu 69-74 um skaðabætur skuli bent á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber ennfremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Héðinsreitur á svæði fyrir blandaða miðborgarbyggð, skrifstofur og þjónustu, merkt M1b. Í lýsingu aðalskipulags er tekið fram að markmiðið sé að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi á svæðinu, sem falli að íbúðar­byggð. Gert sé ráð fyrir stofnunum og skrifstofum og sérhæfðri þjónustu, þ.m.t. gisti­þjónustu. Íbúðir séu heimilar, einkum á efri hæðum húsnæðis. Á jarðhæðum húsa með götuhliðastýringu skuli verslunar- og þjónustustarfsemi opin almenningi vera í forgangi og almennar veitinga­heimildir mið­svæða gilda á svæðinu. Þar sé gert ráð fyrir byggingu 275 íbúða en vikmörk á fjölda íbúða geti verið -10%/+20%, sem geri að hámarki 330 íbúðir á reitnum. Vikmörk séu þó ekki sjálfgefin og séu þau háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs, nú skipulags- og samgönguráðs, á hverjum tíma. Á svæðinu sé heimilt að byggja fimm til sjö hæða byggingar. Möguleg frávik frá þeirri heimild eru -1/+2 hæðir, einkum inndregnar hæðir, séu slík frávik rökstudd sérstaklega. Þó er tekið fram að frávik í miðborginni innan gömlu Hringbrautar, sbr. mynd 9 í kafla aðalskipulags „Borg fyrir fólk“, séu -1/+1 og þá aðeins ef um inndregna hæð er að ræða. Héðinsreitur fellur undir þróunarsvæði 1, merkt Þ1 í aðalskipulagi, en um svæðið er m.a. tiltekið að þar sé blönduð byggð á nokkrum reitum með­fram Mýrargötu. Gert sé ráð fyrir um 600 íbúðum í bland við atvinnu­húsnæði. Þá er reiturinn á skilgreindu þéttingarsvæði í aðal­skipulagi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir byggingu 330 íbúða með hámarksbyggingarmagni 39.400 m². Með samþykki skipulags- og samgönguráðs fyrir umræddri deiliskipulagsbreytingu voru fullnýtt 20% vikmörk á fjölda íbúða til hækkunar í aðalskipulagi. Jafnframt er gert ráð fyrir að hús skuli vera fjögurra til sjö hæða og eru því vikmörk aðalskipulags til lækkunar húsa um eina hæð nýtt. Eðli máls samkvæmt á áskilnaður aðalskipulags um inndregna efstu hæð ekki við um frávik til lækkunar húsa um eina hæð.

Á umræddum skipulagsreit er gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og í eldra deiliskipulagi var gert ráð fyrir umtalsverðum byggingarheimildum. Felur umdeild skipulagsbreyting í sér óverulega breytingu á byggingarmagni. Með hliðsjón af framangreindu fer hin kærða deiliskipulags­breyting ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulags­­stofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem borgaryfirvöld brugðust við og tóku afstöðu til. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu var í eldra deiliskipulagi þegar gert ráð fyrir allt að sjö hæða byggingum á svæðinu. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting því ekki í sér breytingu á heimiluðum hámarksfjölda hæða húsa á reitnum og veldur hún því ekki skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við að óbreyttu skipulagi. Þá verður ekki af fyrirliggjandi gögnum annað ráðið en að áhrif á umferð bifreiða verði óveruleg. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrætt grenndaráhrif verði talin svo veruleg að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga. Þykir þó rétt að benda á að telji kærendur sig geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga þeir eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

26/2020 Kambahraun

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kæra eigendur Kambahrauns 60, Hveragerði, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hveragerðisbæjar að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss að Kamba­hrauni 51. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 20. apríl 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 8. janúar 2019 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr á lóð nr. 51 við Kambahraun og stækka lóðina. Í umsókninni fólst að samþykktar yrðu viðbyggingar íbúðarhúss og bílskúrs og stækkun lóðarinnar til norðurs um 4,5 m. Eftir breytinguna yrði stærð íbúðar 172,5 m² og stærð bílskúrs 91 m². Flatarmál lóðar yrði 906,1 m² og nýtingarhlutfall hennar 0,29. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að umsóknin yrði grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðsla á fundi sínum 10. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 5. mars s.á. þar sem lagt var til við bæjarstjórn að erindið yrði samþykkt en komið yrði til móts við athugasemdir varðandi framkvæmdir á svæði vestan lóðarinnar með því að mön yrði lækkuð um einn metra og hún opnuð með tveggja metra breiðu skarði til vesturs. Afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt í bæjarstjórn 14. mars 2019.

Kærendur kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði í máli nr. 27/2019, uppkveðnum 3. desember 2019, var kröfu um ógildingu ákvörðunar um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 hafnað en málinu að öðru leyti vísað frá á þeirri forsendu að í hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar fælist ekki lokaákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingum á lóðinni í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 25. febrúar 2020 fór leyfishafi fram á að fyrirhuguð viðbygging við íbúðarhús hans yrði metin sem tilkynningarskyld framkvæmd sem undanþegin væri byggingar­leyfi samkvæmt gr. 2.3.5., sbr. gr. 2.3.6., í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. mars s.á., var leyfishafa tilkynnt samþykki fyrir því að viðbyggingin væri minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi og að framkvæmdin samræmdist skipulagsáætlunum. Þá var og tekið fram að skila þyrfti inn uppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum. Hinn 5. mars 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi fyrirhugaðar framkvæmdir við íbúðarhús og bílskúr leyfishafa með áritun sinni um samþykki byggingaráforma.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að samþykkja umrædd byggingaráform á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að gefa hafi þurft út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Kærendum hafi verið tilkynnt að byggingaráformin hefðu verið samþykkt sem minniháttar framkvæmd með vísan til h-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 komi fram sú meginregla að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagna­kerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Mælt sé fyrir um undantekningu frá framangreindri meginreglu í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. þar sem kveðið sé á um heimild ráðherra til að kveða á um undanþágu frá kröfu um byggingarleyfi í byggingarreglugerð varðandi minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum. Mælt sé fyrir um slíka undantekningu í h-lið gr. 2.3.5. reglu­gerðarinnar þar sem fram komi að viðbyggingar sem uppfylli ákveðin skilyrði séu undan­þegnar byggingarleyfi. Eigi ákvæðið við um viðbyggingar sem séu innan byggingarreits, að hámarki 40 m2 og á einni hæð enda sé framkvæmdin í samræmi við deiliskipulag. Fyrir liggi að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir umrædda lóð. Þegar af þeirri ástæðu geti ekki komið til skoðunar að fella framkvæmdina undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð og beri því að fella ákvörðunina úr gildi. Grenndarkynning geti ekki komið í stað skýrra fyrirmæla ákvæðisins um deiliskipulag enda um undanþáguákvæði að ræða sem skýra beri þröngt eftir orðanna hljóðan.

Í öðru lagi sé byggt á því að framkvæmdin standist ekki reglur grenndarréttar um innsýn og að ekki hafi verið tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda við afgreiðslu umsókn­arinnar. Í þriðja lagi hafi við meðferð málsins ekki verið gætt að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, sem sé slíkur annmarki að ógilda beri ákvörðunina.

Málsrök Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að skipulagsyfirvöld og bæjarstjórn hafi að undangenginni grenndarkynningu tekið þá afstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri í fullu samræmi við skipulagsáætlanir í aðalskipulagi og þéttleika byggðar. Í gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, um málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda, standi: „Yfirferð leyfisveitanda vegna framkvæmda sem tilkynntar eru skv. 2.3.5. gr. takmarkast við það að fara yfir hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og hún sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í ákvæðinu.“ Bæjaryfirvöld geti ekki túlkað ákvörðun skipulagsnefndar og bæjar­stjórnar öðruvísi en svo að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitar­félagsins ekkert síður en ef um byggingarreit og deiliskipulag væri að ræða. Þess vegna hafi afgreiðslan verið í fullu samræmi við markmið greinar 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hin kærða ákvörðun leiði hvorki til skerðingar á lífsgæðum kærenda innan veggja heimilis þeirra né á útsýni þeirra til fjalla þar sem tekið hafi verið fullt tillit til þess við hönnun fyrirhugaðs mannvirkis.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu fór leyfishafi fram á það við byggingar­yfirvöld að fyrirhuguð stækkun íbúðarhúss á lóðinni Kambahrauni 51 yrði metin sem minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vísað var til  h-liðar ákvæðisins þar sem heimilað er að reisa allt að 40 m² einnar hæðar viðbyggingu við mannvirki án byggingarleyfis sé hún innan byggingarreits. Ákvæðið tilgreinir með tæmandi hætti þær framkvæmdir og breytingar sem eru undanþegnar byggingarleyfi, en sett er það skilyrði að þær séu í samræmi við deiliskipulag. Ákvæðið felur í sér undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um byggingarleyfisskyldu og verður því að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu. Lóðin Kamba­hraun 51 er á ódeiliskipulögðu svæði og því var ekki unnt samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins að undanþiggja heimilaðar framkvæmdir byggingarleyfi. Hvað sem því líður samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa um fyrirhugaða við­byggingu með áritun sinni á aðaluppdrætti hinn 5. mars 2020 en ekki liggur fyrir þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðar­nefndarinnar að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt 13. gr. laga um mannvirki hafi verið gefið út.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndar­kynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag liggi deiliskipulag ekki fyrir. Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var  grenndar­kynnt í upphafi árs 2019 og að henni lokinni hlaut hún samþykki bæjarstjórnar 14. mars 2019.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna. Fyrir liggur  að meira en ár er nú liðið frá samþykkt sveitarstjórnar fyrir umdeildri viðbyggingu að Kamba­hrauni 51 án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út og verður því samkvæmt greindu ákvæði að grenndar­kynna umsótt byggingaráform að nýju og afgreiða byggingarleyfisumsóknina í kjölfar þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.

116/2019 Langabrekka

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2019, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. nóvember 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kærir eigandi, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. desember 2019.

Málavextir: Hinn 27. september 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir „byggingu bílskúrs sem yrði áföst Löngubrekku 5“ í Kópavogi. Á fundi skipulagsnefndar 17. október s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsráðs 20. febrúar 2017 ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd liggi að lóðarmörkum Löngubrekku 7 og raski þeirri lóð. Þar sem samþykki lóðarhafans lægi ekki fyrir væri lagt til að skipulagsráð hafnaði erindinu. Var niðurstaða skipulagsráðs að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 28. s.m.

Hinn 23. janúar 2019 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd. Í umsókninni kom fram að breytt eignarhald hefði orðið á fasteigninni Löngubrekku 7 og að fyrir lægi samþykki eigenda hennar fyrir framkvæmdinni. Á fundi skipulagsráðs 29. júlí s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 7. október s.á. ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Var niðurstaða skipulagsráðs sú að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 22. október 2019. Á fundi byggingarfulltrúa 25. s.m. var umsókninni hafnað með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn skipulags- og byggingardeildar séu alvarlegar rangfærslur og sé engu líkara en að deildin hafi ekkert kynnt sér staðreyndir málsins. Mjög langsótt sé að halda því fram að umræddur bílskúr sé ekki í samræmi við yfirbragð byggðarinnar. Allir bílskúrar við Löngubrekku séu á lóðarmörkum aðliggjandi lóðar og séu margir þeirra „sérstæðir aftarlega á lóð við lóðamörk bakliggjandi lóðar“. Einnig séu margir þeirra fastir við íbúðarhúsið og þá alltaf við lóðarmörk aðliggjandi lóðar til hliðar. Húsið að Löngubrekku 5 sé tvíbýli og sé því ekki um einbýlishúsalóð að ræða, líkt og komi fram í umsögninni. Langflest húsin við Löngubrekku séu tvíbýli með tvo bílskúra eða tvöfalda bílskúra. Minnihluti lóða séu einbýlishúsalóðir með einn bílskúr. Að því er varði þá röksemd í umsögninni, að með því að heimila viðbygginguna sé verið að takmarka nýtingarmöguleika lóðar Löngubrekku 7, sé bent á að fyrir liggi yfirlýsing allra eigenda þeirrar lóðar um að þeir samþykki bílageymsluna. Þar með séu þeir að samþykkja takmarkaða nýtingarmöguleika lóðarinnar. Kópavogsbær hafi beðið kæranda um yfirlýsingu varðandi færslu fráveitulagnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en til hvers væri sú yfirlýsing í ljósi þess að fráveitulögnin þjónusti eingöngu lóð Álfhólsvegar 61 og einu óþægindin yrðu við það þegar gamla lögnin yrði tengd við nýja lögn. Það feli hugsanlega í sér stöðvun á notkun lagnarinnar í einn klukkutíma eða svo.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú viðbygging sem kærandi hafi sótt um sé ekki í samræmi við götumynd og yfirbragð byggðarinnar. Um sé að ræða bifreiðageymslu á einbýlishúsalóð þar sem fyrir sé bifreiðageymsla. Væri það því einsdæmi í götunni ef heimiluð yrði önnur bifreiðageymsla á slíkri lóð. Þá muni viðbyggingin standa á lóðarmörkum Löngubrekku 7 og með því væri verið að takmarka möguleika til nýtingar þeirrar lóðar að einhverju leyti. Þar að auki yrði nauðsynlegt að færa fráveitulögn í eigu bæjarins sem þjónusti fleiri lóðir en lóð kæranda. Ekki séu fyrir hendi málefnaleg rök til að heimila framkvæmd sem valdi öðrum en lóðarhafa óþægindum meðan á framkvæmdum standi, sérstaklega vegna framkvæmdar sem sé ekki að frumkvæði Kópavogsbæjar og í óþökk lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá séu ítrekaðar breytingar á húsnæði, líkt og hafi verið til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum vegna lóðarinnar Löngubrekku 5, ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að greinargerð Kópavogsbæjar sé einungis endurrit af umsögn skipulags- og byggingardeildar um málið en þeirri umsögn hafi verið svarað í kærunni sjálfri. Eitt atriði hafi þó bæst við greinargerðina en það sé að viðbyggingin sé ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins. Kærandi hafi óskað eftir frekar útskýringu á þeirri röksemd en ekki fengið. Bent sé á að það sé yfirlýst stefna bæjarins samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 að þétta byggð og nýta lóðir betur.

Niðurstaða: Samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr., er endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfa þess í höndum byggingarfulltrúa. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð fyrirliggjandi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5, enda er hin kærða ákvörðun skipulagsráðs liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin Langabrekka 5 er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Á grundvelli ákvæðisins var umsókn kæranda grenndarkynnt.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga og er íbúum sveitarfélags ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu. Þrátt fyrir að ákvörðun um að samþykkja eða synja byggingarleyfisumsókn á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé háð mati skipulagsyfirvalda þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim skilyrðum ákvæðisins að framkvæmdin skuli vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt ber stjórnvaldi að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar, og sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 7. október 2019 og afgreidd með eftirfarandi bókun: „Skipulagsráð hafnar erindinu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. var niðurstaða skipulagsráðs staðfest með eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum og hafnar erindinu.“ Með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda á fundi sínum 25. s.m. Þrátt fyrir að umsögn skipulags- og byggingardeildar, þar sem mælt var með að umsókn kæranda yrði hafnað, hafi verið lögð fram á fundi skipulagsráðs liggur ekkert fyrir um afstöðu ráðsins til þeirra sjónarmiða er fram komu í umsögninni. Af greindum bókunum er því ekki ljóst hvaða rök lágu að baki þeirri ákvörðun að synja umræddri umsókn. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.