Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2019 Þúfukot

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, úr sumarhúsalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. nóvember 2019, er barst nefndinni s.d., kærir Dap ehf., Litlu-Tungu, eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps frá 8. október 2019 að samþykkja breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að auki krafðist kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. nóvember 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 11. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4 Nýjakots, lnr. 213977, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði.

Málsrök kæranda: Að mati kæranda fól staðfesting hreppsnefndar á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar einungis í sér að jákvætt yrði tekið í erindi um að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð, en engin tillaga hefði legið fyrir frá skipulags- og byggingarnefnd um að breyta ætti landnotkun lóðarinnar. Ekki sé á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá hafi hreppsnefnd í ákvörðun sinni sett ákveðna fyrirvara sem ekki hafi verið uppfylltir, ásamt því að upprunaleg umsókn hafi ekki komið frá báðum þinglýstum eigendum.

Lóðin sé á ódeiliskipulögðu svæði, en samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hún á skilgreindu landbúnaðarlandi og uppfylli því ekki skilyrði þess að vera skilgreind sem íbúðarhúsalóð. Breytt landnotkun Þúfukots 4 hafi óhjákvæmilega áhrif á hagsmuni eiganda Þúfukots þar sem lóðin sé staðsett innan landamerkja Þúfukots. Þá hafi breytt landnotkun Þúfukots 4 óhjákvæmilega áhrif á notkun landsvæðis umhverfis lóðina þar sem hún sé staðsett í miðju uppræktuðu landbúnaðarlandi. Hin kærða ákvörðun feli að öllum líkindum í sér breytingu á aðalskipulagi. Meint breyting falli ekki undir það sem ákvæði skipulagslaga telji vera óverulega breytingu á skipulagi. Fordæmi séu fyrir því að í sambærilegum málum hafi verið leitað samþykkis landeigenda ef sótt hafi verið um samsvarandi breytingu á notkun lands. Þá liggi ekki fyrir hver áform eiganda Þúfukots 4 séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála.

Málsrök Kjósarhrepps: Af hálfu Kjósarhrepps er á það bent að þrátt fyrir hina kærðu ákvörðun sé réttarástand óbreytt hvað varði umrædda lóð, þar sem fyrirvarar þeir sem settir hafi verið hafi ekki verið uppfylltir. Á Kjósarhreppi hafi hvílt skylda til að taka afstöðu til erindis lóðarhafa á grundvelli málefnalegra og lögmætra sjónarmiða þar sem gætt væri meðalhófs og jafnræðis. Eigendur lóðarinnar Þúfukots 4 eigi rétt til þeirrar hagnýtingar á fasteign sinni sem hvorki lög né samningar banni eða takmarki. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé lóðin á skilgreindu landbúnaðarsvæði og þar með hvorki á svæði sem skilgreint sé sem íbúðarhúsa- né frístundahúsabyggð. Litið hafi verið svo á að unnt væri að fallast á að breyta skráðri landnotkun í fasteignaskrá úr sumarbústaðalandi í lóð undir íbúðarhús án þess að gera breytingar á aðalskipulagi og/eða deiliskipuleggja eina lóð. Nægjanlegt væri að afmörkuð væri og hnitsett lóð sem skipt hefði verið út úr Þúfukoti. Þúfukot 4 hafi undanfarin ár verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar og hafi sveitarfélagið þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og íbúðarhús í sveitarfélaginu, s.s. varðandi sorphirðu. Hvorki verði séð að leita hafi þurft sérstaks samþykkis kæranda fyrir breyttum landnotum né að kærandi hafi getað haft réttmætar væntingar til þess að notkun landspildunnar yrði óbreytt til framtíðar. Sú mögulega skerðing sem felist í hinni kærðu ákvörðun, komi hún til framkvæmda, sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli.

Niðurstaða: Í erindi eiganda Þúfukots 4 fólst beiðni um að breyta landnotkun lóðarinnar úr sumarhúsalóð í lóð undir íbúðarhús, en á lóðinni stendur hús sem mun hafa verið notað til heilsársdvalar um nokkurt skeið. Skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps tók jákvætt í erindið og vísaði síðan málinu til hreppsnefndar, sem afgreiddi það með svofelldri bókun: „Hreppsnefnd staðfestir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 29. ágúst 2019 um að samþykkja að breyta landnotkun Þúfukots 4, Nýjakots lnr. 213977 úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur verði hnitsettur uppdráttur af spildunni og fyrir liggi staðfesting byggingarfulltrúa á að hús það sem á henni stendur uppfylli skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. 10. gr. laganna segir síðan að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Umsókn um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4 hefur ekki verið tekin fyrir og afgreidd af byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðar­nefndina. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

82/2019 Búland

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. júlí 2019 um að aðhafast ekki vegna framkvæmda á baklóð við Búland 36.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. ágúst 2019, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigendur Búlands 38, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. júlí 2019 að aðhafast ekki vegna framkvæmda á baklóð við Búland 36. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. september 2019.

Málavextir: Hinn 19. febrúar 2019 sendi annar kærenda máls þessa tölvupóst til byggingar­fulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda eigenda raðhússins Búlands 36 á þeirri lóð. Þar kom fram að skipt hefði verið um jarðveg á hluta lóðarinnar og við hann bætt, þar sem grasflöt hafði verið fyrir, og flöturinn þar hellulagður svo unnt væri að leika þar körfubolta. Var því beint til embættisins hvort ekki þyrfti leyfi fyrir framkvæmdunum og þess farið á leit að embættið tæki málið til skoðunar. Í svari byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí s.á., kom fram að framkvæmdirnar hefðu verið skoðaðar í vettvangsferð og teldust þær falla undir e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Með tölvupósti 26. s.m. gerði kærandi athugasemdir við svar byggingarfulltrúa og taldi svarið ekki uppfylla kröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar. Fór hann fram á að erindi hans yrði tekið til afgreiðslu á nýjan leik eða að frekari rökstuðningur yrði veittur sem uppfyllti viðmið 22. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúi svaraði erindi kæranda með tölvupósti 1. ágúst s.á. Hinn 7. s.m. sendi kærandi tölvupóst til byggingarfulltrúa með athugasemdum við svör embættisins og krafðist þess m.a. að ákvörðunin yrði leiðrétt vegna bersýnilegra villna, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga, eða að málið yrði tekið upp að nýju á grundvelli 24. gr. sömu laga, en því erindi var ekki svarað af hálfu byggingarfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að við umdeilda framkvæmd hafi verið skipt um jarðveg, land hækkað og hellur lagðar. Bent sé á að grasfletir við raðhúsalengju Búlands 30-40 halli almennt frá húsunum, en það fyrirkomulag sé bæði í samræmi við deiliskipulagsskilmála svæðisins og samþykktar teikningar. Þar sem „völlurinn“ þurfi eðli málsins samkvæmt að vera láréttur hafi það kallað á að hækka þyrfti jarðveginn sífellt meira á mörkum gagnvart lóðunum Búlandi 34 og 38 eftir því sem fjær dragi húsunum. Því sé málum þannig háttað eftir framkvæmdirnar að á lóðamörkum fjærst húsunum hafi jarðvegurinn verið hækkaður umtalsvert. Ytri mörk „vallarins“ séu alveg á mörkum lóða húsanna tveggja svo að sandur, sem notaður hafi verið til að hækka „völlinn“, flæði yfir á lóðir nágranna og þar á meðal yfir beð á lóðamörkunum.

Fram komi í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að ákveðnar minniháttar framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi ef þær séu í samræmi við deiliskipulag. Byggingarfulltrúa beri því að ganga úr skugga hvort svo sé áður en kannað sé hvort hún falli innan ramma e-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Embættið hafi ekki rökstudd hvernig hin umrædda framkvæmd falli innan gildandi deiliskipulags þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Í 3. gr. deiliskipulagsskilmála fyrir hverfið frá 1968 komi fram að heimilt sé að gera láréttan flöt, mest 5 m út frá suðurhlið húsa. Það sé því ekki í samræmi við deiliskipulag sé yfirborð lóðar lárétt alla leið að syðri mörkum lóðarinnar. Í 4. gr. skilmálanna segi enn fremur að gera skuli heildaruppdrætti vegna allra mannvirkja á lóðinni og að á teikningum fyrir mannvirki skuli m.a. gera grein fyrir hæðarafsetningu jarðvegs. Auk þess segi í 8. gr. skilmálanna að lóð skuli fylgja núverandi jarðvegi að mestu, nema þar sem sérstaklega sé kveðið á um annað. Þá segi í fyrrgreindum e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð að ekki megi hækka jarðveg á lóðar­mörkum án samþykkis leyfisveitanda og lóðarhafa aðliggjandi lóðar, en það sé það sem gerst hafi á mörkum lóða kærenda og eigenda Búlands 36. Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumálum nr. 3/2011 og 31/2011 hafi verið fjallað um ágreining milli eigenda raðhúsa í Fossvoginum vegna framkvæmda á lóð sem falli undir sama deiliskipulag og gildi fyrir raðhúsalengju Búlands 30-40. Í þeim komi fram að líta verði á lóð hvers raðhúss sem sérstakan lóðarhluta. Úrskurðirnir séu leiðbeinandi fyrir meðferð þessa máls.

Ófriður fylgi körfuboltaæfingum á „vellinum“ en hann sé í um 6-10 m fjarlægð frá svefn­herbergjum, sunnan megin á neðri hæð húss kærenda. Þegar mest á gangi sé varla hægt að hafa svaladyr eða glugga á efri hæð opna. Bent sé á að í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé kveðið á um að dvalarsvæði á lóðum eigi að vera staðsett þannig að hægt sé að njóta þar sólar, skjóls og friðsældar. Ekki sé mikil friðsæld í garðinum þegar nágrannar leiki sér í körfubolta en þess beri að geta að lóðirnar séu aðeins 8 m á breidd. Umræddur „völlur“ sé þess valdandi að verðmæti húss kærenda og endursölumöguleikar rýrni. Að mati fasteignasala muni fólk setja það fyrir sig að kaupa hús í rólegu íbúðarhverfi þegar körfuboltavöllur sé á næstu lóð. Hið fjárhagslega tjón bætist við þau áhrif sem framkvæmdin hafi þá þegar haft á líðan kærenda, en gróflega sé brotið á rétti þeirra til að njóta friðsældar í og við heimili sitt.

Þær mælingar sem byggingarfulltrúi leggi til grundvallar rökstuðningi sínum í svari frá 1. ágúst 2019, þ.e. að hellulagði bakgarðurinn rísi ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir hafi verið, séu rangar. Dregið sé í efa að starfsmenn embættisins hafi í raun farið í vettvangsferð og skoðað aðstæður. Gerð sé athugasemd við það svar byggingarfulltrúa að hann framfylgi ekki ákvæðum deiliskipulags. Bent sé á að í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að ef mannvirki eða notkun þess brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir eða notkun mannvirkisins og fyrirskipað lokun þess. Þá geti byggingarfulltrúi skv. 2. mgr. sömu greinar krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag. Því sé ljóst að byggingarfulltrúi beri ríkar skyldur til þess að sjá til þess að byggingarframkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Byggingarreglugerð skuli jafnframt gilda um málsmeðferð byggingarfulltrúa, sbr. gr. 1.1.2., en ákvæði sambærilegt áðurnefndri 1. mgr. 56. gr. skipulagslaga sé að finna í gr. 2.9.2. Sérstaklega sé bent á að í gr. 4.3.1. sé kveðið á um að frágangur lóðar við íbúðarhús skuli vera í samræmi við samþykkta uppdrætti af viðkomandi mannvirki. Þannig segi í 2. mgr. greinarinnar að á þeim hluta aðaluppdráttar húss sem sýni grunnflöt jarðhæðar þess skuli gera grein fyrir hæðarlegu lóðar, eins og ætlast sé til að hún verði gagnvart götu og lóðum sem að henni liggi. Þá segi jafnframt í 4. mgr. sömu greinar að á afstöðumynd skuli sýna hæðarkóta á lóðarmörkum auk þess sem 5. mgr. kveði á um að á sniðmynd skuli m.a. gera grein fyrir hæðarsetningu samkvæmt deiliskipulagi. Þegar framlagðir uppdrættir raðhúsalengjunnar séu skoðaðir með framangreint í huga sé augljóst að framkvæmdir á lóðinni Búlandi 36 séu ekki í samræmi við þau hönnunargögn sem samþykkt hafi verið vegna byggingar húsanna á sínum tíma. Þar hafi verið gert ráð fyrir því að láréttur flötur næði 5 m út frá suðurhlið húss og fylgdi síðan halla þeim sem væri á jarðvegi, sbr. og skipulagsskilmála gildandi deiliskipulags. Framkvæmdin sé því ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, gildandi lög og reglugerðir eða byggingarlýsingu, sbr. áðurnefnda 56. gr. laga um mannvirki.

Ýmis önnur atriði í byggingarreglugerð sýni fram á hve mikilvægt það sé talið að jarðvegur sé sömu hæðar á mörkum tveggja lóða. Samkvæmt gr. 7.1.5. skuli frágangi lóðar hagað þannig að yfirborðsvatn af lóð valdi ekki skaða eða óþægindum á nágrannalóð, en á „vellinum“ sé t.a.m. ekki neitt niðurfall fyrir slíkt vatn. Sambærilegt ákvæði sé í 29. gr. byggingarsamþykktar Reykjavíkur nr. 36/1965, frá 24. mars 1965, en í sömu grein segi einnig að byggingarnefnd geti bannað að hæðarlegu lóðar sé breytt frá samþykktum uppdrætti ef ætla megi að slíkt geti valdið óþægindum eða tjóni á nágrannalóð. Umrædd samþykkt hafi verið í gildi þegar framlagðir uppdrættir raðhúsalengjunnar hafi verið samþykktir á árunum 1966-1967.

Að lokum sé vísað til þess að undanþáguákvæði byggingarreglugerðar skuli með sama hætti og undanþáguákvæði laga túlka þröngt. Auk þess skuli túlkun vera í samræmi við markmið byggingarreglugerðar í gr. 1.1.1., en í því samhengi sé sérstaklega vísað til markmiðs þess er fram komi í a-lið ákvæðisins að vernda eigur og umhverfi manna með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skv. e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu minniháttar breytingar undanþegnar byggingarleyfi séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þar sé m.a. talið upp að allt eðlilegt viðhald á lóð falli undir minniháttar breytingu. Framkvæmdin í þessu máli hafi falist í því að skipta út torfi eða grasi fyrir hellur sem teljist eðlilegt viðhald á lóð. Einnig komi fram í nefndum e-lið að gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi enda rísi pallur ekki hærra en 0,3 m frá því yfirborði sem fyrir hafi verið. Hér sé um að ræða annan frágang á jarðvegsyfirborði sem rísi ekki hærra en 0,3 m.

Samkvæmt 3. gr. skipulagsskilmála deiliskipulags hverfisins frá árinu 1968 sé heimilt að gera láréttan flöt, mest 5 m, út frá suðurhlið húsa. Sú framkvæmd að skipta út torfi fyrir hellur geti ekki fallið undir þessa grein deiliskipulagsskilmálanna þar sem framkvæmdin sé á þeim lárétta fleti sem fyrir hafi verið, þ.e. verið sé að skipta út yfirborði lóðar en ekki gera láréttan flöt á yfirborði hennar. Hvergi komi fram í skilmálunum sú krafa að hafa skuli gróður eða gras á lóð. Einnig komi fram í 7. gr. skilmála deiliskipulagsins að lóð skuli fylgja núverandi jarðvegi að mestu nema þar sem skilmálarnir kveði á um annað. Lóðin fylgi núverandi jarðvegi að mestu þar sem hækkun á jarðvegi sé undir 0,3 m. Reykjavíkurborg túlki það sem svo að sé hækkun ekki meiri en 0,3 m á lóðarmörkum þá þurfi hvorki samþykki byggingarfulltrúa né lóðarhafa aðliggjandi lóða. Að auki, eins og komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumáli nr. 3/2011, verði að skilja ákvæði deiliskipulags svæðisins á þann veg að hverri raðhúsaíbúð fylgi garður sem sé sérstakur lóðarhluti. Hér sé því um að ræða lóðarhluta en ekki lóðamörk þar sem lóðin sé sameiginleg og óskipt skv. 7. gr. deiliskipulagsskilmálanna. Þar sem ekki sé um eiginleg lóðamörk að ræða þurfi ekki samþykki íbúa Búlands 34 og 38 fyrir framkvæmdinni.

Í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé að finna skilgreiningu á dvalarsvæði á lóð, en hún sé eftirfarandi: „Leiksvæði og önnur svæði á lóðum íbúðarhúsa, þjónustustofnana og fyrirtækja sem sérstaklega eru hugsuð til að njóta útiveru.“ Af þessu sé ljóst að gert sé ráð fyrir að íbúar geti notið útiveru og leikja á lóðum. Ekki sé hægt að taka undir það að breyting á yfirborði lóðar Búlands 36 komi í veg fyrir að hægt sé að njóta sólar, skjóls eða friðsældar, ekki frekar en leikir eða önnur útivera sem fer fram á annars konar yfirborði lóðar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja það með ólíkindum að Reykjavíkurborg haldi því fram að umrædd framkvæmd felist einfaldlega í því að skipta út grasi fyrir hellur og að hún hafi einungis átt sér stað „á þeim lárétta [fleti] sem var fyrir“. Ekki þurfi að gera annað en að skoða mynd sem lögð hafi verið fram með kæru til að sjá að yfirborð lóðarinnar hafi verið hækkað til að gera það lárétt, en fyrir framkvæmdir hafi verið sami halli á lóðinni við Búland 36 og á öðrum lóðum húsa í lengjunni. Það sé því fullkomlega rangt að framkvæmdin hafi aðeins falist í því að skipta út yfirborði lóðar.

Í umsögn borgarinnar sé vísað til þess að hækkun á jarðvegi sé ekki meiri en 0,3 m og sé því innan viðmiða byggingarreglugerðar um lóðarframkvæmdir sem ekki þurfi leyfi fyrir. Í tölvupósti frá 14. ágúst 2019 á milli tveggja starfsmanna borgarinnar komi fram að framkvæmdin hafi verið skoðuð og hafi skoðunarmenn talið að hæðarmismunurinn væri ekki meiri en 0,3 m þó þeir hafi ekki haft aðgang að nákvæmum mælitækjum. Ljóst sé að starfsmenn borgarinnar hafi ekki athugað staðhætti nægilega nákvæmlega. Sjá megi á myndum sem fylgt hafi umsögn borgarinnar „að ekki var hreyft við jarðvegi á lóðarmörkum í því skyni að reyna að átta sig á aðstæðum heldur hafi hann verið látinn liggja óhreyfður á meðan starfsmenn reyndu að mæla hækkunina með berum augum.“ Um forkastanleg vinnubrögð sé að ræða og borgin hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Áðurnefnd mynd er fylgt hafi kæru sýni svo ekki verði um villst að hækkun jarðvegs við mörk lóðanna tveggja sé meiri en 0,3 m.

Borgin líti svo á að þar sem hækkun á jarðvegi sé undir 0,3 m sé framkvæmdin í samræmi við það skilyrði 7. gr. skilmála deiliskipulagsins að lóðir skuli fylgja núverandi jarðvegi að mestu. Um fjarstæðukennda túlkun sé að ræða þar sem skilmálarnir feli það í sér að allar lóðir í hverfinu skuli fylgja núverandi jarðvegi, þ.e. eins og hann hafi verið árið 1968. Framangreind túlkun feli það í sér að ef lóðin væri hækkuð aftur, en um minna en 0,3 m, þá væru sú framkvæmd líka innan marka skipulagsskilmála. Það sé auðvitað fráleitt.

Niðurstaða: Í máli þessu er uppi ágreiningur um hvort framkvæmd á baklóð raðhússins að Búlandi 38 sé leyfisskyld að lögum, en þar hefur verið gert lárétt hellulagt plan.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er þar og tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Fram kemur í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að tiltekin mannvirki og framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá segir í 4. mgr. greinarinnar að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Fram kemur í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi að framkvæmdir sem teljist óverulegar séu ekki háðar framkvæmdaleyfi en geti þó verið skipulagsskyldar.

 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Fossvogshverfis frá árinu 1968. Í 3. gr. skilmála deiliskipulagsins, sem tekur til raðhúsa í hverfinu, er mælt fyrir um að heimilt sé að gera láréttan flöt, mest 5 m út frá suðurhlið húsa. Samþykktir uppdrættir raðhúsalengju Búlands 30-40 eru í samræmi við þá skilmála deiliskipulagsins, en þar sést hvar jarðvegur byrjar að halla niður á við í um 5 m fjarlægð frá suðurhlið húsanna. Með hinni umdeildu framkvæmd var gerður láréttur hellulagður flötur út að lóðarmörkum raðhúsalengjunnar til suðurs, en það er umtalsvert lengri láréttur flötur en heimilt er að hafa samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins. Fer framkvæmdin því í bága við nefnda skipulagsskilmála. Þegar af þeirri ástæðu að framkvæmdin var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag gat ekki komið til skoðunar að fella hana undir e-lið fyrrnefndrar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þar að auki er um að ræða landmótun, en slíkar framkvæmdir falla undir ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar.

Að framangreindu virtu eru slíkir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að fella ber hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. júlí 2019 að aðhafast ekki vegna framkvæmda á baklóð við Búland 36.

109/2019 Garðavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 12. nóvember 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kærir eigandi, Garðavegi 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. október 2019 um álagningu dagsekta á kæranda. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 4. nóvember 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 31. nóvember 2017, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að á eftirlitsferð um bæinn hefði byggingarfulltrúi tekið eftir að búið væri að gera stiga utanhúss á fasteign kæranda, sem ekki hafi verið samþykktur af byggingarfulltrúa, en slík breyting væri háð byggingarleyfi.

Kærandi lagði inn byggingarleyfisumsókn, dags. 8. febrúar 2019, fyrir „úthlaup fyrir ris“ við nefnda fasteign. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var kæranda tilkynnt niðurstaða afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 13. s.m. um synjun á umsókn hans. Þar var  vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram kom að umsókninni hefði fylgt teikning, sem sýndi neyðarstiga frá risi niður á fyrstu hæð umrædds húss, auk samþykkis eiganda Garðavegar 16. Samkvæmt teikningunni væri gert ráð fyrir tröppu frá svölum niður á „einhvers konar pall“ sem girtur væri af með skjólvegg. Hvorki kæmi fram í umsókninni að sótt væri um gerð pallsins né um breytingar á tröppum og stoðveggjum á lóðinni. Tekið var fram í umsögninni að byggingarreitur lóðar væri 9,0×10,0 m samkvæmt mæliblaði frá 1982 og færi því umrædd trappa út fyrir byggingarreit. Þá væri vísað til gr. 6.4.10. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, þar sem tekið væri fram að framstig útitrappa skuli eigi vera minna en 280 mm og uppstig skuli vera á bilinu 120 – 160 mm. Halli á tröppum fyrir almenna umferð utanhúss skuli almennt vera á bilinu 17° til 30°. Með hliðsjón af framangreindu komst byggingarfulltrúinn að þeirri niðurstöðu að synja bæri umsókn kæranda.

Í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 15. febrúar 2019 var vísað til þess að heimilt væri að kæra ákvörðun hans til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Liggur fyrir að kærandi kærði ekki ákvörðunina.

Umsókn kæranda var fylgt eftir með bréfum, dags. 12. og 22. mars 2018, og með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá bæjaryfirvöldum þar sem farið var fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður. Veittur var fjögurra vikna frestur til að bregðast við, annars yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 20. október s.á. Kom þar fram að enginn stigi væri við húsið en hann kannaðist við að áltröppur lægju á veröndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann sé sakaður um að vera með ósamþykktan stiga utan á vesturhlið hússins. Þar sé þó enginn stigi og hafi aldrei verið en litlar áltröppur liggi þó á verönd kæranda. Jafnframt gagnrýnir kærandi að gerðar séu kröfur um hvíldarplan, uppstig og fram­stig á neyðarstigum. Að sjálfsögðu séu tveir útgangar úr tveimur aðskildum rýmum í risi.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær vísar til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir eðli málsins. Af gögnum málsins, bréfum og umsögn skipulagsfulltrúa megi vera ljóst að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Sveitarfélaginu hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingar­fulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi verði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að hönnun, smíði og notkun mannvirkja uppfylli kröfur laga og reglugerða og að tilskilin leyfi hafi verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda fyrir þeim. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lög­bundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Við vettvangsskoðun kom í ljós að stigi hafði verið reistur að útgöngudyrum rishæðar húss kæranda að Garðavegi 18. Er sú framkvæmd byggingar­leyfisskyld skv. 9. gr. mannvirkjalaga og eru í byggingarreglugerð nr. 112/2012 ákvæði sem tryggja eiga öryggi slíks mannvirkis, sbr. m.a. gr. 6.4.6. í reglugerðinni. Ekki hefur verið veitt byggingar­leyfi fyrir umræddum stiga og var byggingarfulltrúa því heimilt að gera kröfu um að hann yrði fjarlægður, eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum, svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt.

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeildur stigi yrði fjarlægður yrði kærandi beittur dagsektum frá og með 12. nóvember 2019. Þeirri ákvörðun var ekki fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

129/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 18. febrúar 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi er eigandi Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingar­fulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Ákvörðun um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6 var síðan felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 9. nóvember 2019 í kærumáli nr. 89/2016. Eigandi Egilsgötu 6 sótti að nýju um leyfi til breytinga á húsnæðinu og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2018 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf svo út byggingarleyfi 2. apríl s.á. og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Með úrskurði 23. janúar 2020, í kærumáli nr. 24/2019, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að grenndarkynning byggingarleyfisumsóknar fyrir breytingum að Egilsgötu 6 hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Útgefið byggingarleyfi frá 2. apríl 2019 og hönnunargögn uppfylli ekki heldur skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki eða byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ekki hafi komið fram í greinargerð grenndarkynningar til hverra nota íbúðirnar ættu að vera, en fyrir liggi að byggingarfulltrúi og sveitarstjóri sveitar­félagsins hafi gefið sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð hússins. Ágallar á hönnun íbúðanna hafi aldrei gefið forsendur til lokaúttektar eða jákvæðra umsagna um gistiþjónustu.

—–

Leyfishafa og Borgarbyggð voru veitt tækifæri til að koma að athugasemdum í málinu en þessir aðilar kusu að nýta sér það ekki. Þó var tekið fram af hálfu Borgarbyggðar að litið væri svo á að ákvörðun um útgáfu lokavottorðs væri fallin niður þar sem byggingarleyfi það sem hin kærða lokaúttekt hafi verið byggð á hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingar­eftirlits. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingar­stjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Mælt er fyrir um það í 3. mgr. 36. gr. laganna að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá segir í 6. mgr. ákvæðisins að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirkið uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Að framangreindum ákvæðum virtum er ljóst að útgáfa lokaúttektarvottorðs hefur fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra. Verður kærandi, sem er eigandi húss á aðliggjandi lóð, því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af útgáfu lokaúttektarvottorðs á grundvelli mannvirkjalaga þótt steyptar tröppur tengi húsin saman. Þá er heldur ekki að sjá að fyrir hendu séu að öðru leyti þeir einstaklegu og verulegu hagsmunir sem eru skilyrði kæruaðildar skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að auki telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að þótt ekki liggi fyrir að hin kærða ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs hafi verið formlega afturkölluð af byggingarfulltrúa þá lítur sveitar­félagið svo á að hún sé fallin úr gildi þar sem byggingarleyfi það sem henni lá til grundvallar var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019. Mun eigandi Egilsgötu 6 og hafa verið upplýstur um þá afstöðu sveitarfélagsins.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

98/2019 Langeyrarvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrar­vegar 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 að leggja 20.000 króna dagsektir á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fallist var á kröfu kæranda um frestun réttar­áhrifa með úrskurði nefndar­innar, uppkveðnum 11. október 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. janúar 2019, upplýsti byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar kæranda um að hann hefði til skoðunar meinta óleyfisframkvæmd sem meðal annars fælist í breytingum á útliti bílskúrs að Langeyrarvegi 4 án þess að leyfis meðeiganda hefði verið aflað. Þá væri ekki heimilt að vera með tvær íbúðir í rýminu eins og grunur léki á að búið væri að gera. Óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá kæranda og leiðbeindi honum um að sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum en ella að breyta útliti hússins í fyrra horf. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. janúar 2019, þar sem m.a. var vísað til þess að fyrirhugað væri að halda húsfund um málið og að kærandi hefði haft samband við arkitekt vegna breytinga á útliti hússins.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum ættu að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi væri rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Erindi byggingar­fulltrúa var svarað með bréfi kæranda, dags. 17. s.m., þar sem kom fram að kærandi hefði farið yfir málið með arkitekt og að tryggt yrði að bílskúrsdyr yrðu áfram á húsinu. Ekki væri ljóst hvernig klæðning byggingarinnar færi í bága við mannvirkjalög og þá félli umræddur eignarhluti kæranda undir notkunarflokk 3 samkvæmt gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beitt yrðu 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýslu­réttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði slík ákvörðun að vera skýr, framkvæmanleg og studd málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Framkvæmdir þær sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt. Athugasemdir byggingarfulltrúa um notkun á rýminu til búsetu eigi sér ekki lagastoð enda rúmist það innan stjórnarskrárvarins eignarréttar hvers íbúðareigenda hvernig og með hvaða hætti hagnýtingu séreignar sé háttað. Kærandi hagnýti rýmið með þeim hætti að það sé leigt út til leigjanda, sem nýti það, eftir því sem kærandi best viti, ekki til annars en heimilt sé.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að byggingar­fulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé meðal annars óheimilt að breyta húsnæði, burðakerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Sömu reglur komi fram í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva fram­kvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. í byggingar­reglugerðinni. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. mannvirkjalaga og í gr. 2.9.2. í reglugerðinni ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingar­fulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýslu­réttarins við meðferð málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi enn engin rök fært fyrir því að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi ekki við. Kærandi leggi áherslu á að frá byggingu hússins hafi hans eignarhluti alltaf verið klæddur án nokkurra athugasemda af hálfu sveitarfélags eða meðeiganda, þar til meðeigandi hafi óskað eftir því við kæranda að hann skipti um klæðningu á eignarhlutanum því honum þætti hún ljót. Kærandi hafi ekki talið það forgangsverkefni en hann gæti hugsað sér að klæða húsið með klæðningu eins og þeirri sem hann hafi nú verið sektaður fyrir að nota. Klæðningin sé í sama litatón og fyrri klæðning og telji kærandi hana falla innan marka c-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem endurnýjun vegg­klæðningar þegar notað sé sambærilegt efni og frágangur þannig að útlit byggingar breytist óverulega. Framkvæmdin sé því undanþegin byggingarleyfi og beri kærandi samkvæmt gr. 2.3.7. í reglugerðinni ábyrgð á því að ekki sé gengið á rétt nágranna og að virt séu ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Kærandi upplýsi að vegna breyttra aðstæðna hafi komist á samkomulag milli kæranda og leigjanda um að leigusamningur um bílskúr verði felldur úr gildi og verði samningnum aflýst af eigninni. Samt sem áður mótmæli kærandi því sem fram komi í bráðabirgðaúrskurði að ágreiningur snúist um það hvort afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun. Ekki sé um breytta notkun að ræða heldur sé notkun í samræmi við skráningu, hvort sem rýmið sé nýtt fyrir geymslu bifreiðar, húsgagna, verkfæra eða fyrir búsetu. Kærandi geri ekki kröfu um að skráningu rýmisins verði breytt vegna notkunar. Það sé afstaða kæranda að byggingarfulltrúa skorti valdheimildir til þess að þvinga fram breytta notkun á rými sem kærandi eigi í séreign. Rýmið sé stök bílgeymsla fyrir einn notanda og samkvæmt töflu 9.01 í byggingarreglugerð, skipting mannvirkja í notkunarflokka, teljist slík bílgeymsla hluti einbýlis- og fjölbýlis­­húsa samkvæmt þriðja notkunarflokki. Sá flokkur gildi samkvæmt gr. 9.1.3. um rými þar sem gert sé ráð fyrir að fólk gisti. Telji byggingarfulltrúi að fólk gisti í rýminu þá skorti hann valdheimildir til þess að fá því breytt, hvort sem það mat byggingarfulltrúa á hagnýtingu leigjenda sé rétt eður ei.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum kæranda og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um það hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 fyrir klæðningu á bílskúr hans og ætlaðri breytingu á notkun bílskúrsins.

Samkvæmt samþykktum teikningum að umræddri fasteign eiga að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en framhlið bílskúrsins er með viðarklæðningu. Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist fasteign kæranda annars vegar í eignarhluta 101, sem er skráður sem bílskúr, og hins vegar eignarhluta 103, sem er skráður sem íbúð. Ekki verður ráðið með óyggjandi hætti af því sem fyrir liggur í málinu að bílskúrinn sé nú notaður sem íbúð og liggja ekki fyrir fullnægjandi ástæður til að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki að því er notkun rýmisins varðar. Hins vegar verður ekki fallist á með kæranda að breyting á útliti bílskúrsins falli undir undantekningarákvæði c-liðar gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð, enda getur umdeild breyting ekki talist óveruleg breyting á útliti hans þegar litið er til samþykktra aðaluppdrátta hússins og útlits sambyggðs bílskúrs. Með vísan til framangreinds var byggingar­fulltrúa rétt að krefjast þess að kærandi aflaði sér byggingarleyfis fyrir nýrri/breyttri klæðningu eða eftir atvikum að útliti skúrsins yrði komið í fyrra horf.

Samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunar­úrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, m.a. dagsektum, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Vísaði byggingarfulltrúi til þeirrar lagaheimildar í ákvörðun sinni um að leggja á dagsektir vegna breytinga á útliti fasteignar kæranda. Svo sem rakið hefur verið hér að framan hefur byggingarfulltrúi ítrekað veitt kæranda færi á að veita skýringar og koma á framfæri athugasemdum í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar og var kæranda bent á að yrði tilmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt gæti komið til beitingar dagsekta samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga. Með vísan til þess liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á nefndri hinni ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegar 4 frá og með 9. september 2019 að því er varðar nýja/breytta klæðningu á bílskúr á lóðinni.

19/2019 Grænuborgir

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitar­félagsins Voga frá 11. desember 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:  

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra fjórir eigendur lands á því svæði er deiliskipulagsbreytingin nær til, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 11. desember 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 5. apríl 2019.

Málavextir: Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga 20. desember 2017 var lagt fram samþykkt kauptilboð í svonefnt Grænuborgarsvæði. Kaupendur lögðu fram drög að samkomulagi varðandi uppbyggingu og deiliskipulag svæðisins. Bæjarráð tók jákvætt í hugmyndirnar og fól bæjarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins að vinna áfram að málinu. Málið var tekið til afgreiðslu og það samþykkt á fundi bæjarstjórnar 28. febrúar 2018. Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á fundi sínum 15. maí 2018. Í breytingartillögunni fólst m.a. að lóðum yrði fjölgað auk þess að hámarksstærð og hámarkshæð húsa yrði aukin. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar á fundi sínum 16. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar frá 6. júní til og með 18. júlí 2018. Fjölmargar athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 21. ágúst 2018 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að skipaður yrði vinnuhópur til að vinna nánar að útfærslu á skipulaginu með tilliti til athugasemda. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna á fundi sínum 30. s.m. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. desember s.á. var lögð fram breytt skipulagstillaga fyrir umrætt svæði. Í hinni auglýstu tillögu hafði verið gert ráð fyrir einu eða tveimur fimm hæða fjölbýlishúsum á hverri lóð á svæðinu austan götunnar Grænuborgar. Sú breyting var gerð að byggingarreit fjölbýlishúsa á hverri lóð var skipt upp í tvo byggingarreiti og yrðu því tvö fjölbýlishús á hverri lóð. Húsin yrðu allt að fjórar hæðir í stað fimm og hámarkshæð bygginga 13,5 m yfir gólfkóta jarðhæðar. Skilmálum fyrir fjölbýlishús á tveimur hæðum (húsgerð E) var breytt þannig að innan byggingarreits var eftir breytingu val um hvort byggt yrði raðhús á tveimur hæðum eða fjölbýlishús á tveimur hæðum. Fjöldi íbúða innan hringleiðar (götunnar Grænuborgar) var í gildandi deiliskipulagi 160 en samkvæmt hinni breyttu tillögu 183. Fjöldi íbúða utan götunnar Grænuborgar var í gildandi deiliskipulagi 246 en yrði samkvæmt hinni breyttu tillögu 269. Hin auglýsta tillaga hafði hins vegar gert ráð fyrir 487 íbúðum. Auk þess var hætt við allar breytingar á hinu deiliskipulagða svæði vestan götunnar Grænuborgar.

Umhverfis- og skipulagsnefnd lagði til við bæjarstjórn að breytt tillaga og umsögn um athugasemdir yrðu samþykkt og að málsmeðferð yrði skv. 42. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 11. desember 2018. Deiliskipulagsbreytingin var send til Skipulagsstofnunar til yfirferðar 12. s.m og auglýsing um niðurstöðu bæjarstjórnar birtist í Fréttablaðinu 17. s.m. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 17. janúar 2019, kom fram að stofnunin gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 6. febrúar 2019.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að sveitarstjórn hafi gjörbreytt hinni auglýstu skipulagstillögu í kjölfar framkominna athugasemda og samþykkt hana svo breytta án frekari málsmeðferðar. Ekki verði annað ráðið af ákvæðum 42. og 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en að í slíkum tilvikum verði tillaga að fá fulla meðferð með tilheyrandi athugasemdafresti. Umhverfis- og skipulagsnefnd segi í niðurlagi tillögu sinnar að með tillöguna skuli fara skv. 42. gr. skipulagslaga, sem mætti skilja sem svo að kynningarferlið ætti að endurtaka, enda sé það í samræmi við 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarstjórn hafi lýst því yfir í samþykkt sinni 11. desember 2018 að tillagan hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og í kjölfarið sent breytinguna til Skipulagsstofnunar.

Sveitarstjórn hafi tjáð kærendum að samþykkt bæjarstjórnar frá 11. desember 2018 væri kæranleg ákvörðun sem sætti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hins vegar sé deiliskipulagsákvörðunin í reynd ekki kæranleg fyrr en hún hafi verið auglýst í Stjórnartíðindum, skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málsmeðferð þessi hljóti að gera það að verkum að úrskurðarnefndin felli ákvörðunina úr gildi, svo hægt sé að láta hið nýja deiliskipulag fá löglega málsmeðferð.

Svo virðist sem sveitarstjórn líti svo á sem breytingartillagan hafi verið smávægileg en sú sé ekki raunin. Heildarsvæðið hafi verið tekið út úr fyrri tillögu og afgreiðslu á skipulagi þess að hluta verið frestað en verulegar breytingar hafi verið gerðar á hinum hluta svæðisins. Sé þar með í reynd verið skipta deiliskipulagsbreytingunni í hluta með ólögmætum hætti enda eigi frekari skipulagning að fylgja í kjölfar hinnar kærðu tillögu. Fyrir liggi yfirlýsing frá sveitarfélaginu um að samkomulagið við framkvæmdaraðilann sé áfram í fullu gildi. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu liggi fyrir að hin breytta og samþykkta deiliskipulagsákvörðun feli aðeins í sér að „fallið er í bili frá breytingu á stærstum hluta svæðisins. Ekki hafi verið fallið frá áformunum endanlega.“ Það sé ætlun sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans að koma upphaflegri og umsaminni tillögu í gegn strax og færi gefist. Verði að líta á hina samþykktu ákvörðun í því ljósi, þ.e.a.s. sem áfanga á þeirri leið að standa við samninginn við framkvæmdaraðilann. Öruggt sé að þeir sem athugasemdir hafi gert við upphaflegu tillöguna hafi heilmargar athugasemdir fram að færa við tillöguna sem komið hafi frá umhverfis- og skipulagsnefnd 3. desember 2018, samþykkt þar 7. s.m. og staðfest í bæjarstjórn 11. s.m., en þeim hafi ekki gefist möguleiki til þess.

Gerð sé alvarleg athugasemd við að engin greinargerð fylgi skipulagsbreytingunni um áhrif  tillögunnar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina komi, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið viðurkenni að þessi gagnrýni sé réttmæt en færi fram sér til málsbóta að um sé að ræða tillögu að breytingu á skipulagi sem þegar sé fyrir hendi. Sú málsvörn megi sín lítils þegar þess sé gætt að í því skipulagi hafi heldur ekki verið gerð grein fyrir umhverfisáhrifum og samanburði kosta. Þær athugasemdir sem borist hafi sveitarfélaginu við meðferð málsins beri glöggt með sér að rík þörf sé á því að umhverfis- og félagsleg áhrif hinnar þegar samþykktu ákvörðunar séu metin.

Þrátt fyrir að það hljómi sem hófleg breyting að fjölga íbúðum úr 160 í 183 sé það ríflega 14% aukning, sem nemi meira en einu af stærstu fjölbýlunum, þ.e. 20 íbúðum. Íbúðafjölgun þessari sé náð fram með óhóflegri og órökstuddri stækkun byggingarreita á skipulagssvæðinu austan götunnar Grænuborgar. Þá víki húsagerð D, þ.e. raðhús á tveimur hæðum með nýtingarhlutfall 0,6, fyrir húsagerð E, sem hafi nýtingarhlutfallið 0,9. Þá stækki byggingarreitir. Þetta þýði að á þeim hluta skipulagssvæðisins sem breytingin nái til sé byggingarmagn aukið um rúmlega 50% og byggingarreitir stækkaðir um 6-12%. Þetta sé því stórkostleg breyting varðandi bæði byggingarmagn og ásýnd. Líti út fyrir að ásýnd hins umrædda svæðis austan götunnar Grænuborgar verði meira í takt við gömlu herblokkirnar við Keflavíkurflugvöll en við núverandi byggð í Vogum. Þessu til viðbótar sé framkvæmdaraðilanum afhent skipulagsvald þar sem í hinum breyttu skilmálum segi að varðandi byggingarreiti fyrir húsagerð E sé val um hvort byggð verði raðhús eða fjölbýli á tveimur hæðum.

Í skipulagsskilmálum deiliskipulags Miðsvæðis sveitarfélagsins frá 16. maí 2017 hafi verið kveðið á um að fjölbýlishúsum skuli fylgja tvö bílastæði fyrir hverja íbúð. Hér séu hins vegar felldar burt bílageymslur, sem gert hafi verið ráð fyrir í kjallara fjölbýlishúsanna, og aðeins gert ráð fyrir 1,5 bílastæði fyrir hverja lóð. Þetta eigi við um stærstu fjölbýlin. Ástæðan fyrir þessari skerðingu virðist sú að byggingarmagn hafi verið aukið svo mikið á þessum reitum að ekki verði fleiri bílastæðum komið við ofanjarðar. Engin sjáanleg skynsamleg rök séu fyrir því að fallið skuli frá bílageymslum í kjallara húsanna. Eina skýringin sé fjárhagsleg hagræðing fyrir framkvæmdaraðilann en bílakjallarar séu kostnaðarsamir í byggingu. Sé aðeins talin þörf á 1,5 bílastæði við fjölbýlin við Grænuborg ætti hið sama að eiga við um fjölbýli við Hrafnaborg.

Gönguleiðir í fyrra skipulagi séu felldar út. Ótækt sé að nýtt skipulag fyrir fjölmennt íbúðarhverfi setji ekki öryggis-, samgöngu- og lýðheilsusjónarmið ofar en hér sé gert. Þess í stað sé sett kvöð á lóðir við Hrafnaborg um að almenn gönguleið verði innan lóðar sé þess þörf. Ekki sé ljóst hver eigi að meta þessa þörf og hvenær. Þá sé vakin athygli á ritvillu í skilmálum deiliskipulagsins, en þar sé vísað til númera lóða við Hrafnaborg sem breytist. Sé þar vísað til númera 2-24 í stað númera 20-24.

Sveitarfélagið hafi hinn 22. febrúar 2018 gert samning við eiganda lands á umræddu Grænuborgarsvæði varðandi uppbyggingu og deiliskipulag þess. Í 9. gr. hans sé ákvæði þess efnis að það sé sameiginlegur skilningur aðila að heppilegt sé að ljúka uppbyggingu á einu svæði innan sveitarfélagsins áður en uppbygging á öðru hefjist. Þótt fyrirvari sé um þetta sé það samt svo að í samningsákvæðinu felist skuldbinding sem sé til hagsbóta fyrir eiganda landsins en feli í sér verðmætaskerðingu fyrir þá sem eigi land sem liggi að þéttbýli Grænuborgarsvæðisins. Kærendum hafi lengi verið meinað að skipuleggja íbúðarbyggð á landi sínu og nú sé gerður samningur við annan aðila sem þýði að kærendum verði meinað það lengi áfram. Þá hamli samningsákvæðið samkeppni, þar sem möguleikar á því fyrir hinn almenna borgara að fá byggingarland utan Grænuborgarsvæðis verði verulega skertir og þeir aðilar sem vilji fá nýtt hús eða byggingarland í Vogum verði að leita til viðkomandi landeiganda. Kærendur líti svo á að samningur þessi sé ógildur þar sem hann stangist á við 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 2. gr. sömu laga. Skipulag eigi ekki að byggjast á ógildum eða ógildanlegum samningum heldur málefnalegum skipulagssjónarmiðum. Kærendur geri sér grein fyrir því að vald úrskurðarnefndarinnar nái ekki til þess að úrskurða um gildi samninga einkaréttarlegs eðli sem sveitarfélag geri en hins vegar eigi nýtt deiliskipulag að vera byggt á faglegum grunni en ekki vera háð skilyrðum sem gætu raskað þeirri festu sem eigi að fylgja skipulagi. Þannig gætu væntanlegir kaupendur íbúða í Grænuborgarhverfi verið settir í gíslingu ef viðsemjandi teldi að ekki væri staðið við hin sérstöku skilyrði af sveitarfélagsins hálfu. Úrskurðarnefndin komist ekki hjá því að skoða að hvaða leyti sveitarfélagið sé að slaka á kröfum einungis til að koma því í gegn að byggt verði á tilteknum reit en ekki öðrum.

Sveitarfélagið virðist hafa sniðgengið rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að láta undir höfuð leggjast að rannsaka aðra kosti en þá sem í boði hafi verið frá viðsemjanda sveitarfélagsins. Þá hafi ekki verið gætt að jafnræðisreglu 11. gr. sömu laga, en aðilum sé mismunað með því að gera langtímasamning við einn landeiganda og sniðganga kærendur og þær hugmyndir sem frá þeim hafi komið. Þá séu að engu hafðar fjölmargar athugasemdir ýmissa íbúa og jafnvel ekki tekið tillit til athugasemda byggingarfulltrúa. Ekki verði annað ráðið af niðurstöðu sveitarstjórnar en að mikið sé í húfi við að standa við gerða samninga við einn landeiganda og láta þá samningshagsmuni ganga fyrir rétti þeirra sem gagnrýnt hafi deiliskipulagstillöguna. Þá hafi meðalhófs ekki verið gætt, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, þar sem teknar hafi verið íþyngjandi ákvarðanir um þéttingu byggðar og ásýnd sveitarfélags, sem ekki hafi verið nauðsynlegar. Lögmætu markmiði hefði verið unnt að ná með öðru og vægara móti, svo sem með meiri dreifingu byggðar. Að lokum hafi andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga ekki verið virtur, þar sem ákvörðun hafi verið tekin um verulega breytingu deiliskipulags án þess að gefa íbúum kost á að tjá sig um nýjar tillögur.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ekki verði séð að fyrir hendi sé gilt umboð vegna flestra kærenda í málinu. Fyrirliggjandi umboð nái til þess að gæta hagsmuna þeirra vegna ágreinings um nýtingu á grunnvatni og öðrum náttúruauðlindum innan Heiðarlands Vogajarða og sé umboðsmanninum veitt umboð til þess að kæra ákvörðun í tengslum við nýtingarleyfi Orkustofnunar frá 4. desember 2018. Beri af þessum sökum að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Aðdraganda að hinni kærðu ákvörðun megi rekja til deiliskipulagstillögu fyrir Grænuborgarhverfi, sem samþykkt hafi verið að auglýsa til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Voga 15. maí 2018. Við afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar hafi verið samþykkt að haga málsmeðferðinni skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 enda um að ræða breytingu á eldra deiliskipulagi sem samþykkt hefði verið 2. apríl 2008. Í kjölfarið hafi deiliskipulagstillagan verið samþykkt í bæjarstjórn,  hún því næst auglýst og almenningi síðan gefinn kostur á að kynna sér efni hennar og gera athugasemdir. Tillagan hafi gert ráð fyrir fjölgun íbúða á skipulagssvæðinu í heild úr 236 íbúðum í 487. Rétt sé að fjölmargar athugasemdir hafi verið gerðar við hina auglýstu deiliskipulagstillögu, eða alls 40 athugasemdir frá 49 aðilum. Flestar athugasemdirnar sem borist hafi eigi það sameiginlegt að þær hafi varðað aukna umferð og fjölgun íbúða á svæðinu almennt, þ.e. fjölgun íbúða í fjölbýli á kostnað sérbýlis. Að liðnum athugasemdafresti hafi sveitarfélagið tekið efnislega afstöðu til þeirra athugasemda sem fram hafi komið í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Í kjölfarið hafi sveitarfélagið sett af stað vinnuhóp til þess að móta tillögur að breytingum til að koma til móts við athugasemdir íbúa. Afrakstur vinnuhópsins hafi verið að draga úr fjölda íbúða og lækka hámarkshæð tiltekinna bygginga úr fimm hæðum í fjórar og skipta byggingarreitum nokkurra fjölbýlishúsanna upp. Þá hafi skilmálum fyrir fjölbýlishús á tveimur hæðum, þ.e. húsgerð E, verið breytt á þann hátt að innan byggingarreits væri val um hvort byggð yrðu raðhús á tveimur hæðum eða fjölbýlishús á tveimur hæðum. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tekið mið af þessu og lagt fyrir eigendur að breyta tillögunni m.t.t. þessa, en auk þess hafi verið hætt við allar breytingar á skipulagi svæðisins vestan götunnar Grænuborgar. Endanleg tillaga hafi því eingöngu gert ráð fyrir breytingum á þeim hluta gildandi deiliskipulags sem sé austan Grænuborgar. Sé um þetta fjallað í umsögn um innkomnar athugasemdir.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 7. desember 2018 hafi hin breytta tillaga verið samþykkt og lagt til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt og vísað til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skv. 42. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn Voga hafi tekið málið til meðferðar á fundi 11. desember 2018 og sent skipulagsbreytinguna til Skipulagsstofnunar til yfirferðar. Með bréfi, dags. 17. janúar 2019, hafi Skipulagsstofnun upplýst að með tilliti til málsmeðferðar deiliskipulagstillögunnar og þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á henni gerði stofnunin ekki athugasemdir við að tillagan yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Sú afstaða hafi fyrst og fremst byggst á því að hin kærða ákvörðun hafi fengið þá málsmeðferð sem ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga geri kröfu um. Breytingar þær sem gerðar hafi verið  á tillögunni eftir að hún hafi verið kynnt íbúum hafi falist í því að koma til móts við kröfur þeirra með því að fækka íbúðum og lækka hámarkshæð fjölbýlishúsa. Skipulagsstofnun hafi talið hið breytta skipulag í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Tekið sé undir þessa afstöðu enda breytingarnar ekki verulegar og ívilnandi varðandi öll grenndaráhrif gagnvart hagsmunaaðilum. Auk þess hafi þær verið gerðar með samþykki eigenda lóðanna á skipulagssvæðinu.

Samkvæmt 43. gr. skipulagslaga beri við mat á því hvort um verulega breytingu á skipulagi sé að ræða að horfa til þess að hvaða leyti umrædd tillaga víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti eða formi svæðis. Í þessu samhengi sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 74/2018 þar sem talið hafi verið að breyting á deiliskipulagi, sem hafi falið í sér fjölgun íbúða á lóðum þar sem húsin hafi haldist að öðru leyti sambærileg frá fyrra deiliskipulagi, nýtingarhlutfall lóðanna sama og útlit og ásýnd að mesta óbreytt, gæti ekki talist veruleg breyting í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þá hafi verið talið að ekki væri þörf á að auglýsa deiliskipulagstillögu að nýju hefði tillaga tekið breytingum í kjölfar athugasemda, enda væri breytingin ekki veruleg, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 134/2017 og 8/2019. Samkvæmt framansögðu verði ekki talið að um sé að ræða verulega breytingu á deiliskipulagstillögunni sem hafi borið að auglýsa að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. laganna.

Sveitarfélagið Vogar fari með skipulagsvald innan sveitarfélagsins. Í því valdi felist m.a. að taka ákvarðanir um breytingar á deiliskipulagi, enda séu þær breytingar innan ramma aðalskipulags. Telji tilteknir landeigendur að þeir hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna nýs deiliskipulags hafi það ekki áhrif á gildi þess en viðkomandi aðili geti eftir atvikum krafist skaðabóta skv. 51. gr. skipulagslaga.

Fullyrðingum um að tilvitnað samkomulag hamli með einhverju móti samkeppni og brjóti gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sé hafnað. Valdsvið úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála taki ekki til þess að úrskurða um hvort einkaréttarlegir samningar séu gildir. Sé því mótmælt sem haldið sé fram í kæru að úrskurðarnefndin komist ekki hjá því að „skoða að hvaða leyti sveitarfélagið er að slaka á kröfum einungis til að koma því í gegn að byggt verði á tilteknum reit en ekki öðrum“. Því sé mótmælt að slakað hafi verið á kröfum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Alrangt sé að hætt hafi verið við allar breytingar á deiliskipulaginu vestan götunnar Grænuborgar. Í samkomulaginu felist ákvörðun um skipulagsmál sem ekki hafi verið tekin samkvæmt lögmætu ferli skipulagslaga, stjórnsýslulaga og óskráðra reglna um vandaða stjórnsýsluhætti. Þær skipulagsákvarðanir sem í samningnum felist hafi ekki verið bornar undir almenning eða auglýstar. Þegar slíkt samkomulag liggi fyrir geti aðrir ekki treyst því að hlutlægni og jafnræðis sé gætt við síðari málsmeðferð.

Varðandi tilvitnun í mál nr. 74/2018 skuli á það bent að þar hafi breytingar verið óverulegar og nýtingarhlutfall þeirra lóða verið hið sama. Það eigi ekki við í kærumáli þessu. Í þeim breytingum sem gerðar hafi verið eftir að liðnum athugasemdafresti hafi falist nýjar og verulega breyttar útfærslur sem rétt hefði verið að kynna almenningi. Að öðrum kosti væri tilganginum með lagaákvæðum um kynningu meðal almennings á fyrirhuguðum breytingum á skipulagi ekki náð.

Hugtakið skipulagsvald virðist vera sveitarstjórnarmönnum ofarlega í huga án þess að þeir hafi það vald lögum samkvæmt. Ákvarðanir um skipulag sæti ákveðnu ferli sem tiltekið sé í lögum og geri strangar kröfur til sveitarstjórna. Sveitarstjórnir hafi ekki síðasta orðið í þeim efnum. Sé vafi uppi um hvort gætt hafi verið að réttindum borgaranna þá sé sá vafi ekki skýrður sveitarstjórn í vil. Sönnunarbyrðin um það hvort breytingar á deiliskipulagi séu verulegar eða óverulegar hvíli því á sveitarfélaginu.

Loks sé á það bent að samþykki Skipulagsstofnunar feli ekki í sér endanlega staðfestingu stofnunarinnar heldur aðeins að hún hafi móttekið samþykkta tillögu og litið yfir fylgigögn. Engin gagnrýnin rannsókn hafi farið fram enda hafi stofnunin sent bréfið nánast um hæl að loknu jólaleyfi. Ósennilegt sé að stofnunin hafi farið ofan í athugasemdirnar og borið tillögurnar saman að nokkru marki. Skipulagslög geri ekki ráð fyrir ítarlegri skoðun á þessu stigi og Skipulagsstofnun hafi skamman tíma til yfirferðar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Afgreiðsla Skipulagsstofnunar sé formsatriði og þýði ekki að ákvörðun sveitarfélagsins sé bindandi fyrir þegna landsins heldur aðeins að sveitarstjórnin megi auglýsa og þá hefjist kærufrestur.

Niðurstaða: Lögmaður kærenda hefur skilað inn gildu umboði fyrir umbjóðendur sína. Verður því ekki fallist á frávísunarkröfu sveitarfélagsins af þeim sökum.

Í kjölfar kynningar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar voru gerðar breytingar á henni með tilliti til framkominna athugasemda. Fólust þær breytingar í því að fallið yrði frá breytingum á svæðinu vestan götunnar Grænuborgar og að á svæðinu austan hennar yrði gert ráð fyrir að byggingarreit F-fjölbýlishúsa á hverri lóð yrði skipt upp í tvo byggingarreiti með allt að fjögurra hæða fjölbýlishúsum í stað fimm. Hámarkshæð bygginga skyldi vera 13,5 m yfir gólfkóta jarðhæðar í stað 16,5 m og skilmálum fyrir E-fjölbýlishús á tveimur hæðum yrði breytt þannig að innan byggingarreits yrði val um hvort byggð yrðu raðhús á tveimur hæðum eða fjölbýlishús á tveimur hæðum, þar sem áður hafði einungis verið gert ráð fyrir tveggja hæða fjölbýlishúsi. Fjöldi íbúða austan við Grænuborg var í gildandi deiliskipulagi 150 en verður 183 samkvæmt hinni breyttu tillögu en fjöldi íbúða vestan Grænuborgar helst óbreyttur. Heildarfjöldi íbúða var í gildandi deiliskipulagi 246, samkvæmt auglýstri tillögu 487 en samkvæmt breyttri tillögu 269.

Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn taka skipulagstillögu til umræðu þegar frestur til athugasemda er liðinn, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Í 4. mgr. nefndrar greinar er kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik. Þær breytingar sem gerðar voru á svæðinu austan Grænuborgar bera með sér að þær hafi verið gerðar í því skyni koma til móts við framkomnar athugasemdir, líkt og fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa. Breytingarnar lutu að því að fækka íbúðum og minnka hámarkshæð fjölbýlishúsa ásamt því að falla um sinn frá auglýstum breytingum á  skipulagi vestan götunnar Grænuborgar, eins og fyrr er rakið. Þá liggur fyrir að samráð var haft við landeiganda við umræddar breytingar á deiliskipulagstillögunni. Með vísan til þess sem að framan greinir verða breytingar þær sem gerðar voru á deiliskipulagsbreytingunni eftir að auglýsingafrestur rann út ekki taldar þess eðlis að auglýsa hafi þurft þær að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Kærendur benda á að sveitarfélagið hafi tjáð þeim að samþykkt bæjarstjórnar frá 11. desember 2018 væri kæranleg ákvörðun en hið rétta sé að ákvörðunin verði ekki kæranleg fyrr en hún hafi verið birt í Stjórnartíðindum. Í bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 12. desember 2018, var kærendum leiðbeint um kæruheimild skv. 52. gr. skipulagslaga, kærufrest og kæruleið. Getur það í engu raskað hinni kærðu ákvörðun að kærendum hafi ekki verið leiðbeint um að kærufrestur byrji að líða þegar ákvörðun hefur verið birt opinberlega skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, enda urðu kærendur ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Nær vald úrskurðarnefndarinnar ekki til þess að úrskurða um gildi samnings sem kærendur telur ógildan eða ógildanlegan á grundvelli samkeppnislaga nr. 44/2005. Lögmaður kærenda var upplýstur um að úrskurðarnefndin fengi ekki betur séð en að krafa um ógildingu á framangreindum samningi ætti undir Samkeppniseftirlitið samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sbr. einnig 1. mgr. 33. gr. og a-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Lögmaður kærenda var jafnframt upplýstur um að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga bæri stjórnvaldi að framsenda erindi, sem ekki snerti starfssvið þess, á réttan stað. Í ljósi þess að einungis var um eina málsástæðu af mörgum að ræða í kærumáli þessu þótti rétt að óska eftir skoðun lögmanns kærenda á því hvort framsenda ætti erindi kærenda að þessu leyti til Samkeppniseftirlitsins. Lögmaðurinn taldi ekki ástæðu til að framsenda þennan þátt málsins en benti á að úrskurðarnefndin ætti engu að síður að taka afstöðu til þess hvort að gerð slíks samnings teldist málefnalegur aðdragandi að gerð deiliskipulags, óháð gildi samningsins.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að landeigandi eða framkvæmdaraðili geti óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Af 1. málsl. 1. mgr. 39. gr. sömu laga má einnig sjá að unnt sé að gera land í einkaeigu sé gert að byggingarlóðum með deiliskipulagi að ósk landeiganda. Lesa má úr framangreindum ákvæðum að gert er ráð fyrir samskiptum á milli sveitarstjórnar og landeiganda eða framkvæmdaraðila í aðdraganda deiliskipulagsgerðar eða breytingar á deiliskipulagi. Verður því að telja að málefnaleg rök og skipulagshagsmunir geti búið að baki samningi sveitarfélags og landeiganda um uppbyggingu á landi í einkaeigu. Ekki verður að öðru leyti tekin afstaða til innihalds fyrrnefnds samnings enda á það ekki undir úrskurðarnefndina, líkt og áður kemur fram.

Varðandi málsástæður kærenda um fækkun á bílastæðum og göngustígum er rétt að benda á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, og eru skipulagsyfirvöld eðli máls samkvæmt ekki bundin við skilmála eldra skipulags við slíka breytingu. Þá er ekkert í aðalskipulagi, skipulagsreglugerð nr. 90/2013, byggingarreglugerð nr. 160/2010 eða öðrum réttarheimildum sem bindur hendur sveitarstjórnar varðandi fjölda bílastæða eða göngustíga á hinu deiliskipulagða svæði, að undanskildum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða.

Samkvæmt b-lið 1. gr. skipulagslaga er eitt af markmiðum laganna að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í samræmi við framangreint markmið mælir 5. mgr. 12. gr. laganna fyrir um að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að skipulagslögum segir um 5. mgr. 12. gr. að gera verði grein fyrir áætluðum áhrifum áætlunarinnar og áhersla sé lögð á samanburð þeirra kosta sem til greina komi. Ekki sé með ákvæðinu verið að auka við þær kröfur sem lög um umhverfismat áætlana geri um slíkt umhverfismat. Í sumum tilvikum sé ekki þörf á umhverfismati, t.d. þegar um deiliskipulag eða óverulegu breytingu á skipulagi sé að ræða, en það sé metið í hvert skipti þegar slík skipulagsáætlun sé sett fram. Mikilvægt sé að skoða ekki einungis einn kost heldur að við upphaf skipulagsvinnu séu nokkrir kostir skoðaðir, þeir bornir saman út frá mismunandi áhrifum sem hver kostur geti haft og með hliðsjón af þeim athugasemdum sem samráð við hagsmunaaðila hafi leitt í ljós.

Nánar er fjallað um umhverfismat deiliskipulags í gr. 5.4. í skipulagsreglugerð. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að áætla skuli áhrif af landmótun, skógrækt, umferð, hávaða, umfangsmiklum mannvirkjum, svo sem háhýsum, ásamt fleiri atriðum sem talin eru þar upp. Í 3. mgr. er kveðið á um að gera skuli grein fyrir matinu og niðurstöðu þess í greinargerð deiliskipulagsins. Jafnframt skuli því lýst hvernig skipulagið samræmist markmiðum skipulagsreglugerðar, sbr. gr. 1.1., og markmiðum deiliskipulags, sbr. gr. 5.1.1. Í 4. mgr. gr. 5.4. segir að ef í ljós komi að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi geti haft neikvæð áhrif á umhverfið skuli gera breytingar á deiliskipulagstillögunni til að draga úr hinum neikvæðu áhrifum eða rökstyðja af hverju það sé ekki gert. Setja skuli skilmála um vöktun áhrifa og um hvernig bregðast eigi við umhverfisvandanum eftir því sem þörf sé á. Að lokum er kveðið á um það í 5. mgr. að þegar deiliskipulag falli undir lög um umhverfismat áætlana skuli umhverfismatið gert á grundvelli þeirra laga.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um umhverfismat áætlana gilda ákvæði laganna um umhverfismat þeirra skipulags- eða framkvæmdaáætlana og breytinga á þeim sem marka stefnu er varða leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Óverulegar breytingar á skipulagsáætlunum eru þó ekki háðar ákvæðum laganna enda séu þær ekki líklegar til að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfið, sbr. 10. gr. laganna. Sú deiliskipulagsbreyting sem til umfjöllunar er í kærumáli þessu markar ekki stefnu er varðar leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum og því gilda lög um umhverfismat áætlana ekki um hana. Af orðalagi 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga verður ráðið að almennt skuli gera grein fyrir áhrifum skipulags­áætlunarinnar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma. Af athugasemdum við greinina má ráða að fari umhverfismat fram samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana dugi það mat. Verður því að telja að 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga geri þær kröfur að fram komi í greinargerð deiliskipulags eða deiliskipulagsbreytingar þau áhrif sem skipulagsákvörðunin kunni að hafa á umhverfið eftir því sem við á í hverju tilfelli með tilliti til áðurnefndrar gr. 5.4. í skipulags­reglugerð eða eftir atvikum að færð séu rök fyrir því að um slík áhrif sé ekki að ræða. Í greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er þessa ekki getið. Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sem metið var samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, er þó fjallað með almennum hætti, m.a. með samanburði valkosta, um áhrif nýrra íbúðarsvæða á umhverfið og er svæði það sem umdeild deiliskipulagsbreyting tekur til eitt þeirra. Verður greindur annmarki því ekki talinn geta ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:  

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 11. desember 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grænuborgar.

80 og 83/2019 Dunhagi

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 6. júní 2019 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. ágúst 2019, er barst nefndinni 19. s.m., kæra fasteignaeigendur að Hjarðarhaga 27, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 6. júní 2019 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra fasteignaeigendur við Tómasarhaga, Dunhaga og Arnargötu, sömu ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar og krefjast ógildingar hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 83/2019, sameinað kærumáli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. september 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en á afgreiðslufundi 9. janúar 2018 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi fyrir Dunhaga 18-20 í kjölfar grenndar-kynningar. Fól það leyfi í sér heimild til að byggja inndregna hæð ofan á núverandi hús, viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á húsinu og sorpgerði fyrir verslun í rými 0106. Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018. Það byggingarleyfi var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kærum, dags. 4., 5. og 8. maí 2018. Með úrskurði í máli nr. 69/2018, uppkveðnum 20. júlí s.á., var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það átti sér ekki stoð í deiliskipulagi og skilyrði grenndarkynningar voru ekki fyrir hendi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. október 2018 var lögð fram umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir Dunhaga 18-20. Fól umsóknin í sér heimild til að byggja hæð ofan á núverandi fjölbýlishús og fyrir aftan húsið, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. desember s.á. var lögð fram umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni fólst niðurrif og uppbygging á lóð nr. 18-20 við Dunhaga auk bílskúrs­heimilda á tveimur lóðum. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 20. desember 2019. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2019 var málið tekið fyrir að nýju og lagt fram bréf tveggja aðila sem óskuðu eftir ítarlegri gögnum um skuggavarp og framlengingu á athugasemdafresti. Samþykkt var að framlengja athugasemda­frest til 22. febrúar 2019. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. febrúar 2019 var umsóknin lögð fram auk leiðrétts skuggavarpsuppdráttar og fylgdu drög að húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur með umsókninni. Var málinu vísað til skipulags- og samgönguráðs sem tók það fyrir á fundi sínum 20. febrúar 2019 og samþykkti að endurauglýsa framlagða tillögu að nýju deiliskipulagi með leiðréttu skuggavarpi, dags. 8. febrúar 2019, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulags­laga. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 6. mars s.á. Var tillagan auglýst frá 26. febrúar til 9. apríl 2019.

Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 12. apríl 2019 og henni vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulags­fulltrúa 10. maí s.á. var málið tekið fyrir að nýju og vísað til skipulags- og samgönguráðs. Á fundi þess 15. s.m. var málinu frestað. Málið var svo tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 29. maí 2019 og var umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m. samþykkt. Á fundi borgarráðs 6. júní s.á. var tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga samþykkt. Auglýsing um gildistöku þess skipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda að Hjarðarhaga 27 er vísað til þess að nýtt deiliskipulag rúmist ekki innan Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í aðalskipulaginu sé fjallað sérstak­lega um Vesturbæ á bls. 230 í B-hluta sem innihaldi nánari stefnulýsingu auk þess að vera leiðbeinandi um þróun og uppbyggingu í borgarhlutunum. Kærendur telji einsýnt að hið kærða deiliskipulag rúmist ekki innan aðalskipulags og að til staðar sé innbyrðis ósamræmi.

Svo sem fram komi í gr. 1.1. í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi telji Borgarsögusafn, að aflokinni húsaskoðun, að rík ástæða sé til að hverfisvernda skipulag reitsins. Ennfremur segi í gr. 1.5 um húsakönnun að lagt sé til að reiturinn allur sé verndaður í gulum flokki, utan Dunhaga 18-20. Kærendur taki almennt undir sjónarmið Borgarsögusafns um verndun reitsins þar sem vel hafi tekist til með samsetningu lágreistra fjölbýlishúsa og sólríkra suðurgarða. Þeir telji hins vegar að verndargildi reitsins í heild sé freklega raskað með fyrirhuguðum breytingum á Dunhaga 18-20 sem verði varla lýst öðruvísi en sem nýbyggingu í útliti eftir fyrirhugaðar framkvæmdir. Þá liggi einnig fyrir að skuggavarp muni aukast á lóðum og húseignum við Hjarðarhaga. Muni verndargildi reitsins alls skerðast við það og freklega verndargildi húsa við Hjarðarhaga m.t.t. hinna sólríku suðurgarða sem Borgarsögusafn tiltaki sérstaklega sem sérstöðu byggðarinnar.

Á bls. 232 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segi að byggð á svæðinu sé fastmótuð og það hafi verið fullbyggt um 1970. Á bls. 236 segi að gæta þurfi að meginmarkmiðum um ásýnd og heildaryfirbragði við hönnun mannvirkja og í deiliskipulagi. Kærendur telji að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra gerólíku ásýndar sem Dunhagi 18-20 muni hafa eftir hinar fyrirhuguðu breytingar. Heildaryfirbragð byggðarinnar við Hjarðarhaga og nágrannagötur sé nú með þeim hætti að hærri fjölbýlishús séu norðan- og austanmegin Hjarðarhaga en lágreistari byggð sé sunnan- og vestanmegin. Slíkt fyrirkomulag sé enda ekki tilviljun heldur tryggi sem flestum sólarbirtu úr suðri.

Tafla er fylgt hafi greinargerð að hinu kærða deiliskipulagi hafi sýnt annars vegar núverandi stöðu á reitnum og hins vegar hver hún yrði eftir samþykkt deiliskipulagsins. Þar komi fram að nýtingarhlutfall á lóð Dunhaga 18-20 sé nú umtalsvert hærra en á öðrum lóðum á reitnum. Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi verði nýtingarhlutfallið á bilinu 2–2,6 sinnum hærra en á nærliggjandi lóðum, þ.e. Tómasarhaga 32, 34 og Hjarðarhaga 27, sem sýni hróplegt ójafnvægi í þéttleika og byggðamynstri.

Ennfremur megi benda á að með deiliskipulaginu hafi Reykjavíkurborg stækkað lóð Dunhaga 18-20. Slíkur gjörningur lækki reiknað nýtingarhlutfall á lóðinni, en það sem meira sé, færi þau verðmæti sem felist í bílastæðum á lóð af hendi borgarinnar til lóðarhafa Dunhaga 18-20, án nokkurs rökstuðnings og án þess að öðrum lóðarhöfum á reitnum séu veitt hliðstæð verðmæti. Þá sé stækkun lóðarinnar til þess fallin að skekkja samanburðarhæfni deiliskipulagsins þegar nýtingarhlutfall lóðarinnar sé metið í samanburði við aðrar lóðir á deiliskipulagsreitnum.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2019, komi fram það sjónarmið að hækkun hússins að Dunhaga 18-20 sé eðlileg því að húsin austanmegin Dunhaga, þ.e. Dunhagi 19, 21 og 23 séu fjögurra hæða byggingar. Kærendur telji það engin rök, þvert á móti sé núverandi lægri staða hússins að Dunhaga 18-20 augljóslega til þess fallin að skapa brú milli hærri húsa handan Dunhagans og hinnar annars lágreistu byggðar á deiliskipulagsreitnum. Dunhagi 18-20 sé nú ekki einungis langhæsta húsið á reitnum, heldur verði það samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi hærra en Dunhagi 21 sem sé annars hæst í nágrenninu. Virðist skipulagsfulltrúi þannig ekki hafa ásýnd og verndarákvæði reitsins til hliðsjónar heldur hafi hann einblínt á þau atriði sem, ranglega að mati kærenda, hafi haft framgang deiliskipulagstillögu eigenda Dunhaga 18-20 að leiðarljósi. Með slíkri nálgun hafi Reykjavíkurborg hvorki gætt að rannsóknarskyldu sinni né gætt að jafnræði málsaðila með þeim hætti að kærendur geti séð af umsögn skipulagsfulltrúa að tekið hafi verið tillit til þeirra sjónarmiða sem séu andstæð hagsmunum eigenda Dunhaga 18-20.

Af undanfarandi byggingarleyfisferli þessa máls megi ráða að meginforsenda Reykjavíkur­borgar fyrir hinu kærða deiliskipulagi sé sú að breytingar á Dunhaga 18-20 feli í sér lögmæta og eftirsóknarverða þéttingu byggðar. Því séu kærendur ósammála. Í deiliskipulagsgögnum sé enda ekki vikið að þéttingu byggðar sem sérstakri röksemd fyrir deiliskipulaginu og sé það með réttu, enda veiti aðalskipulag enga stoð fyrir þéttingu byggðar á deiliskipulagsreitnum. Svæðið ÍB3 Hagar sé fastmótað og fullbyggt. Sú litla þétting sem gerð sé ráð fyrir í Vesturbæ hljóti að vera sú þétting sem gerð sé ráð fyrir á þróunarsvæðum sem lýst sé í aðalskipulagi, sbr. bls. 230-231. Dunhaga 18-20 sé þar hvergi getið og eigendur lóðarinnar hafi engar réttmætar væntingar haft um samþykkt hins aukna byggingarmagns á lóðinni. Þvert á móti hafi íbúar og eigendur Hjarðarhaga 27 haft réttmætar væntingar til þess að ásýnd og heildaryfirbragð byggðar yrði viðhaldið við allar skipulagsbreytingar. Kærendur ítreki enn frekar að á Högunum í vesturbæ Reykjavíkur sé þéttleiki byggðar hvað mestur á höfuðborgarsvæðinu og því engin þörf á að þétta byggð á svæðinu. Ákvæði aðalskipulags um þéttingu byggðar sé þar af leiðandi vart hægt að heimfæra á deiliskipulagssvæðið.

Ef marka megi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2019, virðist sem Reykjavíkurborg byggi á því að reisa megi 270 íbúðir utan þéttingarreita í Vesturbæ og að þær 16 íbúðir sem sagt sé að bætast muni við Dunhaga 18-20 rúmist innan þeirrar tölu. Kærendur telji að slíkt sé ótækt sjónarmið enda mætti með þeim rökum raska hvaða gróinni byggð í Vesturbænum sem væri með háhýsum, svo fremi sem þau hýsi færri en 270 íbúðir. Hið rétta og málefnalega sjónarmið hljóti að vera það að eingöngu megi þétta byggð utan þéttingarreita ef gætt sé að stefnu aðalskipulags um verndun og ásýnd byggðar.

Svo sem ljóst megi vera af framansögðu sé hið kærða deiliskipulag ekki í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og því engin forsenda fyrir niðurfellingu lýsingar í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Meginregla skipulagslaga sé gerð lýsingar við undirbúning deiliskipulags, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Undanþágu frá gerð lýsingar í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laganna verði að beita með þröngum hætti enda bjóði gerð lýsingar upp á vandaðra ferli við skipulagsgerð en ella. Sé sérstaklega mikilvægt að vandað sé til verka þegar um veigamiklar breytingar sé að ræða í þegar fullbyggðu hverfi líkt og í því máli sem hér um ræði, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 69, 70 og 71/2018.

Einn grundvallarágalli hins kærða deiliskipulags, hvað varði breytingar á Dunhaga 18-20, sé meint markmið sem sett sé fram í gr. 2.1. í greinargerð deiliskipulagsins. Þar komi fram það markmið að skilgreina byggingarheimild fyrir lóð Dunhaga 18-20 til stækkunar og fjölgunar íbúða til þess að skjóta sterkari stoðum undir verslunarrekstur á fyrstu hæð byggingarinnar. Almennt megi fallast á að efling nærþjónustu við Dunhaga 18-20 rúmist innan aðalskipulags, sbr. bls. 234 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, og markmiðið sem slíkt virðist því, að þessu leyti, lögmætt við fyrstu sýn. Hins vegar sé ekki nóg að markmiðið sé lögmætt heldur verði sú leið sem valin sé til að ná umræddu markmiði að vera málefnaleg, lögmæt og að öðru leyti við hæfi. Ekkert sé fram komið sem bendi til annars en að hægur vandi væri að gera breytingar á núverandi húsnæði innandyra til þess að koma fyrir aukinni verslun og þjónustu í húsinu. Lítil fjölgun íbúa í húsinu sjálfur muni engu breyta um það hvort hægt sé að reka verslun þar eða ekki enda myndu langflestir viðskiptavinir koma annarsstaðar frá.

Þá telji kærendur að ekki hafi verið gætt að meðalhófi við samþykkt deiliskipulags þegar metið sé hvaða aðgerðir séu viðeigandi til þess að ná fram markmiði um eflingu nærþjónustu. Þannig sé með öllu óþarfi að hækka bygginguna að Dunhaga 18-20 um eina hæð til þess að efla verslun á fyrstu hæðinni. Telji kærendur að meint markmið hins kærða deiliskipulags um eflingu nærþjónustu standi einfaldlega ekki í neinum eðlilegum tengslum við efni deiliskipulagsins. Í öllu falli verði að gera þá kröfu til deiliskipulagsins að gerð sé grein fyrir þeirri verslun sem eigi að koma fyrir í húsinu að Dunhaga 18-20. Sé mið tekið af undanfarandi byggingarleyfisferli málsins megi búast við því að stefna eiganda hússins sé að aðeins ein stór verslun verði í húsinu, ekki nærþjónustukjarni minni verslana eins og áður hafi verið. Rannsóknarskylda Reykjavíkur­borgar sé að þessu leyti ekki uppfyllt enda beri henni að kynna sér hvers lags rekstur sé fyrirhugaður í húsinu til þess að tryggja megi að markmið deiliskipulagsins rúmist innan aðalskipulags.

Skuggavarps hafi að engu verið getið í deiliskipulagstillögu sem hafi orðið að hinu kærða deili­skipulagi, en með henni hafi fylgt ógreinilegar teikningar af skuggavarpi. Kærendur hafi farið fram á það í bréfi, dags. 1. febrúar 2019, að fá ítarlegri og haldbetri upplýsingar frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um skuggavarp á hús sitt á sex vikna tímabili kringum jafndægur á vori og sex vikna tímabil kringum jafndægur á hausti. Nýjar myndir hafi fylgt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2019. Líkt og á fyrri myndum megi ráða að eftir hækkun Dunhaga 18-20 verði Hjarðarhagi 27 í skugga nefnds húss kl. 15:00 á jafndægri og þar með í skugga hundruð klukkustunda á ári á bjartasta og hlýjasta tíma dagsins með tilheyrandi áhrifum á vist í húsinu á öllum hæðum og aðstæður í garði og t.a.m. við ræktun hans. Þessar breytingar á skuggavarpi séu því verulegar fyrir kærendur.

Kærendur telji að hið kærða deiliskipulag sé vanbúið m.t.t. áhrifa af skuggavarpi. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2019, komi fram það sjónarmið Reykjavíkurborgar að áhrif skuggavarpsins séu „óveruleg“ á Hjarðarhaga 27. Slíkt sé ekki rökstutt og ómögulegt fyrir kærendur að átta sig á hverju slíkar fullyrðingar séu byggðar. Kærendur telji, samkvæmt framansögðu, að áhrif skuggavarps séu þvert á móti veruleg og bendi til dæmis á að íbúar miðhæðar og efri hæðar húss síns njóti sólar á tiltekna glugga kl. 14:00 og 15:00 hinn 21. febrúar en af myndum að dæma verði um verulega birtuskerðingu að ræða, eða allt að 100%, þar sem sól muni í mun minna mæli falla á þá glugga. Sömu sögu sé að segja um sól á glugga kjallara, miðhæðar og efri hæðar 7. mars kl. 14:00, 15:00, 16:00 og á aðlægum tímum.

Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir sorpgerði verslunar í nyrsta horni lóðarinnar. Einungis þröngur göngustígur skilji að fyrirhugað sorpgerði og Hjarðarhaga 27 og 29 auk þess sem það liggi mjög nærri vinsælu leiksvæði barna sem muni rýra gildi þess. Rétt sé að minna á að verndargildi reitsins sé meðal annars rökstutt með staðsetningu á leiksvæðum barna. Sorpið muni leiða til lyktarmengunar, sjónmengunar og hætt sé á að meindýr leiti ætis og skjóls í sorpgerði eins og þessu.

Í hinu kærða deiliskipulagi sé lóðin Dunhagi 18-20 stækkuð þannig að bílastæðin fyrir framan bygginguna tilheyri nú eigninni. Þessi tilfærsla á eignum borgarinnar til handa lóðarhafa sé rökstudd með því að bílastæðin hafi „verið talin til lóðarinnar þó þau séu ekki innan lóðar“. Ekki verði séð annað en að sömu rök gildi um bílastæði fyrir framan aðrar húseignir á reitnum, en við Hjarðarhaga séu bílastæði fyrir framan hús með sama hætti og við Dunhaga 18-20. Til að jafnræðis sé gætt hljóti að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að fasteignaeigendur við Hjarðar­haga fái þau bílastæði sem séu fyrir framan eignir þeirra afmörkum í deiliskipulagi sem hluta af viðkomandi lóð.

Í kæru íbúa við Tómasarhaga, Dunhaga og Arnargötu kemur fram að þeir hafi ekkert frétt af málinu frá því að byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og hækkun hússins að Dunhaga 18-20 í Reykjavík hafi verið fellt úr gildi með úrskurði 20. júlí 2018 í máli nr. 69/2018 fyrr en með bréfi Reykjavíkurborgar þar sem upplýst hafi verið að auglýst hafi verið tillaga að deiliskipulagi því sem mál þetta snúi að.

Kærendur geri alvarlegar athugasemdir við meðferð deiliskipulagstillögunnar hjá Reykjavíkur­borg og samráðsleysi við umsagnaraðila og aðra hagsmunaaðila. Reykjavíkurborg sé vel kunnugt um andstöðu við fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni við Dunhaga 18-20 þar sem sú framkvæmd hafi áður verið grenndarkynnt og ítarlegum athugasemdum skilað til borgarinnar af því tilefni. Kærendur telji það vera yfirgang af hálfu lóðarhafa við Dunhaga og Reykjavíkur­borgar, og feli í sér ólöglega málsmeðferð, að tillaga sem áður hafi verið grenndarkynnt sé færð í nýjan búning, auglýst og samþykkt sem tillaga að nýju deiliskipulagi án raunverulegs samráðs við hagsmunaaðila.

Málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar hafi ekki verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 eða skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ekki hafi verið fylgt lagaáskilnaði um gerð lýsingar, kynningar og samráðs við hagsmunaaðila þegar vinna við gerð deiliskipulags hafi hafist, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Í lýsingu skuli m.a. gera grein fyrir forsendum, stefnu, skipulags­ferli, kynningu og samráði sbr. gr. 5.2.2.-5.5.2 í skipulagsreglugerð. Áréttað sé sérstaklega að þessar laga- og reglugerðarheimildir fjalli um skyldu til kynningar og samráðs í upphafi skipulagsferlis og áður en deiliskipulag sé auglýst. Engin lagaheimild sé til þess að falla frá samráði en þröng heimild sé til þess að falla frá gerð lýsingar, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Kærendur telji það ákvæði ekki eiga við í þessu máli, enda í mörgum atriðum vikið frá meginforsendum aðalskipulags í deiliskipulagstillögunni sjálfri, sbr. t.d. um nýtingar­hlutfall, þéttleika byggðar og byggðamynstri eins og staðfest hafi verið í úrskurði úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 69/2018. Í þessu sambandi sé jafnframt vísað til þess sérstaklega að þegar framkvæmdaaðili eða lóðarhafi fái sjálfur heimild að gerð deili­skipulags, eins og kærendur telji eiga við í máli þessu, þá gildi regla 3. málsl. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga þar sem segi að hann skuli þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skuli hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Framangreindur áskilnaður um gerð lýsingar á skipulagsverkefni sé óundanþægur í þessum tilvikum. Gerð lýsingar hefði einnig stuðlað að því samráði við hagsmunaaðila sem algjörlega hafi skort á í þessu máli. Í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga segi m.a. að í lýsingu eigi að koma fram „hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynninu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.“ Deiliskipulagið sé óskýrt um hvaða áherslur séu lagðar til grundvallar, m.a. um atvinnustarfsemi og atvinnurekstur á 1. hæð hússins við Dunhaga 18-20 og önnur atriði.

Þegar þeim hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við deiliskipulagið, sem þá hafi verið auglýst, hafi kærendur ekki fengið afrit af öllum gögnum málsins. Eftir að þeir hafi skilað sínum athugasemdum hafi verið útbúin ítarleg skýrsla af hálfu Reykjavíkurborg, sem beri heitið Dunhagi-Hjarðarhagi-Tómasarhagi, fornleifaskrá og húsakönnun, auk þess sem umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hafi útbúið ítarlega umsögn, dags. 8. maí 2019, þar sem m.a. hafi verið gerð tilraun til að svara hluta athugasemda kærenda. Þessi gögn hafi svo verið lögð fyrir borgarráð sem hafi samþykkt deiliskipulagið. Þetta telji kærendur vera sjálfstætt brot á andmælarétti þeirra, og þeim lagaáskilnaði sem að framan hafi verið lýst á grundvelli skipulagslaga- og reglugerðar, sbr. einnig 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærendur hafi ekki fengið tækifæri til þess að gera athugasemdir við þessi gögn málsins. Það leiði einnig til ógildingar deiliskipulagsins. Í því sambandi sé m.a. á það bent að í umsögn umhverfis- og skipulagssvið, sem borgarráð hafi lagt til grundvallar afgreiðslu málsins, sé á nokkrum stöðum farið rangt með staðreyndir auk þess sem kærendur mótmæli ýmsum staðhæfingum og skýringum sem þar sé að finna.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skuli gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og jafnan miðað við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu. Kærendur telji skipulagsreitinn ekki uppfylla þar skilyrði þar sem Hagarnir í heild sé eini reiturinn sem geti myndað heildstæða einingu í þessu samhengi. Sjáist þetta einna best á umsögn skipulagsfulltrúa þar sem röksemdir fyrir hæð byggingarinnar að Dunhaga 18-20 séu sóttar í aðrar byggingar við Dunhaga sem falli þó ekki innan þess reits sem deiliskipulag þetta lúti að.

Gerð sé athugasemd við umfjöllun í kafla 1.3 í deiliskipulaginu um landnotkun. Skilgreind landnotkun Dunhaga 18-20 sé samkvæmt aðalskipulagi íbúðarbyggð. Í aðalskipulaginu sé reiturinn einnig skilgreindur sem „nærþjónusta“. Á bls. 182 í A-hluta aðalskipulagsins sé nærþjónustukjarni skilgreindur á þá leið að þar sé kaupmaðurinn á horninu, minni matvöru­verslanir, bakarí o.fl. Með vísan til framangreinds sé umfjöllun í kafla 1.3 deiliskipulagsins um að nærþjónusta geti falið í sér dagvöruverslanir ekki í samræmi við aðalskipulag. Þar sem hugtakanotkunin sé ekki í samræmi við aðalskipulag, sem vísi til kaupmannsins á horninu og minni matvöruverslana, telji kærendur deiliskipulagið óskýrt og hættu á ruglingi síðar meir.

Í þessu sambandi sé einnig sérstaklega mótmælt umfjöllun í umsögn umhverfis- og skipulags­sviðs Reykjavíkurborgar undir liðnum „verslunarrekstur“ í tölulið 2. Þar segi m.a. að engin dagvöruverslun sé í 300 m radíus frá Dunhaga 18-20. Þetta telji kærendur rangt. Að Hjarðarhaga 47 sé rekin Krambúð sem sé dagvöruverslun, auk þess sem bakarí sé á Fálkagötu 18 en báðar þessar verslanir falli innan 300 metra radíus. Að sama skapi sé því mótmælt að Melabúðin sé nærtækt dæmi um nálægð verslunar og íbúða sem verði að einhverju leyti jafnað til verslunar­reksturs í húsinu að Dunhaga 18-20. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 séu skilgreindir „Borgarhlutakjarnar“ þar sem sé fjölbreytt þjónusta og starfsemi sem þjóni heilum borgarhluta. Sé Melabúðin, hverfisverslun Vesturbæinga, á skilgreindum borgarhlutakjarna. Þar í kring sé fjölbreytt þjónustu- og atvinnustarfsemi og aðstæður allar allt aðrar.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 þar sem fjallað er um Vesturbæ komi fram að stefnt sé að því að þéttleiki byggðar verði að meðaltali 35,7 íbúðir á hektara og nýtingarhlutfall að meðaltali 0,53 árið 2030. Nýtingarhlutfall á lóðinni að Dunhaga 18-20 sé nú 0,86 og í fyrirliggjandi tillögu fari það upp í 1,30. Ljóst sé því að nú þegar sé nýtingarhlutfallið mjög hátt miðað við meðaltal og markmið sem horft sé til í aðalskipulagi. Nýtingarhlutfallið sé einnig gífurlega hátt í samanburði við allar aðrar lóðir á reitnum þar sem nýtingarhlutfall sé á bilinu 0,42 til 0,83. Verði nýtingarhlutfall á lóðinni því um 57% meira en á öllum öðrum lóðum á deiliskipulagsreitnum. Á vef Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu megi sjá að á þessum reit sé þéttleiki nú þegar 0,5 og fjöldi íbúða á hektara sé 35. Þetta sé í samræmi við það meðaltal sem aðalskipulagið geri ráð fyrir árið 2030.

Skipulagsreiturinn sé ekki skilgreindur sem sérstakt þéttingarsvæði samkvæmt aðalskipulagi. Sé vísað til úrskurðar í máli nr. 69/2018 sem taki fram að breyting hússins að Dunhaga 18-20 fæli í sér 77% aukningu nýtingarhlutfalls, meðalnýtingarhlutfall lóða götureits þess sem Dunhagi tilheyri sé 0,65 og að umrædd bygging yrði hærri en aðrar byggingar í nágrenninu. Hefði úrskurðanefndin talið hina kærða ákvörðun fela í sér umtalsvert frávik frá þéttleika byggðar og byggðamynstri umrædds svæðis.

Víðsvegar í aðalskipulagi komi fram að stefnumörkun um þéttleika byggðar verði sett í hverfisskipulagi. Sérstaklega sé vísað til þess að nánari útfærsla á almennum markmiðum aðalskipulagsins vegna Vesturbæjarins verði sett fram í hverfisskipulagi Vesturbæjar sem hafi ekki enn verið unnið. Þar sem hverfisskipulag hafi ekki enn verið gert gangi deiliskipulags­tillagan lengra en aðalskipulagið heimili, enda skorti samráð og þá málsmeðferð sem hverfis­skipulag geri ráð fyrir samkvæmt skipulagslögum.

Undir lið 1.4 í deiliskipulagstillögunni segi að húsið við Dunhaga 18-20 skeri sig frá öðrum húsum á reitnum sem þriggja hæða íbúðafjölbýli með niðurgröfnum kjallara. Það sé vissulega rétt og sé ein helsta ástæða mótmæla kærenda. Húsið sé hvorki í samræmi við byggðamynstur reitsins né hverfisins og verði ekki í neinu samræmi við önnur nærliggjandi hús verði fyrirhuguð viðbygging og aukahæð heimiluð.

Á kynningarfundi hjá skipulagsfulltrúa 19. september 2019, þar sem framkvæmd við Dunhaga hafi verið kynnt, hafi komið fram að sú regla gilti að hlutfall einnar íbúðagerðar mætti ekki fara yfir 30%. Þetta sé gert til að tryggja blöndun íbúðagerða og þar með íbúa og fjölskyldugerða. Þessi regla miði við herbergjafjölda. Kærendur telji deiliskipulagstillöguna ekki uppfylla þessi skilyrði. Tillagan geri ráð fyrir að 75% íbúða verði minni en 55 m2. Kærendur séu þeirrar skoðunar að tillagan að skipulagi íbúða bjóði ekki upp á blandaða fjölskyldustærð íbúa eða blandaða íbúðagerð. Barnafjölskyldur búi ekki lengi í íbúðum minni en 55 m2.

Í kafla 1.8 dragi deiliskipulagshöfundar þá ályktun að áhrif vegna stækkunar Dunhaga 18-20 séu óveruleg. Áhrif á hljóðvist og mengun séu hverfandi. Kærendur mótmæli þeim stað­hæfingum og telji að ekki hafi verið fylgt áskilnaði 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga með því að gera úttekt á áhrifum deiliskipulagsins á umhverfið, s.s. hljóðvist, umferð og tengda þætti.

Nú, þegar fáir íbúar búi í húsinu og engin starfsemi þar, séu bílastæðin yfirleitt upptekin þegar íbúar séu heima því nú þegar sé byggð mjög þétt á þessu svæði og ekki mikið um bílastæði. Til dæmis leggi íbúar Fálkagötu oft á Dunhaga. Í breyttri tillögu sé gert ráð fyrir að fjölga bílastæðum um sex. Það sé fráleitt að ætla að þessi fjölgun bílastæða sé nægileg til að þjóna þessari gríðarlegu fjölgun íbúða og stækkunar á verslunarrými.

Málsrök Reykjavíkur: Af hálfu borgarinnar er tekið fram aðmeð úrskurði þann 20. júlí 2018 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi grenndarkynnt byggingarleyfi Dunhaga 18-20 með þeim rökum að vegna aukins byggingarmagns og heimilaðrar hækkunar byggingarinnar hafi byggingarleyfið þurft að eiga sér stoð í deiliskipulagi. Í samræmi við úrskurðinn hafi deili­skipulag verið unnið fyrir svæðið sem sem markast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga og hafi verið auglýst í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hvað varði þá málsástæðu að hið kærða deiliskipulag rúmist ekki innan gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 varðandi hverfisvernd, verndarsvæði og menningarminjar, ásýnd byggðar, o.s.frv. og að engin rök séu fyrir þéttingu byggðar og að stefnumótun um þéttingu byggðar skuli setja fram í hverfisskipulagi, þá sé skilgreining aðalskipulagsins á hverfisvernd svohljóðandi: „Svæði og reitir sem njóti sérstakrar verndar vegna byggðamynsturs, menningar­verðmæta, landslags eða náttúrufars.“ Gerð hafi verið húsakönnun fyrir deiliskipulagssvæðið þar sem lagt hafi verið til að setja Hjarðarhaga og Tómasarhaga í gulan flokk, samstæður húsa og heildir með hverfisvernd. Ekki hafi verið lagt til að Dunhagi væri hluti af slíkri vernd þótt gatan og byggingarnar sem við hana standi séu hluti af gamla heildarskipulagi Mela og Grímstaðaholts. Ekki sé því um ósamræmi við stefnu aðalskipulagsins að ræða. Þéttleiki byggðar eins og hann sé skilgreindur í aðalskipulagi miðist við borgarhlutann í heild og gert sé ráð fyrir að þétting byggðar verði líka utan skilgreindra þéttingarreita. Í kafla aðalskipulags um Vesturbæinn sé fjallað um þróunarsvæði, sem eigi við um fjölgun íbúða um 50 eða fleiri, og svo um fastmótaða byggð. Um svæði ÍB3 Hagar segi m.a. að byggð á svæðinu sé fastmótuð, en í sama kafla í aðalskipulagi segi einnig að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Samkvæmt aðalskipulagi megi því skilgreina fjölgun íbúða undir 50 íbúðum með deiliskipulagi, eins og gert hafi verið í þessu tilviki.

Hvað varði þá málsástæðu að reiturinn sé ekki heildstæð eining og afmörkun ekki rökstudd, þá segi í gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013: „Deiliskipulag skal að jafnaði ná til reits eða svæða sem mynda heildstæða einingu eins og svæði með sömu landnotkun, svæði afmarkað af götum, húsaþyrpingu, svo sem á landbúnaðarsvæðum eða annað sem gefur sameiginlegar forsendur fyrir viðkomandi deiliskipulag.“ Venja sé að afmarka deiliskipulag í miðja götu og tilgreina hvaða götur afmarki svæðið, svo sem gert sé í kafla 1.1. greinargerðar umdeilds deiliskipulags.

Í húsakönnun segi að deiliskipulagssvæðið sé hluti af svæði sem sé á yfirlitsuppdrætti yfir Mela og Grímsstaðaholt teiknuðum árið 1951. Seinna hafi verið samþykkt deiliskipulag sunnan Hjarðarhaga árið 1953, en deiliskipulagið teljist ekki hafa lögformlegt gildi. Árið 2008 hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir svokallaðan Fálkagötureit. Svæðið nái til svæðis sem hafi verið hluti deiliskipulags sunnan Hjarðarhaga og austan Dunhaga. Búið sé því að gera deiliskipulag fyrir nærliggjandi svæði.

Ekki sé heldur fallist á að meðferð málsins hafi verið ábótavant. Ákvæði 2. liðar 1. gr. skipulagslaga fjalli um að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Tillaga að deiliskipulagi Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hafi verið auglýst frá 28. desember 2018 til 22. janúar 2019 og endurauglýst 26. febrúar til 9. apríl 2019 í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Auk þess hafi tvisvar sinnum verið send út bréf til hluteigandi aðila til þess að vekja athygli á auglýstum athugasemdafresti. Samkvæmt 3. mgr. 41. gr. sömu laga skuli skipulagsnefnd taka tillögu til umræðu og taka afstöðu til innkominna athugasemda og hvort gera skuli breytingar á henni. Að lokum taki sveitarstjórn tillöguna til umræðu. Samráð við hluteigandi aðila hafi því verið að fullu í samræmi við skipulagslög auk þess sem send hafi verið út bréf til að vekja athygli hluteigandi aðila á málinu.

Hvað varði þann málatilbúnað kærenda að ekki hafi verið unnin lýsing fyrir deiliskipulagið skuli á það bent að sveitarstjórn sé heimild að falla frá gerð lýsingar liggi allar meginforsendur deiliskipulags fyrir í aðalskipulagi, sbr. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Hið kærða deiliskipulag sé að fullu unnið í samræmi við stefnu og áherslur gildandi Aðalskipualgs Reykjavíkur 2010-2030. Í A-hluta aðalskipulagsins sé kynnt bindandi stefna og markmið, sbr. skipulagsreglugerð, um landnotkun og byggingarmagn, þéttleika, yfirbragð byggðar, samgöngur, opin svæði, verndun og umhverfismál. Í B-hluta sé stefnu um landnotkun og uppbyggingu í hverfum borgarinnar lýst nánar og fram séu sett almenn markmið um eflingu borgarhluta og hverfa.

Gert sé ráð fyrir að borgin þéttist á aðalskipulagstímabilinu innan núverandi byggðamarka. Allt að 90% þéttingar verði þannig innan núverandi byggðamarka og aðeins 10% utan þeirra á gildistíma aðalskipulagsins. Eigi þéttingaráformin við um öll hverfi borgarinnar, líka Vesturbæinn. Þéttingarreitir séu reitir þar sem gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða um 50 eða fleiri. Í Vesturbænum sé gert ráð fyrir að íbúðum muni fjölga um samtals 940 íbúðir á sex þéttingar­reitum en í B-hluta aðalskipulags komi fram að gert sé ráð fyrir að íbúðum í Vesturbænum muni fjölda um 1.210 íbúðir í borgarhlutanum á aðalskipulagstímabilinu. Alls sé því gert ráð fyrir 270 íbúða fjölgun utan þéttingareita. Fjölgun um 16 íbúðir á deiliskipulagssvæðinu innan stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar.

Í undirkafla aðalskipulags um Kaupmanninn á horninu í kaflanum Borg fyrir fólk í A-hluta aðalskipulags segi: „Í hverjum borgarhluta og hverju hverfi skal vera hverfiskjarni og nærþjónustukjarni, þannig að dagleg verslun og þjónusta sé í sem mestri nálægð við íbúana og flestum gert kleift að verla, fótgangandi eða hjólandi, innan síns hverfis.“ Í A-hluta aðalskipulagsins sé í kaflanum Græna borgin að finna skilgreiningu á opnum svæðum innan þéttbýlisins eins og við eigi um opið svæði/leiksvæði á deiliskipulagsreitnum: „Leik- og dvalarsvæði eru innan hvers borgarhluta og þjóna fyrst og fremst íbúum viðkomandi hverfa og nær umhverfis. Gert er ráð fyrir að þau séu af mismunandi stærð og gerð og að þau dreifist jafnt um hverfi borgarinnar. Almennt er gert ráð fyrir að minnsta kosti einu leik- og/eða dvalarsvæði innan við 300 m göngufjarlægð frá hverri íbúðaeiningu.“

Þannig sé ljóst að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi og því ekki þurft að vinna lýsingu. Því sé ennfremur hafnað að málið sé að öðru leyti verulega vanbúið að teknu tilliti til rannsóknarskyldu Reykjavíkurborgar, meðalhófs og réttmætra væntinga þeirra aðila sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta af umræddum deiliskipulagsbreytingum. Skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum og málsástæðum um að ekki hafi verið viðhaft samráð við íbúa og tekið tilliti til óska þeirra sé vísað á bug sem ósönnum og órökstuddum. Það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs né í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja það að farið sé eftir öllum hugmyndum og skoðunum sem íbúðir hafi, enda væri slíkt ómögulegt. Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar, enda sé beinlínis gert ráð fyrir því í skipulagslögum að deiliskipulagsáætlanir geti tekið breytingum. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.

Hvað varði athugasemdir við efni deiliskipulagsins, s.s. varðandi skilgreinda landnotkun og að orðalag um leyfilega starfsemi sé ekki í samræmi við aðalskipulag, þ.e. að nærþjónusta geti ekki falið í sér dagvöruverslanir, skuli á það bent að Dunhagi 18-20 sé skilgreindur sem nærþjónustukjarni í aðalskipulagi og samþykktar byggingarnefndarteikningar sýni verslun á fyrstu hæð. Engin breyting verði þar á við samþykkt deiliskipulagsins. Aðalskipulag setji fram stefnu og markmið borgaryfirvalda um þéttingu byggðar og þar með sjálfbærari hverfi. Í kafla aðalskipulags um kaupmanninn á horninu séu sett fram markmið um að bakland hverfis­verslunar og þjónustu verði styrkt með fjölgun íbúða og starfa. Hlutfall íbúa sem búi innan við 400 m göngufjarlægð (300 m radíus loftlínu) frá dagvöruverslun hækki verulega á skipulags­tímabilinu og breytingar á hlutfallinu verði vaktaðar. 700 m loftlína sé í Melabúðina á horni Hagamels og Hofsvallagötu og engin dagvöruverslun sé í 400 m radíus frá Dunhaga 18-20.

Í aðalskipulagi sé sömuleiðis kafli um kaupmanninn á horninu þar sem segi að „í hverju hverfi skuli vera nærþjónustukjarni, þannig að dagleg verslun og þjónusta sé í sem mestri nálægð við íbúana og sem flestum gert kleift að versla, fótgangandi eða hjólandi, innan síns hverfis“. Auk þess sem í markmiðum um eflingu verslunar og þjónustu innan hverfa sé að festa núverandi matvöruverslanir og aðrar dagvöruverslanir í sessi og að „skapaðar verði forsendur til að endur­byggja og stækka verslunarhúsnæði þar sem rótgróin dagvöruverslun er nú til staðar.“ Rekin hafi verið dagvöruverslun í Dunhaga um árabil þó að ekki hafi verið rekstur í húsinu undanfarið. Með betri aðstöðu séu líkur á að rekstur nærþjónustu í húsinu verði eftirsóknarverður. Það sé ekkert í aðalskipulaginu sem segi að verslanir geti ekki verið fleiri en ein, auk þess sem engin sérstök stærðarmörk séu sett hvað varði stærð verslana.

Hvað varði þá málsástæðu að nýtingarhlutfall Dunhaga 18-20 sé of hátt þá skuli á það bent að nýtingarhlutfall Dunhaga 18-20 verði 1,3 eftir breytingu og verði byggingin þriggja hæða með inndreginni fjórðu hæð. Beggja megin Dunhagans séu fjölbýlishús með verslunarrekstri á fyrstu hæð. Dunhaginn skeri sig úr heild húsa sem tilheyri deiliskipulagsreitnum, bæði fyrir og eftir breytingu, en myndi heildstæða götumynd með öðrum áþekkum fjölbýlishúsum sem standi við Dunhagann. Þannig hafi frá upphafi bæði Dunhagi 18-20 og Dunhagi 23 verið fjölbýlishús með verslun og þjónustu á fyrstu hæð og þar haft ákveðna sérstöðu í hverfinu. Þannig séu Dunhagi 19, 21 og 23 fjögurra hæða byggingar og nýtingarhlutfall Dunhaga 23 sé 2,18. Dunhagi 18-20 muni því ekki skera sig út úr næsta umhverfi eftir breytingar, ekki með tilliti til húshæðar, byggðamynsturs eða nýtingarhlutfalls.

Ekki sé heldur fallist á þann málatilbúnað kærenda að skipulagið setji fram órökstuddar ályktanir um áhrif þess á bílaumferð og að fjölgun bílastæða sé nægileg til að þjóna gríðarlegri fjölgun íbúða og stækkunar á verslunarrými. Bílastæðakröfur í deiliskipulaginu séu í samræmi við bíla- og hjólastæðakröfur í aðalskipulagi. Þar með sé fjölgun nægjanleg til að þjóna fjölgun íbúða og stækkun á verslunarrými. Fjöldi hjólastæða fyrir hverja íbúð séu tvöfalt fleiri en viðmið aðalskipulags eða tvö hjólastæði á hverja íbúð. Hjólastæðakröfur vegna verslunar­húsnæðisins sé fimmfalt viðmið aðalskipulags, eða 12 hjólastæði fyrir um 400 m2 verslunar­húsnæði.

Heildarfjöldi bílastæða á skipulagssvæðinu aukist um níu, allt á lóð Dunhaga 18-20. Samkvæmt afstöðumynd samþykktri árið 2000 hafi bílastæðin verið 15 og verði 24 eftir breytingu. Hvorki sé gert ráð fyrir að umferðarsköpun né álag á stofnanir aukist að ráði við fjölgun íbúða.

Athugasemdir framkvæmdaraðila við Dunhaga 18-20: Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 6. júní 2019 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Hjarðarhaga, Tómasarhaga og Dunhaga. Reiturinn er í grónu hverfi og með deiliskipulaginu er m.a. fest í sessi leiksvæði og heimiluð bygging bílskúra á tveimur lóðum, sem ekki er ágreiningur um. Aðila greinir hins vegar á um þá uppbyggingu lóðarinnar Dunhaga 18-20 sem jafnframt er heimiluð með hinu kærða deili­skipulagi, en byggingarleyfi vegna þeirra framkvæmda var áður fellt úr gildi af úrskurðar­nefndinni. Í kjölfarið var gerð tillaga að deiliskipulagi og fór málsmeðferð fram með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn, þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst, taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þar sem fram komi áherslur sveitarstjórnar við deiliskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Leita skal umsagnar um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna fyrir almenningi, sbr. 3. mgr. ákvæðisins, en þar kemur jafnframt fram að sveitarstjórn sé heimilt að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur deiliskipulags liggi fyrir í aðalskipulagi. Nýtti sveitarstjórn sér þá heimild og féll frá gerð lýsingar vegna deiliskipulagsins og verður ekki heldur séð að slík lýsing hafi verið tekin saman af framkvæmdaraðila Dunhaga 18-20 við umsókn hans um deiliskipulag vegna framkvæmdanna skv. 2. mgr. 38. gr. laganna, sbr. fyrrgreinda 1. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga er ennfremur tekið fram að í skipulagsreglugerð sé kveðið nánar á um lýsingu deiliskipulagsverkefnis og kynningu hennar. Er og nánar skýrt í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslur og uppbyggingu landnotkunarreita svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar.

Helstu breytingarnar sem heimilaðar eru með hinu kærða deiliskipulagi eru að lóð Dunhaga 18-20 er stækkuð um 95 m2, byggingarmagn aukið um 949 m2, húsið hækkað um eina inndregna hæð og íbúðum fjölgað úr 8 í 24. Íbúðum á deiliskipulagsreitnum fjölgar úr 48 í 64, eða um 25%. Á bls. 230 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að þéttingarmöguleikar verði kannaðir frekar í hverfisskipulagi heldur en í aðalskipulagi. Í aðalskipulaginu sé aðeins sett fram bindandi stefna fyrir reiti sem geri ráð fyrir fleiri en 50 almennum íbúðum. Á bls. 234, segir um almenn markmið aðalskipulagsins fyrir Vesturbæinn að tilgreindir nærþjónustukjarnar verði festir í sessi, þar á meðal er Dunhagi til móts við Fálkagötu. Nánari útfærsla á þessum áherslum, þ.e. almennum markmiðum aðalskipulagsins, verði sett fram í hverfisskipulagi Vestur­bæjar. Á bls. 232 kemur fram að byggð á svæðinu, ÍB3 Hagar, sé fastmótuð og hafi svæðið verið fullbyggt um 1970. Að auki segir að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi.

Eins og að framan greinir skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefni þegar vinna við deiliskipulagstillögu hefst, sbr. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að skipulagslögum segir um ákvæðið að það sé nýmæli og byggist á þeirri megin­reglu að því fyrr sem athugasemdir komi fram við gerð deiliskipulags því betra. Er nánar vísað til athugasemda í frumvarpinu við 23. og 30. gr. sem fjalla um gerð lýsingar við gerð svæðisskipulags og aðalskipulags. Af þeim athugasemdum verður ráðið að tilgangur lýsingar sé að skipulagsgerð sé unnin á gagnsæjan hátt og að slík vinnubrögð stuðli að því að aflað sé víðtækra upplýsinga og sjónarmiða strax frá upphafi skipulagsvinnu. Stuðlar gerð lýsingar þannig að því markmiði skipulagslaga að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið 1. gr. laganna.

Í gildandi aðalskipulagi er gengið út frá þéttingu byggðar og sé slík þétting að ákveðnu marki útfærsluatriði í hverfisskipulagi. Er og tekið fram að á svæði því sem um ræðir megi búast við t.a.m. viðbyggingum eftir því sem ákveðið sé í deiliskipulagi. Hið umdeilda deiliskipulag er því hvað varðar þéttleika í samræmi við stefnu aðalskipulags svo sem áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hið sama á við um landnotkun, enda um byggingu íbúða að ræða í íbúðarhverfi á efri hæðum skilgreinds nærþjónustukjarna þar sem m.a. dagvöruverslun er heimil. Hins vegar verður ekki talið að sú almenna stefna um þéttingu byggðar sem mörkuð er í aðalskipulaginu feli í sér slíkar meginforsendur þar um að hægt sé að útfæra í deiliskipulagi þéttingu í þeim mæli og hér um ræðir án þess að gerð sé lýsing þeirrar áætlunar, en eins og áður er komið fram er um töluverða þéttingu byggðar að ræða. Í því sambandi verður ekki litið fram hjá því að gerð lýsingar er meginreglan við deiliskipulagsgerð í þeim tilgangi sem áður er rakinn og að sú heimild sem fram kemur í 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga um að falla megi frá gerð lýsingar er undanþága frá þeirri meginreglu sem túlka ber þröngt. Með vísan til þessa er ekki hægt að fallast á að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi í skilningi 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga, sbr. og gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð, þannig að falla mætti frá gerð lýsingar. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hið kærða deili­skipulag úr gildi.

Skal og á það bent að á deiliskipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfi­hamlaða á lóð nr. 18-20 við Dunhaga. Heildarfjöldi bílastæða verður 26 og fjöldi íbúða 24. Í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um bílastæði hreyfihamlaðra og lágmarksfjölda þeirra við tilgreindar tegundir húsa. Hvort sem miðað er við töflu nr. 6.01, eða 6.03 þyrfti fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða að vera að lágmarki þrjú miðað við fjölda íbúða og bílastæða samkvæmt deiliskipulagi.

Þá athugist að samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, en ekki verður séð að svo hafi verið gert.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 6. júní 2019 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir reit sem markast af Hjarðarhaga, Tómasarhaga og Dunhaga.

15/2019 Jarðgerð í Gufunesi

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stararima 25, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar s.á. að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. mars 2019 og 5. mars 2020.

Málavextir: Hinn 24. nóvember 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Íslenska gámafélaginu ehf. um fyrirhugaða jarðgerð í Gufunesi, Reykjavík, til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Laut fyrirspurn framkvæmdaraðila að því hvort fram þyrfti að fara mat á umhverfisáhrifum jarðgerðar hans á lífrænum eldhúsúrgangi. Úrgangurinn væri notaður til moltuvinnslu en sú vinnsla framkvæmdaraðila hefði verið smá í sniðum eða um 500 tonn á ári. Gert væri ráð fyrir að hún gæti orðið um 2.500 tonn á ári. Vegna aukins umfangs hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur farið fram á að sótt yrði um sérstakt starfsleyfi til moltu-gerðarinnar. Matvælastofnun Íslands hefði verið tilkynnt um framleiðsluna og væru öll tilskilin leyfi stofnunarinnar í gildi. Fram kom að starfsemi félagsins í Gufunesi væri á skipulögðu iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en þar sem hún væri víkjandi á gildistíma þess væri gert ráð fyrir að starfsemin yrði flutt af svæðinu í árslok 2022.  Öll vinnsla í tengslum við jarðgerðina, þ.m.t. kurlun timburs, myndi fara fram á staðnum. Með aðferðinni sem framkvæmdaraðili notaði væri komið í veg fyrir myndun metans.

Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Ítrekað hafi borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá framleiðslunni og magnið sem fyrirhugað sé að vinna sé meira en fimmfalt meira en framkvæmdaraðili hafi unnið á svæðinu undanfarin ár. Vísað var til minnisblaðs Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. nóvember 2017, um lyktarónæði frá starfseminni í Gufunesi og tekið fram að líklegt þætti að lyktarmengun myndi aukast. Einnig gætu aukin umsvif aukið hávaða á svæðinu, m.a. vegna kurlunar timburs og annarrar starfsemi tengdri vinnslunni. Vinnsla lífræns úrgangs laði að fugla og meindýr og óljóst sé hvort það að hylja hauginn með timburkurli nái að halda dýralífi frá, t.d. á meðan múgunum sé snúið. Nýlegt deiliskipulag fyrir hluta af Gufunesi liggi fyrir. Uppbygging sé framundan á svæðinu, m.a. með fjölgun íbúða, en ekki sé vitað hvenær hún hefjist. Ekki fáist séð að aukin umsvif með lífrænan úrgang á svæðinu, umfram það sem nú sé, fari saman við þá uppbyggingu.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, kom fram að undanfarin tvö ár hafi ítrekað borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá athafnasvæðinu í Gufunesi frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar. Auk framkvæmdaraðila séu tveir aðrir aðilar með starfsemi á svæðinu og staðfest hafi verið lyktarmengun frá henni allri á einhverjum tímapunkti. Ekki sé gerð nægilega góð grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna lyktarmengunar í tilkynningu framkvæmdaraðila. Talað sé um að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi, en eftirlitið telji að gera verði þá kröfu að þeim sé snúið eingöngu þegar vindur standi þannig. Krefjast ætti notkunar á lyktareyðandi ensímum til að draga úr lyktarmengun. Eftirlitið telji að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, en þar séu þrjú fyrirtæki sem valdi lyktarmengun.

Umhverfisstofnun taldi í umsögn sinni, dags. 8. janúar 2018, ekki líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér en benti á að helstu umhverfisáhrif framleiðslu af þessu tagi væru lyktar- og örverumengun. Næsta íbúðarbyggð væri í um 800 m fjarlægð frá moltugerðinni en nýleg dæmi úr Hafnarfirði sýndu að lyktarmengunar frá moltugerð gæti gætt í meira en 800 m fjarlægð. Stofnunin teldi brýnt með tilliti til nálægrar íbúðarbyggðar að sett yrðu skilyrði í starfsleyfi um vinnubrögð við moltugerðina til að draga úr lyktarmengun og að fylgst yrði með örverum í moltunni með sýnatöku. Með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Moltugerð framkvæmdaraðila væri í samræmi við landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013-2024 og myndi stuðla að minni losun gróðurhúsa-lofttegunda og auka frjósemi jarðvegs.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur að koma að athugasemdum vegna umsagnanna, sem hann og gerði með bréfi, dags. 31. maí 2018. Var þar m.a. gerð nánari grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna mengunar auk þess sem fjallað var um umfang framkvæmdarinnar. Kom þar fram að þegar jarðgerð hefði byrjað fyrir um 10 árum hefði vinnslan verið um 500 tonn á ári en umfang hennar hefði aukist jafnt og þétt. Árið 2015 hefði magn lífræns eldhúsúrgangs verið 1.500 tonn, árið 2016 hefði það verið 1.260 tonn og árið 2017 verið 1.480 tonn. Ekki væri því um fimmföldun að ræða á því magni úrgangs sem jarðgerður yrði.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 var reifað í hverju fyrirhuguð framkvæmd fælist og tekið fram að framkvæmdaraðili væri með gilt starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til meðhöndlunar úrgangs, m.a. jarðgerðar, og gilti það starfsleyfi til 8. júní 2022. Vísaði Skipulagsstofnun til eðlis framkvæmdarinnar og staðsetningar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og komst að þeirri niðurstöðu að miðað við þau viðmið sem þar væru greind og fyrirliggjandi gögn væri jarðgerð í Gufunesi ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst búa í Rimahverfi í Grafarvogi og hafi hann og fjölskylda hans ítrekað orðið vör við ólykt sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila í Gufunesi. Á sumardögum geti lyktin orðið svo megn að ekki sé hægt að hafast við utandyra. Ástandið sé verst í logni og þegar vind leggi af hafi. Þetta ástand ríki ekki eingöngu á dagvinnutíma heldur allan sólarhringinn. Jarðgerð undir berum himni eigi enga samleið með íbúðarbyggð. Hún eigi  að fara fram í lokuðum húsakosti þar sem loft og gufur séu síaðar í burtu áður en þær fari út í andrúmsloftið. Minnstu kröfur sem gera eigi til jarðgerðar séu að hún sé niðurgrafin þannig að vindurinn grípi þessar gufur ekki við minnsta vind og beri áfram. Kærandi telji það lögvarinn rétt sinn að geta notið almennra loftgæða við heimili sitt þannig að hann geti notið útiveru líkt og aðrir borgarbúar. Ólykt teljist vera mengun.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að lítill hópur hafi kvartað vegna ólyktar, en það sé ekki marktækt þar sem stór hluti íbúa viti ekki hvert eigi að snúa sér til að kvarta. Einnig sé hverfið sem næst sé framkvæmdinni einbýlishúsahverfi. Fyrst hafi farið að bera á ólykt árið 2016 en um sumarið 2017 hafi kærandi byrjað að kvarta yfir menguninni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvalds-ákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar séu greind. Sé það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eigi einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Kærandi telji það vera lögvarinn rétt sinn og fjölskyldu sinnar að njóta almennra loftgæða í kringum heimili sitt. Almennt varði sjónarmið um loftgæði almannahagsmuni. Samkvæmt upplýsingum séu rúmlega 800 m á milli heimilis kæranda og Gufunessvæðisins þar sem hin fyrirhugaða framkvæmd framkvæmdaraðila eigi að vera. Velti stofnunin fyrir sér hvort kærandi geti átt slíkra grenndarhagsmuna að gæta að hann geti kært ákvörðunina, þ.e. geti átt hina einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra í Rimahverfinu og öðrum nálægum hverfum í Grafarvogi sökum grenndaráhrifa.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum séu framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis og staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laganna. Þar segi að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Eins og skilgreiningin sé úr garði gerð sé ljóst að mikið þurfi til að koma svo að framkvæmd sé talin matsskyld. Ekki sé nægilegt að áhrifin geti verið veruleg og óafturkræf eða að um veruleg spjöll sé að ræða heldur þurfi skilyrðið um að ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum að vera uppfyllt.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé að finna lýsingu á mótvægisaðgerðum sem hann hyggist grípa til. Þar komi fram að til að lágmarka hugsanleg lyktaróþægindi íbúa hafi sú vinnuregla verið innleidd að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi. Framkvæmdaraðili hafi lýst því yfir að hann hyggist beita ýmsum mótvægisaðgerðum, t.d. að setja upp úðunarkerfi fyrir múgana til þess að hægt verði að úða lyktareyðandi ensímum yfir þá. Skipulagsstofnun hafi haft fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila í huga þegar hún hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Einnig bendi stofnunin á að í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 8. janúar 2018, komi fram að með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, og Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, sé þeirri afstöðu lýst að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að stofnunin sé ekki bundin af umsögnum umsagnaraðila um matsskyldu, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 12. febrúar 2019 í máli nr. 111/2017, heldur sé öflun umsagna liður í rannsókn máls. Framkvæmdaraðili hafi fallist á þá kröfu að múgum verði einungis snúið þegar vindur standi af landi og í hinni kærðu ákvörðun sé tekið mið af því.

Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins segi að horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, ekki síst í ljósi fyrirhugaðra breytinga á skipulagi og notkun svæðisins. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekið tillit til annarrar starfsemi í Gufunesi. Skipulagsstofnun telji að þótt þrjú fyrirtæki séu á sama svæði og lykt leggi frá starfsemi þeirra leiði það ekki til þess að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda gangi stofnunin út frá þeirri forsendu að mótvægisaðgerðum verði framfylgt. Umsögn heilbrigðiseftirlitsins taki ekki nægilega tillit til þess að framkvæmdaraðili hyggist grípa til mótvægisaðgerða sem dragi úr áhrifunum verði þeim framfylgt.

Í umsögnum heilbrigðiseftirlitsins og Reykjavíkurborgar sé vikið að því að undanfarin ár hafi ítrekað borist kvartanir frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar vegna lyktarmengunar frá athafna-svæðinu í Gufunesi. Í hinni kærðu ákvörðun sé vikið að þeim fjölda fólks sem lyktarmengun frá hinni fyrirhuguðu framleiðsluaukningu og starfsemi hinna tveggja aðilanna á svæðinu kunni að hafa áhrif á og sé þá tekið mið af upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu. Eins og komi fram í hinni kærðu ákvörðun muni hin fyrirhugaða framleiðsluaukning hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á svæðinu verði að ræða.

Samkvæmt breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við hann um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaraðila sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi árið 2022.

—–

Framkvæmdaraðila var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar, en hann nýtti sér það ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að aukin jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kæranda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram vegna ólyktar sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila að nálægðri íbúðarbyggð. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Kærandi er búsettur í um 800 m fjarlægð frá svæðinu þar sem hin kærða starfsemi fer fram og er ekki hægt að útiloka að hann geti orðið var við mengun, þ.m.t. lyktarmengun, vegna starfseminnar. Á kærandi því að mati nefndarinnar þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er samkvæmt greindu lagaákvæði.

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um hvenær framkvæmd skuli háð slíku mati. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári fellur undir flokk B, sbr. tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Í samræmi við nefnda 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, svo sem þeir voru orðaðir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem eðli máls samkvæmt skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felur í sér aukna jarðgerð lífræns úrgangs, en hún hefur áður farið fram á grundvelli gildandi starfsleyfis framkvæmdaraðila til meðhöndlunar úrgangs. Aukningin hefur átt sér stað smátt og smátt og er nú gert ráð fyrir því að allt að 2.500 tonn verði jarðgerð á ári.

Svo sem lýst er í málavöxtum leitaði Skipulagsstofnun umsagna Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins og gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Umhverfisstofnun taldi ekki líklegt að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif en umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, sem og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, töldu að mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fara fram vegna hennar. Var í þeim umsögnum einkum vísað til lyktarmengunar og eðlis starfseminnar sem ekki færi vel með nálægri íbúðarbyggð og frekari uppbyggingu hennar. Í athugasemdum framkvæmdaraðila vegna framkominna umsagna komu fram frekari lýsingar á þeim mótvægis-aðgerðum sem hann hefði þá þegar gripið til eða hygðist grípa til. Kom þar m.a. fram að múgum væri eingöngu snúið þegar vindátt legði frá íbúðarbyggð og að fjárfest hefði verið í lyktareyðandi ensímum sem úðað væri yfir múgana í stillu til að koma í veg fyrir lyktarmengun þegar þeim væri snúið.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að þeir þættir sem féllu undir eðli framkvæmdarinnar, staðsetningu eða eiginleika hennar, kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum.

Þannig rekur Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni að taka skuli mið af eðli framkvæmdar, sammögnunaráhrifum með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Fjallar stofnunin um umfang framkvæmdarinnar og einnig er rakið að á svæðinu séu tvö önnur fyrirtæki þar sem annars vegar fari fram móttaka og meðferð úrgangsefna, allt að 150.000 tonn á ári, og hins vegar framleiðsla tæplega 6.000 tonna af mold og moltu, þar sem mold úr húsgrunnum sé látin standa og brjóta sig. Telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af annarri starfsemi í Gufunesi og sammögnunaráhrifum vegna lyktar með þeirri starfsemi séu aukin umsvif framkvæmdaraðila á svæðinu ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif, að því gefnu að mótvægisaðgerðum verði fylgt. Þá sýni áhættumat að ekki sé líklegt að lyktarmengun aukist við aukna framleiðslu moltu hjá framkvæmdaraðila. Tekur stofnunin og fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur geti sett framleiðslunni skilyrði í starfsleyfi til að lágmarka hættu á lyktarónæði og tiltekur m.a. sem nauðsynleg skilyrði þau er áður er rakið að fram hafi komið í athugasemdum framkvæmdaraðila í tilefni af umsögnum vegna matsskyldu.

Einnig er rakið að taka skuli mið af staðsetningu framkvæmdar, svo sem landnotkun sem fyrir sé eða sem sé fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vísar Skipulagstofnun til þess að framkvæmdarsvæðið sé á skipulögðu iðnaðarsvæði en samkvæmt breytingu í ágúst 2018 á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við framkvæmdaraðila um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá félaginu sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi það ár. Loks var um þetta atriði tekið fram að til að lágmarka hættu á ónæði vegna hávaða þyrfti að haga starfseminni þannig að hvorki væri unnið snemma á morgnana né seint á kvöldin.

Þegar kemur að eiginleikum hugsanlegra áhrifa benti Skipulagsstofnun á að huga bæri að umfangi umhverfisáhrifa með tilliti til þess svæðis og fjölda fólks sem ætla mætti að yrði fyrir áhrifum, líkum á áhrifum, tímalengd, tíðni og óafturkræfi áhrifa, sbr. 3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð aukning jarðgerðar feli í sér aukna lyktar-mengun á takmörkuðum tímabilum í núverandi og fyrirhugaðri íbúðarbyggð í nágrenninu. Lyktarmengun kunni að hafa áhrif á lítinn fjölda fólks því samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi á tímabilinu frá 1. júní 2017 til 12. september 2018 borist 88 tilkynningar frá 25 nágrönnum, m.a. vegna starfsemi framkvæmdaraðila. Þar af séu 56 kvartanir frá fimm aðilum. Fyrirhuguð framleiðsluaukning muni hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð, en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á þessu svæði verði að ræða. Skipulagsstofnun telji þó að með mótvægis-aðgerðum eigi að vera unnt að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif framleiðslunnar m.t.t. lyktarónæðis og sé ástæða til að ætla að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir skili tilskildum árangri. Þær þurfi þó að rata inn í starfsleyfi sem skilyrði.

Löggjafinn hefur ákveðið að metið verði hverju sinni hvort endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð séu meira en 500 tonn á ári sé líkleg til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram. Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar studd haldbærum rökum um að svo hátti ekki til um fyrirhugaða jarðgerð, þótt hún sé töluvert yfir því tölulega viðmiði sem tiltekið er í tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Við undirbúning ákvörðunar sinnar lagði Skipulagsstofnunin viðhlítandi mat á þá þætti sem máli skiptu og vörðuðu það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt. Við það mat var og tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga. Stofnunin var ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað var sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og lagði sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfis-áhrifum að rannsökuðu máli. Aflaði stofnunin í því skyni m.a. áhættumats framkvæmdaraðila vegna starfseminnar og úrbótaáætlunar sem unnin var af honum í kjölfar athugasemda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Var vísað til hvoru tveggja í hinni kærðu ákvörðun. Rannsókn málsins var því fullnægjandi og meðferð málsins ekki áfátt að öðru leyti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

78/2019 Dalbraut, Eskifirði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2019, kæra á ákvörðunum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langadal 4, Eskifirði, þá ákvarðanir eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að málið verði tekið til efnismeðferðar að nýju hjá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 2. september 2019.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn Rarik ohf., dags. 31. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja 116 m² viðbyggingu við tengivirkishús fyrirtækisins að Dalbraut 4, Eskifirði. Jafnframt sótti Landsnet hf. 28. júní s.á. um byggingarleyfi fyrir 266 m² og 132 kílóvatta tengivirki á sömu lóð. Báðar umsóknirnar voru teknar fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 8. júlí 2019. Á fundinum var m.a. bókað að lögð hefði verið fram yfirlýsing Rarik um að ákveðið hefði verið í samráði við Landsnet að framkvæmd yrði hljóðmæling umhverfis mannvirkin og að ráðgjafi legði fram tillögur að úrbótum sem myndu stuðla að bættri hljóðvist umhverfis þau. Í ljósi yfirlýsingar Rarik samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi þar sem á deiliskipulagsuppdrætti komi einungis fram að um 33 kv/11 kv og 66 kv aðveitustöðvar sé að ræða, en ekki sé þar gert ráð fyrir 132 kv tengivirki. Lóðin að Dalbraut 4 sé skilgreind í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 sem þjónustulóð en hún liggi ein og sér að íbúðarhverfi og sé deiliskipulögð með því. Ekki verði annað séð en að þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar séu það umfangsmiklar og geti valdið það miklum óþægindum fyrir íbúa húsa á aðliggjandi lóðum að þær brjóti í bága við stefnu Fjarðabyggðar á íbúðarsvæðum. Fyrirhuguð framkvæmd fari langt út fyrir stefnu aðalskipulags og sé í ósamræmi við deiliskipulagsuppdrátt. Áhrif stækkunar á umhverfi og samfélag hafi ekki verið nægilega könnuð, en vakin sé athygli á nauðsyn umfjöllunar um rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar. Jafnframt muni þetta koma til með að hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna á svæðinu.

Málsrök Fjarðabyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að Dalbraut 4 sé á svæði fyrir þjónustu­stofnanir og sé innan reits S1 samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Næst reitnum S1 sé íbúðarbyggð. Lýsing reitsins sé eftirfarandi í aðalskipulagi: „Aðveitustöð og spennistöð við Dalbraut.“ Þá séu skipulagsákvæði reitsins eftirfarandi: „Svigrúm fyrir breytingar á núverandi mannvirkjum og framkvæmdir sem falla að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki.“ Deiliskipulag Barðs 1 geri ráð fyrir aðveitustöð og þeim byggingum sem henni séu tengdar innan lóðar Dalbrautar 4. Á deiliskipulagsuppdrætti sé byggingarreitur staðsettur innan lóðar með almennum hætti. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði greinargerðar deiliskipulags og ákvæði aðalskipulags. Í aðalskipulagi sé beinlínis vísað til þess að til staðar séu heimildir til breytinga á núverandi mannvirkjum og framkvæmdum sem falli að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki. Spennubreyting og uppbygging mannvirkja vegna þess feli ekki í sér breytingu á landnotkun sem verið hafi til staðar á lóðinni og gert sé ráð fyrir.

Eðli máls samkvæmt þurfi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt að sæta því að verða fyrir einhverjum áhrifum af starfsemi sem heimiluð sé á nálægum lóðum. Niðurstöður mælinga á hljóði og rafsegulsviði gefi til kynna að áhrif af starfsemi í heimiluðum byggingum verði fyrst og fremst innan lóðarinnar Dalbrautar 4. Í öllu falli sé ljóst að einungis geti verið um að ræða óveruleg áhrif á lóð kæranda og þau áhrif yrðu langt innan þeirra marka sem íbúar í þéttbýli þurfi að sæta vegna starfsemi á nálægum lóðum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að umræddar framkvæmdir séu nauðsynlegar fyrir aðgengi að raforku á Austfjörðum, íbúum og öðrum á svæðinu til hagsbóta. Annars vegar sé um að ræða viðbyggingu við tengivirkishús, sem feli í sér nauðsynlega uppbyggingu innviða á svæðinu, og hins vegar byggingu nýs tengivirkis. Að því er varði tilvísun kæranda til nauðsynjar á umfjöllun um „rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar“ sé bent á niðurstöðu mælinga Geislavarna ríkisins á segulsviði í og við sambærilegt tengivirki að Hnoðraholti í Kópavogi. Niðurstöður mælinga hafi verið vel innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar. Þá sé bent á skýrslu Verkís hvað varði hávaða en samkvæmt henni fari hávaði frá tengivirkinu aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhuguð byggingaráform taka til og stendur hús á lóð sem er á milli fasteignar kæranda og umræddrar lóðar. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kæranda muni skerðast, svo sem vegna skuggavarps eða innsýnar, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Þegar litið er til staðhátta verður ekki séð að útsýni kæranda muni skerðast að neinu marki. Þá liggja fyrir upplýsingar í málinu sem gefa til kynna að áhrif rafsegulsviðs og hávaði frá umdeildum byggingum verði vel innan lögákveðinna viðmiðunarmarka.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

14/2020 Bjarnarflag

Með

Árið 2020, mánudaginn 9. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 14/2020, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Skútustaðahrepps frá 22. janúar 2020 um að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir hluti landeigenda Reykjahlíðar þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 22. janúar 2020 að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem byggi á hinu kærða leyfi verði stöðvaðar þangað til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 28. febrúar 2020.

Málavextir: Með umsókn dags. 8. janúar 2020, sótti Landsvirkjun um að fá að koma fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi. Í umsókninni kemur fram að um sé að ræða rými sem verði notað af rannsóknar- og þróunaraðilum til að kanna möguleika á framleiðslu á kísilríkum húð- og snyrtivörum fyrir innlenda og erlenda markaði úr affallsvatni. Aðstaðan verði til þess að prófa íblöndun á skiljuvatni og náttúrulegum vökvum, s.s. sjóvatni og grunnvatni, auk þess sem vökvar verði geymdir þar í lokuðum ílátum. Samkvæmt umsókninni felst framkvæmdin í jarðvegsskiptum til að koma fyrir forsteyptum undirstöðum fyrir gám, koma fyrir 3 m x 3 m x 9 m gám og festa hann við undirstöður, tengja 240 V rafmagn, ferskvatn og skiljuvatn úr skiljustöð og tengja affall frá gámnum. Meðfylgjandi umsókninni er afstöðumynd af fyrirhuguðum gám og teikning af gámnum.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 14. janúar 2020 og lagði nefndin til við sveitarstjórn að byggingarfulltrúa yrði falið að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða. Sveitarstjórn tók málið fyrir 22. s.m. og samþykkti að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða. Byggingarfulltrúa gaf stöðuleyfið út 24. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdir verði að telja yfirvofandi í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, í samræmi við atvik máls og afgreiðslu sveitarstjórnar.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðvun framkvæmda feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að kærur til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttar­áhrifum kærðrar ákvörðunar. Í ljósi lítils umfangs og annars eðlis ráðstafana sem gerðar verða vegna hins kærða stöðuleyfis sé því mótmælt að ástæða sé til að fella réttaráhrif leyfisins niður á meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Athugasemdir Landsvirkjunar: Engar málsástæður hafa komið fram af hálfu Landsvirkjunar um þann hluta málsins er snýr að stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar að kröfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttar­áhrifum kærðar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að megin­reglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undan­tekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórn­valdi.

Í máli þessu er deilt um stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi. Aðilar málsins, sem eru fleiri en einn, eiga andstæðra hagsmuna að gæta og bendir ekkert til þess að erfitt sé að ráða bót á þeirri röskun, eftir atvikum á jarðvegi, sem fælist í því koma fyrir gámi á forsteyptum undirstöðum. Sér í lagi í ljósi þess að gámurinn á að standa þétt upp við skiljustöð 2 samkvæmt afstöðumynd.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á að leyfishafi ber alla áhættu af því að hefja framkvæmdir á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir sem byggja á hinu kærða leyfi verði stöðvaðar þangað til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir.