Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

98/2020 Lindarbær

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2020, kæra á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 um að synja beiðni um skiptingu jarðarinnar Lindarbæjar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Lindarbæjar, Ölfusi, þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 að synja beiðni um skiptingu nefndrar jarðar. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar. Þess er jafnframt krafist að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að gera deiliskipulag vegna skiptingar jarðarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 16. nóvember 2020.

Málavextir: Hinn 11. maí 2020 sendi kærandi tölvupóst til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss þar sem kom fram að hann hygðist selja íbúðarhúsið á jörð sinni Lindarbæ og því þyrfti að skipta upp jörðinni. Óskaði hann eftir leiðbeiningum um framhaldið og munu kærandi og skipulags- og byggingarfulltrúi hafa fundað um málið 13. s.m. Á fundi skipulags- og umhverfis­nefndar 20. s.m. var erindi kæranda tekið fyrir og bókað að umrætt svæði væri „skilgreint sem landbúnaðarland“ og muni lögbýlisréttur fylgja öðrum skikanum eftir skiptingu. Lagði nefndin til að erindinu yrði vísað til tæknisviðs til frekari úrvinnslu. Mun kærandi í kjölfarið hafa verið upplýstur um að gera þyrfti deiliskipulag til að fá landinu skipt. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda 19. júní s.á. kom fram að það væri regla hjá sveitarfélaginu að áskilja gerð deiliskipulags ef skipta ætti lóðum sem væru á íbúðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Hinn 23. júlí s.á. var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar tekin fyrir deiliskipulagstillaga kæranda sem gerði ráð fyrir að jörðinni yrði skipt í tvær lóðir. Var lagt til að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundinum var jafnframt tekin fyrir beiðni kæranda um að fá að skipta jörðinni í tvennt og stofna nýjar lóðir. Var bókað að samþykkt yrði að stofna lóðirnar þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi.

Með ódagsettu bréfi til sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og skipulagsfulltrúa gerði kærandi ýmsar athugasemdir við meðferð málsins hjá sveitarfélaginu. Var í bréfinu jafnframt lögð fram málamiðlunartillaga um að málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar héldi áfram en að árituð lóðablöð yrðu send til Þjóðskrár Íslands ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Bókað var að kærandi vildi fá að „stofna lóðir áður en deiliskipulagið tekur gildi.“ Synjaði nefndin þeirri beiðni á þeim grundvelli að ekki yrði samþykkt skipting á ódeiliskipulögðu landi sem ætlað væri til uppbyggingar fyrr en deiliskipulagið hefði tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki hefði þurft að gera deiliskipulag til að stofna nýja lóð heldur hefði nægt að skila lóðablöðum ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands. Kærandi hafi mótmælt því að gera deiliskipulag en honum hafi verið stillt upp við vegg og hann síðan látið undan þrýstingi. Sveitarfélagið hafi vísað til þess að krafa um deiliskipulag væri regla hjá þeim en aldrei hafi verið vísað til þess hvar sú regla komi fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Deiliskipulagsferlið hafi tekið langan tíma þrátt fyrir loforð um að málið myndi fara „hratt og vel“ í gegn. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni með þvingun um gerð deiliskipulags samkvæmt ósýnilegri reglu. Kærandi hafi lagt fram málamiðlunartillögu en enginn viðbrögð fengið. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst kæranda um að nefnd regla sé hvergi skrifuð. Það geti ekki staðist að munnleg regla sé nægileg til að velja þyngstu hugsanlegu leiðina. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 hafi komið fram í fyrsta sinn að nefndin geri kröfu um deiliskipulagsgerð. Því sé kæran miðuð við þá ákvörðun. Sérfræðistofnanir, þ. á m. landbúnaðarráðuneytið og Skipulags­stofnun, séu sammála um að óeðlilegt sé að áskilja deiliskipulag í þessu tilfelli.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að óljóst sé að hvaða stjórnvaldsákvörðun kæran beinist. Óumdeilt sé að í málinu hafi kærandi látið vinna deiliskipulagstillögu sem hlotið hafi samþykki á vettvangi sveitarfélagsins og tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Einnig liggi fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi staðfest stofnun nýrrar fasteignar. Kærandi virðist telja að hann hafi að óþörfu verið neyddur til að deiliskipuleggja land í tilefni þess að hann vildi skipta landi sínu í tvær lóðir. Þessu sé alfarið mótmælt. Skipulags- og umhverfisnefnd hafi tekið erindi kæranda fyrir á fundi sínum 23. júlí 2020 þar sem uppdráttur deiliskipulagstillögu kæranda hafi legið fyrir, en hann sé dagsettur 16. júní s.á. Í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitar­stjórnar komi til. Byggt sé á því að skipulags- og umhverfisnefnd hafi verið fullheimilt að gera kröfu um deiliskipulag svo að forsendur lægju fyrir áður en uppskipting fasteignar kæranda væri heimiluð. Slíkt felist beinlínis í skipulagsvaldi sveitarfélaga. Kærandi hafi nýtt sér heimild 38. gr. skipulagslaga til að gera tillögu að deiliskipulagi. Mestu máli skipti að skipulagsferli málsins sé lokið og stofnun lóða komin á leiðarenda. Hvort tveggja sé í þágu kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé í raun að kæra ákvörðun sem aldrei hafi verið tekin. Skipulagsnefnd hafi tekið erindi hans fyrir þrisvar sinnum og á fyrstu tveimur fundunum komi hvergi fram krafa um deiliskipulagsgerð. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi nefndarinnar 17. september 2020 sem fram hafi komið synjun á því að stofna lóðir án deiliskipulags. Þar komi afstaða nefndarinnar um deiliskipulagsgerð fyrst fram og því eigi að miða kærufrest við það. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur viti af kærufresti. Þó nefndinni hafi hugsanlega verið fullheimilt að gera deiliskipulag að forsendu fyrir afgreiðslu umsóknar hans þá hafi hún ekki gert það formlega.

———-

Eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi deiliskipulag Lindarbæjar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Með skipulaginu var jörð kæranda skipt í tvær lóðir og byggingarreitur fyrir íbúðarhús markaður á hvorri lóð fyrir sig.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Þó er einungis unnt að skjóta ákvörðunum sem binda enda á mál til æðra stjórnvalds skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málum eða að leggja fyrir stjórnvald að taka slíka ákvörðun með tilteknu efni. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að ráðast í deiliskipulagsgerð vegna umsóknar hans um stofnun tveggja lóða.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar frá 17. september 2020 að synja beiðni kæranda um skiptingu jarðarinnar Lindabæjar áður en deiliskipulagstillaga kæranda tæki gildi. Í fundargerð nefndarinnar er beiðni kæranda synjað en jafnframt tekið fram að samþykkt verði að stofna mætti lóð þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi. Sú ákvörðun nefndarinnar sneri að meðferð máls um stofnun nýrrar lóðar en fól ekki í sér lyktir þess. Telst hin kærða ákvörðun því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.