Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2020 Skaftafell Hveragerði

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 10. desember 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Borgarhrauni 34, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins Skaftafells, Heiðmörk 23, og byggingu nýs húss á lóðinni. Er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 21. desember 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 2. október 2020, sótti eigandi hússins Skaftafells á lóðinni Heiðmörk 23 um byggingarleyfi fyrir niðurrifi hússins og byggingu nýs húss á lóðinni. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. s.m. var lagt til að tillagan yrði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 8. október s.á. var tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkt. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 1. desember s.á. og kom þar fram að engar athugasemdir hefðu borist á kynningartíma. Samþykkti meirihluti nefndarinnar að leggja til við bæjarstjórn að umsóknin yrði samþykkt og á fundi bæjarstjórnar 10. desember 2020 samþykkt meirihluti bæjarstjórnar niðurrif hússins og byggingu nýs húss á lóðinni Heiðmörk 23.

Kærandi tekur fram að hann sé bæjarfulltrúi og sitji í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fyrir bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði. Hann telji að meðferð meirihluta bæjarstjórnar á málinu samrýmist ekki góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og að málið hafi ekki verið kannað til hlítar áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá standi húsið sem heimilað sé að rífa innan reits sem njóti hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðis 2017-2029. Tilgangur hverfis­verndarinnar sé að varðveita byggðamynstur og götumynd.

Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að fyrirhuguð bygging fari að óverulegu leyti út fyrir byggingarlínur núverandi húss nema á baklóð og mænishæð sé nokkurn vegin sú sama og núverandi húss. Falli nýja húsið vel að formi og hlutföllum núverandi byggðar í hverfinu og sé því í samræmi við skilmála aðalskipulags um hverfisvernd.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þau rök sem kærandi tiltekur í kæru sinni, m.a. um verndun götumyndar og hverfisvernd, lúta að skipulagsmarkmiðum sem skipulagsyfirvöldum sveitarfélags er falið að móta samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Teljast skipulagshagsmunir vera almannahagsmunir sem veita einstaklingum ekki almenna kæruaðild að stjórnsýslurétti en skipulagsákvarðanir, svo sem um hverfisvernd, geta eftir atvikum snert lögvarða hagsmuni einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti að þeim yrði játuð kæruaðild.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 700 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhugað niðurrif og byggingaráform taka til og er íbúðarbyggð þar á milli. Verður því ekki séð að hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að raska persónulegum lögvörðum hagsmunum kæranda, svo sem grenndarhagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda í máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.