Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2020 Garðavegur

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kærði eigandi Garðavegar 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 10. s.m. Málskot kæranda var skilið svo að gerð væri krafa um að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 8. september s.á. var kærumálinu vísað frá.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2020, fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Féllst úrskurðar­nefndin á þá kröfu 10. desember s.á. og var aðilum tilkynnt sú niðurstaða. Sem fyrr verður að skilja málskot kæranda á þann veg að hann krefjist þess að felld verði úr gildi fyrrnefnd ákvörðun byggingarfulltrúa og verður nú kveðinn upp úrskurður í málinu að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 24. ágúst og 11. nóvember 2020.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að stigi við vesturhlið húss kæranda að Garðavegi 18 yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda vegna stigans hafði áður verið synjað. Veittur var fjögurra vikna frestur til að fjarlægja stigann en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Kærandi kærði þá afgreiðslu byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður innan fjögurra vikna eða í síðasta lagi 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt frá og með 30. s.m. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var samþykkt að leggja dagsektir á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 43/2020, uppkveðnum 10. júlí 2020, var vísað til þess að í málinu lægi fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi væri getið um fjárhæð þeirra. Því væri ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér, sem hefði verið kærð, yrðu dagsektir ekki lagðar á kæranda. Hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál kæranda var enn tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. júlí 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Tekið fyrir að nýju. Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Eiganda hafa verið send bréf þess efnis og ekki brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir, 20.000 kr. pr. dag, verða lagðar á frá og með 10. júlí 2020.“ Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 15. júlí 2020, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur meðal annars fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2020 hafi verið ákveðið að leggja á dagsektir frá og með 10. s.m. Sé þetta löglegt neyðist hann til að selja fasteign sína. Ekki sé hægt að hafa þetta yfir höfði sér.

Málsrök sveitarfélagsins: Bæjaryfirvöld vísa til athugasemda í kærumáli nr. 43/2020. Þar hafi m.a. verið bent á að kærandi hafi reist án leyfis stiga við hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum hafi komið skýrt fram að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 að leggja dagsektir á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. s.m. Svo sem áður er komið fram var kærumálinu vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði kveðnum upp 8. september s.á. Var það gert á grundvelli þess að kærandi ætti ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, en nefndinni höfðu borist þær upplýsingar í tölvupósti 7. s.m. frá bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar að kærandi hefði fjarlægt stiga þann sem um var deilt og byggingarfulltrúi því fallið frá ákvörðun sinni um dagsektir. Með bréfi, dags. 1. nóvember s.á., fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til þess að hann hefði beðið fjártjón vegna ákvörðunarinnar. Væri honum því nauðsynlegt að fá efnislega niðurstöðu í málinu. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptökubeiðnina 10. desember 2020 þar sem ekki hefðu legið fyrir nefndinni nein þau gögn sem bent hefðu til þess að dagsektir hefðu verið innheimtar og greiddar og skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku því uppfyllt. Eins og atvikum er hér háttað telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi um hinnar kærðu dagsektarákvörðunar þótt hún hafi ekki lengur réttarverkan að lögum, enda telur hann sig hafa orðið fyrir tjóni við framfylgd hennar.

Hlutverk byggingarfulltrúa samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum til að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, sbr. 55. og 56. gr. laganna. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að leggja á dagsektir skv. 2. mgr. nefndrar 56. gr., m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lögbundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hafa ákvarðanir byggingarfulltrúa um þvingunarúrræði vegna umrædds stiga komið til kasta úrskurðarnefndarinnar í þrígang. Komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu í kærumáli nr. 109/2019 að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að stiginn yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Átti hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 15. júlí 2020 að sama skapi sér stoð í fyrrnefndum ákvæðum mannvirkjalaga. Hins vegar er ákvörðunin haldin þeim verulega ágalla að dagsektir voru lagðar á afturvirkt, eða frá 10. s.m. Það er grundvallaratriði að þvingunarúrræðum verður ekki beitt afturvirkt, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Verður því ekki komist hjá því að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.