Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2020 Langeyri

Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 um að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., eigandi hluta af landi Langeyrar, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Súðavíkurhreppi 15. október 2020.

Málavextir: Í nóvember 2014 skrifuðu forsvarsmenn Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. undir viljayfirlýsingu um áhuga á að fjárfesta í námu- og afurðavinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi, nánar tiltekið í Súðavík. Tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðs kalk­þörunganáms var send til Skipulagsstofnunar í ágúst 2015 skv. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 2.01 í 1. viðauka laganna. Kom fram að félagið áformaði að hefja vinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi og að framkvæmdin fæli í sér efnisnám af hafsbotni sem næmi allt að 120.000 m3 á ári. Efnið yrði unnið frekar í verksmiðju sem líklega yrði staðsett í Súðavík en áform og útfærsla verksmiðju lægju ekki fyrir. Féllst stofnunin 16. október 2015 á tillögu framkvæmdaraðila með athugasemdum, m.a. að í frummatsskýrslu yrði gerð grein fyrir tengdum framkvæmdum, þ.e. löndun og vinnslu í landi, og lagt mat á umhverfisáhrif þeirra framkvæmda að því leyti sem þau væru talin geta haft samlegðaráhrif með efnistökunni.

Í ágúst 2017 lagði framkvæmdaraðili fram frummatsskýrslu um efnisnám úr kalkþörungaseti í Ísafjarðardjúpi. Um staðsetningu verksmiðju kom fram að vegna aðgengis að starfsliði væri heppilegast að hún væri ekki fjarri þéttbýli, auk þess sem hafnaraðstæður þyrftu að vera góðar. Könnuð hafi verið staðsetning verksmiðju á eða við þéttbýlisstaðina Bolungarvík og Ísafjörð, en ekki náðst samkomulag við heimamenn. Því blasi ekki aðrir valkostir við en Súðavík. Hinn 10. janúar 2020 lagði félagið fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í skýrslunni kom fram að vinnsla á setinu færi fram í verksmiðju sem líklega yrði reist í Súðavík, á svokölluðu Langeyrarsvæði. Álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 6. apríl 2020, að fengnum umsögnum sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Í álitinu kom fram varðandi valkosti að í matsskýrslu væri eingöngu gerð grein fyrir einum staðarvalkosti fyrir verksmiðju en aðrir kostir útilokaðir. Framkvæmdaraðili hefði hins vegar lagt fram valkosti við tilhögun framkvæmdarinnar varðandi þann þátt sem líklegur væri til að valda mestum umhverfis­áhrifum, þ.e. efnistökuna. Í niðurstöðukafla álitsins kom fram að Skipulagsstofnun teldi mats­skýrsluna uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að þeim hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

Að ósk sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps skilaði Vegagerðin í júní 2018 minnisblaði um kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir landfyllingu og stálþilskant vegna kalkþörunga­verksmiðju. Í minnisblaðinu voru gerðar þrjár tillögur að staðsetningu og legu lóðar og bryggju inn af Langeyri. Á fundi sveitarstjórnar 21. s.m. var samþykkt að fá Vegagerðina til að stilla upp samskonar greiningu fyrir staðsetningu innar í firðinum. Í ágúst s.á. lá umbeðið minnisblað fyrir með nýrri tillögu um að verksmiðjan yrði staðsett um 800 m innar í firðinum. Hinn 14. september s.á. var á fundi sveitarstjórnar bókað að samkvæmt valkosta­greiningu og kostnaðarmati Vegagerðarinnar, samantekt byggingarfulltrúa og samantekt oddvita væri valkostur 3 hagkvæmastur, bæði tíma- og kostnaðarlega séð. Samþykkti sveitarstjórn því þann valkost sem mögulega staðsetningu verksmiðjunnar í aðal- og deiliskipulagi.

Lýsing nýs deiliskipulags inn af Langeyri vegna fyrirhugaðrar kalkþörunga­­verksmiðju var auglýst í febrúar 2019 auk þess sem hún var send umsagnaraðilum til kynningar. Á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 7. maí 2019 var samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu, Morgunblaðinu og á heimasíðu Súðavíkurhrepps 16. október 2019. Frestur til að skila athugasemdum var til 27. nóvember s.á. Kærandi kom að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna. Voru athugasemdir kæranda teknar fyrir og þeim svarað á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 6. janúar 2020. Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 15. apríl s.á. Var hún samþykkt og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m. Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 2018-2030 tók gildi 18. júní s.á. með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda en í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir kalkþörungaverksmiðju og höfn á landfyllingu inn af Langeyri. Að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar á deili­skipulaginu tók það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 18. ágúst 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé þinglýstur eigandi syðsta hluta Langeyrar og séu á lóð hans margskonar eignir og starfsemi, þ. á m. íbúðir, gistiheimili, verksmiðjubygging og vörugeymslur. Hafi kærandi gjarnan leigt starfsmönnum sínum íbúðarhúsnæði á Langeyri. Árið 2004 hafi dótturfélag kæranda selt hluta af eignarlandi félagsins á Langeyri til Súðavíkurhrepps og hafi forsenda þeirrar sölu verið sú að svæðið yrði skipulagt undir léttan iðnað.

Í mati framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hafi aðeins verið fjallað um eina staðsetningu fyrir fyrirhugaða verksmiðju og því hafi enginn samanburður ólíkra staðsetningarvalkosta verið gerður. Ekki hafi verið gerð tilraun til að fjalla um annað staðarval í Álftafirði, s.s. í landi Hlíðar, eins og gert hafi verið við vinnu nýs aðalskipulags sveitarfélagsins. Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 13. júní 2018 hafi verið lagðir fram þrír valkostir fyrir staðsetningu við Langeyri. Þar komi fram að engar botnrannsóknir hafi verið gerðar vegna fyrirhugaðrar lóðar og að mikilvægt sé að gera tilheyrandi jarðtæknirannsóknir á efninu á hafsbotni áður en hönnun hefjist. Kæranda sé ekki kunnugt um að framkvæmdar hafi verið nauðsynlegar botnrannsóknir eins og Vegagerðin hafi mælt með og því liggi ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað einstakra valkosta. Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 3. ágúst s.á. hafi verið gerð gróf kostnaðaráætlun vegna staðsetningar í landi Hlíðar en sama gildi þar að ekki hafi verið gerðar jarðtæknirannsóknir til að undirbyggja kostnaðaráætlunina. Um það bil 70 milljóna króna munur hafi verið á kostnaði við tillögu 3 inn af Langeyri og tillögu 4 í Hlíð. Ljóst sé að nákvæmari forsendur geti breytt þeirri niðurstöðu, s.s. vegna kostnaðar við landfyllingu og viðlegukant. Ekkert tillit hafi verið tekið til mismunandi umhverfisáhrifa fyrrgreindra valkosta heldur hafi ákvörðun sveitarfélagsins einvörðungu verið byggð á því að velja ódýrasta valkostinn. Hafi það verið staðfest á samráðsfundi forsvarsmanna kæranda og sveitarfélagsins 2. maí 2019 þar sem sveitarfélagið hafi tekið fram að „verkfræðiþátturinn hafi verið það sem hafi valdið því hvaða staður var valinn fyrir starfsemina.“ Bent sé á að almennar lýsingar á valkostum og röksemdir sem lúti að kostnaði tiltekinna valkosta teljist ekki til málefnalegra sjónarmiða sem réttlætt geti útilokun þeirra frá umhverfismati.

Valkostamati framkvæmdaraðila sé verulega ábótavant. Telja hefði átt upp fleiri en eina staðsetningu og gera valkostamat á ólíkum stöðum í mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun sveitarfélagsins byggi fyrst og fremst á því að velja ódýrasta og fljótvirkasta valkostinn fyrir hreppinn, en ekkert tillit hafi verið tekið til mögulegra umhverfisáhrifa sem geti verið mismunandi eftir kostunum. Ætluð umhverfisáhrif eigi í öllum tilvikum að vera ráðandi þáttur varðandi staðarval og valkostagreiningu. Ekkert raunverulegt kostnaðarmat hafi farið fram umfram mat Vegagerðarinnar. Valin hafi verið sú staðsetning inn af Langeyri sem hafi mest áhrif á kæranda, aðra atvinnustarfsemi svo og íbúa Súðavíkur og Langeyrar, sem jafnframt takmarki uppbyggingu íbúðarbyggðar á svæðinu til framtíðar. Ekki hafi komið fram hvort látið hafi reyna á að semja við landeiganda Hlíðar og jafnvel fara í uppkaup. Að mati kæranda virðist sá valkostur einungis hafa verið lagður fram til málamynda án frekari skoðunar, hugsanlega í viðleitni til að uppfylla reglur. Þá hafi aðrir valkostir en Langeyri og Hlíð í Álftafirði ekki verið kannaðir. Niðurstaða umhverfismats í deiliskipulaginu hafi verið að áhrif fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju væru neikvæð á eignir og atvinnustarfsemi kæranda og íbúa í leiguhúsnæði hans. Ódýrasta leiðin hafi verið valin og því sé minni kostnaður sóttur í vasa annarra sem hagsmuna hafi að gæta á svæðinu auk þess sem verðmæti eigna rýrni og ekki verði hægt að nýta þær með sama hætti og verið hafi í áratugi.

Í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030 sé að finna tvo valkosti fyrir kalkþörungaverksmiðju, þ.e. valkost A við Langeyri og valkost B við Hlíð. Í raun sé aðeins valkostur A skoðaður á fullnægjandi hátt en í honum séu þrjár útfærslur. Þær séu því sem næst á sama stað og hafi því nánast sömu umhverfisáhrif. Út frá þeim forsendum sé aðeins fjallað um einn valkost. Valkosti B hafi verið bætt við á seinni stigum en sá hafi ekki verið kannaður til hlítar. Í aðalskipulaginu segi um umhverfisáhrif valkostanna: „Áhrif verksmiðju skv. valkosti A verða ásættanleg en í heildina verða áhrif verksmiðjunnar á þéttbýlið minni ef hún verður staðsett innar í firðinum (valkostur B). Staðsetning verksmiðju innar mun þó hafa verulega neikvæð áhrif á jörðina Hlíð þar sem fyrirhuguð sé sumarhúsabyggð skv. deiliskipulagi en forsendur fyrir deiliskipulaginu bresta verði valkostur B fyrir valinu. Meiri óvissa fylgir landfyllingu innar eins og fram kemur í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 3. ágúst 2018. Sveitarstjórn tók ákvörðun um að velja kost A, þ.e. að heimila landfyllingu og byggingu kalkþörungaverksmiðju innan Langeyrar.“ Athygli veki að valkostur B hafi fengið litla sem enga umfjöllun af hálfu sveitarstjórnar. Með einföldum samanburði valkosta sjáist greinilega að valkostur A hafi mun neikvæðari umhverfisáhrif m.t.t félagslegra og hagrænna þátta, náttúrufarslegra þátta og þátta er varði innviði og aðgengi. Þrátt fyrir það hafi ekki verið unnið með hann og reynt að semja við landeigendur af þeirri ástæðu einni að framkvæmdin yrði kostnaðarsamari og tæki lengri tíma í uppbyggingu. Augljóslega komi aðrir valkostir í Álftafirði til greina. Til dæmis megi nefna Dvergastein innar í firðinum. Landið þar sé ekki í eigu sveitarfélagsins en þar hafi verið rekin hvalstöð með hafnaraðstöðu fyrir rúmum hundrað árum. Umhverfisáhrifin myndu vera mun minni vegna uppbyggingar þar en að Langeyri og Hlíð vegna aukinnar fjarlægðar frá þéttbýlinu Súðavík.

Óumdeilt sé að framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á íbúa en í aðalskipulagi komi m.a. fram: „Verksmiðjan mun einnig hafa neikvæða áhrif á umhverfi og íbúa, sbr. fyrrnefnda matsskýrslu. Búast má við foki á fínefnum og hávaðamengun en einnig breytingu á ásýnd svæðisins. Verksmiðja af þessari stærðargráðu mun einnig þregnja að annarri landnotkun og þróunarmöguleikum í þéttbýlinu.“ Lítið sé minnst á íbúðir á Langeyri sem kærandi leigi út en aðalskipulagið vísi til íbúða fjær eða í þéttbýlinu Súðavík. Ljóst megi þó vera að fyrirhuguð verksmiðja muni hafa verulega neikvæð áhrif á íbúa í leiguhúsnæði kæranda. Einnig muni framkvæmdin hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnusvæði kæranda á Langeyri og í sjónum við Langeyri. Kærandi hafi notað land og húsnæði í tengslum við fiskeldi dótturfélags síns og hyggi á framtíðaruppbygginu á svæðinu tengdu fiskeldi og annarri starfsemi félagsins og dótturfélagsins, en það sé handhafi starfs- og rekstrarleyfis til sjókvíaeldis innan og utan við Langeyri. Þrengt sé að starfsemi kæranda sem jafnframt takmarki verulega möguleika á frekari uppbyggingu á svæðinu. Einnig sé niðurstaða umhverfismats deiliskipulags sú að hávaði frá fyrirhugaðri verksmiðju muni ekki hafa áhrif á íbúa Súðavíkur umfram það sem eðlilegt geti talist. Bent sé á að íbúðir í eigu kæranda séu mun nær fyrirhugaðri verksmiðju en þéttbýlið í Súðavík. Sveitarfélagið horfi fram hjá því að það sé íbúðabyggð á Langeyri. Þá hafi íbúar á Bíldudal gert athugasemdir við sambærilega verksmiðju sem þar sé staðsett vegna tíðra bilana með miklum hávaða.

Forsvarsmenn kæranda séu jákvæðir fyrir uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði. Uppbygging þurfi hins vegar að vera í sátt við íbúa og aðrar atvinnugreinar í sveitarfélaginu. Málið snúist um að fullnægjandi valkostamat verði gert en samanburður og mat á raunhæfum valkostum og umhverfisáhrifum þeirra sé hryggjarstykkið í mati á umhverfisáhrifum. Valkostamat hafi verið mikið í umræðunni í tengslum við laxeldi í sjókvíum, þ.e.a.s. að ekki hafi verið gerð nægilega góð grein fyrir öllum valkostum, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 3, 4, 5 og 6/2018. Framkvæmdaraðili hafi komið með viljayfirlýsingu til sveitarfélagsins árið 2014 þar sem lögð hafi verið til staðsetning á kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Fram hafi komið í málflutningi forsvarsmanna framkvæmdaraðila að það væri á „forræði sveitarstjórnar að ákveða ef færa á verksmiðju innar.“ Það hefði átt að vera í verkahring framkvæmdaraðila að telja upp fleiri en einn stað fyrir verksmiðju. Sveitarfélagið geti eingöngu gefið heimild til afnota á sínu landi og aðlagað aðal- og deiliskipulag að þörfum framkvæmdaraðila.

Það sé á forræði framkvæmdaraðila að ákveða þá framkvæmdarkosti sem metnir séu á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Forræði framkvæmdaraðila sé þó takmarkað að ákveðnu marki því byggja verði á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum við val á framkvæmdakostum. Það sé þýðingarmikið að skylda til valkostamats samkvæmt lögum nr. 106/2000 sé bundin við raunhæfa framkvæmdakosti eða þá möguleika sem til greina komi, eins og það sé orðað í 8. og 9. gr. laganna. Valkostamat með samanburði ólíkra staðsetninga hafi því verið með öllu ófullnægjandi í mati á umhverfisáhrifum fram­kvæmdarinnar.

Valkostamat í aðalskipulagi sveitarfélagsins og hinu kærða deiliskipulagi sé ófullnægjandi. Í umhverfismati áætlana þurfi stjórnvald að taka tilhlýðilegt tillit til allra athugasemda er berist frá almenningi og umsagnaraðilum. Þetta hafi verið talið þýða m.a. að stjórnvald verði að taka athugasemdir til raunverulegrar og málefnalegrar skoðunar. Það megi ekki vera einungis til málamynda. Þessi regla sé lögfest í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Ráða verði af dómaframkvæmd að það hafi þýðingu hvort athugasemdir við valkostamat komi fram snemma í undirbúningsferlinu og sér í lagi hvernig brugðist sé við þeim af hálfu framkvæmdaraðila. Kærandi hafi komið með athugasemdir varðandi staðsetningu allt frá árinu 2017 þegar gerð hafi verið athugasemd við frummatsskýrslu framkvæmdaraðila. Jafnframt hafi kærandi komið með athugasemdir við gerð aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags. Þrátt fyrir endurteknar athugasemdir kæranda hafi ekkert tillit verið tekið til þeirra. Fyrirliggjandi dómaframkvæmd leiði einnig í ljós að gallað valkostamat geti haft þær afleiðingar að ákvarðanir sem óbeint tengist mati á umhverfisáhrifum sæti ógildingu. Staðarval fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði hafi stuðst fyrst og fremst við kostnað strax frá upphafi málsmeðferðar við aðal- og deiliskipulagsgerð.

Ekki hafi verið fylgt meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins og í því sambandi sé sérstaklega vísað til 10. gr. laganna þar sem fram komi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega rannsakað áður en ákvörðun sé tekin í því. Þá sé einnig vísað til meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga.

Málsrök Súðavíkurhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerður fyrirvari við hagsmuni dóttur­fyrirtækis kæranda sem reki fiskeldi í Álftafirði. Fyrirtækið sé ekki aðili að þessari kæru og sé rekið á annarri kennitölu. Starfsemi kæranda á Langeyri sé ekki umfangsmikil. Hann leigi út einbýlishús til tveggja einstaklinga auk þess sem eitt hús sé nýtt undir verbúð. Veki það athygli vegna þess að í deiliskipulagi hafi í langan tíma verið gert ráð atvinnustarfsemi á Langeyri en ekki íbúðabyggð, auk þess sem sveitarfélagið hafi hvorki gefið umsögn um gistiheimili né sé því kunnugt um slíkan rekstur. Fullyrðingar kæranda um að léttur iðnaður hafi verið forsenda sölu á hluta eignarlands félagsins á Langeyri standist ekki skoðun, enda hafi ýmis starfsemi á vegum kæranda og forvera verið á svæðinu sem ekki flokkist sem léttur iðnaður. Legið hafi fyrir að kærandi myndi ekki selja fasteignir eða lóðir sínar undir starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. Það hafi þrengt verulega að kostum fyrir uppbyggingu við Langeyri eða Súðavíkurhöfn og leitt til þeirrar ákvörðunar að verksmiðjan yrði ekki reist innan þorpsmarka Súðavíkur. Sala á hluta eignarlands félagsins á Langeyri geti ekki bundið hendur sveitarfélagsins í skipulagsmálum.

Í aðdraganda þess að hefja vinnslu kalkþörunga í Ísafjarðardjúpi hafi farið fram athuganir á staðsetningu verksmiðju. Ekki hafi verið talið heppilegt að reisa verksmiðju í Bolungarvík eða á Ísafirði. Framkvæmdaraðili hafi talið heppilegt að vera með starfsemi í Álftafirði en hafnar­aðstæður þar séu góðar af náttúrunnar hendi. Gríðarleg undirbúningsvinna hafi farið í verkefnið og telji upphæðir í þeim undirbúningi þungt fyrir rekstur sveitarfélagsins, en það velti 350 milljónum króna árlega. Allar tafir verkefnisins séu dýrar fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt sé að halda verkáætlun enda sé stálþil viðlegukants á fjárlögum og Samgönguáætlun 2019-2022. Áætlunin geri ráð fyrir að framlög dreifist á fjögur ár og að mest af framlögum komi inn á árin 2021 og 2022. Allar fullyrðingar kæranda um ástæður staðarvals og tengingu við ódýrasta kostinn verði að skoða sem fremur barnalega framsetningu sjónarmiða. Burtséð frá öðrum atriðum við skoðun valkosta beri sveitarfélaginu að velja þann kost sem sé hagkvæmastur.

Ljóst hafi verið frá upphafi verkefnisins að útbúa þyrfti lóð og athafnasvæði og byggja nýja höfn. Nærtækasti kosturinn hafi því verið innan Langeyrar. Þar hafi áður verið höfn og sé staðsetningin innan skilgreinds yfirráðasvæðis Súðavíkurhafnar samkvæmt hafnarreglugerð fyrir Súðavík nr. 788/2005. Á öllum stigum undirbúningsvinnu hafi þótt heppilegast að athafna- og iðnaðarsvæði væri í samfellu inn af Langeyri í stað þess að slíta í sundur skipulagssvæðið. Súðavík sé ekki stórt og nærtækt að iðnaðar- og hafnarsvæði sé í einhverjum tengslum við byggð með þjónustu við það í huga. Þannig sé raski líka haldið í lágmarki og ekki verið að taka land undir slíka starfsemi sem skipulagt hafi verið í annað, s.s. frístundabyggð, landbúnað og skógrækt. Í landi Hlíðar sé deiliskipulögð frístundabyggð og skógrækt og í landi Dvergasteins sé jafnframt skógrækt. Staðsetningar landfyllingar og verksmiðju á annarri hvorri jörðinni myndi hafa í för með sér árekstra við skipulag, bæði deiliskipulag í landi Hlíðar og Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 2018-2030. Sá kostur hafi verið valinn sem hefði minnst rask í för með sér og mesta hagkvæmni auk þess sem sá kostur sé talinn uppfylla flest þau skilyrði varðandi fjarlægð við íbúðabyggð, viðmið mengunar og hávaða sem taka beri með í slíkt staðarval. Einnig hafi verið um að ræða land í eigu sveitarfélagsins.

Eftir valkostagreiningu og með minnisblöðum Vegagerðarinnar hafi verið upplýst að gríðar­legur kostnaðarmunur kynni að vera á því hvar höfn og landfyllingu yrði fyrir komið. Ódýrasti og um leið nærtækasti kosturinn hafi á verðlagi 2018 verið um 464 milljónir króna. Dýrasti kosturinn, aðeins innar í landi Hlíðar, hafi verið metinn á um 614 milljónir króna, en þá séu ekki talin með uppkaup eða fjárhæð eignarnámsbóta auk alls þess ófyrirséða kostnaðar sem kunni að leiða af því ferli. Eignarnám sé ekki góður kostur og ekki gefið að unnt yrði að uppfylla skilyrði 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 425/2008. Þrátt fyrir að kærandi geri lítið úr því vægi sem kostnaður hafi í staðarvali þá hafi sú staðreynd óneitanlega mikil áhrif á það hvort samvinna um uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju geti orðið arðbær fyrir sveitarfélagið eða ekki. Kostnaður og framkvæmdahraði hafi ekki verið það eina sem sveitarfélagið hafi litið til við undirbúning framkvæmdarinnar og staðarval. Þeim kosti að hafa landfyllingu og viðlegukant á utanverðri Langeyri hafi verið hafnað vegna nálægðar við íbúðabyggð og starfsemi kæranda, sbr. minnisblað Vegagerðarinnar frá 13. júní 2018. Vísun kæranda til valkostamats í fiskeldi verði ekki jafnað til þeirrar málsmeðferðar þegar sveitarfélag fylgi aðalskipulagi og deiliskipuleggi eigið land.

Vegagerðin hafi greint framkvæmdina m.t.t. kostnaðar og framkvæmdahraða og annarrar hagkvæmni. Botnrannsóknir hafi verið framkvæmdar og sé siltmagn á fyrirhuguðum botni undir landfyllingu hagstæðara en áður hafi verið talið. Lagst hafi verið gegn öðrum valkostum, einkum vegna þeirrar óvissu sem hafi verið fyrir hendi varðandi dýpi. Staðarvalið hafi tekið mið af nálægð íbúðabyggðar, væntanlegri mengun vegna hávaða og ryks og ásýndar og áhrifa á önnur skipulagssvæði og aðlægra jarða. Hljóðkort hafi verið unnið fyrir svæðið og tekið tillit til þeirra ábendinga sem hafi legið fyrir hjá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Hvað varði vísun kæranda til hljóðmælinga og mengunar vegna ryks frá kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal þá séu þær mælingar að jafnaði innan marka vegna slíkrar verksmiðju, en hávaðamælingar hafi farið yfir viðunandi mörk með öðrum atvinnurekstri á svæðinu. Taka verði með í reikninginn að verksmiðjan og athafnasvæði hennar sé staðsett í miðju þorpinu á Bíldudal. Gert sé ráð fyrir því að við hönnun og uppsetningu verksmiðju inn af Langeyri, sem staðsett sé fjarri íbúðabyggð samkvæmt skipulagi, verði hljóðmön sett upp auk þess sem búnaður nýrrar verksmiðju verði ekki sá sami og á Bíldudal.

Ekki sé rétt að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem kærandi hafa komið á framfæri vegna deiliskipulagsins. Skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefnd hafi rætt athugasemdir kæranda tvisvar auk þess sem sveitarstjórn hafi lesið yfir og staðfest fundargerðir nefndarinnar. Að öllu virtu hafi athugasemdirnar ekki þótt þess eðlis að breyta þyrfti niðurstöðu nefndarinnar eða sveitarstjórnarinnar, enda hafi skipulagið einkum tekið mið af því sem legið hafi fyrir við alla forvinnu og staðfest hafi verið í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030.

Hagsmunir kæranda vegna hins kærða deiliskipulags séu ekki slíkir að réttlæti ógildingu deiliskipulagsins, enda sé ekki um að ræða breytingu á þeim lóðum sem kærandi eigi. Ekki hafi enn reynt á það hvort sú uppbygging sem fyrirhuguð sé hafi neikvæð áhrif á eignir kæranda enda sé alls óvíst hvort þau áhrif verði neikvæð. Verði kærandi fyrir slíkum áhrifum ætti hann að hafa tök á að sækja skaðabætur úr hendi Súðavíkurhrepps eða framkvæmdaraðila eftir atvikum. Ljóst sé að hagsmunir sveitarfélagsins séu mun meiri en hagsmunir kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að deiliskipulag Hlíðar sé frá 2014 en gerð hafi verið breyting á skipulaginu 2016. Einhver skógrækt muni vera komin af stað á jörðinni en ekki sé enn byrjað að reisa frístundabyggð. Landeigandi Hlíðar standi frammi fyrir því að ef kalkþörungaverksmiðja og höfn verði byggð inn af Langeyri verði án efa erfiðara að selja lóðir undir frístundabyggð. Varðandi mögulegt eignarnám virðist sem ekki hafi verið látið á það reyna hvort núverandi eigandi Hlíðar væri reiðubúinn að selja jörðina. Þá hafi sveitarfélagið ekki rætt formlega við kæranda um mögulega kaup á landi og/eða fasteignum.

Það sé rétt að ekki sé gert ráð fyrir nýrri íbúðabyggð á Langeyri samkvæmt gildandi deili­skipulagi. Hins vegar verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að nú þegar sé íbúðarhúsnæði á Langeyri og hafi svo verið um langan tíma. Deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir breytingu á nýtingu þeirra mannvirkja sem fyrir séu á svæðinu.

Vegagerðin hafi lagt áherslu á botnrannsóknir og sé nú búið að gera slíka rannsókn á svæði sem falli undir tillögu 3 hjá Vegagerðinni. Sambærileg rannsókn hafi hins vegar ekki verið gerð fyrir tillögu 4 í landi Hlíðar.

Enn berist athugasemdir og kvartanir vegna starfsemi kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal. Í reglulegu eftirliti 3. júlí 2020 hafi komið fram að mælingar á ryki hafi ekki farið fram samkvæmt starfsleyfi en mæla eigi tvisvar á ári. Í eftirlitsskýrslu hafi einnig komið fram að kvörtun hafi borist vegna ryks frá tveimur skorsteinum. Hinn 20. ágúst s.á. hafi farið fram fyrirvaralaust eftirlit hjá Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. á Bíldudal. Fram hafi komið að ryk hafi verið sýnilegt í útblæstri frá vothreinsivirki verksmiðjunnar. Ef ryk sé sýnilegt í reyk megi áætla að styrkur sé í kringum 100 mg/Nm3 en starfsleyfismörk séu 20 mg/Nm3. Ekki sé rétt sem komi fram í greinargerð sveitarfélagsins að verksmiðjan á Bíldudal sé í miðri íbúðabyggð. Verksmiðjan sé niður við höfn í allnokkurri fjarlægð frá íbúðabyggð.

——

Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði. Kærandi er eigandi hluta af landi Langeyrar, sem liggur við deiliskipulagssvæðið, en á eignarlóð hans standa nokkur mannvirki, m.a. húsnæði sem hann nýtir sem íbúðarhúsnæði og verbúð. Í ljósi þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir verður að líta svo á að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Svo sem rakið er í málavöxtum á hið kærða deiliskipulag sér nokkurn aðdraganda, en 2014 lá fyrir viljayfirlýsing Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. um áhuga á að fjárfesta í námu- og afurðavinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi. Mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs kalkþörunganáms fór fram og lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í apríl 2020. Þar kom fram varðandi valkosti að í matsskýrslu væri eingöngu gerð grein fyrir einum staðarvalkosti fyrir verksmiðju. Framkvæmdaraðili hefði hins vegar lagt fram valkosti við tilhögun framkvæmdarinnar varðandi þann þátt sem líklegur væri til að valda mestum umhverfisáhrifum, þ.e. efnistökuna. Var matsskýrslan talin uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Í máli þessu gerir kærandi nefnt valkostamat við mat á umhverfisáhrifum að helsta umtalsefni. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun hennar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærileg ákvæði er ekki að finna vegna skipulagsgerðar og sækir hið kærða deiliskipulag ekki stoð sína í fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum, þótt það lúti að sömu framkvæmd og skipulagið tekur til. Einskorðast athugun nefndarinnar því við lögmæti deiliskipulagsins á grundvelli þeirrar kæruheimildar sem til staðar er í máli þessu og finna má í 52. gr. skipulagslaga. Kveður lagagreinin á um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, en þó ekki þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að nefndum lögum að staðfesta, en þar undir falla ákvarðanir um aðalskipulag, sbr. 3. mgr. 32. gr. laganna.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er vald til að skipuleggja land innan marka sveitar-félags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Hið umdeilda skipulag tekur til svæðis innan iðnaðar- og hafnarsvæðis samkvæmt skilgreindri landnotkun í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030. Samkvæmt skilgreiningunni skal á iðnaðarsvæðum gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem sé talin geta haft mengun í för með sér, sbr. f-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en á hafnarsvæðum skal m.a gera ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, sbr. o-lið sömu greinar. Meðal markmiða aðalskipulagsins vegna hafnarsvæða er að gera nýja höfn sem m.a. þjóni kalkþörungaverksmiðju á Langeyri. Með hinu kærða deiliskipulagi er heimilað að gera landfyllingu með viðlegukanti og hafnaraðstöðu og reisa kalkþörungaverksmiðju inn af Langeyri. Hið kærða deiliskipulag byggir því á stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Deiliskipulagið var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess, sem hann og gerði. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók athugasemdirnar til umfjöllunar á fundi sínum 6. janúar 2020 og tók afstöðu til þeirra skv. 3. mgr. nefndrar 41. gr. Vísaði nefndin m.a. til þess að staðsetning verksmiðjunnar í landi Hlíðar hafi verið talin óheppileg vegna mikils halla á sjávarbotni. Vegna meiri bratta séu meiri líkur á broti þegar fylling hefjist. Talið væri heppilegast að tengja athafnasvæðið á Langeyri við nýtt hafnar- og iðnaðarsvæði. Gert væri ráð fyrir að hámark losunar ryks í starfsleyfi yrði sambærilegt og hjá kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal eða 20 mg/Nm3. Mælingar í janúar og október 2019 sýndu að hægt væri að vera vel innan þessara marka. Íbúðarbyggð sé ekki skipulögð á Langeyri samkvæmt aðalskipulagi og mótvægisaðgerðir eins og trjáplöntun og jarðvegsmön muni milda áhrif á ásýnd. Var umsögn nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar 17. apríl 2020. Verður því ekki fallist á með kæranda að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans þótt ekki hafi verið fallist á þær, enda felur skylda til samráðs það ekki í sér að svo skuli gert. Með erindi, dags. 21. s.m., var Skipulagsstofnun send deiliskipulagstillagan til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 17. júlí s.á., tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, sem var og gert 18. ágúst s.á. Að framangreindu virtu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana var unnin umhverfisskýrsla vegna hins kærða deiliskipulags. Kærandi hefur vísað til þess að samanburður valkosta hafi verið ófullnægjandi og hefur m.a. nefnt í því sambandi að ekki hafi verið tillit tekið til mismunandi umhverfisáhrifa valkosta og ákvörðunin hafi einvörðungu byggst á því að velja ódýrasta kostinn. Ekki hafi verið látið reyna á hvort hægt yrði að semja við landeiganda Hlíðar auk þess sem aðrir valkostir en Langeyri og Hlíð í Álftafirði hafi ekki verið kannaðir. Jafnframt hafi sveitarfélagið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Tekið er fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 að umhverfisskýrsla skuli hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt sé að krefjast að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu hennar í stigskiptri áætlanagerð. Samkvæmt f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. skal í umhverfisskýrslu m.a. koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar.

Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna á mat því hvort þeir valkostir sem settir séu fram til að ná markmiðum áætlunarinnar muni hafa jákvæð, engin, óveruleg eða neikvæð áhrif á tiltekna umhverfisþætti. Kemur þar fram að Vegagerðin hafi gert kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir þrjár mismunandi útfærslur fyrir kalkþörungaverksmiðju á landfyllingu inn af Langeyri. Síðar hafi samskonar áætlun verið gerð fyrir fjórðu útfærsluna í landi Hlíðar. Rakið er að sveitarstjórn hafi samþykkt samhljóða útfærslu 3, en sá valkostur hafi af Vegagerðinni verið talinn taka styttri framkvæmdartíma og vera hagkvæmastur. Nokkrir staðsetningarkostir hafi verið skoðaðir eins og fram komi í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila frá árinu 2017 og byggi val á staðsetningu m.a. á aðgengi og góðri hafnaraðstöðu. Staðsetning við Bolungarvík og Ísafjörð hafi verið könnuð, en ekki náðst samkomulag við heimamenn. Í umhverfisskýrslu skipulagsins er því valkostur 3 borinn saman við núllkost, þ.e. óbreytta landnotkun á svæðinu. Þeir umhverfisþættir sem koma nánar tiltekið til skoðunar við matið eru náttúrufarslegir þættir, efnahagur, atvinnulíf og þjónusta, heilsa og öryggi, byggð og efnisleg verðmæti, náttúru- og menningarminjar og landslag. Niðurstaða matsins er í meginatriðum sú að kalkþörungaverksmiðjan muni hafa víðtæk áhrif, bæði til hins betra og verra en neikvæð áhrif hennar séu ívið meiri. Verksmiðjan feli í sér mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpunar og þjónustu auk þess sem hún muni hafa jákvæð hagræn áhrif. Neikvæð áhrif verði á byggð og efnisleg verðmæti, m.a. þar sem skipulagssvæðið skerði möguleika fyrir skipulagningu nýrra svæða fyrir íbúðarbyggð og gæði útivistar og tómstundarsvæðis í nágrenni hennar rýrni. Breytt ásýnd og mengun, þ.m.t. loft- og ljósmengun, mun hafa þónokkur áhrif á íbúa fjarðarins. Hins vegar sé núllkostur ekki talinn valda breytingum á núverandi ástandi ef frá eru taldar mögulegar tafir á uppbyggingu rafveitu- og vegakerfis sem og annarra samgöngumannvirkja.

Úrskurðanefndin leggur áherslu á að svo sem rakið er í almennum athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 105/2006 er nokkur munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000, en það síðarnefnda er ekki til umfjöllunar hér eins og áður er fram komið. Er tekið fram í greindum athugasemdum að munurinn eigi við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Annars vegar komi það til af því að um sé að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Enn fremur að þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Að mati úrskurðarnefndarinnar fullnægir umhverfisskýrsla deiliskipulagsins sem áður er lýst áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald, m.a. að teknu tilliti til efnis og nákvæmni skipulagsins, sem og stöðu þess í stigskiptri áætlanagerð, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Á þessu stigi málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar verður að telja að raunhæfir valkostir hafi verið skoðaðir og mat lagt á áhrif þeirra og verður ekki fallist á með kæranda að valkostamati skýrslunnar hafi verið ábótavant með hliðsjón af markmiði skipulagsins og landfræðilegs umfangs þess, sbr. f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr.

Fyrir liggur að framkvæmdir í landi Hlíðar þóttu ekki koma til greina við gerð deiliskipulagsins þar sem landið er á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt aðalskipulagi sveitar­félagsins. Þá er í umhverfisskýrslu skipulagsins gerð grein fyrir áhrifum hljóðmengunar af völdum fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju. Kemur þar fram að samkvæmt hljóðkorti muni hljóðvist á nærliggjandi svæðum vera innan marka reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Að því virtu verður ekki fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og verður að öðru leyti heldur ekki séð að rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Ber jafnframt að hafa í huga að við afgreiðslu málsins lá fyrir að framkvæmdin hafði farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Þrátt fyrir að kærandi nýti húsnæði á eignarlóð sinni á Langeyri, m.a. undir íbúðir, verður ekki hjá því litið að lóðin er á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi en ekki íbúðarsvæði. Verða því hagsmunir kæranda ekki taldir hafa verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga. Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags á hann eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur dómstóla.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 um að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði.