Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

131/2020 Fífuhvammur

Árið 2021, miðvikudaginn 6. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir.

Mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp  til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 7. október 2019, sótti eigandi Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð var fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulagsráð erindið og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Hinn 4. desember s.á. samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa.

Kærendur benda á að hin fyrirhugaða bygging sé á lóðamörkum lóðar kærenda og lóðar Fífuhvamms 25. Hún samrýmist ekki götumynd og auki skuggamyndun á lóð kærenda, einkum í garði, og takmarki þannig nýtingarmöguleika þeirra. Útgáfa byggingarleyfisins fari í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni hin fyrirhugaða framkvæmd lækka verðmæti eignarinnar. Framkvæmdir séu nú þegar hafnar og því mikilvægt að ákvörðun verði tekin sem fyrst um að stöðva framkvæmdirnar.

Leyfishafi vísar til þess að umrætt gróðurhús sé í dag lokað með frágengnu þaki, gluggum og hurðum auk þess að vera vatnshelt og vindhelt. Þá sé búið að einangra þak og opna á milli inn í íbúðina. Bygging gróðurskálans sé nánast lokið og mannvirkið tilbúið til notkunar.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að gróðurhúsið hafi í för með sér óveruleg grenndaráhrif. Fordæmi sé að finna fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Að því virtu telur sveitarfélagið að hafna eigi framkominni stöðvunarkröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Af fyrirliggjandi gögnum má að sjá bygging gróðurskálans er langt á veg komin og var það raunar skömmu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Þegar litið er til nefndra atvika, framangreindra lagaákvæða og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Ber framkvæmdaaðili enda af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi til bráðabirgða.