Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2024 Sandeyri

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 29. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi og þar með framleiðsluaukningu um 3.800 tonn. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga séu jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að með hinu kærða leyfi hafi verið heimiluð stóriðja í netlögum eignarjarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljósmengunar og sjónmengunar. Sé þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um að framkvæmdir skuli stöðvaðar og mannvirkjunum verði lokað. Auk þessa fari framkvæmdirnar í bága við skipulag og lög um vitamál nr. 132/1999 sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um siglingaöryggi þar sem mannvirkin séu staðsett í ljósgeisla frá Óshólavita.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin telur að ekki sé ástæðu til að stöðva framkvæmdir þar sem stofnunin hafi staðið rétt að afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Jafnframt standist byggingarleyfið þær kröfur sem gerðar séu til þess í lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi byggi málatilbúnað sinn nær eingöngu á því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað í netlögum jarðarinnar Sandeyri, en framkvæmdin sé í raun alfarið utan þeirra. Við þær aðstæður teljist kærandi ekki aðili þess stjórnsýslumáls sem lúti að umsókn leyfishafa um hið kærða byggingarleyfi og beri því að vísa kærunni frá heild, en ella hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Vakin sé athygli á því að frumskilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu ekki uppfyllt, en þar sé mælt fyrir um heimild kæranda til að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða „séu þær hafnar eða yfirvofandi.“ Í úrskurðarframkvæmd nefndarinnar hafi eðlilega verið lagt til grundvallar að þegar framkvæmdum sé lokið sé þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Fyrir liggi að leyfishafi hafi nú þegar reist og tekið í notkun þau mannvirki sem heimilt hafi verið að reisa á grundvelli leyfisins.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndina var framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfi lokið þegar kæra þessa máls barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að ekki sé til dreifa þeim lögbundnu skilyrðum fyrir stöðvun framkvæmda á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu annað hvort hafnar eða yfirvofandi. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

32/2024 Efnistaka í Svarfaðardalsá

Með

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2024, kæra á ákvörðunum Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grafar og Brautarhóls í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð, ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð og Fiskistofu á tímabilinu 2. til 19. apríl 2024.

Málavextir: Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er greint frá því að Svarfaðardalsá, með Skíðdalsá sem í hana renni, sé 34 km löng dragá með 450 km2 vatnasvið og renni til sjávar við Dalvík. Í henni veiðist bleikja, urriði og einstaka lax. Veitt hafa verið leyfi til töku malarefnis úr árfarvegi Svarfaðardalsár og er í máli þessu deilt um slíkar heimildir, sem veittar voru af Fiskistofu á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, og Dalvíkurbyggð á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með útgáfu framkvæmdaleyfa þar að lútandi.

Með umsókn, dags. 20. apríl 2023, var óskað eftir heimild Fiskistofu til töku 37.000 m3 af möl úr eyrum Svarfaðardalsár í landi Bakka og kom fram að tilgangurinn væri að hreinsa upp nánar tilgreindar eyrar, þegar þær mynduðust, til að varna landbroti sem yrði þegar áin kastist frá þeim upp að bökkum hennar. Þá var hinn 2. maí 2023 sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til framkvæmdanna. Kom fram að óskað væri eftir leyfi til bakkavarna og malartöku í og við Svarfaðardalsá. Hinn 21. apríl 2023 var óskað heimildar Fiskistofu til töku á 20.000 m3 af möl úr þremur áreyrum á þremur samliggjandi stöðum í Svarfaðardalsá í landi Grundar. Um sama leyti var sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til efnistökunnar, en afgreiðslu þeirrar umsóknar var frestað á meðan unnið væri að breytingu á aðalskipulagi. Mun þeirri vinnu vera ólokið.

Téðum umsóknunum fylgdu skýrslur sérfræðings í veiðimálum, dags. 11. og 21. apríl s.á., þar sem fram kom að meginmarkmið framkvæmda í landi Bakka væru að minnka álagið á vatnsleiðslu sem liggi undir ána í landi Bakka og á þá varnargarða sem verji hana ásamt því að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Meginmarkmið framkvæmda í landi Grundar væri að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Þá fylgdu umsóknunum jafnframt umsagnir Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21 apríl 2023, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar.

Hinn 2. maí 2023 gaf Fiskistofa út leyfi til fimm ára vegna „malartekju og bakkavarnar“ í landi Bakka. Var þar heimiluð efnistaka 37.000 m3 eða um 7.500 m3 á ári. Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 6. júní 2023 var umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar samþykkt og framkvæmdasviði falið að gefa út leyfið þegar umsækjandi hefði skilað inn efnistökuáætlun. Var það gefið út 19. s.m. og kom þar m.a. fram að efnisnám væri aðeins heimilt á tímabilinu 1. desember til 15. júní ár hvert, gera skyldi seiðamælingu fyrir og eftir framkvæmdir og að tryggt skyldi að hrygningarstöðvar í farveginum þorni ekki upp vegna efnisnámsins sem og að farvegur lokist ekki þannig að fiskur verði innlyksa. Þá gaf Fiskistofa hinn 12. maí 2023 út leyfi til fimm ára vegna efnistöku í landi Grundar. Var þar heimiluð efnistaka á 20.000 m3 af möl, eða um 4.000 m3 á ári. Í leyfum Fiskistofu var lögð á það áhersla að farið yrði eftir fyrirliggjandi ráðleggingum sérfræðings í veiðimálum og gengið snyrtilega frá svæðunum að framkvæmdum loknum. Einnig var lögð áhersla á að ekki yrði farið í framkvæmdir í ánni á tímabilinu 15. júní til 1. desember ár hvert.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að kærufestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki byrjað að líða eða sé a.m.k. óliðinn. Hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í blöðum eða kynntar kærendum. Annar kærenda hafi ekki heyrt af ákvörðunum fyrr en í mars 2024 og hinn hafi heyrt af ákvörðunum Fiskistofu fyrr á árinu, með eigin gagnaöflun, en um leyfi Dalvíkurbyggðar hafi hann heyrt 20. mars 2024. Kærendum hafi ekki á neinu tímamarki verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og grenndarkynning skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki farið fram.

Annmarkar hafi verið á málsmeðferð umsókna um framkvæmdaleyfi og ákvarðanirnar stangist á við ákvæði laga, þ. á m. 10. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og 8. og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá stangist ákvörðun sveitarstjórnar einnig á við ákvæði 2. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010. Ekki verði ráðið að fjallað hafi verið um áhrif framkvæmdanna á vatnshlotið Svarfaðardalsá eða önnur vatnshlot sem fyrir áhrifum kunni að verða, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Efnistökusvæðin séu í ósamræmi við Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008–2020, en þar sé ekki gert ráð fyrir námu í landi Grundar og náman sem gert sé ráð fyrir í landi Bakka sé mun minni en nú hafi verið veitt heimild til. Hvorki virðist hafa verið leitað umsagnar Orkustofnunar né Hafrannsóknarstofnunar, en skylt kunni að vera að leita leyfis Orkustofnunar samkvæmt vatnalögum nr. 15/2023 og auðlindalögum nr. 57/1998. Leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga og nýtingarleyfi skv. 6. gr. auðlindalaga virðist ekki hafa legið fyrir, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. október 2023, í máli nr. 74/2023, Hvammsvirkjun, hafi verið skorið úr um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarfélags verði leyfi annarra aðila að liggja fyrir. Þá stangist ákvörðun sveitarfélagsins á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis eða efnisgerðar auk þess að hún uppfylli ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Áður hafi verið gefin út leyfi til efnistöku á sama svæði. Þannig hafi á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 23. febrúar 2021 verið veitt leyfi til efnistöku í landi Bakka og Grundar og Fiskistofa hafi gefið út leyfi fyrir efnistöku í landi beggja jarðanna árið 2020, vegna þúsunda rúmmetra sem hafi runnið út í lok árs 2021. Annað leyfi hafi verið gefið út vegna 10.000 m3 efnistöku í landi Bakka árið 2022 sem hafi runnið út í júlí 2023. Í hinum kærðu ákvörðunum sé þrátt fyrir þetta ekki litið til heildarmagns og hugsanlegrar umhverfismatsskyldu, en skv. 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sem varði viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka, skuli m.a. líta til heildarumfangs og samlegðaráhrifa framkvæmda.

Samkvæmt ákvörðun Fiskistofu vegna efnistöku í landi Bakka, dags. 2. maí 2023, sé stærð efnistökusvæðisins 7,2 ha. Stærð efnistökusvæðisins í landi Grundar sé 3,1 ha og ljóst að þau séu yfir viðmiðunarmörkum laga nr. 111/2021. Ákvarðanir Fiskistofu og Dalvíkurbyggðar hafi því verið í ósamræmi við lög nr. 111/2021.

 Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umsókn um framkvæmda­leyfi til efnistöku í landi Grundar hafi enn ekki verið tekin til afgreiðslu hjá sveitarstjórn enda kalli hún á að Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 verði breytt. Unnið sé að slíkri breytingu, en sú vinna sé skammt komin. Kærendur skorti því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kæruliði sem snúi að Grund. Þá geti kærendur ekki talist eiga aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála og sé rétt að fram komi að með tilvísun til hagsmuna kærenda sem landeigenda „skammt neðan þeirra svæða er mál þetta fjallar um“ sé væntanlega átt við 2,5 km og 3 km. Aðild þeirra verði því ekki byggð á nálægð við Bakka enda jarðirnar langt neðan framkvæmda­­svæðisins og tilvísun til þess að framkvæmdirnar hafi áhrif á veiðiréttindi kærenda sé ekki útskýrð. Þá sé kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn, en kærendum hafi í síðasta lagi hinn 6. júní 2023 mátt vera kunnugt um ákvörðunina enda hún þá birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Ekkert hafi komið fram sem leiða eigi til ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku í landi Bakka. Við meðferð málsins hafi verið gætt að öllum formsatriðum og séu öll skilyrði laga uppfyllt, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd, 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmda­leyfi og gildandi skipulags. Allur undirbúningur útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fjallað hafi verið um þau atriði sem tilgreind séu í 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013 í skýrslu sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar og umsögn Fiskistofu. Þá séu skilyrði leyfisins afar ströng og sem slík í samræmi við þær kröfur sem fram komi í 9. gr. laganna.

Skýrsla sérfræðings í veiðimálum hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins og hafi þar verið lögð áhersla á að fylgst yrði með áhrifum framkvæmdarinnar á framkvæmdatímanum og þannig fylgst með vísitölu seiða og veiðitölum. Að auki séu lagðar til mótvægisaðgerðir og tekið fram að rask á farvegi árinnar sé eingöngu utan veiðitíma. Ekki sé gert ráð fyrir að efnistaka fari fram í árfarveginum sjálfum heldur áreyrum og um leið sé tryggt að áin geti runnið óhindruð um kvíslar og farvegi hennar. Þá sé lögð á það áhersla að ekki verði skilið við ána í stokki eða beinum þröngum farvegi heldur að farvegur eða -vegir hennar verði áfram jafn breiðir og hlykkjóttir og fyrir framkvæmdir. Með þessum mótvægisaðgerðum telji skýrsluhöfundar að hægt verði að tryggja að farvegurinn verði áfram eðlilegur og fjölbreyttur með búsvæðum fyrir seyði, stoppistöðum fyrir göngufisk og hrygningarstöðum. Í umsögn Fiskistofu frá 2. maí 2023 hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdina og vísað til þess að fara skyldi eftir ráðleggingum sem fram hefðu komið í fyrrnefndri skýrslu. Þá hafi þar verið lagt til að ekki yrðu framkvæmdir í ánni á tímabilinu frá 15. júní til 1. desember ár hvert. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út 19. júní 2023 og séu þar sett skilyrði í samræmi við niðurstöður og ráð­leggingar Fiskistofu og fyrrnefndra sérfræðinga, sem gangi að einhverju leyti lengra. Þannig sé í leyfinu lögð áhersla á að hrygningarstöðvar í farvegi árinnar þorni ekki upp og að farvegur hennar lokist ekki þannig að fiskur eigi hættu á að verða innlyksa. Þá séu ströng fyrirmæli um meðferð olíu- og olíuáfyllingar auk þess sem gerð sé krafa um að halda skuli fjölda tækja í lágmarki. Þá séu ennfremur ýmis ákvæði er varði notkun og ástand þeirra tækja sem notast verði við auk þess sem kveðið sé á um frágang við lok framkvæmdatíma.

Umfang efnistöku fari ekki yfir þau viðmið sem getið sé um í 2. viðauka laga nr. 111/2021 né heldur sé svæðið stærra en 2,5 ha. Allar vangaveltur um eldri efnistöku og möguleg heildaráhrif innan jarðarinnar eigi ekki við. Byggi kærendur á atvikum sem teygi sig mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann og séu þar um að ræða sjónarmið og röksemdir sem beri þegar af þeirri ástæðu að hafna.

 Málsrök Fiskstofu: Af hálfu Fiskistofu er bent á að í umsögnum Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21. apríl 2023, sem veittar hafi verið á grundvelli 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar. Samkvæmt lögunum sé hlutverk veiðifélaga að halda utan um hagsmuni veiðirétthafa og félagsmanna. Það sé því höndum félagsins að tryggja að félagsmenn séu nægjanlega upplýstir um slíkar framkvæmdir. Veiðifélaginu hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir hönd veiðiréttarhafa áður en Fiskistofa hafi tekið ákvörðun um veitingu hinna kærðu leyfa. Því fái Fiskistofa ekki séð að afla hafi þurft sjónarmiða hvers og eins veiðirétthafa.

Fiskistofa hafi lagt mat á áhrif efnistökunnar á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði og lífríki vatnsins að öðru leyti en stofnuninni sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við leyfisveitingu samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006. Í ákvörðunum Fiskistofu hafi ekki verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, umhverfismats skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana eða skipulags samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en Fiskistofa hafi ekki talið það falla undir sitt starfssvið enda sé efnistakan háð leyfum fleiri stjórnvalda.

 Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um efnistöku úr áreyrum Svarfaðardalsár fyrir landi jarðanna Bakka og Grundar. Hinar kærðu ákvarðanir í málinu voru teknar á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, um leyfi Fiskistofu til framkvæmda við ár og vötn, og 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Verða þær bornar undir úrskurðarnefndina á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 og 52. gr. skipulagslaga.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Kærendur eru landeigendur í Svarfaðardal og eru um 1–2  km í landareignir þeirra frá  ráðgerðum efnistökusvæðum, sem næst eru. Af þeim gögnum sem við nýtur í málinu verður að ætla að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, s.s. vegna veiðihagsmuna í Svarfaðardalsá sem og breytinga á straumhraða, straumstefnu eða annarra skyldra áhrifa á ánna fyrir landi þeirra. Verður þeim því játuð kæruaðild.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Af skýringum sem fylgdu frumvarpi til laganna má ráða að ástæða þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga er að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og var áréttað í því sam­hengi að eftir því sem framkvæmdir væru lengra komnar áður en skorið yrði úr ágreiningi um þær skapaðist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Af gögnum þessa máls má ráða að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun Dalvíkurbyggðar í marsmánuði ársins 2024. Verða kærur á þeirri ákvörðun því taldar hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests. Hvað varðar ákvarðanir Fiskistofu verður við það miðað samkvæmt gögnum þessa máls að eigandi Grafar hafi í marsmánuði 2024 fyrst orðið kunnugt um þær og að kæra hans hafi því borist innan kærufrests. Eigandi Brautarhóls hefur á hinn bóginn upplýst fyrir nefndinni að hann hafi öðlast aðgang að téðum leyfum 18. janúar 2024. Verður við það miðað að honum hafi þá fyrst orðið kunnugt um leyfin og kærufrestur vegna þeirra hafi byrjað að líða 19. s.m. Var kærufrestur með því liðinn þegar kæra hans barst nefndinni 21. mars 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærandans heldur einnig leyfishafa. Ekki verður þó litið framhjá því að kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, svo fullnægjandi væri, vegna ákvarðana Fiskistofu samkvæmt 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þessu verður að telja afsakanlegt að greind kæra eiganda Brautarhóls hafi ekki borist fyrr.

Svæðið sem hin kærðu framkvæmdaleyfi taka til hefur ekki verið deiliskipulagt. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Að auki skal sveitarstjórn leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Tekið er fram að um grenndarkynningu fari þá skv. 44. gr. laganna með þeim undantekningum sem þar eru tilgreindar. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánari skilyrði fyrir því að fallið sé frá grenndarkynningu eru mörkuð í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er gert ráð fyrir efnistöku í Svarfaðardalsá og slík svæði sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Í greinargerð skipulagsins segir m.a. um efnistöku í ám að veitt hafi verið tímabundin framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í þeim og við efnistöku úr ár­farvegum skuli þess gætt að hafa sem minnst áhrif á lífríki ánna. Taka beri mið af væntanlegum rannsóknarniðurstöðum þar að lútandi við gerð áætlana um slíka efnistöku og tekið fram að efnistökusvæði í árfarvegum geti að vissu marki talist endurnýjanleg auðlind. Er á skipulags­uppdrættinum gert ráð fyrir efnistökusvæði í Svarfaðardalsá fyrir landi Bakka og kemur fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar sé setnáma í árfarvegi. Stærð hennar er ekki tilgreind. Með þessu er í aðalskipulagi sveitarfélagsins að nokkru gerð grein fyrir efnistöku í landi Bakka, en þó naumast svo ítarlega að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu vegna hennar, sem þó var gert.

Á aðalskipulags­upp­drættinum er ekki sýnt efnistökusvæði í landi Grundar og hefur sveitar­félagið upplýst að það sé ástæða þess að ekki hafi enn verið samþykkt beiðni um heimildir til efnistöku þar.

Hvoru tveggja leyfi sem veitt eru skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 og 13. gr. skipulagslaga geta talist til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 111/2021, ef þær framkvæmdir sem leyfin heimila kunna að hafa eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lögin. Í flokki A í viðaukanum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skulu háðar slíku mati. Meðal framkvæmda í flokki B telst efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira. Til þessa telst einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði nær samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. lið 2.02.

Af hálfu Dalvíkurbyggðar hefur verið bent á að umfang efnistöku yfirstígi ekki þessi viðmið. Það stangast á við upplýsingar í Hafsjá Fiskistofu um útgefin leyfi, en þar má sjá að í Svarfaðardalsá eru í gildi leyfi til efnistöku á töluverðu svæði sem öll virðast innan jarðanna Bakka og Grundar. Samanlagt heimila þau efnisnám sem nemur allt að 57.000 m3 á að minnsta kosti 10 ha svæði. Þá er ótalin efnistaka sem heimiluð var samkvæmt leyfum sem eru útrunnin á sama svæði. Af þessu verður ráðið að áformuð efnistaka í Svarfaðardalsá á svæðinu hafi yfirstigið þau mörk sem tilgreind eru í lið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. þeirra laga skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka við lögin. Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Verður með vísan til þess að þeirrar skyldu var eigi gætt að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Í úrskurði þessum verður ekki fjallað um önnur sjónarmið sem kærendur hafa fært fram fyrir nefndinni, en sú bending þó gerð að úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 127/2023 og 128/2023, frá 21. desember 2023, geta haft leiðbeinandi þýðingu að því marki sem þar var til að dreifa áþekkri leyfisveitingu.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bakka.

15/2024 Primex

Með

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 9. janúar 2024 um álagningu gjalds að fjárhæð kr. 1.824.000 vegna vinnu við gerð tillögu að breyttu starfsleyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Primex ehf. ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 9. janúar 2024 um álagningu gjalds að fjárhæð kr. 1.824.000 vegna vinnu við gerð tillögu að breyttu starfsleyfi kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 18. mars 2024.

Málavextir: Kærandi rekur kítín- og kítósanframleiðslu á Siglufirði og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun sem gefið er út á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Var leyfið gefið út 3. júní 2015 og er gildistími þess til 3. júní 2031. Í apríl 2022 óskaði kærandi eftir upplýsingum varðandi starfsleyfi fyrir framleiðslu á saltsýru (HCl), vítissóda (NaOH) og klór (NaClO). Í svari Umhverfisstofnunar, dags. 4. s.m., kom fram að breyta þyrfti starfsleyfi félagsins, en til að byrja með þyrfti að athuga hjá Skipulagsstofnun hvort breytingin væri matsskyld. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 12. júlí 2022, var kærandi upplýstur um að breytingin kalli ekki á málsmeðferð á grundvelli laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Með erindi til Umhverfisstofnunar, dags. 18. október s.á., sótti kærandi um fyrirhugaða breytingu á starfsemi. Hinn 3. nóvember s.á. sendi stofnunin tilkynningu til kæranda um staðfestingu á móttöku umsóknar. Fram kom í tilkynningunni að fyrir vinnu stofnunarinnar við breytingu á starfsleyfi, sbr. 14. gr. laga nr. 7/1998, skuli greiða „tímagjald skv. 1. gr. gjaldskrárinnar, [19.000] vegna vinnu sérfræðinga, sbr. 4. mgr. 4. gr. gjaldskrár Umhverfisstofnunar.“ Jafnframt kom fram áður en til innheimtu gjaldsins kæmi yrði kærandi upplýstur um umfang vinnunnar.

Hinn 15. mars 2023 sendi Umhverfisstofnun kæranda tölvupóst með drögum að breyttu starfsleyfi og óskaði eftir athugasemdum. Kærandi svaraði stofnuninni 27. s.m. og fór fram á að starfsleyfið myndi haldast óbreytt vegna framleiðslu á kítín og kítósan, einu breytingarnar ættu að vera „viðbætur vegna sýru og sódavinnslu“. Í svari stofnunarinnar 30. s.m. kom fram að breytingar á starfsleyfinu væru að mestu vegna „sýru- og sódaframleiðslunnar“, en einnig hafi verið gerðar aðrar breytingar og uppfærslur. Kom og fram að þegar starfsleyfi væri „tekið upp til breytinga“ væri ávallt þörf á endurskoðun leyfisins. Uppfærð drög voru svo send kæranda með tölvupósti 22. ágúst s.á. Hinn 18. nóvember s.á. tilkynnti kærandi Umhverfisstofnun að fyrirtækið félli frá fyrirhugaðri breytingu á gildandi starfsleyfi. Vegna vinnu við breytingu á starfsleyfi kæranda gaf Umhverfisstofnun út reikning 9. janúar 2024 þar sem kæranda var gert að greiða kr. 1.824.000. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að umsókn hans um breytt starfsleyfi hafi einungis falið í sér útvíkkun starfsleyfisins þannig að það tæki til nýrra þátta vegna framleiðslu á saltsýru, vítissóda og klór. Í aðdraganda umsóknarinnar hafi starfsmenn kæranda átt í ýmsum samskiptum við Umhverfisstofnun og m.a. spurt hvort ekki væri öruggt að „núverandi starfsleyfi haldi sér alltaf.“ Í svari stofnunarinnar 4. október 2022 hafi komið fram að ef breytingin yrði kærð og felld úr gildi yrði það aðeins breytingin sem væri ógild. Ekki hafi verið unnt að skilja svör stofnunarinnar öðruvísi en svo að ekki stæði til að gera breytingar á þeim hluta starfsleyfisins sem umsóknin hafi ekki lotið að. Í öllu falli hafi stofnuninni borið að veita kæranda skýr svör ef til stæði að gera slíkar breytingar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluframkvæmd. Eftir að hafa yfirfarið drög að breyttu starfsleyfi Umhverfisstofnunar hafi komið í ljós að nýtt starfsleyfi myndi leggja umtalsverðar kvaðir á kæranda sem hafi varðað þá starfsemi sem hann hafi þegar haft gilt starfsleyfi fyrir. Í ljósi þess hversu íþyngjandi nýtt starfsleyfi myndi verða hafi kærandi ákveðið að falla frá umsókninni.

Yfirlit yfir tímaskráningu starfsmanna Umhverfisstofnunar vegna vinnu við gerð tillögu að breyttu starfsleyfi sé afar ónákvæmt og hafi ekki að geyma greinargóða sundurliðun á verkþáttum starfsmanna stofnunarinnar. Skipta megi skýringum í tímaskráningunni upp með eftirfarandi hætti: 83,24 klst í gerð tillögu, 11,06 klst í mat á umsókn og 1,5 klst í yfirlestur. Samtals sé um að ræða 95,8 klst í vinnu stofnunarinnar. Rétt sé að athuga að þegar kæranda hafi borist drög að breyttu starfsleyfi 15. mars 2023 þá hafi 89 klst vinna þegar fallið til.

Við gjaldtöku vegna breytinga á starfsleyfi kæranda beri að leggja til grundvallar þá gjaldskrá sem hafi verið í gildi þegar tilkynnt hafi verið um fyrirhugaðar breytingar, þ.e. 18. október 2022. Því verði einungis eldri gjaldskrá nr. 535/2015 lögð til grundvallar í máli þessu en ekki yngri gjaldskrá nr. 206/2023. Í öllu falli hafi 80,55 klst verið skráðar á gildistíma eldir reglugerðarinnar, en 15,25 klst eftir að sú yngri hafi tekið gildi. Beiting nýrrar gjaldskrár afturvirkt myndi ganga gegn meginreglunni um bann við afturvirkni laga svo og reglu 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hafi Umhverfisstofnun ekki farið að 3. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015, en samkvæmt ákvæðinu hafi stofnuninni borið að gera kæranda grein fyrir því tafarlaust þegar ljóst væri að kostnaður við breytingu færi umfram kr. 158.200 og hvert umfang þeirrar vinnu yrði. Samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar hafi unninn tímafjöldi hinn 7. nóvember 2022 þegar náð því marki að kostnaður væri kominn upp fyrir framangreint viðmið.

Skráningar í verkbókhaldi Umhverfisstofnunar, sem lagðar séu til grundvallar umþrættri gjaldtöku, séu í litlu útskýrðar og feli að mestu í sér tímaskráningar starfsmanna án nánari tilgreiningar. Kærandi hafi kallað eftir nánari skýringum, en fengið þau svör að ekki væru til frekari skýringar á einstökum verkliðum. Hafi stofnunin því ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að tímagjald stofnunarinnar samsvari þeim kostnaði sem hafi hlotist vegna vinnu starfsmanna hennar, enda liggi engin gögn fyrir um þá verkhluta sem tilgreindir séu í yfirlitinu. Hin kærða gjaldtaka sé af þessari ástæðu úr hófi að teknu tilliti til umfangs verkefnisins, sbr. einnig áætlaðan kostnað við breytingu á stafsleyfi skv. 3. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015.

Um breytingu á starfsleyfi gildi 14. gr. laga nr. 7/1998 en þar segi í 1. mgr. að útgefandi starfsleyfis skuli endurskoða starfsleyfi, sbr. 6. gr. eftir, eftir því sem við eigi. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 66/2017, um breytingu á lögum nr. 7/1998, hafi í umfjöllun um 7. gr. verið vísað til þess að framangreind 14. gr. væri innleiðing á 20. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar segi m.a. að umsókn um leyfi vegna breytinga sem rekstraraðili áformi og ákvörðun lögbærs yfirvalds „skulu taka til þeirra hluta stöðvarinnar og þeirra atriða sem eru tilgreind í 12. gr. sem þessi umtalsverða breyting gæti haft áhrif á.“ Sú breyting á starfsemi sem kærandi hafi áformað hafi takmarkast við að bæta við nýjum þætti, en að öðru leyti hafi ekki verið um að ræða breytingar á starfseminni. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 7/1998 og 20. gr. tilskipunar 2010/75/ESB, sbr. og einnig meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, hafi Umhverfisstofnun verið óheimilt að ganga lengra í endurskoðun starfsleyfis heldur en þörf hafi verið á til að mæta þeim kröfum sem hafi beinlínis varðað breytta starfsemi kæranda. Þannig hafi endurskoðun starfsleyfisins einungis átt að taka til uppfærslu á leyfinu „eftir því sem við á“ um þá starfsemi sem fyrirhugað var að bæta við fyrri starfsemi kæranda. Þá beri að horfa til þess að kærandi hafi verið með gilt starfsleyfi og hafi Umhverfisstofnun því verið óheimilt að nota nýja starfsemi kæranda sem „tylliástæðu“ til að setja kæranda íþyngjandi skilyrði. Sú vinna sem Umhverfisstofnun hafi lagt í vegna breytingar á starfsleyfið hafi því verið óumbeðin, óþörf og ólögmæt.

Eftir því sem komist verði næst byggist gjaldskrá Umhverfisstofnunar á rekstraráætlun stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki undir höndum þá útreikninga sem sé grundvöllur gjaldskrár stofnunarinnar, en byggt sé því að hún eigi sér ekki stoð í lögum. Þannig segi í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 7/1998 að upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Skorað sé á úrskurðarnefndina að afla viðeigandi upplýsinga og leggja mat á hvort framangreind gjaldtaka og tímagjald samræmist þeirri vinnu sem umrædd heimild taki til, m.a. að teknu tilliti til fjárveitinga til stofnunarinnar og lögbundins hlutverks. Enn fremur sé byggt á því að sé tímaskráning starfsmanna stofnunarinnar í samræmi við raunverulega vinnu við umsókn kæranda þá hafi sú vinna að stórum hluta verið tilefnislaus, enda ekki þörf á að ráðast í að taka starfsleyfi kæranda upp í heild sinni.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin vísar til þess að breytingin sem kærandi hafi sótt um hafi verið fyrir framleiðslu ólífrænna efna sem falli undir tölul. 4.2 í viðauka I við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lögin kveði ekki skýrt á um málsmeðferð vegna umsókna um breytingu á starfsleyfum fyrir utan að hana þurfi að auglýsa ef um sé að ræða breytingu á starfsleyfisskilyrðum, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Breytingar hafi í fyrsta lagi verið gerðar með tilliti til BAT-niðurstaðna. Þar sem BAT-niðurstöður hafi legið fyrir þá hafi verið tekið mið af þeim við gerð skilyrða starfsleyfisins. Mesta vinnan hafi farið í að ákveða hvaða skilyrði og hvaða viðmiðunarmörk ættu að vera í starfsleyfinu, en eins og sjá megi af starfsleyfistillögunni hafi þurft að taka mið af tveimur BAT-niðurstöðum. Vinna sérfræðinga við að kynna sér BAT-niðurstöður hafi ekki verið skráð á starfsleyfismálið í verkbókhaldi og hafi sá hluti vinnunnar því ekki verið með í gjaldinu.

Í öðru lagi hafi breytingar verið gerðar á starfsleyfi kæranda vegna laga- og reglugerðarbreytinga. Umhverfisstofnun hafi heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 til þess að breyta starfsleyfi áður en gildistími þess sé liðinn vegna breytinga á reglum um mengunarvarnir. Frá útgáfu leyfisins hafi orðið miklar breytingar á regluverki um mengunarvarnir, svo sem á lögum nr. 7/1998 vegna innleiðingar tilskipunar 2010/75/EB og setningu reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Uppfærsla lagaákvæða hafi ekki tekið langan tíma, mögulega 1–2 klst. Ekki sé um óhóflega vinnu að ræða þar sem rekstraraðila beri að fara eftir gildandi lögum og reglugerðum, sbr. gr. 1.1. í starfsleyfi kæranda og 40. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 56. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Að lokum hafi breytingar verið gerðar á starfsleyfinu til samræmis við samþykkta Vatnaáætlun fyrir Ísland 2022–2027 sem tekið hafi gildi 6. apríl 2022. Umhverfisstofnun hafi hinn 18. ágúst 2023 óskað eftir mati á áhrifum á ástandi og umhverfismarkmiði þeirra vatnshlota sem hafi tengst fyrirhugaðri starfsemi. Óskað hafi verið eftir þeim upplýsingum til að tryggja að við undirbúning leyfisins yrði lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála fylgt sem og þeirri stefnumörkun sem komi fram í áðurnefndri vatnaáætlun. Ein stærsta breytingin á starfsleyfi kærandi hafi verið ákvæði um vöktun á vatnshlotinu sem kærandi losi í vegna starfsemi hans.

Umhverfisstofnun mótmæli því að hægt sé að skilja svör starfsmanns stofnunarinnar frá 4. október 2022 á þann veg að ekki stæði til að gera breytingar á gildandi starfsleyfi. Vísað sé tölvupósts frá 26. s.m. þar sem stofnunin hafi upplýst kæranda að þar sem um væri að ræða nýja framleiðslulínu þá myndi það krefjast umtalsverðra breyting á starfsleyfinu og að fyrirtækið mætti búast við því að starfsleyfisvinnslan gæti tekið sex mánuði.

Á tímabilinu 26. október 2022 til 1. mars 2023 hafi gjaldskrá Umhverfisstofnunar nr. 535/2015 verið í gildi, en frá 1. mars til 29. ágúst 2023 hafi gjaldskrá nr. 206/2023 gilt. Í áðurgildandi gjaldskrá hafi verið gerður greinarmunur á gjaldi samkvæmt 14. gr. laga nr. 7/1998 annars vegar og 15. gr. laganna hins vegar. Í kæru sé byggt á því að innheimta hefði átt kr. 158.200 samkvæmt 3. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar, en líklega mun kæranda hafa átt við 5. mgr. 4. gr. Sú málsgrein lúti að innheimtu gjalds fyrir endurskoðun og breytingu á starfsleyfi samkvæmt 15. gr. laga nr. 7/1998, en sú innheimta eigi ekki við þar sem í málinu hafi verið um að ræða breytingu samkvæmt 14. gr. laganna. Bent sé á að í móttökustaðfestingu Umhverfisstofnunar frá 3. nóvember hafi kærandi verið upplýstur um að fyrir vinnu stofnunarinnar skyldi greiða tímagjald samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar, sem hafi verið kr. 19.000, sbr. 4. mgr. 4. gr. hennar.

Að beiðni kæranda hafi Umhverfisstofnun sent verkbókhald í töfluskjali sem innihaldi tímaskráningar, verkhlutar og nafn starfsmanns. Að mati stofnunarinnar séu það fullnægjandi upplýsingar. Bent sé á að sérfræðingar stofnunarinnar skrái ekki niður nákvæmlega hvaða verkefnum þeir sinni hverju sinni. Vinnan sé skráð í verkbókhald, en undir hverju verknúmeri séu nokkrir verkhlutar, m.a. mat á umsókn og gerð tillögu. Áhersla sé lögð á að sérfræðingar skrái undir hvaða verkhluta viðkomandi vinna falli en ekki nákvæmlega hvaða faglegu þáttum þeir sinni.

Mengunarbótareglan eða greiðslureglan kveði á um að sá sem mengi beri að jafnaði þann kostnað sem hljótist af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum vegna mengunar. Með reglunni sé mengunarvaldur gerður ábyrgur og meðvitaður um ábyrgð sína. Umrædd regla sé forsenda gjaldskrárákvæða um gjöld fyrir vinnslu starfsleyfis og eftirlit með mengandi starfsemi. Kostnaður vegna vinnu við starfsleyfi og eftirlit með starfsemi eigi ekki að falla á almenning heldur rekstraraðila mengandi starfsemi. Sú vinna sem hafi farið í gera breytingar á starfsleyfi kæranda eigi að vera greiddur af fyrirtækinu en ekki almenningi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Í athugasemdum kæranda er bent á að sú vinna sem Umhverfisstofnun telji upp í umsögn sinni lúti að endurskoðun sem allajafna fari fram við endurnýjun starfsleyfis eða þegar sótt sé um nýtt starfsleyfi. Slíkt hefði ekki átt að koma til álita vegna þeirra breytinga sem óskað hafi verið eftir af hálfu kæranda, enda til staðar gilt starfsleyfi út árið 2031. Í öllu falli hefði slík endurskoðun þurft að fela í sér sjálfstæða ákvörðun og byggja á sérstakri lagaheimild. Ítrekuð séu þau sjónarmið að skýrlega komi fram í 14. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 20. gr. tilskipunar 2010/75/ESB að uppfæra skuli leyfið „eftir því sem við á.“ Með endurskoðun starfsleyfisins í heild hafi stofnunin farið út fyrir framangreindan lagaáskilnað og meðalhófsreglu.

Umhverfisstofnun byggi á því að 4. mgr. 4. gr. þágildandi gjaldskrár nr. 535/2015, sbr. 14. gr. laga nr. 7/1998, eigi við í málinu. Í raun myndi kærandi ekki gera athugasemd við það nema fyrir þær sakir að verulegur hluti vinnu stofnunarinnar sé til kominn vegna endurskoðunar starfsleyfisins, en ekki vegna þeirra breytinga sem kærandi hafi óskað eftir. Hafi á annað borð verið fyrir hendi heimild til að ráðast í þá endurskoðun þá hljóti gjaldtökuheimildin að þurfa að byggjast á 5. mgr. 4. gr. sem vísi til endurskoðunar samkvæmt 15. gr. laga nr. 7/1998.

Fjárhæð þess gjalds sem Umhverfisstofnun áskilji fyrir eftirlit sérfræðinga stofnunarinnar megi jafna við þóknun sérfræðinga sem selji þjónustu sína á samkeppnismarkaði. Sú skráning sem sérfræðingar stofnunarinnar viðhafi sé í engu samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til slíkra sérfræðinga við veitingu almennrar sérfræðiþjónustu. Að mati kæranda ættu kröfur til stofnunarinnar um nákvæmni skráningar að vera enn ríkari, enda séu þeir aðilar sem lúti eftirlit stofnunarinnar nauðbeygðir til að eiga í „viðskiptum“ við stofnunina og verða því að eiga þess kost að geta yfirfarið og sannreynt gildi tímaskráningar og þeirrar þóknunar sem krafist sé.

Svonefnd mengunarbótaregla hafi einungis þýðingu að því leytinu til sem hún hafi verið innleidd í íslensk lög með gjaldtökuheimildum sem uppfylli kröfur laga og stjórnarskrárinnar. Umhverfisstofnun segi í umsögn sinni að hún telji rétt að kostnaðurinn sem hljótist af umræddri vinnu stofnunarinnar sé greiddur af fyrirtækinu en ekki almenningi. Kærandi minni stofnunina á að þrátt fyrir þá skoðun hennar sé það Alþingi sem ákveði með lögum hvar og hvernig skuli staðið að fjáröflun til hins opinbera innan þeirra marka sem stjórnarskráin setji.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að leggja á kæranda gjald að fjárhæð kr. 1.824.000 vegna vinnu við gerð tillögu að breyttu starfsleyfi. Svo sem greinir í málavöxtum rekur kærandi kítín- og kítósanframleiðslu á Siglufirði, en fyrir liggur að kærandi tilkynnti Umhverfisstofnun um þau áform sín að hefja framleiðslu á saltsýru (HCl), vítissóda (NaOH) og klór (NaClO). Í drögum Umhverfisstofnunar að breyttu starfsleyfi sem send voru kæranda var að finna tillögur sem vörðuðu fleiri þætti en þá viðbótarframleiðslu sem hann stefndi að, en forsendum þeirra tillagna hefur verið lýst af Umhverfisstofnun fyrir úrskurðarnefndinni. Kærandi féll á hinn bóginn frá fyrirhuguðum framleiðsluáformum og er starfsleyfi hans óbreytt.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að útgefanda starfsleyfis sé heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess sé liðinn vegna breyttra forsendna, sem þar eru nánar taldar. Í 2. mgr. 14. gr. laganna er þessu til viðbótar mælt fyrir um skyldu rekstraraðila til að upplýsa um fyrirhugaða breytingu á starfsemi sem hann áformi og skal þá endurskoða starfsleyfið sé álitið að breytingin sé umtalsverð. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að breyting teljist umtalsverð ef hún nær þeim viðmiðunargildum fyrir afkastagetu sem sett eru fram í viðauka I. Fyrir liggur að sú starfsemi sem kærandi sóttist eftir fellur undir ákvæði töluliðar 4.2 í viðauka I við lögin, þ.e. framleiðsla ólífrænna efna, og verður því að telja að áformin hafi falið í sér breyttar forsendur þannig að tilefni hafi verið til endurskoðunar á starfsleyfi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem kærandi hefur fært fram fyrir úrskurðarnefndinni í máli þessu þykir rétt að benda á að Umhverfisstofnun hefði mátt gefa kæranda skýrari leiðbeiningar um þessa málsmeðferð og þær breytingar sem vænta mætti að gerðar yrðu á starfsleyfi hans við þessa endurskoðun.

Að meginstefnu til er fjár til lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með skattheimtu. Umhverfisstofnun er þó heimilt að taka gjald fyrir útgáfu starfsleyfa, sem og endurskoðun eða breytingar á starfsleyfum, sbr. 6. gr. Þá skal ráðherra samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laganna setja, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal hún byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Á grundvelli fyrrgreindrar gjaldtökuheimildar var sett gjaldskrá nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar og tók hún gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Gjaldskráin féll svo úr gildi 2. mars 2023 við gildstöku gjaldskrár nr. 206/2023. Fyrir liggur að kærandi tilkynnti Umhverfisstofnun um fyrirhugaða breytingu á starfsemi 18. október 2022 og var kæranda send bréf um staðfestingu á móttöku umsóknar 3. nóvember s.á. Í því bréfi kemur fram að fyrir vinnu við breytingar á starfsleyfi, sbr. 14. gr. laga nr. 7/1998, skuli „greiða tímagjald skv. 1. gr. gjaldskrárinnar, [19.000] vegna vinnu sérfræðinga, sbr. 4. mgr. 4. gr. gjaldskrár Umhverfisstofnunar.“ Með hliðsjón af því bar Umhverfisstofnun að byggja hina kærðu álagningu á gjaldskrá nr. 535/2015. Gögn málsins bera ekki með sér að gjaldskrá nr. 206/2023 hafi verið lögð til grundvallar álagningu.

Fyrirmæli 4. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 hljóðuðu svo: „Fyrir mat Umhverfisstofnunar á tilkynningu um breytingar á starfsleyfi, sbr. 14. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og 14. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, skal greiða tímagjald skv. 1. gr. gjaldskrárinnar vegna vinnu sérfræðinga. Reikningur skal gefinn út þegar ákvörðun Umhverfisstofnunar liggur fyrir.“ Í 1. gr. gjaldskrárinnar var svo kveðið á um að Umhverfistofnun innheimti gjald samkvæmt gjaldskránni sem næmi kr. 19.000 „á hverja klukkustund fyrir sérfræðing fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir.“ Á því er byggt af Umhverfisstofnun að 5. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar eigi ekki við þar sem hún varði reglulega endurskoðun starfsleyfis skv. 15. gr. laga nr. 7/1998, svo sem hefur komið fram við meðferð málsins.

Með hliðsjón af orðalagi tilvísaðrar 4. mgr. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 verður að telja að Umhverfisstofnun hafi ekki verið heimilt að innheimta gjald fyrir aðra vinnu á grundvelli þeirrar greinar en þá sem laut að mati á tilkynningu kæranda um breytingu á starfsleyfi. Samkvæmt verkbókhaldi Umhverfisstofnunar fór sjö klukkustunda vinna í mat á umsókn kæranda frá því að hann tilkynnti 18. október 2022 um fyrirhugaða breytingu á starfsemi þar til stofnunin staðfesti með bréfi, dags. 3. nóvember s.á., að umsóknin væri fullnægjandi og að stofnunin myndi hefja vinnu að gerð tillögu að starfsleyfi. Þykir því ljóst að umtalsverður hluti hinnar kærðu álagningar þjónustugjalds, eða kr. 1.691.000 fyrir 89 klst sérfræðivinnu, átti sér ekki viðhlítandi stoð í þágildandi gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Verður sá hluti hinnar kærðu álagningar því felldur úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 9. janúar 2024 um álagningu gjalds að þeim hluta er varðar vinnu umfram mat á tilkynningu kæranda um breytingu á starfsemi, samtals að fjárhæð kr. 1.691.000. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

54/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 54/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 20204 um að kærendum bæri að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga að viðlögðum dagssektum að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Laugarásvegar 63, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 að kærendum beri að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga að viðlögðum dagssektum að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2024.

Málsatvik og rök: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli lóðarhafa Laugarásvegar 61 og 63 vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Reistur hefur verið skjólveggur á mörkum lóðanna, en úrskurðarnefndin hefur einnig til meðferðar mál sem varðar stoðvegg á lóðamörkum Laugarásvegar 63 og 59. Auk þess hafa borgaryfirvöld til meðferðar mál er varða m.a. heitan pott á lóð 63 við Laugarásveg.

Í bréfi byggingarfulltrúa til annars kæranda, dags. 2. febrúar 2024, kom fram að þinglýstum eigendum væri gert að leggja fram byggingarleyfisumsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa Laugarásvegar 61 vegna girðingar á lóðamörkum innan 14 daga frá móttöku bréfsins. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða beitingu dagsektarákvæða. Í tölvubréfi frá öðrum kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. s.m. var bókað að eigandi lóðar 63 hyggðist gera lokatilraun til að ná samkomulagi við eiganda lóðarhafa nr. 61 varðandi girðingu á lóðarmörkum. Næðist það ekki mundi hann fjarlægja umrædda girðingu. Með tölvubréfi til annars kæranda dags. 1. mars s.á. kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að reyna að ná samkomulagi við eiganda Laugarásvegar 61 um girðingu á lóðarmörkum og senda það til byggingarfulltrúa. Að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn, líkt og kærandinn hefði sagst ætla að gera. Með tölvubréfi dags. 4. apríl s.á. var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki til byggingarfulltrúa og í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. s.m., sem ritað var af þessu tilefni, til annars kærenda sagði:

Hér með er veittur lokafrestur til að fjarlægja skjólvegg við lóðamörk Laugarásvegar 61. Verði skjólveggur ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku þessa bréfs áformar byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það dregst að verða við umræddri kröfu. Jafnframt er veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum vegna áforma um álagningu fyrirhugaðra dagsekta, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili er að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 20204 að kærendum beri að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga að viðlögðum dagssektum að fjárhæð kr. 25.000. Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kæranda. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 20204 um að kærendum bæri að fjarlægja skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga að viðlögðum dagssektum að fjárhæð kr. 25.000.

40/2024 Seyðisfjörður í Djúpi

Með

Árið 2024, föstudaginn 17. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar 2024 um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2024, kærir náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar s.á., um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 2. maí 2024.

Málavextir: Sjókvíaeldi Háafells ehf. í Ísafjarðardjúpi hefur hlotið málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, en hinn 22. desember 2020 birti Skipulagsstofnun álit um mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum félagsins. Núverandi fyrirkomulag eldis samkvæmt starfs- og rekstrarleyfum félagsins gerir ráð fyrir kynslóðaskiptu eldi þannig að hverju sinni verði aðeins einn árgangur af laxi í eldi á hverju árgangasvæði sem félagið hafi yfir að ráða. Þau skilyrði eru jafnframt sett að á einu af þremur árgangasvæðum félagsins sé aðeins heimilt að ala ófrjóan lax. Með því er gert ráð fyrir að framleidd verði 6.800 tonn af frjóum laxi í tvö ár af þremur og síðan sama magn af ófrjóum laxi í eitt ár.

Hinn 5. janúar 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Háafelli ehf. um tímabundna notkun á eldissvæði í Seyðisfirði samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, sbr. lið  13.02 í 1. viðauka laganna. Fram kom að Háafell teldi eldi á ófrjóum laxi enn óraunhæfan valkost. Unnið sé að slátrun á eldislaxi úr kvíum í Skötufirði og fyrirséð að minnsti fiskurinn verði ekki tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst 2024. Sú breyting sem áformuð sé á eldinu felist í tímabundinni notkun á tveimur eldissvæðum með mismunandi árgöngum eldislax innan sama árgangasvæðis. Um sé að ræða eldissvæðin Ytra-Kofradýpi og Seyðisfjörð. Um sé að ræða tímabundið frávik sem vari frá vori 2024 til vorsins 2026 og er ráðgerðu fyrirkomulagi lýst nánar, þ.m.t. fjölda útsettra seiða, eldistíma í sjó, fóðurnotkun og áætlaðri losun.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 22. febrúar 2024 og var það álit stofnunarinnar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er gerð athugasemd um að ástand standsjávarhlotsins Ísafjarðardjúp hafi ekki verið metið samkvæmt ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála  og liggi með því engar upplýsingar fyrir um hvort ástand þess sé í samræmi við umhverfismarkmið þess. Þá hafi ekki verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp til þess að áætla rek á laxalúsalirfum milli eldissvæða, en hugsanlegt sé að rek þeirra aukist á milli eldissvæða við breytinguna. Þá eru leiddar að því líkur að aukin tíðni slysasleppinga í sjókvíaeldi verði til þess að villtur fiskur smitist af laxalús í auknum mæli. Ástæða sé til að gera ríkar kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netapoka, en engin skilyrði séu þó sett um slíka vöktun. Umfjöllun um mótvægisaðgerðir vegna laxalúsar sé ófullnægjandi. Í umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands sé auk þessa fjallað um að aukið lífrænt álag geti valdið súrefnisskorti við botn Seyðisfjarðar. Takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um súrefnismettun í firðinum og þurfi að vakta súrefnisástand við botn hans, en fyrirkomulagi slíkrar vöktunar sé ekki lýst í svörum framkvæmdaraðila.

Á það er bent að þrátt fyrir að hin kærða ákvörðun hafi að geyma umfjöllun um mótvægisaðgerðir séu þar engar ábendingar gerðar um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem taki mið af þeim. Þá hafi hin kærða ákvörðun heldur ekki að geyma ábendingar um vöktun á ástandi netapoka þrátt fyrir þá afstöðu Skipulagsstofnunar að ástæða sé til þess í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár að gerðar séu ríkar kröfur til eldisaðila að því leyti. Af öllu þessu verði ekki ráðið að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi legið fyrir Skipulagsstofnun upplýsingar sem nægt hafi til að slá því föstu að ólíklegt væri að hin tilkynnta breyting hefði umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 111/2021, og verði því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Háafells: Í umsögn Háafells til úrskurðarnefndarinnar er í tilefni af umfjöllun lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011 bent á að hlutverk rekstraraðila sé að meta ástandið undir og í næsta nágrenni sjókvía þar sem áhrifa eldis gæti. Þær niðurstöður séu birtar á vef Umhverfisstofnunar í samræmi við vöktunaráætlun sem byggi á stöðlunum ÍSO 12878 og NS 9410. Í samræmi við það verði tekin grunnsýni áður en eldi hefjist með sambærilegum hætti og gert hafi verið fyrir önnur eldissvæði félagsins, en með því sé metið botndýralíf, ástand botns og sjávar undir og við sjókvíar, í upphafi, á starfstíma og að loknum hvíldartíma. Nýtist þessar mælingar ásamt öðrum mælingum til að meta ástand vatnshlotsins. Það sé rétt að ekki hafi verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp, en bent sé á að umfang eldis þar sé tiltöluleg lítið, um 6.000 tonn af lífmassa af metnu 30.000 tonna burðarþoli hafsvæðisins samkvæmt opinberum gögnum og muni aukning á lífmassa eldisfisks verða hæg á næstu tveimur árum meðan ráðgert eldi fari fram í Seyðisfirði. Hvað snerti vöktun á netapoka hafi félagið lengi miðað við að eftirlit sé með honum á u.þ.b. mánaðar fresti, en auk þess hafi nýverið verið gerðar breytingar á reglugerð sem varði tíðni og tilhögun eftirlits með netapokum. Jafnframt er lýst þeim aðferðum sem ráðgerðar eru til þess að vakta álag vegna lúsar og nánari lýsing sett fram á ráðgerðum fyrirbyggjandi úrræðum vegna laxalúsar.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar: Í athugasemdum Skipulagsstofnunar er í tilefni af kæru fjallað nánar um þau sjónarmið sem hin kærða ákvörðun hafi verið reist á. Á það er bent að Umhverfisstofnun hafi álitið að áhrif framkvæmdarinnar lægju ljós fyrir og að umhverfismatsferli myndi ekki varpa skýrari mynd á þau. Með þessu hafi stofnunin, sem fari með framkvæmd laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011, ekki talið af þýðingu þótt ekki lægju fyrir nánari upplýsingar um ástand vatnhlotsins Ísafjarðardjúps. Auk þess hafi í tilkynningu framkvæmdaraðila komið fram að í heild sé Ísafjarðardjúp, að undanskildum Skutulsfirði, metið utan álags og að mótvægisaðgerðir vegna álags feli í sér að dregið verði úr losun næringarefna og lífrænna efna frá eldinu.

Vegna athugasemda um að rétt hefði verið að setja skilyrði fyrir framkvæmdinni með hinni kærðu ákvörðun er bent á að 20. gr. laga nr. 111/2021 hafi ekki að geyma heimild til slíks þar sem aðeins sé gert ráð fyrir því að settar séu fram „ábendingar“ í matsskylduákvörðun. Hafi slíkar ábendingar verið gerðar hvað varði vöktun á ástandi netapoka. Um leið er vakin athygli á skilyrði í áliti stofnunarinnar frá 22. desember 2020 um matsskýrslu framkvæmdaraðila um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi sem beinst hafi að því að lágmarka líkur á vandamálum vegna laxalúsar, slysasleppingum og erfðablöndun.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar 2024, að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kæruheimild er í a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi nýtur aðildar að máli þessu á þeim grundvelli, en hann uppfyllir skilyrði 4. mgr. 4. gr. sömu laga sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hags­muna­samtök.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er kveðið á um að Skipulagsstofnunar geri hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni um hvort framkvæmdi skuli háð umhverfismati og hafi ákvarðanir þar að lútandi aðgengilega á netinu. Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 22. febrúar 2024 og var frétt um hana birt á vefsíðu Skipulagsstofnunar þann næsta dag. Þá var hún birt á gagna- og samráðsgátt stofnunnar um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar, en ekki kemur fram hvenær það var gert.

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 28. mars 2024 var kærufrestur til nefndarinnar liðinn. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá, samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að veiti lægri sett stjórnvald rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geti verið tilefni til að líta svo á að afsakanlegt sé að kæra hafi borist of seint. Þar er þó einnig tiltekið að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.  Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki aðeins hagsmuni sem kærandi hefur látið sig varða, skv. 2. málslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, heldur einnig framkvæmdaraðila. Ekki verður þó litið framhjá því að Skipulagsstofnun veitti leiðbeiningar við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar væri til 28. mars 2024. Með hliðsjón af því að kæra barst innan þess kærufrests sem Skipulagsstofnun tilgreindi með þessu verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr og verður mál þetta því tekið til efnimeðferðar.

—–

Hinn 5. janúar 2024 voru umrædd áform framkvæmdaraðila tilkynnt Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu, samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka við lögin, en þar undir falla m.a. allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í viðauka 1. við lögin.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila var fyrirhugaðri framkvæmd lýst og kom m.a. fram að við breytinguna muni fjarlægð á milli árganga í eldi styttast úr 8 km í 5 km. Með því aukist líkur á að sjúkdómar og sníkjudýr eins og laxalús geti borist á milli eldissvæða, en fjarlægðin verði samt yfir þeim 5 km viðmiðum sem sett hafi verið í reglugerð um fiskeldi fyrir fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi. Þá hafi verið boðaðar mótvægisaðgerðir til að halda laxalús í skefjum og sé tekið undir athugasemdir í umsögnum um mikilvægi þess að fylgst sé með sjúkdómsvöldum og sníkjudýrum og lagt til að útbúin verði vöktunar- og viðbragðsáætlun sem það varði. Þá er reifað að ekki sé um að ræða breytingu á hámarkslífmassa, fóðurnotkun eða staðsetningu eldissvæða og megi því gera ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að ákveðnu leyti sambærileg því sem gert var ráð fyrir í matsskýrslu vegna starfseminnar. Tekið var undir mikilvægi þess að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði í samræmi við álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á sínum tíma. Yrði það gert ættu áhrif vegna losunar næringarefna, og þar með áhrif á vatnshlot, að vera nokkuð sambærileg við þau sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu. Ennfremur, í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár, væri ástæða til að gerðar yrðu ríkari kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netpoka.

Vegna tilkynningarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Ísafjarðarbæjar, Súðavíkurhrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun áleit að áhrif framkvæmdarinnar lægju ljós fyrir og að ferli umhverfismats mundi ekki varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið. Jafnframt gerði stofnunin ábendingar sem varða næringarefnaálag auk þess að fjallað var um gildistöku vatnaáætlunar 2022–2027 og gerð bending um að leyfisveitanda sé skylt að tryggja að leyfi séu í samræmi við þá stefnumörkun sem þar komi fram.

Í umsögn Matvælastofnunar var bent á varðandi tímabundna notkun á eldissvæði Háafells í Seyðisfirði að mikilvægt væri að minnsta fjarlægð milli mismunandi kynslóða væri eigi minni en 5 km við útmörk kvíastæða. Þá benti stofnunin á að breyta gæti þurft rekstrarleyfi rekstraraðila þar sem sjókvíaeldissvæði væru skilgreind í rekstrarleyfi og væri tilkynnt framkvæmd ekki í samræmi við það. Verði þessu gerð skil væri þó ekki tilefni til þess að farið verði fram á umhverfismat með tilliti til útgáfu rekstrarleyfis, rekstrarleyfisskilyrða eða sjúkdómavarna.

Hafrannsóknastofnun benti í umsögn sinni á að takmarkaðar tímaraðir mælinga á súrefni (mettun og styrkur) væru til staðar fyrir Seyðisfjörð. Því væri æskilegt að framkvæmdaraðili væri meðvitaður um skyldu sína til þess að fylgjast með súrefnisástandi við botn áhrifasvæðis þar sem lífrænt álag geti valdið súrefnisskorti þar. Hafrannsóknastofnun geti ekki sagt til um hvernig endurnýjun sjávar í botnlagi Seyðisfjarðar sé vegna skorts á gögnum þar að lútandi. Var það niðurstaða stofnunarinnar að ágætlega væri gerð grein fyrir þeim þáttum sem tengist starfssviði stofnunarinnar, en mikilvægt væri að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði og fylgjast sérstaklega með sjúkdómsvöldum og sníkjudýrum.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kom fram að þótt af framkvæmdum yrði myndi hámarkslífmassi og fóðurnotkun framkvæmdaraðila verða innan þeirra marka sem gert hafi verið ráð fyrir í umhverfismati hans fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi. Því væri ekki um breytingu að ræða varðandi næringarefnaálag. Tekið var jafnframt undir ábendingar Umhverfisstofnunar um mikilvægi þess að samræma vöktun við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, eins og það var orðað, og fjallað um að almennt ætti að dreifa lífrænu álagi eins og mögulegt væri. Einnig var tekið undir ábendingu í umsögn Hafrannsóknarstofnunar um að takmarkaðra upplýsinga nyti við um súrefnismettun og -styrk í Seyðisfirði og vakta þyrfti súrefnisástand við botn áhrifasvæðisins. Var þó álitið að teknu tilliti til þess að ráðgerð framkvæmd fæli ekki í sér slíkar breytingar að þörf væri á nýju mati á umhverfisáhrifum.

Viðbrögð framkvæmdaraðila við greindum umsögnum eru birt á vef Skipulagsstofnunar. Í þeim kom m.a. fram af hans hálfu að nánara samráð yrði við leyfisveitendur vegna breytinga á legu sjókvíaeldissvæðanna og var lagður fram uppdráttur sem sýndi að fjarlægð milli kvíastæða á eldissvæðunum við Ytra-Kofradýpi og í Seyðisfirði væri 2,84 sjómílur eða rúmlega 5,2 km. Þá kom fram að vöktun yrði á dýpsta svæðinu í nágrenni við sjókvíarnar þar sem mældar yrðu hugsanlegar breytingar á súrefnisinnihaldi sjávar niður við botn á meðan á eldinu stæði og yrði gerður samningur um slíka vöktun við tilgreindan aðila.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar var fjallað heildstætt um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Tekið var fram að áhrif framkvæmdarinnar beri að skoða í ljósi eðlis og staðsetningar hennar, svo sem með tilliti til umfangs, eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa og möguleika á að draga úr áhrifum. Hvað staðsetningu varðar var fjallað um að við breytinguna muni fjarlægð á milli árganga í eldinu styttast úr 8 km í 5 km. Með styttri fjarlægð aukist líkur á að sjúkdómar og sníkjudýr eins og laxalús geti borist á milli eldissvæða, en fjarlægðin verði samt yfir þeim 5 km viðmiðum sem sett hafi verið í reglugerð um fiskeldi fyrir fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi. Þá hafi verið boðaðar mótvægisaðgerðir til að halda laxalús í skefjum og sé tekið undir athugasemdir í umsögnum um mikilvægi þess og lagt til að útbúin verði vöktunar- og viðbragðsáætlun sem það varði.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar var lögð á það áhersla að ekki væri um að ræða breytingu á hámarkslífmassa, fóðurnotkun eða staðsetningu eldissvæða, yrði af framkvæmdinni. Tekið var um leið undir mikilvægi þess að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði. Yrði það gert ættu áhrif vegna losunar næringarefna, og þar með áhrif á vatnshlot, að verða nokkuð sambærileg við þau sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu vegna eldis framkvæmdaaðila í Ísafjarðardjúpi á sínum tíma. Var í þessu sambandi vísað til álits stofnunarinnar um matsskýrslu framkvæmdarinnar, dags. 22. desember 2020, þar sem settar hafi verið fram tillögur að ákveðnum skilyrðum við leyfisveitingu, m.a. um vöktun á styrk súrefnis og næringarefna og hvíld eldissvæða. Loks var í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár gerð bending um að ástæða væri til að gerðar yrðu ríkar kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netpoka. Samantekið var álitið, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd breyting skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum studd haldbærum rökum. Verður og ekki annað séð en að stofnunin hafi að rannsökuðu máli lagt viðhlítandi og sjálfsætt mat á þá þætti sem máli skipti um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Verður því að hafna kröfu um ógildingu hennar.

Málsrök kærenda í máli þessu lúta m.a. að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en í 3. mgr. 28. gr. þeirra laga segir að við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, skuli tryggja að leyfi sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 eru sett sérstök ákvæði um burðarþol fjarða vegna fiskeldis í opnum sjókvíum, en þar segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þoli samkvæmt burðarþolsmati, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. b. í lögunum. Með slíku mati á burðarþoli er vísað til þols hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, sbr. 3. tl. 3. gr. laganna, en fyrir liggur slíkt burðarþolsmat fyrir Ísafjarðardjúp sem framkvæmdaraðili vísaði til í tilkynningu sinni. Verður í ljósi þess að hafna því að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt með tilliti til þess hvort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir við undirbúning hennar.

Hvað loks snertir sjónarmið kæranda um að við hina kærðu ákvörðun hafi skort á að gerðar yrðu ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, verður fallist á framanrakin sjónarmið Skipulagsstofnunar og ekki álitið að slíkra frekari ábendinga hafi verið þörf, í ljósi þeirra forsendna hinnar kærðu ákvörðunar sem nú hafa verið raktar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar dags. 22. febrúar 2024 um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

44/2024 Daltún

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2024, kæra á ákvörðun Borgarbyggðar frá 18. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar sorps í sveitarfélaginu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innviðaráðuneytisins, dags. 12. apríl 2024, var úrskurðarnefndinni framsend kæra eiganda fasteignarinnar Daltúns í Reykholtsdal, dags. 25. mars s.á., þar sem kærð er ákvörðun Borgarbyggðar frá 18. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar sorps í sveitarfélaginu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 19. apríl 2024.

Málavextir: Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2024, sem barst kæranda 18. janúar 2024, var lagt á hann gjald að fjárhæð kr. 32.280 vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar sorps í Borgarbyggð. Hefur kærandi andmælt réttmæti gjaldsins og krefst ógildingar álagningar­­innar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Vísar kærandi til þess að í byrjun árs 2024 hafi Borgarbyggð lokað öllum grenndarstöðvum. Verði því að álykta að tæknilega sé það ógerningur að rukka fyrir rekstur þeirra. Sé nú hvergi unnt að losna við sorp nema á Sólbakka í Borgarnesi sem sé í um 44 km fjarlægð frá Daltúni. Sveitarfélagi geti vart verið heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sem ekki sé í boði eða aðgengileg. Grenndarstöðvar finnist ekki lengur og tæplega verði ætlast til þess að ekið sé með almennt heimilissorp 44 km leið í móttökustöð með takmarkaðan opnunartíma.

 Málsrök Borgarbyggðar: Bent er á að gjald fyrir söfnun, meðhöndlun, móttöku og flokkun úrgangs í Borgarbyggð sé lagt á í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 11. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Þá liggi einnig fyrir gjaldskrá Borgarbyggðar fyrir söfnun, meðhöndlun og flokkun úrgangs í sveitar­félaginu sem sæki stoð í framangreint.

Gjaldinu sé almennt skipt eftir því hvaða þjónustu viðkomandi aðili fái þ.e. hvernig tunnur hann sé með, hversu stórar og hve oft losun fari fram. Kærandi hafi afþakkað sorptunnur við húsnæði sitt. Í gjaldskránni sé einnig gjald sem öllum ber að greiða vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar enda geti þeir aðilar nýtt sér viðkomandi þjónustu.

Kostnaður við sorpmál sé mikill hjá sveitarfélaginu og fari stöðugt vaxandi í takt við auknar kröfur um meðhöndlun úrgangs. Á árinu 2023 hafi rekstrarkostnaður við þennan málaflokk verið rúmlega 280 milljónir kr. og 227 milljónir kr. á árinu 2022. Tekjur sem sveitarfélagið innheimti hafi verið 239 milljónir kr. á árinu 2023 og 218 milljónir kr. á árinu 2022. Hafi því verið talsverður rekstrarhalli af málaflokknum. Sé litið til niðurstöðu rekstrarreiknings Borgar­byggðar varðandi þessi mál komi í ljós að sveitarfélagið þurfi að hækka gjaldið sem innheimt sé fyrir þessa þjónustu til að það standi undir þeim kostnaði sem til falli ár hvert.

Borgarbyggð telji það ótvírætt að með vísan til framangreinds skuli fasteignareigendur greiða gjald til sveitarfélagsins fyrir þessa þjónustu og hafnar því beiðni eiganda fasteignarinnar Daltúns um að gjaldið verði fellt niður.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af svörum Borgarbyggðar verði ekki annað ráðið en að ekki sé litið á álagningu vegna reksturs grenndarstöðvar og móttökustöðvar sorps sem þjónustu­­gjald heldur almenna skattlagningu til tekjuöflunar. Í umsögn Borgarbyggðar sé ekki að sjá að brugðist sé við sjálfu kæruefninu, þ.e. í fyrsta lagi að innheimt sé þjónustugjald fyrir rekstur grenndarstöðva sem ekki séu lengur til staðar og í öðru lagi að móttökustöð í Borgarnesi sé í það mikilli fjarlægð frá Daltúni og með það takmarkaðan þjónustutíma að óraunhæft sé að hún nýtist kæranda.

Fram komi í umsögn Borgarbyggðar, að álögð gjöld vegna sorphirðu í sveitarfélaginu hafi ekki dugað til reksturs málaflokksins. Svo sé að skilja, að sveitarfélagið telji sig ekki mega verða af þessum tekjum, þótt þjónusta hafi verið lögð niður eða skert til að rétta af reksturinn. Það geti ekki talist gild rök fyrir almennri álagningu í nafni þjónustugjalds. Ákvörðun um álagningu sorphirðugjalds sé í valdi sveitarfélagsins og því á ábyrgð þess að meta kostnað og taka raunhæfa ákvörðun um upphæðir þeirrar álagningar. Að lokum sé bent á að álagning vegna reksturs grenndarstöðva annars vegar og móttökustöðvar hins vegar sé ekki sundur­greind á álagningarseðli og því ekki unnt að sjá hvað er verið að innheimta fyrir hvorn þjónustuþáttinn fyrir sig. Borgarbyggð hljóti að bera hallann af þeim upplýsingaskorti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar um álagningu gjalds á kæranda fyrir rekstur grenndar- og móttökustöðvar í Borgarbyggð vegna fasteignar hans, Daltúns í Reyk-holtsdal, Borgarbyggð. Sú fasteign er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá.

 Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar setur sveitarstjórn sérstaka samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði.

Þessi fyrirmæli taka mið af því að meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi er íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér þjónustuna eða ekki. Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 898/2022. Í 5. gr. hennar  kemur fram að íbúum og húsráðendum í Borgar­byggð sé skylt að flokka allan úrgang frá heimilum í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003 og að Borgarbyggð útvegi og eigi sorpílát sem húsráðendum sé skylt að nota. Í 9. gr. er fjallað um skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda í sveitarfélaginu til þess að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs. Sérhverjum húseiganda eða umráðamanni húsnæðis í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða frístunda­húsnæði, sé skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður. Í 10. gr. er tekið fram að gámar fyrir almennan heimilisúrgang o.fl. séu staðsettir á söfnunarstöð sveitar­félagsins við Sólbakka 12 í Borgarnesi. Sé gámasvæðið ætlað undir úrgang frá heimilum og frístundahúsum. Í 11. gr. samþykktarinnar er fjallað um skyldu sveitarfélaga til innheimtu gjalda samkvæmt lögum nr. 55/2003, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, skulu sveitarfélög innheimta gjald fyrir alla með­höndlun úrgangs. Í júní 2021 voru samþykktar breytingar á nefndum lögum, sbr. breytingarlög nr. 103/2021. Breytingarnar komu flestar til framkvæmda hinn 1. janúar 2023 og er þeim ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlinda­notkun og draga úr myndun úrgangs. Með 17. gr. breytingarlaganna var 2. mgr. 23. gr. nefndra laga breytt. Fyrir breytinguna var heimilt að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs viðkomandi aðila, en einnig mátti ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Eftir breytinguna varð skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi og byggðasamlagi er þó heimilt að færa innheimtu gjalda á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að markmiðum laganna og ákvæðum 7. gr., að teknu tilliti til 3. mgr. Jafnframt er sveitarfélagi heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. Sveitarfélögum hefur þó verið gefið svigrúm skv. 27. gr. breytingarlaganna til að inn­heimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. janúar 2025. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengdrar starfsemi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar skal birta slíka gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Með vísan til laga nr. 55/2003 setti Borgarbyggð gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð nr. 1640/2023, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2024. Samkvæmt 1. gr. hennar skal sveitarstjórn Borgarbyggðar innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laganna og samkvæmt 11. gr. samþykktar sveitarfélagsins. Í 2. gr. gjaldskrárinnar er sundurliðun gjaldflokka. Undir liðnum aðrir gjaldliðir, kemur fram að gjaldi vegna reksturs grenndarstöðva og móttökustöðvar í Borgarnesi að upphæð kr. 32.280, sé ætlað að standa undir rekstri grenndarstöðva fyrir íbúa og vegna reksturs móttökustöðvar í Borgarnesi. Gjaldið er því ekki eingöngu ætlað að standa undir rekstri móttökustöðvar, sem staðsett er í 44 km fjarlægð frá fasteign kæranda, heldur rekstri grenndar­stöðva í sveitarfélaginu.

Ljóst er að Borgarbyggð hefur nú lokað gámasvæði sem staðsett var í landi Grímsstaða í Reykholtsdal og stendur íbúum því ekki lengur til boða að nýta sér þá þjónustu. Hins vegar er svæðið þjónustað með söfnun sorps frá hverri fasteign. Samkvæmt álagningarseðli var lagt á kæranda gjald kr. 41.880 fyrir 240 lítra gráa tunnu, kr. 6.120 fyrir 240 lítra tunnu undir plastefni, kr. 13.080 fyrir 120 lítra brúna tunnu og kr. 6.120 fyrir 660 lítra tunnu undir pappír. Stóð honum því til boða að hafa sorptunnur við íbúðarhúsnæði sitt sem hann hefur afþakkað þar sem húsnæðið sé aðeins notað til tímabundinnar dvalar. Kom sveitarfélagið til móts við óskir kæranda og felldi niður greind tunnugjöld með vísan til heimildar í fyrrgreindri gjaldskrá sem voru talsvert hærri en það gjald sem eftir stendur. Í nefndri 2. gr. gjaldskrárinnar kemur einnig fram að sé íbúðarhúsnæði nýtt til tímabundinnar dvalar, án fastrar búsetu og engar tunnur séu þar, verði innheimt gjald vegna reksturs grenndar- og móttökustöðva kr. 32.280.

Þegar um svokölluð þjónustugjöld er að ræða gilda ýmis sjónarmið um álagningu þeirra, m.a. að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Fjárhæðin verður einnig að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði, sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald.

Eins og lögð er áhersla á í lögum nr. 55/2003 er meðhöndlun sorps grunnþjónusta í sveitarfélagi og ber það ríkar skyldur til að tryggja að sú þjónusta sé í föstum skorðum. Þjónustan er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki, enda er sveitarfélagi beinlínis skylt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. áður tilvitnað ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum tekur umdeilt gjald mið af áætluðum kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu vegna sorphirðu en það hefur raunar verið undir raunkostnaði.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Borgarbyggðar frá 18. janúar 2024 um álagningu gjalds vegna reksturs grenndar- og móttökustöðvar sorps í sveitarfélaginu.

28/2024 Melgerði

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 16. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 8. mars 2024 um að hafna byggingarleyfisumsókn um 126,5 m2 viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið hússins á lóðinni Melgerði 11.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir A þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 8. mars 2024 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir 126,5 m2 við­byggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið íbúðarhússins á lóðinni Melgerði 11. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir bæjaryfirvöld að taka ákvörðun í samræmi við lög.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 27. mars 2024.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 5. mars 2018 var samþykkt að grenndar­kynna erindi kæranda um viðbyggingu á tveimur hæðum á vesturhlið íbúðarhúss á lóðinni Melgerði 11. Um var að ræða 150 m2 byggingu á tveimur hæðum og bílastæðum á lóðinni fjölgað úr einu í fjögur. Áætlað byggingarmagn hefði farið úr 200,2 m2 í 350,2 m2 og nýtingar­hlutfall úr 0,26 í 0,46. Á fundi skipulagsráðs 20. ágúst s.á. var lögð fram breytt tillaga sem kom til móts við hluta innsendra athugasemda þar sem meðal annars gólfflötur viðbyggingar­innar var minnkaður úr 150 m2 í 130 m2 og nýtingarhlutfall fór þannig í 0,43 í stað 0,46. Var tillagan samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum 23. s.m. Eftir að kærandi óskaði eftir útgáfu byggingarleyfis gerði byggingarfulltrúi athugasemdir við erindið sem ekki var svarað og rann leyfið út. Árið 2021 var lögð fram uppfærð tillaga sem grenndarkynna þurfti að nýju samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Á fundi skipulagsráðs 17. janúar 2022 var að nýju sótt um að reisa viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið íbúðarhússins að Melgerði 11. Með breytingunni myndi nýtingarhlutfall lóðarinnar hækka úr 0,26 í 0,46 og bílastæðum fjölga úr tveimur í fjögur. Skipulagsráð samþykkti að erindið yrði grenndarkynnt á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga. Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 4. júlí s.á. ásamt umsögn skipulags­deildar og var erindinu hafnað og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar sem staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum 7. s.m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. ágúst s.á. var umsókn kæranda hafnað.

Á fundi skipulagsráðs 2. október 2023 var að nýju lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir 126,5 m2 viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið íbúðarhússins á lóðinni Melgerði 11. Byggingarmagn á lóðinni, 160 m2 einbýlishús á tveimur hæðum auk 40,2 m2 bílageymslu, myndi hækka úr 200,2 m2 í 326,7 m2 við breytinguna og nýtingarhlutfall hækka úr 0,26 í 0,42. Fjöldi íbúða færi jafnframt úr einni í tvær. Skipulagsráð samþykkti að erindið yrði grenndarkynnt á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi ráðsins 18. desember s.á. og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Á fundi skipulagsráðs 29. janúar 2024 var málið tekið fyrir ásamt umsögn skipulagsdeildar og tillögunni í kjölfarið hafnað þar sem hún væri ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 hvað varðaði nýtingarhlutfall. Niðurstaða skipulagsráðs var staðfest á fundi bæjar­stjórnar 13. febrúar s.á. og hafnaði byggingarfulltrúi erindinu á afgreiðslufundi 8. mars s.á. með vísan til afgreiðslu skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

 Málsrök kæranda: Vísað er til þess að í sjö ár hafi verið unnið að því að fá byggingarleyfi á umræddri lóð og hafi teikningum margsinnis verið breytt til að koma til móts við kröfur nágranna og bæjarins. Umsókn um byggingarleyfi hafi fyrst verið hafnað í janúar 2018 og þá hafi teikningum verið breytt til samræmis við athugasemdir. Í ágúst 2018 hafi verið veitt leyfi fyrir viðbyggingu sem hefði aukið nýtingarhlutfall umræddrar lóðar upp í 0,43. Eftir að leyfið hafi verið gefið út hafi komið í ljós að mælingar bæjarins hafi ekki staðist og því ekki verið hægt að koma fyrir bílastæðum sem gert hafi verið ráð fyrir. Vegna mistaka bæjarins hafi þurft að breyta teikningum með tilheyrandi kostnaði sem hafi dregist og leyfið hafi runnið út. Aftur hafi verið sótt um byggingarleyfi árið 2021 og þá hafi teikningum verið breytt með það fyrir augum að koma bílastæðum fyrir en umsókninni hafi verið hafnað. Aftur hafi verið sótt um byggingarleyfi 29. júní 2023 fyrir viðbyggingu við íbúðarhús, nánar tiltekið leyfi fyrir einni íbúð á tveimur hæðum, auk bílastæðis. Samkvæmt þeim teikningum myndi nýtingarhlutfall lóðarinnar fara úr 0,25 í 0,42. Í umsögn skipulagsdeildar, dags. 25. janúar 2024, kom fram að umsóknin væri í samræmi við stefnu og rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040. Jafnframt hafi komið fram að umsóknin samræmdist handbókinni Verkfærakista fyrir þróun byggðar í Kópavogi – Leiðbeiningar um gæði byggðar og breytingar á húsnæði eða lóð. Niður­staða skipulagsdeildar hafi verið rækilega rökstudd og komið hafi fram að fyrirhuguð breyting félli inn í dregna línu húsa við götuna, hún væri í samræmi við markmið um þéttingu byggðar enda yfirgnæfði fyrirhuguð viðbygging ekki upprunalegt hús á lóðinni og hefði ekki teljandi áhrif á útsýni. Einnig hafi komið fram að þótt nýtingarhlutfall væri í efri mörkum miðað við ramma aðalskipulags væri það þó innan marka meðaltals á rað- og parhúsalóðum. Skipulagsráð hafi hafnað tillögunni með þeim orðum að hún væri „ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040, hvað nýtingarhlutfall varðar…“. Þrátt fyrir að vera ekki skýrt frekar eða nokkur rök færð fyrir niðurstöðunni hafi hún verið staðfest á fundi bæjar­stjórnar 13. febrúar 2024.

Engin skilyrði hafi verið til að hafna byggingarleyfisumsókninni og ummæli um að nýtingar­hlutfall samræmist ekki rammaákvæði aðalskipulags standist ekki skoðun. Árið 2018 hafi kæranda verið veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem hefðu aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar í 0,43. Umsóknin sem hin kærða ákvörðun varði gangi skemur og hafi kærandi því haft réttmætar væntingar um að umsókn hans yrði samþykkt.

Ekki hafi verið vísað til annarra atriða en nýtingarhlutfalls lóðarinnar en það sé innan við­miðunarmarka auk þess sem gerðar hafi verið breytingar á staðsetningu þannig að samkvæmt nýrri teikningu falli viðbyggingin að norðurhlið hússins. Þegar leyfi hafi verið veitt árið 2018 hafi verið tekið tillit til athugasemda nágranna og bæjarins og sé sú teikning sem nú hafi verið sótt um leyfi fyrir nánast eins og sú sem hafi verið samþykkt árið 2018. Það komi því ekki heim og saman að veikari forsendur séu fyrir byggingarleyfi á lóðinni nú en fyrir sex árum síðan.

Með Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040 séu sett markmið um að þétta byggð og fjölga íbúðum. Þetta sé óframkvæmanlegt nema með því að auka nýtingarhlutfall lóða. Í ramma­ákvæði fyrir aukið byggingarmagn komi fram að byggingarmagn á lóð skuli að jafnaði ekki vera hærra en meðaltalsnýtingarhlutfall nærliggjandi húsa. Ekki sé um fortakslaust bann við því að nýtingarhlutfall nýbyggingar eða viðbyggingar fari fram úr því sem algengast sé í næsta nágrenni heldur sé um að ræða viðmiðunarreglu. Nýtingarhlutfall lóða í næsta nágrenni sé óvenju lágt og ef það ætti að koma í veg fyrir frekari uppbyggingu myndi slík ákvörðun ganga þvert gegn markmiðum aðalskipulags um fjölgun íbúða og þéttingu byggðar. Þrátt fyrir að nýtingarhlutfall sé lágt sé það ekki svo að allar lóðir séu illa nýttar heldur sé reyndin sú að nýtingarhlutfall lóða við Melgerði sé mest 0,52. Ekki hafi verið leiddar líkur að því að nýtingarhlutfall sem gert sé ráð fyrir á lóðinni Melgerði 11 samkvæmt umsókninni myndi raska yfirbragði hverfisins.

Dregið sé í efa að nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi verið hin raunverulega ástæða fyrir afstöðu skipulagsráðs enda standist hún ekki skoðun. Umsagnir nágranna hafi ekki lotið að nýtingar­hlutfalli lóðarinnar heldur fyrst og fremst að því að til stæði að breyta húsinu í fjölbýlishús. Það að húsið sé skilgreint sem fjölbýli styrki umsóknina enda hafi skipulagsdeild bent á að fyrir­hugað nýtingarhlutfall væri innan marka meðaltals á rað- og parhúsalóðum samkvæmt aðal­skipulagi. Í aðalskipulagi sé ekki stefnt að því að koma í veg fyrir að fjölbýlishús rísi eða að húsum sé breytt í fjölbýli og af 42 lóðum við Melgerði séu 14 þeirra með fleiri en einni íbúð samkvæmt fasteignaskrá.

Vangaveltur nágranna um að fyrirkomulag íbúða húsinu sé, eða muni verða, einhvern veginn öðruvísi en samkvæmt teikningu séu þýðingarlausar. Það sé á ábyrgð byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að bygging samræmist teikningum og öðrum hönnunargögnum. Ákvörðun bæjarstjórnar beri það með sér að hvorki bæjarstjórn né skipulagsráð hafi skoðað nægilega vel þau gögn sem legið hafi umsókninni til grundvallar. Fullyrt sé út í loftið að nýtingarhlutfall sé ekki í samræmi við rammaákvæði aðalskipulags en það standist ekki skoðun og sé því um að ræða brot gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk jafnræðisreglu 11. gr. laganna þar sem verið sé að synja um leyfi fyrir byggingu sem fari ekki yfir nýtingarhlutfall annarra fjölbýlishúsa við götuna. Rök um nýtingarhlutfall séu aðeins fyrirsláttur en raunveruleg ástæða synjunar sé áhyggjur nágranna af aukinni bílaumferð og fólksfjölgun í hverfinu. Það sé skiljanlegt að stjórnvöld vilji ekki takast á við óánægju bæjarbúa með það að stefnu bæjar­yfirvalda sé fylgt en það samræmist ekki viðmiðum um góða stjórnsýsluhætti að bera fyrir sig aðrar ástæður en þær sem ágreiningur snúist raunverulega um.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Bent er á að byggingarleyfisumsóknin sem kæran varði hafi falið í sér töluverða aukningu á byggingarmagni. Lóðin Melgerði 11 sé staðsett á íbúðarsvæði, ÍB-1 Kársnes, samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2019–2040. Ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið. Eitt af meginmarkmiðum gildandi aðalskipulags sé vissulega þétting byggðar en þrátt fyrir það sé ekki þar með sagt að möguleiki sé á að þétta byggð á öllum reitum eða lóðum sveitarfélagsins. Í rammahluta aðalskipulags, sem hafi það að markmiði að útfæra nánari markmið fyrir hvern bæjarhluta, séu sett fram rammaákvæði sem ætlað sé að stýra þróun byggðar á ódeiliskipulögðum svæðum í þegar byggðum hverfum. Umrædd rammaákvæði séu þríþætt, A. almenn rammaákvæði fyrir öll hverfi Kópavogs, B. rammaákvæði fyrir Digranes og Kársnes á ódeiliskipulögðum svæðum og C. sértæk rammaákvæði fyrir heildstæða byggð á fjórum afmörkuðum svæðum. Þau rammaákvæði sem eigi við um lóðina að Melgerði 11 heyri undir flokka A og B.

Þar sem umrædd lóð sé á ódeiliskipulögðu svæði eigi rammaákvæðin og markmið aðalskipulags við um þéttingu á lóðinni. Kærandi hafi réttilega bent á að sambærileg tillaga hafi verið samþykkt árið 2018 en þar sem annmarkar hafi verið á uppdráttum hafi frestur þeirrar grenndar­­kynningar runnið út, en samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli grenndar­­­­kynning fara fram að nýju ef byggingarleyfi hefur ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar. Það að tillaga hafi verið samþykkt en fallið úr gildi af einhverjum ástæðum feli ekki í sér rétt til að fá sömu eða sambærilega tillögu samþykkta. Frá því að eldri tillaga hafi verið samþykkt og þar til sótt hafi verið um að nýju, þ.m.t. þeirri tillögu sem hafi verið hafnað árið 2022, hafi nýtt aðalskipulag tekið gildi. Það sé frábrugðið því aðalskipulagi sem hafi verið í gildi þegar tillagan frá árinu 2018 hafi verið samþykkt en nú hafi áður nefnd rammaákvæði tekið gildi. Rammaákvæðin séu töluvert ítarlegri en rammaákvæði þágildandi aðalskipulags.

Tillaga sú er hin kærða ákvörðun taki til samræmist greindum rammaákvæðum að undanskildu rammaákvæði A1a er varði nýtingarhlutfall. Ítarleg umfjöllun hafi verið um þetta í umsögn skipulagsdeildar sem hafi legið til grundvallar við höfnun erindisins. Meðalnýtingarhlutfall á svæðinu sé 0,25. Eftir breytingu yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,42 sem væri töluvert yfir meðalnýtingarhlutfalli. Úrskurðarnefndin hafi staðfest það í úrskurðum sínum að þegar vikið sé frá því sem almennt gerist á nærliggjandi lóðum geti það ekki talist í samræmi við ramma­ákvæði aðalskipulags. Það sé því vissulega málefnalegt og lögmætt að hafna tillögu að auknu byggingarmagni sem hefði í för með sér jafn mikla hækkun á nýtingarhlutfalli.

Því sé hafnað að ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu eða öðrum meginreglum stjórnsýslu­réttar. Í umsögn skipulagsdeildar sé að finna lista yfir nýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum. Sé nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða frá 0,18–0,31 að undanskilinni einni lóð, Melgerði 18, sem hafi nýtingarhlutfall 0,43. Samkvæmt opinberum gögnum hafi síðasta breyting á því húsnæði verið samþykkt árið 1971 og geti ekki verið fordæmisgefandi fyrir svæðið hvað nýtingarhlutfall varði. Í áðurnefndri umsögn hafi verið farið ítarlega yfir forsögu málsins, tillagan mátuð inn í rammaákvæði aðalskipulags og hún borin saman við eldri tillögur. Umsögnin hafi verið ítarleg og höfnun skipulagsráðs verið rökstudd og því liggi fyrir á hvaða forsendum byggingarleyfisumsókninni hafi verið hafnað. Málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við lög og reglur á öllum stigum málsins.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að það sé tilgangur rammaákvæða aðalskipulags að stjórna þróun byggðar. Þegar kveðið sé á um nýtingarhlutfall í skipulagi byggðar eigi það við um svæðið í heild. Það merki ekki að hvergi á svæðinu megi víkja frá því nýtingarhlutfalli sem gert sé ráð fyrir enda hefði skipulagsdeild þá ekki komist að þeirri niðurstöðu 25. janúar 2024 að byggingarleyfisumsóknin væri í samræmi við stefnu og rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040. Sú hugmynd að engin lóð megi fara fram úr ákveðnu nýtingarhlutfalli án þess að það færi í bága við aðalskipulag sé fráleit. Nýtingarhlutfall tiltekinnar lóðar þurfi að skoða í samhengi við nýtingu annarra lóða á svæðinu, líkt og skipulagsdeild bæjarins hafi gert.

Nýtingarhlutfall lóða við Melgerði sé lægra en við aðrar götur í næsta nágrenni og líkt og skipulagsdeild hafi réttilega bent á séu nokkrar lóðir í götunni sem skekki myndina vegna þess hversu lágt nýtingarhlutfall þeirra sé. Við Melgerði standi 14 fjölbýlishús og með nýtingar­hlutfall 0,35. Það nýtingarhlutfall sem kærandi vilji fá leyfi fyrir sé 0,42. Ekki verði séð að við það muni nýtingarhlutfall lóða við götuna aukast að því marki að það færi í bága við ramma­ákvæði aðalskipulags. Viðbrögð Kópavogsbæjar í sambærilegum málum hafi í meira lagi verið geðþóttakennd og það sé augljóst brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Gera verði athugasemdir við það hvaða hús skipulagsyfirvöld telji til næsta nágrennis. Hús nr. 20 og 22 við Melgerði séu með nýtingarhlutfall 0,41 og 0,49 en ekki sé tekið tillit til þeirra í greinargerð bæjarins. Þau séu engu að síður í næsta nágrenni Melgerðis 11.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs­bæjar að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir 126,5 m2 viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið hússins á lóðinni Melgerði 11.

Lóðin Melgerði 11 er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildir sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Finna má undantekningu frá þeirri meginreglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þar sem segir að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir fram­kvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Ef greind skilyrði 1. mgr. 44. gr. eru ekki uppfyllt er ekki heimilt að beita ákvæðum um grenndarkynningu og ber þá að deiliskipuleggja viðkomandi svæði í samræmi við 2. mgr. 37. gr. laganna.

Í bókun skipulagsráðs, sem staðfest var af bæjarstjórn og lá til grundvallar ákvörðun byggingar­fulltrúa um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi, kom fram að tillögunni væri hafnað, þar sem hún væri ekki að fullu í samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 hvað nýtingarhlutfall varðaði.

Í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 er að finna almenn rammaákvæði sem gilda um þegar byggð hverfi. Rammaákvæðunum er skipt upp í þrjá flokka, en byggingarleyfis­umsókn sú sem kæra þessi varðar fellur undir flokka A og B. Í flokki A er að finna eitt almennt rammaákvæði sem skipt er upp í þrennt og á við öll hverfi Kópavogs, en í flokki B eru þrjú ákvæði sem eiga við um Digranes og Kársnes á ódeiliskipulögðum svæðum. Samkvæmt rammaákvæði A1a skal byggingarmagn nýbygginga að jafnaði ekki vera hærra en sem nemur meðalnýtingarhlutfalli nærliggjandi lóða.

Á greindri lóð er fyrir 160 m2 einbýlishús á tveimur hæðum auk 40,2 m2 bílskúrs. Með þeim breytingum sem umsókn kæranda lýtur að mun byggingarmagn á lóðinni fara úr 200,2 m2 í 326,7 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar hækka úr 0,26 í 0,42.

Í Melgerði er að finna lóðir með mjög mismunandi nýtingarhlutfalli, allt frá 0,12 upp í 0,50, og þrátt fyrir að meirihluti húsanna séu einbýlishús þá er þar einnig að finna þó nokkuð af lóðum með tveimur og þremur íbúðum. Í götunni eru 15 lóðir með fleiri en einni íbúð þar sem meðalnýtingarhlutfall er 0,35 en þrjár af þeim lóðum hafa hærra nýtingarhlutfall en umsókn kæranda um byggingarleyfi fól í sér. Þá eru einnig í götunni tvær lóðir undir einu parhúsi þar sem nýtingarhlutfall lóðanna er 0,41 og 0,49.

Í umsögn skipulagsdeildar Kópavogsbæjar, dags. 25. janúar 2024, kemur fram að byggingar­leyfisumsókn lóðarhafa Melgerðis 11 sé í samræmi við stefnu og rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040. Breytingin sé í samræmi við þéttingu byggðar í grónum hverfum, en að ekki sé einungis stefnt að þéttingu byggðar með nýbyggingum heldur einnig með viðbyggingum, svokallaðra séríbúða eða aukaíbúða. Þegar hin fyrirhugaða breyting sé skoðuð frá sjónarhorni aðliggjandi byggðar og yfirbragði hverfisins hvað varði útsýni sé það mat skipulagsdeildar að ekki sé um að ræða veruleg umhverfisáhrif af breyttu útsýni fyrir lóðarhafa Melgerðis 13. Þá kemur fram að nýtingarhlutfall verði í hærra lagi miðað við nærliggjandi hús en meðalnýtingar­­hlutfall í grenndinni sé 0,25 en byggingarmagn umsóknarinnar geri ráð fyrir að nýtingar­hlutfallið hækki úr 0,26 í 0,42. Það sé heldur hærra en meðaltalið en sé þó ekki einsdæmi í grenndinni. Melgerði 18 hafi einnig hátt nýtingarhlutfall eða 0,43 og á þeirri lóð séu skráðar tvær íbúðir. Þá er bent á að nýtingarhlutfall nokkurra lóða í grenndinni sé óvenju lágt eða innan við 0,2 sem hafi áhrif á meðaltalið og geti gefið skakka mynd. Í aðalskipulagi Kópavogs sé miðað við að nýtingarhlutfall á einbýlishúsalóðum sé á bilinu 0,20–0,35 og á rað- og parhúsalóðum 0,35–0,6. Nýtingarhlutfallið sé því eftir breytingu innan marka meðaltals á rað- og parhúsalóðum.

Hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi var studd þeim rökum að umsóknin væri ekki í fullu samræmi við rammaákvæði Aðalskipulags Kópavogs 2019–2040 hvað varðaði nýtingarhlutfall. Er sá rökstuðningur ófullnægjandi í ljósi fyrirliggjandi umsagnar skipulags­deildar og þann fyrirvara sem þar er gerður við reiknað meðalnýtingarhlutfall nærliggjandi lóða. Er í þessu sambandi sérstaklega skírskotað til nýtingarhlutfalls par- og raðhúsalóða samkvæmt ákvæðum aðalskipulags og dæma um nýtingarhlutfall slíkra lóða á umræddu svæði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum ágöllum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 8. mars 2024 um að hafna byggingarleyfisumsókn um 126,5 m2 viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum á vesturhlið hússins á lóðinni Melgerði 11.

49/2024 Sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 8. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 49/2024, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2024 um að endurnýja rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með 7.800 tonna hámarkslífmassa.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Veiðifélag Blöndu og Svartár, Landssamband veiðifélaga og Veiðifélag Hrútafjarðarár og Síkár þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 21. mars 2024 að endurnýja rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með 7.800 tonna hámarkslífmassa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar eða réttaráhrifum ákvörðunar frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2019 gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir kynslóðaskipt sjókvíaeldi á laxi með 7.800 tonna hámarkslífmassa í Patreksfirði og Tálknafirði og var gildistími leyfisins til 27. ágúst 2023. Leyfið var endurútgefið 15. júlí 2022 með óbreyttum gildistíma. Félagið sótti um endurnýjun rekstrarleyfisins 22. desember s.á. og 3. nóvember 2023 auglýsti Matvælastofnun tillögu um slíka endurnýjun á grundvelli 10. gr. a. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með 7.800 tonna hámarkslífmassa til handa Arctic Sea Farm ehf. var gefið út 21. mars 2024, með gildistíma til 21. mars 2040.

 Málsrök kærenda: Í kæru er byggt á því að útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi farið í bága við þær kröfur sem lög geri til starfsemi sjókvíaeldis. Staðsetning sjókvíaeldis leyfishafa sé í ósamræmi við nýtt áhættumat siglinga sem kveði á um að minnka þurfi eldissvæðið við Kvígindisdal nánast um helming til þess að koma því 100 m út fyrir hvítan ljósgeira vita. Brotið hafi verið gegn fyrirmælum reglugerðar nr. 540/2020 um hnitsetningu eldisstöðva og fjarlægð frá eldissvæði ótengds aðila. Leyfið brjóti í bága við lög nr. 132/1999 um vitamál, strandsvæðisskipulag Vestfjarða og alþjóðasamning um öryggi mannslífa á hafinu. Ekki verði séð að Matvælastofnun hafi leitað umsagnar Landhelgisgæslunnar eða Samgöngustofu. Lög nr. 160/2010 um mannvirki gildi um sjókvíar leyfishafa og því hefði þurft að liggja fyrir byggingarleyfi. Þá geti Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022 ekki legið til grundvallar leyfinu þar sem það sé ófullnægjandi, m.a. þar sem ekkert valkostamat hafi farið fram. Áhættumat erfðablöndunar sé að sama skapi ófullnægjandi sem grundvöllur leyfisveitingarinnar þar sem fyrirliggjandi slysasleppingar hafi kollvarpað forsendum þess. Knýjandi nauðsyn standi til þess að stöðva framkvæmdir eða stöðva réttaráhrif ákvörðunar og koma þannig í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna, svo sem reynslan hafi sýnt að raunveruleg hætta sé á.

 Málsrök Matvælastofnunar: Stofnunin bendir á að í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Heimild 3. mgr. 5. gr. greindra laga til frestunar réttaráhrifa ákvörðunar sé undantekning frá þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með lögunum komi fram að ákvæðið byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef litið sé til skýringarsjónarmiða 29. gr. stjórnsýslulaga þá sé almennt talið mæla gegn því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi andstærða hagsmuna að gæta. Þá verði að leggja heildstætt mat á þau sjónarmið sem fjallað sé um við útgáfu leyfisins, réttmætra hagsmuna aðila og hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt.

Stofnunin telji að við útgáfu greindra leyfa hafi stofnunin fylgt ákvæðum þeirra laga og reglugerða sem um leyfisveitinguna gildu og að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að fallast verði á kröfu kæranda í málinu. Skýra verði heimild til frestunar réttaráhrifa þröngt og að ríkar  ástæður eða veigamikil rök verði að vera fyrir hendi til að taka slíka ákvörðun. Þá verði að horfa til þess að leyfishafi hafi stundað sjókvíaeldi um nokkurra ára skeið á grundvelli eldra leyfis og um endurnýjun leyfis sé að ræða en ekki útgáfu nýs leyfis. Í ljósi samfellu á rekstri hafi leyfishafi nú um 400.000 fiska í sjóð eða um 1000 tonna lífmassa. Við matið beri jafnframt að hafa í huga réttmætar væntingar fyrirtækisins og þá gríðarlegu hagsmuni sem hvíli undir hjá því, sem og hversu mikið tjón frestun réttaráhrifa myndi hafa fyrir það. Ekki verði séð að nokkur rök mæli með því að fallast á kröfu um frestun réttaráhrifa.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er því hafnað að til staðar séu lagalegar eða efnislegar forsendur til að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Fyrir liggi að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi í Patreks- og Tálknafirði frá árinu 2017. Öllum framkvæmdum, svo sem uppsetningu kvía, sé lokið. Ekki sé hægt að líta á kröfu kærenda sem kröfu um stöðvun á starfsemi leyfishafa, enda væri það hvorki í samræmi við heimild 5. gr. laga nr. 130/2011 né kröfugerð kærenda. Þá er málatilbúnaður kærenda gagnrýndur fyrir að vera ómarkviss og óljós.

Við mat á því hvort fallast beri á kröfu um frestun réttaráhrifa skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 hafi almennt verið talið að það mæli á móti beitingu úrræðisins þegar fleiri en einn aðili séu að máli sem eigi andstæðra hagsmuna að gæta. Í málinu séu aðilar fleiri en einn og hafi þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Þá sé einungis réttlætanlegt að beita greindri stöðvunarheimild þegar ekki sé mögulegt að vinda ofan af þeim framkvæmdum sem hafi verið heimilaðar með hinni kærðu ákvörðun. Fyrir liggi að þeim framkvæmdum sem heimilaðar hafi verið með upphaflegu rekstrarleyfi leyfishafa, sem hafi verið endurnýjað með hinni kærðu ákvörðun, hafi allar átt sér stað, þær séu afturkræfar og séu engar frekari framkvæmdir fyrirhugaðar. Ef fallist yrði á frestun réttaráhrifa hefði það verulegt fjártjón í för með sér sem væri í engu samræmi við kæruefnið og myndi það tjón lenda á leyfishafa.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort fresta eigi réttaráhrifum ákvörðunar beri að líta til réttmætra hagsmuna allra aðila málsins auk þess sem horfa þurfi til þess hversu líklegt sé að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig eru í athugasemdunum nefnd þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama meiði eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í máli þessu er krafa um frestun réttaráhrifa byggð á því að útgáfa hins kærða rekstrarleyfis hafi farið í bága við þær kröfur sem lög geri til starfsemi í sjókvíaeldi. Ekki hafi verið leitað umsagna viðeigandi stofnanna við undirbúning ákvörðunarinnar né liggi fyrir byggingarleyfi. Þá er einnig byggt á því að knýjandi nauðsyn standi til þess að koma í veg fyrir óafturkræf áhrif á náttúruna sem geti leitt af þeirri starfsemi sem leyfið heimili. Í kærumáli þessu eru aðilar máls fleiri en einn og hafa þeir andstæðra hagsmuna að gæta.

Með hinu kærða leyfi eru ekki heimilaðar nýjar framkvæmdir heldur starfsemi sem leyfishafi hefur stundað í þónokkur ár. Í ljósi þess verður ekki álitið, með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að skilyrði séu til þess að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Matvælastofnunar.

47/2024 Skúlagötusvæði

Með

Árið 2024, mánudaginn 6. maí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 47/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna skiptistöðvar strætó við Skúlagötu og framkvæmdaleyfi, dags. 22. mars s.á. á grundvelli nefndrar skipulags­breytingar.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 16 apríl 2024, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélagið Völundur, Klapparstíg, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, vegna skiptistöðvar strætó við Skúlagötu og framkvæmdaleyfi, dags. 22. mars s.á. á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt fyrrgreindu framkvæmdaleyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málsatvik: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 17. janúar 2024 var að lokinni auglýsingu samþykkt umsókn VSÓ ráðgjafa, dags. 4. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð strætó. Í breytingunni felst að byggingarreitir fyrir þjónustu eru felldir út og afmarkað er svæði fyrir skiptistöð strætó þar sem komið verði fyrir biðstöðvum ásamt strætóskýlum. Auk þess er afmarkaður byggingarreitur fyrir aðstöðuhús starfsmanna strætó. Borgarráð samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi 25. janúar 2024 og tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar strætó og lóðafrágangs var svo gefið út af hálfu skipulagsfulltrúa 22. s.m.

Af hálfu kæranda er talið að sú starfsemi sem deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir að verði á reitnum sé ekki samræmanleg Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Reiturinn sé innan miðsvæðis, M1b, sem skilgreindur sé sem skrifstofur og þjónusta í blandaðri miðborgarbyggð. Vegna eðlis fyrirhugaðrar starfsemi á skipulagssvæðinu sé um að ræða mjög mengandi starfsemi sem fráleitt sé að falli að íbúðarsvæðum.

Bent sé á að kærandi sé sameiginlegt húsfélag eigenda íbúða á Klapparstíg 1, 1a, 3, 5, 5a og 7 auk Skúlagötu 10. Um sé að ræða 121 íbúð. Hluti íbúðanna á Skúlagötu 10 og Klapparstíg 1-3 snúi í norður. Stærstu gluggar þessara íbúða snúi einnig í norður ásamt því að svefnherbergi séu staðsett í norðurhluta íbúðanna. Vegna aukins álags á svæðinu sem muni fylgja starfsemi skiptistöðvar strætó við Skúlagötu muni aðrir íbúar óneitanlega einnig verða varir við starfsemina. Eigi það einkum við vegna aukinnar loftmengunar, hávaða, umferðar um Skúlagötu og aukinnar umferðar um lóðir kæranda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess hvað felist í skilgreiningu svæðisins M1b í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í blandaðri miðborgarbyggð sé meðal annars gert ráð fyrir stofnunum, skrifstofum og sérhæfðri þjónustu auk almennrar miðbæjarstarfsemi samkvæmt skilgreiningu miðsvæða. Eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykil skiptistöðvar í hverju þéttbýli jafnan á miðsvæðum og svo hafi ávallt verið í skipulagi Reykjavíkur. Núverandi skiptistöð við Hlemm, sé innan miðborgarsvæðisins M1a samkvæmt gildandi aðalskipulagi og þar gildi í öllum megin atriðum sömu landnotkunarákvæðin og um svæði M1b. Sú tímabundna ráðstöfun sem gert sé ráð fyrir með breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er gerð krafa um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sem lýtur að framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar skiptistöðvar strætó við Skúlagötu. Lúta framkvæmdirnar að vinnu við jarðvegsyfirborð.

Samkvæmt framangreindu eiga fleiri en einn aðili hagsmuna að gæta í máli þessu í skilningi stjórnsýslulaga, ekki er um að ræða óafturkræfar framkvæmdir og að virtum þeim sjónarmiðum sem búa að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda af þeim sökum hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda framkvæmdum áfram áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 22. mars 2024 um að veita framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar strætó og lóðafrágangs.

41/2024 Brekadalur

Með

Árið 2024, föstudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Brekadals 7, Reykjanesbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að „byggingarlínu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar-nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 11. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafi Brekadals 5 sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 25. nóvember 2022 vegna lóðar sinnar. Kom þar fram að fyrirhuguð væri nýbygging fyrir einbýli og að fyrirspurnin gengi út á að kanna grundvöll fyrir 14,0 m breiðu húsi að hluta, en byggingarreiturinn væri 10,0 m á breidd og 24,0 m á lengd. Skyggni og svalir færu 1,5 m út fyrir 14,0 m breiddina. Tók lóðarhafi fram að fordæmi væru fyrir breiðari húsum við sömu götu og væri Brekadalur 9 t.a.m. einnig 14 m breitt hús fyrir utan svalir og skyggni sem færi 2,8 m út fyrir 14 m breiddina.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember s.á. var erindi kæranda um breikkun á byggingarreit um 4 m samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 3. janúar 2023. Kom fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs að allir byggingarreitir þeirra húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis væri erindið samþykkt.

 Lóðarhafi sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 30. júlí 2023 þar sem kannaður var grundvöllur fyrir útfærslu byggingar sem samkvæmt fyrirspurnarteikningu, dags. 25. s.m., átti að vera 15,5 m á breidd. Kom fram í fyrirspurn lóðarhafa að eldri fyrirspurn hefði þegar verið sam­þykkt, þar sem fjallað hafi verið um breiðara hús en byggingarreitur segði til um, vegna þess að önnur hús í götunni væru flest einnig breiðari en tilgreindur byggingarreitur. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. ágúst 2023 var erindi lóðarhafa um breikkun á byggingarreit úr 10 m í 15,5 m hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. ágúst 2023.

 Með bréfi dags. 28. ágúst 2023 var kærendum, með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1.–2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, grenndarkynnt breyting á deiliskipulagi fyrir Brekadal 5 þar sem fram kom að óskað væri eftir stækkun á byggingarreit þannig að byggingar­reiturinn yrði 14 m að breidd í stað 10 m. Kærendur mótmæltu breytingunni með bréfi, dags. 1. september s.á., þar sem breytingin hefði áhrif á birtu á lóð þeirra.

Af tölvupóstsamskiptum milli  sveitarfélagsins og lóðarhafa í september 2023 virðist sem fallið hafi verið frá hinum grenndarkynntu áformum, en lóðarhafa bent á að „aðlaga bygginguna að því sem samþykkt var áður [og þá] væri hægt að afgreiða byggingarleyfisumsókn byggða á fyrri afgreiðslu.“

Ný umsókn lóðarhafa, dags. 5. janúar 2024, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. febrúar s.á. Kom þar fram að sótt hefði verið um byggingarleyfi í umfangsflokki II fyrir ein­býlis­húsi á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð. Stækkun byggingarreits hafi verið samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember 2022. Í fundargerð kom fram að erindinu væri vísað til skipulagsráðs þar sem grenndarkynning væri runnin úr gildi. Var lóðarhafa tilkynnt um það með bréfi, dags. 9. s.m. Jafnframt kom fram á fundinum að niðurstaða afgreiðslufundar byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Umsókn lóðarhafa var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. mars 2024 og segir í fundargerð þess fundar að byggingaráform séu samþykkt og að erindið uppfylli gildandi skipulagsskilmála. Var lóðarhafa tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi dags. sama dag og kom þar aftur fram að niðurstaða á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2016.

Kærendum var tilkynnt með tölvubréfi 8. mars 2024 að erindi um breytingu á byggingarreit yrði tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. mars s.á. og yrði þar farið yfir þær athugasemdir sem borist hefðu við grenndarkynningu. Af fundargerð ráðsins verður ekki ráðið að málið hafi verið tekið fyrir á þeim fundi.

Byggingarleyfi vegna byggingar einbýlishúss að Brekadal nr. 5 samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 11. janúar 2024, var gefið út 26. mars s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að Reykjanesbær hafi ekki gætt að lögum og reglum er ákvörðun hafi verið tekin um að víkja frá gildandi deiliskipulagi. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingaráform og vísað þar í ákvörðun sem tekin hafi verið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. mars. 2022. Á þeim fundi hafi komið fram að allir byggingarreitir húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis sé erindið um stækkun á byggingarreit samþykkt. Kærendur mótmæli þessu sem röngu, enda hafi allar lóðirnar við Brekadal, þ.e. nr. 1, 3, 7, 11 og 13, fylgt bindandi byggingarlínu í 15 m í austri, nema lóð nr. 9 þar sem hún nái einum metra austar. Breikkun lóða sé í flestum tilvikum til vesturs sem hafi ekki áhrif á skuggamyndun nærliggjandi húsa. Hér sé færsla um 2 m til austurs sem myndi skugga á lóð kærenda. Bókun fundarins um að byggingaráformin uppfylli gildandi skipulagsskilmála sé því röng.

Þá geti byggingarfulltrúi ekki vikið frá gildandi deiliskipulagi nema að gættu ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svo virðist ekki hafa verið hafa verið gert hér enda sé vísað í ákvörðun sem tekin hafi verið áður en grenndarkynning hafi farið fram 28. ágúst 2023. Þannig hafi verið litið fram hjá athugasemdum kærenda og þær ekki hafa fengið efnislega meðferð. Auk þess virðist málið ekki hafa fengið eðlilega málsmeðferð þar sem hvorki samþykki umhverfis- og skipulagsráðs né bæjarstjórnar liggi fyrir en byggingarleyfi hafi engu að síður verið gefið út og teikningar samþykktar.

Hin kærða ákvörðun brjóti gegn rétti kærenda. Ákvæði deiliskipulags um bindandi byggingar­línu í austri hafi verið sett til að tryggja birtuskilyrði við næstu lóð þar sem lóðirnar séu þröngar og byggingarreitur aðeins 10 m á breidd. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri við útgáfu byggingarleyfis að tryggja að hagsmunir nágranna skerðist í engu m.a. varðandi skuggavarp.

Samkvæmt þeim teikningum af Brekadal 5 sem birtar hafi verið á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2024 hefur línan verið færð um tvo metra austur fyrir bindandi byggingarlínu og valdi því verulega meiri skugga á verönd kærenda í vestur en útreikningar hafi sýnt við byggingu fasteignar kærenda, enda hafi þar verið hafðar til hliðsjónar þær reglur sem settar hafi verið í deiliskipulagi svæðisins og á lóðarblöðum. Samþykktar teikningar á vef Reykjanesbæjar séu einnig breyttar frá þeim teikningum er fylgt hafi í bréfi Reykjanesbæjar um grenndarkynningu 28. ágúst 2023. Búið sé að bæta skorsteinsvegg við sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð byggingar skv. deiliskipulagi, þ.e. 4,3 m. Óásættanlegt sé að byggingarlína Brekadals 5 sé flutt um tvo metra að lóð kærenda til austurs með þeirri viðbótar skuggamyndun sem það valdi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er tekið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið vönduð og vel rökstudd og byggi á ítarlegum gögnum. Við með­ferð og afgreiðslu málsins hafi sveitarfélagið farið eftir skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Að mati sveitarfélagsins hafi ekkert komið fram sem dragi lögmæti ákvörðunarinnar í efa og að fyrirliggjandi gögn séu gild og í samræmi við lög og faglega stjórn­sýslu. Sveitarstjórn sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að stefnt sé að öðru en lögmætum markmiðum. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki í samræmi við deiliskipulag og önnur fordæmi í sömu götu, allir byggingarreitir sem skráðir séu á oddatölu hafi fengið sambærilega meðferð, þar sem ljóst hafi verið að byggingarreitir hafi verið áætlaðir litlir.

Ef kærendur vilji bera fyrir sig að skuggavarp hafi áhrif á aðliggjandi lóðir þurfi að sýna fram á það með þar til gerðum gögnum, en kærendur hafi ekki sýnt fram á að stækkunin hafi áhrif á lóð þeirra með öðru en orði á blaði. Því geti kærendur ekki byggt rökstuðning sinn á skugga­varpi, þar sem ekki séu til nein gögn um skuggavarp á lóð nr. 7. Sveitarfélagið telji ekki að slík gögn séu þörf vegna sinnar ákvörðunartöku þar sem málið sé afgreitt líkt og fordæmi eru um vegna annarra lóða í götunni og að kærendur hafi ekki sýnt fram á það að skuggavarp sé í raun og veru til staðar.

Samkvæmt samþykktu lóðar/mæliblaði ætti gólfkóti Brekadals 7 að vera +11,80 m en gólfkóti fasteignar kærenda sé hins vegar +11,40 m, sem sé 40 cm neðar en ætlað hafi verið, án þess að fyrir liggi að sveitarfélagið hafi sett þá kvöð á lóð þeirra. Þar af leiðandi sé lóðin neðar en húsið sem áætlað sé að byggt verði austan megin við lóð kærenda, þ.e. lóð nr. 5 við Brekadal.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að ekkert í kæru eigi við rök að styðjast og að öllum fullyrðingum sem þar komi fram sé hafnað sem röngum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna einbýlishúss á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð að Brekadal 5, Reykjanesbæ. Eru kærendur eigendur næstu lóðar, Brekadals 7, og eiga kæruaðild að máli þessu vegna grenndar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kærenda, en ekki verður tekin afstaða til varakröfu kærenda að „byggingar­línu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Dalshverfis 1. áfanga frá árinu 2005. Hefur deiliskipulaginu verið breytt alloft, en engin breyting vegna Brekadals 5 hefur verið birt í B-deild Stjórnar­tíðinda. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins segir í kaflanum „Byggingar“ að byggingar­reitir séu sýndir á mæliblöðum og skilmálateikningum og skuli byggingar standa innan þeirra. Þó megi einstaka minniháttar byggingarhlutar, svo sem þakskegg, skyggni og gluggafrágangur skaga út fyrir byggingarreit samkvæmt sérákvæðum húsagerða. Byggingarreitir séu sýndir með brotnum línum og heilum þykkum línum, byggingarlínum. Byggingarlína, þ.e. heil og þykk lína, ákvarði staðsetningu húss á lóð og sé bindandi, þótt gera megi ráð fyrir minni háttar innskotum samkvæmt sérákvæðum skulu hús fylgja byggingarlínu.

Sérskilmálar um svokölluð „I einbýlishús“ eru í gildi samkvæmt deiliskipulaginu fyrir odda­tölur Brekadals, þ.e. lóðarnúmerin 1–13. Er þar fjallað um byggingarreiti og þau ákvæði sem fram koma í almennum skilmálum um að byggingar skuli standa innan byggingarreita, en að minniháttar byggingarhlutar megi skaga út fyrir reitinn. Þar kemur einnig fram að þess skuli gætt að byggingarhlutar utan byggingarreits séu sem fyrirferðarminnstir og rýri ekki heildar-yfirbragð. Á skipulagsuppdrætti má sjá að byggingarreitur og byggingarlínur falla saman þar sem þær er að finna.

Samkvæmt 11. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða hvorki byggingar­áform samþykkt né byggingarleyfi gefið út nema mannvirki sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði.

Áritaðir uppdrættir vegna Brekadals 5 sýna að byggingarreitur sé 14,0 m á breidd og fer húsið þar með bæði út fyrir byggingarreit og byggingarlínu deiliskipulags til austurs. Þá fara hlutar hússins einnig út fyrir byggingarreit til vesturs. Eru hin samþykktu byggingaráform ekki í samræmi við deiliskipulag hvað þetta varðar, sem telja verður til verulegs annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Hvað varðar sjónarmið leyfishafa um fordæmi má benda á að deiliskipulagi Dalshverfis 1. áfanga var breytt sérstaklega vegna Brekadals 9 með samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 20. september 2017 á þann veg að byggingarreitur stækkaði um 2 m. Birtist auglýsing þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 19. október s.á. Að öðru leyti þykir rétt að taka fram að tilvísun til jafnræðissjónarmiða geta ekki skapað réttmætar væntingar þess efnis að farið sé gegn lögum, óháð því hvort slíkt hafi viðgengist áður.

Verður í ljósi alls framangreinds að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.