Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

157/2024 Tungnáreyrar

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 157/2024, kæra á tveimur ákvörðunum sveitarstjórnar Rangárþings ytra, annars vegar frá 9. október 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum og hins vegar frá 13. nóvember s.á. um að samþykkja í þess stað nýtt framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 að samþykkja umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi á allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum. Með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar 2. janúar 2025 kæra samtökin Náttúrugrið jafnframt ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 13. nóvember 2024 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda sé efnistaka hafin eða hún yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að taka það til efnislegrar meðferðar og verður því ekki kveðinn upp úrskurður um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 13. desember 2024.

Málavextir: Hinn 15. september 2015 lagði Landsvirkjun fram frummatsskýrslu um Búrfellslund, vindorkuver með allt að 200 MW uppsettu rafafli, norðaustan við Búrfell í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra, til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í mars 2016 var lögð fram matsskýrsla þar sem m.a. kom fram að fjöldi vindmylla yrði 58–67 og hámarkshæð þeirra, miðað við spaða í efstu stöðu, yrði 150 m. Þá voru kynntar þrjár útfærslur á afmörkun framkvæmdarinnar og gerð grein fyrir mögulegri skiptingu hverrar þeirrar í fjóra 50 MW áfanga. Í matsskýrslunni kom fram að gerð hefði verið athugun á mögulegum efnistökustöðum fyrir framkvæmdir í Búrfellslundi og væri efnisþörf áætluð um 700–1.000 m3. Stefnt væri að því að stærstur hluti efnis yrði fenginn úr tveimur námum, Guðmundareyri og úr frárennslisskurði Sultartangavirkjunar vestan Þjórsár. Einnig yrði endurnýtt efni sem kæmi úr uppgreftri af framkvæmdasvæðinu. Kæmi til þess að fyrrnefndar námur hentuðu ekki að öllu leyti við uppbyggingu fyrirhugaðs Búrfellslundar yrði efni sótt í aðrar námur. Tvær þeirra, Trippavað og Tungnaá væru skilgreindar í viðkomandi aðal- og/eða deiliskipulagsáætlunum. Væru efnistökusvæði þau sem ætlunin væri að nýta hvorki á svæðum sem hefðu verndargildi samkvæmt aðalskipulagi né náttúruverndarlögum og yrðu óveruleg áhrif á jarðmyndanir með verndargildi.

Hinn 21. desember 2016 lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að matsskýrslan uppfyllti að hluta skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað það varði að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt svo sem nánar var lýst í álitinu. Hvað efnistöku vegna framkvæmdarinnar varðaði var bent á að hún væri fyrirhuguð á sama svæði og nýtt hefði verið við stækkun Búrfellsvirkjunar. Í skipulagsvinnu vegna þessarar framkvæmdar og umhverfismati þeirra skipulagstillagna þyrfti að gera nánari grein fyrir áformaðri efnistöku og samlegðaráhrifum með efnistöku vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar.

Taldi Skipulagsstofnun að niðurstöður um mikil umhverfisáhrif gæfu tilefni til að skoða hvort önnur landsvæði hentuðu betur fyrir uppbyggingu af þessu tagi og umfangi. Þá kynni að vera tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging ætti betur við á þessu svæði, bæði hvað varðaði hæð og fjölda vindmylla. Þyrfti frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að gerast á öðrum vettvangi í ljósi þess að matsferli framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, eins og hún væri nú áformuð, lyki með álitinu. Einnig kynni framkvæmdin að koma aftur til skoðunar á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda yrðu breytingar á framkvæmdaáformum.

Um Búrfellslund er fjallað í svonefndri rammaáætlun, þ.e. verndar- og orkunýtingaráætlun skv. lögum nr. 48/2011, þar sem er mótuð stefna á landsvísu um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða kanna frekar. Virkjunarkostir í vindorku komu í fyrsta sinn til umfjöllunar verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og í lokaskýrslu hennar, dags. í ágúst 2016, var lagt til að Búrfellslundur yrði settur í biðflokk, en í þann flokk er virkjunarkostum skipað þegar talið er að afla þurfi frekari upplýsinga. Í febrúar 2020 birti Landsvirkjun skýrslu um endurhönnun Búrfellslundar með breyttu umfangi þar sem gert var ráð fyrir að uppsett afl virkjunarinnar yrði 120 MW, vindmyllur yrðu 30 í stað 58–67 og afl hverrar þeirrar 4–5 MW í stað 3–3,5 MW áður. Hæð vindmylla var óbreytt og framkvæmdasvæðið minnkað í 18 km2. Ársframleiðsla raforku var áætluð 440GWst í stað 705GWst áður. Tekið var fram að styrkur staðsetningarinnar fælist einnig í þeim innviðum sem þegar væru fyrir hendi og hægt yrði að nýta við uppbyggingu og rekstur virkjunarkostsins, m.a. efnisnámur. Í febrúar 2022 mælti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun, þar sem lagt var til að Búrfellslundur yrði í biðflokki. Við síðari umræðu um ályktunina lágu fyrir álit og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar og urðu lyktir þær að Búrfellslundur var settur í orkunýtingarflokk, sbr. samþykkt þingsályktunar nr. 24/152.

Hinn 24. og 28. maí 2024 tóku gildi með auglýsingum í B-deild Stjórnartíðinda breyting á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016–2028 vegna Búrfellslundar og deiliskipulag fyrir allt að 120 MW vindlundi við Vaðöldu. Landsvirkjun var veitt virkjunarleyfi Orkustofnunar 12. ágúst 2024 vegna Búrfellslundar. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og með úrskurði uppkveðnum 5. febrúar 2025 í máli nr. 98/2024 hafnaði meirihluti nefndarinnar kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunarinnar. Ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 11. september 2024 um að samþykkja að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi til vegagerðar vegna Búrfellslundar sætti einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 4. mars 2025 í máli nr. 103/2024 hafnaði kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar.

Með umsókn, dags. 16. september 2024, óskaði Landsvirkjun eftir því að sveitarstjórn Rangárþings ytra gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku á allt að 50.000 m3, á allt að 5 ha svæði á efnistökustað E70 við Tungnaá. Tekið var fram að fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuver við Vaðöldu sem gengið hefði undir vinnuheitinu Búrfellslundur. Á fundum skipulags- og umferðarnefndar Rangárþings ytra 19. s.m. og 3. október s.á. var lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis. Var niðurstaða nefndarinnar samþykkt á fundi sveitarstjórnar 9. október s.á. Í október 2024 óskaði Rangárþing ytra eftir umsögn forsætisráðuneytisins varðandi efnistökuna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur. Barst umsögn frá ráðuneytinu 21. s.m. þar sem fram kom að af hálfu þess væri ekki gerð athugasemd við að leyfið yrði veitt.

Með tölvubréfi Landsvirkjunar til Rangárþings ytra 5. nóvember 2024 var bent á að eftir nánari athugun og vettvangsskoðun hefði komið í ljós að búið væri að taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri hér með óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 á um 2,4 ha svæði. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 7. s.m. þar sem fram kom að Landsvirkjun hefði óskað eftir breytingum á fyrrnefndri umsókn um framkvæmdaleyfi. Málið væri því endurupptekið að beiðni félagsins á grundvelli nýrra gagna og upplýsinga. Fyrirhuguð efnistaka væri ætluð til framkvæmda við vindorkuverið við Vaðöldu og væri framkvæmdin ekki matsskyld. Lagt var til við sveitarstjórn að samþykkt yrði útgáfa framkvæmdaleyfis enda væri efnistaka í samræmi við skipulagsáætlanir. Þá væri ekki talin þörf á því að kalla eftir umsögnum að nýju með hliðsjón af því að breytingin fæli í sér að dregið væri úr fyrirhuguðum framkvæmdum. Var lagt til að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út leyfið og hafa eftirlit með framkvæmdum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember 2024 var greind niðurstaða samþykkt og gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi degi síðar fyrir efnistöku á allt að 40.000 m3 af steypu- og fyllingarefni, á um 2,4 ha svæði á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta sé nátengt þremur öðrum kærumálum hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem varða vindorkuverið Búrfellslund. Umfjöllun um þau verði ekki slitin í sundur með vísan til þeirra grunnraka umhverfismatslöggjafar að ekki sé heimilt að skilja að umfjöllun um einstaka þætti framkvæmdar, sbr. einnig tölulið 13.02 í 1. viðauka og v-lið 3. töluliðar 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Hin kærða ákvörðun varði hluta af umhverfismetinni framkvæmd. Ákvörðunin hafi verið tekin án þess að athugun hafi farið fram á samrýmanleika efnistökunnar við bindandi umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, málsmeðferðarreglur laga nr. 111/2021 og skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi heldur verið gætt að því hvort leyfi samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði lægi fyrir eða leyfi Orkustofnunar til efnistöku í þjóðlendum samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Um sé að ræða framkvæmd sem hafi verið hluti leyfisbeiðnar Landsvirkjunar frá 2. september 2024 og kærumál nr. 103/2024 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjalli um. Engar skýringar komi fram í gögnum máls hvers vegna leyfisbeiðnum sé skipt upp og þær afgreiddar með mörgum leyfum. Ljóst sé að það geri almenningi verulega örðugt fyrir að njóta þátttökuréttar síns.

Málsrök Rangárþings ytra: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun hafi ekki lengur gildi þar sem hún hafi verið endurupptekin vegna beiðni Landsvirkjunar þar um. Kærandi eigi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunnar. Verði ekki á það fallist sé farið fram á frávísun kærumálsins með vísan til þess að kæruefnið uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ljóst sé að gildandi ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi á efnistöku á allt að 40.000 m3 falli ekki undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda- og áætlana, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka laganna. Vísað sé til fordæmis úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði nefndarinnar frá 9. október 2024 í máli nr. 90/2024. Þá beri úrskurðarnefndinni að skoða aðild kæranda sjálfstætt í hverju máli.

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að engir ágallar séu á þeirri ákvörðun sveitarfélagsins að samþykkja framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar. Mótmælt sé þeim fullyrðingum kæranda að efnistaka sú sem um sé rætt í máli þessu sé hluti framkvæmdar við uppbyggingu á vindorkuveri í Vaðöldu. Þótt efnistakan hafi verið tilgreind í matsskýrslu framkvæmdaraðila fyrir Búrfellslund sé engu að síður um sitthvora framkvæmdina að ræða, enda geti framkvæmdaraðili eins nýtt efni til vegagerðar frá öðrum efnistökusvæðum. Ekki verði einungis nýtt efni frá E70 í allar þær framkvæmdir sem fylgi uppbyggingu vindorkuversins við Vaðöldu. Það sé ekki hægt að telja efnistöku á allt öðrum stað en á deiliskipulagssvæði vindorkuversins sem sömu framkvæmd heldur sé um að ræða tvær framkvæmdir í skilningi laga nr. 111/2021. Landsvirkjun sé ekki bundið við að taka efni úr tiltekinni efnisnámu til uppbyggingar vindorkuversins eða tengdra framkvæmda. Töluliður 13.02 í 1. viðauka sömu laga eigi ekki við um efnistökuna, enda sé ekki um að ræða breytingar eða viðbætur á framkvæmd sem sætt hafi mati á umhverfisáhrifum. Þá verði hvorki séð að skylt sé að umhverfismeta efnistökuna, sbr. 2. kafla í 1. viðauka laganna, né að hún sé tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021.

Því sé mótmælt að málsmeðferð Rangárþings ytra hafi verið ómálefnaleg eða að almenningi hafi á einhvern hátt verið gert erfitt fyrir að kynna sér málið. Sveitarfélagið birti fundargerðir nefnda og sveitarstjórnar á heimasíðu sinni sem og framkvæmdaleyfi. Þá hafi ekki þurft að afla leyfis Fiskistofu fyrir efnistökunni þar sem framkvæmdin hafi engin áhrif á t.a.m. fiskigengd.

 Athugasemdir Landsvirkjunar: Leyfishafi fer fram á frávísun málsins á grundvelli sömu sjónarmiða og fram koma í umsögn Rangárþings ytra. Er þar að auki bent á að málið hafi verið endurupptekið hjá sveitarfélaginu áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út og því beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að vísa kærumálinu frá, sbr. athugasemdir við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í frumvarpi því er orðið hafi að lögunum, þar sem segi að ef óskað sé eftir endurupptöku áður en mál sé kært beri æðra stjórnvaldi almennt að vísa málinu frá.

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að afgreiðsla málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglugerða um veitingu framkvæmdaleyfa. Ekki hvíli skylda á sveitarfélaginu að afgreiða hvern og einn hluta umsóknar um leyfi á sama tíma eða með útgáfu sama framkvæmdaleyfis. Ljóst sé að umfangsmiklar framkvæmdir á borð við þá sem hér um ræði feli í sér marga framkvæmdarþætti sem hver og einn geti krafist sjálfstæðs leyfis. Málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið opinber og öllum ljós sem áhuga hafi á að fylgjast með. Brjóti það í engu gegn sjónarmiðum umhverfisréttar, s.s. um þátttöku almennings, þó að almenningur þurfi eftir atvikum að fylgjast með leyfisveitingum sveitarfélagsins um einstaka hluta umfangsmikilla framkvæmda.

Framkvæmdir vegna uppbyggingar vindorkuversins hafi nú þegar sætt ítarlegri og lögbundinni málsmeðferð innan stjórnsýslunnar, þ.m.t. af hálfu leyfisveitenda og umsagnaraðila. Auk þess hafi sveitarfélagið, sem handhafi skipulagsvalds á svæðinu, tekið afstöðu til nýtingar á efni við Tungnaáreyrar í aðalskipulagi, en ávallt hafi legið fyrir þörf á efnistöku vegna framkvæmda við Búrfellslund, s.s. úr Tungnaáreyrum. Svæðið hafi endurtekið verið nýtt til efnistöku um áratugaskeið allt frá því að uppbygging við Búðarhálsvirkjun hafi hafist. Umrædd efnistaka sé ekki úr námu heldur sé aðeins um að ræða töku yfirborðsefnis á svæðinu sem ekki sé framkvæmd með uppgreftri. Efnistakan falli hvorki undir gildissvið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála né laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þrátt fyrir nafngift námunnar beri að árétta að öll eiginleg efnistaka fari fram í meira en 150 m fjarlægð frá bakka og vatnsfarvegi Tungnaár.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur ljóst að með síðari ákvörðun sveitarstjórnar um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku við Tungnaáreyrar hafi hvort tveggja leyfishafi sem og stjórnvald verið að koma sér undan ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum með því að færa rúmmál efnistökunnar niður fyrir þröskuldsviðmið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Um sé að ræða málamyndaákvörðun og beri úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fjalla um fyrri ákvörðunina líka. Jafnframt sé bent á að samkvæmt tölvupósti lögmanns stjórnvalds finnist ekki leyfi fyrir þeirri 10.000 m3 efnistöku sem leyfishafi haldi fram að hafi þegar átt sér stað á umræddum stað.

———-

Niðurstaða: Í máli þessu er annar vegar deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. október 2024 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 50.000 m3 efnistöku á 5 ha svæði á Tungnaáreyrum og hins vegar ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember s.á. um að veita framkvæmdaleyfi fyrir allt að 40.000 m3 efnistöku á 2,4 ha svæði á Tungnaáreyrum.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 111/2021 skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í 1. viðauka við lögin ávallt háðar umhverfismati, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lögin skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka laganna. Fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira undir A flokk í 1. viðauka við lögin, sbr. tölulið 2.01 í 1. viðauka. Undir B flokk fellur efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. tölulið 2.02 í 1. viðauka við lögin.

Líkt og rakið hefur verið samþykkti sveitarstjórn 9. október 2024 umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi til efnistöku á allt að 50.000 m3 á efnistökustað E70 á Tungnaáreyrum. Á fundi sveitarstjórnar 13. nóvember s.á. var hins vegar samþykkt að endurupptaka og samþykkja breytta umsókn leyfishafa um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á Tungnaáreyrum og var gefið út framkvæmdaleyfi 14. s.m. í samræmi við það, eða vegna efnistöku á allt að 40.000 m3 á efnistökustað E70. Að því virtu hefur ákvörðun sveitarstjórnar frá 9. október s.á. um að samþykkja 50.000 m3 efnistöku á Tungnaáreyrum ekki lengur réttarverkan að lögum. Hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirrar ákvörðunar og verður þeim hluta kærumálsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu leyfishafa var gefin sú skýring á breyttri umsókn um framkvæmdaleyfi að komið hefði í ljóst að búið væri taka um 10.000 m3 á svæðinu og væri því óskað eftir því að gefið yrði út framkvæmdaleyfi fyrir 40.000 m3 efnistöku. Ekki kemur þó fram hvenær téð efnistaka hafi farið fram en sveitarfélagið hefur bent úrskurðarnefndinni á að við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að rask hafi átt sér stað á efnistökusvæði E70, en að engin gögn hafi fundist hjá sveitarfélaginu um rask eða efnistöku á svæðinu. Hvað sem líður ástæðum þess að leyfishafi óskaði eftir breytingum á umsókn sinni liggur allt að einu fyrir að hið umdeilda leyfi er samþykkt var 13. nóvember 2024 tekur aðeins til 40.000 m3 efnistöku. Með þeirri breytingu fór umfang efnistökunnar því undir þau viðmið sem að framan greinir svo hún sé háð ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. tölulið 2.02 í flokki B í 1. viðauka við lögin. Verður jafnframt að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að líta svo á að um nýja framkvæmd væri að ræða, en ekki breytingu eða viðbót við eldri framkvæmd, sbr. tölulið 13.02 í sama viðauka.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er heimild til málskots til úrskurðarnefndarinnar bundin við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, samkvæmt þeim lögum, skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað. Er um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna tekið fram að fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður með vísan til þessa, sbr. einnig b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að álíta að kærandi njóti ekki kæruaðildar hvað varði kæru á ákvörðun sveitarstjórnar frá 13. nóvember 2024. Að öllu framangreindu virtu verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.