Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

175/2024 Kirkjuból

Árið 2025, fimmtudaginn 13. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 175/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og slökkva á því.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir S23 ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og slökkva á því. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 20. desember 2024, að leggja á kæranda dagsektir kr. 150.000 frá og með 7. janúar 2025 fyrir hvern dag sem ekki væri orðið við kröfum um að fjarlægja greint skilti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 12/2025, sameinað máli þessu þar sem málin eru samofin og kærandi sá sami í báðum málum.

Í báðum framangreindum kærum var krafist stöðvunar réttaráhrifa á meðan málin væru til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 10. og 27. janúar 2025.

Málavextir: Hinn 20. maí 2022 var sótt um breytingu á skilti er stendur við Hvalfjarðargöng til skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalsfjarðarsveitar. Fram kom að skiltinu yrði breytt í einnar eða tvíhliða LED upplýsinga- og auglýsingaskilti með klukku og vindmæli. Skiltið yrði að svipaðri stærð og skilti sem fyrir væri. Engar jarðvegsframkvæmdir væru fyrirhugaðar og skiltið yrði sambærilegt öðrum sem víða væri að sjá við þjóðveg 1. Umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefndar Hvalfjarðarsveitar 21. september s.á. þar sem henni var hafnað á grundvelli gr. 6.9.4. og 6.9.5. í þágildandi reglum Hvalfjarðarsveitar um skilti. Með bréfi, dags. 24. september 2022, var tilhögun skiltisins útskýrð nánar og óskað eftir að umsóknin yrði tekin til umfjöllunar að nýju. Það hafi verið gert og fyrri ákvörðun staðfest með vísan til þess að skiltið félli ekki að reglum sveitarfélagsins um skilti.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var umsækjandi leyfisins upplýstur um að byggingarfulltrúi hefði orðið þess var að þrátt fyrir synjun um breytingu á skiltinu hefði umrætt skilti samt sem áður verið reist á gatnamótum við enda Hvalfjarðarganga. Gaf byggingarfulltrúi umsækjandanum kost á að koma á framfæri upplýsingum og gögnum um framkvæmdina áður en gripið yrði til ráðstafana vegna meintrar óleyfisframkvæmdar. Með svarbréfi, dags. 19. febrúar s.á. kom fram að eigendur skiltisins teldu að fyrir lægi leyfi fyrir skilti á þessum stað og hefðu verið í góðri trú við uppfærslu þess. Þessi afstaða byggði á staðfestum og óstaðfestum samtölum við embættismenn sveitarfélagsins veturinn 2022 og sumarið 2023. Samkvæmt þeim samtölum hefði legið fyrir að breyta ætti reglum um skilti í sveitarfélaginu og skiltið myndi falla innan hinna nýju reglna. Á grundvelli þessara samtala hafi verið hafist handa við að uppfæra skiltið. Var óskað eftir að tekið yrði upp samtal um lausn málsins í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi væru.

Byggingarfulltrúi sendi umsækjanda leyfisins bréf, dags. 19. júlí 2024, þar sem vísað var til gildandi ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um skilti. Þá kom fram að hið umdeilda skilti væri háð byggingarleyfi samkvæmt ákvæðum laga og reglugerðar, en slíkt leyfi lægi ekki fyrir. Teldi byggingarfulltrúi að grípa þyrfti til aðgerða á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar, og krefjast þess að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Í svarbréfi til sveitarfélagsins, dags. 4. október s.á., kom fram að sá einstaklingur sem sveitarfélagið hefði beint kröfu sinni að hefði ekki lögmæta hagsmuni af boðaðri stjórnvaldsákvörðun og væri því ekki réttur móttakandi hennar. Viðkomandi hefði aldrei verið eigandi, leigutaki eða lóðarhafi umrædds landskika eða eigandi eða umráðamaður umrædds skiltis. Með sama hætti væri hann ekki leigutaki skiltisins og af því leiddi að erindinu hefði verið beint að röngum móttakanda. Lóðarleigutaki og eigandi skiltisins væri félagið S23 ehf.

Í kjölfarið sendi byggingarfulltrúi bréf til þinglýstra eigenda Kirkjubóls, L133697,  dags. 11. nóvember 2024, þar sem forsaga málsins var reifuð. Þá var fjallað um þau ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar er fjalla um skilti og umsókn um byggingarleyfi fyrir þeim. Þá var einnig fjallað um heimildir byggingarfulltrúa til að bregðast við óleyfisframkvæmdum með þvingunarráðstöfunum. Upplýsti byggingarfulltrúi að sem eigendur lóðarinnar bæru þau ábyrgð á að uppfyllt væru skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar. Væri honum því heimilt að beina kröfum sínum varðandi umrætt skilti að þeim. Til viðbótar var bent á að engin lóð hefði verið stofnuð vegna umrædds landskika sem skiltið stæði á og engum leigusamningi hefði verið þinglýst. Fór byggingarfulltrúi fram á að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Yrði ekki farið eftir þeirri ákvörðun væri byggingarfulltrúa heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 að beita dagsektum. Með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 fór byggingarfulltrúi fram á að notkun skiltisins yrði stöðvuð tafarlaust með því að slökkt yrði á skiltinu. Yrði þeirri kröfu ekki sinnt innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins myndi hann láta vinna verkið á þeirra kostnað, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna.

Eigendur Kirkjubóls andmæltu fyrirhuguðum aðgerðum byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 25. nóvember 2024. Var bent á að á umræddum stað hefði verið skilti í yfir 24 ár og að forveri hins nýja skiltis hefði verið þarna í meira en 10 ár. Óumdeilt væri að leyfi hefði verið fyrir skilti á þessum stað og það hafi verið staðfest af fulltrúum sveitarfélagsins. Leigusamningur væri í gildi um landskika undir skiltið og hefði verið frá árinu 2013. Leigutaki væri félagið S23 ehf. og væri félagið einnig eigandi skiltisins. Sá aðili sem ætti hvað mestu lögvörðu hagsmuna að gæta í málinu væri það félag og bæri sveitarfélaginu því að beina erindi sínu að því.

Byggingarfulltrúi sendi í kjölfarið bréf, dags. 29. nóvember 2024, til S23 ehf. þar sem forsaga málsins var reifuð ásamt þeim laga og reglugerðarákvæðum sem málinu tengdust. Þá var bréf byggingarfulltrúa til eigenda Kirkjubóls, frá 11. s.m., meðfylgjandi. Í bréfinu kom einnig fram að engin lóð hefði verið stofnuð um spilduna sem skiltið væri staðsett á og ekki lægi fyrir leigusamningur, þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að slíkur samningur hefði verið gerður. Vegna upplýsinga um að S23 ehf. hefði hagsmuna að gæta vegna greinds skiltis væri upplýst um þá ákvörðun byggingarfulltrúa að notkun skiltisins yrði stöðvuð tafarlaust og á því slökkt. Yrði það ekki gert fyrir 13. desember myndi byggingarfulltrúi láta vinna verkið á kostnað eiganda landsins, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Var afrit bréfsins sent á landeigendur Kirkjubóls.

Með tölvupósti 10. desember s.á. upplýsti framkvæmdastjóri S23 ehf. um vilja til að ná sáttum en vegna erfiðleika við niðurtöku skiltisins og viðkvæms tækjabúnaðar væri veruleg hætta á skemmdum ef slökkt væri fyrirvaralaust á skiltinu sem og niðurtöku þess. Væri það einkum vegna kulda og veðurskilyrða á svæðinu. Kostnaður við skiltið hlypi á tugum milljóna króna og ljóst að skemmdir kynnu að nema háum fjárhæðum ef farið yrði í boðaðar aðgerðir. Var boðist til að gert yrði samkomulag um að slökkt yrði á skiltinu og það tekið niður eigi síðar en 1. júní 2025. Í svari byggingarfulltrúa, dags. 11. s.m., sem sent var bæði landeigendum og S23 ehf., hvatti hann til að slökkt yrði á skiltinu fyrir 13. s.m. Ekki væri spáð frosti á umræddu svæði og aðstæður væru hagstæðar til að slökkva á skiltinu og taka það niður ef vilji væri til, áður en byggingarfulltrúi gripi til áður greindra ráðstafana.

Með bréfum til landeigenda og S23 ehf., dags. 20. desember s.á., krafðist byggingarfulltrúi að slökkt yrði tafarlaust á skiltinu og það fjarlægt. Þá tilkynnti hann að ákveðið hefði verið að leggja dagsektir á eigendur skiltisins sem og landeigendur þar til skiltið yrði fjarlægt sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010. Fjárhæð dagsekta væri kr. 150.000 frá og með 7. janúar 2025.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að á þeim stað sem hið umdeilda skilti standi hafi verið auglýsingaskilti í yfir 24 ár án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir. Óumdeilt sé að leyfi sé fyrir skilti á þessum stað og það hafi verið staðfest af fulltrúum sveitarfélagsins. Það skilti sem verið hafi fyrir núverandi skilti hafi verið 14 m2 á stærð. Engar athugasemdir hafi verið settar fram af byggingarfulltrúa á byggingartíma núverandi skiltis, en uppsetning þess hafi tekið nokkra mánuði.

Fyrstu kröfur gagnvart kæranda hafi komið með bréfi, dags. 11. nóvember 2024, og svo með bréfi, dags. 29. s.m. Þegar íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir séu boðaðar í bréfum verði að vanda til verka enda gildi um slíkar ákvarðanir ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lög nr. 160/2010 um mannvirki. Gæta verði meðalhófs við töku ákvarðana og forðast að valda óþarfa tjóni.

Ekki hafi verið tilefni til að grípa til þeirra úrræða sem boðuð hafi verið og hvað þá án frekari undirbúnings eða í andstöðu við stjórnsýslulög og lög um mannvirki. Byggingarleyfi sé til staðar fyrir skilti á þeim stað sem um ræði og einungis sé um að ræða nýtt skilti á sama stað og á sama stöpli með nýrri og nútímalegri útfærslu. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að skiltið fengi að vera eftir samskipti við fulltrúa sveitarfélagsins, bæði fyrir uppsetningu og eftir. Sú skylda hvíli á sveitarfélaginu að sýna fram á að skiltið sé í andstöðu við gildandi byggingarleyfi, en það hafi ekki verið gert.

Kærandi hafi boðist til að slökkva á skiltinu og taka það niður fyrir 1. júní 2025 til að koma í veg fyrir að það yrði fyrir skemmdum. Það að taka skiltið niður tæki nokkrar vikur og væri slökkt á skiltinu fyrirvaralaust lægi fyrir að töluverðar skemmdir yrðu á viðkvæmum tölvubúnaði þess.

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 160/2010 komi fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, meðal annars með tilliti til meðalhófs. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum geti komið til álita ýmis sjónarmið, svo sem hversu íþyngjandi aðgerða sé krafist gagnvart þeim sem úrræðin beinist að, hvort og með hvaða hætti þeir tengist meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni sé verið að tryggja og hversu langur tími hafi liðið frá atburði þar til ætlunin sé að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Kærandi telji ljóst að reglum um meðalhóf hafi ekki verið fylgt enda fyrirséð að félagið verði fyrir umtalsverðu fjártjóni og eigur þess verði fyrir skemmdum verði gripið til þeirra úrræða að slökkva á skiltinu.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Sveitarfélagið vísar til þess að umrædd framkvæmd sé háð byggingarleyfi og þar sem engin slík heimild liggi fyrir hafi byggingarfulltrúi heimild til að krefjast þess, með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, að notkun skiltisins verði stöðvuð með því að slökkt verði á skiltinu. Þá hafi byggingarfulltrúi heimild til að láta vinna verkið á kostnað landeiganda verði þeirri kröfu ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Fyrirsvarsmaður S23 ehf. hafi greint frá því að skiltið sé í eigu félagsins og að félagið hafi umráð með landi sem skiltið standi á. Veittir hafi verið rúmir frestir til að bregðast við kröfum byggingarfulltrúa en ekki hafi verið brugðist við. Fullyrðingar kæranda um að það fari illa með skiltið að slökkva á því og að margar vikur taki að fjarlægja það séu ótrúverðugar og hafi auk þess engin áhrif á réttmæti ákvörðunarinnar. Áður en skiltið hafi risið hafi legið fyrir að óheimilt væri að reisa það enda hefði umsókn vegna þess verið hafnað í tvígang. Vegna þessa sé einnig afar ótrúverðugt að kærandi hafi talið leyfi vera til staðar vegna umrædds skiltis. Þá sé bent á að sá aðili sem upphaflega sendi inn umsókn um leyfi vegna skiltisins hefði verið í stjórn S23 ehf. þar til 14. desember 2024.

Engin lóð hafi verið stofnuð um spilduna er skiltið standi á og engin gögn, nema staðhæfingar landeigenda og fyrirsvarsmanna S23 ehf., liggi fyrir um eignarhald á skiltinu eða leigu S23 ehf. á umræddri lóð. Hinn 23. desember 2024 hafi sveitarfélaginu verið afhentur leigusamningur milli þriðja aðila og annars eiganda Kirkjubóls þar sem fram komi að leigutaka sé heimilt að hafa á skikanum auglýsingaskilti. Engin gögn liggi fyrir um að samningurinn hafi verið framseldur eða að leigutaki hafi nýtt heimild samningsins til framleigu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að óljóst sé hvaða ákvörðun sé í gildi og hafi verið tekin. Sveitarfélagið hafi tekið tvær ákvarðanir vegna skiltisins, annars vegar að slökkt yrði á skiltinu og hins vegar að leggja á dagsektir þar til skiltið verði fjarlægt. Félagið S23 ehf. sé eigandi skiltisins sem sé staðsett í landi Kirkjubóls. Félagið sé leigutaki að landskika þar sem skiltið standi samkvæmt undirrituðum lóðarleigusamningi. Að mati kæranda sé ákvörðun sveitarfélagsins um að slökkt verði á skiltinu liðin undir lok, enda hafi sveitarfélagið ekki ráðist í að slökkva á skiltinu fyrir 13. desember 2024. Ótækt sé að stjórnvald taki tvær ósamrýmanlegar ákvarðanir sem báðar séu til þess fallnar að valda tjóni og gangi lengra en góðu hófi gegni. Sveitarfélagið hafi tekið ákvörðun um að svara ekki tilraunum til að finna lausn á málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2024 að gera kröfu um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti sem stendur á jörðinni Kirkjubóli og skiltið fjarlægt. Þá lýtur málið einnig að ákvörðun byggingarfulltrúa um að leggja á dagsektir þar sem fyrirmælum um að fjarlægja skiltið hafi ekki verið fylgt.

Hið umdeilda skilti var samkvæmt gögnum málsins sett upp í stað eldra skiltis sem staðið hafði á sama stað í þónokkur ár. Ljóst er að fyrirsvarsmenn skiltisins og starfsmenn sveitarfélagsins höfðu átt í einhverjum samskiptum fyrir uppsetningu nýs skiltis, þar á meðal hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skiltinu af fyrrum stjórnarmanni S23 ehf., en þeirri umsókn verið synjað.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Fram kemur 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 að skilti falla undir gildissvið laganna. Í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna segir að kveða skuli á um staðsetningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingarleyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2. Undanþegin byggingarleyfisskyldu eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Í gögnum málsins kemur fram að hið umdeilda skilti sé um 20 m2 og er það því byggingarleyfisskylt, sbr. áðurgreind ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í málatilbúnaði kæranda hefur því verið haldið fram að eldra skiltið hafi verið með byggingarleyfi. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var umsókn um byggingarleyfi fyrir skilti samþykkt í hreppsnefnd Innri- Akraneshrepps hinn 25. maí 2000. Hins vegar hafi skilyrði fyrir útgáfu leyfis ekki verið fullnægt og leyfið aldrei gefið út.

Kærandi telur einnig að félagið hafi haft réttmætar væntingar til þess að skiltið fengi að vera eftir samskipti við fulltrúa sveitarfélagsins. Þrátt fyrir að kærandi kunni að hafa haft væntingar til þess að skiltið fengi leyfi verður ekki hjá því litið að skýrt er kveðið á um í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að auglýsingaskilti, líkt og um ræðir í máli þessu, séu byggingarleyfisskyld. Þá geta önnur lög, svo sem vegalög nr. 80/2007, umferðarlög nr. 77/2019, sem og reglugerð nr. 941/2011 um auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis gilt um uppsetningu skiltisins. Geta réttmætar væntingar ekki leitt til þess að vikið sé frá ákvæðum laga um byggingarleyfisskyldu eða takmarkað heimildir byggingarfulltrúa til að bregðast við óleyfisframkvæmdum og beitingu þeirra úrræða er finna má í lögum nr. 160/2010.

Í máli þessu hefur byggingarfulltrúi beint kröfum sínum um fjarlægingu skiltisins til bæði eiganda skiltisins, sem og eigendum jarðarinnar Kirkjubóls. Samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beina kröfum sínum að eiganda jafnt sem umráðamanni mannvirkis eða lóðar. Bera báðir aðilar samkvæmt ákvæðinu ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar. Var byggingarfulltrúa því heimilt að beina kröfum sínum að bæði eiganda skiltisins sem og eigendum Kirkjubóls þar sem hið umdeilda skilti stendur.

Hvað varðar málsmeðferð byggingarfulltrúa vegna málsins verður að telja að kærendum hafi verið veittur kostur á að koma að andmælum sínum í málinu. Verður það ekki talið til annmarka að byggingarfulltrúi hafi ekki stöðvað framkvæmdir á uppsetningartíma hins nýja skiltis enda hafði þáverandi varamaður í stjórn félagsins sótt um og fengið synjun á umsókn um byggingarleyfi fyrir skiltinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir þó rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar um að stöðva notkun skiltis sem stendur á jörðinni Kirkjuból og slökkva á því og sú ákvörðun byggingarfulltrúa að leggja á kæranda dagsektir að upphæð 150.000 kr. frá og með 7. janúar 2025 fyrir hvern dag sem ekki væri orðið við kröfum um að fjarlægja greint skilti.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.