Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2005 Urriðaholt

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2005, kæra stjórnar Landverndar, f.h. félagsins, á ákvörðun Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi og staðfestingu umhverfisráðherra á því breytta skipulagi frá júní 2005 og á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um deiliskipulag við Urriðaholt frá 4. maí 2005. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2005, sem barst nefndinni 28. sama mánaðar kærir stjórn Landverndar, f.h. félagsins, ákvörðun Garðabæjar um breytingu á aðalskipulagi og staðfestingu umhverfisráðherra á því breytta skipulagi frá júní 2005 og ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um deiliskipulag við Urriðaholt frá 4. maí 2005. 

Kröfur kæranda og helstu málsrök:  Kærandi krefst þess að umræddar ákvarðanir verði felldar úr gildi þar sem ekki hafi verið farið að ákvæðum náttúruverndarlaga.  Er til þess vísað af hálfu kæranda að svæði það sem hinar kærðu ákvarðanir taki til hafi verndargildi og að ekki hafi verið gætt ákvæða náttúruverndarlaga við meðferð málsins.  Leita hefði þurft hentugri staðar fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð sé á svæðinu.  Ef ekki hefði verið hægt að finna starfseminni annan hentugri stað hefði að lágmarki þurft að leitast við að draga úr áhrifum mannvirkja á svæðinu og minnka umfang þeirra, t.d. með bílastæðakjallara í stað þess að leggja víðfeðmt svæði undir bílastæði.  Loks hefði þurft að ganga úr skugga um, með fullnægjandi rannsóknum, að mannvirkjagerð á svæðinu hefði ekki skaðleg áhrif á lífríkið í Urriðavatni.  Fleiri rök eru færð fram í kærunni sem ekki verða rakin hér.

Kröfur og sjónarmið Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar hefur þess verið krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Telja bæjaryfirvöld að rétt hafi verið staðið að undirbúningi og gerð hinna kærðu ákvarðana og að sanngjarnt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða kæranda.

Gagnaöflun:  Úrskurðarnefndin hefur af sjálfsdáðum aflað gagna um lokaafgreiðslur hinna kærðu ákvarðana og auglýsinga um gildistöku þeirra.  Liggur fyrir að á fundi bæjarstjórnar hinn 4. maí 2005 var einungis samþykkt tillaga að breyttu aðalskipulagi umrædds svæðis en ekki fyrirliggjandi tillaga að deiliskipulagi eins og ranghermt er í kærunni.  Birtist auglýsing um staðfestingu ráðherra á hinni kærðu ákvörðun um breytingu á aðalskipulagi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. júní 2005.  Lokaákvörðun um samþykkt hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu var tekin í bæjarráði Garðabæjar í umboði bæjarstjórnar hinn 28. júní 2005 og birtist auglýsing um gildistöku þeirrar ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júlí 2005.  Hafði sú ákvörðun því ekki öðlast gildi er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni.

Reifun álitaefna um formhlið máls:  Úrskurðarnefndin tók jafnframt af sjálfsdáðum til athugunar álitaefni um valdbærni nefndarinnar um þann hluta kærunnar er lýtur að breytingu aðalskipulags og um hugsanlegan aðildarskort kæranda í málinu.  Ritaði nefndin, hinn 1. september 2005, samhljóða bréf til kæranda og bæjaryfirvalda í Garðabæ, þar sem aðilum var gefinn kostur á að tjá sig um þessi sjónarmið, sem að dómi nefndarinnar voru talin geta leitt til frávísunar málsins.  Var í bréfinu rakið að nefndin hefði tekið þá afstöðu í fyrri málum, þar sem kærðar hefðu verið ákvarðanir um aðalskipulag eða breytingar á aðalskipulagi, að vísa málunum frá með þeim rökum að úrskurðarnefndin væri ekki til þess bær að endurskoða ákvarðanir sem sættu staðfestingu ráðherra.  Var jafnframt á það bent að vandséð væri að Landvernd ætti í málinu þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að dómi nefndarinnar væru skilyrði aðildar að stjórnsýslukæru á því svið sem hér væri um að ræða.  Hafa báðir aðilar skilað sérstakri greinargerð um þessi álitaefni og tefla þar fram eftirgreindum sjónarmiðum og rökum.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé það skilgreint hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál.  Ekkert komi fram í lögunum sem takmarki valdsvið nefndarinnar varðandi mál sem hlotið hafi staðfestingu ráðherra.  Svo virðist sem staðfesting ráðherra sé hreint formsatriði og að málið hafi ekki fengið neina efnislega afgreiðslu við staðfestinguna.  Þar að auki sé komin upp ný rökstudd málsástæða sem taka þurfi til skoðunar.  Þessar upplýsingar gjörbreyti öllum málatilbúnaði þar sem þær snúi að lögmæti aðalskipulagstillögunnar og þar með að lögmæti staðfestingar hennar.  

Þá er því hafnað að kærandi geti ekki átt aðild að málinu.  Landvernd séu landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök sem starfað hafi síðan árið 1969.  Eitt megin hlutverk samtakanna sé að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum stjórnvalda er varði náttúruvernd. Samtökin samanstandi af 42 félögum og fyrirtækjum (lögaðilum) og liðlega 300 einstaklingum. Nokkrir einstaklingar sem eigi aðild að samtökunum búi í Garðabæ.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu Garðabæjar er tekið undir þau sjónarmið að vald úrskurðarnefndarinnar takmarkist við ákvarðanir lægra settra stjórnvalda en geti ekki átt við ákvarðanir ráðherra, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2906/2000. Kröfu Landverndar um að hnekkt verði staðfestingu ráðherra á breyttu aðalskipulagi í Garðabæ beri samkvæmt því að vísa frá nefndinni.

Að því er varði frávísun kæru Landverndar að öðru leyti er, sé bent á að hvorki verði ráðið af lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 né öðrum lögum að Landvernd hafi almenna aðild að ákvörðunum á sviði skipulags- og byggingarmála.  Þá liggi ekki fyrir að Landvernd hafi sértækra lögvarinna hagsmuna að gæta sem réttlætt gæti aðild að kæru með þeim hætti sem hér greini, enda ekki á því byggt í kærunni. Um þetta megi til hliðsjónar m.a. vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 171/2004.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur úrskuðarnefndin í fyrri málum komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því sé lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verði hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því bresti úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar svo og þá ákvörðun sveitarstjórnar, sem staðfestingin taki til.  Verður ekki fallist á þá skoðun kæranda í máli þessu að staðfesting ráðherra sé aðeins formsatriði heldur verður að telja að staðfestingin feli í sér lögmætisathugun á hverri þeirri ákvörðun sem til staðfestingar kemur.  Þá verður ekki á það fallist að nýjar málsástæður kæranda eigi að leiða til þess að hin kærða ákvörðun um breytt aðalskipulag komi til endurskoðunar í úrskurðarnefndinni, en slíkar ástæður kynnu hins vegar að leiða til þess að skilyrði sköpuðust til þess að beiðast endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Landvernd eru landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök sem m.a. hafa það hlutverk að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum stjórnvalda er varða náttúruvernd.  Hvergi er í lögum að finna heimild fyrir því að samtök þessi eigi aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds.  Verður ekki fallist á að samtökin eigi slíkra hagsmuna að gæta þótt þau hafi gert athugasemdir við hinar umdeildu skipulagstillögur á kynningarstigi.  Þá verður ekki heldur séð að það skipti máli þótt finna megi félaga í samtökunum búsetta í Garðabæ, enda var kæran ekki sett fram í umboði þeirra.  Breytir síðar til komin yfirlýsing eins þeirra engu þar um.  Hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna þeirra hagsmuna að gæta er verið gætu grundvöllur aðildar hans að máli þessu. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður málinu í heild sinni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                   Sesselja Jónsdóttir

 

59/2004 Lyngheiði

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 28. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2004, kæra eigenda fasteignarinnar að Lyngheiði 21, Kópavogi, á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, um að hafna beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi, er fæli í sér heimild til starfrækslu hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda á lóðinni nr. 21-23 við Lyngheiði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 2004, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir Sveinn Guðmundsson hdl., f.h. R og B, eigenda fasteignarinnar að Lyngheiði 21, Kópavogi þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, um að synja beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, er fæli í sér heimild til reksturs hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda á nefndri lóð.  Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er þess krafist að lagt verði fyrir bæjaryfirvöld að framkvæma umbeðna skipulagsbreytingu.

Málavextir:  Á lóðinni að Lyngheiði 21-23 er parhús og eiga kærendur hús nr. 21.  Umræddu húsi mun hafa verið breytt úr félagsheimili í parhús á árinu 1996, en á árinu 1999 tók gildi deiliskipulag fyrir umrædda lóð þar sem hún var stækkuð og byggingarreitir markaðir fyrir bílskúra.  Fasteign kæranda fylgir tvöfaldur bílskúr á suðvesturhluta lóðarinnar en bílskúr fasteignarinnar að Lyngheiði 23 stendur á norðausturhluta hennar.  Aðkoma að fasteign kærenda að Lyngheiði 21 er frá Lyngheiði en fasteignin að Lyngheiði 23 hefur aðkomu frá Tunguheiði.  Lóðin er í sameiginleg.

Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 7. maí 2003 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir rekstri hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs að Lyngheiði 21.  Í umsókninni var tekið fram að um óverulega starfsemi yrði að ræða, tveir til þrír viðskiptavinir á dag, með einum starfsmanni, og ætti sú starfsemi ekki að hafa óþægindi í för með sér fyrir nágranna.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar bæjarins.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir á fundi hinn 3. júní 2003 og hafnaði umsókninni.  Málið var lagt fyrir nefndina að nýju hinn 1. júlí s.á. og var þá samþykkt að grenndarkynna erindið skv. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í bókun fundarins kom fram að samþykki meðeiganda að lóð skorti.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 5. ágúst og því hafnað með vísan til framkominna athugasemda er borist höfðu, þ.á.m. frá eigendum Lyngheiðar 23.  Lutu framkomnar athugasemdir einkum að því að umsóttri starfsemi fylgdi óþægindi gagnvart nágrönnum vegna ónæðis, aukinnar bílaumferðar og bílastæðavandamála auk fordæmisgildis slíkrar ákvörðunar varðandi notkun annarra bílskúra við íbúðargötuna.

Lögmaður kærenda ítrekaði beiðni kærenda til bæjaryfirvalda með bréfi, dags. 31. október 2003, og af því tilefni var málið enn á dagskrá skipulagsnefndar hinn 2. desember s.á. og þar óskað eftir umsögn bæjarlögmanns um málið.  Nefndin synjaði síðan erindi kærenda hinn 6. janúar 2004, að fenginni fyrrgreindri umsögn bæjarlögmanns, með vísan til bókunar nefndarinnar um málið frá 5. ágúst 2003.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundum bæjarráðs hinn 8. janúar og 19. febrúar 2004 þar sem þær málalyktir urðu að afgreiðslu skipulagsnefndar var hafnað þar sem umbeðin starfsemi var ekki talin hafa í för með sér mikið ónæði eða umferð umfram það sem eðlilegt mætti teljast í íbúðarhverfi.  Var lagt fyrir skipulagsnefnd að láta vinna tillögu að breyttu skipulagi fyrir umrædda lóð og var svo gert.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 6. apríl var svo samþykkt tilaga að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina að Lyngheiði 21-23 þar sem gert var ráð fyrir heimild til reksturs hárgreiðslustofu í hluta bílskúrs kærenda og ákveðið að auglýsa tillöguna almennri auglýsingu skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var tillögunni vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn auglýsingu tillögunnar á fundi sínum hinn 13. apríl 2004.

Hinn 15. júní 2004 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir hjá skipulagsnefnd að lokinni auglýsingu en athugasemdir höfðu borist frá eigendumsex nærliggjandi fasteigna sem voru mjög á sömu lund og við grenndarkynningu tillögunnar árið áður.  Ákvað nefndin að fresta afgreiðslu málsins og leita umsagnar lögmanns tæknideildar en lagðist síðan gegn skipulagsbreytingunni með vísan til fyrri afgreiðslna nefndarinnar og framkominna athugasemda á fundi sínum hinn 6. júlí 2004, þar sem fyrir lá umsögn lögmanns tæknideildar.

Skipulagstillagan var til umræðu á fundum bæjarráðs hinn 16. og 29. júlí 2004 en málinu loks vísað til bæjarstjórnar á fundi ráðsins hinn 17. september s.á.  Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi hinn 28. september 2004 og hafnaði þar margnefndri skipulagstillögu sem kærendur hafa nú skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeilt erindi þeirra hafi falið í sér ósk um leyfi fyrir óverulegri starfsemi sem ætti ekki að íþyngja nágrönnum og því engin efnisleg rök fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Þá hafi málsmeðferð að mörgu leyti verið áfátt.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögum sé ótvírætt að eiganda séreignar sé heimilt að nýta eign sína svo fremi að ekki gangi gegn hagsmunum annarra.  Engar takmarkanir séu í lögum eða óskráðum grenndarreglum í þessu efni.  Umþrætt starfsemi sé takmörkuð þar sem aðeins annar kærenda sinni starfseminni hluta úr degi og aðeins suma daga vikunnar.  Af dómaframkvæmd og úrskurðum megi ráða að starfsemi af þeim toga er hér um ræði verði talin samrýmast þeim rétti sem felist í hagnýtingu eignarréttar. 

Á bæjarstjórnarfundi þeim sem tekið hafi hina kærðu ákvörðun hafi aðallega setið varamenn sem greinilega hafi ekki kynnt sér málið til hlítar en andstæðingar beiðni  kærenda hafi lagt sig fram um að reifa stjónarmið sín gagnvart sveitarstjórnarmönnum.  Á nefndum fundi bæjarstjórnar hafi aðeins einn aðili mælt gegn fyrirliggjandi skipulagstillögu en hann sé í kunningsskap við föður annars íbúa að Lyngheiði 23, sem hvað harðast andmæltu erindi kærenda.  Benda megi og á að annar talsmaður gegn skipulagstillögunni í bæjarstjórn sé fyrrum bekkjarbróðir beggja íbúa fyrrgreinds húss í grunn- og framhaldsskóla.  Að mati kærenda hefðu nefndir aðilar af þeim sökum átt að víkja sæti við ákvarðanatöku þótt lög heimti það ekki.

Furðu veki að hin breytta afstaða bæjaryfirvalda til málsins, sem hafi áður samþykkt umrædda skipulagstillögu, en breytt þeirri ákvörðun án sýnilegra raka.  Virðist niðurstaða málsins fyrst og fremst hafa verið af pólitískum toga en umsögn lögmanns tæknideildar hafi styrkt málatilbúnað kærenda.

Telja kærendur að með hinni kærðu afgreiðslu hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins þar sem fyrir liggi að víða í Kópavogi sé sambærileg starfsemi og hér um ræði í húsnæði sem tilheyri íbúðarbyggð.

Umdeild stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin án þess að málið hafi verið nægjanlega undirbúið eða nauðsynlegra gagna aflað um málsatvik.  Á umdeildum fundi bæjarstjórnar hafi ekki legið fyrir viðhlítandi gögn eða nægileg kynning farið fram á andstæðum sjónarmiðum fyrir ákvarðanatöku og fundinn hafi að mestu setið varamenn eins og fyrr segi.  Eins og atvikum sé háttað megi halda því fram að málsmeðferðin hafi falið í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Við ákvarðanatöku verði stjórnvöld að gæta hófs í meðferð valds.  Verði þau að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga sem valdbeiting beinist að, ekki síður en til þeirra markmiða sem stefnt sé að með ákvörðun.  Telja kærendur að í máli þessu hafi ekki verið vegin og metin þau andstæðu sjónarmið sem uppi hafi verið og meðalhófs því ekki verið gætt.

Með vísan til alls þessa beri að fallast á kröfur kærenda í máli þessu.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Um rök fyrir hinni kærðu ákvörðun vísa bæjaryfirvöld til fundargerða er málið varða og til þeirra athugasemda er bárust við grenndarkynningu og auglýsingu umdeildrar deiliskipulagstillögu.

Vísað er til þess að sameigendur kærenda að lóðarréttindum að Lyngheiði 21-23 hafi eindregið lagst gegn skipulagstillögunni og ekki samþykkt hana fyrir sitt leyti.  Þá hafi fjöldi athugasemda borist frá næstu nágrönnum, sem hafi vísað til óásættanlegs ónæðis og umferðar ef umþrætt starfsemi yrði leyfð, en um væri að ræða rótgróið íbúðarhverfi.  Yrði umrædd starfsemi leyfð með umræddri deiliskipulagsbreytingu skapaði það fordæmi sem erfitt yrði að líta framhjá hygðust aðrir við götuna hefja atvinnustarfsemi í bílskúrum sínum.  Skipulagsnefnd kveðst hafa byggt afstöðu sína á mati á fyrirhugaðri starfsemi með hliðsjón af aðstæðum og skipulagi á svæðinu og þeim óþægindum er af umræddri atvinnustarfsemi gæti hlotist í íbúðarhverfi.

Fjöldi gagna liggur fyrir í málinu þar sem kærendur og andmælendur nefndrar deiliskipulagstillögu reifa frekar sjónarmið sín sem ekki verða tíunduð nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim sjónarmiðum við úrlausn í máli þessu.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun skipulagsyfirvalda í Kópavogi á beiðni um breytingu á gildandi deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, á þann veg að notkun hluta bílskúrs á lóðinni yrði breytt í hárgreiðslustofu.  Hafa kærendur krafist ógildingar á þeirri ákvörðun og að skipulagsyfirvöldum verði gert að breyta skipulaginu í samræmi við framkomna ósk kærenda.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fara sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi með skipulagsmál og skv. 1. mgr. 23. gr. laganna ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags.  Úrskurðarnefndin hefur úrskurðarvald um gildi kærðra ákvarðana sveitarstjórnar á umræddu sviði en hefur ekki það hlutverk að taka nýjar ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum, þar sem henni er ekki falið ákvörðunarvald á þeim vettvangi.   Af þessum sökum kemur krafa kærenda, um að lagt verði fyrir sveitarstjórn Kópavogs að breyta deiliskipulagi með tilteknum hætti, ekki til álita í kærumáli þessu.

Langur aðdragandi var að hinni kærðu ákvörðun.  Á árinu 2003 var tillaga að breyttu deiliskipulagi í samræmi við beiðni kærenda grenndarkynnt og á árinu 2004 var hún kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fyrir liggur að tillagan hafi verið rædd á fjölmörgum fundum skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar og umsagna leitað. Verður í ljósi þessa ekki fallist á að undirbúningi málsins og rannsókn hafi verið ábótavant og ekkert bendir til að einstakir aðilar í sveitarstjórn hafi verið vanhæfir til afgreiðslu málsins samkvæmt hæfisreglum sveitarstjórnarlaga nr.  45/1998.

Í deiliskipulagi felst ákvörðun sveitarstjórna um landnotkun og yfirbragð skipulagssvæða sem vænta má að standi til framtíðar, enda eru borgarar og sveitarstjórnir bundnar af þeim skv. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Eigendur fasteigna á skipulögðu svæði eiga að geta gengið að því vísu að byggð og landnotkun verði að fyrra bragði í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Almennt verður að ætla að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi sem byggt hefur verið eftir og mótað hefur skipulagsreit til fulls, nema almannahagsmunir eða skipulagsleg rök búi þar að baki.

Hin kærða ákvörðun studdist við þau rök að umsótt breyting væri til þess fallin að valda ónæði og röskun í grónu íbúðarhverfi.  Jafnframt var litið til fordæmisgildis en andmæli nágranna höfðu borist við kynningu og auglýsingu tillögunnar.  Verður því að telja að málefnaleg rök standi að baki ákvörðun sveitarstjórnar og í henni felst það mat skipulagsyfirvalda að ekki væri tilefni til breytinga á skipulagi við umrædda íbúðargötu.  Ekki er kunnugt um að sveitarstjórn hafi heimilað öðrum atvinnustarfsemi á svæði því  sem hér er til umfjöllunar og eru þar af leiðandi ekki efni til að fallast á þá málsástæðu kærenda að jafnræðis hafi ekki verið gætt við umdeilda ákvörðun.

Að öllu þessu virtu verða ekki þeir annmarkar taldir á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. september 2004, að synja beiðni kærenda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Lyngheiði 21-23, er hafnað.

 

 

___________________________
 Ásgeir Magnússon

 

 
_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Sesselja Jónsdóttir

 

57/2005 Holtsgata

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2005, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. júlí 2005, sem barst nefndinni sama dag, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, Holtsgötu 5, Reykjavík, ákvörðun Skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. júní 2005 um að veita leyfi til að sameina lóðirnar nr. 1 og 3 við Holtsgötu og nr. 32A við Bræðraborgarstíg í eina lóð og byggja fjölbýlishús úr steinsteypu með 13 íbúðum og bílageymslu í kjallara fyrir 13 bíla á hinni sameinuðu lóð.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2005.

Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hefur Reykjavíkurborg gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu með ítarlegri greinargerð, dags. 8. ágúst 2005, en jafnframt hafa andmæli borist frá byggingarleyfishafa.  Þá hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað gagna um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á skipulagstillögu byggingarsvæðisins og umsagnar Brunamálastofnunar um eldvarnir milli nýbyggingar og húss kæranda.  Rannsókn málsins er þó ekki að fullu lokið og á úrskurðarnefndin m.a. eftir að kynna sér aðstæður á vettvangi.  Er málið af þeim sökum ekki enn tækt til efnisúrlausnar. 

Fyrir liggur að Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti hinn 5. ágúst 2005 takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu og girða af vinnusvæði að Holtsgötu 1.  Hefur frá þeim tíma verið unnið í grunni nýbyggingar á grundvelli þess leyfis.  Nú nýlega hefur byggingarleyfi hins vegar verið veitt fyrir nýbyggingu á lóðinni og þykir ekki rétt að draga lengur að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Því er málið nú tekið til úrskurðar um það efni.

Málsatvik:  Atvikum verður aðeins lýst stuttlega í bráðabirgðaúrskurði þessum. Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar Skipulagsráðs frá 29. júní 2005 um sameiningu lóða og um byggingar að Holtsgötu 1 í Reykjavík.  Áður höfðu skipulagsyfirvöld samþykkt deiliskipulag fyrir svonefndan Holtsgötureit, þar sem umræddar framkvæmdir eru hafnar, en á þeim reit stendur jafnframt hús kæranda.  Skaut kærandi ákvörðun borgaryfirvalda um deiliskipulag reitsins til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 17. mars 2005, og er það mál til meðferðar fyrir nefndinni.  Hafði kærandi gert athugasemdir við skipulagstillöguna og meðferð málsins hjá borgaryfirvöldum.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit hafi verið ólögmæt.  Jafnframt brjóti skipulagið gegn ákvæðum 72. gr. stjórnarskár um vernd eignarréttar.  Almannahagsmunir hafi ekki krafist þess að breytt yrði frá upphaflegri tillögu en í henni hafi verið gert ráð fyrir að aflað yrði samþykkis kæranda fyrir byggingu á lóðinni nr. 3 við Holtsgötu.  Þá leiði af skipulaginu að kærandi þurfi að þola skuggavarp og skerðingu á útsýni langt umfram það sem búast hafi mátt við.  Þá hafi ekki verið gætt jafnræðis þegar ákvörðun hafi verið tekin um nýtingarhlutfall einstakra lóða á svæðinu og hafi nýtingarhlutfall fyrir lóð kæranda verið ákvarðað til muna lægra en lóðin beri og sé það þar að auki stórum mun lægra en á nærliggjandi lóðum.  Muni kærandi verða fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni af framangreindum sökum.  Nauðsynlegt sé að stöðva framkvæmdir við uppbyggingu á reitnum meðan úrskurðarnefndin fjalli um fyrirliggjandi kæru vegna skipulags svæðisins.

Málsrök borgaryfirvalda:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Af hálfu borgarinnar er því alfarið hafnað að nokkuð hafi verið við málsmeðferð borgaryfirvalda að athuga við gerð deiliskipulags fyrir Holtsgötureit.  Efnislega sé deiliskipulagið í samræmi við stefnu borgaryfirvalda, sem m.a. komi fram í aðalskipulagi.  Skuggavarpi hafi verið haldið í lágmarki og fjarlægð nýbyggingar á lóð nr. 3 við Holtsgötu hafi verið ákvörðuð þrír metrar frá mörkum lóðar kæranda.  Hugsanlegar skemmdir á húsi kæranda af völdum framkvæmda séu á ábyrgð framkvæmdaaðila og verði því ekki séð að skipulagið, eða framkvæmdir samkvæmt því, geti haft í för með sér slík óþægindi eða fjarhagstjón fyrir kæranda að varðað geti ógildingu skipulagsins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Er á það bent að komið hafi verið til móts við athugasemdir kæranda, m.a. með því að færa aðkomu að bílageymslu frá Holtsgötu yfir á Bræðraborgarstíg.  Athugasemdir kæranda um nýtingarhlutfall hefðu þurft að koma fram á meðan enn hafi verið unnið að gerð skipulagsins en þær hafi ekki komi fram fyrr en síðar.

Aðilar hafa fært fram frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Verða þær ekki raktar frekar í bráðbirgðaúrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hafa málsaðilar reifað sjónarmið sín í málinu en auk þess hefur úrskurðarnefndin af sjálfsdáðum aflað nokkurra nýrra gagna.  Verður ekki ráðið af málsgögnum sem nú liggja fyrir að á hinni kærðu ákvörðun eða undanfarandi skipulagsgerð séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar ákvarðana þeirra sem liggja til grundvallar þeim framkvæmdum sem hafnar eru að Holtsgötu 1.  Framkvæmdirnar eru þar að auki að mestu bundnar við jarðvinnu í grunni.  Þykja ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eins og atvikum er nú háttað og með hliðsjón af því að þess er að vænta að meðferð málsins verði lokið af hálfu úrskurðarnefndarinnar áður en langt um líður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir að Holtsgötu 1 í Reykjavík verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur til meðferðar mál kæranda um gildi skipulags Holtsgötureits og byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Holtsgötu 1.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

 

47/2005 Austurvegur

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, á synjun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 á umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júní 2005, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir G, eigandi fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 að synja umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar stendur fasteignin að Austurvegi 18-20 á svæði sem ætlað er undir verslun og þjónustu en húsnæðið mun áður hafa verið nýtt undir verslun, bakarí og krá.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Húsið er tveggja hæða, 485 fermetrar að flatarmáli og stendur á 1.276 fermetra lóð.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 11. október 2004, leitaði kærandi eftir afstöðu umhverfismálaráðs kaupstaðarins til þeirrar fyrirætlunar hans að flytja dekkjaþjónustu, er hann rak, í hluta neðri hæðar húsnæðisins að Austurvegi 18-20.  Erindið var tekið fyrir á fundi ráðsins hinn 18. október 2004 og var þar óskað eftir nánari útfærslu og teikningum af fyrirhuguðum breytingum svo unnt væri að grenndarkynna erindið.  Umhverfismálaráð samþykkti síðan hinn 10. janúar 2005 að grenndarkynna umsókn kæranda og bera málið undir viðkomandi umsagnaraðila en þá höfðu umbeðnar teikningar borist.

Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá fundar umhverfismálaráðs hinn 28. febrúar 2005 þar sem fram kom að athugasemdir hefðu borist frá íbúum fjögurra nærliggjandi fasteigna.  Var afgreiðslu málsins frestað þar sem enn lá ekki fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits Austurlands og beðið var eftir breyttum teikningum frá arkitekt kæranda.  Var byggingarfulltrúa falið að leita álits Skipulagsstofnunar á rekstri hjólbarðaverkstæðis á umræddum stað.

Umhverfisráð samþykkti síðan fyrir sitt leyti hinn 9. mars 2005 að hluti hússins að Austurvegi 18-20 yrði nýttur undir dekkjaverkstæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um sjón- og hljóðmengun og um almennan þrifnað. Var heimiluð starfsemi talin rúmast innan gildandi skipulags svæðisins.  Nágrannar þeir, sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu erindis kæranda, kærðu þessa afgreiðslu umhverfisráðs til úrskurðarnefndarinnar.  Töldu þeir ákvörðunina fara í bága við gildandi aðalskipulag bæjarins og skírskotuðu jafnframt til framkominna athugasemda við grenndarkynningu málsins er lutu að því að slíkri starfsemi, í næsta nágrenni íbúðarbyggðar, fylgdi óviðunandi ónæði.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands sendi bæjaryfirvöldum umsögn sína um rekstur hjólbarðaverkstæðisins í bréfi, dags. 29. mars 2005, þar sem fram kom að ekkert væri því til fyrirstöðu að gefið yrði út starfsleyfi fyrir dekkjaverkstæði á umsóttum stað svo framarlega sem skipulagsyfirvöld heimiluðu notkun hússins til starfseminnar.

Málið var loks til lykta leitt á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar hinn 26. maí 2005 þar sem umsókn kæranda um nýtingu hluta hússins að Austurvegi 18-20 undir hjólbarðaþjónustu var synjað af meirihluta bæjarstjórnar.

Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er vikið en fyrrnefnd kæra á afgreiðslu umhverfisráðs um sama efni var dregin til baka að fenginni ákvörðun bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til afstöðu umhverfisráðs bæjarins um að skipulag væri ekki því í vegi að rekin væri dekkjaþjónusta í hluta hússins að Austurvegi 18-20.  Ráðist hafi verið í töluverðan kostnað við framkvæmdir en kærandi hafi ekki getað starfrækt hjólbarðaþjónustu sína frá því í október 2004 vegna deilumáls þessa og af þeim sökum komi til álita bótaskylda bæjaryfirvalda.  Kærandi lýsir sig jafnframt ósáttan við hina kærðu ákvörðun í ljósi þess að umsókn hans, sem synjað hafi verið, hafi einnig lotið að breytingum á umræddu húsi vegna verslunarrýmis og íbúðar.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að hin kærða ákvörðun hafi einungis snúist um rekstur dekkjaverkstæðis á umdeildum stað og rökstuðningur fyrir afstöðu meirihluta bæjarstjórnar komi fram í fundargerð þess fundar þar sem ákvörðunin hafi verið tekin.

Umrætt svæði sé skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði í skipulagi og ekki verði séð af orðalagi gr. 4.5.1 og gr. 4.3.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem slík svæði séu skilgreind, að heimilt sé að hafa umdeilda starfsemi á umbeðnum stað.  Fái sú ályktun stuðning í orðalagi gr. 4.6.1 í nefndri reglugerð þar sem finna megi skilgreiningu á athafnasvæðum í skipulagi.  Á þeim svæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum og hreinlegum verkstæðum en dekkjaverkstæði hljóti að falla undir síðastgreint hugtak.  Hafi því ekki verið annað fært en að hafna erindi kæranda að þessu leyti.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var á því byggð að óheimilt væri að starfrækja hjólbarðaþjónustu eða dekkjaverkstæði á svæðum sem ætluð væru fyrir verslun og þjónustustarfsemi í skipulagi.

Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eru landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans eru mjög almennt orðuð og víða er að finna heimildir fyrir annarri starfsemi en skilgreind landnotkun skipulagssvæðis felur í sér.  Þannig er í gr. 4.5.1, sem fjallar um verslunar- og þjónustusvæði, gert ráð fyrir íbúðum á þeim svæðum þar sem aðstæður leyfa og í gr. 4.2.1 um íbúðarsvæði er heimiluð þjónustustarfsemi við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslanir, hreinlegur iðnaður, handiðnaðarfyrirtæki, þjónustustarfsemi eða önnur starfsemi sem ætlað sé að valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Af þessu leiðir að við túlkun þessara ákvæða verður fyrst og fremst að hafa í huga hvort sambýli mismunandi starfsemi sé til þess fallið að valda árekstrum eða sérstökum óþægindum.

Ekki verður talið að hjólbarðaþjónusta af þeirri gerð sem kærandi hyggst starfrækja hafi í för með sér meiri truflun eða óþægindi fyrir nágranna en búast má við að stafi frá annarri þjónustustarfemi af ýmsu tagi.  Eru þess og dæmi að hjólbarðaþjónusta hafi verið heimiluð á svæðum sem í skipulagi eru ætluð undir verslunar- og þjónustustarfsemi að því er virðist án sýnlegra vandkvæða.  Þykir orðalag skipulagsreglugerðar um skilgreiningu verslunar- og þjónustusvæða ekki heldur gefa tilefni til þeirrar þröngu túlkunar  sem lögð var til grundvallar við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Verður því að telja að starfræksla hjólbarðaþjónustu að Austurvegi 18-20 sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Seyðisfjarðar.

Almennt eiga fasteignaeigendur rétt á því að nýta fasteignir sínar í samræmi við gildandi skipulag og verða aðrir sem kunna að eiga hagsmuna að gæta að sæta því.  Þessara sjónarmiða var ekki gætt við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hún hafi ekki verið reist á réttum forsendum.  Verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005, um að synja umsókn kæranda um nýtingu hluta fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, undir hjólbarðaþjónustu, er felld úr gildi.

 

 

____________________________
Ásgeir Magnússon

 

________________________                    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

64/2005 Tjarnarbraut

Með

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2005, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005, sem staðfest var í bæjarráði Hafnarfjarðar hinn 21. júlí 2005, á umsókn kæranda um viðbyggingu og breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. ágúst 2005, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir J, eigandi um 60 fermetra bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við umrætt bakhús og að breyta notkun þess úr iðnaðarhúsnæði í íbúð.  Bæjarráð Hafnarfjarðar staðfesti þá afgreiðslu hinn 21. júlí 2005 í umboði bæjarstjórnar.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr.  Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli.  Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt undir prentsmiðju um áratuga skeið.

Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt.  Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhúsi í íbúð.  Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð.  Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um var að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.

Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.

Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun:  „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð.  Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust.  Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”

Kærandi í máli þessu kærði þessa afstöðu skipulags- og byggingarráðs til úrskurðarnefndarinnar sem vísað kærunni frá með úrskurði, uppkveðnum hinn 23. nóvember 2004, þar sem umdeild bókun skipulags- og byggingarráðs í því máli fól í sér afstöðu til fyrirspurnar en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kjölfar úrskurðarins samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda, um að reisa 3,3 fermetra anddyri við suðurhlið bakhússins að Tjarnarbraut 29 og um breytta notkun hússins í íbúð.  Lauk grenndarkynningunni hinn 11. mars 2005 og bárust athugasemdir við fyrirhugaða breytingu frá nágrönnum sem gert höfðu athugasemdir við fyrri grenndarkynningu á árinu 2003. 

Athugasemdirnar lutu að því að húsið að Tjarnarbraut 29 hafi á sínum tíma verið tveggja íbúða hús, en grafið hafi verið frá geymslukjallara hússins og honum breytt í íbúð.  Hafi umrætt bakhús verið reist sem geymsluskúr sem síðar hafi verið samþykktur sem iðnaðarhúsnæði.  Austurhluti umræddrar lóðar nái upp undir glugga bakhússins og suðurgluggar njóti lítillar sólar en húsið hafi ekki leyfi til iðnaðarstarfsemi í dag.  Fjöldi bílastæða fyrir umrætt hús sé ónógur og bil milli húsa sé ekki í samræmi við 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og standist bakhúsið engan veginn reglur um einbýlishús.

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar tók málið til afgreiðslu hinn 29. mars 2005 og hafnaði umræddu byggingarleyfi með vísan til framkominna athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá árinu 1957 um að umrætt bakhús hafi verið samþykkt sem geymsluskúr.  Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá hinn 14. júlí sl., þar sem á skorti að sveitarstjórn hefði staðfest umrædda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Bæjarráð Hafnarfjarðar tók umdeilda afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs fyrir á fundi hinn 21. júlí 2005 og staðfesti afgreiðslu ráðsins í umboði bæjarstjórnar með sömu rökum og sú ákvörðun hafði byggst á.  Kærandi hefur nú skotið þessari afgreiðslu bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að bakhúsið að Tjarnarbraut 29 sé þinglýst sem iðnaðarhúsnæði og skráð sem sérstök fasteign. 

Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem fram hafi komið við fyrri grenndarkynningu, eigi ekki við rök að styðjast. 

Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús.  Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið.  Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð.  Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29.  Umrædd bygging sé bakhús og hefði umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.

Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs.  Ljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi.  Telja verði að bakhúsið henti betur til íbúðarnota en til iðnaðarstarfsemi, enda standi húsið inni á íbúðarlóð.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar í fyrra máli um sama efni, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu.  Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.

Í minnispunktum starfsmanns umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar frá 17. mars 2005, þar sem fjallað er um framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar, er tekið undir framkomnar athugasemdir hvað varðar nálægð milli húsa og brunavarnir og talið að ekki væri fullnægt kröfum um bílastæði.  Fyrirhuguð íbúð nyti lítillar birtu þar sem hluti bakhússins væri niðurgrafinn og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsi því sem fyrir væri á lóðinni.  Þá skírskota bæjaryfirvöld til þess að húsin að Tjarnarbraut 21-27 séu einbýlis- eða tvíbýlishús og að umrætt bakhús hafi aðeins tvær gluggahliðar og sé hátt barð fyrir framan aðra þeirra.  Ef fyrirhuguð viðbygging yrði reist við skúrinn yrði fjarlægð milli húsa á lóðinni um 2,2 metrar.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin og starfsmenn hennar kynntu sér óformlega staðhætti á vettvangi hinn 23. júní 2005.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var hafnað umsókn kæranda um byggingu um fjögurra fermetra anddyris við um 60 fermetra bakhús að Tjarnarbraut 29 og breytingu á notkun hússins í íbúð.

Umrætt bakhús stendur lágt og er að hluta til niðurgrafið og er aðeins suðurhlið hússins ofan lóðaryfirborðs.  Við austurhlið hússins er brekka í lóðinni sem fer lækkandi til suðurs í átt að íbúðarhúsi því er á lóðinni stendur.  Ber yfirborð lóðarinnar að austanverðu við glugga hússins á þeirri hlið en vesturhlið hússins er sambyggð bílskúr á næstu lóð og hefur húsið því enga glugga til vesturs.  Austurhluti bakhússins er í um fjögurra metra fjarlægð frá umræddu íbúðarhúsi, en ef umsótt viðbygging væri reist, yrði skemmsta fjarlægð milli húsanna um 2,2 metrar.  Fyrir liggur að upphaflega var heimilað að nýta húsið sem geymsluskúr en ekki liggja fyrir gögn um það hvort bæjaryfirvöld hafi síðar veitt leyfi fyrir breyttri notkun hússins til iðnaðarstarfsemi.  Skráning hússins sem iðnaðarhúsnæði í fasteignamatsskrá ræður ekki úrslitum í því efni.  Með samþykkt íbúðar í kjallara umrædds húss er það orðið þríbýlishús en húsin að Tjarnarbraut 21-27 (oddatölur), sem mynda götulínu með greindu húsi, eru einbýlis- og tvíbýlishús.

Þegar hafðir eru í huga ofangreindir staðhættir verður að telja umrætt bakhús illa fallið til íbúðar.  Útsýni og birta munu verða af skornum skammti sökum þess hve húsið liggur lágt í lóð og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsinu að Tjarnarbraut 29 svo að færi í bága við markmið gr. 92.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Þá liggur fyrir að viðbygging nær íbúðarhúsinu en nú er bryti gegn ákvæðum um lágmarksfjarlægð milli húsa skv. gr. 75.3 og gr. 75.4, auk þess ef heimila ætti breytta notkun bakhússins í íbúð yrði að vera eldvarnarveggur milli húsanna skv. gr. 75.6 í nefndri reglugerð.  Þá myndi fjölgun um eina íbúð á umræddri lóð víkja enn frekar en orðið er frá þeirri nýtingu lóða sem ríkjandi er við götuna.

Að þessu virtu og með hliðsjón af fordæmisgildi slíkrar leyfisveitingar, er hér um ræðir, verður ekki fallist á ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005, sem staðfest var í bæjarráði Hafnarfjarðar hinn 21. júlí 2005, að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við bakhús að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði og að breyta notkun þess í íbúð.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

 

61/2005 Skeifan

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum og stakstæðu verðskilti á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2005, er barst nefndinni 9. sama mánaðar, kærir Hanna Lára Helgadóttir hrl., f.h. húsfélagsins Skeifunnar 3, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir bensínafgreiðslustöð á lóðinni nr. 5 við Skeifuna.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði í umboði borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 21. júlí 2005.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir, sem hafnar séu við byggingu bensínstöðvarinnar, verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Vísar kærandi til fyrri kæru, dags. 22. júní 2005, þar sem kærð er samþykkt skipulagsráðs frá 18. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Skeifunni 5, þar sem heimilað er að reisa bensínafgreiðslustöð á lóðinni, en jafnframt heldur kærandi því fram að hið umdeilda byggingarleyfi brjóti í bága við ákvæði byggingarreglugerðar, sem og reglna um heilbrigðiseftirlit, brunavarnir og mengunarvarnir.

Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn og greinargerð Reykjavíkurborgar um framangreindar kærur um téða breytingu á deiliskipulagi og veitingu byggingarleyfis ásamt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Þá hafa nefndinni borist stutt andmæli byggingarleyfishafa er einkum lúta að kröfu kæranda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Er málið nú tekið til úrlausnar um þann þátt málsins.

Málsatvik:  Haustið 2004 var leitað afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til þess hvort leyft yrði að reisa bensínsjálfsafgreiðslu á lóð nr. 5 við Skeifuna.  Tók nefndin jákvætt í erindið og lét umsækjandinn því vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem gert var ráð fyrir bensínafgreiðslunni.  Tillagan var fyrst tekin fyrir þann 8. október 2004 á fundi skipulagsfulltrúa og á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 15. desember s.á.  Vísaði nefndin tillögunni til kynningar í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd.  Að þeirri kynningu lokinni var ákveðið að auglýsa tillöguna.

Tillagan var auglýst til kynningar frá 25. febrúar til 8. apríl 2005 og bárust allmargar athugasemdir, m.a. frá eigendum eignarhluta að Skeifunni 3.  Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 2. maí 2005, var gerð tillaga að breytingum á skipulagstillögunni til að koma til móts við athugasemdir.  Var lagt til að byggingarreitur ofanjarðar fyrir bensíndælur yrði færður frá lóðamörkum og að sett yrði í skilmála deiliskipulagsins að ekki mætti vera þak yfir dælum né óþarfa skilti við stöðina.  Var auglýst tillaga samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 18. maí 2005 með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa.  Staðfesti borgarráð þessa samþykkt skipulagsráðs á fundi sínum þann 26. maí 2005.  Skipulagstillagan hlaut síðan lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 14. júlí 2005.  Hafði kærandi þá þegar skotið ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. júní 2005.

Þann 19. júlí 2005 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að koma fyrir bensínafgreiðslustöð með fjórum sjálfsafgreiðsludælum á lóðinni nr. 5 við Skeifuna.  Jafnframt var sótt um leyfi fyrir 6 m háu stakstæðu verðskilti við innkeyrslu á lóðina.  Umsóknin var samþykkt á fundinum með eftirfarandi bókun: 

„Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa. Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 5. júlí s.l., var samþykkt byggingarleyfi fyrir húsfélagið Skeifunni 5 um byggingu bensínsjálfsafgreiðslustöðvar á lóðinni nr. 5 við Skeifuna. Þegar sú samþykkt var gerð var ekki búið að staðfesta deiliskipulag á reitnum með birtingu í Stjórnartíðindum.

Vegna þessa er umrædd samþykkt felld úr gildi en málið nú samþykkt þar sem formskilyrðum hefur verið fullnægt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnatíðinda hinn 14. júli s.l.“

Eins og áður er rakið var ofangreind ákvörðun byggingarfulltrúa einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 8. ágúst 2005, og þess krafist að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi auk þess sem framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri rekið fyrir nefndinni.

Málsrök aðila:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hið umdeilda byggingarleyfi eigi stoð í skipulagi sem breytt hafi verið og sé kærumál um lögmæti breytingarinnar til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Sé því haldið fram að skipulagsbreytingin hafi farið í bága við aðalskipulag Reykjavíkurborgar og að auki hafi verið verulegir ágallar á málsmeðferð skipulagsyfirvalda þegar skipulaginu hafi verið breytt.  Rekstri bensínstöðvar fylgi óhjákvæmilega aukin umferð, slysahætta og mengun, sem allt gangi gegn lögvörðum hagsmunum kæranda.  Loks dregur kærandi í efa að umdeilt byggingarleyfi uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar sem og ákvæði reglna um heilbrigðiseftirlit, brunavarnir og mengunarvarnir.

Af hálfu borgaryfirvalda er því haldið fram að ákvarðanir um hina umdeildu skipulagsbreytingu og byggingarleyfi hafi verið teknar að vel ígrunduðu máli og að undirbúningur umræddra ákvarðana hafi í alla staði verið í samræmi við lög.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir er gerðar hafi verið við skipulagstillöguna og hafi henni verið breytt til hagsbóta fyrir nágranna, þar á meðal kæranda.  Tillögunni hafi þó ekki verið breytt í grundvallaratriðum og hafi því ekki verið skylt að auglýsa hana að nýju.  Samþykkt skipulagsráðs hafi hlotið lögboðna staðfestingu borgarráðs og verið afgreidd af Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda svo sem lögskylt sé.  Ekki hafi verið sýnt fram á að annmarkar séu á umræddri skipulagstillögu eða byggingarleyfi er líklegt sé að leitt geti til ógildingar og beri því að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Framkvæmdir byggingarleyfishafa séu alfarið á hans ábyrgð kjósi hann að halda þeim áfram meðan efnisúrlausn sé ekki fengin í málinu, en ekki séu fyrir hendi neinar þær aðstæður er réttlætt geti stöðvun framkvæmda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt.  Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og borgaryfirvöld, sem þegar hafa verið rakin.

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Hið umþrætta byggingarleyfi heimilar byggingu sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir bifreiðaeldsneyti og uppsetningu verðskiltis á lóðinni nr. 5 við Skeifuna í Reykjavík.  Byggingarleyfið á stoð í breyttu skipulagi lóðarinnar og ekki hefur verið sýnt fram á að líklegt sé að umdeild skipulagsbreyting sé haldin ógildingarannmörkum.  Að auki getur uppsetning afgreiðslustöðvar af þeirri gerð sem hér um ræðir ekki talist svo stórfelld og óafturtæk mannvirkjagerð að nauðsyn beri til að stöðva framkvæmdir við hana þótt einhver áhöld kynnu að vera um lögmæti hinna kærðu ákvarðana.

Eins og málið liggur nú fyrir og í ljósi þess sem að framan er rakið þykja ekki efni til að stöðva framkvæmdir sem hafnar eru við uppsetningu afgreiðslustöðvarinnar þar til efnisniðurstaða liggur fyrir í kærumálum kæranda.  Frekari framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru hins vegar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan málið er til efnismeðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er hafnað.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

__________________________                          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                      Ingibjörg Ingvadóttir

35/2005 Tjarnarbraut

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2005, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 á umsókn kæranda um viðbyggingu og breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2005, er barst nefndinni hinn 26. apríl sama ár, kærir J, eigandi um 60 fermetra bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við umrætt bakhús og að breyta notkun þess úr iðnaðarhúsnæði í íbúð.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr.  Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli.  Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt undir prentsmiðju um áratuga skeið.

Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt.  Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhúsi í íbúð.  Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð.  Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um var að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.

Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.

Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun:  „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð.  Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust.  Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”

Kærandi í máli þessu kærði þessa afstöðu skipulags- og byggingarráðs til úrskurðarnefndarinnar sem vísað kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 23. nóvember 2004, þar sem umdeild bókun skipulags- og byggingarráðs í því máli fól í sér afstöðu til fyrirspurnar en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kjölfar úrskurðarins samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda, um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við suðurhlið bakhússins að Tjarnarbraut 29 og um breytta notkun hússins í íbúð.  Lauk grenndarkynningunni hinn 11. mars 2005 og bárust athugasemdir við fyrirhugaða breytingu frá nágrönnum sem gert höfðu athugasemdir við fyrri grenndarkynningu á árinu 2003. 

Athugasemdirnar lutu að því að húsið að Tjarnarbraut 29 hafi á sínum tíma verið tveggja íbúða hús, en grafið hafi verið frá geymslukjallara hússins og honum breytt í íbúð.  Hafi umrætt bakhús verið reist sem geymsluskúr sem síðar hafi verið samþykktur sem iðnaðarhúsnæði.  Austurhluti umræddrar lóðar nái upp undir glugga bakhússins og suðurgluggar njóti lítillar sólar en húsið hafi ekki leyfi til iðnaðarstarfsemi í dag.  Fjöldi bílastæða fyrir umrætt hús sé ónógur og bil milli húsa sé ekki í samræmi við 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og standist bakhúsið engan veginn reglur um einbýlishús.

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar tók málið til afgreiðslu hinn 29. mars 2005 og hafnaði umræddu byggingarleyfi með vísan til framkominna athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá árinu 1957 um að umrætt bakhús hafi verið samþykkt sem geymsluskúr.  Hefur kærandi nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að bakhúsið að Tjarnarbraut 29 sé þinglýst sem iðnaðarhúsnæði og skráð sem sérstök fasteign. 

Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem fram hafi komið við fyrri grenndarkynningu, eigi ekki við rök að styðjast. 

Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús.  Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið.  Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð.  Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29.  Umrædd bygging sé bakhús og hefði umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.

Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs.  Ljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi.  Telja verði að bakhúsið henti betur til íbúðarnota en til iðnaðarstarfsemi, enda standi húsið inni á íbúðarlóð.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar í fyrra máli um sama efni, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu.  Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.

Í minnispunktum starfsmanns umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar frá 17. mars 2005, þar sem fjallað er um framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar, er tekið undir framkomnar athugasemdir hvað varðar nálægð milli húsa og brunavarnir og talið að ekki væri fullnægt kröfum um bílastæði.  Fyrirhuguð íbúð nyti lítillar birtu þar sem hluti bakhússins væri niðurgrafinn og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsi því sem fyrir væri á lóðinni.  Þá skírskota bæjaryfirvöld til þess að húsin að Tjarnarbraut 21-27 séu einbýlis- eða tvíbýlishús og að umrætt bakhús hafi aðeins tvær gluggahliðar og sé hátt barð fyrir framan aðra þeirra.  Ef fyrirhuguð viðbygging yrði reist við skúrinn yrði fjarlægð milli húsa á lóðinni um 2,2 metrar.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin og starfsmenn hennar kynntu sér óformlega staðhætti á vettvangi hinn 23. júní 2005.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðar umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu um fjögurra fermetra anddyris við 60 fermetra bakhús að Tjarnarbraut 29 og breytingu á notkun hússins í íbúð. Fundargerð ráðsins, þar sem nefnd ákvörðun var færð til bókar, var á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 5. apríl 2005 en ekki er að finna í bókun þess fundar að afstaða hafi verið tekin til byggingarleyfisumsóknar kæranda, hvorki með sérstakri bókun um erindið né með bókun afstöðu til efnis umræddrar fundargerðar skipulags- og byggingarráðs.

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra.

Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar hefur ekki verið leitt í ljós að fyrir liggi samþykkt, staðfest af ráðherra, sem heimilar skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaafgreiðslu byggingarleyfisumsókna og verður því enn að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. sjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem á skortir að sveitarstjórn hafi tekið afstöðu til umsóknar kæranda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

__________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

2/2003 Vatnsendablettur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2003, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera eiganda 50 m² húss að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi að fjarlægja það af lóðinni eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á kostnað eiganda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2003, kærir G ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að gera honum að fjarlægja 50 m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241a í Kópavogi eigi síðar en hinn 1. febrúar 2003, en að öðrum kosti verði húsið fjarlægt á hans kostnað.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar ásamt því að lagt verði fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda hans á fyrrgreindri lóð.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar hinn 26. mars 2003 frestaði úrskurðarnefndin réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og hefur hún því eigi komið til framkvæmda.

Málavextir:  Kærandi var eigandi að húsi að Vatnsendabletti 241a, sem mun hafa eyðilagst í eldsvoða í aprílmánuði árið 1999.  Ekki hefur komið til endurbyggingar húss á lóðinni og mun ágreiningur kæranda við landeiganda um réttindi yfir umræddri lóð hafa staðið því í vegi, en deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir umrætt svæði og er þar gert ráð fyrir að lóðin verði að hluta byggingarlóð fyrir íbúðarhús.

Haustið 2002 flutti kærandi 50 m² timburhús eða skúr á lóðina.  Kveðst hann hafa skipt um klæðningu á skúrnum og sett í hann glugga en ekki fest hann við undirstöður.  Hafi hann ætlað að nýta hús þetta í tengslum við hagnýtingu lóðarinnar og eftir atvikum sem vinnuaðstöðu meðan byggt væri nýtt hús á lóðinni. 

Fljótlega eftir að húsið var flutt á lóðina komu fram athugasemdir af hálfu byggingarfulltrúa um að ekki hefði verið aflað tilskilinna leyfa og tilkynnti hann kæranda að frekari framkvæmdir á lóðinni skyldu stöðvaðar.

Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. desember 2002 ákvað nefndin að gefa kæranda frest til 1. febrúar 2003 til þess að fjarlægja húsið af lóðinni en ella myndi nefndin hlutast til um að það yrði gert á kostnað eiganda.

Þessari ákvörðun vildi kærandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2003, svo sem að framan greinir. 

Bæjaryfirvöld ítrekuðu kröfu sína um brottflutning hússins, en með úrskurði uppkveðnum hinn 26. mars 2003 frestaði úrskurðarnefndin réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar og hefur hún því ekki komið til framkvæmda.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að umrætt hús sé ekki fasteign þar sem það hafi ekki verið fest við undirstöður.  Það standi þar sem áður hafi staðið hús það er brunnið hafi og telji hann sig eiga fullan rétt á að endurbyggja hús í þess stað.  Þó hafi alltaf staðið til að byggja annað hús og stærra ofar í lóðinni á skilgreindum byggingarreit en af því hafi ekki orðið þar sem byggingarleyfi hafi ekki verið veitt.  Hús það sem um sé deilt í málinu sé til bráðbirgða en fyrirhugað sé að nýta það á meðan á byggingarframkvæmdum standi. 

Kröfu sínu um útgáfu byggingarleyfis styður kærandi þeim rökum að allt frá árinu 1999 hafi landeiganda verið kunnugt um að hann hygðist byggja íbúðarhús á lóðinni og í þeim tilgangi hafi aðalskipulagi svæðisins verið breytt.  Efir að fyrrum landeigandi hafi fallið frá hafi núverandi landeigandi sagt lóðarleigusamningnum upp og hafi samningurinn ekki fengist endurnýjaður.  Á meðan svo sé neiti byggingaryfirvöld í Kópavogi að gefa út byggingarleyfi vegna byggingar íbúðarhúss á lóðinni og nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvort útgáfa byggingarleyfis sá háð samþykki landeiganda.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 9. ágúst 2002 hafi verið hafnað erindi kæranda um að honum yrði veitt leyfi til að flytja umrætt hús á lóðina til að nota sem aðstöðu meðan á endurbyggingu nýs húss á lóðinni stæði og í framhaldi af því að mega nýta húsið sem bílskúr eða bátaskýli.  Hafi m.a. verið vísað til þess að samkvæmt forsendum nýs skipulags á svæðinu þyrfti að gera nýja lóðarleigusamninga við landeiganda.  Kærandi hafi ekki kært þessa synjun byggingarnefndar og standi því óhögguð sú ákvörðun nefndarinnar að veita ekki leyfi fyrir umræddu húsi á lóðinni.  Kærandi hafi, þrátt fyrir þetta, flutt húsið á lóðina og hafist handa við endurbætur á því.  Þetta hafi honum verið óheimilt og hafi framkvæmdir verið stöðvaðar jafnskjótt og um þær hafi orðið kunnugt.  Ákvörðun byggingarnefndar um að gera kæranda að fjarlægja húsið af lóðinni eigi sér stoð í 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi hafi ekki orðið við fyrirmælum um að fjarlægja húsið og hafi því verið ákveðið að láta vinna verkið á kostnað kæranda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 að gera kæranda að fjarlægja hús það sem að framan greinir af lóðinni að Vatnsendabletti 241a og að það verði að öðrum kosti fjarlægt á kostnað kæranda. 

Í hinni kærðu ákvörðun felst að fyrirhugað er að beita þvingunarúrræðum sem byggingaryfirvöldum eru tiltæk og vísa bæjaryfirvöld til ákvæða í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sem eiga annars vegar við um byggingarleyfisskyld mannvirki sem reist eru án samþykkis sveitarstjórnar og fara í bága við skipulag og hins vegar um ólöglegar byggingar eða byggingarhluta. 

Ágreiningur er m.a. í málinu um það hvort umrætt hús sé leyfisskylt mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga þar sem það hafi ekki verið varanlega skeytt við undirstöður og þá jafnframt hvort ákvæði 2. og 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eigi við í málinu. 

Hús það sem um er deilt í máli þessu stendur á steinsteyptum hnöllum og eru þeir ekki áfastir húsinu.  Það er því ekki varanlega skeytt við jörð.  Engar lagnir eru tengdar því og verður ekki talið að um sé að ræða mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga heldur verði að líta svo á að um lausafé sé að ræða.

Ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er skipað í VI. kafla laganna er fjallar um þvingunarúrræði og viðurlög.  Verður þessum ákvæðum ekki beitt með rýmkandi lögskýringu og verður tilvitnuðum ákvæðum 56. gr. ekki beitt um lausafé sem ekki fellur undir mannvirkjakafla lagnanna.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á réttum lagagrundvelli.  Var rökstuðningi hennar að þessu leyti áfátt.

Í kærunni er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda kæranda á lóðinni.  Í kröfu þessari felst að úrskurðarnefndinni er ætlað að taka afstöðu til byggingaráforma kæranda án þess að fyrir liggi ákvörðun byggingarnefndar um að synja umsókn hans um leyfi til byggingar húss á lóðinni.  Er það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um að byggingarnefnd veiti leyfi þegar svo háttar til og verður kröfu kæranda í því efni vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 4. desember 2002 um að fjarlægja skuli 50 m² hús af lóðinni að Vatnsendabletti 241a, Kópavogi.

Vísað er frá kröfu um að úrskurðarnefndin leggi fyrir byggingarnefnd að veita byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda kæranda á fyrrgreindri lóð.

___________________________
Ásgeir Magnússon         

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Sesselja Jónsdóttir

39/2005 Norðurbakki

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 23. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2005 um að heimila niðurrif nokkurra mannvirkja við Vesturgötu og Norðurbakka Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. maí 2005, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignarinnar að Vesturgötu 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2005 að heimila Norðurbakka ehf. Strandgötu 6, Hafnarfirði, niðurrif á húsunum við Vesturgötu 9-13 (áður Bæjarútgerðin), Vesturgötu 15 (áður Norðurstjarnan), Norðurbakka 4a (vigtarhús og vigtarþró), Norðurbakka 8 (áður vöruskemma og hafnarskemma ásamt vélaverkstæði) og Vesturgötu 19 (áður vöruskemma).  Krefst kærandi þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Krafðist kærandi þess jafnframt að framkvæmdir við niðurrif húsanna yrðu stöðvaðar meðan beðið væri niðurstöðu um gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  Úrskurðarnefndin tók kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til úrskurðar hinn 9. júní sl. og var ekki talið tilefni til þess að fallast á þá kröfu.

Málavextir:  Svæði það sem umræddar byggingar standa á mun hafa verið hafnarsvæði en í húsi kæranda að Vesturgötu 4 er rekinn veitingastaðurinn A. Hansen.

Hinn 26. janúar 2005 birtist í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um gildistöku á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015.  Fólst breytingin í því að meginhluta hafnarsvæðis á Norðurbakka var breytt í íbúðarsvæði en svæði næst miðbæ var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Bryggja og hafnarkantur í suðurjaðri svæðisins voru áfram skilgreind sem hafnarsvæði.  Miðsvæði norðan Vesturgötu og vestan Merkurgötu var breytt í íbúðarsvæði en miðsvæði sunnan Vesturgötu og vestan Fjarðargötu var breytt í blandað íbúðar- og miðsvæði.  Samkvæmt auglýsingunni hlaut aðalskipulagsbreytingin samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og staðfestingu Skipulagsstofnunar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna hinn 24. janúar 2005.

Hinn 8. febrúar 2005 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar nýtt deiliskipulag fyrir Norðurbakka í Hafnarfirði er fól í sér breytingu á landnotkun úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði með þjónustu- og stofnanalóð og tiltók með hvaða hætti uppbyggingu svæðisins skyldi háttað.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. maí sl.

Á kynningartíma deiliskipulagsins gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða íbúðarbyggð á svæðinu og taldi hana fara of nærri fasteign hans þar sem fram færi veitingastarfsemi sem færi alls ekki saman við fyrirhugaðar íbúðarblokkir í næsta nágrenni.

Með bréfi, dags. 21. mars 2005, skaut kærandi ákvörðun um fyrirhugaðar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist þess að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar og öll byggingarleyfi felld úr gildi.  Voru sömu sjónarmið tíunduð til stuðnings kröfunni og sett höfðu verið fram af kæranda við kynningu deiliskipulagsins en til viðbótar bent á að öll bílastæði við veitingastað kæranda ættu að víkja samkvæmt skipulaginu og taldi hann jafnframt ýmsa ágalla hafa verið á málsmeðferð skipulagstillögunnar.  Er umrædd kæra til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 10. maí 2005, kærði síðan kærandi veitt byggingarleyfi fyrir niðurrifi húsa á Norðurbakka og krefst hann ógildingar byggingarleyfisins svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að athugasemdum hans við fyrirhugaðar framkvæmdir samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi hafi ekki verið svarað af Hafnarfjarðarbæ, en hann eigi beinna hagsmuna að gæta varðandi framkvæmdirnar.  Byggir kærandi kröfu sína á því að skipulagslegum aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar sé í ýmsu áfátt og brjóti gegn 10., 13., 14. eða 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telur kærandi að umdeilt niðurrif hafi ekki verið grenndarkynnt, en hann hafi gert athugasemdir við þá aðgerð þar sem lagfæringar og frágangur eftir niðurrifið hafi ekki samræmst kröfum hans né kröfum þeim sem miðbæjarsamtök Hafnarfjarðar hafi sett fram.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafa ekki borist athugasemdir eða sjónarmið vegna kærumáls þessa og ekki hefur tekist að ná sambandi við byggingarleyfishafa.

Niðurstaða:  Með gildistöku aðalskipulagsbreytingar hinn 26. janúar 2005 mun svæði því, sem umdeilt byggingarleyfi fyrir niðurrifi fyrrgreindra mannvirkja tekur til, hafa verið breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði.  Aðalskipulagsákvarðanir sæta ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar, enda er gildistaka þeirra háð staðfestingu umhverfisráðherra sem æðsta handhafa stjórnsýsluvalds á sviði skipulagsmála.

Mannvirki þau, sem umdeilt byggingarleyfi heimilar niðurrif á, voru hönnuð og nýtt fyrir hafnar- og atvinnustarfsemi og á leyfið því stoð í aðalskipulagi Hafnarfjarðar, svo sem því var breytt á þessu ári, en umrætt svæði er nú ætlað undir íbúðarbyggð.  Byggingarleyfið snertir á engan hátt með hvaða hætti uppbygging svæðisins verður í kjölfar brottnáms bygginganna.  Umrædd mannvirki hafa þegar verið rifin og aðeins eftir að ljúka framkvæmdum við flutning efnis og frágang svæðisins sem einungis kann að baka kæranda tímabundið óhagræði vegna veitingarekstursins í næsta nágrenni.

Að öllu þessu virtu þykja hvorki hagsmunir kæranda né aðrar ástæður geta leitt til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 18. janúar 2005 að heimila niðurrif á húsunum við Vesturgötu 9-13, Vesturgötu 15, Vesturgötu 19, Norðurbakka 4a og Norðurbakka 8, er hafnað.
.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir

66/2004 Höfði

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 7. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2004, kæra eiganda landspildu í Skammadal í landi Reykja í Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 12. október 2004 að ítreka synjun á fyrri umsókn um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við eldra hús að Höfða í Skammadal, svo og að krefjast þess að kærandi fjarlægi þegar í stað umrædda viðbyggingu, og að mælast til þess við bæjarstjórn að beitt verði dagsektum verði viðbyggingin ekki fjarlægð fyrir 1. desember 2004.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafur Gústafsson hrl., f.h. G, Ásgarði II, Mosfellsbæ, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 12. október 2004 um að ítreka synjun á fyrri umsókn um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við eldra hús að Höfða í Skammadal, að gera kæranda að fjarlægja þegar í stað umrædda viðbyggingu svo og að mælast til þess við bæjarstjórn að verði viðbyggingin ekki fjarlægð fyrir 1. desember 2004 verði beitt dagsektum. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 27. október 2004.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan úrskurðarnefndin hafi kærumál þetta til meðferðar.

Málavextir:  Kærandi er eigandi að landspildu í Skammadal í landi Reykja í Mosfellsbæ, en þar stendur húsið Höfði sem reist var á árunum 1936 – 1938 af Starfsmannafélagi Sambands íslenskra samvinnufélaga.  Síðar eignaðist kærandi fasteignina og árið 1998 óskaði hann eftir heimild byggingarnefndar Mosfellsbæjar til að setja niður sumarbústað til bráðabirgða á landinu og gaf nefndin út stöðuleyfi til eins árs.  Stöðuleyfi þetta var tvívegis framlengt og í bæði skiptin til eins árs, fyrst hinn 22. nóvember 1999 og síðar hinn 5. september 2000.  Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi innréttað sumarbústaðinn og tengt hann eldra húsinu sem fyrir stóð á landspildunni.  Í júlí árið 1999 var kæranda veittur réttur til heilsársbúsetu í húsinu, en bæjaryfirvöld hafa þó vefengt þá heimild.

Eins og fyrr segir veittu byggingaryfirvöld kæranda stöðuleyfi fyrir sumarbústaðnum en beiðni hans um að viðbyggingin fengi að standa til frambúðar var hafnað á fundi byggingarnefndar hinn 16. desember 1999.  Kærandi ritaði bæjarráði bréf, dags. 12. mars 2000, þar sem hann fór fram á hið sama, en á fundi skipulagsnefndar hinn 18. apríl sama ár var erindinu synjað og fór nefndin fram á að viðbyggingin yrði fjarlægð.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 26. apríl 2000. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. september 2002 var tekið til afgreiðslu erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir heimild til stækkunar hússins og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 01.09.2002, þar sem óskað er eftir heimild til stækkunar á húsnæði.  Heildarstærð hússins eftir stækkun er 120m².  Um er að ræða leyfi fyrir húsnæði sem fékk tímabundið stöðuleyfi til eins árs og rann sá frestur út á árinu 2000.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er sumarhúsið á svæði sem skilgreint er sem almennt útivistarsvæði, þar sem ekki er gert ráð fyrir sumarhúsi eða heilsárshúsi.  Málinu frestað og vísað til umhverfisdeildar til frekari skoðunar í samræmi við umræður á fundinum.“ 

Hinn 5. nóvember 2002 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu á ný og er eftirfarandi fært til bókar:  „Erindi frá Guðmundi Lárussyni, dags. 29.08.2002.  Framhaldsumræða.  Símbréf, dags. 4.11.2002, þar sem óskað er eftir frestun á erindi hans.  Umræðu um framtíðar landnotkun er frestað.  Nefndin ítrekar fyrri samþykktir nefndarinnar um að viðbygging við eldra hús skuli fjarlægð, en framlenging stöðuleyfis hennar rann út 05. september 2001.  Nefndin felur umhverfisdeild að vinna að því að viðbyggingin verði fjarlægð.“  Bæjarstjórn staðfesti framangreinda bókun á fundi hinn 13. nóvember 2002.

Í kjölfar bókunar skipulags- og byggingarnefndar sendi byggingarfulltrúi kæranda máls þessa bréf þar sem m.a. sagði:  „Þann 14. nóvember 2002 var þér tilkynnt bréflega um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar vegna framtíðarnotkunar á landi þínu ásamt ítrekun á fyrri samþykktum nefndarinnar um að fjarlægja skuli sumarbústaðinn.  Í bréfinu var bent á málskotsrétt samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og reglugerðar nr. 621/1997.  Hér með tilkynnist að í framhaldi af samþykkt skipulags- og byggingarnefndar þann 05.11.2002 er þess krafist að þú fjarlægir sumarbústaðinn fyrir 6. janúar 2003.  Hafi bústaðurinn ekki verið fjarlægður þá verður farið með málið í samræmi við ákvæði 56. og 57. greinar skipulags- og byggingarlaga og dagsektarákvæðum beitt, þar til úr hefur verið bætt. Þetta erindi verður kynnt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar þann 3. desember 2002.  Að öðru leiti skal bent á meðfylgjandi ákvæði 56. og 57. gr. skipulags- og byggingarlaga um þvingunarúrræði og viðurlög“. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 var bréf byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2002, kynnt nefndinni og bókaði nefndin eftirfarandi:  „Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að verði umrædd bygging ekki fjarlægð fyrir tilskilinn tíma þá samþykki bæjarstjórn að beita dagsektum og ákveða upphæð þeirra“  Bæjarstjórn staðfesti framangreint á fundi hinn 18. sama mánaðar.

Kærandi vildi ekki una ákvörðunum bæjaryfirvalda í málinu og skaut hann þeim til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með kæru, dags. 14. desember 2002.  Lauk því máli með úrskurði hinn 8. janúar 2004 og var framangreind ákvörðun bæjaryfirvalda felld úr gildi með þeim rökum að ekki hefði verið gætt andmælaréttar kæranda er hin umdeilda ákvörðun var tekin.  Lýsti skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar vanþóknun sinni á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar með ítarlegri bókun á fundi sínum hinn 13. janúar 2004.  Var bókun þessi staðfest af bæjarstjórn og send úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 27. janúar 2004.  Í niðurlagi umræddrar bókunar sagði svo: „Nefndin samþykkir að fela umhverfisdeild að tilkynna Guðmundi Lárussyni að nefndin muni í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar í skipulags- og byggingarmálum, dags. 8. janúar 2003 (sic) taka fyrir þann 10. febrúar 2004 kröfu um að fjarlægja skuli sumarhús sem veitt var tímabundið stöðuleyfi fyrir sem stakstætt geymsluhús með vísan til 56 og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga.  Guðmundi verði gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina andmælum sínum við að byggingin skuli fjarlæg (sic).“ 

Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir á 105. fundi sínum hinn 10. febrúar 2004 eins og áformað hafði verið.  Var eftirfarandi m.a. bókað á fundinum:  „Samkvæmt samþykkt skipulags- og byggingarnefndar á 103. fundi nefndarinnar var samþykkt að gefa Guðmundi Lárussyni kost á andmælarrétti til 6. feb. 2004 vegna ákvörðunar nefndarinnar um að fjarlægja núverandi viðbyggingu við sumarbústaðinn Höfða í Skammadal, sem veitt var stöðuleyfi fyrir til eins árs sem stakstæðu húsi en ekki sem viðbyggingu.  Umrædd viðbygging er sumarbústaður sem Guðmundur fékk leyfi til að láta standa á lóðinni á meðan hann innréttaði bústaðinni  sem flytja átti noður í land skv. upplýsingum í umsókn hans.  Guðmundi var tilkynnt bréflega um afgreiðslu nefndarinnar á 103. fundi auk þess að haft var samband við hann símleiðis í síðustu viku og hann minntur á þann frest sem honum var gefinn til andmæla, en engar athugsemdir báust frá Guðmundi Lárussyni.  Nefndin íterkar kröfu sína um að viðbyggingarbústaðurinn verði fjarlægður nú þegar  í samræmi við 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem veitt var tímabundið stöðuleyfi sem nú er löngu útrunnið.  Jafnframt  áréttar nefndin að engir samþykktir uppdrættir liggja fyrir um burðarvirki húss eða undirstöðu þess.  Auk þess er þegar ljóst að þær undirstöður sem eru undir óleyfisbyggingunni uppfylla ekki ákvæði byggingarreglugerðar og gildandi staðla. Ekki liggur fyrir deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir byggingarframkvæmdum.  Nefndin ítrekar synjun á fyrri umsókn hans um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbygginguna.  Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að verði umrædd viðbyggingi ekki fjarlægð fyrir 1. júní 2004 þá samþykki bæjarstjórn að beyta dagsektum í samræmi við 57 gr. skipulags- og byggingarlaga.

Framangreind afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 18. febrúar 2004 og afgreidd með svofelldri bókun:  „ 4. mál. Niðurrif óleyfisbyggingar við Höfða í Skammadal.  Til máls tók: RR.  Samþykkt með sjö atkvæðum að vísa málinu aftur til nefndarinnar til efnislegrar meðferðar.

Skipulags- og byggingarnefnd tók málið enn fyrir á 106. fundi sínum hinn 24. febrúar 2004 og var eftirfarandi bókað:  „Niðurrif óleyfisbyggingar við Höfða í Skammadal.  Tekin var fyrir krafa um að fjarlægja hús sem veitt var tímabundið stöðuleyfi fyrir sem stakstætt geymsluhús með vísan til 56 og 57 gr. skipulags- og byggingarlaga.  Vísun frá bæjarstjórn.  Fyrir fundinum var greinargerð Guðmundar Lárusson, dags. 06.02.2004.  Á fundinum var lagt fram greinargerð bæjarverkfræðings vegna athugasemda Guðmundar Lárusson frá 06.02.2004.  Nefndin frestar afgreiðslu málsins til næsta fundar.“
Málið var loks tekið fyrir á 107. fundi nefndarinnar hinn 2. mars 2004 og var enn ítrekuð fyrri synjun á umsókn kæranda um varanlegt byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni.  Beindi nefndin því til bæjarstjórnar að yrði umrædd viðbygging ekki fjarlægð fyrir 1. júní 2004 myndi bæjarstjórn samþykkja að beita dagsektum í samræmi við 57. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var þessi ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 3. mars 2004. 

Þessari ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með kæru, dags. 7. apríl 2004.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 12. október 2004 var málið enn tekið fyrir og dró nefndin til baka „…samþykkt sína frá 105. fundi nefndarinnar 10. febrúar sl. þar sem ekki kom nægilega skýrt fram í bókun nefndarinnar hver skyldi fjarlægja óleyfisbygginguna.“ 

Í framhaldi af afturköllun þessari og með vísunar til 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga tók nefndin þá ákvörðun sem kærð er í máli þessu en kærandi dró til baka fyrri kæru frá 7. apríl 2004 með vísan til þess að ekki var þá betur vitað en að hin kærða ákvörðun í því máli hefði verið afturkölluð.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni kom hins vegar í ljós að svo var ekki heldur hafði skipulags- og byggingarnefnd dregið til baka samþykkt frá 10. febrúar 2004 í stað ákvörðunar þeirrar frá 2. mars 2004, sem verið hafði lokaákvörðun nefndarinnar í fyrra máli.  Ákvað úrskurðarnefndin að gefa byggingaryfirvöldum kost á að bæta úr þeim ágöllum sem á málinu voru, enda talið að um augljós mistök eða misritun hefði verið að ræða, sem stjórnvaldinu væri heimilt að leiðrétta.  Var kæranda jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um þennan þátt málsins.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 7. júní 2005 var gerð grein fyrir af hálfu byggingaryfirvalda í Mosfellsbæ að fyrrnefnd mistök hefðu verið leiðrétt og að ákvörðun nefndarinnar frá 2. mars 2004 hefði verið dregin til baka, enda hefði það verið það sem vakað hefði fyrir nefndinni.  Jafnframt var í bréfinu svarað fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um afdrif deiliskipulagstillögu sem auglýst hafði verið snemma árs 2002 og lýst þeirri skoðun að umrædd skipulagstillaga hefði aldrei öðlast gildi.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst einnig hinn 7. júní 2005 kom lögmaður kæranda á framfæri athugasemdum hans.  Taldi hann orka tvímælis að heimila byggingaryfirvöldum að leiðrétta framangreind mistök.  Jafnframt taldi hann að umrædd deiliskipulagstillaga frá 2002 hefði öðlast gildi og að kærandi gæti byggt rétt á því.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að viðbyggingin hafi verið tengd eldra húsinu án nokkurra athugasemda bæjaryfirvalda enda forsendur leyfisins þær að fjölskylda hans gæti búið í húsinu sem heilsárshúsnæði.  Á sama tíma hafi staðið fyrir dyrum framkvæmdir við einbýlishús í hans eigu annars staðar í sveitarfélaginu. 

Kærandi bendir á að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt á fundi hinn 30. apríl 2002 að auglýsa deiliskipulag á landi Höfða, sem sýni húsbyggingu á lóðinni eins og hún sé í dag.  Engar athugasemdir hafi borist við tillögu þessari en hún hafi þó ekki verið afgreidd.  Kærandi telji hins vegar að hún hafi öðlast gildi.

Með nýlega samþykktu aðalskipulagi fyrir Mosfellsbæ hafi landnotkun þessa svæðis, þar með talið lands kæranda, verið breytt og sé það nú samkvæmt hinu nýja aðalskipulagi skilgreint sem íbúðarsvæði.  Hafi sú breyting verið gerð að frumkvæði bæjaryfirvalda og í fullri sátt við kæranda og aðra á svæðinu.

Í samræmi við það hafi þegar verið hafist handa við að deiliskipuleggja land á þessu svæði sem íbúðarbyggð, m.a. í Helgafellslandi, sem liggi næst landi kæranda til norðvesturs.  Kærandi hafi farið fram á það að fá að deiliskipuleggja land sitt sumarið 2004 en erindi hans hafi verið hafnað af hálfu Mosfellsbæjar.  Á sama tíma hafi öðrum sambærilegum aðilum verið heimilað að deiliskipuleggja eigið land.  Telji kærandi þessa afgreiðslu bæjarins enn eina staðfestingu á þeirri mismunun, sem við lýði sé hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum í Mosfellsbæ.

Með vísan til framanritaðs sé ljóst að allar forsendur fyrir landnýtingu á því landi sem mál þetta taki til hafi gjörbreyst frá því umræddri viðbyggingu var veitt stöðuleyfið.  Landsvæðið sé orðið íbúðarsvæði og því liggi fyrir að þarna verði um íbúðarbyggingar að ræða í næstu framtíð.  Hús kæranda að Höfða, bæði eldra hús og viðbygging, standi því ekki í neinni andstöðu við skipulag svæðisins.

Stærstur hluti húss kæranda að Höfða hafi fullt leyfi byggingaryfirvalda og bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og ákvörðun og krafa bæjaryfirvalda um að fjarlægja skuli viðbygginguna komi því ekki til með að hafa neina afgerandi breytingu í för með sér fyrir svæðið sem slíkt.  Eldra húsið muni standa áfram með fullu byggingarleyfi og búseturétti.

Af hálfu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ hafi ekki verið sett fram nein efnisleg rök fyrir kröfu þeirra um að fjarlægja skuli viðbygginguna.  Krafan sé í raun órökstudd.  Kærandi vísi til þess að stjórnvöldum, þ.m.t. bæjarstjórn Mosfellsbæjar, beri við töku ákvarðana sinna að gæta meðalhófs og grípa ekki til harðari aðgerða gegn þegnunum en nauðsynlegt sé.  Þessa hafi ekki verið gætt í þessu máli.  Kærandi hafi mun meiri hagsmuni af því að viðbyggingin fái að standa en bærinn af því að hún fari.  Verði í raun alls ekki séð hvaða hagsmuni bæjaryfirvöld hafi yfirleitt af því að viðbyggingin fari.  Sé hér um óskiljanlega valdbeitingu að ræða, sem brjóti í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Þá vísar kærandi til þess að í Skammadal í Mosfellsbæ standi fjöldi húsa, sem ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir lögum samkvæmt.  Enn fremur sé tveggja hæða hús örskammt frá landi kæranda sem reist hafi verið án tilskilinna leyfa og staðið hafi þar óáreitt árum saman.  Ekki virðast hafa komið fram athugasemdir við þessar byggingar og bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar, þ.m.t. skipulags- og byggingarnefnd, hafi heldur ekki aðhafst neitt þeirra vegna.  Þá hafi bæjaryfirvöld samþykkt fjölda viðbygginga við þegar byggð hús á ýmsum stöðum í sveitarfélaginu og heimilað deiliskipulag eignarlanda á svæðinu.  Með því að neita kæranda um heimild til að umrædd viðbygging standi áfram séu bæjaryfirvöld að brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni sé stjórnvaldi óheimilt að mismuna aðilum heldur verður það að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála.  Það geri bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki.

Hvað varðar athugasemdir byggingaryfirvalda um að ekki hafi verið lagðir fram fullnægjandi uppdrættir að hinni umdeildu viðbygginu tekur kærandi fram að hann hafi með umsókn, dags. í apríl 2005, sótt formlega um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbygginu og að umsókninni hafi fylgt allir tilskyldir uppdrættir.  Sé það von hans að umsókn hans verði nú samþykkt, enda eigi ekki að vera á því nein vandkvæði.

Loks styður kærandi kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar þeim rökum að ekki hafi af hálfu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ verið gætt þeirra lágmarksfresta, sem skipulags- og byggingarlög áskilji þegar eiganda mannvirkis sé gert að aðhafast með þeim hætti, sem í hinni kærðu ákvörðun felist.  Vísi kærandi í þeim efnum m.a. til gr. 61.6 í byggingarreglugerð, en kæranda hafi ekki verið veittur frestur til samræmis við umrætt ákvæði.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu Mosfellsbæjar er áréttað að í kæru sinni nú virðist kærandi aðallega byggja á því að óleyfisbyggingin sé ekki fyrir neinum og að bærinn hafi enga hagsmuni af því að krefjast þess að hún verði fjarlægð.  Kærandi telji sig hins vegar hafa mikla fjárhagslega hagsmuni af því að byggingin fái að standa.  Þessu sé til að svara að kærandi hafi í upphafi sótt um bráðabirgðastöðuleyfi og fengið það tímabundið.  Hann hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að leggja fé og fyrirhöfn í að innrétta húsið og tengja það við eldra hús.  Það hafi hann gert vitandi það að hann væri einungis með bráðabirgðastöðuleyfi, sem gefið hafi verið á grundvelli upplýsinga frá honum sjálfum, þess efnis að húsið yrði flutt norður í land eftir veturinn.  Það fjárhagstjón sem kærandi kunni að verða fyrir vegna þess að honum sé gert að fjarlægja óleyfisbygginguna sé vegna þess að hann hafi sjálfur kosið að leggja í þann kostnað að innrétta húsið og tengja það við hús það sem fyrir hafi verið á landinu.  Ef Mosfellsbær myndi nú heimila þessa óleyfisbyggingu væri verið að senda þau skilaboð til almennings að hægt væri að fá óleyfisbyggingar samþykktar eftir á, ef menn bara streittust nógu lengi á móti því að fjarlægja þær.  Slíkt sé í andstöðu við 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Það verði því ekki séð að krafa bæjaryfirvalda um að óleyfisbyggingar verði fjarlægðar fari gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna.  Kærandi hafi ekki verið í góðri trú er hann hafi kosið að skeyta húsi með bráðabirgðastöðuleyfi varanlega við húsið sem fyrir hafi verið á lóðinni og megi um þetta vísa til Hæstaréttardóms í máli nr. 114/2001 frá 20. september 2001.  

Í kærunni sé því haldið fram að eldra húsið hafi verið heilsársstarfsmannabústaður.  Hið rétta sé að aldrei hafi verið búið í þessu húsi meðan það hafi verið starfsmannabústaður.  Húsið hafi verið nýtt með þeim hætti sem frístundarhús séu nýtt í dag og hafi ávallt verið skráð sem sumarhús hjá Fasteignamati ríkisins.  Búseta í húsinu hafi ekki hafist fyrr en árið 1998.

Þegar stöðuleyfið hafi verið veitt hafi það verið að ósk kæranda og þess jafnframt getið í umsókn hans um stöðuleyfi að um væri að ræða tímabundna staðsetningu hússins  einn vetur.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi ávallt hafnað óskum kæranda um varanlega staðsetningu hússins og hafi þess verið farið á leit við hann að húsið yrði fjarlægt.  Um leið og byggingarfulltrúi hafi orðið þess var að húsið hafði verið tengt við eldra húsið hafi hann strax gert athugasemd við það.  Fullyrðingar um annað séu ekki réttar.  Sú staðhæfing sem fram komi í kærunni um að ástæða framlengingar á stöðuleyfi árið 2001 hafi verið beiðni kæranda um breytta landnotkun á landi hans á þessu svæði sé ekki rétt.  Hið rétta sé að á þeim tíma hafi verið unnið að deiliskipulagi og uppbyggingu húss kæranda á annarri lóð í Mosfellsbæ og í ljósi þess og aðstæðna hans hafi þótt rétt að framlengja stöðuleyfið.
 
Í kærunni komi einnig fram að bæjarverkfræðingur hafi með bréfi til kæranda staðfest heilsársbúseturétt honum til handa.  Hið rétta í þessu máli sé að starfsmaður á tæknideild bæjarins hafi útbúið og undirritaði umrætt plagg.  Umræddur starfsmaður sé ekki bæjarverkfræðingur þrátt fyrir að hann noti stimpil bæjarverkfræðings.  Þetta hafi kæranda verið ljóst í upphafi enda hafi hann fengið umrædda staðfestingu til þess að fá lækkun á kostnaði við heimæðargjald fyrir síma að sögn þess starfsmanns sem hafi útbúið og undirritaði bréfið.  Heimild til heilsársbúsetu í húsi sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé á opnu, óbyggðu svæði sé ekki veitt af starfsmanni, heldur sé það skipulagsskyld ákvörðun sem sveitastjórn veiti í samræmi við lög.  Þetta hafi kæranda verið ljóst.

Þá sé í kærunni rætt um deiliskipulagstillögu um stækkun á stofnunarsvæði Reykjalundar sem auglýst hafi verið að beiðni Reykjalundar.  Þessi skipulagstillaga hafi aldrei verið samþykkt þar sem Reykjalundur hafi dregið til baka ósk sína um stækkun á stofnunarsvæðinu og í núgildandi aðalskipulagi hafi svæðið í raun verið minnkað frá því sem verið hafi í fyrra aðalskipulagi.  Tillagan hafi því, að mati Mosfellsbæjar, ekkert gildi fyrir Höfða, enda hafi þar ekki verið tekið á uppbyggingu svæðisins.  Rétt sé að vinna sé hafin við gerð rammaskipulags í landi Helgafells sem sé vestan við Skammadalslæk.  Svæðið sé aðgreint frá landi Höfða með belti lands sem sé opið óbyggt svæði og ef rýnt sé í þéttbýlisuppdrátt aðalskipulagsins megi sjá að húsið sé innan þess svæðis sem skilgreint sé sem opið, óbyggt svæði.  Það sé því ekki rétt sem komi fram í kærunni að öðrum aðilum hafi verið heimilað að gera deiliskipulag við sambærilegar aðstæður.  Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé svæði fyrir blandaða byggð sem nái inn á land Höfða, tilheyrandi svæði austan Reykjalundar, og sé það til skipulagningar eftir 2012.  Það hafi verið stefna Mosfellsbæjar að taka ekki einstök svæði út úr til að skipuleggja sérstaklega heldur sé horft á svæðin sem heild.  Rétt sé að til sé nokkurra áratuga gömul heimild til handa eigendum að stærstum hluta umrædds svæðis sem heimili deiliskipulagningu á því svæði, en önnur skipulagslög hafi verið í gildi er sú heimild hafi verið veitt.  Skipulagsvinnu við það hafi aldrei verið lokið. 

Í kærunni vísi kærandi til þess að í Skammadal standi fjöldi húsa sem ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir.  Hið rétta sé að Mosfellsbær hafi ekki veitt byggingarleyfi fyrir húsi í Skammadal í 23 ár.  Flest „hús“ sem standi í Skammadal séu kartöflugeymslur.  Það tvílyfta hús sem minnst sé á í kærunni sé væntanlega frístundarhús í landi Helgafells, vestan við Skammadalslækinn, og sé það eldra en 23 ára og hafi sennilega verið samþykkt á sama hátt og bústaðurinn Höfði á sínum tíma. 

Mosfellsbær leggi áherslu á að um sé að ræða óleyfisbyggingu.  Stöðuleyfi fyrir henni hafi verið framlengt og frá því það hafi runnið út hafi Mosfellsbær ítrekað farið fram á að byggingin yrði fjarlægð án þess að kærandi hafi orðið við því.  Engar teikningar séu til að húsinu og við skoðun byggingarfulltrúa hafi komið í ljós að undirstöðum sé áfátt.  Ljóst sé að frá upphafi hafi Mosfellsbær verið á móti því að þessi bygging fengi að standa til framtíðar og um það vitni nokkrar samþykktir skipulags- og byggingarnefndar sem staðfestar hafi verið af bæjarstjórn. 

Það sé alveg ljóst að það sé ekki til staðar deiliskipulag fyrir þetta svæði sem geri ráð fyrir byggingarframkvæmdum.  Þá sé það alveg ljóst að samkvæmt 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri að fjarlægja byggingar sem reistar séu í óleyfi.  Flóknara sé málið ekki.

Mosfellsbær telji því að efni og lög standi ekki til annars en að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 12. október 2004 verði staðfest.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 13. apríl 2005 að viðstöddum kæranda og byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á með kæranda að þeir annmarkar sem voru á hinni kærðu ákvörðun og í ljós komu við meðferð málsins hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið heimilt að gefa skipulags- og byggingarnefnd kost á að leiðrétta bókun sína í málinu.  Telur úrskurðarnefndin að aðalefni hinnar kærðu ákvörðunar hefði getað staðið óhaggað þrátt fyrir þennan annmarka en rétt þótti að beina því til nefndarinnar að leiðrétta bókunina til að réttar forsendur væru fyrir afturköllun og niðurfellingu fyrra kærumáls.  Verður málið því tekið til meðferðar eftir þá leiðréttingu sem skipulags- og byggingarnefnd hefur gert á bókun sinni.

Ekki verður heldur fallist á að ógilda beri hina kærðu ákvörðun þar sem að kæranda hafi ekki verið veittur sá frestur til framkvæmdar hennar sem honum beri að lögum.  Að vísu má finna að því að í hinna kærðu ákvörðun var kæranda gert að fjarlægja umrætt hús þegar í stað en til þess verður hins vegar að líta að að í ákvörðuninni felst einnig að þvingunarúrræðum verði ekki beitt fyrr en að fullum mánuðum liðnum og verður að telja að með því hafi verið fullnægt lagaskilyrðum þeim sem kærandi vísar til.

Hin kærða ákvörðun fól í sér að lagt var fyrir kæranda að fjarlægja hús sem skeytt hefur verið við hús kæranda að Höfða í Skammadal í Mosfellsbæ.  Fékk kærandi á sínum tíma leyfi til að flytja það á land sitt að Höfða, en um tímabundið stöðuleyfi var að ræða.  Leyfið var síðar tvívegis endurnýjað en er löngu útrunnið.

Ekki verður talið að í leyfi þessu hafi falist heimild til að tengja húsið við hús það sem fyrir var á landinu eða koma því fyrir á undirstöðum með þeim hætti sem kærandi gerði.  Voru þær framkvæmdir byggingarleyfisskyldar og hefðu átt að fara fram undir eftirliti byggingarfulltrúa og sæta úttektum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar þar um.  Voru þessar framkvæmdir kæranda því ólögmætar og fóru þar að auki í bága við þágildandi skipulag.  Voru ákvarðanir bæjaryfirvalda um að synja umsókn kæranda um varanlegt leyfi fyrir byggingunni framan af studdar  þeim rökum að byggingin færi í bága við skipulag og væri því ekki unnt að fallast á umsókn um byggingarleyfi fyrir húsinu.  Voru þau rök í fullu samræmi við ákvæði 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Við gildistöku Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 breyttust þessar forsendur þar sem nú er gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddu svæði, sem áður var opið svæði.  Verður ekki dregin sú ályktun að með því að rýna í þéttbýlisuppdrátt aðalskipulagsins megi sjá að hluti mannvirkja að Höfða sé utan íbúðarsvæðis, enda gefur mælikvarði aðalskipulags ekki tilefni til slíkra ályktana.  Verður því að leggja til grundvallar að umrædd mannvirki séu á fyrirhuguðu íbúðarsvæði.  Af því leiðir að ekki er lengur skylt að fjarlægja umrætt hús með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga en eftir stendur að byggingarnefnd er heimilt að mæla fyrir um að fjarlægja skuli ólöglega byggingu eða byggingarhluta með stoð í 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Verður að ætla byggingaryfirvöldum nokkurt svigrúm til mats á því hvort beita eigi umræddu heimildarákvæði og þykja ekki efni til að hnekkja mati byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar í því efni.  Verður því að telja að sú ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar að leggja fyrir kæranda að fjarlægja hina umdeildu viðbyggingu hafi verið lögmæt og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.  Með tilliti til málskotsréttar kæranda er þó lagt fyrir bæjarstjórn að ákvarða að nýju frest kæranda til að fjarlægja sjálfur hina umdeildu byggingu, sbr. 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Með hinni kærðu ákvörðun var einnig ítrekuð fyrri synjun byggingaryfirvalda á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu.  Eiga fyrri röksemdir um skipulag þó ekki lengur við en þess í stað er nú vitnað til þess að uppdrætti skorti að mannvirkinu og að undirstöður þess séu ófullnægjandi. 

Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að fyrir skipulags- og byggingarnefnd liggur ný umsókn kæranda um byggingarleyfi og að uppdrættir hafi verið lagðir fram.  Þykir við þessar aðstæður ekki hafa þýðingu að staðfesta ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um að ítreka synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi og verður því ekki frekar um hana fjallað.  Verður að vænta þess að umsókn kæranda komi til afgreiðslu áður en ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum getur komið til álita.   

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 12. október 2004 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja hús það sem kærandi skeytti án heimildar við húseign sína að Höfða í Skammadal.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________     _________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                Sesselja Jónsdóttir