Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2003 Klapparstígur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2003, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.182.0 sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, þar sem gert er ráð fyrir byggingarreit á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2003, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra E og Ö, íbúar að Klapparstíg 42 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.182.0, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, þar sem gert er ráð fyrir byggingarreit á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 15. janúar 2003 var lögð fram tillaga ásamt greinargerð og skilmálum, að deiliskipulagi fyrir staðgreinireit 1.182.0. Var tillagan dags. 15. nóvember 2001, með breytingum frá 24. júní og 15. desember 2002.  Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna til kynningar og vísaði málinu til borgarráðs.

Að lokinni auglýsingu var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. maí 2003.  Lögð voru fram athugasemdabréf er borist höfðu, m.a. frá kærendum og  umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. apríl 2003.  Var erindið afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu á funi hinn 20. maí 2003 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003 að undangenginni tilkynningu Skipulagsstofnunar um að stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingarinnar.

Málsrök kærenda:  Til stuðnings kröfu sinni vísa kærendur til þess að undirbúningi og meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og heimiluð bygging á lóðinni að Klapparstíg 40, sem nái að lóðarmörkum fasteignar þeirra, raski hagsmunum kærenda.

Ekki hafi verið haft lögboðið samráð við kærendur við undirbúning umræddrar deiliskipulagstillögu, sem þó feli eingöngu í sér byggingaráform að lóðarmörkum þeirra.

Eina tillitið sem tekið hafi verið til framkominna athugasemda þeirra sé það að ekki skuli vera svalir á lóðarmörkum en í skipulaginu sé í engu getið um landnotkun og því liggi ekkert fyrir um hvaða starfsemi verði heimiluð í nýbyggingunni.  Hús kærenda, sem sé timburhús, standi 1,28 metra frá lóðamörkum þeim þar sem nú sé heimilað að byggja nærri 10 metra hátt hús.  Með þessu sé farið gegn reglum um fjarlægð frá lóðarmörkum og lágmarksfjarlægð milli húsa og með því gengið á öryggissjónarmið um brunavarnir.

Heimiluð bygging að lóðamörkum Klapparstígs 40 og fasteignar kærenda að Klapparstíg 42 sé verulega íþyngjandi gagnvart kærendum og byggingarmagn á fyrrnefndri lóð sé tvöfaldað með hinni kærðu ákvörðun og götumynd svæðisins raskað.

Á árinu 2000 hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála ógilt byggingarleyfi á lóðinni að Klapparstíg 40 og að mati kærenda sé hin kærða ákvörðun friðþægingargjörningur í kjölfar þess úrskurðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun sem staðfest var í borgarráði hinn 20. maí 2003 standi óröskuð.

Bent sé á að Borgarskipulag hafi sent öllum eigendum fasteigna á umræddum reit bréf, dags. 6. mars 2000, þar sem kynnt hafi verið að í bígerð væri að hefja vinnu við deiliskipulag á reitnum og aðilum gefinn kostur á að koma að ábendingum og athugasemdum.  Þá hafi í bréfi Borgarskipulags frá því í júlí 2000 verið upplýst að unnin hefðu verið drög að deiliskipulagi á reitnum sem lægju frammi í sýningarsal embættisins til kynningar.  Hafi vinna við gerð skipulagstillögunnar því verið í samræmi við lögbundna málsmeðferð að þessu leyti.

Byggingarmagn á lóðamörkum umræddra lóða sé minnkað verulega þar sem gert sé ráð fyrir að skúrar, sem þar séu fyrir, verði fjarlægðir.  Byggingarmagn lóðarinnar fari samkvæmt deiliskipulaginu úr 232 fermetrum í 480 fermetra og fyrirliggjandi tillaga að nýbyggingu á lóðinni sé í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Fyrirhuguð nýbygging sé til norðurs frá húsinu að Klapparstíg 42 og myndi skuggavarp á lóðina því ekki aukast gagnvart kærendum.

Ekki sé sérstaklega kveðið á um það í deiliskipulagstillögunni að í fyrirhugaðri nýbyggingu skuli vera verslun.  Þess beri hins vegar að geta að samkvæmt landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 á þessu svæði í miðborg Reykjavíkur, þ.e. verslunarsvæði V-II.I, sé heimilt að reka verslun.  Sé því vart hægt að gera athugasemdir við að sótt verði um byggingu annars konar húsnæðis en íbúðarhúss á greindum stað.

Heimild í deiliskipulagi til breytinga á byggingamagni lóða hafi ekki verið gefin til „friðþægingar“ svo sem kærendur haldi fram.  Heimild til niðurrifs skúra og nýbyggingar á lóðinni að Klapparstíg 40 sé algerlega óháð öllum öðrum málum sem kunni að hafa verið til umfjöllunar varðandi umrædda lóð.  Það séu allt aðrar forsendur sem liggi að baki umdeildri ákvörðun, s.s. byggðamynstur, nýtingarhlutfall lóðar, landnotkun o.fl.

Í 75. gr., mgr. 75.4 í byggingarreglugerð sé kveðið á um að ákveða megi í deiliskipulagi að fjarlægð húss frá lóðamörkum geti verið minni en tilskilið sé í mgr. 75.1.   Jafnframt segi í mgr. 75.5 að ef bil milli húsa sé minna en skv. mgr. 75.3,  skuli veggir húsa uppfylla skilyrði um sérstaka brunahönnun.  Fyrirliggjandi deiliskipulag brjóti því ekki í bága við byggingarreglugerð.  Brunahönnun hins nýja húss verði að uppfylla öll skilyrði brunavarna við útgáfu byggingarleyfis.

Rétt sé hjá kærendum að það segir hvergi í deiliskipulaginu að í heimilaðri byggingu megi ekki vera kaffihús eða vínveitingastaður.  Heimild til að reka vínveitingahús á lóðinni verði þó ekki veitt nema að undangenginni grenndarkynningu og að uppfylltum skilyrðum.

Niðurstaða:  Í bókun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 2003 um hina kærða ákvörðun kemur fram að fyrir fundinum hafi legið umsögn skipulagsfulltrúa, dags 14. apríl 2003 og að auglýst skipulagstillaga sé samþykkt með þeim breytingum sem lagðar séu til í þeirri umsögn. 

Í lok umsagnarinnar, er úrskurðarnefndinni var afhent af borgaryfirvöldum, segir svo: „Enn fremur er lagt til að byggingareitur til nýbyggingar á lóðinni Klapparstígur 40 nái ekki að lóðamörkum og að einnar hæðar hluti hússins, sem nær að lóðamörkum að Klapparstíg 42, verði felldur niður.“   Hins vegar er byggingarreitur markaður að lóðarmörkum Klappastígs 42 fyrir byggingarhluta upp á eina hæð og kjallara á árituðum deiliskipulagsuppdrætti.

Vegna þessa misræmis var leitað skýringa hjá borgaryfirvöldum sem hafa upplýst að fyrir mistök hafi röng umsögn verið vistuð í skjalaskrá málsins og send úrskurðarnefndinni.  Í réttri umsögn skipulagsfulltrúa, dags 14. apríl 2003, sem vísað sé til í bókun skipulags- og byggingarnefndar sé lagt til að auglýst skipulagstillaga verði samþykkt óbreytt með því fororði að ekki sé heimilt að gera svalir á þaki einnar hæðar hluta hússins er snúi að lóðarmörkum Klapparstígs 42.  Fyrir liggur að Skipulagsstofnun móttók síðargreindu umsögnina hinn 24. júní 2003. 

Í málinu liggja því fyrir tvær undirritaðar umsagnir skipulagsfulltrúa, báðar dagsettar 14. apríl 2003, þar sem annars vegar er lagt til að heimila einnar hæðar byggingarhlutann en hins vegar að sá byggingarhluti verði felldur brott.  Úrskurðarnefndin telur að ekki verði fullyrt með óyggjandi hætti hvor umsögnin lá fyrir fundi skipulags- og byggingarnefndar þar sem umdeild skipulagstillaga var samþykkt með þeirri breytingu sem lögð var til í umsögn skipulagsfulltrúa.  Ekki verður heldur ráðið af bókun nefndarinnar hvert efni umsagnarinnar hafi verið og leikur því vafi á um það hvað falist hafi í hinni kærðu ákvörðun.  Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að ógilda hana vegna þess vafa sem uppi er um efni hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna verulegra tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.182.0, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, er felld úr gildi.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________            ________________________________         
          Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir                         

 

65/2004 Vatnsendablettur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2004, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogs frá 20. ágúst 2004 um að fjarlægja tvö skýli af lóðinni að Vatnsendabletti nr. 241A, Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 16. nóvember 2004, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir G, Rauðási 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 20. ágúst 2004 að fjarlægja tvö skýli af lóðinni Vatnsendabletti nr.  241A,  Kópavogi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 20. ágúst 2004 ritaði byggingarfulltrúinn í Kópavogi kæranda máls þessa bréf, þar sem sagði að í ljós hefði komið að flutt hefðu verið tvö skýli á lóðinna að Vatnsendabletti 241A í Kópavogi án leyfis byggingaryfirvalda.  Í bréfinu sagði enn fremur að vegna þessa stöðvaði byggingarfulltrúi frekari framkvæmdir á lóðinni og tilkynnti jafnframt að hin ólöglegu mannvirki myndu verða fjarlægð á kostnað kæranda. 

Hinn 24. ágúst 2004 fluttu starfsmenn Kópavogsbæjar skýlin burt af lóðinni og komu þeim fyrir á geymslusvæði í eigu bæjarins. 

Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
 
Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að ætlan hans hafi verið að geyma byggingarefnið aðeins tímabundið á lóð hans að Vatnsendabletti 241A og á lóðinni að Vatnsendabletti 173A.  Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin einhliða og framkvæmd sama dag og kæranda hafi verið kynnt hún.  Hafi kærandi farið fram á að honum yrði veittur andmælaréttur til að koma athugasemdum sínum á framfæri en við því hafi starfsmenn Kópavogsbæjar ekki orðið.  Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt með óformlegum hætti og án fyrirvara.  Kærandi hafi fengið símhringingu frá starfsmanni Áhaldahúss Kópavogs þar sem starfsmaðurinn hafi tilkynnt kæranda að hann hefði fengið skipun um að framkvæma flutning á byggingarefni kæranda af lóðinni Vatnsendabletti 241A.  Þessum áformum hafi kærandi mótmælt án árangurs.

Kærandi bendir á að hann hafi leitað til formanns byggingarnefndar sem hafi tjáð sér að mál hans hafi ekki verið rætt á fundi nefndarinnar.  Byggingarfulltrúi hafi tekið íþyngjandi ákvörðun um ráðstöfun lausafjármuna í eigu kæranda án hans vitneskju, gegn hans vilja og án þess að honum væri veittur frestur til athugasemda.   

Kærandi heldur því fram að athafnir hans teljist ekki til byggingarframkvæmda.  Hann hafi flutt byggingarefni á grófjafnaða lóð til geymslu þangað til að það yrði selt eða nýtt þar sem leyfi fengist. 

Þá heldur kærandi því og fram að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt jafnræðis gagnvart honum, byggingarefni hans hafi verið flutt burt en sambærilegar athafnir haf verið látnar afskiptalausar hjá fjölda verktaka sem byggi á lóðum Vatnsendalandsins.

Kærandi telur að byggingarfulltrúi geti ekki talist óhlutdrægur þegar komi að afgreiðslu mála er hann varði.  Með ákvörðun sinni og framkvæmd hafi byggingarfulltrúi og aðrir starfsmenn Kópavogsbæjar brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga.  Án fyrirvara hafi byggingaefnið verið flutt burt af lóðinni og komið fyrir á geymslusvæði í Hafnarfirði. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu  Kópavogsbæjar er þess aðallega krafist að kæru þessari verði vísað frá nefndinni.  Verði ekki á það fallist er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 20. ágúst 2004 um stöðvun framkvæmda verði viðurkennd.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að sumarið 2004 hafi kærandi haft samband við embætti byggingarfulltrúa í Kópavogi og óskaði eftir heimild fyrir því að reisa mannvirki á lóð sinni að Vatnsendabletti 241A í Kópavogi.  Um hafi verið að ræða 180 m² stálgrindarhús.  Byggingarfulltrúi hafi hafnað beiðninni þar sem slík hús á lóðinni samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi.  Þrátt fyrir þá höfnun hafi kærandi lagt fram beiðni til lögreglunnar í Reykjavík um að fá að flytja umrædd hús á lóðina að Vatnsendabletti  241A.  Rúnar Geir, lögreglumaður hjá embætti lögreglunnar í Reykjavík, hafi í kjölfarið haft samband við bæjarlögmann í Kópavogi og óskað eftir upplýsingum um hvort heimilt væri að flytja og reisa umrædd hús á lóð kæranda.  Bæjarlögmaður hafi ítrekað synjun embættis byggingarfulltrúa og hafi farið fram á að beiðninni yrði hafnað.  Samkvæmt upplýsingum frá Rúnari Geir hafi kæranda verið synjað um flutninginn á grundvelli þessa.  Þrátt fyrir slíka synjun hafi kærandi hlotið aðstoð framámanns hjá embætti lögreglunnar í Reykjavík til flutnings á fyrrnefndum stálgrindarhúsum að Vatnsendabletti 241A.

Kærandi hafi þá þegar verið búinn að grafa grunn fyrir umræddum húsum á lóðinni Vatnsendabletti 241A.  Í kjölfarið hafi kæranda verið boðsent bréf hinn 20. ágúst 2004 og honum falið að stöðva frekari framkvæmdir, en á staðnum hafi verið skurðgrafa og malarhaugur sem nota hafi átt til frekari framkvæmda við undirstöður.  Með bréfinu hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt um að umrædd mannvirki yrðu fjarlægð á hans kostnað.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að í kæru komi fram að umrædd hús teljist vera byggingarefni/lausafjármunir.  Hið rétta sé að umrædd hús séu samansett úr byggingarefni og teljist til húseininga eða byggingarhluta.  Í fylgiskjali kærunnar sé að finna auglýsingu frá Frétt ehf. þar sem kærandi auglýsi húsin til sölu sem „5×40 metra stálgrindarhús“. Framangreindri fullyrðingu kæranda um annað en að umrædd stálgrindarhús séu hús, byggingarhlutar eða húseiningar sé því alfarið mótmælt. 

Í kæru komi jafnframt fram að með ákvörðun byggingarfulltrúa hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á að gæta andmælaréttar.  Í 13. gr. stjórnsýslulaga segi:  „Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.“  Í máli þessu hafi afstaða kæranda og rök fyrir henni legið fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin ásamt því að beiðni hans hafði þá þegar ítrekað verið hafnað.  Með vísan til framangreinds ákvæðis hafi forsenda fyrir því að gæta andmælaréttar augljóslega verið óþörf.

Í kæru sé á því byggt að umrædd hús eða byggingarefni hafi verið ætluð til geymslu á lóð.  Í fylgiskjali, dags. 10. september 2004 komi fram að kærandi hafi átt í viðræðum við Guðmund Jónsson lögfræðing um kaup á umræddum húsum.  Í lögregluskýrslu komi aftur á móti fram að kærandi hafi þegar verið búinn að selja umræddar einingar.  Ljóst sé að um hreinar lygar sé að ræða af hálfu kæranda því umræddar einingar standi á geymslusvæði Kópavogsbæjar enn þann dag í dag.  Af framansögðu megi ráða að kærandi hafi ætlað sér að reisa mannvirkin á lóðinni að Vatnsendabletti 241A.  Kærandi hafi verið búinn að grafa upp lóðina og jafna út fyrir undirstöður fyrir stálgrindarhúsin.  Að öllu framansögðu komi greinilega í ljós að kærandi hafi verið í vondri trú og hafi ítrekað hunsað lögboðin fyrirmæli byggingaryfirvalda.

Kópavogsbær byggi kröfu um frávísun á því að kærandi sé ekki og hafi ekki verið lóðarhafi að Vatnsendabletti 241A.  Með dómi héraðsdóms í máli E-1023/2004 hafi uppsögn landeiganda á lóðarleigusamningi frá 26. október 2001 verið staðfest.  Umrædd hús hafi verið flutt á lóðina Vatnsendablett 241A án samþykkis landeiganda.  Kæranda hafi því alfarið verið óheimilt að reisa eða flytja umrædd hús á lóð sem hann hafi eigi haft umráð yfir.  Með vísan til þessa eigi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir eða fjarlægja byggingarhluta, þar sem kærandi hafi ekki haft umráð eða óbein eignarréttindi yfir lóðinni og hafi því alfarið verið óheimilar allar framkvæmdir á henni.

Kærandi sé ekki og hafi ekki heldur verið lóðarhafi að lóðinni að Vatnsendabletti 173A.  Sé því alfarið hafnað að úrskurðarnefndin fjalli um meintan rétt kæranda til afnota lóðarinnar að Vatnsendabletti 173A. 
 
Kröfu um að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest eða viðurkennd að hluta byggi á því að hún njóti skýrrar lagastoðar samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Í reglugerðinni sé „bygging“ skilgreind sem:  „Hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum“.  Með vísan til þessa sé augljóst að IV. kafli skipulags- og byggingarlaga taki ekki eingöngu til „mannvirkja“ í þröngri skilgreiningu byggingarreglugerðar, heldur einnig til húsa, sem byggð séu á staðnum eða sett saman úr einingum.  Í því tilfelli sem hér um ræði hafi kærandi þegar hafið framkvæmdir við að grafa fyrir húsi og flutt þangað byggingarhluta í þeim tilgangi að setja saman.  Með vísan til ákvæði 56. gr. laganna sé það skylda byggingarfulltrúa að stöðva framkvæmdir tafarlaust og fjarlægja síðan hina ólöglegu byggingu eða byggingarhluta.

Í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. 
Í 121. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sé fjallað um byggingareiningar og hús byggð utan lóðar.  Byggingareining teljist vera húseining, húshluti, eða byggingarhluti sem sé framleitt í verksmiðju.  Í 2. mgr. sé fjallað um „hús“ sem séu framleidd úr slíkum einingum og séu flutt á staðinn í einingum eða heilu lagi.
Það sé skilningur Kópavogsbæjar að stálgrindarhús þau sem reisa hafi átt að Vatnsendabletti  241A séu byggingarhlutar sem ætlaðir hafi verið til framkvæmda við gerð byggingar eða mannvirkja.  Lóðin sé og hafi verið notuð sem frístundalóð og séu á lóðinni frístundahús.  Umþrætt stálgrindarhús hafi eðlilega verið ætlað hlutverk sem slíkt og mjög líklega til ræktunar.  
Það sé skilningur Kópavogsbæjar að „byggingar“ samkvæmt byggingarreglugerð falli undir gildissvið IV. kafla skipulags- og byggingarlaga.  Stálgrindarhús þau eða byggingarhlutar þeir sem hafist hafi verið handa við að reisa á lóðinni falli undir þá skilgreiningu og því jafnframt undir ákvæði 43. gr. laganna.   Samkvæmt 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hvíli skylda á byggingarfulltrúa að stöðva tafarlaust byggingarframkvæmd, sem falli undir IV. kafla laganna, ef tilskilin leyfi séu ekki fyrir hendi eða slík framkvæmd sé hafin og hún falli ekki að skipulagi.  Það hvíli jafnframt sú skylda á byggingarfulltrúa að fjarlægja hina ólöglegu byggingu eða byggingarhluta.
Með vísan til þess sem að framan er rakið sé það skilningur Kópavogsbæjar að á byggingarfulltrúa hafi hvílt lagaleg skylda til þess að stöðva framkvæmdir og fjarlægja fyrrnefnda byggingarhluta. 
Varðandi lagarök öllu framangreindu til stuðnings sé vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, byggingarreglugerðar nr. 441/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og eðli máls.

Niðurstaða:  Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins.  Er sú krafa á því byggð að  kærandi sé ekki og hafi ekki verið lóðarhafi að Vatnsendabletti 241A en  með dómi héraðsdóms Reykjaness í máli E-1023/2004 hafi uppsögn landeiganda á lóðarleigusamningi frá 26. október 2001 verið staðfest.  Eigi kærandi því ekki lögvarða hagsmuni í málinu. 

Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Verður við það að miða að dómur var ekki genginn í umræddu máli þegar byggingarfulltrúi tók hina kærðu ákvörðun, enda beindi hann erindum sínum að kærarna sem rétthafa umræddrar lóðar.  Var dómur ekki heldur genginn í málinu þegar byggingarfulltrúi lét fjarlægja umrædd skýli og var réttarstaða kæranda hvað þetta varðar óbreytt er hann skaut máli sínu til úrskurðarnefndarinnar.  Verður að telja að kærandi eigi lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr lögmæti aðgerða byggingarfulltrúa sem fólu í sér ráðstöfun á eignum hans hvað sem líður síðar til komnum niðurstöðum um lóðarréttindi kæranda.  Hins vegar hefur kærandi ekki sýnt fram á tengsl sín við lóðina að Vatnsendabletti 173A, en ekki verður séð að það eigi að standa í vegi fyrir því að úrskurðað verði um kæruefni málsins.  Verður kröfu Kóðavogsbæjar um frávísum málsins því hafnað.   

Í máli þessu er kærð ákvörðun um að beita þvingunarúrræðum sem byggingaryfirvöldum eru tiltæk og vísa bæjaryfirvöld til ákvæða í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem eiga annars vegar við um byggingarleyfisskyld mannvirki sem reist eru án samþykkis sveitarstjórnar og fara í bága við skipulag og hins vegar um ólöglegar byggingar eða byggingarhluta. 

Ágreiningur er m.a. í málinu um það hvort umrædd skýli séu leyfisskyld mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga þar sem þau hafi ekki verið varanlega skeytt við undirstöður og þá jafnframt hvort ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi við í málinu.  Ljóst er að skýlin voru ekki varanlega skeytt við jörð eftir að þau voru flutt á lóðina.  Engar lagnir voru við þau tengdar og verður ekki talið að um hafi verið að ræða mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga heldur verði að líta svo á að um lausafé hafi verið að ræða.

Ákvæði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er skipað í VI. kafla laganna er fjallar um þvingunarúrræði og viðurlög.  Verður þessum ákvæðum ekki beitt með rýmkandi lögskýringu og verður ákvæðum 56. gr. því ekki beitt um lausafé, sem ekki fellur undir mannvirkjakafla laganna.  Var hin kærða ákvörðun því ekki reist á réttum lagagrundvelli og var rökstuðningi hennar að þessu leyti áfátt, en ekki var í hinni kærðu ákvörðun vísað til annarra heimilda sem byggingaryfirvöld hafa að lögum til að hlutast til um umbúnað á lóðum.

Ekki verður fallist á þrautavarakröfu Kóðavogsbæjar um að staðfesta ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda.  Verður ekki séð að slík staðfesting hafi þýðingu að lögum enda hafði stöðvunin engin varanleg réttaráhrif þar sem byggingarfulltrúi lét ekki við hana sitja heldur lét í beinu framhaldi fjarlægja skýli þau sem um var deilt.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 20. ágúst 2004 um að fjarlægja tvö skýli af lóðinni Vatnsendabletti nr. 241A, Kópavogi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 
_____________________________                  ____________________________        
          Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir                         
  

18/2004 Rafstöðvarsvæði

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2004, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2004, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Landsvirkjun þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal, sem fól m.a. í sér að land sem nýtt hafði verið undir olíutanka varastöðvar Landsvirkjunar var tekið til annarra nota.  Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 31. mars 2001 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tillaga að deiliskipulagi á umhverfi Rafstöðvarinnar í Elliðaárdal og Ártúns en málinu frestað.  Nefndin tók síðan fyrir deiliskipulagstillögu, dags. 22. mars 2002, fyrir Rafstöðvarsvæði í Elliðaárdal hinn 10. apríl 2002 og var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar.  Vegna athugasemda Stangveiðifélags Reykjavíkur ákvað skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum hinn 2. maí 2002 að afturkalla auglýsingu tillögunnar og var málinu vísað til borgarráðs.  Hinn 2. apríl 2003 tók skipulags- og byggingarnefnd fyrir endurskoðaða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal og samþykkti að auglýsa tillöguna og var málinu vísað til borgarráðs. 

Að lokinni auglýsingu var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar en þá lágu fyrir athugasemdir nokkurra aðila, þar á meðal kæranda, sem taldi sig eiga lóðir á skipulagssvæðinu.  Jafnframt lágu fyrir bréf borgarlögmanns, dags. 7. júlí 2003, og sameignarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands og borgarstjórnar Reykjavíkur um Landsvirkjun, dags. 1. júlí 1965, ásamt umsögn skipulagsfulltrúa.  Var afgreiðslu málsins frestað. 

Hinn 21. janúar 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd umrætt deiliskipulag og staðfesti borgarstjórn þá samþykkt hinn 5. febrúar s.á.  Deiliskipulagið öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 23. mars 2004.  Kærandi undi ekki þeirri ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að með sameignarsamningi ríkis og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun, dags. 1. júlí 1965, hafi Reykjavíkurborg lagt fyrirtækinu til tiltekin orkumannvirki í Elliðaárdal.  Í 2. gr. nefnds samnings, lið B3 og B4, komi fram að Reykjavíkurborg legði Landsvirkjun til eimhverfilsstöð við Elliðaár, með öllu sem fylgdi og fylgja bæri, ásamt hæfilegri lóð undir stöðina auk lóðar á svæðinu undir aðalspennistöð Sogsvirkjunar með útivirkjum.  Stærð og mörk greindra lóða skyldi borgarráð Reykjavíkur ákveða að fengnum tillögum stjórnar kæranda. 

Eftir auglýsingu umdeildrar skipulagstillögu hafi kærandi vakið athygli borgaryfirvalda á að í tillögunni væri í engu getið þriggja lóða kæranda á skipulagssvæðinu, þ.e. norðan varaaflstöðvar þar sem olíutankar tengdir stöðinni hafi staðið, lóðar er tilheyrði varaaflstöðinni og lóðar undir tengivirki sunnan Elliðaárstöðvar sem rifið hafi verið fyrir nokkrum árum.  Mótmælt hafi verið því verklagi að hafa ekkert samráð við kæranda við skipulagsgerðina þrátt fyrir augljósa hagsmuni hans, en gert hafi verið ráð fyrir að hluti umræddra lóða yrði tekinn til almenningsþarfa og að varaaflstöðin yrði rifin. 

Í kjölfar greindra athugasemda hafi lóðir undir vararafstöð og tengivirki verið ákvarðaðar og markaðar á skipulagsuppdráttinn en hafnað hafi verið eignarhaldi kæranda á lóð þar sem olíutankar hafi staðið án haldbærra raka en tankarnir hafi verið hluti vararafstöðvarinnar þótt þeir hafi staðið nokkuð frá stöðvarhúsinu, væntanlega af öryggisástæðum. 

Kærandi telur að hið kærða skipulag sé gert á röngum forsendum og ekki verði fallist á að unnt sé að breyta skipulagi í þeim tilgangi að svipta kæranda eignarlóð sinni þar sem olíutankar hafi áður staðið, gegn eindregnum mótmælum, en kærandi líti svo á að skilyrði eignarnáms skv. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 séu ekki fyrir hendi.  Beri því að gera grein fyrir umræddri lóð kæranda í hinu kærða skipulagi. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hið samþykkta deiliskipulag verði staðfest. 

Frávísunarkröfu styður Reykjavíkurborg einkum þeim rökum að krafa kæranda eigi ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sbr. ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nefndin hafi hvorki valdheimildir til að fjalla um málið né hlutast til um að kærandi verði skráður eigandi hinnar umdeildu lóðar á deiliskipulagsuppdrætti.  Þá hafi nefndin heldur ekki heimildir til að kveða á um bótaskyldu vegna ákvarðana sem annars heyri undir hana, en tilgangur kærunnar virðist skv. gögnum málsins einnig vera sá að búa til bótagrundvöll gagnvart borgaryfirvöldum. 

Mál þetta fjalli að öllu leyti um ágreining sem uppi sé milli kæranda og Reykjavíkurborgar um eignarrétt á tiltekinni lóð innan hins kærða deiliskipulags.  Það sé ekki á valdi úrskurðarnefndar að skera úr um ágreining um eignarrétt milli aðila.  Slíkur ágreiningur sé einkaréttarlegs eðlis og verði ekki leystur nema með samningum milli aðila eða eftir atvikum fyrir dómstólum. 

Hvað efnishlið máls varði hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að deiliskipuleggja umrætt svæði.  Bent sé á að lóðin, sem olíutankar vararafstöðvarinnar hafi áður staðið á, sé að mestu leyti utan hins deiliskipulagða svæðis, sem afmarkist af hitaveitustokknum er liggi um Elliðaárdalinn.  Verði síðar leitt í ljós að lóðin sé eign kæranda verði Reykjavíkurborg eftir atvikum bótaskyld, taki borgin lóðina eignarnámi.  Deila um eignarrétt á umræddri lóð haggi því ekki gildi hins kærða deiliskipulags. 

Niðurstaða:  Kærandi á fasteignir á svæði því sem ákvarðanir eru teknar um í hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun.  Á kærandi því lögvarða hagsmuni í máli þessu og hefur hann gert athugasemdir við undirbúning og efni skipulagsins.  Er það á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að endurskoða lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður því ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun kærumálsins. 

Fyrir liggur í málinu að ekki var tekið tillit til eignarréttarlegra hagsmuna kæranda í skipulagstillögu þeirri sem auglýst var til kynningar.  Vegna athugasemda kæranda var í skipulaginu gerð grein fyrir tveimur lóðum sem hann hefur eftir atvikum sætt sig við. 

Hefur kærandi borið fyrir sig að hinu kærða skipulagi sé áfátt að því leyti að ekki sé þar gerð grein fyrir lóð er var nýtt undir olíutanka sem tengdust vararafstöð kæranda og hafi orðið hans eign við sameignarsamning ríkis og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun frá árinu 1965.  Hafa borgaryfirvöld andmælt þeim skilningi kæranda og haldið því fram að einungis hafi verið um að ræða afnotarétt að umdeildri landspildu á meðan nefndir olíutankar hafi staðið þar.  Hefur kærandi jafnframt gert athugasemd við að ekki hafi verið haft samráð við hann sem hagsmunaaðila við undirbúning og gerð skipulagstillögu þeirrar sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar. 

Samkvæmt framansögðu er uppi ágreiningur milli kæranda og borgaryfirvalda um eignarráð að lóð þeirri er fyrrnefndir olíutankar stóðu á.  Verður sá ágreiningur, sem varðar túlkun á samningsákvæði í sameignarsamningi um Landsvirkjun, ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur á slíkt álitaefni undir dómstóla.  Deiliskipulagsákvörðun getur ekki ein og sér haft áhrif á eignarréttindi manna.  Sú staðreynd að umrædd lóð, sem ráða má að yrði að hluta til inni á svæði því sem hið kærða skipulag tekur til, er ekki mörkuð á skipulagsuppdráttinn eða grein fyrir henni gerð í skipulagsskilmálum haggar því ekki gildi umdeilds skipulags. 

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum hagsmunaaðila við gerð skipulagsáætlana um mörkun stefnu og skipulagsmarkmið.  Þessa var ekki gætt gagnvart kæranda á vinnslustigi hins kærða deiliskipulags.  Hins vegar kom kærandi að athugasemdum sínum við kynningu tillögunnar og var tekið tillit til þeirra að öðru leyti en því sem að framan er rakið.  Með tilliti til þessa þykir greindur annmarki ekki eiga að leiða til ógildingar umrædds skipulags. 

Með skírskotan til ofangreindra sjónarmiða verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð: 

Kröfu kæranda, um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 27. janúar 2004 um að breyta deiliskipulagi Rafstöðvarsvæðis í Elliðaárdal, er hafnað. 

 

 

___________________________         
                   Hjalti Steinþórsson                                 

 

                                                                                      _____________________________                 ____________________________ 
  Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

55/2004 Vatnsendablettur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingaverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 55/2004, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b, Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 11. október 2004, kærir G, eigandi mannvirkja á lóðinni að Vatnsendabletti 167b og leigutaki hennar þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir hann að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b í Kópavogi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum verði frestað. 

Málavextir:  Á lóðinni að Vatnendabletti 167b í Kópavogi hefur til margra ára staðið u.þ.b. 30 m² sumarhús, byggt árið 1946, ásamt 6-8 m² skúrbyggingu.  Var sumarhúsið skráð í fasteignaskrá en ekki skúrbyggingin.  Munu byggingar þessar hafa verið í talsverðri niðurníðslu. 

Hinn 8. og 16. desember 1999 ritaði byggingarfulltrúinn í Kópavogi kæranda máls þessa bréf þar sem fram kom að á eftirlitsferð hans um Vatnsendaland hinn 18. nóvember sama ár hafi orðið vart við óheimilar framkvæmdir á Vatnsendabletti nr. 167b.  Krafðist byggingarfulltrúi þess að jarðrask yrði afmáð ásamt því að fyllt yrði í grunn sem grafinn hefði verið á lóðinni. 

Hinn 2. ágúst 2002 ritaði tæknifræðingur hjá embætti byggingarfulltrúa kæranda bréf þar sem sagði að við skoðun að Vatnsendabletti 167b hafi komið í ljós að miklar framkvæmdir ættu þar sér stað, án heimildar byggingaryfirvalda.  Verið væri að breyta útliti hússins, setja niður rotþrær án þess að skilað hafi verið inn teikningum til byggingarfulltrúa og vinna að vega- og jarðvegsframkvæmdum.  Sagði enn fremur í fyrrgreindu bréfi að krafist væri stöðvunar framkvæmda strax þar til málin væru lagfærð.  Þrátt fyrir þetta var framkvæmdum haldið áfram og u.þ.b. 12 m² viðbygging reist við húsið ásamt því að skúrbygging sú sem á lóðinni stóð var rifin og ný u.þ.b. 8 m² byggð í hennar stað.  Í gögnum málsins kemur fram að viðbyggingin stendur ekki á sökklum heldur hvílir á grúsarfyllingu og er tengd við húsið með tengibyggingu. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 4. september 2002, til kæranda var honum tilkynnt að byggingarnefnd liti svo á að um ólöglegar framkvæmdir á lóð hans væri að ræða sem bæri að fjarlægja.  Var kæranda veittur frestur til 25. september 2002 til að koma að andmælum sínum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Með bréfi, dags. 17. september 2002, lagði kærandi fram greinargerð þar sem gerð var grein fyrir framkvæmdunum ásamt því að teikningar af húsunum voru lagðar fram.  Á fundi byggingarnefndar hinn 2. október 2002 krafðist nefndin þess að kærandi fjarlægði óleyfilegar framkvæmdir fyrir 1. desember 2002.  Yrði því ekki sinnt myndi byggingarnefnd hlutast til um að þær yrðu fjarlægðar á kostnað kæranda. 

Á fundi bæjarráðs hinn 17. október 2002 var lögð fram beiðni kæranda, dags. 16. október sama ár, um að byggingar á lóðinni fengju að standa þar til Kópavogsbær þyrfti á landinu að halda og óskaði bæjarráð eftir umsögn byggingarnefndar um málið.  Á fundi byggingarnefndar hinn 6. nóvember sama ár var lagt fram bréf kæranda þar sem hann m.a. tók fram að hann óskaði ekki eftir því við bæjaryfirvöld að kofinn sem rifinn hefði verið verði skráður í fasteignamatsskrár.  Á fundi þessum bókaði byggingarnefnd að nefndin gerði ekki athugasemd við að skúrinn stæði á lóðinni innan þess frests sem bæjarráð setti, enda yrði hann ekki skráður í Landskrá fasteigna.  Þar með félli nefndin að sinni frá kröfu sinni um að skúrinn yrði fjarlægður. 

Á fundi bæjarráðs hinn 8. nóvember sama ár var afgreiðslu framangreindrar bókunar byggingarnefndar frestað og óskað umsagnar byggingarfulltrúa um málið.  Á fundi bæjarráðs hinn 28. nóvember 2002 var lögð fram umsögn byggingarfulltrúa vegna málsins og var eftirfarandi bókað:  „Frá byggingarfulltrúa, dags. 27/11, umsögn vegna erindis, sem óskað var eftir á fundi bæjarráðs 8/11, vegna ólöglegra framkvæmda að Vatnsendabletti 167b . Talið er eðlilegt að viðbótarfrestur verði veittur til að fjarlægja bygginguna og með tilliti til þess að vetur er að ganga í garð að það verði a.m.k. til vors.  Vísað til umsagnar bæjarlögmanns.“

Á fundi bæjarráðs hinn 24. júlí 2003 var eftirfarandi fært til bókar:  „Frá bæjarlögmanni, dags. 11/12 2002, umsögn vegna Vatnsendabletts 167b, ekki er talið ráðlegt að horfið verði frá ákvörðun bygginganefndar um að hin ólöglegu mannvirki verði fjarlægð og þá eigi síðar en næsta vor.  Bæjarráð felur bæjarlögmanni og byggingarfulltrúa að sjá til þess að ólögleg mannvirki á svæðinu verði fjarlægð.“  Var kæranda tilkynnt um framangreint með bréfi, dags. 28. sama mánaðar, ásamt umsögn bæjarlögmanns, dags. 11. desember 2002.

 Á fundi bæjarráðs hinn 5. september 2003 var lagt fram bréf kæranda, dags. 30. ágúst 2003, þar sem fram kemur m.a. að kæranda hafi borist bréf frá bæjaryfirvöldum þess efnis að honum bæri að fjarlægja viðbygginguna fyrir vorið 2004.  Bókaði bæjarráð af þessu tilefni eftirfarandi:  „Frá Guðmundi Sigurjónssyni, dags. 30/8, vegna lóðamála.  Bæjarráð vísar til bókunar sinnar þann 24/7 sl. og óskar eftir umsögn bæjarlögmanns og byggingarfulltrúa.“  Á fundi bæjarráðs hinn 13. maí 2004 var byggingarfulltrúa falið að framfylgja ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2003 og hinn 17. september sama ár var eftirfarandi fært til bókar:  „Vatnsendablettur 167b, bæjarráð samþykkir að eiganda verði gefinn frestur í 2 vikur til að fjarlægja ólöglega viðbyggingu og nýjan svefnkofa á lóðinni. Byggingarfulltrúa verði falin framkvæmd á niðurrifi bygginga ef þurfa þykir, á kostnað eigenda.“ 

Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi mótmælir kröfu Kópavogsbæjar og fer fram á að viðbyggingin við húsið á lóðinni fái að standa áfram.  Snyrtilega hafi verið frá henni gengið og sé hún varla sjáanleg þar sem hún sé niðurgrafin og á bak við sumarhúsið.  Í þessari viðbyggingu sé svefnherbergi kæranda. 

Vísar kærandi til þess að hann hafi alltaf langað til að búa á svona fallegu svæði með ótrúlegu útsýni.  Þess vegna hafi hann flutt í húsið og langi hann til að búa þar áfram.  Þegar kæran hafi verið sett fram hafi hann verið búinn að halda heimili sitt í tvö ár í húsinu.  Þar sé rafmagn, sími og rotþró ásamt því að sorpið sé hirt frá honum. 

Þá setur og kærandi fram athugasemdir við þá ætlan bæjaryfirvalda að fjarlægja litla kofann á lóðinni sem sé í u.þ.b. 19 metra fjarlægð frá húsinu.  Þarna hafi verið kofi fyrir sem hafi legið undir skemmdum.  Hafi kærandi gert við kofann. 

Kærandi vonist eftir skilningi og vægð frá Kópavogsbæ því í Kópavogi sé gott að búa. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er kröfum kæranda mótmælt og þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfu um að réttaráhrifum ákvörðunar verði frestað.  Jafnframt er þess krafist að úrskurðarnefndin viðurkenni lögmæti ákvörðunar um niðurrif. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til þess að í nóvember árið 1999 hafi lóðarhafi að Vatnsendabletti 167b verið staðinn að leyfislausum framkvæmdum á lóð sinni.  Með bréfum, dags. 30. nóvember 1999 og 8. desember sama ár, hafi lóðarhafa verið bent á að umræddar framkvæmdir væru leyfisskyldar og vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga þess efnis.  Með bréfi, dags. 16. desember 1999, hafi þess verið krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar og grindur og jarðrask afmáð. 

Árið 2002 hafi lóðarhafi verið staðinn að leyfislausum framkvæmdum á lóð sinni að nýju.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. ágúst 2002, hafi þess verið krafist að framkvæmdir yrðu strax stöðvaðar enda hafi útliti fasteignar Vatnsendabletts 167b verið breytt án leyfis byggingaryfirvalda.  Miklar jarð- og vegaframkvæmdir hafi verið unnar og rotþrær settar niður án teikninga.  Framkvæmdir lóðarhafa við byggingar hafi m.a. falist í því að byggð hafi verið 15,4 m² viðbygging við það hús sem fyrir hafi verið á lóðinni ásamt því að byggður hafi verið 6 m² kofi úti á lóð. 

Ákvörðun um stöðvun framkvæmda hafi verið lögð fyrir byggingarnefnd hinn 4. september 2002 og hún samþykkt.  Lóðarhafa hafi verið gefinn kostur á að gæta andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Andmæli hans hafi borist með bréfi, dags. 17. september 2002.  Í ljósi þess að umræddar framkvæmdir hafi verið andstæðar skipulagi og án leyfis hafi byggingarnefnd verið skylt að hlutast til um að þeim yrði hætt og þær afmáðar.  Á fundi byggingarnefndar hinn 2. október 2002 hafi lóðarhafa verið gefinn frestur til 1. desember 2002 til þess að fjarlægja óleyfilegar framkvæmdir, ellegar yrði það gert á kostnað hans. 

Lóðarhafi hafi, sem fyrr, hvorki orðið við kröfum byggingarfulltrúa né byggingarnefndar um að fjarlægja mannvirkin. 

Á fundi bæjarráðs hinn 10. júlí 2003 hafi bæjarráð óskað eftir tillögum frá byggingarfulltrúa varðandi hinar óleyfilegu framkvæmdir.  Á fundi ráðsins hinn 28. júlí 2003 hafi byggingarfulltrúa og bæjarlögmanni verið falið að hlutast til um að mannvirkin yrðu fjarlægð.  Andmæli kæranda hafi borist vegna þeirrar ákvörðunar hinn 8. september sama ár. 

Á fundi bæjarráðs hinn 17. september 2004 hafi lóðarhafa endanlega verið gefinn frestur í tvær vikur til að fjarlægja ólöglega viðbyggingu og nýjan kofa á lóðinni. 

Vísað sé til þess að Kópavogsbær hafi sýnt mikið umburðarlyndi gagnvart kæranda vegna þessa máls.  Því sé mótmælt að vegna slíks umburðarlyndis hafi kærandi áunnið sér einhvers konar rétt.  Umræddar byggingar brjóti í bága við skipulag- og séu án byggingarleyfis.  Með vísan til 2. mgr. 56. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 sé bæjaryfirvöldum skylt að fjarlægja framangreindar byggingar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarráðs Kópavogs að leggja fyrir kæranda að fjarlægja annars vegar um það bil 15,4 m² viðbyggingu við húsið að Vatnsendabletti 167b og hins vegar 6-8 m² skúr sem reistur var á lóðinni í stað eldri skúrs sem hafði verið rifinn. 

Kærandi hóf framkvæmdir við viðbyggingu húss þess er stendur á Vatnsendabletti 167b ásamt því að reisa skúr á lóðinni án þess að hafa fengið leyfi fyrir þeim framkvæmdum, en þær eru háðar byggingarleyfi skv. 1. mgr. 43. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 11. grein byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þessum framkvæmdum virðist kærandi hafa haldið áfram eftir að byggingarfulltrúi hafði fyrirskipað stöðvun þeirra.  Allar þessar athafnir kæranda stríddu gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun bæjarráðs Kópavogs hafi verið lögmæt og beri því að hafna kröfu kæranda um ógildingu hennar.  Með tilliti til málskotsréttar kæranda ber bæjaryfirvöldum þó að ákvarða að nýju frest til þeirra aðgerða sem í hinni kærðu ákvörðun fólust, sbr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Ekki kom til þess að úrskurðarnefndin kvæði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar svo sem kærandi krafðist enda kom fram af hálfu byggingaryfirvalda í Kópavogi að þau myndu ekki fylgja málinu eftir á meðan það væri til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um að ógilt verði ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 17. september 2004 um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja viðbyggingu og kofa á lóðinni að Vatnsendabletti 167b í Kópavogi.  

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                     _____________________________
         Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

35/2006 Aðalgata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 35/2006, kæra á samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar Ólafsfjarðarbæjar frá 2. og 7. mars 2006 um breytta notkun hússins að Aðalgötu 16 Ólafsfirði úr verslunar- og þjónustuhúsnæði í íbúðir og samþykkt byggingarnefndarteikninga er bæjarstjórn staðfesti hinn 14. mars 2006 og á samþykkt lóðablaðs með lóðamörkum Aðalgötu 16 og Kirkjuvegar 1, Ólafsfirði, frá 8. maí 2006 er bæjarstjórn staðfesti hinn 9. maí s.á.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir R, Laugateigi 11, Reykjavík, fyrir sína hönd og B, G H og R, eigenda fasteignarinnar að Kirkjuvegi 1, samþykkt skipulags- og umhverfisnefndar Ólafsfjarðarbæjar frá 2. og 7. mars 2006 um breytta notkun hússins að Aðalgötu 16 í Ólafsfirði úr verslunar- og þjónustuhúsnæði í íbúðir og samþykkt byggingarnefndarteikninga er bæjarstjórn staðfesti hinn 14. mars 2006, svo og á samþykkt lóðablaðs með lóðamörkum Aðalgötu 16 og Kirkjuvegar 1 Ólafsfirði. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik:  Hinn 8. febrúar 2006 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Ólafsfjarðar fyrir sitt leyti erindi eiganda fasteignarinnar að Aðalgötu 16 þar í bæ um breytta notkun hússins úr verslunarhúsnæði í íbúðir en benti á að breyta þyrfti landnotkun reitsins í aðalskipulagi.  Hinn 1. nóvember 2005 tók skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins fyrir lóðablað með breyttum lóðamörkum við Aðalgötu, Kirkjuveg og Vesturgötu, er snertir m.a. lóðamörk fasteignar kæranda að Kirkjuvegi 1 og fasteignarinnar að Aðalgötu 16, og umsókn um breytta notkun hússins að Aðalgötu 16 ásamt byggingarnefndarteikningum vegna breytinga á húsinu.  Var byggingarfulltrúa falið að ganga frá endanlegri tillögu að lóðamörkum og kynna hana fyrir lóðahöfum en greindar teikningar voru samþykktar.  Lögmaður kærenda mótmælti fyrirhuguðum framkvæmdum og málsmeðferð í bréfi til bæjaryfirvalda, dags 9. nóvember 2005, og hinn 22. nóvember vísaði bæjarstjórn ákvörðunum skipulags- og umhverfisnefndar frá 1. nóvember aftur til nefndarinnar.  Tók hún málið fyrir að nýju hinn 6. desember og samþykkti að grenndarkynna breytta notkun hússins að Aðalgötu 16 fyrir hagsmunaaðilum skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn hinn 13. desember 2005.  Í kjölfar þessa áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli lögmanns kærenda og bæjaryfirvalda og var kynntum breytingum mótmælt að því er varðaði skerðingu á lóð Kirkjuvegar 1.  Hinn 2. mars 2006 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd breytta notkun hússins að Aðalgötu 16 skv. teikningum, dags. 30. júní 2005, og á fundi sínum hinn 7. mars staðfesti nefndin samþykkt sína á nefndum teikningum frá 1. nóvember 2005 og samþykkti jafnframt að kynna fyrir lóðahöfum lóðablað, dags. 10. febrúar 2006.  Bæjarstjórn staðfesti greindar fundargerðir hinn 14. mars 2006.  Lögmaður kærenda mótmælti hinu kynnta lóðablaði í bréfi, dags. 31. mars 2006, en skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti umrætt lóðablað á fundi sínum hinn 8. maí 2006 með þeim fyrirvara að staðfest samþykki lægi fyrir frá lóðarhöfum að Vesturgötu 4 þegar nýr lóðarleigusamningur yrði gerður við þá.  Bæjarstjórn staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum hinn 9. maí s.á. 

Kærendur styðja kröfur sínar þeim rökum að með hinum kærðu ákvörðunum sé gengið á hagsmuni þeirra með því að gert sé ráð fyrir að útgangur verði úr húsinu að Aðalgötu 16 að vestanverðu inn á lóð þeirra og með umdeildu lóðablaði sé lóð þeirra skert.  Málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sé í ýmsu áfátt og í andstöðu við ákvæði skipulags- og byggingarlaga.  Þeim hafi ekki verið gert aðvart um fyrirhugaðar breytingar og umdeild breyting hafi fyrst verið kynnt eftir að lögmaður þeirra hafi sent bæjaryfirvöldum bréf og engin afstaða hafi verið tekin til mótmæla þeirra við fyrirhugaðar breytingar á húsi og lóðamörkum.  Þá hafi framkvæmdir við húsið að Aðalgötu 16, sem hafi byrjað um haustið 2005, verið látnar átölulausar af hálfu bæjaryfirvalda þrátt fyrir mótmæli kærenda og vitneskju bæjarins um skort á lögboðnum leyfum. 

Ólafsfjarðarbær krefst þess að stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað og krefst kærumálskostnaðar.  Framkvæmdir við breytingar á húsinu að Aðalgötu 16 séu langt komnar og verulegur kostnaður og óþægindi yrðu því samfara ef framkvæmdir yrðu nú stöðvaðar.  Þá verði ekki séð að hagsmunir kærenda knýji á um slíka stöðvun en skoðun bæjarins sé sú að umræddar breytingar séu til hagsbóta fyrir nágranna. 

Byggingarleyfishafi hefur mótmælt framkominni stöðvunarkröfu.  Hann kveðst í hvívetna hafa farið að lögum og hafi verulega hagsmuni af því að ekki verði hróflað við ákvörðunum lögmætra stjórnvalda sem hér séu undir.  Fyrir liggi að lóðarmörk Kirkjuvegar 1 hafi lengi verið óljós og ekkert finnist um lóðina í veðmálabókum.  Kærendum hljóti að vera kunnugt um að fasteignin að Kirkjuvegi 1 hafi á sínum tíma verið seld eiganda hússins að Aðalgötu 16 í því skyni að unnt yrði að stækka það hús enda hafi það á sínum tíma verið hannað með það í huga og hlaðið hafi verið upp í súlubil á vesturhlið þess svo auðveldlega mætti fjarlægja þá veggi og byggja við húsið yfir á lóð Kirkjuvegar 1.  Tilhögun lóðamarka og aðkoma að Aðalgötu 16, sem bæjaryfirvöld hafi nú samþykkt, sé í samræmi við áform þegar fasteignin var teiknuð fyrir hart nær 50 árum og vörumóttaka hafi verið á norðanverðri vesturhlið hússins á sínum tíma með leyfi byggingaryfirvalda og án athugasemda.  Síðastliðin 40 ár hafi verið litið svo á af hálfu eigenda umræddra fasteigna að húsinu að Aðalgötu 16 fylgdi réttur til aðkomu að vestanverðu. 

Niðurstaða:  Ákvarðanir þær sem um er deilt í máli þessu eru annars vegar heimild fyrir breyttri notkun hússins að Aðalgötu 16 og til breytinga á því húsi vegna breyttar notkunar og hins vegar ákvörðun um lóðamörk milli nefndrar fasteignar og Kirkjuvegar 1, sem er í eigu kærenda.

Framkvæmdir við Aðalgötu 16 eru fyrst og fremst innan húss og voru þær komnar vel á veg er kæra barst í máli þessu, en engar framkvæmdir fylgja ákvörðun um lóðamörk.  Í ljósi þessa þykja hagsmunir kærenda ekki knýja á um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til efnismeðferðar enda eru framkvæmdir er að þeim snúa afturtækar án sérstakra vandkvæða ef til kemur.

Í lögum er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til þess að kveða á um kærumálskostnað í málum þeim sem skotið er til nefndarinnar og er kröfu Ólafsfjarðarbæjar um kærumálskostnað því vísað frá.

Með vísan til þessa verður kröfu um stöðvun framkvæmda hafnað. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda í máli þessu um stöðvun framkvæmda er hafnað.

Kröfu Ólafsfjarðarbæjar um kærumálskostnað er vísað frá.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson

45/2006 Ingólfsfjall

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2006, kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi, dags. 9. júní 2006, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Landvernd ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist til bráðbirgða að efnistaka úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs verði stöðvuð án tafar þar til mál þetta hafi verið til lykta leitt. 

Úrskurðarnefndinni barst hinn 14. júní 2006 bréf Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 10. júní 2006, þar sem sama ákvörðun er kærð, með sömu eða svipuðum rökum og með sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.  Þykja skilyrði vera fyrir hendi til að sameina framangreindar kærur og verður því fjallað um þær sem eitt kærumál. 

Þá hefur úrskurðarnefndinni borist í tölvupósti kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem kærð er sama ákvörðun og að framan greinir en erindið hefur enn ekki borist nefndinni undirritað.  Verður ekki, að svo stöddu, tekin afstaða til þess hvort síðastgreint erindi fullnægi skilyrðum 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um skriflega kæru. 

Leyfishafa, landeiganda og sveitarstjórn var þegar í stað gert viðvart um framkomnar kærur og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafa þessir aðilar sent úrskurðarnefndinni andmæli og athugasemdir er einkum lúta að því hvort verða eigi við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrlausnar um það álitaefni. 

Málsatvik og rök:  Fram kemur í málsgögnum að fyllingarefni hafi um áratuga skeið verið unnið úr Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Á árinu 2004 hóf rekstraraðili námunnar að vinna efni uppi á fjallinu og var því rutt niður í námu þá sem fyrir var neðan fjallsins.  Skipulagsstofnun taldi efnistöku uppi á fjallinu háða mati á umhverfisáhrifum og var sú niðurstaða stafest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 10. desember 2004. 

Að fenginni þessari niðurstöðu lét rekstraraðili námunnar vinna mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar efnistöku uppi á fjallinu.  Var matsferlið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Matsskýrsla lá fyrir í mars 2006.  Vann Skipulagsstofnun lögbundið álit um matið og er í niðurstöðu álitsins mælt gegn því að leyfi verði veitt fyrir umræddri framkvæmd. 

Bæjarstjórn Ölfuss tók ákvörðun um að veita umrætt framkvæmdaleyfi þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar og færði fram rök fyrir þeirri ákvörðun.  Eru kærendur ósammála rökum bæjarstjórnar og ákvörðun hennar og hafa þeir skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda einkum þeim rökum að verði framkvæmdum haldið áfram meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar sé hætta á að varanleg spjöll verði unnin á brún og hlíð Ingólfsfjalls á vinnslusvæðinu áður en endanleg niðurstaða fáist í málinu.  Ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa, sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér, komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Það sé því afar brýnt að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim, sem kærunni sé ætlað að verja, verði fórnað. 

Af hálfu framkvæmdaleyfishafa og landeigenda er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Miklir hagsmunir séu tengdir áframhaldandi efnisvinnslu og sé efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu gríðarlega mikill.  Stöðvun vinnslu á þessum tímapunkti hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.  Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum þeirra til nefndarinnar.  Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum séu ekki færð fram skilmerkileg rök fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda og ekki sé þar að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss er m.a. á það bent að ekki sé í kærunum vikið að því einu orði að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt, enda hafi málsmeðferðin öll verið eftir gildandi reglum.  Það sé lögbundið verkefni sveitarfélagsins að veita framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við ákvörðun um leyfisveitinguna sé sveitarfélagið ekki bundið af áliti Skipulagsstofnunar heldur beri því að taka rökstudda afstöðu til álitsins og taka að því búnu upplýsta ákvörðun í málinu.  Alls þessa hafi verið gætt.  Þá hafi kærendur ekki sett kröfu sína um stöðvun framkvæmda fram fyrr en rétt fyrir lok kærufrests og af orðalagi megi ráða að þeir séu í vafa um hvort, eða að hvaða marki, óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar komi fram á þeim tíma sem málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í þessum þætti málsins og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn sína til bráðabirgða í málinu. 

Niðurstaða:  Af hálfu kærenda er þess krafist að framkvæmdir sem hafnar eru með stoð í hinu umdeilda framkvæmdaleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til efnismeðferðar.  Er sú krafa þeirra studd þeim rökum að ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Eru megin röksemdir þeirra í málinu einnig af sama meiði þar sem aðallega er á því byggt að hinni umdeildu framkvæmd fylgi meiri varanleg og óafturtæk sjónræn áhrif en unnt sé að una við. 

Af hálfu leyfishafa, landeigenda og sveitarstjórnar hefur hins vegar verið lögð áhersla á þá ríku hagsmuni sem séu tengdir því að efnisvinnslan verði ekki stöðvuð fyrirvaralaust, auk þeirra vandkvæða sem óhjákvæmilega muni leiða af slíkri stöðvun nú. 

Úrskurðarnefndin fellst á þau sjónarmið kærenda að sjónræn áhrif geti fljótlega komið fram haldi efnisvinnsla samkvæmt umdeildu framkvæmdaleyfi áfram óheft og að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um ágreining málsaðila nema tryggt sé að ásýnd fjallsbrúnar og hlíðar verði ekki raskað til muna meðan nefndin hafi málið til úrlausnar. 

Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Með hliðsjón af tilvitnaðri lagareglu og með tilliti til atvika málsins og ríkra hagsmuna leyfishafa fellst úrskurðarnefndin ekki á að réttlætanlegt sé að stöðva alla vinnslu samkvæmt leyfinu meðan nefndin hefur málið til efnismeðferðar.  Er þá einnig til þess litið að efnisvinnsla hefur um nokkurt skeið verið með þeim hætti að lausu efni hefur verið ýtt fram af fjallinu ofan í eldri námu um svonefnda vestari rás og eru ekki sjáanleg vandkvæði á að halda vinnslu áfram með óbreyttu sniði meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu í málinu. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða nefndarinnar að stöðva beri framkvæmdir sem miði að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæðinu ofan Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Jafnframt er leyfishafa óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrúninni á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Óheimilt er að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni. 

Með vísun til 3. málsl. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er lagt fyrir sveitarstjórn að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem miða að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæði ofan Þórustaðanámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli, eru stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er leyfishafa á sama tíma óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrún á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Loks er óheimilt á umræddum tíma að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni.  Að öðru leyti er efnisvinnsla heimil á svæðinu með sama sniði og verið hefur að undanförnu. 

Bæjarstjórn Ölfuss ber að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

 

___________________________   
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

9/2005 Skólavörðustígur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 13. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2005 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. janúar 2005, er barst úrskurðarnefndinni hinn 28. sama mánaðar, kæra H og B, Skólavörðustíg 21, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni barst henni, hinn 3. febrúar 2005, kæra frá J, Skólavörðustíg 22, þar sem kærð er sama ákvörðun og í máli þessu.  Er þar byggt á sömu sjónarmiðum og í fyrrnefndri kæru og ákvað úrskurðarnefndin því að sameina kærumálin í eitt mál og var síðargreint kærumál, sem er nr. 12/2005, sameinað þessu máli.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Málavextir:  Mál þetta má rekja aftur til 1. júní 2004, en þá var á fundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta íbúðarhúsnæði á annarri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í kaffihús ásamt því að koma fyrir svölum á suðurhlið þess og yfir anddyrisútbyggingu.  Málinu var frestað vegna athugasemda á umsóknarblaði en bókað að þeim uppfylltum yrði málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Málið var tekið fyrir að nýju á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. sama mánaðar og þá ákveðið að vísa málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Skipulagsfulltrúi tók umsóknina fyrir á fundi hinn 24. júní 2004 og ákvað að grenndarkynna umsóknina hagsmunaaðilum að Lokastíg 3, 5 og 7 og Skólavörðustíg 21, 22, 22b, 23 og 25.  Grenndarkynningin fór fram á tímabilinu frá 28. júní til 26. júlí sama ár.  Alls bárust átta erindi þar sem 20 nágrannar mótmæltu leyfisveitingu, þar með taldir kærendur.  Að lokinni grenndarkynningu, eða hinn 16. ágúst 2004 voru athugasemdirnar kynntar á fundi skipulagsfulltrúa og málinu vísað til umsagnar hverfisstjóra.  Hinn 20. ágúst 2004, var að nýju ákveðið á fundi skipulagsstjóra að vísa málinu til umsagnar hverfisstjóra og lögfræði- og stjórnsýslu.  Á fundi skipulagsstjóra hinn 1. september sama ár var lögð fram umsögn vegna athugasemda þeirra er bárust vegna grenndarkynningarinnar, og málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar, sem á fundi hinn 6. sama mánaðar samþykkti umsóknina og bókaði að áskilin væri lokaúttekt byggingarfulltrúa sem og samþykki heilbrigðiseftirlits.

Hinn 8. október 2004 kærðu kærendur til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 6. september 2004. Kröfðust þau ógildingar ákvörðunarinnar og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefði málið til meðferðar.  Við frumathugun starfsmanna úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að sorptunnur vegna fyrirhugaðrar starfsemi virtust staðsettar utan lóðarmarka.  Var athygli byggingaryfirvalda vakin á þessu og í framhaldi af þeirri ábendingu var sótt um byggingarleyfi að nýju og var það leyfi veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 7. desember 2004.  Vegna þessa var önnur kæran afturkölluð og hinni vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kærendum var gert kunnugt um hið nýja byggingarleyfi.  Kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir.

Þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni voru um fimm mánuður liðnir frá því upphaflegt leyfi var veitt fyrir hinum umdeildu breytingum á húsinu að Skólavörðustíg 22A og voru framkvæmdir við breytingarnar langt á veg komnar.  Allar voru þessar framkvæmdir afturtækar með litlum tilkostnaði og þóttu af þeim sökum ekki efni til að taka sérstaklega til úrlausnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þegar hin kærða ákvörðun hafi verið á undirbúningsstigi hafi borgaryfirvöldum borist fjölmargar athugasemdir og mótmæli þeirra er hagsmuna áttu að gæta í næsta nágrenni.  Vísa kærendur til þess að fyrirhuguð breyting á notkun efri hæðarinnar að Skólavörðustíg 22A feli í sér verulegt ónæði fyrir þá, m.a. vegna aukinnar umferðar, hávaða, bílastæðavanda auk fleiri þátta. 

Umrætt svæði hafi ekki verið deiliskipulagt líkt og neðri hluti Skólavörðustígs og verði því fyrst og fremst að líta til aðalskipulags borgarinnar, greinargerðar þess sem og þróunaráætlunar miðborgarinnar.  Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem hliðarverslunarsvæði og í greinargerð þess séu sett viðmið um hvenær heimila megi breytta notkun utan skilgreinda hliðarverslunarsvæða, svo sem í bakhúsum og á efri hæðum.  Þá komi fram að breytingar séu heimilar ef notkunin hafi ekki áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum.  Einnig sé þar tilgreint að tryggja verði að breytingarnar hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, aðgengi verði að vera tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun sé gert ráð fyrir 25 manna kaffihúsi í rými sem áður hafi verið nýtt sem íbúðarhúsnæði.  Sé óhjákvæmilegt að slíkri breytingu fylgi töluvert rask fyrir nánasta umhverfi, m.a. hávaði frá tónlist og annað háreysti sem jafnan fylgi kaffihúsum.  Í þessu sambandi sé einnig á það bent að stór hluti starfseminnar fari fram á opnum svölum á vesturhlið hússins, sem snúi m.a. út að Skólavörðustíg og þar með gegnt húsi sumra kærenda.  Ekki verði séð að með nokkru móti verði unnt að takmarka hljóðmengun frá svölunum.  Vísað sé til þess að hið kærða byggingarleyfi hafi verið veitt án þess að fyrir lægju upplýsingar um það hvernig unnt yrði að stemma stigu við hljóðmengun sem augljóslega myndi stafa af breyttri notkun hússins.  Þá geri hin kærða ákvörðun ráð fyrir því að dyrum út á svalir hússins verði lokað kl. 22, en hvorki verði séð að trygging sé fyrir því að við það verði staðið né að eftirlit verði haft með því að svo verði. 

Óhjákvæmilegt sé að hin breytta notkun hafi í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir nánasta umhverfi veitingastaðarins.  Ljóst sé að umfang sorps með tilheyrandi lyktar- og sjónmengu sé langtum meiri en leiði af núverandi notkun efri hæðarinnar.  Einnig liggi fyrir að búast megi við verulegri lyktarmengun frá eldhúsi staðarins og hávaða, auk talsverðrar umferðar vegna móttöku vörusendinga.  Að sama skapi sé fyrirséð að umferð bíla og gangandi vegfarenda eigi eftir að aukast verulega umhverfis húsið.  Slíkri breytingu fylgi einnig bílastæðavandi sem ekki verði séð að núverandi tillögur feli í sér lausn á. 

Kærendur benda á að þrátt fyrir að hið kærða byggingarleyfi geri ekki ráð fyrir vínveitingum í kaffihúsinu þá sé ekki þar með sagt að sú gæti ekki orðið raunin síðar.  Verði að telja að yfirgnæfandi líkur séu á því að síðar verði óskað eftir vínveitingaleyfi í kaffihúsinu enda verði það auðsóttara þegar einu sinni hafi verið innréttað kaffihús í húsinu.  Hið sama gildi um lengingu opnunartíma.  Vegna þessa verði við mat á hugsanlegu raski vegna hins kærða leyfis að taka tillit til þess ástands sem yrði í húsinu og umhverfis það ef vín yrði veitt í því.  Óþarfi sé að rekja ítarlega hið mikla ónæði sem stafi af slíkum stöðum vegna næturbrölts, umferðar í bakgörðum, óhjákvæmilegu háreysti o.fl.     

Að þessu virtu sé augljóst að fyrirhugaðar breytingar hafi veruleg truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir ásamt því að hafa í för með sér umtalsvert rask og óþægindi fyrir íbúana.  Hið kærða leyfi sé því í andstöðu við ákvæði greinargerðar aðalskipulags og brjóti þar með ákvæði þess. 

Sömuleiðis sé á það bent að breytt notkun hússins að Skólavörðustíg 22A muni óhjákvæmilega hafa í för með sér verðrýrnun nærliggjandi íbúða vegna þeirra óþæginda sem að framan séu rakin. 

Þá er einnig á því byggt af hálfu kærenda að málsmeðferð borgaryfirvalda hafi verið ábótavant þegar ákvörðun hafi verið tekin um veitingu hins kærða byggingarleyfis.  Af gögnum málsins megi greina að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um hvernig hljóðvist frá húsinu yrði tryggð, en augljóst sé að hljóðmengun komi til með að fylgja breyttri notkun hússins.  Því hafi ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Telja verði að borgaryfirvöldum hafi slíkt verið skylt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Jafnframt sé á það bent að skýrt sé tekið fram í gögnum borgaryfirvalda að nýjar tillögur hafi komið fram um breytingar á húsinu, m.a. gert ráð fyrir stærri svölum og að grenndarkynna þurfi slíkar tillögur.  Ekki verði séð að grenndarkynning hafi farið fram um slíkt.  Samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 beri borgaryfirvöldum að kynna íbúum nærliggjandi húsa umræddar tillögur.  Brjóti málsmeðferðin því gegn ákvæðum laganna.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Sjónarmið Reykjavíkurborgar liggja fyrir í greinargerð, dags. 11. október 2004, og verður við hana stuðst þrátt fyrir að hún eigi við í hinu fyrra kærumáli sömu framkvæmd.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að sótt hafi verið um leyfi til að innrétta kaffistofu í íbúðarhúsnæði á annari hæð hússins að Skólavörðustíg 22A auk þess sem sótt hafi verið um að byggja 12 m² svalir/verönd á bakhlið hússins.  Rekstur þessi, þ.e. kaffihús, sé skilgreindur sem veitingarekstur í notkunarflokki A3.  Í umsókn sé tiltekið að opið verði til kl. 23:30 alla daga vikunnar.  Opnað verði kl. 11 að morgni um helgar en kl. 8 aðra daga.  Svaladyrum verði lokað kl. 22.

Bent sé á að deiliskipulag hafi ekki verið unnið á reitnum.  Í ljósi þessa hafi  umsóknin verið grenndarkynnt skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem byggingarleyfisumsókn í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi. Umsóknin hafi verið kynnt fyrir hagsmunaðilum að Lokastíg 3, 5 og 7 og Skólavörðustíg 21, 22, 22B, 23 og 25 á tímabilinu frá 28. júní til 26. júlí 2004.  Alls hafi borist átta erindi þar sem 20 nágrannar hafi mótmælt ofangreindum áformum.  

Þar sem ekki sé til deiliskipulag af svæðinu sé sú starfsemi heimil sem leyfileg sé skv. aðalskipulagi.  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi, kafla 3.1.5 í greinargerð I  stefnumörkun, sé á miðsvæðum fyrst og fremst gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi,  stjórnsýslu og skrifstofum.  Kaffihús falli undir þjónustu.  Á miðsvæðum fari fram fjölbreyttari starfsemi en rúmist á verslunar- og þjónustusvæðum, svo sem skrifstofur, menningar- og þjónustustofnanir, veitinga- og gistihús og í sumum tilvikum hreinlegur iðnaður og íbúðir, sbr. gr. 4.4 í skipulagsreglugerð.  Í aðalskipulaginu séu miðsvæði borgarinnar flokkuð niður eftir stefnu um meginstarfsemi.  Um hvert svæði gildi ákveðin stefnumörkun sem grundvallist á mismunandi hlutverki þeirra og staðsetningu í borginni.  Umrædd lóð sé í miðborginni þar sem lögð sé áhersla á blandaða notkun.  Í III. hluta greinargerðar aðalskipulagsins, þróunaráætlun miðborgar, landnotkunarkafla, sé fjallað nánar um landnotkun í miðborginni.  Samkvæmt því sé umrædd húseign staðsett á hliðarverslunarsvæði V- II.II.  Þar sem starfsemin sé á annarri hæð hússins gildi svohljóðandi ákvæði um starfsemina, þ.e. notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða:  „Skilyrði fyrir að veitt verði leyfi fyrir notkun utan skilgreindra götusvæða hliðar- og aðalverslunarsvæða (s.s. bakhúsum og efri hæðum) eru eftirfarandi:  Notkunin hafi ekki áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum.  Notkunin hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.“
Að ofangreindu megi sjá að gert sé ráð fyrir að breyting á starfsemi af því tagi sem hér sé fjallað um megi leyfa með tilgreindum skilyrðum um frágang og notkun húsnæðis.  Aðallega sé miðað við að tillit verði tekið til íbúa og annarra hagsmunaaðila í næsta nágrenni.  Þess vegna verði að tryggja í umfjöllun um byggingarleyfi að tæknilegur frágangur húseignarinnar verði með þeim hætti að ekki raski grenndarhagsmunum umfram það sem búast megi við á miðborgarsvæði, hvað varði þætti eins og hljóðvist, lykt o.þ.h. frá starfsemi innanhúss.  Í þessu samhengi megi vísa til þess að hin kærða ákvörðun sé háð skilyrðum um lokaúttekt byggingarfulltrúa, auk samþykkis heilbrigðiseftirlits.

Ákvæði um tæknilegan frágang sé að finna í byggingarreglugerð og sé það á ábyrgð byggingarfulltrúa að sjá til þess að honum sé framfylgt, m.a., með því að krefjast hljóðmælingar eða að lögð sé fram greinargerð um hljóðvist.  Með því sé unnt að fara yfir hljóðvist þess húss sem sé til umfjöllunnar og mæla fyrir um aðgerðir sem tryggja eigi að hljóð ofan skilgreindra marka berist ekki út fyrir veggi þess húsnæðis sem hýsi umrædda starfsemi, ef ástæða þyki til.  Byggingarfulltrúi muni fara fram á að lögð verði fram hljóðvistarúttekt áður en lokaúttekt fari fram.   Sérstaklega sé bent á að þegar rætt sé um hávaða vegna rekstrarins þá sé um að ræða 25 gesti.  Hvorki sé tónlistarflutningur fyrirhugaður á kaffihúsinu né sala áfengra drykkja.  Aðallega virðist vera hætta á hljóðmengun út um svaladyr en rekstaraðilar hafi skuldbundið sig til að loka þeim klukkan 22 hvert kvöld.  Ekkert í fyrirliggjandi gögnum gefi tilefni til að ætla að ekki verði staðið við þá skuldbindingu eins og haldið sé fram í kæru.

Sorpmál kaffihússins séu leyst og mögulegt aukið umfang sorps hafi því ekki áhrif á umhverfi kaffihússins.  Bílastæðakröfur til húsnæðisins breytist ekki, þrátt fyrir breytta notkun eignarhlutans enda, fasteignin á verslunarsvæði og næg bílastæði í göngufæri við kaffihúsið.

Einungis sé gert ráð fyrir gerð smárétta í nýju eldhúsi sem komið verði fyrir í eignarhlutanum.  Um sé að ræða samlokur, pönnukökur og þess háttar.  Loftræsting úr eldhúsi þurfi að uppfylla þær kröfur sem heilbrigðiseftirlit geri.  Ekki sé fallist á þau sjónarmið kærenda að hætta sé á stórkostlegri lyktar- og hávaðamengun vegna eldhússins.

Bent skuli á að verið sé að sækja um leyfi til að breyta íbúðarhúsnæði í kaffihús. Samkvæmt umsókn sé ætlunin að hafa opið til kl. 23:30.  Vegna nálægðar við íbúðabyggð sé ekki talið æskilegt að heimila starfsemi í öðrum notkunarflokki.  Ítrekað skuli að rekstraraðilum sé skylt að sækja um að nýju ef fyrirhugað sé að breyta á einhvern hátt notkuninni innanhúss, hvort sem er í vínveitingahús, matsölustað eða annað.  Slík notkunarbreyting myndi verða grenndarkynnt.

Að lokum sé því haldið fram að kynning umsóknarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og leyfið í samræmi við heimila landnotkun á svæðinu.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að Skólavörðustígur hafi á síðustu árum breytt mjög um svip og dragi nú til sín sífellt fleira fólk, bæði borgarbúa og ferðamenn.  Hugmynd hans sé að þeir sem þarna eigi  leið um geti tyllt sér niður á hlýlegum stað og fengið sér kaffisopa og kökusneið, og og að íbúar jafnt sem ferðalangar geti hist og spjallað saman í notalegu andrúmslofti.  Nú sé aðeins eitt kaffihús við götuna.

Ætlunin sé að halda útliti þessa gamla húss óbreyttu og varðveita með því aðdráttarafl þess og sjarma í anda miðbæjarins.  Litur hússins verði óbreyttur, fyrir utan nokkra veggi sem málaðir verða gulir.

Ekki verði selt áfengi á kaffihúsinu og í umsókn um starfsleyfi komi skýrt fram hver verði opnunartími staðarins.  Svölunum verði lokað í síðasta lagi kl. 22.  Þær verði aðallega opnar að sumri til, eins og gefi að skilja.

Engin mengun verði úr eldhúsinu þar sem aðeins verði framreitt létt fæði á kaffihúsinu.  Þar verði hvorki grillað né steikt, aðeins útbúin salöt, samlokur og fylltar pönnukökur, bakaðar kökur, kreistir ávextir og hellt upp á heilsute og gott kaffi. Ekkert af þessu ætti að valda ólykt eða ama.

Lítið og hlýlegt kaffihúsið muni laða að fólk en það gefi auga leið að staður sem rúmi aðeins 25 manns muni ekki hafa mikið að segja um fjölda fólks sem fari um götuna. Gestirnir verði flestir fótgangandi, ýmist íbúar úr nágrenninu eða ferðamenn. Starfsemi staðarins kalli því hvorki á fleiri bílastæði né muni bílaumferð aukast af hennar sökum.

Kaffihúsið verði kærkomin nýjung fyrir hverfið.  Samkomustaður af þessu tagi, þar sem íbúar og aðkomumenn geti blandað geði, hafi gildi í sjálfu sér en felli jafnframt vel að flóru verslana, gistiheimila og gallería við Skólavörðustíginn.  Því verði ekki annað séð en það bæti bæði bæjarbrag og samfélag.

Úrskurðarnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður þar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2005 um að heimila breytingar á húsinu að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.  Í ákvörðuninni felst að efri hæð hússins er breytt úr íbúðarhúsnæði í kaffihús og svalir stækkaðar. 

Skólavörðustígurinn er hluti miðborgar Reykjavíkur og á svæði því sem hér um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  Þar er því heimil sú starfsemi er samræmist ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Samkvæmt gr. 4.4.1 skipulagsreglugerðar nr.  400/1998 skal á miðsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjónar heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, svo sem verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði.  Með vísan til þessa er hin kærða ákvörðun í samræmi við þá starfsemi sem almennt er starfrækt í miðborg og gengur hún ekki gegn grenndarhagsmunum kærenda þannig að ógildingu varði.  Þá felst ekki heldur í hinu kærða byggingarleyfi svo mikil breyting frá því sem áður var að þörf hafi verið á að deiliskipuleggja svæðið, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Ekki verður heldur fallist á það með kærendum að við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga hafi ekki verið fylgt.  Komi aftur á móti til þess að starfsemi innanhúss verði breytt þarfnast slíkt nýrrar ákvörðunar sem kæranleg er til úrskurðarnefnarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2005 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

 

 

___________________________  
Hjalti Steinþórsson    

 

____________________________      _____________________________
  Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson
                                                                                                                                                                                                    

 

53/2004 Skólavörðustígur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2004, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. október 2004, kæra H og B, Skólavörðustíg 21, Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. september 2004 um að heimila breytingar á efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í Reykjavík.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Með ákvörðun þeirri sem kærð er í máli þessu var heimilað að breyta efri hæð hússins að Skólavörðustíg 22A í kaffihús og stækka svalir þess.  Við frumathugun starfsmanna úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að sorptunnur vegna fyrirhugaðrar starfsemi virtust staðsettar utan lóðamarka.  Var athygli byggingaryfirvalda vakin á þessu og í framhaldi af þeirri ábendingu var sótt um byggingarleyfi að nýju og var það leyfi veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004. 

Kærendum var gert kunnugt um hið nýja byggingarleyfi.  Kærðu þau þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. janúar 2005.  Er því máli ólokið hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var nýtt byggingarleyfi veitt hinn 30. nóvember 2004 í stað leyfis þess frá 6. september 2004, sem kært er í máli þessu.  Verður að telja að við útgáfu leyfisins frá 30. nóvember 2004 hafi eldra leyfi frá 6. september fallið úr gildi og að kærendur eigi því ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr ágreiningi um lögmæti þess.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
           Hjalti Steinþórsson          

 

                                                                                                                                 ____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                    Sigurður Erlingsson

 

53/2003 Laugavegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 13. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2003, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2003, er barst nefndinni þann sama dag, kærir H, Laugavegi 5, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2003 var lögð fram umsókn um leyfi til að koma fyrir kaffihúsi á 1. hæð og í kjallara hússins nr. 3 við Laugaveg.  Í umsókninni kom fram að á 1. hæð yrði veitingasalur og eldhús en starfsmannaaðstaða og snyrtingar í kjallara. Jafnframt var sótt um leyfi til að koma fyrir loftræsistokk á bakhlið hússins.  Var erindinu frestað og fært til bókar að þegar fyrir lægi samþykki meðeigenda yrði málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 20. maí 2003 var lagt fram samþykki meðeigenda hússins nr. 3 við Laugaveg og í kjölfarið vísaði byggingarfulltrúi beiðninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 23. maí 2003 var samþykkt að kynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Laugavegi 1, 3, 5, 2 og 4 og Hverfisgötu 18.  Bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. júlí 2003 var fært til bókar að nefndin myndi ekki gera athugasemd við að veitt yrði umbeðið leyfi og málinu vísað til byggingarfulltrúa sem veitti hið umþrætta byggingarleyfi hinn 12. ágúst sama ár.  Hinn 13. sama mánaðar var ákvörðunin kynnt á fundi skipulags– og byggingarnefndar og hlaut staðfestingu borgarráðs hinn 19. ágúst 2003.   
 
Skaut kærandi framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að þegar byggingarleyfið hafi verið veitt hafi veitingastaðurinn þá þegar verið löngu tilbúin til opnunar.  Í bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. maí 2003, hafi hagsmunaaðilum verið gefinn kostur á að tjá sig um umsóknina og hafi frestur til þessa verið til 26. júní sama ár.  Vinna við breytingar á húsnæðinu hafi aftur á móti hafist um miðjan maí 2003, þrátt fyrir að grenndarkynningu hafi ekki verið lokið.  Telur kærandi að borgaryfirvöld hafi þá þegar, ólöglega og á bak við tjöldin, verið búin að veita hið kærða leyfi.  Þeirri fullyrðingu sinni til sönnunar bendir kærandi á samkomulag Reykjavíkurborgar og Miðbæjarveitinga ehf., dags. 3. júlí 2003, en í 3. lið þess samkomulags segi: „…með tilkomu nýs byggingarleyfis“ og heldur því fram að með þessu orðalagi leiki enginn vafi á því að fyrir hafi legið að veitingastaðurinn myndi fá hið umdeilda byggingarleyfi. 

Kærandi vísar einnig til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við þróunaráætlun miðborgarinnar.  Að Laugavegi 3 hafi til margra ára verið rekin bankastofnun sem samkvæmt þróunaráætluninni teljist til annarrar starfsemi.  Vissulega sé rekstur veitingahúss önnur starfsemi líkt og banki sé önnur starfsemi en verslun.  Í þróunaráætluninni komi ekki fram hvaða önnur starfsemi megi vera rekin í húsnæði ef breytingar séu gerðar.  Það komi aftur á móti fram í þróunaráætluninni að veitingahúsarekstur fari ekki saman við verslunarrekstur, þar sem mikil samþjöppun þess háttar notkunar húsnæðis á svæðinu sé ekki æskileg, slíkt dragi úr áhuga fólks í innkaupahugleiðingum.  Einnig komi skýrt fram í þróunaráætluninni að verslunarrekstur eigi að vera 70% á svæðinu. 

Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi algjörlega brugðist eftirlitsskyldu sinni og sé óskiljanlegt að hið kærða leyfi hafi verið veitt.  Það brjóti gegn þróunaráætluninni sem sé ætluð að vera grundvöllur að bættri ásýnd miðborgarinnar og skapa samræmingu og jafnræði í uppbyggingu hennar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgarinnar er fullyrðingum kæranda þess efnis að borgaryfirvöld hafi ólöglega og á bak við tjöldin veitt hið kærða leyfi mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum.  Í samkomulagi Reykjavíkurborgar og Miðbæjarveitinga ehf., dags. 10. júlí 2003, sé tekið fram að tilkoma nýs deiliskipulags geri það kleift að veita hið kærða byggingarleyfi að því tilskyldu að ákvæði laga og reglugerða verði uppfyllt að öðru leyti.  Í þessu felist ekkert loforð um veitingu byggingarleyfis.  Í samkomulaginu sé einnig hnykkt á því að ef til nýs byggingarleyfis komi, skuldbindi Miðbæjarveitingar ehf. sig til að gera þær breytingar að í húsinu verði starfrækt kaffihús. 

Reykjavíkurborg mótmælir því að hið kærða byggingarleyfi brjóti gegn þróunaráætluninni.  Það að jarðhæð götuhliðar að Laugavegi 3 sé nýtt sem kaffihús hafi ekki áhrif á hlutfall verslunarhúsnæðis á svæðinu þar sem húnæðið hafi áður verið nýtt sem bankastofnun en ekki verslun.  Ekki hafi verið fallið frá þeirri stefnumörkun sem fram komi í þróunaráætluninni um að megináhersla skuli lögð á uppbyggingu verslunarhúsnæðis á svæðinu og að mögulegt eigi að vera að hafa íbúðir á efri hæðum.  Aftur á móti sé ekki hægt að synja umsókn um breytingar á húsnæði, sem ekki hafi verið verslunarhúsnæði, þar sem það hefði ekki í för með sér breytingu á hlutfalli því sem krafist sé í þróunaráætluninni. 

Nýting jarðhæðar Laugavegar 3 sem lágstemmds kaffihúss með léttum veitingum sé í samræmi við deiliskipulag svæðisins sem samþykkt hafi verið í borgarráði 11. febrúar 2003.  Hafi deiliskipulagið verið auglýst í B- deild Stjórnartíðinda hinn 17. mars 2003. 

Á jarðhæð Laugavegar 3 sé nú rekið kaffihús með takmörkuðum opnunartíma þar sem ekki sé gert ráð fyrir tónlistarflutningi í samræmi við f- lið 9. gr. laga nr. 65/1985 um veitinga- og skemmtistaði, sbr. notkunarflokk A3 í þróunaráætlun miðborgarinnar.  Sú notkun gangi ekki gegn ákvæðum aðalskipulags og þróunaráætlunarinnar. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 þess efnis að veita byggingarleyfi til að innrétta kaffihús á jarðhæð og í kjallara hússins að Laugavegi 3 í Reykjavík.  Áður hafði verið starfrækt bankastofnun í húsnæðinu.

Úrskurðarnefndin telur að ágalli hafi verið á meðferð málsins hvað varðar kynningu þess gagnvart hagsmunaaðilum.  Á því er byggt af hálfu borgaryfirvalda að hið umdeilda leyfi samræmdist gildandi deiliskipulagi.  Þrátt fyrir þetta var efnt til grenndarkynningar með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þó áttu augljóslega ekki við í málinu.  Var þessi framsetning til þess fallin að villa um fyrir þeim sem kynningin tók til, enda varð ekki annað af henni ráðið en að annað hvort skorti deiliskipulag af svæðinu eða að þörf væri óverulegrar breytingar á deiliskipulagi.  Hvorugt var þó raunin og áttu borgaryfirvöld að haga kynningu málsins með öðrum hætti en gert var ef þau kusu að kynna nágrönnum það umfram skyldu.  Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir að þessi ranga framsetning hafi leitt til réttarspjalla og þykir því ekki rétt að láta þennan annmarka á meðferð málsins varða ógildingu.  Verður ekki heldur talið sýnt að ákvörðun um að veita hið umdeilda leyfi hafi legið fyrir áður en kynningu lauk, eins og kærandi heldur fram, eða að önnur slík ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið ákvörðun borgaryfirvalda að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  

Í gr. 4.4.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á miðsvæði skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni heilu landsvæði, þéttbýlisstað eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem á við í málinu, er hús það sem hér um ræðir á miðsvæði.   

Í deiliskipulagi sem birtist í B- deild Stjórnartíðinda hinn 17. mars 2003 og tekur til þess svæðis sem hér um ræðir segir að húsið að Laugavegi 3 tilheyri svokölluðu aðalverslunarsvæði V.I-I, skilgreindu götusvæði nr. 7.  Á þess háttar svæðum er samkvæmt þróunaráætlun miðborgarinnar heimilt að starfrækja aðra starfsemi en verslunarrekstur svo sem veitingastaði og banka. 

Á deiliskipulagsuppdrætti að svæðinu er greinargerð þar sem lýst er afmörkun skipulagssvæðisins, forsendum skipulagsins og mannvirkjum, sem fyrir eru á svæðinu. Jafnframt segir þar:  „Nánari markmið og forsendur deiliskipulagsins koma fram í heftinu Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.171.0.“  Virðist þessi greinargerð unnin eftir forskrift að skipulagsskilmálum fyrir deiliskipulögð svæði innan miðborgarinnar og er í skilmálunum m.a. gerð grein fyrir því hvaða flokkar um húsvernd samkvæmt þemahefti með aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar eigi ekki við á svæðinu.  Þá er um landnotkun stuðst við þá kafla úr nefndri þróunaráætlun sem settir eru fram í hefti sem tekið var upp í Aðalskipulag Reykjavíkur á árinu 2000.  Eru ákvarðanir um landnotkun þar m.a. settar fram með skilgreiningum og hólfunum sem fram koma á smáum og ógreinilegum uppdráttum í heftinu auk þess sem starfsemi er sums staðar takmörkuð af notkunarkvótum eða lengdum í götuhliðum, svo dæmi séu nefnd.  Hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum sínum fundið að sambærilegri framsetningu deiliskipulags.  Aftur á móti er ekki deilt um lögmæti deiliskipulags umrædds svæðis í máli þessu og verður það því lagt til grundvallar við úrlausn málsins, enda hefur því ekki verið hnekkt.

Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagi og til er vísað í deiliskipulagsgögnum, segir um notkun skilgreindra götusvæða aðalverslunarsvæða að önnur notkun á svæðinu en verslun, svo sem rekstur veitingastaða og banka, geti eflt götulíf á svæðinu og að leyfður sé rýmri afgreiðslutími vínveitinga en annars staðar tíðkist.  Samræmist hið umdeilda byggingarleyfi þessum skilmálum og verður kröfu kæranda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. ágúst 2003 um að veita leyfi til að innrétta kaffihús að Laugavegi 3 í Reykjavík. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________             _____________________________
       Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

33/2006 Brákarbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 1. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Sigurður Erlingsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2006, kæra á ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2006, kærir I, Brákarbraut 11, Borgarnesi ákvörðun bæjaryfirvalda í Borgarbyggð um að hefja framkvæmdir við gerð bílastæða fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar í Borgarnesi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst hann þess að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málsatvik:  Undanfarið hefur verið til meðferðar breyting á deiliskipulagi gamla miðbæjarins í Borgarnesi.  Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í bæjarstjórn 12. janúar 2006 til auglýsingar.  Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum, en málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í breytingunni sem auglýst var felst m.a. að hætt er við niðurrif gamla Mjólkursamlagsins, auk ýmissa breytinga á bílastæðum, byggingarreitum o.fl.  Jafnframt er fellt niður leiksvæði norðan Brákarbrautar.

Fyrir liggur að eftir auglýsingu skipulagstillögunnar ákvað bæjarráð, á fundi 27. apríl 2006, að gera breytingar eða lagfæringar á auglýstri tillögu hvað varðar fyrirkomulag götu og bílastæða við Brákarbraut.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. maí 2006.  Hefur Skipulagsstofnun framangreindar skipulagsákvarðanir til meðferðar og hafa þær enn ekki tekið gildi.

Framkvæmdir við bílastæði fyrir rútur og stærri ökutæki vestan Brákarbrautar og við breytingu á legu götunnar munu hafa hafist í byrjun maí 2006 og eru þær tilefni kæru þeirrar sem hér er til meðferðar.  Liggur fyrir að ekkert formlegt framkvæmdaleyfi var veitt fyrir framkvæmdunum, en þær munu vera í samræmi við þá tillögu að breyttu fyrirkomulagi sem samþykkt var í bæjarráði hinn 27. apríl 2006.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að hvorki hafi átt sér stað lögformleg stjórnsýsluleg umfjöllun um breytinguna né framkvæmdina.  Í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir leik- og útivistarsvæði þar sem nú sé verið að gera umrædd bílastæði.  Eins sé útlit fyrir að ekki eigi að ganga frá bílastæðum við enda „Pakkhúsins“ að Brákarbraut 15 eins og deiliskipulagið geri ráð fyrir og þar með sé fækkað um helming bílastæðum fyrir smærri bíla á deiliskipulagssvæðinu.  Gerð sé athugasemd við að íbúum eða öðrum sem málið varði hafi ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við svo veigamiklar breytingar á gildandi deiliskipulagi.  Þá hafi umræddar framkvæmdir ekki fengið lögformlega umfjöllun í stjórnkerfi bæjarins.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar virðist aðalleg á því byggt að aðeins hafi verið um óverulega lagfæringu á fyrirkomulagi bílastæða að ræða sem ekki hafi gefið tilefni til sérstakrar málsmeðferðar umfram það að ákvörðun hafi verið tekin um lagfæringuna í bæjarráði og hún síðan staðfest í bæjarstjórn.  Svæði það sem lagt hafi verið undir  umrædd bílastæði sé ekki lengur skilgreint sem leiksvæði og því sé kæran ekki á rökum reist hvað það varði.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var ekki veitt formlegt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum þeim sem voru tilefni kæru í máli þessu.  Aðeins hefur verið vísað til þess að þær hafi átt stoð í ákvörðun bæjaryfirvalda um lagfæringu á skipulagsákvörðun sem enn er til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og ekki hefur tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er.  Það liggur því hvorki fyrir kæranleg ákvörðun um framkvæmdaleyfi né endanleg skipulagsákvörðun sem sætt gætu kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.    

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
                  Hjalti Steinþórsson                                 

 

 
_____________________________                  ____________________________                 
           Ásgeir Magnússon                                             Sigurður Erlingsson