Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2006 Fellabrekka

Ár 2006, fimmtudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2006, kæra vegna breytinga á legu Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, er fela í sér að gatan verði gerð að botngötu, hún færð til suðurs og hækkuð í landi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra F og S, Fellasneið 10, Grundarfirði, breytingar á legu Fellabrekku, Grundarfjarðarbæ, er fela í sér að gatan verði gerð að botngötu, hún færð til suðurs og hækkuð í landi. 

Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðun fyrir hinum kærðu framkvæmdum, er fólst í bókun umhverfisnefndar Grundarfjarðar frá 19. september 2005, er bæjarstjórn staðfesti hinn 29. sama mánaðar, verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu en úrskurðarnefndin hafnaði þeirri kröfu með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 11. apríl 2006. 

Málavextir:  Á árinu 1985 tók gildi aðalskipulag fyrir Grundarfjörð þar sem gert var ráð fyrir að gatan Fellabrekka næði að vestustu byggð við Grundargötu og tengdist henni.  Sama ár mun hafa tekið gildi deiliskipulag fyrir Hjaltalínsholt, sem var að þessu leyti í samræmi við fyrrgreint aðalskipulag.  Deiliskipulagið hafði að geyma heimild fyrir byggingu tveggja hæða húsa þar sem landhalli lóða leyfði.  Mun uppbygging svæðisins hafa hafist um 1990. 

Við endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðar á árinu 2003 var áfram gert ráð fyrir framlengingu Fellabrekku en horfið frá tengingu við Grundargötu og götunni breytt í botngötu. 

Á fundi umhverfisnefndar Grundarfjarða hinn 19. september 2005 var kynnt hönnun nýrrar botngötu fyrir lóðirnar að Fellabrekku 7-19 og var á fundinum gerð svofelld bókun:  „…umhverfisnefnd líst mjög vel á þau hönnunargögn sem byggingarfulltrúi kynnti og óskar eftir að verkið verði fullhannað og auglýst til útboðs. Byggingarfulltrúi sagði frá því að til stæði að halda kynningarfund með íbúum Grundargötu 65 ,67 og 69 í næstu viku.“  Var fundargerðin staðfest í bæjarstjórn hinn 29. september 2005. 

Fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar á fundum með íbúum að Grundargötu hinn 11. nóvember 2005 og með íbúum að Fellasneið og Hellnafelli 17. nóvember s.á.  Fram komu fyrirspurnir og athugasemdir við fyrirhugaða gatnaframkvæmd og var þeim athugasemdum svarað með bréfum skipulags- og byggingarfulltrúa og á fundum fyrirspyrjanda og fulltrúa bæjaryfirvalda í febrúarmánuði 2006  Leiddu þau samskipti ekki til breytinga á umdeildri götuframkvæmd og kærðu nokkrir íbúar framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar, en aðrir en framangreindir kærendur hafa fallið frá kæruaðild sinni í málinu.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja málskot sitt á því að umdeild gatnaframkvæmd feli í sér að Fellabrekka verði hækkuð um 1,5 metra við austurenda nýrrar botngötu og um 0,8 metra þar sem hún endi til vesturs.  Lóðarhafar við Fellasneið og Hellnafell hafi samkvæmt gildandi skipulagi mátt treysta því að tveggja hæða hús sem ráðgerð hafi verið við Fellabrekku, neðan við Fellasneið, gætu ekki skert útsýni frá eignum þeirra svo nokkru næmi, en helstu gæði lóðaanna vegna staðsetningar sé mikilfenglegt útsýni.  Fyrirhuguð hækkun umræddrar götu, sem leiði til samsvarandi hækkunar fyrirhugaðra húsa við götuna, muni skerða verulega útsýni frá fasteign kærenda.  Ákvörðun um framkvæmdina sé ekki í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Sveitarstjórn ákveði nú að breyta götu frá gildandi deiliskipulagi í botngötu og færa hana um breidd sína til suðurs og hækka um 0,8-1,5 metra og með því skerða útsýni íbúa sem hafi fengið lóðir skv. deiliskipulagsskilmálum sem nú standi til að víkja frá.  Grenndarkynning framkvæmda hafi verið í skötulíki og upplýsingar ekki fengist nema með eftirgangsmunum eftir útboð verksins sem synjað hafi verið um að fresta og nú sé hafið.  Hafi öll meðferð málsins verið löglaus og þeir sem hagsmuna hafi átt að gæta aldrei fengið að koma að nýrri hönnun götunnar, kynningargögn hafi ekki fylgt fundarboði sem borist hafi degi fyrir kynningarfund, sem haldinn hafi verið á vinnutíma. 

Málsrök Grundarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarfélagsins er á það bent að við heildarendurskoðun aðalskipulags bæjarins árið 2003 hafi Fellabrekku verið breytt í botngötu og sé umdeild gatnaframkvæmd því í samræmi við gildandi aðalskipulag Grundarfjarðar. 

Gatnaframkvæmdirnar hafi verið kynntar íbúum á fundum síðla árs 2005 og hafi síðan verið leitast við að koma til móts við athugasemdir kærenda vegna framkvæmdanna.  Hafi umhverfisnefnd bæjarins samþykkt að gera breytingar á kvöðum fyrirhugaðra húsa við botngötuna og þannig komið til móts við sjónarmið íbúanna.  Bæjaryfirvöld hafi fundað með kærendum í máli þessu í því skyni að leita ásættanlegrar lausnar í málinu og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins fallist á tilteknar breytingar á hönnun fyrirhugaðra húsa við margnefnda botngötu við Fellabrekku gegn því að kærendur féllu frá kæru sinni í máli þessu. 

Telji bæjaryfirvöld umdeilda gatnaframkvæmd í samræmi við gildandi skipulag og verði ekki séð að hún raski svo nokkru nemi hagsmunum kærenda. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 11. október 2006 og voru þar til staðar fulltrúi bæjaryfirvalda og annar kærenda. 

Niðurstaða:  Kærendur styðja málatilbúnað sinn þeim rökum að umdeild gatnaframkvæmd sé ólögmæt þar sem með henni sé vikið frá gildandi deiliskipulagi.  Framlenging Fellabrekku, sem nú sé unnið að, sé færð til suðurs í hækkandi landi og hafi það í för með sér að fyrirhuguð hús við götuna hækki að sama skapi og valdi útsýnisskerðingu til sjávar frá húsi kærenda.  Með hliðsjón af þessu geta hinar kærðu framkvæmdir snert hagsmuni kærenda með þeim hætti að játa verði þeim kæruaðild í máli þessu. 

Óumdeilt er að á sínum tíma hafi verið gert ráð fyrir tengingu Fellabrekku við Grundargötu vestanverða.  Hins vegar var á árinu 2003 gerð breyting á aðalskipulagi Grundarfjarðar þar sem Fellabrekka var stytt og gerð að botngötu, án tengingar við Grundargötu, og er lega götunnar mörkuð á aðalskipulagsuppdráttinn sem er í mælikvarðanum 1:10.000.  Gengur aðalskipulagið, svo breytt, framar hinu eldra deiliskipulagi hvað varðar umdeilda legu götunnar.  Aðalskipulagsuppdrátturinn hefur ekki að geyma hæðarlegu gatna á svæðinu og verður því ekki af honum ráðið hver hæðarkóti Fellabrekku eigi að vera. 

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en margnefnd framlenging Fellabrekku sé í samræmi við gildandi skipulag svæðisins eftir fyrrnefnda aðalskipulagsbreytingu, en hafa verður í huga að vegna mælikvarða aðalskipulagsuppdráttarins getur frávik hvað varðar legu gatna verið nokkrir metrar.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í skipulagi sem ekki hefur verið hnekkt, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 valdi framkvæmd skipulagsins þeim tjóni. 

Tekið skal fram að rétt hefði verið skv. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga að endurskoða deiliskipulag umrædds svæðis í kjölfar áðurgreindrar aðalskipulagsbreytingar til þess að gæta samræmis milli skipulagsáætlana og marka með nákvæmum hætti legu umdeildrar götu á deiliskipulagsuppdrætti áður en ákvörðun um framkvæmdir voru teknar.  Þykja þessi vanhöld þó ekki geta ráðið úrslitum um lögmæti umdeildrar framkvæmdar. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ákvörðun sveitarstjórnar Grundarfjarðar um umdeilda gatnagerð ekki talin fara í bága við skipulag umrædds svæðis og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar er leitt gætu til ógildingar ákvörðunarinnar er kröfu kærenda í máli þessu hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun umhverfisnefndar Grundarfjarðar frá 19. september 2005, er bæjarstjórn staðfesti hinn 29. sama mánaðar, um framkvæmdir við lagningu Fellabrekku í Grundarfirði er hafnað.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________     ____________________________
Ásgeir Magnússon                    Þorsteinn Þorsteinsson