Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2004 Sogavegur

Ár 2006, fimmtudaginn 7. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2004, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um deiliskipulag Sogavegar.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2004, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir G, Hamarsgerði 8, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. september 2004 um deiliskipulag Sogavegar.  Á fundi borgarráðs hinn 7. október 2004 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 2. desember 2003 felldi nefndin úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. júní 2002 um að veita leyfi til að rífa timburhús og byggja steinsteypt tvílyft fjölbýlishús á lóðinni nr. 112 við Sogaveg í Reykjavík.  Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því byggð að óheimilt hefði verið að veita byggingarleyfi á lóðinni án þess að deiliskipulag væri áður unnið fyrir viðkomandi götureit.  Í kjölfar þessarar niðurstöðu ákváðu skipulagsyfirvöld að hefja vinnu við deiliskipulag Sogavegar.  

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 2. júní 2004 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Sogavegar og var samþykkt að kynna hana hagsmunaaðilum á svæðinu.  Að lokinni kynningu var tillagan lögð fram að nýju ásamt athugasemdum vegna kynningarinnar og svörum skipulagsstjóra við þeim og var samþykkt að auglýsa hana.   Að loknum kynningartíma, sem stóð frá  28. júlí til 8. september 2004, var tillaga að deiliskipulagi Sogavegar lögð fram að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. september 2004, ásamt athugasemdum, þar á meðal frá kæranda, og svörum skipulagsfulltrúa við framkomnum athugasemdum.  Á fundinum var eftirfarandi fært til bókar:  „Auglýst tillaga að deiliskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 7. október 2004 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2004. 

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis er afmarkast af Sogavegi, Réttarholtsvegi, lóðamörkum húsa við Langagerði norðaustanvert, Tunguvegi, stíg milli Sogavegar og Skógargerðis og göngustíg að Sogavegi.  Sogavegur er hluti af Smáíbúðahverfinu og var skipulag þess samþykkt árið 1951.  Samkvæmt hinu kærða skipulagi eru lóðirnar á svæðinu alls 63 og er 61 þeirra fyrir íbúðarhús en tvær hornlóðir við Sogaveg eru að hluta ætlaðar verslun og þjónustu.  Byggðin er blönduð, bæði hvað varðar stærð og ástand húsa.  Markmiðið með deiliskipulaginu er að gera húseigendum á svæðinu kleift að stækka, eða eftir aðstæðum, að reisa ný hús á lóðum sínum.

Framangreindri samþykkt hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.      

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hinn 2. desember 2003 hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi ákvörðum skipulags- og byggingarnefndar um að veita heimild til niðurrifs húss á lóðinni nr. 112 við Sogaveg og byggja þess í stað tvílyft fjölbýlishús.  Ætlunin hafi einnig verið að stækka lóðina nr. 112 við Sogaveg úr 638,4 m² í 808 m² til þess að koma húsinu fyrir.  Því sé mótmælt að svo veigamikil breyting sé gerð á skipulagi með umræddri færslu á lóðarmörkum sem gerð sé til að koma húsinu fyrir.  Telji hann að færa eigi lóðina að Sogavegi 112 til fyrra horfs og byggingar á henni eigi að vera í samræmi við íbúðarhúsin í kring, þ.e. einbýli, parhús eða tvíbýli svo sem íbúar í nágrenninu hafi mátt vænta.  Með hinu kærða deiliskipulagi megi búast við að umferð og vandræði vegna skorts á bifreiðastæðum aukist.  Ekki verði séð í gögnum málsins að nein málefnaleg rök séu fyrir hinni umdeildu skipulagsbreytingu.  Ekki geti það talist vera í anda „þéttingar byggðar“ að færa nýtingarhlutfall lóðarinnar að Sogavegi 108 og Réttarholtsvegi 1-3 úr 0,90 í 0,96.  Afleiðing breytingar á lóðarmörkum geri það að verkum að ásókn aukist í bílastæði sem séu í Hamarsgerði, sem frá upphafi hafi verið ætluð íbúum við götuna, en borgaryfirvöld virðist ætla að nota sem skiptimynt við hina kærðu skipulagsbreytingu. 

Hinn 14. júní 2004 hafi kærandi sent skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs bréf ásamt fylgigögnum vegna frágangs við endurbyggingu Hamarsgerðis, m.a. vegna auglýsingar um væntanlega tillögu að deiliskipulagi svæðisins.  Í bréfinu segi m.a:  „Bifreiðastæði við enda Hamarsgerðis voru upphaflega 6 á teikningum og reiknað með 1½ stæði á hvert hús, sbr. (3).  Borgaryfirvöld virðast hins vegar farin að líta á þessi stæði sem almenningsstæði, þrátt fyrir fund með íbúum hjá skipulagsyfirvöldum haustið 1983 og bréf Borgarskipulags, dags. 14/6 1988, sem fylgir með í ljósriti (1).  Hvenær var þessi breyting gerð og var hún þá gerð með lögmætum hætti?  Þegar endurnýjun götunnar fór fram voru teiknuð 8 bílastæði við enda götunnar í sama rými og 6 áður, sbr. (4).  Þegar bifreiðastæðin voru máluð hafði verið bætt við einu bifreiðastæði í viðbót þ.e. innfyrir götulínu.  Í tillögu að deiliskipulagi er þetta viðbótarbifreiðastæði sett inn á teikningar og að því er virðist ætlað íbúum Hamarsgerðis 8.  Ég vil vísa til bréfs dags. 14/6 sl. um þetta mál, sbr. (2) og tel framangreinda ráðstöfun algjörlega ófullnægjandi og fer framá eftirfarandi:  a.  Viðbótarstæði næst húsinu sem getið er um hér að ofan, verði lagt niður og gul lína máluð á steinkant og í rennu að lóðinni, hvoru tveggja til að gera aðgang gangandi að lóðinni sem eðlilegastan miðað við aðstæður, sbr. meðfyljandi ljósrit.  b.  Næstu tvö stæði verði merkt Hamarsgerði 8, enda ekki við það búandi að eiga ekki tryggð bifreiðastæði við húsið, sbr. (5).  Í þessu sambandi skal og bent á ljósrit af bréfi Borgarskipulags (2) sem fylgir hér með um bílskúrslóð, sem samræma þarf þessu skipulagi.  Aðgerðir skipulagsyfirvalda og nýlegar framkvæmdir hafa skert aðgang íbúa að Hamarsgerði 8 að götunni, miðað við það sem áður var.  Þegar þar við bætist, að breytt skipulag og byggingarmagn aukið, sbr. hér að ofan, sem verður til þess að auk ann á vandræði með bifreiðastæði, tel eg óhjákvæmilegt að gera athugasemd við umrædda deiliskipulagstillögu.“  Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að samkvæmt byggingarreglugerð sé íbúðum stærri en 80 m² ætluð tvö bílastæði eða fleiri auk gestastæðis. 

Eftir fund íbúa Hamarsgerðis með starfsmönnum borgarskipulags í lok árs 1983 hafi verið samþykkt tillaga að bílskúrslóðum og bílastæðum, m.a. fyrir Hamarsgerði 8.  Eftir fyrirspurn kæranda árið 1988 hafi þetta verið staðfest í bréfi borgarskipulags, dags. 14. júní 1988.  Eftir fyrirspurn, dags. 7. mars 2003, til borgarskipulags hafi m.a. verið óskað eftir nánari útlistun og staðfestingu skipulagsins á staðsetningu bílskúrs fyrir Hamarsgerði 8.  Svar hafi borist frá skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2003, þar sem fyrrgreint sé staðfest, en engin grein gerð fyrir fyrirkomulagi.  Kærandi telji nauðsynlegt að áðurnefnd samþykkt um bílskúra komi fram með einhverjum hætti í hinu kærða deiliskipulagi. 

Að lokum vísar kærandi til þess að við gerð deiliskipulagsins hafi íbúum á svæðinu tvívegis verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar.  Hvorugu hafi verið svarað fyrr en deiliskipulagið hafi verið samþykkt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 hafi verið gerð vegna umferðaröryggissjónarmiða en ekki til að koma fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni.  Hvort sem lóðin hefði verið stækkuð eða ekki hefði verið unnt að koma ætluðu byggingarmagni á lóðina enda nýtingarhlutfall hennar undir 0,5 í báðum tilfellum.  Með hinu kærða deiliskipulagi hafi verið komið í veg fyrir að bílastæði hússins að Sogavegi 112 yrðu með þeim hætti að bakka þyrfti úr þeim beint út á Sogaveginn.  Hægt hefði verið að koma stæðunum fyrir norðan við húsið.  Umferðaraukning vegna íbúðanna sé ekki mælanleg og ónæði af umferð að sama skapi ekki heldur.  Þá sé og séð fyrir fullnægjandi bílastæðum fyrir húsið innan lóðar í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

Varðandi bílastæði við Hamarsgerði, þá sé á það bent að þau séu á borgarlandi og því ætluð almenningi.  Kærandi hafi ekki sýnt fram á skjöl eða gögn sem styðji að íbúar við Hamarsgerði hafi sérstakan rétt á umræddum bílastæðum.  Ljóst sé að aðgengi að Hamarsgerði 8 sé þrengra en aðgengi að öðrum húsum í götunni vegna staðsetningar lóðar.  Af þessari ástæðu hafi verið reynt að koma til móts við athugasemd þá er kærandi setti fram við grenndarkynningu með því að stækka lóð Hamarsgerðis 8 út á borgarland og gera eigendum þar með kleift að merkja sér þar eitt stæði.

Þá sé og vísað til þess að skipulagsnefnd hafi samþykkt hinn 21. desember 1983 tillögu borgarskipulags að bílskúrslóðum fyrir Hamarsgerði 2-8 og Sogaveg 116 ásamt bílastæðum.  Í tillögunni hafi borgarskipulag m.a. lagt til að bílskúrslóðum verði úthlutað til Hamarsgerðis 2-8.  Svæðið sem ætlað hafi verið til úthlutunar sé og hafi verið borgarland.  Í svarbréfi skipulagsfulltrúa, dags. 14. júní 1988, hafi íbúum við Hamarsgerði 2-8 og Sogaveg 116 verið bent á að sækja sameiginlega um lóðina undir bílskúra og bílastæði.  Slík umsókn hafi aldrei borist.  Það sé því ljóst að 23 ára gömul samþykkt, sem gerð hafi verið til hagsbóta fyrir kæranda á sínum tíma jafngildi ekki því að Reykjavíkurborg sé skuldbundin um aldur og ævi gagnvart kæranda, enda hafi hann á engan hátt nýtt sér efni samþykktarinnar.  Samþykkt skipulagsnefndar frá árinu 1983 hafi því ekki gildi í máli þessu og hafi Reykjavíkurborg verið fullkomlega heimilt að deiliskipuleggja svæðið með þeim hætti sem gert hafi verið.

Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geta ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Sogavegar.  Gerð er krafa um ógildingu þess, m.a. með þeim rökum að með stækkun lóðarinnar að Sogavegi 112 hafi grenndarhagsmunum kæranda verið raskað.  Ekki verður fallist á það með kæranda að heimild til byggingar fjölbýlishúss með fjórum íbúðum á lóðinni að Sogavegi 112 og stækkun hennar hafi í för með sér slík neikvæð grenndaráhrif að fella beri hið kærða deiliskipulag úr gildi af þeim sökum.  Er nýtingarhlutfall lóðarinnar í samræmi við það sem gerist á svæðinu og fullnægt er ákvæði byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða innan lóða.  Að auki er gert ráð fyrir átta bílastæðum milli Hamarsgerðis og Sogavegar á spildu sem er í eigu Reykjavíkurborgar og verður ekki annað ráðið af skipulagsgögnum en að þau séu til almennra nota og geti því m.a. nýst þeim er erindi eiga í íbúðarhúsin við Hamarsgerði.  Með hinu kærða deiliskipulagi er breidd götunnar við Hamarsgerði aukin og lóðarmörkum lóðar kæranda breytt þannig að innan lóðar hans er komið fyrir einu bílastæði.  Hin kærða ákvörðun sýnist því að nokkru vera til hagsbóta fyrir kæranda. 

Einnig er krafist ógildingar deiliskipulagsins með vísan til þess að frágangi bílastæða við Hamarsgerði og aðgengi að Hamargerði 8 sé ábótavant ásamt því að í engu sé gerð grein fyrir bílskúrum við hús í Hamarsgerði.  Byggir kærandi á vilyrði borgaryfirvalda honum til handa í því sambandi og að ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir hans um framangreint. 

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gerð krafa um að tillaga að nýju deiliskipulagi sé auglýst og er tilgangur þess sá að þeim er hagsmuna eigi að gæta gefist kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um tillöguna en skipulagsyfirvöld eru ekki bundin af þeim athugasemdum er berast vegna fyrirhugaðrar skipulagsgerðar.  Það raskar því ekki gildi hins kærða deiliskipulagsins þó athugasemdir kæranda í þessu efni hafi ekki verið teknar til greina.      

Loks verður ekki fallist á að málsmeðferð við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verði áfátt eða að hún brjóti í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga eða viðeigandi reglugerða með neinum þeim hætti er ógildingu varði.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tímafrekrar gagnaöflunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 22. september 2004 um deiliskipulag Sogavegar.     

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson