Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2006 Skipholt

Ár 2006, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. maí 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra G og G, Skipholti 50, Reykjavík, f.h. eigenda og íbúa að Skipholti 50, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.  

Verður að skilja erindi kærenda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar hinn 28. september 2006, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, settu kærendur fram kröfu um stöðvun framkvæmda en þær voru þá nokkuð á veg komnar.  Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um sjónarmið borgaryfirvalda í málinu og bárust athugasemdir þeirra hinn 24. október 2006.  Var gagnaöflun þá lokið og ákvað úrskurðarnefndin því að taka málið til efnisúrlausnar í stað þess að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.  Hafa óvænt atvik eftir það leitt til þess að uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist þar til nú.  

Málavextir:   Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa í júlí árið 2005 var lögð fram tillaga Þórsafls hf. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Skipholti 50A og var samþykkt að grenndarkynna tillöguna hagsmunaaðilum.  Að grenndarkynningu lokinni var málið tekið fyrir á ný á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og grenndarkynningin felld niður og málinu vísað frá með eftirfarandi bókun:  „Með vísan til þess að skipulagsskilmálar sem taldir hafa verið í gildi fyrir lóðina að Skipholti 50a og tilgreindir voru í grenndarkynntri tillögu að breytingu á deiliskipulagi teljast ekki fullnægja skilyrðum undantekningarákvæðis 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í lögum 73/1997, er framlögðu erindi vísað frá vegna formgalla auk þess sem grenndarkynning er felld niður.  Umsækjanda ber þess í stað að sækja um byggingarleyfi vegna breytinganna og verður slíkt leyfi grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og var gefinn kostur á að tjá sig um fyrri afgreiðslu málsins í samræmi við ákvæði 7. mgr. laga nr. 73/1997.“    

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 20. desember 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja eina hæð úr steinsteypu ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt þar sem yrði komið fyrir fimm íbúðum.  Jafnframt var sótt um heimild til að breyta félagsaðstöðu á neðri hæð hússins í fimm íbúðir þannig að samtals yrðu tíu íbúðir í bakbyggingunni.  Byggingarfulltrúi afgreiddi málið með eftirfarandi bókun:  „Vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Að þeim uppfylltum verður málið sent skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.“ 

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 27. janúar 2006 var málið tekið fyrir og samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu hagsmunaaðilum.  Stóð kynningin yfir frá 1. febrúar 2006 til 1. mars 2006 og bárust nokkrar athugasemdir, þar á meðal frá kærendum. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 15. mars 2006 var málið tekið fyrir á ný að lokinni grenndarkynningu.  Á fundinum var lagt fram bílastæðabókhald hönnuðar ásamt samantekt á athugasemdum og svör skipulagsfulltrúa vegna grenndarkynningar.  Var eftirfarandi samþykkt færð til bókar:  „Ráðið gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og með vísan til samantektar og svara skipulagsfulltrúa vegna grenndarkynningar.  Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“  

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. apríl 2006 var beiðni um breytingar á bakhúsinu að Skipholti 50A samþykkt. 

Hafa kærendur skotið fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.  

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í upphafi vísað til þess að þeir fagni því að atvinnuhúsnæðinu að Skipholti 50A verði breytt í íbúðarhúsnæði.  Aftur á móti geti þeir ekki sætt sig að öllu leyti við breytingar húsnæðisins, þar sem sumar þeirra séu líklegar til þess að rýra verðgildi eigna að Skipholti 50, m.a. vegna fyrirsjáanlegs ónæðis og óvistlegra umhverfis.

Kærendur benda á að hækkun húsnæðisins að Skipholti 50A valdi mikilli skerðingu á útsýni frá gluggum á austurhlið Skipholts 50, en þar séu á fyrstu og annarri hæð tveir svefnherbergisgluggar ásamt stofuglugga og í kjallara séu þar svefnherbergis-, eldhús- og stofugluggar.  Skerðing útsýnis kjallaraíbúðar nái til 60% glugga (75% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri).  Skerðing útsýnis á annarri hæð nái til 33% glugga (37,5% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri) og skerðing útsýnis á fyrstu hæð nái til 37,5% glugga (43% ef tillit sé tekið til þess að baðherbergisgluggi á norðurhlið sé með hömruðu gleri).  Á vesturhlið hússins að Skipholti 50 séu engir gluggar, þar sem húsnæðið sé sambyggt Skipholti 44.  Kærendur leggi til að efsta hæð hússins að Skipholti 50A verði inndregin svo hún skerði ekki útsýni eins mikið. 

Kærendur halda því fram að skuggavarp aukist verulega á austurgafl hússins að Skipholti 50 og yfir garðinn sem snúi í suður.  Á austurgafli hafi tvær íbúðir svefnherbergis- og stofuglugga og ein íbúð svefnherbergis-, eldhús- og stofuglugga.  Mögulega muni austurgafl Skipholts 50 lítið sem ekkert njóta sólar með haustinu.  Aukið skuggvarp muni einnig hafa áhrif á gróður í garði ásamt því að notkunarmöguleikar hans og svala fyrstu og annarrar hæðar rýrni þegar hausta taki.  Kærendur undrist að í gögnum vegna hinnar kærðu ákvörðunar skuli ekki vera miðað við haustjafndægur 22. september eins venja sé, en verulega geti munað um hæð sólar og lengd skugga eftir því sem nær jafndægri dragi. 

Talsvert mikið ónæði verði vegna nálægðar Skipholts 50A, en á vesturhlið hússins séu fyrirhugaðir stofu-, eldhús- og svefnherbergisgluggar ásamt svölum sem snúi að austurhlið Skipholts 50 þar sem m.a. svefnherbergi séu staðsett.  Skipholt 50A standi á lóðarmörkum og telji kærendur mikið ónæði af því að hafa stofu og eldhúsglugga ásamt svölum beint fyrir framan svefnherbergisglugga þeirra.  Ekki sé ljóst miðað við teikningar hvar aðalinngangur eignarinnar eigi að vera en verði hann á vesturhlið sé ljóst að talsvert ónæði muni verða af umgengni þar.  Þá verði kærendur fyrir ónæði af völdum umferðar um göngustíg sem sé við húsgafl Skipholts 50. 

Mótmælt sé sterklega þeirri ákvörðun að leyfa byggingu svala utan byggingarreits en samkvæmt teikningu komi svalirnar inn á almenningsgöngustíg sem skilji að lóðamörk Skipholts 50 og 50A.  Göngustígurinn sé í umsjá borgarinnar og á honum séu kvaðir um lagnir og opinn stíg.  Svalir skuli a.m.k. vera þrjá metra frá lóðarmörkum en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun nái svalirnar út fyrir lóðarmörk.  Útveggur vesturhliðar Skipholts 50A sé nánast á lóðarmörkum og úr því þurfi að skera hvort leyfilegt sé að byggja svalir sem nái yfir almenningsgöngustíg og hvaða reglur gildi um fjarlægð svala frá svefnherbergisgluggum næstu eignar.  Vegna alls framangreinds sé því sérstaklega mótmælt að heimilað verði að byggja svalir á vesturhlið Skipholts 50A. 

Kærendur benda á að óljóst sé af gögnum málsins hvort til standi að færa fyrrnefndan göngustíg.  Þá sé og óljóst hvað hafi orðið af áformum byggingarleyfishafa um sérstakan byggingarreit fyrir bílageymslu sem áður hafi verið kynntur kærendum. 

Ætla megi að við hina kærðu ákvörðun muni söluverðmæti og sölumöguleikar að íbúða Skipholti 50 rýrna verulega. 

Kærendur benda á að framkvæmdir hafi fyrir löngu verið hafnar við breytingar á húsnæðinu að Skipholti 50A.  Byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt þetta í ágúst 2005 en samkvæmt upplýsingum frá fulltrúa byggingarfulltrúa hafi hann ekki séð sér fært að koma og skoða aðstæður og umhverfi.

Þó svo að kærendur fagni því að Skipholti 50A skuli breytt í íbúðarhúsnæði hljóti þeir að leiða hugann að því hvers konar nágranna megi vænta miðað við þá hönnun sem fyrir liggi.  Vegna smæðar þeirra tíu íbúða sem koma eigi fyrir í húsinu og nálægðar fimm þeirra við fjölfarinn göngustíg megi teljast ólíklegt að þær verði vænlegur kostur fyrir fjölskyldufólk.  Eðlilegt sé að benda á að fyrir ofan Skipholt 50 og 50A sé Fjöltækniskólinn og að Háteigsvegi 31-33 séu stúdentagarðar.  Klúbburinn Geysir, athvarf fyrir geðveikt fólk, sé staðsettur að Skipholti 29 og þeim megin götunnar sé einnig Færeyska sjómannaheimilið og Sjómannaheimilið Örkin.  Að Skipholti 27, 50E og 50F séu einnig stúdentagarðar.  Það sé því tilfinning kærenda að frekar sé skortur á stærri íbúðum sem henti fjölskyldum en fleiri litlum einstaklingsíbúðum eða stúdentagörðum, nema það sé stefna borgaryfirvalda að breyta hverfinu í kringum Fjöltækniskólann í stúdentagarða.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Því verði eigendur húsa að gera ráð fyrir því að hvorki útsýni né sólarljós sé sjálfgefið í þéttri byggð og geti breyst, enda réttur til óbreytts útsýnis ekki bundinn í lög.  Það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að tryggja heildarhagsmuni og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun verði að ræða vegna framkvæmda á annarri eign.  Útsýni sé ekki sjálfgefið og taki breytingum eftir því sem borgin þróist.  Því megi alltaf búast við því að einhver skerðing verði á útsýni þegar byggð séu ný hús eða gerðar viðbyggingar við eldri hús.  Telja verði að hagsmunir byggingarleyfishafa af því að byggja ofan á hús sitt á þann hátt sem samþykkt hafi verið séu mun meiri en þeir hagsmunir kærenda sem hugsanlega fari forgörðum vegna lítilsháttar útsýnisskerðingar.

Í gögnum málsins sé að finna upplýsingar um skuggavarp hússins að Skipholt 50A, bæði fyrir og eftir breytingar þess, hinn 20. júlí kl. 9, 12 og 17 og hinn 18. september kl. 9, 12 og 17.  Jafndægri séu 20. mars og 22. september, þannig að þarna muni fjórum sólarhringum sem teljist óverulegt þegar skoðaðir séu skuggar sólar.  Samkvæmt skuggavarpi hinn 18. september sé ljóst að aukið skuggavarp sé á húsið að Skipholti 50 snemma hausts, fyrir hádegi, en upp úr kl. 12 hverfi skuggi alfarið af húsi og lóð að Skipholti 50.  Aukið skuggavarp yfir sumarmánuði sé eingöngu á bílskúrum og bílastæðum.  Því sé hvorki hægt að fallast á þá fullyrðingu að skuggavarp vegna fyrirhugaðrar hækkunar hússins að Skipholti 50A sé svo mikið að um rýrnun á eigninni að Skipholti 50 sé að ræða né að það sé meiri en búast megi við í þéttbýli sem sé í stöðugri þróun.

Það sé í samræmi við skilgreiningu á miðsvæðum í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 að heimila að skrifstofuhúsnæði í umræddu húsi sé breytt í íbúðir.  Varla verði hjá því komist að útveggir hússins séu nýttir fyrir glugga, bæði til að draga inn dagsbirtu og loftun.  Gert hafi verið ráð fyrir svölum á vesturhlið hússins í fyrri kynningu.  Þær hafi verið grynnkaðar og lengdar lítillega.  Ekki sé gert ráð fyrir breytingum á inngöngum inn í húsið að Skipholti 50A.  Umræddar svalir séu um 2,6 metra frá lóðamörkum og þaðan séu um 8,5 metrar að húsinu að Skipholti 50.  Þetta geti ekki talist óeðlileg nálægð í þéttbýli.  Vesturhlið efri hluta hússins að Skipholti 50A sé um 3,8 metra frá lóðamörkum.  Stígurinn sem á hvíli kvöð um almenna umferð sé inni á lóð Skipholts 50A og sé við lóðamörk Skipholts 50 og 50A.  Umræddar svalir séu því ekki út fyrir lóðamörk.  Samkvæmt byggingarreglugerð sé heimilt að hafa útskagandi húshluta yfir almennum göngustígum, þó ekki í minna en 2,6 metra hæð frá jörðu.  Út frá skipulagslegum forsendum sé því ekki ástæða til að gera athugasemdir við gerð svala á vesturhlið hússins að Skipholti 50A, eins og þær séu sýndar á uppdráttum.

Varðandi staðsetningu göngustígs þá sé samkvæmt gildandi mæliblaði kvöð um göngustíg fyrir almenning á lóðamörkum Skipholts 50 og 50A og að húsinu að Skipholti 50A.  Ekki þurfi því að sækja sérstaklega um legu stígs á því svæði.

Villa hafi verið í fyrri uppdrætti og þar hafi átt að standa byggingarreitur fyrir hús í stað byggingarreitur fyrir bílgeymslu.

Ljóst þyki að áhrif umþrættra breytinga séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar byggingarleyfisins.  Telji kærendur sig geta sannað það að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi teljast hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt samkvæmt ákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Um bótarétt sé úrskurðarnefndin ekki bær til að fjalla um. 

Tekið sé fram að byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir á lóðinni með bréfi, dags. 10. mars 2006, er í ljós hafi komið að framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að gefið hafi verið út byggingarleyfi.  Hvað varði þá málsástæðu kærenda að íbúðirnar henti ekki fjölskyldufólki sé bent á að hvergi segi að ekki megi byggja íbúðir sem henti öðrum þjóðfélagshópum auk fjölskyldufólks, en tekið skuli fram að aðeins ein af tíu nýjum íbúðum sé um 80 fermetrar.  Allar hinar séu stærri og henti því fjölskyldufólki jafnt sem öðrum.

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Kærendur telja fyllilega ljóst að það sé eðli borga að geta tekið breytingum og vera í stöðugri þróun.  Í umsögn skipulags- og byggingarsviðs sé þess getið að hlutverk skipulagsyfirvalda sé að tryggja heildarhagsmuni og að aldrei sé svo langt gengið á eignir borgaranna að um óþolandi skerðingu á gæðum eða verðrýrnun verði að ræða á eignum vegna framkvæmda á annarri eign.  Það sé mat kærenda að umræddar framkvæmdir séu einmitt „óþolandi skerðing á gæðum eða verðrýrnun“.  Hagsmunir byggingarleyfishafa, sem séu verktakar úr öðru bæjarfélagi, virðist vega þyngra hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar heldur en rök þeirra íbúa Reykjavíkur sem við breytingarnar þurfi að búa.  Kærendur fallist ekki á þá skilgreiningu skipulags- og byggingarsviðs að einungis sé um lítilsháttar útsýnisskerðingu að ræða.  Hún verði að teljast veruleg, sérstaklega fyrir íbúðir á fyrstu og annarri hæð.

Þó svo að skipulags- og byggingarsvið meti aukningu skuggavarps óverulega þá sé það mat kærenda að slík aukning geti, auk þess að draga úr birtu á lóð, rýrt verðgildi eigna.  Sé vanalegt að miða skuggavarp við ákveðnar dagsetningar þá skuli ekki víkja frá þeirri venju. 

Í hinni kærðu ákvörðun sé gert ráð fyrir verönd á jarðhæð sem nái nánast að almennum göngustíg.  Segja megi að Skipholt 50 tilheyri, skipulags- og hönnunarlega séð, Skipholti 30, 32, 34, 36, 38, 40, 42, 44, 46, og 48.  Skipholt 50 tilheyri efri húsaröð þar sem 17-18 metrar séu á milli húsa.  Fjarlægð frá Skipholti 50 yfir í 50A sé, samkvæmt mælingum skipulags- og byggingarsviðs, um 11 metrar.  Að mati kærenda muni hið mikla byggingarmagn í kjölfar hækkunar hússins á lóðinni að Skipholti 50A verða til þess að ónæði aukist til muna.   Ef miðað sé við verönd á vesturhlið Skipholts 50A standi eignin mun nær lóðamörkum en skipulags- og byggingarsvið telji í gögnum sínum.  Steypt eining Skipholts 50A sé, samkvæmt mælingum kærenda, næst lóðamörkum Skipholts 50 um 3,6 metrar.  Samkvæmt upplýsingum, sem fram hafi komið í símtali við Skipulagsstofnun, tilheyri göngustígurinn borginni og því sé rétt að reikna lóðarmörk að stígnum, en kveðið sé á um að hann skuli vera þriggja metra breiður.  Samkvæmt þessari skilgreiningu séu svalir komnar út fyrir lóðarmörk og verönd liggi alveg að lóðarmörkum.  Miðað við áætlað byggingarmagn á lóð megi ljóst vera að gríðarleg aukning verði á mannaferðum sem hafi talsvert ónæði í för með sér.

Ítrekað sé að áhrif umræddra breytinga séu veruleg.  Eðlilegt hljóti því að vera að um málið sé fjallað þannig að byggingaraðili hafi ekki áunnið sér aukin réttindi með því að hafa hafið framkvæmdir og öll gögn látin gilda sem hin sömu og áður en til framkvæmda hafi komið, þ.e. frá því að athugasemdir bárust upphaflega.  

Kærendur hafa rökstutt frekar sjónarmið sín í málinu.  Þykir ekki þörf á að reifa þau frekar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar í kærumáli þessu.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að ekki sé um að ræða skerðingu útsýnis úr kjallara eða íbúð fyrstu hæðar hússins að Skipholti 50 þar sem núverandi bygging að Skipholti 50A skerði nú þegar útsýni til austurs og verði því engin breyting á því útsýni sem fyrir sé.  Útsýni frá annari hæð til austurs skerðist óverulega vegna sólstofu sem sé á þaki núverandi byggingar og skerði útsýni annarrar hæðar um 3/5 til austurs, lengra í austri séu fimm hæða hús sem skerði útsýni enn frekar. 

Varðandi skuggavarp sé vísað til þess að yfir sumartímann muni skuggi vegna ofanábyggingarinnar ná kl. 9 frá miðju bílastæði yfir það allt, en þó ekki upp á húsgaflinn.   Um kl. 12 verði skuggi farinn af lóðinni.  Þann 18. september um kl. 9 nái skugginn lengst frá miðjum garði og yfir hann allan en ekkert skuggavarp sé af bílskúr sem standi í suðaustur horni lóðar, en bílskúr gæti gefið svipað skuggavarp og viðbygging ofan á núverandi bakhús.  Um kl. 12 verði skuggi yfir bílastæðinu sem þó nái ekki upp á húshliðina.  Lóð hússins að Skipholti 50 snúi til suð-suðvesturs með enga byggingu fyrir framan sig og njóti því að fullu sólar þangað til að skuggi myndist af Skipholti 44. 

Misskilnings gæti hjá kærendum um staðsetningu Skipholts 50A gagnvart lóðarmörkum Skipholts 50.  Húsið að Skipholti 50A standi ekki á lóðarmörkum eins og kærendur haldi fram.  Vesturhlið Skipholts 50A, nánar tiltekið útbrún útveggjar, sé 3,77 m frá lóðarmörkum.  Fjarlægð milli húsanna sé 12,92 m.  Svalir ofanábyggingar muni ekki ná inn á göngustíg eins og kærendur haldi fram því fjarlægð frá svalabrún að göngustíg sé 0,97 m.  Fjarlægð frá svalabrún að lóðarmörkum sé 2,57 m sem þýði að svalirnar ná ekki út fyrir lóðarmörk.  Þær séu 1,2 m á breidd.   

Aðalinngangur Skipholts 50A sé á austurhlið og snúi því að bílastæðum og bílageymslu.  Inngangurinn á vesturhlið sé fyrst og fremst ætlaður sem aðgengi að sorp- og hjólageymslu.  Umferðin muni því verða um aðalinnganginn þar sem verði dyrasími og póstkassar fyrir innan.  Umferð um göngustíg muni ekki aukast með tilkomu aðgengis að sorp- og hjólageymslu, þvert á móti muni aðgengi um þennan inngang minnka frá því sem áður hafi verið, en þar hafi verið félagsaðstaða.      

Ekki hafi verið sótt um leyfi af hálfu byggingarleyfishafa til að breyta göngustíg sem liggi innan lóðarmarka Skipholts 50A enda kvöð um almenna gönguumferð um stíginn.  Ekki standi til að færa eða breyta göngustígnum.  

Fyrirhugað sé að sex íbúðir í húsinu að Skipholti 50A verði frá 110 m² til 120 m², minni íbúðirnar séu frá 80 m² til 100 m².  Íbúðirnar henti því fjölskyldufólki og eldra fólki. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu, sem stendur á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík, ásamt því að heimilað er að breyta nýtingu hússins í íbúðarhúsnæði.  Krefjast kærendur ógildingar leyfisins vegna neikvæðra grenndaráhrifa byggingarinnar. 

Á svæði því er hér um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag en byggðin er tiltölulega gróin og þétt.  Vestan við hús kærenda er íbúðarbyggð en austan þess eru stórar atvinnulóðir sem teljast vera fullbyggðar og á standa nýleg hús.  Er ekki að vænta mikilla breytinga á byggingum á þessum lóðum.  Telja verður, eins og hér stendur sérstaklega á, að byggingaryfirvöldum hafi verið heimilt að veita hið kærða leyfi án þess að fyrir lægi deiliskipulag að umræddu svæði, enda verður ekki talið að byggðamynstri hverfisins verði raskað til muna með hinni umdeildu viðbyggingu eða að hún muni skera sig úr umhverfi sínu.  Var því unnt að fara með málið eftir 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breyttri notkun, svo sem gert var. 

Lóðirnar að Skipholti 50 og 50A standa við hlið hvorrar annarrar að hluta en inn á lóðinni nr. 50A er göngustígur meðfram lóðarmörkum að mestu þar sem húsin standast á.  Bil milli húss kærenda og bakhússins á lóðinni nr. 50A er tæpir 13 metrar og stendur bakhúsið um 3,8 metra frá lóðarmörkum og er með því fullnægt kröfum um fjarlægð húss frá lóðarmörkum.   Verður ekki heldur talið að það varði ógildingu byggingarleyfisins þótt svalir séu lítillega nær lóðarmörkum en nemur 3,0 metrum.  Er þá litið til þess að bil milli húsanna að Skipholti 50 og 50A er eftir sem áður vel yfir þeim mörkum sem áskilið er í byggingarreglugerð.  Teljast ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 því uppfyllt hvað varðar bil milli húsa og fjarlægðir frá lóðarmörkum. 

Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 50A við Skipholt verður 0,76 eftir breytingarnar sem verður að telja í samræmi við það sem tíðkast á umræddu svæði.  Ekki verður fallist á það með kærendum að útsýnisskerðing, skuggavarp, birtuskerðing eða aukin umferð vegna hinnar umdeildu ofanábyggingar valdi þeim slíku óhagræði eða röskun að ógilda beri hið kærða byggingarleyfi af þeim sökum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildinu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. apríl 2006 um að veita leyfi til byggingar einnar hæðar ofan á bakbyggingu á lóðinni nr. 50A við Skipholt í Reykjavík og að breyta félagsaðstöðu á 1. hæð í íbúðir.  

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson