Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2006 Fjallalind

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 54/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar og bæjarráðs Kópavogs á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 64 við Fjallalind í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2006, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir M, Fjallalind 62, Kópavogi samþykkt skipulagsnefndar frá 6. júní 2006 og bæjarráðs Kópavogs frá 8. sama mánaðar á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 64 við Fjallalind í Kópavogi.  Var samþykktin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. júní 2006. 

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Í athugasemdum við kæruna, sem úrskurðarnefndinni bárust hinn 22. ágúst 2006 frá skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogsbæjar, kemur fram að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. júní 2006, eftir að afstaða hafi verið tekin til framkominna athugasemda.  Málið hafi hvorki verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýsing um gildistöku verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Sé af þessum sökum krafist frávísunar málsins.    

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt að falla frá auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi sé um að ræða óverulega breytingu.  Tillagan skal þá grenndarkynnt hagmunaaðilum og að því loknu skal hún send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Jafnframt verður að skilja ákvæði 3. mgr. sömu greinar á þann veg að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda, óháð því hvernig undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið háttað. 

Eins og að framan er rakið hefur umrædd skipulagsákvörðun ekki verði send Skipulagsstofnun til meðferðar og ekki hefur birst auglýsing um hana í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er gildistökuskilyrði og markar jafnframt upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Er lögboðinni meðferð málsins þannig enn ólokið og voru því ekki skilyrði til þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar, sbr. ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Verður máli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                 ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson