Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2006 Höfðavegur

Ár 2006, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar, er bæjarstjórn staðfesti hinn 21. febrúar 2006, um að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík ásamt byggingarrétti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. apríl 2006, er  barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, framsendi félagsmálaráðuneytið kæru K, Höfðavegi 16, Húsavík, dags. 11. apríl 2006, vegna þeirrar samþykktar skipulags- og byggingarnefndar bæjarins að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík, ásamt byggingarrétti.  Bæjarstjórn Húsavíkur staðfesti hinn 21. febrúar 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 9. febrúar 2006 samþykkti bæjarráð Húsavíkur að taka tilboði í lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík.  Mun kærandi hafa sent skipulags- og byggingarnefnd athugasemdir vegna sölunnar og bent á ákvæði í þinglýstum lóðasamningum vegna lóðanna að Höfðavegi 11-19 frá árinu 1970 þess efnis að ekki yrði leyft að byggja á greindum lóðum þar sem skipulag gerði þar ráð fyrir grænu svæði.  Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. febrúar 2006 þar sem kæranda var þakkað erindið en á það bent að í fyrirliggjandi breytingu á gildandi aðalskipulagi væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddum lóðum.  Var ákveðið að fela byggingarfulltrúa að sjá um að ljúka deiliskipulagsvinnu, sem væri á lokastigi, á grundvelli gildandi aðalskipulags.  Var þessi fundargerð afgreidd á fundi bæjarstjórnar Húsavíkur hinn 21. febrúar 2006.

Bendir kærandi á að íbúar við Höfðaveg hafi átt að geta treyst því að ekki risi byggð á umræddum lóðum í samræmi við fyrrgreinda lóðasamninga, sem m.a. taki til lóðarinnar að Höfðavegi 15, og sé óásættanlegt að bæjaryfirvöld virði að vettugi þinglýsta samninga með því að leyfa nýbyggingu á nefndri lóð.  Hin kærða ákvörðun sé fráleit í ljósi þess að umrædd gata sé ein af elstu götum Húsavíkurbæjar og ekki hafi verið reist hús við hana í marga áratugi.  Gatan sé þröng og bílastæðamál við austari hluta hennar í ólestri sem unnt væri að bæta úr ef menn héldu sig við fyrri hugmyndir og hættu við fyrirhugaðar nýbyggingar.  Verði byggt á fyrrgreindri lóð minnki verðgildi eignar kæranda verulega.  Telur kærandi að ástæða fyrir hinni þinglýstu kvöð um víkjandi byggð á umræddum lóðum hafi verið sú að um sé að ræða hættulegt byggingarsvæði vegna staðhátta.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjaryfirvalda á Húsavík um að auglýsa til úthlutunar byggingarlóð að Höfðavegi 15 þar í bæ.  Má ráða af málatilbúnaði kæranda að baki kærunni búi andstaða gegn því að byggt verði á umræddri lóð þrátt fyrir þinglýsta kvöð um víkjandi byggð.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar en heimilt er að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum ef ekki er til að dreifa deiliskipulagi.  Húsbyggingar verða ekki hafnar nema að undangenginni veitingu byggingarleyfis sem samræmist gildandi skipulagi, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna.  Þar af leiðandi getur ákvörðun um lóðarúthlutun ekki ein og sér falið í sér heimildir til byggingarframkvæmda á tiltekinni lóð.  Í máli þessu er hvorki til úrlausnar lögmæti  skipulags né byggingarleyfis er felur í sér byggingarheimildir á lóðinni að Höfðavegi 15 á Húsavík.  

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í þeim er ekki að finna reglur er varða lóðaúthlutanir og hefur úrskurðarnefndin ekki vald til að úrskurða um meðferð eða afgreiðslu þeirra.  Því verður ágreiningur um slíkt efni ekki borinn undir nefndina og er kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson