Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2006 Hagasmári

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2006, kæra vegna meðferðar á athugasemdum í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, framsendi félagsmálaráðherra kæru K og Þ Eyktarsmára 4, Kópavogi vegna meðferðar á athugasemdum í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. október 2005 var skipulagsstjóra Kópavogs falið að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillagan var auglýst frá 24. október til 21. nóvember 2005 með athugasemdafresti til mánudagsins 5. desember 2005.  Athugasemdir bárust.  Á fundi skipulagsnefndar 6. desember 2005 var tillagan lögð fram ásamt athugasemdum og var afgreiðslu málsins frestað.  Var skipulagsstjóra falið að semja drög að umsögn nefndarinnar vegna innsendra athugasemda.  Hinn 7. febrúar 2006 samþykkti nefndin umsögn skipulagsfulltrúa og breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest í bæjarstjórn hinn 14. febrúar 2006.        

Kærendur vísa til þess að þeir hafi hinn 4. desember 2005 sent athugasemdir vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára á tölvupóstfang Kópavogsbæjar kopavogur(hjá)kopavogur.is undir fyrirsögninni „Póstur“.  Við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn hafi komið í ljós að athugasemd þeirra hafi ekki verið meðal athugasemda sem fjallað hafi verið um í skipulagsnefnd bæjarins þegar umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið þar til afgreiðslu.  Telji kærendur óeðlilegt að rafrænn póstur, sem sé sendur til sveitarfélagins þar sem skýrlega komi fram hvert efnið sé og við blasi hver viðtakandinn eigi að vera, skuli ekki rata í réttar hendur innan kerfisins.  Afleiðing þessa sé sú að athugasemd þeirra og ef til vill fleiri hafi aldrei verið tekin til umfjöllunar eins og vera beri.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð meðferð bæjaryfirvalda á athugasemdum kærenda í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi.  Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eins og henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005, segir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. sömu lagagreinar segir ennfremur að kæru til úrskurðarnefndarinnar sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga.  Í framangreindum lagaákvæðum felst að úrskurðarnefndin fjallar einvörðungu um lokaákvarðanir á lægra stjórnsýslustigi en ekki einstakar ákvarðanir sem teknar eru við meðferð máls og varða gerð og undirbúning ákvörðunar sem undir lögin falla.  Atvik þau sem kærð eru í málinu vörðuðu undirbúning skipulagsákvörðunar en bundu ekki endi á meðferð málsins og koma þau ekki til umfjöllunar af hálfu úrskurðarnefndarinnar nema í tengslum við kæru endanlegrar ákvörðunar í málinu.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________ 
 Hjalti Steinþórsson

 

    _____________________________                 ____________________________
                           Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson