Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2023 Krákustígur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2023, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2023 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, vegna breytinga á lóðarmörkum Krákustígs 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Oddeyrargötu 4 á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, vegna breytinga á mörkum lóðarinnar Krákustígs 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 26. apríl 2023.

Málavextir: Með umsókn, dags. 15. júní 2022, óskaði eigandi Oddeyrargötu 4b eftir því að lóðin yrði stækkuð í samræmi við meðfylgjandi skýringarmynd og að staðfangi lóðarinnar yrði breytt í Krákustíg nr. 1. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 6. júlí s.á. þar sem fallist var á beiðnina og tekin ákvörðun um að grenndarkynna deiliskipulagstillögu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem um væri að ræða óverulega breytingu á deili­skipulagi sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Tillagan var grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Oddeyrargötu 4, Krabbastígs 4 og Munkaþverár­strætis 18 með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, og var frestur til athugasemda til 7. september s.á. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 14. september 2022 þar sem fram kom að ein athugasemd hefði borist. Einnig voru lögð fram viðbrögð umsækjenda og drög skipulagsfulltrúa að svörum við efni athugasemdarinnar. Var afgreiðslu málsins frestað og formanni og varaformanni ráðsins falið að ræða við bæjarlögmann um næstu skref. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 12. október s.á þar sem umsókn um breytingu á deili­skipulagi var hafnað í ljósi athugasemdar sem barst við grenndarkynningu, en beiðni um breytingu á staðfangi lóðarinnar úr Oddeyrargötu 4b í Krákustíg 1 var samþykkt.

Með umsókn, dags. 12. júlí 2022, óskuðu lóðarhafar Krabbastígs 4 eftir stækkun lóðarinnar sem yrði nýtt undir bílastæði samkvæmt meðfylgjandi skýringarmynd. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs 10. ágúst s.á og var afgreiðslu erindisins frestað. Í kjölfar synjunar á breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 1 við Krákustíg var erindi lóðarhafa Krabbastígs 4 tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 26. október s.á. Var skipulagsfulltrúa falið að leita álits utanað­komandi lögfræðings og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og afgreiðslu málsins frestað. Á fundi skipulagsráðs 9. nóvember s.á. var umsókn um stækkun lóðar Krabbastígs 4 hafnað en samþykkt að unnið yrði að breytingu á deiliskipulagi þannig að á umræddu svæði yrði aðkomu­leið frá Krabbastíg 4 að Krákustíg um opið svæði í landi Akureyrarbæjar. Var skipulagsfulltrúa falið að vinna að gerð deiliskipulagsbreytingar fyrir umrætt svæði. Á fundi skipulagsráðs 14. desember 2022 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð Krákustígs 1. Gerði til­lagan ráð fyrir breytingu á mörkum lóðarinnar til að afmarka aðgengi að lóð Krabbastígs 4 um bæjarland. Var fallist á að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Krákustígs 1, Krabba­stígs 4 og Munkaþverárstrætis 18. Á fundi skipulagsráðs 15. febrúar 2023 var tillaga að breyt­ingu á deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, samþykkt ásamt framlögðum drögum að svörum við innsendum athugasemdum. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2023.

 Málsrök kærenda: Bent er á að lóðin Krákustígur 1 sé 360 m2 samkvæmt fasteignaskrá og deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið 2. júní 2015 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí s.á. og mæliblaði frá árinu 1987. Ótækt sé að eiga að sæta minnkun lóðarinnar vegna hagsmuna eig­enda Krabbastígs 4.

Ekki sé vafi á að stofnast hafi lóðarleigusamningur um lóðina Krákustíg 1 og hafi Akureyrar­bær innheimt lóðarleigu vegna lóðarinnar allt frá 1957. Samkvæmt almennum reglum leigu­réttar hafi stofnast lóðarleigusamningur með þessari háttsemi og hafi lóðin og húsið sem á henni standi ætíð verið á deiliskipulagi. Kærendur eigi því fullgild lóðarréttindi yfir lóðinni og eigi ekki að þurfa að sæta minnkun hennar eða skerðingu. Af þeim sökum sé umdeild deili­skipulags­­breyting ólögmæt.

Sveitarfélaginu beri skylda til að gera lóðaleigusamning um Krákustíg 1 á grundvelli þess að lóðin sé 360 m2 og samkvæmt þeirri afmörkum sem fram komi í deiliskipulagi frá árinu 2015. Lóðin hafi verið skráð með þeim hætti í áratugi, sé í samræmi við skipulag og kærendur eigi rétt til lóðarinnar á grundvelli hefðar, sbr. lög um hefð nr. 46/1905, einkum 2. gr. laganna. Eins og fram hafi komið í álitsgerð lögmanns sem sveitarfélagið aflaði liggi fyrir að endurnýja beri lóðarleigusamninga nema einhverjar málefnalegar forsendur mæli til annars. Engar slíkar málefnalegar forsendur liggi fyrir í málinu. Í öllum gögnum frá sveitarfélaginu vegna deili­skipulags­­breytingarinnar, t.d. í bréfi vegna grenndarkynningar, dags. 20. desember 2022, sé talað um tilfærslu lóðarmarka og á uppdrætti sé talað um „minnkun lóðar“. Í auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda sé talað um að lóðin minnki. Í þessu orðalagi felist viðurkenning Akureyrar­bæjar á lóðarskerðingu og að verið sé að taka af kærendum hluta lóðar þeirra.

Íbúar Krabbastígs 4 hafi aðgengi frá þeirri götu sem fasteign þeirra tilheyri og hafi eigendur lóðar­innar látið útbúa eignaskiptayfirlýsingu árið 1999 þar sem hvergi sé tekið fram að aðgengi sé í gegnum Oddeyrargötu 4b, nú Krákustíg 1, heldur eigi báðar íbúðir Krabbastígs 4 jafnan hlut í aðgengi frá Krabbastíg. Sú skoðun þeirra að þeir eigi rétt til aðgengis frá Krákustíg sé ný tilkomin. Í kaupsamningi um neðri hæð Krabbastígs 4, dags. 8. september 2020, sé hvergi minnst á þennan umferðarrétt.

Eigendur Krabbastígs 4 hafi ekki getað lagt fram gögn sem styðji þær fullyrðingar að umræddur skiki tilheyri þeirra lóð. Ótækt sé að sveitarfélagið framkvæmi eignaupptöku á skikanum og til­greini hann sem „opið svæði“ þegar ljóst sé að svæðið muni ekki nýtast neinum nema eigendum Krabbastígs 4 og að eina markmið deiliskipulagstillögunnar hafi verið að veita þeim að­gengi um svæðið. Í raun sé verið að veita eigendum Krabbastígs 4 skikann á kostnað kærenda þótt verið sé að færa það í þann búning að verið sé að skapa opið svæði. Opið svæði hljóti að eiga að vera svæði sem nýtast eigi almenningi en ekki einni tiltekinni lóð eða húsi, sérstaklega þegar skikinn sé tekinn af næstu lóð.

Ógerlegt sé að koma við hjólastólaaðgengi fyrir fatlaða þarna, líkt og röksemdir eigenda Krabbastígs 4 gangi út frá, vegna mikils landhalla. Þá sé óheimilt að hafa rafhleðslustöð á opnu svæði eða göngustíg auk þess sem sveitarfélagið hafi viðurkennt í svörum sínum, dags. 19. febrúar 2023, að bílaumferð um skikann sé ekki leyfileg.

Sjónarmið sveitarfélagsins um ætlaðan hefðaðan umferðarrétt frá Krabbastíg 4 sé ósannaður. Eigendur lóðarinnar hafi sjálfir þrengt að umgengni kringum hús sitt með viðbyggingum og virðist hafa tekið sér umferðarrétt og aðkomu að húsinu frá Krákustíg einhliða. Slíkt geti ekki orðið grundvöllur að deiliskipulagsbreytingum hjá sveitarfélagi. Þinglýst gögn beri með sér að nú­­verandi eigendur neðri hæðar Krabbastígs 4 hafi nýlega fest kaup á fasteigninni. Eignaskipta­samningur sé til um eignina sem þessir eigendur hafi staðið að á sínum tíma, þá sem eigendur efri hæðar. Hvergi sé að finna í fyrirliggjandi gögnum nein fyrirheit, lýsingar eða skilmála sem gefi til kynna að eigendur Krabbastígs 4 hafi mátt hafa væntingar um óheft aðgengi að fasteign sinni frá annarri götu en Krabbastíg. Öðru gegni um kærendur sem hafi réttmætar væntingar um að í kringum hús þeirra sé afmörkuð lóð í samræmi við lóðarblöð og opinbera uppdrætti, sem séu til og séu markaðar línur í kringum fasteign þeirra að Krákustíg 1 og sem sýni stærð lóðarinnar eins og fram hafi komið á deiliskipulagi og innheimt hafi verið lóðarleiga síðan 1957. Óljós og órökstuddur hefðarréttur Krabbastígs 4, um aðgengi geti ekki verið æðri lóðar­réttindum kær­enda.

Fullyrðingar sveitarfélagsins um að fordæmi séu fyrir því að hús eigi aðgengi frá tveimur götum eigi ekki við í þessu máli. Engin líkindi séu með þeim húsum og Krabbastíg 4 sem eigi ekki baklóð að Krákustíg ólíkt húsunum við Munkaþverárstræti 18, 20 og 22.

Hæðarmunur lóðanna Krabbastígs 4 og Krákustígs 1 sé þónokkur. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér að stígur í um það bil 180-200 cm hæð verði í um 1,5 m fjarlægð frá vegg hússins við Krákustíg 1. Sá frágangur feli í sér mikinn kostnað svo að húsið verði ekki fyrir skemmdum vegna jarðvegs sem skríði frá 2 m háum stígnum. Þá hafi engar málsetningar verið á gögnum sem fylgdu grenndarkynningunni eða deiliskipulagstillögunni. Það sé verulegur annmarki á deili­skipulagsbreytingunni. Þá skerði þessi mikli hæðarmunur mjög notin af Krákustíg 1.

Skipulagsstjóri hafi tjáð þeim að sveitarfélagið myndi ekki koma að neinum frágangi þessa svokallaða opna svæðis eða göngustíg. Virðist sem sveitarfélagið ætli að eftirláta eigendum Krákustígs 1 og Krabbastígs 4 að komast að samkomulagi um frágang svæðisins en samskipti þessara aðila séu mjög stirð og hafi kærendur þurft að leita til lögreglu vegna hótana eiganda Krabbastígs 4.

Skikinn sem Krabbastígur 4 hafi sótt um sé samkvæmt loftmynd um það bil 24 m2 en samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni hafi lóð Krákustígs 1 verið minnkuð um 35 m2. Þetta misræmi sé ekki útskýrt og virðist vera gengið lengra en efni væru annars til og farið gegn meginreglum um meðalhóf. Með breytingunni sé sannanlega gengið á réttindi kærenda og gengið lengra í þeim efnum en nauðsynlegt sé til að ná settum markmiðum með skipulags­breytingunni. Markmið skipulagstillögunnar sé í raun óljóst og hún lítið rökstudd. Kærendum sé mismunað gróflega og hagsmunir eigenda Krabbastígs 4 teknir fram yfir hagsmuni þeirra. Ekki þurfi annað en að bera saman bókanir vegna málsins til þess að sjá hvernig íbúum sé mismunað og hagsmunir eigenda Krabbastígs 4 teknir fram yfir hagsmuni kærenda.

Mikil mismunun sé fólgin í því að skerða lóð Krákustígs 1, einungis til þess að veita eigendum Krabbastígs 4 aðgengi að sinni lóð. Sveitarfélagið hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni að eigendur Krabbastígs 4 hafi eignast umferðarrétt yfir skikann án þess að rökstyðja hvers vegna. Ekki komi fram hve lengi eigendur Krabbastígs 4 hafi nýtt svæðið eða hvernig skilyrðum hefðar eigi að vera fullnægt. Á sama tíma hafni sveitarfélagið því að kærendur eigi lóðarréttindi þrátt fyrir að greidd hafi verið leiga af lóðinni síðan 1957 og hún hafi verið á deiliskipulagi. Þegar deiliskipulagi sé breytt aðeins vegna einnar lóðar eigi sú breyting aðeins að taka til hags­muna þeirrar lóðar og eigenda hennar. Í þessu máli hafi lóðin Krákustígur 1 ekki verið deili­skipu­lögð vegna hagsmuna eigenda hennar heldur vegna hagsmuna eigenda Krabbastígs 4.

Engin rök mæli með því að skikinn verði gerður að opnu svæði eða göngustíg, aðeins til þess að eigendur Krabbastígs 4 geti nýtt það til aðgengis að lóð sinni. Engir almannahagsmunir séu til staðar fyrir þeirri ákvörðun að minnka lóð Krákustígs 1 og gera umræddan skika að opnu svæði til almannanota. Enda liggi fyrir að notin séu ekki almenn heldur nýtist einungis eigendum Krabbastígs 4. Ekkert í markmiðum skipulagslaga, nr. 123/2010, styðji þessa breyt­ingu deiliskipulagsins.

 Málsrök Akureyrarbæjar: Vísað er til þess að árið 1957 hafi bæjarstjórn Akureyrar samþykkt stöðuleyfi fyrir verkstæði og geymsluskúr úr timbri á umræddri lóð til 10 ára, en formlegur lóðar­leigusamningur hafi aldrei verið gefinn út. Fyrir liggi teikningar af vinnuskála, dags. 10. maí 1957, og bílskúr, dags. 28. apríl 1960, og á báðum teikningum komi fram að um sé að ræða bakhús við Oddeyrargötu en lóðin sjálf sé ekki afmörkuð á yfirlitsuppdrætti.

Samþykkt bæjarstjórnar sé eitt af þremur skjölum sem þinglýst hafi verið á lóðina. Hin tvö séu skiptayfirlýsing frá 2008 og kaupsamningur, dags. 13. júní 2023. Kaupsamningnum hafi verið þinglýst með athugasemd sýslumanns um að húseignin sem um ræði, Oddeyrargata 4b, sé án lóðarréttinda.

Málsmeðferð og afgreiðsla sveitarfélagsins á hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafi hvílt á markmiðum 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi legið fyrir lóðarleigusamningur eða afmörkun lóða á svæðinu með fyllilega skýrum hætti. Þá hafi verið ljóst að notkun þess svæðis sem um ræði hafi verið að nokkru leyti hjá eiganda Krabbastígs 4. Þau afnot hafi haft ríka þýðingu fyrir fasteignina, en þeir hagsmunir hafi komið fram þegar grenndarkynning hafi farið fram vegna upphaflegs erindis eigenda Krákustígs 1, áður Oddeyrargötu 4b. Deiliskipulags­breytingin hafi verið mikilvæg til þess að sem skýrastar forsendur lægju fyrir við gerð lóðar­samninga á svæðinu.

Sjónarmið þess efnis að lóðarleigusamningur yfir svæðinu hafi stofnast fyrir hefð falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar þar sem um sé að ræða einkaréttarlegt álitamál. Þó sé bent á að ummerki sem greina megi á loftmyndum beri með sér að svæðið hafi fremur verið notað af eiganda Krákustígs 4 og ekki sé til staðar skilyrði hefðar hjá eigendum Krákustígs 1. Í ljósi stöðu lóðarleigusamninga hafi mátt ráða að svæðið hafi talist sem óútvísað land bæjarins, þótt niðurstaða um slíkt ráði ekki úrslitum varðandi gildi deiliskipulagsbreytingarinnar sem slíkrar. Áréttað sé að orðalag Akureyrar um minnkun lóðar, hafi vísað til þess deiliskipulags sem gilti, en í því hafi ekki falist viðurkenning á því að lóðarleigusamningur hefði stofnast og/eða að einka­réttarlegir hagsmunir Krákustígs 1 væru viðurkenndir.

Eigendum Krabbastígs 4 hafi verið mikilvægt að hafa aðgengi að götu í svipaðri hæð og íbúðarhæð fasteignarinnar. Fyrirkomulag nýtingar Krabbastígs 4 sé í samræmi við lóðarnotkun fast­eigna á Munkaþverárstræti, t.d. nr. 18 og 20, sem eigi aðgengi frá Krákustíg.

Engin mismunun af hálfu bæjaryfirvalda hafi falist í deiliskipulagsbreytingunni. Málið hafi verið vel upplýst í kjölfar þeirra tveggja grenndarkynninga sem hafi átt sér stað og hlutað­eigandi aðilar hafi komið að sjónarmiðum sínum um hagsmuni sína sem fasteignaeigenda á svæðinu. Niðurstaða málsins hafi ráðist af hagsmunamati sem hvíli á markmiðsákvæðum skipu­lags­laga. Málsmeðferð á grundvelli grenndarkynningar hafi átt sérstaklega vel við að­stæður sem þessar, þar sem fjalla hafi þurft um stöðu lítils svæðis sem liggi á milli þriggja lóða.

Eigendur Krákustígs 1 hafi ekki haft nein formleg lóðarréttindi, en þinglýstar heimildir um lóðaréttindi séu einungis stöðuleyfi. Engin ummerki hafi verið um nýtingu Krákustígs 1 á svæðinu. Það sé grundvallaratriði að þótt deiliskipulag geri ráð fyrir tilteknum lóðarmörkum þá leiði það ekki til þess að lóðarmörk breytist sjálfkrafa eða lóðarréttindi hafi stofnast, heldur þurfi landeigandi að staðfesta lóðarleigusamning og afmörkun lóðar samkvæmt honum.

 Málsrök lóðarhafa Krabbastígs 4: Bent er á að Krabbastígur sé stutt þvergata sem liggi á milli Oddeyrargötu og Munkaþverárstrætis. Í húsinu að Krabbastíg 4 séu tvær íbúðir með sitthvort fastanúmerið, báðar íbúðirnar séu í eigu þeirra en þau hafi verið búsett á efri hæð hússins frá árinu 1998. Íbúar Krabbastígs 4a hafi nýtt sér aðgengi við Krabbastíg en íbúðar Krabbastígs 4b hafi nýtt aðgengi frá Krákustíg sem nú sé deilt um, en inngangur að íbúðinni sé Krákustígs megin. Vegna hæðarmunar frá Krabbastíg niður að lóð hafi íbúar í 4b einnig þurft að nýta aðgengi frá Krákustíg eftir þörfum og það hafi verið gert án vandkvæða eða athuga­semda þau 25 ár sem þau hafi verið búsett í húsinu. Umrætt svæði og aðgengi frá Krákustíg að Krabba­stíg 4b hafi verið notað alla tíð frá byggingu hússins árið 1934. Eigendur Oddeyrargötu 4b, nú Krákustígs 1, hafi aldrei gert athugasemdir við að umrætt svæði væri notað af Krabbastíg 4b, enda hafi þau ekki yfirráðarétt yfir spildunni.

Eftir að hafa einnig fest kaup á neðri hæð hússins, Krabbastíg 4b, hafi þau farið í að lagfæra garð og aðgengi að lóðinni frá Krákustíg enda gert ráð fyrir því að allt væri óbreytt. Árið 2022 hafi kærendur keypt fasteignina að Oddeyrargötu 4b og í kjölfarið lýst því yfir að þau myndu ekki fallast á óhindrað aðgengi íbúa Krabbastígs 4b frá Krákustíg og óskað eftir stækkun á lóðinni. Eigendur Krabbastígs 4a og b hafi því talið sig knúin til að láta á það reyna að sækja einnig um stækkun á sinni lóð þannig að landspildan myndi lögformlega tilheyra eigninni að Krabbastíg 4b og aðgengið yrði þannig áfram óhindrað. Báðum erindunum hafi verið hafnað af skipulagsráði en samþykkt að vinna að breytingu á deiliskipulagi þannig að á þessu svæði yrði framvegis aðkomuleið frá Krabbastíg að Krákustíg 4 um opið svæði í landi Akureyrar­bæjar. Eigendur Krabbastígs 4 hafi fallist á þess afgreiðslu.

Það sé rétt hjá kærendum að báðar íbúðir Krabbastígs 4 hafi jafnan hlut að aðgengi frá Krabba­stíg en það breyti því ekki að íbúar Krabbastígs 4b hafi ávallt átt óhindrað aðgengi frá Krákustíg og að íbúar Krabbastígs 4a hafi nýtt sér það aðgengi eftir þörfum í gegnum tíðina án vand­kvæða. Þetta aðgengi hafi verið nýtt frá byggingu hússins árið 1934 og sé því ekki ný tilkomið. Kærendur hafi ekki getað sýnt fram á eignarrétt sinn að skikanum, hefðarrétt eða annað til stuðnings kröfum sínum.

Kærendur hafi sjálfir grafið skurð í kringum húsið og þannig bæði skapað vandamál fyrir sjálfa sig sem og skapað ákveðna hættu fyrir íbúa Krabbastígs 4 auk þess að hindra aðgengi að húsi þeirra. Eina skiptið sem lögregla hafi haft samband við eigendur Krabbastígs 4 hafi verið til að færa bifreið sem staðsett hafi verið á lóðamörkum. Eigendur Krabbastígs 4 hafi sjálfir þurft að kalla til lögreglu vegna háttsemi kærenda m.a. þegar þau hafi eitrað fyrir 70 ára silfurreyni sem staðsettur var í garði Krabbastígs 4 með því að bora í það og fylla götin af steinolíu. Eigendur Krabbastígs 4 hafi þurft að sitja undir lygum og rógburði svo vikum skipti vegna málsins, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem kærendur hafi endurtekið breitt út ósannindi sem hafi verið átakanlegt og sárt að sitja undir.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að í umsögn sveitarfélagsins sé talað um að upprunalega stöðuleyfið hafi átt að gilda til 10 ára, en í bókun byggingarnefndar hafi sagt „10 ár hið minnsta“. Samkvæmt þessu hafi alltaf verið ætlunin að húsið stæði lengur en í 10 ár, sem raunin hafi orðið.

Fjármálastjóri Akureyrarbæjar hafi hringt í annan kærenda 14. apríl 2023 og lagt til sem lausn að bærinn keypti Krákustíg 1 af kærendum gegn því að kæran yrði dregin til baka. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir að fá þetta staðfest með tölvupósti en kærendur hafi haft þann skilning að ef tilboðinu yrði hafnað myndi sveitarfélagið taka lóðina bótalaust.

Miðað við orðalag í umsögn sveitarfélagsins virðist sem ávallt hafi staðið til að gera lóðarleigu­samning um Krákustíg 1 og verði það ekki túlkað á annan veg en að Akureyrarbær hafi alltaf litið svo á að kærendur hefðu lóðaréttindi yfir Krákustíg 1. Kærendur vænti þess að sveitar­félagið muni virða rétt þeirra og eignarrétt að Krákustíg 1, hver sem niðurstaða kæru­málsins verði. Það sjónarmið sveitarfélagsins að mikilvægt sé að neðri hæð Krabbastígs 4 hafi aðgengi að lóð sinni úr svipaðri hæð hafi ekki komið fram áður í málinu. Akureyri sé bær sem sé byggður að miklu leyti í brekku, ekki síst á norður brekku á þessu svæði, þar sem Krabba­stígur, Krákustígur, Munkaþverárstræti og Oddeyrargata séu og algengt sé að lóðir hafi ekki að­gengi að götum úr sömu hæð. Þá verði ekki séð að inngangar í Krabbastíg 4, hvorki efri né neðri hæð séu í götuhæð, hvorki frá Krabbastíg né Krákustíg.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, sem fól í sér breytingu á lóðarmörkum Krákustígs 1 og aðgengi frá lóðinni Krabbastíg 4 að Krákustíg.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulags­laga nr. 123/2010, sem getur með því haft áhrif á og þróað byggð og umhverfi með bindandi hætti. Sveitarstjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipu­lags­mála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Við töku ákvarðana um skipulagsmál ber sveitar­­stjórn sem endranær að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitar­stjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað og heimild til að breyta deili­skipulagi, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting var að mati skipulagsráðs Akureyrarbæjar óveruleg, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, og fór um meðferð málsins samkvæmt því. Hið kærða deiliskipulag var grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. nefndra laga. Athugasemdir og svör við þeim voru lagðar fyrir skipulagsráð sem samþykkti framlagða skipulagsbreytingu og svör við athugasemdum. Þar sem um var að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi hafði skipulags­ráð heimild til að afgreiða málið án staðfestingar bæjarstjórnar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, sbr. 3. tl. 4. gr. viðauka við samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar um fullnaðar­afgreiðslu ráða, stjórna, nefnda og sviðsstjóra í stjórnsýslu Akureyrarbæjar án staðfestingar bæjarstjórnar eða bæjarráðs. Tók skipulagsbreytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 8. mars 2023. Var formleg málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Áður en hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag var tekin óskuðu bæði eigandi Krákustígs 1 og eigendur Krabbastígs 4 eftir stækkun lóða sinna um sama tiltekna skikann sem tilheyrir bæjarlandi Akureyrar. Í kjölfar grenndarkynninga var báðum erindunum synjað og í kjölfarið grenndarkynnt ný tillaga að breyttu deiliskipulagi þar sem lóðarmörk Krákustígs 1 eru færð til og umræddur skiki stækkaður að lóð Krabbastígs 4 með því að minnka lóð Krákustígs 1 um tæpa 36 m2. Í bréfi vegna grenndarkynningarinnar kom fram að breytingin væri gerð til að af­marka aðgengi að lóð Krabbastígs 4 um bæjarland. Verður að telja að efnisleg rök hafi búið að baki ákvörðun sveitarfélagsins að afmarka aðkomu íbúa Krabbastígs 4b um bæjarland enda virðist umrædd aðkoma hafa verið notuð um árabil.

­Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er lóðin Oddeyrargata 4b, nú Krákustígur 1, iðnaðar- og athafnalóð. Á lóðinni eru tvær matseiningar, annars vegar smíða­verkstæði og hins vegar bílskúr. Samkvæmt þinglýsingarhluta fasteignaskrár er þinglýst á lóðina skjali sem skráð er lóðarleigusamningur, frá 6. mars 1957. Umrætt skjal er samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar á afgreiðslu byggingarnefndar á beiðni Kristjáns Tryggvasonar, Brekkugötu 15, um að fá leigða byggingarlóð „fyrir vestan húsið Oddeyrargötu 4, til að reisa þar verkstæði og geymsluhús“. Samþykkti byggingarnefnd að veita 10 ára stöðuleyfi fyrir húsi á umræddri lóð. Kemur þá fram að leiga fyrir lóðina sé kr. 240,00 á ári. Í skjalinu er hvorki að finna lýsingu á hinni umræddu lóð né lóðarmörkum.

Í málinu hefur komið fram að aldrei hafi verið gerður sérstakur lóðarleigusamningur vegna lóðar­innar Krákustígs 1, áður Oddeyrargötu 4b, og við þinglýsingu kaupsamnings kæranda að umræddri eign 15. júní 2022 gerði sýslumaður athugasemd um að húseignin væri án lóðar­réttinda. Kærendur hafa við meðferð málsins haldið því fram að lóðarleigusamningur hafi stofnast þar sem Akureyrarbær hafi innheimt lóðarleigu frá árinu 1957. Samkvæmt almennum reglum leiguréttar hafi með því stofnast lóðarleigusamningur og eigi kærandi því fullgild lóðaréttindi yfir lóðinni. Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi eða um efni þinglýstra réttinda verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum dómstólum. Verður því í máli þessu ekki tekin afstaða til ágreinings sem kann að stafa af óvissu um tilvist lóðarleigusamnings eða hvort slíkur samningur hafi stofnast fyrir hefð eða á grundvelli almennra reglna leiguréttar. Þá ber þess að geta að deiliskipulag felur ekki í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignarréttinda, svo sem lóðaréttinda, sem byggjast á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðaréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðar­éttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Vakin er athygli á að geti kærendur sýnt fram á fjártjón vegna hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 15. febrúar 2023, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, vegna breytinga á lóðarmörkum Krákustígs 1.

99/2023 Laugarás

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 29. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 99/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 um að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið að Laugarási.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 að samþykkja deiliskipulag fyrir þéttbýlið að Laugarási. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir vegna reiðvegar samkvæmt skipulaginu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðar­nefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 22. ágúst 2023.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 22. júní 2022 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir þéttbýlið að Laugarási samhliða aðalskipulagsbreytingu á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst 29. september s.á. með athugasemdafresti til 11. nóvember s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Tillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 15. maí 2023 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí s.á. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir útivistarstíg, þ.e. göngu-, reið- og reiðhjólaleið. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti er stígnum m.a. ætlað að liggja yfir svæði sem skilgreint er sem varúðarsvæði og er fyrirhuguð lega stígsins frá enda Langholtsvegar yfir að Höfðaveg og er það sá hluti stígsins sem stöðvunarkrafa kæranda beinist að.

Kærandi vísar m.a. til þess að um sé að ræða tilkynningarskyldar framkvæmdir sem háðar séu matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Möguleiki sé á að sveitarfélagið telji gildistöku deiliskipulags fela í sér lokaákvörðun um heimildir til að hefja framkvæmdir við lagningu reiðvegarins. Hvergi sé gerður fyrirvari í deiliskipulaginu um leyfisveitingu fyrir framkvæmd við lagningu vegarins skv. gr. 5.3.2.19 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sveitarstjórn telji að hægt sé að leggja reiðveginn þannig að „ekkert jarðrask verði á skilgreindu varúðarsvæði“. Samkvæmt fyrirliggjandi umsögnum yrðu framkvæmdirnar óaftur­kræfar að því marki að ekki verði hægt að fjarlægja þegar gerðar framkvæmd eða afmá jarðrask skv. 3. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 nema með enn meira jarðraski. Þá yrði úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um stöðvun yfirvofandi framkvæmda til bráðabirgða í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins enda gætu efnisatriði kærunnar orðið þýðingarlítil ef óleyfisframkvæmdir hefðu raungerst. Telja megi knýjandi þörf á að stöðva yfirvofandi og óafturkræfar framkvæmdir á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðar­nefndinni þar sem framkvæmdirnar gætu orðið íþyngjandi fyrir kæranda, sem eigi íbúðarhúsa­lóð og fasteign í um 0,2 km fjarlægð frá varúðarsvæðinu, og haft margvísleg grenndaráhrif, t.d. mengunar- og slysahættu.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir, heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðar­nefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis. Skipulagsstofnun hafi litið svo á að lagning reiðvegar sé leyfisskyld framkvæmd skv. 13. gr. skipulagslaga. Hin kærða ákvörðun sé ekki ákvörðun um slíkt. Þá sé krafa um stöðvun framkvæmd ekki rökstudd sérstaklega að öðru leyti en að kærandi hafi áhyggjur af því að sveitarfélagið muni hefja framkvæmdir við lagningu reiðvegarins án undangengis mats á aðstæðum og fullyrt að lagning reiðvegarins hefði í för með sér óafturkræfar framkvæmdir. Hins vegar komi fram í greinargerð hins kærða deiliskipulags að óheimilt sé að nýta varúðarsvæðið á meðan ekki liggi fyrir mat á aðstæðum um hvort jarðvegur sé mengaður.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðun en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðun undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011 enda framkvæmdir fyrst þá eftir atvikum yfirvofandi í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestun réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulags-ákvarðana verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna reiðvegar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna reiðvegar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.

101/2023 Landmannalaugar

Með

Árið 2023, mánudaginn 28. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 101/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. september 2021 um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna búningaaðstöðupalls við náttúrulaugina í Landmannalaugum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Náttúrugrið þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. september 2021 að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna laugapalls við náttúrulaugina í Landmannalaugum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 18. ágúst 2023.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun sótti um framkvæmdaleyfi til Rangárþings ytra til endurnýjunar á laugapalli við Landmannalaugar 23. júlí 2021. Umsóknin var tekin fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins 6. september s.á. þar sem lagt var til að sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn 9. s.m. Þar sem framkvæmdir hófust ekki á tilætluðum tíma sótti Umhverfisstofnun um endurnýjun framkvæmdaleyfis 26. apríl 2023. Umsóknin var tekin fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins 1. júní s.á. þar sem lagt var til að sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn 14. s.m.

Af hálfu kæranda er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar, séu þær yfirstandandi. Af hálfu Umhverfisstofnunar, sem er leyfishafi í málinu, er bent á að framkvæmdum sé lokið.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hófust framkvæmdir við laugapallinn eftir miðjan júní 2023 og var þeim lokið fyrir 20. júlí s.á. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda vegna ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 9. september 2021 um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna búningaaðstöðupalls við náttúrulaugina í Landmannalaugum.

95/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, föstudaginn 25. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 95/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023, um leyfi fyrir viðbyggingu við suðurgafl hússins við Urðarstíg 4, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2023, er barst nefndinni þann 9. s.m., kærir eigandi Urðarstígs 6 og 6a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. júlí 2023, að samþykkja leyfi til viðbyggingar við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir m.a. þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. ágúst 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. mars. sl. var samþykkt leyfi til að byggja viðbyggingu við suðurgafl hússins nr. 4 við Urðarstíg, Reykjavík. Var sú samþykkt kærð til úrskurðarnefndarinnar og fékk málsnúmerið 78/2023. Þeirri kæru var vísað frá úrskurðarnefndinni sökum þess að eftir að kæran barst nefndinni voru framkvæmdir stöðvaðar af byggingarfulltrúa vegna ónógra brunavarna. Gefið var út nýtt byggingarleyfi 11. júlí sl. Með því var fyrra leyfi fellt niður en með því hafði kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn nefndarinnar um gildi þess. Útgáfa hins nýja byggingaleyfis hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinu kærða byggingarleyfi sé farið gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um bil á milli bygginga. Samkvæmt byggingareglugerð um bil á milli húsa sem bæði flokkist í EI 30 eigi að vera minnst 8 metrar milli þeirra, séu húsin bæði með klæðningu í flokki 2. Sé engin eldvarnarveggur á milli, bætist 1 m við fyrir hvora byggingu, samtals 10 m. Það bil hafi verið á milli bygginganna fyrir umrædda viðbyggingu. Húsin nr. 4, nr. 6 og 6A á Urðarstíg séu ekki í flokki EI 60 og eigi því kröfur um 6 m bil á milli bygginga ekki við. Ljóst sé að  byggingafulltrúi hafi ekki tekið til greina að klæðningar á húsi nr. 4 og nr. 6 séu í flokki 2. Jafnframt hafi byggingafulltrúi ekki tekið tillit til fjarlægða á milli húsa nr. 4 og nr. 6A, sem sé undir tveimur metrum í stað níu metra. Það valdi því umtalsverðum áhyggjum að leyfð sé viðbygging í um 2 m fjarlægð frá húsinu nr. 6A, og um í 4 m fjarlægð frá 15 m2 timburskúr sem sé staðsettur í 13 cm fjarlægð frá húsi nr. 6A og innan lóðarmarka.

 Við grenndarkynningu vegna breytinga á deiliskipulagi fyrir Urðarstíg 4 hafi kærandi sent inn athugasemd þar sem óskað var eftir því að farið yrði eftir lögum og reglum um brunavarnir hvað varði bil á milli tveggja timburhúsa. Einnig hafi kærandi óskað eftir því að tillit yrði tekið til þess í tillögu um skipulagsbreytingu að raunveruleg lóðarmörk Urðarstígs 6A og 6 nái töluvert inn á lóð Urðarstígs 4, og miðist ekki við núverandi girðingu. Ekki hafi verið tekið tillit til þessara athugasemda og sé viðbyggingin því  ólöglega staðsett.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Ekki er fallist á málatilbúnað kæranda og vísað til breytingar á deiliskipulagi Urðarstígsreits vegna lóðarinnar nr. 4 sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, dags. 7. október 2022. Samkvæmt breytingunni hafi verið gerður nýr byggingarreitur fyrir viðbyggingu sunnan hússins ásamt því að heimiluð hafi verið viðbygging sem sé nær lóðarmörkum Urðarstígs 6a, en 3 m. Komi því ekki til þess að afla hefði þurft samþykkis kæranda fyrir byggingunni. Farið hafi verið eftir ákvæðum byggingarreglugerðar um bil á milli bygginga ásamt áliti sérfræðings í brunavörnum sem staðfest hafi að brunavörnum hafi verið fullnægt.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafi hafnar málatilbúnaði kæranda og vísar til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð varðandi bil á milli bygginga. Komi þar skýrt fram að um viðmiðunarreglur sé að ræða sem séu frávíkjanlegar að uppfylltum skilyrðum sem komi fram í b og c-lið gr. 9.2.2. í reglugerðinni.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi óskaði eftir því við meðferð stöðvunarkröfu þessarar að fá að tjá sig um umsögn Reykjavíkurborgar. Í viðbótarathugasemdum sínum fór hann fram á að frávísunarkröfu borgarinnar yrði hafnað, framkvæmdir stöðvaðar og að úrskurðarnefndin fengi óháðan aðila til að meta aðstæður á lóðunum hvað varði ákvæði byggingareglugerðar um bil á milli húsa. Þá fór hann fram á að heimild deiliskipulags og byggingafulltrúa til að leyfa viðbyggingu og timburviðbyggingu með timburklæðningu á útveggjum sem teljist eitt brunahólf með eldri byggingu sem sé byggð úr timbri, með timburklæðningu að innan og einangruð með sagi, verði sérstaklega rannsökuð. Einnig fór hann fram á að umsögn verkfræðistofu sem lögð hafi verið fram verði ekki tekin til greina og vísað frá í umfjöllun nefndarinnar. Hún sé ekki unnin á hlutlausan hátt né sé þar tekið tillit til aðstæðna á lóðunum eða forsendna reglna um bil á milli húsa í byggingareglugerð. Hitamælingar þjóni litlum tilgangi í þessu samhengi enda sé sambruni ekki bara háður bili á milli húsa heldur líka veðurfarsaðstæðum.

Kærandi gerði athugasemd við að byggingafulltrúi vísaði til umsagnar verkfræðistofunnar þar sem þess hafi verið aflað einhliða af leyfishafa. Einnig óskaði hann eftir því að nefndin tæki afstöðu til fjölda glugga á viðbyggingunni. Bent sé á að byggingafulltrúi vísi ekki í fjarlægð glugga frá  húsi nr. 6A, eða fjarlægð timburbyggingar annarrar hæðar á húsi nr. 4 frá húsi nr. 6A. Þá óskaði kærandi eftir að úrskurðarnefndin tæki afstöðu til þess að byggingafulltrúi hafi í meðferð sinni ítrekað samþykkt rangar teikningar sem sýni meira bil á milli húsa nr. 4 og 6A en raunverulega sé, röng lóðarmörk, og ranga afstöðu bygginga. Byggingafulltrúi hafi enn á ný lagt fram leiðrétta teikningu leyfishafa, þrátt fyrir að teikningarnar séu villandi. Kærandi álítur að byggingarfulltrúi hafi brotið stjórnsýslulög við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Umsögn skipulagsfulltrúa og byggingafulltrúa endurspegli að reglugerðir, samþykktir og stjórnsýslulög hafi verið brotin eða túlkuð út fyrir þann ramma sem sé eðlilegur með tilliti til meðalhófs.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um útgáfu leyfis til viðbyggingar við hús nr. 4 við Urðarstíg í Reykjavík.  Með hliðsjón af því fleiri en einn aðili eru að málinu í skilningi stjórnsýslulaga og að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram með framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir við byggingu við suðurgafl hússins við Urðarstíg 4, Reykjavík verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

37/2023 Álalind

Með

Árið 2023, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. febrúar 2023, um að skoða ekki mál vegna loka­úttektarvottorða byggingarfulltrúa vegna Álalindar 14 og lóða- og bílageymslufélags Álalindar 14–16 á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. og 23. mars 2023, er bárust nefndinni sömu daga, kærir húsfélag Álalindar 14 og lóðar- og bílageymslufélag Ála­lindar 14–16 þá afgreiðslu byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. febrúar 2023, að hafa ekki frekari afskipti af máli Álalindar 14–16 vegna lokaúttektar­vottorðs. Gera kærendur þá kröfu að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að fyrirskipa byggingar­aðila Álalindar 14 að ljúka frágangi vegna mannvirkisins þannig að hann verði samkvæmt samþykktum upp­dráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 28. apríl, 7. og 27. júní 2023.

Málavextir: Frá árinu 2019 hafa kærendur átt í töluverðum samskiptum við byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar vegna hússins á lóð Álalindar 14 og bílageymslu Álalindar 14–16 í tengslum við ófullnægjandi frágang og aðra ágalla sem þeir telja vera á mannvirkjunum. Hinn 6. maí 2021 gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna hússins að Álalind 14 og 26. s.m. gaf hann út lokaúttektarvottorð vegna bílageymslu Álalindar 14–16.

Með bréfi, dags. 10. júní 2021, sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúa og óskuðu eftir því að lokaúttektarvottorðin yrðu dregin til baka og ítrekuðu þeir erindið 14. júlí s.á. Mun erindinu ekki hafa verið svarað af hálfu byggingarfulltrúa og af því tilefni óskuðu kærendur eftir því við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að stofnunin beitti sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði erindi þeirra. Með tölvubréfi starfsmanns stofnunarinnar 7. september s.á. til kærenda kom fram að óskað hefði verið eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa vegna málsins. Einnig var bent á að skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grund­velli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og færi um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Í bréfi til kærenda, dags. 29. september 2021, taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að gögn málsins gæfu ekki tilefni til íhlutunar af hálfu stofnunarinnar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Þá var kærendum bent á að hægt væri að óska eftir því að byggingarfulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. sömu laga og tæki byggingarfulltrúi ákvörðun á grundvelli þess lagaákvæðis gæti sú ákvörðun eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 14. október 2021 óskuðu kærendur eftir því við byggingarfulltrúa að hann myndi skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010.

Hinn 5. apríl 2022 kærðu kærendur fyrrgreindar ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 6. og 26 maí 2021 um útgáfu lokaúttektarvottorða til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 20. september 2022 í máli nr. 30/2022 þar sem kæra barst að liðnum kærufresti.

Hinn 26. október s.á. óskuðu kærendur eftir því við byggingarfulltrúa að þeir fengju gögn og svör varðandi byggingu og frágang mannvirkisins að Álalind 14. Sama dag sendu þeir sambærilegt erindi á bæjarstjóra og ítrekuðu þeir erindið 25. nóvember s.á. Barst þá svar frá bæjarstjóra um að kannað yrði hvar málið væri statt. Engin frekari svör munu hafa borist og hinn 15. janúar 2023 ítrekuðu kærendur erindi sitt. Með tölvubréfi 22. febrúar 2023 skoruðu kærendur á bæjarfulltrúa að þeir myndu beita sér fyrir því að erindi kærenda yrði svarað. Sama dag barst kærendum bréf frá byggingarfulltrúa með yfirskriftinni „Álalind 14–16. Svar við erindi sent bæjarfulltrúum Kópavogs, dags. 22. febrúar 2023. Greinargerð byggingarfulltrúa.“ Í bréfinu eru atvik málsins rakin að hluta til en í niðurlagi þess segir að byggingarfulltrúi hafi ekki frekari afskipti af málinu og telji því lokið. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að frá og með haustinu 2019 hafi þeir gert fjöl­margar athugasemdir við ófullnægjandi frágang Álalindar 14, en athugasemdirnar taki til fjölbýlishússins, bílageymslunnar og lóðarinnar. Áður en lokaúttekt hafi farið fram hafi kærendur komið á framfæri athugasemdum við byggingarfulltrúa um 14 atriði sem þeir hafi talið að væru ekki í samræmi við ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eða byggingar­lýsingu. Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi gefið út lokaúttektarvottorð 6. og 26. maí 2021 vegna matshluta 01 annars vegar og matshluta 03 hins vegar, þ.e. bílageymsluhúss. Hinn 14. maí 2021 hafi verið óskað eftir ýmsum gögnum og upplýsingum um með hvaða hætti hafi verið tekið tillit til athugasemdanna en þeirri beiðni hafi byggingarfulltrúi ekki svarað.

Með bréfi, dags. 14. október 2021, hafi kærendur óskað eftir því við byggingarfulltrúa að hann myndi skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki en því erindi hafi ekki verið svarað fyrr en 16 mánuðum síðar með bréfi, dags. 22. febrúar 2022, eftir að kærendur hefðu óskað eftir því við bæjarstjóra og bæjarfulltrúa að þeir myndu beita sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði erindinu. Byggingarfulltrúi hafi skv. 16. gr. laga um mannvirki eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglu­gerða sem settar séu samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda. Honum beri ekki aðeins að fara að lögum um mannvirki heldur einnig öðrum lögum og reglum, þ. á m. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Hljóðvist og loftræsing í íbúðarhúsum fjölbýlishússins að Álalind 14 sé ófullnægjandi. Hand­fang vanti á utanverðar svaladyr og skábraut vanti á svaladyr. Sorpgeymslan, sem sé innbyggð án útidyra og ekki með aðgang að vatni, sé ekki í samræmi við skipulagsskilmála eða byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi hafi ekki afhent kærendum handbók mannvirkisins í samræmi við gr. 16.1.1. í byggingarreglugerð. Viðvarandi raki sé í veggjum bílageymslu. Frágangur á útitröppum sé óvandaður og leiði til þess að hættulegt sé að ganga þær á veturna þegar yfirborðsvatn frýs og verði að svelli. Frágangur lóðarinnar sé ekki í samræmi við kröfur um algilda hönnun. Breidd bílastæða í bílageymslu sé ekki í samræmi við leiðbeiningar byggingarfulltrúa frá 30. desember 2014 um bílastæði á lóðum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að hin kærða ákvörðun sé greinar­gerð byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2023 sem hafi verið tekin saman í tilefni af því að kærendur skoruðu á bæjarfulltrúa að beita sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði með formlegum hætti bréfum og fyrirspurnum kærenda varðandi Álalind 14–16. Kærendum hefði mátt vera ljóst að greinargerðin væri samantekt á ákvörðunum byggingarfulltrúa um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins að Álalind 14 og bílageymslu Álalindar 14­­­­­–16. Sé því ekki um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á meðferð máls, enda hefðu um­þrættar ákvarðanir byggingarfulltrúa um að gefa út lokaúttektarvottorð verið teknar miklu fyrr. Beri úrskurðarnefndinni því að vísa kærumálinu frá, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar í máli nr. 30/2022.

Verði kærumálinu ekki vísað frá telji sveitarfélagið að hafna eigi ógildingarkröfu kærenda. Eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að hönnun, bygging og rekstur mannvirkis sé í samræmi við kröfur laga og reglugerða, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingar­fulltrúi sjái um eftirlit með mannvirkjagerð innan sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga, og sjái um framkvæmd lögbundinna úttekta þegar eftir þeim sé óskað. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa við lokaúttektina að mannvirkið uppfyllti ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem og að það samræmdist hönnunargögnum að undan­skilinni einni athugasemd varðandi matshluta 03. Ef íbúar hafi athugasemdir við ástand fasteignar eða frágang þá beri þeim að beina þeim að þáverandi eiganda og seljanda hússins og viðkomandi byggingarstjóra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að fyrsta skiptið sem byggingarfulltrúi hafi greint kærendum frá því að hann teldi ekki ástæðu til að skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi verið í bréfi hans frá 22. febrúar 2023. Það sé misskilningur að kæran snúi að greinargerð byggingarfulltrúa.

—–

Byggingaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta. Þá hafa aðilar málsins fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurða­rnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvalds­ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að gefa byggingarfulltrúa fyrirmæli um að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaraðila.

Í máli þessu er kærð sú afgreiðsla byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að hafa ekki frekari afskipti af máli Álalindar 14 og lóða- og bílageymslufélags Álalindar 14–16, en afgreiðsluna er að finna í bréfi byggingarfulltrúa frá 22. febrúar 2023. Bréfið var ritað í kjölfar þess að kærendur óskuðu eftir því við bæjarfulltrúa Kópavogs að þeir myndu beita sér fyrir því að erindum þeirra yrði svarað, þ. á m. þeirri beiðni kærenda frá 14. október 2021 að byggingar-fulltrúi myndi skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mann-virki. Í bréfinu eru atvik málsins rakin að hluta til, m.a. um að aðaluppdrættir hafi verið samþykktir 17. mars 2016 og að íbúar hafi flutt inn í allar íbúðir Álalindar 14 fyrir árslok 2020 þrátt fyrir að öryggis- og lokaúttektir hafi ekki legið fyrir. Þá er greint frá því að byggingar-fulltrúi hafi gefið út lokaúttektarvottorð 6. og 26. maí 2021 vegna Álalindar 14 og bílageymslu Álalindar 14–16. Því næst er að finna beina tilvitnun til afgreiðslu Húsnæðis- og mannvirkja-stofnunar um að stofnunin hafi ekki talið tilefni til íhlutunar á grundvelli 18. gr. laga nr. 160/2010 vegna málsins og að byggingarfulltrúi hafi ekki talið ástæðu til að skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. sömu laga. Segir svo að í framhaldi af því hafi kærendur kært útgáfu loka­úttektarvottorðanna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en að nefndin hafi vísað kæru­­málinu frá með úrskurði uppkveðnum 20. september 2022 í máli nr. 30/2022. Að lokum tók byggingarfulltrúi fram að hann hefði ekki frekari afskipti af þessu máli og telji því lokið án þess að dregnar væru ályktanir af því sem að framan var rakið.

Í 1. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Þá segir í 2. málsl. að sama gildi ef vanrækt sé að láta fara fram úttektir samkvæmt lögum þessum, ef notkun mannvirkis er breytt án samþykkis byggingarfulltrúa eða ef notkun mannvirkis brýtur í bága við skipulag.

Í fyrrnefndu bréfi byggingarfulltrúa er ekki greint frá dagsetningu tilvitnaðrar afgreiðslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða hvaða erindi stofnunin var að afgreiða. Undir rekstri þessa máls óskaði úrskurðarnefndin eftir skýringum frá sveitarfélaginu hvaða afgreiðslu væri um að ræða, en þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað. Í málinu liggur hins vegar fyrir bréf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 29. september 2021 til kærenda, þar sem fjallað var um hlutverk stofnunarinnar við eftirlit með byggingarfulltrúa skv. 18. gr. laga nr. 160/2010 og var kærendum leiðbeint um að hægt væri að óska eftir því við byggingarfulltrúa að málið yrði skoðað á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010. Er fyrri hluti beinnar tilvitnunar í umræddu bréfi byggingarfulltrúa að mestu leyti í samræmi við texta úr nefndu bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en síðari hluti hennar, þess efnis að byggingarfulltrúi hafi ekki talið ástæðu til að skoða málið á grundvelli umrædds ákvæðis, er ekki að finna í bréfi stofnunarinnar. Verður ekki annað ráðið en að afmörkun tilvitnunarinnar sé með röngum hætti þannig að ályktun byggingarfulltrúa um lyktir málsins hafi orðið hluti hinnar beinu tilvitnunar í bréf Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Í gögnum málsins er hins vegar að finna bréf frá byggingarfulltrúa, dags. 17. janúar 2023, þar sem fram kemur sú afstaða hans að ekki sé ástæða til að skoða málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010. Í því bréfi er vísað til þeirrar afgreiðslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 29. september 2021 að gögn málsins gæfu ekki tilefni til íhlutunar á grundvelli 18. gr. sömu laga. Hefur sveitar­félagið haldið því fram að bréf þetta hafi verið sent kærendum en þeir hafa synjað fyrir móttöku þess. Verður í ljósi þeirra andmæla og atvika málsins að öðru leyti að leggja til grundvallar að bréfið hafi ekki verið sent kærendum. Voru kærur þessa máls því lagðar fram innan kærufrests.

Af því sem að framan er rakið verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar haldinn annmörkum hvað framsetningu og skýrleika varðar. Af tilkynningu hinnar kærðu ákvörðunar verður þó með góðum vilja ráðið að ástæður málalyktanna hafi fyrst og fremst verið þær að lokaúttekt vegna byggingarframkvæmda, sem markar lok eftirlits byggingaryfirvalda með mannvirkjagerð hafi farið fram, lokaúttektarvottorð verið gefið út sem stæði óraskað og að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi ekki séð ástæðu til afskipta af málinu á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki.

Að öllu framangreindu virtu þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar ekki svo áfátt að leiða eigi til ógildingar hennar.

Rétt þykir að vekja athygli á 15. gr. laga um mannvirki, en þar segir í 1. mgr. að eigandi beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Þá er í 4. mgr. ákvæðisins útlistað hverjir teljast vera eigendur samkvæmt þeirra grein. Samkvæmt d-lið telst eigandi mannvirkis í byggingu vera eigandi samkvæmt greininni, en sé mannvirki selt í heild eða hluta áður en lokaúttekt fer fram beri fyrri eigandi ábyrgð skv. 1. mgr. ásamt nýjum eiganda, nema um annað sé samið í skriflegum samningi milli þeirra. Þá segir í e-lið að eftir að lokaúttekt hafi farið fram teljist eigandi mannvirkis vera eigandi samkvæmt greininni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. febrúar 2023, um að skoða ekki mál vegna lokaúttektar-vottorða byggingarfulltrúa vegna Álalindar 14 og lóða- og bílageymslufélags Álalindar 14–16 á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

 

 

 

59/2023 Drangahraun

Með

Árið 2023, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir G.P. Kranar ehf., lóðarleiguhafi Skútahrauns 2a, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 1. júní 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 11. maí 2023.

Málavextir: Kærandi er lóðarleiguhafi að lóðinni Skútahrauni 2a. Árið 2008 tók gildi deili­skipulag Drangahrauns – Skútahrauns og kemur fram í greinargerð þess um lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um „að bílastæði fyrir kjallara (neðstu hæð) húsa við nr. 3 og 5 við Drangahraun (hámarksflatarmál 2000 m2) verði á lóð Skútahrauns 2a og að fjöldi þeirra verði skv. byggingar­reglugerð“ auk þess sem á skipulagsuppdrætti kemur fram að kvöð sé um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Í skilmálum skipulagsins um lóðirnar  Drangahraun 3 og 5 kemur fram að „[n]yrst á lóðunum sé gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni […]. Hámarksvegghæð er 6 m frá Drangahrauni og hámarksmænishæð 7,5 m á þeim hluta sem snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Bílastæði fyrir kjallarana skulu vera á lóð Skútahrauns 2A og fjöldi þeirra skv. byggingarreglugerð.“ Þá er í greinargerð skipulagsins að finna almenna skilmála þess efnis að athafnasvæði innan lóða skuli vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur jafnframt fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við 64. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bíla­stæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Hinn 23. nóvember 2022 sótti Virki ehf., lóðarleiguhafi Drangahrauns 3, um leyfi fyrir stað­steyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. apríl 2023 var umsóknin samþykkt.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni kom kærandi áleiðis þeim ábendingum að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni. Óskaði úrskurðarnefndin af því tilefni eftir upplýsingum frá Hafnarfjarðarkaupstað um hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út og í svari sveitar­félagsins, dags. 25. maí 2023, kom fram að svo hafi ekki verið gert. Lagði kærandi þá fram myndir með tölvubréfi, dags. 31. maí 2023, sem sýndu framkvæmdir á hinu umrædda svæði. Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 6. júní s.á., og vakti athygli á framkvæmdunum. Byggingarfulltrúi fór fram á að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þann sama dag.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verði byggingaráform aðeins samþykkt sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Þá leiði af 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga að byggingarleyfi verði ekki gefið út nema mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi deili­skipulag svæðisins og beri því að fella það úr gildi.

Samkvæmt deiliskipulagi Drangahrauns – Skútahrauns hvíli tvær kvaðir á lóð kæranda. Í dóma- og úrskurðarframkvæmd hafi verið gerðar töluverðar kröfur til skipulagskvaða af þessu tagi og m.a. lagt til grundvallar að ekki sé hægt að stofna til umferðarréttar með deiliskipulagi nema að fengnu samþykki eiganda eða á grundvelli eignarnáms, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 118/2009 og 781/2016 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 67/2015. Þá hafi verið lagt til grundvallar að náist ekki samningar eða séu skilyrði eignarnáms ekki talin vera fyrir hendi geti það leitt til þess að skipulagskvöð í skipulagi verði ekki virk, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018.

Inntak beggja kvaðanna sé verulega óljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Það eina sem fram komi um umferðarkvöðina í deiliskipulaginu sé texti á skipulagsuppdrætti. Liggi þannig ekkert fyrir um inntak ætlaðs umferðarréttar, svo sem hver skuli vera breidd, lega eða lengd þeirrar aðkomu sem kvöðin mæli fyrir um. Kvöðin skeri sig frá sambærilegri kvöð á lóð Skútahrauns 2 sem útfærð sé með nánari hætti í deiliskipulaginu. Að sama skapi sé inntak kvaðarinnar varðandi bílastæðin verulega óljóst og ekkert sé fjallað um hvar bílastæðin skuli vera staðsett innan lóðar kæranda. Önnur gögn bæti ekki úr þessum óskýrleika og liggi ekki fyrir samkomulag við kæranda um kvaðirnar. Í fyrirliggjandi lóðarleigusamningi sé þannig ekki mælt fyrir um kvaðirnar heldur aðeins kveðið á um kvaðir fyrir aðkomu fyrir lóðirnar Skútahraun 2 og 2a og kostnaðarskiptingu vegna þessa. Það hafi því komið kæranda verulega á óvart hvernig kvaðirnar hafi verið útfærðar í þeim gögnum sem lögð hafi verið fram með byggingarleyfisumsókn lóðarhafa. Á meðal gagna sem fylgt hafi umsókninni hafi verið afstöðumynd sem sýnt hafi m.a. aðkomu að mannvirkinu og bílastæði, sbr. gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Öfugt við deiliskipulagið hafi verið búið að teikna inn bílastæði á lóð kæranda og tilgreina fjölda þeirra.

Þær kvaðir sem komið hafi fram í skipulaginu frá 2008 geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda. Þar sem slíkt samþykki liggi ekki fyrir hafi Hafnarfjarðarkaupstað verið óheimilt að samþykkja byggingarleyfi á grundvelli aðaluppdrátta sem mæli fyrir um umferðarrétt á lóð kæranda og bílastæði inn á lóð hans. Í öllu falli telji kærandi einsýnt að hið kærða byggingarleyfi og þau gögn sem liggi því til grundvallar fari langt fram úr heimildum deiliskipulagsins enda liggi fyrir að kvöðunum sé þar gefið allt annað inntak en leiða megi af fyrirmælum deiliskipulagsins. Byggingarleyfið sé því ekki í sam­ræmi við fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og því í andstöðu við 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi skuli öll ferming og afferming flutningstækja fara fram innan lóðar. Af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að ætlun lóðarhafa standi til þess að hafa geymslur í þeim hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2a. Í ljósi nálægðar mann­virkisins við lóðarmörk Skútahrauns 2a sé vandséð hvernig lóðarhafi hyggist fullnægja því skilyrði deiliskipulagsins að ferming og afferming fari fram innan lóðar hans. Í öllu falli sé óútskýrt hvernig þeim málum verði háttað og því óskýrt hvort eða hvernig fyrirhuguð notkun mannvirkisins samrýmist skilmálum deiliskipulagsins að þessu leyti. Hámarksmænishæð þess hluta mannvirkisins sem snúi að Skútahrauni 2 skuli vera 7,5 m samkvæmt deiliskipulagi. Af fyrirliggjandi teikningum verði ekki annað séð en að hámarksmænishæð sé 11,8 m samkvæmt samþykktri umsókn um byggingarleyfi og þar með í ósamræmi við framangreindan skilmála deiliskipulagsins. Að lokum sé ekki að finna upplýsingar í gögnum frá lóðarhafa um hvernig frárennslismálum frá kjallara verði háttað að öðru leyti en að frárennsli fari á kerfi sveitar­félagsins. Frárennsli frá kjallara að Skútahrauni 2a sé um dælu sem lóðarhafi reki.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Sveitarfélagið vísar til þess að umdeild byggingaráform séu í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út og sé því ekki fyrir hendi nein heimild til framkvæmda á lóðinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að samþykktir aðaluppdrættir séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og séu því engar forsendur til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Í gildandi deiliskipulagi liggi fyrir að á lóðinni Skútahrauni 2 sé kvöð um umferð að lóðinni Skútahrauni 2a sem og umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Sambærileg kvöð sé á lóðinni Skútahrauni 2a um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5. Bílastæði fyrir kjallara Drangahrauns 3 og 5 eigi að vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra sé samkvæmt byggingarreglugerð. Þó sé hámarksfjöldi stæða miðað við að kjallarar Drangahrauns 3 og 5 séu ekki samanlagt stærri en 2.000 m2 eins og fram komi í deiliskipulagi.

Við hönnun og teikningu hússins hafi kjallari þess verið dreginn fjóra metra inn frá byggingar­reit svo unnt væri að hafa hluta bílastæða framan við viðkomandi einingar. Lóðarhafar Drangahrauns 3 og 5 muni eftir sem áður nýta sér þá kvöð sem hvíli á lóðinni Skútahrauni 2a um umferðarrétt og bílastæði í suðausturhorni lóðarinnar, enda sé sá réttur óumdeildur. Lóðar­hafar Skútahrauns 2a nýti sér sambærilega kvöð um umferðarrétt á lóðinni Skútahrauni 2.

Sú umferð sem kærandi þurfi að þola sé umferð á um sjö metra breiðu bili syðst á lóð sinni. Umferðarkvöðin hafi legið fyrir í skipulaginu frá upphafi auk þess sem um sé að ræða leigulóð. Rök kæranda um eignarnám eigi því ekki við. Ekkert við umferðarkvöðina sé óljóst þar sem hún komi bæði fram í deiliskipulagi og á hæðarblaði fyrir lóðina. Það sé því rangt sem haldið sé fram í kæru að það eina sem liggi fyrir um kvöðina sé texti á skipulagsuppdrætti. Ferming og afferming muni ekki fara fram innan lóðar Skútahrauns 2a. Engin rök eða gögn hafi verið lögð fram til stuðnings fullyrðingu kæranda um að þetta kunni að vera vandamál.

Mænishæð hins umdeilda húss sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins, sem sé í samræmi við deiliskipulag og samþykktar teikningar.

Lóðirnar hafi í upphafi verið í eigu sama aðila sem komið hafi að gerð deiliskipulagsins árið 2008, en sá aðili hafi einnig látið teikna og fá samþykktar teikningar að húsi sem hefði valdið mun meiri truflun fyrir lóðarhafa Skútahrauns 2a. Fyrsti áfangi þeirra framkvæmda, steyptur stoðveggur, hafi verið byggður árið 2008 en niðursveifla í þjóðfélaginu hafi orðið til þess að ekki hafi orðið af frekari framkvæmdum. Núverandi lóðarhafi að Skútahrauni 2a leiði rétt sinn frá þeim aðila og þurfi að sætta sig við þær kvaðir sem séu til staðar og hann hafi vitað eða mátt vita um. Geti hann ekki öðlast betri rétt en deiliskipulagið kveði á um.

Fyrir liggi að aðalteikningar hafi verið samþykktar sem séu að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þeirri fullyrðingu kæranda að þær kvaðir sem komi fram í deiliskipulagi geti ekki skapað óbein eignarréttindi til handa lóðarhafa aðliggjandi lóðar án samþykkis kæranda sé hafnað. Ekkert í þeim dómum og úrskurðum sem kærandi vísi til styðji þá niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 118/2009 hafi atvik verið þau að í nýju deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir umferðarrétti án samþykkis eiganda aðliggjandi fasteignar. Því sé ekki svo farið í máli þessu, þar sem þáverandi lóðarhafi Skútahrauns 2a hafi samþykkt deiliskipulagið. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 781/2016 hafi krafa um umferðarrétt verið sett fram með beinni innsetningar­gerð á grundvelli deiliskipulags sem hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Ekki verði séð að sá ágreiningur sem hafi verið uppi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 26/2018 hafi neina tengingu við þann ágreining sem uppi sé í máli þessu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Hæðarblað hafi að mati kæranda ekki þýðingu við mat á því hvort útgefið byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag. Á hæðarblaði sé kvöðunum, líkt og á aðaluppdráttum, gefið allt annað inntak en leiða megi af deiliskipulagi. Skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki lúti að því að byggingaráform og byggingarleyfi séu í samræmi við skipulagsáætlanir. Hæðarblöð falli ekki undir hugtakið skipulagsáætlun heldur séu þau hönnunargögn sem séu unnin í kjölfar og á grundvelli deiliskipulags. Byggingarleyfi verði því ekki gefið út eða byggingaráform samþykkt á þeim grundvelli að það sé í samræmi við hæðar­blað, sér í lagi ef hæðarblaðið er í ósamræmi við deiliskipulag.

Hæðarblað gæti hugsanlega haft sjálfstæða þýðingu í málinu ef það væri hluti af þinglýstum gögnum eða áritað um samþykki af kæranda. Kærandi hafi aldrei samþykkt hæðarblaðið og það sé ekki hluti af þeim skjölum sem hafi verið þinglýst á lóðina. Eina hæðarblaðið sem sé hluti af þinglýstum skjölum sé það sem komi fram í lóðarleigusamningi kæranda við Hafnarfjarðarbæ frá árinu 1997. Bent sé á að hæðarblaðið sé dagsett í maí 2023 eða rúmlega mánuði eftir að byggingarfulltrúi hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Á hæðarblaðinu sé dregið ský í kringum kvaðirnar sem sé hugsanlega gert til áhersluauka eða til að auðkenna breytingar frá fyrra hæðarblaði. Hafnarfjarðarbær vísi til mæliblaðs frá árinu 2008 sem ekki liggi fyrir í málinu.

Í greinargerð leyfishafa sé rakið að í upphafi hafi báðar lóðirnar verið í eigu sama aðila sem hafi komið að og samþykkt deiliskipulagið árið 2008 og að viðkomandi aðili hafi þá verið búinn að láta teikna og fá samþykktar teikningar. Kærandi hafi verið einn af lóðarhöfum Skútahrauns 2a þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi árið 2008 en ekki Drangahrauns 3. Hinar umræddu teikningar hafi væntanlega verið samþykktar í gildistíð eldra skipulags enda séu þær áritaðar um samþykki fyrir gildistöku deiliskipulagsins í desember 2008. Ekkert liggi fyrir um að kærandi hafi samþykkt kvaðir deiliskipulagsins og séu gögn þar að lútandi ekki á meðal þinglýstra skjala lóðarinnar. Bent sé á að tvær fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og að eignirnar hafi í kjölfarið verið seldar aftur til kæranda. Við nauðungarsöluna hafi öll hugsanleg óbein eignarréttindi yfir eignunum fallið niður, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Í athugasemdum leyfishafa komi fram að mænishæð hússins sé í samræmi við deiliskipulag þar sem hún sé 6,26 m miðað við núllpunkt á aðalhæð hússins. Í deiliskipulaginu sé ekki rætt um að miða skuli hámarksmænishæð við tiltekinn núllpunkt. Þar komi fram að hámarks­mænishæð sé „7,5 m á þeim hluta sem snúi að Skútahrauni 2 og 2a“. Framlagðar teikningar séu ekki í samræmi við þessi fyrirmæli. Af fyrirliggjandi teikningum virðist mega ráða að fimm metrar séu frá kjallara mannvirkisins að lóðarmörkum. Því sé verulega óljóst hvernig leyfishafi ætli að ferma og afferma innan lóðar sinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingaráforma fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði á lóðinni Drangahrauni 3, Hafnarfirði. Óumdeilt er að heimilt sé að byggja slíkt húsnæði á lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins, Drangahrauns-Skútahrauns, sem tók gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember 2008. Deila aðila snýst um útfærslu tiltekinna atriða, þ.e. staðsetningu bílastæða og umferðarkvöð innan lóðar Skútahrauns 2a, hvernig fermingu og affermingu skuli háttað og um hámarksmænishæð húss að Drangahrauni 3.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir að 10 bílastæði verði staðsett á suðausturhorni lóðar Skútahrauns 2a. Líkt og fram kemur í málavaxtakafla segir í deiliskipulagsskilmálum um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun að bíla-stæði fyrir kjallara skuli vera á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra samkvæmt byggingar-reglugerð. Þá segir í skilmálum fyrir lóðina Skútahraun 2a að kvöð sé um að bílastæði fyrir kjallara húsa nr. 3 og 5 við Drangahraun verði á lóð Skútahrauns 2a og fjöldi þeirra verði samkvæmt byggingarreglugerð. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að fjöldi bílastæða á lóð skuli vera í samræmi við þágildandi 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með síðari breytingum, þ.e. eitt bílastæði fyrir hverja 35 m2 verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og eitt bílastæði fyrir hverja 50 m2 af öðru húsnæði.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er áskilið að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt. Samkvæmt sömu grein skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, sbr. einnig 1. mgr. 16. gr. laganna. Verða byggingaráform samkvæmt framansögðu ekki samþykkt nema þau séu bæði í samræmi við skipulagsáætlanir og gildandi lög og reglugerðir.

Fjallað er um aðkomuleiðir og umferðarsvæði innan lóðar í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og er almennt ákvæði um bílastæði að finna í 7. mgr. nefnds ákvæðis. Þar kemur fram að stæði fyrir bíla, reiðhjól og önnur farartæki skuli vera í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags eða ákvörðun viðkomandi sveitarfélags á grundvelli 44. gr. eða 1. tölul. bráðabirgðaákvæða skipulagslaga. Komi ekki fram krafa um ákveðna staðsetningu bílastæða eða stæða fyrir reiðhjól í skipulagi beri að hafa þau á sem öruggustu svæði innan lóðar. Í núgildandi byggingarreglugerð er ekki kveðið á um tiltekinn lágmarksfjölda bílastæða, að undanskildum bílastæðum hreyfihamlaðra, sbr. gr. 6.2.4., en í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 var mælt fyrir um tiltekinn fjölda bílastæða á lóð, hafi ekki verið kveðið á um annað í deiliskipulagi, sbr. 64. gr. þeirrar reglugerðar.

Samkvæmt 7. mgr. gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð er sveitarfélögum heimilt að ákveða fjölda bílastæða á lóð með deiliskipulagi. Verður að telja að skipulagsyfirvöldum sé heimilt að vísa til krafna eldri byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða, stangist þær kröfur ekki á við gildandi byggingarreglugerð hverju sinni, enda er skipulagsvaldið í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu verður ekki séð að hin samþykktu byggingaráform fari gegn ákvæðum byggingarreglugerðar hvað bílastæði varðar. Var því heimilt að mæla fyrir um í deiliskipulagi að fjöldi bílastæða á lóð færi eftir ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Bílastæði lóðar Drangahrauns 3 eru ekki á þeirri lóð heldur eru þau á lóð Skútahrauns 2a. Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulagskvaðir kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Er kvöð um hin umdeildu bílastæði skipulagskvöð samkvæmt framansögðu enda er henni komið á með deiliskipulagi, en úrskurðarnefndin tekur ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni einkaréttarlegra kvaða um bílastæðin. Þrátt fyrir að réttur til hinna umdeildu bílastæða og fjöldi þeirra, sé nægjanlega tilgreindur í skipulagskvöðinni verður ekki ráðið af deiliskipulagi hver staðsetning stæðanna skuli vera. Verður að telja að staðsetning bílastæða á annarri lóð samkvæmt skipulagskvöð sé svo veigamikill þáttur kvaðarinnar að skipulagsyfirvöld geti ekki ákveðið slíka staðsetningu með byggingarleyfi, heldur þarf stað­setningin að eiga stoð í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a varðar.

Samkvæmt afstöðumynd sem fylgdi umsókn vegna hinna kærðu byggingaráforma er gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 syðst á lóð Skútahrauns 2a. Ekki er að finna nákvæm mál kvaðarinnar á afstöðumyndinni en ráða má af henni að kvöðin nái um 7 m inn á lóð Skútahrauns 2a. Á deiliskipulagsuppdrætti er kvöðin ekki afmörkuð nákvæmlega en þar er að finna texta við lóðamörk Skútahrauns 2a, Drangahrauns 3 og Drangahrauns 5 þar sem kemur fram: „Kvöð um umferð að kjallara Drangahrauns 3 og 5“. Í skilmálum skipulagsins um lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun kemur jafnframt fram að „[n]yrst á lóðunum er gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafa aðkomu frá Skútahrauni en heimilt er að hafa neyðarútgang Drangahraunsmegin.“ Þrátt fyrir að óumdeilt sé að umferðarréttur sé til staðar á lóð Skútahrauns 2a vegna kjallara Drangahrauns 3 verður með sömu rökum og um staðsetningu bílastæða hér að framan ekki talið að samþykkt byggingaráforma geti falið í sér útfærslu kvaðar á lóð kæranda umfram það sem fram kemur í deiliskipulagi. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi hvað varðar þá útfærslu umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hefur vísað til þess að fasteignir að Skútahrauni 2a ásamt tilheyrandi lóðarréttindum hafi verið seldar nauðungarsölu árið 2014 og hafi öll óbein eignarréttindi þá fallið niður skv. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í nefndri málsgrein kemur fram að hafi nauðungarsölu verið krafist eftir heimild 6. eða 7. gr. falli niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni við útgáfu afsals nema annað leiði beinlínis af lögum, eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi í tilteknum atriðum óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér. Í afsali skuli tekið fram hver réttindi yfir eigninni falli á brott. Líkt og áður segir tekur nefndin ekki afstöðu til einkaréttarlegs ágreinings um mögulega tilvist eða efni kvaða. Skipulagskvöðum er komið á með deiliskipulagi, sem teljast til almennra stjórnvaldsfyrirmæla, og sækja stoð sína í 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga. Er skipulagskvöðum því komið á með lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og á greinin því ekki við hvað varðar þær skipulagskvaðir sem deilt er um í máli þessu.

Samkvæmt almennum deiliskipulagsskilmálum svæðisins skulu athafnasvæði innan lóða vera í samræmi við starfsemi í húsunum og þess gætt að ferming og afferming flutningstækja geti farið fram innan lóða. Samkvæmt skipulagsuppdrætti er byggingarreitur kjallara Drangahrauns 3 samsíða lóðamörkum þeirrar lóðar og lóðanna Skútahrauns 2 og 2a og er einn metri frá byggingarreit að lóðamörkum. Af grunnmynd kjallara má sjá að hin nýja bygging að Drangahrauni 3 mun ekki fullnýta byggingarreit lóðarinnar, heldur er veggur byggingarinnar fimm metra frá lóðamörkum og verða bílastæði fyrir utan bygginguna sem ná að þeim mörkum. Ekki verður fullyrt að ómögulegt sé að ferma og afferma innan lóðarmarka og verður því ekki talið að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við deiliskipulag hvað þetta varðar.

Samkvæmt skipulagsskilmálum fyrir lóðir nr. 3 og 5 við Drangahraun er hámarksmænishæð 7,5 m á þeim húshluta er snýr að Skútahrauni 2 og 2a. Í lýsingu staðhátta í deiliskipulaginu kemur einnig fram að mikill hæðarmunur sé milli lóða nr. 3 og 5 við Drangahraun og lóðar nr. 2a og hluta lóðar nr. 2 við Skútahraun. Samkvæmt grunnmynd kjallara er hæð hans er snýr að Skúta­hrauni 2 og 2a alls 6,26 m frá botnplötu 1. hæðar. Er hið kærða leyfi í samræmi við deili­skipulag að því leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar að því er varðar útfærslu kvaða vegna staðsetningar bílastæða og umferðarkvaðar á lóð Skútahrauns 2a. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þó ekki tilefni til að ógilda hina kærðu ákvörðun í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. apríl 2023 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu iðnaðar- og geymsluhúsnæði að Drangahrauni 3, matshluta 02, að því er varðar staðsetningu bílastæða á lóð Skútahrauns 2a og legu umferðar­kvaðar á sömu lóð. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

 

39/2023 Skrauthólar

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Einnig er kærð ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um að taka til endurskoðunar og/eða afturköllunar útgáfu umrædds starfsleyfis fyrir tjaldsvæðið í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 22. mars 2023, er barst nefndinni 23. s.m., kæra íbúar, Skrauthólum 2, Kjalarnesi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Einnig er kærð ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 að hafna beiðni kærenda um að taka til endurskoðunar og/eða afturköllunar útgáfu umrædds starfsleyfis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 12. maí 2023.

Málavextir: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf út hinn 3. ágúst 2021 starfsleyfi fyrir tjald-svæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Samkvæmt ofanflóðahættumati sem unnið var af Veður-stofu Íslands er býlið Skrauthólar og nágrenni þess á hættusvæði C. Í umsögn um rekstur tjaldsvæðis í landi Skrauthóla, dags. 3. júní 2015, lagði Veðurstofan til að gerð rýmingar-áætlunar fyrir tjaldsvæðið yrði sett sem skilyrði fyrir tjaldsvæðarekstri á svæðinu. Slík áætlun var gerð og er gildistími leyfisins til 3. ágúst 2033. Íbúar Skrauthóla 2 og 3 fóru þess á leit við heilbrigðiseftirlitið 19. desember 2022 að stofnunin tæki til endurskoðunar umrætt starfsleyfi með vísan til þess að ný gögn væru fram komin og að leyfishafi uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir útgáfu leyfisins. Var beiðninni synjað af hálfu heilbrigðiseftirlitsins 23. febrúar 2023 með vísan til þess að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sjái heilbrigðiseftirlitið hvorki ástæðu né grundvöll til þess.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi gert mistök við upphaflega útgáfu starfsleyfis fyrir Skrauthóla 4. Ekki hafi verið rétt staðið að vinnslu málsins auk þess sem leyfishafi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir leyfinu. Þá hafi komið fram ný gögn í málinu sem kalli á endurskoðun heilbrigðiseftirlitsins á starfsleyfinu, auk þess sem núverandi starfsemi sé ekki í samræmi við það sem starfsleyfið taki til.

Umrætt starfsleyfi sé gefið út fyrir starfsemi á heils árs grundvelli þvert á fyrirliggjandi hættu-mat vegna ofanflóðahættu á svæðinu. Þegar ákvörðun um starfsleyfi hafi verið tekin hafi að auki legið fyrir umsögn Veðurstofu Íslands um að gert væri ráð fyrir að starfsemi tjaldsvæðisins yrði að hámarki 3–5  mánuðir á ári. Frá útgáfu starfsleyfisins hafi eigandi Skrauthóla 4 einnig sótt um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði þar sem óskað hafi verið eftir heimild til að innrétta íbúðir í óskráðum atvinnu- og útihúsum á lóðinni. Hafi þeirri beiðni verið hafnað af hálfu umhverfis- og skipulagsráðs 24. ágúst 2022 á þeim forsendum að jörðin Skrauthólar væri á hættusvæði vegna ofanflóða. Skýrt sé að ekki megi breyta atvinnuhúsnæði eða öðru húsnæði þannig að viðvera eða heildaráhætta aukist.

Starfseminni fylgi mikið ónæði sem meðal annars felist í því að öll umferð til og frá svæðinu fari í gegnum hlað/bílastæði lóðanna Skrauthóla 2 og 3. Við aukna umferð hafi til að mynda orðið slys og dauði húsdýra. Kalla hafi þurft á lögreglu sökum ónæðis frá svæðinu og sé hrein-læti verulega ábótavant. Þá leiki grunur á að skólpmálum sé verulega ábótavant og að ekki séu til staðar viðunandi rotþrær fyrir svæðið. Gisting sé leigð í ónýtum ökutækjum sem innréttuð hafi verið sem gistiaðstaða. Sala á veitingum eigi sér stað þrátt fyrir að ekki séu til þess tilskilin leyfi og hafi ónýtum strætisvagni verið komið fyrir á lóðarmörkum Skrauthóla 2 og 4 sem virðist vera notaður sem sorpgeymsla.

Að lokum virðist sem að útgefið starfsleyfi fari í bága við Aðalskipulag Reykjavíkur þar sem umrætt svæði sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki séu forsendur fyrir annars konar atvinnustarfsemi á svæðinu.

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er gerð krafa um frávísun málsins. Bent sé á að kærufrestur vegna starfsleyfisins sé löngu liðinn og svar heilbrigðiseftirlitsins, dags. 23. febrúar 2023, hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun. Í umræddu svari hafi verið farið yfir efnisatriði erindisins og jafnframt vakin athygli á því að heilbrigðiseftirlitið teldi hvorki ástæðu né grundvöll fyrir endurskoðun starfsleyfisins. Með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi ástæður þær sem kærendur töldu að gæfu tilefni til endurskoðunar leyfisins ekki verið þess eðlis að þær kölluðu á endurskoðun eða afturköllun þess. Slík ákvörðun væri íþyngjandi fyrir rekstraraðila og yrði ekki tekin nema að undangengnu ferli þar sem málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins yrðu að vera uppfylltar. Þar beri helst að nefna reglur um rannsóknarskyldu, andmælarétt og meðalhóf. Vissulega hafi umrædd atriði verið tekin til skoðunar og verði áfram höfð til hliðsjónar varðandi eftirlit með starfsemi tjaldsvæðisins.

Áréttað sé að við undirbúning umsóknar um starfsleyfi hafi verið horft til mats Veðurstofunnar vegna ofanflóða á Kjalarnesi og sérstakrar rýmingaráætlunar sem sé að finna í deiliskipulagi fyrir Skrauthóla 4. Þar komi fram að: „[Í] ljósi árstíðabundins rekstrartíma, sem gera megi ráð fyrir að verði að hámarki 3–5 mánuðir á ári, megi færa rök fyrir því að heildarviðvera starfs-fólks og gesta sé takmörkuð þannig að einstaklingsáhætta sé viðunandi.“ Með hliðsjón af þessu hafi ekki verið talin ástæða til að takmarka leyfið við ákveðin tíma ársins, enda væri á veturna um að ræða hlutfallslega lítinn og/eða tilfallandi gestafjölda. Auk þess beri rekstraraðila ávallt að taka mið af aðstæðum hverju sinni og jafnframt rýma tjaldsvæðið um leið og Veðurstofan eða Almannavarnir ríkisins lýsi yfir óvissustigi vegna skriðufalls/áhættu sem nánar sé útfært í rýmingaráætlun tjaldsvæðisins. Við útgáfu starfsleyfisins hafi heilbrigðiseftirlitið metið, og geri enn, að aðgangsstýring að tjaldsvæðinu innan marka núgilandi leyfis sé fullnægjandi.

Að lokum telji heilbrigðiseftirlitið að ekki sé um nein ný gögn að ræða sem kalli á endurskoðun eða afturköllunar starfsleyfisins. Þau atriði hafi engu að síður verið tekin til skoðunar og verði höfð til hliðsjónar varðandi eftirlit með starfsemi tjaldsvæðisins.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vísa til þess að þau hafi búið á Skrauthólum 4 í nær tíu ár. Jörðin hafi verið keypt þar sem náttúran og fegurð umhverfisins hafi hentað þeirri starfsemi sem þau hygðust setja upp og gæti að auki verið þeirra heimili. Það hafi því verið visst áfall þegar skýrsla um ofanflóðamat hafi verið gefin út rúmlega sex mánuðum eftir kaupin. Sökum þess hafi þau ekki enn fengið að skrá lögheimili sitt á jörðinni. Hins vegar hafi leyfishafar mætt miklum stuðningi og þolinmæði af hálfu starfsmanna Reykjavíkurborgar hvað varði skilyrði fyrir tjaldsvæðinu svo unnt væri að hefja reksturinn. Vissulega sé um öðruvísi gistingu að ræða að mati margra, en um sé að ræða lífstíl sem sé heill, sannur og friðsamlegur.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru framkomin sjónarmið og kröfur. Þá hafi kærendur hvorki verið upplýstir um útgáfu starfsleyfisins né hafi verið haft samráð við þá vegna útgáfu þess. Því sé vandséð hvernig kærendur hefðu getað kært útgáfu þess innan til-skilins kærufrests. Ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að neita að taka til endurskoðunar starfsleyfið þrátt fyrir nýtilkomin gögn, breytingar á starfsemi og fjölda brota hafi þó verið kærð innan tilskilins tímafrests.

Starfsemin að Skrauthólum 4 hafi ekki rekstrarleyfi til sölu gistingar, sbr. 1. og 2. gr. reglu-gerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og nái umþrætt starfs-leyfi eingöngu til tjaldsvæðisins. Hafi heilbrigðiseftirlitið algjörlega litið framhjá sölu gistingar á gististöðum í starfsleyfinu sem þó sé eftirlitshlutverk þess. Sala gistingar hafi verið starfrækt samhliða rekstri tjaldssvæðisins allt árið síðan í desember 2016. Vegna þessa skorts á starfs- og rekstrarleyfi Skrauthóla 4 séu ýmsar greinar reglugerðar nr. 1277/2016 snið-gengnar, sérstaklega greinar 5, 9 og 27. Ljóst sé að umsögn Veðurstofunnar, dags. 11. júlí 2022 mæli eindregið gegn aukinni viðveru fólks á svæðinu, en kjósi heilbrigðiseftirlitið að líta framhjá því og telji ekki til nýrra gagna. Þá sé því mótmælt sérstaklega að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Vísað sé til mats fasteignasala sem lækkað hafi verðmat Skrauthóla 3 um milljónir króna þegar eignin hafi verið seld fyrir tæpu ári vegna nábýlis við starfsemina á Skrauthólum 4.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar skv. 2. tl. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. Skal þó kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hið kærða starfsleyfi var gefið út 3. ágúst 2021, eða tæplega tveimur árum áður en úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu. Af málsgögnum má ráða að kærendum hafi verið ljóst eigi síðar en í maí 2022 að starfsleyfi fyrir rekstri tjaldsvæðisins hafi verið gefið út. Verður þeim hluta málsins af þeim sökum því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga. Stendur þá eftir ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um endurskoðun starfsleyfisins.

Almennt hefur verið litið svo á að synjun um endurupptöku stjórnsýslumáls sé stjórnvalds-ákvörðun þar sem hún feli í sér bindandi niðurstöðu eða úrlausn um rétt eða skyldu borgaranna. Verður að meta í hverju tilviki hvort slíkri ákvörðun sé til að dreifa eða hvort afstaða stjórnvalds feli fremur í sér leiðbeiningar eða lið í meðferð máls. Kemur þar til álita að hvaða marki í slíku tilsvari til er að dreifa afstöðu til atvika máls eða beitingu laga. Af málsgögnum má ráða að kærendur hafa átt nokkur samskipti við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vegna starfsemi leyfishafa sem varðað hafa m.a. forsendur leyfisveitingar, skort á eftirliti og slæma umgengni. Með téðri ákvörðun frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni um endurskoðun starfsleyfis var fjallað um þessi málefni, athugasemdum hafnað lið fyrir lið og því slegið föstu að ekki væru skilyrði til að endurskoða eða breyta starfsleyfinu. Verður að álíta að með þessu sé til að dreifa afstöðu stjórnvalds sem feli í sér ákvörðun sem borin verður sem slík undir nefndina, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998.

Um endurskoðun og breytingar á starfsleyfum vegna breyttra forsendna eru sérstök ákvæði í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Þau dæmi sem þar eru tiltekin varða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfi var gefið út og ef til er að dreifa breytingum á rekstri sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytingar á reglum um mengunarvarnir, sem og breytingar á aðalskipulagi. Þá er jafnframt til þess að líta að þegar ákvörðun stjórnvalds er haldin annmarka kann hún að vera ógildanleg ef ann-markinn telst verulegur og veigamiklar ástæður mæla ekki gegn því og er því stjórnvaldi sem tók ákvörðunina þá heimilt að afturkalla hana  sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu kærenda hefur því verið haldið fram að umrætt starfsleyfi hafi verið gefið út til heils árs þvert á fyrirliggjandi hættumat vegna ofanflóða. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er bent á að í deiliskipulagi sé reifað að ljósi árstíðabundins rekstrartíma, sem gera megi ráð fyrir að verði að hámarki 3–5 mánuðir á ári, megi færa rök að því að heildarviðvera starfsfólks og gesta sé takmörkuð þannig að einstaklingsáhætta sé viðunandi og hafi þetta mat legið fyrir við útgáfu leyfisins í upphafi. Af greinargerð skipulagsins má ráða að gert hafi verið ráð fyrir því að sett yrðu skilyrði um sérstaka rýmingaráætlun vegna ofanflóðahættu og er hún meðal málsgagna.

Kærendur hafa bent á að leyfishafi hafi ekki aflað rekstrarleyfis til sölu gistingar í aflögðum strætisvögnum og vísað af því tilefni til reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Af þessu tilefni skal athugað að þeim sem starfrækja tjaldsvæði getur verið skylt að afla leyfa fyrir annarri skyldri starfsemi, svo sem gert er ráð fyrir í gr. 1.4. í sam-ræmdum starfsleyfisskilyrðum vegna hollustuhátta fyrir hjólhýsa-, smáhýsa- og tjaldsvæði, sem vísað er til í hinu kærða leyfi. Eftirliti með gistingu sem og veitingaþjónustu er markaður farvegur með ákvæðum laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og vísast til ákvæða þeirra laga um möguleg viðurlög, sé óskráðri gistingu til að dreifa. Önnur atriði sem færð hafa verið fram af hálfu kærenda varða meint brot á starfsleyfisskilyrðum, m.a. um fráveitu, slæma umgengni, hávaða, ágang o.fl. Verða þessi atriði ekki talin fela í sér breyttar forsendur starfsemi skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, en til þess er að líta að með því að heimila rekstur tjaldsvæðis með aðkomu um sameiginlegt bæjarhlað mátti frá upphafi gera ráð fyrir umtalsverðum grenndaráhrifum.

Að endingu er því haldið fram að útgefið starfsleyfi fari í bága við aðalskipulag Reykjavíkur þar sem umrætt svæði sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki séu forsendur fyrir annars konar atvinnustarfsemi á svæðinu. Deiliskipulagi svæðisins hefur ekki verið breytt síðan leyfið var gefið út og er því breyttum forsendum ekki til að dreifa um það. Þá er ljóst af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að á landbúnaðarsvæðum á Kjalarnesi er gert ráð fyrir hefðbundinni ferða-þjónustu bænda, svo sem það er orðað í skipulagsáætluninni, og liggur fyrir að mat var lagt á það hvort starfsemi kæranda, eins og henni var lýst í upphafi, samrýmdist skipulagi.

Með vísan til alls framangreinds hafnar úrskurðarnefndin kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um endurskoðun starfsleyfis í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

Telji kærendur að Reykjavíkurborg hafi með samþykkt skipulagsáætlana valdið þeim tjóni þá geti þeir á grundvelli 51. gr. skipulagslaga átt rétt á bótum, en slík mál verða einungis rekin fyrir dómstólum. Gildir hið sama um mögulegar bætur vegna ætlaðs tjóns með tilliti til grenndaráhrifa.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi er vísað frá nefndinni.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni um að taka til endurskoðunar og/eða afturkalla starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

44/2023 Alifuglabúið Brautarholti

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur

Fyrir var tekið mál nr. 44/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, um að hafna kröfu kæranda um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti 5, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. apríl 2023, er barst nefndinni 5. s.m., kærir  eigandi og ábúandi jarðarinnar Brautarholts 1, á Kjalar-nesi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, að hafna kröfu hans um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabús að Brautarholti 5, Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli niður starfsleyfið.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 3. maí 2023.

Málavextir: Í Brautarholti á Kjalarnesi er starfrækt þauleldi alifugla og svína. Annars vegar í 2.575 m2 eldishúsi fyrir alifugla sem er í um 200 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda og hins vegar 5.100 m2 svínahúsi sem er í um 100 m fjarlægð frá alifuglahúsinu og í 325 m fjarlægð frá íbúðarhúsi kæranda. Í alifuglahúsinu var svínaeldi fram til ársins 2010. Árið 2016 var húsið tekið að nýju til notkunar og þá sem eldishús fyrir alifugla. Samkvæmt starfsleyfi, dags. 11. apríl 2016, er heimild fyrir 35.550 eldisstæðum alifugla í húsinu. Svínahúsið hefur heimild fyrir eldi á 4.000 grísum.

Hinn 25. mars 2021 óskaði kærandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að skipaðir yrðu matsmenn til að leggja mat á ýmis atriði varðandi stöðu mengunarmála og annarra atriða sem hann taldi að væri ábótavant á svæðinu vegna starfsemi eldisbúanna. Fyrir liggur skýrsla matsmanna, dags. 3. júní 2022. Kærandi krafðist þess 2. ágúst s.á., að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur afturkallaði starfsleyfi alifuglabúsins vegna mengunar. Þeirri kröfu var hafnað 29. september s.á. Krafan var ítrekuð gagnvart Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur 25. janúar 2023. Var þeirri beiðni hafnað af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 8. mars s.á. og er það sú afgreiðsla stjórnvalds sem borin er undir nefndina í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að forsendur fyrir útgáfu starfsleyfis alifuglabúsins á Brautarholti 5, á Kjalarnesi séu brostnar. Mörg skilyrði starfsleyfisins séu ekki og hafi aldrei verið uppfyllt. Einnig samræmist starfsemi og staðsetning alifuglabúsins ekki lögum og reglu-gerðum. Byggi þetta meðal annars á niðurstöðum dómskvaddra matsmanna frá 3. júní 2022, en þar komi fram að í starfsleyfinu sé kveðið á um að starfsemin þurfi að uppfylla skilyrði bestu aðgengilegu tækni samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna þétt-bærs eldis alifugla eða svína, sem innleidd hafi verið með reglugerð nr. 935/2018. Ákvæði nr. 11, 13, 23 og 26 sem eigi við um starfsemina séu meðal annars ekki uppfyllt, en staðfest hafi verið rykmengun frá útblástursstút á þaki hússins, enginn búnaður sé í húsinu til lyktareyðingar og ekki sé til staðar umhverfisstjórnunarkerfi.

Í matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur komi fram að 12. mars 2015 hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sent umsögn til umhverfisráðuneytisins varðandi beiðni þáverandi rekstraraðila alifuglahússins um undanþágu frá fjarlægðarmörkum skv. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. heimild í 74. gr. þeirrar reglugerðar. Þar hafi verið komið inn á nauðsyn mengunarvarna og tekið fram að setja þyrfti viðeigandi mengunarvarnarbúnað til að lágmarka óþægindi af völdum starfseminnar. Tekið hafi verið fram að kröfur um slíkan búnað yrðu settar í starfsleyfi búsins og yrði hann að vera til staðar áður en rekstur hæfist. Hafi þar einnig komið fram að lyktarmengun vegna stórra alifuglabúa geti verið vandamál sem valdi skaða á heilsu manna sé hún viðvarandi auk þess að hún rýri lífsgæði. Útblæstrinum geti einnig fylgt möguleg smithætta.

Fjarlægðarmörk í reglugerðinni séu tilkomin til að vernda heilsu nágranna og takmarka ónæði. Með reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hafi verið settar reglur um slík eldishús, m.a. um fjarlægð frá þeirra frá nýframkvæmdum og meiri háttar breytingum á húsnæði. Þar sé engin heimild til að veita undantekningar frá fjarlægðarreglum. Þrátt fyrir þetta hafi árið 2016 verið samþykkt undantekning frá fjarlægðarreglum fyrir alifuglabúið í Brautar-holti. Með matsgerð dómkvaddra matsmanna sé nú sannað að forsendur fyrir þeirri undanþágu hafi verið ólögmætar. Þá séu brostnar þær forsendur sem þá hafi verið miðað við, en ýmis skilyrði í starfsleyfinu sem kveði á um viðeigandi mengunarbúnað hafi aldrei verið uppfyllt.

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna komi fram að fjarlægðin milli svínabúsins og alifuglabúsins í Brautarholti sé aðeins 100 m. Sú fjarlægð uppfylli ekki skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015, en þar komi fram að lágmarksfjarlægð milli húsanna skuli vera 300 metrar. Í matsgerðinni komi fram að ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 1. september 2016 um að samþykkja breytingar á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi fari gegn fjarlægðarmörkum a. og b. liðar 2. mgr. 4. gr. reglugerðar 520/2015, þar sem um matvæla-fyrirtæki sé að ræða. Þá eigi fjarlægðarmörk 6. gr. reglugerðarinnar við þegar um sé að ræða meiriháttar breytingar á eldri mannvirkjum. Sé það staðfest í matsgerðinni að breytingar á Brautarholti 5 árið 2016, þegar fasteigninni var breytt vegna fyrirhugaðs alifuglaeldis, hafi verið meiriháttar og því eigi framangreind 300 m fjarlægðarmörk við í öllum tilvikum.

Við mat á fjölda lyktareininga hafi hinir dómkvöddu matsmenn gefið sér tvenns konar forsendur varðandi samsetningu dýra og komist að þeirri niðurstöðu að fjöldi lyktareininga á svæðinu umhverfis svína og alifuglahúsin væri á bilinu 97.000–156.000 OUE. Sé miðað við leyfilegt hámark skv. reglugerð nr. 520/2015 væri hámark lyktareininga fyrir sama svæði 80.000 OUE, þar af væru 42.000 OUE frá alifuglabúinu. Framangreind niðurstaða matsmanna á fjölda lyktareininga á svæðinu staðfesti að sá fjöldi lyktareininga sem heilbrigðiseftirlitið hafi miðað við á sínum tíma sé rangur. Þar með væru brostnar þær forsendur heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingu leyfisins að fjöldi lyktareininga í alifuglahúsinu yrði minni heldur en þegar þar hafi verið svínabú. Eigi það einnig við um forsendur fyrir veittri undanþágu frá skilyrðum reglugerðar nr. 520/2015.

Hinar röngu forsendur heilbrigðiseftirlitsins hafi á sínum tíma byggst á neðri mörkum í einni danskri handvalinni tilraun og hafi verið ályktað á grundvelli hennar að fjöldi lyktareininga í fyrirhuguðu alifuglabúi yrði ekki meiri en 8–10.000 OUE. Með því að velja neðri mörkin hafi heilbrigðiseftirlitið talið sig getað sýnt fram á að um minniháttar breytingar væri að ræða sem ekki hefðu í för með sér aukin óþægindi í skilningi 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Með þessu hafi undanþága verið réttlætt á þeirri forsendu að um væri að ræða framhald af eldri rekstri sem hefði mengað meira en hinn fyrirhugaði rekstur alifuglabúsins. Hefði heilbrigðiseftirlitið reiknað rétt á sínum tíma og í samræmi við niðurstöðu í matsskýrslu hefði leyfið aldrei verið veitt.

Samkvæmt gr. 1.1. í núgildandi starfsleyfisskilyrðum gildi það fyrir eggjaframleiðslu, eldi á allt að 15.000 hænuungum og 20.550 varphænum, alls séu þetta 35.550 eldisstæði. Heilbrigðiseftirlitið hafi hins vegar upplýst að raunveruleikinn væri allt annar því við yfirfærslu leyfisins til nýs rekstraraðila, Stjörnueggja ehf., hafi verið heimilað að hafa í húsinu 28.000 varphænur og enga unga. Þessar breytingar hafi ekki verið færðar í gildandi starfsleyfi sem sé opinbert og endurspegli því ekki raunveruleikann. Sé þetta mjög einkennileg stjórnsýsla sem uppfylli ekki formkröfur. Í þessu samhengi sé vísað til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 þar sem fram komi að við endurskoðun eða breytingu starfsleyfa skuli stofnunin auglýsa drög að slíkri breytingu í að lágmarki í fjórar vikur.

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 163/2016 uppkveðnum 12. júní 2017, hafi nefndin hafnað mótmælum kæranda við útgáfu starfsleyfis fyrir alifuglabúið. Aðstæður séu gjörbreyttar frá þeim tíma. Starfsleyfisskilyrði hafi ekki verið uppfyllt og uppfylli starfsemin ekki laga- og reglugerðarákvæði. Til viðbótar telji heilbrigðiseftirlitið sig hafa breytt starfs-leyfinu munnlega.

Árið 2016, þegar heilbrigðiseftirlitið gaf undanþágu frá fjarlægðarmörkum hafi ekki verið horft til þess að um væri að ræða: a) hús sem hafði staðið tómt í sex ár, b) að skipt hafi verið um dýrategund, c) að um meiriháttar breytingar á húsnæðinu væri að ræða sem kallaði á breytingar á deiliskipulagi, d) um hafi verið að ræða nýjan starfsleyfishafa, e) útreikningar á mengun hafi komið frá starfsleyfishafa sjálfum, en heilbrigðiseftirlitið hafi ekki framkvæmt sjálfstætt mat og f) að í 100 m fjarlægð var eitt stærsta svínabú landsins og að allt of stutt væri milli húsanna samkvæmt fortakslausum skilyrðum í reglugerð nr. 520/2015 sem var í gildi á þeim tíma.

Við mat á niðurfellingu starfsleyfis fyrir alifuglabúið telur kærandi að heilbrigðiseftirlitinu hefði borið að horfa til þess að viðurkennt sé að útblástursmengun frá stórum hænsnabúum sé hættuleg heilsu manna. Að auki sé eitt stærsta svínabú landsins í innan við 100 m frá alifugla-búinu.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Vísað er til máls nr. 163/2016 fyrir úrskurðar-nefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem nefndin hafnaði kröfu kæranda um ógildingu um-þrætts starfsleyfis fyrir alifuglabúið sem gefið var út 8. nóvember 2016. Áður hafi úrskurðar-nefndin einnig hafnað kröfu kæranda um ógildingu á breytingu á skilmálum deiliskipulags Brautarholts á Kjalarnesi, vegna lóðarinnar nr. 5 í Brautarholti, þar sem starfsemi alifuglabús var heimiluð. Allir kærufrestir vegna starfsleyfisins séu löngu liðnir og geti kærandi ekki öðlast nýjan kærufrest með því einu að krefjast á ný afturköllunar starfsleyfisins fyrir úrskurðar-nefndinni. Sé það mat heilbrigðiseftirlitsins að engri kæranlegri ákvörðun sé að dreifa í málinu og beri því að vísa kærunni frá af þeim sökum.

Í svarbréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 29. september 2022, hafi verið tekið fram að reglubundið eftirlit með starfseminni hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða eða afturkalla starfsleyfið. Þar að auki sé það mat heilbrigðiseftirlitsins að tilvitnuð matsgerð frá 3. júní 2022 hafi ekki leitt í ljós annmarka sem gæfu tilefni til niðurfellingar starfsleyfisins. Kærandi hafi ekki fært fram nein rök eða gögn máli sínu til stuðning önnur en framangreinda matsgerð. Hafi umrædd matsgerð ekkert gildi í máli þessu þar sem henni hafi verið einhliða aflað af hálfu kæranda og sé hluti gagna í dómsmáli sem rekið sé af hálfu kæranda gegn Reykjavíkurborg fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Reykjavíkurborg hafi gert margvíslegar athugasemdir við mats-gerðina og verði tekist á um sönnunargildi hennar fyrir dómi.

Þess er krafist að vísað verði frá kröfu um að lagt verði fyrir heilbrigðiseftirlitið að sjá til þess að starfsleyfi alifuglabúsins verði fellt niður og búinu lokað, enda ekki á valdsviði nefndarinnar að mæla fyrir um tilteknar athafnir stjórnvalda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi hafnar því alfarið að grundvöllur sé fyrir því að vísa málinu frá. Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 njóti það stjórnvald sem gefi út leyfi heimildir til þess að afturkalla það. Í bréfi til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 25. janúar 2023 komi skýrt fram að óskað sé eftir skriflegri ákvörðun stjórnvalds. Í 2. mgr. 1. gr. stjórn-sýslulaga komi fram að lögin gildi þegar ákvarðanir séu teknar um rétt eða skyldu manna. Í þessu máli hafi kærandi orðið fyrir ólögmætri mengun og ákvæði reglugerða og starfsleyfa vegna reksturs alifuglabúsins séu ekki uppfyllt.

Kærandi hefur fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en lét ekki málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að fella úr gildi starfsleyfi alifuglabúsins að Brautarholti 5, Kjalarnesi. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir heilbrigðiseftirlitið að uppfylla lagaskyldur sínar skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og sjá til þess að starfsleyfið verði fellt úr gildi og búinu lokað. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin felli niður téð starfsleyfi. Með þessu er bæði gerð krafa um afturköllun starfsleyfisins, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og kvartað yfir meintu aðgerðarleysi heilbrigðiseftirlitsins við eftirlit með starfsemi alifuglabúsins.

Með úrskurði í máli nr. 163/2016, uppkveðnum 12. júní 2017, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kæranda um ógildingu starfsleyfis til alifuglabúsins, m.a. með vísan til þess að á svæðinu sem um ræði væri þegar staðsett hús til þauleldis svína og að áður hafi verið starfrækt svínaeldi í Brautarholti 5. Í ljósi þess yrði að telja ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins og með því breytingu á notkun hússins óverulega en ekki meiri háttar og því félli hún ekki undir fjarlægðarreglu 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína.

Því stjórnvaldi sem tók stjórnvaldsákvörðun sem haldin er verulegum annmarka er almennt heimilt að afturkalla hana ef veigamiklar ástæður mæla ekki gegn því, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Geta sjónarmið um meðalhóf og réttmætar væntingar talist til þeirra sjónar-miða sem mæla gegn því að stjórnvaldsákvörðun sé felld úr gildi þrátt fyrir verulegan ann-marka. Kærandi hefur í máli þessu fært fram sjónarmið um að umhverfisáhrif alifuglabúsins séu umtalsvert meiri en gert hafi verið ráð fyrir við útgáfu starfsleyfisins. Hefur hann aflað álits dómkvaddra matsmanna sem hafa fært fram rökstuðning þar að lútandi. Beiðni hans um aftur-köllun leyfisins hefur á hinn bóginn ekki hlotið efnislega umfjöllun af hálfu heilbrigðis-eftirlitsins. Engum rökstuðningi leyfisveitanda er því til að dreifa um hvort skilyrði séu til afturköllunar skv. 25. gr. stjórnsýslulaga. Var þó fullt tilefni til slíkrar umfjöllunar. Með vísan til þessa verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til heilbrigðiseftirlitsins að nýju til frekari meðferðar.

Í 60. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, starfsleyfum eða samþykktum sveitarfélaga sé heilbrigðisnefnd heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skuli veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Um nánari heimildir til að beita þvingunarúrræðum vísast til ákvæða 61–64. gr. laganna, einkum fyrirmæla 63. gr., þar sem heilbrigðisnefnd er heimilt að stöðva starfsemi eða takmarka hana til bráðabirgða sé um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests.

Fjallað er um skyldur rekstraraðila í XI. kafla laga nr. 7/1998. Skulu rekstraraðilar skv. 40. gr. laganna, sbr. viðauka I-IV, tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almennar kröfur, sbr. 8. gr. Er og mælt fyrir um eftirlit með atvinnurekstri í XIV. kafla laga nr. 7/1998. Skal skv. 54. gr. laganna vera eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I-IV með lögunum, sem taki til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipti, sem og hollustuhátta. Fellur eldi alifugla með færri en 40.000 stæði fyrir alifugla undir viðauka IV með lögunum og þar með undir eftirlit heilbrigðisnefndar, sem jafnframt gefur út leyfi fyrir starfseminni, sbr. og X. viðauka reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Mælt er fyrir um í 57. gr. reglugerðarinnar að heilbrigðisnefndir skuli annast eftirlit með atvinnu-rekstri skv. X. viðauka reglugerðarinnar.

Eftirlitsaðili skal hafa eftirlit með atvinnurekstri til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir starfsemina, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 7/1998, og verði frávik skal krefja rekstraraðila um að gera hverjar þær viðeigandi viðbótarráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar til að koma reglufylgni á aftur, sbr. 2. mgr. Ákvarðanir samkvæmt XI. kafla laga nr. 7/1998 verða bornar undir úrskurðarnefndina til úrskurðar, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna. Getur það eftir atvikum einnig gilt um athafnir sem fela í sér ákvörðun um að grípa ekki til ráðstafana samkvæmt XI. kafla laganna.

Í 1. gr. viðauka 2.2 í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 er kveðið á um að framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé m.a. heimilt að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem talinn er í IV. viðauka við lög nr. 7/1998, í stað heilbrigðisnefndar, sbr. einnig heimild í 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 2. mgr. 48. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Þá er mælt fyrir um í 2. mgr. 2. gr. samþykktar fyrir Heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar frá 20. september 2022 að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar annist framkvæmd stefnu og verkefna heilbrigðisnefndar.

Af málsgögnum má ráða að kærandi hefur átt nokkur samskipti við heilbrigðiseftirlitið vegna starfsemi leyfishafa sem varðað hafa m.a. forsendur leyfisveitingar, skort á eftirliti o.fl. Eins og áður er rakið hefur kærandi aflað álits dómkvaddra matsmanna um starfsemi alifuglabúsins. Í því eru gerðar fjölmargar athugasemdir, m.a. um að BAT-skilyrði sem þurfi að uppfylla samkvæmt starfsleyfinu sem varði rykmengun séu ekki uppfyllt og að ekki sé búnaður til lyktareyðingar. Þá sé ekki starfrækt umhverfisstjórnarkerfi. Eins hafi verið heimiluð breyting á starfseminni við yfirfærslu hennar til nýs rekstraraðila, sem hafi falið í sér breytta notkun, sem geti valdið óþægindum umfram það sem fyrir var, í bága við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 520/2015. Hafi sú breyting ekki verið auglýst sem fari í bága við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Í álitinu er lagt mat á fjölda lyktareininga í tengslum við samanlagðan rekstur svínabús og alifuglabús í Brautarholti og er hann álitinn umfram heimildir samkvæmt reglugerð nr. 520/2015.

Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins frá 8. mars 2023 var brugðist við kröfum um afturköllun starfs-leyfis og athugasemdum um brot á starfsleyfisskilyrðum sem fram höfðu komið með bréfi kæranda, dags. 2. ágúst 2022. Þar er fjallað um undirbúning leyfisins á sínum tíma, en um eftir-lit með starfseminni er aðeins vísað til bréfs heilbrigðiseftirlitsins til kæranda frá 29. september s.á. Í því bréfi segir, án nokkurs frekari rökstuðnings, að reglubundið eftirlit heilbrigðis-eftirlitsins og skoðunarferðir þess vegna kvartana kæranda um lykt hafi ekki gefið tilefni til að endurskoða eða afturkalla starfsleyfi alifuglabúsins. Þá hafi matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem vísað hafi verið til í bréfinu frá 2. ágúst 2022, ekki gefið tilefni til niðurfellingar starfsleyfisins að mati heilbrigðiseftirlitsins.

Með hliðsjón af þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla við framkvæmd laga nr. 7/1998 og þeirra sjónarmiða sem kærandi hefur fært fram um brot á starfsleyfisskilyrðum og mat á lyktarmengun, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að greint bréf frá 2. ágúst 2022 hefði átt að vera ítarlegra og fela í sér efnisleg andsvör við framkomnum athugasemdum. Við með-ferð þessa máls hefur heilbrigðiseftirlitið ekki gert nokkurn reka að því að færa fram slík svör eða veita nánari upplýsingar um starfsemi alifuglabúsins, þ.m.t. hvort til sé að dreifa brotum á starfsleyfisskilyrðum og þá hvernig eða hvort brugðist hafi verið þeim. Í þessu felst slíkt athafnaleysi að tilefni er til að vísa meðferð málsins að þessu leyti til heilbrigðiseftirlitsins til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 8. mars 2023, um að hafna kröfu um að starfsleyfi alifuglabús að Brautarholti 5, Kjalarnesi verði fellt úr gildi og er málinu vísað til heilbrigðiseftirlitsins að nýju til frekari meðferðar.

 

 

 

67/2023 Árbakki

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 9. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 24. maí 2023 kærir eigandi, Birkivöllum 14, Árborg, þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að ekki verði gefin út byggingarleyfi á grund­velli hins kærða deiliskipulags fyrr en jarðtæknileg rannsókn skv. gr. 8.1.5. í byggingar­reglugerð hafi verið gerð. Þá er þess einnig krafist að landeigandi og/eða sveitarfélagið kalli til óháða matsmenn, með sérfræðiþekkingu á grundunarhæfni byggingarlands, til að meta hvort land­svæðið sé byggingarhæft. Að auki er þess krafist að landeigandi láti vinna jarðtækniskýrslu sam­kvæmt Eurocode 7 auk verklýsingar og uppdrátta á því hvernig sé mögulegt á flóðasvæðinu að grunda mannvirki með viðurkenndum aðferðum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 13. júlí 2023.

Málavextir: Auglýsing vegna samþykktar bæjarstjórnar Árborgar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. júní 2023. Þar kom m.a. fram að tillagan hefði verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 28. apríl s.á., í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og auglýst í samræmi við 41. gr. sömu laga og að athugasemdir hefðu borist á auglýsingatímanum. Deiliskipulagssvæðið tæki til um 20 ha svæðis og að í breytingartillötunni væri íbúðum fjölgað um 263 frá eldra deiliskipulagi og gert ráð fyrir u.þ.b. 550 íbúðum í sérbýlis- og fjölbýlishúsum og lóð undir leikskóla. Var kærandi í máli þessu á meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur breytingu deiliskipulagsins ekki vera í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036 og vísar m.a. til flóðahættu, loftmengunar og hljóðvistar. Hæð gólfkóta húsa í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi í för með sér verulega flóðahættu á 25-50 ára fresti. Á deiliskipulagsuppdrætti sé hvorki greint frá flóðasvæðinu né sé það merkt inn á uppdráttinn en í aðalskipulagi komi fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir flóðasvæðum þar sem við eigi. Þá séu fjórar lóðir staðsettar á skráðum og virkum jarðskjálftasprungum sem samrýmist ekki aðalskipulagi. Þar sem sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því skipulagi sem hún samþykki geti komið upp þær aðstæður að hafðar verði uppi skaðabótakröfur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar. Kostnaður sem falli á sveitarfélagið muni því falla á kæranda, sem íbúa sveitarfélagsins, í formi aukinna álaga.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að vísa beri málinu frá úrskurðar­nefndinni þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins. Kærandi búi ekki á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin taki til né heldur í nágrenni þess. Deiliskipulagsbreytingin hafi engin áhrif á verðmæti fasteignar hans. Hann hafi engra grenndarréttarlegra hagsmuna að gæta. Þá geti hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélags ekki leitt til þess að íbúar þess teljist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn tiltekins málefnis. Auk þess bendi ekkert til þess að skaðabótaábyrgð muni falla á sveitarfélagið vegna deiliskipulagsins enda sé það bæði í samræmi við lög og gildandi aðalskipulag. Loks eru færð fram efnisleg svör og ábendingar í tilefni af athugasemdum kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar sjónarmið sem varða m.a. flóðahættu, grundun og byggingarhæfi hins deiliskipulagða svæðis. Fram kemur m.a. að af þeim jarðvegsathugunum sem hafi verið gerðar sé ljóst að um sé að ræða risavaxna skál allt að 25 m að dýpt sem sé full af vatnsmettaðri mýri sem sitji á vatnsmettuðu árseti. Sá hluti sem eftir standi sé óstyrkur hraunjaðar. Þá ítrekar kærandi sjónarmið um hagsmuni sína og þar með rétt til aðildar að málinu. Hann hafi að gæta fjárhagslegra hagsmuna sem íbúi í sveitarfélaginu og hafi gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á undirbúningsstigi hennar, en þar með geti hann borið lögmæti ákvörðunarinnar undir úrskurðarnefndina.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er búsettur í Vallahverfi á Selfossi og byggir kæruaðild sína í máli þessu á því að hann sé íbúi í sveitarfélaginu Árborg, hann hafi sent inn athugasemdir og ábendingar vegna hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi og geti orðið fyrir fjárhagstjóni vegna skaðabóta sem sveitarfélaginu kynni að verða gert að greiða í framtíðinni. Með þessu er ljóst að kærandi býr í nokkurri fjarlægð frá mörkum deiliskipulagssvæðisins. Á milli heimilis kæranda og þess eru íbúagötur, Heilbrigðis­stofnun Suðurlands og fjölfarinn akvegur, Austurvegur. Liggur því ekki fyrir að umdeild deiliskipulagsbreyting raski grenndarhagsmunum kæranda. Þá varðar hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélagsins almenna hagsmuni allra íbúa þess en ekki einstaklega hagsmuni kæranda, en ekkert liggur fyrir um að til bótaábyrgðar geti komið.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. sömu laga, er fyrirkomulag auglýsingar að tillögu að breytingu á deiliskipulagi með þeim hætti að sveitarstjórn skal auglýsa hana með áberandi hætti svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna, sbr. 31. gr. Með svo víðtækri birtingu er almenningi gert kleift að koma að athugasemdum og er ekki gerð krafa um aðild að málinu til þess að unnt sé að koma þeim að. Verður kærandi því ekki talinn aðili málsins af þeirri ástæðu einni að hann hafi látið sig málið varða við þessa málsmeðferð. Réttaráhrif þess að athugasemdir berast við tillögu að deiliskipulagi eru hins vegar þau að sveitarstjórn er skylt að taka afstöðu til þeirra og hvort gera skuli breytingar á tillögunni, jafnframt því að auglýsa ber niðurstöðu sveitar­stjórnar sérstaklega, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Af framangreindu virtu verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Verður kröfu hans í málinu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

87/2023 Grjótháls

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 27. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 76/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfis til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfis til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2023, er barst nefndinni degi síðar, kæra Bón- og þvottastöðin ehf. og B&Þ rekstrarfélag ehf., Grjóthálsi 10, Reykjavík, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu byggingarleyfa, dags. 2. júní 2023, til Löðurs ehf., til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls nr. 8 og dags. 16. júní 2023, til sama aðila, á sömu lóð, til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás með auknu byggingarmagni frá því sem áður var.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til niðurrifs á hluta af þvottaaðstöðu, matshluta nr. 06, þ.e. rými 0104, 0105 og 0106 húss á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi til niðurrifs var gefið út 2. júní 2023. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 27. september 2022 var samþykkt leyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás, nýbyggingin er stálgrindarhús á steyptum sökklum í matshluta nr. 06 á lóð við Grjótháls 8. Borgarráð samþykkti afgreiðslu byggingarfulltrúa  á fundi sínum 6. október 2022. Byggingarleyfi var gefið út 16. júní 2023.

Kærendur álíta að byggingarleyfi sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Vísað er til þess að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir eldsneytissölu og skyldri starfsemi á lóðinni og að ekki hafi verið lokið við málsmeðferð tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar, sem verið hafi til meðferðar. Muni fyrirhuguð starfsemi koma til með að þrengja verulega að starfsemi kærenda á næstu lóð vegna aukinnar umferðar. Af hálfu leyfisútgefanda er því hafnað að leyfin samrýmist ekki skipulagi en sala eldsneytis og rekstur bílaþvottastöðvar sé skyld starfsemi og hafi verið bílaþvottastöð á lóðinni, sem um ræði, í áraraðir. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi sem sé í auglýsingu sé landnotkun lóðarinnar ekki breytt, en aðeins fjallað um nýtingarhlutfall fyrir byggingarreit á öðrum matshluta en þeim sem leyfi þessi varði, til að tryggja að nægilegt rafmagn verði til staðar á lóðinni. Af hálfu leyfishafa koma fram lík sjónarmið en auk þess er greint frá því að hluti af húsi hafi þegar verið rifið sem geri að verkum að starfsemi bílaþvottastöðvarinnar sé takmörkuð og því séu miklir hagsmunir bundir því að ekki verði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Hafa kærendur fært fram sjónarmið um grenndarhagsmuni sem rök fyrir aðild sinni að kærunni og verður að fallast á aðild þeirra á þeim grundvelli. Mál þetta snýst um samþykki á byggingarleyfisumsóknum um annars vegar niðurrif hluta eldra mannvirkis og hins vegar byggingu nýs mannvirkis í stað þess. Að virtum þeim sjónarmiðum sem liggja að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf sé á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þess efnis því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja eða halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt byggingarleyfi til niðurrifs í húsi á lóð við Grjótháls 8 og byggingarleyfi til að byggja bílaþvottastöð og þvottabás á sömu lóð.