Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2024 Efnistaka í Svarfaðardalsá

Árið 2024, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2024, kæra á ákvörðunum Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grafar og Brautarhóls í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð, ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar og ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar í landi Bakka. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð og Fiskistofu á tímabilinu 2. til 19. apríl 2024.

Málavextir: Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er greint frá því að Svarfaðardalsá, með Skíðdalsá sem í hana renni, sé 34 km löng dragá með 450 km2 vatnasvið og renni til sjávar við Dalvík. Í henni veiðist bleikja, urriði og einstaka lax. Veitt hafa verið leyfi til töku malarefnis úr árfarvegi Svarfaðardalsár og er í máli þessu deilt um slíkar heimildir, sem veittar voru af Fiskistofu á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, og Dalvíkurbyggð á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með útgáfu framkvæmdaleyfa þar að lútandi.

Með umsókn, dags. 20. apríl 2023, var óskað eftir heimild Fiskistofu til töku 37.000 m3 af möl úr eyrum Svarfaðardalsár í landi Bakka og kom fram að tilgangurinn væri að hreinsa upp nánar tilgreindar eyrar, þegar þær mynduðust, til að varna landbroti sem yrði þegar áin kastist frá þeim upp að bökkum hennar. Þá var hinn 2. maí 2023 sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til framkvæmdanna. Kom fram að óskað væri eftir leyfi til bakkavarna og malartöku í og við Svarfaðardalsá. Hinn 21. apríl 2023 var óskað heimildar Fiskistofu til töku á 20.000 m3 af möl úr þremur áreyrum á þremur samliggjandi stöðum í Svarfaðardalsá í landi Grundar. Um sama leyti var sótt um leyfi Dalvíkurbyggðar til efnistökunnar, en afgreiðslu þeirrar umsóknar var frestað á meðan unnið væri að breytingu á aðalskipulagi. Mun þeirri vinnu vera ólokið.

Téðum umsóknunum fylgdu skýrslur sérfræðings í veiðimálum, dags. 11. og 21. apríl s.á., þar sem fram kom að meginmarkmið framkvæmda í landi Bakka væru að minnka álagið á vatnsleiðslu sem liggi undir ána í landi Bakka og á þá varnargarða sem verji hana ásamt því að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Meginmarkmið framkvæmda í landi Grundar væri að draga sem mest úr landbroti aðliggjandi svæða. Þá fylgdu umsóknunum jafnframt umsagnir Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21 apríl 2023, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar.

Hinn 2. maí 2023 gaf Fiskistofa út leyfi til fimm ára vegna „malartekju og bakkavarnar“ í landi Bakka. Var þar heimiluð efnistaka 37.000 m3 eða um 7.500 m3 á ári. Á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 6. júní 2023 var umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistökunnar samþykkt og framkvæmdasviði falið að gefa út leyfið þegar umsækjandi hefði skilað inn efnistökuáætlun. Var það gefið út 19. s.m. og kom þar m.a. fram að efnisnám væri aðeins heimilt á tímabilinu 1. desember til 15. júní ár hvert, gera skyldi seiðamælingu fyrir og eftir framkvæmdir og að tryggt skyldi að hrygningarstöðvar í farveginum þorni ekki upp vegna efnisnámsins sem og að farvegur lokist ekki þannig að fiskur verði innlyksa. Þá gaf Fiskistofa hinn 12. maí 2023 út leyfi til fimm ára vegna efnistöku í landi Grundar. Var þar heimiluð efnistaka á 20.000 m3 af möl, eða um 4.000 m3 á ári. Í leyfum Fiskistofu var lögð á það áhersla að farið yrði eftir fyrirliggjandi ráðleggingum sérfræðings í veiðimálum og gengið snyrtilega frá svæðunum að framkvæmdum loknum. Einnig var lögð áhersla á að ekki yrði farið í framkvæmdir í ánni á tímabilinu 15. júní til 1. desember ár hvert.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að kærufestur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki byrjað að líða eða sé a.m.k. óliðinn. Hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í blöðum eða kynntar kærendum. Annar kærenda hafi ekki heyrt af ákvörðunum fyrr en í mars 2024 og hinn hafi heyrt af ákvörðunum Fiskistofu fyrr á árinu, með eigin gagnaöflun, en um leyfi Dalvíkurbyggðar hafi hann heyrt 20. mars 2024. Kærendum hafi ekki á neinu tímamarki verið veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og grenndarkynning skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi ekki farið fram.

Annmarkar hafi verið á málsmeðferð umsókna um framkvæmdaleyfi og ákvarðanirnar stangist á við ákvæði laga, þ. á m. 10. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 og 8. og 10. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá stangist ákvörðun sveitarstjórnar einnig á við ákvæði 2. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 123/2010. Ekki verði ráðið að fjallað hafi verið um áhrif framkvæmdanna á vatnshlotið Svarfaðardalsá eða önnur vatnshlot sem fyrir áhrifum kunni að verða, sbr. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Efnistökusvæðin séu í ósamræmi við Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008–2020, en þar sé ekki gert ráð fyrir námu í landi Grundar og náman sem gert sé ráð fyrir í landi Bakka sé mun minni en nú hafi verið veitt heimild til. Hvorki virðist hafa verið leitað umsagnar Orkustofnunar né Hafrannsóknarstofnunar, en skylt kunni að vera að leita leyfis Orkustofnunar samkvæmt vatnalögum nr. 15/2023 og auðlindalögum nr. 57/1998. Leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga og nýtingarleyfi skv. 6. gr. auðlindalaga virðist ekki hafa legið fyrir, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. október 2023, í máli nr. 74/2023, Hvammsvirkjun, hafi verið skorið úr um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarfélags verði leyfi annarra aðila að liggja fyrir. Þá stangist ákvörðun sveitarfélagsins á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis eða efnisgerðar auk þess að hún uppfylli ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi.

Áður hafi verið gefin út leyfi til efnistöku á sama svæði. Þannig hafi á fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar 23. febrúar 2021 verið veitt leyfi til efnistöku í landi Bakka og Grundar og Fiskistofa hafi gefið út leyfi fyrir efnistöku í landi beggja jarðanna árið 2020, vegna þúsunda rúmmetra sem hafi runnið út í lok árs 2021. Annað leyfi hafi verið gefið út vegna 10.000 m3 efnistöku í landi Bakka árið 2022 sem hafi runnið út í júlí 2023. Í hinum kærðu ákvörðunum sé þrátt fyrir þetta ekki litið til heildarmagns og hugsanlegrar umhverfismatsskyldu, en skv. 2. viðauka við lög nr. 111/2021, sem varði viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka, skuli m.a. líta til heildarumfangs og samlegðaráhrifa framkvæmda.

Samkvæmt ákvörðun Fiskistofu vegna efnistöku í landi Bakka, dags. 2. maí 2023, sé stærð efnistökusvæðisins 7,2 ha. Stærð efnistökusvæðisins í landi Grundar sé 3,1 ha og ljóst að þau séu yfir viðmiðunarmörkum laga nr. 111/2021. Ákvarðanir Fiskistofu og Dalvíkurbyggðar hafi því verið í ósamræmi við lög nr. 111/2021.

 Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að umsókn um framkvæmda­leyfi til efnistöku í landi Grundar hafi enn ekki verið tekin til afgreiðslu hjá sveitarstjórn enda kalli hún á að Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 verði breytt. Unnið sé að slíkri breytingu, en sú vinna sé skammt komin. Kærendur skorti því lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá kæruliði sem snúi að Grund. Þá geti kærendur ekki talist eiga aðild að málinu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála og sé rétt að fram komi að með tilvísun til hagsmuna kærenda sem landeigenda „skammt neðan þeirra svæða er mál þetta fjallar um“ sé væntanlega átt við 2,5 km og 3 km. Aðild þeirra verði því ekki byggð á nálægð við Bakka enda jarðirnar langt neðan framkvæmda­­svæðisins og tilvísun til þess að framkvæmdirnar hafi áhrif á veiðiréttindi kærenda sé ekki útskýrð. Þá sé kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn, en kærendum hafi í síðasta lagi hinn 6. júní 2023 mátt vera kunnugt um ákvörðunina enda hún þá birt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.

Ekkert hafi komið fram sem leiða eigi til ógildingar ákvörðunar sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis til efnistöku í landi Bakka. Við meðferð málsins hafi verið gætt að öllum formsatriðum og séu öll skilyrði laga uppfyllt, sbr. m.a. ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd, 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmda­leyfi og gildandi skipulags. Allur undirbúningur útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Fjallað hafi verið um þau atriði sem tilgreind séu í 8. og 9. gr. laga nr. 60/2013 í skýrslu sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar og umsögn Fiskistofu. Þá séu skilyrði leyfisins afar ströng og sem slík í samræmi við þær kröfur sem fram komi í 9. gr. laganna.

Skýrsla sérfræðings í veiðimálum hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins og hafi þar verið lögð áhersla á að fylgst yrði með áhrifum framkvæmdarinnar á framkvæmdatímanum og þannig fylgst með vísitölu seiða og veiðitölum. Að auki séu lagðar til mótvægisaðgerðir og tekið fram að rask á farvegi árinnar sé eingöngu utan veiðitíma. Ekki sé gert ráð fyrir að efnistaka fari fram í árfarveginum sjálfum heldur áreyrum og um leið sé tryggt að áin geti runnið óhindruð um kvíslar og farvegi hennar. Þá sé lögð á það áhersla að ekki verði skilið við ána í stokki eða beinum þröngum farvegi heldur að farvegur eða -vegir hennar verði áfram jafn breiðir og hlykkjóttir og fyrir framkvæmdir. Með þessum mótvægisaðgerðum telji skýrsluhöfundar að hægt verði að tryggja að farvegurinn verði áfram eðlilegur og fjölbreyttur með búsvæðum fyrir seyði, stoppistöðum fyrir göngufisk og hrygningarstöðum. Í umsögn Fiskistofu frá 2. maí 2023 hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdina og vísað til þess að fara skyldi eftir ráðleggingum sem fram hefðu komið í fyrrnefndri skýrslu. Þá hafi þar verið lagt til að ekki yrðu framkvæmdir í ánni á tímabilinu frá 15. júní til 1. desember ár hvert. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út 19. júní 2023 og séu þar sett skilyrði í samræmi við niðurstöður og ráð­leggingar Fiskistofu og fyrrnefndra sérfræðinga, sem gangi að einhverju leyti lengra. Þannig sé í leyfinu lögð áhersla á að hrygningarstöðvar í farvegi árinnar þorni ekki upp og að farvegur hennar lokist ekki þannig að fiskur eigi hættu á að verða innlyksa. Þá séu ströng fyrirmæli um meðferð olíu- og olíuáfyllingar auk þess sem gerð sé krafa um að halda skuli fjölda tækja í lágmarki. Þá séu ennfremur ýmis ákvæði er varði notkun og ástand þeirra tækja sem notast verði við auk þess sem kveðið sé á um frágang við lok framkvæmdatíma.

Umfang efnistöku fari ekki yfir þau viðmið sem getið sé um í 2. viðauka laga nr. 111/2021 né heldur sé svæðið stærra en 2,5 ha. Allar vangaveltur um eldri efnistöku og möguleg heildaráhrif innan jarðarinnar eigi ekki við. Byggi kærendur á atvikum sem teygi sig mörg ár og jafnvel áratugi aftur í tímann og séu þar um að ræða sjónarmið og röksemdir sem beri þegar af þeirri ástæðu að hafna.

 Málsrök Fiskstofu: Af hálfu Fiskistofu er bent á að í umsögnum Veiðifélags Svarfaðardalsár, dags. 17. og 21. apríl 2023, sem veittar hafi verið á grundvelli 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, hafi ekki verið gerðar athugasemdir við framkvæmdirnar. Samkvæmt lögunum sé hlutverk veiðifélaga að halda utan um hagsmuni veiðirétthafa og félagsmanna. Það sé því höndum félagsins að tryggja að félagsmenn séu nægjanlega upplýstir um slíkar framkvæmdir. Veiðifélaginu hafi gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir hönd veiðiréttarhafa áður en Fiskistofa hafi tekið ákvörðun um veitingu hinna kærðu leyfa. Því fái Fiskistofa ekki séð að afla hafi þurft sjónarmiða hvers og eins veiðirétthafa.

Fiskistofa hafi lagt mat á áhrif efnistökunnar á fiskigengd, afkomu fiskistofna, aðstæður til veiði og lífríki vatnsins að öðru leyti en stofnuninni sé m.a. ætlað að leggja mat á áhrif framkvæmda og mótvægisaðgerða á fiskistofna við leyfisveitingu samkvæmt 33. gr. laga nr. 61/2006. Í ákvörðunum Fiskistofu hafi ekki verið tekin afstaða til framkvæmdanna m.t.t. vatnsverndar samkvæmt lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, umhverfismats skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana eða skipulags samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010, en Fiskistofa hafi ekki talið það falla undir sitt starfssvið enda sé efnistakan háð leyfum fleiri stjórnvalda.

 Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en þeir hafa ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um efnistöku úr áreyrum Svarfaðardalsár fyrir landi jarðanna Bakka og Grundar. Hinar kærðu ákvarðanir í málinu voru teknar á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, um leyfi Fiskistofu til framkvæmda við ár og vötn, og 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar. Verða þær bornar undir úrskurðarnefndina á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 og 52. gr. skipulagslaga.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Kærendur eru landeigendur í Svarfaðardal og eru um 1–2  km í landareignir þeirra frá  ráðgerðum efnistökusvæðum, sem næst eru. Af þeim gögnum sem við nýtur í málinu verður að ætla að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra, s.s. vegna veiðihagsmuna í Svarfaðardalsá sem og breytinga á straumhraða, straumstefnu eða annarra skyldra áhrifa á ánna fyrir landi þeirra. Verður þeim því játuð kæruaðild.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Af skýringum sem fylgdu frumvarpi til laganna má ráða að ástæða þess að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga er að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og var áréttað í því sam­hengi að eftir því sem framkvæmdir væru lengra komnar áður en skorið yrði úr ágreiningi um þær skapaðist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Af gögnum þessa máls má ráða að kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun Dalvíkurbyggðar í marsmánuði ársins 2024. Verða kærur á þeirri ákvörðun því taldar hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests. Hvað varðar ákvarðanir Fiskistofu verður við það miðað samkvæmt gögnum þessa máls að eigandi Grafar hafi í marsmánuði 2024 fyrst orðið kunnugt um þær og að kæra hans hafi því borist innan kærufrests. Eigandi Brautarhóls hefur á hinn bóginn upplýst fyrir nefndinni að hann hafi öðlast aðgang að téðum leyfum 18. janúar 2024. Verður við það miðað að honum hafi þá fyrst orðið kunnugt um leyfin og kærufrestur vegna þeirra hafi byrjað að líða 19. s.m. Var kærufrestur með því liðinn þegar kæra hans barst nefndinni 21. mars 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki einungis hagsmuni kærandans heldur einnig leyfishafa. Ekki verður þó litið framhjá því að kæranda var ekki leiðbeint um kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, svo fullnægjandi væri, vegna ákvarðana Fiskistofu samkvæmt 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af þessu verður að telja afsakanlegt að greind kæra eiganda Brautarhóls hafi ekki borist fyrr.

Svæðið sem hin kærðu framkvæmdaleyfi taka til hefur ekki verið deiliskipulagt. Þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Að auki skal sveitarstjórn leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin er afstaða til útgáfu framkvæmdaleyfis. Tekið er fram að um grenndarkynningu fari þá skv. 44. gr. laganna með þeim undantekningum sem þar eru tilgreindar. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Nánari skilyrði fyrir því að fallið sé frá grenndarkynningu eru mörkuð í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008–2020 er gert ráð fyrir efnistöku í Svarfaðardalsá og slík svæði sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Í greinargerð skipulagsins segir m.a. um efnistöku í ám að veitt hafi verið tímabundin framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í þeim og við efnistöku úr ár­farvegum skuli þess gætt að hafa sem minnst áhrif á lífríki ánna. Taka beri mið af væntanlegum rannsóknarniðurstöðum þar að lútandi við gerð áætlana um slíka efnistöku og tekið fram að efnistökusvæði í árfarvegum geti að vissu marki talist endurnýjanleg auðlind. Er á skipulags­uppdrættinum gert ráð fyrir efnistökusvæði í Svarfaðardalsá fyrir landi Bakka og kemur fram í greinargerð aðalskipulagsins að þar sé setnáma í árfarvegi. Stærð hennar er ekki tilgreind. Með þessu er í aðalskipulagi sveitarfélagsins að nokkru gerð grein fyrir efnistöku í landi Bakka, en þó naumast svo ítarlega að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu vegna hennar, sem þó var gert.

Á aðalskipulags­upp­drættinum er ekki sýnt efnistökusvæði í landi Grundar og hefur sveitar­félagið upplýst að það sé ástæða þess að ekki hafi enn verið samþykkt beiðni um heimildir til efnistöku þar.

Hvoru tveggja leyfi sem veitt eru skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 og 13. gr. skipulagslaga geta talist til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 111/2021, ef þær framkvæmdir sem leyfin heimila kunna að hafa eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lögin. Í flokki A í viðaukanum eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skulu háðar slíku mati. Meðal framkvæmda í flokki B telst efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira. Til þessa telst einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði nær samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra, sbr. lið 2.02.

Af hálfu Dalvíkurbyggðar hefur verið bent á að umfang efnistöku yfirstígi ekki þessi viðmið. Það stangast á við upplýsingar í Hafsjá Fiskistofu um útgefin leyfi, en þar má sjá að í Svarfaðardalsá eru í gildi leyfi til efnistöku á töluverðu svæði sem öll virðast innan jarðanna Bakka og Grundar. Samanlagt heimila þau efnisnám sem nemur allt að 57.000 m3 á að minnsta kosti 10 ha svæði. Þá er ótalin efnistaka sem heimiluð var samkvæmt leyfum sem eru útrunnin á sama svæði. Af þessu verður ráðið að áformuð efnistaka í Svarfaðardalsá á svæðinu hafi yfirstigið þau mörk sem tilgreind eru í lið 2.02 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. þeirra laga skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B í 1. viðauka við lögin. Í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Verður með vísan til þess að þeirrar skyldu var eigi gætt að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Í úrskurði þessum verður ekki fjallað um önnur sjónarmið sem kærendur hafa fært fram fyrir nefndinni, en sú bending þó gerð að úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 127/2023 og 128/2023, frá 21. desember 2023, geta haft leiðbeinandi þýðingu að því marki sem þar var til að dreifa áþekkri leyfisveitingu.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Fiskistofu frá 2. og 12. maí 2023 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr árfarvegi Svarfaðardalsár vegna 37.000 m3 í landi Bakka og 20.000 m3 í landi Grundar.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 6. júní 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku í landi Bakka.