Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2024 Seyðisfjörður í Djúpi

Árið 2024, föstudaginn 17. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. febrúar 2024 um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2024, kærir náttúruverndarfélagið Laxinn lifi ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar s.á., um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 2. maí 2024.

Málavextir: Sjókvíaeldi Háafells ehf. í Ísafjarðardjúpi hefur hlotið málsmeðferð á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, en hinn 22. desember 2020 birti Skipulagsstofnun álit um mat á umhverfisáhrifum vegna framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum félagsins. Núverandi fyrirkomulag eldis samkvæmt starfs- og rekstrarleyfum félagsins gerir ráð fyrir kynslóðaskiptu eldi þannig að hverju sinni verði aðeins einn árgangur af laxi í eldi á hverju árgangasvæði sem félagið hafi yfir að ráða. Þau skilyrði eru jafnframt sett að á einu af þremur árgangasvæðum félagsins sé aðeins heimilt að ala ófrjóan lax. Með því er gert ráð fyrir að framleidd verði 6.800 tonn af frjóum laxi í tvö ár af þremur og síðan sama magn af ófrjóum laxi í eitt ár.

Hinn 5. janúar 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Háafelli ehf. um tímabundna notkun á eldissvæði í Seyðisfirði samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, sbr. lið  13.02 í 1. viðauka laganna. Fram kom að Háafell teldi eldi á ófrjóum laxi enn óraunhæfan valkost. Unnið sé að slátrun á eldislaxi úr kvíum í Skötufirði og fyrirséð að minnsti fiskurinn verði ekki tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst 2024. Sú breyting sem áformuð sé á eldinu felist í tímabundinni notkun á tveimur eldissvæðum með mismunandi árgöngum eldislax innan sama árgangasvæðis. Um sé að ræða eldissvæðin Ytra-Kofradýpi og Seyðisfjörð. Um sé að ræða tímabundið frávik sem vari frá vori 2024 til vorsins 2026 og er ráðgerðu fyrirkomulagi lýst nánar, þ.m.t. fjölda útsettra seiða, eldistíma í sjó, fóðurnotkun og áætlaðri losun.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 22. febrúar 2024 og var það álit stofnunarinnar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er gerð athugasemd um að ástand standsjávarhlotsins Ísafjarðardjúp hafi ekki verið metið samkvæmt ákvæðum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála  og liggi með því engar upplýsingar fyrir um hvort ástand þess sé í samræmi við umhverfismarkmið þess. Þá hafi ekki verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp til þess að áætla rek á laxalúsalirfum milli eldissvæða, en hugsanlegt sé að rek þeirra aukist á milli eldissvæða við breytinguna. Þá eru leiddar að því líkur að aukin tíðni slysasleppinga í sjókvíaeldi verði til þess að villtur fiskur smitist af laxalús í auknum mæli. Ástæða sé til að gera ríkar kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netapoka, en engin skilyrði séu þó sett um slíka vöktun. Umfjöllun um mótvægisaðgerðir vegna laxalúsar sé ófullnægjandi. Í umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands sé auk þessa fjallað um að aukið lífrænt álag geti valdið súrefnisskorti við botn Seyðisfjarðar. Takmarkaðar upplýsingar liggi fyrir um súrefnismettun í firðinum og þurfi að vakta súrefnisástand við botn hans, en fyrirkomulagi slíkrar vöktunar sé ekki lýst í svörum framkvæmdaraðila.

Á það er bent að þrátt fyrir að hin kærða ákvörðun hafi að geyma umfjöllun um mótvægisaðgerðir séu þar engar ábendingar gerðar um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem taki mið af þeim. Þá hafi hin kærða ákvörðun heldur ekki að geyma ábendingar um vöktun á ástandi netapoka þrátt fyrir þá afstöðu Skipulagsstofnunar að ástæða sé til þess í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár að gerðar séu ríkar kröfur til eldisaðila að því leyti. Af öllu þessu verði ekki ráðið að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi legið fyrir Skipulagsstofnun upplýsingar sem nægt hafi til að slá því föstu að ólíklegt væri að hin tilkynnta breyting hefði umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 111/2021, og verði því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Háafells: Í umsögn Háafells til úrskurðarnefndarinnar er í tilefni af umfjöllun lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011 bent á að hlutverk rekstraraðila sé að meta ástandið undir og í næsta nágrenni sjókvía þar sem áhrifa eldis gæti. Þær niðurstöður séu birtar á vef Umhverfisstofnunar í samræmi við vöktunaráætlun sem byggi á stöðlunum ÍSO 12878 og NS 9410. Í samræmi við það verði tekin grunnsýni áður en eldi hefjist með sambærilegum hætti og gert hafi verið fyrir önnur eldissvæði félagsins, en með því sé metið botndýralíf, ástand botns og sjávar undir og við sjókvíar, í upphafi, á starfstíma og að loknum hvíldartíma. Nýtist þessar mælingar ásamt öðrum mælingum til að meta ástand vatnshlotsins. Það sé rétt að ekki hafi verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp, en bent sé á að umfang eldis þar sé tiltöluleg lítið, um 6.000 tonn af lífmassa af metnu 30.000 tonna burðarþoli hafsvæðisins samkvæmt opinberum gögnum og muni aukning á lífmassa eldisfisks verða hæg á næstu tveimur árum meðan ráðgert eldi fari fram í Seyðisfirði. Hvað snerti vöktun á netapoka hafi félagið lengi miðað við að eftirlit sé með honum á u.þ.b. mánaðar fresti, en auk þess hafi nýverið verið gerðar breytingar á reglugerð sem varði tíðni og tilhögun eftirlits með netapokum. Jafnframt er lýst þeim aðferðum sem ráðgerðar eru til þess að vakta álag vegna lúsar og nánari lýsing sett fram á ráðgerðum fyrirbyggjandi úrræðum vegna laxalúsar.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar: Í athugasemdum Skipulagsstofnunar er í tilefni af kæru fjallað nánar um þau sjónarmið sem hin kærða ákvörðun hafi verið reist á. Á það er bent að Umhverfisstofnun hafi álitið að áhrif framkvæmdarinnar lægju ljós fyrir og að umhverfismatsferli myndi ekki varpa skýrari mynd á þau. Með þessu hafi stofnunin, sem fari með framkvæmd laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011, ekki talið af þýðingu þótt ekki lægju fyrir nánari upplýsingar um ástand vatnhlotsins Ísafjarðardjúps. Auk þess hafi í tilkynningu framkvæmdaraðila komið fram að í heild sé Ísafjarðardjúp, að undanskildum Skutulsfirði, metið utan álags og að mótvægisaðgerðir vegna álags feli í sér að dregið verði úr losun næringarefna og lífrænna efna frá eldinu.

Vegna athugasemda um að rétt hefði verið að setja skilyrði fyrir framkvæmdinni með hinni kærðu ákvörðun er bent á að 20. gr. laga nr. 111/2021 hafi ekki að geyma heimild til slíks þar sem aðeins sé gert ráð fyrir því að settar séu fram „ábendingar“ í matsskylduákvörðun. Hafi slíkar ábendingar verið gerðar hvað varði vöktun á ástandi netapoka. Um leið er vakin athygli á skilyrði í áliti stofnunarinnar frá 22. desember 2020 um matsskýrslu framkvæmdaraðila um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi sem beinst hafi að því að lágmarka líkur á vandamálum vegna laxalúsar, slysasleppingum og erfðablöndun.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 22. febrúar 2024, að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kæruheimild er í a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi nýtur aðildar að máli þessu á þeim grundvelli, en hann uppfyllir skilyrði 4. mgr. 4. gr. sömu laga sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hags­muna­samtök.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana er kveðið á um að Skipulagsstofnunar geri hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni um hvort framkvæmdi skuli háð umhverfismati og hafi ákvarðanir þar að lútandi aðgengilega á netinu. Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 22. febrúar 2024 og var frétt um hana birt á vefsíðu Skipulagsstofnunar þann næsta dag. Þá var hún birt á gagna- og samráðsgátt stofnunnar um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar, en ekki kemur fram hvenær það var gert.

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 28. mars 2024 var kærufrestur til nefndarinnar liðinn. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá, samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að veiti lægri sett stjórnvald rangar eða ófullnægjandi upplýsingar geti verið tilefni til að líta svo á að afsakanlegt sé að kæra hafi borist of seint. Þar er þó einnig tiltekið að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.  Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga.

Ljóst er að úrlausn kærumáls þessa varðar ekki aðeins hagsmuni sem kærandi hefur látið sig varða, skv. 2. málslið 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, heldur einnig framkvæmdaraðila. Ekki verður þó litið framhjá því að Skipulagsstofnun veitti leiðbeiningar við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar væri til 28. mars 2024. Með hliðsjón af því að kæra barst innan þess kærufrests sem Skipulagsstofnun tilgreindi með þessu verður að telja afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr og verður mál þetta því tekið til efnimeðferðar.

—–

Hinn 5. janúar 2024 voru umrædd áform framkvæmdaraðila tilkynnt Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu, samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021, sem framkvæmd í flokki B, sbr. lið 13.02 í 1. viðauka við lögin, en þar undir falla m.a. allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A í viðauka 1. við lögin.

Lög nr. 111/2021 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt upplýsingar um framkvæmd og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er í 9. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana nánar kveðið á um efni tilkynningar framkvæmdar í flokki B. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits umsagnaraðila áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, en til þeirra teljast opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lögin eða umhverfisáhrif þeirra. Þá ber Skipulagsstofnun jafnframt að gæta þess að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram og hvílir á stofnuninni sú skylda að upplýsa málið að því marki að hún geti komist að efnislega réttri niðurstöðu.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila var fyrirhugaðri framkvæmd lýst og kom m.a. fram að við breytinguna muni fjarlægð á milli árganga í eldi styttast úr 8 km í 5 km. Með því aukist líkur á að sjúkdómar og sníkjudýr eins og laxalús geti borist á milli eldissvæða, en fjarlægðin verði samt yfir þeim 5 km viðmiðum sem sett hafi verið í reglugerð um fiskeldi fyrir fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi. Þá hafi verið boðaðar mótvægisaðgerðir til að halda laxalús í skefjum og sé tekið undir athugasemdir í umsögnum um mikilvægi þess að fylgst sé með sjúkdómsvöldum og sníkjudýrum og lagt til að útbúin verði vöktunar- og viðbragðsáætlun sem það varði. Þá er reifað að ekki sé um að ræða breytingu á hámarkslífmassa, fóðurnotkun eða staðsetningu eldissvæða og megi því gera ráð fyrir að dreifing úrgangs og uppsöfnun næringarefna verði að ákveðnu leyti sambærileg því sem gert var ráð fyrir í matsskýrslu vegna starfseminnar. Tekið var undir mikilvægi þess að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði í samræmi við álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á sínum tíma. Yrði það gert ættu áhrif vegna losunar næringarefna, og þar með áhrif á vatnshlot, að vera nokkuð sambærileg við þau sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu. Ennfremur, í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár, væri ástæða til að gerðar yrðu ríkari kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netpoka.

Vegna tilkynningarinnar leitaði Skipulagsstofnun umsagna Ísafjarðarbæjar, Súðavíkurhrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun áleit að áhrif framkvæmdarinnar lægju ljós fyrir og að ferli umhverfismats mundi ekki varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið. Jafnframt gerði stofnunin ábendingar sem varða næringarefnaálag auk þess að fjallað var um gildistöku vatnaáætlunar 2022–2027 og gerð bending um að leyfisveitanda sé skylt að tryggja að leyfi séu í samræmi við þá stefnumörkun sem þar komi fram.

Í umsögn Matvælastofnunar var bent á varðandi tímabundna notkun á eldissvæði Háafells í Seyðisfirði að mikilvægt væri að minnsta fjarlægð milli mismunandi kynslóða væri eigi minni en 5 km við útmörk kvíastæða. Þá benti stofnunin á að breyta gæti þurft rekstrarleyfi rekstraraðila þar sem sjókvíaeldissvæði væru skilgreind í rekstrarleyfi og væri tilkynnt framkvæmd ekki í samræmi við það. Verði þessu gerð skil væri þó ekki tilefni til þess að farið verði fram á umhverfismat með tilliti til útgáfu rekstrarleyfis, rekstrarleyfisskilyrða eða sjúkdómavarna.

Hafrannsóknastofnun benti í umsögn sinni á að takmarkaðar tímaraðir mælinga á súrefni (mettun og styrkur) væru til staðar fyrir Seyðisfjörð. Því væri æskilegt að framkvæmdaraðili væri meðvitaður um skyldu sína til þess að fylgjast með súrefnisástandi við botn áhrifasvæðis þar sem lífrænt álag geti valdið súrefnisskorti þar. Hafrannsóknastofnun geti ekki sagt til um hvernig endurnýjun sjávar í botnlagi Seyðisfjarðar sé vegna skorts á gögnum þar að lútandi. Var það niðurstaða stofnunarinnar að ágætlega væri gerð grein fyrir þeim þáttum sem tengist starfssviði stofnunarinnar, en mikilvægt væri að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði og fylgjast sérstaklega með sjúkdómsvöldum og sníkjudýrum.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kom fram að þótt af framkvæmdum yrði myndi hámarkslífmassi og fóðurnotkun framkvæmdaraðila verða innan þeirra marka sem gert hafi verið ráð fyrir í umhverfismati hans fyrir eldi í Ísafjarðardjúpi. Því væri ekki um breytingu að ræða varðandi næringarefnaálag. Tekið var jafnframt undir ábendingar Umhverfisstofnunar um mikilvægi þess að samræma vöktun við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, eins og það var orðað, og fjallað um að almennt ætti að dreifa lífrænu álagi eins og mögulegt væri. Einnig var tekið undir ábendingu í umsögn Hafrannsóknarstofnunar um að takmarkaðra upplýsinga nyti við um súrefnismettun og -styrk í Seyðisfirði og vakta þyrfti súrefnisástand við botn áhrifasvæðisins. Var þó álitið að teknu tilliti til þess að ráðgerð framkvæmd fæli ekki í sér slíkar breytingar að þörf væri á nýju mati á umhverfisáhrifum.

Viðbrögð framkvæmdaraðila við greindum umsögnum eru birt á vef Skipulagsstofnunar. Í þeim kom m.a. fram af hans hálfu að nánara samráð yrði við leyfisveitendur vegna breytinga á legu sjókvíaeldissvæðanna og var lagður fram uppdráttur sem sýndi að fjarlægð milli kvíastæða á eldissvæðunum við Ytra-Kofradýpi og í Seyðisfirði væri 2,84 sjómílur eða rúmlega 5,2 km. Þá kom fram að vöktun yrði á dýpsta svæðinu í nágrenni við sjókvíarnar þar sem mældar yrðu hugsanlegar breytingar á súrefnisinnihaldi sjávar niður við botn á meðan á eldinu stæði og yrði gerður samningur um slíka vöktun við tilgreindan aðila.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar var fjallað heildstætt um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem tilgreind eru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Tekið var fram að áhrif framkvæmdarinnar beri að skoða í ljósi eðlis og staðsetningar hennar, svo sem með tilliti til umfangs, eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa og möguleika á að draga úr áhrifum. Hvað staðsetningu varðar var fjallað um að við breytinguna muni fjarlægð á milli árganga í eldinu styttast úr 8 km í 5 km. Með styttri fjarlægð aukist líkur á að sjúkdómar og sníkjudýr eins og laxalús geti borist á milli eldissvæða, en fjarlægðin verði samt yfir þeim 5 km viðmiðum sem sett hafi verið í reglugerð um fiskeldi fyrir fjarlægð á milli fiskeldisstöðva ótengdra aðila í sjókvíaeldi. Þá hafi verið boðaðar mótvægisaðgerðir til að halda laxalús í skefjum og sé tekið undir athugasemdir í umsögnum um mikilvægi þess og lagt til að útbúin verði vöktunar- og viðbragðsáætlun sem það varði.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar var lögð á það áhersla að ekki væri um að ræða breytingu á hámarkslífmassa, fóðurnotkun eða staðsetningu eldissvæða, yrði af framkvæmdinni. Tekið var um leið undir mikilvægi þess að vakta vel lífrænt álag á nýju eldissvæði. Yrði það gert ættu áhrif vegna losunar næringarefna, og þar með áhrif á vatnshlot, að verða nokkuð sambærileg við þau sem fjallað hafi verið um í matsskýrslu vegna eldis framkvæmdaaðila í Ísafjarðardjúpi á sínum tíma. Var í þessu sambandi vísað til álits stofnunarinnar um matsskýrslu framkvæmdarinnar, dags. 22. desember 2020, þar sem settar hafi verið fram tillögur að ákveðnum skilyrðum við leyfisveitingu, m.a. um vöktun á styrk súrefnis og næringarefna og hvíld eldissvæða. Loks var í ljósi umfangs slysasleppinga úr sjókvíaeldi undanfarin ár gerð bending um að ástæða væri til að gerðar yrðu ríkar kröfur til eldisaðila um vöktun á ástandi netpoka. Samantekið var álitið, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021, og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar um að umrædd breyting skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum studd haldbærum rökum. Verður og ekki annað séð en að stofnunin hafi að rannsökuðu máli lagt viðhlítandi og sjálfsætt mat á þá þætti sem máli skipti um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni. Verður því að hafna kröfu um ógildingu hennar.

Málsrök kærenda í máli þessu lúta m.a. að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en í 3. mgr. 28. gr. þeirra laga segir að við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, skuli tryggja að leyfi sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 eru sett sérstök ákvæði um burðarþol fjarða vegna fiskeldis í opnum sjókvíum, en þar segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þoli samkvæmt burðarþolsmati, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. b. í lögunum. Með slíku mati á burðarþoli er vísað til þols hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, sbr. 3. tl. 3. gr. laganna, en fyrir liggur slíkt burðarþolsmat fyrir Ísafjarðardjúp sem framkvæmdaraðili vísaði til í tilkynningu sinni. Verður í ljósi þess að hafna því að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt með tilliti til þess hvort að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir við undirbúning hennar.

Hvað loks snertir sjónarmið kæranda um að við hina kærðu ákvörðun hafi skort á að gerðar yrðu ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, verður fallist á framanrakin sjónarmið Skipulagsstofnunar og ekki álitið að slíkra frekari ábendinga hafi verið þörf, í ljósi þeirra forsendna hinnar kærðu ákvörðunar sem nú hafa verið raktar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar dags. 22. febrúar 2024 um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.