Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2024 Skúlagötusvæði

Árið 2024, mánudaginn 6. maí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 47/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna skiptistöðvar strætó við Skúlagötu og framkvæmdaleyfi, dags. 22. mars s.á. á grundvelli nefndrar skipulags­breytingar.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags, 16 apríl 2024, er barst nefndinni 17. s.m., kærir húsfélagið Völundur, Klapparstíg, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, vegna skiptistöðvar strætó við Skúlagötu og framkvæmdaleyfi, dags. 22. mars s.á. á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt fyrrgreindu framkvæmdaleyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2024.

Málsatvik: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 17. janúar 2024 var að lokinni auglýsingu samþykkt umsókn VSÓ ráðgjafa, dags. 4. september 2023, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis fyrir tímabundna skiptistöð strætó. Í breytingunni felst að byggingarreitir fyrir þjónustu eru felldir út og afmarkað er svæði fyrir skiptistöð strætó þar sem komið verði fyrir biðstöðvum ásamt strætóskýlum. Auk þess er afmarkaður byggingarreitur fyrir aðstöðuhús starfsmanna strætó. Borgarráð samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi 25. janúar 2024 og tók breytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar strætó og lóðafrágangs var svo gefið út af hálfu skipulagsfulltrúa 22. s.m.

Af hálfu kæranda er talið að sú starfsemi sem deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir að verði á reitnum sé ekki samræmanleg Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Reiturinn sé innan miðsvæðis, M1b, sem skilgreindur sé sem skrifstofur og þjónusta í blandaðri miðborgarbyggð. Vegna eðlis fyrirhugaðrar starfsemi á skipulagssvæðinu sé um að ræða mjög mengandi starfsemi sem fráleitt sé að falli að íbúðarsvæðum.

Bent sé á að kærandi sé sameiginlegt húsfélag eigenda íbúða á Klapparstíg 1, 1a, 3, 5, 5a og 7 auk Skúlagötu 10. Um sé að ræða 121 íbúð. Hluti íbúðanna á Skúlagötu 10 og Klapparstíg 1-3 snúi í norður. Stærstu gluggar þessara íbúða snúi einnig í norður ásamt því að svefnherbergi séu staðsett í norðurhluta íbúðanna. Vegna aukins álags á svæðinu sem muni fylgja starfsemi skiptistöðvar strætó við Skúlagötu muni aðrir íbúar óneitanlega einnig verða varir við starfsemina. Eigi það einkum við vegna aukinnar loftmengunar, hávaða, umferðar um Skúlagötu og aukinnar umferðar um lóðir kæranda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess hvað felist í skilgreiningu svæðisins M1b í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Í blandaðri miðborgarbyggð sé meðal annars gert ráð fyrir stofnunum, skrifstofum og sérhæfðri þjónustu auk almennrar miðbæjarstarfsemi samkvæmt skilgreiningu miðsvæða. Eðli málsins samkvæmt sé þungamiðja almenningssamgangna og lykil skiptistöðvar í hverju þéttbýli jafnan á miðsvæðum og svo hafi ávallt verið í skipulagi Reykjavíkur. Núverandi skiptistöð við Hlemm, sé innan miðborgarsvæðisins M1a samkvæmt gildandi aðalskipulagi og þar gildi í öllum megin atriðum sömu landnotkunarákvæðin og um svæði M1b. Sú tímabundna ráðstöfun sem gert sé ráð fyrir með breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er gerð krafa um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi sem lýtur að framkvæmdum vegna fyrirhugaðrar skiptistöðvar strætó við Skúlagötu. Lúta framkvæmdirnar að vinnu við jarðvegsyfirborð.

Samkvæmt framangreindu eiga fleiri en einn aðili hagsmuna að gæta í máli þessu í skilningi stjórnsýslulaga, ekki er um að ræða óafturkræfar framkvæmdir og að virtum þeim sjónarmiðum sem búa að baki framangreindum lagaákvæðum verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda af þeim sökum hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda framkvæmdum áfram áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 22. mars 2024 um að veita framkvæmdaleyfi vegna tímabundinnar skiptistöðvar strætó og lóðafrágangs.