Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

27/2011 Uppsalir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2011, kæra á synjun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. apríl 2011, er barst nefndinni 27. s.m., kærir S, f.h. H ehf., eiganda 20% eignarhlutar í jörðinni Uppsalir 2, Sveitarfélaginu Hornafirði, synjun bæjarstjórnar sveitarfélagsins á beiðni um að taka niður vegvísi við þjóðveg 1 þar sem jarðirnar Uppsalir 1 og 2 liggja.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 4. nóvember 2010, skaut kærandi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins ákvörðun Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að fjarlægja ekki skilti með nafninu Sunnuhlíð við þjóðveg 1.  Í bréfinu kemur fram að Vegagerðin hafi sett skiltið niður að beiðni sveitarfélagsins en með tilvist og staðsetningu þess sé verið að breyta nöfnum jarðanna Uppsala 1 og 2.  Sveitarfélagið hafi ekki svarað erindinu en kæranda hafi verið tjáð af starfsmanni þess að ekki væri fyrirhugað að fjarlægja umdeilt skilti. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svaraði fyrrnefndu erindi kæranda í bréfi, dags. 1. desember 2010, þar sem látið var í ljós það álit að málið ætti undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með hliðsjón af gr. 209.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Var kæranda bent á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, að fenginni formlegri ákvörðun byggingarnefndar.  Í kjölfarið sendi kærandi erindið, sem hann hafði áður beint til ráðuneytisins, til bæjarráðs Hornafjarðar.  Umhverfis- og skipulagsnefnd bæjarfélagsins tók erindið fyrir á fundi hinn 12. janúar 2011 og hafnaði beiðni kæranda um að fyrrnefnt skilti yrði fjarlægt.  Fundargerð nefndarinnar var afgreidd á fundi bæjarráðs hinn 19. janúar s.á. 

Kærandi vísar til þess að umdeilt skilti standi á óskiptu landi jarðanna Uppsala 1 og 2, en um sé að ræða staðlað merki sem Vegagerðin og sveitarfélög noti til að merkja jarðir um allt land.  Engin jörð eða landskiki sé til með nafninu Sunnuhlíð í sveitarfélaginu eða nágrenni þess en Uppsalir 1 og 2 séu einu jarðirnar í sveitarfélaginu sem ekki hafi verið merktar.  Með þessari merkingu sé sveitarfélagið að breyta nafni greindra jarða, sem feli í sér brot á lögum nr. 35/1953 um jarðanöfn, eða gefa það til kynna að jarðirnar Uppsalir 1 og 2 séu ekki til. 

Þá hafi málsmeðferð á erindi kæranda verið í ýmsu andstæð lögum.  Þannig hafi bæjarstjóri og varabæjarstjóri gengt starfi byggingarfulltrúa við meðferð málsins, án heimildar Þjóðskrár, en skráður byggingarfulltrúi hafi verið hættur störfum.  Varði þetta við lög nr. 6/2001 og byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Sveitarfélagið hafi jafnframt brotið gegn nefndri reglugerð með því að skipa ekki skipulags- og byggingarnefnd.  Eftir kvörtun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála hafi mál kæranda verið lagt fyrir svokallaða umhverfis- og skipulagsnefnd, sem kærandi hafni að komi í stað skipulags- og byggingarnefndar sem kveðið sé á um í fyrrgreindri reglugerð. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Hornafjarðar er vísað til þess að nafnið Sunnuhlíð, sem ábúendur jarðarinnar Uppsala 1 hafi gefið húsi sínu og byggt hafi verið árið 1964, sé  alþekkt og fyrir því sé rík hefð.  Finna megi gögn allt frá árinu 1973 þar sem nafnið komi fyrir og hafi það verið notað á landakortum.  Þá megi benda á að í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu frá árinu 1972 sé gerð grein fyrir nýbýlinu Sunnuhlíð á greindum stað.  Ábúendur jarðarinnar hafi engar athugasemdir gert við þá nafngift til þessa. 

Hvað varði meinta ágalla á meðferð máls kæranda sé rétt að taka fram að fyrrverandi byggingarfulltrúi hafi starfað út júlímánuð 2010 og hafi núverandi byggingarfulltrúi hafið störf í byrjun september það ár.  Umhverfis- og skipulagsnefnd, sem afgreitt hafi erindi kæranda, sé markað valdsvið í samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp Sveitarfélagsins Hornafjarðar nr. 586/2010, sem sett sé með stoð í sveitarstjórnarlögum.  Nefndinni sé þar m.a. falið hlutverk skipulagsnefndar og byggingarnefndar samkvæmt 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu vegvísis við þjóðveg 1 sem Vegagerðin setti upp í samráði við Sveitarfélagið Hornafjörð á veghelgunarsvæði þjóðvegarins.  Um slík skilti er fjallað í 12. gr. reglugerðar um umferðarmerki nr. 289/1995, með áorðnum breytingum, sem sett er með stoð í 79. og 84. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Þar kemur fram að vegvísum sé ætlað að leiðbeina ökumönnum um leiðarval.  Ákvörðun um, og umsjón með, uppsetningu umferðarmerkja í dreifbýli er á hendi vegamálastjóra, sbr. 2. og 3. mgr. 85. gr. umferðarlaga. 

Í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 voru m.a. vegir undanþegnir byggingarleyfisskyldu skv. 2. mgr. 36. gr. laganna og voru umferðarmerki ekki talin háð leyfi sveitarstjórnar samkvæmt lögunum.  Á gr. 209.3 í byggingarreglugerð því ekki við um umferðarmerki, enda tekur ákvæðið aðeins til mannvirkja, eða tilgreindara lausamuna og skilta, sem háð eru leyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nú laga um mannvirki nr. 160/2010. 

Í 2. mgr. 2. gr. laga um mannvirki, er tóku gildi 1. janúar 2011, er tekið fram að lögin taki ekki til vega eða annarra samgöngumannvirkja, að undanskyldum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli, og er hér um að ræða breytingu frá fyrri byggingarlöggjöf.  Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga kemur fram að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin þar sem mannvirkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög. 

Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007 er hugtakið vegur skilgreint sem:  „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“  Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum taka lög um mannvirki ekki til mannvirkja við vegi sem þjóna viðhaldi og notkun hans, svo sem umferðarskilta, ljósastaura eða annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega.  Taka lög um mannvirki því ekki til uppsetningar umdeilds vegvísis heldur ákvæði vegalaga og umferðarlaga. 

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Verður ágreiningsefni máls þessa því ekki borið undir úrskurðarnefndina og verður málinu af þeim sökum vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

25/2010 Fjarðarvegur

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2010, kæra á ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. apríl 2010, er barst nefndinni 28. s.m., kæra A og J, Fjarðarvegi 15, Þórshöfn, þá ákvörðun umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010 að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.  Sveitarstjórn staðfesti þá ákvörðun hinn 22. mars 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn stendur sjávarmegin við Fjarðarveg og samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 stendur það á skilgreindu hafnarsvæði.  Var elsti hluti hússins reistur á fyrstu árum tuttugustu aldar og mun vera um að ræða elsta húsið á Þórshöfn.  Fasteign kærenda stendur handan götunnar andspænis umræddu húsi. 

Á fundi umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar 21. janúar 2010 var samþykkt umsókn um leyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 með bárujárni og fjarlægja skúr áfastan því.  Var málið tekið fyrir í sveitarstjórn 28. janúar sama ár en afgreiðslu þess frestað.  Var sveitarstjóra falið að fá umsögn byggingarfulltrúa um ástand hússins og leita upplýsinga um fyrirhugaðar framkvæmdir og notkun þess með tilliti til þess að gert væri ráð fyrir því í gildandi aðalskipulag að húsið yrði rifið.  Urðu lyktir málsins þær að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir klæðningu hússins á fundi hinn 22. mars 2010.  Lá þá fyrir úttektarskýrsla skipulags- og byggingarfulltrúa um ástand hússins þar sem talið var vel mögulegt að lagfæra það. 

Málsrök kærenda:  Krafa kærenda í máli þessu er á því reist að húsið að Fjarðarvegi 14 eigi að rífa samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Húsið skyggi mjög á útsýni yfir hafnarsvæðið, sé mjög ljótt og því sé illa við haldið. 

Á árunum 1993-1994 hafi verið spurst fyrir um framtíð hússins þar sem kærendur hafi haft hug á að byggja við hús sitt að Fjarðarvegi 15.  Hafi þáverandi sveitarstjóri tjáð þeim að ákveðið hefði verið að rífa húsið að Fjarðargötu 14 þá um sumarið.  Í ljósi þeirra upplýsinga hafi verið ráðist í fyrrnefnda viðbyggingu.  Þrátt fyrir endurteknar ítrekanir við sveitarstjórn um niðurrif hússins, og orð fulltrúa eiganda Fjarðarvegar 14 í þá átt, hafi niðurrif þess ekki gengið eftir.  Telji kærendur að úttekt byggingarfulltrúa á ástandi hússins sé ófullnægjandi til að standa undir þeim ályktunum sem þar séu settar fram. 

Málsrök Langanesbyggðar:  Af hálfu sveitarstjórnar er vísað til þess að í Aðalskipulagi Þórshafnar 2003-2023 sé gert ráð fyrir að gömlu húsin þrjú á sjávarbakkanum við Fjarðarveg víki ef þörf krefji vegna uppfyllinga og nýrra bygginga á svæðinu.  Ákvæði um þetta efni í greinargerð skipulagsins sé opið og engin tímamörk sett um niðurrif.  Kæmi til uppfyllingar framan við nefnd hús sé gert ráð fyrir byggingu nýrra húsa á uppfyllingunni sem væntanlega yrðu mun stærri en hús þau sem fyrir séu.  Útsýni frá fasteign kærenda yrði því síst skárra ef greind áform kæmu að fullu til framkvæmda. 

Það sé vandséð að sveitarstjórn geti réttlætt það að synja húseiganda um leyfi til að lagfæra húsið að Fjarðarvegi 14, enda hafi sveitarfélagið ekki boðist til að kaupa húsið til niðurrifs og þörfin fyrir hugsanlega nýtingu svæðisins samkvæmt aðalskipulaginu liggi ekki fyrir.  Það sé hins vegar í þágu almannahagsmuna að umrætt hús verði í ásættanlegu horfi á meðan það standi. 

Í drögum að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sé gerð sú tillaga að fallið verði frá uppfyllingu framan við húsin þrjú sem standi sjávarmegin við Fjarðarveg, húsin hverfisvernduð og fjaran varðveitt innan hafnarinnar.  Í þeim anda hafi þegar verið samþykkt byggingarleyfi fyrir lagfæringum og lítilli viðbyggingu við Fjarðarveg 12.  Ætla megi að útsýni frá fasteign kærenda að Fjarðarvegi 15 verði betur tryggt með hinu nýja aðalskipulagi en því sem nú sé í gildi. 

Í tilefni af staðhæfingu kærenda um loforð sveitarstjóra á sínum tíma um niðurrif hússins að Fjarðarvegi 14 vísi sveitarstjórn til þess að í aðalskipulagi séu ekki sett tímamörk varðandi niðurrif þess. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Eigandi fasteignarinnar að Fjarðarvegi 14 vísar því á bug að gefið hafi verið loforð um niðurrif umrædds húss og ekki hafi komið til formleg beiðni frá sveitarfélaginu í þá veru. 

Hafi ætlan sveitarstjórnar verið að húsin að Fjarðarvegi 10, 12 og 14 ættu að víkja, megi ætla að þau áform hafi breyst í ljósi samþykktar byggingarleyfis fyrir endurbótum að Fjarðarvegi 12 hinn 29. júlí 2009.  Hafi annar kærenda, sem sitji í sveitarstjórn, samþykkt það athugasemdalaust.  Þá liggi fyrir að við endurskoðun aðalskipulags, sem unnið sé að, eigi fyrrgreind hús að standa. 

Húsið að Fjarðarvegi 14 hafi verið reist árið 1902 og sem elsta húsið á Þórshöfn hafi það mikið varðveislugildi.  Húsið hafi verið tekið út af byggingarfulltrúa að beiðni sveitarstjórnar og niðurstaðan orðið sú að ekkert mælti gegn því að það stæði áfram.  Það séu orð að sönnu að húsið sé nú ljótt og þarfnist viðhalds, en það sé einmitt ætlun eiganda að bæta úr því svo það verði bænum til prýði.  Haft hafi verið samband við Húsafriðunarnefnd ríkisins og verði allar endurbætur á húsinu gerðar í samráði við nefndina. 

Niðurstaða:  Mál þetta snýst fyrst og fremst um það hvort farið hafi verið gegn gildandi skipulagi með því að veita byggingarleyfi til að klæða húsið að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn að utan með bárujárni. 

Í gildandi Aðalskipulagi Þórshafnarhrepps 2003-2023 eru ráðagerðir um að íbúðarhús og mannvirki á hafnarsvæði staðarins gæti þurft að víkja vegna uppbyggingar hafnsækinnar starfsemi í framtíðinni.  Í Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027, sem sveitarstjórn hefur samþykkt og nú er í staðfestingarferli, er hins vegar gert ráð fyrir hverfisverndun húsa þeirra sem standa sjávarmegin Fjarðarvegar, þar á meðal Fjarðarvegar 14.  Umdeilt byggingarleyfi veitir einungis heimild til viðhaldsframkvæmda sem felast í því að klæða húsið að utan.

Að framangreindu verður ekki ráðið að hin kærða ákvörðun fari gegn gildandi aðalskipulagi og ekki liggur fyrir í málinu að bindandi ákvörðun hafi verið tekin af sveitarstjórn um niðurrif umrædds húss innan tiltekins tíma.  Af þessum sökum, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar sem raskað gætu gildi hinnar kærðu ákvörðunar, verður ekki fallist á ógildingu hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar Langanesbyggðar frá 21. janúar 2010, er sveitarstjórn staðfesti hinn 22. mars sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir klæðningu hússins að Fjarðarvegi 14 á Þórshöfn.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

58/2011 Aragata

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júlí 2011, er barst nefndinni 22. s.m., kærir I, Aragötu 15, Reykjavík, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 21. júlí s.á. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. apríl 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til þess að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vantaði svo hægt væri að grenndarkynna málið.  Málið var að nýju tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. maí s.á. og afgreiðslu þess frestað.  Jafnframt var ákveðið að kynna málið fyrir eigendum Aragötu 13. 

Hinn 8. júlí 2011 var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu þegar samþykki allra lóðarhafa aðlægra lóða lægi fyrir.  Hinn 19. s.m. var umsóknin loks tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og henni synjað með eftirfarandi bókun:  „Synjað. Sótt er um að byggja bílageymslu á lóðamörkum Aragötu 13/15.  Ekki er til deiliskipulag af svæðinu og þarfnast því málið grenndarkynningar, sbr. ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Skipulagsstjóri hefur sett skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða liggi fyrir.  Það hefur umsækjandi ekki getað gert vegna Aragötu 13.  Í því ljósi er málinu synjað.“ 

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst þess að synjun byggingarfulltrúa frá 19. júlí 2011 verði ógilt og að borgaryfirvöldum verði gert að taka málið til meðferðar að nýju og þá í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Af gögnum málsins sé ljóst að það hafi ekki hlotið efnislega umfjöllun byggingarfulltrúa þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning svo sem skylt sé skv. 44. gr. skipulagslaga.  Í ákvörðun byggingarfulltrúa komi fram að málið falli undir 44. gr.   Þar segi jafnframt að skipulagsstjóri hafi sett það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Það hafi kærandi ekki getað fengið hjá eiganda Aragötu 13 og því hafi umsókninni verið synjað.  Af þessu megi ljóst vera að þau skilyrði sem skipulagsstjóri hafi sett fyrir því að grenndarkynning færi fram hafi komið í veg fyrir að málið fengi efnislega umfjöllun þeirra stjórnvalda sem að lögum sé falið að taka það til umfjöllunar. 

Með vísan til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar verði að gera þá kröfu að stjórnvöld hafi skýra lagaheimild til að binda framkvæmd lögboðinnar skyldu skilyrðum sem komið geti í veg fyrir að mál fái efnislega meðferð í samræmi við lög.  Ekki sé að sjá að skipulagslög hafi að geyma slíka heimild.  Því hafi skipulagsstjóra verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu í málinu.  Sú aðferð skipulagsstjóra að setja skilyrði fyrir grenndarkynningu leiði til þess að mál fái ekki eðlilega afgreiðslu og brjóti því gegn rétti leyfisumsækjanda til lögmæltrar málsmeðferðar, enda séu áform hans metin með hliðsjón af áhrifum þeirra á hagsmuni nágranna.  Þegar stjórnvald kjósi að leggja mál í annan farveg en þann sem lögboðinn sé feli það í sér misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls. 

Grein 67.1 í byggingarreglugerð sem Reykjavíkurborg vísi til, varði gerð girðinga á lóðamörkum og séu þær háðar samþykki beggja lóðarhafa.  Slík regla hljóti að teljast eðlileg enda varði girðing á lóðamörkum hagsmuni beggja lóðarhafa jafnt.  Það sé hins vegar hæpið að beita umræddu ákvæði fortakslaust með lögjöfnun um framkvæmdir sem feli í sér nýtingu annars lóðarhafa á eigin lóð og varði því í flestum tilvikum ríkari hagsmuni hans en lóðarhafa aðlægrar lóðar. 

Jafnframt sé bent á að bílskúrar þeir sem séu við Aragötu og Oddagötu séu með ýmsu móti.  Þeir hafi ýmist slétt þak eða hallandi og séu ýmist steyptir eða úr timbri.  Margir bílskúrar nái út í lóðarmörk og sumir séu áfastir eða tengdir húsunum.  Það sé því ekki hægt að segja að götumyndin sé einsleit að þessu leyti.  Rök íbúa að Aragötu 13 standist því ekki þegar hann segi að breytingar frá eldri skúr séu óréttlætanlegar, sem og breytt útlit bílskúrs miðað við ásýnd húsanna í hverfinu. 

Að lokum sé bent á að skipulagsyfirvöld hafi á árinu 2009 verið afar jákvæð gagnvart áformum um að byggður yrði einnar hæðar bílskúr á lóðinni.  Auk þess sem aðrir nágrannar hafi samþykkt framkvæmdina fyrir sitt leyti. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda um ógildingu synjunar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað. 

Það sé rétt hjá kæranda að skipulagsyfirvöld hafi verið jákvæð gagnvart byggingaráformum hans varðandi byggingu bílskúrs á lóðinni en hins vegar verði ekki annað leitt af byggingarreglugerð en að bygging á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa, sbr. gr. 67.1.  Kæranda hafi ekki tekist að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar við Aragötu og því hafi byggingarfulltrúa borið að synja umsókninni.  Bent sé á að hafi sjónarmið hagsmunaaðila komið fram áður, eða ekki hafi fengist lögáskilið samþykki fyrir framkvæmd, megi líta svo á að ekki beri að grenndarkynna framkvæmdina, enda hafi slíkt þá enga þýðingu.  Ekkert hafi komið fram í málinu sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa. 

Niðurstaða:  Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Skal sveitarstjórn að grenndarkynningu lokinni taka málið til afgreiðslu.

Í máli þessu setti skipulagsstjóri það skilyrði fyrir grenndarkynningu að samþykki eigenda aðliggjandi lóða lægi fyrir.  Eftir að gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 var breytt í desember 2006 er þar kveðið á um að bil milli húsa skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út.  Er í reglugerðinni ekki lengur að finna bein fyrirmæli um lágmarksfjarlægð húss frá lóðamörkum og verður ekki fallist á þá túlkun Reykjavíkurborgar að slík regla verði leidd af ákv. gr. 67.1 varðandi girðingar.  Áðurnefnt skilyrði studdist því hvorki við ákvæði byggingarreglugerðar né aðrar settar réttarheimildir og samrýmdist ekki ákvæði 44. gr. skipulagslaga.  Umsókn kæranda hlaut af þessum sökum ekki lögboðna meðferð og verður hin kærða synjun byggingarfulltrúa því felld úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júlí 2011 um að synja umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með sléttu þaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík.

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

59/2011 Þverholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2011, beiðni um úrskurð um leyfisskyldu framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2011, er barst nefndinni 29. s.m., fer S, íbúi að Urðarholti 7 í Mosfellsbæ, fram á að úrskurðað verði um að framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ séu leyfisskyldar.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar en þar sem þær voru að mestu afstaðnar þegar erindi málshefjanda barst var ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. 

Mál þetta sætir meðferð samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsatvik og rök:  Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala.  Liggur fasteign málshefjanda að nefndri lóð.  Í kjölfarið spurðist hann fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim.  Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní s.á., þar sem sú afstaða kom fram að greindar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi.  Málshefjandi, sem er eigandi íbúðar á jarðhæð fjölbýlishússins að Urðarholti 7, kærði framkvæmdirnar til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 6. júlí 2011 með þeim rökum að ekki lægi fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu.  Í kjölfar þess barst úrskurðarnefndinni erindi málshefjanda svo sem að framan greinir.

Málshefjandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans en með þeim séu sett bílastæði að lóðarmörkum Þverholts 6 er snúi að fasteign hans.  Breytingar þessar muni hafa í för með sér útsýnisskerðingu, aukið ónæði og muni auk þess takmarka afnot málshefjanda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðar sem snúi að fyrirhuguðu bílastæði.  Þá valdi breytingarnar því að fasteign hans verði ekki jafn söluvæn og áður.  Með framkvæmdunum sé því farið gegn reglum eignar- og grenndarréttar.

Umdeildar framkvæmdir hljóti að teljast byggingarleyfisskyldar, sbr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gerð bílastæða sé háð samþykki byggingarnefndar, sbr. grein 64.11 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Ekki verði séð að þargreindar undantekningar eigi við í máli þessu.  Vísað sé sérstaklega í c-lið greinar 2.3.5 í drögum að nýrri byggingarreglugerð þar sem komi skýrt fram að breyting á hæð lóðar, sem valdi skaða eða skerði hagsmuni nágranna, sé óheimil án samþykkis útgefanda byggingarleyfis og lóðarhafa viðkomandi nágrannalóðar.  Það ákvæði eigi hér við þar sem hæð jarðvegs á lóðamörkum Þverholts 6 og fasteignar málshefjanda hafi verið gjörbreytt málshefjanda til tjóns.  Hér megi vísa í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 61/2009 en þar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning á hliði og grindverki á lóðarmörkum væri byggingarleyfisskyld, m.a. í ljósi ákvæða byggingarreglugerðar og vegna þess hve mikil áhrif grindverkið hafi haft á umferð og aðkomu að lóð.  Það sé mat málshefjanda að umræddar framkvæmdir við Þverholt 6 hafi jafn mikil, ef ekki meiri, áhrif á gæði eignar hans en framkvæmdir þær sem um sé fjallað í nefndum úrskurði.  Þá séu áhöld um hvort breytingarnar samræmist skipulagi en engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þeirra.  Breytingar á lóð Þverholts 6 fari því einnig í bága við skipulagslög nr. 123/2010.

Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulagslögum eða mannvirkjalögum.  Verið sé að ganga betur frá norðurhluta lóðarinnar með því að slétta hana og sá og planta gróðri.  Ekki sé fyrirhugað að auka umsvif eða aðstöðu þess atvinnurekstrar sem þar sé fyrir.  Malbikað svæði á norðvesturhluta lóðarinnar verði stækkað og með því skapaður möguleiki fyrir stöðu lítilla bíla en sú stækkun nái ekki að mörkum lóðar málshefjanda.

Lóðarhafi Þverholts 6 bendir á að um sé að ræða sjálfsagða framkvæmd vegna eðlilegrar hagnýtingar á umræddri lóð.  Almennt hafi lóðarhafi fulla heimild til framkvæmda innan lóðarmarka án þess að nágrannar eigi íhlutunarrétt í því efni.  Alltaf fylgi visst óhagræði og ónæði því að búa og starfa í þéttbýli og fólk verði að sætta sig við eðlilega hagnýtingu og starfsemi á nágrannalóðum.  Sú framkvæmd sem hér um ræði sé innan allra marka og með leyfi byggingaryfirvalda og eigi kærandi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna umdeildra breytinga á lóðinni að Þverholti 6.

Vettvangsskoðun.  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2011.

Niðurstaða:  Breytingar þær á lóðinni að Þverholti 6 sem hér eru til umfjöllunar fela í sér að fyllt er upp í hluta fláa á henni norðvestanverðri er snýr að lóð málshefjanda og liggur nálægt mörkum lóðanna.  Um er að ræða tiltölulega mjóa ræmu sem jöfnuð er að hæð malbikaðs plans á lóðinni og fyrirhugað er að malbika og nota undir bílastæði.  Að öðru leyti er hæð lóðarinnar ekki breytt en hún stendur nokkru hærra en lóð málshefjanda og er fyrrgreindur flái til þess ætlaður að jafna hæðarmun lóðanna.  Um þrír til fjórir metrar eru frá brún fyllingarinnar undir fyrirhuguð bílastæði að lóðamörkum fyrrgreindra fasteigna.

Hinn 11. desember 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Þverholti 6 og er þar tilgreindur fjöldi bílastæða á lóð og staðsetning þeirra sýnd á samþykktri afstöðumynd.  Hinn 18. janúar 2011 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Mosfellsbæjar sem tekur til lóðarinnar að Þverholti 6.  Þar er gert ráð fyrir að núverandi hús víki en í þess stað rísi fjölbýlishús með bílakjallara.  Á deiliskipulagsuppdrætti eru ekki sýnd bílastæði á lóð.  

Staðsetning bílastæða á lóð getur haft áhrif á grenndarhagsmuni lóðarhafa aðlægra lóða.  Með umdeildri breytingu er verið að skapa rými fyrir bílastæði andspænis lóð málshefjanda, en slík stæði hafa ekki verið þar áður.  Er með því vikið frá staðsetningu bílastæða samkvæmt fyrrgreindu byggingarleyfi frá árinu 2008.

Samkvæmt gr. 18.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem enn er í gildi, er afstöðumynd mannvirkis hluti aðaluppdrátta og samkvæmt gr. 19.4 eru lóðauppdrættir meðal séruppdrátta er leggja skal fram áður en byggingarleyfi er gefið út.  Samkvæmt gr. 18.14 nefndrar reglugerðar skal á afstöðumynd m.a. sýna bílastæði á lóð.  Skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er að aðal- og séruppdrættir hafi verið yfirfarnir og leyfisveitandi áritað þá til staðfestingar.  Af þessum ákvæðum verður leidd sú niðurstaða að samþykkja þurfi breytingu á gildandi byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem víkja frá staðfestum aðaluppdráttum.  

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 sé háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum.

Úrskurðarorð: 

Umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ er  byggingarleyfisskyld.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

8/2010 Háholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 8/2010, kæra á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2010, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Ragnheiður Þorkelsdóttir hdl., f.h. K, Háholti 24, Mosfellsbæ, synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Aðdragandi máls þessa er sá að hinn 26. júní 1954 tók kærandi á leigu landsspildu í eigu Mosfellshrepps undir verslunarhús og söluskála.  Hann tók síðan á leigu viðbótarlóð, austan fyrrgreindrar landspildu, hinn 9. maí 1963, sem svarar nú til lóðanna nr. 16, 18, 20, 22 og 24 við Háholt í Mosfellsbæ.  Leigusamningar nefndra lóða voru endurnýjaðir hinn 19. febrúar 1998. 

Með kaupsamningi, dags. 7. apríl 1998, seldi kærandi einbýlishús að Háholti 20, ásamt lóðarréttindum.  Samkomulagi milli kaupenda og seljanda var þinglýst og fól það í sér að seljandi héldi eftir átta metra breiðri spildu á suðurmörkum lóðarinnar.  Í samkomulaginu kom einnig fram að seljandi stefndi að því að fá samþykki bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ til að sameina framangreindan syðsta hluta lóðarinnar að Háholti 20 lóðinni nr. 22 við Háholt.  Kaupendur seldu síðan eignina í nóvember 1999 til núverandi þinglýstra eigenda. 

Með bréfi, dags. 27. september 2007, var kæranda tilkynnt að til stæði að breyta deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og þyrfti bærinn af þeim sökum að nýta heimild sína í lóðarleigusamningum til að leysa til sín tilteknar lóðir kæranda við Háholt.  Var þessari fyrirætlan mótmælt af hálfu kæranda.  Í ágústmánuði 2008 fór kærandi fram á að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt á þann veg að fyrrgreind átta metra spilda úr lóðinni að Háholti 20 yrði lögð undir lóðina að Háholti 22.  Hinn 4. september s.á. samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar innlausn lóðanna nr. 16, 18 og 22 við Háholt með stoð í 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar en ákvað að bíða með ákvörðun um lóðamörk Háholts 20 og 22 þar til málalyktir lægju fyrir um innlausnina.  Sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 10. sama mánaðar. 

Í kjölfar þessa var kæranda tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar og var Sýslumanninum í Reykjavík sent erindi þess efnis að umræddir lóðarleigusamningar yrðu afmáðir úr þinglýsingarbókum á grundvelli 39. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.  Með úrlausn þinglýsingarstjóra, dags. 4. febrúar 2009, var þeirri beiðni hafnað þar sem ekki væru forsendur til þess að aflýsa umræddum lóðarleigusamningnum á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju í málinu.  Héraðsdómur staðfesti þá niðurstöðu sýslumanns með úrskurði uppkveðnum 26. mars 2010 og Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð héraðsdóms með dómi uppkveðnum 30. apríl s.á. 

Kærandi fór ítrekað fram á að umsókn hans um áðurgreinda breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 fengi efnislega afgreiðslu og hinn 28. janúar 2010 synjaði bæjarráð umsókninni með sömu rökum og lágu að baki afgreiðslu ráðsins á erindinu hinn 4. september 2009.  Hafa kærendur skotið þeirri synjun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings ógildingarkröfu sinni vísar kærandi til þess að bæjaryfirvöldum sé ekki stætt á að synja erindi hans um breytt lóðamörk á grundvelli þess að til staðar sé ágreiningur milli aðila um beitingu 12. gr. lóðarleigusamninga um lóðirnar að Háholti 16, 18 og 22.  Bæjaryfirvöldum sé skylt að taka efnislega afstöðu til erindisins, óháð öðrum ágreiningi aðila, enda séu málin ótengd.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á kaupsamningi sem gerður hafi verið árið 1998 um einbýlishúsið Háholt 20 ásamt tilheyrandi lóðarleiguréttindum. 

Ómálefnanleg rök liggi að baki synjun bæjarráðs.  Synjunin byggi eingöngu á þeirri staðreynd að annar ágreiningur sé til staðar milli aðila og því sé ekki unnt að fallast á erindið.  Beiðni um breytingu á lóðamörkum byggi á atvikum sem hafi átt sér stað löngu áður en ágreiningur aðila um 12. gr. lóðarleigusamninganna hafi komið upp.  Kærandi sé ennþá eigandi lóðarinnar að Háholti 22 og það varði hagsmuni hans miklu, sem og hagsmuni eiganda fasteignarinnar að Háholti 20, að bæjaryfirvöld taki erindi hans til málefnalegrar skoðunar.  Hin kærða ákvörðun sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Málsrök Mosfellsbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að ágreiningur um heimild Mosfellsbæjar til að leysa til sín lóðir að Háholti, sem m.a. hafi varðað lóðina Háholt 22, hafi verið kominn upp þegar kærandi hafi óskað þess að lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 yrði breytt.  Á sínum tíma hafi ekki þótt rétt að taka afstöðu til þeirra breytinga á lóðamörkum sem falist hafi í umsókn kæranda og hafi honum verið tilkynnt um frestun á afgreiðslu málsins þar til ferli varðandi nýtingu á 12. gr. umræddra lóðarleigusamninga um innlausn lóða við Háholt væri lokið. 

Mosfellsbær vísar til þess að vegna ítrekana kæranda á að umrætt erindi yrði tekið til efnislegrar meðferðar hafi beiðnin um breytingu á lóðamörkum verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs hinn 28. janúar 2010 þar sem bæjarráð hafi samþykkt að synja erindi um breytingu á mörkum lóðanna Háholts 20 og 22.  Synjunin hafi verið rökstudd með vísan til beitingar Mosfellsbæjar á 12. gr. lóðarleigusamninga vegna lóða nr. 16, 18 og 22 við Háholt, svo og þess útburðarmáls sem þá hafi verið rekið fyrir dómstólum varðandi þær lóðir.  Þegar erindi kæranda hafi verið synjað hafi í raun verið óútkljáð hver færi með réttindi til lóðarinnar nr. 22 og hefði þar með hagsmuni af því hvernig lóðamörkum þar væri hagað. 

Fyrir liggi að beiðni kæranda um breytingu á lóðamörkum varði bæði Háholt 20 og 22.  Ljóst sé að kærandi sé ekki lóðarhafi að lóð nr. 20 svo sem fram komi í kæru.  Jafnframt telji Mosfellsbær að heimild 12. gr. gildandi lóðarleigusamnings til að leysa til sín lóðina að Háholti 22 hafi verið beitt með lögmætum hætti.  Samkvæmt þessu sé staðan sú að kærandi krefjist þess að mörkum á milli tveggja lóða, sem hann eigi ekki réttindi yfir, verði breytt.  Það sé eitt af grunnskilyrðum þess að Mosfellsbær geti orðið við beiðni um breytingu á lóðamörkum að beiðnin stafi frá lóðarhöfum viðkomandi lóða.  Á meðan ágreiningur um það sé óútkljáður hafi Mosfellsbær ekki getað tekið beiðni kæranda til efnislegrar skoðunar og því hafi bærinn orðið að synja erindi hans um breytingu á umræddum lóðamörkum.  Samkvæmt þessu sé því hafnað að um ótengd mál sé að ræða.  Í ljósi málsatvika hafi málefnaleg sjónarmið búið að baki synjunar bæjarins á beiðni kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 um breytingu á lóðamörkum milli Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem voru í gildi við töku hinnar kærðu ákvörðunar, ákveður sveitarstjórn skiptingu landa, lóða og breytingar á lóðamörkum.  Stærðir og mörk nefndra lóða koma fram á mæliblaði árituðu af byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 1997 og um lóðirnar gilda lóðarleigusamningar, dags. 19. febrúar 1998, þar sem vísað er til nefnds mæliblaðs.

Fyrir liggur að ástæða Mosfellsbæjar fyrir höfnun á erindi kæranda um breytt lóðamörk var fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar og innlausn á lóðunum samkvæmt heimild í gildandi lóðarleigusamningum af því tilefni.  Verður því að telja að hin til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.  Þá fólst í raun í erindi kæranda beiðni um breytingu á tvíhliða samningum um leigu umræddra lóða og verður ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingar á þeim í andstöðu við vilja viðsemjanda síns.  Var bæjaryfirvöldum einnig af þeirri ástæðu rétt að synja erindi kæranda.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki fallist á ógildingarkröfu kæranda í máli þessu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar bæjarráðs Mosfellsbæjar frá 28. janúar 2010 á beiðni um breytingu á lóðamörkum Háholts 20 og 22 í Mosfellsbæ.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

2/2010 Stuðlaberg

Með

Ár 2011, föstudaginn 7. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 um að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. janúar 2010, er barst nefndinni 11. s.m., kæra G og H, Stuðlabergi 62 í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að vegna kröfu kærenda um að geymsluskúr á mörkum lóðanna nr. 62 og 64 við Stuðlaberg verði fjarlægður.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í bæjarstjórn hinn 22. desember 2009.

Málavextir:  Kærendur eru eigendur að fasteigninni nr. 62 við Stuðlaberg í Hafnarfirði.  Sumarið 2009 fóru þau fram á við bæjaryfirvöld að geymsluskúr á lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 yrði fjarlægður, en skúrinn tilheyrir Stuðlabergi 64. 

Hinn 11. júní 2009 var mál kærenda tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og óskaði hann eftir að eigandi Stuðlabergs 64 gerði grein fyrir heimildum fyrir hinum umdeilda skúr og framkvæmdum við hann á lóðamörkum.  Svar barst frá eiganda skúrsins 4. ágúst sama ár þar sem fram kemur að skúrinn hafi staðið á lóðinni um áraraðir og að engar athugasemdir hafi komið fram fyrr en á árinu 2009. 

Hinn 28. október 2009 gerði skipulags- og byggingarfulltrúi eiganda skúrsins skylt að fjarlægja hann innan fjögurra vikna, eða færa hann frá lóðarmörkum sem svaraði mænishæð hans, og sækja um byggingarleyfi.  Var sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 10. nóvember s.á.  Eigandi skúrsins kom á framfæri frekari athugasemdum á fundi með skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 2. desember s.á.  Í kjölfar þess ákvað skipulags- og byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi hinn 9. desember 2009 að hafast ekki frekar að í málinu. 

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að fjarlægja skúrinn af lóðamörkum Stuðlabergs 62 og 64 skuli standa.  Skúrinn sé kærendum til ama og þurfi þau að hluta til að halda honum við.  Einnig safnist mikið af pöddum og köngulóm undir skyggninu á skúrnum, sem viti að lóð kærenda.  Þá hafi eigandi skúrsins meinað kærendum að hengja blómapotta utan á skúrinn, en málið hafi snúist um það frá upphafi. 

Engar samþykktir séu fyrir  skúrnum og hann sé því í algeru óleyfi.  Loks sé bent á að ekki sé farið rétt með staðreyndir varðandi skúrinn af hálfu eigenda Stuðlabergs 64.

Málsrök eigenda að Stuðlabergi 64:  Eigendur Stuðlabergs 64 benda á að hinn umdeildi skúr hafi verið tilgreindur í kaupsamningi þegar þau hafi keypt húsið árið 2002.  Skúrinn hafi verið byggður á árunum 1994-1996 samkvæmt upplýsingum frá fyrri eiganda hússins, en núverandi eigendur Stuðlabergs 62 hafi þá búið í húsinu og verið í fullum rétti til að mótmæla byggingu skúrsins.  Engin mótmæli hafi hins vegar borist fyrr en í byrjun júní 2009.

Sama dag og bréf hafi borist frá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi eigendur Stuðlabergs 64 átt orð við annan eigenda Stuðlabergs 62 til að fá útskýringar á málinu og hafi þá komið í ljós að ástæða deilunnar væri aðallega sú að kærendur teldu að þeim hefði verið meinað að hengja blómapotta á gafl skúrsins.  Sú ástæða væri hins vegar á misskilningi byggð.  Rangt sé að kofinn sé 2,4 m á hæð heldur sé hann 2,2 m frá steyptum grunni.  Hægt sé að minnka þakkant og fjarlægja torfþak og setja bárujárn í staðinn og myndi skúrinn þá lækka um 10 cm. 

Loks sé bent á að kofinn sé ekki fyrir eigendum Stuðlabergs 62 að neinu leyti, hvorki varðandi sól né útsýni.  Fallist sé á að leyfa blómapotta við kofann og fjarlægja þakkant en ekki sé hægt að lækka skúrinn líkt og kærendur óski eftir að gert verði.

Málsrök Hafnarfjarðar:  Bæjaryfirvöldum var gefinn kostur á að tjá sig um málið en engar athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að bæjaryfirvöld byggi á því að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 9. desember 2009 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þar sem skúrinn hefði staðið á lóðamörkum í allmörg ár, án þess að athugasemd hefði verið gerð við hann, jafngilti það samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar, sbr. grein 67.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að hafast ekki frekar að í málinu.

Niðurstaða:  Í kröfu kærenda felst að sveitarfélaginu verði gert að beita úrræði 56. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til að umræddur skúr verði fjarlægður.  Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hyggjast bæjaryfirvöld ekki verða við kröfum um að skúrinn verði fjarlægður með stoð í tilvitnaðri 56. gr.  Verður jafnframt að telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi tekið upp fyrri ákvörðun í málinu og breytt henni, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga var byggingarnefnd heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisbygginga.  Var ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis háð mati hverju sinni.  Hlýtur slíkt mat fyrst og fremst að byggjast á almannahagsmunum og skipulagsrökum en einstaklingum eru tryggð önnur réttarúrræði til að verja einkaréttarlega hagsmuni.

Hin umdeilda ákvörðun er einkum studd þeim rökum að fyrir liggi að skúrinn hafi staðið um árabil á lóðinni að Stuðlabergi 64, án athugasemda eigenda Stuðlabergs 62.   Verður að telja, með hliðsjón af greindum atvikum og lagasjónarmiðum, að málefnaleg rök hafa búið að baki þeirri ákvörðun bæjaryfirvalda að beita ekki þvingunarúrræði 56. gr. skipulags- og byggingarlaga til niðurrifs umdeilds skúrs. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar er hafnað.

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

43/2011 Hagi

Með

Ár 2011, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Ó, f.h. eigenda jarðarinnar Kross, Vesturbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verið felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Var byggingarfulltrúa þegar gert viðvart um framkomna kröfu um stöðvun framkvæmda en af hans hálfu var upplýst að hann hefði ekki veitt heimild til að hefja framkvæmdir við bygginguna.  Síðar, eða hinn 26. júlí 2011, bárust úrskurðarnefndinni upplýsingar um að umdeild bygging hefði verið reist en það mun hafa verið gert án vitundar eða samþykkis byggingarfulltrúa og án lögboðinna úttekta af hans hálfu.  Stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við bygginguna þegar honum varð um þetta kunnugt og eru af þessum sökum ekki efni til að taka kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Málavextir:  Upphaf málsins má rekja til ársins 2006, en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Vesturbyggðar hinn 29. júní það ár var tekin fyrir umsókn frá Móru ehf. um 1,4 ha lóð á iðnaðarsvæði við ána Móru fyrir ferðaþjónustu á Barðaströnd.  Nefndin tók jákvætt í erindið en benti á að rétt væri að auglýsa umrædda lóð.  Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum hinn 8. febrúar 2008.  Bókaði nefndin að ekki hefði verið farið að tillögu hennar um að auglýsa lóðina en samþykkti að umsækjandi fengi lóð á umræddum stað fyrir starfsemi sína og nýtti sökkulveggi sem þar væru fyrir ef unnt væri.  

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. september 2010 var tekin fyrir umsókn Móru ehf. um byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi á áður steyptum grunni vestan Móru undir ferðaþjónustutengda starfsemi tengda íslenskum landbúnaði.  Samþykkti nefndin fyrir sitt leyti byggingu hússins með fyrirvara um fullnægjandi hönnunargögn, meðmæli Skipulagsstofnunar og grenndarkynningu.   Á fundi nefndarinnar 10. mars 2011 var lagt fram bréf umhverfisráðuneytis um undanþágu frá kröfu um fjarlægð frá vegi og svar Skipulagsstofnunar um að stofnunin gerði ekki athugasemdir við byggingu umrædds gripahúss á þessum stað.  Jafnframt var  bókað: „Þar sem ekki hefur tekist að fá áritun allra nágranna til samþykkis verður grenndarkynning að fara fram áður en afstaða verður tekin til byggingarleyfis.“ 

Hinn 17. mars 2011 ritaði byggingarfulltrúi bréf til þeirra er málið varðaði.  Sagði í bréfinu að grenndarkynning ætti ekki við en hagsmunaaðilum væri þó gefinn kostur á að koma að athugasemdum.  Meðfylgjandi þessu bréfi voru svör Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis.  Samkvæmt bréfi Skipulagsstofnunar hafði Vesturbyggð sótt um meðmæli stofnunarinnar 27. september 2009 og var lóðin þá sögð vera iðnaðarlóð.  Skipulagsstofnun ritaði sveitarfélaginu bréf 14. október s.á. og óskaði eftir rökstuðningi fyrir því hvernig framkvæmdin samræmdist landnotkun samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Í svari frá Vesturbyggð hinn 22. nóvember 2009 kom fram að villa væri í aðalskipulagi varðandi uppgefnar stærðir á tveimur iðnaðarlóðum, en þær væru í raun 0,3 ha en ekki 3 ha.  Væri svæðið þar sem fyrirhuguð bygging ætti að rísa því landbúnaðarsvæði.

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 23. mars 2011 var fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 10. mars s.á. tekin fyrir og eftirfarandi bókað vegna 6. töluliðar um umsókn Móru ehf:  „Forseti lagði fram tillögu um að töluliðnum verði vísað til fullnaðarafgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd. Samþykkt samhljóða. Fundargerðin staðfest samhljóða.“  Á fundi nefndarinnar hinn 13. maí 2011 var fjallað um framkomnar athugasemdir og bygging umrædds stálgrindarhúss fyrir ferðaþjónustutengda starfsemi samþykkt.  Var sú ákvörðun staðfest af bæjarstjórn Vesturbyggðar 18. s.m. og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru eigendur jarðarinnar Kross á Barðaströnd en jörðin á land að ánni Móru.  Telja þeir að fyrirhuguð framkvæmd muni valda mengun og truflun við ána, m.a. vegna aukinnar umferðar og beitar.     

Vísað sé til þess að svæðið þar sem umdeild bygging eigi að rísa teljist ekki landbúnaðarsvæði samkvæmt skilgreiningu gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Búið sé að selja viðkomandi spildu frá lögbýli.  Teljist hún því ekki landbúnaðarsvæði og geti byggingin þar með ekki tengst búrekstri á jörðinni.  Skipulagsstofnun hafi því ekki haft fullnægjandi upplýsingar til að mæla með veitingu byggingarleyfisins. 

Með byggingarleyfinu sé verið að heimila byggingu fjölskyldugarðs samkvæmt skilgreiningu Vesturbyggðar frá 18. maí 2011 en ekki verslunar og þjónustubyggingu og því eigi gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð ekki við.  Sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 m frá bakka, sé háð leyfi Fiskistofu, sbr. 33. gr. laga um lax- og silungaveiði nr. 61/2006.  Ekkert slíkt leyfi sé til staðar, en horn byggingarinnar sé samkvæmt Fasteignamati ríkisins um 87 m frá ánni Móru.  Samkvæmt afsali fyrrum eiganda spildunnar sé skilyrt að áin verði ekki fyrir neinni mengun.  Þá sé kaupanda óheimilt að leigja eða nota landið sem beitiland nema það sé örugglega girt.  Ekkert mat á mengunarhættu liggi fyrir, t.d. frá Náttúrustofu Vestfjarða, en síðasta ár hafi stafað mengun frá þeirri starfsemi sem nú þegar sé til staðar.  Ákveðin fjarlægð þurfi að vera á milli bygginga sem hýsi ólíka starfsemi eins og hér sé um að ræða og brotið hafi verið gegn 24. gr. hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 með því að leita ekki neinnar umsagnar þar um. 

Loks vísi kærendur til þess að grenndarkynning hafi ekki farið fram með réttum hætti í upphafi þar sem lóðarhafi hafi sjálfur leitað samþykkis hagsmunaaðila.  Ekki hafi verið nein kynning á niðurstöðu nefndarinnar um þær athugasemdir sem fram hafi komið.

Málsrök Vesturbyggðar:  Af hálfu Vesturbyggðar er vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir framangreindu gripahúsi á þessum stað.  Umsækjandinn eigi búmark fyrir 50 fjár og hafi leigusamning um hluta úr landi Litluhlíðar til upprekstrar og slægju, með tveggja ára uppsagnarfresti.  Hámarksákvæði 3. gr. samþykktar Vesturbyggðar um búfjárhald eigi því ekki við í þessu tilfelli.  Skipulags- og byggingarnefnd taki afstöðu til þeirra umsókna sem lagðar séu fyrir en ekki til þess sem hugsanlega verði gert í framtíðinni.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að umfjöllunarefni í kæru fari langt út fyrir verksvið úrskurðarnefndarinnar þar sem þess sé krafist að við mat á því hvort skilyrði til útgáfu byggingarleyfis séu uppfyllt verði metnar líkur á því hvort byggingarleyfishafi kunni að brjóta önnur skilyrði og kvaðir sem á hann kunni að verða lögð, m.a. af heilbrigðisyfirvöldum, vegna fyrirhugaðs reksturs.

Þær athugasemdir sem fram hafi komið þegar framkvæmdin hafi verið kynnt hafi ekki snúið að húsbyggingunni sjálfri eða þeirri starfsemi sem byggingarleyfishafi ætli að reka þar.  Telji byggingarleyfishafi óumdeilt að byggingarleyfi honum til handa hafi verið gefið út í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og eigi það því að standa óhaggað.  Fráleitt sé að fullyrðingar kærenda, um að hann muni ekki fá umrædd leyfi eða brjóta gegn skyldum sem slík leyfi kunni að leggja á hann, eigi að hafa áhrif á mat á því hvort veita hafi mátt byggingarleyfið.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að ógilt verði ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 er merkt iðnaðarsvæði norðan Barðastrandarvegar, vestan árinnar Móru.  Í greinargerð skipulagsins segir að iðnaðarsvæði utan þéttbýlis séu Hvestuvirkjun og mannvirki tengd henni, sem og iðnaðarlóð á Krossholti.  Nánar segir í lýsingu þessara iðnaðarsvæða að á Krossholti séu tvær iðnaðarlóðir, eins og tveggja ha að stærð, og er gerð grein fyrir byggingum á þeim lóðum.  Ekki er á uppdrætti aðalskipulags gerð grein fyrir afmörkun þessa iðnaðarsvæðis heldur er svæðið tilgreint með hringlaga merki með lit er táknar iðnaðarsvæði og árituninni I2.  Verður því að leita annarra heimilda um afmörkun svæðisins.

Meðal málsgagna er skipulagsuppdráttur fyrir Krossholt, unninn af Teiknistofu Skipulags ríkisins, að stofni til frá september 1976, en á hann er ritað maí 1988.  Bendir það til að hann hafi komið í stað eldri uppdráttar frá árinu 1976.  Samkvæmt uppdrætti þessum er syðsti hluti spildu sveitafélagsins úr landi Haga, vestan Móru, merktur sem atvinnusvæði, milli austur- og vesturmarka spildunnar, og er sú lóð þar sem umdeild bygging var heimiluð innan þess svæðis.  Er það í samræmi við það sem fram kemur í bókunum skipulags- og byggingarnefndar í málinu á árinu 2006 og 2008 þar sem lóðin er sögð vera á iðnaðarsvæði við Móru.  Það styður og þá niðurstöðu að um iðnaðarsvæði sé að ræða að á umræddri lóð var fyrir sökkull og ber heimildum saman um að þar hafi átt að rísa hús fyrir fiskhausaþurrkun.

Eftir að fram hafði komið ábending frá Skipulagsstofnun um að rökstyðja þyrfti hvernig fyrirhuguð starfsemi samræmdist landnotkun á svæðinu samkvæmt gildandi aðalskipulagi komu fram þær skýringar af hálfu sveitarfélagsins að villa væri í aðalskipulagi varðandi stærðir iðnaðarlóða á svæðinu, sem væru 1000 og 2000 m² að flatarmáli, eða samtals 0,3 ha í stað 3,0 ha.  Lóðin væri því utan iðnaðarsvæðisins og teldist því á landbúnaðarsvæði, enda væri samkvæmt aðalskipulaginu allt land í dreifbýli landbúnaðarsvæði sem ekki væri skilgreint með öðrum hætti. 

Úrskurðarnefndin telur þessar skýringar ekki haldbærar.  Sé um villu að ræða í staðfestu aðalskipulagi kallar það á leiðréttingu og gildir texti aðalskipulagsgreinargerðar óbreyttur meðan ekki hefur verið gerð á honum breyting eða leiðrétting með formlegum hætti.  Þar við bætist að umrædd lóð er á landspildu í eigu Vesturbyggðar sem hvorki hefur lögbýlisrétt né tilheyrir bújörð eða lögbýli.  Getur hún því ekki talist landbúnaðarland, sbr. gr. 4.14.1 í skipulagreglugerð nr. 400/1998, þar sem segir að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar.

Að því virtu sem að framan er rakið verður að telja að umdeild bygging sé á skilgreindu iðnaðarsvæði.  Samkvæmt skilgreiningu í gr. 4.7.1 í tilvitnaðri skipulagsreglugerð, sem áréttuð er í greinargerð Aðalskipulags Vesturbyggðar 2006-2018, skal á iðnaðarsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin er geta haft mengun í för með sér, s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvum fyrir úrgang.  Telur úrskurðarnefndin að sú bygging fyrir ferðatengda starfsemi, tengda landbúnaði, sem um er deilt í málinu, falli ekki að skilgreindri landnotkun aðalskipulags.  Hafi því ekki verið fullnægt því skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis, sem sett er í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að mannvirkið og notkun þess skuli samræmast skipulagsáætlunum á svæðinu.  Verður hin kærða ákvörðun af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi  ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

15/2010 Tóftabraut

Með

Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2010, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Bakkastöðum 131, Reykjavík, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 um að hafna sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Fyrir liggur að kæra í máli þessu barst þegar meira en 30 dagar voru liðnir frá hinni kærðu ákvörðun.  Ekki verður þó talið að það eigi að leiða til frávísunar m.t.t. þess að óskað var eftir endurupptöku málsins, en með því var kærufrestur rofinn, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar. 

Málavextir:  Upphaf málsins má rekja til þess að eigandi lóðanna Tóftabrautar 2 og 4, Grímsnes- og Grafningshreppi, óskaði eftir breytingu á deiliskipulagi sem fólst í því að mörk nefndra lóða breyttust lítillega svo unnt væri að staðsetja gestahús sem til stóð að byggja á annarri lóðinni.  Umrædd breyting var samþykkt í sveitarstjórn 2. júlí 2009.  Í nóvember s.á. óskaði eigandi lóðanna eftir því að fá að sameina lóðirnar tvær og var á fundi skipulags- og byggingarnefndar 25. nóvember 2009 samþykkt að grenndarkynna slíka breytingu fyrir eigendum sjö aðliggjandi lóða.  Samhljóða athugasemd barst frá eigendum fimm lóða á svæðinu þar sem breytingartillögunni var mótmælt.  Tillagan var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd 26. janúar 2010 ásamt athugasemdum er borist höfðu og var breytingunni hafnað í ljósi þeirra athugasemda.  Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 4. febrúar s.á. með frekari rökstuðningi í tilefni af viðbótarrökum sem kærandi hafði sent inn til stuðnings beiðni sinni. 

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2010, óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar var erindinu hafnað með vísan til fyrri afgreiðslu og var sú afgreiðsla staðfest í sveitarstjórn 4. mars s.á. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að aldrei hafi verið ætlunin að byggja bústaði á báðum lóðunum heldur hafi alltaf staðið til að nýta þær sem eina lóð.  Kærandi hafi fært mörkin milli umræddra lóða einu sinni og sjái fram á að þurfa að gera það að nýju til þess að geta staðsett aðalhús á miðju landi, þar sem lóðamörkin séu nú. 

Kærandi telji að eðlilegast hefði verið að fresta málinu hinn 4. febrúar 2010 til að skoða fyrirliggjandi rök og gefa honum færi á að koma að andmælum.  Ljóst sé að fram komnar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast enda skiptist sameignarkostnaður í umræddu sumarhúsahverfi á milli 40 lóðareigenda, en ekki 16 eins og þar sé haldið fram.  Þá leiddi breytingin til að færri bústaðir yrðu á svæðinu og umferð og viðhald vegar yrði minna.  Sameignarkostnaður tengist auk þess rekstri en ekki skipulagsmálum.  Skipulags- og byggingarnefnd eigi ekki að hafa afskipti af skiptingu kostnaðar og viðhaldi vega og sé nefndinni því ekki rétt að hafna erindinu á þeim forsendum.  Loks bendi kærandi á að formaður félags landeigenda á svæðinu hafi hvatt kæranda til að sameina umræddar lóðir. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákveðinn stöðuleiki þurfi að ríkja í skipulagsmálum og að veigamikil rök þurfi til breytinga á áður samþykktu deiliskipulagi á sumarhúsasvæðum.  Einnig hafi fimm eigendur lóða á svæðinu sent inn samhljóða athugasemdir og lagst gegn sameiningu lóðanna. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á synjun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

Fallast má á það með sveitarfélaginu að festa þurfi að ríkja í skipulagsmálum.  Í gildi er nýlegt deiliskipulag fyrir umrætt svæði og væri með breytingu þeirri sem um var sótt raskað samræmi í stærð lóða og skiptingu sameiginlegs kostnaðar á svæðinu.  Lóðarhafar á deiliskipulagssvæði eiga almennt að geta treyst því að nýlegu deiliskipulagi verði ekki breytt nema ríkar málefnalegar ástæður séu fyrir hendi.  Verða ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur ekki skilin svo að lóðarhafar eigi rétt á að fá deiliskipulagi breytt til samræmis við óskir sem þeir kunna að hafa.  Verður ekki annað séð en að umdeild ákvörðun sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald í sínu sveitarfélagi, hafi verið lögmæt og að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hennar.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu synjunar sveitastjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 4. febrúar 2010 á beiðni um sameiningu sumarhúsalóðanna Tóftabrautar 2 og 4 í eina lóð. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

53/2011 Sóltún

Með

Ár 2011, mánudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. júlí 2011, er barst nefndinni 14. s.m., kæra Á og B, f.h. stjórna húsfélaga að Sóltúni 5, 7, 8-12, 11-13, 14-18, og 28, Mánatúni 2, 4 og 6, og Borgartúni 30 A og B, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011 að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var sett fram krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. júní 2011 var tekin fyrir umsókn framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar þar sem sótt var um leyfi til að koma fyrir færanlegum kennslustofum að Sóltúni 6 í Reykjavík, sem stóðu áður að Hraunbergi 12, og á lóðum Sæmundarskóla, Borgaskóla og Rimaskóla.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um lokaúttekt og samþykki heilbrigðiseftirlits.  Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 30. júní 2011.  Byggingarleyfi var síðan gefið út hinn 6. júlí s.á. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi skipulag umrædds svæðis.  Gildandi deiliskipulag kveði á um að á lóðinni Sóltúni 6 megi byggja tveggja hæða fræðslustofnun en hið kærða byggingarleyfi heimili flutning færanlegra kennslustofa á lóðina og ekki verði séð að um bráðabirgðaleyfi sé að ræða.  Engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þessara breyttu framkvæmda, svo sem kveðið sé á um í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Íbúar hafi um árabil verið í viðræðum við borgaryfirvöld um að lóðin yrði nýtt undir útivistarsvæði sem ekki sé þar vanþörf á, en ekkert knýi á um að setja þar skóla í ljósi þess að íbúar hverfisins séu að stærstum hluta eldri borgarar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúa í máli þessu verði hafnað.  Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Ármannsreits sem taki m.a. til greindrar lóðar við Sóltún.  Með breytingu á því deiliskipulagi sem samþykkt var í borgarráði 3. febrúar 2005 og tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á., hafi verið heimilað að byggja fræðslustofnun á tveimur hæðum, allt að 3.320 m², á lóðinni nr. 6 við Sóltún.  Umræddar kennslustofur séu samtals um 527 m² og því vel innan ramma gildandi deiliskipulags.  Séu því ekki rök til að verða við ógildingarkröfu kærenda. 

Niðurstaða:  Með breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits frá árinu 2005 var heimiluð bygging 3.320 m² fræðslustofnunar á allt að tveimur hæðum að Sóltúni 6.  Að minnsta kosti helmingur bílastæða skyldi vera neðanjarðar en reikna skyldi með einu bílastæði fyrir hverja 50 m² húsnæðis, 33 stæði neðanjarðar og 33 stæði ofanjarðar.  Deiliskipulagi þessu hefur ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar í máli þessu. 

Umdeilt byggingarleyfi heimilar að settar verði einnar hæðar færanlegar kennslustofur úr timbri fyrir leik- og grunnskóla á nefnda lóð, samtals 527,4 m² að stærð.  Á samþykktum aðaluppdrætti kemur fram að á lóðinni verði 18 bílastæði. 

Notkun heimilaðra bygginga er í samræmi við gildandi deiliskipulag og flatarmál þeirra og stærð rúmast innan skipulagsskilmála.  Þá liggur ekki annað fyrir en að byggingarnar séu innan marka byggingarreits lóðarinnar og fjöldi bílastæða uppfylli kröfur skipulagsins.  Ekki skiptir hér máli þótt um sé að ræða byggingar sem fluttar séu á umrædda lóð, enda hefur í framkvæmd ekki verið gerð krafa um sérstakar heimildir í skipulagi fyrir slík hús að því tilskyldu að byggingarnar falli að skilmálum gildandi skipulags.  Í byggingarleyfum sem heimila flutning húsa eru gerðar kröfur um fullnægjandi frágang og umbúnað eins og um hús sem reist eru á lóð.  Var því ekki þörf á breytingu skipulagsins með almennri auglýsingu eða grenndarkynningu skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð hins kærða leyfis, verður kröfu um ógildingu þess hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. júní 2011, sem borgarráð staðfesti hinn 30. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni Sóltúni 6 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

10/2011 Lækjarnes

Með

 Ár 2011, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2011, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2011, er barst nefndinni 21. s.m., kærir Þ, Laxnesi I í Mosfellsbæ, samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag Lækjarness.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011.

Málavextir:  Mál um deiliskipulag fyrir Lækjarnes í Mosfellsdal hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði uppkveðnum 14. janúar 2010 felldi nefndin úr gildi deiliskipulag sem þá hafði verið samþykkt fyrir umrædda landspildu.   Hinn 6. september 2010 var auglýst tillaga að deiliskipulagi Lækjarness með athugasemdafresti til 18. október s.á.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum hinn 8. október 2010.   Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. nóvember s.á. var fjallað um framkomnar athugasemdir og skipulagstillagan samþykkt með lítils háttar breytingu.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 1. desember 2010.  Skipulagsstofnun afgreiddi hið nýja deiliskipulag með bréfi, dags. 22. desember 2010, og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. janúar 2011, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar á hinni kærðu samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.  Hafi hann mótmælt umræddu deiliskipulagi hinn 8. október 2010 og hafi aðalathugasemd verið að áformað væri að breyta reiðleið í akveg, en samkvæmt aðalskipulagi þessa svæðis sé gert ráð fyrir reiðslóð.  Deiliskipulagið sé því í ósamræmi við staðfest aðalskipulag.  Einnig séu mörk Lækjarness og Laxness óljós og ennfremur sé umrætt deiliskipulag á vatnsverndarsvæði.

Deilur hafi staðið undanfarin ár um veg sem liggi meðfram Köldukvísl, að Lækjarnesi og svonefndum Bakkakotsvelli.  Mosfellsbær hafi undanfarin ár ítrekað hundsað óskir kæranda um að koma skikk á málið.  Ógni síaukin umferð bíla öryggi viðskiptavina Laxnesbúsins auk þess sem alvarleg slys hafi orðið á svæðinu.

Landeigendur hafi falið lögmönnum Bændasamtakanna að afla heimildar sýslumanns til upptöku landamerkja og hafi landeigendur í fórum sínum sannanir fyrir því að Mosfellsbær hafi selt hluta úr landi Laxness I, sem og haft makaskipti á skikum og stækkað aðrar lóðir án samráðs við meðeigendur sína.  Einnig séu til gögn sem sýni að lóð Lækjarness hafi stækkað mikið og þetta mál verði tekið upp samhliða öðrum þar sem landeigendur ætli að hreinsa til í málum Laxneslandsins, með eða án aðkomu Mosfellsbæjar.

Sé það eindreginn vilji Mosfellsbæjar að deiliskipuleggja þessa lóð verði bærinn að finna henni aðra aðkomu því samþykki meðeigenda sé ekki fyrir hendi, enda hafi bærinn engin lagaleg rök til eignaupptöku á landi sem nota eigi sem aðkomu að lóðinni.

Málsrök Mosfellsbæjar:  Mosfellsbær krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað, enda hafi engir formgallar verið á málinu, rétt hafi verið staðið að málsmeðferð þess og deiliskipulagið sé ekki í ósamræmi við gildandi aðalskipulag. 

Mosfellsbær vísi í bréf skipulags- og byggingarnefndar til lögmanns kæranda dags. 23. nóvember 2010.  Þar komi fram að vegur meðfram Köldukvísl að Lækjarnesi fari um land sem sé í óskiptri sameign nokkurra aðila, þ.á m. Mosfellsbæjar, og hafi um árabil þjónað sem aðkoma að golfvelli og Lækjarnesi.  Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar séu vegir heim að bæjum og býlum almennt ekki sýndir og þótt þar sé sýnd reiðleið í svipaðri legu og umræddur vegur þýði það ekki að þarna sé eingöngu reiðleið en ekki akvegur.  Nefndin fallist því ekki á að deiliskipulagið sé í ósamræmi við aðalskipulag að þessu leyti.  Bent sé á að í greinargerð Lex lögmanna frá 21. febrúar 2008 og greinargerð Mosfellsbæjar vegna kæru í máli nr. 156/2007 komi fram að umræddur vegur hafi verið til staðar þegar kærandi hafi keypt eignarhlut sinn í Laxnesi og hafi vegurinn þá þjónað sama hlutverki.  Hið kærða skipulag geri ekki ráð fyrir breytingu á vegstæðinu í landi kæranda né breyttum notum á veginum.  Frá því þessi greinargerð hafi verið lögð fram hafi eigendur 93% hins óskipta lands að Laxnesi I, gert með sér sérstakt samkomulag um að vinna deiliskipulag fyrir umræddan veg, m.a. til þess að skilja að umferð akandi og ríðandi vegfaranda og auka þar með öryggi beggja. 

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 2. gr. skipulags- og byggingarlaga sé deiliskipulagi ætlað að vera nánari útfærsla á aðalskipulagi.  Þótt kveðið sé á um reiðleiðir í aðalskipulagi Mosfellsbæjar sé lega vega háð þeirri ónákvæmni sem almennt sé um að ræða í aðalskipulagi og ráðist m.a. af mælikvarða uppdráttar.  Ekkert ósamræmi sé því á milli aðal- og deiliskipulags að þessu leyti.

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á samþykkt Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010 um deiliskipulag fyrir lögbýlið Lækjarnes í Mosfellsbæ.  Telur kærandi að deilskipulagið samræmist ekki gildandi aðalskipulagi þar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir akvegi að skipulagssvæðinu en aðeins sé þar sýndur reiðvegur í aðalskipulagi.  Þá séu áhöld um merki Lækjarness en sú landspilda hafi verið stækkuð án samráðs við landeigendur.

Ekki verður fallist á að hin kærða ákvörðun fari í bága við aðalskipulag.   Á uppdrætti gildandi Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 má sjá að gert er ráð fyrir vegi á umræddum stað, auk reiðvegar.  Svæðið næst Köldukvísl nýtur hverfisverndar en það girðir þó ekki fyrir að vegur sé á umræddum stað þar sem hann hefur verið kominn til sögunnar fyrir samþykkt aðalskipulagsins.  Verður þetta ráðið af því að vegurinn er m.a. aðkoma að golfskála í landi Minna-Mosfells sem reistur var árið 1996.  Af sömu ástæðu verður ekki séð að samþykkis kæranda hafi þurft við þegar ákvörðun var tekin um akveg um land Laxness á umræddum stað þar sem kærandi var þá ekki orðinn eigandi að eignarhlut sínum í jörðinni, en eignarheimild hans er dagsett 27. janúar 1999.  Landnotkun samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi er jafnframt í samræmi við aðalskipulag en Lækjarnes hefur nú stöðu lögbýlis samkvæmt leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 2. júlí 2010.

Ekki verður fallist á að það hafi átt að koma í veg fyrir að unnt væri að gera deiliskipulag fyrir land Lækjarness þótt kærandi bæri brigður á merki landsins gagnvart Laxnesi.  Felur deiliskipulag ekki í sér neina ákvörðun um merki eða um breytingu á þeim og stendur það því ekki í vegi fyrir að kærandi geti vefengt merkin eftir þeim reglum sem gilda um meðferð slíkra mála. 

Með hliðsjón af framansögðu, og þar sem enga annmarka er að sjá á undirbúningi eða gerð hinnar kærðu ákvörðunar, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kæranda um ógildingu á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 1. desember 2010, um deiliskipulag Lækjarness í Mosfellsdal, er hafnað.

___________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson