Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2010 Hásteinn

Árið 2012, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2010, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 21. apríl 2010 um breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. júlí 2010, er barst nefndinni 13. s.m., kæra tólf íbúar og eigendur að Bessahrauni 15, 16, 18, 20, 22 og 26, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 21. apríl 2010 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein.  Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 18. febrúar 2010 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja að auglýsa breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein.  Fól tillagan í sér að afmarkað yrði 18.000 m² svæði sunnan við Þórsheimili og austur að íþróttamiðstöð við Illugagötu er nýtt yrði fyrir tjaldsvæði.  Var fyrirhugaðri breytingu andmælt með bréfi er 61 maður ritaði undir, þ.á m. allir kærendur. 

Tillagan var næst tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 7. apríl s.á. og samþykkt með þeim breytingum að syðstu hlutar tjaldsvæðisins yrðu færðir fjær byggð, til norðurs.  Á fundi bæjarstjórnar hinn 21. apríl 2010 var greind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs lögð fram til umræðu og staðfestingar og hún samþykkt og öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda 25. júní s.á. 

Kærendur telja að verði tjaldsvæði bæjarins til framtíðar staðsett í svo mikilli nálægð við fasteignir þeirra muni það hafa í för með sér verulegt ónæði, óþrifnað og jafnvel eignaspjöll fyrir íbúa á svæðinu.  Sveitarfélagið bendir hins vegar á að hin kærða samþykkt sé í fullu samræmi við þá landnotkun sem skilgreind sé fyrir svæðið í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014.  Staðið hafi verið að umræddri breytingu með þeim hætti sem lög og reglugerðir kveði á um. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein var afturkölluð á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 29. mars 2012 og var auglýsing um ógildingu þeirrar ákvörðunar birt í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl s.á.  Hefur ákvörðunin því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. 
Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson