Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2012 Flekkudalsvegur

Árið 2012, föstudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2012, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 31. janúar 2012 um að synja um leyfi til endurbyggingar sumarhúss að Flekkudalsvegi 18a, Kjósarhreppi. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra J og H, eigendur sumarhúss að Flekkudalsvegi 18a, Kjósarhreppi, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 31. janúar 2012 að synja um leyfi til endurbyggingar nefnds sumarhúss.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 1996 festu kærendur kaup á sumarhúsi við Flekkudalsveg 18a en á lóðinni eru einnig aðrar stakstæðar byggingar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps hinn 4. júlí 2011 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að endurbyggja og stækka nefnt sumarhús og fylgdi umsókninni teikning að um 70 m² sumarhúsi er tengt yrði svokölluðu svefnrými sem fyrir er á lóðinni, um 20 m² að stærð.  Í umsókninni kom fram að stefnt væri að því að flytja tilbúið hús á lóðina og rífa það sem fyrir væri.  Var afgreiðslu málsins frestað og fært til bókar að gera þyrfti grein fyrir öllum byggingum á lóðinni og heildarstærð þeirra.  Kærendur sendu Kjósarhreppi bréf, dags. 27. ágúst s.á., þar sem fram kemur að umbeðin gögn fylgi.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. október 2011 þar sem vísað var til fyrri bókunar nefndarinnar um málið. 

Með bréfi til byggingarnefndar, dags. 26. október 2011, óskuðu kærendur eftir umsögn nefndarinnar við hugmyndum um endurbyggingu sumarhúss á lóð kærenda samkvæmt teikningum að 55,3 m² sumarhúsi, sem bréfinu fylgdu, og fyrirhugað væri að tengja fyrrnefndu svefnrými.  Var erindið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. nóvember s.á. og afgreitt með svofelldri bókun:  „[Kærendur] leggja fram fyrirspurn um endurbyggingu á sumarhúsi sínu við Flekkudalsveg nr. 18A. Lögð er fram teikning sem sýnir fyrirhugaða endurbyggingu hússins og hvort það samræmist gr. 4.4. í gildandi deiliskipulagi. Hafnað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“ 

Annar kærenda kom á framfæri athugasemdum við greinda afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar með bréfi til nefndarinnar, dags. 5. desember 2011.  Í bréfinu sagði m.a: „Undirritaður fer þess góðfúslega á leit að byggingarnefnd Kjósarhrepps endurskoði afstöðu sína frá 16. nóvember 2011 er snýr að endurbyggingu frístundahúss við Flekkudalsveg 18a.  Óska ég eftir því að umsókn mín um endurbyggingu, skv. teikningum sem fylgdu erindinu, verði samþykkt.“  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 31. janúar 2012 var erindið tekið fyrir og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Synjað.  Þegar byggð hús sem standa innan 50 m frá ám og vötnum er leyfilegt að endurnýja/endurbyggja og skulu stærðar og hæðarmörk miðast við núverandi hús.“ 

Hafa kærendur kært synjun skipulags- og byggingarnefndar frá 31. janúar 2012 til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að ekki verði séð að skipulagsákvarðanir komi í veg fyrir að leyfi verði veitt fyrir endurbyggingu sumarhúss þeirra að Flekkudalsvegi 18a.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi t.d. í október 2011 samþykkt leyfi fyrir 120 m² húsi við Flekkudalsveg þar sem byggingarreitur hafi verið 35 m frá vatni.  Telja verði að málsmeðferð Kjósarhrepps á umsókn kærenda hafi í mörgu verið ábótavant og í andstöðu við lög á þessu sviði og stjórnsýslulög, svo sem jafnræðisreglu þeirra laga.  Kærendur vísi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 5/2002 máli sínu til stuðnings. 

Málsrök Kjósarhrepps:  Kjósarhreppur fer fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindum kærenda á fundum hinn 16. nóvember 2011 og 31. janúar 2012 hafi ekki tekið til umsóknar um byggingarleyfi heldur hafi verið um að ræða afgreiðslu á fyrirspurnum frá kærendum.  Enn fremur beri að vísa kæru frá þar sem annar kærenda hafi ekki verið aðili að umsókn um byggingarleyfi í júní 2011. 

Athugasemdir kærenda við málsrökum Kjósarhrepps:  Kærendur mótmæla því að vísa beri kæru þeirra frá og benda á að með bréfi til byggingarnefndar Kjósarhrepps, dags. 5. desember 2011, hafi verið óskað formlega eftir því að umsókn um endurbyggingu sumarhússins yrði samþykkt.  Sé í því sambandi einnig vísað til þess að erindi þeirra hafi verið synjað en svo hefði tæpast verið gert ef um afgreiðslu á fyrirspurn hefði verið að ræða.  Jafnframt sé bent á að í bréfi byggingar- og skipulagsfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2012, þar sem tilkynnt hafi verið um afgreiðslu málsins, hafi verið bent á kæruleiðir ef ekki yrði unað við úrskurð nefndarinnar. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 11. apríl 2012.  Óskuðu kærendur eftir fresti til að koma að athugasemdum í málinu og bárust þær nefndinni 13. ágúst 2012. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu sem ekki verða rakin hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Kærendur sóttu um leyfi til að endurbyggja og stækka sumarhús sitt að Flekkudalsvegi 18a í júlí 2011 og var umsóknin tekin til meðferðar af skipulags- og byggingaryfirvöldum Kjósarhrepps.  Í október sama ár óskuðu kærendur eftir afstöðu byggingarnefndar til breyttra teikninga að fyrirhuguðum mannvirkjum og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. nóvember s.á. var erindi þeirra hafnað.  Loks lögðu kærendur inn erindi til byggingarnefndar í desember s.á. með ósk um að umsókn þeirra yrði samþykkt með skírskotun til þegar framlagðra teikninga.  Liggur því fyrir í máli þessu að tekist er á um synjun skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kærenda um byggingarleyfi sem lögð var fram í desember 2011. 

Samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010, sem tóku gildi 1. janúar 2011, annast byggingarfulltrúi meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykki byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9.-11. og 13. gr. laganna.  Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt um að í sveitarfélaginu skuli starfa byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.  Þá er sveitarstjórn heimilað í 2. mgr. ákvæðisins að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna.  Samþykkt sem sett er skv. 7. gr. mannvirkjalaga skal lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda.  Kjósarhreppur hefur ekki sett sér sérstaka samþykkt með heimild í 7. gr. laga um mannvirki og fer því um meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisumsókna í sveitarfélaginu eftir ákvæðum þeirra laga.  Brast skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps því vald til afgreiðslu byggingarleyfisumsókna kærenda. 

Hin kærða ákvörðun um synjun byggingarleyfisumsóknar kærenda var ekki tekin af byggingarfulltrúa Kjósarhrepps, svo sem lög standa til, sbr. 11. gr. laga um mannvirki, og liggur því ekki fyrir í máli þessu lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem borin verður undir úrskurðarnefndina.  Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson