Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2012 Bugavirkjun

Árið 2012, föstudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 115/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2012, er barst nefndinni 31. sama mánaðar, kærir Björn Jónsson hrl., f.h. Leirárskóga ehf., þá ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. október 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir Bugavirkjun í landi Eystri-Leirárgarða í Hvalfjarðarsveit.  Með bréfi, dags. 15. nóvember 2012, kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 8. nóvember 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir stíflu Bugavirkjunar.  Mál það, sem er nr. 121 hjá úrskurðarnefndinni, sameinað máli þessu. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði á um að framkvæmdir sem hafnar séu við gerð Bugavirkjunar verði stöðvaðar til bráðabirgða.  Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Málsatvikum verður aðeins lýst stuttlega í bráðbirgðaúrskurði þessum.  Málið á sér nokkurn aðdraganda en 15. júní 2011 sendu forsvarsmenn fyrirhugaðrar virkjunar í Bugalæk við Leirárgarða tilkynningu til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina.  Með ákvörðun, dags. 27. júlí 2011, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri líklegt að virkjunin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Var sú ákvörðun ekki kærð.  Í kjölfarið var gerð breyting á deiliskipulagi fyrir jörðina Eystri-Leirárgarða þar sem gert er ráð fyrir virkjuninni.  Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 24. september 2012.  Skaut kærandi samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar hinn 22. október s.á. og er það mál til meðferðar  fyrir nefndinni. 

Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar 23. október 2012 veitti sveitarstjórn framkvæmdaleyfi fyrir stíflugerð og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Þá er einnig kært byggingarleyfi sem veitt var hinn 8. nóvember s.á. fyrir stíflu Bugavirkjunar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kröfu sína um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum á því að þær styðjist við deiliskipulag sem sé haldið ýmsum ógildingarannmörkum.  Vísar hann til kæru sinnar, dags. 22. október 2012, þar sem hann gerir kröfu um að deiliskipulagið verði fellt úr gildi vegna annmarka sem aðallega varði málsmeðferð við undirbúning þess.  Þannig hafi auglýsingum m.a. verið áfátt og brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda.  Þá hafi rannsóknarregla stjórnsýslulaga verið virt að vettugi og brotið hafi verið gegn lögmætisreglu og grunnreglu stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið.  Loks hafi verið brotið gegn ákvæðum vatnalaga og laga um mat á umhverfisáhrifum.  Framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum fari í bága við rétt kæranda og eigi sér stoð í skipulagi sem beri að ógilda.  Þar af leiði að stöðva beri framkvæmdir meðan kærumál vegna umrædds deiliskipulags og framkvæmda- og byggingarleyfis séu til meðferðar fyrir nefndinni. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu Hvalfjarðarsveitar er því hafnað að stöðva beri framkvæmdir við Bugavirkjun að kröfu kæranda.  Ákvæði 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mæli fyrir um viðsjárvert inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga, en það vald sé tíundað í skipulagslögum nr. 123/2010.  Um sé að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu sama ákvæðis að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sem kærð sé.  Túlka verði þessa heimild þröngt og megi ljóst vera að henni verði einvörðungu beitt af varfærni og við sérstakar aðstæður.  Áréttað skuli að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls og þaðan af síður að málsmeðferð sveitarstjórnar hafi verið slíkum annmörkum háð að samþykkt kærða sé ógildanleg.  Við beitingu þessa ákvæðis sé nærtækt að hafa til hliðsjónar skilyrði og sjónarmið er varði lögbann, sem sé eðlislíkt réttarúrræði og háð ströngum skilyrðum.

Svo sem fyrr greini séu hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmda ekki fyrir hendi öfugt við mikilsverða hagsmuni virkjunaraðila af framgangi verks.  Hafa skuli hugfast að röskun umhverfis vegna umræddra framkvæmda sé ekki metin óafturkræf.  Verði fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda muni virkjunaraðili að öllum líkindum verða fyrir tjóni, m.a. vegna verktafa.  Áréttað skuli að hagsmunir kæranda séu tryggðir með skaðabótum, sé bótagrundvöllur fyrir hendi. 

Að öllu virtu sé ekkert fram komið sem leiði líkur að því að slíkir alvarlegir meinbugir hafi verið á málsmeðferð, hvorki almennri né gagnvart kæranda, sem geri það að verkum að samþykkt breyting á deiliskipulagi sé ógildanleg.

Málsrök Bugavirkjunar ehf:  Af hálfu Bugavirkjunar ehf. er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Telur félagið enga nauðsyn bera til að stöðva framkvæmdir á grundvelli útgefinna leyfa.  Ekkert óafturkræft rask hljótist af framkvæmdum við gerð stíflunnar.  Verði deiliskipulagið ógilt sé hægt að fjarlægja stífluna, veita vatni fram hjá henni eða einfaldlega í gegnum hana um botnloka þannig að Bugalækur haldi áfram að renna um farveg sinn eins og hann hafi hingað til gert.  Kjósi félagið að halda framkvæmdum áfram, þrátt fyrir kæru, sé það á þess ábyrgð og áhættu.  Í því sambandi sé minnt á að sjónræn áhrif vegna stíflunnar séu óveruleg samkvæmt niðurstöðu umhverfismatsskýrslu með deiliskipulagi, tilkynningu um framkvæmdina og niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.  Að auki sé bent á að afrennsli virkjunarinnar komi út í Leirá á ný stutt frá þeim stað sem lækurinn hafi áður runnið í hana. Í raun séu aðeins tveir veiðistaðir þar sem rennsli minnki vegna virkjunarinnar. 

Ákvörðun um stöðvun framkvæmda nú myndi hins vegar hafa mikil áhrif á framkvæmdina.  Ljóst sé að líkur á að það takist að ljúka gerð stíflunnar í vetur minnki sífellt eftir því sem lengra líði á.  Tíminn nú til framkvæmda við stífluna sé mjög mikilvægur fyrir félagið enda geti það ekki hafist handa á ný við gerð stíflunnar þegar komið sé fram á vor þar sem ekki verði hægt að vinna við stífluna eftir að fiskur taki að ganga í ána.  Hagsmunir kæranda af stöðvun framkvæmda séu hins vegar engir, a.m.k. hafi kærendur ekki gert grein fyrir í hverju þeir felist. 

—————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins. 

Niðurstaða:  Óumdeilt er að kærandi á land að Leirá og að umdeildar framkvæmdir munu hafa nokkur áhrif á rennsli árinnar fyrir landi hans.  Verður því fallist á að hann eigi lögvarða hagsmuni í málinu og geti því borið undir úrskurðarnefndina þær ákvarðanir sem liggja til grundvallar hinum umdeildu framkvæmdum.  Liggur m.a. fyrir að skera úr um álitaefni er varða breytt deiliskipulag Eystri-Leirárgarða og um lögmæti framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Meðal þeirra framkvæmda sem tengjast Bugavirkjun er gerð miðlunarlóns, sem verða mun um 1,5 ha að flatarmál.  Er gerð slíks lóns háð sérstöku leyfi Orkustofnunar skv. 68. gr. vatnalaga nr. 15/1923, með síðari breytingum, en Bugavirkjun er ekki háð virkjunarleyfi skv. 4. gr. raforkulaga nr. 65/2003.  Ekki liggur fyrir leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar Bugavirkjunar samkvæmt tilvitnaðri 68. gr. vatnalaga og leikur því vafi á hvort fullnægt hafi verið lagaskilyrðum til að veita mætti leyfi til framkvæmda við mannvirkjagerð, sem m.a. felur í sér gerð umrædds miðlunarlóns.  Þykir af þessum sökum svo mikill vafi leika á um lögmæti þeirra ákvarðana sem kærðar eru í máli þessu að rétt sé að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Framkvæmdir við Bugavirkjun í Hvalfjarðarsveit skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson