Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2023 Vogar

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júní 2023, kæra Reykjaprent ehf., A, B og C ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi Benchmark Genetics Iceland til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að nýting grunnvatns á grundvelli leyfisins yrði stöðvuð til bráðabirgða að frágreindri tilgreindri vinnslu neysluvatns til þarfa Sveitarfélagsins Voga, en með úrskurði uppkveðnum 21. júlí 2023 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 6. júlí 2023

Málavextir: Framkvæmdaraðili, Benchmark Genetics Iceland hf., áður Stofnfiskur hf., rekur fiskeldisstöð í Vogavík, Stapavegi 1 í Vogum, þar sem fram fer fiskeldi, klakfiskeldi, hrognaeldi og seiðaeldi á laxi. Með tölvubréfi til Skipulagsstofnunar 14. janúar 2019 óskaði framkvæmdaraðili álits stofnunarinnar um hvort fyrirhuguð framleiðsluaukning í stöðunni skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, en áætlað væri að auka framleiðsluheimildir í stöðinni úr 200 í 320 tonn á ári, þar af yrðu 20 tonn framleidd í nýrri seiðaeldisstöð. Fram kom að vatnsnotkun á starfsstöðinni næmi þá 972 l/sek. Engin nýtingarleyfi væru fyrir hendi vegna vatnstökunnar. Það var álit Skipulagsstofnunar, tilkynnt með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, að ekki væri tækt að fara með málið sem tilkynningarskylda framkvæmd og skyldi fara fram mat á umhverfisáhrifum og umhverfisáhrif heildarvatnstöku skoðuð, sbr. 5. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Að undangenginni málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem lauk með áliti Skipulagsstofnunar 10. maí 2021, var með bréfi framkvæmdaraðila, dags. 15. júní 2021, sótt um nýtingarleyfi til vatnstöku til 20 ára úr þeim borholum sem væru í notkun í starfsstöðinni í Vogavík. Sótt var um heildarvatnsnotkun sem næmi rúmum 1.372 l/sek. Með umsókninni fylgdu upplýsingar um nýtingarsvæði, borholur og tilgang nýtingar. Þar kom fram að fyrirhuguð nýting næmi 426 l/sek af grunnvatni og 946 l/sek af grunnsjó. Með þessu var gert ráð fyrir aukningu vatnstöku og skiptist hún þannig að 70 l/sek væru ferskvatn og 330 l/sek væru salt vatn. Þá var greint frá því að HS veitur nýttu 15 l/sek af ferskvatni úr einni holu félagsins sem vatnsból fyrir sveitarfélagið Voga samkvæmt samningi, sem sagt hefði verið upp, en sveitarfélagið væri að vinna að því að fá eigið vatnsból og fengi félagið þá viðkomandi borholu til baka.

 Við undirbúning nýtingarleyfisins aflaði Orkustofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Sveitarfélagsins Voga, með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Hið kærða nýtingarleyfi var síðan gefið út 4. maí 2023. Það nær til þeirrar vatnstöku sem sótt var um en í leyfinu eru skilyrði um magn, nýtingarhraða o.fl., umhverfis- og öryggissjónarmið, frágang, eftirlit og vöktun, upplýsingaskyldu og meðferð upplýsinga, skaðabótaskyldu og vátryggingar o.fl. í ákvæðum leyfisins. Í fylgibréfi með leyfinu er einnig gerð grein fyrir forsendum leyfisveitingar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og fella beri hana því úr gildi. Um hagsmuni sína af málinu benda þeir á að þeir séu eigendur Heiðarlands Vogajarða, sem liggi að svæðinu sem leyfisveitingin taki til. Sá grunnvatnsstraumur sem leyfið lúti að renni um eða undir land þeirra og það sé því hluti vatnstökusvæðisins, sbr. 32. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Nýting sú sem heimiluð sé með leyfinu hafi áhrif á möguleika þeirra til að nýta sömu grunnvatnsauðlind á sínu landi og nái umhverfisáhrif nýtingarinnar beint og sérstaklega til lands þeirra sökum vatnsverndar samkvæmt skipulagi.

Við undirbúning leyfisins hafi ekki verið gætt fyrirmæla 7., 13. og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi aflað sér upplýsinga um að málið væri til meðferðar hjá Orkustofnun og átt frumkvæði að því að óska eftir gögnum og koma að athugasemdum. Skýrt hafi komið fram af þeirra hálfu að þeir teldu sig eiga aðild að málinu samkvæmt stjórnsýslulögum og þeir hafi því óskað eftir því að fá að tjá sig áður en endanleg ákvörðun yrði tekin. Þeim hafi ekki verið veittur slíkur réttur auk þess að ekkert tillit hafi verið tekið til sjónarmiða þeirra. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um hina kærðu ákvörðun með svari Matvælastofnunar við fyrirspurn þeirra, dags. 23. maí 2023.

Um sé að ræða nýtingu grunnvatns sem hafi staðið yfir í lengri tíma án tilskilins leyfis. Af áskilnaði laga nr. 57/1998 um leyfi til nýtingar grunnvatns leiði að aðili sem brotið hafi gegn lögunum með heimildarlausri nýtingu þess geti ekki sótt um og fengið útgefið leyfi eftir á án þess að nýtingin hafi áður verið stöðvuð, hún rannsökuð og ákvörðun tekin um viðurlög við henni. Að öðrum kosti hefðu fyrirmæla laganna um þörf fyrir leyfi og viðurlög við brotum enga þýðingu.

Það hafi ekki verið lagður fullnægjandi grundvöllur að útgáfu hins kærða leyfis í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og fyrirmæli laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun um leyfi þurfi að byggja á fullnægjandi upplýsingum um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar nýtingar sem aflað sé í samræmi við lög nr. 111/2021. Þá þurfi við rannsókn máls að afla fullnægjandi upplýsinga um það vatnshlot sem leyfi lúti að. Það verði ekki séð að fram hafi farið fullnægjandi mat á umhverfisáhrifum þeirrar nýtingar sem leyfið taki til. Fyrirliggjandi mat taki til aukningar á grunnvatnsvinnslu úr 972 l/sek í 1.372 l/sek án þess að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrri nýtingar. Ekki hafi því verið nægilegt að meta einungis umhverfisáhrif aukinnar grunnvatnsnýtingar heldur hefði þurft að fara fram heildarmat á allri framkvæmdinni. Fyrirliggjandi matsskýrsla feli ekki í sér slíkt heildarmat. Þá verði ekki heldur séð að aflað hafi verið fullnægjandi upplýsinga um það vatnshlot og vatnstökusvæði sem nýtingin lúti að, þ.m.t. með tilliti til heildarnýtingarþols umrædds grunnvatnsstraums.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun bendir á að tekið hafi verið við umsögnum og athugasemdum kærenda við undirbúning hins kærða leyfis og tekin hafi verið afstaða til sjónarmiða þeirra. Kærendum hafi ekki verið tilkynnt um leyfisveitinguna, en bent á að leyfið yrði kynnt með frétt á heimasíðu Orkustofnunar. Sjónarmið þeirra hafi með þessu legið fyrir við undirbúning leyfisins. Það hafi verið viðhorf stofnunarinnar frá upphafi að kærendur ættu ekki beinna, einstakra og lögvarðra hagsmuna að gæta af málinu, en þar sem þeir væru eigendur aðliggjandi jarðar og sami grunnvatnsstraumur færi um það land, hafi engin málefnaleg ástæða verið til að neita þeim um aðild að málinu eða aðgengi að gögnum. Lögmaðurinn sem komið hafi fram fyrir hönd kærenda hafi kynnt sig á heimasíðu lögfræðistofu sem sérfræðing í stjórnsýslurétti og hafi stofnunin því talið óþarft að veita nákvæmar leiðbeiningar um rétt kærenda til að tjá sig um gögnin og hvert framhald formlegrar málsmeðferðar yrði.

Stofnunin álítur að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið gætt að skyldu til að veita efnislegan rökstuðning sbr. 21.–22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um öll þau sjónarmið sem kærendur hafi fært fram sé fjallað í fylgibréfi með hinni kærðu ákvörðun. Nokkurs konar neðanjarðará renni til sjávar í Vogavík, en eftir að hún renni undan eignarlandi kærenda verði tæplega séð að þeir hafi hagsmuna að gæta af hagnýtingu hennar. Vegna sjónarmiða þeirra um að þeir verði fyrir nýjum kvöðum með hinu kærða leyfi sé bent á að sá grunnvatnsstraumur sem hagnýttur sé með leyfinu hafi verið hagnýttur um áratugi. Vatnsverndarsvæði vegna vatnstökunnar í Vogavík sé afmarkað í gildandi aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga og byggi að hluta til á Svæðisskipulagi Suðurnesja 1987–2007. Ákvörðun Orkustofnunar leiði því ekki til nýrrar kvaðar sem hafi áhrif á kærendur.

Orkustofnun hafi ekki til meðferðar rannsókn á því hvort ólögmætri vatnstöku sé eða hafi verið til að dreifa. Stofnunin hafi engar upplýsingar fengið um meðferð kæru um það efni, en sé kunnugt um að málið sé til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara, sem hafi verið gert af ríkissaksóknara að taka rannsóknina til meðferðar að nýju, eftir að hún hafi verið felld niður. Tilkynning til lögreglu sé ein og sér ekki málefnaleg ástæða til að stöðva málsmeðferð við undirbúning leyfis samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það sé hins vegar ekki óþekkt að auðlindanýting eigi sér stað án leyfis, en þá séu fyrstu viðbrögð að benda hlutaðeiganda á að sækja um leyfi. Þá séu ekki uppi aðstæður í málinu sem bendi til að teljandi hætta sé á því að yfirvofandi sé óafturkræft umhverfistjón. Stöðvun vatnstöku hefði auk þess haft í för með sér mikið tjón fyrir framkvæmdaraðila og hefði verið fram úr hófi að stöðva hana.

Því sé haldið fram af kærendum að ekki hafi farið fram fullnægjandi umhverfismat fyrir þeirri grunnvatnsnýtingu sem áður hafi verið hafin, það er 350 l/sek af fersku grunnvatni og 600 l/sek af svo að segja fullsöltu grunnvatni (jarðsjó). Af því tilefni sé vísað til áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmd sé skilgreind sem hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir. Hafi nýting grunnvatnsins hafist áður en fyrstu lög um umhverfismat hafi öðlast gildi og staðið um áratugabil. Sú nýting hafi ekki verið háð leyfi yfirvalda. Umhverfisáhrif þeirrar nýtingar liggi því fyrir og þarfnist ekki mats. Aukning vatnstökunnar falli hins vegar undir matsskylda framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Aukin nýting hafi ekki áhrif á forsendur fyrri nýtingar. Engin gögn, sjónarmið eða málsástæður, sem gætu gefið aðra niðurstöðu hafi verið lögð fram, hvorki við málsmeðferð leyfisveitingar né í kæru.

Hvað snerti sjónarmið um að ekki hafi verið aflað nægilegra upplýsinga um það vatnshlot og vatnstökusvæði sem nýtingin lúti að, með tilliti til heildarnýtingarþols hlutaðeigandi vatnsstraums, sé vísað til þess að vatnshlotið og næsta nágrenni þess séu mjög vel rannsökuð. Um þetta sé vísað til greinargerðar sem Orkustofnun hafi unnið í tengslum við annað mál, sem varði umsókn um töku grunnvatns í Heiðarlandi Voga. Þar sé ítarlega farið yfir rannsóknir sem unnar hafi verið á svæðinu og snerti meðal annars grunnvatnsstrauminn sem hér um ræði, m.a. rannsókn nánar tilgreindrar verkfræðistofu frá árinu 2007. Þar komi fram að grunnvatnsstraumurinn beri nýtingu allt að 1.000 l/sek án þess að hætta verði á saltmengun grunnvatnsins, sem sé verulega undir þeirri samanlögðu nýtingu fersks grunnvatns sem leyfi Orkustofnunar taki til.

Orkustofnun hafi leitað lögskyldrar umsagnar Umhverfisstofnunar. Í umsögn stofnunarinnar hafi verið minnt á ákvæði laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og að gæta yrði að því við leyfisveitingu að magnstaða grunnvatns yrði að ná umhverfismarkmiðum um góða magnstöðu, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Fram komi í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina að ólíklegt sé að aukin vatnsvinnsla komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn sem nokkru nemi, að því gefnu að eftirlit tryggi að ekki raskist jafnvægi á milli ferskvatnslinsu og jarðsjós. Þetta sé sama niðurstaða og sjálfstæð rannsókn Orkustofnunar hafi leitt í ljós. Orkustofnun hafi tekið fullt tillit til álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar og þeirra ábendinga sem fram hafi komið í umsögnum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og sett starfseminni þau skilyrði um vöktun og viðbragðsáætlanir sem nauðsynlegar hafi verið taldar til að vernda auðlindina fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum.

Efnafræði grunnvatns á vatnstökusvæðinu sé þekkt. Upptök grunnvatnsstraumsins séu einnig þekkt sem og streymisleiðir. Þol auðlindarinnar hafi verið metið og sé nýting framkvæmdaraðila vel innan þeirra marka. Tekið sé fram í fylgibréfi leyfisins að Orkustofnun hafi metið að vatnstakan, með skilgreindum mótvægisaðgerðum, hafi hvorki neikvæð áhrif á vatnajafnvægi svæðisins, né aðra núverandi nýting grunnvatns, sbr. áskilnað 17. gr. laga nr. 57/1998. Það sé meðal skilyrða leyfisins að vöktun og aðgerðaáætlun liggi fyrir með það að markmiði að ekki verði breytingar á efnafræðilegri samsetningu vatns og gæðum þess verði viðhaldið.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi greinir frá því að upptaka og nýting á grunnvatni sé forsenda fyrir starfsemi hans, en hann hafi starfsleyfi frá 16. desember 2021, sem taki til eldis með allt að 500 tonna hámarkslífmassa á hverjum tíma. Kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, en engin gögn bendi til þess að nýtingin sem heimiluð sé með hinu kærða leyfi hafi nokkur áhrif á hagsmuni þeirra sem landeigendur Heiðarlands Vogajarða. Þvert á móti sýni matsskýrsla framkvæmdarinnar fram á það með óyggjandi hætti að umhverfisáhrif nýtingar á grundvelli leyfisins nái ekki beint og sérstaklega til lands kærenda. Sé í þessu sambandi m.a. bent á það mat sem komi fram í skýrslunni þess efnis að afköst grunnvatnsstraumsins í Vogum þoli vel áætlaða vatnstöku, jafnvel þótt vatnsvinnsla byggðarinnar í Vogum verði aukin. Áhrifin séu metin óveruleg á grunnvatnsstrauma við Vogavík og einnig á núverandi vatnsból Vogabúa og fyrirhugað vatnsból sunnan Reykjanesbrautar.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur gera athugasemd við ummæli Orkustofnunar um hvenær umrædd vatnstaka hafi hafist en hún hafi verið aukin ítrekað eftir að lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi öðlast gildi. Nýting auðlinda án leyfis sé óheimil og varði viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1998. Þá sé í umsögn Orkustofnunar því haldið fram að við rannsókn stofnunarinnar hafi einungis verið litið til áhrifa af aukinni nýtingu en ekki heildaráhrifa hennar. Einnig sé viðurkennt með umsögninni að kærendur hafi ekki notið stöðu aðila máls við undirbúning ákvörðunarinnar.

Í tilefni af athugasemdum framkvæmdaraðila hafni kærendur því að mat hafi verið lagt á heildarvatnstöku í mati á umhverfisáhrifum. Matsskýrslan beri ekki með sér að svo hafi verið gert. Ekki sé hægt að sniðganga fyrirmæli laga um umhverfismat með því að framkvæma mat á einungis litlum hluta framkvæmdar og byggja síðan umsókn um margfalt umfangsmeiri framkvæmd á slíku mati líkt og framkvæmdaraðili virðist gera. Ítrekuð séu einnig sjónarmið um að málsmeðferð við undirbúning leyfisveitingarinnar hafi verið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga. Að endingu sé vakin athygli á gögnum sem hafi orðið til við undirbúning álits Skipulagsstofnunar frá 18. júlí 2023 um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs eldisgarðs á Reykjanesi, sem geri það að verkum að því verði ekki haldið fram að við útgáfu hins kærða leyfis hafi legið fyrir Orkustofnun fullnægjandi upplýsingar um ástand hlutaðeigandi vatnshlots eða um áhrif fyrirhugaðrar nýtingar á það og umhverfismarkmið þess. Verði raunar ekki séð að því hafi verið haldið fram í málinu.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns, allt að 426 l/sek af fersku grunnvatni og 946 l/sek af söltu grunnvatni (jarðsjó) á tilgreindu svæði við Vogavík, í Sveitarfélaginu Vogum, sem er í eigu leyfishafa, sem starfrækir þar fiskeldisstöð.

Um kæruaðild vísa kærendur til þess að þeir séu meðal eigenda Heiðarlands Vogajarða, en það er samkvæmt fasteignaskrá 2719 hektarar að flatarstærð. Þar eru engin mannvirki skráð. Landareignin á merki við lóð leyfishafa í Vogavík þar sem heimiluð er vatnstaka samkvæmt hinu kærða leyfi. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar tók Orkustofnun ekki skýra afstöðu til þess hvort kærendur ættu aðild að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar. Fallast verður á kæruaðild kærenda á þeim grundvelli að ekki verði útilokað að veruleg taka ferskvatns á lóð leyfishafa kunni í nokkrum mæli að hafa áhrif á möguleika kærenda til vatnstöku úr sínu landi síðar meir, en skylt er lögum samkvæmt að tryggja sjálfbæra nýtingu grunnvatns þannig að jafnvægi sé milli vatnstöku og endurnýjunar, sbr. 12. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar var Orkustofnun vel kunnugt um afstöðu kærenda og hefði stofnuninni verið rétt að taka afstöðu til aðildar þeirra að málinu. Þar sem kærendur komu á framfæri sjónarmiðum við meðferð málsins og hafa nú átt þess kost að nýju að koma sjónarmiðum sínum á framfæri gagnvart úrskurðarnefndinni verður að telja að þessi annmarki varði ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er nýting auðlinda úr jörðu háð leyfi Orkustofnunar. Nýtingarleyfi felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögunum, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr. Er nánar fjallað um þá auðlind sem hér um ræðir, þ.e. grunnvatn, í VII. kafla laganna og almennt um skilyrði við veitingu leyfa, efni þeirra svo og afturköllun, sbr. nánar ákvæði VIII. kafla laganna. Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Verður því í máli þessu að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 um leyfisveitingu vegna framkvæmdarinnar, en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er dags. 10. maí 2021.

Lög nr. 106/2000 mæltu fyrir um hvenær framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Tilteknir voru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og voru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið var svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skyldu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar væru í flokki B og C skyldu háðar slíku mati þegar þær gætu haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn með 300 l/sek meðalrennsli eða meira á ári féll undir lið 10.24 í 1. viðauka við lögin og þar með í flokk A. Sama gilti um allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar væru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf færi yfir þau viðmið sem flokkur A setti.

Kemur þá til skoðunar hvort álit Skipulagsstofnunar um framkvæmdina hafi verið haldið ágöllum og þá hvort þeir séu svo verulegir að á því verði ekki byggt. Jafnframt kemur til skoðunar hvort málsmeðferð Orkustofnunar hafi verið ábótavant við undirbúning hins kærða leyfis að teknu tilliti til þess mats á umhverfisáhrifum sem fram fór, en stofnuninni ber skylda til að kanna hvort álit Skipulagsstofnunar fullnægi þeim lagaskilyrðum sem um það gilda. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar beinist því ekki eingöngu að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Orkustofnunar sem leyfisveitanda heldur einnig, eftir atvikum, að málsmeðferð og efnislegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Þá verða lögmæt og málefnaleg sjónarmið að hvíla að baki útgáfu nýtingarleyfis, en eftir atvikum getur þurft að líta til annarra laga. Líkt og endranær hvílir á leyfisveitanda skylda til að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 sagði að í tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun skyldi lýsa framkvæmdinni, eðli hennar og umfangi, framkvæmdasvæði og öðrum raunhæfum valkostum sem til greina koma og upplýsa um þær skipulagsáætlanir sem í gildi væru á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist þeim. Þar skyldi einnig vera áætlun um á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis verði lögð áhersla, hvaða gögnum verði byggt á og hvaða aðferðum beitt yrði við umhverfismatið og áætlun um kynningu og samráð. Framkvæmdaraðili skyldi auglýsa og kynna rafrænt tillögu að matsáætlun fyrir umsagnaraðilum og almenningi áður en hann legði tillögu sína fram til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. Samkvæmt 3 mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 skyldi í frummatsskýrslu ávallt gera grein fyrir raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefði kannað og borið saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Tilgreina skyldi ástæður fyrir aðalvalkosti með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Að fengnum umsögnum og athugasemdum skyldi framkvæmdaraðili skv. 6. mgr. 10. gr. laganna vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu. Skipulagsstofnun gaf svo rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settum samkvæmt þeim og hvort umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Þá skyldi í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu. Jafnframt skyldi leyfisveitandi samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga nr. 106/2000 kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmd sem háð er mati á umhverfisáhrifum og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skyldi leyfisveitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð væri grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu væri vikið frá niðurstöðu álitsins. Leyfisveitandi skyldi í greinargerðinni einnig taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni væri til ef um það væri fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Hinn 20. ágúst 2020 lagði leyfishafi fram frummatsskýrslu um aukna framleiðslu í eldisstöð Stofnfisks í Vogavík til athugunar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Fram kom að leyfishafi hefði heimild fyrir allt að 200 tonna framleiðslu á laxi í eldisstöðinni og áform væru um að auka framleiðslu í allt að 450 tonn þar sem hámarkslífmassi gæti orðið allt að 500 tonn. Var í skýrslunni einnig greint frá því að sökum aukinnar framleiðslu í stöðinni þyrfi að auka vinnslu á grunnvatni og jarðsjó um 400 l/s, úr 972 í 1.372 l/sek. Fram kom að allt vatn á Reykjanesi rynni til sjávar sem grunnvatn. Það rynni greitt um hraunið á lóð fiskeldisins og mikið útrennsli grunnvatns væri undan hrauninu í Vogavík. Ferskvatnslinsa flyti á sjó í berggrunninum. Neysluvatn fyrir þéttbýlið á Reykjanesi væri tekið í Lágum og við Árnarétt fyrir Garðinn, en hins vegar hefði þéttbýlið í Vogum nýtt borholur á lóð leyfishafa. Við þessa vatnstöku alla væri fyrrgreind ferskvatnslinsa hagnýtt. Í skýrslu Íslenskra orkurannsókna ohf., ÍSOR, sem aflað hafi verið í tengslum við matsferlið, komi fram að þétt sjávarsetlag, allt að 80 metrar á þykkt, skilji að ferskvatnslinsuna og jarðsjóinn. Lítil hætta sé talin á að aukin vinnsla á jarðsjó nái til ferskvatnsins sem fljóti ofan á framangreindu setlagi. Því sé talið ólíklegt að aukin sjótaka muni hafa áhrif á gæði núverandi vatnsbóls Sveitarfélagsins Voga og mjög ólíklegt að áhrifa gæti á framtíðarvatnsból sveitarfélagsins, sem markað hafi verið svæði sunnan Reykjanesbrautar.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar, dags. 6. maí 2020, var fjallað um að við meðferð málsins hefði komið í ljós að Sveitarfélagið Vogar væri að kanna möguleika á að tengja dreifikerfi Voga við vatnslögn veitukerfis Reykjanesbæjar, en ekki lægi fyrir hvenær sveitarfélagið gæti hætt að nýta núverandi vatnsból, sem væri á lóð framkvæmdaraðila. Taldi Skipulagsstofnun að með hliðsjón af þeirri óvissu þyrfti í frummatsskýrslu að fjalla um vatnsöflun framkvæmdaraðila og áhrif hennar út frá mismunandi forsendum. Þessa var gætt í skýrslunni þar sem rakið var að til stæði að Sveitarfélagið Vogar mundi í framtíðinni afla neysluvatns annars staðar. Þar hefði komið til greina að bora eftir vatni sunnan Reykjanesbrautar eða tengjast vatnsveitu Reykjanesbæjar. Í skýrslunni kemur fram að 13. maí 2020 hafi sveitarfélagið auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi og tillögu að deiliskipulagi ásamt umhverfisskýrslu vegna nýs vatnsbóls sunnan Reykjanesbrautar. Tenging við vatnsveitu Reykjanesbæjar væri því ekki lengur til skoðunar, en forsenda þess að ráðist yrði í að auka framleiðslu í eldinu væri sú að vatnsból Sveitarfélagsins Voga á lóð framkvæmdaraðila yrði lagt niður og vatnið úr þeim borholum yrðu aftur á forræði fyrirtækisins. Því væri ekki ástæða til þess að meta áhrif aukinnar vatnsvinnslu framkvæmdarinnar á núverandi vatnsból Voga. Á hinn bóginn yrði lagt mat á áhrif aukinnar grunnvatnsvinnslu á fyrirhugað vatnsból sveitarfélagsins sunnan Reykjanesbrautar.

Í frummatsskýrslunni var fjallað um núllkost, en í honum fælist að starfsemi leyfishafa yrði óbreytt. Um leið var fjallað um ólíka valkosti við fráveitu frá starfsemi leyfishafa. Í nokkru var fjallað um aðrar útfærslur fyrir áformaða starfsemi sem hafa mundu áhrif á vatnsþörf og nýtingu vatns. Fram kom að kjörhiti eldisvatns fyrir seiðaeldi væri 12–14°C. Meðalhiti fersks grunnvatns væri 5°C meðan hiti salt vatns væri 9,5–10,5°C. Því þyrfti að hita vatnið svo kjörhita yrði náð. Kostnaðarsamt væri að hita eldisvatn með hitaveituvatni eða rafmagni. Mun hagkvæmara væri að endurnýta ferskvatn sem hitað hefði verið upp og kom fram að um 70% af vatni sem nýtt væri til eldis á klaklaxi og sláturlaxi hjá leyfishafa væri endurnýtt með loftun sem fjarlægi koltvíoxíð úr vatninu og bæti við súrefni. Þekkt væri að við hærri endurnýtingu á sjó geti óheppilegar gastegundir myndast í eldinu, einkum brennisteinsvetni H2S sem væri mjög hættulegt eldisfiski. Því þætti ekki áhættunnar virði að fara í fulla endurvinnslu á eldissjó fyrir klakfisk. Að þessu virtu og því að um var að ræða framkvæmd sem fól í sér aukningu á starfsemi sem þegar var rekin af framkvæmdaraðila, verður að telja að valkostaumfjöllun í frummatsskýrslu í skilningi 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið fullnægjandi, enda þótt hún hefði mátt fela í sér fyllri rökstuðning með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar.

Orkustofnun bar við útgáfu hins kærða nýtingarleyfis að fara að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn vatnamála skyldi ráðherra staðfesta fyrstu vatnaáætlunina eigi síðar en 1. janúar 2018, en það dróst til 6. apríl 2022 og gildir sú áætlun sem þá var sett til loka árs 2027. Vatnaáætlun hefur að geyma þá almennu og bindandi stefnumörkun að öll vatnshlot á Íslandi eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfismarkmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna, en sú stefnumörkun er jafnframt í samræmi við meginreglur laganna, sbr. einkum 12. gr. þeirra.

Í vatnaáætlun er rakið að samkvæmt lögum um stjórn vatnamála skuli skilgreina efnafræðilegt ástand og magnstöðu grunnvatns. Í viðauka við vöktunaráætlun vatnaáætlunar er fjallað um vöktun og ákvörðun efnafræðilegs ástands grunnvatns. Magnstöðu skal hins vegar samkvæmt vatnaáætlun meta út frá hæð vatnsborðs, en til þess að ástand þess sé talið gott skal hæð grunnvatnshlots vera þannig að meðalvatnstaka á ári til langs tíma sé ekki meiri en tiltækt grunnvatn. Hæð grunnvatnsborðs skal þar af leiðandi ekki verða fyrir breytingum af mannavöldum sem gætu haft í för með sér að ekki tekst að ná umhverfismarkmiðunum fyrir yfirborðsvatn, að ástand vatnsins hraki umtalsvert eða að umtalsvert tjón verði á landvistkerfum. Til að geta talist í góðu magnstöðuástandi má breyting á straumstefnu vegna vatnsborðsbreytinga í grunnvatnshloti ekki hafa í för með sér eða benda til innstreymis s.s. salts vatns.

Af hálfu kærenda hefur verið staðhæft að í matsskýrslu framkvæmdarinnar hafi einungis verið fjallað um umhverfisáhrif aukinnar vatnstöku, en ekki þá nýtingu sem þegar væri eða hefði verið á lóð leyfishafa. Þennan skilning má rekja til umfjöllunar í umsögn sem Orkustofnun lét úrskurðarnefndinni í té. Af matsskýrslunni verður ekki ráðið að þessi sé raunin og ber umfjöllun þess merki að lagt sé heildstætt mat á áhrif fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar og vatnsvinnslu að teknu tilliti til annarrar nýtingar, þá einkum öflunar neysluvatns fyrir sveitarfélagið Voga. Þá er vísað til þess í skýrslunni að í lögum um stjórn vatnamála sé mælt fyrir um að tryggja skuli sjálfbæra nýtingu grunnvatns. Yfirvöld hafi ekki gefið út leiðbeiningar um hvernig meta eigi sjálfbærni grunnvatnsvinnslu, en leitast þurfi engu að síður við það að meta hvort fyrirhuguð ferskvatnsvinnsla sé sjálfbær og að jafnvægi verði milli vatnstöku og endurnýjunar. Fram kemur í þessu sambandi að Veðurstofa Íslands hafi gert tillögu að aðferð til að meta magnstöðu grunnvatns og er um það vísað til skýrslu stofnunarinnar frá desember 2019.

Í matsskýrslunni er rakið að vatnstakan fari fram í grunnvatnshlotinu Reykjanes 104-263-G. Í greindri skýrslu Veðurstofunnar hafi verið birt mynd sem sýni annars vegar úrkomu sem falli á vatnshlotið og hins vegar magn vatnstöku innan þess. Samkvæmt því falli talsvert meiri úrkoma í grunnvatnshlotinu Reykjanes, sem Vogavík tilheyri, en sem nemi þekktri grunnvatnsvinnslu á því svæði. Settur er þó sá fyrirvari í matsskýrslunni að þessi nálgun sé ónákvæm og gefi ekki raunsanna mynd af misdreifðu álagi. Engu að síður megi gera ráð fyrir að enn sem komið er þurfi vinnsla grunnvatns að vera umtalsvert meiri til þess að hafa neikvæð áhrif á grunnvatnsauðlindina sem sé tiltæk. Þá er einnig vísað til skýrslu sem ÍSOR vann um neysluvatnsból á Suðurnesjum þar sem segi um afkastagetu grunnvatnsstraums í Vogum að áætlað hafi verið að hámarksvinnsla úr Lágasvæði sé takmörkuð við allt að 1.800 l/sek. Grunnvatnslíkan nánar tilgreindrar verkfræðistofu hafi verið látið líkja eftir allt að 1.400 l/sek vatnstöku í Lágum og jafnframt mikilli vatnstöku á svæðinu við Snorrastaðatjarnir sunnan við Voga og verði ekki annað séð en að vatnsvinnslusvæðin ættu að geta annað þvílíkri úrdælingu.

Fram kemur í matsskýrslunni að í Vogum sé tekið vatn úr sama grunnvatnstraumi og fari um Snorrastaðatjarnir. Vatnstaka leyfishafa sé nú um 350 l/sek og ætlunin sé að auka hana um 70 l/sek. Þessu til viðbótar komi ætlanir um nýtt Vatnsból fyrir Voga sem verði 100 l/sek og samtals sé vatnstakan því um 520 l/sek eða um rúmur þriðjungur þessa. Þá er í matsskýrslunni fjallað um úrkomu, sem sé langmikilvægasti þátturinn varðandi írennsli til grunnvatns. Það megi áætla, miðað við upplýsingar um úrkomu frá Veðurstofu Íslands, að írennsli til grunnvatns af 9 til 13 km2 svæði þurfi til að uppfylla fyrirhugaða vatnstöku leyfishafa í Vogavík. Svæðið norðan Fagradalsfjalls, sem um ræði, sé víðáttumikið, en þaðan komi stór hluti ferska grunnvatnsins sem renni til Vogavíkur. Í þeim samanburði þurfi lítinn hluta landsvæðisins til að standa undir vatnstöku vegna starfseminnar. Með hliðsjón af þessu og því að ekki hafi orðið vart breytinga á efnainnihaldi ferskvatns í Vogum þrátt fyrir mikla dælingu þar árum saman verði að ætla að núverandi vinnsla sé sjálfbær og verði það áfram þrátt fyrir 20% aukningu.

Fram kemur í matsskýrslu að grunnvatnslíkan tiltekinnar verkfræðistofu hafi verið notað til að meta mengunarhættu á vatnsból Voga vegna bílastæðis sem sé á lóð eldisstöðvarinnar. Talið sé að mengunarhættan sé afar lítil þar sem bílastæði sé réttu megin við ferskvatnsstrauminn á leið hans til sjávar. Fjallað er um úttekt ÍSOR sem aflað var í matsferlinu, en þar komi fram að engar sjáanlegar þversprungur væru nærri vatnsbólinu eða á fyrirhuguðu byggingarsvæði seiða- og hrognahúss. Ekki væri talin hætta á að mengun bærist til vatnsbólsins þvert á grunnvatnsstrauminn. Ferskt grunnvatn væri steinefnasnautt og leiðni þess því lág, en hún aukist við blöndun við saltvatn. Klóríð í grunnvatni á Íslandi eigi uppruna sinn fyrst og fremst í sjó en í undantekningartilvikum í saltríkum jarðlögum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi fylgst með rafleiðni (seltu), styrk klóríðs, sýrustigs og grugginnihaldi í vatnsbóli Voga síðan 2008 og hafi allir þættir eftirlitsins uppfyllt gæðakröfur um neysluvatn. Styrkur klóríðs árið 2017 hafi þó verið við mörk reglugerðar, en niðurstöður leiðnimælinga hafi ekki verið í samræmi við styrk klóríðsins. Talið var hugsanlegt að um misritun væri að ræða.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum aukinnar framleiðslu í eldisstöðinni í Vogavík, frá 10. maí 2021, var m.a. fjallað um umsagnir umsagnaraðila um matsskýrsluna. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja kom fram að þótt fyrirhugað byggingarsvæði sé ekki í aðrennslisstefnu að vatnsbólum þurfi að meta sérstaklega hvort hætta sé á rennsli um sprungur þvert á meginstrauma. Verði niðurstaðan sú að framkvæmdir geti hafist á meðan vatnsvernd sé enn á þessu svæði þurfi engu að síður að binda jarðvinnu og aðrar framkvæmdir ströngum skilyrðum um mengunarvarnir, líkt og þegar sé gert undantekningalaust á grann- og fjarsvæðum vatnsverndar.

Í umsögnum Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar voru gerðar athugasemdir við umfjöllun um grunnvatn. Orkustofnun benti á að í frummatsskýrslu væri talið að þar sem 80 metra þéttur setlagabunki aðskilji jarðsjó og ferskvatnslinsu sé ályktað að ólíklegt sé að aukin sjótaka á lóð

Stofnfisks muni hafa áhrif á gæði neysluvatns í fyrirhuguðu vatnsbóli Voga, sunnan Reykjanesbrautar. Þykkt umrædds setlags hafi mælst 80 m á einum stað, í holu SV-14, en í annarri holu skammt frá, holu SV-9, sé umrætt setlag mun þynnra. Jafnframt gerði stofnunin athugasemdir við umfjöllun og viðmið framkvæmdaraðila í umfjöllun um umhverfisáhrif grunnvatnstöku þar sem áætlað írennsli til grunnvatns á ferkílómetra á svæðinu sé borið saman við heildarstærð umrædds vatnsverndarsvæðis. Umræða um sjálfbærni nýtingar út frá þeim forsendum sé að mati Orkustofnunar marklaus. Stofnunin hafni ekki fullyrðingu framkvæmdaraðila um umhverfisáhrif vatnsnýtingar, en telur að hana hafi þurft að rökstyðja með ítarlegri og afmarkaði hætti. Einnig taldi stofnunin að víkja hefði átt betur að fyrirhugaðri aukinni vatnsvinnslu Sveitarfélagsins Voga í mati á afkastagetu grunnvatnsstraumsins. Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að stofnunin teldi að áhrif á vatnsvinnslu kunni að verða talsvert neikvæð á endurnýjun vatnshlotsins yrði of miklu ferskvatni dælt, en annars verði áhrifin óveruleg.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var greint frá viðbrögðum framkvæmdaraðila við umsögnum sem aflað var við gerð matsins. Þar komi fram að í kjölfar nýrra upplýsinga um hugsanlegar tafir á færslu núverandi vatnsbóls Voga og þar með afléttingu vatnsverndar á svæðinu hafi framkvæmdaraðili látið vinna sérfræðiálit um grunnvatnsstrauma þar og hugsanlega mengunarhættu vegna byggingarframkvæmda við vatnsbólið. Leitað hafi verið eftir frekari umsögn Heilbrigðiseftirlitsins sem legðist ekki gegn áformunum, en hafi bent á að framkvæmdir væru háðar ströngum skilyrðum um mengunarvarnir. Í álitinu var einnig greint frá svörum framkvæmdaraðila um að yfirvöld hefðu ekki gefið út leiðbeiningar um hvernig meta ætti sjálfbærni grunnvatnsvinnslu. Tilraun væri gerð til að meta sjálfbærni fyrirhugaðrar vatnsvinnslu, en í umsögn Orkustofnunar væru ekki settar fram leiðbeiningar um hvernig sjálfbærnimat þurfi að vera til að það geti talist marktækt.

Úrkoma og leysing væru ráðandi þættir um magnstöðu grunnvatns, en einnig lekt berggrunnsins og hve mikið vatn rúmist í grunnvatnsgeymum. Samkvæmt nýlegri skýrslu Veðurstofu Íslands félli talsvert meiri úrkoma (írennsli) til grunnvatnshlotsins sem Vogavík tilheyrði, en sem næmi þekktri grunnvatnsvinnslu á því svæði. Í skýrslu um framtíðarvatnsból Suðurnesja hafi verið sett fram sviðsmynd sem byggð væri á reiknilíkani tiltekinnar verkfræðistofu um áhrif af 1.400 l/sek vinnslu í Lágum og 1.400 l/sek vinnslu við Snorrastaðatjarnir samtímis. Miðað við þá sviðsmynd verði vinnslan án verulegra óæskilegra áhrifa á grunnvatnskerfið. Fram komi í skýrslunni að áformað vatnsból Voga mundi taka grunnvatn úr sama grunnvatnsstraumi og lægi um svæðið við Snorrastaðatjarnir og niður í Vogavík.

Leyfishafi benti af þessu tilefni á að vinnsla fyrirtækisins á ferskvatni næmi nú um 350 l/sek og væri ætlunin að auka vinnsluna um 70 l/sek. Þessu til viðbótar væri fyrirhuguð aukning á vatnstöku úr vatnsbóli Voga um 100 l/s. Samanlögð vatnstaka gæti því numið allt að 520 l/s eða um þriðjungi af áætlaðri afkastagetu grunnvatnsstraumsins. Líkanreikningar áðurnefndrar verkfræðistofu hafi forspárgildi um afkastagetu straumsins í Vogum og allra vatnsbóla frá svæðinu við Snorrastaðatjarnir og niður í Vogavík. Með hliðsjón af því væri ekki hægt að líta svo á að aukin vinnsla grunnvatns yrði umfram afkastagetu grunnvatnsstraumsins á svæðinu. Það væri því mat leyfishafa að áhrif aukinnar grunnvatnsvinnslu yrði óveruleg, bæði á núverandi vatnsból Voga og fyrirhugað vatnsból Voga, sunnan Reykjanesbrautar.

Það var álit Skipulagsstofnunar um áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn að áætla mætti að ólíklegt væri að fyrirhugaðar framkvæmdir og aukin vinnsla grunnvatns kæmi til með að hafa neikvæð áhrif á núverandi eða fyrirhuguð vatnsból Sveitarfélagsins Voga. Stofnunin áleit samt sem áður að vegna hættu á íblöndun jarðsjávar við ferskvatn og vegna hugsanlegra áhrifa á aðra grunnvatnsvinnslu á svæðinu væri ástæða til þess að vakta svæðið og áhrif vinnslunar á framangreinda þætti. Setja þyrfti ákvæði í nýtingarleyfi um vöktun vegna grunnvatnstöku og viðbrögð ef í ljós kæmi að heimiluð vatnstaka hefði meiri áhrif á grunnvatnsborð en upphaflega hafi verið áætlað. Þá væri mikilvægt að í framkvæmdaleyfi yrði kveðið á um verktilhögun sem miðaði að því að draga úr hættu á að mengun bærist í vatnsból.

Leyfisveitanda er skylt, við undirbúning og töku ákvörðunar um leyfi til framkvæmdar sem sætir mati á umhverfisáhrifum, að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Skylt er að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að álit Skipulagsstofnunar sé lögbundið og skuli liggja ákvörðun um leyfisveitingu til grundvallar er það þó ekki bindandi fyrir leyfisveitanda, enda er í lögum gert ráð fyrir því að leyfisveitandi rökstyðji það sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Í fylgibréfi með hinu kærða leyfi var gerð grein fyrir málsmeðferð og lagalegum grundvelli leyfisveitingarinnar auk þess að fjallað var um umsagnir sem bárust um leyfisveitinguna. Í bréfinu var fjallað um þá nýtingu sem þegar ætti sér stað á lóð leyfishafa og áform um að tryggja öflun neysluvatns með vatnsbóli sunnan við Reykjanesbraut. Fram kom að þar sem þau áform hefðu tafist og ekki lægi ljóst fyrir hvort, hvenær eða hvert neysluvatnsöflun fyrir sveitarfélagið yrði flutt, yrði að miða við óbreytt ástand og gera kröfur um að ferskt grunnvatn samkvæmt nýtingarleyfinu uppfyllti viðmið fyrir neysluvatn hvað seltu varðaði.

Fjallað er um álit Skipulagsstofnunar í fylgibréfinu og tekin afstaða til þeirrar ályktunar í álitinu að ólíklegt sé að fyrirhugaðar framkvæmdir og aukin vinnsla grunnvatns komi til með að hafa neikvæð áhrif á núverandi eða fyrirhuguð neysluvatnsból. Einnig er þar tekin afstaða til þeirrar áherslu sem í álitinu er lögð á að tryggt verði með vöktun að aukin vatnsvinnsla hafi ekki áhrif á jafnvægi milli ferskvatnslinsu og jarðsjávar. Fram kemur að Orkustofnun hafi kannað sérstaklega áhrif aukinnar vinnslu jarðsjávar og legði áherslu á að fylgst yrði með áhrifum vinnslu á seltu og magnstöðu grunnvatns og hafi um það verið sett skilyrði í 7. gr. hins kærða leyfis. Nánar tiltekið greinir þar að dýpi borhola til vinnslu á söltu vatni skuli vera nægilegt svo þær dragi eins saltan vökva og hægt sé og skuli meðalselta ekki fara undir 30‰. Mælt er jafnframt fyrir um að árlega skuli leyfishafi skila til Orkustofnunar til samþykktar áætlun um tíðni og fyrirkomulag innra eftirlits ásamt vöktun á áhrifum nýtingar. Skal niðurstöðum vöktunar skilað síðan til stofnunarinnar eigi síðar en 15. apríl hvers árs, sbr. 8. gr. leyfisins.

Hvað varðaði ferskt grunnvatn vísaði Orkustofnun til mats ÍSOR um að vinnsla mundi ekki hafa áhrif á gæði neysluvatns í núverandi vatnsbóli Voga og að út frá líkanreikningum tiltekinnar verkfræðistofu verði ekki annað séð en að grunnvatnsstraumurinn ofan frá Vogaheiði muni anna fyrirhugaðri vinnslu. Engin önnur nýting eigi sér stað úr grunnvatnsstraumnum og ekki verði séð út frá framangreindum greiningum að aukin taka grunnvatns muni sérstaklega takmarka möguleika til vatnstöku sunnan Reykjanesbrautar. Fram kom að sett hafi verið skilyrði í 4. gr. hins kærða leyfis um hámarksseltu ferskvatnsins, sem byggðu á reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn. Með vísan til fyrirliggjandi rannsókna á umræddu svæði og umfjöllunar stofnunarinnar í fylgibréfinu var það álit stofnunarinnar að með tilgreindum mótvægisaðgerðum muni fyrirhuguð vatnstaka hvorki hafa neikvæð áhrif á vatnsjafnvægi svæðisins, né að núverandi nýting grunnvatns verði fyrir áhrifum af þeirri nýtingu sem sótt sé um.

Með vísan til framangreinds verður ekki annað ráðið en að Orkustofnun hafi kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þá er í fylgibréfi með hinu kærða leyfi, í kafla um afstöðu til mats á umhverfisáhrifum, greint frá niðurstöðum í áliti Skipulagsstofnunar og fjallað um viðbrögð og afstöðu Orkustofnunar. Jafnframt er í fylgibréfinu að finna stuttan útdrátt úr athugasemdum þeim sem fram komu við meðferð málsins og svör Orkustofnunar við þeim. Þegar litið er til þessa og þeirra skilyrða sem fram koma í umræddu nýtingarleyfi verður að telja að Orkustofnun hafi bæði lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar hinu kærða leyfi og tekið rökstudda afstöðu til álitsins, m.a. hvað varðar vatnsjafnvægi grunnvatns og hættu á mengun. Sú umfjöllun tók mið af þeim skyldum sem hvíla á Orkustofnun að gæta þess að leyfi samrýmist þeirri stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, en af henni má ráða að stofnunin áleit að ekki væri með útgáfu leyfisins grafið undan stefnumörkun vatnaáætlunar um að vatnshlot eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfismarkmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun látin óröskuð.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi til töku grunnvatns á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

105/2023 Auglýsingaskilti

Með

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2023, kæra á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um að staðsetja auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan lóðina Nesveg 113.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, framsendi innviðaráðuneytið þann hluta kærumála eigenda, Nesvegi 113, Seltjarnarnesi, er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan hús kærenda.

Málsatvik og rök: Með kærum, dags. 22. apríl og 11. maí 2022, kærðu íbúar að Nesvegi 113 ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um uppsetningu biðskýlis strætisvagna við nefnda lóð kærenda. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi úrskurðarnefndin kærumálin til innviðaráðuneytisins með bréfi, dags. 5. september 2022. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, framsendi ráðuneytið úrskurðarnefndinni þann hluta kærumálsins er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlisins þar sem sá hluti málsins félli undir valdsvið nefndarinnar, sbr. ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Kærendur benda á að um sé að ræða svonefnt LED ljósaskilti, sem muni blikka inn um svefnherbergisglugga þeirra. Sveitarfélagið vísaði til þess að ekki væri um auglýsingaskilti að ræða heldur nýtt strætóskýli í stað eldra skýlis sem staðið hafi skammt frá. Þá væri uppsetning skýlisins eða auglýsinga á því ekki í andstöðu við reglur sveitarfélagsins um auglýsingaskilti.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti undir gildissvið laganna. Þá kemur fram í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna að kveða skuli á um stað­setningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingar­leyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt framangreindu ákvæði eru skilti einungis byggingarleyfisskyld þegar þau eru annað hvort frístandandi eða á byggingum.

Í 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar er bygging skilgreind sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki. Biðskýli eru mannvirki sem þjóna almenningssamgöngum og falla sem slík undir skilgreiningu hugtaksins vegur í 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þar er hugtakið vegur skilgreint sem „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Verður biðskýli því ekki talið falla undir hugtakið byggingu í skilningi framangreinds ákvæðis byggingarreglugerðar. Þá verður skiltið ekki talið frístandandi enda er það ein hlið á hinu umdeilda biðskýli sem útbúin er með LED skjá.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að hið umdeilda auglýsingaskilti falli ekki undir ákvæði 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar um byggingarleyfisskyldu. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

87/2023 Grjótháls

Með

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2023, kæra á útgáfu tveggja byggingarleyfa, annars vegar fyrir niður­­­rifi á hluta þvottaaðstöðu, dags. 2. júní 2023, og hins vegar fyrir byggingu bíla­þvotta­­­stöðvar og þvottabáss, dags. 16. júní 2023, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 27. september 2022 um að samþykkja greind byggingaráform á lóðinni Grjót­hálsi 8, Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2023, er barst nefnd­inni 20. s.m., kæra Bón- og þvottastöðin ehf. og B&Þ rekstrarfélag ehf., Grjóthálsi 10, Reykja­vík, útgáfu byggingarleyfa, dags. 2. og 16. júní 2023, til Löðurs ehf. og Lónseyrar ehf., lóðar­hafa lóðar­innar Grjótháls 8, sbr. ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2022 um að samþykkja­ leyfi til niðurrifs á hluta af þvottaaðstöðu og byggingu bílaþvotta­stöðvar og þvotta­bása á lóðinni. Er þess krafist að leyfin verði felld úr gildi. Þá var þess jafn­framt krafist að framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar til bráðabirgða, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði, uppkveðnum 27. júlí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. júlí 2023.

Málavextir: Lóðarhafi lóðarinnar Grjótháls 8, Lónseyri ehf., sótti hinn 30. ágúst 2022 um leyfi til að rífa þvottaaðstöðu og koma fyrir nýbyggingu fyrir bílaþvottastöð á vegum Löðurs ehf. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 27. september 2022 var samþykkt umsókn um leyfi til niður­rifs og byggingar­leyfi þess efnis gefið út til Löðurs ehf. 2. júní 2023. Á sama afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa var jafnframt samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu bíla­þvotta­stöðvar og þvottabása á sömu lóð og var byggingarleyfi vegna þeirra áforma gefið út til lóðarhafa 16. júní 2023.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir eldsneytissölu og skyldri starfsemi á lóðinni Grjóthálsi 8 en að ólokið sé málsmeðferð tillögu að breyttu deili­skipulagi lóðarinnar sem geri ráð fyrir rekstri bílaþvottastöðvar og auknu byggingar­­­­magni. Byggingarleyfin séu gefin út í tengslum við breytta notkun á lóðinni en séu ekki í sam­ræmi við gildandi deiliskipulag og samræmist ekki ákvæði 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sem málsmeðferð deili­skipulags­­breytingar sé ekki lokið hafi hagsmunaaðilum á svæðinu ekki gefist kostur á því að tjá sig um breytinguna eða um framkvæmdir á grundvelli hennar, en sú uppbygging sem fyrir­huguð sé fari gegn hagsmunum kærenda og skynsamlegri uppbyggingu á svæðinu. Þá verði ekki séð af fundargerðum Reykjavíkurborgar að bókað hafi verið um samþykki fyrir útgáfu leyfanna. Sé því dregið í efa að staðið hafi verið rétt að útgáfunni. Umræddar stjórnvalds­ákvarðanir séu því í ósamræmi við mannvirkjalög og ógildanlegar samkvæmt meginreglum stjórnsýslu­­­­réttarins. Jafnframt stangist útgáfa leyfanna á við þau gögn sem kærendur hafi fengið að­gang að í lok síðastliðins júnímánaðar, en virðist engu að síður hafa legið til grundvallar leyfunum. Komi þannig fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 15. september 2022 að byggingar­fram­­kvæmdir á lóðinni samkvæmt umsókn séu „ekki innan gildandi skipulags og gera þarf breytingu á deiliskipulagi“. Ekki verði séð að úr þessu hafi verið bætt eða rétt staðið að útgáfu byggingar­­­leyfanna.

Við blasi að hin fyrirhugaða starfsemi muni koma til með að þrengja verulega að lögmætri starf­semi kærenda við Grjótháls 10. Verulega þýðingu hafi fyrir eignar- og atvinnuréttindi þeirra að skipulagi sé þannig háttað að gott aðgengi sé fyrir umferð að lóð kærenda. Bygging mann­virkja og uppbygging starfsemi hafi verið í því trausti að ekki yrði síðar verulega að henni þrengt sem muni augljóslega leiða af verulegri stækkun mannvirkja á næstu lóð, m.a. vegna aukinnar umferðar sem óhjákvæmilega muni verða þar um.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld telja útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa að öllu leyti samræmast skilyrðum 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.4.4. í byggingar­reglu­gerð nr. 112/2012. Þá hafi bæði málin fengið formlega afgreiðslu á afgreiðslu­fundi byggingar­­­fulltrúa og staðfestingu borgarráðs áður en leyfi hafi verið gefin út. Umsókn leyfis­hafa um byggingu bílaþvottastöðvar og þvottabáss hafi verið vísað til umsagnar embættis skipulags­­­fulltrúa. Í umsögn hans hafi komið fram að fyrirhuguð bygging stæði út fyrir skil­greindan byggingarreit og hafi verið lagt til að deiliskipulagi yrði breytt. Þess í stað hafi byggingar­­­­reitur verið færður til samræmis við gildandi deiliskipulag og byggingin færð innar á reitinn.

Núgildandi deiliskipulag mæli fyrir um að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 0,15 en eftir upp­bygg­ingu samkvæmt byggingarleyfi frá 16. júní 2023 sem kært er í máli þessu verði nýtingar­hlut­fall lóðar­­innar 0,142 og rúmist því innan núgildandi deiliskipulags. Samkvæmt deili­skipu­laginu sé lóðin bensínstöðvarlóð og komi fram að á henni sé heimilt að hafa eldsneytissölu og skylda starf­­semi. Það sé mat Reykjavíkurborgar að sala eldsneytis og rekstur bílaþvottastöðvar sé skyld starfsemi og hafi verið bílaþvottastöð á lóðinni, nánar tiltekið á matshluta nr. 06 í ára­raðir. Í tillögu að breyttu deiliskipulagi sem nú sé í auglýsingu sé landnotkun lóðarinnar ekki breytt heldur aðeins skilgreindur nýr byggingarreitur á matshluta nr. 02 til að tryggja að nægi­legt raf­­magn verði til staðar vegna mögulegrar byggingar á þvottastöð, smurstöð eða dekkja­verk­stæði. Verið sé að auka byggingarmagn á lóðinni í heild sinni úr 0,15 í 0,5 en breytingin hafi ekki áhrif á hin kærðu byggingarleyfi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þvottaaðstaða á lóðinni nr. 8 við Grjót­­háls eigi sér mun lengri sögu en samsvarandi aðstaða á lóð kærenda og muni uppbygging á lóð­inni ekki þrengja að starfsemi kærenda. Málsástæður þeirra um að hin kærðu byggingar­leyfi eigi sér ekki stoð í skipulagi byggi alfarið á misskilningi af hálfu kærenda. Hin umþrættu byggingar­­leyfi byggi ekki á þeirri tillögu að deiliskipulagsbreytingu sem kærendur vísi til heldur alfarið á gildandi deiliskipulagi sem hafi verið í gildi í langan tíma. Í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 15. september 2022, hafi komið fram að nýja þvottastöðin, ásamt yfirbyggða þvotta­­­básnum, samræmdist gildandi deiliskipulagi varðandi skilmála um hámarksnýtingar­hlut­fall en stæði út fyrir skilgreindan byggingarreit á vesturhlið sem færi gegn deiliskipulagi. Í fram­­haldi af umsögninni hafi verið sendir inn lagfærðir uppdrættir til byggingarfulltrúa þar sem mannvirkið hafi verið fært inn fyrir byggingarreit og málinu þar með lokið. Þá hafi kærendur fengið staðfest með tölvupóstum frá byggingarfulltrúa, dags. 28. september 2022, að um­sóknir þeirra um niðurrif á eldra mannvirki og uppbyggingu á nýrri bílaþvottastöð hefðu verið samþykktar á afgreiðslufundi degi fyrr. Að auki komi fram í byggingarleyfunum að af­greiðslan hafi verið staðfest í borgarráði 6. október s.á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvarðana byggingarfulltrúans í Reykjavík á afgreiðslufundi 27. september 2022 að samþykkja niðurrif á hluta þvottaaðstöðu að Grjót­hálsi 8 og áform um byggingu bíla­­þvottastöðvar og þvottabáss á lóðinni.

Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lög­varða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykja­vík frá 27. september 2022 felur í sér heimild til niðurrifs mannvirkja, en telja verður að slíkar framkvæmdir séu almennt ekki til þess fallnar að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hags­muni nágranna með þeim hætti að þeir geti átt kæruaðild. Ekki liggur fyrir að niður­rif um­ræddrar þvottaaðstöðu við Grjótháls 8 snerti einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti átt aðild að kæru vegna þess byggingarleyfis enda hafa kærendur ekki vísað til slíkra hagsmuna varðandi ákvörðun um niðurrif á lóðinni Grjóthálsi 8. Verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fundargerð fyrrgreinds afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulags­ráðs 5. október 2022 og staðfest á fundi borgarráðs degi síðar. Var afgreiðsla um­deildra byggingaráforma því í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og viðauka 2.4 um embættis­afgreiðslur byggingarfulltrúa við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundar­sköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 25. október 2019. Hinn 19. júlí 2023, eftir að kæra barst í máli þessu, óskaði leyfishafi eftir því að fyrra erindi hans yrði breytt í þá veru að skipt yrði um aðalhönnuð og að í stað stálgrindahúss yrði ­forsteypt einingahús. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. ágúst s.á. var umsókn leyfishafa um hin breyttu ­byggingaráform samþykkt og verður litið svo á að kæra í málinu lúti að ­samþykkt byggingaráformanna svo breyttum.

­Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrir­­huguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulags­­áætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga og verður útgefið leyfi að vera í sam­ræmi við samþykkt byggingaráform, sbr. 2. tl. ákvæðisins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040 er svæðið sem hér um ræðir verslunar- og þjónustu­svæði, VÞ49. Í greinargerð aðalskipulagsins segir að verslunar- og þjónustusvæði séu m.a. svæði sem ætlað sé að þjóna vegfarendum, bensínstöðvarlóðir, þvottastöðvar o.fl. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Hálsahverfis frá árinu 2000 og hafa verið gerðar allnokkrar breytingar á því, þ. á m. varðandi Grjótháls 8. Samkvæmt deiliskipulaginu er ló­ðin bensín­stöðvarlóð ­og er hámarks­nýtingar­hlutfall hennar 0,15. Í­ greinargerð á uppdrætti deili­skipulagsbreytingar frá 2002 kemur fram ­að landnotkun lóðarinnar sé óbreytt, þ.e. eldsneytis­sala og skyld starfsemi.

Samkvæmt sam­þykktum aðaluppdráttum er hin kærða bygging í samræmi við gildandi land­notkun aðalskipulags Reykjavíkur og deiliskipulag Hálsa­hverfis enda verður talið að bíla­þvotta­stöð rúmist innan framangreindra skilmála um landnotkun og starfsemi á lóðinni. Nýtingar­hlutfall lóðarinnar í kjölfar hinnar umdeildu byggingar verður 0,142 en heimilað nýtingar­hlutfall hennar í gildandi skipulagi er 0,15 og er nýtingarhlutfallið því innan heimilaðs nýtingarhlutfalls í skipulagi. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deili­skipulag svo sem áskilið er í framangreindum ákvæðum laga nr. 160/2010.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið þeim form- eða efnis­annmörkum sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2022, með breytingu, samþykktri 22. ágúst 2023, og útgáfu byggingarleyfis, dags. 16. júní 2023, fyrir byggingu bílaþvottastöðvar og þvottabáss á lóðinni Grjóthálsi 8, Reykjavík.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

96/2023 Urðarstígur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 13. september 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 96/2023, kæra á drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík vegna skúrs á lóð nr. 4 við Urðarstíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2023, er barst nefndinni 9. s.m., gerir eigandi Urðarstígs 6 og 6A, þá kröfu að skúr á lóð Urðarstígs 4 verði fjarlægður eða færður þrjá metra frá lóðarmörkum Urðarstígs 6–6A.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. ágúst 2023.

Málsatvik og rök: Á lóð Urðarstígs 4 stendur stakstæður skúr við lóðamörk þeirrar lóðar og lóðar Urðarstígs 6–6A, en á síðarnefndu lóðinni er að finna byggingarnar Urðarstíg 6 og 6A sem eru báðar í eigu kæranda. Með tölvubréfi, dags. 29. júní 2023, óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúann í Reykjavík að skúrinn yrði fluttur þrjá metra frá lóðarmörkum Urðarstígs 6-6A. Ítrekaði kærandi erindið 3. júlí s.á. en því var ekki svarað af hálfu byggingarfulltrúa. Hinn 11. júlí 2023 samþykkti embættið umsókn eiganda Urðarstígs 4 fyrir viðbyggingu við suðurgafl húss þeirrar lóðar. Á framlögðum uppdrætti var gert grein fyrir umræddum skúr þar sem sagði að hann hefði verið reistur fyrir mörgum árum með samþykki nágranna.

Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli leita samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar fyrir smáhýsi sem séu minna en þrjá metra frá lóðamörkum. Kærandi hafi verið eigandi Urðarstígs 6 síðan 1995 og Urðarstígs 6A frá 2020 og hafi hvorki gefið munnlegt né skriflegt leyfi fyrir hinum umþrætta skúr. Skúrinn sé ekki að finna á deiliskipulagi svæðisins og hafi því ekki verið tekinn með í útreikningi á nýtingarhlutfalli lóðar Urðarstígs 4. Skúrinn sé 50 cm frá útveggi Urðarstígs 6A en þakrenna sé aðeins 13 cm frá útveggnum og auk þess innan lóðarmarka Urðarstígs 6–6A. Nálægðin geri viðhald ómögulegt og skapi sambrunahættu. Bent sé á að skúrar geymi oft hluti á borð við gaskúta, grill, leysiefni, hleðslubatterí og annað sem eldhætta stafi af.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að kæra málsins feli í sér kröfu um tilteknar aðgerðir af hálfu borgaryfirvalda. Er þess krafist að þeim kröfum verði vísað frá enda sé engri kæranlegri stjórnsýsluákvörðun til að dreifa.

Eigandi Urðarstígs 4 bendir á að skúrinn hafi verið reistur árið 2017, þ.e. áður en kærandi varð eigandi að Urðarstíg 6A. Nágrannar aðliggjandi lóða hafi veitt samþykki fyrir skúrnum og sé það tilgreint á aðaluppdrætti samþykktum af byggingarfulltrúa. Eldri skúr hafi áður staðið á lóðinni með sömu fjarlægð frá Urðarstíg 6A.

Niðurstaða: Hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2020 um mannvirki er m.a. að annast eftirlit með mannvirkjagerð. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að hann myndi beita slíkum úrræðum. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um hvort því erindið hafi verið svarað, en það mun ekki hafa verið gert. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af því að erindi kæranda frá 29. júní 2023 hefur ekki enn fengið úrlausn hjá til þess bæru stjórnvaldi þykir að svo komnu máli þó ekki rétt að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni heldur líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Byggingarfulltrúi hefur ekki brugðist við erindi kæranda en það var lagt fram fyrir tæpum tveimur og hálfum mánuði. Verður að því virtu lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara erindinu, án ástæðulauss dráttar. Ákvörðun hans um hvort beita beri þvingunarúrræðum eða ekki er síðan eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að svara, án ástæðulauss dráttar, erindi kæranda frá 29. júní 2023.

93/2023 Ólafsdalur

Með

 

Árið 2023, föstudaginn 8. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 93/2023, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2023 á erindi Minjastofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gróðursetningu í Ólafsdal í Gilsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafsdalsfélagið, allar athafnir og athafnaleysi og/eða aðra ágalla á málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna tilkynningar Minjastofnunar um fyrirhugaðar skógræktarframkvæmdir í Ólafsdal sem kunni að vera háðar umhverfismati í samræmi við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að fylgja ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana, rannsaki málið og taki í kjölfarið kæranlega ákvörðun um matsskyldu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 31. september 2023.

Málavextir: Árið 2015 afsalaði ríkissjóður 57,4 ha landspildu úr jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði til Minjaverndar. Auk þess var samið um að Minjavernd hefði umsjón með jörðinni sem er alls 328 ha. Hinn 18. mars 2022 lagði Minjavernd fram nýtt deiliskipulag fyrir Ólafsdal þar sem m.a. var lagt upp með að stækka deiliskipulagssvæðið til að koma fyrir merktum gönguleiðum um dalinn, áningarstöðum með upplýsingaskiltum, prílum yfir girðingu og skógrækt.

Við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal, dags. 16. júní 2022, benti stofnunin sveitarstjórn Dalabyggðar á að fyrirhuguð skógrækt á verndarsvæði væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum sbr. lið 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 6. janúar 2023, óskaði Minjavernd eftir því að Skipulagsstofnun legði mat á hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um að koma fyrir lágvöxnum runnum á stökum stað í Ólafsdal og hugsanlega ögn þéttari utan til í dalnum. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með tölvupósti 28. s.m. þar sem fram kom m.a. að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 og að ef áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Ólafsdalsfélagið hafði samband við Skipulagsstofnun með tölvupósti 27. febrúar 2023 og kom á framfæri afstöðu félagsins til skógræktar í Ólafsdal ásamt gögnum því tengdu. Sendi félagið frekari gögn með tölvupósti 9. mars s.á. auk þess sem krafist var að áform Minjaverndar færu í ítarlegt umhverfismat. Skipulagsstofnun svaraði félaginu með tölvupósti 20. mars s.á. þar sem fram kom að erindi Minjaverndar hefði verið svarað 28. febrúar 2023. Þá kom fram að þar sem fyrir lægi ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu þá væri málið ekki lengur til meðferðar  auk þess sem það sem það félli ekki undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ólafsdalsfélagið óskaði eftir afriti af erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar sem og upplýsingum um kærurétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með tölvupósti 23. mars 2023. Var erindi félagsins svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom meðal annars að stofnunin hefði ekki kveðið upp neinn úrskurð í málinu heldur hafi Minjavernd verið leiðbeint um það hvort áformin féllu undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar af leiðandi væri ekki hægt að kæra afgreiðslu Skipulagsstofnunar á málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála væru úr garði gerð. Aftur á móti yrði hægt að kæra framkvæmdaleyfi fyrir umræddum áformum kæmi til útgáfu slíks leyfis af hálfu sveitarfélagsins og krefjast ógildingar á því.

 Málsrök kæranda: Bent er á að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið verulega ábótavant og fari ekki einvörðungu gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins, þar með talið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur hafi stofnunin einnig brotið gegn þáttökuréttindum almennings sem hafi haft þær afleiðingar að réttur kæranda til að koma að athugasemdum þegar ákvörðun um matskyldu skyldi undirbúin hafi verið sniðgengin. Hefði kærandi getað nýtt þennan rétt hefði hann leiðrétt rangfærslur og lýsingu Minjaverndar á fyrirhugaðri framkvæmd sem hefði haft áhrif á rannsókn Skipulagsstofnunar. Þá hafi réttur til að kæra niðurstöðu og ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu orðið óvirkur þar sem stofnunin hafi ekki tekið kæranlega ákvörðun.

Þar sem Skipulagsstofnun hafi brotið gegn þáttökuréttindum almennings og hvorki fylgt þeim ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem gildi um tilkynntar framkvæmdir sem kunni að vera háðar umhverfismati, né tekið ákvörðun um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmda Minjaverndar sem kærandi geti kært til úrskurðarnefndarinnar sé þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir stofnunina að fylgja ákvæðum tilvitnaðra laga, rannsaki málið og taki í kjölfarið kæranlega ákvörðun um matsskyldu.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að ekki fáist séð hvernig brotið sé á þáttökuréttindum Ólafsdalsfélagsins. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið matsskylduákvörðun, enda hafi erindi Minjaverndar ekki verið beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Stofnunin hafi verið að svara fyrirspurn og slíkt svar sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Stofnuninni hafi ekki borið að framkvæma ítarlega rannsókn áður en hún svaraði erindinu og henni hafi ekki borið skylda að lögum að leita eftir sjónarmiðum Ólafsdalsfélagsins áður en erindið var afgreitt. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til Ólafsdalsfélagsins, dags. 23. mars 2023 hafi verið farið betur ofan í skilgreiningu á skógrækt og afstaða stofnunarinnar útskýrð frekar. Ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um drátt á afgreiðslu máls eigi ekki við í málinu. Ekki sé hægt að líta svo á að stofnunin hafi dregið á langinn eða sýnt athafnaleysi að taka matsskylduákvörðun, enda telji stofnunin að framkvæmd Minjaverndar sé ekki skógrækt í skilningi laga nr. 111/2021 og falli því ekki undir lögin. Af því leiði að stofnunin hafi ekki forsendur til  að taka matsskylduákvörðun. Af því leiði að stofnunin telji að vísa beri kæru Ólafsdalsfélagsins frá úrskurðarnefndinni.

 Málsrök Minjaverndar: Minjavernd bendir á að með málinu sé gerð tilraun til að endurvekja mál sem þegar hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. mál nr. 40/2023. Þess sé aðallega krafist að kærunni sé vísað frá en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Kæran hafi borist að liðnum kærufresti þar sem kærufrestur til nefndarinnar sé skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þáttökurétti almennings. Fyrir liggi að kæranda hafi verið tilkynnt um afstöðu Skipulagsstofnunar 20. mars 2023 og sú dagsetning sé það tímamark sem beri að miða upphaf kærufrests við. Kæran hafi hins vegar ekki verið lögð fram fyrr en 2. ágúst s.á., rúmum fjórum mánuðum eftir að kæranda hafi orðið kunnugt um afstöðu stofnunarinnar. Aðildarhæfi kæranda liggi ekki fyrir eða hvort ákvörðun um að leita til úrskurðarnefndarinnar hafi verið tekin í samræmi við samþykktir félagsins. Undanþáguskilyrði 3. og 4. gr. laga nr. 130/2011 séu ekki uppfyllt og kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann njóti kæruaðildar til nefndarinnar. Minjavernd, sem framkvæmdaraðili, hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir með erindi, dags. 6. janúar 2023, í samræmi við tilmæli stofnunarinnar. Meðfylgjandi tilkynningunni hafi verið öll helstu gögn vegna fyrirhugaðra framkvæmda auk þess sem ráða megi af gögnum kærumálsins, sem og máls nr. 40/2023, að kærandi hafi verið í samskiptum við stofnunina, sent henni frekari gögn og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Verði því að telja að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið fullnægjandi gögn svo unnt væri að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort fyrirhuguð áform féllu undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og þar með hvort beina ætti áformunum í ferli sem á við um matskylduákvarðanir stofnunarinnar. Það mat sæti ekki endurskoðun af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Sjónarmið um þáttökurétt almennings komi því ekki til álita auk þess sem ekki verði litið framhjá því að gögn málsins beri með sér að kærandi hafi á öllum stigum málsmeðferðarinnar, bæði við deiliskipulagsbreytingar og við meðferð hjá Skipulagsstofnun, komið á framfæri athugasemdum, gögnum og sjónarmiðum sínum.

Niðurstaða: Tilefni kæru þessara er afgreiðsla Skipulagsstofnunar á fyrirspurn Minjaverndar um hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gróðursetningu í Ólafsdal. Í kærunni kemur fram að kærðar séu allar athafnir og athafnaleysi og/eða annar ágalli á málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna tilkynningar Minjaverndar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er málskot til úrskurðarnefndarinnar einskorðað við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað.

 Fyrir liggur í málinu að erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar var ekki beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021. Aðrar ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi Skipulagsstofnunar eru ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Þá fellur málsmeðferð stofnunarinnar, sem ekki líkur með ákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021, ekki undir endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan greinir er verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

106/2023 Mjólkárlína 2

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 6. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 106/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 um að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 31. ágúst 2023, er barst nefndinni 3. september s.á., kærir íbúi í Ísafjarðarbæ, og 2 handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að nýtt umhverfismat fari fram.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 12. september 2022 lagði Landsnet hf. fram tillögu að breytingu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2 í Arnarfirði, þ.e. þess hluta sem liggur innan marka Ísafjarðarbæjar. Fól tillagan í sér áform um að lagður yrði jarðstrengur frá Mjólká að Hrafnseyri og þaðan með sæstreng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að hefja málsmeðferð í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 15. september 2022 var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Að lokinni frekari málsmeðferð og auglýsingu tillögunnar var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. júlí 2023. Samþykkti nefndin að fela skipulagsfulltrúa að svara umsögnum og athugasemdum og að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna óbreytta með vísan til 32. gr. skipulagslaga. Í fjarveru bæjarstjórnar tók bæjarráð málið fyrir á fundi sínum 17. s.m. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar.

Kærendur telja að aðalskipulagsbreytingin gangi gegn 12. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf. Vegna skammtíma hagsmuna Landsnets hafi ekki allir valkostir um lagnaleið yfir Arnarfjörð verið metnir. Þrír aðrir möguleikar um lagnaleið séu til staðar sem hafi minni áhrif á aðra nýtingu fjarðarins og væru sennilega álíka góðir kostir og sá sem Landsnet hafi kynnt, en þeir hafi ekki verið skoðaðir í valkostagreiningu. Fyrirhuguð lagnaleið muni skerða mikilvægasta veiðisvæði rækjusjómanna í firðinum um a.m.k. 11 km2 en ef strengurinn yrði lagði samhliða öðrum af þeim ljósleiðurum sem nú þveri fjörðinn yrði skerðingin mun minni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2023 Hvammsvirkjun

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022 um að veita Landsvirkjun leyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá og byggingu mannvirkja henni tengdri.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúrugrið, Náttúruverndarsamtök Íslands og NASF á Íslandi ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022, þar sem stofnunin heimilaði Landsvirkjun, fyrir sitt leyti, framkvæmdir við fyrirhugaða Hvammsvirkjun og byggingu mannvirkja henni tengdri, með nánari skilyrðum.

Málsatvik og rök: Um árabil hefur verið unnið að undirbúningi Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Hefur framkvæmdin sætt mati á umhverfisáhrifum, sbr. m.a. úrskurði Skipulagsstofnunar frá 19. ágúst 2003 og umhverfisráðuneytisins frá 27. apríl 2004 jafnframt því að áhrif hennar á landslag og ásýnd lands sem og ferðaþjónustu og útivist hafa verið endurskoðuð og má um það vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 15. febrúar 2018 í sameinuðum málum nr. 10, 11 og 15/2016.

Hinn 14. júlí 2022 féllst Fiskistofa á umsókn Landsvirkjunar vegna framkvæmdarinnar skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Var leyfið veitt með nánar tilgreindum skilyrðum og felur í sér heimild fyrir framkvæmdum við fyrirhugaða virkjun og byggingu mannvirkja henni tengdri. Hinn 21. júlí s.á. birti Fiskistofa auglýsingu á heimasíðu sinni um samþykkt leyfisins og veitti leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest. Tekið var fram að hann næmi einum mánuði frá birtingu auglýsingarinnar.

Um kæruheimild vísa kærendur til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 eins og lagagreininni var breytt með 1. gr. laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, en í skýringum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum hafi komið fram að gert væri ráð fyrir að allar stjórnvaldsákvarðanir sem lytu að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem féllu undir lög um mat á umhverfisáhrifum yrðu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Um kæruaðild vísa kærendur til 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en kærendur séu þrenn félög á landsvísu sem hafi verndun náttúru og lífríkis á stefnuskrá sinni. Um upphaf kærufrests vísa þeir til 4. mgr. 13. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, nú 4. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en þar greinir að leyfisveitandi skuli tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína ásamt því að gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna, en þessa hafi ekki verið gætt af hálfu Fiskistofu að því fram kemur í kæru. Þar sem hið kærða leyfi hafi ekki verið birt opinberlega verði að líta svo á að kærufrestur sé ekki hafinn og kæra hafi því borist innan kærufrests. Þá er því haldið fram í kærunni að hið kærða leyfi sé haldið ýmsum annmörkum, m.a. að rannsókn og undirbúningi leyfisveitingar hafi verið áfátt, leyfið standist ekki ákvæði laga er varði umhverfismat né að það samrýmist fyrirmælum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir Fiskistofu og Landsvirkjunar í tilefni af kæru.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. máls.1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar. Hinn 21. júlí 2022 birti Fiskistofa auglýsingu á heimasíðu sinni um að stofnunin hefði veitt hið kærða leyfi til Landsvirkjunar. Þar kom fram að heimilt væri að kæra útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 26. júní 2023, þ.e. rúmum 10 mánuðum eftir að þeim fresti lauk.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Engin rök hafa verið færð af hálfu kærenda að þeir eigi slíka hagsmuni. Til þess er þá að líta að umhverfisverndar, útivistar- og hagsmunasamtökum er játuð aðild að kærumálum fyrir nefndinni að nánari skilyrðum uppfylltum sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar. Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Verður því í máli þessu að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 um leyfisveitingu vegna framkvæmdar.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2.–3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Í skýringum við 3. gr. með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021 var leitast við að afmarka hugtakið „leyfi til framkvæmda“ nánar en var í eldri lögum nr. 106/2000. Þar var greint frá því að fram til þessa hafi öll leyfi sem afla þyrfti í tengslum við slíka framkvæmd, verið álitin leyfi til framkvæmda, en þau hafi ekki endilega tengst umhverfismati. Í athugasemdum sem komu fram í frumvarpinu var lagt til að hugtakið yrði bundið við leyfi sem veittu heimild til að hefja þá framkvæmd og/eða starfsemi sem félli undir lögin. Þessi skilningur var þó ekki auðsær af því orðalagi sem lagt var til og náði fram að ganga, þ.e. að leyfisskyld framkvæmd þyrfti að varða „meginþætti framkvæmdar“ svo það teldist leyfi til framkvæmda, sbr. 5. tl. 3. gr. laganna. Í athugasemdunum voru í dæmaskyni nefnd leyfi sem ætlunin var að teldust ekki til slíkra leyfa og var þar m.a. nefnt leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum nr. 61/2006.

Oftlega varðar leyfisveiting Fiskistofu minni háttar framkvæmdir, t.d. efnistöku í ám og lækjum, bakkavörn eða ræsisgerð sem geta verið leyfisskyldar einar sér, en geta einnig verið þáttur í stærri framkvæmd. Heimild 33. gr. laga nr. 61/2006 er rúmt afmörkuð þannig að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja slíkum umsóknum og er þar á meðal umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Gert er ráð fyrir því að Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti auk þess gera líffræðilega úttekt á veiðivatni. Í skýringum með greininni segir að reglur hennar feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar, sem unnt sé að krefjast, geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annara umsagnaraðila. Lagagreinin er í V. kafla laganna og virðist tilgangur hennar með þessu að fram fari vegið lögbundið mat á því hvort framkvæmd skuli heimiluð, en jafnframt er með matinu tryggð sönnun um tjón af völdum framkvæmdar sem getur átt undir bótaákvæði VII. kafla laganna.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. júlí 2022, heimilaði Fiskistofa fyrir sitt leyti Hvammsvirkjun og framkvæmdir tengdar henni, en um leið var tekið fram að ekki sé með henni veitt leyfi til gerðar fiskvegar. Samtímis var gerð bending um að skylt væri að kosta gerð og viðhald fiskvegar yrði veitt heimild til að reisa virkjunina samkvæmt öðrum lögum. Þau skilyrði sem sett voru með leyfinu fyrir framkvæmdinni voru byggð á heimildum sem stöfuðu frá ferli umhverfismats samkvæmt lögum nr. 106/2000. Verður með hliðsjón af því að telja hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda skv. lögum nr. 106/2000, sem skylt hafi verið að birta opinberlega með auglýsingu, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna. Í skyldu til opinberrar birtingar auglýsingar um útgáfu leyfis felst að viðkomandi upplýsingar skuli koma fyrir augu almennings eftir leiðum sem líklegt sé að nái til sem flestra er gætu talið sig málið varða, án þess að upplýsinganna þurfi að leita sérstaklega. Getur fréttatilkynning á heimasíðu stofnunar naumast fullnægt þessu og breytir engu í þeim efnum þótt finna megi sérákvæði þar um í öðrum lagabálkum, sbr. t.d. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er mælt fyrir um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Þar er þó einnig tekið fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í því felst að almenningi telst að lögum vera kunnugt um slíkar ákvarðanir frá því að þær hafa verið birtar. Tilgangur fyrirmæla um opinbera birtingu ákvarðana er að tryggja möguleika almennings til að kynna sér efni ákvarðana og eftir atvikum skjóta þeim til úrskurðaraðila. Um leið er leyfishafa með slíkri birtingu veitt trygging fyrir því að máli verði ekki skotið til úrskurðar löngu síðar, við þær aðstæður að aðila verður þá fyrst kunnugt um eða má vera kunnugt um ákvörðun.

 

Af gögnum þessa máls má álykta að kærendum var kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis löngu áður en kæra í máli þessu barst. Fjallað var um útgáfu leyfisins í fjölmiðlum á landsvísu á sínum tíma. Þá má athuga að með stjórnsýslukæru þeirra til nefndarinnar í máli er varðaði gildi virkjunarleyfis Orkustofnunar fyrir Hvammsvirkjun, dags. 7. janúar 2023, var af þeirra hálfu fjallað ítarlega um leyfi Fiskistofu til stuðnings málsrökum. Þykir með vísan til þess ekki óvarlegt að miða upphaf kærufrests í síðasta lagi við þá dagsetningu. Kæra í máli þessu barst nefndinni hins vegar ekki fyrr en tæpum sex mánuðum síðar, þ.e. 26. júní 2023, en þá var kærufrestur til nefndarinnar liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Er slíkum aðstæðum ekki til að dreifa í máli þessu að áliti úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

100/2023 Holtsvegur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. júní 2023 um að  samþykkja breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Holtsvegi 16, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 15. júní 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 29. ágúst 2023.

Málsatvik og rök: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 124/2022, dags. 16. desember 2022, var fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20, Garðabæ, þar sem hið útgefna leyfi var ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag norðurhluta Urriðaholts, 1. áfangi.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 28. febrúar 2023 var samþykkt að vísa til skipulagsnefndar að móta tillögu að breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga, vegna lóðarinnar við Holtsveg 20 þannig að upphafleg hönnum byggingar leikskóla félli að skilmálum deiliskipulagsins. Á fundi bæjarráðs 14. mars s.á. var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á umræddu deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi bæjarstjórnar 16. s.m. Tillagan var lögð fram að nýju í skipulagsnefnd 22. maí s.á. að lokinni auglýsingu ásamt athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma og var málinu vísað til úrvinnslu hjá umhverfissviði og skipulagsráðgjöfum. Tillagan var tekin fyrir að nýju, ásamt drögum að svörum við innsendum athugasemdum, á fundi skipulagsnefndar 2. júní s.á. Samþykkti ráðið tillöguna með þeim breytingum sem lagðar voru fram sem viðbrögð við athugasemdum. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 13. s.m. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um breytingu á deiliskipulagi norðurhluta Urriðaholts, 1. áfanga, og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi sínum 15. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí s.á.

Af hálfu kæranda er bent á að sveitarfélagið hafi ekki gætt nægilega að þeim hagsmunum nágranna, fjárhagslegra og persónulegra, sem fælust í útsýni og skuggavarpi. Lítið hafi verið gert úr athugasemdum íbúa og þær afgreiddar á einu bretti án þess að afla frekari gagna og leggja þau fyrir aðila málsins til umsagnar. Staðið hafi verið fast við samþykkta hönnun og deiliskipulagi breytt til að aðlagast henni, á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, í stað þess að kanna aðra kosti. Athugasemdir íbúa hafi flest allar verið á þá leið að breytingarnar kynnu að valda þeim tjóni vegna aukins skuggavarps og skerðingu útsýnis. Sveitarfélaginu hafi því borið skylda til, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að rannsaka málið. Þá hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að málið snúist um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar, svo sem veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumálum vegna greindra leyfisveitinga sé eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2010 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Að jafnaði sé því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varði gildi deiliskipulagsákvarðana.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulags­ákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

54/2023 Álfhólsvegur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 24. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna „skjólveggjar-stoðveggjar“ á mörkum lóðanna Álfhólsvegar 68 og 70.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Álfhólfsvegi 70, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 24. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna „skjólveggjar-stoðveggjar“ á mörkum lóðanna Álfhólsvegar 68 og 70. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 31. maí 2023.

Málavextir: Lóðirnar Álfhólsvegur 68 og 70 í Kópavogi eiga sameiginleg mörk frá göngustíg við götu að bæjarlandi og er síðarnefnda lóðin austan megin við þá fyrrnefndu. Á báðum lóðunum eru einbýlishús en svæðið hefur ekki verið deiliskipulagt. Árið 2019 reisti eigandi Álfhólsvegar 68 byggingu við lóðamörkin að nr. 70 og árið 2020 reisti hann steypta veggi á mörkum lóðanna og á mörkum lóðar sinnar og göngu­stígs við götuna. Í kjölfarið leituðu eigendur lóðar nr. 70, kærendur í máli þessu, til embættis byggingarfulltrúa Kópavogs vegna framkvæmdanna. Með bréfi, dags. 18. maí 2021, til lóðarhafa kom fram að embætti byggingar­fulltrúa færi vinsamlegast fram á að þeir leituðu sameiginlegrar lausnar á frá­gangi á lóða­mörkum fyrir 20. júní 2021. Að öðrum kosti skyldi fjarlægja vegginn og bygginguna eigi síðar en 20. júlí s.á. Þá kom fram að skoðað yrði hvort til greina kæmi að beita heimild til að knýja fram úrbætur skv. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, s.s. með álagningu dagsekta. Hinn 20. september 2021 var báðum aðilum sent ítrekunarbréf þar sem fram kom að „meint bygging á lóð“ gæti ekki talist smáhýsi og væri því ekki undanskilin byggingarleyfi og að sækja þyrfti um leyfi fyrir byggingunni. Þá kom fram að ef ekkert samkomulag eða umsókn lægi fyrir og mannvirkin stæðu enn yrðu lagðar á dag­sektir frá 1. nóvember 2021. Í bréfi, dags. 15. október s.á., óskuðu eigendur Álfhólsvegar 68 eftir því að veitt yrði byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni. Svokölluð stöðu­skoðun fór fram af hálfu embættis byggingarfulltrúa 16. júní 2022 og voru mannvirkin þar ljósmynduð. Með bréfi, dags. 24. mars 2023, með yfirskriftinni „Efni: Skjólveggur – stoðveggur á lóðarmörkum – ákvörðun byggingarfulltrúa“ var aðilum málsins tilkynnt að ekki væri ástæða til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð. Í ákvörðuninni kom jafnframt fram að veggurinn væri um 10 m á lengd og 1,0 til 1,8 m á hæð. Ennfremur að staðsetning hans væri um 1,2 m frá gangbraut og lóðamörkum að Álfhólsvegi.

Á afgreiðslufundi sínum hinn 4. ágúst 2023 hafnaði byggingarfulltrúi Kópavogs umsókn eiganda Álfhólsvegar 68 um byggingarleyfi fyrir þegar byggðri útigeymslu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að um sé að ræða óleyfisframkvæmdir án samþykkis þeirra á mörkum lóðar þeirra og Álfhólsvegar 68. Annars vegar hafi árið 2019 verið gerð u.þ.b. 20 m2 viðbygging sem nái að mörkum lóðar þeirra og hins vegar hafi árið 2020 verið steyptur veggur á lóðamörkunum. Kærendur telji að með sama hætti og í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 93/2019 hefði átt að beita þvingunar­úrræðum gagnvart eiganda Álfhólsvegar 68 til þess að sjá til þess að hann léti af hinni ólög­mætu athöfn og færði ástand lóðamarkanna til fyrra horfs. Afleiðingar þess að byggingarfulltrúi láti háttsemina óátalda séu að kærendur hafi minni not fyrir lóð sína en áður. Þá hafi þeir ekki átt þess kost að koma að framkvæmdunum og koma að athugasemdum sínum.

Vegna greindrar viðbyggingar fái kærendur ekki notið lóðar sinnar með sem bestum hætti og þá sé hún til þess fallin að rýra verðgildi fasteignar þeirra. Í því skyni að halda frið við nágranna hafi kærendur þó viljað sjá hvort þeir gætu vanist byggingunni en það hefði ekki gengið eftir heldur hefði viðbyggingin valdið þeim miklum ama. Hún sé yfirþyrmandi og þrúgandi og brjóti í bága við ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010, en samkvæmt 1. mgr. 9. gr. þeirra sé m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki eða reisa það nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Einnig sé brotið gegn g. og h. lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um undanþágur frá byggingarleyfi. Þá rúmist viðbyggingin ekki innan byggingarreits enda liggi ekki fyrir sam­þykkt deiliskipulag fyrir svæðið og því ljóst að ekki sé hægt að beita undanþágu greinarinnar.

Á mörkum lóðanna hafi verið fyrir tyrfður jarðefnisveggur úr hlöðnu hraungrjóti sem staðið hefði u.þ.b. einum metra innan við mörk lóðar kærenda. Sá veggur hefði verið fjarlægður af eiganda Álfhólsvegar 68 og eftir staðið sár við hlið innkeyrslu á lóð kærenda. Í framhaldinu hefði hann steypt vegg á mörkum lóðanna og aldrei leitað samþykkis kærenda um gerð, útlit eða umfang hans. Með framkvæmdunum hafi verið gengið á rétt kærenda og þau hafi því sent embætti byggingarfulltrúa tölvupósta í júní 2020. Í kjölfarið hefði mælingarmaður komið frá bænum og merkt lóðamörk. Kærendur hefðu talið málið vera í farvegi hjá bæjaryfirvöldum og því ekki aðhafst frekar, en hinar umdeildu framkvæmdir hafi haldið áfram yfir sumar- og haust­mánuði og svo aftur vorið 2021. Þá hafi kærendur farið að gruna að byggingarfulltrúi hefði ekkert aðhafst vegna athugasemda þeirra og því sent formlega kvörtun til embættisins í apríl 2021. Af f-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar megi ráða að lóðarhöfum samliggjandi lóða sé heimilt án byggingarleyfis að reisa skjólvegg, enda leggi þeir fram hjá byggingarfulltrúa undir­ritað samkomulag um framkvæmdina. Slíku samþykki sé ekki fyrir að fara og því ljóst að byggingarleyfi hefði þurfti til að koma til þess að bygging veggjarins væri lögmæt. Í 2. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar komi fram að ávallt skuli afla byggingarleyfis vegna skjól­veggjar á lóð nema undanþágur gr. 2.3.5. eigi við. Þá segi í 3. mgr. sömu greinar að bygging skjólveggjar á mörkum lóða sé alltaf háð samþykki beggja lóðarhafa og skuli samþykkis leitað áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar og sé um fortakslaust ákvæði að ræða. Undantekningarregla gr. 2.3.5. geti ekki verið skýrð rýmra en sem nemi orðalagi hennar. Með núverandi ástandi og sökum hæðar veggjarins sé gangandi og hjólandi veg­farendum, einkum börnum, mikil hætta búin. Blindhorn hafi skapast með þeim afleiðingum að gang­andi eða hjólandi einstaklingar, þ.m.t. börn, geti ekki tímanlega séð bifreið færða í eða úr innkeyrslu á lóð kærenda. Þá sé aukin hætta ef ísingu geri í brattri innkeyrslunni. Jafnframt sé möguleg fallhætta af veggnum og hætta á að hann muni verka sem snjógildra og þar með auka umfang snjósöfnunar á bílastæði kærenda. Skylda til að vera með byggingarleyfi fyrir framkvæmdum hafi þann tilgang og markmið að fyrirbyggja þá hættu sem nú blasi við á mörkum lóðanna, en í 4. mgr. gr. 7.2.2. byggingarreglugerðar komi fram að ávallt skuli tryggt fullt öryggi barna og annarra gangandi eða hjólandi vegfarenda á lóðum bygginga. Þá sé einnig vísað til gr. 12.1.1. hvað þetta varði.

Byggingarfulltrúa hafi ekki verið stætt á að meta atvik svo að ekki væri þörf á beitingu þvingunarúrræða. Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið lítill sem enginn efnislegur rökstuðningur. Einungis hafi í niðurlagi ákvörðunarinnar komið fram að ekki yrði séð að skjólveggurinn ógnaði öryggis- eða almannahagsmunum, en kærendur telji það efnislega rangt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að í kjölfar erindis kærenda til embættis byggingarfulltrúa í júní 2020 hafi fulltrúar embættisins, aðilar og kærendur átt í samskiptum vegna málsins og hafi fulltrúi byggingar­fulltrúa farið í stöðuskoðun í júní 2022. Engar athuga­semdir hafi verið gerðar við framkvæmdina af hálfu byggingarfulltrúa. Í ljósi þess að aðilum hafi ekki tekist að finna sameiginlega lausn á frágangi á lóðamörkum hafi hin kærða ákvörðun verið tekin.

Engin skilyrði séu til að fallast á kröfu kærenda og hafi ákvörðunin samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðunin hafi verið studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur stoðveggur ógnaði öryggis- eða almannahags­munum. Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að beita sér ekki fyrir því að veggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða og því hafi efnisleg rök legið að baki ákvörðun hans í samræmi við 55. gr. laga nr. 160/2010 og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu eiganda Álfhólsvegar 68 er vísað til þess að fyrir nokkrum árum hafi hann ráðist í lagfæringu lóðar sinnar sem hafi falið í sér að lækka verulega suðvesturhluta hennar og steypa stoðveggi til þess að jafna hæðarmun á milli lóða og við götu, en lóðin sé mun hærri en aðliggjandi lóð kærenda og gangstétt við Álfhólsveg. Veggurinn sé lægri en yfirborð lóðarinnar hefði verið en hæðarmunur hefði áður verið jafnaður með fláa sem hefði náð nokkuð inn á lóð kærenda. Átti hæð jarðvegs sér stoð í samþykktum uppdráttum frá 29. ágúst 1959, en þar komi fram að jarðvegshæð á innri hluta lóðarinnar sé í svipaðri hæð og gólfplata efri hæðar en þaðan sé lóðin stölluð niður í átt að götunni. Veggirnir séu í raun stoðveggir en hvorki girðing né skjólveggir og eigi ákvæði f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem vísað hefði verið til í bréfi byggingar­fulltrúa til kærenda 18. maí 2021, því ekki við. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli miða við jarðvegshæð þeirrar lóðar sem hærri sé ef hæðarmunur sé á milli lóða á mörkum þeirra. Augljóst sé að veggur sem ekki sé hærri en jarðvegsyfirborð þeirrar lóðar sem hærri sé hafi ekki sambærileg grenndaráhrif og girðing eða skjólveggur sem standi upp fyrir yfirborð beggja lóðanna og valdi stoðveggurinn t.d. engu skuggavarpi. Þessi sjónarmið komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 67/2007. Framkvæmdirnar hefðu aðeins falið í sér eðlilegt viðhald eða frágang lóðar og séu ekki háðar byggingarleyfi, sbr. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Þá eigi tilvitnuð gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð ekki við í málinu þar sem ekki sé um byggingar­leyfisskylda framkvæmd að ræða. Snemma árs 2020 hafi byggingarfulltrúa verið sendar upp­lýsingar um áform framkvæmdaraðila og aftur um mánaðamótin maí/júní það ár til að leita svara um afstöðu hans til framkvæmdanna. Byggingarfulltrúi hafi þá ráðlagt honum að færa vegg meðfram gangstétt að götu um 100-150 cm innar í lóðina svo hann skyggði ekki á og hafi hann því fært vegginn um 140 cm frá gangstéttinni. Hins vegar hefði ekki verið sett út á neitt og hvorki minnst á að undirskriftir né leyfi kynni að þurfa. Framkvæmdaáformin hafi verið borin undir byggingarfulltrúa og komið hafi verið til móts við ábendingar hans. Framkvæmdar­aðili hafi því verið í góðri trú um að honum væri heimilt að ráðast í framkvæmdina. Eigi það eitt og sér að girða fyrir beitingu þvingunarúrræða. Í framhaldinu hefði hann hafið fram­kvæmdir við breytingar á lóðinni og hafi hinn 30. júní 2020 verið búið að slá upp fyrir stoð­veggjum á mörkum lóða og við götu. Engar athugasemdir hefðu komið fram og veggirnir verið steyptir. Hinn 12. júlí 2020 hafi verið búið að slá frá stoðveggjunum og frá þeim tíma hafi hæð veggjanna og staðsetning þeirra legið fyrir. Engar athugasemdir hefðu komið fram fyrr en um ári síðar. Kærendur hafi engan reka gert að því að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdina og koma þannig í veg fyrir möguleg eignaspjöll. Raunar munu kærendur hafa verið samþykkir framkvæmdinni en það samþykki hefði þó aðeins verið munnlegt. Þá sé það sjónarmið að ætli bæjaryfirvöld á annað borð að beita þvingunarúrræðum eigi að taka ákvörðun um það án ástæðulauss dráttar. Þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi verið liðið um eitt ár og átta mánuðir frá því að kvartað hefði verið til byggingarfulltrúa. Vísast um þessi sjónarmið til dóms Hæsta­réttar Íslands í dómasafni árið 1996, bls. 1868.

Lagaheimildir byggingarfulltrúa til að mæla fyrir um þvingunarúrræði séu settar til vörslu almannahagsmuna en ekki til þess að tryggja einkaréttarlega hagsmuni nágranna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 444/2008 og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingar­mála í málum nr. 5/2005 og 2/2010, og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 116/2017 og 128/2021. Einstaklingum séu tryggð önnur réttarúrræði til að gæta hagsmuna sinna og sé vísað um það til heimilda til að fá dóm um skyldu manns til að vinna verk að viðlögðum dagsektum sem fram komi í 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einka­mála nr. 91/1991. Þá megi einnig benda á bréf umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4673/2006, dags. 1. júní 2006. Ákvörðun byggingarfulltrúa um beitingu þvingunarúrræða sé háð frjálsu mati og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála takmarkaðar heimildir til endurskoðunar slíkra ákvarðana. Af sömu ástæðu sé marklaust það fordæmi í máli nr. 93/2019 sem kærendur hafi vísað til enda hefði byggingarfulltrúi í því máli ákveðið að beita þvingunarúrræðum og úrskurðarnefndin hafi engar forsendur haft til að endurskoða það mat sem legið hefði að baki ákvörðun hans sem þar af leiðandi hafi verið staðfest. Með sama hætti geti úrskurðarnefndin ekki gert annað í máli því sem hér sé til meðferðar en að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Auk þess séu tilvikin ekki sambærileg þar sem í tilvitnuðu máli hafi verið fjallað um skjólvegg en aðrar reglur gildi um stoðveggi eins og þá sem mál þetta lúti að.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 24. mars 2023 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna „skjólveggjar-stoðveggjar“ á mörkum lóðanna Álfhólsvegar 68 og 70. Í tilkynningu um ákvörðunina kemur fram að hún sé tekin í kjölfar þess að embættið hafi haft til skoðunar kvörtun lóðarhafa Álfhólsvegar 70 vegna veggjarins og viðbyggingar. Þar er ekki að finna frekari umfjöllun um viðbygginguna og verður afstaða byggingarfulltrúa til beitingar þvingunarúrræða vegna hennar ekki ráðin af ákvörðun­inni. Hefur beiðni kærenda um að þvingunarúrræðum verði beitt vegna viðbyggingarinnar því ekki verið efnislega afgreidd af byggingarfulltrúa með hinni kærðu ákvörðun og liggur af þeim sökum ekki fyrir kæranleg ákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna hennar.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja ákvörðunum sínum eftir. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdir. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum laga­heimildum, og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að mál­efnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hugtakið mann­virki er skilgreint í 55. tölulið gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð. Er skilgreiningin samhljóða 13. tölulið 3. gr. laga um mannvirki og kemur í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga m.a. fram að skilgreiningin á hugtakinu sé nokkuð opin enda sé nánast ógjörningur að telja upp þær framkvæmdir sem mönnum kunni að detta í hug að ráðast í og að í dæmaskyni séu taldar upp nokkrar tegundir mannvirkja en alls ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Samkvæmt framangreindu eru jarðfastir steyptir veggir, hvort sem um er að ræða skjól- eða stoðveggi, mannvirki í skilningi nefndra laga og reglugerðar og heyrir gerð þeirra því undir eftirlit byggingarfulltrúa sem eftir atvikum hefur heimild til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt 55. og 56. gr. laga um mannvirki.

Lóðarhafi Álfhólsvegar 68 hefur vísað til þess að hinn umdeildi veggur sé ekki skjólveggur og af þeim sökum krefjist gerð hans ekki samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til hins umdeilda veggjar sem „skjólveggjar-stoðveggjar“. Hugtökin skjól- og stoðveggur eru ekki skilgreind í byggingarreglugerð en í gr. 4.4.4. um lóðauppdrætti kemur fram að á uppdráttum skuli m.a. gera ráð fyrir skjólveggjum, sbr. c-lið, og stoðveggjum, sbr. d-lið. Er því í reglugerðinni gert ráð fyrir að um tvær gerðir af veggjum sé að ræða. Samkvæmt e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð geta skjólveggir og girðingar verið undanþegin byggingar­leyfi en bygging þeirra er þá háð samþykki lóðarhafa samliggjandi lóðar. Í greininni eru í liðum a-f talin upp þau minniháttar mannvirki og fram­kvæmdir sem undan­þegnar eru byggingarleyfi og eru stoðveggir ekki þar á meðal.

Af ljósmyndum sem teknar voru við stöðuskoðun byggingarfulltrúa 16. júní 2022 verður ráðið að hinn umdeildi veggur er steyptur og að mestu leyti byggður til þess að styðja við jarðveg og pall á lóð Álfhólsvegar 68 og því réttnefndur stoðveggur. Hluti veggjarins er nokkru hærri og veitir skjól á litlu svæði á framanverðri lóðinni.

Fyrir liggur að ekki hefur verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjól- og stoðvegg samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010. Þá er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu og ekki er til staðar samkomulag lóðarhafa samliggjandi lóða samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. og 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingar­reglugerðar. Þar sem deiliskipulag er ekki til staðar og samkomulag liggur ekki fyrir er sá hluti sem telst vera skjólveggur ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. Er því ljóst að hvorki hefur verið fylgt ákvæðum laga um mannvirki né byggingarreglugerðar við hina umdeildu framkvæmd. Líkt og fram hefur komið fór fulltrúi embættis byggingar­fulltrúa á staðinn og kynnti sér aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar og þá skoraði hann á lóðarhafa að þeir kæmust að sameiginlegri lausn um frágang á lóðamörkunum. Í hinni kærðu ákvörðun frá 24. mars 2023 kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki yrði séð að hinn umdeildi veggur ógnaði öryggis- eða almannahagsmunum og þá kom þar jafnframt fram að fjarlægð hans frá gangbraut og lóðamörkum að Álfhólsvegi væri 1,2 m. Þar sem veggurinn er inndreginn frá gangstíg verður fallist á það mat byggingarfulltrúa að almanna­hagsmunum hafi ekki verið raskað.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun byggingarfulltrúa að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 24. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna „skjólveggjar-stoðveggjar“ á mörkum lóðanna Álfhólsvegar 68 og 70.

75/2023 Reynimelur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2023, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur Reynimels 55, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. maí 2023 að synja umsókn um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grind­verki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. júlí 2023.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 7. mars 2023, var tekin fyrir umsókn kærenda, dags. 17. febrúar s.á., þar sem sótt var um leyfi til að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði á lóð nr. 55 við Reynimel. Málinu var frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans, dags. 18. apríl s.á., kom fram að „[þ]ótt að bílastæði séu sýnd á uppdrætti í gildandi deiliskipulagi, og einnig sögð heimil skv. skilmálatöflu fyrir lóðina, þá teljast ákvæði deiliskipulags um varð­veislu garðveggja og að óæskilegt sé að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir hafa hærra lagalegt vægi“. Var því ekki fallist á erindið af hálfu skipulagsfulltrúa. Í kjölfarið var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí s.á. og því synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að í deiliskipulagi staðgreinireits 1.540, Melar norðan Hagamels, séu gefnar heimildir fyrir hóflegum viðbyggingum og breytingum á húsum. Í greinargerð skipulagsins, í kafla um geymslur, bílastæði og vinnustofur, komi fram að almennt sé óheimilt að gera nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og því sé heimild til að byggja bílageymslur á lóð einskorðuð við þær lóðir þar sem innkeyrsla eða bílastæði hafi verið í notkun miðað við úttekt haustið 2009. Í sérskilmálum skipulagsins megi sjá að þessum áherslum sé fylgt hvað varði þær götur þar sem húsaraðir með samræmdum framhliðum snúi að götu­rýmunum og samræmt yfirbragð sé á inngöngum, tröppum og steyptum garðveggjum.

Markmiðið um að ekki megi gera nýjar innkeyrslur á lóðir eigi hins vegar ekki við um innkeyrslur frá Hofsvallagötu og Furumel. Í kafla deiliskipulagsins um bílastæði sé tekið fram að heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Þannig séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir nýjar bílageymslur og bílastæði með aðkomu frá Hofsvallagötu á lóðunum Grenimel 37, Reynimel 55, Víðimel 53 og 56 og Hringbraut 77, sem og á fjórum lóðum sem liggi að Furumel. Einnig komi fram í sérskilmálum deiliskipulagsins fyrir Reynimel 55 að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu/geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálum og sé hámarksstærð byggingar 45 m2.

Engar framhliðar húsa með samræmt yfirbragð snúi að Hofsvallagötu eða Furumel, þannig að nýjar innkeyrslur við þær götur séu inn á baklóðir þeirra húsa sem liggi að þeim, sem sé í samræmi við það sem fram komi í greinargerð skipulagsins um að leitast skuli við að skapa eðlilegt svigrúm til stækkunar og breytinga húsa á þeim svæðum sem snúi að garðrýmum. Girðingar og garðveggir við Hofsvallagötu séu með ýmsu sniði og það að stytta einn illa farinn vegg um nokkra metra muni ekki hafa nein áhrif á yfirbragð götunnar. Þá megi benda á að nýlega hafi garðveggur verið rofinn frá Furumel inn á lóðina Víðimel 29. Sú breyting sé í samræmi við þær breytingar sem sótt hafi verið um vegna Reynimels 55.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa vegna umsóknar kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, þar sem vafi þótti leika á um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist deiliskipulagi svæðisins. Í kjölfar neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn kærenda, enda skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Niðurstaða í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið að ekki væri unnt að fallast á erindið þar sem ekki sé heimild í deiliskipulagi til að rjúfa garðveggi og gera nýjar innkeyrslur. Ótvírætt sé að deiliskipulagið kveði á um að æskilegt sé að varðveita steypta garðveggi sem setji svip sinn á heildarmynd svæðisins. Heimildum í deiliskipulagi til að útbúa ný bílastæði á grónum lóðum séu settar þröngar skorður.

Þar sem umsótt framkvæmd kærenda hafi falið í sér að rjúfa steyptan garðvegg í því skyni að koma fyrir nýju bílastæði á lóðinni og með tilliti til þess að enginn bílageymsla né innkeyrsla eða bílastæði sé fyrir á lóðinni þyki niðurstaða skipulagsfulltrúa sem fram hafi komið í umsögn hans standast skoðun. Að teknu tilliti til þeirrar umsagnar hafi byggingarfulltrúi ekki átt þess annan kost en að synja umsókn kærenda á þeim forsendum að fyrirhuguð framkvæmd samræmdist ekki skipulagsáætlunum á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að ekki hefði verið sótt um innkeyrslu eða bíla­stæði ef slíkt væri fyrir á lóðinni. Þrátt fyrir að deiliskipulag svæðisins feli í sér að vernda beri ásýnd húsaraðanna að framanverðu hafi borgaryfirvöld staðið fyrir umtalsverðum nánar til­teknum ásýndarbreytingum við Hofsvallagötu.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hin kærða ákvörðun í máli þessu var tilkynnt kærendum með bréfi, dags. 10. maí 2023, en ákvörðuninni fylgdu ekki leiðbeiningar um kæruheimild í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óskað var eftir rökstuðningi vegna tiltekinna atriða af hálfu kærenda með tölvubréfi, dags. 11. s.m., og var sú beiðni ítrekuð í nokkur skipti þar til rökstuðningur barst 7. júní s.á. Með þeim rökstuðningi fylgdi bréf, dags. 25. maí s.á., þar sem leiðbeint var um kæruheimild og -frest til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Óskaði fulltrúi kærenda í kjölfarið eftir því að kærufrestur yrði framlengdur með tölvubréfi, dags. 8. júní s.á., og fékk hann þau svör frá borgaryfirvöldum að kærufrestur yrði framlengdur til 7. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 26. júní s.á.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun hefur verið tilkynntur aðila máls. Byrjaði kærufrestur því ekki að líða fyrr en 8. júní 2023, þegar kærendum var veittur rökstuðningur, og barst kæra í máli þessu því innan kæru­frests. Rétt þykir að vekja athygli á að stjórnvald skal svara beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að beiðni þess efnis barst, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 37/1993, og að lægra sett stjórnvald hafi ekki heimild að lögum til að víkja frá eða framlengja lögákveðinn kærufrest til æðra stjórnvalds, sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á veitingu leyfis til að brjóta niður hluta garðveggjar og gera bílastæði á lóðinni Reynimel 55 með aðkomu frá Hofsvalla­götu. Reynimelur 55 stendur á horni Reynimels og Hofsvallagötu og snýr framhlið hússins í norður að Reynimel, en vesturhlið lóðarinnar er afmörkuð með steyptum garðvegg. Á svæðinu er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.540, Melar, norðan Hagamels. Deiliskipulagið skiptist í skipulagsuppdrátt, almenna skilmála fyrir skipulagssvæðið og sérskilmála fyrir einstaka lóðir.

Í upphafi almennra skilmála er m.a. tekið fram að huga þurfi að varðveislu og endurgerð steyptra garðveggja, innkeyrslna og bílastæða sem kunna að skipta máli fyrir heildarmynd svæðisins. Í hinum almennu skilmálum er að finna kafla um steypta garðveggi, garðveggi og bílastæði, en auk þess er þar sérstakur kafli um geymslur, bílageymslur og vinnustofur. Ekki var sótt um að byggja geymslu, bílageymslu eða vinnustofu og reynir því ekki á síðastnefnda kafla almennu skilmálanna í máli þessu. Í kafla um steypta garðveggi segir að „[s]teyptir garð­veggir og tröppur setja mikinn svip á hverfið. Þetta á einkum við þar sem hús standa sunnan megin götu en þar tengjast oft tröppur, veggir og skyggni og mynda fallega heild. Sjá kafla um viðhald steyptra veggja“. Ekki er að finna kafla í deiliskipulaginu sem ber heitið „viðhald steyptra veggja“ en ætla verður að með því sé vísað til kaflans um garðveggi. Í þeim kafla deiliskipulagsins kemur fram: „Æskilegt er að tröppur, veggir og skyggni fái viðhald og að þeir veggir sem hafa verið málaðir ofan á steiningu verði aftur færðir í upprunalegt horf. Einnig að steyptir verði nýir veggir þar sem veggir hafa verið fjarlægðir. Hæð nýrra veggja skal vera a.m.k. 1,2 m. Timburveggir og girðingar komi ekki í stað steyptra veggja. Víða eru og voru járnhlið við göngustíga og innkeyrslur. Mælst er til þess að þau verði endurnýjuð á uppruna­legan hátt, þannig að þau eigi sinn þátt í að styrkja götumyndina ásamt garðveggjum og tröppum“. Í kaflanum um bílastæði er tekið fram að við gerð deiliskipulagsins hafi verið leitast við að fjölga ekki bílastæðum á kostnað lóða eða garðveggja. Almennt sé því ekki gert ráð fyrir nýjum stæðum á lóðum, en heimilt sé að gera ný stæði við bílageymslur við Hofsvallagötu og Furumel þar sem þau séu merkt á uppdrætti. Ekki sé heimilt að gera bílastæði á lóðum á öðrum stöðum.

Í sérskilmálum fyrir Reynimel 55 kemur fram að heimilt sé að byggja tvöfalda bílageymslu, geymslu eða vinnustofu á byggingarreit samkvæmt skilmálunum. Hámarksstærð byggingar sé 45 m2. Heimilt sé að nýta allt að helming „viðbyggingarreits“ og hækka þak samkvæmt skilmálum. Heimilt sé að gera tvö bílastæði. Á deiliskipulagsuppdrætti eru merkingar annars vegar fyrir tvö bílastæði á lóðinni Reynimel 55 og hins vegar tvær merkingar fyrir innkeyrslur á lóðina. Umsókn kærenda um byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulagsuppdrátt hvað varðar staðsetningu bæði bílastæðanna og hinnar tvöföldu innkeyrslu. Eru bílastæðin á lóðinni merkt með nP merkingu, sem samkvæmt skýringum við deiliskipulagið þýðir: „Heimild fyrir nýju bílastæði á lóð – staðsetning bindandi“.

Verður að telja ómögulegt að gera innkeyrslu og bílastæði, á þeim stað sem skipulagsuppdráttur mælir fyrir um, án þess að brjóta niður garðvegg á þeim sama stað, enda var garðveggurinn til staðar þegar heimild til að gera innkeyrslu á lóðinni var sett inn í deiliskipulag. Þrátt fyrir almenna skilmála um að óæskilegt sé að gerðar séu nýjar innkeyrslur á grónar lóðir og um varðveislu garðveggja geta almennir skilmálar ekki vikið sérskilmálum einstakra lóða til hliðar, sé ósamræmi þar á milli, enda myndi það leiða til þess að sérskilmálar væru með öllu merkingarlausir. Á þetta sérstaklega við í máli þessu þar sem heimildir vegna Reynimels 55 í sérskilmálum deiliskipulagsins eru mjög skýrar hvað þetta varðar.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar svo áfátt að fella beri hana úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. maí 2023 um synjun umsóknar um að rjúfa og fjarlægja hluta af steyptu grindverki á lóðarmörkum að Hofsvallagötu og gera tvö bílastæði fyrir parhús á lóð nr. 55 við Reynimel.