Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2024 Sandeyri

Árið 2024, miðvikudaginn 29. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi og þar með framleiðsluaukningu um 3.800 tonn. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga séu jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi álítur að með hinu kærða leyfi hafi verið heimiluð stóriðja í netlögum eignarjarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljósmengunar og sjónmengunar. Sé þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um að framkvæmdir skuli stöðvaðar og mannvirkjunum verði lokað. Auk þessa fari framkvæmdirnar í bága við skipulag og lög um vitamál nr. 132/1999 sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um siglingaöryggi þar sem mannvirkin séu staðsett í ljósgeisla frá Óshólavita.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin telur að ekki sé ástæðu til að stöðva framkvæmdir þar sem stofnunin hafi staðið rétt að afgreiðslu hins kærða byggingarleyfis, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Jafnframt standist byggingarleyfið þær kröfur sem gerðar séu til þess í lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi byggi málatilbúnað sinn nær eingöngu á því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað í netlögum jarðarinnar Sandeyri, en framkvæmdin sé í raun alfarið utan þeirra. Við þær aðstæður teljist kærandi ekki aðili þess stjórnsýslumáls sem lúti að umsókn leyfishafa um hið kærða byggingarleyfi og beri því að vísa kærunni frá heild, en ella hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Vakin sé athygli á því að frumskilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu ekki uppfyllt, en þar sé mælt fyrir um heimild kæranda til að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða „séu þær hafnar eða yfirvofandi.“ Í úrskurðarframkvæmd nefndarinnar hafi eðlilega verið lagt til grundvallar að þegar framkvæmdum sé lokið sé þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Fyrir liggi að leyfishafi hafi nú þegar reist og tekið í notkun þau mannvirki sem heimilt hafi verið að reisa á grundvelli leyfisins.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndina var framkvæmdum á grundvelli hins kærða byggingarleyfi lokið þegar kæra þessa máls barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því verður að líta svo á að ekki sé til dreifa þeim lögbundnu skilyrðum fyrir stöðvun framkvæmda á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu annað hvort hafnar eða yfirvofandi. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.