Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

59/2024 Tjarnarbíó

Árið 2024, föstudaginn 21. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 59/2024, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói og ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 um að gefa út starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. maí 2024, kærir íbúi að Suðurgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 26. mars 2014 að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að jafnframt sé kærð sú ákvörðun eftirlitsins frá 27. febrúar 2018 að veita Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til að starfrækja leikhús, samkomusali og kaffihús að Tjarnargötu 12. Krefst kærandi „varanlegrar lausnar á vandamálinu með hávaðamengun“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14. júní 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 8. mars 2011 veitti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur Menningarfélaginu Tjarnarbíói starfsleyfi til reksturs leikhúss að Tjarnargötu 12. Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 20. desember s.á., var lagt bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói eftir að hljóðmælingar í nærliggjandi íbúðum sýndu að hávaði frá staðnum reyndist yfir viðmiðunarmörkum. Umræddu banni var síðar aflétt með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 26. mars 2014, eftir að gerðar voru úrbætur á hljóðeinangrun staðarins og hljóðstig í íbúðum mældist undir viðmiðunarmörkum. Í bréfinu var jafnframt kveðið á um að leyfishafi skyldi fylgja ákvæðum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Starfsleyfi Tjarnarbíós sem nú er í gildi var gefið út af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 27. febrúar 2018 og heimilar það rekstur leikhúss, samkomusals og  kaffihúss.

Kærandi telur að skilyrðum starfsleyfisins er varði hávaðamengun hafi ekki verið fullnægt og að sú mengun hafi valdið íbúum að Suðurgötu 15 verulegum óþægindum og skerðingu á lífsgæðum auk þess sem hún brjóti gegn friðhelgi einkalífs þeirra. Lausn leyfishafa með notkun hljóðdeyfis hafi reynst ófullnægjandi, en hún sé auðveldlega sniðgengin og krefjist persónulegrar íhlutunar stjórnenda í hvert sinn. Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða frá Tjarnarbíói. Leyfishafi hafi ekki farið eftir skilyrðum útgefins starfsleyfis, en samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 beri að gæta sérstaklega að því að koma í veg fyrir að lágtíðnihljóð berist frá samkomustöðum.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur fram að niðurstöður mælinga, sem gerðar hafi verið árið 2014 við reglubundið eftirlit, hafi sýnt fram á að hljóðstig væri undir mörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og hafi því ákvörðun eftirlitsins frá 20. desember 2011 um bann við tónleikahaldi og öðrum hávaðasömum viðburðum í Tjarnarbíói verið aflétt. Þá sé bent á að talsverður tími sé liðinn frá þeim ákvörðunum sem kæran lúti að og kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn.

Leyfishafi bendir á að sá búnaður sem settur hafi verið upp árið 2014 og ætlaður sé til takmörkunar á hljóðkerfi Tjarnarbíós sé enn til staðar og sé virkur. Bent sé á að hljóðstyrkur sé reglulega mældur með búnaði í formi smáforrits en leyfishafi telji þörf á að kaupa áreiðanlegri mæli svo mælingar standist kröfur um áreiðanleika. Hömlur séu á hljóðkerfi og eigi búnaðurinn að framfylgja hömlum á tilteknu lágtíðnisviði þó ekki sé hægt að útiloka að lágtíðni slæðist inn á hamlað tíðnisvið á viðburðum sem notist við stöðuga lágtíðni. Þegar litið sé til þeirra viðburða sem kvartað hafi verið yfir sé erfitt að festa fingur á það hvað það sé sem trufli kæranda annað en búseta í nálægð við lifandi miðstöð sviðslista. Því sé mótmælt að notkun umrædds hömlunarbúnaðar sé háður aðkomu tæknifólks eða annara og að nokkuð sé gert til þess að komast hjá notkun hans.

Niðurstaða: Hið umdeilda starfsleyfi var gefið út í febrúar 2018 og var ákvörðunin kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá mars 2014 um að aflétta banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói var þá sömuleiðis kæranleg til nefndarinnar samkvæmt lögunum.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæran barst rúmlega sex árum eftir að núgildandi starfsleyfi var gefið út og rúmlega 10 árum frá því að ákvörðun þess efnis að banni við tónleikahaldi í Tjarnarbíói yrði aflétt. Kæran er því of seint fram komin og verður vísað frá nefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að kæru skuli vísa frá berist hún að liðnum kærufresti og að henni skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Rétt þykir að benda á að telji kærandi að hávaði frá umræddri starfsemi sé yfir heimiluðum mörkum við fasteign hans samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða er eftir atvikum unnt að leita atbeina Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til að fá úr því skorið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.