Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

54/2024 Laugarásvegur

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dag­sektir að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Laugarásvegar 63, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 að krefjast þess að þeir fjarlægi skjólvegg við mörk lóðarinnar og lóðar nr. 61 við sömu götu innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 24. maí 2024, var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað að kröfu kærenda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2024.

Málavextir: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli lóðarhafa lóða nr. 61 og 63 við Laugarásveg vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Reistur hefur verið skjólveggur á mörkum lóðanna og hafa borgaryfirvöld til meðferðar mál er varða m.a. heitan pott á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Auk þess kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 31/2024 hinn 30. maí 2024 sem varðaði stoðvegg á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2024, kom fram að þeim væri gert að leggja fram byggingarleyfisumsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg vegna girðingar á mörkum lóðanna innan 14 daga. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað kærenda eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til kærenda, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að reyna að ná samkomulagi við eiganda Laugarásvegar 61 um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa. Að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn, líkt og kærendur hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki til byggingarfulltrúa og sendi hann kærendum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja skjólvegg við mörk lóðar nr. 61 en yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess á að hinn umdeildi skjólveggur hafi staðið í þrjú og hálft ár og kostnaður við hann hafi verið um tvær milljónir króna. Veggurinn hafi verið reistur í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi við eiganda aðliggjandi lóðar. Þegar kærendur hafi óskað skriflegs samþykkis hafi það þó ekki fengist og munnlegt samþykki afturkallað með textaskilaboðum 20. júní 2023. Þar hafi jafnframt komið fram að skriflegt samþykki yrði ekki veitt. Eigendur Laugarásvegar 61 hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda þegar skjólveggurinn var reistur og hafi fyrst með málarekstri þessum verið óskað eftir því að veggurinn yrði fjarlægður.

Skjólveggurinn ógni ekki almannahagsmunum og af honum stafi ekki slysahætta. Ekki standi því málefnaleg rök til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum líkt og dagsektum. Þá samræmist það ekki venjubundinni framkvæmd að leggja á dagsektir í málum sem þessum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 98/2022, 116/2022 og 52/2023. Hin kærða ákvörðun gangi því gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins um réttmæti, jafnræði og meðalhóf sem lögfestar séu að hluta í 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taka verði mið af munnlegu samþykki eigenda Laugarásvegar 61 sem og tómlæti þeirra.

Málsmeðferð byggingarfulltrúa sé háð verulegum annmörkum. Hann hafi hvorki gefið kærendum færi á að nýta lögvarinn rétt til andmæla áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin né hafi hann leiðbeint kærendum um rétt þeirra til rökstuðnings hinnar kærðu ákvörðunar. Samrýmist það ekki 13. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, en hann sé ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki sé til staðar samkomulag um vegginn samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Hvorki ákvæðum laga um mannvirki né byggingarreglugerðar hafi því verið fylgt við framkvæmdina.

Við töku ákvörðunar um að aðhafast ekki vegna stoðveggjar á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg, dags. 29. febrúar 2024, sem fjallað hafi verið um í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 31/2024 frá 30. maí 2024, hafi sérstaklega verið bókað að kærendur hygðust fjarlægja hina umdeildu girðingu ef ekki næðist samkomulag við lóðar­hafa aðliggjandi lóðar nr. 61. Byggi bókunin m.a. á loforði kærenda.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010. Í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum séu tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Þannig sé í 1. mgr. 55. gr. m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða sé ekki farið að ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi fengist fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Byggingarfulltrúi hafi reynt til hins ítrasta að finna niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við og hafi beðið lengi eftir því að samkomulag myndi nást vegna girðingarinnar á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og veitt fresti í því skyni. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að meðalhófi hefði verið beitt með því að fara ekki fram á að steyptur veggur á lóð kærenda yrði fjarlægður en í staðinn yrði hin umdeilda girðing fjarlægð eða færð innar á lóðina. Á þann hátt mætti mæta kröfum beggja aðila þannig að sem minnst tjón hlytist af fyrir þá sem þegar höfðu lagt í kostnað vegna óleyfisframkvæmdarinnar. Kærendur hafi virst sáttir við þá niðurstöðu allt þar til komið hafi að því að fjarlægja girðinguna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur er benda á að hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á meintum yfirlýsingum um að þeir myndu fjarlægja skjólvegginn. Því sé hafnað að ummæli þeirra feli í sér bindandi yfirlýsingu um að veggurinn verði fjarlægður, líkt og lagt sé út af í umsögn Reykjavíkurborgar og bókun byggingarfulltrúa. Ummælin hafi verið háð skilyrði um kostnaðarskiptingu, sbr. orðalagið „með deildum kostnaði“. Ekkert liggi fyrir um slíka skiptingu.

Hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á sjónarmiðum um að koma til móts við lóðarhafa Laugarásvegar 61 og breyti engu í því sambandi að þeim líki illa niðurstaða annars máls um steyptan vegg á mörkum Laugarásvegar 59 og 63. Sé framangreint sjónarmið ómálefnalegt og gangi gegn réttmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000.

Gildissvið laga nr. 160/2010 um mannvirki nær skv. 1. mgr. 2. gr. til allra mannvirkja á landi og eru girðingar í þéttbýli þar nefndar í dæmaskyni. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna er óheimilt að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Í 2. mgr. 55. gr. er svo mælt fyrir um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki sé fjarlægt.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er beiting greinarinnar háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. Þá eru skilyrði e-liðar nefndrar greinar, svo sem um undirritað samkomulag, ekki uppfyllt. Í 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í reglugerðinni er kveðið á um að afla skuli byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. áðurnefndri gr. 2.3.5. og að alltaf skuli liggja fyrir samþykki beggja lóðarhafa áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Samkvæmt framansögðu er hinn umdeildi skjólveggur byggingar­leyfis­skyldur og óumdeilt að ekki hefur fengist byggingarleyfi fyrir honum. Var byggingar­fulltrúa því heimilt að krefjast þess af kærendum að þeir fjarlægðu skjólvegginn.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Líta verður svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi ekki tekið lokaákvörðun um álagningu dagsekta heldur einungis krafist þess af kærendum að aðhafast með tilgreindum hætti og tilkynnt þeim jafnframt að áformað væri að leggja á dagsektir ef kærendur myndu ekki verða við kröfunni. Þeim áformum hefur ekki verið hrint í framkvæmd með ákvörðun um álagningu dagsekta og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.