Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2012 Þingholtsstræti

Með

Árið 2012, mánudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 74/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Þingholtsstræti 15, H og S, Þingholtsstræti 15a og G, L og S, Þingholtsstræti 17, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012 að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. apríl 2012 var tekin fyrir umsókn Fasteigna ríkisins um leyfi til að endurbyggja austur- og vesturhlið húss Menntaskólans í Reykjavík við Þingholtsstræti 18.  Kom fram í umsóknargögnum að tengibygging á milli umrædds húss og Casa Nova, sem einnig er á reit menntaskólans, hafi verið reist fyrir 13-14 árum.  Hafi húsið sjálft þá einnig verið endurskipulagt og arkitekt hússins samþykkt breytingarnar.  Hins vegar hafi timburbyggðir útveggir með stórum svokölluðum Kardagluggum ekki verið endurgerðir þótt lélegir væru.  Nú væri kominn tími á endurbætur og yrðu útveggirnir úr áli og gleri í svipuðum dúr og sjá megi í gluggum tengibyggingarinnar.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Það var síðan tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa 29. maí 2012 og umsóknin samþykkt.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar hinn 23. júlí 2012.  Var þá  lokið við uppsetningu glerklæðningar á þeirri hlið hússins er veit að Þingholtsstræti, að undanskildum frágangi á listum og opnanlegum fögum. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að Þingholtsstræti 18 hafi verið byggt á sjöunda áratugi síðustu aldar og hafi öll götuhlið hússins borið með sér stíl þess tíma.  Menn geti endalaust deilt um fagurfræðina í þessum byggingarstíl, en sennilega séu menn nokkuð sammála um að byggingin hafi verið stílbrot í Þingholtsstrætinu.  Hún sé þó farin að falla inn í umhverfið og sé ágætt dæmi um byggingarstíl tímabilsins. 

Þar sem byggingin sé komin til ára sinna þurfi hún eðlilegt viðhald.  Framkvæmdir hafi hafist í júní 2012 og hafi nágrannar talið að þær fælust fyrst og fremst í því að skipta út fúnum gluggarömmum fyrir nýja, enda hafi þeim ekki verið gerð grein fyrir hvað til stæði að gera.  Það hafi ekki verið fyrr en 13. júlí 2012 að í ljós hafi komið að verið væri að gjörbreyta hlið hússins með því að klæða hana alla með dökku gleri, sem virki eins og spegill gagnvart íbúum gegnt húsinu.  Með þessu séu íbúarnir berskjaldaðir gagnvart gangandi umferð og ennfremur hver gagnvart öðrum, þar sem þeir horfi nánast beint inn um glugga hvers annars.  Feli þetta í sér verulega röskun á hagsmunum kærenda og óþolandi inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra.  Þingholtsstrætið sé þröng gata, innan við níu metrar á milli húsaraða, og því sé spegilhlið sem hér um ræði viðkvæmari en ella. 

Fram hafi komið í tölvupósti skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur frá 13. júlí 2012 að skoða þyrfti málið betur því ef útliti húss væri breytt væri ekki aðeins um viðhald að ræða.  Finna megi skilgreiningu á viðhaldi í reglugerð nr. 483/1994 þar sem segi að viðhald teljist það sem gera þurfi til að halda eignum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær hafi verið þegar rekstraraðili hafi eignast þær, hvort heldur þær hafi verið gamlar eða nýjar.  Alveg sé ljóst að með þeim breytingum sem nú standi yfir sé verið að gjörbreyta útliti hússins.  Því hafi átt að grenndarkynna heimilaðar breytingar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Eftir að kvörtun hafi borist til byggingarfulltrúa frá kærendum 13. júlí 2012 hafi þeim verið send orðsending með tölvupósti, þar sem fram komi að byggingarfulltrúi hafi farið yfir uppdrætti að lagfæringum byggingarinnar og skoðað aðstæður.  Mat hans sé í samræmi við afgreiðslu málsins að um viðhald og endurbætur sé að ræða en ekki eiginlegar útlitsbreytingar.  Glerið sem verið sé að setja í glugga hússins sé einsleitt yfir flötinn í stað glers sem hafi verið misleitt.  Því verði birta frá fletinum mun jafnari en frá fyrra gleri.  Ekki sé um spegil að ræða en dökkleiki glersins muni draga í sig orku sólarljóss og varpa lægra hlutfalli þess inn og frá sér samanborið við fyrra gler.  Glerið sé til mikilla bóta fyrir þá starfsemi sem fram fara í byggingunni, svo sem varðandi hitaleiðni. 

Mál þetta snúist um það hvort þörf hafi verið á grenndarkynningu eða ekki áður en byggingarfulltrúi heimilaði umdeildar framkvæmdir.  Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu í 43. og 44. gr. laganna.  Í 2. mgr. 43. gr. sé fjallað um þá stöðu þegar sveitarstjórn telji að gera þurfi óverulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi og eigi þá grenndarkynning við.  Á umræddu svæði sé í gildi deiliskipulag frá 2. júní 2008 fyrir miðborgarsvæði Reykjavíkur, staðgreinireit 1.180.0, og komi þar m.a. fram að Þingholtsstræti 18 sé yngsta byggingin í götumyndinni og stingi mjög í stúf við aðrar byggingar við götuna.  Í skilmálum deiliskipulagsins segi í kafla 4.2 um hönnun viðbygginga og breytinga að stærðarhlutföll, hönnun og efnisnotkun skuli að jafnaði vera í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar nema sérstakar ástæður og aðstæður leiði til annars.  Þá skuli hanna viðbyggingar og breytingar með þeim hætti að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga.  Jafnframt segi að heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum, s.s. svalir og litlar útbyggingar og lagfæringar, án þess að komi til breytinga á deiliskipulagi, séu þær í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.  Breytingar skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar. 

Það hafi verið mat Reykjavíkurborgar að þær endurbætur á húsinu nr. 18 við Þingholtsstræti sem samþykktar hafi verið í maí 2012 hafi ekki kallað á breytingar á deiliskipulagi.  Hafi þar af leiðandi ekki verið ástæða til grenndarkynningar.  Hér verði að hafa í huga að umrætt hús sé langyngsta byggingin á þessum reit og hafi ætíð stungið mjög í stúf við aðrar byggingar við götuna.  Það geri húsið vissulega enn að endurbótum loknum en færa megi þó rök fyrir því að það raski götumyndinni ekki alveg jafnmikið og það hafi gert áður.  Um það megi þó vissulega deila. 

Erfitt sé að átta sig á því hvaða íbúar verði berskjaldaðir gagnvart gangandi umferð við þessar endurbætur.  Væntanlega sé átt við þá sem dvelji í Þingholtsstræti 18 þar sem gluggaflötur þess húss sé sagður aukast, en það sé eins og kunnugt sé ekki íbúðarhús.  Þar að auki aukist ekki eiginlegur gluggaflötur hússins þótt það sé klætt með gleri að utan.  Þeir sem þar dvelji séu því ekkert berskjaldaðri fyrir gangandi umferð en þeir hafi verið.  Þá sé það ekki hlutverk kærenda að gæta hagsmuna þeirra að þessu leyti.  Hafi íbúar á þessum stað við Þingholtsstræti getað horft beint inn um glugga hvers annars þá hvorki aukist né minnki möguleikar á slíku þótt eitt hús handan götu sé klætt með glerklæðningu.  Erfitt sé því að sjá að hagsmunum kærenda sé raskað verulega með þessum endurbótum.  Það kunni þó að vera að kærendur eigi við að gluggar nágranna þeirra fyrir ofan þá eða neðan muni speglast í hinni nýju glerklæðningu hússins á móti og að þeir muni þannig sjá óbeint inn í íbúðir þeirra.  Kærendur hljóti þó að þurfa að skýra þetta atriði nánar. 

Reykjavíkurborg telji að umdeilt byggingarleyfi víki ekki frá gildandi deiliskipulagi.  Eingöngu sé um að ræða leyfi til viðhaldsframkvæmda, sem kalli ekki á breytingu á deiliskipulagi reitsins. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda og málatibúnaði mótmælt og vísað til fyrirliggjandi gagna. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi. 
 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar endurnýjun á ytra byrði hússins nr. 18 við Þingholtsstræti.  Bera kærendur fyrir sig að ný glerklæðning á húsinu virki sem spegill andspænis fasteignum þeirra, sem valdi verulegri röskun á hagsmunum þeirra sem fasteignareigenda. 

Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag frá 2. júní 2008 fyrir staðgreinireit 1.180.0, Menntaskólareit, sem afmarkast af Lækjargötu, Amtmannsstíg, Þingholtsstræti og Bókhlöðustíg.  Deiliskipulagið er sett fram á uppdrætti með áritaðri greinargerð, en á uppdrættinum er jafnframt tekið fram að nánari skilmálar, markmið og forsendur deiliskipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur. Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.180.0.“  Í skilmálum sem þar koma fram segir m.a. í gr. 4.2 að heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum, s.s. svalir og litlar útbyggingar og lagfæringar án þess að koma þurfi til breytinga á deiliskipulagi, séu þær í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.  Breytingar skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar.  Í samræmi við ákvæði þetta verður að telja að sú endurgerð götuhliðar Þingholtsstrætis 18, sem um er deilt í málinu, feli í sér lagfæringar sem heimilt hafi verið að ráðast í án þess að gera þyrfti breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Hins vegar er kveðið á um það í skilmálunum að slíkar breytingar, sem gera má án breytinga á deiliskipulagi, geti þarfnast grenndarkynningar.  Hvort grenndarkynningar sé þörf hlýtur að ráðast af þeim grenndaráhrifum sem breytingin hefur og séu þau umtalsverð leiðir af tilvitnuðu ákvæði að grenndarkynning þarf að eiga sér stað.  Telur úrskurðarnefndin að umdeildar breytingar á götuhlið Þingholtsstrætis 18 hafi slík grenndaráhrif gagnvart eignum kærenda, einkum vegna mikillar speglunar, að borið hefði að grenndarkynna þær í samræmi við það ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins sem að framan er rakið.

Gerð er grein fyrir hinu kærða byggingarleyfi á aðaluppdráttum og í byggingarlýsingu á þeim.  Þykir skorta þar skýringar og glögga lýsingu á framkvæmdinni þannig að betur megi af gögnum þessum ráða um breytt útlit hússins að framkvæmdum loknum.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram í samræmi við skipulagsskilmála, og að ekki hafi heldur verið unnt að ráða af hönnunargögnum hver yrðu áhrif umdeildra breytinga á húsinu að Þingholtsstræti 18, beri að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012, um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis18, er felld úr gildi.

  

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

13/2011 Fannafold

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 9. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. ágúst 2010 um að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir J, eigandi fasteignarinnar að Fannafold 65 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta að álitum vegna tjóns sem kærandi hafi orðið fyrir auk málskostnaðar samkvæmt reikningi eða mati úrskurðarnefndarinnar. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. júlí 2010 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur á neðri hæð sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 16. s.m. var málið tekið fyrir og bókað að ekki væru gerðar athugasemdir við að skilmálum fyrir lóðina yrði breytt svo hægt væri að heimila nýtingu á kjallararýmum.  Var jafnframt bókað að tillagan yrði grenndarkynnt bærist hún. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 20. júlí 2010 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri stækkun á kjallara sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur á neðri hæð (kjallara) sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold.  Þar kom fram að samþykkt stærð var 291,6 fermetrar en stækkun væri 58,9 fermetrar og samtals því 350,5 fermetrar.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 23. s.m.  var málið tekið fyrir á ný og þá lagt fram minnisblað skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júlí 2010 og svofelld bókun gerð:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagstjóra dags. 16. júlí 2010.  Rétt bókun er: Ekki eru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið, samræmist deiliskipulagi.“  Umsóknin var loks samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. ágúst 2010 en það gert að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að eignaskiptayfirlýsingu yrði þinglýs vegan breytinga á húsinu.

Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 12. ágúst 2010.  Byggingarleyfi fyrir breytingum að Fannafold 63 var síðan gefið út hinn 29. nóvember 2011.  Með bréfi, dags. 13. janúar 2011, fékk kærandi yfirlit yfir umfjallanir skipulags- og byggingarsviðs um afgreiðslu málsins. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekkert samráð hafi verið haft við kæranda vegna umdeildra breytinga en hann hafi orðið þess fyrst var í desember 2010 að framkvæmdir hafi verið hafnar á húsinu að Fannafold 63.  Í ágúst 2010 hafi eigandi hússins að nefndrar fasteignar óskað eftir samþykki kæranda á teikningu með breytingum að húsinu en hann hafi hafnað því.  Telja verði að grenndarkynna hafi átt fyrirhugaðar breytingar, eins og fram hafi komið á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 16. júlí 2010 og kveðið sé á um í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 enda samræmist þær ekki deiliskipulagi svæðisins.  Þá þyki kæranda eðlilegt að honum hafi verið gefinn andmælaréttur við meðferð málsins.  Hin kærða leyfisveiting fari því í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlög auk þess sem andmælaréttur samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hafi ekki verið virtur.

Ljóst sé að umræddar breytingar muni valda kæranda mikilli röskun auk umtalsverðs tjóns.  Breytingarnar muni koma til með að rýra söluverðmæti fasteignar hans að Fannafold 65 vegna aukins ónæðis.  Með breytingunum sé og gengið á friðhelgi einkalífs hans og framkvæmdirnar hafi orðið til þess að gróður á lóð hans hafi eyðilagst.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í málinu verði hafnað og að úrskurðarnefndin staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa í máli þessu.  Reykjavíkurborg telji að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja hina umþrættu byggingarleyfisumsókn í máli þessu.  Í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs, dags. 21. júlí 2010, hafi komið fram að bókun skipulagsstjóra á afgreiðslufundi hinn 16. s.m. hafi verið byggð á röngum upplýsingum, þ.e. að talið hafi verið að umrædd lóð væri innan deiliskipulags „Foldahverfi neðri hluti; Íbúðarhús norðan Grafarvogs – Suðurhluti 1. áfangi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd 19.11.1984, endurskoðaður 1988.“  Rétt sé að lóðin væri innan deiliskipulags Foldahverfis efri hluta „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“, sem samþykkt var í borgarráði þann 3.12.1984.  Í skilmálum þess síðarnefnda sé að finna ákvæði um einbýlishús, raðhús og fjölbýlishús.  Í kafla 1.1.11 Raðhús segir:  „Innan byggingarreits er heimilt að reisa raðhús á 1 ½ -2 hæðum.  Bílgeymslur skulu vera innbyggðar.  Mesta leyfilegt gólfflatarmál hverrar raðhúsaíbúðar er 200 m2 brúttó.“

Í minnisblaði skipulags- og byggingarsviðs segir ennfremur:  „Embætti byggingarfulltrúa samþykkti parhús á lóð Fannafoldar 63, 14. febrúar 1985 og ekki hafa verið samþykktar neinar breytingar á þessum eignum frá þeim tíma.  Nú er sótt um að fá samþykkt rými, sem á fyrri samþykktum byggingarfulltrúa voru sögð óútgrafin.  Tvær íbúðir eru í húsinu og samkvæmt eldri upplýsingum FSÍ eru stærðir þeirra: íbúð merkt 0201 205,7 fermetrar og íbúð merkt 0202 154,8 fermetrar.  Með byggingarleyfisumsókn sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júlí s.l. fylgir skráningartafla, yfirfarin og samþykkt 19. júlí 2010.  Þar kemur fram að birt flatarmál íbúðar 0101 með bílgeymslu er 199,8 fermetrar og íbúðar merkt 0102 með bílgeymslu er 150,7 fermetrar.  Samanlagður brúttóbotnflötur þessara eigna er alls 350,5 fermetrar.  Sú viðbót sem nú er sótt um samþykkt fyrir er því innan þeirra marka sem skilmálar fyrir „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“ heimila.“ Ljóst sé samkvæmt framansögðu að byggingarleyfisumsóknin hafi samræmst deiliskipulagi og því hafi ekki þurft að grenndarkynna hana. 

Hvað varði bótakröfu kæranda skuli á það bent að það sé ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að kveða á um bótaskyldu og sé nefndinni óheimilt að taka afstöðu til slíkra krafna.  Sama gildi að þessu leyti um málskostnaðarkröfu kæranda.  Skuli henni einnig vísað á bug.  Skuli þó sérstaklega á það bent að kröfur kæranda að þessu leyti séu með öllu órökstuddar og ósannaðar. 

————————————

Eiganda Fannafoldar 63 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Foldahverfis efri hluta „Íbúðarhús norðan Grafarvogs – norðurhluti 3.-6. áfangi“ sem samþykkt var í borgarráði 3. desember 1984.  Samkvæmt skipulaginu er lóðin nr. 63 við Fannafold á reit þar sem heimilt er að reisa einbýlishús af gerinni E-1, E-2 eða E-3 en nánar ræðst gerð húss af aðstæðum á hverri lóð fyrir sig.  Er mesta leyfilegt gólflatarmál húsa af þessari gerð 300 m² brúttó.

Fyrir liggur að á umræddri lóð var á sínum tíma reist parhús með tveimur aðskildum íbúðum.  Fór sú bygging í bága við skilmála deilskipulags hvað húsagerð varðaði en heildarflatarmál hennar var innan við 300 m² samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum.

Við byggingu hússins var lokuðu rými, samtals 58,9 m² að stærð, breytt í opið rými og mun það hafa verið nýtt sem geymslur.  Er með hinni kærðu ákvörðun verið að samþykkja umrætt rúmi og heimila að setja á það glugga og nýta sem íbúðarrými.  

Með þeirri viðbót sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun er brúttóflatarmál hússins að Fannafold 63 sagt vera alls 350,5 sem er verulega umfram heimildir skipulags, enda verður ekki fallist á að skilmálar um raðhúsalóðir geti átt við um lóðina þó á henni hafi verið reist parhús, andstætt heimildum skipulags.  Er ekki gert ráð fyrir parhúsum á umræddu svæði í skipulagi og lóðir fyrir raðhús eru sérstaklega merktar á skipulagsuppdrætti og þær eru með allt öðru sniði og á öðrum stað en lóð sú sem hér um ræðir.

Af framansögðu leiðir að kærandi mátti ekki vænta þess að heimiluð yrði nýting umrædds rýmis og gerð glugga á gafl hússins að Fannarfold 63, enda fór sú samþykkt í bág við gildandi deiliskipulag eins og að fram er lýst.  Verður því fallist á kröfu hans um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kærenda um málskostnað því ekki til álita.  Um rétt til skaðabóta vegna verðrýrnunar skv. 33. gr. þágildandi skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 fjallar úrskurðarnefndin ekki. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. ágúst 2010 um að veita leyfi fyrir áður gerðri stækkun á neðri hæð sem framkvæmd var við byggingu og til að setja glugga á gafla og nýta þar með geymslur sem íveruherbergi í parhúsinu á lóð nr. 63 við Fannafold í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

68/2012 Úlfarsfell

Með

Árið 2012, mánudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012 um að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Urðarbrunni 14, Þ og H, Iðunnarbrunni 5, K, f.h. Íbúasamtaka Úlfarsárdals, Urðarbrunni 14, G, f.h. Landverndar, Skúlatúni 6 Reykjavík, og A, f.h. Geislabjargar, Krókamýri 6, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012 að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að mannvirki sem byggð séu á grundvelli hennar verði fjarlægð ásamt öðru raski sem fylgi framkvæmdunum.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Forsaga þessa máls er sú að fyrirtækið Fjarskipti ehf. sótti um leyfi borgaryfirvalda til uppsetningar fjarskiptabúnaðar á Úlfarsfelli með bréfi, dags. 27. maí 2011.  Veitt var framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp á koll Úlfarsfells hinn 1. desember 2011.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði, uppkveðnum 5. júní 2012,  með þeim rökum að hin kærða ákvörðun snerti ekki lögvarða hagsmuni kærenda og ættu þeir því ekki kæruaðild í málinu. 

Hinn 22. maí 2012 gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi fyrir hinum umdeildu mannvirkjum og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að þeir eigi kæruaðild í máli þessu á grundvelli lögvarinna hagsmuna eða samkvæmt heimild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og hafi kæra í máli þessu borist innan kærufrests. 

Þrír kærenda búi í suðurhlíðum Úlfarsfells í um tveggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðum mannvirkjum og noti þeir svæðið til útivistar og hafi útsýni til fellsins.  Þá séu það hagsmunir íbúasamtaka Úlfarsárdals sem hagsmunasamtaka íbúa á svæðinu auk fyrrgreindra kærenda, að svæðið byggist upp í samræmi við tímaáætlanir og gildandi ramma-, aðal- og deiliskipulag.  Hröð uppbygging íbúðarhverfisins leiði til þess að margvísleg þjónusta við íbúa komist á legg en væntingar um þá uppbyggingu haft áhrif á ákvörðun um fjárfestingu íbúa í lóðum á svæðinu.  Telji kærendur að umdeild mannvirki og áhrif þeirra á umhverfið muni draga úr áhuga á búsetu á svæðinu og seinka uppbyggingu þess og með því valda verðrýrnun lóða.  Hagsmunir íbúasamtakanna séu á sömu nótum og þeirra íbúa sem standi að kæru í máli þessu.  Landvernd eigi einnig hagsmuna að gæta í ljósi þess hlutverks síns að standa vörð um íslenska náttúru og að vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og ákvarðanatöku í umhverfismálum.  Falli samtökin undir 4. gr. laga nr. 130/2011 ásamt félaginu Geislabjörgu, félagi fólks um frelsi frá rafmengun, en fyrirhuguð mannvirki og möstur muni hýsa fjarskiptabúnað sem gefi frá sér ójónandi geislun sem geti snert heilsufar íbúa á svæðinu.  Íbúar og hagsmunasamtök þau sem að málinu standi eigi hagsmuna tengda því að öll mannvirki og notkun þeirra séu í samræmi við gildandi skipulag og eigi þau lögbundinn ábendingar-, athugasemda- og umsagnarrétt við skipulagsgerð. 

Auk framangreindra atriða, sem til þess séu fallin að skerða hagsmuni kærenda, verði að telja umdeild mannvirki í andstöðu við ákvæði og markmið gildandi skipulag  svæðisins og ákvæði skipulagsreglugerðar.  Um sé að ræða óbyggt svæði til útivistar þar sem ekki megi vænta að slík mannvirki sem hér um ræði rísi með tilheyrandi skerðingu á möguleikum til útivistar, útsýnisskerðingu, sjónmengun og áhrifum vegna geislunar.  Að mati kærenda þurfi að gera grein fyrir staðsetningu fjarskiptamannvirkja í deiliskipulagi sem stoð eigi í aðalskipulagi, að undangengnum nauðsynlegum athugunum og rannsóknum og aðkomu almennings.  Hefði með því verið gætt rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýslulaga og réttar almennings til aðkomu að skipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum.  Hið kærða byggingarleyfi fari gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og markmiðum skipulagslaga og ekki sé til að dreifa réttarvenju eða tiltækum lögskýringarleiðum sem réttlætt gætu veitingu leyfisins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur eigi enga lögvarða hagsmuni tengda útgáfu byggingarleyfisins, en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.  Auk tiltekinna íbúa á svæðinu standi þrenn samtök að kærumáli þessu og þar af einungis ein samtök sem tengja megi við Úlfarsárhverfi á beinan hátt, þ.e. íbúasamtök Úlfarsárdals. 

Ljóst sé að mörg mannvirki sjáist frá heimilum íbúa í Úlfarsárdal sem sum séu, í minna en tveggja km fjarlægð frá heimilum þeirra og önnur fjær.  Telja verði það verulega langsótt að íbúar í tveggja km fjarlægð frá mannvirki, eins og hér eigi við, eigi lögvarða hagsmuni af því að það rísi ekki.  Einnig sé erfitt að sjá að 15 m2 tækjaskýli ásamt tveimur 10 m háum tréstaurum takmarki svo útivistarmöguleika kærenda að þeir skerðist verulega vegna þessara framkvæmda, en fyrir séu á fellinu fjarskiptamannvirki.  Hafa beri í huga að Úlfarsfell standi í útjaðri sjálfs höfuðborgarsvæðisins og sé hvergi meiri þörf fyrir góð fjarskipti en þar.  Gildi það sérstaklega um höfuðborgarsvæðið og nágrenni þess vegna þéttbýlis og verði þeir sem velji sér búsetu á því svæði að sætta sig við að slíkur búnaður geti reynst nauðsynlegur í ýmsum tilvikum þótt aldrei sé hann til sérstakrar prýði.  Reyndar sé búnaður sem þessi algengur um allt land á fjallstindum.  Verulega hæpið verði að teljast að fólk búsett í 2 km fjarlægð teljist svo tengt málinu að það geti umfram aðra kært slíkar framkvæmdir til æðra stjórnvalds.  Samtökin þrenn, þ.e. íbúasamtök Úlfarsárdals, Landvernd og Geislabjörg, teljist ekki eiga lögvarða hagsmuni í þessu máli.  Landvernd og Geislabjörg eigi enga sérstaka lögvarða hagsmuni af því hvort fjarskiptamastur sé sett upp á kolli Úlfarsfells eða ekki og hafi hingað til ekki skipt sér af uppsetningu fjarskiptamastra á Íslandi, svo vitað sé.  Nefnd samtök geti því ekki verið aðilar að kærumáli þessu. 

Hin kærða ákvörðun sé studd þeim rökum að umrædd fjarskiptamannvirki verði nýtt af fleirum en leyfishafa, sem sé í góðu samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur, þar sem tekið sé fram að leitast skuli við að fjarskiptafyrirtæki samnýti fjarskiptamannvirki, sbr. 25. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.  Almenn þörf sé á því að byggja upp góðan og varanlegan fjarskiptastað fyrir höfuðborgarsvæðið en fyrri fjarskiptamiðstöð á Rjúpnahæð í Kópavogi hafi verið lögð niður vegna byggingar nýrra hverfa.  Staðsetning fjarskiptamannvirkja á Úlfarsfelli sé talin heppileg með tilliti til dreifigetu, en brýn þörf sé á að finna mannvirkjum stað á höfuðborgarsvæðinu fyrir útvarpssendingar og fjarskiptaþjónustu.  Ekki verði séð að uppsetning fjarskiptabúnaðarins muni hindra umferð eða útivist nema þá á umræddum eystri kolli fellsins og útsýni frá öðrum hlutum fjallsbungunnar sé ekki síðra eða jafnvel betra.  Um styrk rafsegulsviðs segi í umsókninni að í mastrinu verði sendiloftnet vegna FM-útvarpssendinga, sjónvarpssendinga og annarra þeirra fjarskipta sem hentugt kunni að þykja að koma fyrir á þessum stað.  Útreikningar sýni að sviðsstyrkur dofni síðan hratt með aukinni fjarlægð frá mastrinu.  Ekkert bendi til þess að heilsuspillandi rafmengun verði á svæðinu og stefnt verði að því að geislun frá væntanlegum fjarskiptabúnaði verði innan þeirra viðmiða sem alþjóðaráð um varnir gegn ójónandi geislun setji.  Enginn af umsagnaraðilum hafi lagst gegn framkvæmdinni. 

Borgaryfirvöld geti ekki fallist á skoðun Skipulagstofnunar um að vinna þurfi deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið.  Það verði að teljast fátítt að nauðsyn beri til að deiliskipuleggja fjallasvæði eins og Úlfarsfell vegna uppsetningar hefðbundinna fjarskiptamannvirkja.  Í svæðisskipulaginu sé umræddur kollur Úlfarsfells skilgreindur sem „Opið óbyggt svæði“ og í aðalskipulaginu sem „Óbyggð svæði“.  Þótt litlu fjarskiptamastri sé komið fyrir á fjallstindi teljist svæðið eftir sem áður vera „óbyggt svæði“ og slíkt sé ekki í andstöðu við ofangreindar skipulagsáætlanir, enda hafi verið talið heimilt að reisa einstök mannvirki á slíkum svæðum, s.s. vegi, slóða og veitumannvirki eins og háspennulínur.  Af þessu megi ráða að stefna aðalskipulags útiloki ekki einstök minni háttar mannvirki, eins og hér um ræði, á slíkum svæðum.  Með hliðsjón af staðháttum hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna fyrirhuguð mannvirki enda óljóst að hverjum sú grenndarkynning ætti að beinast.  Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni þeim nágrönnum leyfisumsókn sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta.  Sé vandséð hvernig velja hefði átt slíka nágranna í þessu tilviki. 

Því sé eindregið mótmælt að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega af borgarinnar hálfu.  Í fyrsta lagi hafi umsókn um byggingarleyfið verið mjög vel rökstudd.  Í öðru lagi hafi skipulags- og byggingarsvið leitað umsagna sjö aðila um málið og fengið þær umsagnir í hendur áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Útgáfa byggingarleyfis fyrir fjarskiptabúnaði á Úlfarsfelli byggi á III. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010 og hafi á engan hátt gengið í berhögg við lög eða lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. 

——————————-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum og sjónarmiðum að í málinu en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í málinu hefur verið gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærendur eigi ekki kæruaðild.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Sú undantekning er gerð á fyrrgreindri meginreglu um kæruaðild í nefndu ákvæði að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært tilteknar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni enda samrýmist það tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er þar í fyrsta lagi um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun matsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, í öðru lagi ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og í þriðja lagi ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. 

Að kærumáli þessu standa m.a. Íbúasamtök Úlfarsárdals, Landvernd og Geislabjörg.  Verða þessir kærendur, sem lögpersónur, ekki taldir eiga þeirra hagsmuna að gæta að það veiti þeim kæruaðild í málinu.  Þá fellur hin kærða ákvörðun ekki undir  upptalningu ákvarðana í áðurgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar er tilteknum hagsmunasamtökum játuð kæruaðild án þess að þau hafi sýnt fram á lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra lýtur að.  Verður kærumálinu því vísað frá að því er þessa kærendur varðar. 

Þeir einstaklingar sem standa að kærumálinu búa í nokkurri fjarlægð frá þeim stað sem leyft var að reisa umdeild mannvirki, en í ljósi staðsetningar mannvirkjanna á toppi Úlfarsfells geta þau snert grenndarhagsmuni þeirra.  Þykja þeir kærendur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og verður kæru þeirra af þeim sökum ekki vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú eina undantekning er gerð í lögunum frá deiliskipulagsskyldu vegna leyfisskyldra mannvirkja í dreifbýli og á óbyggðum svæðum að unnt er að veita byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 1. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna.  Áður en ákvörðun var tekin um að veita hið kærða byggingaleyfi var umrætt svæði hvorki deiliskipulagt né hafði verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir leyfisveitingunni.  Þessi annmarki á undirbúningi ákvörðunarinnar er verulegur og veldur því að ógilda ber hina kærðu ákvörðun. 

Úrskurðarorð: 

Kæru íbúasamtaka Úlfarsárdals, Landverndar og Geislabjargar er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. maí 2012, um að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli úr timbri og tveimur 10 m tréstaurum til fjarskiptareksturs á toppi Úlfarsfells, er felld úr gildi. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

23/2011 Austurströnd

Með

Árið 2012, föstudaginn 27. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2011, kæra húsfélagsins að Austurströnd 14 á afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 14. og 18. mars 2011 um erindi þess efnis að grindverk á þaksvölum greinds húss verði fjarlægt. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. apríl 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélagið að Austurströnd 14 afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 14. og 18. mars 2011 á beiðni kæranda um að grindverk á þaksvölum fjölbýlishússins að Austurströnd 14 skuli fjarlægt. 

Kærandi krefst þess að byggingaryfirvöldum verði gert skylt að sjá til þess að umrætt grindverk verði þegar í stað fjarlægt.  Jafnframt er þess krafist að áréttað verði að byggingaryfirvöldum beri að fylgja þeirri reglu að engar breytingar á nefndri húseign er snerti nýtingarmöguleika íbúa á eignum sínum, útliti hússins eða öðrum kostum verði heimilaðar án samþykkis núverandi eigenda. 

Málsatvik og rök:  Húsið að Austurströnd 14 er sex hæða fjölbýlishús er stendur milli Austurstrandar og Kirkjubrautar á Seltjarnarnesi.  Eru fjórar efstu hæðirnar íbúðarhæðir og meðfram norður- og austurhlið og hluta suðurhliðar eru um þriggja metra breiðar þaksvalir.  Að sögn kæranda mun á árinu 2006 hafa verið sett upp netgirðing þvert á þaksvalirnar, við aðalinngang.  Á aðalfundi húsfélags fjölbýlishússins hinn 8. febrúar 2011 var samþykkt að nefnd girðing skyldi fjarlægð og var stjórn þess falið að fylgja þeirri kröfu eftir.  Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar, dags. 15. s.m., fór húsfélagið fram á að bæjaryfirvöld hlutuðust til um að rita eiganda íbúðar, þar sem umrædd netgirðing var sett upp, bréf með fyrirmælum um að girðingin yrði fjarlægð.  Í bréfi, dags. 8. mars 2011, beindi skipulags- og byggingarfulltrúi þeim tilmælum til viðkomandi íbúðareiganda að girðingin skyldi fjarlægð innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins.  Skipulags- og byggingarfulltrúi afturkallaði þau tilmæli með bréfi, dags. 14. s.m., með skírskotun til þess að svo virtist sem girðingin væri í samræmi við samþykktan aðaluppdrátt hússins.  Var húsfélaginu að Austurströnd 14 sent samrit bréfsins og í framhaldi af því sendi félagið með bréfi, dags. 17. s.m., skipulags- og byggingarfulltrúa nokkrar spurningar og ábendingar um málið og var tekið fram að því væri treyst að fylgt yrði eftir kröfu húsfundar um að girðingin yrði fjarlægð.  Skipulags- og byggingarfulltrúi svaraði bréfi þessu með bréfi, dags. 18. mars 2011, þar sem m.a. var áréttað að gert væri ráð fyrir grindverki á umræddum stað. 

Kærandi skírskotar m.a. til þess að umræddar þaksvalir séu í sameign íbúðareigenda að Austurströnd 14.  Með uppsetningu nefndrar girðingar sé öðrum íbúum gert ókleift að komast eftir svölunum þótt brýna nauðsyn beri til.  Valdi það erfiðleikum, t.d. við viðhald og umhirðu á efri hæðum hússins.  Þá sé um flóttaleið úr húsinu að ræða. 

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er tekið fram að á grunnmynd 3. hæðar, sem samþykkt hafi verið 1998, sé gert ráð fyrir grindverkum á milli þaksvala þriðju hæðar.  Það sé því heimilt og beinlínis gert ráð fyrir að reist séu þil á milli svala upp að sömu hæð og steyptur hluti annarra handriða.  Sé um nauðsynlega bráðabirgðaframkvæmd að ræða til að hindra óviðkomandi umferð enda hafi húsfélagið ekki sinnt þeirri skyldu sinni að reisa þau grindverk. 

Eiganda þeirrar íbúðar sem umdeild netgirðing fylgir var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu en ekki hafa borist athugasemdir af hans hálfu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. nú 1. mgr. nefndrar greinar, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds.  Ákvörðun um hvort mannvirki skuli fjarlægt og eftir atvikum um beitingu þvingunarúrræða, þarf að vera skýr og ótvíræð, fela í sér viljaafstöðu stjórnvalds og vera tekin með formlegum og lögmæltum hætti. 

Í máli þessu er tekist á um afturköllun skipulags- og byggingarfulltrúa, sem sett var fram í bréfi, dags. 14. mars 2011, á tilmælum hans um að netgirðing á þaksvölum fjöleignarhússins að Austurströnd 14 yrði fjarlægð.  Þau tilmæli komu fram í bréfi embættisins frá 8. mars 2011 með svohljóðandi orðalagi:  „Eru það vinsamleg tilmæli um að það verði fjarlægt hið fyrsta…”  Rafpóstur byggingarfulltrúa frá 18. mars 2011, sem sendur var í tilefni af bréfi kæranda, sem sent var í kjölfar fyrrgreindrar afturköllunar, fól í sér svör við fyrirspurnum kæranda og áréttingu á þeirri skoðun byggingarfulltrúa að umdeild girðing væri í samræmi við samþykktar teikningar hússins.  Slík afturköllun tilmæla og afstaða skipulags- og byggingarfulltrúa til málsins fela ekki í sér ákvarðanir sem sætt geta kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum skipulagslaga og stjórnsýslulaga og kröfum um meðferð og framsetningu stjórnvaldsákvarðana.  Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

18/2012 Langamýri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2-12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 14. mars 2012 var þeirri kröfu hafnað. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi þess.  Útgáfa byggingarleyfisins var staðfest með samþykkt bæjarráðs hinn 6. mars 2012 og loks á fundi bæjarstjórnar hinn 15. s.m. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekkert gilt deiliskipulag sé til af svæðinu og því hafi borið að grenndarkynna framkvæmdirnar.  Með hinu kærða leyfi sé í raun verið að heimila fjölgun íbúða í umræddu húsi sem telja verði óheimilt að óbreyttu skipulagi. 

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi vegna framkvæmda við Löngumýri 14 verði úrskurðað lögmætt.  Í umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafi komið fram að verið væri að sækja um leyfi til að breyta innra skipulagi í viðkomandi eign og hafi sérstaklega verið tekið fram í umsókninni að ekki hafið verið að sækja um skiptingu eignarinnar.  Samkvæmt uppdráttum sé augljóst að verið sé að gera innanhússbreytingar á viðkomandi húsi og að alls ekki sé verið að sækja um leyfi til að breyta ytra byrði eða útliti þess á nokkurn hátt.  Í umsókninni hafi verið sótt um leyfi fyrir færslu lagna á jarðhæð í þvottahúsi og þá sýni uppdrættir nýtt hurðarop á jarðhæð, færslu raflagna á 1. og 2. hæð, færslu vatnslagna á 1. hæð vegna stækkunar á baðherbergi, færslu vatnslagna á 2. hæð, aðallega vegna nýs eldhúss, og breytingar á burðarvirki á 2. hæð þar sem burðarveggur sé fjarlægður við gerð nýs hurðarops fyrir baðherbergi.  Eiganda húsnæðisins sé frjálst að ákveða með hvaða hætti hann hagi innra skipulagi fasteignar sinnar að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um kröfur til íbúðarhúsnæðis.  Kærendur geti varla talist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.  Hið kærða leyfi snúi eingöngu að breytingum innanhúss.  Þær séu ósýnilegar kærendum og geti því ekki á nokkurn hátt raskað hagsmunum þeirra. 

Af hálfu bæjaryfirvalda sé einnig á það bent að samkvæmt skipulagsuppdráttum frá 1975 og 1980 sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Hofstaðamýri.  Í samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1981 sé þeirri byggð nánar lýst og verði að telja að deiliskipulagið ásamt uppdráttum fullnægi í einu og öllu þeim kröfum sem á sínum tíma hafi verið gerðar til skipulagsuppdrátta skv. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.  Við mat á gildi deiliskipulags og uppdrátta verði því að horfa til framkvæmdar í skipulagsmálum.  Óyggjandi sé að ávallt hafi verið gengið út frá því af hálfu húsbyggjenda, og einnig bæjaryfirvalda og annarra skipulagsyfirvalda, að um útgáfu byggingarleyfa vegna framkvæmda við húsbyggingar í Hofstaðamýri færi samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið fyrir svæðið á árinu 1981 og þeim breytingum sem gerðar hafi verið á því síðar.  Í þessu sambandi megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. apríl 2008, í máli nr. 444/2007, en þar komi fram það sjónarmið að þegar skipulag sem sannanlega hafi verið samþykkt í sveitarstjórn hafi verið lagt til grundvallar í áratugi verði að telja að það sé í fullu gildi þrátt fyrir minni háttar ágalla að formi til, nema hægt sé að sanna hið gagnstæða.  Deiliskipulag fyrir Hofstaðamýri frá árinu 1981 sé því gildandi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og fari hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við það. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi, sem í engu snerti hagsmuni nágranna. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ hinn 27. mars 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ.  Er um að ræða breytingar á herbergjaskipan og lögnum í húsinu.  Engar breytingar eru gerðar á ytra byrði hússins og ekki er í leyfinu veitt heimild til fjölgunar íbúða. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstakingbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér leyfi til breytinga innanhúss og verður ekki talin raska grenndarhagsmunum kærenda eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem veiti þeim kæruaðild í máli þessu.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

40/2011 Fisfélag Reykjavíkur

Með

Árið 2012, föstudaginn 27. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 um að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2011, er barst nefndinni 15. sama mánaðar, kærir Þ, f.h. Þ ehf., eiganda landspildu nr. 113435, S, f.h. eigenda landspildu nr. 113410, G, f.h. eigenda landspildu nr. 113426, og G, f.h. landeigendafélagsins Græðis, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. maí 2011 að veita byggingarleyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús, sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 3. maí 2011 var tekin fyrir byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að byggja færanlegt stálgrindarhús, sem hýsa á vélageymslu Fisfélags Reykjavíkur á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg.  Byggingarfulltrúi frestaði málinu og vísaði því til umsagnar skipulagsstjóra.  Hinn 17. maí 2011 samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina á afgreiðslufundi og var þá einnig lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 6. maí 2011.  Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði hinn 19. s.m.  Byggingarleyfi var síðan gefið út 31. október s.á. 

Kærendur skírskota m.a. til þess að deiliskipulagið sem hið kærða byggingarleyfi styðjist við sé ekki í samræmi við aðalskipulag og því hafi skort lagaskilyrði til að veita leyfið.  Deiliskipulagið sé haldið ógildingarannmörkum og hafi það verið kært til úrskurðarnefndarinnar og bíði úrlausnar.  Óheimilt sé að veita byggingarleyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Þá hafi Fisfélag Reykjavíkur ekki lögvarinn rétt til að fá útgefið byggingarleyfi á lóðinni Hbl. B2 við Vesturlandsveg þar sem lóðin sé hvorki til í Reynisvatnslandi né á Hólmsheiði.  Aðal- og deiliskipulagstillögurnar sem hér um ræði hafi tekið til jarðarinnar Reynisvatns með landnúmerið 113408, sem skráð sé 484 ha í landskrá fasteigna. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á frávísun málsins hvað varði aðra kærendur en eiganda landspildu nr. 113410.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé þess krafist að úrskurðarnefndin hafni öllum kröfum kærenda í málinu. 

Kærendur, að undanskildum einum, eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ef skoðaðar séu afstöðumyndir af lóðum þeirra kærenda m.t.t. aðstöðu fisfélagsins komi í ljós að u.þ.b. 1,05 km sé milli lóðar eins kærandans og flugvallar fisfélagsins og sé þar landfylling.  Spilda annars kæranda sé enn lengra í burtu, eða u.þ.b. 1,2 km.  Sé því ljóst að þessir aðilar eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið þar sem staðsetning umdeildrar byggingar hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni þeirra, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru.  Ekki verði heldur ráðið af kæru eða öðrum gögnum málsins hvaða hagsmuni landeigendafélag það sem kæri eigi á svæðinu en engar upplýsingar hafi komið fram um hvaða hagsmuni þess félags sé að tefla í málinu og hvaða réttarstöðu sá kærandi hafi á umræddu svæði.  Hafi Reykjavíkurborg ekki getað fundið út hverjir hagsmunir félagsins kunni að vera.  Beri því samkvæmt ofangreindu að vísa kæruefni þessara aðila frá úrskurðarnefndinni. 

Í gildi sé deiliskipulag sem taki til umráðasvæðis Fisfélags Reykjavíkur. Sé brúttóflatarmál umrædds stálgrindarhúss 608,4 m², sem sé innan skilmála deiliskipulagsins.  Á skipulags-svæðinu sé heimilt að reisa þrjú skýli, 1.600-1.800 m² hvert, eða samtals 5.400 m².  Ljóst sé því að byggingin samræmist gildandi deiliskipulagi. 
————————————
Byggingarleyfishafa var tilkynnt um kærumál þetta og framkomna stöðvunarkröfu og var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 
Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar byggingu á færanlegu stálgrindarhúsi sem hýsa á vélageymslu á umráðasvæði leyfishafa.  Deiliskipulag það sem leyfið á stoð í var á sínum tíma kært til úrskurðarnefndarinnar og er nú þar til meðferðar.  Framkvæmdir við greint stálgrindarhús eru nú þegar nokkuð á veg komnar og hefur burðargrind þess þegar verið reist. 

Beiting íþyngjandi úrræða, svo sem stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sem styðjast við opinber leyfi, verður að miða að því að verja hagsmuni sem ella væri hætta á að færu forgörðum.  Við ákvörðun um beitingu slíks úrræðis þarf m.a. að líta til þeirra hagsmuna málsaðila sem í húfi eru, hvort framkvæmdir séu afturtækar og hversu mikill vafi sé uppi um gildi hins kærða leyfis. 

Með hliðsjón af því að umrædd bygging er risin og um er að ræða færanlegt hús samkvæmt hinu kærða leyfi þykir ekki brýna nauðsyn bera til að knýja á um að framkvæmdir við það verði stöðvaðar meðan beðið er niðurstöðu um gildi byggingarleyfisins.  Frekari framkvæmdir eru hins vegar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa með tilliti til þeirrar óvissu sem ríkir um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingarleyfi.

 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

27/2012 Laugarásvegur

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg og reisa í hennar stað tvílyfta, steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2012, er barst nefndinni 3. apríl s.á., kærir Sigurður G. Guðjónsson hrl., fyrir hönd S, Laugarásvegi 23, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012 á umsókn um leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins að Laugarásvegi 25 og reisa í hennar stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð sem tengist húsinu með tengigangi úr timbri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu um stöðvun framkvæmda, en fyrir liggur að engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg stendur 99,2 m² timburhús, byggt árið 1935 samkvæmt skráningu í fasteignaskrá.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. ágúst 2011 var tekin til afgreiðslu fyrirspurn um hvort fjarlægja mætti timburskúr er áfastur væri húsinu og reisa í hans stað tveggja hæða viðbyggingu á lóðinni.  Var tekið jákvætt í erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember s.á. var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins og reisa í þess stað tvílyfta byggingu úr steinsteypu á baklóð er tengjast myndi núverandi húsi með gangi úr timbri.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Laugarásvegi 19, 21, 23 og 27.  Bárust athugasemdir og ábendingar frá kæranda og eigendum Laugarásvegar 21, en eigandi Laugarásvegar 19 tilgreindi í bréfi að hann hefði engar athugasemdir fram að færa.  Málið var næst til umfjöllunar á embættis afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 13. janúar 2012 og vísaði hann því áfram til skipulagsráðs.  Á fundi ráðsins hinn 29. febrúar s.á. var lögð fram umsögn skipulagsstjóra vegna málsins, dags. 17. janúar s.á., og fært til bókar að ekki væri gerð athugasemd við erindið með vísan til umsagnarinnar og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Var þessi afgreiðsla skipulagsráðs samþykkt á fundi borgarráðs hinn 1. mars 2012.  Hinn 6. s.m. var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010.  Með vísan til samþykktar borgarráðs frá 1. september 1998 skal utanhúss- og lóðarfrágangi vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektarákvæðum 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 15. mars 2012.  Þeim sem gert höfðu athugasemdir á grenndarkynningartíma var tilkynnt um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi dags. 7. mars 2012. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fram komi í lóðarleigusamningi fyrir lóðina Laugarásveg 25, dags. 5. ágúst 1955, að þáverandi leigutaki hafi þegar hafið byggingu íbúðarhúss á lóðinni.  Engin gögn hafi fundist um að byggingarleyfi hafi verið gefið út eða að fyrir hendi séu uppdrættir að húsi því er leigutaki hafi ætlað að reisa.  Mæliblað fyrir lóðina frá 27. júlí 1955 sýni aðeins staðsetningu þess húss á lóðinni er reist hafi verið árið 1935.  Í kaupsamningi núverandi eiganda um fasteignina komi fram að um kvaðir fari samkvæmt fyrrgreindum lóðarleigusamningi.  Hluti þess samnings sé mæliblað fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg.  Þar sé m.a. kveðið á um umferðarkvöð en eigandi Laugarásvegar 25 hafi að nokkru gengið á þann rétt með því að nota umferðarsvæðið sem bílastæði. 

Lög nr. 55/1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa hafi gilt þegar lóðir nr. 23 og 25 hafi verið leigðar og hafi efni lóðarleigusamninganna orðið að samrýmast þeim lögum, en í c-lið 11. gr. þeirra hafi verið kveðið á um fjarlægðir milli húshliða í íbúðargötum.  Liggi ekki fyrir skipulagsuppdráttur fyrir lóðirnar nr. 19, 21, 23 og 25 er byggi á lögum nr. 55/1921, eða lögum nr. 19/1964, sem hafi leyst hin fyrrgreindu lög af hólmi.  Þá sé ekki til deiliskipulag að umræddu svæði en það veiti byggingaryfirvöldum ekki rýmri rétt til útgáfu byggingarleyfis.  Við mat á því hvort heimiluð nýbygging samrýmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar á svæðinu verði að leggja til grundvallar það sem ákveðið hafi verið árið 1955 þegar lóðin hafi verið leigð til 75 ára og leyfi veitt til bygginga.  Sé nýbyggingin í engu samræmi við það sem ákveðið hafi verið þegar landsvæðinu hafi verið úthlutað undir einbýlishús. 

Neðri hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé tuttugu metrar að lengd frá norðri til suðurs og efri hæð hennar um þrettán metrar.  Húsið muni verða í fjögurra metra fjarlægð frá mörkum lóða Laugarásvegar 23 og 25 en núverandi hús á lóð nr. 25 sé um átján metra frá lóðarmörkum Laugarásvegar 23.  Fyrirhuguð staðsetning nýbyggingar sé í engu samræmi við þinglýst mæliblað lóðanna nr. 19, 21, 23 og 25 við Laugarásveg, sem verði að telja bindandi yfirlýsingu um staðsetningu mannvirkja á lóðunum.  Verði nýtt mannvirki á lóð nr. 25 að vera í samræmi við þau hús sem fyrir séu á lóðum nr. 19, 21 og 23 eða eins og húsið sem fyrir sé á lóðinni.  Geti borgaryfirvöld ekki leyft blandaða byggð á lóðinni nr. 25 sem nái langt út fyrir þau mörk sem núverandi byggingu séu sett. 

Hvergi séu fyrirheit um það í lóðarleigusamningi um Laugarásveg 25 að lóðarhafi geti fengið að nýta lóðina með öðrum hætti en þeim sem heimilað hafi verið árið 1955.  Þáverandi leigutaki hafi einnig skuldbundið sig til að ljúka framkvæmdum á lóðinni innan tveggja ára frá gerð samningsins, að öðrum kosti félli hann úr gildi.  Ákvæði þessu hljóti að hafa vera ætlað að tryggja að nágrannar þyrftu ekki að þola framkvæmdir á aðliggjandi lóðum um aldur og ævi eða að byggingum á lóðum þessum og staðsetningu þeirra yrði gjörbreytt.  Séu breytingum settar skorður og verði þær að vera óverulegar miðað við þær forsendur sem til staðar hafi verið þegar leyfi til byggingar hafi verið veitt.  Til grundvallar því mati verði að leggja lóðarleigusamninga og byggingarleyfi sem veitt hafi verið til að byggja á lóðunum nr. 23 og 25 við Laugarásveg.  Þegar horft sé til þessara gagna verði ekki séð að nokkur efnis- eða lagarök styðji að kærandi þurfi, liðlega hálfri öld eftir að hann flutti í hús sitt, að þola að á næstu lóð sé leyft að byggja hús sem sé allt annarrar gerðar og standi nær lóðamörkum en hús er þar hafi verið.  Réttur lóðarhafa að Laugarásvegi 25 standi til þess eins að nýta þá lóð með þeim hætti sem upphaflegum leigulóðarhafa hafi verið heimilað.  Staðsetning og stærð húsanna á lóðunum nr. 19, 21 og 23 skapi eiganda lóðarinnar að Laugarásvegi 25 engan rétt til að stækka mannvirki á lóðinni og gjörbreyta þeim.  Þá vísi kærandi til VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. ákvæði 23.-26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Þess er krafist að kröfum um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúa verði hafnað.  Það sé með öllu fráleitt og eigi sér enga stoð í lögum og samningum að upphaflegur lóðarleigusamningur bindi lóðarhafa og sveitarfélög á þann hátt að ekki sé heimilt að byggja ný hús síðar.  Geymi samningur um umrædda lóð engar takmarkanir á uppbyggingarheimildum lóðarinnar enda sé hann fyrst og fremst samningur um endurgjald fyrir leigu.  Engir aðrir skilmálar séu settir í samninginn sem bendi til þess að ekki megi byggja á lóðinni um aldur og ævi.  Ákvæði í lóðarleigusamningum um fresti til framkvæmda eigi við um viðkomandi framkvæmd á þeim tíma þegar samningar séu gerðir, en ekki sé hægt að skýra slík ákvæði þannig að þau takmarki breytingar á lóðunum síðar meir.  Það sé eðli byggðar að þróast og breytast og geti íbúar í þéttri byggð ekki vænst þess að nánasta umhverfi þeirra taki ekki neinum breytingum, nema smávægilegum, í tímans rás. 

Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 en ekki sé í gildi deiliskipulag að svæðinu.  Þegar svo hátti til sé umsókn um byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum grenndarkynnt, enda teljist fyrirhuguð framkvæmd vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í hlutaðeigandi hverfi.  Nýtingarhlutfall lóða í nánasta umhverfi sé allt frá 0,27 upp í 0,49.  Sé nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg 0,09 en verði 0,261.  Flatarmál lóðarinnar sé 1.106 m² og þoli hún vel aukna nýtingu en heimilað byggingarmagn sé í fullu samræmi við nánasta umhverfi.  Lóð kæranda sé 784 m² og nýtingarhlutfall allt að 0,27.  Nýbyggingin verði fjóra metra frá lóðarmörkum en sú fjarlægð sé ekki óalgeng í hverfinu.  Sé í því sambandi bent á að fjarlægð húss kæranda að lóðamörkum austan megin sé 3,5 metrar. 

Hæsti punktur efri hæðar nýbyggingar sé í svipaðri hæð og neðri brún glugga á efri hæð aðlægrar hliðar að Laugarásvegi 23.  Þann hluta hússins, sem sé á tveimur hæðum, beri að miklu leyti í eldra hús sem nú þegar takmarki útsýni kæranda.  Muni aukið byggingarmagn hafa óveruleg áhrif á skuggavarp og skýrist það af því að hús kæranda standi miklu hærra í landinu en fyrirhuguð nýbygging og núverandi hús að Laugarásvegi 25.  Sé byggðamynstri í hverfinu þannig háttað að byggt hafi verið á austurhluta lóðanna nærri lóðarmörkum.  Sé einnig gert ráð fyrir því í samþykktri umsókn, þrátt fyrir að afstaða núverandi húss á umræddri lóð sé ólík öðrum húsum við götuna, sem standi yfirleitt aftar á lóðum sínum.  Verði ekki séð að fyrirhuguð nýbygging muni skerða hagsmuni kæranda á neinn hátt, en um sé að ræða eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni, sambærilega eða vel undir því sem algengt sé í nágrenninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að þeim verði hafnað. 

Bent sé á varðandi heimild til framkvæmda að samkvæmt ýmsum gögnum, t.d. lóðarleigusamningi frá 5. ágúst 1955 fyrir umrædda lóð, mæliblaði fyrir lóðina og skipulagsuppdrætti, sem merktur sé „Skipulag í Laugarási“, sé gert ráð fyrir nýbyggingu þar sem nú standi til að byggja, í línu við önnur hús í götunni samkvæmt skipulagi. 

Nær ekkert sé tiltekið í kæru um að umrædd framkvæmd gangi gegn beinum hagsmunum kæranda, sem leiði til þess að hann eigi lögvarinna hagsmuna að gæta er réttlætt geti ógildingu byggingarleyfisins.  Gangi nær allur málflutningur kæranda út á að leiða líkur að því að umrædd framkvæmd gangi mögulega gegn upphaflegum lóðarleigusamningum, byggðamynstri, áætlunum um landnýtingu eða öðrum skipulagsskilmálum og vísi byggingarleyfishafi í því sambandi til fyrrgreindra heimilda fyrir framkvæmdum, sem og til afstöðu skipulagsyfirvalda til málsins.  Komi fram ýmsar rangfærslur eða misskilningur hjá kæranda, en á tilgreindu mæliblaði komi skýrt fram afmörkun til norðurs og vesturs fyrir nýbyggingu á umræddum stað.  Staðhæfingar séu mótsagnakenndar og ruglingslegar um hvað byggja megi á lóðinni og hvað ekki.  Í engu sé vikið að lagalegum skyldum eða öðrum rökum fyrir því að samþykkja umsóknina. 

Úrskurðarnefndinni virðist þannig ætlað að velja einhver þeirra raka sem reifuð séu til að hrekja niðurstöðu skipulagsyfirvalda á þeim forsendum að umrætt leyfi hljóti að vera ólöglegt.  Enginn rök standi til þess.  Þá séu heldur ekki tilteknir neinir þeir lögvörðu hagsmunir sem brotið hafi verið gegn.  Varðandi þessi atriði sé kærandi einfaldlega ekki málsaðili eða umsagnaraðili frekar en aðrir borgarbúar heldur sé það hlutverk Reykjavíkurborgar að taka hér afstöðu, svo sem gert hafi verið með útgáfu leyfisins.  Kæruréttur og möguleg málsaðild kæranda snúi eingöngu að þeim atriðum í byggingarframkvæmdinni sjálfri sem hann telji sig geta sýnt fram á að gangi gegn lögvörðum hagsmunum hans. 

Kærandi hafi teflt fram fjölda athugasemda við grenndarkynningu og hafi þau verið hrakin og sé þeim ekki lengur haldið fram.  Eftir standi aðeins léttvæg atriði sem lúti að meintu ónæði af fyrirhuguðum framkvæmdum.  Hafi aðrir nágrannar ekki gert neinar athugasemdir og góð sátt verið um framkvæmdina, sem fengið hafi ítarlega umfjöllun hjá skipulagsyfirvöldum. 

Með fyrirhuguðum framkvæmdum sé fyrst farið að nýta lóðina samkvæmt nýjasta skipulagi á svæðinu sem sé frá 6. áratug síðustu aldar.  Sé gengið mun skemur í nýtingu en alls staðar í nágrenninu sem lýsi sér t.d. í að nýtingarhlutfall sé það lægsta í nágrenninu eða um 0,25.  Mesta hæð hússins sé tveimur metrum undir línu sem dregin sé milli aðliggjandi húsa nr. 19 og 27.  Mannvirki á lóðinni séu í meiri fjarlægð frá lóðarmörkum en mannvirki á aðliggjandi lóðum og fyrirhuguð mannvirki séu minnst 16 m frá húsi kæranda og standi um þremur metrum neðar í landinu.  Sé gengið skemur í nýtingu lóðarinnar en hægt hefði verið samkvæmt upphaflegu skipulagi og að teknu tilliti til nýtingar næstu lóða.  Njóti kærandi góðs af þeirri lausn sem valin hafi verið enda sé skuggavarpi á baklóð hans og skerðingu á útsýni haldið í lágmarki.  Vegna hæðarmunar, fjarlægðar og afstöðu verði skuggavarp á lóð kæranda nánast ekkert allan þann tíma sem sólar njóti. 

Við hönnun hússins hafi verið lögð mikil áhersla á að það félli sem allra best að umhverfi sínu og nálægum byggingum og að uppbyggingin á lóðinni myndi stuðla frekar að auknu verðmæti nálægra húsa en hinu gagnstæða.  Sé vandséð hvernig kærandi getið beðið tjón af þessu.  Hafi hús það sem fyrir sé á lóðinni verið varðveitt í sínu upphaflega umhverfi en jafnframt hafi verið náð fram aukinni nýtingu á lóðinni á eins tillitssaman hátt gagnvart umhverfinu og mögulegt sé. 

Einnig sé bent á að tilvitnaðar lengdir fyrirhugaðrar byggingar séu nánast þær sömu og eigi við um hús kæranda, sem þó standi á talsvert minni lóð. 

Þá sé vandséð að ekki megi fara í nokkurra mánaða framkvæmdir á lóðinni á 50-60 ára fresti, líkt og gert hafi verið alls staðar í nágrenninu, og að ekki megi byggja á lóðinni þótt framkvæmdum við nýbyggingu, sem leyfi hafi verið veitt fyrir á sínum tíma, hafi ekki lokið á árunum 1955 til 1957.  Jafnframt sé bent á vegna athugasemda um umferðarkvöð að samkvæmt samþykktu byggingarleyfi muni verða bílastæði fyrir innan snúningssvæði, sem tryggi að því verði haldið opnu og greiðfæru fyrir alla. 

Virðist sem kærandi vilji hafa nánast autt svæði fyrir framan sig um alla framtíð og koma í veg fyrir að þar sé byggt upp með eðlilegri nýtingu og í samræmi við nýjasta skipulag, sem geri ótvírætt ráð fyrir byggingu á þessum stað.  Sé um ólíka hagsmuni að ræða, þ.e. annars vegar ríka og réttmæta hagsmuni byggingarleyfishafa og borgarinnar, og hins vegar mótmæli eins nágranna sem ekki geti bent á nein dæmi um að hagsmunir hans séu skertir. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 25. apríl 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Laugarásvegi 25, sem veitt var að undangenginni grenndarkynningu.  Var á því byggt við leyfisveitingu að ekki væri í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.  Má á það fallast, enda hafði skipulag í Laugarási, samþykkt í bæjarráði Reykjavíkur 19. maí 1953, ekki verið sent Skipulagsstofnun í samræmi við 5. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulagslögum nr. 123/2010 þegar umsókn um hið kærða byggingarleyfi kom til meðferðar hjá byggingaryfirvöldum.  Þá rann út frestur til skráningar eldri skipulagsákvarðana samkvæmt ákvæðinu hinn 31. desember 2011 og kemur umrætt skipulag ekki til álita eftir það. 

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem myndi heildstæða einingu.  Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Leiðir af þessum ákvæðum að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga segir hins vegar að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi, skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að heimilt sé, við þær aðstæður sem þar greinir, að víkja frá lagaskilyrði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga um deiliskipulag, enda þótt það sé hvergi berum orðum sagt í lögunum.  Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er því síðan lýst hvernig staðið skuli að grenndarkynningu og kemur þar fram að sveitarstjórn afgreiði, að kynningarfresti liðnum, mál sem sæti slíkri meðferð. 

Skilyrði þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum án þess að fyrir liggi deiliskipulag eru að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Í hinu kærða tilviki er um að ræða leyfi til byggingar íbúðarhúsnæðis á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.  Töluverður hæðarmunur er milli lóða og dregur hann verulega úr grenndaráhrifum umdeildrar nýbyggingar gagnvart eign kæranda.  Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, er í góðu samræmi við það sem gerist á svæðinu.  Þá verður ekki talið að gerð nýbyggingar eða fyrirkomulag mannvirkja á lóð skeri sig úr með þeim hætti að ekki samræmist byggðamynstri enda um nokkuð fjölbreytta byggð að ræða.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að heimilt hafi verið að veita byggingarleyfi það sem um er deilt í málinu á grundvelli grenndarkynningar og verður því ekki fallist á að ógilda beri það með þeim rökum að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við undirbúning leyfisveitingarinnar. 

Kærandi vísar til þess að í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 25 við Laugarásveg séu ákvæði um að byggingu á lóðinni skuli lokið innan tveggja ára og að samningurinn setji heimildum lóðarhafa til bygginga á lóðinni skorður.  Sé óheimilt að leyfa byggingar á lóðinni umfram það sem leiði af umræddum samningi.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Algengt er að við úthlutun lóða séu sett ákvæði, t.d. í byggingarskilmálum, um byggingarhraða og um lok byggingartíma.  Eru slík ákvæði sett til að tryggja að bygging húsa dragist ekki úr hófi en ekki verður talið að slík ákvæði girði fyrir rétt til endurbyggingar húsa, viðbygginga eða breytinga síðar.  Ráðast heimildir til byggingar á lóðum af gildandi skipulagi, ásamt þeim heimildum laga og reglugerða er gilda á hverjum tíma, þar á meðal heimildum til að víkja frá skilyrðum skipulagslaga um deiliskipulag, þar sem þær eiga við. 

Nokkurrar ónákvæmni gætti af hálfu borgaryfirvalda við meðferð málsins.  Þannig vísaði skipulagsráð málinu að lokinni grenndarkynningu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa í stað þess að vísa því til borgarráðs til afgreiðslu, en í 44. gr. skipulagslaga er gert ráð fyrir að sveitarstjórn afgreiði mál að lokinni grenndarkynningu.  Borgarráð samþykkti hins vegar afgreiðslu skipulagsráðs áður en málið kom til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa og verður nefndur ágalli á málsmeðferð því ekki látinn varða ógildingu.  Þá skorti á að kæranda væri tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar þegar hún lá fyrir hinn 1. mars. 2012, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en með hliðsjón af því að honum var skömmu síðar tilkynnt um endanlega ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu verður þessi annmarki ekki heldur talinn varða ógildingu.
Að þessu athuguðu, og með vísan til þess sem að framan er rakið, verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni og töfum við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. mars 2012, sem staðfest var í borgarrráði 15. s.m., um að veita leyfi til að fjarlægja einlyfta skúrbyggingu við austurhlið hússins á lóðinni nr. 25 við Laugarásveg í Reykjavík og reisa í þess stað tvílyfta steinsteypta byggingu á baklóð er tengist húsinu með tengigangi úr timbri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

47/2010 Gufuneslóð

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2010, kæra vegna framkvæmda á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 14. júlí 2010, kæra sjö eigendur og íbúar að Viðarrima 41, 43, 45 og 49, Reykjavík, framkvæmdir á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi.

Skilja verður málskot kærenda svo að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. september 2006, var falast eftir leigu á um 20.000 m2 landspildu í Gufunesi.  Í bréfinu er tekið fram að ætlunin sé að nota spilduna undir leik- og útivistarsvæði fyrir mismunandi aldurshópa sem ekki krefðist varanlegra bygginga.  Hinn 16. apríl 2008 var síðan undirritaður afnotasamningur milli Reykjavíkurborgar, fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, og umsækjandans um afnot spildunnar til 15 ára.  Í 6. gr. þess samnings segir m.a. svo:  „Þá er afnotahafa óheimilt að framkvæma meiriháttar breytingar eins og að reisa mannvirki, leggja götur og bílastæði, nema að fengnu samþykki landeiganda, utan þeirra lausamuna, þ.e. tækja og tóla og leikmynda, sem nauðsynlegt er að setja upp miðað við fyrirhugaðan rekstur afnotahafa.“ 

Kærendur vísa til þess að framkvæmdir á lóðinni séu til lýta og með ólíkindum sé að fullorðið fólk standi að þeim.  Í kæru er ekki tilgreint hvers eðlis framkvæmdirnar séu en samkvæmt símtali við einn kærenda hafi verið um að ræða uppsetningu timburturna og skriðdreka. 

Borgaryfirvöld hafa upplýst að engin byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir nefndum turnum og raunar liggi ekkert fyrir um hvort um sé að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir.  Engin kæranleg ákvörðun liggi fyrir í málinu og beri því að vísa því frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, hafði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála það hlutverk að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. nefndrar lagagreinar var og tekið fram að kæru til úrskurðarnefndarinnar sættu stjórnvalds ákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar tilteknar framkvæmdir sem borgaryfirvöld hafa lýst yfir að styðjist ekki við ákvarðanir um leyfisveitingu samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum.  Umdeildar framkvæmdir styðjast samkvæmt því ekki við ákvarðanir sem bornar verða undir úrskurðarnefndina samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

14/2012 Aragata

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 28. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 14/2012, kæra á samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. janúar 2012 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. febrúar 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Aragötu 13, Reykjavík, samþykki byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. janúar 2012 á umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á lóðinni nr. 15 við Aragötu hefur staðið einbýlishús og bílskúr úr timbri.  Hinn 12. október 2010 var samþykkt leyfi til að rífa nefndan bílskúr.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja staðsteyptan bílskúr í stað hins eldri á lóðinni.  Málinu var vísað til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu, sem ákvað á fundi sínum 4. nóvember s.á. að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Aragötu 13, 14 og 16 og Oddagötu 14 og 16.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 9. desember 2011. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 11. janúar 2012 og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra frá 15. desember 2011 þar sem lagt var til að byggingarleyfisumsóknin yrði samþykkt óbreytt.  Með vísan til umsagnar skipulagsstjóra var ekki gerð athugasemd við erindið og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.  Samþykkti borgarráð afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 12. janúar 2012.  Málið var loks tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. janúar 2012 og var umsóknin samþykkt.  Var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 1. febrúar 2012. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að annmarkar séu á málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Vísar hann til þess að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum áður en málið hafi verið afgreitt af byggingarfulltrúa.  Ýmislegt nýtt hafi komið fram við afgreiðslu málsins sem honum hafi verið ókunnugt um og hafi hann ekki fengið gögn afhent fyrr en við eftirgrennslan.  Í þessu felist brot á andmælarétti og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi eigi verulegra hagsmuna að gæta enda sé verið að byggja að mörkum lóðar hans.  Um sé að ræða verulega stækkun á bílskúr, bæði í fermetrum og rúmmetrum.  Þá sé jafnframt um að ræða verulega breytingu frá staðsetningu eldri bílskúrs, eldri teikningum og samþykktu skipulagi.  Hinn nýi bílskúr muni takmarka nýtingu lóðar kæranda þar sem eigendur Aragötu 15 þurfi að vera inni á lóð hans við viðhald á bílskúrnum.  Lóð nr. 15 sé um 750 m² að stærð og því sé ekki verið að skerða nýtingu lóðarréttinda þótt miðað yrði við staðsetningu eldri skúrs sem hafi staðið nokkuð frá lóðarmörkum kæranda.  Þá hafi hvorki verið gert ráð fyrir að byggt yrði að lóðamörkum samkvæmt eldri teikningu né hafi sú heimild verið til staðar þegar núverandi eigandi keypti húsið.  Þurfi því samþykki rétthafa aðliggjandi lóða fyrir byggingu við lóðamörk.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að víkja frá lögskipuðu ástandi án nokkurs rökstuðnings.  Bílskúrinn breyti ásýnd götunnar og mótmælt sé einnig breyttu þakformi bílskúrsins frá því sem hafi verið á fyrri bílskúr.  Í umsögn skipulagsstjóra sé einungis vikið að því að nýi bílskúrinn sé 8 m² stærri en sá sem fyrir hafi verið en ekki sé minnst á 30 m³ stækkun skúrsins. 

Ekki hafi verið svarað til um nýtingarhlutfall á lóðinni og hvort það sé í samræmi við staðfest skipulag.  Þá hafi stækkun bílskúrsins í rúmmetrum í för með sér birtuskerðingu í garði kæranda, en um sé að ræða aðalgarð hússins í sólarátt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist af kröfu kæranda verði hafnað. 

Því sé hafnað að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að koma að andmælum við umsögn skipulagsstjóra.  Kærandi hafi verið talinn eiga hagsmuna að gæta í málinu og hafi honum verið veittur andmælaréttur með grenndarkynningu, svo sem lögboðið sé við ákveðnar aðstæður, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Kærandi hafi andmælt með athugasemdabréfi sínu, sem síðan hafi farið til efnismeðferðar hjá stjórnvaldinu.  Reykjavíkurborg sé eitt stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar og hafi andmælaregla stjórnsýslulaga ekki verið brotin. 

Rétt sé að í umsögn skipulagsstjóra sé einungis fjallað um stækkun bílskúrsins í fermetrum en ekki rúmmetrum og sé hlutfallsleg stækkun skúrsins 30% í fermetrum en muni vera 50% mæld í rúmmetrum.  Það sé sennilega vegna breyttrar þakgerðar en þetta sé eðlileg stækkun frá meira en hálfrar aldar gömlum bílskúr sé tekið mið af nútímaþörfum.  Því teljist þetta ekki vera veruleg breyting. 

Ekki sé fallist á að hinn nýi bílskúr muni breyta ásýnd götunnar það mikið að byggingin sé ekki réttlætanleg.  Hinn nýi bílskúr verði með öðru þakformi en hafi verið á þeim eldri.  Elstu bílskúrar á svæðinu séu með lítt hallandi mænisþaki og þeir sem byggðir hafi verið síðar séu margir hverjir með flötu þaki.  Mikilvægt þyki að endurbyggðir bílskúrar séu þannig að þeir hafi hlutlaust yfirbragð.  Markmiðið sé að íbúðarhús á þeim lóðum þar sem bílskúra sé að finna séu í aðalhluverki hvað yfirbragð og ásýnd varði.  Flatt eða lítt hallandi þak sé talið uppfylla þessi markmið og sé hvort tveggja hluti af byggðamynstri bílskúra á svæðinu.  Staðsetning bílskúra við Aragötu sé með ýmsum hætti og liggi þeir oft að lóðamörkum á tvo vegu eða mjög nálægt lóðamörkum, líkt og bent sé á í umsögn skipulagsstjóra.  Því sé harðlega mótmælt að um óvönduð vinnubrögð skipulags- og byggingarsviðs hafi verið að ræða í málinu og að sviðið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni.  Ekki sé verið að víkja frá lögskipuðu ástandi með hinu kærða byggingarleyfi enda verði hinn nýi skúr á sama stað og sá eldri og í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Bílskúrar á svæðinu standi innst á lóðum og hafi því lítil áhrif á götumyndina.  Þá sé það vel þekkt fyrirkomulag í mörgum hverfum borgarinnar að hafa bílskúra við lóðamörk þótt í því felist að lóðareigendur verði almennt að þola að gengið sé tímabundið um lóð þeirra vegna viðhalds skúranna.  Ekki sé fallist á að slík viðhaldsvinna muni takmarka nýtingu lóðar kæranda. 

Umrætt svæði hafi ekki verið deiliskipulagt og því hafi umsókn byggingarleyfishafa verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.  Nýtingarhlutfall á lóðinni nr. 15 við Aragötu sé nú 0,27 og verði með nýjum bílskúr 0,28.  Nýtingarhlutfall Aragötu 13 sé mjög svipað eða 0,27 þó ekki sé þar bílskúr. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að ekki sé verið að ganga á rétt kæranda þótt bílskúr sé endurnýjaður við lóðamörk.  Eldri bílskúr á lóð nr. 15 við Aragötu hafi verið 7,0 m á lengd, meðfram mörkum lóðar kæranda en nýi bílskúrinn verði 6,3 m meðfram þeirri lóð, eða um 0,7 m styttri.  Breiddin verði hins vegar meiri, en það hafi engin áhrif frá lóð kæranda séð.  Nýi bílskúrinn verði ekki hærri en sá eldri og óskiljanlegt sé að þeir auknu rúmmetrar sem verið sé að tala um geti á nokkurn hátt truflað kæranda.  Ekki verði séð að nýting lóðar kæranda sé á neinn hátt skert þótt farið sé eftir samþykktum uppdrætti.  Um skerðingu á birtu og útsýni skuli á það bent að gamli 7,0 m langi timburskúrinn hafi verið þarna í hartnær hálfa öld, með mænisþaki og þakskeggi á langhliðum sem náð hafi að lóðamörkum, og standist því ekki fullyrðing kæranda um að eldri skúr hafi ekki náð að lóðamörkunum. 

Ekki sé fallist á að flatt þak á hinum nýja bílskúr breyti ásýnd götunnar.  Við Aragötu standi bílskúrar við hús nr. 4, 10, 11, 12, 14 og 16, sem séu allir, að undanskildum bílskúr við hús nr. 11, með láréttu þaki og standi við lóðamörk.  Því mætti halda fram að sú þakgerð væri einkennandi fyrir götuna. 

————–

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2012 og markar sú dagsetning upphaf þriggja mánaða frests til uppkvaðningu úrskurðar, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir staðsteyptum bílskúr á lóð nr. 15 við Aragötu, sem veitt var að undangenginni grenndarkynningu.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði, en fyrir liggur mæliblað, dags. 28. október 1953, sem tekur m.a. til umræddrar lóðar.  Er þar gert ráð fyrir bílskúr við mörk lóðar kæranda á þeim stað þar sem hinum umdeilda bílskúr er ætlað að rísa.  Bílskúrinn verður 32 m² eða um 7,5 m² og um 27 m³ stærri en eldri skúr sem fyrir var á lóðinni.  Langhlið hins nýja bílskúrs liggur að lóðarmörkum kæranda en eldri skúr var í um 0,6 m fjarlægð frá þeim.  Nýi bílskúrinn verður um 0,7 m styttri en eldri skúr og verður hann með flötu þaki í stað mænisþaks.  Við breytinguna hækkar nýtingarhlutfall umræddrar lóðar úr 0,27 í 0,28. 

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skulu byggingarleyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er þó sú undantekning gerð frá nefndri meginreglu að heimilt er að veita leyfi til mannvirkjagerðar á ódeiliskipulögðu svæði ef um er að ræða mannvirki sem samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi, að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 44. gr. laganna.  Samkvæmt téðu ákvæði felst grenndarkynning í því að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta er kynnt leyfisumsókn og gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests.  Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. 

Hin kærða ákvörðun heimilar byggingu bílskúrs í stað eldri skúrs á umræddri lóð og þótt heimilaður bílskúr sé stærri en sá sem fyrir var er hann hóflegur að stærð.  Á umræddu svæði er að finna bílskúra með flötu þaki byggða að lóðamörkum og þykir því bílskúrinn í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Þá  liggur fyrir að nýtingarhlutfall lóðar eykst óverulega, en ekki er í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur ákvæði um hámark nýtingarhlutfalls íbúðarlóða.  Með hliðsjón af þessu var borgaryfirvöldum heimilt að fara með hina umdeildu byggingarleyfisumsókn skv. málsmeðferðarreglu 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.  Grenndarkynning samkvæmt skipulagslögum er til þess ætluð að kynna hagsmunaaðilum fyrirhugaðar breytingar og gefa þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum og andmælum, ef því er að skipta, og gæta með því andmælaréttar þeirra.  Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar var þessa gætt.  Fjallað var um framkomnar athugasemdir og viðkomandi tilkynnt um afgreiðslu málsins, en ekki er gert ráð fyrir að þeir sem gert hafi athugasemdir fái svör við þeim til umsagnar áður en málið kemur til afgreiðslu sveitarstjórnar.  Verður ekki fallist á að andmælaregla eða rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með þessari lögbundnu meðferð málsins. 

Ekki eru lengur í gildi ákvæði um lágmarksfjarlægð bygginga frá lóðarmörkum eftir breytingar sem gerðar voru á 75. gr. áður gildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hins vegar ber nú aðeins að gæta reglna um bil milli húsa og um eldvarnir sem koma fram í gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem m.a. er kveðið á um eldvarnarkröfur fyrir bílgeymslur undir 100 m² og standa nærri eða við lóðarmörk.  Er og til þess að líta að í deiliskipulagi er víða gert ráð fyrir að stakar byggingar, svo sem bílskúrar, standi á lóðamörkum og í eldri hverfum, sem ekki hafa verið deiliskipulögð, er slíkt fyrirkomulag einnig þekkt, þar á meðal á umræddu svæði.  Standa hvorki settar réttarreglur né grenndarsjónamið því í vegi að slík bygging sé heimiluð við lóðamörk, að uppfylltum kröfum um eldvarnir.

Nokkurrar ónákvæmni gætti af hálfu borgaryfirvalda við meðferð málsins.  Þannig vísaði skipulagsráð málinu að lokinni grenndarkynningu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa í stað þess að vísa því til borgarráðs til afgreiðslu, en í 44. gr. skipulagslaga er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn afgreiði mál að lokinni grenndarkynningu.  Borgarráð samþykkti hins vegar afgreiðslu skipulagsráðs áður en málið kom til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa og verður nefndur ágalli á málmeðferð því ekki látinn varða ógildingu.  Þá skorti á að kæranda væri tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar þegar hún lá fyrir hinn 12. janúar 2012, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulags-laga, en með hliðsjón af því að honum var skömmu síðar tilkynnt um endanlega ákvörðun byggingarfulltrúa í málinu verður þessi annmarki ekki heldur talinn varða ógildingu. 
 

Með hliðsjón af öllu því sem að framan hefur verið rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 31. janúar 2012 um heimild til að byggja staðsteyptan bílskúr með timburþaki á lóð nr. 15 við Aragötu. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                        Þorsteinn Þorsteinsson

58/2012 Útey II

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 1. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjarskiptamannvirkjum á lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2012, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra S og M, eigendur lóða nr. 2 og 4 í landi Úteyjar I, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 að samþykkja leyfi til byggingar fjarskiptahúss og masturs á lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð sú krafa að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið þykir nægjanlega upplýst verður það nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því krafan um stöðvun framkvæmda ekki tekin til umfjöllunar. 

Málavextir:  Í október 2011 tók gildi deiliskipulag fyrir 15 m² lóð í landi Úteyjar II, en samkvæmt skipulaginu er gert ráð fyrir fjarskiptahúsi og fjarskiptamastri á lóðinni.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og stóðu kærendur að því kærumáli.  Hinn 25. apríl 2012 var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum á nefndri lóð og hún samþykkt. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að ekki hafi verið úrskurðað um lögmæti hins kærða deiliskipulags.  Hafi þegar verið steyptur grunnur á lóðinni og sé hann of nálægt vegi skv. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sem kveði á um fjarlægð mannvirkja frá þjóðvegum. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Sveitarfélagið vísar til þess að hið umdeilda byggingarleyfi sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag sem öðlast hafi gildi í október 2011.  Þá sé á það bent að umhverfisráðuneytið hafi í máli þessu veitt undanþágu frá gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi kveður rannsóknir hafa leitt í ljós að engin hætta stafi af farsímaloftnetum enda sé sendistyrkur þeirra mjög lítill.  Þá sé byggð og ívera fólks alla jafna mun nær þessum loftnetum en hér sé raunin.  Reynt hafi verið að koma til móts við lóðareigendur á svæðinu með því að lækka fyrirhugað mastur, breyta hönnun þess og öðrum búnaði til að það félli betur inn í umhverfið.  Sé mastrið mjög fyrirferðarlítið, samanborið við önnur slík möstur hérlendis, og sjónræn áhrif þess með minnsta móti. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar fjarskiptahúss og fjarskiptamasturs á lóð í landi Úteyjar II.  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð um gildi deiliskipulags þess sem hið kærða byggingarleyfi styðst við og var skipulagið fellt úr gildi.  Hefur hið kærða byggingarleyfi því ekki lengur fullnægjandi stoð í gildu deiliskipulagi og verður leyfið því fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 25. apríl 2012 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fjarskiptahúsi og fjarskiptamastri á 15 m² lóð í landi Úteyjar II í Bláskógabyggð. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson