Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2011 Illagil

Árið 2014, föstudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 90/2011, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2010, um að kæranda beri að fjarlægja  jarðvegsmön af sumarhúsalóðinni Illagili 21 í landi Nesja, Grímsnes- og Grafningshreppi, innan 90 daga. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2011, er barst nefndinni 11. s.m., kærir Sveinn Guðmundsson hrl., f.h. L, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 1. desember 2010, um að kæranda beri að fjarlægja jarðvegsmön af lóðinni Illagili 21 innan 90 daga.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá sveitarfélaginu hinn 18. desember 2013.  

Málavextir:  Eftir að umráðamaður lóðarinnar Illagils 16 hafði skorað á kæranda að fjarlægja jarðvegsmön á lóðinni Illagili 21, fór hann fram á það við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps í bréfi, dags. 28. júlí 2010, að fyrrgreind mön yrði fjarlægð.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. nóvember 2010 var eftirfarandi bókað: ,,Að mati nefndarinnar hefur mön á lóð nr. 21 áhrif á ásýnd og umhverfi.  Eiganda lóðar er gert að fjarlægja mönina innan 90 daga frá staðfestingu sveitarstjórnar á þessari samþykkt.“  Var kæranda gerð grein fyrir þessari afgreiðslu nefndarinnar með bréfi, dags. 23. s.m.  Afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi sveitarstjórnar 1. desember s.á. og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu, eins og að framan greinir.

Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sendi kæranda bréf, dags. 15. desember 2010 og 3. nóvember 2011, þar sem ítrekuð var krafa um að jarðvegsmön á landi hans yrði fjarlægð, auk þess sem dagsektir voru boðaðar í seinna bréfinu ef ekki yrði orðið við kröfunni. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að leiðbeiningarskyldu um kærurétt samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt í tilkynningu til hans um hina kærðu ákvörðun. Af þeim sökum beri að taka kærumál þetta til efnismeðferðar þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Kærandi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu sumarhúss á lóð sinni í október 2005.  Þáverandi byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hafi komið á staðinn til umsagnar og ráðagerða vegna þeirra framkvæmda og hafi hann gefið kæranda munnlegt leyfi fyrir því að grafa fyrir kjallara.  Rætt hafi verið um hvað gera skyldi við uppgröftinn og hafi byggingarfulltrúinn lagt það til að hann yrði nýttur sem best og gert eitthvað snyrtilegt á lóðinni úr jarðveginum frekar en að flytja hann burt.  Um það hafi svo verið samið að gerð yrði skeifulaga jarðvegsmön úr uppgreftrinum á þeim stað sem tæki og vélar hefðu áður skemmt, eða um 35 m frá lóðamörkum lóðar kæranda og lóðar þess sem kvartað hafi yfir jarðvegsmöninni.  Allar framkvæmdir, þ.m.t. frágangur uppgraftar, hafi verið í fullu samráði við þáverandi byggingarfulltrúa.  Ef formreglna hafi ekki verið gætt verði kæranda ekki um það kennt þar sem hann hafi treyst á umsögn og aðkomu byggingarfulltrúa og að farið væri að lögum.  Þá hafi lóðarhafi Illagils nr. 19 verið samþykkur framkvæmdinni en sú lóð sé einna næst lóð kæranda. 

Ekki sé fallist á að jarðvegsmönin skerði útsýni frá Illagili 16, en séð frá þeirri lóð beri jarðvegsmönina við hól á nærliggjandi lóð nr. 19 sem standi nokkuð hærra í landi.  Þá sé jarðvegsmönin staðsett í lægð eða slakka í landinu.

Kæranda sé ekki ljóst hvað byggingarfulltrúi eigi við í bréfi sínu, dags. 23. nóvember 2010, þar sem segi að gróður á jarðvegsmöninni sé ekki í samræmi við ríkjandi gróður á svæðinu.  Í bréfinu sé því jafnframt haldið fram að mönin sé á lóðamörkum. Að mati kæranda sé jarðvegsmönin snyrtileg og vel frá gengin, gróin grasi með  lágplöntum og sé í 35 m fjarlægð frá lóðamörkum, eins og áður greini.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að sveitarfélagið líti svo á að hin umdeilda jarðvegsmön hafi verið háð samþykki byggingarnefndar samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir.  Samkvæmt deiliskipulagi sé óheimilt að planta  hávöxnum trjátegundum á svæðinu og megi af því ráða að markmið deiliskipulagsins sé að halda í náttúruleg einkenni svæðisins.  Með hliðsjón af því sé frágangur jarðvegs í jarðvegsmön í ósamræmi við anda deiliskipulagsins.

Andmæli lóðarhafa að Illagili 16:  Bent er á að fram komin kæra sé dagsett 9. nóvember 2011, eða rúmum 11 mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Kæran sé því allt of seint fram komin og beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.

Verði kæran tekin til efnislegrar meðferðar sé þess krafist að nefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri jarðvegsmönina að viðlögðum dagsektum.  Hin kærða ákvörðun sé rétt, bæði að efni og formi, þ.e. rök að baki henni séu rétt og ákvörðunarferlið hafi verið í samræmi við þágildandi skipulagslög.  Kærandi hafi verið upplýstur um ferlið, verið viðstaddur skoðun og fengið ítarlegar upplýsingar um niðurstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa og sveitarstjórnar, ásamt rökstuðningi, þar sem vísað hafi verið til þeirra ákvæða reglugerðar sem gerð jarðvegsmanarinnar brjóti gegn. 

Jarðvegsmönin sé ósamþykkt mannvirki sem samræmist ekki gildandi skipulagi fyrir svæðið og falli á engan hátt að umhverfinu, sem sé lyng- og kjarri vaxið land við Þingvallavatn. Markmið deiliskipulags svæðisins sé að við uppbyggingu sumarhúsabyggðarinnar sé þess gætt að stemma stigu við skerðingu útsýnis og breytingum á ásýnd lands með því t.d. að banna gróðursetningu hárra trjáa og byggingu skjólveggja.  Ekki verði séð að jarðvegsmönin þjóni nokkrum tilgangi auk þess sem hún skyggi á útsýni frá Illagili 16 og sé lýti á umhverfi og aðkomu að lóð nágranna.  Breyti þar engu þótt mönin sé grasi gróin heldur dragi það fremur fram hið hróplega ósamræmi sem sé á milli manarinnar og hins lyngi vaxna móa. 

Samkvæmt 2. mgr. gr. 7.2.4 í  núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. áður 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sé lóðarhafa skylt að ganga frá byggingarlóð og fjarlægja þann uppgröft sem ekki þurfi að nota á lóð áður en byggingin sé fokheld.  Í Illagili sé skýrt að lóðareigendum beri að fjarlægja uppgröft en ekki nota hann til jöfnunar lóða eða við aðra landmótun enda sé þess krafist að gætt sé að hinu náttúrulega umhverfi, sbr. m.a. rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar.

Þeirri málsástæðu kæranda að hann hafi fengið munnlegt leyfi byggingarfulltrúa fyrir gerð jarðvegsmanarinnar sé mótmælt sem ósannaðri.  Slíkt leyfi hafi ekkert gildi þegar það fari gegn gildandi skipulagi og reglum um svæðið og hafi heldur ekki verið kynnt fyrir nágrönnum.  Kærandi verði að bera hallann af því að ekki liggi fyrir nein formleg leyfi fyrir möninni eða undanþága frá skyldu hans til að koma uppgreftri í burtu. 

Ríkir hagsmunir séu af því fyrir lóðarhafa Illagils 16 að umrædd mön og uppgröfturinn allur verði fjarlægður.  Við val á lóð undir frístundahús ráði miklu hversu sterk náttúruupplifun svæðisins sé, þ.m.t. gróðurfar og útsýni.  Þeir sem leggi mikið upp úr slíkum þáttum velji sér lóðir á svæðum þar sem skipulag geri ráð fyrir sem minnstri röskun náttúrulegs umhverfis, líkt og skipulag svæðisins í Illagili geri.  Ákvörðun um að leyfa möninni að standa hafi því ekki einungis neikvæð áhrif á einstaklingsbundna upplifun nágranna heldur verði það einnig til þess að ekki sé hægt að treysta á að skipulag svæðisins verndi þau gæði sem því sé ætlað.  Möguleikar á nýtingu landsins séu því skertir með tilheyrandi verðrýrnun.
 
Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 9. apríl 2013.

Niðurstaða:  Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og  byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kæra í máli þessu var móttekin 11. nóvember 2011, eða rúmum ellefu mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.  Barst því kæran að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga og skömmu áður en kæran barst var kæranda tilkynnt um væntanlega ákvörðun um dagsektir til að fylgja eftir hinni kærðu ákvörðun.  Af þessum ástæðum verður kærumál þetta tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga áður en hin kærða ákvörðun var tekin, en hún er íþyngjandi gagnvart kæranda.  Sá annmarki á málsmeðferð ákvörðunarinnar telst verulegur eins og á stóð og ber af þeim sökum að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2010 um að kæranda beri að fjarlægja jarðvegsmön af lóðinni Illagili 21 innan 90 daga.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Hildigunnur Haraldsdóttir