Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2011 Hólmsheiði

Árið 2014, föstudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2011, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 um að endurnýja framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2011, er barst nefndinni 19. s.m., kærir Þ, eiganda lands nr. 113435 í Reynisvatnslandi, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 að endurnýja framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Hinn 14. desember 2010 tók gildi deiliskipulag vegna jarðvegsfyllingar og miðlunargeyma á Hólmsheiði.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar og stóð kærandi í máli þessu meðal annars að þeirri kæru.  Hinn 28. júlí 2011 sótti framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkur um endurnýjun á framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði og samþykkti skipulagsráð þá umsókn hinn 17. ágúst s.á. með vísan til 12. gr. samþykktar um skipulagsráð.  Framkvæmdaleyfið var síðan gefið út hinn 9. september 2011.

Kærandi vísar um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreinds deiliskipulags Hólmsheiðar, en í því máli sé höfð uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Styðjist hið kærða framkvæmdaleyfi við deiliskipulag sem haldið sé ógildingarannmörkum og beri af þeim sökum að fella leyfið úr gildi.   

Reykjavíkurborg andmælir ógildingarkröfu kæranda.  Framkvæmdaleyfið sé í samræmi við deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af borgarráði 4. nóvember 2010.  Það sæti ekki endurskoðun í máli þessu og því hafi ekki verið hnekkt.  

Niðurstaða:  Af hinu kærða framkvæmdaleyfi verður ráðið að heimiluð sé losun á 1,7 milljón m3 af ómenguðum jarðvegi á 32 ha landi á Hólmheiði til viðbótar við tvær milljónir m3 jarðvegs sem þegar hafi verið losaðir á svæðinu.   

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli um gildi deiliskipulags þess sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við og var skipulagið fellt út gildi m.a. með hliðsjón af því að fyrrgreind jarðvegslosun hafi farið í bága við ákvæði þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Hið kærða framkvæmdaleyfi er sömu annmörkum háð og á ekki lengur  fullnægjandi stoð í gildandi skipulagi.  Verður hin kærða ákvörðun þegar af þeim ástæðum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði í Reykjavík.

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                               Hildigunnur Haraldsdóttir