Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2012 Strandgata Stokkseyri

Árið 2014, þriðjudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 um að synja kröfu kæranda um að beitt verði úrræðum til að fjarlægja viðbyggingu við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu, Stokkseyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. R, Strandgötu 8, Stokkseyri, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 að synja erindi kæranda um að byggingarfulltrúi beiti úrræðum til að viðbygging við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu á Stokkseyri verði fjarlægð. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Húsið Sjólyst við Strandgötu 8 og 8A er tvíbýlishús, reist árið 1902. Tvær viðbyggingar, svonefnd bíslög, voru við húsið, annars vegar við vesturgafl og hins vegar við austurhluta þess. Fyrir u.þ.b. 47 árum munu þáverandi eigendur Strandgötu 8A hafa fjarlægt viðbygginguna við austurhluta hússins. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdir hafi byrjað við gerð nýrrar viðbyggingar árið 2010, á svipuðum stað og eldri viðbygging hafði verið, án þess að sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Með bréfi Húsafriðunarnefndar til byggingarfulltrúa, dagsettu 18. október 2010, var vakin athygli á að erindi vegna breytingar á útliti hússins hefði ekki borist nefndinni og óskaði byggingarfulltrúi af því tilefni umsagnar Húsafriðunarnefndar með tölvubréfi 5. nóvember s.á. Nefndin tók málið fyrir á fundi 11. nóvember 2010 og færði til bókar að ekki væri talin ástæða til að standa í vegi fyrir því að bíslagið við norðurhliðina yrði endurbyggt og stækkað frá fyrra horfi til samræmis við stækkun bíslagsins við vesturgafl hússins, enda yrði allur frágangur í samræmi við aldur og gerð hússins.
 
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. nóvember 2010 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu að Strandgötu 8A. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað og fært til bókar að óskað væri eftir samþykki meðeigenda fyrir framkvæmdunum. Kærandi fór fram á það við byggingarfulltrúa í bréfi, dagsettu 26. apríl 2012, að hann beitti lagaúrræðum til að fá viðbygginguna fjarlægða með vísan til 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Var það erindi ítrekað með bréfi, dagsettu 16. maí s.á., og óskað rökstuðnings yrði ekki á það fallist. Með bréfi, dagsettu 21. júní 2012, veitti sveitarfélagið eigendum Strandgötu 8A færi á að tjá sig um fram komna kröfu kæranda, sem þeir og gerðu með bréfi, dagsettu 8. júlí s.á.

Erindi kæranda var svarað með bréfi byggingarfulltrúa, dagsettu 22. ágúst 2012. Var ekki fallist á beitingu þvingunarúrræða mannvirkjalaga til að knýja á um niðurrif greindrar viðbyggingar með hliðsjón af ríkari hagsmunum eigenda Strandgötu 8A til að láta viðbygginguna standa en hagsmunum eiganda Strandgötu 8 til að fá bygginguna fjarlægða. Þá var tekið fram að ekki yrði séð að viðbyggingin sem slík ylli eiganda Strandgötu 8 neinum óþægindum, ónæði eða skaða og að gengið hefði verið úr skugga um að ekki stafaði hætta af viðbyggingunni. Hefur kærandi kært þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og að fella beri hana úr gildi.

Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar lögum samkvæmt áður en ráðist hafi verið í umdeildar breytingar að Strandgötu 8A og að mati kæranda hafi ekki verið farið að fyrirmælum nefndarinnar um hvernig haga skyldi útliti viðbyggingarinnar um stærð og lögun. Þyki kæranda viðbyggingin ljót og rýra ástand og verðgildi hússins. Viðbyggingin sé án lögmælts byggingarleyfis og án áskilins samþykkis kæranda sem meðeiganda umrædds parhúss. Samþykki kæranda hafi verið skilyrði fyrir framkvæmdum, skv. 30. gr., sbr. 6. tl. A- liðar 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Hvergi sé í lögum tekið fram að líta skuli til notagildis eða hagsmuna þess sem vilji framkvæma byggingarleyfisskylda framkvæmd sem háð sé samþykki meðeigenda.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi hvorki verið gætt andmælaréttar skv. 13. gr. né rannsóknarreglu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að kynna sér, eða tjá sig um, þau gögn sem stafað hafi frá framkvæmdaaðila. Af þessum sökum skorti einnig á að málið hafi verið kannað til hlítar áður en umdeild ákvörðun var tekin. Um verulegan annmarka sé að ræða og ákvörðun byggingarfulltrúa af þeim sökum ógildanleg.

Málsrök Sveitarfélagins Árborgar: Bæjaryfirvöld krefjast þess að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.

Ekki sé um að ræða brot á 6. gr. laga um húsafriðun. Sú skylda hvíli á byggingarfulltrúa samkvæmt greindu lagaákvæði að fylgjast með því að eigendur húsa leiti eftir áliti húsafriðunarnefndar. Hafi hann með bréfi sínu til nefndarinnar uppfyllt framangreinda lagaskyldu og hafi Húsafriðunarnefnd haft til skoðunar teikningar af umræddri viðbyggingu við gerð umsagnar sinnar.

Ekki hafi þótt tilefni til að beita heimildarákvæði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til að þvinga fram niðurrif umdeildrar viðbyggingar, að teknu tilliti til aðstæðna og meðalhófs. Hafi ekkert komið fram í málatilbúnaði kæranda á fyrri stigum málsins eða þá fyrir úrskurðarnefndinni sem breyti þeirri niðurstöðu. Ítrekað sé að nefnt lagaákvæði sé heimildarákvæði og að það mat sem liggi til grundvallar beitingu þess liggi alltaf hjá byggingaryfirvöldum. Við vettvangsskoðun hafi byggingarfulltrúi hvorki talið augljósa vankanta á byggingunni né að hún væri hættuleg á nokkurn hátt.

Kærandi hafi gert grein fyrir röksemdum sínum með ódagsettri greinargerð til byggingarfulltrúa, á fundi er haldinn hafi verið 5. apríl 2011, og í kröfugerð sinni, dagsettri 26. apríl 2012. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga frá aðilum hafi byggingarfulltrúi tekið ákvörðun sína. Ekki hafi verið talin þörf á frekari upplýsingum eða andmælum frá kæranda enda hafi skýrt legið fyrir í málinu hver afstaða hans væri. Hann hafi notið lögfræðiaðstoðar í málinu og ítrekað komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Sjónarmið málsaðila hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hafi verið færð fram rök fyrir því að ágreiningur hafi verið með aðilum um málsatvik. Andmælareglu og rannsóknarreglu hafi því verið gætt við meðferð málsins.

Málsrök eigenda Strandgötu 8A: Eigendur Strandgötu 8A taka fram að gerðar hafi verið margvíslegar breytingar á húsinu frá því að það var reist, m.a. hafi viðbygging við vesturenda þess verið stækkuð töluvert og útliti hennar breytt. Við norðurhlið austurenda hafi viðbygging verið rifin og endurbyggð á árunum 2010-2012 í svipaðri mynd og áður hafi verið nema að hin nýja sé eilítið stærri. Hin umdeilda viðbygging sé nær sínum uppruna en viðbygging við vesturenda hússins.

Eigendur Strandgötu 8A hafi mikla hagsmuni af því að viðbyggingin standi en hún gjörbreyti aðgengi að kjallara hússins og bæti notagildi þess til muna. Þá fyrirbyggi hún að sjór flæði inn í kjallara en slíkt hafi gerst árið 1990 í miklu flóði. Þá sé bent á að þeir hafi ekki fyrirfram gefið munnlegt eða skriflegt leyfi fyrir framkvæmdum sem kærandi hafi staðið að í eignarhluta sínum í húsinu. 

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í kröfu kæranda gagnvart sveitarfélaginu felst að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til að 5,94 m2 viðbygging við austanverða framhlið parhússins að Strandgötu 8A verði fjarlægð. Fyrir liggur að viðbyggingin var reist án byggingarleyfis og ekki verður séð að slíkt leyfi hafi síðar verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda þar sem samþykki kæranda fyrir viðbyggingunni, sem eiganda vesturhluta parhússins, hefur ekki fengist.

Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.  Umrætt ákvæði gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar á þvingunarúrræði enda er einstaklingum tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. 

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að hagsmunir eigenda Strandgötu 8A væru ríkari en hagsmunir kæranda til að fá bygginguna fjarlægða í ljósi röksemda beggja aðila og að ekki yrði séð að viðbyggingin raskaði hagsmunum kæranda. Einnig var skírskotað til þess að ekki stafaði hætta af viðbyggingunni. Var matskennd ákvörðun byggingarfulltrúa um að neyta ekki heimildar mannvirkjalaga því studd viðhlítandi rökum.
 
Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 um að synja erindi kæranda um að byggingarfulltrúi beiti úrræðum til að viðbygging við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu á Stokkseyri verði fjarlægð.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                             Þorsteinn Þorsteinsson