Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2012 Steinhella Hafnarfirði

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, er fól í sér stækkun lóðar og byggingarreits að Steinhellu 10, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2012, er barst nefndinni 6. nóvember s.á., kæra þrír eigendur fasteignarinnar að Steinhellu 14, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, fyrir lóðina nr. 10 við Steinhellu. Tók ákvörðunin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. október 2012. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2012, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar að Steinhellu 12, Hafnarfirði, sömu deiliskipulagsákvörðun með kröfu um ógildingu hennar.  Verður það kærumál, sem er nr. 120/2012, sameinað máli þessu enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Hafnarfjarðarbæ í nóvember 2012.

Málavextir: Deiliskipulag Hellnahrauns, 1. áfangi, tekur m.a. til lóðarinnar nr. 10 við Steinhellu. Liggur lóðin austan, og samhliða að nokkru, við lóðir nr. 12 og 14 við Steinhellu og er aðkoma að lóðinni milli þeirra lóða. Í maí 2012 var í kjölfar beiðni um stækkun lóðarinnar Steinhellu 10 samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar að heimila Advania hf. að vinna breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið bæjarins. Hinn 26. júní s.á. var á fundi skipulags- og byggingarráðs lögð fram frumtillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar. Samþykkti ráðið að lokið yrði við gerð deiliskipulags og það auglýst til kynningar. Var fundargerð skipulags- og byggingarráðs kynnt á fundi bæjarstjórnar 27. s.m. Fól auglýst tillaga í sér að lóðin að Steinhellu 10 yrði stækkuð, sem og byggingarreitur lóðarinnar, og heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,5 í 0,6. Gert var ráð fyrir kvöð um aðkomu að lóðinni milli lóða nr. 12 og 14 við Steinhellu héldist óbreytt.

Andmæli bárust gegn tillögunni á kynningartíma. Tók skipulags- og byggingarsvið athugasemdirnar til skoðunar og lagði til að byggingarreitur yrði styttur um 12,5 m á vesturhlið og að kvöð um aðkomu yrði lagfærð til samræmis við ákvæði lóðarleigusamnings. Hinn 4. september 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs. Var fært til bókar að tekið væri undir svör skipulags- og byggingarsviðs við fram komnum athugasemdum, deiliskipulagið væri samþykkt og að afgreiðslu þess yrði lokið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Enn fremur var lögð fram tillaga til bæjarstjórnar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og að afgreiðslu yrði lokið í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði. Samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 12. september 2012, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur að Steinhellu 14 benda á að lóð þeirra sé í útjaðri svæðisins. Gert hafi verið ráð fyrir því í deiliskipulagi að um „andlitslóð“ væri að ræða með þeim sýnileika sem því fylgi. Blasi húsið að Steinhellu 14 við á meira en 1½ km kafla áður en ekið sé fram hjá húsinu um Reykjanesbraut til suðurs frá Hafnarfirði. Staðsetning og sýnileiki Steinhellu 14, gagnvart bæði Reykjanesbraut og Krísuvíkurvegi, skipti sköpum og sé afar mikils virði sem tapist við breytinguna. Samþykkt breyting feli í sér ófyrirséða og afar mikla stækkun á húsi Steinhellu 10. Með henni muni umhverfi lóðar og ásýnd Steinhellu 14 gerbreytast. Lóðin verði ekki lengur sýnileg heldur hverfi á bak við heimilaða nýbyggingu. Er kærendur hafi fest kaup á fasteign sinni hafi verið gert ráð fyrir að húsið og nágrenni þess yrði óbreytt en markmið með fjárfestingunni hafi verið að ná til viðskiptavina. Kippi breytingin fótum undan þeim fyrirætlunum sem til grundvallar hafi legið við kaupin. Séu áætlanir og fjárfestingar kærenda settar í uppnám og erfitt sé að hætta við á þessum tímapunkti.

Aðkoma að húsinu að Steinhellu 10 sé í miklum ólestri. Muni stækkun hússins auka þann vanda verulega. Aka þurfi milli hússins og húss kærenda til að komast að aðalinngangi og vörumóttöku Steinhellu 10. Samkvæmt samþykktri teikningu fyrir Steinhellu 14 séu bílastæði hússins þannig staðsett að þau hindri þessa aðkomu og ógerlegt sé að komast að Steinhellu 10 þegar lagt sé í bílastæðin. Frá bílastæðunum að girðingu Steinhellu 10 séu þá eftir 3 m fyrir alla umferð, þ. á m. flutningabíla með 40 feta gáma. Sé aðkoma og aðgangur að Steinhellu 14 verulega hindraður af núverandi rétti til aðkomu að Steinhellu 10. Loks sé bent á að útsýni til norðausturs muni skerðast að fullu. Leiði það til verðrýrnunar fasteignar kærenda og dragi úr möguleikum á sölu og nýtingu eignarhluta hússins, svo sem til útleigu.

Kærendur að Steinhellu 12 telja að við breytinguna skerðist eignarréttindi þeirra verulega, en þau séu varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi um fasteignina Steinhellu 12 hvíli kvöð á lóðinni um gegnumakstur um norðurhluta hennar. Aðrar kvaðir en þær sem fram komi í lóðarleigusamningi hvíli ekki á eigninni. Í tillögu um breytt deiliskipulag sé þetta nefnt kvöð um aðkomu. Muni aukið byggingarmagn á lóð Steinhellu 10 þýða aukna bílaumferð og aukið slit á lóð kærenda. Í ljósi þeirrar kvaðar er hvíli á eigninni hafi það verulega þýðingu fyrir kærendur að verið sé að tvöfalda byggingarmagn á umræddri lóð. Hafnarfjarðarbær geti ekki einhliða breytt inntaki þinglýstra kvaða til hagsbóta fyrir eigendur Steinhellu 10 en á kostnað kærenda. Samþykkis kærenda sé þörf sé heimiluð aukin umferð á lóð þeirra. Vísi kærendur til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar nr. 118/2009 í því sambandi. Hafi bæjaryfirvöld við meðferð málsins ekki svarað þessari megin athugasemd kærenda.

Kvöð um gegnumakstur feli í sér að heimilt sé að aka gegnum lóðina en með kvöð um aðkomu sé umfang þeirrar kvaðar aukið. Mikill munur sé hér á. Kvöð um gegnumakstur sé ekki beint sérstaklega til lóðar nr. 10 við Steinhellu. Með kvöð um aðkomu að lóðinni, í gegnum lóðir kærenda nr. 12 og 14, sé með beinum hætti verið að skerða réttindi þeirra til hagsbóta fyrir lóðarhafa Steinhellu 10. Sé verið að festa greinda aðkomu í sessi um ókomna tíð.

Jafnframt hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Unnt væri að hafa aðkomu að lóðinni að Steinhellu 10 um Krísuvíkurveg og væri þá ekki með sama hætti gengið á eignarrétt kærenda.

Þá sé bent á að þrátt fyrir að fáir starfi í húsinu að Steinhellu 10 í dag veiti það enga tryggingu fyrir því að umferð um lóð kærenda, og þar með umfang kvaðarinnar, verði til framtíðar það sama. Engin trygging sé fyrir því að ætíð verði gagnaver í húsinu heldur gæti þar komið starfsemi með fjölda starfsmanna. Séu sjónarmið þau sem Hafnarfjarðarbær byggi á ólögmæt og ómálefnaleg og til þess fallin að valda kærendum tjóni. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í máli nr. 41/2010, en það mál sé algjörlega sambærilegt máli kærenda. Verið sé að leggja nýja og umfangsmeiri kvöð á lóð kærenda án þess að fyrir liggi samningur eða eignarnám og engu svarað um þátttöku eiganda Steinhellu 10 í viðhaldi lóðarhlutanna sem kvöðin liggi um.

Samkvæmt gildandi skipulagi og breytingartillögu sé gert ráð fyrir aðkomu að lóðinni Steinhellu 10 við enda ræmu á milli lóða nr. 12 og 14. Aðgengið sé þannig í dag að lóðarhafi hafi girt af lóð nr. 10. Hlið inn á þá lóð sé 10 m norðar inn á lóð nr. 14 og sé alltaf læst. Af þeim sökum keyri starfsmenn og gestir Steinhellu 10 ekki um hliðið heldur sé ekið eftir endilangri lóð nr. 14 inn á ómalbikað bílastæði við norðurenda lóðarinnar nr. 10.

Loks sé bent á að samkvæmt lóðarleigusamningi sé umrædd lóð á svæði sem ætlað sé undir léttan iðnað og atvinnustarfsemi sem ekki hafi mengandi áhrif á umhverfi sitt. Ekki verði séð hvernig umrædd breyting samræmist þessu. Gagnaver sem starfrækt sé að Steinhellu 10 hafi nú þegar í för með sér verulega hljóðmengun sem sé langt yfir lögbundnum mörkum. Stafi sú hljóðmengun frá loftræstikerfi hússins og að viðbúið sé að hljóðmengun muni a.m.k. tvöfaldast við stækkun þess.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær skírskotar til þess að komið hafi verið til móts við athugasemdir með því að minnka byggingarreit og lagfæra kvöð um gegnumakstur í samræmi við þinglýst skjöl.

Bent sé á, vegna málsraka eigenda Steinhellu 14, að sýnileiki Steinhellu 14 verði óbreyttur úr norðri að Reykjanesbrautinni. Sýnileiki frá austri muni skerðast. Á núgildandi deiliskipulagsuppdrætti nái byggingarreitur Steinhellu 10 talsvert lengra til norðurs en núverandi bygging. Stækkun byggingarreits sé 24-26% á skipulagstillögu.

Lóðir nr. 10, 12 og 14 við Steinhellu hafi sameiginlega aðkomu. Kvöð sé um gegnumakstur á lóð nr. 14 samkvæmt lóðarleigusamningi. Skipulag bílastæða innan lóðar nr. 14 skuli leyst óháð aðliggjandi lóðum og samkvæmt afstöðumynd sé gert ráð fyrir bílastæðum umhverfis húsið. Við austurhlið húss séu 5,0 m löng bílastæði og 11,5 m í lóðamörk. Eigi því að vera nægilegt pláss til að bakka úr bílastæði innan lóðar. Bílastæði við Steinhellu 10 skuli vera innan lóðarinnar og aðkoma að henni með óbreyttri kvöð gegnum lóðir nr. 12 og 14.

Gagnaver falli undir skilgreinda landnotkun svæðisins. Ekki hafi verið lögð áhersla á gott útsýni á iðnaðarsvæðum. Útlit Steinhellu 14 leggi ekki áherslu á útsýni í norður eða norðaustur. Þar séu innkeyrsludyr á jarðhæð og litlir gluggar á efri hæð og gafli. Hönnun byggingar skuli uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist, sbr. gr. 11.1.3. Hávaði vegna t.d. nauðsynlegrar kælingar á tölvubúnaði muni því ekki fara yfir leyfileg mörk. Loks sé skírskotað til þess að tenging frá Krísuvíkurvegi inn á lóð Steinhellu 10 sé ekki æskileg þar sem vegurinn sé stofnbraut og beinar tengingar við hann ekki leyfilegar.

———–

Lóðarhafa Steinhellu 10 var veitt færi á að tjá sig um úrlausnarefni máls þessa en sjónarmið hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar Steinhellu 10 fer úr 0,5 í 0,6. Lóðin stækkar um 2.107 m², þ.e. úr 6.319 m² í 8.426 m². Við þessar breytingar eykst heimilað byggingarmagn á lóðinni úr 3.160 m² í 5.056 m², eða um 1.896 m². Byggingarreitur lóðarinnar stækkar um 1.090 m², þ.e. úr 3.446 m² í 4.536 m², en byggingarreitur sá er fyrir var á Steinhellu 10 er ekki fullnýttur í dag. Aðkoma að lóðinni er um lóðamörk Steinhellu 12 og 14 í skjóli umferðarkvaðar sem stoð á í lóðarleigusamningum fyrir nefndar lóðir frá árinu 2006. Þessi umferðarkvöð var sýnd á skipulagsuppdrætti fyrir umdeilda skipulagsbreytingu.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og heyrir það undir sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulag endanlega, sbr. 40. til 42. gr. laganna, og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Fallast má á að umdeild skipulagsbreyting geti haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kærendum og þá einkum gagnvart kærendum að Steinhellu 14 vegna stækkunar byggingarreits á móts við lóð þeirra. Að fullnýttum byggingarreit mun sú stækkun takmarka sýn úr norðaustri að Steinhellu 14 frá umferðaræðum umfram það sem verið hefði að óbreyttu skipulagi. Hins ber þó að gæta að full nýting byggingarreits að óbreyttu skipulagi myndi vega þar þyngra en sú stækkun sem hin kærða ákvörðun heimilar. Auknu byggingarmagni að Steinhellu 10 fylgir væntanlega aukin umferð en með hliðsjón af gildandi landnotkun svæðisins verður ekki talið að sú aukning verði stórfelld. Þá verður ekki af gögnum málsins ráðið að staðsetning aðkomu að Steinhellu 10 hafi verið breytt með hinni umdeildu skipulagsbreytingu og fyrrgreind umferðarkvöð því óbreytt hvað það varðar. Aukning nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Steinhellu 10 í 0,6 er töluverð en þykir þó ekki óhófleg með hliðsjón af því sem algengt er á atvinnulóðum. Meðal annars eru dæmi um slíkt nýtingarhlutfall fyrir aðrar lóðir á skipulagssvæðinu.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki raska lögvörðum hagsmunum kærenda með þeim hætti að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verði hins vegar sýnt fram á að umdeild skipulagsákvörðun valdi verðrýrnun á eign kærenda kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, fyrir lóðina nr. 10 við Steinhellu í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

12/2013 Skógarsel

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2013, kæra á ákvörðunum Reykjavíkurborgar um álagningu endurvinnslustöðvagjalds árin 2012 og 2013 vegna Skógarsels 25 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir P, Skógarseli 25, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja á gjald vegna endurvinnslustöðva vegna fasteignarinnar Skógarsels 25, en gjaldið var 5.265 krónur árið 2012 og 6.300 krónur árið 2013. Er þess krafist að Reykjavíkurborg verði gert að endurgreiða gjaldið.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg 12. mars 2013.

Málavextir: Álagningarseðill fasteignagjalda fyrir árið 2012 er dagsettur 23. janúar 2012 og álagningarseðill ársins 2013 hinn 18. janúar 2013. Kæranda var gert að greiða 16.300 króna gjald vegna einnar svartrar sorptunnu árið 2012 og 5.265 króna gjald vegna endurvinnslustöðva. Gjald vegna grárrar sorptunnu árið 2013 var 18.600 krónur og gjald vegna endurvinnslustöðva var 6.300 krónur. Á bakhlið álagningarseðlanna er vísað til þess að gjald vegna endurvinnslustöðva sé lagt á samkvæmt 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að í 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé ekki að finna stafkrók um gjaldtöku vegna endurvinnslustöðva, en Reykjavíkurborg vísi til þessa ákvæðis um innheimtu gjaldsins. Greinin fjalli ítarlega um heimildir til gjaldtöku vegna sorphirðu og förgunar úrgangs og miða skuli gjaldið við magn, tíðni losunar, og aðra þætti sem hafi áhrif á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Einnig sé heimilt að miða gjaldið við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Reykjavíkurborg leggi sorphirðugjald á húseign kæranda í samræmi við lögin en álagning aukagjaldsins, gjald vegna endurvinnslustöðva, sé stjórnvaldsákvörðun sem ekki eigi sér stoð í lögum.

Endurvinnslustöðvar taki á móti úrgangi frá þeim sem komi með sorp til stöðvanna og sé þessi þjónusta alls ekki notuð af öllum heimilum. Reykjavíkurborg hafi í tilviki kæranda miðað við fjölda sorpíláta og tíðni losunar. Hann hafi greitt fyrir gráa sorptunnu, og geti borgin því ekki lagt á annað gjald. Bæði texti nefndrar lagagreinar og andi laganna sýni að ætlast sé til að gjaldið miðist við þá þjónustu sem viðkomandi aðili fái og heimili lögin ekki að annað gjald sé lagt á allar húseignir til að standa undir kostnaði við endurvinnslustöðvarnar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs geymi skýra lagaheimild til hinnar umdeildu gjaldtöku. Í fyrri málslið 2. mgr. 11. gr. laganna segi að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs, þ. á m. megi innheimta gjald vegna viðtöku hans. Í lokamálslið ákvæðisins segi að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Sveitarfélagi sé þannig annars vegar heimilt að miða umrætt gjald við fjölda sorpíláta eða þjónustustig og hins vegar fjölda sorpíláta og þjónustustig.

Sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þ. á m. Reykjavíkurborg, hafi stofnað Sorpu bs. á grundvelli heimildar í IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um samvinnu sveitarfélaga. Tilgangur félagsins sé að annast meðhöndlun úrgangs fyrir sveitarfélögin, sbr. lög nr. 55/2003. Sorpa bs. sinni sínu hlutverki m.a. með því að reka sex endurvinnslustöðvar og u.þ.b. 80 grenndarstöðvar þar sem úrgangi frá íbúum höfuðborgarsvæðisins sé veitt viðtaka. Reykjavíkurborg fjármagni kostnaðarhlutdeild sína í rekstri framangreindra stöðva með álagningu hins umdeilda gjalds, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1280/2012 fyrir sorphirðu í Reykjavíkurborg. Endurvinnslustöðvarnar þjónusti alla íbúa höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að veita úrgangi frá þeim viðtöku. Framangreind þjónusta standi öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða án endurgjalds hverju sinni, þ.e. við hverja viðtöku. Aftur á móti innheimti Reykjavíkurborg fast gjald af hverri fasteignareiningu sem standi þjónustan til boða, óháð því hvort fasteignareiningin nýti þjónustuna.

Þess megi geta að sorphirðugjaldi í Garðabæ og Hafnarfirði sé m.a. ætlað að standa undir kostnaði við rekstur endurvinnslustöðvanna, sbr. 2. mgr. 2. gr. gjaldskrár um sorphirðu í Garðabæ og 3. mgr. 1. gr. gjaldskrár um sorphirðu í Hafnarfirði.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning gjalds vegna endurvinnslustöðva fyrir árin 2012 og 2013 og að það verði endurgreitt. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem kæra á endurvinnslustöðvagjaldi fyrir árið 2012 barst nefndinni rúmu ári eftir að ákvörðun um gjaldið var tilkynnt kæranda verður kæru vegna ársins 2012 vísað frá, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í málinu er deilt um álagningu gjalds vegna endurvinnslustöðva. Endurvinnsla, sem greiða á fyrir með hinu umdeilda gjaldi, telst til endurnýtingar, sem aftur er hluti af meðhöndlun úrgangs, sbr. skilgreiningar 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gilda því ákvæði laganna og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs settri samkvæmt þeim lögum.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi og ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs. Þá ber henni að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Á grundvelli nefndrar lagagreinar er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003. Í slíkum samþykktum er meðal annars heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang. Reykjavíkurborg setti, með vísan til þessa, samþykkt nr. 410/2011 um meðhöndlun úrgangs í borginni. Í samþykktinni sagði að Sorpa bs. annaðist rekstur endurvinnslustöðva í borginni til móttöku á flokkuðum úrgangi, sbr. 4. mgr. 1. gr. og 6. gr. Úrgang skyldi flokka og endurnota eða endurnýta eins og kostur væri, sbr. 1. mgr. 3. gr., en tiltekin efni, svo sem garðaúrgang, jarðefni, spilliefni, timbur og brotamálm, væri óheimilt að setja í sorpílát og poka fyrir blandaðan heimilisúrgang og skylt að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu bs. eða til annars aðila sem hefði heimild til að taka við honum.
 
Sveitarfélög geta innheimt gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 737/2003, en til meðhöndlunar úrgangs telst meðal annars endurnýting og þar með endurvinnsla, sbr. 3. gr. laganna. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Í samræmi við þetta var kveðið á um það í samþykkt nr. 410/2011 að innheimt skyldi gjald fyrir rekstur endurvinnslustöðva og að gjaldið skyldi lagt á allar íbúðir í Reykjavík, sbr. 1. og 6. mgr. 7. gr. samþykktarinnar. Þá hefur Reykjavík með vísan til 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998, sett gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík nr. 1280/2012, sem birt var 11. janúar 2013. Þar kemur fram að gjald vegna reksturs endurvinnslustöðva sé 6.300 krónur á íbúð og að því sé ætlað að standa undir kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstri endurvinnslustöðva Sorpu bs. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var heildarkostnaður Reykjavíkurborgar á árinu 2012 vegna endurvinnslu- og grenndarstöðva 245.868.982 krónur og álögð gjöld vegna endurvinnslu sama ár voru 256.333.823 krónur, að teknu tilliti til tæplega 10.000.000 króna endurgreiðslu frá árinu 2011. Á árinu 2013 nam kostnaðurinn 307.480.126 krónum og álögð gjöld námu 307.565.615 krónum og álagningin samkvæmt því í samræmi við skilyrði laganna.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Sveitarfélög hafa samkvæmt því sem áður er rakið heimild til að ákveða að úrgangur sem til fellur skuli endurnýttur og komið í endurvinnslu, svo sem Reykjavíkurborg hefur gert meðal annars með því að ákveða að Sorpa bs. reki endurvinnslu- og grenndarstöðvar, og að tiltekinn úrgangur megi ekki fara í venjulegar sorptunnur. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og er raunar skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 1. og 6. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald fyrir endurvinnslustöðvar yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans. Í samræmi við þetta verður kröfu kæranda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um gjald vegna endurvinnslustöðva, sem lagt var á hann vegna fasteignarinnar Skógarsels 25 í Reykjavík fyrir árið 2013.

Kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning vegna ársins 2012 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

59/2012 Efnaferli Grindavík

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, um að vísa frá umsókn Efnaferlis ehf. um starfsleyfi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir Efnaferli ehf.,  frávísun Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, á umsókn um starfsleyfi vegna tilraunastöðvar í eimingartækni, aðgreiningu og endurheimt léttsjóðandi efnablanda.

Gögn frá Umhverfisstofnun bárust úrskurðarnefndinni 22. ágúst 2012.

Málavextir: Kærandi sótti um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja með bréfi, dagsettu 18. júní 2010, og var umsóknin framsend Umhverfisstofnun með bréfi, dagsettu 6. júlí s.á. Í umsókninni segir að ætlunin sé að þróa aðferðir til að endurvinna hráefni úr afgangsafurðum sem falli til í iðnaði. Starfsstöðin eigi að vera til húsa að Staðarsundi 7 í Grindavík. Umhverfisstofnun vísaði frá umsókn kæranda hinn 22. maí 2012 þar sem stofnunin taldi kæranda ekki hafa lagt fram tilskilin gögn.

Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda, með tölvupósti 8. september 2010, að skila þyrfti afriti af deiliskipulagi með starfsleyfisumsókn, þá þyrfti að skila vátryggingu vegna bráðamengunartjóns og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar. Óskaði stofnunin enn fremur eftir upplýsingum um efnin sem vinna átti, nákvæmari útlistun á því hvernig tækjum og búnaði yrði komið fyrir, upplýsingum sem vörðuðu uppgufun spilliefna og um það hvert frárennsli yrði leitt. Kærandi sendi Umhverfisstofnun viðbótargögn sem bárust stofnuninni 10. september, 14. október og 26. nóvember 2010. Með bréfi, dagsettu 9. ágúst 2010, óskaði hann eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort starfsemin væri háð mati á umhverfisáhrifum. Svar Skipulagsstofnunar, þess efnis að ekki þyrfti að meta umhverfisáhrif, barst 8. október. Með tölvupósti 18. nóvember 2010 óskaði Umhverfisstofnun eftir því að kærandi sendi stofnuninni byggingarleyfi, sem ætti að koma í stað afrits af staðfestu deiliskipulagi, en deiliskipulag var ekki til fyrir svæðið.

Drög að starfsleyfi voru kynnt forsvarsmönnum kæranda 11. desember 2010 og send umsagnaraðilum, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Slökkviliði Grindavíkur, Grindavíkurbæ og Skipulagsstofnun, 6. janúar 2011. Umsagnir bárust Umhverfisstofnun í janúar, en slökkviliðið fór fram á að lögð yrði fram brunahönnun og að fram færi áhættugreining. Var bréf þess efnis dagsett 27. janúar 2011. Með bréfi, dagsettu 28. desember 2010, veitti umhverfisráðuneytið kæranda undanþágu frá starfsleyfi, sem gilda skyldi til 1. júlí 2011.

Kærandi sendi Umhverfisstofnun umbeðna viðbragðsáætlun 27. janúar 2011. Hinn 22. febrúar s.á. barst svar frá Umhverfisstofnun þess efnis að í áætlunina vantaði áhættumatið sem viðbragðsáætlunin ætti að byggja á. Þá þyrfti að skila vátryggingu. Kærandi sendi áhættumat ásamt staðfestingu á tryggingu daginn eftir, hinn 23. s.m. Stofnunin tilkynnti með tölvupósti 1. mars að áhættumatið sem sent var hefði ekki verið unnið eftir réttum lögum og því þyrfti að endurvinna það. Kærandi sendi Umhverfisstofnun uppfærða áhættugreiningu 7. mars. Stofnunin tilkynnti kæranda með tölvupósti í apríl og með bréfi, dagsettu 16. maí 2011, að slökkviliðið krefðist þess að lögð yrði fram brunahönnun og áhættugreining. Afstaða slökkviliðsins barst Umhverfisstofnun 6. júlí s.á. og byggði hún á skýrslu frá kæranda frá deginum áður. Kæranda var með bréfi umhverfisráðuneytisins, dagsettu 13. júlí 2011, veitt framlengd undanþága frá starfsleyfi til 1. mars 2012.

Umhverfisstofnun sendi kæranda ný drög að starfsleyfi 22. ágúst 2011. Kærandi lagði hinn 24. s.m. til að drögunum yrði breytt á þann veg að heimilað yrði að geyma og meðhöndla spilliefni utandyra. Í svari stofnunarinnar 31. s.m. kom fram að sækja þyrfti um heimild til að meðhöndla spilliefni utandyra. Með tölvupósti 1. september s.á. tilkynnti kærandi að hann myndi ekki fara fram á útigeymslu, en með bréfi, dagsettu 29. s.m., sótti hann um heimild til geymslu hrávöru og afurða á útisvæði. Í tölvupósti frá Umhverfisstofnun 6. október 2011 kom fram að framkvæmdin væri byggingarleyfisskyld og því þyrfti byggingarleyfið að liggja fyrir áður en breytt tillaga væri send umsagnaraðilum. Að auki þyrfti að senda Skipulagsstofnun einfalda tilkynningu og stofnunin myndi þá meta hvort tilkynna bæri starfsemina aftur vegna hugsanlegs mats á umhverfisáhrifum. Kærandi þyrfti einnig að endurskoða áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar þannig að tekið yrði tillit til útigeymslunnar í þeim. Var þetta ítrekað í bréfi stofnunarinnar hinn 10. nóvember 2011. Kærandi lýsti því í bréfum að hann væri ósáttur við fyrirmælin. Óskaði hann eftir að starfsleyfisgerð yrði fram undið.

Með bréfi, dagsettu 13. apríl 2012, voru kröfur Umhverfisstofnunar ítrekaðar og jafnframt tilkynnt að stofnunin áformaði að vísa umsókn kæranda frá, með vísan til 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Fékk kærandi frest til 4. maí 2012 til að koma á framfæri andmælum og frekari gögnum. Vakin var athygli á því að ef kærandi kysi að draga umsókn sína um breytingu á starfsleyfi til baka myndi stofnunin halda vinnslu málsins áfram á grundvelli fyrri umsóknar. Var umsókninni vísað frá með bréfi Umhverfisstofnunar 22. s.m., svo sem fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur Umhverfisstofnun ekki hafa gefið skýrar leiðbeiningar um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla svo að starfsleyfi yrði gefið út. Stofnunin hafi notað ómerkileg tilefni til að stöðva framvindu málsins. Hún hafi endurtekið breytt skilyrðum og snúið út úr málsatvikum. Slíkt vinnulag sé óásættanlegt og hafi augljóslega þann tilgang að torvelda framvindu málsins og setja tilvist starfseminnar, sem í hlut eigi, í uppnám. Kærandi vísi um þetta til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Í starfsleyfistillögunni, dagsettri 22. ágúst 2011, hafi Umhverfisstofnun bætt við atriðum sem ekki hafi verið í samræmi við umsókn kæranda. Eins hafi magn efnis sem geyma mætti verið minnkað frá fyrri tillögu. Kærandi hafi gert athugasemd við starfsleyfisdrögin og beðið um að bætt yrði við ákvæði sem heimilaði að geyma hrávöru og afurðir á útisvæði. Umhverfisstofnun hafi talið að þetta kallaði á nýtt stjórnsýslulegt ferli. Einnig hafi stofnunin krafist þess að byggingarleyfi fyrir útigeymslu yrði gefið út. Kærandi hafi mótmælt þessu. Fyrirtækið hafi ekki verið búið að taka endanlega ákvörðun um útiaðstöðu, en slíka ákvörðun sé ekki hægt að taka nema heimild sé fyrir aðstöðunni í starfsleyfi. Ekki hafi verið óskað eftir heimild til að framleiða meira eða auka umfang starfseminnar, heldur aðeins óskað eftir möguleika á að útbúa aðstöðuna. Ef það væri almenn regla að leggja þyrfti fram byggingarleyfi til að fá útgefið starfsleyfi myndu engin fyrirtæki geta komið sér upp starfsemi af neinu tagi. Starfsleyfið sé forsenda framkvæmda.

Kærandi telji augljóst að meðalhófsregla og jafnræðisregla hafi ekki verið virtar. Þá hafi Umhverfisstofnun misbeitt valdi sínu til að tefja málið. 

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Stofnunin telur ljóst af skriflegum samskiptum aðila hvaða kröfur gerðar hafi verið af hennar hálfu og hver sé lagagrundvöllur þeirra. Hafi stofnunin árangurslaust leitast við að leiðbeina kæranda um hvaða gögn hann þyrfti að leggja fram.

Í ágúst 2011 hafi legið fyrir starfsleyfistillaga á grundvelli upphaflegrar umsóknar. Stofnunin hafi aflað umsagna, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999, og unnið úr þeim athugasemdum sem komið hafi fram í þeim. Næsta skref í vinnslu starfsleyfisins hafi verið auglýsing tillögunnar, í samræmi við 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Umhverfisstofnun hafi borist erindi frá umsækjanda 29. september 2011, þar sem farið hafi verið fram á að starfsleyfið tæki til þátta sem ekki hefði verið sótt um áður. Viðbæturnar hafi kallað á að umsækjandi legði fram frekari gögn með umsókninni og hafi Umhverfisstofnun upplýst kæranda um þetta, með tölvupósti 6. október 2011 og bréfi 10. nóvember s.á.

Umhverfisstofnun telji að málefnalegar ástæður og skýr heimild hafi verið fyrir því að óska eftir gögnum en kærandi virðist byggja á því að krafa um viðbótargögn vegna fyrirhugaðrar útigeymslu eigi sér ekki lagastoð. Í tölvupósti Umhverfisstofnunar 6. október 2011 segi í fyrsta lagi að afla þurfi staðfestingar Skipulagsstofnunar varðandi mat á umhverfisáhrifum, með vísan til 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í öðru lagi hafi stofnunin farið fram á að kærandi endurskoðaði áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar. Í þriðja lagi hafi kærandi þurft að skila byggingarleyfi vegna útigeymslunnar. Þessi krafa byggi á b-lið 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, þar sem segi að umsækjendum um starfsleyfi beri að leggja fram afrit af staðfestu deiliskipulagi þess svæðis þar sem starfsemin sé fyrirhuguð. Umhverfisstofnun hafi almennt miðað við að þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag, og fyrirhuguð starfsemi hafi ekki í för með sér framkvæmdir eða breytingu á landnotkun, sé lagt fram byggingarleyfi.

Af hálfu Umhverfisstofnunar hafi ítrekað verið bent á að ef kærandi félli frá viðbótarumsókn sinni um útigeymslu væri ekkert því til fyrirstöðu að auglýsa starfsleyfistillöguna á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kærandi hafi hins vegar kosið að gera það ekki og leggja ekki heldur fram umbeðin gögn. Í ljósi þessa hafi honum verið sent bréf, dagsett 13. apríl 2012, þar sem tilkynnt hafi verið að Umhverfisstofnun áformaði að vísa umsókn hans frá innan tiltekins frests. Hvorki hafi borist gögn né hafi kærandi haft samband við stofnunina innan frestsins. Hafi umsókninni því verið vísað frá.
_____________

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að vísa starfsleyfisumsókn kæranda frá með þeim rökum að ekki hefði verið staðið skil á gögnum, nánar tiltekið afriti af byggingarleyfi fyrir útisvæði og endurskoðuðu áhættumati og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir setur ráðherra almenn ákvæði í reglugerð og m.a. með vísan til þess hefur reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, verið sett. Þau gögn sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi, eins og við á hverju sinni, eru talin í 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Utan þess sem þar er talið þarf áætlun um viðbrögð vegna bráðamengunar, sem byggð er á áhættumati, að fylgja starfsleyfisumsókn, sbr. b-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 1077/2005. Þá er tiltekið í 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar að útgefandi skuli vísa frá umsókn um starfsleyfi skriflega telji hann upplýsingar í henni ófullnægjandi.

Atvik málsins eru ítarlega rakin í málavöxtum en drög að starfsleyfi voru kynnt kæranda 22. ágúst 2011. Kærandi sendi tillögur að breytingum á starfsleyfinu með tölvupósti 24. s.m., þar sem aðallega var lagt til að heimilað yrði að geyma og meðhöndla spilliefni utandyra, og í bréfi til Umhverfisstofnunar, dagsettu 29. s.m., óskaði kærandi eftir að starfsleyfi innihéldi heimild fyrir útisvæði til geymslu efna. Ljóst er að ef bætt yrði við útiaðstöðu myndi möguleiki myndast á að umfang rekstrarins yrði meira, staðhættir á vinnslustað breytast, og magn efna sem heimilt yrði að geyma á vinnustaðnum myndi aukast, sbr. a-, c- og d-lið 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Upplýsingar um nefnd atriði skulu samkvæmt tilvitnuðu ákvæði fylgja umsókn um starfsleyfi og verður að telja að Umhverfisstofnun hafi verið rétt að gera kröfu um að send yrði ný umsókn. Þá verður að telja eðlilegt af stofnuninni að gera kröfu um endurskoðað áhættumat og viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar, að teknu tilliti til breyttra forsenda, enda er gerð fortakslaus krafa um að þessi gögn fylgi starfsleyfisumsókn skv. b-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingarreglugerð nr. 1077/2005.

Umhverfisstofnun krafðist þess einnig, með vísan til b-liðar 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 785/1999, að byggingarleyfi yrði lagt fram, en deiliskipulag lá ekki fyrir. Í 2. mgr. 10. gr. er gert ráð fyrir að gögn fylgi umsókn eftir því sem við á hverju sinni. Í b-lið segir að deiliskipulag skuli fylgja umsókn. Verður ekki annað séð en að Umhverfisstofnun hafi metið það svo að leggja þyrfti fram deiliskipulag samkvæmt vegna umsóknarinnar, en að því slepptu skyldi farið fram á byggingarleyfi. Í deiliskipulagi eru m.a. teknar ákvarðanir um lóðir og skipulagsforsendur þær sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Að auki er skipulagstillaga kynnt fyrir íbúum og hagsmunaaðilum. Krafa um að byggingarleyfi sé lagt fram er til þess fallin að ná sama markmiði og krafa um deiliskipulag hvað varðar aðkomu sveitarfélags en sveitarfélag skoðar samræmi leyfis við skipulag svæðisins og sér, eftir atvikum, til þess að það sé kynnt, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því ekki annað séð en að málefnaleg rök og meðalhóf hafi staðið að baki því mati Umhverfisstofnunar að gera kröfu um að byggingarleyfi yrði lagt fram og tryggja með því aðkomu sveitarfélagsins.

Frávísun Umhverfisstofnunar og kröfur um framlagningu gagna vegna þeirrar viðbótar sem fólst í umsókn um starfsaðstöðu utandyra voru samkvæmt framangreindu í samræmi við nefnd laga- og reglugerðarákvæði.

Einnig er deilt um það í málinu hvort brotið hafi verið gegn leiðbeiningarreglu og hvort Umhverfisstofnun hafi tafið málið með því að kalla eftir gögnum sem ekki var þörf fyrir. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum voru fyrstu drög að starfsleyfi kynnt kæranda 11. desember 2010 og ný drög kynnt honum 22. ágúst 2011, að fengnum umsögnum umsagnaraðila. Mælt er fyrir um skyldu Umhverfisstofnunar til að leita umsagna í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Drög að starfsleyfistillögu voru send til umsagnaraðila 6. janúar 2011 og bárust umsagnir tímanlega utan þess að Slökkvilið Grindavíkur taldi að vinna þyrfti brunahönnun og áhættugreiningu. Ljóst er að öflun umsagna og kröfur slökkviliðsins höfðu áhrif á framvindu málsins og að Umhverfisstofnun hefði getað tilkynnt kæranda fyrr um það að slökkviliðið krefðist brunahönnunar og áhættugreiningar, en kæranda varð fyrst kunnugt um það í byrjun mars 2011. Hins vegar voru á sama tíma samskipti milli kæranda og Umhverfisstofnunar um önnur atriði. Þannig sendi kærandi viðbragðsáætlun 27. janúar 2011 og er því lýst að Umhverfisstofnun hafi þurft að leiðbeina kæranda um vinnslu áætlunarinnar. Sendi kærandi loks uppfærða áhættugreiningu 7. mars s.á. Þá er á það að líta að afstaða slökkviliðsins, sem byggð var á skýrslu um mat á brunavörnum sem kærandi lét vinna og dagsett var 5. júlí 2011, barst Umhverfisstofnun tafarlaust, eða 6. júlí s.á., og að í ágúst 2011 lá fyrir starfsleyfistillaga á grundvelli upprunalegrar umsóknar. Hefði næsta skref verið auglýsing tillögunnar. Eftir að kallað var eftir gögnum haustið 2011 verður að telja að viðbrögð kæranda sjálfs hafi haft áhrif á að málið dróst, enda verður umsókn um starfsleyfi, eðli málsins samkvæmt, ekki afgreidd nema umsækjandi leggi fram nauðsynleg gögn, annað hvort af sjálfsdáðum eða í kjölfar leiðbeininga yfirvalda.

Ekki er talið að vinnsla starfsleyfisins hafi tekið óeðlilega langan tíma, en umsagna var leitað og kæranda leiðbeint um þau gögn sem hann þurfti að leggja fram. Þá fékk kærandi undanþágu frá starfsleyfi, sem þýddi að hann gat hafið starfsemi. Líta verður svo á að kæranda hafi verið veittar réttar upplýsingar sem hafi verið nógu ítarlegar til að honum væri unnt að gæta hagsmuna sinna. Þannig var honum leiðbeint um þann möguleika að fá starfsleyfistillöguna auglýsta eins og hún var félli hann frá umsókn um útisvæði. Verður því ekki annað ráðið af gögnum málsins um samskipti Umhverfisstofnunar og kæranda en að honum hafi ítrekað verið veittar ítarlegar upplýsingar um framvindu mála, sem og leiðbeiningar í samræmi við ákvæði 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en kom til frávísunar af hálfu stofnunarinnar.

Í samræmi við allt ofangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Meðferð málsins hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar, dags. 22. maí 2012, um að vísa frá umsókn hans um starfsleyfi vegna tilraunastöðvar í eimingartækni, aðgreiningu og endurheimt léttsjóðandi efnablanda.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

44/2010 Lokastígsreitur

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. júní 2010, er barst nefndinni 1. júlí s.á., kærir B, Lokastíg 22, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að samþykkja deiliskipulag Lokastígsreita 2, 3 og 4. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 8. júní 2010. Gerir kærandi þá kröfu að sá hluti deiliskipulagsins er tekur til Lokastígsreits 4 verði felldur úr gildi.

Málavextir: Á árinu 2008 hófst hjá Reykjavíkurborg vinna við gerð deiliskipulags Lokastígsreita 2, 3 og 4 í kjölfar umsókna og fyrirspurna er borist höfðu m.a. um að reisa nýtt hús að Skólavörðustíg 40 og stækka húsið að Baldursgötu 39 og nýta það fyrir hótelíbúðir. Var skipulagsforsögn kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu og komu kærandi og fleiri íbúar á framfæri athugasemdum. Tillaga að deiliskipulagi umræddra skipulagsreita var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 20. maí s.á., ásamt m.a. húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur og samantekt skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 18. desember 2008. Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og bárust athugasemdir við hana á kynningartíma, þ.á m. frá kæranda.

Tók skipulagsstjóri afstöðu til fram kominna athugasemda og hinn 19. ágúst 2009 samþykkti skipulagsráð að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Lokastígsreita með þeim breytingum er fram kæmu í samantekt skipulagsstjóra, dagsettri 10. júlí s.á. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 27. ágúst 2009. Nokkur athugasemdabréf bárust á auglýsingatíma tillögunnar, þar á meðal frá kæranda, Íbúasamtökum miðborgar Reykjavíkur og hverfisráði miðborgar. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 2. desember 2009 og lá þá fyrir umsögn skipulagsstjóra, dagsett 23. nóvember s.á., um fram komnar athugasemdir. Meirihluti skipulagsráðs samþykkti tillöguna með þeim breytingum er fram komu í umsögn skipulagsstjóra. Var málinu vísað til borgarráðs er staðfesti greinda samþykkt á fundi hinn 10. desember s.á. Deiliskipulagið var síðan sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemdir við framsetningu og nokkur efnisatriði skipulagsins og gerðu skipulagsyfirvöld í kjölfar þess grein fyrir afstöðu sinni við þær athugasemdir og gerðu nokkrar lagfæringar í tilefni af þeim. Með bréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu 12. maí 2010, var ekki gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins en stofnunin tók þó m.a. fram að heimild fyrir hótelíbúðum/gistirými á íbúðarsvæði þætti orka tvímælis.

Hið kærða deiliskipulag Lokastígsreita nær til þriggja staðgreinireita. Lokastígsreitur 2 tekur til staðgreinireits 1.181.2, sem markast af Skólavörðustíg, Baldursgötu, Lokastíg og Týsgötu. Lokastígsreitur 3 nær yfir staðgreinireit 1.181.3, sem markast af Lokastíg, Baldursgötu, Þórsgötu og Njarðargötu, og Lokastígsreitur 4 tekur til staðgreinireits 1.181.4, sem markast af Skólavörðustíg, Baldursgötu, Lokastíg og Njarðargötu. Fyrir reitina gilda sameiginlegir skilmálar, svo sem um heimildir til að reisa kvisti, litlar viðbyggingar og svalir á lóðum þar sem aðstæður leyfa og sérskilmálar fyrir hverja lóð á skipulagsreitunum. Er skipulagið sagt leiða til einföldunar, samræmingar og jafnræðis á skipulagssvæðinu.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að deiliskipulagið að því er varði Lokastígsreit 4 sé haldið verulegum annmörkum.

Árið 2006 hafi verið sótt um sameiningu lóðanna Lokastígs 23 og Skólavörðustígs 42 og nýtingu húss að Lokastíg 23 undir gistiheimili. Jafnframt hafi verið óskað eftir heimild til að reisa tengibyggingu milli húsa á nefndum lóðum. Erindið hafi verið grenndarkynnt en ekki fyrir íbúum að Lokastíg 22 sem hafi átt verulegra hagsmuna að gæta. Í tillögu að deiliskipulagi reitsins sem kynnt hafi verið hagsmunaaðilum hafi umræddar lóðir verið sýndar sem sjálfstæðar lóðir og lagt til að þær yrðu sameinaðar. Gerðar hafi verið athugasemdir við tillöguna og hafi þá komið í ljós að um mistök væri að ræða þar sem lóðirnar hefðu þegar verið sameinaðar árið 2006.

Sameining umræddra lóða þjóni hvorki hverfinu í heild né nágrönnum. Hún sé ekki í samræmi við verndun byggðamynsturs sem lögð sé áhersla á í deiliskipulagstillögunni. Þá verði ekki séð að sameiningin sé forsenda fyrir þeim hótel- og verslunarrekstri sem nú sé þar stundaður. Eftir standi sá grunur að verið sé að búa í haginn fyrir hugsanlegar byggingarframkvæmdir í framtíðinni. Brotið hafi verið á íbúum við Lokastíg þegar lóðirnar hafi verið sameinaðar. Hafi skipulagsyfirvöld átt að sjá að sér og leggja til í deiliskipulagi að lóðirnar yrðu aftur tvær eins farið hafi verið fram á. Rökin fyrir því séu m.a. þau að Skólavörðustígur 42 sé á miðborgarsvæði en Lokastígur 23 á íbúðarsvæði.

Lokastígur sé falleg og friðsæl íbúðargata sem eigi betra skilið en að vera aðkomugata fyrir bílaleigu og hótelrekstur sem stundaður sé að Skólavörðustíg 42, en í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að porti við Skólavörðustíg verði lokað. Aðkoma að bílastæðum á nefndri lóð sé því aðeins frá Lokastíg og öll umferð vegna hótelsins, t.d. vegna sorphirðu og aðfanga, fari um Lokastíg. Þá sé bílum bílaleigunnar gjarnan lagt við Lokastíg en óheimilt sé, samkvæmt svari skipulagsstjóra við fram komnum athugasemdum við kynningu tillögunnar, að geyma bílana á borgarlandi eða í almenningsstæðum. Ekki sé minnst á aðkomu að bílastæðum umræddrar lóðar í deiliskipulaginu. Allt þetta staðfesti þann eðlismun sem sé á miðborgarsvæði og íbúðarsvæði og ljóst sé að sameining áðurgreindra lóða hafi verið röng.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að meðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga.

Málsástæða sú sem kærandi byggi á um sameiningu lóða sé deiliskipulagi Lokastígsreita óviðkomandi með öllu. Nefnd lóðasameining sé ekki hluti af breytingum í hinu kærða deiliskipulagi enda hafi hún verið samþykkt í skipulagsráði sem og hjá byggingarfulltrúa á árinu 2006 að undangenginni grenndarkynningu. Byggingarleyfið hafi ekki verið kært á sínum tíma, hvorki af aðilum sem hafi verið kunnugt um málið þegar það hafi verið samþykkt né af hálfu kæranda, sem hafi upplýst að honum hafi verið kunnugt um þau atvik er hann byggi málsástæður sína á þegar á árinu 2008 þegar vinna við deiliskipulagið hafi farið fram.

Verði að líta svo á að frestir til að skjóta samþykkt skipulagsyfirvalda til úrskurðarnefndarinnar hafi byrjað að líða þegar kæranda hafi orðið kunnugt um samþykktina og séu þeir því löngu liðnir. Geti úrskurðarnefndin nú ekki tekið afstöðu til þess hvort réttilega hafi verið staðið að sameiningu lóðanna og byggt úrskurð á því í máli þessu. Telji nefndin að hún geti fjallað um sameiningu lóðanna sé vísað til samantektar skipulagsstjóra, dagsettri 9. júní 2006, þar sem athugasemdum sem bárust við grenndarkynningu hafi verið svarað.

Andsvör kæranda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærandi bendir á að það hafi ekki verið fyrr en með svarbréfi skipulagsstjóra, dagsettu 10. júlí 2009, að hann hafi verið upplýstur um sameiningu lóðanna. Þá vísi kærandi til þess að hann hafi í september 2005 sent fyrirspurn til skipulagsyfirvalda vegna framkvæmda á lóðinni nr. 23 við Lokastíg en hafi þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir aldrei fengið efnisleg svör.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var samþykkt á árinu 2006 umsókn um sameiningu lóðanna að Skólavörðustíg 42 og Lokastíg 23, ásamt því að innrétta gistiheimili í húsinu að Lokastíg og nýta bílskúr á lóðinni sem lagerhúsnæði fyrir verslun. Þá var heimiluð gerð tengibyggingar milli húsa á umræddum lóðum.

Kærandi byggir málatilbúnað sinn einkum á því að sameining lóðanna nr. 42 við Skólavörðustíg og 23 við Lokastíg hafi ekki hlotið þá málsmeðferð sem lög áskilji. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er við eiga í máli þessu, er kveðið á um eins mánaðar kærufrest til úrskurðarnefndarinnar frá því að kæranda var eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra á. Koma fyrrgreindar breytingar frá árinu 2006 því ekki til endurskoðunar í máli þessu.

Forsögn og tillaga að hinu kærða deiliskipulagi Lokastígasreita voru kynntar hagsmunaaðilum á skipulagssvæðinu og tekin afstaða til ábendinga og athugasemda er fram komu. Deiliskipulagstillagan var síðan auglýst í samræmi við þágildandi 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og gerð húsakönnun samhliða deiliskipulagsgerðinni. Fram komnum athugasemdum var svarað í umsögn skipulagsstjóra, þar sem jafnframt var lagt til að gerðar yrðu tilteknar breytingar á tillögunni. Samþykkti skipulagsráð tillöguna í samræmi við tillögu skipulagsstjóra og vísaði málinu til borgarráðs, sem samþykkti hana. Verður ekki séð að málsmeðferð við undirbúning og gerð hins umdeilda deiliskipulags hafi verið haldin neinum þeim ágöllum er ógildingu varði.

Fram kemur í greinargerð deiliskipulagsins að á svæðinu skuli gert ráð fyrir landnotkun í samræmi við skilgreiningu aðalskipulags og þróunaráætlunar miðborgar. Lóðir meðfram Skólavörðustíg og Týsgötu séu innan marka miðborgar en aðrar lóðir séu á íbúðarsvæði og notkun bundin af þeirri skilgreiningu. Nýtingarhlutfall á svæðinu sé mjög mismunandi, eða frá 0,34-3,99, og sé meðaltal þess 1,43. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir verndun byggðamynsturs og er þar gert ráð fyrir allt að sjö hótelíbúðum í húsinu að Baldursgötu 39, sem er á íbúðarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Samkvæmt gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem hér á við, er heimilt að gera ráð fyrir starfsemi á íbúðarsvæðum sem eðlilegt er að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, enda valdi reksturinn ekki ónæði, m.a. vegna hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar. Sambærilegt ákvæði er að finna í landnotkunarflokki þróunaráætlunar miðborgar, sem tekin hefur verið upp í aðalskipulagi og til er vísað í deiliskipulagsgögnum.

Þegar litið er til umfangs og eðlis umrædds rekstrar íbúða til útleigu verður ekki talið að sú breytta notkun sem hér um ræðir fari í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins, en fyrrgreint ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 hefur verið skilið svo að á íbúðarsvæðum sé heimilt að hafa gistiheimili.

Á lóð Skólavörðustígs 42 fer nýtingarhlutfall úr 1,61 í 1,84, þar af 1,74 ofanjarðar. Kemur og fram að um sé að ræða ónýttan byggingarrétt frá fyrri tíð en heimiluð stækkun húss á lóðinni felur ekki í sér neina hækkun þess. Skipulagið heimilar lokun undirganga á nefndri lóð frá Skólavörðustíg og má telja líklegt að sú lokun auki eitthvað umferð um Lokastíg vegna rekstrarins að Skólavörðustíg 42.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og með hliðsjón af því að um mörk miðborgarsvæðis og íbúðarsvæðis er að ræða, verður ekki talið að hin kærða deiliskipulagsákvörðun gangi svo gegn lögvörðum hagsmunum kæranda að raski gildi ákvörðunarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að samþykkja deiliskipulag Lokastígsreita 2, 3 og 4.

___________________________
Ómar Stefánsson

____________________________       ___________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson

90/2012 Strandgata Stokkseyri

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 um að synja kröfu kæranda um að beitt verði úrræðum til að fjarlægja viðbyggingu við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu, Stokkseyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hrl., f.h. R, Strandgötu 8, Stokkseyri, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 að synja erindi kæranda um að byggingarfulltrúi beiti úrræðum til að viðbygging við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu á Stokkseyri verði fjarlægð. Er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Húsið Sjólyst við Strandgötu 8 og 8A er tvíbýlishús, reist árið 1902. Tvær viðbyggingar, svonefnd bíslög, voru við húsið, annars vegar við vesturgafl og hins vegar við austurhluta þess. Fyrir u.þ.b. 47 árum munu þáverandi eigendur Strandgötu 8A hafa fjarlægt viðbygginguna við austurhluta hússins. Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdir hafi byrjað við gerð nýrrar viðbyggingar árið 2010, á svipuðum stað og eldri viðbygging hafði verið, án þess að sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Með bréfi Húsafriðunarnefndar til byggingarfulltrúa, dagsettu 18. október 2010, var vakin athygli á að erindi vegna breytingar á útliti hússins hefði ekki borist nefndinni og óskaði byggingarfulltrúi af því tilefni umsagnar Húsafriðunarnefndar með tölvubréfi 5. nóvember s.á. Nefndin tók málið fyrir á fundi 11. nóvember 2010 og færði til bókar að ekki væri talin ástæða til að standa í vegi fyrir því að bíslagið við norðurhliðina yrði endurbyggt og stækkað frá fyrra horfi til samræmis við stækkun bíslagsins við vesturgafl hússins, enda yrði allur frágangur í samræmi við aldur og gerð hússins.
 
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 18. nóvember 2010 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu að Strandgötu 8A. Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað og fært til bókar að óskað væri eftir samþykki meðeigenda fyrir framkvæmdunum. Kærandi fór fram á það við byggingarfulltrúa í bréfi, dagsettu 26. apríl 2012, að hann beitti lagaúrræðum til að fá viðbygginguna fjarlægða með vísan til 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Var það erindi ítrekað með bréfi, dagsettu 16. maí s.á., og óskað rökstuðnings yrði ekki á það fallist. Með bréfi, dagsettu 21. júní 2012, veitti sveitarfélagið eigendum Strandgötu 8A færi á að tjá sig um fram komna kröfu kæranda, sem þeir og gerðu með bréfi, dagsettu 8. júlí s.á.

Erindi kæranda var svarað með bréfi byggingarfulltrúa, dagsettu 22. ágúst 2012. Var ekki fallist á beitingu þvingunarúrræða mannvirkjalaga til að knýja á um niðurrif greindrar viðbyggingar með hliðsjón af ríkari hagsmunum eigenda Strandgötu 8A til að láta viðbygginguna standa en hagsmunum eiganda Strandgötu 8 til að fá bygginguna fjarlægða. Þá var tekið fram að ekki yrði séð að viðbyggingin sem slík ylli eiganda Strandgötu 8 neinum óþægindum, ónæði eða skaða og að gengið hefði verið úr skugga um að ekki stafaði hætta af viðbyggingunni. Hefur kærandi kært þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum annmörkum og að fella beri hana úr gildi.

Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar lögum samkvæmt áður en ráðist hafi verið í umdeildar breytingar að Strandgötu 8A og að mati kæranda hafi ekki verið farið að fyrirmælum nefndarinnar um hvernig haga skyldi útliti viðbyggingarinnar um stærð og lögun. Þyki kæranda viðbyggingin ljót og rýra ástand og verðgildi hússins. Viðbyggingin sé án lögmælts byggingarleyfis og án áskilins samþykkis kæranda sem meðeiganda umrædds parhúss. Samþykki kæranda hafi verið skilyrði fyrir framkvæmdum, skv. 30. gr., sbr. 6. tl. A- liðar 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Hvergi sé í lögum tekið fram að líta skuli til notagildis eða hagsmuna þess sem vilji framkvæma byggingarleyfisskylda framkvæmd sem háð sé samþykki meðeigenda.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi hvorki verið gætt andmælaréttar skv. 13. gr. né rannsóknarreglu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að kynna sér, eða tjá sig um, þau gögn sem stafað hafi frá framkvæmdaaðila. Af þessum sökum skorti einnig á að málið hafi verið kannað til hlítar áður en umdeild ákvörðun var tekin. Um verulegan annmarka sé að ræða og ákvörðun byggingarfulltrúa af þeim sökum ógildanleg.

Málsrök Sveitarfélagins Árborgar: Bæjaryfirvöld krefjast þess að kröfum kæranda í máli þessu verði hafnað.

Ekki sé um að ræða brot á 6. gr. laga um húsafriðun. Sú skylda hvíli á byggingarfulltrúa samkvæmt greindu lagaákvæði að fylgjast með því að eigendur húsa leiti eftir áliti húsafriðunarnefndar. Hafi hann með bréfi sínu til nefndarinnar uppfyllt framangreinda lagaskyldu og hafi Húsafriðunarnefnd haft til skoðunar teikningar af umræddri viðbyggingu við gerð umsagnar sinnar.

Ekki hafi þótt tilefni til að beita heimildarákvæði 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til að þvinga fram niðurrif umdeildrar viðbyggingar, að teknu tilliti til aðstæðna og meðalhófs. Hafi ekkert komið fram í málatilbúnaði kæranda á fyrri stigum málsins eða þá fyrir úrskurðarnefndinni sem breyti þeirri niðurstöðu. Ítrekað sé að nefnt lagaákvæði sé heimildarákvæði og að það mat sem liggi til grundvallar beitingu þess liggi alltaf hjá byggingaryfirvöldum. Við vettvangsskoðun hafi byggingarfulltrúi hvorki talið augljósa vankanta á byggingunni né að hún væri hættuleg á nokkurn hátt.

Kærandi hafi gert grein fyrir röksemdum sínum með ódagsettri greinargerð til byggingarfulltrúa, á fundi er haldinn hafi verið 5. apríl 2011, og í kröfugerð sinni, dagsettri 26. apríl 2012. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga frá aðilum hafi byggingarfulltrúi tekið ákvörðun sína. Ekki hafi verið talin þörf á frekari upplýsingum eða andmælum frá kæranda enda hafi skýrt legið fyrir í málinu hver afstaða hans væri. Hann hafi notið lögfræðiaðstoðar í málinu og ítrekað komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Sjónarmið málsaðila hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hafi verið færð fram rök fyrir því að ágreiningur hafi verið með aðilum um málsatvik. Andmælareglu og rannsóknarreglu hafi því verið gætt við meðferð málsins.

Málsrök eigenda Strandgötu 8A: Eigendur Strandgötu 8A taka fram að gerðar hafi verið margvíslegar breytingar á húsinu frá því að það var reist, m.a. hafi viðbygging við vesturenda þess verið stækkuð töluvert og útliti hennar breytt. Við norðurhlið austurenda hafi viðbygging verið rifin og endurbyggð á árunum 2010-2012 í svipaðri mynd og áður hafi verið nema að hin nýja sé eilítið stærri. Hin umdeilda viðbygging sé nær sínum uppruna en viðbygging við vesturenda hússins.

Eigendur Strandgötu 8A hafi mikla hagsmuni af því að viðbyggingin standi en hún gjörbreyti aðgengi að kjallara hússins og bæti notagildi þess til muna. Þá fyrirbyggi hún að sjór flæði inn í kjallara en slíkt hafi gerst árið 1990 í miklu flóði. Þá sé bent á að þeir hafi ekki fyrirfram gefið munnlegt eða skriflegt leyfi fyrir framkvæmdum sem kærandi hafi staðið að í eignarhluta sínum í húsinu. 

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í kröfu kæranda gagnvart sveitarfélaginu felst að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 til að 5,94 m2 viðbygging við austanverða framhlið parhússins að Strandgötu 8A verði fjarlægð. Fyrir liggur að viðbyggingin var reist án byggingarleyfis og ekki verður séð að slíkt leyfi hafi síðar verið veitt af hálfu byggingaryfirvalda þar sem samþykki kæranda fyrir viðbyggingunni, sem eiganda vesturhluta parhússins, hefur ekki fengist.

Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.  Umrætt ákvæði gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar á þvingunarúrræði enda er einstaklingum tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. 

Hin kærða ákvörðun var studd þeim rökum að hagsmunir eigenda Strandgötu 8A væru ríkari en hagsmunir kæranda til að fá bygginguna fjarlægða í ljósi röksemda beggja aðila og að ekki yrði séð að viðbyggingin raskaði hagsmunum kæranda. Einnig var skírskotað til þess að ekki stafaði hætta af viðbyggingunni. Var matskennd ákvörðun byggingarfulltrúa um að neyta ekki heimildar mannvirkjalaga því studd viðhlítandi rökum.
 
Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki liggja fyrir aðrir þeir annmarkar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar, verður kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 22. ágúst 2012 um að synja erindi kæranda um að byggingarfulltrúi beiti úrræðum til að viðbygging við austurhluta norðurhliðar hússins nr. 8A við Strandgötu á Stokkseyri verði fjarlægð.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                             Þorsteinn Þorsteinsson

29/2011 Suðurgata

Með
Árið 2014, föstudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. febrúar 2011 um að samþykkja deiliskipulag Suðurgötu – Hamarsbrautar í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. apríl 2011, er barst nefndinni 29. s.m., kærir Sigurður Þorvarðarson byggingafræðingur, f.h. Gunnars Hjaltalín, lóðar- og húseiganda að Hellubraut 5 og 7, Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. febrúar 2011 um að samþykkja deiliskipulag Suðurgötu – Hamarsbrautar. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 13. apríl 2011. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Á árunum 2008 til 2010 var í vinnslu hjá Hafnarfjarðarbæ deiliskipulag Suðurgötu – Hamarsbrautar sem skarast við deiliskipulagið Hafnarfjörður miðbær frá 1981. Var skipulagsforsögn kynnt hagsmunaaðilum á svæðinu og komu kærandi og íbúi Hellubrautar 9 á framfæri athugasemdum.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 25. maí 2010 var tillaga að deiliskipulaginu lögð fram ásamt fylgigögnum, m.a. umsögn Húsafriðunarnefndar varðandi Hellubraut 7, svörum við fram komnum athugasemdum, tillögu Teiknistofunnar ehf. að fyrirkomulagi á lóðinni Hellubraut 7, minnispunktum skipulags- og byggingarsviðs varðandi hverfisvernd og breyttum skipulagsuppdrætti og greinargerð, dags. 20. maí 2010. Var samþykkt að auglýsa tillöguna með breytingum varðandi lóðarmörk Hellubrautar 3 og 5 og viðbætt bílastæði á lóðinni að Hellubraut 9. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu 14. júní 2010. Á auglýsingatíma tillögunnar var haldinn kynningarfundur og bárust athugasemdabréf, þ. á m. frá kæranda og íbúa Hellubrautar 9. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 1. febrúar 2011 og lá þá fyrir samantekt skipulags- og byggingarsviðs á inn komnum athugasemdum, sem og skipulagsuppdráttur, dags. 27. janúar 2011. Samþykkt var breyting frá auglýstu deiliskipulagi vegna athugasemdanna sem fól í sér m.a. breytingu á legu Hellubrautar til samræmis við gildandi deiliskipulag. Tillögunni var vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti greinda samþykkt á fundi hinn 9. febrúar 2011.

Með bréfi Skipulagsstofnunar, sem móttekið var hjá bæjaryfirvöldum 7. mars 2011, var ekki gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku tillögunnar í B-deild Stjórnartíðinda. Benti stofnunin þó á að áður þyrfti að gefa nákvæmara svar til hagsmunaðila varðandi þá breytingu sem gerð hefði verið á Hellubraut eftir auglýsingu. Svarið þyrfti að vera ítarlegt með tilliti til þess að um lítilsháttar frávik götustæðis væri að ræða frá gildandi skipulagi miðbæjarins frá 1981, þótt óbreytt væri í meginatriðum. Einnig þyrfti að lagfæra ýmis gögn og taka m.a. úr skilmálum skipulagstillögunnar ákvæði um eignarhald lóða.

Hinn 25. mars 2011 var gefinn út nýr deiliskipulagsuppdráttur og í meðfylgjandi greinargerð segir að um sé að ræða lagfæringu í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 25. mars 2011, kemur fram að frávikið sé að hluta til vegna þess að nú sé bílskúr á lóð Hellubrautar 9 sem ekki hafi verið sýndur á skipulagi miðbæjarins frá 1981. Segir í svarbréfinu: ,,Snúningsvasi er fluttur af lóðinni Hellubraut nr. 7, vegna byggingar bílskúrs færist annar snúningsvasa af lóðum nr. 7 og 9, og nýr snúningshaus gerður sem ekki skerðir lóðirnar. Þá er aðkoma að lóðinni Hellubraut nr. 9 bætt, þannig að unnt sé að snúa þar bíl fyrir framan húsið, en þurfi ekki að bakka út götuna eins og nú er. Lóðarhafi Hellubrautar 3 hefur hellulagt bílastæði út fyrir sína lóð og voru ný lóðarmörk gerð í beinu framhaldi af þeirri hellulögn. Lóðamörk Hellubrautar 3, 5 og 7 eru jafnframt færð um 1 m í vestur.“ Loks var tilgreint í svarinu að lóð Hellubrautar 3 yrði sýnd 27,3 m² stærri, lóð nr. 5 sýnd 7,7 m² stærri, lóð nr. 7 sýnd 45,8 m² stærri og lóð nr. 9 sýnd 13,6 m² stærri en á skipulagsuppdrættinum frá 1981. Með færslu Hellubrautar frá því sem auglýst tillaga hafi gert ráð fyrir myndi fást mun betra aðgengi að lóðunum Hellubraut 5, 7 og 9.

Svarbréf skipulags- og byggingarsviðs til Skipulagsstofnunar var samþykkt af meirihluta skipulags- og byggingarráðs á fundi hinn 29. mars 2011.

Með auglýsingunni í B-deild Stjórnartíðinda 13. apríl 2011 var auk gildistöku deiliskipulagsins Suðurgata – Hamarsbraut gerð breyting á mörkum deiliskipulagsins fyrir Hafnarfjörð, miðbæ frá 1981, að sunnanverðu. Þannig að Hellubrautin, sem áður var innan marka deiliskipulags miðbæjarins frá 1981, er nú innan marka hins kærða deiliskipulags.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir ógildingarkröfu sína m.a. á því að verulegt misræmi sé á milli hins kærða deiliskipulags og gildandi aðalskipulags Hafnarfjarðar varðandi götustæði Hellubrautar. Ekki hafi verið gætt meðalhófs þegar tekin hafi verið afstaða til athugasemda. Þá hafi losaralega verið farið með uppdrætti við meðferð skipulagstillögunnar, þannig að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir því hverju sinni um hvaða uppdrátt væri verið að fjalla. Þá hafi þurft að auglýsa deiliskipulagið að nýju þar sem ekki sé rétt að breytingar hafi verið minniháttar, eins og fram komi í skilmálum frá 27. janúar 2011, enda rýri þær verðgildi lóðanna að Hellubraut 5 og 7 verulega.

Kærandi fari jafnframt fram á það að viðurkennt verði að deiliskipulagið feli í sér brot á 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignaréttarins. Umræddar lóðir kæranda séu erfðafestulóðir án tímamarka og hafi ígildi eignarlóða. Erfðafesta á landi sé í eðli sínu óuppsegjanlegt leiguform þar sem einstaklingi sé veittur réttur til nýtingar sem gangi í erfðir. Áður en land sé tekið eignarnámi þurfi sveitarfélag að hafa fullreynt samningaleiðina við rétthafa erfðafestulandsins. Skipulags- og byggingaryfirvöld hafi ekki með formlegum hætti boðað til viðræðna um nauðsynlega upptöku á landi vegna skipulagsins. Deiliskipulagið hafi m.a. átt að leysa ágreining um mörk lóðanna nr. 5, 7 og 9, en aðkoma að lóðinni nr. 9 sé um lóðirnar nr. 5 og 7.

Á lóðinni nr. 9 við Hellubraut sé nú það mikið af viðbyggingum að takmarkað pláss sé fyrir bílastæði. Deiliskipulagsuppdráttur sýni svo ekki verði um villst að úr því verði leyst með því að skerða lóðir kæranda. Þetta sé gert þrátt fyrir ítrekuð mótmæli kæranda sem hafi boðið upp á að gerður yrði snúningshaus á hluta lóðar sinnar, sem myndi nýtast umferð um götuna en ekki einungis þjóna einkahagsmunum lóðarhafa Hellubrautar 9. Skilyrði eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar um almannaþörf feli í sér að eignarnám verði að vera í þágu framkvæmda eða aðgerða sem hafi þýðingu fyrir almenning. Ekki sé með neinum rökum hægt að halda því fram að almenningsþörf krefjist þess að hluti lóða kæranda sé tekinn eignarnámi til að leysa vandamál einkaaðila.

Fyrrverandi eigandi Hellubrautar 5 og 7 hafi með samkomulagi, dags. 1. júní 1980, afsalað 97 m² af lóð sinni til eiganda lóðarinnar Hellubraut 9 fyrir götustæði, er hafi verið hugsað sem sameiginleg innkeyrsla að lóðunum en ekki til að loka aðkomu að lóðum kæranda. Hafi samningurinn verið gerður til að koma til móts við eiganda Hellubrautar 9.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að málið sé viðamikið. Deiliskipulagið snerti marga aðra en aðila kærunnar og að kæran taki eingöngu til afmarkaðs hluta hinnar kærðu skipulagsákvörðunar. Þá sé þeirri órökstuddu fullyrðingu hafnað að losaralega hafi verið farið með uppdrætti við vinnslu skipulagsins.

Árangurslausar tilraunir hafi verið gerðar til að ná sátt um gildandi deiliskipulag. Fjallað hafi verið um málið á 19 fundum á tveimur og hálfu ári í skipulags- og byggingarráði og á þremur fundum í bæjarstjórn áður en samþykkt hafi verið að auglýsa deiliskipulagið. Tvisvar hafi málinu verið vísað aftur frá bæjarstjórn til skipulags- og byggingarráðs þar sem talið hafi verið að sátt hefði náðst um lóðamál við Hellubraut. Þá hafi verið haldnir a.m.k. fjórir fundir hagsmunaaðila með skipulags- og byggingarsviði, átt sér stað auk funda sem lóðahafar Hellubrautar nr. 7 og 9 hafi átt með kjörnum fulltrúum.

Skipulag miðbæjar frá 1981 og núgildandi skipulag sýni aðkomu að lóðum nr. 5 og 7 við Hellubraut en nú sé aðkoman aðeins um lóð Hellubrautar 9. Engin kvöð þar að lútandi sé hins vegar á lóðinni. Því sé hafnað að erfðafestulóð hafi ígildi eignalóðar þar sem lóðin hafi verið seld Hafnarfjarðarbæ árið 1993 og með því hafi erfðafestan fallið niður. Deiliskipulagið stangist ekki á við aðalskipulag varðandi götustæði Hellubrautar. Aðalskipulag sé stefnumótandi en sýni ekki hönnun á húsagötum.

Lóðir Hellubrautar 5 og 7 séu aðeins stærri en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt deiliskipulaginu frá 1981 en hafi ekki verið skertar eins og kærandi haldi fram. Nýtt mæliblað sé í vinnslu þar sem nákvæm stærð lóðanna verði staðfest. Það sé í almanna þágu að færa Hellubrautina frá bjargbrún Vesturhamarsins og bæta aðgengi að lóðum nr. 3-7 þannig að t.d. sjúkraflutningabifreiðar eigi þar greiðan aðgang, en núverandi vegbrún sé hættulega nærri bjargbrúninni.

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 38. gr. núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010 beri sveitastjórn ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Samningur varðandi eignarnám hefjist fyrst að loknu skipulagsferli, sbr. 50. og 51. gr. núgildandi skipulagslaga.

Málsrök eiganda Hellubrautar 9: Eigandi Hellubrautar 9 vísar til þess að ekki hafi verið lokað fyrir aðgengi að lóðum kæranda með samningi um makaskipti frá árinu 1980. Það hafi hins vegar gerst með samningi, dags. 23. október 1983, þegar fyrrverandi eigandi hafi selt skika úr lóðinni nr. 5 til eiganda lóðarinnar að Hellubraut 3. Á sama tíma hafi eigandi lóðarinnar nr. 3 fært lóðarmörk sín fram um eina tvo metra í átt að veginum, inn á land Hafnarfjarðarbæjar. Í kjölfarið hafi aðgengi að lóðum kæranda verið yfir horn á veginum, sem hafi tilheyrt lóðinni nr. 9. Ekki hafi verið amast við því þar sem leysa hafi átt úr þessu með deiliskipulagi og hafi það nú verið gert. Aðkoma að lóðum kæranda sé í dag nánast sú sama og fyrir 40 árum.

Kærandi hafi fengið teiknistofu til að teikna bílastæði milli hússins að Hellubraut 9 og bílskúrsins og með því gefið til kynna að ekki væri þörf á að gefa eftir skika úr lóð nr. 7 til að aðkoma bíla að lóð nr. 9 verði möguleg. Horft sé fram hjá þeirri staðreynd að plássið sé hvergi nærri nóg til að leggja bifreið, hvað þá að opna hurðar hennar, án þess að þær rekist í húsið og bílskúrinn.

Meintur eignaréttur kæranda sé ekki brotinn því samkvæmt samningi milli eiganda Hellubrautar 9 og Hafnarfjarðarbæjar, dags. 19. september 2011, verði 40,6 m² skiki úr lóðinni nr. 7, sem færist til lóðarinnar nr. 9, gerður upp með eignarnámi eða kaupum þegar farið verði í gatnaframkvæmdir og ný lóðarblöð verði gefin út.

Eigandi Hellubrautar 9 hafi lagt sig í líma við að leysa aðkomu að lóðunum í gegnum árin. Hafi hann nú látið frá sér einkaveg, sem hann hafi getað nýtt sem sjö bílastæði, til að leysa þessi mál endanlega gegn því einu að fá snúningstæði þannig að hann geti snúið við bílum sem lagt sé á lóð hans.
——–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess.

——–

Niðurstaða: Í máli þessu er fyrst og fremst deilt um þann hluta hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar sem snýr að götustæði við lóðirnar nr. 3-9 við Hellubraut.

Í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 eru sýndar merkingar, m.a. fyrir stofnbrautir, tengibrautir, safngötur, og gönguleiðir. Ekki er um að ræða tengingu Helluhrauns við stofn- eða tengibraut, sem sýna þarf á aðalskipulagi, sbr. 2. og 5. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þá er ekki að finna á aðalskipulagsuppdrætti merkingar eða tákn sem sýna eiga aðrar götur eða leiðir samkvæmt aðalskipulaginu. Þar af leiðandi fer götustæði Hellubrautar í hinni kærðu ákvörðun ekki í andstöðu við aðalskipulag.

Með ákvörðun bæjarstjórnar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar að lokinni kynningu var fallið frá þeirri breytingu á umræddu götustæði sem skipulagstillagan hafði falið í sér, m.a. með hliðsjón af fram komnum andmælum. Niðurstaðan varð því sú að hafa götustæðið óbreytt miðað við gildandi deiliskipulag Hafnarfjarðar, miðbær frá 1981. Uppdráttur deiliskipulagsins, dags. 25. mars 2011, er þó ekki nákvæmlega í samræmi við eldri deiliskipulagsuppdrátt, en af hálfu skipulagsyfirvalda Hafnarfjarðar hefur verið bent á að frávikið sé að hluta til vegna breyttra aðstæðna við Hellubraut 9 frá gildistöku eldra skipulags. Þetta frávik á götustæði milli eldri og yngri skipulagsuppdráttar er óverulegt og helgast af byggingu bílskúrs á nefndri lóð. Þótt umrætt götustæði hafi verið sýnt með nokkuð öðrum hætti á uppdrætti hinnar kynntu skipulagstillögu en á samþykktum uppdrætti hins kærða skipulags verður það ekki talin slík breyting að þurft hafi að auglýsa hana að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda var um að ræða afturhvarf til fyrra ástands.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lóðamörkum Hellubrautar 3, 5, 7 og 9 breytt með hinni kærðu ákvörðun frá því sem var í eldra deiliskipulagi en deilt er um lóðastærðir og lóðamörk Hellubrautar 5 og 7. Ágreiningur um bein eða óbein eignaréttindi af slíkum toga verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni enda heyri hann undir lögsögu dómstóla. Rétt þykir að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignaréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, verði talin skilyrði til þess.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 9. febrúar 2011 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Suðurgötu – Hamarsbraut í Hafnarfirði.

________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

26/2010 Hólmsheiði

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 10. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Endurupptekið er mál nr. 26/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. mars 2011, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, fór Þ, ehf., einn kærenda í máli nr. 26/2010, fram á endurupptöku málsins, en því var vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði uppkveðnum hinn 16. mars 2011.  Hefur úrskurðarnefndin fallist á endurupptökubeiðnina í ljósi niðurstöðu úrskurðar í máli nr. 6/2011, sem upp var kveðinn hinn 14. febrúar 2014, þar sem felld var úr gildi deiliskipulagsákvörðun sem kom í stað hinnar kærðu ákvörðunar í máli nr. 26/2010 varðandi svæði til efnislosunar á Hólmsheiði. 

Með bréfi, dags. 11. júní 2010, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ, ehf., jafnframt þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. maí 2010 að veita framkvæmdaleyfi til losunar á allt að 2,5 milljónum m³ jarðefna á losunarsvæði á Hólmsheiði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið, sem er nr. 39/2010, er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Í ljósi þess að sú framkvæmdaleyfisákvörðun er samofin hinu kærða deiliskipulagi í máli þessu þykir ekkert standa því í vegi að málin verði sameinuð. 

Verður krafa kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010, um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun svæðis til losunar jarðvegs á Hólmsheiði, og ákvörðunar skipulagsráðs frá 12. maí 2010, um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir jarðvegslosun á greindum stað, nú tekin til efnisúrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2001 beindi gatnamálastjórinn í Reykjavík erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um nýtingu jarðvegs sem til félli í borgarlandinu til landmótunar á Hólmsheiði, skammt austan og sunnan við heitavatnsgeyma Orkuveitu Reykjavíkur.  Borgarráð samþykkti í kjölfarið losun á allt að 1,5 milljón m³ jarðvegs á 20 ha landsvæði á Hólmsheiði með þeim skilyrðum m.a. að jarðvegsefni sem fyrirhugað væri að nota væri hreint og ómengað af mannavöldum.  Svæðið er innan svonefnds græna trefils, sem er útivistarsvæði og umlykur hluta höfuðborgarsvæðisins.  Hinn 29. nóvember 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar, m.a. vegna stækkunar  losunarsvæðis fyrir jarðveg um 12 ha, og var heimiluð jarðvegslosun aukin um 2,5 milljón m³. Var skipulagsákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi deiliskipulagið úr gildi með úrskurði uppkveðnum 24. júlí 2008, í máli nr. 167/2007, með þeim rökum að heimiluð jarðvegslosun væri ekki í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.  Að þeirri niðurstöðu fenginni var gerð breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins þar sem heimiluð var tímabundin losun ómengaðs jarðvegs innan græna trefilsins.  Jafnframt var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur er fól m.a. í sér að á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði væri heimiluð losun ómengaðs jarðvegs.  Kom fram í gildistökuauglýsingu að gert yrði ráð fyrir að jarðvegsfyllingin yrði mótuð og ræktuð upp á skipulagstímabilinu með þarfir útivistar að leiðarljósi.  Öðluðust breytingarnar gildi hinn 10. mars 2010 við birtingu auglýsinga í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samhliða fyrrgreindum breytingum á aðal- og svæðisskipulagi var tillaga að deiliskipulagi auglýst að nýju fyrir jarðvegslosun ómengaðs jarðvegs á Hólmsheiði. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagstillöguna hinn 25. mars 2010 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl sama ár.  Var þar gert ráð fyrir 32 ha svæði undir jarðvegslosunina, eins og í fyrra deiliskipulagi, en heimilað magn jarðvegs sem losa mætti á svæðinu var 3,7 milljónir m³.  Hinn 12. maí 2010 var síðan samþykkt umsókn framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur um losun allt að 2,5 milljóna m³ jarðvegs á svæðinu. Deiliskipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar ásamt nefndu framkvæmdaleyfi eins og að framan greinir. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 14. júlí 2010 var lögð fram ný tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði. Fól hún í sér heimild til losunar sama magns af ómenguðum jarðvegi og gert hafði verið ráð fyrir í skipulaginu frá apríl 2010, en áætlað að losunin gæti staðið  til ársins 2020.  Í tillögunni var gert ráð fyrir því að fyrrnefnt deiliskipulag á Hólmsheiði frá 7. apríl 2010 og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði frá 30. febrúar 2008 féllu úr gildi við samþykkt tillögunnar.  Borgarráð samþykkti það skipulag hinn 4. nóvember 2010 og tók það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 14. desember s.á.  Skaut kærandi máls þessa þeirri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 12. janúar 2011. 

Við gildistöku deiliskipulags fyrir losunarsvæðið á Hólmsheiði hinn 14. desember 2010 féll úr gildi hið kærða deiliskipulag sem tekið hafði gildi hinn 7. apríl 2010.  Í kjölfar þess var kærumál vegna þess skipulags vísað frá úrskurðarnefndinni, með úrskurði uppkveðnum 16. mars 2011, þar sem hin kærða ákvörðun hafði samkvæmt framansögðu ekki lengur réttarverkan að lögum. Þótti því á skorta að kærendur í því máli ættu lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.  Kærandi í máli þessu fór fram á endurupptöku þess úrskurðar eins og fyrr er getið.  Með úrskurði uppkveðnum 14. febrúar 2014 felldi úrskurðarnefndin úr gildi hið kærða deiliskipulag fyrir losunarsvæðið á Hólmsheiði, sem tekið hafði gildi í desember 2010 og í ljósi þeirrar niðurstöðu var fallist á kröfu kæranda um endurupptöku máls þessa. 

Málsrök kæranda:  Á því er m.a. byggt af hálfu kæranda að hið kærða deiliskipulag fari á svig við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur.  Þá sé ljóst að lög og reglugerðir hafi verið brotnar hvað varði skipulag, frágang og skýrleika skipulagsáætlana og samráð við hagsmunaaðila.  Um sé að ræða svæði sem ætlað hafi verið til útivistar en hafi nú verið breytt í losunarstað fyrir jarðveg sem ekki geti fallið undir landnotkun opinna svæða til sérstakra nota.  Á svæðinu, sem sé við vatnsból Reykjavíkur, hafi verið losaður mengaður jarðvegur.  Jafnframt fylgi heimilaðri starfsemi fok jarðvegs og rusls yfir land kæranda auk ónæðis vegna umferðar og vinnuvéla. 

Breytingar þær sem gerðar hafi verið á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 séu ekki haldbærar eða til þess fallnar að ná innbyrðis samræmi milli allra skipulagsstiga, líkt og lög áskilji.  Þá sé hvergi fjallað um losun á ómenguðum jarðvegi í hinu kærða deiliskipulagi eins og gert sé í aðalskipulagi og svæðisskipulagi.  Eigi heimilaðar framkvæmdir, sem haft geti mengun í för með sér, undir 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, vegna stærðar, eðlis og áhrifa á umhverfið.  Ýmis ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi ekki verið virt, eins og t.d. 2., 9., 25., og 56. gr. laganna, sem og fjölmörg ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Þá hafi t.d. ýmis ákvæði jarðalaga nr. 81/2004, stjórnsýslulög nr. 37/1993, einkum 25. gr. þeirra laga, lög um náttúruvernd nr. 44/1999 og ýmis ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 105/2006, ekki verið virt. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Ekki hefur borist greinargerð borgaryfirvalda í tilefni af endurupptöku máls þessa, en vísað er til þeirra sjónarmiða borgarinnar sem fyrir liggja í öðrum málum um sama efni og átt geti við í kærumáli þessu. 

Bent er á að hið kærða deiliskipulag eigi nú fullnægjandi stoð í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur.  Sé vísað til þess er komi fram í greinargerð með breytingu á aðalskipulaginu. Rétt hafi þótt að gera sérstaka grein fyrir stækkun losunarstaðarins í aðalskipulagi, einkum í ljósi þess að skipulagsreglugerð fjalli ekki sérstaklega um þessa nýtingu lands.  Um sé að ræða tímabundna nýtingu sem vel geti samrýmst langtímamarkmiðum um nýtingu svæðisins til útivistar og skógræktar. Taki staðsetning losunarsvæðisins, nálægt helstu uppbyggingarsvæðum Reykjavíkur, mið af umhverfisáhrifum og hagkvæmnisjónarmiðum.  Hvorki sé um að ræða framkvæmdir sem tilgreindar séu í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 né losun efna sem falli undir skilgreiningu laga um úrgang.  Ekki sé um að ræða grundvallarbreytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur eða ósamræmi milli skipulagsáætlana á svæðinu og ljóst sé hvert efni deiliskipulagsins sé.  Stærð losunarsvæðisins hafi í engu verið breytt. Það sé enn 32 ha að stærð þrátt fyrir að leyfilegt sé að losa meira magn innan þess svæðis en upphaflega hafi verið heimilað. 

Haft hafi verið lögboðið samráð við hagsmunaaðila á öllum stigum málsins.  Kærandi hafi keypt landareign sína löngu eftir að losun hafi hafist á svæðinu, eða í árslok 2005, og því vandséð hvaða grenndarhagsmunir hans hafi verið skertir umfram það sem búast hafi mátt við. 

———-

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verður rakið nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á umræddu losunarsvæði við meðferð fyrra kærumáls um deiliskipulag svæðisins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti deiliskipulags er tekur til losunarsvæðis jarðefna á Hólmsheiði og tók gildi 7. apríl 2010 og gildi framkvæmdaleyfis sem veitt var í skjóli þess skipulags.  Með ógildingu yngra deiliskipulags svæðisins, með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 14. febrúar 2014, verður að líta svo á að fyrra réttarástand, hvað skipulag svæðisins varðar, hafi raknað við og hin kærða deiliskipulagsákvörðun gildi því nú fyrir svæðið. 

Ágreiningur stendur fyrst og fremst um lögmæti heimildar deiliskipulagsins fyrir tímabundna losun á allt að 3,7 milljónum m³ af jarðvegi á um 32 ha losunarsvæði og var sá ágreiningur einnig uppi í kærumáli því er snerist um sömu heimildir yngra deiliskipulags svæðisins. 

Landnotkun umrædds svæðis var ákvörðuð í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, þar sem fram kemur að um sé að ræða opið svæði til sérstakra nota, en svæðið er innan hins svonefnda græna trefils, sem ætlaður er til útivistar og skógræktar. 

Ekki liggur annað fyrir en að formleg málsmeðferð umrædds deiliskipulags hafi verið lögum samkvæmt.  Þá verður af framsetningu skipulagsins ráðið hvert efnisinnihald þess er.  Verður ekki talið að þeir annmarkar séu á skipulaginu að þessu leyti að leitt geti til ógildingar. 

Hinn 24. júlí 2008 felldi úrskurðarnefndin úr gildi deiliskipulag frá árinu 2007 fyrir umrætt losunarsvæði þar sem það var talið fara í bága við ákvæði um landnotkun gildandi aðalskipulags Reykjavíkur og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.  Við þeirri niðurstöðu var brugðist með því að óska eftir breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og var því breytt á þann veg að heimilað var að losa tímabundið ómengaðan jarðveg innan græna trefilsins, enda væri frekari grein gerð fyrir afmörkun og frágangi losunarstaða og tímamörkum losunar í aðal- og deiliskipulagi viðkomandi sveitarfélags.  Jafnframt var gerð breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, er fól m.a. í sér að á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði væri heimiluð losun ómengaðs jarðvegs.  Segir þar að Hólmsheiðin sé skilgreind sem opið svæði til sérstakra nota.  Markmið aðalskipulagsins sé að byggja svæðið upp sem útivistarsvæði, m.a. með skógrækt. Á afmörkuðu svæði á Hólmsheiði sé heimiluð losun ómengaðs jarðvegs og er um staðsetningu vísað til uppdráttar.  Gert sé ráð fyrir að jarðvegsfyllingin verði mótuð og ræktuð upp á skipulagstímabilinu með þarfir útivistar að leiðarljósi.  Í greinargerð hins kærða deiliskipulags er áréttað að í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota og skógræktarsvæði innan græna trefilsins. 

Á þeim tíma er hér um ræðir var kveðið á um landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Í ákvæði þeirrar reglugerðar, gr. 4.12, um landnotkun á opnum svæðum til sérstakra nota, sagði svo:  „Opin svæði til sérstakra nota eru svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir.  Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.“ 

Þegar virt er hvernig ákvæði hins kærða deiliskipulags samræmist tilvitnaðri skilgreiningu verður að líta til þess að framkvæmd skipulagsins felur í sér umfangsmikla starfsemi, sem ætlað er að vara til fjölda ára með tilheyrandi umferð flutningabíla og notkun stórvirkra vinnuvéla, hávaða, mengun og foki jarðefna.  Telja verður þá starfsemi, að teknu tilliti til eðlis og umfangs, langt umfram þau mörk sem setja verður um starfsemi á svæðum sem ætluð eru til útivistar, eins og skilgreind landnotkun gerir ráð fyrir á svæðinu, og er sú starfsemi alls óskyld útivistarnotum lands.  Af þessum ástæðum, og með hliðsjón af orðalagi fyrrgreinds ákvæðis skipulagsreglugerðar um landnotkun opinna svæða til sérstakra nota, samræmist ákvæði hins kærða deiliskipulags um losun jarðefna ekki umræddu ákvæði skipulagsreglugerðar.  Ákvæði svæðisskipulags og aðalskipulags um heimild til tímabundinnar losunar ómengaðs jarðvegs innan græna trefilsins geta ekki breytt eða vikið til hliðar nefndu reglugerðarákvæði. 

Framkvæmdir samkvæmt fyrra skipulagi frá árinu 2007 voru í ósamræmi við gildandi aðalskipulag samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í úrskurði hennar hinn 24. júlí 2008, í málinu nr. 167/2007 um gildi deiliskipulags sem tók til umrædds svæðis.  Hefur þeim úrskurði ekki verið hnekkt.  Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru við samþykkt hins kærða skipulags, var óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Telja verður að það ákvæði hafi staðið í vegi fyrir því að óbreyttu að gerð yrði breyting á skipulagi umrædds svæðis, enda höfðu þar átt sér stað umfangsmiklar jarðvegsframkvæmdir sem ekki voru í samræmi við skipulag. 
Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja slíkir annmarkar vera á hinu kærða deiliskipulagi að fella beri það úr gildi. 
Að þeirri niðurstöðu fenginni á hið kærða framkvæmdaleyfi ekki lengur viðhlítandi stoð í skipulagi umrædds svæðis og ber af þeim sökum að fella það úr gildi með vísan til 1. mgr. 9. gr. áðurgreindra skipulags- og byggingarlaga.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun svæðis til losunar jarðvegs á Hólmsheiði. 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. maí 2010 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir jarðvegslosun á allt að 2,5 milljónum m3 á greindu svæði. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

___________________________                                  _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

 

94/2013 Moltugerð Patterson flugvelli

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Gámaþjónustan ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að fyrirtækinu verði veittur rúmur frestur til að hætta umdeildri starfsemi. Þá var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu kæranda með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 12. desember 2013.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 10. október 2013.

Málavextir: Hinn 7. apríl 2010 sótti kærandi um starfsleyfi fyrir meðhöndlun moltu og var umsóknin samþykkt hinn 6. maí s.á. Starfsemin hófst hins vegar ekki að ráði á umræddu svæði fyrr en um áramótin 2012-2013, að sögn kæranda. Kvartanir vegna starfseminnar bárust heilbrigðiseftirliti svæðisins í ágúst 2013 og í bréfi eftirlitsins til kæranda, dagsettu 16. ágúst s.á., var á það bent að starfsemin uppfyllti ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og að moltuvinnslan væri á fjarsvæði vatnsverndar. Var þess krafist að allur úrgangur sem dreifst hefði um nærliggjandi umhverfi yrði fjarlægður. Kærandi sendi heilbrigðiseftirlitinu svarbréf, dagsett 30. ágúst s.á., þar sem sjónarmið hans voru reifuð og þess óskað að umrædd starfsemi fengi að halda áfram að uppfylltum reglum sem heilbrigðiseftirlitið kynni að setja starfseminni. Starfsleyfið var hins vegar afturkallað 5. september 2013, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að eftirmeðferð moltugerðar sem hér um ræði sé í samræmi við aðferðir sem áratuga reynsla sé af bæði hérlendis og erlendis. Engar athugasemdir hafi verið gerðar vegna starfseminnar fyrr en í ágúst 2013 og hafi þegar verið brugðist við þeim.

Framganga heilbrigðiseftirlitsins í málinu fari gegn ákvæðum 18. kafla reglugerðar nr. 941/2002 og 6. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé sérstaklega skírskotað til 2. mgr. 26. gr. laganna.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er vísað til þess að í ljós hafi komið að moltuvinnslan hafi án heimildar og vitneskju eftirlitsins verið komin langt inn á vatnsverndarsvæði í nágrenni við borholur sem notaðar séu sem varavatnsból. Við jarðgerð myndist mikið af köfnunarefnissamböndum sem skolist að hluta með rigningarvatni ofan í grunnvatn og spilli þar með vatnsgæðum. Mikill óþrifnaður hafi verið á svæðinu, plastdræsur hafi fokið þar um og matarleifar í moltuhaugum dregið að sér rottur og vargfugl. Forsenda fyrir starfsleyfi kæranda hafi verið að moltan væri án matarleifa og plasts en kærandi hafi ekki getað komið í veg fyrir slíkt. Í ljósi þess hafi verið talið tilgangslaust að gefa kæranda frest til úrbóta og því hafi sá einn kostur verið fyrir hendi að afturkalla leyfið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afturköllun starfsleyfis til að meðhöndla moltu á malbikuðu svæði á svonefndum Pattersonflugvelli. 

Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi skv. heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en um starfsleyfi gildir reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Auglýsing nr. 582/2000, um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar, er gefin út skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar og er endurvinnsla úrgangs og önnur sambærileg starfsemi meðal þess sem ekki kallar á ítarlega starfsleyfisgerð. Þess í stað eru í auglýsingu nr. 582/2000 starfsreglur sem starfseminni ber að fylgja. Auk reglugerðar nr. 785/1999 er nánar kveðið á um starfsleyfi vegna meðhöndlunar úrgangs í reglugerð nr. 805/1999 um úrgang. Þá fellur starfsemin í eftirlitsflokk 5 skv. lið 8.5 í fylgiskjali 2 með reglugerðinni. Felur sú flokkun í sér að mengunarvarnaeftirlit heilbrigðisnefndar þurfi ekki að fara fram á tilteknum fresti sem mælt er fyrir um í reglugerðinni, heldur skuli vera samkvæmt ákvörðun, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit, og fór slíkt eftirlit fram 14. ágúst 2013.

Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga eða samkvæmt eigin fyrirmælum, getur heilbrigðisnefnd í alvarlegri tilvikum afturkallað starfsleyfi skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 34. gr. reglugerðar nr. 785/1999, 6. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og 31. gr. reglugerðar nr. 786/1999. 

Fyrir liggur að umrædd meðhöndlun moltu er inni á fjarsvæði vatnsverndar skv. svæðisskipulagi Suðurnesja, en ekki var gert ráð fyrir því við útgáfu starfsleyfis að starfsemin yrði staðsett á því svæði. Á verndarsvæðum vatnsbóla er heilbrigðisnefnd heimilt að banna framkvæmdir og geymslu efna og úrgangs ef hætta er á að slíkt geti spillt vatninu, sbr. 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 533/2001. Það er mat heilbrigðiseftirlitisins að köfnunarefnissambönd skolist ofan í grunnvatn og spilli vatnsgæðum og að athafnasvæðið hafi farið út fyrir heimiluð mörk og inn á vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Þá kemur fram í svæðisskipulagi Suðurnesja, bls. 11, að lek jarðlög geri svæðið viðkvæmt fyrir mengun og kalli á takmörkun landnotkunar á tiltölulega stóru svæði. Loks er það mat heilbrigðiseftirlitsins að óþrifnaður af starfseminni sé meiri en búist var við, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja umdeilda afturköllun starfsleyfis kæranda lögmæta og studda málefnalegum rökum. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað. Úrskurðarnefndin hefur ekki heimild að lögum til að taka ákvörðun um tiltekinn frest til handa kæranda til að hætta umdeildri starfsemi, en með vísan til þess að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða er rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hann fái hæfilegan frest í því skyni miðað við eðli og umfang starfseminnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

90/2011 Illagil

Með

Árið 2014, föstudaginn 14. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 90/2011, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2010, um að kæranda beri að fjarlægja  jarðvegsmön af sumarhúsalóðinni Illagili 21 í landi Nesja, Grímsnes- og Grafningshreppi, innan 90 daga. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. nóvember 2011, er barst nefndinni 11. s.m., kærir Sveinn Guðmundsson hrl., f.h. L, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 1. desember 2010, um að kæranda beri að fjarlægja jarðvegsmön af lóðinni Illagili 21 innan 90 daga.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá sveitarfélaginu hinn 18. desember 2013.  

Málavextir:  Eftir að umráðamaður lóðarinnar Illagils 16 hafði skorað á kæranda að fjarlægja jarðvegsmön á lóðinni Illagili 21, fór hann fram á það við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps í bréfi, dags. 28. júlí 2010, að fyrrgreind mön yrði fjarlægð.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. nóvember 2010 var eftirfarandi bókað: ,,Að mati nefndarinnar hefur mön á lóð nr. 21 áhrif á ásýnd og umhverfi.  Eiganda lóðar er gert að fjarlægja mönina innan 90 daga frá staðfestingu sveitarstjórnar á þessari samþykkt.“  Var kæranda gerð grein fyrir þessari afgreiðslu nefndarinnar með bréfi, dags. 23. s.m.  Afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi sveitarstjórnar 1. desember s.á. og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu, eins og að framan greinir.

Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sendi kæranda bréf, dags. 15. desember 2010 og 3. nóvember 2011, þar sem ítrekuð var krafa um að jarðvegsmön á landi hans yrði fjarlægð, auk þess sem dagsektir voru boðaðar í seinna bréfinu ef ekki yrði orðið við kröfunni. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að leiðbeiningarskyldu um kærurétt samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt í tilkynningu til hans um hina kærðu ákvörðun. Af þeim sökum beri að taka kærumál þetta til efnismeðferðar þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Kærandi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu sumarhúss á lóð sinni í október 2005.  Þáverandi byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hafi komið á staðinn til umsagnar og ráðagerða vegna þeirra framkvæmda og hafi hann gefið kæranda munnlegt leyfi fyrir því að grafa fyrir kjallara.  Rætt hafi verið um hvað gera skyldi við uppgröftinn og hafi byggingarfulltrúinn lagt það til að hann yrði nýttur sem best og gert eitthvað snyrtilegt á lóðinni úr jarðveginum frekar en að flytja hann burt.  Um það hafi svo verið samið að gerð yrði skeifulaga jarðvegsmön úr uppgreftrinum á þeim stað sem tæki og vélar hefðu áður skemmt, eða um 35 m frá lóðamörkum lóðar kæranda og lóðar þess sem kvartað hafi yfir jarðvegsmöninni.  Allar framkvæmdir, þ.m.t. frágangur uppgraftar, hafi verið í fullu samráði við þáverandi byggingarfulltrúa.  Ef formreglna hafi ekki verið gætt verði kæranda ekki um það kennt þar sem hann hafi treyst á umsögn og aðkomu byggingarfulltrúa og að farið væri að lögum.  Þá hafi lóðarhafi Illagils nr. 19 verið samþykkur framkvæmdinni en sú lóð sé einna næst lóð kæranda. 

Ekki sé fallist á að jarðvegsmönin skerði útsýni frá Illagili 16, en séð frá þeirri lóð beri jarðvegsmönina við hól á nærliggjandi lóð nr. 19 sem standi nokkuð hærra í landi.  Þá sé jarðvegsmönin staðsett í lægð eða slakka í landinu.

Kæranda sé ekki ljóst hvað byggingarfulltrúi eigi við í bréfi sínu, dags. 23. nóvember 2010, þar sem segi að gróður á jarðvegsmöninni sé ekki í samræmi við ríkjandi gróður á svæðinu.  Í bréfinu sé því jafnframt haldið fram að mönin sé á lóðamörkum. Að mati kæranda sé jarðvegsmönin snyrtileg og vel frá gengin, gróin grasi með  lágplöntum og sé í 35 m fjarlægð frá lóðamörkum, eins og áður greini.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að sveitarfélagið líti svo á að hin umdeilda jarðvegsmön hafi verið háð samþykki byggingarnefndar samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir.  Samkvæmt deiliskipulagi sé óheimilt að planta  hávöxnum trjátegundum á svæðinu og megi af því ráða að markmið deiliskipulagsins sé að halda í náttúruleg einkenni svæðisins.  Með hliðsjón af því sé frágangur jarðvegs í jarðvegsmön í ósamræmi við anda deiliskipulagsins.

Andmæli lóðarhafa að Illagili 16:  Bent er á að fram komin kæra sé dagsett 9. nóvember 2011, eða rúmum 11 mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Kæran sé því allt of seint fram komin og beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.

Verði kæran tekin til efnislegrar meðferðar sé þess krafist að nefndin staðfesti hina kærðu ákvörðun um að fjarlægja beri jarðvegsmönina að viðlögðum dagsektum.  Hin kærða ákvörðun sé rétt, bæði að efni og formi, þ.e. rök að baki henni séu rétt og ákvörðunarferlið hafi verið í samræmi við þágildandi skipulagslög.  Kærandi hafi verið upplýstur um ferlið, verið viðstaddur skoðun og fengið ítarlegar upplýsingar um niðurstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa og sveitarstjórnar, ásamt rökstuðningi, þar sem vísað hafi verið til þeirra ákvæða reglugerðar sem gerð jarðvegsmanarinnar brjóti gegn. 

Jarðvegsmönin sé ósamþykkt mannvirki sem samræmist ekki gildandi skipulagi fyrir svæðið og falli á engan hátt að umhverfinu, sem sé lyng- og kjarri vaxið land við Þingvallavatn. Markmið deiliskipulags svæðisins sé að við uppbyggingu sumarhúsabyggðarinnar sé þess gætt að stemma stigu við skerðingu útsýnis og breytingum á ásýnd lands með því t.d. að banna gróðursetningu hárra trjáa og byggingu skjólveggja.  Ekki verði séð að jarðvegsmönin þjóni nokkrum tilgangi auk þess sem hún skyggi á útsýni frá Illagili 16 og sé lýti á umhverfi og aðkomu að lóð nágranna.  Breyti þar engu þótt mönin sé grasi gróin heldur dragi það fremur fram hið hróplega ósamræmi sem sé á milli manarinnar og hins lyngi vaxna móa. 

Samkvæmt 2. mgr. gr. 7.2.4 í  núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. áður 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sé lóðarhafa skylt að ganga frá byggingarlóð og fjarlægja þann uppgröft sem ekki þurfi að nota á lóð áður en byggingin sé fokheld.  Í Illagili sé skýrt að lóðareigendum beri að fjarlægja uppgröft en ekki nota hann til jöfnunar lóða eða við aðra landmótun enda sé þess krafist að gætt sé að hinu náttúrulega umhverfi, sbr. m.a. rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar.

Þeirri málsástæðu kæranda að hann hafi fengið munnlegt leyfi byggingarfulltrúa fyrir gerð jarðvegsmanarinnar sé mótmælt sem ósannaðri.  Slíkt leyfi hafi ekkert gildi þegar það fari gegn gildandi skipulagi og reglum um svæðið og hafi heldur ekki verið kynnt fyrir nágrönnum.  Kærandi verði að bera hallann af því að ekki liggi fyrir nein formleg leyfi fyrir möninni eða undanþága frá skyldu hans til að koma uppgreftri í burtu. 

Ríkir hagsmunir séu af því fyrir lóðarhafa Illagils 16 að umrædd mön og uppgröfturinn allur verði fjarlægður.  Við val á lóð undir frístundahús ráði miklu hversu sterk náttúruupplifun svæðisins sé, þ.m.t. gróðurfar og útsýni.  Þeir sem leggi mikið upp úr slíkum þáttum velji sér lóðir á svæðum þar sem skipulag geri ráð fyrir sem minnstri röskun náttúrulegs umhverfis, líkt og skipulag svæðisins í Illagili geri.  Ákvörðun um að leyfa möninni að standa hafi því ekki einungis neikvæð áhrif á einstaklingsbundna upplifun nágranna heldur verði það einnig til þess að ekki sé hægt að treysta á að skipulag svæðisins verndi þau gæði sem því sé ætlað.  Möguleikar á nýtingu landsins séu því skertir með tilheyrandi verðrýrnun.
 
Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 9. apríl 2013.

Niðurstaða:  Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og  byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kæra í máli þessu var móttekin 11. nóvember 2011, eða rúmum ellefu mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.  Barst því kæran að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga og skömmu áður en kæran barst var kæranda tilkynnt um væntanlega ákvörðun um dagsektir til að fylgja eftir hinni kærðu ákvörðun.  Af þessum ástæðum verður kærumál þetta tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna, þar sem afsakanlegt þykir, eins og hér stendur sérstaklega á, að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið veittur andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaga áður en hin kærða ákvörðun var tekin, en hún er íþyngjandi gagnvart kæranda.  Sá annmarki á málsmeðferð ákvörðunarinnar telst verulegur eins og á stóð og ber af þeim sökum að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 1. desember 2010 um að kæranda beri að fjarlægja jarðvegsmön af lóðinni Illagili 21 innan 90 daga.

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Hildigunnur Haraldsdóttir

21/2012 Hafnarbraut Njarðvík

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2012, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. desember 2011, um að Olíudreifing ehf. skyldi fara í frekari hreinsun á olíumengun á lóðinni að Hafnarbraut 6 í Njarðvík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2012, er barst nefndinni 16. s.m., framsendi formaður úrskurðarnefndar þeirrar sem starfaði skv. ákvæði 31. gr. laga nr. 7/1998, fyrir breytingu þess skv. 17. gr. laga nr. 131/2011, kæru Thelmu Halldórsdóttur hdl., f.h. Olíudreifingar ehf., Hólmaslóð 8-10, Reykjavík, sem borist hafði 13. mars 2012. Kærð er ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. desember 2011, um að Olíudreifing skyldi fara í frekari hreinsun á olíumengun á lóðinni að Hafnarbraut 6 í Njarðvík.

Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst hann þess, með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað uns kærumálið hefur verið leitt til lykta. Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hefur verið fallist á frestun réttaráhrifanna. 

Gögn bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 15. ágúst 2013. Bréf heilbrigðiseftirlitsins er dagsett 20. apríl 2012, en upphafleg sending þess misfórst. 

Málavextir: Við Hafnarbraut 6 í Njarðvík rak kærandi olíubirgðastöð, en árið 2001 hafði rekstri stöðvarinnar verið hætt og ákveðið var að selja lóðina. Kærandi lýsir því í greinargerð sinni að árið 2010 hafi verið ákveðið að biðja Almennu Verkfræðistofuna um að meta hversu menguð lóðin væri. Niðurstaða verkfræðistofunnar hafi verið að nauðsynlegt væri að fjarlægja um 200 m³ af jarðvegi og hafi 330 m³ verið fjarlægðir. 

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja tók jarðvegssýni að Hafnarbraut 6 hinn 25. nóvember 2011 og sendi þrjú sýni í greiningu á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Við rannsóknina greindist mjög niðurbrotin dísilolía í jarðveginum, 16.400, 15.500 og 12.100 mg/kg. Í framhaldinu sendi heilbrigðiseftirlitið kæranda bréf, dagsett 6. desember 2011, þar sem fram kom að í ljósi niðurstaðanna væri hreinsun olíumengunar á lóðinni ófullnægjandi og að kærandi skyldi hreinsa lóðina frekar. Í bréfinu sagði að kærandi gæti komið á framfæri skriflegum athugasemdum skv. 13. gr. stjórnsýslulaga. Af hálfu kæranda var sendur tölvupóstur til heilbrigðiseftirlitsins 8. desember 2011, þar sem spurt var við hvaða mörk væri miðað þegar segði að grafa ætti meira upp. Í svari heilbrigðisfulltrúa kom fram að olíumagn í jarðvegi mætti ekki vera meira en 500 mg/kg, sem væru skilgreiningarmörk á óvirkum úrgangi samkvæmt reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Með bréfi, dagsettu 9. desember 2011, mótmælti kærandi kröfum heilbrigðiseftirlitsins. Taldi hann reglugerð um urðun úrgangs ekki taka til þeirra aðstæðna sem um ræddi, en rétt væri að vinna samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins nr. 8 frá 1998, um meðferð á olíumenguðum jarðvegi. Í svari heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 14. desember 2011, sagði að heilbrigðiseftirlitið héldi sig við fyrri kröfu sína um að fram skyldi fara frekari hreinsun. 

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dagsettu 22. desember 2011, sér í lagi á hvaða lagagrundvelli hún byggði. Í rökstuðningi sínum, dagsettum 10. janúar 2012, vísaði heilbrigðiseftirlitið til fyrrnefndra niðurstaða rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Þá sagði að samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins nr. 8 frá 1998 skyldi kærandi framkvæma áhættumat. Einnig sagði að í grein 2.1.2.2, í viðauka við reglugerð um urðun úrgangs, kæmi fram að innihéldi jarðvegur meira en 500 ppm af jarðolíu teldist hann virkur úrgangur. Væri þá nauðsynlegt að hreinsa hann sérstaklega eða urða á urðunarstöðum fyrir spilliefni. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur í fyrsta lagi að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins feli í sér brot á lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Erfitt sé að átta sig á því á hvaða réttarheimild heilbrigðiseftirlitið byggi ákvörðun sína. Óljóst sé hvort það líti svo á að kærandi hafi urðað úrgang á lóðinni, og af þeim sökum eigi reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs við, eða hvort reglugerðin eigi við af einhverjum öðrum ástæðum. Kærandi telji ekkert ákvæði reglugerðarinnar veita heilbrigðiseftirlitinu heimild til að kveða á um frekari hreinsun mengaðs jarðvegs. Markmiðið með reglugerðinni sé að stuðla að því að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið. Í því máli sem hér um ræði hafi hins vegar ekki verið um urðun úrgangs að ræða. Lóðin hafi mengast vegna starfsemi kæranda, en jarðvegurinn teljist ekki vera úrgangur í skilningi reglugerðarinnar. Það sé því ekki ljóst hvernig heilbrigðiseftirlitið byggi kröfu sína um frekari hreinsun á reglugerð um urðun úrgangs. 

Í rökstuðningi heilbrigðiseftirlitsins frá 10. janúar 2012 hafi falist ný ákvörðun um að kærandi skyldi framkvæma áhættumat samkvæmt leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins. Ekki sé unnt að byggja kröfu um áhættumat á þeim leiðbeiningum þar sem ekki hafi verið brák á jarðvatni, sbr. töflu 3.1 í leiðbeiningunum.  

Þar sem hin kærða ákvörðun byggi ekki á skýrri lagaheimild feli hún í sér brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá verði að telja óheimilt að taka nýja ákvörðun í rökstuðningi fyrir fyrri ákvörðun. 

Kærandi telur í öðru lagi að ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins feli í sér brot gegn 20. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr svo málsaðili geti skilið hana og metið réttarstöðu sína. Litið sé svo á að stjórnvaldsákvarðanir þurfi yfirleitt að hafa að geyma a.m.k. fimm meginþætti. Í fyrsta lagi þurfi að tilgreina málið og aðila þess, í öðru lagi efnið sem sé til úrlausnar, í þriðja lagi rökstuðning fyrir niðurstöðu, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, í fjórða lagi þurfi niðurstaðan að vera skýr og loks þurfi að sinna leiðbeiningarskyldu skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Í ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sé hvorki að finna tilgreiningu á því efni sem til úrlausnar hafi verið né hafi niðurstaðan verið skýr og ákveðin. Í tölvupósti frá heilbrigðiseftirlitinu 8. desember 2011, sem útskýri grundvöll kröfunnar um frekari hreinsun á svæðinu, sé vísað til reglugerðar um urðun úrgangs, en ekki komi fram á hvaða ákvæði reglugerðarinnar krafan byggi. Í kjölfar óskýrra svara hafi kærandi óskað formlega eftir rökstuðningi. Sérstaklega hafi verið beðið um að útskýrt yrði á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin byggði. Í bréfi, dagsettu 10. janúar 2012, sem hafi borið yfirskriftina „Rökstuðningur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja“, hafi hins vegar ekki verið gerð nein tilraun til að skýra lagagrundvöll ákvörðunarinnar heldur hafi verið tekin ný ákvörðun þess efnis að kærandi skyldi framkvæma áhættumat á grundvelli leiðbeininga Hollustuverndar ríkisins. Skv. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli rökstuðningur fyrir ákvörðun aðeins snúa að þeim réttarreglum sem ákvörðun byggi á og tilvísunin eigi að vera nógu skýr til að aðili máls geti sjálfur kannað lagagrundvöll ákvörðunarinnar. Auk þess skuli greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið og sé ekki heimilt að taka nýja ákvörðun í rökstuðningi, líkt og heilbrigðiseftirlitið hafi gert. Þá hafi ekki verið gerð tilraun til að leiðbeina kæranda eins og skylt sé skv. 20. gr. stjórnsýslulaga. Hvorki sé gerð grein fyrir kæruheimild né heimild kæranda til að fá ákvörðunina rökstudda. 

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Bent er á að krafa heilbrigðiseftirlitsins um frekari hreinsun jarðvegs að Hafnarbraut 6 frá 6. desember 2011 feli ekki í sér formlega stjórnvaldsákvörðun. Aðeins sé um að ræða kröfu um að kærandi fari eftir þeim reglum sem um starfsemina gildi. Hins vegar geti það að kærandi hunsi kröfuna leitt til stjórnvaldsákvörðunar skv. 27. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það mál sem hér sé til meðferðar hafi ekki verið komið á það stig enda nefnd krafa aðeins ítrekuð í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 14. desember 2011. 

Þegar jarðvegur mengist af olíu verði til úrgangur. Yfirleitt sé þeim sem beri ábyrgð á menguninni gert að fjarlægja hinn mengaða úrgang og koma í förgun á stað sem hafi starfsleyfi til að taka við slíkum úrgangi. Það sé ætlun kæranda að leggja niður olíubirgðastöðina að Hafnarbraut 6 og selja lóðina. Þar sé uppsöfnuð olíumengun í jarðvegi eftir áratuga starfsemi birgðastöðvarinnar. Heilbrigðiseftirlitið skilgreini olíu sem þannig sé hellt í jörð sem úrgang sem viðkomandi hafi í vörslu sinni og telji að reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs gildi í nefndu tilfelli. Olía sem hellt sé niður í náttúrunni bindist jarðvegi og það sé nær ómögulegt að hreinsa slíka mengun nema með því að fjarlægja jarðveginn. Skilningur kæranda í aðra átt um þetta atriði sé í hæsta máta furðulegur. 

Í bréfi kæranda til heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 9. desember 2011, sé kröfu um hreinsun mótmælt með þeim rökum að reglugerð um urðun úrgangs eigi ekki við. Kærandi hafi talið að leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins um olíumengun í jarðvegi ættu við tilvikið. Heilbrigðiseftirlitið telji leiðbeiningarnar ekki eiga við en hafi þó fallist á beiðni kæranda um að miða aðgerðir við þær enda hafi embættið talið að það breytti ekki eðli málsins. Leiðbeiningar þessar séu um margt úreltar og hafi enga lagalega þýðingu og því sé einungis hægt að hafa þær til hliðsjónar. 

Því sé mótmælt að umdeild krafa um hreinsun jarðvegs hafi verið óljós en hún hafi verið skýrð enn frekar að beiðni kæranda. Það að kærandi hafi ekki fallist á þau lagarök sem sett hafi verið fram sé síðan annað mál. Þess beri að geta að kærandi sé olíufyrirtæki sem búi yfir a.m.k. jafn mikilli sérþekkingu á málaflokknum og starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins, enda hafi hann staðið í sambærilegum aðgerðum áður. Það veki því nokkra furðu að í stjórnsýslukærunni skuli fundið að því að fyrirtækinu hafi ekki verið gert ljóst á hvaða ákvæði reglugerðarinnar krafan byggði. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 10. janúar 2012, sé kæranda sérstaklega bent á gr. 2.1.2.2 í viðauka reglugerðar um urðun úrgangs varðandi þau mörk sem löggjafinn telji að miða eigi við þegar tekin sé ákvörðun um urðun olíumengaðs jarðvegs á urðunarstöðum fyrir spilliefni. 

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins. 

Niðurstaða: Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þannig eru aðeins kæranlegar þær ákvarðanir og þau úrlausnaratriði sem afmörkuð eru í lögum og að teknu tilliti til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða aðeins þær ákvarðanir er binda enda á mál bornar undir úrskurðarnefndina. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja telur kröfu sína um hreinsun lóðarinnar að Hafnarbraut 6 ekki hafa falið í sér stjórnvaldsákvörðun og hún sé þar af leiðandi ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Aðeins hafi verið um að ræða kröfu um að kærandi fari eftir þeim reglum sem um starfsemi hans gildi.

Í fyrsta bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dagsettu 6. desember 2011, var bent á rétt kæranda til að koma á framfæri andmælum, sem hann gerði. Í bréfi eftirlitsins 14. s.m. var vísað til þess að andmælin hefðu verið móttekin, en eftirlitið héldi sig við kröfu sína. Í bréfinu var kveðið á um skyldu kæranda til að hreinsa hinn olíumengaða jarðveg. Þá var veittur rökstuðningur samkvæmt beiðni kæranda í bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 10. janúar 2012. Af greindum atvikum verður ekki annað ráðið en að heilbrigðisyfirvöld á Suðurnesjum hafi í skjóli opinbers valds lagt þær skyldur á herðar kæranda að fjarlægja þann jarðveg á athafnasvæði hans sem talinn var mengaður olíu umfram tiltekin mörk. Liggur því fyrir í málinu kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með reglugerð nr. 105/2004 var reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, breytt á þann veg að öllum starfandi olíubirgðastöðvum var gert að hafa gilt starfsleyfi eigi síðar en 31. desember 2005. Starfsleyfi skv. 15. gr. reglugerðar nr. 785/1999 skulu, ef nauðsynlegt reynist, tíunda viðeigandi ráðstafanir sem tryggja verndun jarðvegs og grunnvatns og meðhöndlun úrgangsefna sem falla til við atvinnureksturinn, sem og tilgreina ákvæði um eftirlit með losun. Þá er almenn skilyrði starfsleyfis að finna í 12. gr. reglugerðarinnar, m.a. þess efnis að gera skuli nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun og koma rekstrarsvæði í viðunandi horf þegar rekstur er stöðvaður. Fyrir liggur í málinu að á svæðinu hafi verið starfrækt olíubirgðastöð fram til ársins 2001 en samkvæmt framangreindu var starfsemin á þeim tíma ekki starfsleyfisskyld og koma því áðurgreind reglugerðarákvæði ekki til álita.

Kærandi telur að lagastoð hafi skort fyrir hinni kærðu ákvörðun, en heilbrigðiseftirlitið telur reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs eiga við. Markmiðið með reglugerðinni er að stuðla að því að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum árifum á umhverfið, sbr. 1. gr. hennar. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar á hún við um urðun úrgangs og skilyrði fyrir móttöku hans til urðunar. Þá er í reglugerðinni að finna fyrirmæli sem kveða á um urðun úrgangs sem starfsleyfisskylda starfsemi, um flokkun urðunarstaða, móttöku úrgangs og umsókn um starfsleyfi fyrir urðunarstaði. Beinast þvingunarúrræði reglugerðarinnar að rekstraraðilum urðunarstaða. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er vísað til gr. 2.1.2.2 í II. viðauka reglugerðarinnar um viðmiðanir og aðferðir við móttöku úrgangs, en ákvæðið á aðeins við um þau mörk olíu í jarðvegi sem miðað skal við þegar metið er hvort skila megi jarðveginum á urðunarstað fyrir óvirkan úrgang. Í reglugerðinni er ekki heimild til að mæla fyrir um að jarðvegur sé grafinn upp og honum fargað sé þéttni olíu yfir þeim mörkum að jarðvegurinn teljist tækur á urðunarstað fyrir óvirkan úrgang. Skiptir þá ekki máli þótt dísilolía geti fallið að skilgreiningu reglugerðarinnar á úrgangi. Leiðbeiningar Hollustuverndar ríkisins, sem jafnframt er skírskotað til, eru ekki bindandi reglur að lögum.

Ákvörðun um að kæranda sé gert að fjarlægja umræddan jarðveg er íþyngjandi og þarf að hafa skýra lagastoð. Eins og að framan er rakið er ekki við að styðjast viðhlítandi lagaheimild í umdeildu tilviki og verður ákvörðunin þegar af þeim sökum felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 14. desember 2011, um að kærandi skuli fara í frekari hreinsun olíumengunar á lóðinni að Hafnarbraut 6 í Njarðvík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson