Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2012 Ofanflóðavarnir

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Stekkur 23a, Patreksfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust greinargerð og gögn málsins frá Vesturbyggð 8. ágúst 2012 og í nóvember 2014.

Málavextir: Hinn 4. maí 2012 öðlaðist gildi breyting á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 vegna snjóflóðavarna undir Klifi á Patreksfirði og 24. s.m. var birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um nýtt deiliskipulag vegna téðra ofanflóðavarna. Á fundi bæjarráðs hinn 29. maí s.á. var tekin fyrir umsókn Vesturbyggðar um framkvæmdaleyfi til gerðar þvergarðs til varnar ofanflóðum og grjóthruni ofan byggðar á svæði á milli Vatneyrar og Geirseyrargils á Patreksfirði. Í umsókn var vísað til framlagðra gagna framkvæmdaaðila þar sem m.a. var tekið fram að varnargarðurinn yrði 10-12 m á hæð og 250 m langur og heildarrúmmál hans yrði um 42.000 m³. Jafnframt var tekið fram að gamlir túngarðar lægju ofan byggðar við Stekka. Þar væri gert ráð fyrir göngustíg og að stígurinn yrði útfærður nánar í verkhönnun í samræmi við Fornleifavernd ríkisins þannig að hann raskaði túngörðum sem minnst. Samþykkti bæjarráð veitingu leyfisins með skilyrðum um framkvæmd, tilhögun framkvæmda, mótvægisaðgerðir og vöktun á verkstað og í nánasta umhverfi. Hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun bæjarráðs til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að sveitarfélagið hafi farið út fyrir valdsvið sitt og ekki gætt lögvarinna hagsmuna kæranda með hinu kærða framkvæmdaleyfi. Hafi kærandi, sem sé landeigandi á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, ekki fengið þá kynningu sem honum hafi borið samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Sveitarfélagið hafi eingöngu staðið fyrir opnum almennum fundum og hafi ekki að fyrra bragði óskað eftir umsögn kæranda um framkvæmdir. Jafnframt hafi sveitarfélagið ekki upplýst kæranda með hnitsettum mælipunktum um hvar það hyggist fara yfir landareign hans þótt þeirra upplýsinga hafi verið óskað. Þá hafi sveitarfélagið breytt gögnum á þann veg að ekki þyrfti að taka tillit til athugasemda kæranda sem afgreiddar hafi verið á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2012, en þar hafi verið samþykkt að færa til göngustíg og setja hann ofanvert við hús kæranda. Í framhaldi þess fundar hafi komið fram ný gögn sem breyti lóðinni þannig að göngustígurinn liggi aftur í gegnum hana miðja. Með skriflegri umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja heimild landeiganda eða lóðarhafa fyrir framkvæmdunum, sé hann annar en umsækjandi, sem og samþykki meðeiganda sé um sameign að ræða. Jafnframt skuli afstöðuuppdráttur er sýni framkvæmdina fylgja umsókn og skuli hnitsetja hana eða málsetja fjarlægð í fast kennileiti.

Málsrök Vesturbyggðar: Skipulagsyfirvöld Vesturbyggðar skírskota til þess að heimilt hafi verið að falla frá skipulagslýsingu við gerð deiliskipulags ofanflóðavarna þar sem allar helstu forsendur fyrir snjóflóðavörnum og megin ástæður fyrir framkvæmdunum hafi verið kynntar í skipulagslýsingu á breytingu aðalskipulags. Tillagan hafi verið kynnt á opnum fundi en ekki hafi verið haldinn íbúafundur vegna nefnds deiliskipulags þar sem sveitar-stjórn sé heimilt lögum samkvæmt að falla frá kynningu á deiliskipulagi fyrir auglýsingu þar sem allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi. Engar athugasemdir hafi borist á kynningartíma aðalskipulagstillögunnar, en athugasemdir sem borist hafi á kynningartíma deiliskipulagsins hafi verið teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 10. febrúar 2012. Hafi athugasemd kæranda verið afgreidd á eftirfarandi hátt: „Minniháttar breytingar verða gerðar á fyrirhuguðum göngustíg sem nær í gegnum eignarlóð [kæranda]. Með breytingunum nær göngustígurinn ekki inn á lóðina og kemur þá ekki til framkvæmda inná lóð 140191.“

Gerð hafi verið breyting á deiliskipulaginu þar sem stígur hafi verið færður norðar en auglýst tillaga hafi gert ráð fyrir og út fyrir lóðarmörk Stekka 23a miðað við fyrirliggjandi gögn. Einnig hafi komið fram í greinargerð deiliskipulagsins að lega stígsins væri leiðbeinandi og nánari útfærsla háð hönnun. Bæjarstjórn hafi tekið fundargerð nefndarinnar fyrir á fundi 22. febrúar 2012 og vísað athugasemd kæranda til bæjarráðs, sem hafi falið bæjarstjórn að vinna að málinu áfram. Samþykkt deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda í maí 2012. Í júní s.á. hafi síðan verið gerð óveruleg breyting á deiliskipulaginu og stígurinn færður enn norðar, til að hlífa enn frekar minjum á svæðinu, og út fyrir lóðarmörk Stekka 23a, eins og útfærsla og hönnun hafi gefið tilefni til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna gerðar þvergarðs til varnar ofanflóðum og grjóthruni við Klif ofan byggðar á svæði milli Vatneyrar og Geirseyrargils á Patreksfirði. 

Fram er komið að breyting á aðalskipulagi Vesturbyggðar var samþykkt í sveitarstjórn áður en hið kærða framkvæmdaleyfi var veitt. Var landnotkun breytt á nánar afmörkuðu svæði, þ.e. ofan byggðar milli Vatneyrar og Geirseyrar. Samhliða breytingu á aðalskipulagi var unnið að gerð deiliskipulags vegna ofanflóðavarna neðan Klifs. Birtist auglýsing um samþykkt sveitarstjórnar og gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 24. maí 2012 og ákvað bæjarráð hinn 29. s.m. að veita hið kærða framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal sveitarstjórn við útgáfu fram-kvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir. Nýtt deiliskipulag vegna ofanflóðavarna neðan Klifs á Patreksfirði tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. febrúar 2013. Var eftirfarandi tekið fram í auglýsingunni: „Vegna formgalla er eldra deiliskipulag af svæðinu sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda þann 24. maí 2012 nr. 451/2012 ógilt.“ Verður og ráðið af auglýsingunni að auglýsing sú sem birtist 24. maí 2012 um gildistöku eldra deiliskipulags hafi ekki verið birt innan lögboðins frests skv. þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga og var deiliskipulagstillagan því ógild skv. nefndri lagagrein. Er því ljóst að hin kærða ákvörðun studdist við ógilt deiliskipulag.

Í 5. mgr. nefndrar 13. gr. skipulagslaga kemur fram að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Hins vegar kemur fram í gr. 4.18.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir varnarvirkjum þar sem þau séu fyrir eða fyrirhuguð, en í umræddri grein var fjallað um svæði undir náttúruvá í skipulagsáætlunum. Þá var kveðið á um í gr. 4.16.2 reglugerðarinnar að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skyldi gera grein fyrir göngustígum, þegar til staðar eða fyrirhuguðum, og að við deiliskipulag svæða í þéttbýli skyldi gera grein fyrir fyrirkomulagi göngustíga eftir því sem við ætti. Er því ekki hægt að líta svo á að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi átt sér stoð í aðalskipulagi Vesturbyggðar þrátt fyrir þær breytingar sem á því voru gerðar.

Samkvæmt framangreindu var hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svo sem nauðsyn bar til, sbr. 4. mgr. 13. skipulagslaga. Verður því ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Vesturbyggðar frá 29. maí 2012 um að veita fram-kvæmdaleyfi fyrir ofanflóðavörnum neðan Klifs á Patreksfirði.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

109/2013 Austurgata

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 27. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2013, sem barst nefndinni 14. s.m., kæra eigendur að Austurgötu 24, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu. Er þess krafist „að nýbyggingar á lóðunum nr. 22 og 22b við Austurgötu falli betur [að] núverandi skipulagi, skeri sig ekki úr núverandi götumynd Austurgötunnar og séu með nægjanlegum fjölda bílastæða“.

Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi er varðar breytingar á lóðum nr. 22 og 22b við Austurgötu.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 28. nóvember 2013.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 28. maí 2013 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna Austurgötu 22 og 22b og Strandgötu 19. Í henni fólst að lóðirnar Austurgata 22 og 22b yrðu sameinaðar í eina lóð og gert væri ráð fyrir sex íbúðum á lóðinni ásamt sex bílastæðum, þar af einu fyrir hreyfihamlaða. Að auki var gert ráð fyrir tveggja hæða nýbyggingu á baklóð Strandgötu 19 með fjórum íbúðum. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og var það gert 6. júní s.á., með athugasemdarfresti til 19. júlí s.á. Bárust athugasemdir við tillöguna, þ. á m. frá kærendum. Hinn 27. september s.á. var breytingin samþykkt af skipulags- og byggingarráði með svohljóðandi bókun: „Skipulags- og byggingarráð samþykkir deiliskipulagið þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum, og að málinu verði lokið skv. 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Skipulags- og byggingarráð tekur undir svör skipulags- og byggingarsviðs með áorðnum breytingum og gerir þau að sínum.“ Var athugasemdum kærenda svarað með bréfi sama dag og þar tekið fram hverjar breytingar hefðu verið gerðar að teknu tilliti til athugasemdanna. Var breyting á deiliskipulaginu samþykkt af bæjarstjórn 2. október 2013 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. nóvember s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að fyrirhuguð bygging við Austurgötu 22 standi við hlið húss kærenda að Austurgötu 24 og tilheyri því Austurgötu en ekki Linnetsstíg. Því ætti að taka mið af húsum við Austurgötu en ekki aðeins húsi eða húsum við Linnetstíg. Sé stærð og ásýnd fyrirhugaðra bygginga að Austurgötu 22 ekki í neinu samræmi við núverandi götumynd. Að auki sé aðeins gert ráð fyrir sex bílastæðum á fyrirliggjandi teikningu og þar af einu stæði fyrir fatlaða, en kærendur telji það of lítið. Nú þegar séu vandræði með bílastæði við götuna. Í svari Hafnarfjarðarbæjar sé bent á að bílastæði í miðbæ Hafnarfjarðar geti nýst allri umferð um götur með aðkomu frá Strandgötu. Hins vegar hafi Austurgata ekki aðkomu frá Strandgötu heldur Linnetstíg og sé ekki hægt að ætla íbúum Austurgötu að nýta bílastæði í miðbæ Hafnarfjarðar. Loks líti kærendur svo á að athugasemdum þeirra hafi ekki verið svarað þar sem í svarbréfi sveitarfélagsins hafi einungis verið tekið tillit til tveggja þeirra athugasemda sem kærendur hafi haft í frammi, auk þess sem í svarbréfinu sé eingöngu fjallað um aðra þeirra tveggja lóða sem um ræðir.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að lóðirnar Austurgata 22 og 22b hafi samkvæmt skipulagsbreytingunni verið sameinaðar í eina lóð. Hafi ekki borist neinar athugasemdir vegna þeirrar sameiningar. Fyrirhugaðar nýbyggingar á lóð Austurgötu 22 muni ekki hafa áhrif á götumynd Austurgötu þar sem þær muni standa innarlega á lóðinni en ekki út við götu. Að auki haldist klettur við götu óbreyttur. Séu nýbyggingarnar lægri en hús á horni Austurgötu og Linnetsstígs. Hvað varði bílastæði sé í gildandi deiliskipulagi Hafnarfjörður, miðbær 2000, gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja íbúð en fyrirhugað sé að reisa þar sex íbúðir. Að auki muni bílastæði fyrir fatlaða tilheyra einni íbúðinni. Þá sé tekið fram að við meðferð deiliskipulagsbreytinganna hafi verið komið til móts við athugasemdir kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er skírskotað til þess að fyrirhugaðar nýbyggingar séu ekki hærri en nærliggjandi hús við Austurgötu sem séu tveggja hæða. Þetta sé svipað fyrirkomulag og á húsi sem áður hafi staðið á lóðinni Austurgötu 22b en verið rifið árið 2006. Sé gert ráð fyrir sex 80 m2 íbúðum í fyrirhuguðum húsum á lóðinni. Samkvæmt skipulagi sé bílastæðaþörf fyrir þessa stærð íbúða eitt stæði á hverja íbúð og sé af þeim sökum gert ráð fyrir sex bílastæðum fyrir lóðina, þar af einu fyrir hreyfihamlaða. Geti það ekki talist óeðlilegt að litlum íbúðum í miðbæ fylgi eitt stæði og varla sé hægt að ætlast til þess að eigendur lóðarinnar útvegi stæði fyrir nærliggjandi þjónustu eða íbúðir. Sé ekki sanngjarnt að reikna með því að meint bílastæðavandræði verði leyst á kostnað lóðareiganda Austurgötu 22. Sú lóð sé að nokkru leyti skorin frá götumyndinni þar sem stór klettur sé á milli Austurgötu 22 og 24. Fyrirhuguð hús muni standa aðeins innar í lóðinni en flest hús við Austurgötu til að hægt sé að nýta hluta lóðarinnar fyrir bílastæði. Að öðru leyti muni húsin falla vel að götumynd Austurgötu. Hafi deiliskipulagið verið lengi í vinnslu og unnið í góðri samvinnu við bæjaryfirvöld. Hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem borist hafi og tillögunni breytt með hliðsjón af þeim. Byggingarmagn hafi verið minnkað og lögun bygginga breytt, m.a. til að sjónlínur myndu haldast frá Strandgötu að Fríkirkjunni við Austurgötu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóðanna Austurgötu 22 og Strandgötu 19.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti, þ.m.t. götumynd. Með hliðsjón að framangreindu verður að líta svo á að ákvörðun um götumynd lúti fyrst og fremst skipulagslegum markmiðum sem eru á forræði sveitarfélaga fremur en lögvörðum hagsmunum einstaklinga.
Hin umdeilda tillaga var auglýst til kynningar og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Afstaða var tekin til athugasemda kærenda og þeim svarað auk þess sem nokkuð tillit var tekið til þeirra við endanlega afgreiðslu breytingartillögunnar. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð því lögum samkvæmt.
   
Loks er hvorki að finna í lögum eða reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða. Á uppdrætti deiliskipulagsins Hafnafjörður, miðbær 2000, var ekki gert ráð fyrir bílastæðum á greindum lóðum en í greinargerð með deiliskipulaginu segir varðandi umrætt skipulagssvæði að fyrir nýjar íbúðir sé gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja íbúð en að öðru leyti sé ekki gert ráð fyrir breytingum á bílastæðakröfum. Hin umþrætta deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir einu bílastæði á hverja íbúð og fer því ekki í bága við almenna skilmála gildandi deiliskipulags á svæðinu.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

64/2012 Breiðadalsvirkjun

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 7. júní 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 1.200 m þrýstivatnslagnar frá stöðvarhúsi að inntaki í Heiðarvatnslæk og Langá og fyrir inntaksþró vegna stækkunar Breiðadalsvirkjunar í Önundarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. fjögurra eigenda að hluta Neðri-Breiðadals, Önundarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 7. júní 2012 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu þrýstivatnslagnar frá stöðvarhúsi að inntaki í Heiðarvatnslæk og Langá, ásamt steyptri inntaksþró, til stækkunar á Breiðadalsvirkjun. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar en með bréfi sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar til framkvæmdaleyfishafa, dags. 12. júlí 2012, voru framkvæmdir í landi Langár stöðvaðar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn og greinargerðir frá Ísafjarðarbæ 10. og 16. júlí og 13. ágúst 2012. Einnig bárust nefndinni gögn í málinu í nóvember 2014.
Málavextir: Árið 2010 tók gildi deiliskipulag í landi Veðrarár 2, sunnan Breiðadalsár í landi Breiðadals, fyrir byggingu Breiðadalsvirkjunar. Kom fram í greinargerð skipulagsins að um væri að ræða 150 kW rennslisvirkjun og að vatnsöflun virkjunarinnar byggðist á nýtingu lindarvatns og yfirborðsvatns úr Nautaskál. Var leyfi til framkvæmda vegna virkjunarinnar samþykkt sama ár en byggingarleyfi mun hafa verið samþykkt á árinu 2011. Hinn 21. nóvember 2011 samþykkti byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar umsókn um stofnun fasteignarinnar Langár úr jörðinni Neðri-Breiðadal. Komu kærendur á framfæri athugasemdum vegna þessarar afgreiðslu með bréfi, dags. 2. mars 2012. Vísuðu þeir til þess að óræktað land umræddrar jarðar væri í óskiptri sameign allra eigenda hennar og að kærendur sem ættu fjögur hundruð úr fornu mati jarðarinnar hefðu ekki komið að fyrrgreindri umsókn, svo sem áskilið væri að lögum. Fóru þeir fram á að byggingarfulltrúi veitti nánari skýringar og endurskoðaði skráningu fasteignarinnar. Hafnaði byggingarfulltrúi þeirri beiðni með bréfi, dags. 9. mars s.á. Var þar jafnframt tekið fram að gögn sem legið hefðu til grundvallar stofnun fasteignarinnar væru frá landeiganda Neðri-Breiðadals 1 og að byggingarfulltrúi hefði ekki gögn er sýndu að jörðinni Neðri-Breiðadal hefði verið skipt upp.

Á fundi bæjarráðs 12. mars 2012 var lagt fram til kynningar erindi, dags. 5. febrúar s.á., þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi fyrir stækkun Breiðadalsvirkjunar. Í bréfinu var vikið að því að árið 2010 hefði verið sótt um leyfi til stækkunar á Breiðadalsvirkjun sem fólst í því að veita viðbótarvatni í stöðina frá Heiðarvatnslæk og Langá. Ekki hefði náðst samkomulag við landeiganda Neðri-Breiðadals vegna vatnsréttinda en nú hefði umsækjandi tryggt sér öll vatnsréttindi með kaupum á lóð úr landi þeirrar jarðar. Jafnframt kom eftirfarandi fram: „Ljóst er að breytingarnar fela í sér frávik frá gildandi deiliskipulagi virkjunarinnar hvað varðar legu vatnslagna og inntaka. Breytingarnar eru hins vegar þess eðlis að þær geta ekki á nokkurn hátt haft áhrif á aðra en framkvæmdaraðila sem umráðaaðila alls lands og vatnsréttinda tengdum framkvæmdunum. Breytingarnar fela ekki í sér breytingar á byggingarreit eða byggingum. Breytingarnar felast aðallega í lögnum sem lagðar verða neðanjarðar og að mestu leyti í vegkanti, slíkar framkvæmdir eru að öllu jöfnu ekki háðar deiliskipulagi. Það er því álit framkvæmdaraðila að breytingarnar séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt deiliskipulag eða grenndarkynningu.“ Umsókninni fylgdi greinargerð um virkjunina og afrit af kaupsamningi vegna lóðarinnar Langár.

Málinu var vísað til umhverfisnefndar sem tók það fyrir á fundi hinn 27. mars s.á. Lá fyrir fundinum erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað var umsagnar Ísafjarðarbæjar á því hvort og á hvaða forsendum framkvæmdir við Breiðadalsvirkjun skyldu háðar mati á umhverfisáhrifum. Var eftirfarandi fært til bókar: „Með vísan í 3. viðauka laga nr. 106/2000 telur umhverfisnefnd ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum fyrir framkvæmd af þessari stærðargráðu. Þá telur nefndin ekki þörf á breytingu á deiliskipulagi þar sem leyfisskylda framkvæmdin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda.“ Hinn 18. apríl s.á. lá álit Skipulagsstofnunar fyrir og var það niðurstaða stofnunarinnar að 500 kW Breiðadalsvirkjun skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var bent á að breytt tilhögun við virkjunina væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins og að breyta þyrfti deiliskipulagi áður en framkvæmdaleyfi og virkjunarleyfi væri gefið út.

Með bréfi til Sýslumannsins á Ísafirði, dags. 27. apríl s.á., fóru kærendur fram á að þinglýst yrði kröfu þeirra um leiðréttingu í þinglýsingarbók vegna stofnunar fasteignarinnar Langár úr óskiptu landi jarðarinnar Neðri-Breiðadals. Sama dag kröfðust kærendur þess með bréfi til byggingarfulltrúa að ákvörðun hans um stofnun fasteignarinnar yrði afturkölluð. Hafnaði byggingarfulltrúi fram kominni kröfu kærenda með bréfi, dags. 8. maí s.á., með vísan til þess að engin gögn hefðu verið lögð fram er sýndu að ranglega hefði verið staðið að stofnun fasteignarinnar.

Umsóknin var lögð fram að nýju á fundi umhverfisnefndar hinn 18. maí s.á. og afgreiðslu frestað þar til niðurstaða um landskipti lægi fyrir. Málið var tekið fyrir á ný á fundi nefndarinnar hinn 21. s.m. og svohljóðandi fært til bókar: „Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir lagningu 1.200 m þrýstivatnslagnar frá stöðvarhúsi að inntaki í Heiðarvatnslæk og Langá, ásamt steyptri inntaksþró, enda er framkvæmdaaðili þinglýstur eigandi af landinu samkvæmt gögnum frá Sýslumanni.“ Var málið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar hinn 24. s.m. en afgreiðslu þess frestað. Með bréfi sýslumanns til lögmanns kærenda, dags. 24. maí 2012, var kröfu um leiðréttingu synjað að svo stöddu með vísan til þess að ekki hefðu verið færð fram veigamikil rök fyrir efnislega rangri færslu. Í framhaldi af því fór lögmaður kærenda fram á, með bréfi til sýslumannsins, dags. 31. s.m., að sú afstaða yrði endurskoðuð.

Hinn 7. júní 2012 var umsóknin „… er varðar stækkun Breiðadalsvirkjunar með því að veita viðbótarvatni í stöðina frá Heiðarvatnslæk og Langá …“ tekin fyrir á ný á fundi bæjarstjórnar. Fyrir fundinum lá minnisblað byggingarfulltrúa um málið og var tillaga umhverfisnefndar um að samþykkja téð framkvæmdaleyfi samþykkt samhljóða.

Sýslumaður tók mál kærenda fyrir að nýju 12. júní 2012 og var fyrrgreind krafa þeirra um leiðréttingu í þinglýsingarbók nú tekin til greina. Hinn 12. júlí s.á. tilkynnti Ísafjarðarbær framkvæmdaleyfishafa bréflega að allar framkvæmdir í landi Langár væru stöðvaðar þar til skorið hefði verið úr um eignarrétt að landinu.

Fékk Breiðadalsvirkjun virkjunarleyfi frá Orkustofnun fyrir 570 kW virkjun 13. ágúst 2012.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þeir eigi 4 hundruð að fornu mati jarðarinnar Neðri-Breiðadals, en jörðin sé samtals 24 hundruð að fornu mati. Árið 1926 hafi þáverandi eigendur skipt upp heimatúni jarðarinnar og árið 1932 hafi öllu ræktunarlandi jarðarinnar verið skipt upp milli eigenda. Úthagi og hlunnindi, s.s. vatnsréttindi, hafi hins vegar verið áfram í óskiptri sameign eigenda jarðarinnar í réttu hlutfalli við eignarhluta hvers og eins í jörðinni. Eftir skiptin sé talað um Neðri-Breiðadal 1-4 til aðgreiningar á eignarhluta hvers eiganda en eignarhluti kærenda sé nefndur Neðri-Breiðadalur 2. Þá vísi kærendur til afsals, dags. 23. janúar 1935.

Hafi byggingarfulltrúi fallist á umsókn um stofnun lóðar úr jörðinni Neðri-Breiðadal án þess að leita eftir afstöðu sameigenda að jörðinni. Uppdráttur sem fylgt hafi umsókn gefi ótvírætt til kynna að hin nýja lóð sé úr óskiptu landi jarðarinnar Neðri-Breiðadals og að stofnun lóðarinnar sé liður í virkjun árinnar Langár. Staðfesti gögn úr þinglýsingarbók að svo sé og hafi sameigendur jarðarinnar í raun aldrei um það deilt að úthagi og hlunnindi hennar væru í óskiptri sameign. Geti hluti sameigenda að landi ekki stofnað til nýrrar fasteignar úr óskiptu landi án samþykkis meðeigenda sinna, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001. Hafi Ísafjarðarbær þegar af þeirri ástæðu einni ekki getað samþykkt framkvæmdir á lóðinni nema fyrir hendi væri samþykki allra eigenda viðkomandi eignar. Sé bent á að Sýslumaðurinn á Ísafirði hafi samþykkt að þinglýsa kröfu um leiðréttingu í fasteignabók þar sem hann hafi talið að veigamikil rök hefðu verið færð fram fyrir því að færslan væri efnislega röng og kærendum til réttarspjalla. Renni afstaða sýslumanns enn frekari stoðum undir þetta sjónarmið kærenda.

Grundvallarforsenda þess að framkvæmdarleyfi/byggingarleyfi sé samþykkt samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 hljóti að vera sú að réttir eigendur, og eftir atvikum allir eigendur, ef um sameign sé að ræða, standi að umsókn um slíkrar framkvæmdir. Í ljósi þess að ekki hafi verið rétt staðið að stofnun fasteignarinnar Langár sé einsýnt að fella beri hið kærða framkvæmdaleyfi úr gildi.

Þá verði ekki séð að bæjarstjórn hafi fjallað um og tekið afstöðu til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, svo sem beri að gera skv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærendum sé ekki kunnugt um hvort umrædd fasteign sé á svæði sem hafi verið deiliskipulagt. Sé ekki svo geti sveitarstjórn aðeins veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Að auki skuli sveitarstjórn leita umsagnar viðeigandi umsagnaraðila áður en tekin sé afstaða til útgáfu leyfisins. Það hafi ekki verið gert og sé sú málsmeðferð með miklum ólíkindum, ekki síst í ljósi fram kominna athugasemda kærenda, m.a. varðandi eignarhald á fasteigninni.

Loks sé tekið fram að bæði umhverfisnefnd og bæjarstjórn hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segi að mál skuli vera nægilega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Af fyrirliggjandi gögnum megi ljóst vera að engin skoðun hafi farið fram hjá nefndum aðilum áður en ákvörðun hafi verið tekin um útgáfu leyfisins þrátt fyrir athugasemdir kærenda. Mikilvægt sé hins vegar að hafa í huga í þessu sambandi að sýslumaður hafi séð ástæðu til að endurskoða afstöðu sína til málsins eftir að hafa farið yfir gögn þess.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að ákvörðun byggingarfulltrúa um stofnun og skráningu lóðarinnar Langár hafi verið byggð á þeirri forsendu að um væri að ræða lóð sem umsækjandi um skiptingu lóðarinnar væri einn eigandi að. Hafi umrædd lóð síðar verið seld til X., sem hafi fengið framkvæmdaleyfi sem þinglýstur eigandi hennar.

Umrædd lóð hafi ekki verið skráð í Fasteignabók og hafi því ekki haft landnúmer. Í kjölfar athugasemda frá kærendum hafi sveitarfélagið óskað eftir upplýsingum og gögnum um eignarheimild þáverandi eiganda að lóðinni og þá hvaðan sú eignarheimild væri leidd. Hafi þáverandi eigandi með bréfi, dags. 3. ágúst 2012, tekið fram að hann teldi að eigendur Neðra-Breiðadals 2 hefðu ekki eignast hlutdeild í óskiptri sameign jarðarinnar Neðra-Breiðadals með afsali, dags. 23. janúar 1935, líkt og kærendur telji, þar sem ekkert hefði verið tekið fram í afsalinu um að eigninni fylgdi hlutdeild í óskiptri sameign. Hafi hann lagt fram frekari gögn sem að hans mati styðji þá túlkun. Hins vegar mætti leiða eignarheimild hans af eignarhaldi hans á Neðri-Breiðadal 1, 3 og 4, en þeim eignarhlutum hafi fylgt hlutdeild í umræddri óskiptri sameign. Af því leiddi að hann ætti einn það land sem lóðin Langá hefði verið stofnuð úr. Telji Ísafjarðarbær ljóst að ágreiningur sé um eignarheimild að framangreindri spildu.

Úrskurðarnefndin tilkynnti framkvæmdaleyfishafa um fram komna kæru og veitti honum frest til að koma að greinargerð og gögnum í máli þessu en hvorugt hefur borist.

——–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er tekist á um gildi framkvæmdaleyfis fyrir lagningu 1.200 m þrýstivatnslagnar frá stöðvarhúsi að inntaki í Heiðarvatnslæk og Langá og fyrir inntaksþró vegna stækkunar Breiðadalsvirkjunar í Önundarfirði. Telja kærendur að óheimilt hafi verið að veita framkvæmdaleyfið án þeirra samþykkis sem sameigenda að hluta jarðarinnar Neðri-Breiðadals.

Eignarréttarlegur ágreiningur, sem og ágreiningur um efni þinglýstra réttinda, heyrir undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og verður við þær að styðjast við töku stjórnvaldsákvarðana hverju sinni. Fyrir liggur að þegar sveitarstjórn samþykkti hið kærða framkvæmdaleyfi hinn 7. júní 2012 var umsækjandi leyfisins þinglýstur eigandi landspildunnar Langár, sem skipt hafði verið úr landi Neðri-Breiðadals í nóvember 2011.

Fram kemur í umsókn um hið umdeilda framkvæmdaleyfi að í framkvæmdunum felist frávik frá gildandi deiliskipulagi hvað varði legu vatnslagna og inntaka. Í umsókninni er vísað til greinargerðar um virkjunina og er virkjuninni þar lýst með breytingum frá því sem kynnt var í deiliskipulagi. Samkvæmt greinargerðinni felast breytingarnar í stækkun virkjunarinnar og auknu virkjuðu vatnsmagni, sem fáist með veitulögn sem sameini vatn úr þremur lækjum í stað nýtingar úr einum þeirra áður. Þá segir í greinargerðinni um skipulagsmál: „Ekki er gert ráð fyrir virkjuninni í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar en í gildi er deiliskipulag fyrir Breiðadalsvirkjun sem samþykkt var árið 2008.“ Loks er greint frá því að virkjunin verði tengd dreifikerfi Orkubús Vestfjarða.

Á umræddu svæði gildir Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Í kafla 8.7 í greinargerð þess er gert ráð fyrir „… að landeigendur geti virkjað bæjarlækinn, með smávirkjun, á þeim svæðum sem gert er ráð fyrir einhverri byggð“. Þá séu rennslisvirkjanir heimilar að fengnu framkvæmdaleyfi, allt að 200 kW án uppistöðulóns, án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Jafnframt segir í kafla 11.2 í greinargerð skipulagsins að gera skuli grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum stofnkerfum vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu, fjarskipta og fráveitu, en með stofnkerfi sé átt við flutningskerfi, frá upptökum að dreifikerfi. Samkvæmt því sem að framan er rakið, og með hliðsjón af því að í umsókn og fylgigögnum sem lágu leyfisveitingunni til grundvallar kemur fram að breytt tilhögun muni leiða til allt að 500 kW virkjunar, verður ekki talið að heimilt hafi verið, að óbreyttu aðalskipulagi, að samþykkja leyfi til umræddra framkvæmda. Þá er ljóst af því sem áður er lýst og gögnum málsins að breytt tilhögun við Breiðadalsvirkjun víkur frá gildandi deiliskipulagi sem fól í sér heimild fyrir gerð 150 kW virkjunar er nýta skyldi lindarvatn og yfirborðsvatn úr Nautaskál. Hin umdeilda þrýstivatnslögn er að hluta til utan deiliskipulagssvæðis en sá hluti hennar sem innan þess liggur er ekki í samræmi við deiliskipulagið. Þá eru inntaksmannvirki þau sem heimiluð eru með hinu kærða leyfi utan deiliskipulagssvæðisins auk þess sem fyrirhugað afl virkjunarinnar er mun meira en deiliskipulagið veitir heimild fyrir.

Samkvæmt því sem að framan greinir var ekki gætt ákv. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þess efnis að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. einnig 8. tl. 2. gr. sömu laga. Er hin kærða ákvörðun því haldin slíkum annmörkum að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 7. júní 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 1.200 m þrýstivatnslagnar frá stöðvarhúsi að inntaki í Heiðarvatnslæk og Langá og fyrir inntaksþró vegna stækkunar Breiðadalsvirkjunar í Önundarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

65/2013 Aflífun hunds

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa hundinn X.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir M, þá ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 að aflífa þegar í stað hund hennar X. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt krefst kærandi þess að fá afhent hræið af hundinum sem og að honum verði úrskurðaðar bætur.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 24. september 2013.

Málavextir: Hinn 13. mars 2013 barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning frá leikskóla í Reykjanesbæ þess efnis að þar væri þýskur fjárhundur laus. Hundurinn hefði verið ógnandi og því hefði leikskólabörnum verið haldið innandyra. Lögreglan á Suðurnesjum tilkynnti málið til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Við árangurslausa tilraun til þess að koma ól á hundinn var eftirlitsmaðurinn bitinn í hendi og hlaut vegna þess aðhlynningu á heilbrigðisstofnun Suðurnesja þann sama dag.

Frekari tilraunir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins til að fanga hundinn mistókust og mun í framhaldi hafa verið ákveðið að stugga við hundinum í þeim tilgangi að koma honum heim til sín. Þar náði kærandi síðan að koma hálsól og múl á hundinn og var hann í kjölfarið tekinn í vörslu heilbrigðiseftirlitsins.

Ekið var með hundinn á hundahótel en þegar þangað var komið ákvað framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins að ekki væri rétt að setja hundinn í geymslu heldur bæri að aflífa dýrið. Var það gert og hræið brennt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hafi hundurinn bitið fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins hafi það verið gert í varnarskyni og af hræðslu við ókunnuga eftir að þeir hefðu stuggað við dýrinu. Sömu ástæður hafi legið að baki hegðun hundarins þegar hann hafi verið færður á hundahótelið til geymslu. Hundurinn hafi almennt verið vinalegur, án skapgerðabresta, og hvorki verið árásargjarn gagnvart fjölskyldumeðlimum né gestum á heimili fjölskyldunnar. Í skapgerðamati dýrasálfræðings, dags. 16. apríl 2010, sem á sínum tíma hafi verið grundvöllur þess að innflutningsleyfi hafi fengist fyrir hundinn, komi fram að hundurinn hafi verið skapgóður. Í niðurlagi matsins komi fram að hundurinn hafi haft jafnaðargeð, verið vinalegur og ekki sýnt einkenni árásargirni.

Ekki hafi verið rétt staðið að aflífuninni. Í samþykkt um hundahald á Suðurnesjum sé ekki kveðið með skýrum hætti á um það hvernig staðið skuli að ákvörðunartöku um aflífun hunda. Slíkt verði aftur á móti ekki gert nema að undangenginni afturköllun á leyfi til hundahalds. Ákvörðun um að afturkalla slíkt leyfi sé í höndum sveitarstjórnar, sbr. 3. og 4. gr. samþykktarinnar. Þá sé á heimasíðu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að finna greinina „Fræðsla fyrir hundaeigendur“ þar sem sérstaklega sé vikið að málum varðandi hundsbit. Þar segi í undirkafla 4.6 að heimilt sé að aflífa þegar í stað hættulegan hund og hund sem bíti. Hins vegar sé hundaeiganda þó heimilt að leita álits héraðsdýralæknis áður en ákvörðun um aflífun sé tekin.

Hvort sem litið sé til samþykktarinnar eða upplýsinga á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins sé það mat kæranda að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun um aflífun hundsins. Ákvörðunin hafi verið íþyngjandi geðþóttaákvörðun sem tekin hafi verið í skyndi. Hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið virt að vettugi, og þá sérstaklega rannsóknarregla 10. gr., meðalhófsregla 12. gr. og regla 13. gr. um andmælarétt.

Málsrök heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er skírskotað til þess að hundurinn hafi verið óskráður og sé það brot á samþykkt um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi. Heimilt sé skv. 3. gr. samþykktarinnar að aflífa óskráða hunda. Þó svo að hundurinn hefði verið skráður og um hann hefðu gilt ákvæði samþykktarinnar hefði það engu breytt um afdrif hans.

Bent sé á að hundurinn hafi áður fundist í lausagöngu án taums og verið fangaður af dýraeftirlitsmanni. Við það tækifæri hafi kærandi fengið munnlega áminningu. Hundurinn hafi verið stórhættulegur umhverfi sínu og þegar hann hafi verið færður á hundahótelið hafi hann verið hamslaus. Ekki hafi verið talið forsvaranlegt að setja hundinn í geymslu þar sem starfsfólk yrði í hættu. Þá hafi ekki heldur verið hægt að afhenda hundinn aftur til kæranda, enda hafi kærandi ekki virst geta komið veg fyrir að hundurinn gengi laus. Kæranda hafi verið ljóst hversu hættulegur hundurinn var utan heimilisins. Hundurinn hafi lengi haldið hverfi sínu í gíslingu með lausagöngu og ógnandi atferli, en kærandi hefði lítið gert til að koma í veg fyrir það. Bent sé á að eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar hafi varað við hegðun hundsins í bréfi frá 8. júlí 2010. Sé með ólíkindum að um sama hund sé að ræða og fjallað sé um í skapgerðamati frá 16. apríl 2010.

Heilbrigðiseftirlitið hafni ásökunum um brot á stjórnsýslulögum. Nægar upplýsingar hafi legið að baki stjórnvaldsákvörðuninni. Ákvörðun um aflífun hafi verið tekin með hagsmuni íbúa og þá sérstaklega barna í huga.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að aflífa hund kæranda. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í  ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður einungis krafa kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því aðeins tekin hér til úrlausnar enda  fellur það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að að fjalla um bótakröfu hans. Ljóst er að umræddur hundur hefur nú þegar verið aflífaður og hræi hans eytt. Úrskurðarnefndin telur engu að síður, með hliðsjón af bótakröfu kærenda og eins og atvikum er hér háttað, að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar.

Í 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er mælt fyrir um heimild heilbrigðisnefndar og heilbrigðisfulltrúa til að knýja á um framkvæmdir samkvæmt lögunum, reglugerð og samþykktum sveitarfélaga með ákveðnum þvingunarúrræðum. Hins vegar geymir lagagreinin ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um aflífun dýra. Um hundahald í Keflavík, Njarðvík, Grindavík, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnahreppi gildir samþykkt nr. 428/1987, með síðari breytingum. Samþykktin var sett með stoð í lögum nr. 109/1984 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nú lög sama efnis nr. 7/1998, sbr. lög nr. 7/1953 um hundahald og varnir gegn sullaveiki. Er sveitarstjórnum heimilt að veita undanþágu til hundahalds með ákveðnum skilyrðum, sbr. 2. gr. Eitt þeirra skilyrða er skráning hunds hjá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og skal árlega greiða leyfisgjald. Þá skal hundur aldrei ganga laus á almannafæri heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samþykktarinnar má taka hund úr umferð ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum og koma honum fyrir í geymslu sé um minniháttar brot að ræða. Þá er tekið fram að sé um að ræða ítrekað og alvarlegt brot afturkallist viðkomandi undanþága til hundahalds. Í 2. mgr. sömu greinar segir að veitist hundur að fólki, glefsi eða bíti sé það alvarlegt brot og í 3. mgr. segir að heimilt sé að aflífa leyfislausa hunda. Í 4. gr. er svo tekið fram að sveitarstjórnum sé heimilt að afturkalla leyfi og þegar um það sé að ræða vegna vanrækslu eiganda skuli veittur vikufrestur til að ráðstafa hundinum annað, en að öðrum kosti sé heimilt að aflífa hundinn.

Ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja byggðist á því að hundurinn hefði verið óskráður. Af fyrirliggjandi gögnum er hins vegar ljóst að hundurinn var örmerktur. Hundaleyfisgjald hafði verið greitt vegna ársins 2012 og þegar hundurinn var aflífaður hafði reikningur fyrir leyfisgjaldi verið sendur eiginmanni kæranda en hvorki var komið að gjalddaga eða eindaga. Verður því ekki annað ráðið en að hundurinn hafi verið skráður hjá heilbrigðiseftirlitinu og hin kærða ákvörðun að því leyti byggst á röngum forsendum. Fyrir liggur að ákvörðunin var tekin með mjög stuttum aðdraganda. Hins vegar verður ekki annað séð en að starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins hefði, þrátt fyrir aðstæður, verið í lófa lagið að kanna skráningu hundsins enda stöfuðu þau gögn sem áður er vísað til, s.s. greiðsluseðill vegna leyfisgjalds, frá stjórnvaldinu. Var því einnig brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð, með hliðsjón af því að ól og munngrímu hafði verið komið á hundinn, að svo bráð hætta hafi stafað af honum að hundinn þyrfti að aflífa fyrirvaralaust. Skorti þannig á að meðalhófs væri gætt, sbr. 12. gr. nefndra laga,  og að andmælaréttur væri veittur kæranda áður en ákvörðun var tekin um aflífun, sbr. 13. gr. laganna. 

Eins og áður er rakið nær heimild til aflífunar samkvæmt samþykkt nr. 428/1987 einungis til  hunda án leyfis. Með vísan til þess að lagastoð skorti fyrir fyrirvaralausri aflífun hundsins og að verulegir annmarkar voru á meðferð málsins verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 13. mars 2013 um að aflífa skuli hundinn X.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

________________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

69/2013 Ásgarður

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 12. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 69/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 16. janúar 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mótt. 15. júlí 2013, kærir H, eigandi lóðar nr. 11 við Vesturbrúnir í landi Ásgarðs, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs. Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn og greinargerð frá sveitarfélaginu 11. nóvember 2013.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. júní 2012 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs er fól í sér fjölgun lóða við Skógarholt og Vesturbrúnir. Samþykkt var að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti sveitarstjórn þá ákvörðun 4. júlí s.á. Var tillagan auglýst til kynningar, m.a. í Fréttablaðinu og Dagskránni 20. september 2012, og veittur frestur til athugasemda til 2. nóvember s.á. Barst ein athugasemd á kynningartíma. Hinn 7. nóvember 2012 var tillagan samþykkt óbreytt á fundi sveitarstjórnar og í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Taldi Skipulagsstofnun að framkominni athugasemd hefði ekki verið svarað efnislega og var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 20. desember 2012. Mælti nefndin með því að tekið yrði tillit til innkominnar athugasemdar og að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt að nýju með þeirri breytingu að ekki yrði lengur gert ráð fyrir nýrri lóð við Vesturbrúnir. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 16. janúar 2013 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi tekur fram að lóð hans sé við enda götu með útivistarsvæði á þrjá vegu en í þess stað muni lóðir liggja að lóð hans eftir samþykkta breytingu. Ekki hafi komið fram í afsali fyrir fasteigninni að til stæði að breyta deiliskipulagi svæðisins eða að opið svæði til útivistar ætti að vera til takmarkaðs tíma. Þurfi að gera slíkar breytingar í samráði við lóðareigendur. Hafi ekki verið farið að ákvæðum skipulagslaga þar sem málið hafi hvorki verið grenndarkynnt né kynnt kæranda formlega. Þá sé bent á að skipulagsnefnd hafi oft synjað þess að sameina lóðir á þeirri forsendu að ekki væri vilji til að breyta lóðarfjölda í áður skipulögðum hverfum.

Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin verið kynnt og auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi borist athugasemd frá kæranda um tillöguna.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun var auglýst til kynningar í tveimur dagblöðum og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var hún einnig auglýst í Lögbirtingablaði og á heimasíðu skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Tók breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2013. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 15. júlí 2013, eða tæpum tveimur mánuðum eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

101/2014 Markavegur

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 12. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 101/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 14. ágúst 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Markaveg nr. 2, 3 og 4, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Jónas Fr. Jónsson hdl., f.h. lóðarhafa að Markavegi 1, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 14. ágúst 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Markaveg nr. 2, 3 og 4, Kópavogi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar.

Málsatvik og rök: Hinn 10. apríl 2014 óskaði lóðarhafi Markavegar nr. 2, 3 og 4 eftir að deiliskipulagi fyrir greindar lóðir yrði breytt með þeim hætti að lóð nr. 4 yrði stækkuð um 5 m, það yrði tekið af lóðum nr. 2-3, að hæðarkóti á lóð nr. 4 yrði hækkaður um 20 cm og breiddin lengd um 0,25 m. Hinn 15 s.m. var samþykkt af skipulagsnefnd Kópavogs að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var tillagan tilkynnt lóðarhöfum nærliggjandi lóða með bréfum, dags. 15. maí 2014, og þeim gefinn frestur til 19. júní s.á til þess að gera athugasemdir við tillöguna. Hinn 27. maí s.á samþykkti bæjarstjórn nefnda afgreiðslu skipulagsnefndar. Hinn 28. s.m. voru bréf send á ný til lóðarhafa nærliggjandi lóða þar sem tekið var fram að fyrri grenndarkynning teldist ógild þar sem láðst hefði að vísa málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar, færi nú fram ný grenndarkynning og væri lóðarhöfum gefinn kostur til að senda inn athugasemdir til 1. júlí s.á. Bárust athugasemdir frá kærendum 30. júní s.á. þess efnis að deiliskipulagsbreytingartillagan bryti gegn lögvörðum hagsmunum þeirra er varðaði nýtingu á lóð þeirra, hætta væri á að verðmæti fasteignar þeirra myndi lækka og takmarkanir yrðu á nýtingarmöguleika. Hinn 28. júlí s.á var erindi lóðarhafa Markavegar nr. 2, 3 og 4 tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar. Samkvæmt fundargerð lá fyrir nefndinni tillaga skipulags- og byggingardeildar, dags. 25. s.m., ásamt greinargerð og var m.a. bókað að í tillögunni væri fallið frá kynntum breytingum að Markavegi 2 að öðru leyti en því að lóðin væri stækkuð til austurs þ.e. frá Markavegi 1. Var niðurstaða nefndarinnar bókuð svo: „Að fenginni umsögn frá lögfræðideild Kópavogs samþykkir skipulagsnefnd framlagða breytingartillögu dags. 25. júlí 2014 þar sem komið er til móts við athugasemdir er varða hæðarkóta og byggingarreit Markavegar 2 sem bárust á kynningartíma.“ Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Staðfesti bæjarráð afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 14. ágúst 2014. Var deiliskipulagsbreytingin auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. s.m.

Vísa kærendur til þess að málsmeðferð vegna hinna kærðu breytinga hafi ekki verið í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samræmis hafi ekki verið gætt við skipulagsbreytingarnar sem samþykktar voru af bæjarráði Kópavogs. Hafi skipulagsfulltrúi ekki heimildir til að breyta samþykktu deiliskipulagi án samþykkis bæjarstjórnar enda beri hún ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, hafi því samþykki skipulagsnefndar, bæjarráðs sem og deiliskipulagið í heild verið ólögmætt. Hafi bærinn ekki tekið nægt tillit til athugasemda kærenda. Hin kærða ákvörðun brjóti gegn lögvörðum hagsmunum kærenda um hagkvæma og hnökralausa nýtingu lóðar sinnar, hætta sé á að verðmæti fasteignar lækki og nýtingarmöguleikar muni takmarkast.

Af hálfu Kópavogsbæjar er skírskotað til þess að ekki fáist séð að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í ósamræmi við samþykkt bæjarráðs. Um sé að ræða hækkun sem nemi 20 cm og breikkun sem nemi 25 cm. Hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að framangreind stækkun væri það smávægileg að hún hefði í för með sér óveruleg grenndaráhrif. Sé það því mat bæjarins að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við lög nr. 123/2010.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar eru undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða eftir atvikum framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

16/2013 Búðavað

Með

Árið 2014, mánudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2013, kæra á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Búðavaði 4, Reykjavík, afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna gestabílastæða við Búðavað 4, 6 og 8 í Reykjavík.  Krefjast kærendur þess að afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá sveitarfélaginu 12. apríl 2013.

Málsatvik: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 26. október 2012 var tekin fyrir beiðni kærenda um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi fyrir Norðlingaholt um gestabílastæði við Búðavað. Var erindið afgreitt neikvætt með vísan til svohljóðandi umsagnar skipulagsstjóra: „Fyrirspurnin hefur breyst mikið frá upphaflegri fyrirspurn íbúa dags. 8. ágúst 2011. Upphaflega var óskað eftir heildstæðri breytingu með því að fella niður öll gestabílastæði norðanmegin götu en nú er óskað eftir að fella aðeins niður þrjú gestastæði sem liggja að lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Búðavað. Á þessum lóðum hefur ekki verið framkvæmt í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varðar lóðarfrágang og fjölda bílastæða inn á lóð.“ Var niðurstaða skipulagsstjóra eftirfarandi: „Í ljósi þess að lítið er eftir að upphaflegri heildarhugmynd og að einungis náðist samstaða um að fella niður tvö samliggjandi stæði og síðan eitt er ekki fallist á að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina.“

Með bréfi kærenda til skipulagsráðs, dags. 6. janúar 2013, var þess krafist að skipulagsstjóri léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér að gestabílastæði við Búðavað 4, 6 og 8 yrðu felld út af deiliskipulagi. Þá var farið fram á að málið yrði lagt fyrir skipulagsráð til formlegrar afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 16. janúar 2013. Var fært til bókar að lagt væri fram málskot kærenda og að fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra frá 26. október væri staðfest. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að við Búðavað séu 22 íbúðir og við þær séu 44 bílastæði. Sunnan við götuna, framan við Búðavað 2-6, séu jafnframt 14 gestabílastæði og einnig sé gert ráð fyrir 8 gestabílastæðum inn á lóðum við norðanverða götuna. Að hafa svo mörg bílastæði í götunni gangi gegn þeirri áherslu sem fram komi í aðalskipulagi Reykjavíkur um að borgin eigi að vera vistvæn, leggja eigi áherslu á almenningssamgöngur og greiða fyrir hjólreiðum. Þá sé heimilt samkvæmt aðalskipulagi að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. Yrði fallist á umbeðna breytingu yrðu 19 gestabílastæði við götuna og hlutfall bílastæða á íbúð 2,8. Hafi allir eigendur fasteigna við Búðavað samþykkt umrædda breytingu en sveitarfélagið hafi hvorki svarað því hvers vegna vilji íbúa hafi ekki verið virtur né vísað til laga eða reglugerða máli sínu til stuðnings. Hagsmunir íbúa við Búðavað 4, 6 og 8 af því að losna við gestabílastæðin af lóðum sínum séu mikil og beri borginni að vega og meta þá hagsmuni. Geri samþykktar teikningar af húsum við norðanverða götuna ráð fyrir mjög stórum forstofuglugga rétt fyrir framan gestabílastæðin. Muni það fela í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa þessara húsa að fá gestabílastæði þremur metrum frá slíkum gluggum.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ætíð hafi verið litið á erindi kærenda sem fyrirspurn en ekki umsókn. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 26. október 2012 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafi Reykjavíkurborg óskað eftir frávísun málsins þar sem ekki hafi verið um kæranlega stjórnsýsluákvörðun að ræða. Í framhaldi af því hafi kærendur dregið kæru sína til baka. Hafi skipulagsyfirvöld fundað með kærendum og bent þeim á að hægt væri að skjóta málinu til umhverfis- og skipulagsráðs sem þeir hafi og gert. Enda þótt ráðið hafi staðfest fyrri afgreiðslu embættismanna liggi það eigi að síður fyrir að hér hafi einungis verið um neikvætt svar við fyrirspurn að ræða. Kærendum hafi verið bent á að þeir geti sótt formlega um umrædda breytingu en því hafi þeir hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á beiðni um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi Norðlingaholts um nánar greind gestabílastæði við Búðavað. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Hins vegar var fjallað um erindi kærenda, dags. 6. janúar 2013, í umhverfis- og skipulagsráði hinn 16. janúar 2013, undir D–lið ýmis mál, sem málskot, sbr. bókun ráðsins þess efnis að um málskot væri að ræða og að fyrri afgreiðsla ráðsins frá 26. október væri staðfest. Var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi borgarráðs 17. s.m. þar sem bókað var að B-liður væri samþykktur en hvorki var fjallað um D-lið fundargerðarinnar né afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á erindi kærenda. Bera bókanir umhverfis- og skipulagsráðs það með sér að erindi kærenda var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn en ekki sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi.
 
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál. Erindi sem afgreitt er sem fyrirspurn getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Ljóst er, með hliðsjón af orðalagi erindis kærenda frá 6. janúar 2013, að gerð var krafa um að erindið hlyti formlega afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Erindi kærenda hefur ekki hlotið slíka afgreiðslu eins og áður er rakið. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreinds lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

50/2014 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 50/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar frá 15. maí 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2014, er barst nefndinni 13 s.m., og með bréfi, dags. 31. október s.á., er barst nefndinni sama dag, kærir Eiríkur S. Svavarsson, hrl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigendur sumarhúsa í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hornafjarðar að samþykkja nýtt deiliskipulag í frístundarbyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni, Hornafirði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Hornafirði 27. október 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 11. september 2013 samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar að fela starfsmanni sveitarfélagsins að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Stafafellsfjöll. Á fundi sömu nefndar 16. október s.á. var samþykkt að fjalla um deiliskipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag. Var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt á fundi nefndarinnar 4. desember s.á. og samþykkt að vísa tillögunni til bæjarstjórnar. Var fundur til kynningar deiliskipulagstillögunnar auglýstur í fjölmiðlum sama dag og 5. s.m., en þann dag var fundurinn haldinn. Hinn 12. s.m. samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar tillöguna sem og að hún færi í lögformlegt ferli. Bárust athugasemdir við tillöguna sem tekin var afstaða til á fundi bæjarstjórnar hinn 15. maí 2014. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórnin nýtt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum og var það sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Stofnunin tók deiliskipulagið til nánari skoðunar með vísan til ákvæðis 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með bréfi, dags. 25. júní s.á., tilkynnti stofnunin sveitarfélaginu að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins þegar brugðist hefði við þeim atriðum sem nánar voru tilgreind í bréfinu og þegar umsögn Minjastofnunar lægi fyrir. Barst umsögn frá Minjastofnun Íslands til sveitarfélagins með bréfi, dags. 23. október s.á.

Kærendur vísa til þess að með hinu nýja deiliskipulagi sé verið að auka byggingarmagn verulega. Að auki sé mikið ósamræmi á milli aðalskipulags og deiliskipulagstillögu um það hver hin eiginlegu mörk séu um heimilaðan fjölda lóða á skipulagssvæðinu. Sýni samanburður á aðalskipulagi og hinu nýja deiliskipulagi að ákvæði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga sé þverbrotið. Bendi kærendur einnig á að ekki hafi verið rétt staðið að kynningu deiliskipulagsins. Hafi kynningin verið auglýst með eins dags fyrirvara og hafi dreifibréfi ekki verið dreift til hagsmunaaðila líkt og haldið sé fram. Að auki sé bent á eftirfarandi atriði sem kærendur telji leiða til ógildingar, þ.e. að lýsing á skipulagsverkefni hafi hvorki verið gerð né birt, ákvæði um fjarlægð lóða frá ám og vötnum hafi verið brotið, að með deiliskipulaginu sé heimiluð uppbygging á svæði þar sem sé þekkt náttúruvá, skilgreind almenningsvæði séu fjarlægð af deiliskipulagi og að neysluvatni sé spillt með skipulagningu á nýjum lóðum á vatnsverndarsvæði. Þá geri kærendur athugasemdir við þær breytingar sem sveitarfélagið hafi gert á hinu kærða deiliskipulagi í kjölfar athugasemda Skipulagsstofnunar. Bendi kærendur á að verulegar breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulaginu án þess að þær hafi verið kynntar hagsmunaaðilum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að brugðist hafi verið við erindi Skipulagsstofnunar, sbr. greinargerð með nýju deiliskipulagi frístundasvæðis í Stafafellsfjöllum, og að umsögn Minjastofnunar liggi fyrir. Varðandi annan rökstuðning kærenda sé bent á að ekki sé um verulega aukningu á byggingarmagni að ræða frá eldra deiliskipulagi. Fjölgun lóða og aukning á stærð húsa á lóðum sé hæfileg aukning á byggingarmagni og sé verið að skapa möguleika á þróun byggðar í samræmi við nýjar byggingarhefðir. Því sé hafnað að ósamræmi sé á milli aðalskipulags og deiliskipulags enda sé fjallað um tiltekinn fjölda frístundalóða í aðalskipulagi sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012-2013, og fjöldi lóða í nýja deiliskipulaginu rúmist innan þeirrar heimildar. Þá sé því hafnað að auglýsing á kynningarfundi hafi verið ófullnægjandi, enda hafi sveitarfélagið auglýst fundinn í Fréttablaðinu hinn 4. desember 2013 og 5. s.m. í Eystrahorni, staðarblaði Hornafjarðar, sem og með dreifibréfi. Loks sé því mótmælt að nýtt deiliskipulag sé tilraun til skerðingar á þeim gæðum sem landið í Stafafellsfjöllum bjóði almenningi upp á.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagstillögu fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum sem samþykkt var af bæjarstjórn Hornafjarðar 15. maí 2014. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

113/2012 Friðarstaðir

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 26. september 2012 um að leggja dagsektir á ábúanda Friðarstaða sem nemi 10.000 krónum frá 1. október s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2012, sem barst nefndinni 26. s.m., kærir D, Friðarstöðum, Hveragerði, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 26. september s.á. að leggja á dagsektir vegna vanrækslu á úrbótum á jörðinni Friðarstöðum að fjárhæð 10.000 krónur á dag frá 1. október 2012. Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ  4. desember 2012.

Málavextir: Hinn 21. maí 2012 sendi byggingarfulltrúinn í Hveragerði bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja og lausamuna á jörð sinni að Friðarstöðum í viðunandi horf þar sem ásigkomulagi og viðhaldi væri verulega ábótavant. Vísað var í 4. lið II. kafla byggingarbréfs Friðarstaða, dags. 30. desember 1947, sem kveður á um skyldu ábúanda til að halda við öllum húsum og öðrum mannvirkjum á jörðinni svo ekki hrörni umfram eðlilega fyrningu. Að auki var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem kveður á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur þar sem ásigkomulag umhverfis og mannvirkja sé ábótavant. Var þess krafist að kærandi myndi skila inn tímasettri aðgerðaáætlun um úrbætur og hefja tafarlaust vinnu við framkvæmdir. Var kæranda gefinn frestur til 20. júní s.á. Kærandi kærði áskorun þessa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 17. júlí 2012 þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun í málinu, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 7. ágúst 2012, ítrekaði byggingarfulltrúinn áskorunina frá 21. maí s.á. og var kæranda tilkynnt að dagsektum yrði beitt frá 1. október 2012 ef úrbótum yrði ekki lokið fyrir þann tíma. Var þess krafist að tafarlausar úrbætur yrðu gerðar á gróðurhúsum á jörðinni, öll glerbrot fjarlægð og húsunum komið aftur í nothæft ástand eða óskað yrði eftir leyfi til að rífa húsin. Þess var og krafist að heyrúllum á jörðinni yrði vel og snyrtilega raðað svo ekki stafaði hætta af, að ónýtir lausamunir á lóð yrðu fjarlægðir og gengið yrði frá nýtanlegum lausamunum með þeim hætti að hvorki stafaði hætta af né væri til lýta.

Loks barst kæranda bréf frá byggingarfulltrúanum, dags. 26. september 2012, þess efnis að ákveðið hefði verið að beita dagsektum frá og með 1. október s.á. þar sem engar úrbætur væru hafnar og að kærandi hefði ekki gefið neinar greinargóðar skýringar á því. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er fyrrgreind ákvörðun um dagsektir enn í gildi og hefur aðför farið fram hjá kæranda þeirra vegna.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar í fyrsta lagi til þess að hann hafi hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né í öðrum lögum fundið ákvæði um hvernig heyrúllum skuli raðað. Hafi heyrúllum á jörðinni verið raðað upp með sama hætti undanfarin 12 ár án athugasemda. Telji kærandi að greind krafa sé tilraun til þess að koma í veg fyrir heyskap og skepnuhald á jörðinni.

Í öðru lagi séu allir lausamunir geymdir á afgirtu svæði þar sem óviðkomandi sé ekki heimilaður aðgangur. Erfitt sé að gera sér grein fyrir hvað teljist til ónýtra lausamuna og hvað ekki enda verðmætamat einstaklinga mismunandi. Því sé vísað á bug að hætta stafi af greindum lausamunum og bent á að innan bæjarmarka sé að finna ógirt iðnaðarsvæði þar sem óvarðir lausamunir standi án athugasemda.

Í þriðja lagi hafi kærandi reynt að fá leyfi til að breyta einu af hinum umþrættu gróðurhúsum í hesthús en byggingarfulltrúi hafi staðið í vegi fyrir þeirri uppbyggingu. Einnig sé bent á að eitt af gróðurhúsunum sé sambyggt gömlu íbúðarhúsi á jörðinni sem verið sé að meta hjá úrskurðarnefnd viðlagatrygginga. Mikið óhagræði felist í því að rífa aðeins annað húsið ef þau yrðu síðan á endanum bæði rifin. Einnig veiti gróðurhúsið íbúðarhúsinu skjól gegn veðri og vindum. Kærandi kannist ekki við að sérstök slysahætta sé af gróðurhúsum á jörð hans. Glerbrot séu mjög algeng í kringum gróðurhús sem byggð séu úr gleri þar sem algengt sé að rúður brotni. Víða í Hveragerði hafi garðyrkjustöðvar verið rifnar og þar  hafi verið skilin eftir opin flög, full af glerbrotum, óvarin við fjölfarnar umferðargötur. Að auki bendi kærandi á að sveitarfélagið hafi ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu í skipulagsmálum. Deiliskipulag Friðarstaða frá 2002, sem auglýst hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 17. apríl 2009, sé ekki í samræmi við aðalskipulag Hveragerðis frá 2006. Hafi lítið gerst í skipulagsmálum fyrir Friðarstaði og sveitarfélagið hafi aldrei svarað efnislega þeim skipulagstillögum kæranda sem teknar hafi verið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 11. maí 2010. Hafi kærandi fengið þær upplýsingar að þegar miklir annmarkar séu á deiliskipulagi sé í raun ekkert deiliskipulag í gildi og því sé ekki heimilt að rífa hús eða byggja á slíku svæði.

Loks veki kærandi athygli úrskurðarnefndarinnar á því að hann hafi höfðað skaðabótamál gegn Hveragerðisbæ en í því máli hafi sveitarfélagið beðið um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Sé staðan því þannig að á kæranda séu lagðar dagsektir, sem aðför hafi verið gerð fyrir, vegna húss sem sveitarfélagið hafi sjálft beðið um mat á og geti kærandi af þeim sökum ekki rifið það. Mál það sem hér sé til meðferðar megi öðrum þræði rekja til tjóns vegna jarðskjálfta á árinu 2008 og ítrekað sé að þrjú mál vegna þessa tjóns sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd viðlagatrygginga. Loks hafi heyrúllur þær sem hin kærða ákvörðun snúi að verið gefnar skepnum kæranda veturinn 2012-2013, nýjum heyrúllum hafi verið staflað á annan stað haustið 2013 og notaðar til fóðrunar á búpeningi veturinn 2013-2014, og nú í haust hafi aftur verið staflað vetrarforða af heyrúllum.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að farið hafi verið að fullu eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi verið veittur andmælaréttur, meðalhófs hafi verið gætt og sérstaklega hafi verið tryggt að málið væri nægilega upplýst. Ákvörðun um álagningu dagsekta hafi verið tekin í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Bent sé á að ásigkomulag og frágangur fasta- og lausamuna, sem og umhverfi Friðarstaða, sé verulega ábótavant svo hætta stafi af. Hafi því verið full heimild til þess að leggja á kæranda dagsektir vegna athafnaleysis.

Því sé hafnað að uppröðun á heyrúllum heyri ekki undir lög um mannvirki. Samkvæmt 56. gr. laganna sé eiganda gert að bæta úr sé ástandi lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu manna. Ekki sé hægt að una við það að heyrúllum sé hrúgað upp á þann hátt að augljós hætta stafi af. Ekki sé verið að gera tilraun til þess að banna kæranda heyskap og skepnuhald á jörðinni heldur sé aðeins verið að reyna að koma í veg fyrir slys á mönnum og dýrum. Að auki sé ekki hægt að una því að bæði ónýtir og nýtanlegir lausamunir séu látnir standa á víð og dreif á jörð kæranda svo af þeim stafi hætta, auk þess sem þeir séu lýti á umhverfinu. Ekki sé hægt að fallast á að þar sem umþrættir lausamunir séu sambærilegir öðrum lausamunum sem standi annars staðar í bænum sé ástæðulaust að hreyfa við þeim eða farga.

Því sé vísað á bug að allar aðgerðir sem tengdar séu gróðurhúsum á jörðinni séu annað hvort ómögulegar eða óþarfar. Land kæranda liggi nálægt einu af íþróttasvæðum bæjarins og sé þar mikil umferð. Það sé því hættulegt þeim sem eigi leið fram hjá jörðinni að glerbrot liggi þar á víð og dreif. Þau rök kæranda að ástæðulaust sé að fjarlægja glerbrot þar sem slíkt sé algengt á svæðinu séu því fráleit. Sú breyting að gera gróðurhús að hesthúsi samræmist ekki gildandi deiliskipulagi á Friðarstöðum, en samkvæmt því skuli land innan deiliskipulagsreits vera nýtt sem ylræktarsvæði. Að auki séu hugmyndir kæranda um breytingar á gróðurhúsinu fullkomlega óraunhæfar, bæði tæknilega og skipulagslega séð. Samþykkt hafi verið að endurskoða deiliskipulag jarðarinnar en kærandi hafi ekki sýnt áhuga á að taka þátt í því samstarfi. Sé ekki hægt að sjá hvernig gróðurhús, með megnið af gleri í veggjum brotið, veiti umræddu íbúðarhúsi skjól og af hverju slíkt sé nauðsynlegt þar sem fyrirhugað sé að rífa það. Ekki sé hægt að fallast á þær ástæður að gróðurhúsið, sem sé í algjörri niðurníðslu, fái að standa óhreyft í lengri tíma þar sem hagstæðara sé að rífa það á sama tíma og íbúðarhúsið. Að auki sé ekki hægt að sjá að ágreiningur kæranda og Viðlagatrygginga Íslands snúi að þeim gróðurhúsum sem um sé deilt í þessu máli. Áréttað sé að flest öll mannvirki á jörðinni séu í niðurníðslu og umhirðu hafi verið ábótavant til margra ára. Ekkert sé því til fyrirstöðu að hefja úrbóta- og hreinsunarstarf á jörðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hveragerði að beita kæranda, sem er ábúandi á Friðarstöðum í Hveragerði, dagsektum vegna óviðunandi ástands á jörðinni. Grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar eru bréf sem byggingarfulltrúi sendi kæranda, dags. 21. maí 2012 og 7. ágúst s.á., þar sem skorað var á hann að koma ástandi jarðarinnar í viðunandi horf. Var þess krafist að úrbætur yrðu gerðar á gróðurhúsum á jörðinni og glerbrot fjarlægð. Húsunum yrði komið í nothæft ástand eða óskað eftir leyfi til að rífa þau, að heyrúllum yrði raðað vel og snyrtilega upp þannig að ekki stafaði af þeim hætta, ónýtir lausamunir yrðu fjarlægðir og gengið yrði frá nýtanlegum lausamunum svo ekki stafaði af þeim hætta eða þeir væru til lýta í umhverfinu. Var eftirfarandi tekið fram í seinna bréfinu: „Að mati byggingarfulltrúa er ásigkomulagi lóðar og mannvirkja að Friðarstöðum verulega ábótavant þannig að verulega hættu stafar af.“

Í a-lið 1. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að markmið laganna sé m.a. að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi og hafa virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt. Í 56. gr. sömu laga er að finna heimild til aðgerða í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur. Þannig kemur fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða teljist það skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. sama ákvæðis er síðan að finna heimild byggingarfulltrúa, og eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, til að beita dagsektum og knýja menn til þeirra verka sem hlutast skal til um. Er það í höndum þessara aðila að meta, eftir atvikum að teknu tilliti til framangreindra markmiða laganna, hvort að ástandi teljist ábótavant og hvort beita skuli dagsektum til að knýja fram úrbætur.

Hin kærða ákvörðun byggði á þeim lagaheimildum sem að framan eru raktar og í henni kemur fram það mat byggingarfulltrúa að veruleg hætta stafi af ásigkomulagi lóðar og mannvirkja. Þá er vísað til þess að heyrúllum verði að raða snyrtilega og að lausamunir skuli ekki vera til lýta í umhverfinu. Var mat byggingarfulltrúa því að formi til í samræmi við það markmið mannvirkjalaga sem áður er lýst, þ.e. að líf og heilsa manna og umhverfi sé verndað. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að í ákvörðun byggingarfulltrúa um að beita kæranda dagsektum fólst þvingunarúrræði sem í eðli sínu er íþyngjandi. Var því rík ástæða til þess að gæta að þeirri grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvörðun sé svo ákveðin og skýr að aðilar máls geti gert sér grein fyrir efni hennar sem og réttarstöðu sinni. Augljós hætta stafar af vanhirðu á glerbrotum í gróðurhúsum og þar um kring en ekki verður séð að þau fyrirmæli sem varða uppröðun á heyrúllum „vel og snyrtilega“ og frágang lausamuna, þannig „að þeir séu ekki til lýta í umhverfinu“, séu til þess fallin að kærandi mætti gera sér grein fyrir því til hvaða úrbóta skyldi grípa. Þegar um matskennda stjórnvaldsákvörðun er að ræða, eins og hér háttar, er nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við það mat. Í ákvörðuninni er ekki að finna lýsingu á þeim ónýtu lausamunum sem vísað er til, því er ekki lýst hvernig nýtanlegir lausamunir valdi hættu og séu til lýta eða hvaða hætta stafi af heyrúllum, sem samkvæmt athugasemdum sveitarfélagsins var „hrúgað þannig upp“ að hætta stafaði af. Þar sem þessi málsatvik höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins og leiddu til íþyngjandi ákvörðunar hefði átt að gera nánari grein fyrir þeim í hinni kærðu ákvörðun, með hliðsjón af 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til þess sem að framan er rakið var hin kærða ákvörðun haldin verulegum annmörkum hvað forsendur og skýrleika varðar. Þar sem þær forsendur sem liggja að baki ákvörðuninni eru svo samofnar að hún verður ekki felld úr gildi að hluta leiðir framangreint til þess að hún verður felld úr gildi í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Hveragerði frá 26. september 2012 um að leggja dagsektir á ábúanda Friðarstaða frá 1. október s.á.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

84/2013 Njálsgata

Með
Árið 2014, föstudaginn 7. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 84/2013, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. júní 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 vegna lóðarinnar nr. 33b við Njálsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2013, sem barst nefndinni 23. s.m., kærir E Grettisgötu 34, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. júní 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 vegna lóðarinnar nr. 33b við Njálsgötu. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi, dagsettu og mótteknu sama dag og fyrrgreint bréf, kærir G, Grettisgötu 34, Reykjavík, nefnda skipulagsákvörðun með sömu kröfu og gerð er í fyrrgreindu kærumáli. Verður það kærumál, sem er nr. 85/2013, sameinað máli þessu.

Málsatvik og rök: Hinn 22. mars 2013 tók skipulagsfulltrúinn í Reykjavík fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits 1 sem ber númerið 1.190.0. Fól umsóknin í sér beiðni um stækkun byggingarreits og hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar Njálsgötu 33b. Var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir nágrönnum, þ. á m. kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir hjá skipulagsfulltrúa 14. júní 2013 og lágu þá fyrir athugasemdir sem borist höfðu við tillöguna á kynningartíma, þ. á m. frá íbúum að Grettisgötu 34. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 26. s.m. með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 13. júní 2013. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 4. júlí s.á.

Kærendur vísa til þess að hvorki sé getið athugasemda þeirra við umdeilda skipulagsbreytingu né þeim svarað í umsögn skipulagsfulltrúa sem vísað hafi verið til við afgreiðslu skipulagsbreytingarinnar. Þá hafi þeim ekki borist svör við athugasemdum sínum. Engin rök virðist búa að baki umdeildri skipulagsbreytingu svo sem fyrir því að færa byggingarreit á lóðinni Njálsgötu 33b nær lóðarmörkum Grettisgötu 34. Meðferð málsins hafi verið verulega ábótavant og með því hafi verið á rétt kærenda hallað.

Borgaryfirvöld hafa tilkynnt úrskurðarnefndinni að ekki þætti tilefni til að að veita umsögn í máli þessu þar sem fyrirhugað væri að taka málið til meðferðar að nýju.

Niðurstaða: Nú liggur fyrir að ákvörðun sú sem um er deilt í máli þessu hefur ekki öðlast gildi með lögboðinni auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda skv. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Upplýst hefur verið að tillaga að breytingu umrædds deiliskipulags vegna lóðarinnar Njálsgötu 33b hafi verið grenndarkynnt að nýju og hún verið samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 8. janúar 2014. Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 24. s.m.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið liggur ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun fyrir í máli þessu sem borin verður undir úrskurðanefndina enda hefur það ekki verið til lykta leitt, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskuðarnefndarinnar.    

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________________________
Nanna Magnadóttir