Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

85/2008 Heiðarbær

Árið 2015, fimmtudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2008, kæra á synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá
3. júní 2008 vegna umsóknar um leyfi til endurbóta á bátalægi við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. ágúst 2008, er barst nefndinni 25. s.m., kærir Sigurmar K. Albertsson hrl., f.h. P, leigutaka sumarhúsalóðar nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit, Bláskógabyggð, synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. júní 2008 á umsókn um leyfi til endurbóta á bátalægi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að árið 2004 stöðvaði skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu framkvæmdir við gerð bátalægis við vatnsbakka Þingvallavatns við sumarhúsalóð kæranda nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit þar sem þær væru leyfisskyldar og ekki hefði verið veitt leyfi fyrir þeim. Í kjölfar þess var óskað eftir leyfi til endurbóta á bátalæginu en þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 1. júní s.á. Kærandi máls þessa kærði synjunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem og þá ákvörðun sveitarstjórnar að leggja fyrir kæranda að afmá á eigin kostnað jarðrask sem unnið hefði verið við framkvæmdirnar. Með úrskurði í máli nr. 39/2005, uppkveðnum hinn 6. október 2006, felldi úrskurðarnefndin ákvarðanirnar úr gildi.

Með bréfi til skipulagsfulltrúa, dags. 12. júlí 2007, óskaði lögmaður kæranda upplýsinga um fyrirliggjandi umsókn kæranda, dags. 25. maí 2004, í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 23. ágúst 2007, þar sem m.a. kom fram að það væri mat nefndarinnar að framkvæmdirnar væru ekki smávægilegar, enda hefðu þær haft umtalsvert jarðrask í för með sér á bakka Þingvallavatns. Af myndum af bátalægjum umhverfis vatnið, sem hafi fylgt umsókninni, mætti sjá að í velflestum tilvikum væri land að bátalægjum ekki eins bratt og raunin væri á lóð umsækjanda og rask því töluvert minna. Á lóð umsækjanda væri ekki eingöngu um að ræða gerð lítils varnargarðs út í vatnið, heldur hefði orðið umtalsverð röskun á bakka þess, m.a. virtist hafa verið grafið úr honum til að fá efni í varnargarðinn. Því væru ekki fordæmi fyrir sambærilegri framkvæmd innan sveitarfélagsins. Þá mætti einnig benda á að breyttar forsendur væru fyrir hendi, sem m.a. kæmu fram í ákvæðum nýrra laga og reglugerða varðandi framkvæmdir almennt og á ákveðnum svæðum. Ekki væri sjálfgefið að það sem áður hefði verið látið óáreitt væri heimilt í dag með vísan til jafnræðis. Umrædd framkvæmd væri framkvæmdaleyfisskyld en afgreiðslu væri frestað þar til umsögn Umhverfisstofnunar lægi fyrir þar sem framkvæmdin væri innan svæðis á náttúruminjaskrá og einnig með hliðsjón af 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006. Var lögmanni kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins fyrir skipulagsnefnd með bréfi skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 27. ágúst 2007.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 12. mars 2008, segir m.a. að Þingvallavatn, ásamt eyjum og strandlengju umhverfis vatnið, sé á náttúruminjaskrá og sé því fyrirhugað bátalægi innan náttúruverndarsvæðis. Bátalægið sé jafnframt staðsett innan verndarsvæðis Þingvallavatns, sbr. lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Því sé mikilvægt, verði framkvæmdir leyfðar við ný bátalægi við Þingvallavatn, að valdir verðir til þess staðir sem að vel athuguðu máli séu taldir best henta til slíkrar uppbyggingar út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Umhverfisstofnun hafi á sínum tíma skoðað ummerki á staðnum og talið að um náttúruspjöll væri að ræða. Að beiðni sveitarfélagsins hafi stofnunin lagt fram tillögur um það hvernig ganga mætti frá svæðinu og lagfæra rask, sbr. bréf Umhverfisstofnunar frá 18. ágúst 2004. Umhverfisstofnun telji að fyrirhuguð staðsetning bátalægis henti ekki en vatnsbakkinn þar sé fremur brattur og vel gróinn, m.a. birkikjarri. Allar framkvæmdir muni hafa verulegt rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum. Umhverfisstofnun telji að lagfæra eigi allt rask og finna bátalægi annan stað, sé á annað borð talið nauðsynlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir. Stofnunin telji einnig mikilvægt að fylgt verði þeirri stefnu í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016, að stök bátaskýli verði ekki heimil við vatnsbakkann.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 23. maí 2008, þar sem umsókn kæranda var til meðferðar, var m.a. vísað í bókun skipulagsnefndar frá 23. ágúst 2007 og fyrrgreinda umsögn Umhverfisstofnunar. Auk þess var bent á að í ákvæði hverfisverndar gildandi aðalskipulags væri sett bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakkann. Þess var jafnframt getið að nýlega hefði skipulagsnefnd hafnað ósk lóðarhafa í landi Heiðarbæjar um gerð bátalægis þar sem í því hefði falist töluvert rask á landi við vatnsbakkann. Skipulagsnefndin hafnaði umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi. Var honum og gert, með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að lagfæra allt jarðrask sem orðið hefði á vatnsbakkanum vegna framkvæmdanna. Áður en vinna við lagfæringar myndi hefjast skyldi lóðarhafi skila inn tillögu um hvernig gengið yrði frá landinu. Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. maí 2008, var lögmanni kæranda kynnt afgreiðsla skipulagsnefndar, sem síðan var samþykkt án athugasemda á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 3. júní 2008. Skaut kærandi ákvörðuninni um synjun framkvæmdaleyfis til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt varðandi kærufrest að ákvörðun sveitarstjórnar hinn 3. júní 2008 hafi hvorki verið birt kæranda né lögmanni hans. Með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 26. maí 2008, hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt um afgreiðslu nefndarinnar, en ekki hafi verið getið fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar. Engar frekari upplýsingar hafi borist frá sveitarfélaginu vegna umsóknarinnar. Hafi kæranda ekki verið kunnugt um ákvörðunina fyrr en 22. ágúst 2008 er samband hafi verið haft við skipulagsfulltrúa til að kanna hvar málið væri statt. Því verði að telja að kæran hafi borist innan kærufrests, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Allt að einu ætti undantekningarregla 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við um tilvikið, en ljóst sé að þær undantekningar sem þar komi fram eigi við þó að kæra hafi borist að liðnum kærufresti samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Um sama stjórnsýslumál sé að ræða og hafi hafist árið 2004 enda hafi málsmeðferðin og það sem úrskeiðis hafi farið verið á ábyrgð sveitarfélagsins. Kærandi geri því athugasemdir við tilvísun til reglugerðar nr. 650/2006, um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns, sem hafi tekið gildi 27. júlí 2006 og sæki heimild sína til laga nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, sem hafi tekið gildi 9. júní 2005. Þar að auki geri kærandi athugasemdir við að ákvörðunin sé byggð á aðalskipulagi 2004-2016 sem ekki hafi tekið gildi fyrr en í ársbyrjun 2005. Sveitarfélaginu sé ekki heimilt að byggja synjun sína í máli kæranda á framangreindum heimildum eða öðrum réttarheimildum sem settar séu eftir að umsókn kæranda hafi verið lögð fram.

Kærandi telji sig hafa verið að sækja um byggingarleyfi þar sem um sé að ræða mannvirki í skilningi IV. kafla skipulags- og byggingarlaga, en rök hans fyrir leyfisveitingunni hafi miðast við það. Framkvæmdaleyfi geti eðli málsins samkvæmt ekki náð til gerðar bátalægis heldur í mesta lagi til meiri háttar rasks. Bendi fyrri málsmeðferð sveitarstjórnar til þess að um slíka umsókn hafi verið að ræða. Að mati kæranda hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar ekki enn afgreitt umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi því að sama skapi ekki synjað honum um slíkt leyfi.

Sveitarstjórnin hafi með ákvörðun sinni hinn 3. júní 2008 brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga. Skipulagsyfirvöld sveitarfélags verði að leiðbeina aðila við meðferð máls í samræmi við 7. gr. laganna og rannsaka mál á viðhlítandi hátt áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. 10. gr. laganna. Þá beri að virða andmælarétt aðila, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda hafi ekki verið gefinn fullnægjandi eða raunhæfur kostur á að gæta lögbundins andmælaréttar síns áður en ákvörðun hafi verið tekin, sérstaklega eftir að umsögn Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir, sem hafi verið kæranda í óhag og haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá hafi kæranda ekki verið leiðbeint um kærurétt eða kærufrest, sbr. 20. gr. framangreindra laga.

Leitað hafi verið umsagnar Umhverfisstofnunar með vísan til þess að framkvæmdin væri innan svæðis sem sé á náttúruminjaskrá og einnig með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006. Ekki hafi verið vísað til sérstaks ákvæðis í náttúruverndarlögum. Annaðhvort hljóti að vera um að ræða h-lið 2. mgr. 6. gr. laganna, þar sem fram komi að eitt af mörgum hlutverkum stofnunarinnar sé álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar, eða 37. gr. sömu laga, sem varði sérstaka vernd. Ljóst sé að ákv. 38. gr. laganna eigi ekki við samkvæmt orðalagi sínu og ekki heldur fyrrnefnd lagaákvæði. Í fyrsta lagi sé ekki um meiri háttar framkvæmd að ræða í skilningi náttúruverndarlaga og ekkert komi fram í umsögninni sem bendi til þess. Ekki sé nægjanlegt að allar framkvæmdir muni hafa „verulegt“ rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum. Í öðru lagi sé ljóst að framkvæmdin falli ekki undir 37. gr. laganna, þar sem gert sé að skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, en ekkert sem þar sé talið upp eigi við um mál kæranda.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 650/2006 skuli bæði leita umsagnar Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar Suðurlands áður en leyfi sé veitt til framkvæmda á verndarsvæðinu. Fyrir liggi að kæranda hafi ekki verið veitt leyfi og því hafi ekki verið nauðsynlegt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar á þessum grundvelli. Ef ætlunin hafi verið að byggja á þessu ákvæði reglugerðarinnar geri kærandi athugasemdir við að ekki hafi verið aflað umsagnar heilbrigðisnefndarinnar. Samkvæmt sömu grein eigi umsögn Umhverfisstofnunar að varða verndun vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Í umsögninni sem byggt sé á í hinni kærðu ákvörðun hafi hins vegar í engu verið fjallað um verndun vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns. Sé umsögnin því haldin annmarka að þessu leyti. Þar sem beinlínis sé byggt á henni við ákvarðanatökuna sé ljóst að þessi annmarki sé verulegur.

Verði ekki séð að það jarðrask sem framkvæmdin hafi haft í för með sér, og muni hafa í för með sér, á bakka Þingvallavatns falli undir ákvæði 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Orðasambandið „meiri háttar“ hljóti eðli málsins samkvæmt að vísa til framkvæmdar sem sé að minnsta kosti mjög umfangsmikil. Ekki verði séð á afgreiðslu skipulagsnefndar, sem staðfest hafi verið í sveitarstjórn, að um sé að ræða „meiri háttar“ framkvæmd. Í afgreiðslunni komi fram að Umhverfisstofnun líti svo á að allar framkvæmdir muni hafa „verulegt“ rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum, en skipulagsnefnd hafi litið svo á að framkvæmdin hafi haft „umtalsvert“ jarðrask í för með sér á bakka vatnsins. Ekki sé hægt að draga þá ályktun af þessu að um sé að ræða meiri háttar framkvæmd samkvæmt framangreindu ákvæði.

Dregið sé í efa að ákvörðun sveitarfélagsins sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum með vísan til þess að bátalægi séu við nær alla sumarbústaði á bakka Þingvallavatns. Þar sé í flestum tilfellum um að ræða mun meiri mannvirki en ætlunin hafi verið.

Málsrök Bláskógabyggðar: Bláskógabyggð krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kæranda verði hafnað.

Kæran sem hafi borist úrskurðarnefndinni 25. ágúst 2008 sé of seint fram komin. Með bréfi, dags. 26. maí 2008, hafi lögmanni kæranda verið tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar og hafi honum mátt vera fullljóst að sveitarstjórn þyrfti að staðfesta afgreiðslu nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 9.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og að það yrði gert á næsta fundi sveitarstjórnar. Ekkert í gögnum málsins hafi gefið kæranda tilefni til að ætla annað en að sveitarstjórn myndi staðfesta afgreiðslu skipulagsnefndar. Beri úrskurðarnefndinni því að vísa kærunni frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem kærandi njóti lögfræðiaðstoðar séu ekki efni til að beita undantekningarheimild 1. eða 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. fyrri fordæmi úrskurðarnefndarinnar.

Þegar framkvæmdir kæranda við vatnsbakka Þingvallavatns hafi verið stöðvaðar hafi verið ruddur slóði niður að vatninu og tveir „hafnargarðar“ verið gerðir úr stórgrýti út í vatnið með vélgröfu. Glögglega megi sjá af myndum að um gríðarmikið rask hafi verið að ræða og að kærandi hafi tekið efni úr vatnsbakkanum til að nota í varnargarðinn. Í ljósi þeirra framkvæmda kæranda á skilgreindu náttúruverndarsvæði, allra staðhátta og þeirrar sérstöku verndar sem umrætt svæði njóti samkvæmt lögum nr. 85/2005 hafi framkvæmdir hans verið taldar meiri háttar skv. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þær hafi haft augljós og sýnileg áhrif á umhverfið og breytt ásýnd þess verulega. Ljóst megi vera að mikil ummerki séu eftir hinar ólögmætu framkvæmdir og að umtalsvert jarðrask hafi átt sér stað sem hafi breytt verulega ásýnd vatnsbakkans og landsins.

Þingvallavatn ásamt eyjum og strandlengju umhverfis vatnið sé á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, og njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. sömu laga. Framkvæmdir kæranda hafi því m.a. falið í sér efnistöku innan svæðis sem skilgreint sé sem náttúruverndarsvæði. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga sé öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar í samræmi við náttúruverndarlög. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga sé öll efnistaka háð framkvæmdaleyfi en eiganda eða umráðamanni eignarlands sé þó heimil án leyfis minni háttar efnistaka til eigin nota nema um sé að ræða jarðmyndanir og vistkerfi sem njóti verndar skv. 37. gr. laganna. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga njóti Þingvallavatn sérstakrar verndar og sé því hvers konar efnistaka óheimil nema að fengnu framkvæmdaleyfi. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að framkvæmdir kæranda, sem og efnistaka hans, hafi haft veruleg áhrif og raskað umtalsvert svæði sem sé á náttúruminjaskrá og vistkerfi sem njóti verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Framkvæmd kæranda og efnistaka hafi því verið framkvæmdaleyfisskyld skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í samræmi við greind lagafyrirmæli hafi verið aflað umsagnar Umhverfisstofnunar, sem hafi lagst gegn framkvæmdum kæranda. Skipulagsfulltrúi hafi sent lögmanni kæranda tölvupóst hinn 25. mars 2008, þar sem honum hafi verið kynnt umsögnin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum teldi hann þörf á því áður en málið yrði tekið fyrir hjá skipulagsnefnd. Engin ný gögn hafi borist eða athugasemdir frá lögmanni kæranda. Hafi því að öllu leyti verið gætt málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga, sbr. einkum 13. og 14. gr. laganna. Allar upplýsingar sem þörf hafi verið á og haft hafi þýðingu fyrir ákvörðun í málinu hafi legið fyrir þegar skipulagsnefnd og sveitarstjórn tók ákvörðun sína og því ekki verið um brot gegn 10. eða 13. gr. stjórnsýslulaga að ræða.

Skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun um málið á grundvelli gildandi réttarreglna sem og Aðalskipulags Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016. Hafi því verið um nýja ákvörðun að ræða, sem hafi þurft að eiga sér stoð í gildandi lögum og skipulagi. Hafi það sérstaklega verið tekið fram í bókun skipulagsnefndar og bent m.a. á fyrirmæli hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi, þar sem sett hafi verið bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakka Þingvallavatns.

—————-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu er kæra barst í máli þessu, er kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnarinnar var tekin 3. júní 2008 og var hvorki birt kæranda né lögmanni hans. Kæranda kveðst fyrst hafa orðið kunnugt um ákvörðunina hinn 22. ágúst 2008, þegar lögmaður hans hafi haft samband við skipulagsfulltrúa vegna málsins. Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um staðfestingu sveitarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun fyrr en fyrrgreindan dag og var kærufrestur því ekki liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 25. ágúst 2008.
Hin kærða ákvörðun tekur til framkvæmda á bakka Þingvallavatns, en vatnið og strandlengja þess eru á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Samkvæmt 3. gr. laganna teljast m.a. svæði og náttúrumyndanir á náttúruminjaskrá til náttúruverndarsvæða. Af því leiðir að IV. kafla nefndra laga, sem fjallar um rekstur náttúruverndarsvæða, tekur til svæða á náttúruminjaskrá óháð því hvort þau hafa verið friðlýst eða ekki. Samkvæmt 6. gr. náttúrverndarlaga er það hlutverk Umhverfisstofnunar að hafa með höndum umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum og skv. 2. ml. 1. mgr. 38. gr. nefndra laga er skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði öðrum náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 67. og 68. gr. Þá eru stöðuvötn sem eru 1.000 m2 að stærð eða stærri meðal þeirra jarðmyndana og vistkerfa sem veitt er sérstök vernd, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Fyrir liggur að leitað var umsagnar Umhverfisstofnunar í tengslum af umsókn kæranda vegna umdeildra framkvæmda og verður til hennar litið við úrlausn málsins.
Í 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess. Mat á því hvað teljist meiri háttar framkvæmd í skilningi ákvæðisins ræðst m.a. af aðstæðum og staðháttum hverju sinni. Eins og hér háttar verður þá sérstaklega að líta til þeirra lögákveðnu verndarsjónarmiða er áður hefur verið lýst. Með það í huga, og með hliðsjón af fyrrgreindri umsögn Umhverfisstofnunar um að umdeild framkvæmd muni hafa verulegt rask í för með sér og valda neikvæðum sjónrænum áhrifum, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að skylt hafi verið að leita leyfis sveitarstjórnar fyrir framkvæmdinni samkvæmt fyrrgreindri 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2004-2016, var staðfest af ráðherra 17. maí 2006 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní s.á. Í kafla 3.15 um hverfisverndarsvæði í greinargerð aðalskipulagsins er kveðið á um að hverfisvernd sé á vatnsbakka Þingvallavatns og á 100 m belti frá vatninu. Á svæðinu gildi bann við mannvirkjagerð og jarðraski á ósnortnum svæðum við vatnsbakkann. Hin kærða synjun á framkvæmdaleyfi er byggð á gildandi aðalskipulagi, þar sem beinlínis er lagst gegn jarðraski á ósnortnum bakkanum. Verður því að telja að til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi legið lögmæt og málefnaleg sjónarmið.
Með skírskotun til þess sem rakið hefur verið, og þar sem ekki liggur fyrir að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að raskað geti gildi hennar, verður kröfu um ógildingu hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. júní 2008 vegna umsóknar um leyfi til endurbóta á bátalægi við sumarbústað nr. 1 í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit.

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson