Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Árið 2015, miðvikudaginn 25. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 4/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 8. desember 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Finnur Magnússon hdl., f.h. Ísfélags Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum, áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 22. desember s.m.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar verði felld úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Athugasemdir Umhverfisstofnunar vegna stöðvunarkröfu kæranda bárust nefndinni 20. febrúar sl.

Málsatvik og rök: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju í Vestmannaeyjum. Kærandi notar olíublöndu sem er búin til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar hinn 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar frá 2. október 2012 um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem segi að einungis sé heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn, sbr. mál nr. 10/2014 fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu áformaði stofnunin að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. áminningu, skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna starfsstöðvar kæranda í Vestmannaeyjum. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. desember s.m., sem fyrr segir.

Kærandi segir málið varða sig miklum fjárhagslegum hagsmunum en endurunna olían sé u.þ.b. 20% ódýrari en svartolía. Sparnaður kæranda með innkaupum á endurunninni olíu nemi því verulegum fjárhæðum á ári hverju. Mikil olía sé notuð í stuttan tíma í senn og ráðgert hafi verið að nota olíuna á næstu loðnuvertíð. Fyrirmæli um að kærandi noti ekki endurunna olíu muni leiða til mikils tjóns á loðnuvertíðinni og vertíðum sem eftir fylgi. Kærandi telji kröfu Umhverfisstofnunar byggja á veikum lagalegum grunni. Að öðru leyti vísi hann til málsástæðna og lagaraka í fyrra máli, 20/2014, varðandi kröfu um frestun réttaráhrifa, m.a. um hugsanlega bótaskyldu Umhverfisstofnunar komist úrskurðarnefndin síðar að þeirri niðurstöðu að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi.

Umhverfisstofnun telur ekki vera tilefni til þess að úrskurðarnefndin fallist á kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar umdeildu ákvörðunar. Bent er á að kærandi verði að sýna fram á verulega hagsmuni af því að réttaráhrifum verði frestað og að 20% sparnaður nægi ekki til að telja að svo sé. Algengt sé að mengunarvarnir kosti fjármuni í mengandi starfsemi og meintur sparnaður kæranda í mengunarvörnum geti þýtt aukinn kostnað fyrir aðra aðila. Umhverfisstofnun hafi ekki gripið til annarra þvingunarúrræða en áminningar og hafi því ratað meðalhóf í málinu. Sérstaklega sé mótmælt þeirri fullyrðingu kærða að hagsmunir kæranda af frestun réttaráhrifa séu meiri en hagsmunir af að krafan nái fram að ganga, en Umhverfisstofnun hafi stöðvað brennslu á olíuúrgangi hjá öllum öðrum rekstraraðilum fiskimjölsverksmiðja á landinu. Vísi stofnunin í þessu samhengi til hagsmuna almennings af heilnæmu umhverfi. Stofnunin geti þess einnig að verði réttaráhrifum frestað geti hún ekki beitt dagsektum gagnvart kæranda meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem áminning sé forsenda frekari þvingunarúrræða. Óásættanlegt sé að rekstraraðili geti viðhaldið ástandi sem stofnunin telji ólögmætt, enda sé sem fyrr segi ekki um verulega hagsmuni að ræða.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem fól í sér að veita kæranda áminningu og gefa honum tilhlýðilegan frest til úrbóta í samræmi við 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hafði ákvörðunin þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa færi á úrbótum. Áhrif ákvörðunarinnar eru einkum þau að minna þarf til að beita beinskeyttari þvingunarúrræðum í kjölfar hennar. Þannig er ákvörðunin nauðsynlegur undanfari þess að dagsektum verði beitt skv. 27. gr. laganna. Þá getur hún verið undanfari þess að starfsemi kæranda verði stöðvuð skv. 3. tl. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 26. gr.

Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Beiting beinskeyttari þvingunarúrræða er þó ávallt háð því að ný stjórnvaldsákvörðun þess efnis sé tekin og væri slík ákvörðun þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti kærandi, ef til kæmi, krafist frestunar réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar. Er því hvorki hægt að telja að réttaráhrif ákvörðunarinnar séu yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 né að þau séu slík að hagsmunir kæranda knýi á um frestun þeirra. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu og krefja félagið um úrbætur, eins og tilkynnt var með bréfi, dags. 8. desember 2014.

_______________________________
Nanna Magnadóttir