Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2010 Lágholtsvegur

Árið 2015, fimmtudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum 15,8 m2 svalapalli úr timbri við einbýlishúsið á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. desember 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kærir G, Lágholtsvegi 11, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða synjun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2011 og 4. og 6. febrúar 2015.

Málavextir: Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. ágúst 2007, var kærandi krafinn skýringa á svalapalli sem byggður hafði verið út frá miðhæð hússins við Lágholtsveg 11 án þess að byggingarleyfi lægi fyrir. Með ódagsettu bréfi, mótteknu hjá byggingarfulltrúa 1. október 2007, óskaði kærandi eftir fresti til að sækja um leyfi fyrir svalapallinum. Engri umsókn var þó skilað inn af hálfu kæranda.

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 29. júní 2010, var þess krafist að kærandi fjarlægði svalapallinn af lóðinni innan 30 daga eða sækti ella um byggingarleyfi fyrir honum innan sama frests. Var kæranda jafnframt veittur 14 daga frestur til að tjá sig um málið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. september 2010 var lögð fram fyrirspurn frá kæranda, dags. 17. september 2010, um hvort leyfi fengist fyrir áður nefndum svalapalli sem byggður hefði verið árið 1984. Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til athugasemda á fyrirspurnarblaði. Athugasemdirnar lutu að því að umsögn húsafriðunarnefndar og Minjasafns Reykjavíkur þyrfti að fylgja umsókn um byggingarleyfi þar sem húsið væri friðað. Þá þyrfti að sýna staðsetningu og stærð pallsins á afstöðumynd. Samkvæmt deiliskipulagi væri heimilt að byggja svalir eða viðbyggingu, allt að 20 m2, við húsið en samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þyrfti ef byggja skyldi nær lóðamörkum en þrjá metra. Lóð Lágholtsvegar 11 liggur að lóðunum við Lágholtsveg 9, Grandaveg 36 og 38 og opnu svæði.

Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir svalapallinum með umsókn, dags. 28. október 2010, og fylgdi erindinu samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13, dags. 15. september 2010. Umsókn kæranda var synjað á fundi byggingarfulltrúa 2. nóvember 2010 með svofelldri bókun: „Þrátt fyrir leiðbeiningu með fyrirspurn um að samþykki lóðarhafa Grandavegar 38 yrði að fylgja barst það ekki með byggingarleyfisumsókn. Er erindinu því synjað sbr. ákvæði deiliskipulags. Umsækjanda er bent á að hægt er að sækja um breytta staðsetningu pallsins sbr. ákvæði deiliskipulags. Fjarlægja skal pallinn innan 30 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa leggja til beitingu þvingunarúrræða byggingarreglugerðar.“ Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 4. nóvember 2010.

Málsrök kæranda: Að sögn kæranda var svalapallurinn byggður árið 1984 eða 1985 með samþykki allra þáverandi eigenda nærliggjandi húsa, þar með talið eigenda Grandavegar 38. Ekki hafi verið gerð athugasemd við svalapallinn fyrr en árið 2007 og hann hafi því staðið án athugasemda í 23 ár. Núverandi eigendur Grandavegar 38 hafi eignast hús sitt árið 2004.

Húsið við Lágholtsveg 11 hafi á sínum tíma verið ranglega staðsett eins og fleiri hús á Bráðræðisholtinu. Húsið sjálft sé aðeins 2 m frá lóðamörkum og telur kærandi að það yrði til lýta ef pallurinn fengi ekki að standa í beinni línu við húsið. Staðsetning hússins sé á ábyrgð byggingarfulltrúans í Reykjavík. Í deiliskipulagi sé leyfi fyrir allt að 20 m2 viðbyggingu við hús kæranda en pallurinn sé 15,8 m2. Núverandi eigendur Grandavegar 38 vilji ekki samþykkja svalapallinn vegna þess að af honum sjáist í heitan pott á lóð Grandavegar 38 en hið sama megi raunar segja um rishæð Lágholtsvegar 11.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi fylgt samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13 fyrir pallinum. Síðar hafi úrskurðarnefndinni verið afhent yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38, dags. 24. apríl 2014, um að þeir hefðu ekki gert athugasemd þegar svalapallurinn var byggður, og yfirlýsing um samþykki fyrir pallinum frá eigendum Framnesvegar 66, dags. 17. febrúar 2014, og eiganda Framnesvegar 68, dags. 20. apríl s.á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur ekki undir málsástæður kæranda og telur að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að synja um leyfi fyrir svalapallinum sem um er deilt í málinu. Er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Ljóst sé að samkvæmt deiliskipulagi Lýsisreits, samþykktu í borgarráði hinn 15. febrúar 2007, séu sérskilmálar fyrir lóð kæranda þeir að heimilt sé að byggja svalir eða viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skuli nær lóðamörkum en 3 m. Reykjavíkurborg hafi fyrst orðið kunnugt um svalapallinn þegar vinna við gerð deiliskipulags hafi staðið yfir á árinu 2006 en fallið hafi verið frá því að heimila pallinn þá þar sem hann hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulag auk þess sem ekkert leyfi hafi verið fyrir honum.

Pallurinn sé um 1,20 m frá lóðarmörkum Grandavegar 38 og uppfylli því ekki framangreind skilyrði. Ekki skipti máli hvenær pallurinn hafi verið byggður eða hve lengi hann hafi staðið því ljóst sé að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir honum í upphafi. Árið 2007 hafi verið hafist handa gagnvart eigendum pallsins. Reykjavíkurborg taki hvorki afstöðu til þess í málinu hvort um tómlæti nágranna sé að ræða né til fullyrðinga kæranda um að húsið, sem byggt hafi verið árið 1911, hafi verið rangt staðsett í upphafi enda hafi ekki verið sýnt fram á það af hálfu kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um byggingarleyfi fyrir áður byggðum svalapalli við Lágholtsveg 11. Svalapallurinn mun hafa verið reistur árið 1984 eða 1985 en umsókn um byggingarleyfi fyrir pallinum var fyrst lögð fram 28. október 2010. Um umsóknina og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja henni gilda því skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Þá verður horft til þess deiliskipulags sem í gildi var þegar sótt var um byggingarleyfið.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga var óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem féllu undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Í 2. mgr. sömu greinar kom fram að framkvæmdir skv. 1. mgr. skyldu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Í deiliskipulagi Lýsisreits, sem tekur til umrædds svæðis og samþykkt var í borgarráði 15. febrúar 2007 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní s.á., eru skilgreindar heimildir til endurnýjunar og viðbygginga. Um Lágholtsveg 11 segir þar að heimilt sé að byggja viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar, með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skal nær lóðamörkum en 3 m. Í eldra deiliskipulagi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd Reykjavíkur 21. janúar 1980 og staðfest 24. september s.á., var ekki að finna heimild fyrir byggingu svalapallsins.

Svalapallurinn sem hér um ræðir stendur um 1,2 m frá lóðamörkum Lágholtsvegar 11 og Grandavegar 38. Er því ljóst að samþykki eigenda Grandavegar 38 er áskilið samkvæmt fyrrgreindum skilmálum gildandi deiliskipulags. Breytir þar engu þótt húsið við Lágholtsveg 11 sé aðeins í tveggja metra fjarlægð frá lóðamörkunum. Yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38 um að þeir hafi ekki gert athugasemdir við pallinn þegar hann var reistur verður ekki talin nægja til þess að uppfylla áðurnefnt skilyrði deiliskipulagsins um samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar. Nauðsynlegt var að afla samþykkis lóðarhafa Grandavegar 38 á þeim tíma sem sótt var um byggingarleyfið.

Sú fullyrðing kæranda að svalapallurinn hafi staðið athugasemdalaust í 23 ár hefur ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda verða skipulagsyfirvöld ekki knúin til að veita byggingarleyfi sem færi á svig við ákvæði gildandi deiliskipulags. Var byggingarfulltrúa því rétt sökum skorts á samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar, og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, verður kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson