Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2015 Stórólfshvoll

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2015, kæra á álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds á Lax-á ehf. vegna fasteigna sem fyrirtækið á og rekur að Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Lax-á ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi, ákvörðun Rangárþings eystra frá 26. janúar 2015 um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds vegna fasteigna í eigu félagsins að Stórólfshvoli, lóð nr. 193149. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Rangárþingi eystra með bréfum, dags. 20. og 29. apríl 2015.

Málavextir: Kærandi er með rekstur á Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra, fastanúmer 225-4671. Sveitarfélagið lagði á sorphirðu- og eyðingargjald með álagningarseðli, dags. 26. janúar 2015. Samkvæmt gjaldskrá fyrir sorphirðu og meðhöndlun úrgangs í Rangárþingi eystra, nr. 1246/2014, er grunngjald fyrir fyrirtæki kr. 14.769 á ári. Á álagningarseðlinum kemur fram að sex fasteignir séu á lóð kæranda og er upphæð álagðs sorpgjalds fyrir árið 2015 sexfalt gjald fyrir fyrirtæki, eða kr. 88.614. Var ofangreind ákvörðun um álagningu kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 16. apríl sl., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Rangárþingi eystra sé grunngjald fyrir fyrirtæki kr. 14.769. Kærandi eigi og reki veiðihús við Eystri Rangá í Rangárþingi eystra og greiði fasteignagjöld til sveitarfélagsins. Veiðihúsið samanstandi af sex byggingum, þrjár þeirra séu gistiálmur, ein bygging sé setustofa að hluta og herbergi að hluta, ein eldhús og borðstofa og ein sé með geymslum, þvottahúsi og herbergjum. Veiðihúsið hafi verið rekið þrjá til fjóra mánuði á ári en hafi verið lokað þess utan. Sveitarfélagið leggi sorphirðu- og eyðingargjald sex sinnum á umrædda fasteign félagsins, eða eitt gjald á hverja einingu veiðihússins. Þessu sé kærandi ósammála þar sem gjaldskráin kveði á um að grunngjald skuli lagt á fyrirtæki en ekki hverja einingu innan heildarinnar. Að auki skjóti það skökku við að rekstur, sem kunni að vera mun umfangsmeiri og rekinn allt árið en undir einu þaki, greiði aðeins eitt gjald samkvæmt þessu.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið bendir á varðandi fasteign kæranda að um nokkur hús sé að ræða sem séu með starfsemi að minnsta kosti hluta úr árinu en ekki liggi fyrir nákvæmlega hversu stóran. Ekki hafi komið til umræðu eða afgreiðslu að veita einhvern sérstakan afslátt af gjöldunum vegna þessa. Vitað sé að starfsemin yfir sumarið sé mjög mikil og skilji eftir úrgang. Sorpgjöldin veiti aðgang að gámavöllum sveitarfélagsins og að sorpstöðinni á Strönd. Telji sveitarfélagið fráleitt að kærandi greiði einungis eitt eyðingargjald að fjárhæð kr. 14.769 vegna þessarar starfsemi og því sé mótmælt að ranglega hafi verið staðið að álagningunni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteignir í eigu kæranda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Kærandi leitaði hins vegar í kjölfar álagningarinnar til umboðsmanns Alþingis og var þá leiðbeint um  kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og kærufrest, en slíkar leiðbeiningar var ekki að finna á álagningarseðli. Þar sem telja verður afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að fresti liðnum verður málið tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar skal sveitarstjórn setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig heimild í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hefur Rangárþing eystra sett samþykkt nr. 46/2012 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 2012.
 
Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málsl. 2. mgr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. samþykktar nr. 46/2012 skal innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við ákvæði þágildandi 11. gr. laga nr. 55/2003, sem var í meginatriðum samhljóða núgildandi 23. gr. laganna, sbr. breytingarlög nr. 63/2014. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði samþykktarinnar er sveitarstjórn heimilt að innheimta sorphirðugjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er í samræmi ákvæði áðurnefndrar 23. gr., sbr. 25. gr., laga nr. 7/1998. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. samþykktarinnar skulu gjöld lögð á hverja fasteign, lögbýli, frístundahús, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjónustu. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og var það síðast gert með gjaldskrá nr. 1246/2014.

Samkvæmt 2. gr. gjaldskrárinnar er sorphreinsunargjald lagt á í fjórum flokkum: á heimili, frístundahús, lögbýli og fyrirtæki. Kærandi er fyrirtæki sem rekur m.a. veiðihús í sveitarfélaginu. Grunngjald á fyrirtæki er kr. 14.769 og er ekki gert ráð fyrir öðru en að fyrirtæki greiði eitt grunngjald á ári. Stjórnvöld geta almennt ekki tekið ákvarðanir sem eru íþyngjandi fyrir borgarana nema hafa til þess heimild í lögum og reglugerðum. Er og mikilvægt að skýrar heimildir séu fyrir álagningu stjórnvalda á gjöldum sem innheimt eru til að standa straum af kostnaði við veitta þjónustu. Samkvæmt gögnum málsins var lagt sexfalt fyrirtækjagjald á kæranda þar sem sex hús standa á fasteign hans að Stórólfshvoli. Samkvæmt því sem áður er rakið er hins vegar ekki gert ráð fyrir þess háttar álagningu á fyrirtæki heldur einu grunngjaldi á ári. Breytir engu hvort kærandi nýtir sér þjónustuna í miklum eða litlum mæli, enda hefur sveitarfélagið ekki nýtt sér heimild 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 til að ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, heldur kosið að leggja á jafnaðargjald án tillits til notkunar einstakra aðila á þjónustunni.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að fullnægjandi heimild skorti fyrir álagningu umfram eitt grunngjald og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi að þeim hluta.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Rangárþings eystra um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds umfram eitt grunngjald fyrirtækja á Lax-á ehf. vegna fasteigna sem fyrirtækið á og rekur að Stórólfshvoli í Rangárþingi eystra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

22/2013 Fluggarðar

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2013, kæra á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að leggja á fráveitugjald á árinu 2013 vegna fasteignarinnar Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til innanríkisráðuneytisins, dags. 10. febrúar 2013, mótteknu 12. s.m., sem framsent var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og barst henni 25. s.m., kærir K Háaleitisbraut 139, Reykjavík, þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur frá 14. janúar 2013 að leggja fráveitugjald á fasteignina Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur 11. mars 2013 og viðbótargögn bárust 10. mars sl.

Málavextir: Með álagningarseðli, dags. 14. janúar 2013, var kæranda tilkynnt um álagningu vatns- og fráveitugjalda 2013 vegna fasteignar hans að Fluggörðum 26, að fjárhæð kr. 261.753, þar af fráveitugjöld kr. 164.033. Fluggarðar 26 er flugskýli sem er 448 m² að stærð.

Árin 2011 og 2012 gerði kærandi athugasemdir við álagningu samskonar gjalda en fékk þau svör frá Orkuveitu Reykjavíkur að álagningin væri í samræmi við lög.

Málsrök kæranda:
Kærandi skírskotar til þess að hann hafi kært álagningu vatns- og fráveitugjalda vegna Fluggarða 26 til Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011, 2012 og nú 2013 en svar vegna síðastnefnds árs hafi ekki borist. Flatarmál flugskýlisins sé 448 m² og skýlið sé nýtt til geymslu á flugvélum. Aðeins um 15% af skýlinu sé upphitað. Eitt salerni með handlaug sé í skýlinu og eldhúsvaskur í kaffistofu. Vísi kærandi í 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til stuðnings því að greiðsla miðist við vatnsnotkun á köldu vatni. Hann hafi keypt löggiltan vatnsrennslismæli árið 2011 sem komið hafi verið fyrir á innrennsli kalda vatnsins. Ljóst sé að 261.753 króna gjald fyrir eitt salerni sé hrein eignaupptaka og sé óskað eftir því að gjöldin verði leiðrétt svo langt aftur í tímann sem lög frekast leyfi.

Málsrök Orkuveitu Reykjavíkur: Orkuveita Reykjavíkur vísar til þess að skv. 15. gr. laga nr. 9/2009 skuli stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. laganna. Fram komi að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar. Heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Gjaldskrá fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur, sem birt sé á heimasíðu fyrirtækisins, miðist við fast gjald og breytilegt vegna flatarmáls húsnæðis. Ekki sé gert ráð fyrir gjaldtöku vegna mældrar notkunar nema vegna atvinnurekstrar og þá sem viðbót við framangreinda gjaldtöku. Þar sem um mælda notkun sé að ræða séu mælar settir upp á vegum Orkuveitunnar. Í kæru komi fram að salerni ásamt handlaug og eldhúsvaskur sé í flugskýlinu. Því sé óumdeilt að vatnslögn og fráveita sé tengt við skýlið. Álagning og innheimta hins umdeilda fráveitugjalds sé í samræmi við ákvæði laga nr. 9/2009 og gjaldskrá fyrirtækisins fyrir fráveitu, nr. 1190/2012.

Símtöl í þjónustuver og mál er varði vatns- og fráveitugjöld séu skráð sérstaklega en ekkert sé að finna í gögnum Orkuveitunnar vegna hinnar kærðu álagningar á árinu 2013. Líti fyrirtækið svo á að athugasemdir við hina kærðu álagningu hafi ekki borist það ár og sé á það bent að í stjórnsýslulögum sé gengið út frá því að kærur séu settar fram skriflega, sbr. orðalag 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tölur yfir rekstur fráveitu Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011, 2012 og 2013 séu eftirfarandi:

                                           2011              2012          2013

Heildartekjur                 3.441.047        4.228.195     4.674.380
Rekstrarkostnaður           802.976          896.016        865.464
Afskriftir                         1.439.929        1.295.793     1.257.365
EBIT                              1.198.142        2.036.386     2.551.551
Fjármagnskostnaður     3.520.787        2.358.975     1.234.360
Afkoma                        -2.322.645         -322.589      -1.317.191

Arður                                           0                     0                      0

Niðurstaða: Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur vegna álagðra fráveitugjalda á fasteign kæranda fyrir árin 2011 og 2012 var því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 25. febrúar 2013. Því verður einungis kæra vegna álagningar umrædds gjalds fyrir árið 2013 tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærandi heldur því fram að hann hafi gert athugasemdir símleiðis við álagningu ársins 2013 en Orkuveita Reykjavíkur segir ekkert koma fram um það í gögnum hennar. Þar sem ekki verður ráðið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi hafi sannanlega gert athugasemdir við álagningu ársins 2013 einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við álagninguna samkvæmt álagningarseðli.

Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna skal það sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt er skv. tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 14 gr. laganna er að finna heimild fyrir innheimtu fráveitugjalda en þar segir í 1. mgr.: „Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.“ Í 2. mgr. kemur fram að heimilt sé að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli þar sem frárennsli sé veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélags. Í 15. gr. áðurnefndra laga er kveðið á um gjaldskrá og gjaldstofn en í 1. mgr. ákvæðisins segir að stjórn fráveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Heimilt er að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði með sérstaka gjaldskrá skv. 3. mgr. 15. gr. og hefur Orkuveitan nýtt sér þá heimild og sett sérstaka gjaldskrá fyrir veitusvæði I, sem tekur til Reykjavíkurborgar. Í 1. ml. 2. mgr. 15. gr. laganna segir um gjaldheimildina að miða skuli við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Í 2. ml. segir um álagningargrundvöllinn að heimilt sé að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur sé heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar. Gjaldskrá nr. 1190/2012 vegna fráveitugjalda fyrir árið 2013 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember 2012. Miðar gjaldskráin við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar.

Hin kærða álagning miðar við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar sem almennan gjaldstofn í samræmi við gjaldskrá nr. 1190/2012, sbr. 2. ml. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. Fráveitur og rekstur þeirra eru hluti af lögbundnu hlutverki sveitarfélaga og eitt af meginverkefnum í grunnþjónustu sveitarfélags í þágu íbúa þess. Er því mikilvægt að starfsemi þeirra sé í föstum skorðum, eins og endurspeglast í lögum nr. 9/2009, þar sem kveðið er á um heimild fráveitna til innheimtu fráveitugjalds af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags, eins og vísað var til hér að framan. Óumdeilt er að fasteign kæranda er tengd fráveitu og ber honum því að greiða gjald vegna hennar. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Þarf gjaldtaka hvers og eins notanda þannig ekki að vera í samræmi við notkun hans á fráveitukerfinu heldur er heimilt að byggja gjaldtöku á þeim heildarkostnaði sem almennt hlýst af að veita þjónustuna, en grundvöllur kostnaðarins er tíundaður í 1. ml. 2. mgr. 15. gr. sem áður er rakin. Samkvæmt gögnum málsins eru heildartekjur fráveitunnar ekki hærri en kostnaður af þjónustunni og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald samkvæmt áður tilvitnuðum ákvæðum 1. ml. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að leggja á fráveitugjald á árinu 2013 vegna fasteignarinnar Fluggarða 26, fastanúmer 202-9213, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

70/2014 Álmakór

Með

Árið 2015, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2014, kæra á álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar að Álmakór 22, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2014, er barst nefndinni 9. s.m., kæra B og H, Álmakór 22, Kópavogi, þá ákvörðun Kópavogsbæjar frá 13. janúar 2014 að leggja á sorphirðu- og eyðingargjald að fjárhæð kr. 22.000 vegna fasteignar þeirra að Álmakór 22. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þeir krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 26. ágúst 2014 og 29. apríl 2015.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. október 2013 var ákveðið á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að innheimta kr. 22.000 í sorphirðu- og eyðingargjald á hverja íbúð í Kópavogi á árinu 2014. Samkvæmt bókun skyldi innheimta gjaldið með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum. Gjaldið var lagt á kærendur með álagningarseðli, dags. 13. janúar 2014, vegna fasteignar þeirra. Með bréfi, dags. 2. maí 2014, sendu kærendur Kópavogsbæ fyrirspurn vegna gjaldanna. Í svarbréfi bæjarlögmanns, dags. 13. júní s.á., var haldið fram rétti bæjarfélagsins til að innheimta jafnaðargjald vegna sorphirðu og jafnframt bent á kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæran er dags. 8. júlí 2014, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur mótmæla álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds á fasteign þeirra á þeim grundvelli að þeir hafi aldrei nýtt sér þjónustuna sem verið sé að innheimta gjald fyrir og aldrei haft sorptunnur við hús sitt. Ekki hafi verið þörf fyrir nefnda þjónustu þar sem kærendur endurnýti allan lífrænan úrgang í garðrækt og flokki annan úrgang ítarlega og fari með í móttökustöð Sorpu. Kærendur telji einkennilegt að sé Kópavogsbær skyldaður með lögum til að innheimta gjald fyrir þjónustu sem kærendur nýti sér ekki skuli þeir vera krafðir um gjald hjá móttökustöð Sorpu bs. fyrir sömu þjónustu. Kærendur hafi flutt inn í hús sitt árið 2009 og fyrstu árin hafi þeir fengið gjöld þessi niðurfelld. Eftir breytingar á sveitarstjórn í Kópavogi hafi reglum verið breytt þannig að allir þurfi að greiða gjaldið hvort sem þjónustan sé nýtt eða ekki.

Málsrök Kópavogsbæjar: Í greinargerð bæjarfélagsins kemur fram að heimilt sé samkvæmt lögum að innheimta jafnaðargjald fyrir sorphirðu. Löng hefð sé fyrir því hjá Kópavogsbæ að sorphirðu- og eyðingargjöld séu greidd með einu jafnaðargjaldi fyrir allar íbúðir óháð þjónustustigi. Við gerð fjárhagsáætlunar sé ákveðið hvert gjaldið skuli vera og það innheimt með fasteignagjöldum. Þetta gjald fari til Sorpu bs., sem sjái um sorphirðu fyrir bæinn ásamt eyðingu. Sú fjárhæð sem innheimt sé nái ekki upp í þá fjárhæð sem sveitarfélagið greiði árlega til reksturs Sorpu. Óumflýjanlegt sé að nýting þjónustunnar sé mismikil hjá íbúum með tilliti til fjölda í hverri fasteign o.fl. Það yrði miklum vandkvæðum bundið að meta þjónustustig fyrir einstakar íbúðir og telji sveitarfélagið því eðlilegt að eitt gjald sé ákveðið fyrir alla.

Leiða megi líkur að því að kærendur nýti sér sorpeyðingarþjónustu Sorpu fyrir sitt almenna heimilissorp og séu þ.a.l. að nýta sér þá þjónustu sem sé innifalin í stærstum hluta umrædds jafnaðargjalds. Kærendur fullyrði að Sorpa bs. rukki þá samkvæmt gjaldskrá þegar komið sé með sorp á móttökustöð. Ekki sé rukkað fyrir móttöku á almennu heimilissorpi og skyldum úrgangi hjá Sorpu. Það sorp sem greiða þurfi fyrir móttöku á falli ekki undir flokkinn almennt heimilissorp og falli því utan þess sorphirðugjalds sem málið snúist um.

Yfirlit yfir kostnað við sorphirðu á móti gjöldum sé eftirfarandi fyrir árin 2009 til 2013. Árið 2012 hafi orðið hækkun vegna bláu tunnunnar.

                                              2013                 2012                    2011                       2010                    2009
Sorphirðugjald         -255.135.627     -280.235.569       -219.387.789        -203.534.540        -179.722.398
Sorphreinsun              88.991.135      108.118.053          94.996.617            93.626.583            87.972.735
Sorpeyðing               147.237.425      126.180.152        119.873.369           103.985.252          114.758.306
Bláa tunnan                26.601.456          17.498.638                        0                            0                            0
Afkoma                         7.694.389        -28.438.726          -4.517.803            -5.922.705            23.008.643

Niðurstaða: Í máli þessu krefjast kærendur þess að fellt verði niður sorphirðu- og eyðingargjald á fasteign þeirra þar sem þau nýti sér ekki þjónustuna sem verið sé að innheimta gjald fyrir. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og var kærendum fyrst leiðbeint þar um með bréfi bæjarlögmanns, eins og nánar greinir í málavöxtum. Verður því að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind væru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greindi í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim. Þá segir í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að sveitarfélög geti sett sér samþykktir m.a. um meðferð úrgangs og skolps. Kópavogsbær hefur ekki sett sér samþykkt á grundvelli tilvitnaðra lagaákvæða.

Í 4. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 segir að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr., þ.m.t. um meðferð úrgangs og skolps, og skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Þá var sveitarfélögum skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Loks sagði í 4. mgr. þeirra lagagreinar að sveitarfélögum væri heimilt að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða framangreint gjald og að sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skyldi láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum segir að ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir séu almenns eðlis. Þá segir að ákveðið hafi verið að fara þá leið að gera tillögu um frumvarp til sérlaga þar sem kveðið yrði á um meðhöndlun úrgangs. Hins vegar er engin ráðagerð í frumvarpinu þess efnis að ákvörðun um innheimtu gjalda fari fram með breyttum hætti miðað við lög nr. 7/1998, en þau lög gilda samhliða lögum nr. 55/2003. Verður að skilja tilvitnuð lagaákvæði svo að nýti sveitarfélög sér heimildina til að innheimta gjald skuli þau setja gjaldskrá þar um og birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Er sá skilningur einnig í samræmi við þágildandi 4. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Slíkt var ekki gert heldur bæjarstjórn Kópavogsbæjar ákvörðun á fundi sínum um álagninguna og lét þar við sitja. Þar sem hin umdeildu gjöld voru ekki lögð á með formlega réttum hætti verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Kópavogsbæjar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar að Álmakór 22, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

74/2011 Austurbraut

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 30. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 74/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2011, er barst nefndinni 3. október s.á. kærir H, Austurbraut 8, Reykjanesbæ, ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 14. september 2011 að gefa kærendum frest til 1. október s.á. til þess að fjarlægja hjólhýsi úr innkeyrslu fasteignar þeirra að Austurbraut 8. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar verði frestað þar til úrskurður gangi í málinu. 

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök:  Húsið að Austurbraut 8, Reykjanesbæ er tvíbýlishús og munu vera tvær innkeyrslur inn á lóð hússins, ein fyrir hvora íbúð. í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011, var upplýst að embættinu hefði borist erindi frá meðeiganda að lóðinni Austurbraut 8 þar sem kvartað væri yfir óþægindum sem stöfuðu af notkun kærenda á innkeyrslu að húsinu, þar sem m.a. væri geymt hjólhýsi.  Var kærendum góðfúslega bent á að fjarlægja hjólhýsið innan tiltekins frests þar sem ekki hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir hjólhýsinu skv. gr. 71 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og ekki lægi fyrir samkomulag eigenda umræddrar lóðar um að geyma hjólhýsið í innkeyrslunni.

Kærendur vísa til þess að umrædd innkeyrsla tilheyri íbúð þeirra og sé samkvæmt eignaskiptasamningi sérafnotaflötur þeirra. Umrætt hjólhýsi sé lagt í innkeyrsluna þegar það sé ekki í notkun og af því stafi ekkert ónæði eða annað óhagræði gagnvart sameiganda lóðarinnar að Austurbraut 8. 71. gr. byggingarreglugerðar um stöðuleyfi taki aðeins til langvarandi stöðu hjólhýsa í notkun.  

Byggingaryfirvöld Reykjanesbæjar komu því á framfæri við úrskurðarnefndina í tölvupósti hinn 14. nóvember 2014 að ekki hafi komið til aðgerða af bæjarins hálfu í kjölfar bréfs byggingarfulltrúa dags. 14. september 2011. Umrætt hjólhýsi hafi fljótlega verið fært úr innkeyrslu að Austurbraut 8 og ekki sé ástæða til frekari afskipta embættis byggingarfulltrúa af málinu vegna breyttra forsendna.

Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011. Í því bréfi er tilmælum beint til kærenda um að fjarlægja umdeilt hjólhýsi úr innkeyrslu að Austurbraut 8 í Reykjanesbæ innan tilgreinds frests en ekki eru þar tilkynntar ákvarðanir bæjaryfirvalda um þvingunarúrræði eða aðrar ráðstafanir til að knýja fram brottflutning hjólhýsisins.  

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 123/2010 sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nema á annan veg væri mælt í lögum. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir æðra stjórnvald. Af orðalagi fyrrgreinds bréfs byggingarfulltrúa verður ekki ráðið að þar sé verið að birta kærendum einhliða ákvörðun stjórnvalds í skjóli stjórnsýsluvalds um skyldu til athafna heldur tilmæli eða áskorun um að fjalægja nefnt hjólhýsi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af fram komnum upplýsingum byggingarfulltrúa um framvindu málsins verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

74/2011 Austurbraut

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 30. apríl, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 74/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. september 2011, er barst nefndinni 3. október s.á. kærir H, Austurbraut 8, Reykjanesbæ, ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 14. september 2011 að gefa kærendum frest til 1. október s.á. til þess að fjarlægja hjólhýsi úr innkeyrslu fasteignar þeirra að Austurbraut 8. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum hennar verði frestað þar til úrskurður gangi í málinu. 

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök:  Húsið að Austurbraut 8, Reykjanesbæ er tvíbýlishús og munu vera tvær innkeyrslur inn á lóð hússins, ein fyrir hvora íbúð. í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011, var upplýst að embættinu hefði borist erindi frá meðeiganda að lóðinni Austurbraut 8 þar sem kvartað væri yfir óþægindum sem stöfuðu af notkun kærenda á innkeyrslu að húsinu, þar sem m.a. væri geymt hjólhýsi.  Var kærendum góðfúslega bent á að fjarlægja hjólhýsið innan tiltekins frests þar sem ekki hafi verið veitt stöðuleyfi fyrir hjólhýsinu skv. gr. 71 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 og ekki lægi fyrir samkomulag eigenda umræddrar lóðar um að geyma hjólhýsið í innkeyrslunni.

Kærendur vísa til þess að umrædd innkeyrsla tilheyri íbúð þeirra og sé samkvæmt eignaskiptasamningi sérafnotaflötur þeirra. Umrætt hjólhýsi sé lagt í innkeyrsluna þegar það sé ekki í notkun og af því stafi ekkert ónæði eða annað óhagræði gagnvart sameiganda lóðarinnar að Austurbraut 8. 71. gr. byggingarreglugerðar um stöðuleyfi taki aðeins til langvarandi stöðu hjólhýsa í notkun.  

Byggingaryfirvöld Reykjanesbæjar komu því á framfæri við úrskurðarnefndina í tölvupósti hinn 14. nóvember 2014 að ekki hafi komið til aðgerða af bæjarins hálfu í kjölfar bréfs byggingarfulltrúa dags. 14. september 2011. Umrætt hjólhýsi hafi fljótlega verið fært úr innkeyrslu að Austurbraut 8 og ekki sé ástæða til frekari afskipta embættis byggingarfulltrúa af málinu vegna breyttra forsendna.

Niðurstaða: Tilefni kærumáls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 14. september 2011. Í því bréfi er tilmælum beint til kærenda um að fjarlægja umdeilt hjólhýsi úr innkeyrslu að Austurbraut 8 í Reykjanesbæ innan tilgreinds frests en ekki eru þar tilkynntar ákvarðanir bæjaryfirvalda um þvingunarúrræði eða aðrar ráðstafanir til að knýja fram brottflutning hjólhýsisins.  

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 123/2010 sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála nema á annan veg væri mælt í lögum. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir æðra stjórnvald. Af orðalagi fyrrgreinds bréfs byggingarfulltrúa verður ekki ráðið að þar sé verið að birta kærendum einhliða ákvörðun stjórnvalds í skjóli stjórnsýsluvalds um skyldu til athafna heldur tilmæli eða áskorun um að fjalægja nefnt hjólhýsi.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af fram komnum upplýsingum byggingarfulltrúa um framvindu málsins verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

91/2013 Kröflulína 3

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 7. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2013, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2013 um að samþykkja tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Kröflulínu 3 með tilteknum athugasemdum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. september 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Þórður Bogason hrl., f.h. Landsnets hf., Gylfaflöt 9, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. ágúst 2013 að samþykkja tillögu Landsnets hf. að matsáætlun Kröflulínu 3 með tilteknum athugasemdum. Er þess krafist að þrír liðir í athugasemdum Skipulagsstofnunar verði felldir úr gildi. Til vara er þess krafist að staðfest verði að nefndir liðir teljist ekki vera athugasemdir er verði hluti matsáætlunar í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 23. október 2013.

Málavextir: Kærandi er framkvæmdaraðili fyrirhugaðrar Kröflulínu 3. Framkvæmdin felst í lagningu 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2013, tilkynnti Skipulagsstofnun kæranda svohljóðandi ákvörðun sína um tillögu hans að matsáætlun fyrir umrædda framkvæmd: „Í samræmi við 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hefur Skipulagsstofnun farið yfir framlagða tillögu Landsnets að matsáætlun ásamt þeim umsögnum og athugasemdum sem borist hafa stofnuninni. Skipulagsstofnun fellst á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun með þeim viðbótum sem Landsnet setti fram í tölvubréfum dags. 24. júní, 22. júlí og 7. ágúst 2013 og með eftirfarandi athugasemdum.“ Eru athugasemdirnar taldar upp í 12 ótölusettum liðum. Með bréfi, dags. 3. september s.á., fór kærandi fram á rökstuðning Skipulagsstofnunar vegna hluta athugasemdanna. Svör stofnunarinnar bárust kæranda með bréfi, dags. 6. s.m. Kærandi hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður greinir, og lýtur kæran að eftirfarandi þremur athugasemdum stofnunarinnar:

Þörf fyrir 220 kV háspennulínu og flutningsgeta

Í kafla 2.1 í tillögu að matsáætlun kemur fram að í frummatsskýrslu verði fjallað nánar um þörf fyrir styrkingu raforkukerfisins með byggingu 220 kV línu til viðbótar við núverandi 132 kV línu og áætlaðan tímaramma við spennuhækkun byggðalínuhringsins. Í athugasemdum, m.a. frá Landvernd, er talin þörf á að gera grein fyrir í tillögu að matsáætlun hvaða þörf sé til staðar fyrir fyrirhugaða háspennulínu og tengja þá þörf við flutningsgetu hennar. Skipulagsstofnun tekur undir framangreindar athugasemdir. Í frummatsskýrslu þarf að skýra hvers vegna nauðsynlegt er að byggja 220 kV línu, hvort og þá hvers vegna ekki er talið nægilegt að byggja nýja 132 kV línu eða styrkja núverandi línu. Jafnframt verði gerð grein fyrir þörf þess að núverandi 132 kV lína standi áfram sem og upplýsingar um hvort að ætlunin er að reka nýju línuna á 132 kV spennu í upphafi og þá hve lengi. Skipulagsstofnun leggur áherslu á að umfjöllun í frummatsskýrslu fyrir þörf 220 kV Kröflulínu 3 verði markvissari en var í frummatsskýrslu og matsskýrslu um Blöndulínu 3 þar sem niðurstaða í áliti stofnunarinnar var sú að forsendur og rökstuðningur Landsnets fyrir þörf 220 kV línu væri háð töluverðri óvissu.

Þá bendir Skipulagsstofnun á það sem fram kemur í athugasemd Landverndar um tillögur nefndar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um lagningu raflína í jörð (jarðstrengjanefndin), sem skilaði skýrslu í febrúar sl. en þar var lagt til að þörf á lagningu raflína sé skilgreind og kynnt hagsmunaaðilum og almenningi mun fyrr í ákvörðunarferli um lagningu raflína en nú er (Þessi atriði koma fram í skýrslunni í upphafi kafla um undirbúning framkvæmdar). Skipulagsstofnun tekur undir þetta atriði með Landvernd. Í frummatsskýrslu þarf að skýra frá þessum niðurstöðum, auk þess sem eðlilegt er að fjalla að öðru leyti um helstu niðurstöður nefndarinnar í frummatsskýrslunni sem varða uppbyggingu mannvirkja á borð við Kröflulínu 3.

Valkostir-jarðstrengir-loftlínur

Í kafla 2.2.6 í tillögu að matsáætlun er fjallað um jarðstrengi. Við kynningu tillögu að matsáætlun komu fram athugasemdir um lagningu jarðstrengja í stað loftlína, m.a. frá Landvernd, sem benti á að ekki væri endilega um að ræða að leggja ætti mat á umhverfisáhrif af lagningu jarðstrengja á allri línuleiðinni, heldur á tilteknum köflum þar sem sérstök ástæða væri til að kanna lagningu jarðstrengs til jafns við loftlínur. Í því sambandi var bent á að niðurstaða nefndar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um lagningu raflína í jörð (jarðstrengjanefndin) hafi verið á þá leið að á ákveðnum svæðum ætti ávallt að skoða bæði jarðstrengi og loftlínur, m.t.t. áhrifa á umhverfi, óháð því hvort umtalsverður kostnaðarmunur væri á þeim (bls. 9-10 í skýrslu nefndarinnar). Í ljósi ofangreinds leggur Skipulagsstofnun áherslu á að í frummatsskýrslu þurfi að setja fram valkost sem jarðstreng á afmörkuðum svæðum ef aðstæður kalla á slíkt, s.s. á viðkvæmum svæðum m.t.t. sjónrænna áhrifa og/eða á verndarsvæðum. Ennfremur tekur Skipulagsstofnun undir það sem fram kemur í umsögn Fljótsdalshrepps um að metin verði umhverfisáhrif annarra kosta en að leggja loftlínu ofan af Valþjófsstaðarfjalli. Í því sambandi er vakin athygli á því sem fram kemur í umsögn Landverndar um verndargildi Valþjófsstaðarfjalls, skv. sérfræðiskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um Kárahnjúkavirkjun.

Fram hefur komið í umfjöllun um aðrar framkvæmdir Landsnets, s.s. Blöndulínu 3 að á grundvelli þeirra laga sem Landsnet starfar eftir, vinni fyrirtækið eftir þeirri stefnu að tengingar á 220 kV spennu og hærri séu lagðar sem loftlínur nema í algjörum undantekningartilfellum, s.s. við einstæðar umhverfisaðstæður og í þéttri íbúðarbyggð. Auk þess kemur fram í svörum Landsnets við athugasemdum Landverndar að samkvæmt stefnu Landsnets sé heimilt að skoða jarðstrengslausnir á 220 kV spennu m.a. við eftirfarandi aðstæður: „Þegar loftlínutenging er ekki talinn skynsamlegur kostur vegna aðstæðna, s.s. vegna öryggismála, sértækra landfræðilegra aðstæðna eða umhverfissjónarmiða. Með þessum aðstæðum er átt við eftirfarandi: 1. Línulögn innan þjóðgarða, friðlanda eða fólkvanga sem eru hvort tveggja í senn: a. friðlýst samkvæmt lögum um náttúrvernd vegna sérstæðs landslags og b. niðurstaða mats á umhverfisáhrifum er sú að ófært er talið að leggja loftlínu um viðkomandi svæði eða sneiða hjá því“. Skipulagsstofnun telur að auk þessa beri Landsneti að horfa til fyrrnefndrar niðurstöðu jarðstrengjanefndarinnar um að á ákveðnum svæðum ætti ávallt að skoða bæði jarðstrengi og loftlínur, m.t.t. áhrifa á umhverfi, óháð því hvort umtalsverður kostnaðarmunur sé á þeim. Skipulagsstofnun telur að þó að tillögur jarðstrengjanefndar hafa ekki verið formlega samþykktar og að viðmið um það hvenær jarðstrengur skuli skoðaður ásamt loftlínu skilgreind, þá sé tilefni til að kanna lagningu og meta umhverfisáhrif 220 kV loftlínu og jarðstrengs til jafns á tilteknum köflum leiðarinnar.

Skipulagsstofnun leggur áherslu á að almennur samanburður á loftlínum og jarðstrengjum eins og Landsnet fyrirhugar í frummatsskýrslu Kröflulínu 3 og felst í almennri umfjöllun um umhverfisáhrif, kostnaðarmun og erfiðleika við viðgerð jarðstrengja í samanburði við loftlínur, þ.e. án samanburðar sem miðaður er við tiltekna framkvæmd, staðhætti og framkvæmdasvæði geti ekki talist fullnægjandi samanburður kosta í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun telur að slík almenn umfjöllun um jarðstrengi og loftlínur eins og Landsnet hefur m.a. lagt fram í frummatsskýrslum um Blöndulínu 3 og SV-línur geti hins vegar átt heima í umfjöllun um loftlínukosti. Mat á jarðstreng á afmörkuðum svæðum á línuleiðinni, í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að ofan, þarf að vera ítarlegt m.t.t. hinna mismunandi umhverfisþátta og lagt fram á sambærilegan hátt eins og við umhverfisáhrif loftlínu í frummatsskýrslu.

Þá bendir Skipulagsstofnun á að athugasemdir bárust um stefnu ýmissa Evrópuríkja um lagningu jarðstrengja annars vegar og loftlína hins vegar. Stofnunin telur að ástæða sé til að fjalla í frummatsskýrslu um þetta atriði.

Aðrir valkostir

Í inngangskafla tillögu að matsáætlun og kafla 2.2.6 kemur fram að Landsneti beri, skv. 9. gr. raforkulaga, að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Skipulagsstofnun bendir á að í markmiðsgrein raforkulaga kemur jafnframt fram að taka beri tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti. Þá minnir stofnunin á að eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga skal eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Ein leið að því markmiði er að bera saman umhverfisáhrif mismunandi valkosta.

Skipulagsstofnun bendir á að í tillögu að matsáætlun Kröflulínu 3 er ekki gert ráð fyrir að aðrir leguvalkostir séu skoðaðir vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar utan þess að settir eru fram 2-3 leguvalkostir við Kröflu. Ekki er gert ráð fyrir öðrum loftlínukostum sem kynnu að hafa minni umhverfisáhrif en gætu þjónað markmiðum framkvæmdarinnar þó ekki væri til næstu 70 ára, sbr. svör Landsnets við athugasemdum Sifjar Konráðsdóttur. Skipulagsstofnun bendir í þessu sambandi á að í tilfelli Blöndulínu 3 er gert ráð fyrir að hún verði rekin á lægri spennu í allt að áratug eða lengur. Sé það sama uppi á teningnum í tilviki Kröflulínu 3 telur Skipulagsstofnun vel koma til álita að skoðaður verði sá valkostur í mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar að byggð verði 132 kV lína, samsíða núverandi línu en slík lína yrði væntanlega minna mannvirki og neikvæð umhverfisáhrif hennar minni. Slík lína kynni að uppfylla orkuþörf á Norðausturlandi til náinnar framtíðar. Í ljósi framlagðra gagna telur stofnunin ennfremur að ekki sé ólíklegt að gera megi ráð fyrir að á næstu árum dragi úr þeim kostnaðarmun sem er á jarðstrengjum og loftlínum. Þannig geti jarðstrengur orðið fýsilegri kostur m.t.t. kostnaðar og viðhaldsaðgengis.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að við ákvörðun sína hafi Skipulagsstofnun farið út fyrir valdmörk sín að hluta til. Annars vegar með því að taka til umfjöllunar þætti sem heyri undir Orkustofnun, sem veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd, og hins vegar með því að fjalla um atriði sem varði ekki þá framkvæmd sem óskað sé mats á. Stofnunin hafi þannig tekið til umfjöllunar atriði um nýja framkvæmd sem framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram til mats á umhverfisáhrifum.

Í tillögu kæranda að matsáætlun sé fjallað um þörf fyrir styrkingu raforkukerfisins með byggingu 220 kV línu til viðbótar við núverandi 132 kV línu og áætlaðan tímaramma við spennuhækkun byggðarlínuhringsins. Kærandi hafi tekið fram að um þetta yrði nánar fjallað í frummatsskýrslu. Í ákvörðun sinni hafi Skipulagsstofnun talið að skýra þyrfti í frummatsskýrslu hvort, og þá hvers vegna, ekki væri talið nægjanlegt að byggja nýja 132 kV línu eða styrkja núverandi línu og að gera yrði grein fyrir því hvort áætlað væri að reka nýja línu á 132 kV spennu í upphafi og þá hve lengi. Stofnunin hafi lagt áherslu á að umfjöllun frummatsskýrslunnar um þörfina á 220 kV Kröflulínu 3 þurfi að vera markvissari en verið hafi í frummatsskýrslu og matsskýrslu um Blöndulínu 3. Kærandi mótmæli framangreindu og telji ólögmætt að nefnd athugasemd verði hluti matsferlis. Framkvæmdaraðili skuli gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur sé skv. 1. máls. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat hvíli á kæranda sem framkvæmdaraðila enda beri hann ábyrgð á umhverfismatinu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi einvörðungu verið byggðar á fram komnum umsögnum en láðst hafi að meta matsáætlun og svör kæranda út frá þeim lögum og reglum sem gildi um mat á umhverfisáhrifum. Óvissa ríki um framtíðarþörf en rök kæranda fyrir 220 kV háspennulínu séu málefnaleg og byggð á reynslu sem komin sé af uppbyggingu meginflutningskerfisins. Kærandi starfi fyrst og fremst á grundvelli III. kafla raforkulaga og hafi lögbundnum skyldum að gegna sem flutningsfyrirtæki raforkukerfisins. Með vísan til þessa verði Skipulagsstofnun að gæta vel að því að athugasemdir hennar lúti að þeirri framkvæmd sem óskað sé mats á, í þessu tilviki byggingu 220 kV háspennulínu. Stofnunin geti hvorki sett sig í sæti leyfisveitanda né gert kröfur um mjög ítarlega tæknilega umfjöllun um framkvæmd sem framkvæmdaraðili óski eftir á grundvelli lögbundinna skyldna og opinbers starfsleyfis.

Sami ágalli og áður hafi verið lýst sé á athugasemdum Skipulagsstofnunar varðandi jarðstreng sem valkost á móti loftlínu, en þær hafi byggst að miklu leyti á fram komnum umsögnum án þess að svör kæranda hafi verið metin út frá markmiðum mats á umhverfisáhrifum og að teknu tilliti til hlutverks stofnunarinnar. Skipulagsstofnun telji, með vísan í skýrslu jarðstrengjanefndar, að setja þurfi fram jarðstrengjavalkost ef aðstæður leyfi. Kærandi ítreki þá afstöðu sína að skýrsla jarðstrengjanefndar gefi á engan hátt tilefni til breytinga á umfjöllun um samanburð á kostum jarðstrengja og háspennulína. Stefnubreyting Skipulagsstofnunar eigi sér hvorki stoð í lögum um mat á umhverfisáhrifum né stjórnsýslureglum. Þá séu sjónarmið stofnunarinnar ómálefnaleg þar sem höfð hafi verið til viðmiðunar skýrsla sem ekki hafi hlotið viðeigandi afgreiðslu innan stjórnkerfisins. Ákvörðunin sé íþyngjandi og kalli á rökstuðning. Kærandi hafi tekið skýrt fram að lagning jarðstrengs sé ekki valkostur en með afstöðu sinni og úrvinnslu á matsáætlun kæranda sé Skipulagsstofnun í raun að mynda stefnu um í hvers konar framkvæmd skuli ráðist, fremur en að meta umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdar sem kærandi hyggist ráðast í. Loks skorti stofnunina lagaheimild til að fjalla um þætti sem heyri undir leyfisveitendur sem hafi sérþekkingu á tilteknum málaflokki.

Verði svo á litið að Skipulagsstofnun hafi heimild til þess að gera bindandi athugasemdir varðandi valkosti um jarðstreng á viðkvæmum svæðum sé ljóst að kærandi sem framkvæmdaraðili fái enga leiðsögn í ákvörðuninni. Skyldur hans séu því óljósar. Sem dæmi sé óljóst hvað séu viðkvæm svæði með tilliti til sjónrænna áhrifa. Þurfi Skipulagsstofnun að tiltaka þá staði þar sem umhverfisáhrif séu að hennar mati með þeim hætti að meta beri kosti jarðstrengs á móti háspennulínu.

Loks telji kærandi að umfjöllun Skipulagsstofnunar um aðra valkosti feli ekki í sér beina ákvörðun sem falli að skilgreiningu 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin hafi fjallað um aðrar framkvæmdir en þær sem óskað hafi verið eftir að sættu mati á umhverfisáhrifum. Stofnunin hafi vísað til markmiða 1. gr. raforkulaga þar sem komi fram að taka beri tillit til umhverfissjónarmiða í rökstuðningi stofnunarinnar fyrir því að bornir séu saman mismundandi valkostir. Af réttarframkvæmd verði hins vegar dregin sú ályktun að hlutverk Skipulagsstofnunar sé fyrst og fremst að tryggja að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar hafi farið fram áður en leyfi sé veitt fyrir henni og að matsferlinu hafi verið fylgt. Sé það Orkustofnunar að hafa eftirlit með að fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði laganna, en nýjar raflínur séu háðar leyfi þeirrar stofnunar. Því bresti Skipulagsstofnun vald til að kveða á um að skoða skuli jarðstrengi og loftlínur óháð því hvort umtalsverður kostnaðarmunur sé á þeim. Athugasemd stofnunarinnar þess efnis að skoðaður verði sá valkostur að byggð verði 132 kV lína, samsíða núverandi línu, tengi framkvæmdina við Blöndulínu 3 þrátt fyrir að í svörum kæranda vegna umsagna komi skýrt fram að framkvæmdin sé hugsuð til að mæta þörf yfir lengri tíma. Stofnunin vísi hvorki til gagna til stuðnings þeirri fullyrðingu að slík 132 kV lína kynni að uppfylla orkuþörf á Norðausturlandi til náinnar framtíðar né þeirri fullyrðingu að ekki sé ólíklegt að gera megi ráð fyrir að á næstu árum dragi úr þeim kostnaðarmun sem sé á jarðstrengjum og loftlínum. Umfjöllun um „Aðra valkosti“ sé þannig ólögmæt.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er skírskotað til þess að skv. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum beri henni að taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun. Stofnuninni sé heimilt að samþykkja slíka tillögu með athugasemdum sem þá skuli verða hluti af þeirri matsáætlun sem framkvæmdaraðili leggi til grundvallar vinnu sinni að frummatsskýrslu. Með athugasemdum sínum sé Skipulagsstofnun ekki að ganga inn á valdsvið Orkustofnunar. Slíkum athugasemdum sé beint til framkvæmdaraðila og feli í sér leiðbeiningar um að skoða og meta þurfi umhverfisáhrif tiltekinna valkosta. Í þessu sambandi sé bent á að það sé eitt markmiða laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að draga eins og kostur sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda. Ein þeirra leiða sé að skoða og bera saman ólíka valkosti og áhrif þeirra á umhverfið.

Með þessum leiðbeiningum sé stofnunin að fylgja meginreglu stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt e-lið 2. tl. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum skuli í tillögu að matsáætlun vera upplýsingar um „mögulega framkvæmdakosti“ sem til greina komi, m.a. núllkosti, þ.e. að aðhafast ekkert, greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta sem og staðsetningu þeirra. Komi Skipulagsstofnun auga á mögulega framkvæmdakosti sé henni skylt samkvæmt framangreindri meginreglu stjórnsýsluréttar að vekja athygli framkvæmdaraðilans á því og leiðbeina þar um. Stofnunin leggi áherslu á að tilgangur mats á umhverfisáhrifum sé að tryggja upplýsta ákvörðun. Þá sé tilgangur matsins að tryggja opna og gagnsæja umfjöllun um áætlaðar framkvæmdir og ákvörðunartöku þeim tengda, m.a. með því að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir og áætluð áhrif þeirra. Því sé Skipulagsstofnun heimilt að gera athugasemdir þess efnis að kærandi þurfi að skoða aðra valkosti en 220 kV loftlínu, þ.e. jarðstrengi, byggingu nýrrar 132 kV línu eða styrkingu núverandi línu, sem og aðra kosti en lagningu loftlínu ofan af Valþjófsstaðarfjalli. Ella geti framkvæmdaraðili ákveðið að tilgreina einvörðungu hentuga framkvæmdakosti í tillögu að matsáætlun, svo sem af fjárhagslegum og tæknilegum ástæðum. Það sé ekki í samræmi við framangreindan tilgang mats á umhverfisáhrifum sem fram komi í lögum nr. 106/2000.

Því sé hafnað að athugasemdir stofnunarinnar samræmist ekki réttarframkvæmd. Varðandi dóm Hæstaréttar frá 22. október 2009 í máli nr. 22/2009 bendi Skipulagsstofnun á að í dómnum komi fram að framkvæmdaraðili hafi forræði á því hvaða framkvæmdakostir uppfylli markmið framkvæmdar svo framarlega sem mat hans sé byggt á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Tilgangur fyrirhugaðrar Kröflulínu 3 samkvæmt tillögu kæranda sé að „… tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu virkjanasvæða þessara landshluta og auka jafnframt flutningsgetu, öryggi flutningskerfisins og gæði raforku. Framkvæmdirnar eru jafnframt áfangi í styrkingu byggðarlínunnar sem er hryggjarstykkið í hinu miðlæga flutningskerfi á landinu“. Sú staðhæfing kæranda að ekki sé raunhæft að leggja háspennulínu í jörð með tilliti til stofnkostnaðar, tækni og viðgerðatíma sé ekki að mati stofnunarinnar í beinum og nánum tengslum við markmið framkvæmdarinnar og sé því hvorki hlutlægt né málefnalegt sjónarmið. Valkostur á borð við jarðstreng uppfylli markmið framkvæmdarinnar, enda hafi kærandi ekki sýnt fram á með hlutlægum og rökstuddum hætti að önnur niðurstaða gildi um það efni.

Að teknu tilliti til markmiða laga nr. 106/2000, sbr. einkum b-lið 1. gr. laganna, hafi ekki verið brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af almannahagsmunum og hagsmunum kæranda verði ekki séð að umfjöllun um þörf fyrir 220 kV háspennulínu hafi gengið lengra en nauðsyn hafi borið til. Þá sé því hafnað að brotið hafi verið gegn 11. gr. stjórnsýslulaga með vísan til Blöndulínu 3, en í því máli hafi m.a. verið gerð athugasemd þess efnis að í frummatsskýrslu þyrfti að gera ítarlega grein fyrir og rökstyðja nauðsyn þess að leggja 220 kV háspennulínu. Enn fremur hafi verið farið fram á umfjöllun um aðra valkosti, s.s. um jarðstreng.

Skipulagsstofnun taki sér ekki vald til að setja reglur og viðmið í matsferli framkvæmda með því að beina því til kæranda að skýra frá niðurstöðum svonefndrar jarðstrengjanefndar í matsskýrslu. Í ljósi þess að tilurð jarðstrengjanefndarinnar megi rekja til ákvörðunar Alþingis, og að skýrsla nefndarinnar hafi að geyma opinberar niðurstöður sem varði beint umfjöllunarefni mats á umhverfisáhrifum framkvæmda við háspennulínur, telji Skipulagsstofnun eðlilegt að til þeirra sé vísað og um þær sé fjallað í mati á umhverfisáhrifum Kröflulínu 3. Ekki verði séð að athugasemdir stofnunarinnar þess efnis gangi gegn lögum nr. 106/2000, jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga eða reglum stjórnsýsluréttar um lögmæti þeirra sjónarmiða sem stjórnvald geti byggt ákvörðun sína á.

Á þessu stigi umhverfismatsferlisins sé hvorki þörf á að stofnunin tilgreini þau svæði sem teljist viðkvæm með tilliti til sjónrænna áhrifa né hvaða svæði teljist verndarsvæði. Lögum samkvæmt sé það á hendi kæranda að leggja mat á umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Athugasemdir þess efnis að í frummatsskýrslu verði borin saman umhverfisáhrif loftlínu og jarðstrengs á afmörkuðum svæðum feli þannig í sér fyrirmæli stofnunarinnar til kæranda um að lagt verði mat á það á hvaða köflum leiðarinnar sé tilefni til að bera saman umhverfisáhrif loftlínu og jarðstrengs.

Þá sé því vísað á bug að Skipulagsstofnun sé að gerbreyta þeirri framkvæmd sem hafi verið viðhöfð við mat á loftlínum. Athugasemdir sem stofnunin setji fram byggi á umsögnum og athugasemdum sem gerðar hafi verið við tillöguna.

Umfjöllun Skipulagsstofnunar í kafla um aðra valkosti feli í sér athugasemdir í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Hafnað sé fullyrðingu kæranda um að umfjöllunin feli ekki í sér beina ákvörðun sem falli undir þá skilgreiningu sem komi fram í málsliðnum. Staðhæfing kæranda þar um sé enn fremur órökstudd.

——————-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þrjár tilteknar athugasemdir sem Skipulagsstofnun gerði í ákvörðun sinni frá 9. ágúst 2013 um að samþykkja tillögu kæranda að matsáætlun vegna Kröflulínu 3, en samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum verða athugasemdir stofnunarinnar hluti af matsáætluninni. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna getur framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni.

Þegar fyrirhuguð framkvæmd er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þess efnis skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, sbr. 8. gr. laganna. Í tillögunni skal skv. 1. mgr. 8. gr. m.a. lýsa framkvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma og gefa upplýsingar um skipulag á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum. Í 2. mgr. 8. gr. laganna er tekið fram að Skipulagsstofnun skuli taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Lagaákvæðið gerir ráð fyrir því að stofnunin geti ýmist fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda, en fallist stofnunin ekki á tillöguna skuli hún m.a. rökstyðja ákvörðun sína. Geri stofnunin athugasemdir skulu þær verða hluti af matsáætlun, sbr. 3. málsl. 2. mgr. nefndrar 8. gr. og einnig 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Geta athugasemdirnar þannig falið í sér breytingu á fyrirliggjandi tillögu að matsáætlun sem hefur ákveðna réttarverkan að lögum enda skal frummatsskýrsla, sem síðar er unnin af framkvæmdaraðila, vera í samræmi við matsáætlun, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Sé frummatsskýrslan ekki í samræmi við matsáætlun er Skipulagsstofnun heimilt að hafna að taka hana til athugunar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Samþykkt tillögu að matsáætlun með athugasemdum hefur þannig yfirbragð ívilnandi ákvörðunar sem hægt er að binda skilyrðum sem eftir atvikum geta verið íþyngjandi fyrir framkvæmdaraðila. Verður að skilja heimild Skipulagsstofnunar svo að í henni felist tæki stofnunarinnar til að stuðla að því að matsferlið endurspegli markmiðin sem fram koma í 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar fari fram og að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum hennar.

Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að álitaefni séu uppi varðandi form og efni hinna kærðu athugasemda. Í upphafi niðurstöðu umræddrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar segir að í samræmi við 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnunin farið yfir framlagða tillögu að matsáætlun og að á hana sé fallist með þeim athugasemdum sem eftir fari. Eru þær 12 talsins en ágreiningur kærumáls þessa lýtur að þremur þeirra. Þrátt fyrir að ekki sé beinlínis tekið fram að um athugasemdir skv. 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. sé að ræða verður ekki annað ráðið en að svo sé, enda er vísað til þess að farið hafi verið að fyrirmælum 8. gr. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur Skipulagsstofnun haldið því fram að athugasemdirnar feli í sér leiðbeiningar, í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar er hvergi vísað til þess í umræddri ákvörðun að um leiðbeiningar sé að ræða þótt fallast megi á að orðalag beri þess merki á köflum. Eiga hinar kærðu athugasemdir það sammerkt að í þeim er ekki skilið á milli almennrar umfjöllunar, rökstuðnings og þeirra athugasemda sem verða hluti matsáætlunar og kærandi verður bundinn af. Í ljósi umfangs athugasemdanna verður að telja að full ástæða hefði verið til að skilja á milli leiðbeininga og skýrra fyrirmæla. Er úrskurðarnefndin þeirrar skoðunar að athugasemdirnar séu þannig fram settar að örðugt sé fyrir kæranda að gera sér fyllilega grein fyrir því til hvers sé ætlast af honum við framkvæmd matsáætlunar að því er varðar umdeildar athugasemdir.

Sú fyrsta hinna kærðu athugasemda fjallar um þörf fyrir 220 kV háspennulínu og flutningsgetu. Í tillögu að matsáætlun tekur kærandi eftirfarandi fram: „Í frummatsskýrslu verður fjallað nánar um þörf fyrir styrkingu kerfisins með byggingu 220 kV línu til viðbótar við núverandi 132 kV línu og áætlaðan tímaramma við spennuhækkun byggðalínuhringsins.“ Gerir Skipulagsstofnun grein fyrir þessu en segir svo: „Í frummatsskýrslu þarf að skýra hvers vegna nauðsynlegt er að byggja 220 kV línu, hvort og þá hvers vegna ekki er talið nægilegt að byggja nýja 132 kV línu eða styrkja núverandi línu.“ Þá segir í athugasemdinni að gera verði grein fyrir þörf þess að núverandi 132 kV lína standi áfram, hvort nýja línan verði rekin á 132 kV spennu í upphafi og þá hve lengi. Verður ekki séð að í tilvitnuðu orðalagi felist sérstök efnisleg viðbót við lýsingu kæranda í tillögunni heldur sé fremur um að ræða leiðbeiningar um útfærslu á henni. Loks leggur Skipulagsstofnun áherslu á í athugasemdinni að umfjöllunin verði markvissari en í frummatsskýrslu og matsskýrslu um Blöndulínu 3. Að auki bendir stofnunin á tillögur nefndar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um lagningu raflína í jörð (jarðstrengjanefndar) og segir að í frummatsskýrslu þurfi að skýra frá nánar tilgreindum niðurstöðum skýrslu þeirrar nefndar og að eðlilegt sé að fjalla að öðru leyti um helstu niðurstöður hennar. Hvað varðar tilvísun til annars matsferlis en þess sem hér um ræðir telur úrskurðarnefndin að um óljósar forsendur sé að ræða sem háðar séu verulegri túlkun. Fullnægi orðalagið því ekki þeim kröfum sem gera verði til skýrleika ákvörðunar sem leiðir til íþyngjandi niðurstöðu. Þá verður að telja að vísun stofnunarinnar til niðurstöðu jarðstrengjanefndar hafi falið í sér almenna ábendingu fremur en fyrirmæli þrátt fyrir orðalag þess efnis að skýra þurfi frá niðurstöðum nefndarinnar í frummatsskýrslu. Er enda vandséð að athugasemd þess efnis á grundvelli 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sé til þess fallin að ná markmiðum þeirra laga og voru skilyrði slíkrar athugasemdar því ekki uppfyllt.

Önnur hinna kærðu athugasemda lýtur að valkostunum jarðstrengjum og loftlínum. Samkvæmt tillögu kæranda að matsáætlun felur framkvæmd Kröflulínu 3 í sér nýbyggingu 220 kV háspennulínu og er sú framkvæmd lögð fram til mats á umhverfisáhrifum. Markmiði framkvæmdarinnar er lýst svo í tillögunni að hún eigi að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu virkjanasvæða þessara landshluta og auka jafnframt flutningsgetu, öryggi flutningskerfisins og gæði raforku. Í kafla 2.2 er fjallað um valkosti framkvæmdarinnar. Aðalvalkostur er sá kostur að leggja línuna sem loftlínu um ákveðna leið. Á litlum hluta leiðarinnar eru lagðir fram aðrir kostir varðandi legu línunnar, valkostir B og C. Þá er fjallað um núllkost, þ.e. að línan verði ekki lögð. Loks er fjallað með almennum hætti um lögn jarðstrengja en tekið fram að sá valkostur sé ekki talinn raunhæfur. Fjallað verði almennt um samanburð á loftlínum og jarðstrengjum en jarðstrengskostur verði ekki lagður fram til mats á umhverfisáhrifum.

Kærandi telur jarðstreng ekki uppfylla markmið framkvæmdarinnar þar sem stofnkostnaður sé hærri, líftími helmingi styttri, hugsanlegar breytingar á jarðstreng tæknilega erfiðar og viðgerðartími vegna bilunar lengri en hann hafi áhrif á afhendingaröryggi raforku. Skipulagsstofnun leggur áherslu á í athugasemd sinni „… að í frummatsskýrslu þurfi að setja fram valkost sem jarðstreng á afmörkuðum svæðum ef aðstæður kalla á slíkt, s.s. á viðkvæmum svæðum m.t.t. sjónrænna áhrifa og/eða á verndarsvæðum“. Tekur stofnunin enn fremur undir umsögn Fljótsdalshrepps þess efnis að metin verði umhverfisáhrif annarra kosta en að leggja loftlínu ofan af Valþjófsstaðarfjalli. Þá leggur stofnunin áherslu á að almennur samanburður á loftlínum og jarðstrengjum, án samanburðar sem miði við tiltekna framkvæmd, staðhætti og framkvæmdasvæði, geti ekki talist fullnægjandi samanburður kosta í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Segir svo í athugasemdinni: „Mat á jarðstreng á afmörkuðum svæðum á línuleiðinni, í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að ofan, þarf að vera ítarlegt m.t.t. hinna mismunandi umhverfisþátta og lagt fram á sambærilegan hátt eins og við umhverfisáhrif loftlínu í frummatsskýrslu.“

Lög um mat á umhverfisáhrifum skilgreina matsáætlun sem áætlun framkvæmdaraðila, byggða á tillögu hans um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð skýrslunnar, sbr. þágildandi g-lið, nú h-lið, 3. gr. laganna. Er þannig lögð áhersla á ákveðið forræði framkvæmdaraðila, sem einnig hefur verið staðfest í framkvæmd, en það forræði er þó ekki óskorað, m.a. vegna áðurgreindrar heimildar Skipulagsstofnunar. Þá hefur nefnt forræði framkvæmdaraðila verið viðurkennt í dómaframkvæmd að því gefnu að mat hans sé reist á hlutlægum og málefna-legum grunni. Eins og áður er rakið skal í tillögu að matsáætlun m.a. lýsa framkvæmdinni og öðrum möguleikum sem til greina koma, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum skulu í tillögunni koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina komi. Þá segir í 2. mgr. 9. gr. laganna, þar sem fjallað er um innihald frummatsskýrslu, að ávallt skuli gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina komi og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Kemur fram í skýringum við nefnt lagaákvæði, í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um mat á umhverfisáhrifum, að helstu breytingar frá gildandi lögum felist í því að lagt sé til í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins 97/11/EB að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hafi kannað og til greina komi, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Þá er tekið fram: „Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin.“ Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin tilvitnaðan hluta athugasemdar Skipulagsstofnunar málefnalegan og standa í nánu samhengi við markmið laga um mat á umhverfisáhrifum. Almenn vísan kæranda til þess að fjárhagsleg sjónarmið og tæknileg vandkvæði við lagningu jarðstrengja valdi því að sá möguleiki komi ekki til greina sé á hinn bóginn ekki í málefnalegu samhengi við markmið laganna og tilgang mats á umhverfisáhrifum. Standa nefnd sjónarmið því ekki í vegi að sá kostur sé metinn á hluta lagnaleiðar háspennulínunnar til samanburðar við aðalvalkost.

Loks verður ekki séð að sú skylda sem þannig er lögð á herðar framkvæmdaraðila vegi svo þungt í matsferlinu að hún sé verulega íþyngjandi enda er honum játað ákveðið mat um það á hvaða hlutum leiðarinnar sá valkostur verði metinn til samanburðar við aðalvalkost. Þrátt fyrir annmarka á athugasemdinni hvað varðar skýrleika þykir sá hluti hennar, sem að framan er fjallað um og málefnalegur telst, nógu nákvæmur og skýr til að hafa í för með sér þá réttarverkan sem lesa má úr lögum um mat á umhverfisáhrifum og telst þannig athugasemd í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. Aðra hluta athugasemdarinnar verður að líta á sem almennar ábendingar.

Þriðja og síðust hinna kærðu athugasemda snýr að öðrum valkostum. Í henni bendir Skipulagsstofnun á að í tillögu að matsáætlun sé ekki gert ráð fyrir að kostir er varði aðra legu línunnar séu skoðaðir vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar utan þess að settir séu fram 2-3 slíkir við Kröflu. Ekki sé gert ráð fyrir loftlínukostum sem kynnu að hafa minni umhverfisáhrif en gætu eigi að síður þjónað markmiðum framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun dregur hins vegar enga ályktun af þessari ábendingu hvað varðar legu línunnar en telur þann kost vel koma til álita að reist verði 132 kV lína þar sem „… slík lína yrði væntanlega minna mannvirki og neikvæð umhverfisáhrif hennar minni“. Af tillögu kæranda að matsáætlun er greinilegt að lega fyrirhugaðrar línu hefur verið valin með hliðsjón af þeirri línu sem fyrir er og mun nýja línan fylgja þeirri eldri að meginstefnu til. Eðli málsins samkvæmt hlýtur sá kostur að hafa einna minnst umhverfisáhrif og það val þar með að teljast málefnalegt enda liggur lína þar fyrir. Þá er staðhæfing Skipulagsstofnunar þess efnis að 132 kV lína yrði væntanlega minna mannvirki og neikvæð umhverfisáhrif hennar minni ekki studd neinum rökum og orðalagið almennt og þannig leiðbeinandi um að sá valkostur komi til álita. Auk þess er hér um aðra framkvæmd að ræða en ekki aðra útfærslu enda er framkvæmdin sem lögð er fram til mats á umhverfisáhrifum lagning 220 kV háspennulínu. Þykir of nærri gengið forræði kæranda í þessum efnum og er athugasemdin öll byggð á óljósum og ómarkvissum forsendum og ekki til þess fallin að hafa réttaráhrif athugasemdar skv. 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Svo sem að framan er rakið eru hinar kærðu athugasemdir haldnar ýmsum annmörkum og er það háð vafa hvort hluti þeirra geti talist athugasemdir í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þarf úrskurðarnefndin að taka afstöðu til þess hvort mögulegt sé, að teknu tilliti til meðalhófs og kröfugerðar kæranda, að fella athugasemdirnar einar úr gildi, í heild eða að hluta, eða hvort annmarkarnir séu þess eðlis og athugasemdirnar svo samofnar umræddri ákvörðun að leiða beri til ógildingar hennar í heild sinni. Kærandi krefst þess að þrjár af athugasemdum Skipulagsstofnunar verði felldar úr gildi en til vara að staðfest verði að þær teljist ekki vera athugasemdir er verði hluti matsáætlunar í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. Skv. 3. mgr. 14. gr. laganna getur framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni. Samkvæmt öllu því sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þær athugasemdir Skipulagsstofnunar sem lúta að þörf á 220 kV línu og flutningsgetu sem og að öðrum valkostum geti ekki talist athugasemdir í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. og feli því ekki í sér breytingu á tillögu kæranda að matsáætlun. Er fallist á varakröfu kæranda að því er varðar greindar athugasemdir. Hins vegar verður að telja að meginefni athugasemdar stofnunarinnar um valkostina jarðstrengi og loftlínur, svo sem nánar er rakið í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar þar um, sé þess eðlis að telja verði að hún sé athugasemd skv. 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. og hafi réttaráhrif samkvæmt því. Er kröfum kæranda því hafnað er varðar þá athugasemd. Að þessari niðurstöðu fenginni þykja þær tvær athugasemdir af þeim tólf sem Skipulagsstofnun gerði við samþykkt tillögu kæranda að matsáætlun ekki svo veigamiklar eða svo samofnar meginefni ákvörðunar stofnunarinnar að valdi ógildi ákvörðunarinnar í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Athugasemdir Skipulagsstofnunar „Þörf fyrir 220 kV háspennulínu og flutningsgeta“ og „Aðrir valkostir“ í ákvörðun stofnunarinnar frá 9. ágúst 2013, um að samþykkja tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Kröflulínu 3 með athugasemdum, skulu ekki skoðast sem athugasemdir í skilningi 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Hafnað er kröfum kæranda vegna athugasemdarinnar „Valkostir-jarðstrengir-loftlínur“.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

119/2014 Furuvellir

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 119/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Fífuvöllum, Hafnarfirði, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 18. desember 2014.

Málavextir: Kærandi býr að Fífuvöllum og liggur lóð hans að lóð Furuvalla þar sem leyfishafi heldur hunda. Kærandi sendi tölvupóst 7. september 2014 til heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og kvartaði yfir hundahaldinu, fullyrti að um starfsleyfisskylda starfsemi væri að ræða og krafðist þess að þvingunarúrræðum hundasamþykktar yrði beitt gagnvart hundaeiganda. Kærandi hafði áður kvartað yfir endurteknu ónæði af hundahaldinu. Hinn 27. október s.á. var haldinn fundur hjá heilbrigðisnefndinni og eftirfarandi bókun gerð vegna málsins: „Lögð fram kvörtun íbúa í Hafnarfirði vegna hundahalds nágranna. Skoðun á aðstæðum hefur ekki leitt í ljós að starfsleyfisskyld starfsemi sé rekin á umræddum stað og ekki hefur heldur verið hægt að staðfesta kvörtun um ónæði.“ Var ekki aðhafst frekar vegna málsins. Kærandi skaut þessari afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 25. nóvember s.á., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar, sem komi fram í bókun hennar, hlægilega miðað við aðstæður. Fram fari mikil hundarækt á íslenska fjárhundinum að Furuvöllum og hafi áður verið kvartað yfir því símleiðis. Leyfi sé fyrir fjóra hunda en með ólíkindum sé að veitt hafi verið leyfi fyrir svo mörgum hundum af þessari tegund, sem sé þekkt fyrir gelt í mannabyggð. Leyfishafinn sé að spila með yfirvöld því hann stundi hundarækt á fasteigninni og sé með fleiri en 10 hunda einu sinni til tvisvar á ári. Samkvæmt leyfishafa sjálfum séu geltandi hundar merki um óánægju og megi því gera ráð fyrir að umræddum hundum líði ekki vel. Einnig hafi ítrekað komið fyrir að hundunum sé sleppt út í garð um miðja nótt til viðrunar og þegar þeim sé hleypt inn sé einhver skilinn eftir úti og gelti. Þetta sé óþolandi í þéttbýli. Ólíðandi sé að heilbrigðisyfirvöld, sem séu vel meðvituð um stöðu mála, hafi hvorki úrræði né getu til að kynna sér málið náið, t.d. með spjalli við nágranna í næstu húsum. Nábýlisréttur sé sterkari en svo að ánægja eins af hundahaldi geti verið yfirsterkari óánægju allra eða flestra nágranna. Þess sé krafist að viðurkennd sé sú staðreynd að hundaræktun eigi sér stað og að um starfsleyfisskylda starfsemi sé að ræða. Ljóst sé að starfsleyfi verði ekki gefið út á þessum slóðum og því beri að stöðva hundaræktunina. Til vara sé þess krafist að leyfið verði takmarkað við eitt dýr.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis:
Heilbrigðisnefndin bendir á að þrír hundar séu skráðir að Furuvöllum í Hafnarfirði. Um hundahald í Hafnarfirði gildi samþykkt um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 en samkvæmt 4. gr. hennar séu allir hundar sem haldnir séu á svæðinu skráningarskyldir. Í sömu grein sé tekið fram að „… séu fleiri en 5 skráningarskyldir hundar á sama heimili gilda ákvæði viðauka 8 í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum“. Reglugerð sú hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé ákvæði um hunda- og kattageymslur í tl. 6.7 í fylgiskjali 2. Telji heilbrigðisnefndin að hinu kærða hundahaldi verði ekki jafnað saman við hundageymslur né dýrarækt, sem um sé fjallað í reglugerðinni.

Kvartanir hafi verið með hléum vegna hundahalds að Furuvöllum og í september 2014 hafi verið farið í vettvangsskoðun á staðinn vegna kvörtunar kæranda. Eigandi hundana hafi verið upplýstur um kvartanir og farið hafi verið fram á að hann skoðaði framkvæmd síns hundahalds. Viðbrögð hefðu borist frá eigandanum um umbætur vegna kvartana. Heilbrigðisnefnd hefði ekki talið ástæðu til frekari aðgerða varðandi kvörtunina í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og niðurstöðu vettvangsskoðunar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að auk skráðra hunda hennar séu þrír hundar í eigu barna hans oft gestkomandi á heimilinu. Hafi fjögur got átt sér stað á árunum 2012, 2013 og 2014, sem hafi gefið af sér alls 16 hvolpa. Hvolpar séu ekki skráningarskyldir fyrr en fjögurra mánaða gamlir en þá séu þeir jafnan fluttir á önnur heimili.

Niðurstaða: Kært er í máli þessu vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 27. október 2014 um að aðhafast ekki frekar vegna hundahalds að Furuvöllum, Hafnarfirði.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt nr. 154/2000 um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og í 2. gr. segir að Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í umboði heilbrigðisnefndar sjái um skráningu og annist framkvæmd og eftirlit með hundahaldi á eftirlitssvæðinu. Samkvæmt 10. gr. samþykktarinnar er hundeiganda eða umráðamanni hunds skylt að sjá til þess að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða að hann raski ekki ró manna með stöðugu eða ítrekuðu gelti eða ýlfri. Í 14. gr. er fjallað um valdsvið heilbrigðisnefndar og þvingunarúrræði. Þar segir að sé um alvarlegt eða ítrekað brot á samþykktinni að ræða eða sinni hundeigandi eða umráðamaður hunds ekki fyrirmælum eftirlitsaðila um úrbætur eða breytingu á hegðan hunds geti heilbrigðisnefnd afturkallað skráninguna, bannað viðkomandi eiganda að vera með hund á eftirlitssvæðinu, gert hundeiganda eða umráðamanni að koma hundi fyrir á öðrum stað, viðurkenndum af eftirlitsaðila, eða látið fjarlægja hundinn.
Heilbrigðisnefndir starfa skv. áðurnefndum lögum nr. 7/1998. Samkvæmt 13. gr. laganna ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum þeirra og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar.

Ljóst er af gögnum málsins að grundvöllur kvartana kæranda vegna hundahalds var kannaður. Farið var á vettvang og rætt við leyfishafa, sem ræddi mögulegar úrbætur við starfsmann heilbrigðisnefndar. Í kjölfar þessa var ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu, enda væri ekki um starfsleyfisskylda starfsemi að ræða. Verður ekki annað séð en að sú niðurstaða hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum, málið verið rannsakað og meðalhófs gætt við afgreiðslu þess og málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um að takmarka ekki hundahald að Furuvöllum í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

41/2014 Skráningargjald

Með

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 41/2014, kæra vegna gjalds til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir D, innheimtu skráningar- og árgjalda skráningarkerfis framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. júní 2014.

Málsatvik og rök: Kæranda barst bréf Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013, sem lýsti breyttu fyrirkomulagi við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja frá 1. september s.á. Var með bréfinu tilkynnt að stofnunin stæði fyrir kynningarfundi um þetta efni 24. júní s.á. Jafnframt var upplýst um möguleika til skráningar og nota á skilakerfum sem og kostnað því tengdu.

Samkvæmt kæru stóð kærandi fyrir innflutningi á vörum í nóvember 2013, greiddi gjald vegna þess í gegnum skilakerfi og árgjald samkvæmt reikningi í febrúar 2014.

Kærandi vísar til bréfs Umhverfisstofnunar frá 10. júní 2013 þar sem útskýrt sé hvernig nýtt skilakerfi fyrir raftæki eigi að virka. Ef aðili þurfi eða vilji flytja inn vörur í atvinnuskyni með ákveðna tollflokka þá sé einfaldlega ekki heimilt að gera það án þess að vera aðili að kerfinu. Í bréfinu komi skýrt fram að ódýrara sé að skrá sig hjá skilakerfi en hjá Umhverfisstofnun, kr. 6.000 fyrir skráningu og kr. 3.000 í árgjald fyrir einstakling hjá Umhverfisstofnun en kr. 2.000 í skráningargjald og kr. 1.000 í árgjald sjái skilakerfi um skráningu. Ekkert komi fram um að skilakerfin séu með ólíka verðskrá. Hafi kærandi þurft að skrá sig hjá skilakerfi vegna innflutnings vara í nóvember 2013. Við það hafi hann þurft að greiða kr. 5.000 í skráningargjald og seinna kr. 2.000 í árgjald. Þegar hann hafi kvartað yfir þessu við Umhverfisstofnun hafi hann fengið þau svör að stofnunin beri ekki ábyrgð á því hvort þessi fyrirtæki innheimti umsýslugjald. Umhverfisstofnun eigi að biðjast afsökunar á þessari framkvæmd og endurgreiða það sem oftekið hafi verið.

Umhverfisstofnun bendir á að hvorki liggi fyrir hvaða aðili sé að kæra framkvæmd eða ákvörðun stofnunarinnar né hvort um sé að ræða kæru á sérstakri stjórnvaldsákvörðun eða lagaframkvæmd sem sé röng. Þá séu lögvarðir hagsmunir kæranda óljósir. Í bréfi Umhverfisstofnunar um breytt fyrirkomulag við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja, dags. 10. júní 2013, sé útskýrð skylda viðkomandi aðila til aðildar að skilakerfi. Jafnframt verði þeir aðilar að vera skráðir í skráningarkerfi innflytjenda og framleiðenda. Byggi þessar kröfur á ákvæðum VII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðar nr. 1104/2008, um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í bréfinu bendi stofnunin á þau tvö skilakerfi sem séu starfandi í dag. Í 19. gr. þáverandi gjaldskrár Umhverfisstofnunar, nr. 446/2012, segi að Umhverfisstofnun innheimti gjald til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skv. 36. gr. laga nr. 55/2003. Gjaldið sé tvíþætt, annars vegar skráningargjald, kr. 6.000, og hinsvegar árgjald, kr. 3.000. Sjái skilakerfi um skráninguna lækki skráningargjaldið til stofnunarinnar í kr. 2.000 og árgjaldið í kr. 1.000. Ástæðan fyrir lægra gjaldi fyrir skilakerfi sé sú að umsýsla sé mun minni þegar stofnunin innheimti gjöldin hjá einum aðila í stað allt að 20 til 80 aðila í hverjum mánuði. Augljóst sé að kærandi hafi ekki kynnt sér reglurnar nægilega vel. Skilakerfin séu sjálfstætt starfandi og stofnunin taki ekki ábyrgð á mögulegu umsýslugjaldi þeirra fyrir veitta þjónustu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru.

Kæra í máli þessu barst með tölvupósti og er undirrituð með nafni kæranda, en engu kenninafni. Frekari upplýsingar um kæranda er ekki að finna í kærunni, t.d. hvert heimilisfang hans er eða kennitala. Við ítrekaðar tilraunir úrskurðarnefndarinnar til að hafa samband við kæranda á tölvupóstfang hans bárust tilkynningar til baka um að enginn móttakandi væri með nefnt tölvupóstfang. Ekki er um fleiri leiðir að ræða til að hafa upp á kæranda. Ljóst er því að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að staðreyna hver kærandi er.

Eftir því sem næst verður komist er kært í máli þessu vegna framkvæmdar á reglum í þágildandi gjaldskrá nr. 446/2012 og núgildandi gjaldskrá nr. 1281/2013 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Er og kvartað yfir leiðbeiningum stofnunarinnar vegna nefndra reglna. Um er að ræða innheimtu á gjaldi til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja, sbr. 36. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Virðist umkvörtunarefni kæranda helst það að hann hafi þurft að greiða hærra gjald vegna skráningar í skilakerfi til rekstraraðila kerfisins en þá upphæð sem komið hafi fram í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013. Er illskiljanlegt hvort og þá hvaða ákvörðun liggur til grundvallar kærunni.

Með hliðsjón af framangreindu fullnægir kæra málsins ekki áskilnaði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

68/2014 Naustabrekka

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 68/2014, kæra á  álagningu umhverfisgjalds fyrir árið 2014 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. mars 2014, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, ákvörðun Vesturbyggðar frá 29. janúar 2014 um álagningu umhverfisgjalds fyrir Naustabrekku á Rauðasandi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Kæranda, sem er eigandi sumarhúss að Naustabrekku, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð kr. 25.000 samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2014. Kærandi hafði fengið umhverfisgjald fyrir 2012 fellt niður í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 17/2012. Í síðari samskiptum við úrskurðarnefndina kom fram að kærandi teldi að ágreiningur væri enn til staðar og krafðist hann þess með tölvupósti 2. mars 2014 að gjald þetta yrði „strikað út“ og í tölvupósti dags. 3. s.m. ítrekaði hann þá kröfu. Var kærumál þetta stofnað hjá úrskurðarnefndinni en jafnframt var kæranda leiðbeint um að undirrituð kæra yrði að berast úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., var kæranda gefinn frestur til 22. s.m. til að koma að undirritaðri kæru í málinu og var jafnframt bent á að ellegar liti nefndin svo á að kæran væri ekki í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Eins og lýst er í málavöxtum gaf kærandi til kynna með tölvupóstum að hann vildi kæra álagningu umhverfisgjalds. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að eitt af skilyrðum fyrir lögmæti kæru væri skrifleg og undirrituð kæra hefur slíkt skjal ekki borist frá kæranda. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

173/2016 Álftaskálará í Vatnsdal

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 173/2016, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 2. desember 2016 um að afturkalla leyfi til gerðar fiskvega í Álftaskálará í Vatnsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Grímstungu, og eigandi Haukagils, í Húnavatnshreppi, þá ákvörðun Fiskistofu frá 2. desember 2016 um að afturkalla leyfi til gerðar fiskvega í Álftaskálará í Vatnsdal. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmdanna.

Gögn málsins bárust frá Fiskistofu 27. janúar 2017.

Málavextir: Álftaskálará í Vatnsdal, eða Álka, er hliðará sem fellur í Vatnsdalsá. Árið 2013 sóttu landeigendur Grímstungu og Haukagils í Vatnsdal um leyfi til gerðar laxastiga við Úlfsfoss í Álku ásamt ónefndum fossi við Blásandabjörg. Hinn 3. apríl 2013 gaf Fiskistofa út leyfið til handa umsækjendum.

Árið 2016 sóttu sömu aðilar um leyfi að nýju, að þeirra sögn svo að Veiðifélag Vatnsdalsár fengi tækifæri til að tjá sig um hina fyrirhuguðu framkvæmd áður en af henni yrði, en tóku jafnframt fram að þeir teldu það ekki vera lagaskyldu. Sendi Fiskistofa bréf til umsækjenda, dags. 29. september 2016, þess efnis að í ljós hefði komið að Úlfsfoss væri fiskgengur og tilheyrði því umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár, og væri því aðeins hægt að gefa út leyfi til fiskvegsgerðar til veiðifélagsins, skv. 34. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í bréfinu kom einnig fram að til skoðunar væri hvort eldra leyfið, frá árinu 2013, hefði fallið úr gildi með nýrri umsókn eða hvort leyfið yrði afturkallað með sérstakri ákvörðun. Með bréfi dags. 25. október 2016 afturkölluðu umsækjendur umsókn sína frá 27. júlí s.á.

Með bréfi, dags. 2. desember 2016, afturkallaði Fiskistofa ákvörðun sína frá 3. apríl 2013 um að samþykkja leyfi til gerðar fiskvegar. Vísaði stofnunin til þess að ekki hefðu legið fyrir nægilegar upplýsingar um þá staðreynd að Úlfsfoss væri ekki ófiskgengur, þegar leyfið hefði verið veitt. Það hafi því verið mat stofnunarinnar að ákvörðunin væri ógildanleg þar sem umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár nái upp fyrir téðan Úlfsfoss, en í samþykktum Veiðifélagsins komi fram að umdæmi þess nái frá ósi í sjó til ólaxgengra fossa.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að því sé haldið fram í bréfi Veiðifélags Vatnsdalsár til Fiskistofu, dags. 18. desember 2013, að leyfi til að reisa laxastiga hafi verið haldið ógildingarannmarka, þar sem ekki hafi verið leitað umsagnar veiðifélags „skv. 63. gr. laga um lax- og silungsveiði“, en þau eru nr. 61/2006. Þar sé um misritun að ræða enda séu einungis 57 greinar í lögunum og sé líklega átt við 33. gr. þeirra sem fjalli um hvers konar mannvirkjagerð í veiðivötnum, aðra en fiskvegi, sem um fari samkvæmt 34. gr. Þá sé að auki ljóst af skýringum við lögin að þótt einungis orðið „veiðifélag“ komi fyrir í 33. gr. þeirra þá sé þar átt við veiðiréttarhafa, sé ekki starfandi veiðifélag á viðkomandi svæði. Ákvæðinu verði því beitt um veiðiréttarhafa með lögjöfnun. Því hafi ekki verið skylt samkvæmt 34. gr. laganna að leita umsagnar veiðifélagsins við meðferð málsins á sínum tíma. Það hafi engu síður verið verið vilji kærenda að veiðifélagið fengi tækifæri til að tjá sig um málið, en þeim sé nú ljóst að eðlilegt hefði verið af hálfu Fiskistofu að fara með málið á þeim grundvelli fremur en svo að búa það í form beiðni um töku nýrrar ákvörðunar í málinu, sem fella myndi eldri ákvörðun úr gildi. Það verði einnig að benda á að ákvörðunin sem felld hafi verið úr gildi varðaði ekki aðeins Úlfsfoss heldur einnig ónefndan foss við Blásandabjörg, sem sé enn fjær félagssvæði Veiðifélags Vatnsdalsár en Úlfsfoss.

Það sé kjarni hinnar kærðu ákvörðunar að einungis Veiðifélag Vatnsdalsár hafi heimild til að reisa laxastiga í Úlfsfossi með vísan til 34. gr. laga um lax- og silungsveiði, enda sé Úlfsfoss innan umdæmis félagsins þar sem hann sé ekki „algjörlega ófiskgengur“, eins og segi í hinni kærðu ákvörðun. Fyrir því séu færðar nokkrar ástæður, sem að áliti kærenda séu ýmist rangar eða á misskilningi byggðar.

Í fyrsta lagi verði að skýra hugtakið „laxgengur“, í samþykktum Veiðifélags Vatnsdalsár, á grundvelli fyrirmæla um afmörkun umdæma veiðifélaga, en í 1. mgr. 38. gr. laga um lax- og silungsveiði segi að umdæmi veiðifélags geti náð yfir „heilt fiskihverfi, einstakt veiðivatn í fiskihverfi, hluta af veiðivatni, þar sem sérstaklega hagar til um veiði eða vatnskosti, eða veiðivötn á afrétti sem eru hluti af einu eða fleiri fiskihverfum og eru á sama landsvæði.“ Þá segi í 4. mgr. 38. gr. laganna að sé félagssvæði „hluti straumvatns“, þá skuli umdæmi veiðifélags „ná svo langt upp með vatninu sem veiði er stunduð, nema sérstaklega standi á, t.d. vegna fiskræktar.“

Hugtakið fiskihverfi sé skilgreint svo í 14. tl. 3. gr. laganna: „Veiðivatn eða -vötn sem sami fiskstofn byggir og fer um fram og aftur eða ætla má að sami fiskstofn byggi og fari um fram og aftur þá er ræktaður hefur verið.“ Þetta hugtak hafi staðið óbreytt í lögum frá því það kom fyrst fram í lögum um fiskræktarfjelög frá 1929, en í skýringum við frumvarp það er orðið hafi að þeim lögum, hafi sagt um hugtakið að með því væri full skilgreining gefin á orðinu. Það sé „alt það svæði vatns, sem fiskur getur farið um fram og aftur og sami fiskistofn byggir, til dæmis höfuðá og allar þverár hennar frá ósi og svo langt upp, sem fiskur gengur eða getur gengið, þ.e. alt frá upptökum, ef fossar ekki hindra fiskinn eða grynningar“.

Úlfsfoss sé ótvírætt ólaxgengur foss þótt að fundist hafi fáein laxaseiði ofan við hann, sem sýni að lax geti líklega gengið upp fossinn til hrygninga, við sérstakar aðstæður. Það þurfi ekki að hafa mörg orð um að lítil ástæða væri annars til að ráðast í gerð laxastiga við fossinn. Þetta sé m.a. ljóst af uppdrætti Veiðifélags Vatnsdalsár af veiðistöðum í umdæmi félagsins. Telji kærendur að Fiskistofa hafi ekki sinnt rannsóknarskyldi sinni um þetta atriði og hafi því aflað sérfræðilegs álits forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, dags. 15. desember 2016, til að skýra þetta atriði. Í álitinu segi að Úlfsfoss sé mjög torgengur laxi og einungis fær við skilyrði sem ekki séu árviss. Því sé ekki hægt að telja svæðið ofan við Úlfsfoss sama fiskihverfi og svæðið neðan við fossinn, sem umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár nái til.

Í öðru lagi sé bent á að í leyfi Fiskistofu til kærenda frá 2013 hafi verið byggt á þeirri forsendu að umrætt svæði væri fyrir utan umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár. Þetta hafi einnig verið afstaða Veiðifélagsins, en í bréfi þess til Fiskistofu, dags. 18. desember s.á., hafi verið tekið fram að umdæmi þess næði frá ósi til „ólaxgengra fossa“, en lax veiðist við Úlfsfoss „og gangi trúlega eitthvað upp fyrir fossinn við góðar aðstæður“. Með því nái „félagssvæði árinnar […] óumdeilt að Úlfsfossi“. Með þessu hafi verið staðfest að breyting á samþykktum félagsins hafi ekki verið ætlað að raska umdæmi þess, en eftir þá breytingu hafi ekki lengur beinum orðið tekið fram að umdæmið takmarkaðist við tiltekna fossa, þ.m.t. Úlfsfoss.

Í bréfi félagsins, dags. 28. ágúst 2016, sé sett fram breytt afstaða til umdæmis þess, sem Fiskistofa geri að sinni og kveði með því úr um umdæmi félagsins í málinu. Til þessa hafi Fiskistofa ekki valdheimild.

Í þriðja lagi hafi arðskrárúrskurður fyrir Vatnsdalsá, dags. 29. ágúst 2011, enga afstöðu að geyma til umdæmis veiðifélagsins.

Í fjórða lagi sé ástæða til að mótmæla þeim sjónarmiðum stjórnar Veiðifélagsins, að sjálfgefið sé að verði Úlfsfoss gerður laxgengur verði svæðið fyrir ofan hann og að næsta fossi, við Blásandabjörg, „skilyrðislaust hluti af félagssvæði Veiðifélagsins“. Þannig markist sú skylda til inngöngu í veiðifélag, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga um lax- og silungsveiði, við að veiði hefjist fyrir eða á landi fasteignar, sem liggi að fiskihverfi veiðifélags en sé utan félagssvæðis. Þessar bollaleggingar séu því í raun ótímabærar þar sem engin veiði muni hefjast í Álku fyrir ofan Úlfsfoss fyrr en laxastigi hafi verið reistur í ánni. Framkvæmdin sé því veiðifélaginu óviðkomandi fyrr en stiginn hafi verið reistur.

Það sé markmið laga um lax- og silungsveiði að kveða á um veiðirétt og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í ferskvatni og verndun þeirra. Laxastofninn í Álku sé útlitslega ólíkur stofninum í Vatnsdalsá. Stofninn sé mjög lítill vegna takmarkaðra búsvæða. Með því að reisa laxastiga myndi búsvæði þessa sérstæða laxastofns stækka umtalsvert auk þess að ýtt yrði undir sjálfbæra nýtingu hans og líffræðilegri fjölbreytni viðhaldið. Í umsögn Veiðimálastofnunar til kærenda, dags. 30. janúar 2013, komi fram að áætla megi að svæðið ofan við Úlfsfoss að Einvígisfossi geti verið viðbót um tæp 9% af laxabúsvæðum alls vatnakerfis Vatnsdalsár.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar hafi byggst fyrst og fremst á 2. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki V. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og því sé ekki kæruheimild til nefndarinnar til staðar.

Ákvörðun Fiskistofu hafi falið í sér að viðhalda óbreyttu ástandi. Kæruheimild sú sem kærandi vísi til feli fyrst og fremst í sér hið gagnstæða, þ.e. að leyfi sem leiði til breytinga á náttúrunni, svo sem gerð laxastiga, geti sætt kæru til nefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sæta ákvarðanir Fiskistofu sem teknar eru skv. V. kafla laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun er afturköllun á leyfi sem veitt var með heimild í 34. gr. laganna, sem er í V. kafla. Afturköllunin var á þeim grundvelli að leyfið væri ógildanlegt. Þó svo að heimild til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar sé að finna í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður að telja að sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, enda er undir í málinu hvort leyfið hafi verið haldið þeim ógildingarannmörkum hvað varðar form eða efni að réttlætt hafi afturköllun þess. Verður málið því tekið til úrskurðar.

Kærendur gera meðal annars þá kröfu að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun um útgáfu leyfis til framkvæmda. Eins og áður greinir er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu, enda er það hlutverk Fiskistofu að taka ákvörðun um gerð fiskvega í samræmi við lög um lax- og silungsveiði. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Fiskistofa veitti kærendum leyfi 3. apríl 2013 til gerðar fiskvegar í Úlfsfossi og við Blásandabjörg í Álftaskálará. Á þeim tíma er umsókn kærenda var til meðferðar var talið að Úlfsfoss væri ófiskgengur og því utan umdæmis Veiðifélags Vatnsdalsár. Í september 2013 lágu fyrir niðurstöður seiðarannsókna af hálfu Veiðimálastofnunar í Álftaskálará ofan Úlfsfoss, en sú rannsókn var unnin að beiðni kærenda. Segir þar að fundist hafi tveir árgangar laxaseiða fyrir ofan fossinn sem sýni að lax geti gengið upp  hann og hrygnt. Þá segir að verið geti að lax komist ekki upp fossinn við allar aðstæður og hugsanlega ekki á öllum árum. Væntanlega ráðist það þá af rennsli í ánni. Stjórn Veiðifélags Vatnsdalsár mótmælti útgáfu leyfisins með bréfi, dags. 18. desember 2013, og fór fram á að það yrði fellt úr gildi. Í gögnum málsins kemur þó í ljós að Fiskistofu barst bréfið ekki og tók það því ekki til efnislegrar meðferðar á sínum tíma. Hins vegar var leyfið afturkallað 2. desember 2016 af þeim sökum að komið hefði í ljós að fossinn væri fiskgengur, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Samkvæmt 34. gr. laga um lax- og silungsveiði er Fiskistofu heimilt að veita veiðifélögum eða veiðiréttarhöfum, þar sem ekki er veiðifélag, leyfi til að gera fiskveg. Í 38. gr. laganna er mælt fyrir um umdæmi veiðifélags og skal Fiskistofa ákveða umdæmi slíks félags að höfðu samráði við veiðiréttarhafa á væntanlegu félagssvæði, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Samþykkt fyrir Veiðifélag Vatnsdalsár í Húnavatnssýslu nr. 253/2013 var samþykkt af Fiskistofu 5. mars 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Samkvæmt 3. gr. hennar eru félagsmenn skráðir eigendur/ábúendur tilgreindra jarða og landareigna sem land eiga að Vatnsdalsá, Álftaskálará o.fl. tilgreindum ám frá ósi í sjó til ólaxgengra fossa, og eru kærendur þeirra á meðal. Nefnd 3. gr. er óbreytt frá fyrri samþykkt nr. 391/2008.

Þegar leyfisveiting sú, sem afturkölluð var með hinni kærðu ákvörðun, fór fram lágu fyrir ýmsar upplýsingar. Ljóst var á þeim tíma að umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár næði a.m.k. að Úlfsfossi, sbr. ákvæði samþykktar félagsins sem staðfest var af Fiskistofu, sbr. 38. gr. laga um lax- og silungsveiði. Önnur gögn lágu fyrir á þessum tíma, s.s. búsvæðamat fyrir lax í Vatnsdalsá og arðskrá fyrir Veiðifélag Vatnsdalsár sem úrskurðað var um 29. ágúst 2011. Í þeim úrskurði kemur fram að Álka sé stærsta hliðará Vatnsdalsár og eigi upptök sín í Álkulónum norðan við Stórasand. Fyrir neðan Einvígi falli hún í þröngu og djúpu gili og sé hún þar víða straumþung og grýtt. Neðarlega í gljúfrinu sé ólaxgengur foss. Fyrir liggi mæling á þessum neðsta kafla árinnar, allt að Úlfshrygg, og teljist hann vera 2.293 m. Í nefndu búsvæðamati kemur fram að haustið 2007 hafi verið framkvæmt búsvæðamat á fiskgenga hluta Vatnsdalsár og hliðarám hennar, og var Álka þar á meðal. Kemur og fram að búsvæði fiskgengra hluta Vatnsdalsár, Álku o.fl. hliðaráa, hafi verið mæld og metin. Í nánari lýsingu um Álku segir að henni hafi verið skipt í tvö svæði, sé það efra í gili. Allangt sé fiskgengt upp í það. Nokkrum erfiðleikum hafi verið háð að meta svæðið í gilinu þar sem erfitt sé að komast að ánni nema á örfáum stöðum. Búsvæðamatinu fylgdi yfirlitskort af vatnasvæði Vatnsdalsár þar sem merkt eru númer þeirra svæða er metin voru og sést af því að svæði 2 í Álku nær að Einvígisfossi. Kemur og fram í umsögn Veiðimálastofnunar, dags. 30. janúar 2013, að búsvæði í Álku hafi verið metin alla leið upp í Einvígisfoss, en samkvæmt 34. gr. laga um lax- og silungsveiði skyldi slíkrar umsagnar leitað við veitingu leyfis fyrir fiskvegi. Með hliðsjón af því sem fram kom í greindum göngum var ótvírætt tilefni fyrir Fiskistofu að rannsaka málið betur hvað varðaði fiskgengd og hvert umdæmi Veiðifélags Vatnsdalsár næði. Hlýtur sú niðurstaða jafnframt stuðning í niðurstöðum Veiðimálastofnunar frá árinu 2013 þar sem fram kemur að tilvist laxaseiða í Álku ofan Úlfsfoss sýni að lax geti gengið upp fossinn og hrygnt ofan hans, þótt jafnframt komi fram að fossinn sé torgengur. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að Fiskistofa hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og byggt ákvörðun sína um að veita leyfi til gerðar fiskvegar hinn 3. apríl 2013 á ófullnægjandi gögnum. Var ákvörðunin haldin ógildingarannmarka hvað þetta varðaði.

Í 25. gr. stjórnsýslulaga er að finna heimild til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunar að eigin frumkvæði stjórnvalds í þeim tilvikum sem ákvörðun er ógildanleg, en úrskurðarnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið. Var Fiskistofu því heimilt að afturkalla hið umþrætta leyfi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Fiskistofu frá 2. desember 2016 um að afturkalla leyfi frá 3. apríl 2013 til gerðar fiskvega í Álftaskálará.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Geir Oddsson