Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2013 Ægisgata Stykkishólmi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 71/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 um að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2013, er barst nefndinni 17. s.m., kærir B, Ægisgata 9, Stykkishólmur, þá ákvörðun Stykkishólmsbæjar að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, Stykkishólmi, en ákvörðunin var tekin 24. apríl 2013. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Stykkishólmsbæ 22. ágúst 2013.

Málavextir: Á lóðinni nr. 11 við Ægisgötu stendur einbýlishús með bílskúr. Í kjallara bílskúrsins er rými sem mun vera tilgreint sem bátaskýli, en lóðin snýr út að sjó við Svartatanga á Stykkishólmi.

Aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar er nokkuð langur en á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 15. ágúst 2011 var tekin fyrir fyrirspurn lóðarhafa nefndrar lóðar um leyfi til að byggja „létta útbyggingu úr gleri fyrir framan bátaskýli á lóð“ og var byggingarfulltrúa falið að skoða málið. Eftir þá skoðun var bókað á fundi sömu nefndar 5. desember s.á. að veggurinn á norðurmörkum yrði að vera brunaveggur og að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar þyrfti að liggja fyrir áður en leyfi væri veitt. Með bréfi til nefndarinnar, dags. 1. júní 2012, greindi lóðarhafi frá því að hann hefði stillt upp burðarvirki fyrir viðbygginguna sem uppstillingu. Á fundi nefndarinnar 9. s.m. var bókað að kynning á fyrirspurn lóðarhafa hefði ekki farið fram fyrir lóðarhöfum aðliggjandi lóðar. Framkvæmdir væru hafnar án leyfis og bæri að fjarlægja „uppstillinguna“ þá þegar. Á fundi bæjarráðs 9. ágúst s.á. var lóðarhafa gefin frestur til þess að skila inn fullnægjandi gögnum fyrir 1. október s.á.. Að öðrum kosti yrði hann að fjarlægja „uppstillinguna“. Á fundi bæjarstjórnar 16. s.m. var bókað á sama veg.

Með bréfi, dags. 6. september 2012, óskaði lóðarhafi Ægisgötu 11 eftir heimild til að byggja útbyggðan glugga á rými sem kallað væri bátaskýli. Stærð gluggans yrði 8,95 m² og fylgdu erindinu teikningar sem og lýsing á byggingunni og efnisvali. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. september 2012 og var ákveðið að grenndarkynna það fyrir eigendum húsa á lóðum nr. 9 og 12 við Ægisgötu. Sú afgreiðsla nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarstjórnar 25. s.m. Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 8. október 2012.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. október 2012 var nefndu erindi synjað þar sem fyrirhuguð viðbygging væri ekki innan byggingarreits, auk þess sem ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar skorti og þar sem gert væri ráð fyrir byggingu á lóðarmörkum uppfyllti tillagan ekki skilyrði gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um frágang á brunahólfum byggingarhluta. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi bæjarstjórnar 8. nóvember 2012 og í kjölfarið leitaði bæjarstjóri álits hjá Mannvirkjastofnun og Skipulagsstofnun. Að umsögnunum fengnum var eftirfarandi bókað á fundi bæjarstjórnar 24. apríl 2013: “Samþykkt að heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11 ólögmæta. Bendi þeir máli sínu til stuðnings á synjun skipulags- og byggingarnefndar sem hafi m.a. byggt á þeim rökstuðningi að viðbyggingin væri ekki innan byggingarreits og ekki lægi fyrir deiliskipulag af svæðinu.

Uppteiknuð afstöðumynd af bílskúr á nefndri lóð hafi verið röng og sé skúrinn í reynd alveg að lóðarmörkum lóðar kærenda. Hafi bílskúrinn orðið lengri og breiðari en heimilað hafi verið þegar hann hafi verið byggður og nái því að lóðarmökum, eða jafnvel yfir þau. Eins og sjá megi af uppdráttum sé áætlað að brunaveggur verði við lóðamörk lóðanna nr. 11 og 9 við Ægisgötu. Samt virðist vera gert ráð fyrir gluggum sem snúi að síðarnefndri lóðinni og því mótmæli kærendur. Jafnframt mótmæli kærendur frekari mannvirkjum og raski á eða við lóðamörk lóðanna þar sem slíkt yrði umhverfinu til lýta.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ákvörðun bæjarstjórnar hafi byggt á því að samkvæmt aðalskipulagi sé byggingin innan skilgreinds íbúðasvæðis, viðbyggingin falli ofan í landslagið, veiti hvorki skuggavarp né byrgi fyrir útsýni nágranna.

Ekki sé til deiliskipulag af svæðinu. Eftir grenndarkynningu hafi athugasemdir kærenda eingöngu snúist um að bílskúrinn hafi verið byggður stærri en heimilt hafi verið á sínum tíma og hann væri því staðsettur á lóðarmörkum, sem og að brunaveggur sýndi glugga. Bæjarstjórn hafi snúið ákvörðun byggingarnefndar um synjun við til að gefa lóðarhafa Ægisgötu 11 möguleika á að skila inn fullgerðum uppdráttum samkvæmt byggingarreglugerð og mannvirkjalögum þar sem gluggi yrði tekinn úr brunavegg og/eða hannaður eins og reglugerð segði til um á lóðarmörkum og sökkull og plata væru byggð upp eins og reglugerð segði til um. Endanlegur frágangur á lóð nýbyggingar yrði þá skilgreindur á uppdrætti og um leið væri hægt að sjá hvort bílskúr væri stærri en eldri gögn segi til um og fá staðfest að bílskúr væri ekki á lóðarmörkum. Byggingarfulltrúa hafi verið falið að fylgja því eftir að byggingin fullnægði skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi ítrekar rétt sinn til að byggja útbyggðan glugga, rúma 9 m², fyrir framan bátaskýli í kjallara bílskúrsins. Engin byggð sé þeim megin sem glugginn snúi að, aðeins óhindrað útsýni til hafs. Hvergi við meðferð málsins hafi lóðarhafi talað um viðbyggingu við íbúðarhús, enda sé það ekki inni í myndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 24. apríl 2013 að samþykkja að heimila viðbyggingu við Ægisgötu 11, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gilda þau m.a. um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, með ákveðnum undantekningum þó sem taldar eru í 2. mgr. lagagreinarinnar. Í 1. mgr. 9. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum fór fram grenndarkynning á erindi lóðarhafa Ægisgötu 11 í samræmi við framangreind lagaákvæði og afgreiddi bæjarstjórn málið með því að samþykkja að „…heimila bygginguna að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga…“. Er ljóst af orðalagi hinnar kærðu ákvörðunar, og að teknu tilliti til þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin, að með afgreiðslu sinni heimilaði bæjarstjórn byggingarfulltrúa að veita umbeðið byggingarleyfi teldi byggingarfulltrúi að skilyrðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar væri fullnægt. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu nein afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

86/2015 Brekka í Bláskógabyggð

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 3. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 86/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM í Brekkuskógi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. ábúendur og eigendur Brekku í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 3. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi orlofssvæðis BHM. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhuguð framkvæmd, þ.e. bygging vélageymslu á orlofssvæðinu, verði stöðvuð til bráðabirgða. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Deiliskipulag fyrir orlofssvæði BHM í Brekkuskógi tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. ágúst 2006. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar 5. desember 2013 var lögð fram tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi þar sem markaður er byggingarreitur fyrir allt að 250 m² áhaldahúsi andspænis núverandi þjónustumiðstöð. Taldi sveitarstjórnin að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010 og var tillagan grenndarkynnt í kjölfarið. Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, og á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 30. apríl 2014 var byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda tillögunnar um aðra staðsetningu hússins. Samþykkt var á fundi sveitarstjórnar 5. mars 2015 að grenndarkynna endurskoðaða tillögu þar sem gert væri ráð fyrir að hámarksstærð hússins yrði 120 m² og hámarkshæð 3,8 m en húsið yrði á sama stað og áður. Með bréfi, dags. 12. mars 2015, var tillagan grenndarkynnt með athugasemdafresti til 10. apríl s.á. Athugasemdir bárust á ný frá kærendum og voru þær lagðar fram á fundi skipulagsnefndar 22. apríl 2015 ásamt tillögunni. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti breytingatillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og fæli skipulagsfulltrúa að svara nefndum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 7. maí 2015 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. september 2015.

Kærendur vísa til þess að með því að heimila vélageymslu af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði sé vikið frá ákvæðum skipulagsgreglugerðar nr. 90/2013 um frístundabyggð sem geri ráð fyrir smærri mannvirkjum sem tilheyri viðkomandi frístundahúsi, svo sem geymslum, gestahúsum og bátaskýlum. Ekki sé um óverulega deiliskipulagsbreytingu að ræða en fyrrgreind bygging eigi frekar heima á skipulagðri iðnaðarlóð. Muni nefnd bygging, sem staðsett sé nálægt vatnsbóli, hafa í för með sér eldhættu og olíumengun. Þá muni hún hafa neikvæð áhrif á verðgildi og nýtingu nærliggjandi frístundalóða í eigu kærenda.

Sveitarfélagið bendir á að ekki hafi verið óskað eftir byggingarleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem deiliskipulagsbreytingin heimili og sé því ekki þörf á að stöðva framkvæmdir að svo stöddu.

Af hálfu Orlofssjóðs BHM er bent á að engar verklegar framkvæmdir séu hafnar og að þeirra sé ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á komandi vori. Hvorki hafi verið fengið byggingarleyfi fyrir húsinu né liggi fyrir lokateikningar af því og þar af leiði að ómögulegt sé að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar að uppfylltum skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna nefndra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. nefndri 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 
 

87/2015 Selsund Rangárþing ytra

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 3. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 87/2015, kæra á ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Svínhaga SH-17.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Atli Már Ingólfsson hdl., f.h. tilgreindra eigenda Selsunds, landnr. 164552, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggðarráðs Rangárþings ytra frá 19. ágúst 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina SH-17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að þær framkvæmdir sem þegar séu hafnar á svæðinu verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 14. október 2014 tók gildi deiliskipulag fyrir lóðirnar SH-17 og SH-21, þar sem veitt er heimild til að byggja íbúðarhús og gestahús á hvorri lóð. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings ytra 8. júní 2015 var samþykkt að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar SH-17. Í tillögunni fólst breyting á fjarlægð íbúðarhúss frá Selsundslæk og fjölgun byggingareita í tvo. Afgreiðsla skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn Rangárþings ytra 10. s.m. Tillagan var auglýst í Dagskránni 18. s.m. með athugasemdafresti til 30. júlí s.á. og bárust athugasemdir frá kærendum. Hinn 17. ágúst 2015 var því hafnað á fundi skipulagsnefndar að tillagan væri í andstöðu við aðalskipulag og lagt til að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til afgreiðslu og staðfesti byggðaráð þá afgreiðslu 19. ágúst s.á. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. október 2015.

Kærendur skírskota til þess að lóð sú sem hin kærða skipulagsbreyting taki til liggi nær öll innan marka lands þeirra. Deiliskipulag svæðisins hafi aldrei hlotið löglega afgreiðslu þar sem ekki hafi verið aflað samþykkis kærenda á sínum tíma eins og skipulagsnefnd hafi sett fyrirvara um. Deiliskipulagsbreytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Rangárþings ytra enda sé umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði en verið sé að taka land undir frístundalóðir og sé samþykkis ráðherra áskilið skv. jarðalögum fyrir þeirri breytingu. Framkvæmdir séu hafnar á fyrrgreindri lóð sem liggi að veiðivatni og skorti á að aflað hafi verið leyfis Fiskistofu skv. lax- og silungsveiðilögum.

Af hálfu sveitarfélagsins sé á það bent að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Umsókn um byggingarleyfi hafi verið lögð fram og verði hún afgreidd í samræmi við ákvæði laga þar um, en ekki sé skilyrði til að taka til greina stöðvunarkröfu kærenda, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í sambærilegum málum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekins svæðis. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar að uppfylltum skilyrðum 4. gr. laga nr. 130/2011, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna nefndra ákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. nefndri 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

____________________________________
Nanna Magnadóttir
 

55/2012 Laxeldi Arnarfjörður

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2012, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku á ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og útgáfu nýs starfsleyfis 30. apríl 2012.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnór Halldórsson hdl., f.h. Fjarðalax ehf., Grandagarði 14, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurupptaka ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og gefa út nýtt starfsleyfi 30. apríl 2012. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 16. júlí og 23. og 27. október 2015.

Málavextir: Tillaga að starfsleyfi vegna fyrirhugaðs fiskeldis Arnarlax hf. var auglýst af Umhverfisstofnun 9. desember 2011 með fresti til athugasemda til 3. febrúar 2012, auk þess sem hún var send til umsagnar nánar tilgreindra aðila. Starfsleyfi var gefið út 29. febrúar 2012, sem kvað á um allt að 3.000 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum í Arnarfirði á þremur nánar tilgreindum stöðum, sem allir voru markaðir með miðjupunkti og 370 m „hringlaga geira“ um hann. Í greinargerð með leyfinu gerði Umhverfisstofnun grein fyrir athugasemdum sem bárust á athugasemdatíma og viðbrögðum stofnunarinnar við þeim. Var þar um að ræða athugasemdir frá kæranda, Andraútgerðinni ehf., bæjarráði Vesturbyggðar, Landssambandi veiðifélaga og Skipulagsstofnun. Í greinargerðinni var ekki gerð grein fyrir umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 6. janúar 2012, þar sem gerð var athugasemd við allar þrjár fyrirhugaðar staðsetningar eldisins.

Með bréfi, dags. 12. mars 2012, óskaði leyfishafi eftir endurupptöku á nefndu starfsleyfi og var þess óskað að í leyfinu yrði breytt staðsetningu eldissvæðanna í firðinum. Kom fram í bréfinu að staðsetningar í starfsleyfinu gætu verið of nærri togslóð fyrir rækju, auk þess sem Umhverfisstofnun hefði hvorki brugðist við ákveðnum ábendingum leyfishafa né athugasemdum Hafrannsóknastofnunar. Var þess óskað að eldisstöð tilgreind í starfsleyfi á hnitum 65°41,200´N-23°33,150´V yrði færð á staðsetningu 65°40,900´N-23°34,000V, eldisstöð tilgreind á hnitum 65°45,630´N-23°36,630´V yrði færð á hnit 65°45,200´N-23°33,200´V og að lokum að eldisstöð tilgreind á hnitum 65°38,526´N-23°31,427´V yrði færð á hnit 65°40,800´N-23°28,800´V. Með bréfi, dags. 20. mars 2012, varð Umhverfisstofnun við endurupptökubeiðni leyfishafa á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kom nánar fram í bréfi stofnunarinnar að henni hefði láðst að taka tillit til umsagnar Hafrannsóknastofnunar við afgreiðslu starfsleyfisins og hefði ákvörðunin byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðaði staðsetningu tveggja kvía í starfsleyfinu. Þriðja svæðið kæmi ekki til skoðunar þar sem ekkert nýtt hefði komið fram um það svæði sem hefði áhrif á ákvörðun stofnunarinnar. Loks var tekið fram í bréfinu að stofnunin myndi leita álits hagsmunaaðila og stofnana áður en ákvörðun yrði tekin um færslu á staðsetningu kvía og nýtt starfsleyfi gefið út.

Tillaga að starfsleyfi, þar sem tilgreiningu á staðsetningu tveggja kvíasvæða var breytt, var send til umsagnar Hafrannsóknastofnunar, heilbrigðisnefndar Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Siglingastofnunar Íslands, Skipulagsstofnunar og Vesturbyggðar. Starfsleyfi var gefið út að nýju 30. apríl 2012 og var það samhljóða eldra leyfi að öðru leyti en því að breyt var tilgreiningu tveggja eldissvæða. Breyttar staðsetningar fyrir fiskeldið urðu því annars vegar við Tjaldaneseyrar, á svæði mörkuðu af hnitunum: 65°45.420´N-23°33,620´V, 65°44.950´N-23°34,080´V, 65°44.600´N-23°32,090´V og 65°45.160´N-23°31,750´V, og hins vegar við Haganes, á svæði mörkuðu af hnitunum: 65°40.210´N-23°32,730´V, 65°41.240´N-23°33,440´V. 65°41.030´N-23°33,810´V, 65°40.720´N-23°33,770´V, 65°40.320´N-23°33,400´V og 65°40.180´N-23°33,060´V.

Hefur framangreint verið kært til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram.

Við málsmeðferð og ákvarðanatöku Umhverfisstofnunar lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 þess efnis að eldi það sem heimilað var með hinu kærða starfsleyfi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð 4. júlí 2012 vegna þeirrar ákvörðunar, felldi hana úr gildi og kvað á um að eldið skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Með úrskurði uppkveðnum 30. nóvember sama ár féllst umhverfisráðherra á að endurupptaka úrskurðinn, felldi hann úr gildi og staðfesti jafnframt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 um að eldið skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að rekstrarleyfi til fiskeldis í Arnarfirði, á hnitunum 65°46,397´N-23°41,492´V, hafi verið gefið út 6. maí 2010 til tíu ára. Þá hafi starfsleyfi fyrir 1.500 tonna ársframleiðslu af laxi í sjókvíum, innan tiltekinna hnita í Fossfirði, verið gefið út til handa kæranda 29. febrúar 2012 og hafi kærandi jafnframt rekstrarleyfi vegna þessa.

Þau eldissvæði sem leyfishafi hafi fengið úthlutað með umdeildu starfsleyfi séu nálægt eldissvæðum kæranda. Nálægð á milli eldissvæða skipti miklu varðandi smit og sjúkdóma sem herja kunni á fiskinn og hafi fram komin breyting á staðsetningu eldis leyfishafa áhrif á starfsemi og hagsmuni kæranda. Sérhverja færslu þurfi að meta. Við að eldi leyfishafa sé fært nær eldi kæranda aukist áhætta fyrir hagsmuni þess síðarnefnda.

Sá fiskur sem kærandi framleiði sé sérstaklega vottaður til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market sem lífrænt ræktaður. Þess vegna sé verðmæti hans mun meira en annars fisks sem ekki hafi slíka vottun. Viðskiptahugmynd, fjárfestingar og fjárhagsáætlun kæranda geri ráð fyrir því að sá fiskur sem félagið framleiði sé allur vottaður sem lífrænn fiskur. Ef meðhöndla þurfi eldisfisk á svæðinu, þ.e. í Arnarfirði, með utanaðkomandi efnum, s.s. með efnaböðum, verði vottunin ekki framlengd. Það hafi þær afleiðingar að það verð sem fáist fyrir fiskinn lækki mjög, sem aftur hafi þær afleiðingar að grundvelli verði kippt undan starfsemi og rekstri kæranda. Af þeim sökum hafi kærandi einstaklega, verulega og lögvarða hagsmuni af þeirri ákvörðun sem hér sé kærð.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þær undantekningar sem heimilaðar séu frá andmælareglunni séu matskenndar og víki frá einni af grundvallarreglum stjórnsýsluréttar. Undantekningarnar beri að túlka þröngt í samræmi við þau markmið og lagarök sem búi að baki andmælareglunni. Samkvæmt greinagerð Umhverfisstofnunar með endurupptöku starfsleyfis leyfishafa hafi stofnunin leitað umsagnar nokkurra tilgreindra aðila um tillögu að breyttu starfsleyfi. Stofnunin hafi þó kosið að leita ekki umsagnar kæranda þrátt fyrir að hagsmunir hans væru einstakir, verulegir og lögvarðir og ákvörðun um endurupptöku íþyngjandi. Þegar ekki sé veittur andmælaréttur, og þannig brotið í bága við 13. gr. stjórnsýslulaga, teljist það vera verulegur annmarki, sem leiði til þess að íþyngjandi ákvörðun teljist að öllu jöfnu ógildanleg. Beri því að ógilda þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurútgefa starfsleyfi leyfishafa.

Skilyrði stjórnsýslulaga til endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku hafi byggst á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem stofnunin hafi talið fyrri ákvörðun sína byggjast á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðar staðsetningu tveggja kvíastæða í starfsleyfinu“. Þessu mótmæli kærandi sem röngu. Í greinargerð Umhverfisstofnunar með endurupptöku á starfsleyfinu segi að við úrvinnslu málsins hafi orðið þau mistök að láðst hafi að taka tillit til þeirra staðsetningar sem Hafrannsóknastofnun hafi gert tillögu um í umsögn sinni, en í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga segi að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá segi í greingerð með lagafrumvarpi því sem síðar varð að stjórnsýslulögum að almennt virðist gengið út frá því í stjórnsýslurétti að stjórnvald hafi á sumum sviðum nokkuð víðtæka heimild til þess að endurupptaka mál komi fram beiðni um slíkt frá öllum aðilum þess. Beiðni um endurupptöku virðist hins vegar einungis hafa komið frá leyfishafa, en ekki öðrum sem hagsmuna eigi að gæta, s.s. kæranda. Ekki verði því annað séð en að Umhverfisstofnun hafi litið framhjá lögskýringargögnum með 24. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Hvorki hafi legið fyrir ófullnægjandi né rangar upplýsingar þegar hið upphaflega starfsleyfi hafi verið gefið út. Afstaða Hafrannsóknastofnunar hafi legið fyrir við útgáfu leyfisins en Umhverfisstofnun hafi ekki tekið tillit til fram kominna sjónarmiða við málsmeðferð sína. Eftir að Umhverfisstofnun hafi gefið út leyfið hafi stofnunin ákveðið að gera á því breytingar er vörðuðu eitt höfuðatriði þess, þ.e. staðsetningu eldiskvía. Við hina nýju leyfisveitingu hafi verið byggt á sömu gögnum frá Hafrannsóknastofnun og fyrr. Þau skilyrði endurupptöku sem greini í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fyrir hendi og Umhverfisstofnun ekki haft lagaheimild til að endurupptaka ákvörðun sína. Því sé einsýnt að ógilda beri ákvörðun stofnunarinnar um endurupptöku hins eldra leyfis og fella jafnframt hið breytta starfsleyfi úr gildi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að staðsetning eldiskvía hafi verið tilgreind í hinu upprunalegu starfsleyfi í samræmi við umsókn rekstraraðila. Hafi úrskurður umhverfisráðuneytisins frá 16. júlí 2007, vegna kæru Haliotis á Íslandi ehf. vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis AGVA-Norðurland ehf., verið hafður til hliðsjónar. Þar komi fram að engar heimildir séu í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til að gera kröfu um aðra staðsetningu en sótt sé um, t.d. vegna annarrar starfsemi sem fyrir sé á svæðinu, enda uppfylli umsækjandi öll skilyrði laga og reglna sem um starfsemina gildi. Ráðuneytið hafi hins vegar einnig bent á að skv. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar geti Fiskistofa ákveðið að lengra eða skemmra skuli vera milli eldisstöðva og eldiseininga en kveðið sé á um í 1. mgr. sömu greinar telji stofnunin aðstæður krefjast þess. Eldi sé, auk starfsleyfis Umhverfisstofnunar, háð rekstrarleyfi Fiskistofu, sbr. 3. gr. laga nr. 33/2002 um eldi nytjastofna sjávar og reglugerðar nr. 238/2003.

Í greinargerð með upprunalegu starfsleyfi frá 29. febrúar 2012 hafi Umhverfisstofnun  fjallað um fjarlægðarreglu þá sem kveði á um tveggja km fjarlægð milli eldissvæða. Þar hafi komið fram álit stofnunarinnar um að henni væri ekki heimilt að hafna umsóttri hnitsetningu. Starfsleyfi til mengandi starfsemi séu útgefin á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og  reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun. Ákvæði starfsleyfa gefinna út á þeim grundvelli fjalli um mengunarvarnir. Framangreindar sértækar fjarlægðarreglur séu settar á öðrum lagagrunni, þ.e. vegna hættu á fisksjúkdómum. Þá sé rétt að benda á að ekki sé til staðar löggjöf um skipulag hafsvæða. Athafnasvæði utan netlaga sé ekki skipulagsskylt og því séu ekki til staðar skipulagsáætlanir þar sem skýr grundvöllur liggi fyrir varðandi staðsetningu athafnasvæðis, umfang starfsemi og mörk gagnvart annarri starfsemi, sem leyfisveitendur geti byggt á.

Orðið hafi verið við ósk leyfishafa um endurupptöku ákvörðunar Umhverfisstofnunar um veitingu starfsleyfis frá 29. febrúar 2012. Stofnunin hafi fallist á þau sjónarmið að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðaði staðsetningu tveggja kvíasvæða í starfsleyfinu. Við úrvinnslu málsins hafi láðst að taka nægilegt tillit til umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar. Að skoðuðu máli, og með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, hafi Umhverfisstofnun talið að taka bæri tillit til þeirra ábendinga sem Hafrannsóknastofnunin hefði komið að í umsögn sinni, sem og þeirrar útfærslu á svæðum sem leyfishafi hefði óskað eftir í framhaldi af því. Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunar frá 6. janúar 2012 hafi stofnunin gert athugasemdir við allar þrjár fyrirhugaðar staðsetningar kvía leyfishafa í Arnarfirði. Hafrannsóknastofnun hafi gert tillögur að nýjum staðsetningum, sem stofnunin hefði talið að ættu betur við út frá umhverfislegu sjónarmiði, þá með því að dreifa eldinu yfir stærra svæði og með aukinni fjarlægð milli eldisstöðva ætti sjúkdómshættan að minnka. Í athugasemdum stofnunarinnar hafi einnig komið fram að staðsetning eldissvæðis austan við Bíldudalsvog næði inn á staðlað rækjutog nr. 15 og að nyrsta staðsetningin væri full nærri stöðluðu rækjutogi nr. 4.

Talið hafi verið eðlilegt að færa tilgreiningu tveggja svæða til, með tilliti til hafrannsóknarhagsmuna, annarra athugasemda Hafrannsóknastofnunar og beiðna leyfishafa. Rétt sé að taka fram að Fiskistofa hafi gefið út rekstrarleyfi 21. júní 2012 byggt á umræddu starfsleyfi sem ekki gefi eldisréttindi nærri Fossfirði. Eftir standi hin tvö eldissvæðin. Það eldissvæði leyfishafa sem samkvæmt rekstarleyfi Fiskistofu sé næst svæði kæranda í Fossfirði sé í meira en 3,5 km fjarlægð, en fjarlægðarreglan kveði á um meira en 2 km fjarlægð. Ekki verði séð hvaða hagsmuni kærandi hafi af slíkri minniháttar breytingu þegar fjarlægðin sé eftir sem áður umtalsvert meiri en heilbrigðisreglur kveði á um. Ekki komi t.d. fram í kæru málsástæður um að kröfur sem vottun afurða byggist á séu strangari en gildandi íslenskar reglugerðir.   

Í stjórnsýslulögum sé skýr heimild til endurupptöku mála, t.d. þegar ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sérstaklega ef þær hafi verulega þýðingu við ákvörðun í málinu. Um tímafresti sé fjallað í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaganna. Segi þar að ef meira en 3 mánuðir séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun og hún hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, sbr. 1. tl. 1. mgr., verði beiðni um endurupptöku almennt ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Í þessu tilviki hafi beiðni um endurupptöku komið 13 dögum eftir að starfsleyfi hafi verið gefið út. Hafi verið fallist á endurupptökuna og nýtt starfsleyfi gefið út um tveimur mánuðum eftir fyrri útgáfu. Stjórnvöld séu talin hafa almennt víðtæka heimild til að meta hvort mál skuli endurupptekin vegna þeirra atriða sem talin séu upp í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þó aðilar máls eigi ekki jafn víðtækan rétt til að fá mál sín endurupptekin. Þá megi vísa til óskráðra meginreglna um heimild stjórnvalda til endurupptöku mála.

Ekki hafi verið sýnt fram á að ný ákvörðun í málinu hafi orðið kæranda til tjóns á einhvern hátt. Í kærunni sé sagt að framleiðsla kæranda sé lífræn og vottuð til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Ef sú vottun verði ekki framlengd geti grundvelli verið kippt undan rekstri fyrirtækisins. Ekki hafi komið fram hvort kærandi hafi misst vottun á sinni framleiðslu og þá út af hverju. Slíkt hafi ekki verið tilkynnt til Umhverfisstofnunar, sem hafi 29. febrúar 2012 gefið út nýtt starfsleyfi til handa kæranda, sem síðan hafi verið breytt með ákvörðun stofnunarinnar 11. febrúar 2015. Við vinnslu og yfirferð vegna breytingar starfsleyfisins hafi ekki komið fram upplýsingar um að  kærandi hafi misst vottun og að rekstrargrundvelli væri ógnað.
——-

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júní 2012, var leyfishafa gefinn kostur á að tjá sig um málið en athugasemdir hafa ekki borist af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að endurupptaka ákvörðun sína um starfsleyfi til framleiðslu á laxi í sjókvíum í Arnarfirði, sem og um útgáfu nýs starfsleyfis vegna eldisins, sem tilgreindi breytta á staðsetningu tveggja af þremur eldissvæðum leyfishafa í firðinum.

Kærandi krefst ógildingar á ákvörðun Umhverfisstofnunar, m.a. á grundvelli þess að skilyrði stjórnsýslulaga til endurupptöku hafi ekki verið fyrir hendi, auk þess sem beiðni um endurupptöku hafi einungis komið frá leyfishafa en ekki öllum hlutaðeigandi aðilum. Umsækjandi um leyfi og handhafi þess, að því útgefnu, er eðli málsins samkvæmt aðili máls um þá ákvörðun og getur farið fram á endurupptöku þess. Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og er almenningi tryggður víðtækur réttur til að koma að athugasemdum sínum af því tilefni, sbr. 3. mgr. 6. gr. nefndra laga. Þeir sem það gera teljast þó ekki sjálfkrafa aðilar að því máli en geta eftir atvikum átt þeirra einstaklegu, verulegu og beinu hagsmuna að gæta við útgáfu slíks leyfis að skapi þeim kæruaðild. Verður að líta svo á að hér hátti svo til. Samkvæmt framangreindu telst kærandi eiga þeirra hagsmuna að gæta að hann eigi kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni, en engin efni voru til aðkomu hans að beiðni um endurupptöku, enda var hann ekki aðili málsins á því stigi. Að kæru fram kominni sætir hins vegar hvort tveggja lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, þ.e. hvort skilyrði hafi verið til endurupptöku, sem og endanleg ákvörðun Umhverfisstofnunar um starfsleyfi.

Ákvörðun sína um endurupptöku byggði Umhverfisstofnun á því að ákvörðun hennar um útgáfu starfsleyfis hefði „byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum að því er varðar staðsetningu tveggja kvía í starfsleyfinu“, en heimild er í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Ljóst er að umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 6. janúar 2012, lá fyrir við ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfisins. Var því ekki um það að ræða að ákvörðunin byggði á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum heldur því að við ákvörðunartökuna var ekki tekið tillit til þeirra upplýsinga sem fyrir lágu. Gat Umhverfisstofnun því ekki byggt endurupptöku á framangreindu lagaákvæði. Hins vegar hafa stjórnvöld einnig heimildir til endurupptöku máls á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar, t.a.m. hafi niðurstaða þess af einhverjum orsökum orðið óheppileg eða beinlínis röng að efni til, en þá mæla hagkvæmnisrök með því að endurupptaka sé tæk. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komu fram athugasemdir við allar umsóttar staðsetningar til fiskeldis leyfishafa. Verður að telja að Umhverfisstofnun hafi verið heimilt að teknu tilliti til þessa að endurupptaka málið að þeim hluta er laut að fyrirhugaðri staðsetningu eldisins, enda bar stofnuninni að sjá til þess að málið væri nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur umþrætta breytingu á staðsetningu eldissvæða í Arnarfirði hafa áhrif á starfsemi sína og að á grundvelli þeirra hagsmuna hefði átt að gefa honum kost á að tjá sig um hana. Við útgáfu hins upprunalega starfsleyfis var miðað við þrjú eldissvæði, eins og nánar greinir í málavöxtum. Eitt norðanmegin við Arnarfjörð undir Baulhúsaskriðum, annað sunnanmegin við Arnarfjörð við Haganes og hið þriðja við mynni Arnarfjarðar og Fossfjarðar, norðan við eldissvæði kæranda. Í hinu endurskoðaða starfsleyfi var staðsetning eldissvæðisins undir Baulhúsaskriðum, sem markaðist áður af miðpunkti með einu hniti, tilgreint austar inn fjörðinn, að Tjaldaneseyri, og svæðið markað af fjórum hnitum. Þá var tilgreiningu eldissvæðis við Haganes breytt þannig að í stað þess að markast af miðpunkti með einu hniti var svæðið markað með sex hnitum. Við það var eldissvæðið stækkað, það markað nær landi og lengra í átt að Fossfirði. Staðsetning þriðja eldissvæðisins við minni Fossfjarðar var óbreytt og það markað áfram af miðpunkti. Er það svæði næst eldissvæði kæranda í Fossfirði.

Í athugasemdum kæranda til Umhverfisstofnunar, við auglýsingu upprunalegrar tillögu að starfsleyfi því sem gefið var út 29. febrúar 2012, var tekið fram að tvær af þeim staðsetningum sem tillagan miðaði við, við Haganes og við mynni Fossfjarðar, væru í beinni straumstefnu við eldiskvíar kæranda í Fossfirði. Fjarlægðin frá fyrirhuguðu eldissvæði við Haganes að kvíum kæranda væri 6 km og einungis væri um 1 km frá fyrirhuguðu eldissvæði við mynni Fossfjarðar að kvíunum. Staðsetningar í því leyfi sem hér er til úrlausnar breyttust að því er varðaði svæðið við Haganes og var stærð þess aukin, m.a. í átt að eldi kæranda, og varð fjarlægð milli nefndra eldissvæða 4,2 km þar sem hún er minnst. Mengun getur borist um langa vegu með hafstraumum og gat breytingin þannig verið til þess fallin að hafa áhrif á hagsmuni kæranda. Blasir við að undir þeim kringumstæðum var rétt að gefa kæranda kost á að tjá sig um breytinguna áður en ákvörðun um hana var tekin og er hún haldin annmörkum að því er þetta varðar. Í þessu sambandi er rétt að árétta að víðtækur réttur er til staðar til að koma að athugasemdum við gerð starfsleyfis skv. lögum nr. 7/1998. Hins vegar lá fyrir Umhverfisstofnun matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem ekki hafði þá verið fjallað um á kærustigi, þar sem fjallað var um burðarþol Arnarfjarðar, vatnsskipti og strauma. Umsagnar Skipulagsstofnunar var einnig leitað vegna tillögu að enduruppteknu starfsleyfi og kom fram í umsögninni að stofnunin hefði byggt matsskylduákvörðun sína m.a. á niðurstöðum straummælinga, sem gerðar hefðu verið árin 2001 og 2011 í nálægð við eldissvæðin sem þá hafi verið fyrirhuguð. Taldi Skipulagsstofnun að endurupptaka starfsleyfisins breytti ekki þeim forsendum sem matsskylduákvörðun stofnunarinnar hefði byggt á. Þrátt fyrir framangreindan annmarka við töku hinnar kærðu ákvörðunar að veita kæranda ekki andmælarétt er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að annmarkinn sé þó ekki svo verulegur, eins og hér háttar, að ógildingu varði. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar um endurupptöku á ákvörðun um eldra starfsleyfi fyrir kvíaeldisstöð Arnarlax ehf. í Arnarfirði og um útgáfu nýs starfsleyfis 30. apríl 2012.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Geir Oddsson

73/2012 Laxeldi Arnarfjörður

Með

Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2012, kæra á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa Arnarlaxi ehf. vegna framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnór Halldórsson hdl., f.h. Fjarðalax ehf., Grandagarði 14, Reykjavík, þá ákvörðun Fiskistofu frá 21. júní 2012 að gefa út rekstrarleyfi til handa Arnarlaxi ehf. til framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2014, gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir á grundvelli rekstrarleyfis verði stöðvaðar þar sem leyfishafi hyggist hefja framkvæmdir við Haganes í Arnarfirði samkvæmt hinni kærðu ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis til starfrækslu fiskeldisstöðvar þar. Þar sem rekstrarleyfi veitir ekki heimild til framkvæmda heldur til reksturs fiskeldisstöðvar þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá Fiskistofu 28. ágúst 2012 og 18. mars 2014.

Málavextir: Hinn 9. september 2011 sótti Arnarlax ehf. um rekstrarleyfi til fiskeldis til Fiskistofu. Fram kom í umsókninni að um væri að ræða 3.000 tonna eldi í Arnarfirði og að beðið væri afgreiðslu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi vegna eldisins. Fiskistofa frestaði afgreiðslu erindisins þar til starfsleyfi og fleiri fylgigögn bærust. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi vegna eldisins 29. febrúar 2012, sem síðar var endurupptekið og starfsleyfi gefið út að nýju 30. apríl s.á.

Kærandi í máli þessu sendi bréf til Fiskistofu, dags. 26. apríl 2012, þar sem fram kom að ágreiningur væri um staðsetningu umsóttra kvíastöðva. Fiskistofa leitaði álits Matvælastofnunar af þessu tilefni og var þess m.a. óskað að fjallað yrði um sýkingarhættu vegna laxalúsar og afleiðingar hennar og um líkur á að laxalús dreifðist með hafstraumum á milli rekstaraðila í Arnarfirði. Í áliti dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, dags. 30. apríl 2012, kom fram að laxalús væri ein helsta ógn kvíaeldis í Arnarfirði en þeirri áhættu væri hægt að halda í algjöru lágmarki miðað við umhverfisaðstæður í dag ef farið yrði að gildandi leikreglum um fjarlægðarmörk, kynslóðaskipt eldi og hvíldartíma kvíastæða. Bent var á að niðurstöður eldri rannsókna sýndu að þar sem lús væri á annað borð til staðar væri fiskilúsin nánast allsráðandi, en laxalús hefði einungis greinst í undantekningartilfellum í kvíafiski. Nýrri athuganir féllu á sama veg, þ.e. fiskilúsin væri yfirgnæfandi, en ein og ein laxalús hefði þó sést. Þegar lúsin væri á sviflægt þroskastig gæti hún hæglega dreifst um allan fjörðinn en tilraunir sýndu að 180° dagar, þ.e. einn mánuður við 6°C, væri algjör lágmarkshvíld eldissvæði.

Með tölvupósti umsækjanda til Fiskistofu 2. maí 2012 var tekið fram vegna umsóknarinnar að óskað væri eftir að rekstrarleyfi yrði gefið út vegna tveggja þeirra staðsetninga sem tilgreindar væru í starfsleyfinu, þ.e. svæðis merkt A, utan við Hrafnseyri við norðanverðan Arnarfjörð, og svæðis merkt B, sem væri við Haganes. Umsókn um svæði merkt C, sem væri við utanverðan Fossfjörð, myndi umsækjandi afturkalla. Með bréfi, dags. 3. s.m., leitaði Fiskistofa skýringa frá Umhverfisstofnun varðandi heimilt framleiðslumagn á hverju svæði, sem tilgreint væri í starfsleyfinu. Skýringar stofnunarinnar bárust Fiskistofu með bréfi, dags. 10. s.m., og var þar tekið fram að starfsleyfið tilgreindi ekki eða afmarkaði framleiðslumagn á hverju svæði fyrir sig.

Með bréfum, dags. 21. maí 2012, óskaði Fiskistofa eftir umsögnum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, sem og frá tilgreindum hagsmunaaðilum, m.a. kæranda. Umsagnarbeiðninni fylgdi umsókn um rekstrarleyfið, afrit af starfsleyfi vegna eldisins og öðrum fylgigögnum, sem og afstöðumynd af fyrirhuguðum eldisstöðum. Kom fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar að hún gerði ekki athugasemdir við framleiðslumagn eða tvö eldisvæðanna, svæði A og svæði B, en að þriðja svæðið merkt C væri of nálægt laxeldisstöð kæranda í Fossfirði samkvæmt nýlegri reglugerð um fiskeldi og kæmi því ekki til greina að mati stofnunarinnar. Veiðimálastofnun benti á að fiskeldi gæti haft neikvæð áhrif á stofna ferskvatnsfiska og lagði til að áður en eldismagn yrði aukið yrði farið í að meta burðargetu svæðisins, gera áætlun um svæðaskiptingu og samhæfingu og tryggja að hægt væri að rekja þá fiska sem slyppu úr kvíum til uppruna og sleppistaðar. Í umsögn dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun frá 11. júní 2012 kom fram það álit að út frá vistfræðilegum og sjúkdómstengdum sjónarmiðum teldi álitsgjafi fullvíst að burðargeta fjarðarins til fiskelds gæti með góðu móti rúmað tvö öflug fyrirtæki og að mjög mikilvægt væri að staðsetningar kvíaþyrpinga væru ígrundaðar. Álitsgjafi benti á að staðsetningu eldisins við Haganes þyrfti að skoða nánar með tilliti til hafstrauma, en hún væri á mörkum þess að uppfylla tilskilin fjarlægðarmörk. Lagðist álitsgjafi ekki gegn leyfisveitingunni svo fremi að Fiskistofa setti m.a. kröfur um fjarlægðarmörk.

Fiskistofa gaf út rekstrarleyfi 21. júní 2012, og er leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt því allt að 3.000 tonn af laxi á ári, með starfsemi á tveimur tilteknum svæðum í Arnarfirði, Tjaldaneseyrum, sem mun vera svæði merkt A, og Haganesi, sem mun vera svæði merkt B.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Við málsmeðferð og ákvarðanatöku Fiskistofu lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 þess efnis að eldi það sem hér um ræðir skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð 4. júlí 2012 vegna þeirrar ákvörðunar, felldi hana úr gildi og kvað á um að eldið skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi fór fram á með bréfi til Fiskistofu 20. s.m. að ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfisins yrði afturkölluð. Með úrskurði uppkveðnum 30. nóvember s.á. féllst umhverfisráðherra á að endurupptaka úrskurð sinn frá 4. júlí s.á., felldi hann úr gildi og staðfesti jafnframt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 um að eldið skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að forsendur hafi brostið fyrir útgáfu rekstrarleyfisins þar sem ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. apríl 2011, þess efnis að fyrirhugað eldi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi verið felld úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra 4. júlí 2012. Í leyfinu séu aðeins sett almenn skilyrði vegna vöktunar, búnaðar og ytra og innra eftirlits. Engar kröfur eða skilyrði séu sett vegna umhverfisþátta eða krafna sem lúti að verndun umhverfisins. Þá dragi kærandi í efa að leyfishafi muni hefja starfsemi innan 24 mánaða frá útgáfu leyfisins, en Fiskistofu sé þá heimilt að fella rekstrarleyfið niður, sbr. gr. 7.1. í leyfinu.

Hið umdeilda rekstrarleyfi taki til svæðis sem sé mjög nálægt eldissvæði kæranda. Nálægð á milli eldissvæða skipti miklu varðandi smit og sjúkdóma sem herja kunni á fiski. Sá fiskur sem kærandi framleiði sé sérstaklega vottaður til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market sem lífrænt ræktaður. Þess vegna sé verðmæti hans mun meira en annars fisks sem ekki hafi slíka vottun. Viðskiptahugmynd, fjárfestingar og fjárhagsáætlun kæranda geri ráð fyrir því að sá fiskur sem félagið framleiði sé allur vottaður sem lífrænn fiskur. Ef meðhöndla þurfi eldisfisk á svæðinu, þ.e. í Arnarfirði, með utanaðkomandi efnum, s.s. með efnaböðum, verði vottunin ekki framlengd. Það hafi þær afleiðingar að það verð sem fáist fyrir fiskinn lækki mjög sem aftur hafi þær afleiðingar að grundvellinum verði kippt undan starfsemi og rekstri kæranda. Það eldi sem sé fyrirhugað sé hefðbundið, en ekki lífrænt, eldi. Fjárhagslegir hagsmunir kæranda af því að geta stundað lífrænt fiskeldi séu miklir. Leiði af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að fella beri hið umdeilda rekstarleyfi niður án tafar, en annars þyrfti kærandi að sæta lengri bið eftir niðurstöðu um hvort leyfið héldi gildi sínu eða ekki. Yrði niðurstaðan sú að leyfið héldi gildi sínu hefði kærandi lagt fram mikið fé í starfsemi sem kollvarpað væri þar sem nálægð væri of mikil á milli eldissvæða. Eldi kæranda yrði ekki lengur lífrænt sem myndi hafa í för með sér lækkun á afurðarverði.

Ógilda beri hina kærðu ákvörðun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Ekki verði séð að Fiskistofa hafi tekið tillit til þeirra afleiðinga sem verði fyrir fiskeldi í Arnarfirði, þ.m.t. starfsemi kæranda. Í þessu sambandi megi vísa í umsögn Matvælastofnunar frá 11. júní 2012 varðandi rekstararleyfi það sem hér sé til umfjöllunar: „Mjög mikilvægt er að staðsetningar kvíaþyrpinga séu ígrundaðar og með tilkomu nýrrar reglugerðar nr. 401/2012 um fiskeldi er tekið sérstaklega á afmörkun og hvíld eldissvæða sem er lykill að sátt og nýtingu svæðisins.“ Þá komi einnig fram að; „Fjarðalax hefur nú þegar helgað sig suðursvæðinu og því þarf að taka tillit til núverandi eldis í Fossfirði þegar kemur að leyfisveitingum og útsetningu seiða á nýjar staðsetningar.“

Miklar líkur séu á að sjúkdómar og laxalús geti borist á milli fyrirhugaðrar sjókvíaeldisstöðvar og sjókvíaeldisstöðvar kæranda. Samkvæmt lögum nr. 11/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi hvíli mjög rík skylda á Fiskistofu að tryggja að málsatvik séu nægjanlega upplýst, almennt og að teknu sérstöku tilliti til markmiða fiskeldislaga og hagsmuna sem í húfi séu, áður en hún taki ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis, sbr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Fjarlægð milli fyrirhugaðs eldis og eldis kæranda sé 4,2 km og hafi Fiskistofa því vikið verulega frá því meginviðmiði 1. mgr. 3. gr. greindrar reglugerðar að fjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva skuli að lágmarki vera 5 km. Megintilgangur greindrar reglu sé að draga úr líkum á að fisksjúkdómar og sníkjudýr, eins og laxalús, berist milli stöðva og valdi skaða og breiðist út. Við undirbúning ákvörðunar um að víkja frá greindu meginviðmiði um lágmarksfjarlægð verði að rannsaka eins og mögulegt sé hvort fisksjúkdómar og/eða sníkjudýr, s.s. laxalús, séu á svæðinu og hugsanlega dreifingu þeirra milli eldisstöðva og almennt, m.a. með straumlíkönum. Vísi kærandi til greiningar á laxalúsum á laxi sem alinn hafi verið í Fossfirði og sérfræðiskýrslu varðandi hættu á útbreiðslu laxalúsar og fisksjúkdómasmiti í Arnarfirði.

Beri Fiskistofu að taka ekki ákvörðun um að víkja frá fjarlægðarreglunni nema niðurstöður rannsókna sýni með óyggjandi hætti að líkur á dreifingu sjúkdóma og/eða sníkjudýra aukist ekki. Þá sé það skilyrði skv. nefndu reglugerðarákvæði að samráð sé haft um frávikið við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun, auk þess að leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar um það. Þegar Fiskistofa hafi leitað umsagna nefndra stofnana hafi hún hvorki upplýst um að staðsetning fyrirhugaðrar eldisstöðvar við Haganes væri nær eldisstöð kæranda en fjarlægðarmörk kvæðu á um né um það hver fjarlægðin væri. Tilgangur samráðsins hljóti að vera sá að fá mat þessarar sérfræðistofnana á því hvort frávik frá lágmarksfjarlægð væri til þess fallið að draga úr líkum á smiti og útbreiðslu fisksjúkdóma og sníkjudýra. Þá hafi komið fram í umsögn Matvælastofnunar að rannsaka þyrfti staðsetningu eldisstöðvar við Haganes betur m.t.t. hafstrauma. Þrátt fyrir þessa umsögn hafi Fiskistofa ákveðið að veita rekstrarleyfi án þess að óska eftir frekari upplýsingum frá stofnuninni eða mats eða rannsóknar hennar. Loks virðist umsögn Hafrannsóknastofnunar bera með sér að stofnunin hafi talið staðsetninguna við Haganes vera í samræmi við fjarlægðarmörk reglugerðarinnar en Fiskistofa virðist ekki hafa talið tilefni til að koma að réttum upplýsingum um fjarlægð. Kröfur um rannsókn máls og undirbúning töku ákvörðunar hafi ekki verið uppfylltar og beri að fellar úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu.

Málsrök Fiskistofu: Fiskistofa bendir á að rekstrarleyfi hafi verið gefið út eftir að mat hafi verið lagt á umsókn og fram komnar umsagnir. Ákvörðun hennar um útgáfu rekstarleyfis geti ekki sætt ógildingu vegna síðar tilkominna atvika. Í kjölfar endurupptöku hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum verið staðfest með úrskurði 30. nóvember 2012. Það sé sérstakt úrlausnarefni hvort að rekstarleyfi verði afturkallað ef fyrirtæki takist ekki að hefja starfsemi innan 24 mánaða. Getgátur um erfiðleika við að standast tímafresti geti ekki verið ástæða til að ógilda ákvörðun um útgáfu leyfis. Þá verði ekki séð hvernig meðalhófsreglan geti átt við í málinu, en útgáfa leyfis sé ekki íþyngjandi ákvörðun í skilningi 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar umsókn um rekstrarleyfi hafi borist Fiskistofu hafi gilt reglur um 2 km fjarlægð milli eldissvæða. Í lok málsmeðferðatímans hafi verið birt reglugerð þar sem meginreglan sé 5 km fjarlægð, en heimilt sé að víkja frá þeim fjarlægðarmörkum. Umsagnarbeiðni hafi verið send til allra lögbundinna umsagnaraðila og ennfremur til fleiri aðila sem hagsmuna ættu að gæta eða taldir væru geta komið með mikilvægt innlegg í málið. Umsagnir stofnana sem til hafi verið leitað hafi að mati Fiskistofu verið á þann veg að ekki bæri að að hafna umsóknina. Í umsögnunum komi fram nokkrar  athugasemdir varðandi nálægð eldissvæða, en almennt hafi umsagnaraðilar ekki mælt gegn útgáfu leyfis. Með tilliti til 1. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi hafi Fiskistofa talið rétt að gefa út leyfið, en í tilvitnuðu ákvæði segi m.a.; „Telji Fiskistofa að umsókn um rekstarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út rekstarleyfi til tíu ára í senn.“ Heimilt sé að víkja frá meginreglunni um 5 km fjarlægð og hafi Fiskistofa leitað til lögbundinna umsagnaraðila í því sambandi. Þá sé umdeilanlegt hvort frávikið sé verulegt þar sem fjarlægð milli umræddra eldissvæða sé um 4,2 km.

Málið hafi verið nægilega rannsakað þegar að útgáfu rekstarleyfis hafi komið. Fiskistofa hafi fengið í hendur öll þau gögn sem séu áskilin í lögum og reglugerð. Ekki hafi verið lögð sérstök skylda á umsækjendur í þessu tilviki um að gera sjálfstæðar rannsóknir. Áhættuþættir í laxeldi séu almennt þekktir og Fiskistofa hafi ekki lagt þá skyldu á aðra umsækjendur um rekstararleyfi að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir, jafnvel ekki í tilvikum þar sem lítil fjarlægð sé á milli stöðva. Komi slíkar upplýsingar nægilega fram í umsögnum. Þá sé það ekki úrslitaatriði hversu nákvæm fjarlægðarmæling hafi legið fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar. Fjarlægðin sé rúmir 4 km og nákvæmari mælingar breyti litlu varðandi áhættumat.

——-

Leyfishafi fer fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni ellegar að kröfu kæranda verði hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Fiskistofu að gefa út rekstrarleyfi sem heimilar að framleiða allt að 3.000 tonn af laxi árlega í sjókvíum á tveimur hnitsettum svæðum í Arnarfirði, annars vegar við Tjaldaneseyrar og hins vegar við Haganes.

Um rekstrarleyfi til fiskeldis fer eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf rekstarleyfi sem Fiskistofa veitir skv. þágildandi 1. mgr. 7. gr. laganna, en áður en slíkt leyfi er veitt skal Fiskistofa afla umsagnar lögbundinna umsagnaraðila, sbr. þágildandi 2. mgr. 7. gr. Í þágildandi 1. mgr. 9. gr. kemur fram að við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skuli Fiskistofa leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunni að fylgja starfsemi fiskeldisstöðva. Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á framangreinda þætti getur Fiskistofa lagt fyrir umsækjendur að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstarleyfi er veitt, sbr. þágildandi 2. mgr. 9. gr. Í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laganna skal þess ávallt gætt við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Við útgáfu hins umdeilda rekstrarleyfis lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað eldi væri ekki háð mati umhverfisáhrifum og var Fiskistofu rétt að miða við það við útgáfu leyfisins. Þá standa engin rök til þess að gildi leyfisins verði raskað fyrir fram vegna mögulegra síðar til kominna atvika, s.s. þess að líkur séu fyrir því að starfsemi samkvæmt leyfinu hefjist ekki innan tilskilins tíma, en kæmi til þess hefur Fiskistofa sjálfstæða heimild í ákvæði 7.1 í leyfinu til að fella það úr gildi. Að sama skapi verður ekki séð að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði til ógildingar á leyfinu með vísan til þess að ágreiningur sé um réttmæti ákvörðunarinnar eða að bið verði eftir niðurstöðu í kærumáli vegna hans.

Þegar málsmeðferð hófst fyrir Fiskistofu var í gildi reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, þar sem mælt var fyrir um í 1. mgr. 14. gr. að fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva skyldi vera að lágmarki 2 km. Undir lok málsmeðferðarinnar tók hins vegar gildi reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi og féll þá reglugerð nr. 238/2003 úr gildi. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um fiskeldi er kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva samkvæmt meginviðmiði skuli vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fiskistofa geti að höfðu samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva.

Við meðferð málsins leitaði Fiskistofa eftir áliti og umsögnum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, sem og frá tilgreindum hagsmunaaðilum, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Þegar umsagna var leitað hafði reglugerð nr. 401/2012 þegar tekið gildi. Þá kröfu verður að gera til stjórnvalda almennt að þau þekki lög og reglugerðir á því sviði sem þau starfa og veita umsagnir á. Verður því ekki séð að Fiskistofu hafi borið sérstaklega að benda á skil reglugerða í umsagnarbeiðni sinni. Eins skal á það bent að beiðninni fylgdu gögn sem glögglega sýndu staðsetningu fyrirhugaðs eldis og gátu álitsgjafar fjallað um fjarlægðir á milli eldissvæða, sem þeir álitsgjafar, sem tilgreindir eru sem samráðsaðilar í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um fiskeldi, og gerðu. Þannig bera umsagnir bæði Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar þess merki að afstaða var tekin til fjarlægðar milli eldisstöðva. Tekur rekstrarleyfið ekki til þess eldissvæðis sem samkvæmt umsókn var fyrirhugað í um 900 m fjarlægð frá eldi kæranda í Fossfirði, en Hafrannsóknastofnun taldi það of nálægt eldi hans. Fór þannig fram fullnægjandi samráð í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Nýtti Fiskistofa sér heimild í áðurnefndu reglugerðarákvæði til að víkja frá því fjarlægðarviðmiði sem þar er sett og heimilaði 4,2 km fjarlægð í stað þeirra 5 km sem miðað er við í ákvæðinu. Líkt og áður greinir ber Fiskistofu að afla lögbundinna umsagna og hafa ákveðið samráð við veitingu rekstrarleyfis, m.a. í þeim tilgangi að geta lagt mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti fyrirhugaðs reksturs. Á það ekki síst við þegar Fiskistofa ákveður að víkja frá tilgreindum fjarlægðarmörkum. Fiskistofa er hins vegar ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls samkvæmt fyrirmælum í lögum og reglugerðum heldur leggur hún sjálfstætt mat á þá þætti rekstursins sem áður eru nefndir. Í þessu sambandi er rétt að benda á að með umsókn um rekstrarleyfi fylgdi þegar útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar ásamt greinargerð, auk þess sem matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir. Í nefndum gögnum kemur fram að matsskylduákvörðun hafi m.a. byggst á niðurstöðum straummælinga sem gerðar hafi verið árin 2001 og 2011 í nálægð við eldissvæðin sem þá hafi verið fyrirhuguð og að Skipulagsstofnun teldi ekki að endurupptaka starfsleyfis og breyting á staðsetningu eldisins breytti þeim forsendum. Þá leitaði Fiskistofa sérstaklega eftir áliti Matvælastofnunar vegna ágreinings um staðsetningu og er í því umfjöllun um sýkingarhættu og dreifingu laxalúsar, sem og um lágmarkshvíld eldissvæða út frá smiti af völdum hennar. Verður því ekki annað séð en að fyrir Fiskistofu hafi legið nægilegar upplýsingar til að leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti tengda hinu umdeilda rekstrarleyfi, eins og henni bar að gera skv. þágildandi 9. gr. laga um fiskeldi, og að það mat hafi farið fram með sjálfstæðum og málefnalegum hætti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa Arnarlaxi ehf. vegna framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Geir Oddsson

99/2011 Vatnsendi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2011, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011 um að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda. Afgreiðsla skipulagsnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. nóvember 2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. desember 2011, er barst nefndinni 6. s.m., kærir Sigurbjörn Þorbergsson hrl., f.h. Þ, Vatnsenda í Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011 að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda. Er þess krafist að ákvörðun skipulagsnefndar um að hafna að færa spildu við Vatnsendablett 25a inn á skipulag verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 28. mars 2008, er þar farið fram á það ,,að setja spilduna inn á skipulag svo unnt sé að fá landnúmer á hana og stofna hana í þinglýsingabókum“. Með úrskurði í máli nr. 42/2008, uppkveðnum 6. júlí 2010, vísaði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála frá kærumáli vegna synjunar skipulagsnefndar Kópavogs á fyrrgreindu erindi, þar sem það væri eingöngu á færi sveitarstjórnar að taka slíka ákvörðun.

Samkvæmt deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní 2001, liggur umrædd spilda á milli lóðanna Vatnsendabletts 23 og Vatnsendabletts 27. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru nefndar lóðir nú merktar nr. 4 og 6 við Fornahvarf.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. nóvember 2011 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Ítrekaði nefndin fyrri afgreiðslu sína frá árinu 2008, þar sem hafnað hefði verið að færa spildu milli Fornahvarfs 4 og 6 inn á deiliskipulag Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, frá árinu 2001. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu skipulagsnefndar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2011 hafi verið samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Vatnsendabletts 134 í samræmi við 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Af því tilefni hafi meirihluti nefndarinnar látið bóka að tillagan væri lögð fram til að efna eignarnámssátt við kæranda frá árinu 2007 sem fyrri meirihluti hefði gert. Jafnframt hafi verið tekið fram að tillagan væri í mikilli andstöðu við stefnu núverandi meirihluta og með óbragð í munni vísuðu þeir allri ábyrgð þess gjörnings á fyrri meirihluta og vildu leggja áherslu á að tryggt yrði aðgengi að opnu svæði fyrir almenning eins og getið væri um í aðalskipulagi. Vegna nefndrar bókunar megi kærandi með réttu draga óhlutdrægni núverandi meirihluta skipulagsnefndar í efa þar sem framangreint orðfæri gefi til kynna neikvætt viðhorf í hans garð. Greindur meirihluti hafi því verið vanhæfur til að taka hina kærðu ákvörðun í máli þessu af ástæðum sem falli undir 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hvíli ekki skylda á kæranda til að kosta útivistarsvæði fyrir almenning á bújörð sinni.

Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins fyrir svæðið frá árinu 2001 skuli að jafnaði vera 50 m breitt belti meðfram Elliðavatni en slíkt stefnumið sé ekki án undantekninga, sem þýði að íbúðarhús geti legið nær vatni en 50 m. Engin lagastoð sé fyrir þeirri ákvörðun að banna lóðir innan 50 m frá bakka vatnsins á deiliskipulögðu svæði, en ákvæði 2. mgr. gr. 4.15.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 kveði einungis á um að gætt sé að því að ekki sé byggt nær vötnum utan þéttbýlis en 50 m. Þá vísi kærandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem báðum megin lóðar kæranda séu byggingarreitir nær vatni en 50 m. Með greindu deiliskipulagi hafi Vatnsendablettur 27 orðið að byggingarlóð u.þ.b. 10 m frá vatnsbakka á sama tíma og reglan um 50 m hafi verið sett fram. Megi ráða að orðalagið „að jafnaði“ sé sett inn vegna fyrrnefndrar lóðar en hún sé við hlið þeirrar lóðar sem hin kærða synjun taki til. Árið 2004 hafi svo verið veitt leyfi fyrir nýbyggingu á Vatnsendabletti 27. Engin málefnaleg rök séu fyrir því að synja um skipulag á lóð kæranda í ljósi þessa augljósa fordæmis. Þá vísi kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar sem áherslu verði að leggja á orðin „að jafnaði“, en ekki liggi annað fyrir en að bygging á fyrirhugaðri lóð nr. 25 við Vatnsendablett geti verið staðsett þannig að gegn fyrrgreindum skilmálum verði ekki brotið. Þá hafi rannsókn málsins verið áfátt og hafi skipulagsnefnd við afgreiðslu málsins látið ómálefnanleg sjónarmið ráða ferð.

————————————-

Bæjaryfirvöldum Kópavogs var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna kærumáls þessa en þær hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. Í fyrirliggjandi bókun skipulagsnefndar frá 15. nóvember 2011, er bæjarstjórn staðfesti hinn 22. s.m., eru þau rök færð fyrir hinni kærðu ákvörðun að umrædd spila sé skilgreind í aðalskipulagi sem opið óbyggt svæði og sé innan 50 m helgunarsvæðis Elliðavatns. Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé miðað við að ekki verði heimilaðar nýjar lóðir sem séu að jafnaði nær vatnsbakka Elliðavatns en 50 m.

Niðurstaða: Í hinni kærðu ákvörðun fólst synjun á umsókn kæranda um stofnun lóðar með breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga. Hið sama á við um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Skipulagsnefndir fara með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga.

Í samræmi við greind ákvæði skipulagslaga staðfesti bæjarstjórn hina kærðu afgreiðslu skipulagsnefndar og getur meint vanhæfi nefndarmanna í skipulagsnefnd vegna bókunar á fundi hinn 23. ágúst 2011 ekki haft áhrif á gildi ákvörðunar bæjarstjórnar, sem var lokaákvörðun í málinu.

Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. Svæðisskipulag sé rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Þá segir í 5. mgr. 32. gr. nefndra laga að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa. Kemur fram í 2. mgr. 28. gr. laganna að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, er hin umdeilda spilda á skilgreindu óbyggðu svæði en beggja vegna hennar eru lóðir á merktu íbúðarsvæði. Samkvæmt gr. 4.13.1 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er með óbyggðum svæðum átt við opin svæði til almennrar útiveru eða takmarkaðrar umferðar fólks og þar sem ekki sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð, þ.m.t. skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum og landgræðslusvæði. Umrædd beiðni kæranda um stofnun lóðar á greindri spildu fól því í sér ósk um breytingu á landnotkun. Það var því ekki á færi bæjarstjórnar að verða við erindi kæranda án undangenginnar breytingar á aðalskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsnefndar Kópavogs frá 15. nóvember 2011, sem bæjarstjórn staðfesti 22. s.m, um að synja umsókn um að stofnuð verði ný byggingarlóð nr. 25a við Vatnsendablett úr landi Vatnsenda.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

76/2015 Hringrás

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs og um að hafna beiðni kæranda um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu skv. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, þar sem stofnuninni hafi ekki borist magntölur úrgangs frá kæranda. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á. Jafnframt er kærð sú ákvörðun Umhverfisstofnunar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. september 2015, að hafna því að veita kæranda heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði felldar úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Athugasemdir Umhverfisstofnunar vegna stöðvunarkröfu kæranda bárust nefndinni 22. september sl.

Málsatvik og rök: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Skv. 1. mgr. 19. gr. laganna skulu rekstraraðilar fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Skýrslurnar skulu gerðar aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr með afhendingu upplýsinganna eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddra skýrslna myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Eftir frekari samskipti kærða og Umhverfisstofnunar var kæranda veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Var veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á.

Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi kærði framangreindar ákvarðanir með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. s.m., eins og að framan greinir.

Kærandi telur mikla hagsmuni í húfi fyrir sig, verði þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin leggi til. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms hans. Umhverfisstofnun beri að meta hagsmuni þá sem í húfi séu við beitingu 19. gr. laga nr. 55/2003 og ganga ekki lengra en þörf krefji. Birting umræddra gagna geti skaðað hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði og fortakslaus beiting ákvæðisins gangi gegn grundvallarreglum íslensks réttar um atvinnufrelsi, jafnræði og meðalhóf. Það þjóni ekki hagsmunum almennings eða umhverfis að birta nákvæmar viðskiptaupplýsingar fyrirtækisins og Umhverfisstofnun geti ákveðið að túlka skyldu skv. 19. gr. með vægari hætti, t.d. með því að fallast á tillögu kæranda um það hvernig upplýsingarnar verði birtar.

Umhverfisstofnun kveðst leggjast gegn frestun á réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana. Stofnunin hafi þá skyldu að safna viðkomandi tölfræðiupplýsingum og senda áfram samkvæmt skyldum Íslands gagnvart samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Frekari töf á því en þegar sé orðin myndi leiða til þess að upplýsingarnar yrðu ófullnægjandi.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. ágúst 2015 fólst í því að veita kæranda áminningu og gefa honum tilhlýðilegan frest til úrbóta skv. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Hafði ákvörðunin þann tvíþætta tilgang að veita formlega viðvörun og gefa færi á úrbótum. Áhrif ákvörðunarinnar eru einkum þau að minna þarf til að beita beinskeyttari þvingunarúrræðum í kjölfar hennar. Þannig er ákvörðunin nauðsynlegur undanfari þess að dagsektum verði beitt skv. 3. mgr. 66. gr. sömu laga.

Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Beiting beinskeyttari þvingunarúrræða er þó ávallt háð því að ný stjórnvaldsákvörðun þess efnis sé tekin og væri slík ákvörðun þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þá gæti kærandi, ef til kæmi, krafist frestunar réttaráhrifa slíkrar ákvörðunar. Í ljósi þess liggur ekki fyrir að nauðsyn knýi á um, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fresta réttaráhrifum áminningarinnar. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa ákvörðunar Umhverfisstofnunar, um að veita kæranda áminningu, því hafnað.

Kærandi krefst jafnframt frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar að hafna beiðni um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hinsvegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með vísan til þess sem rakið var hér að framan, um skilyrði frestunar réttaráhrifa skv. 5. gr. laga nr. 130/2011, verður sú ákvörðun ein og sér að neita að taka við hinum umdeildu upplýsingum á því formi sem kærandi telur ásættanlegt ekki talin hafa þá réttarverkan að tilefni þyki vera til að fallast á kröfu um að fresta réttaráhrifum hennar. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa nefndrar ákvörðunar því einnig hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Jafnframt er hafnað kröfu kæranda um að hafna beiðni kæranda um að honum sé heimilt að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. 

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Ásgeir Magnússon

85/2009 Austurstræti

Með
Ár 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2009, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 á tillögu byggingarfulltrúa um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Björgvin Halldór Björnsson hdl., f.h. fyrirsvarsmanns Hressingarskálans ehf., þá samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 að samkomutjald sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóðinni Austurstræti 20 í Reykjavík verði fjarlægt á kostnað eiganda, hafi hann ekki fjarlægt það innan tilskilins frests.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar, en ella að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þá gerir kærandi kröfu um að úrskurðarnefndin úrskurði um málskostnað honum til handa. Með úrskurði uppkveðnum 18. desember 2009 var kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar hafnað með tilliti til mögulegra almannahagsmuna.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Kærandi máls þessa reisti, án heimildar skipulags- og byggingaryfirvalda, samkomutjald í bakgarði lóðarinnar Austurstræti 20, þar sem rekinn er veitingastaður. Af því tilefni ritaði byggingarfulltrúi kæranda bréf, dags. 2. nóvember 2009, þar sem honum var veittur fimm daga frestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja tjaldið. Kærandi varð ekki við tilmælunum og með bréfi, dags. 27. sama mánaðar, mótmælti hann framgöngu borgaryfirvalda með vísan til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Sama dag ritaði embætti byggingarfulltrúa kæranda bréf þar sem röksemdum hans var hafnað og m.a. vísað til þess að um óleyfisframkvæmdir væri að ræða. Þá sagði einnig að embættið myndi leggja til við skipulagsráð að frestur yrði veittur til 4. desember 2009 til að fjarlægja tjaldið og ef ekki yrði orðið við því myndi embættið fjarlægja það án frekari fyrirvara á kostnað kæranda, með vísan til ákvæða gr. 209 og gr. 210 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Á fundi skipulagsráðs 2. desember 2009 var eftirfarandi fært til bókar: „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 2. nóv. 2009, vegna samkomutjalds í bakgarði Hressingarskálans á lóð nr. 20 við Austurstræti. Jafnframt er lagt fram bréf lögfræðinga Hressingarskálans, dags. 27. nóv., bréf lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 27. nóv., og tölvubréf, dags. 27. og 30. nóv. 2009. Bréf lögfræði- og stjórnsýslu samþykkt.“ Á fundi borgarráðs 10. desember 2009 var af sama tilefni eftirfarandi bókað: „Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 2. s.m., þar sem lagt er til að samkomutjald, sem sett hefur verið upp í óleyfi á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, verði fjarlægt á kostnað eiganda, fjarlægi hann það ekki sjálfur innan tilskilins frests. Samþykkt.“

Kæranda var tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. desember 2009, og honum veittur frestur til 14. s.m. til þess að fjarlægja umrætt tjald. Var í því bréfi einnig vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. desember 2009, en þar kom fram að auk þess að framkvæmdin hefði verið gerð í óleyfi væri að mati forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins „… umtalsverð hætta fyrir hendi á öryggi gesta veitingastaðarins“. Skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið tekið mið af markmiðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem sett séu fram í 1. mgr. 1. gr. laganna, auk þess sem ýmsar meginreglur stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið virtar við meðferð málsins.

Lögmætisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin í máli þessu. Ekki sé til að dreifa skýrri lagaheimild fyrir hinni íþyngjandi ákvörðun sem um sé deilt og óljóst sé hvort og þá hvers konar leyfi þurfi til að reisa samkomutjald í bakgarði, eins og hér sé um að ræða. Borgaryfirvöld hafi vísað til reglugerðarákvæða, annars vegar til stuðnings því að tjaldið sé byggingarleyfisskylt en hins vegar til stuðnings þeirri ályktun að það sé háð stöðuleyfi. Ákvörðunin snerti atvinnustarfsemi kæranda en atvinnufrelsi manna sé stjórnarskrárvarið og takmarkanir á því verði að styðjast við skýra lagaheimild sem byggi á almannahagsmunum.

Málið hafi ekki verið rannsakað með viðhlítandi hætti. Ekki hafi verið kannað úr hvaða efni tjaldið sé og hafi því ekkert legið fyrir um hvort eldhætta hafi stafað af því. Kærandi hafi ítrekað bent á að vottorð frá framleiðanda lægi fyrir, sem staðfesti að tjaldið uppfyllti kröfur Evrópusambandsins, en borgaryfirvöld hafi aldrei kallað eftir því, og hafi því rannsókn máls skv. 10. gr. stjórnsýslulaga ekki verið fullnægt.

Þá hafi jafnræðis- og meðalhófsreglu ekki verið gætt við meðferð málsins. Ekki hafi verið sýnt fram á að tjaldinu fylgdi eldhætta og látið hjá líða að leita umsagnar Brunamálastofnunar í því sambandi, skv. b-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 73/2000. Samskonar tjöld og hér um ræði séu notuð um land allt og sé því farið gegn jafnræðisreglu þegar kæranda sé gert að fjarlægja umrætt tjald á meðan aðrir fái óáreittir að nota sín tjöld. Þá hefði verið hægt að ná meintum markmiðum borgaryfirvalda með því að breyta tjaldinu á þann veg að fjarlægja einn eða fleiri veggi þess þannig að eftir stæði þak sem veitti skjól fyrir úrkomu. Að þessu hafi ekki verið hugað í málinu.

Grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið óljós og hafi það gert kæranda erfitt um vik að nýta andmælarétt sinn. Mat forvarnasviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að umræddu tjaldi fylgdi hætta fyrir öryggi gesta hafi kærandi ekki séð eða fengið að tjá sig um. Þá hafi framkvæmd stjórnsýsluvalds í máli þessu verið ómálefnaleg að mati kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að umrætt tjald hafi verið reist án nokkurra leyfa, en telja verði það byggingarleyfis- eða stöðuleyfisskylt skv. 11. gr. eða 71. gr. byggingarreglugerðar nr. 440/1998, m.a. þegar litið sé til grenndarsjónarmiða og að það sé reist til ótiltekins tíma. Ekki sé gert ráð fyrir tjaldinu á samþykktum uppdráttum og ætla megi að tilgangur uppsetningar þess sé sá að stækka veitingastaðinn með tilheyrandi auknum fjölda gesta. Fyrir hafi legið það mat forvarnasviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins að tjaldið skapaði aðstæður sem haft gætu umtalsverð áhrif á öryggi fólks í eldsvoða á staðnum. Væri því eindregin ósk slökkviliðsstjóra til embættis byggingarfulltrúa að tjaldið yrði fjarlægt af staðnum. Af þessum sökum hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja tjaldið án ástæðulauss dráttar.

Að öllu leyti hafi verið farið að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins og heimilt hafi verið á grundvelli 209. gr. byggingarreglugerðar að fara fram á það við kæranda að tjaldið yrði fjarlægt innan tiltekins frests en ella að það yrði fjarlægt á kostnað kæranda, í ljósi þeirrar hættu sem af tjaldinu stafaði samkvæmt mati eldvarnareftirlitsins. Hin kærða ákvörðun sé ekki verulega íþyngjandi gagnvart kæranda þegar litið sé til þess að auðvelt sé að taka umætt tjald niður og reisa það að nýju og hafa verði í huga að með ákvörðuninni hafi hættuástandi verið afstýrt. Því sé andmælt að gengið hafi verið á stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi kæranda. Í lögum séu atvinnufrelsi manna settar skorður, m.a. með tilliti til öryggissjónarmiða, og kröfur séu gerðar um að leyfis sé aflað fyrir atvinnustarfsemi, svo sem rekstrar- og starfsleyfis.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Mannvirkjastofnunar um þá hættu sem stafa kynni af samkomutjaldi því sem reist hafði verið á lóð Hressingarskálans að Austurstræti 20, en umsögn stofnunarinnar hefur ekki borist.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem borgarráð staðfesti 10. desember 2009, hafði nokkurn aðdraganda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fóru fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á vettvang 22. og 23. október s.á. vegna umdeilds samkomutjalds. Þá fór skilmálafulltrúi hjá embætti byggingarfulltrúa á staðinn samkvæmt bréfi hans, dags. 28. s.m. Kemur þar fram að samkomutjald hafi verið reist án leyfis. Haft hafi verið samband við eiganda staðarins, sem hafi ekki talið tjaldið leyfisskylt. Er aðstæðum svo lýst að um einn metri sé frá tjaldinu á þrjá vegu að næstu húsum og staðsetning þess hindri neyðarútgöngu frá veitingastaðnum. Hafi eigandi verið beðinn um „að ganga frá sínum málum“. Loks liggur fyrir tölvubréf sviðsstjóra forvarnasviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 3. desember 2009 til byggingarfulltrúa þar sem greint er frá því að hann hafi ásamt eldvarnareftirlitsmanni skoðað aðstæður að Austurstræti 20. Þar kemur eftirfarandi fram:

„Þann 22. október sl. fór undirritaður ásamt eldvarnareftirlitsmanni að skoða aðstæður í Austurstræti 20. Umræddu tjaldi var þannig fyrir komið að það liggur alveg upp að vegg á bakhluta Hressingarskálans og u.þ.b. fjóra metra frá vegg þess hluta er liggur að Austurstræti. Við þetta breytast flóttaleiðir frá veitingastaðnum á þann hátt að þar sem áður var farið beint út í garð er nú farið í gegnum tjaldið. Þetta lengir flóttaleið til öruggs staðar undir beru lofti og skerðir öryggi hennar umtalsvert. Þá er leiðin torfarin þar sem frá bakhluta húsnæðisins þarf að fara í gegnum tvöfalda lokun tjalddúks sem haldið er með frönskum rennilásum til að komast út í tjaldið. Einnig liggur flóttaleið úr tjaldinu að stóru tré sem heftir leið og veldur augljósri slysahættu ef hópur fólks þarf að flýja þarna um. Verði eldur laus í húsnæði Hressingarskálans geta flóttamerkingar í tjaldi einnig valdið þeim misskilningi að fólk flýji á öðrum stað aftur inn í húsið sem er að brenna og er það ótækt. Tjaldið sjálft er um 150 fm. að stærð og samkvæmt reiknireglu Brunamálastofnunar má ætla að þar geti verið á þriðja hundrað manns sem er veruleg aukning miðað við samþykktan gestafjölda á staðnum. Þá hefur Brunamálastofnun staðfest að ekki liggi fyrir vottun stofnunarinnar á dúknum. Af þessum sökum er það mat slökkviliðsstjóra að þessar aðstæður geti haft umtalsverð áhrif á öryggi fólks í eldsvoða á staðnum. Þá gerir rekstrarleyfi staðarins ekki ráð fyrir þessu tjaldi og það reist án nokkurra leyfa. Það er því eindregin ósk slökkviliðsstjóra að embætti byggingarfulltrúa hlutist til um að tjaldið verði fjarlægt hið fyrsta.“

Fyrirmæli byggingarfulltrúa til kæranda, um að greint tjald skyldi fjarlægt, voru fyrst sett fram í bréfi hans, dags. 2. nóvember 2009, þar sem veittur var fimm daga frestur til þess að framkvæma verkið, en ella yrði lagt til við skipulagsráð að lagðar yrðu dagsektir á kæranda. Var honum gefinn sjö daga frestur til þess að tjá sig um þá fyrirætlan. Í bréfinu var sérstaklega áréttað að embættið teldi brunahættu stafa af tjaldinu og að það hindraði neyðarútgöngu frá veitingastaðnum. Í málinu liggja fyrir tölvupóstar og bréf embættis byggingarfulltrúa og lögmanns kæranda í kjölfar fyrrgreinds bréfs byggingarfulltrúa þar sem fram koma skoðanaskipti um lögmæti umdeildrar ákvörðunar. Þá tilkynnti byggingarfulltrúi kæranda í bréfi, dags. 3. desember 2009, að skipulagsráð hefði samþykkt tillögu hans um frest til 4. s.m. til að fjarlægja tjaldið, en að öðrum kosti yrði það fjarlægt af borgaryfirvöldum. Loks var kæranda tilkynnt með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. s.m., að borgarráð hefði staðfest nefnda ákvörðun skipulagsráðs og jafnframt tilkynnt að borgaryfirvöld myndu fjarlægja tjaldið án frekari viðvörunar hefði það ekki verið fjarlægt í dagslok 14. s.m. Samkomutjaldið var síðan tekið niður af starfsmönnum byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. í kjölfar bráðabirgðaúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þar sem hafnað var kröfu um stöðvun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ljósi framangreinds verður ekki annað ráðið en að málið hafi verið nægilega rannsakað og að kærandi hafi komið á framfæri viðhorfum sínum og andmælum áður en umdeild ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin. Þá lágu að baki ákvörðuninni lögmæt sjónarmið, sem studdust m.a. við álit sérfróðra aðila um eldhættu og hindrun flóttaleiðar ef eldsvoði yrði á viðkomandi veitingastað.

Hvað sem líður álitaefni um leyfisskyldu margnefnds samkomutjalds samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 höfðu borgaryfirvöld ótvíræða heimild í gr. 61.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 til að taka slíka ákvörðun sem hér um ræðir. Þar er m.a. kveðið á um að sé ásigkomulagi, viðhaldi eða frágangi húss eða annars mannvirkis eða lóðar þannig háttað að hætta geti stafað af og eigandi eða umráðamaður lóðar sinni ekki áskorun byggingarfulltrúa eða slökkviliðsstjóra um úrbætur geti sveitarstjórn ákveðið dagsektir skv. gr. 210.1 í reglugerðinni þar til úr hefur verið bætt eða látið fjarlægja mannvirki eða gera nauðsynlegar úrbætur á lóð skv. gr. 210.2 á kostnað eiganda eða umráðamanns. Gefa skal þó eins mánaðar frest til að sinna fyrirmælum um úrbætur áður en verk verður unnið á kostnað eiganda eða umráðamanns nema um bráða hættu sé að ræða. Rúmur einn og hálfur mánuður leið frá því að fyrirmæli byggingarfulltrúa um niðurrif samkomutjalds kæranda voru tilkynnt þar til borgaryfirvöld fjarlægðu tjaldið og verður því ekki, eins og hér stendur á, tekin afstaða til þess hvort um hafi verið að ræða bráða hættu.

Fallast má á með kæranda að vanda hefði mátt betur undirbúning ákvörðunarinnar, svo sem hvað varðar tilvísun til laga og reglugerðarákvæða, og kanna hefði mátt hvort unnt hefði verið að ná settum markmiðum borgaryfirvalda með öðrum og vægari hætti en raun varð á. Til hins ber þó að líta að borgaryfirvöld höfðu rökstudda ástæðu til að ætla að tilvist samkomutjaldsins á baklóð veitingastaðarins væri hindrun á flóttaleið og skapaði því bráða hættu yrði eldur laus á veitingastaðnum, og að auðvelt væri að reisa tjaldið að nýju eða hluta þess ef til kæmi.

Að öllu framangreindu virtu þykja ekki þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að leitt geti til ógildingar hennar.

Í tilefni af kröfu kæranda um málskostnað skal tekið fram að úrskurðarnefndin hefur ekki heimild að lögum til að ákvarða aðilum málskostnað. Verður því ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 10. desember 2009 um að samkomutjald, sem sett hafi verið upp í óleyfi á lóðinni Austurstræti 20 í Reykjavík, verði fjarlægt á kostnað eiganda, hafi hann ekki fjarlægt það innan tilskilins frests.

_______________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

49/2009 Fljótshamrar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2009, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 um að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. júlí 2009, er barst nefndinni 7. s.m., kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. eigenda Fljótshamra í Biskupstungum, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 16. júní og 30. september 2015.

Málavextir: Hinn 28. nóvember 2006 samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar breytingu á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum frá árinu 1999 sem fól í sér að tvær lóðir voru sameinaðar í eina lóð auk þess sem bætt var við lóðina svæði, þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir vegi að lóðinni Fljótshömrum. Gerði deiliskipulagsbreytingin ráð fyrir að sú aðkoma að Fljótshömrum yrði felld niður. Deiliskipulagsbreytingin var hvorki auglýst né grenndarkynnt. Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og tók hún gildi með auglýsingu sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Með bréfi, dags. 6. september 2007, fóru kærendur fram á að ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu yrði endurupptekin og afturkölluð en með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 21. nóvember 2008, var þeim tilkynnt að beiðninni væri hafnað. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 30. janúar 2008 var tekin fyrir tillaga um endurskoðun deiliskipulags fyrir austurhluta Reykholts. Samkvæmt fundargerð var um að ræða heildarendurskoðun á deiliskipulagi þess svæðis, en þar væru fyrir í gildi nokkrar deiliskipulagsáætlanir sem hefðu sætt nokkrum breytingum og hefðu sumar þeirra breytinga aldrei hlotið endanlegt gildi. Gert væri ráð fyrir að við gildistöku þessa skipulags féllu eldri deiliskipulagsáætlanir úr gildi. Tillagan væri í samræmi við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem sveitarstjórn hefði samþykkt að auglýsa. Á fundinum var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu 5. febrúar 2008.

Tillagan var auglýst og kynnt frá 26. maí til 23. júní 2008 með athugasemdafresti til 7. júlí s.á. Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum. Áðurnefnd aðalskipulagsbreyting tók gildi 26. maí 2009 og á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 29. s.m. var deiliskipulagstillagan lögð fram á ný með nánar tilgreindum breytingum. Breytingarnar fólu í sér að landnotkun nokkurra lóða var breytt, afmörkun og stærð nokkurra lóða var lagfærð til samræmis við nákvæmari gögn og deiliskipulagssvæðið var stækkað. Var tillagan samþykkt með vísan til 25. gr. skipulags- og byggingarlaga ásamt umsögn um innsendar athugasemdir. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 2. júní 2009 var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 29. maí s.á. staðfest. Tók endurskoðað deiliskipulag gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. ágúst 2009. 

Málsrök kærenda: Í kæru er vísað til fyrri kæru sömu kærenda, dags. 22. desember 2008, í máli nr. 117/2008 hjá úrskurðarnefndinni sem og til þeirra sjónarmiða er fram komi í bréfi kærenda frá 7. júlí 2008 til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærendur mótmæli þeirri málsmeðferð sem málið í heild hafi fengið. Með ólíkindum sé að Bláskógabyggð skuli hafa ákveðið að auglýsa, gegn vilja kærenda og þrátt fyrir að upplýsingar um málavexti hafi legið fyrir, tillögu að deiliskipulagi sem geri ráð fyrir að aðkoma að lóð kærenda, sem þeir eigi allan rétt á og hafi keypt með lóðinni, verði felld niður. Kærendur mótmæli því og krefjist þess að aðkoman verði sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.

Umrædd breyting á deiliskipulagi sé ólögmæt. Í fyrsta lagi sé framsetning tillögunnar ekki í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eða skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Þannig sé greinargerð skipulagsins óskýr um markmið og tilgang tillögunnar, óljóst sé hverju sé verið að breyta og ekkert komi fram um hvaða skilmálar séu gildandi. Þá sé einnig ólögmætt að breyta svo nýlegu skipulagi með þeim hætti sem hér sé gert, þar sem hagsmunum eins sé hyglað á kostnað annarra. Almenningur verði að geta treyst því að skipulagsáætlunum verði ekki breytt nema almannahagsmunir krefjist þess og lögmæt og málefnaleg sjónarmið liggi að baki. Nauðsynlegt sé að því verði svarað hvaða lögmætu og málefnalegu sjónarmið búi að baki þeirri breytingu að fella niður aðkomu að lóð kærenda og hvaða aðrir hagsmunir búi þar að baki.

Deiliskipulagstillagan byggist á ólögmætri deiliskipulagsbreytingu að því er varði aðkomu að lóð kærenda. Þá sé jafnframt bent á að samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé óheimilt að breyta deiliskipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Kærendur árétti að þrátt fyrir að aðkoma að lóð þeirra sé nú um annað land, sem sé jafnframt í þeirra eigu, veiti það Bláskógabyggð ekki rétt til að fella niður umferðarrétt sem kærendur eigi og vilji nýta. Verði umferðarrétturinn felldur niður muni það leiða til tjóns fyrir kærendur á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með niðurfellingu réttinda sem þeir eigi og hafi greitt fyrir. Í öðru lagi geti kærendur þá ekki annað en fest land undir aðkomu yfir annað land í þeirra eigu, en það muni draga úr verðmæti þess og hugsanlega koma í veg fyrir að hægt verði að selja það. Þá sé núverandi vegur að lóð kærenda þungfær á vetrum.

Málsrök Bláskógabyggðar: Bláskógabyggð bendir á að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni ellegar að hafna beri kröfu kærenda. Kæran sé vanreifuð, en í fyrirsögn hennar sé tilgreint að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 þrátt fyrir að síðar í kærunni komi fram að kærð sé samþykkt á tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð. Hið endurskoðaða deiliskipulag hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 2. júní 2009. Engin leið sé að átta sig á því hvaða ákvörðun sé verið að kæra. Þá sé í kærunni vísað um rökstuðning til annarrar kæru sömu aðila til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. desember 2008, en sú kæra hafi lotið að synjun á beiðni um endurupptöku á deiliskipulagsbreytingu sem tekið hafi gildi 7. maí 2007 og ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 um að gefa út að nýju byggingarleyfi vegna byggingar húss að Fljótsholti. Rökstuðningur að baki þeirri kæru geti ekki með nokkru móti átt við í máli þessu. Úrskurðarnefndin hafi ekki aflað frekari upplýsinga frá kærendum vegna  þessa, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem kærendur hafi ekki sent inn frekari rökstuðning af sinni hálfu. Þá sé engin kröfugerð sett fram af hálfu kærenda.

Vísað sé til þess að hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 11. nóvember 2008 hafi falið í sér samþykki fyrir breytingu á aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012 fyrir Reykholt. Ekki sé unnt að skjóta slíkri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. þágildandi 5. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga. Telji úrskurðarnefndin að kæran taki til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 2. júní 2009 sé á það bent að sú ákvörðun hafi ekki verið kæranleg fyrr en frá og með birtingu auglýsingar um gildistöku nýs deiliskipulags í Bláskógabyggð 17. ágúst 2009. Kærufrestur þeirrar ákvörðunar hafi liðið án þess að kæra hafi borist innan lögboðins kærufrests. Að lokum sé skírskotað til þess að meðferð málsins hafi dregist úr hömlu. Í því sambandi sé vísað til þágildandi 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sem og 7. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ótækt sé að fjalla um efnishlið málsins svo löngu eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Telji úrskurðarnefndin að kæran taki til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 2. júní 2009, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagsáætlunum fyrir austurhluta Reykholts, sé byggt á því að ákvörðunin hafi verið fullkomlega lögmæt og í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Kærendur geri ekki nokkra grein fyrir því í kæru sinni með hvaða hætti fyrrgreind ákvörðun sé andstæð lögum. Því sé engin leið fyrir Bláskógabyggð að átta sig á grundvelli kærunnar.

Vegna tilvísunar kærenda til eldri kæru sinnar, dags. 22. desember 2008, og fyrri athugasemda vísi Bláskógabyggð til greinargerðar sinnar til úrskurðarnefndarinnar í því kærumáli, dags. 30. mars 2009.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

Ekki verður fallist á kröfu Bláskógabyggðar um frávísun málsins. Málatilbúnaður kærenda í kæru ber með sér hver hin kærða ákvörðun er, auk þess sem ljóst er að kæran lá fyrir hjá kærustjórnvaldi þegar kærufrestur byrjaði að líða. Þá geta tafir á afgreiðslu málsins ekki leitt til frávísunar þess. 

Eins og áður var rakið var gerð breyting á deiliskipulagi Reykholts í Biskupstungum á árinu 2007, en með þeirri breytingu var vegur að lóðinni Fljótshömrum frá Lyngbraut, sem skipulagið hafði áður sýnt, fjarlægður af deiliskipulagsuppdrætti. Hið kærða deiliskipulag er óbreytt að þessu leyti og snúast athugasemdir kærenda í máli þessu fyrst og fremst um það að áformuð aðkoma að lóð þeirra sé ekki á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti.

Deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum var samþykkt í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps 29. júní 1999, en samkvæmt þágildandi 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skyldi birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda. Ekki verður hins vegar séð að auglýsing um samþykkt deiliskipulags Reykholts í Biskupstungum frá 1999 hafi verið birt í samræmi við framangreint lagaákvæði. Tók skipulagið því aldrei gildi. Auglýsing um breytingu á því skipulagi, sem fól í sér umdeilda breytingu á aðkomu að lóð kærenda, var hins vegar birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2007. Kærendur kröfðust endurupptöku og afturköllunar deiliskipulagsbreytingarinnar og kærðu höfnun þeirrar kröfu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og fyrr er rakið. Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag í máli nr. 117/2008 vísaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þeirri kröfu kærenda frá með þeim rökum að ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun í tilefni af greindu erindi kærenda.

Áður en hið kærða deiliskipulag var samþykkt í sveitarstjórn var gerð breyting á Aðalskipulagi Biskupstungnahrepps 2000-2012, sem var staðfest af umhverfisráðherra 8. maí 2009. Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Var þar meðal annars gerð sú breyting að landnotkun athafnalóðar við Vegholt 2 var breytt í opið svæði til sérstakra nota, þar sem gert var ráð fyrir reiðhöll í tengslum við hesthúsabyggð á svæðinu. Í hinu umdeilda deiliskipulagi er lóðin þó merkt sem athafnalóð. Þá er jafnframt ósamræmi á milli deiliskipulags og aðalskipulags hvað varðar landnotkun á jaðri suðvestanverðra lóðamarka lóðanna Vegholts 19, Vegholts 21 og Vegholts 23, meðal annars á milli Vegholts 19 og Brautarhóls, en þar gerir deiliskipulagið ráð fyrir opnu svæði sem ekki er sýnt á aðalskipulagsuppdrætti með áorðnum breytingum. Að lokum er á deiliskipulagsuppdrættinum gert ráð fyrir um 12 ha óbreyttu svæði suðvestan við Skólaveg frá „samþykktu deiliskipulagi“. Verður að telja að þar sé átt við deiliskipulag Reykholts í Biskupstungum frá 1999, með síðari breytingum. Svo sem að framan greinir tók það deiliskipulag aldrei gildi. Það að auki verður ekki séð að breytingar sem gerðar voru á því deiliskipulagi geti komið í stað skipulagsins sjálfs hvað varðar umrætt svæði nema að litlu leyti. Þá er tekið fram á staðfestum uppdrætti hins kærða deiliskipulags að gildandi deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim fyrir svæðið falli úr gildi með hinu endurskoðaða deiliskipulagi. Hvorki forsendur né skipulagsskilmálar eldri skipulagsáætlana fyrir svæðið eru færðir inn á uppdrátt eða í skilmála hins nýja deiliskipulags. Af því leiðir að upplýsingar um svæðið skortir í hið kærða deiliskipulag, sbr. m.a. gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Samkvæmt framansögðu er framsetning deiliskipulagsins ekki í samræmi við skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þá er misræmi milli þess og gildandi aðalskipulags svæðisins og brýtur það í bága við ákvæði 7. mgr. 9. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Að öllu framangreindu virtu er hið kærða deiliskipulag haldið slíkum annmörkum að fallast verður á kröfu um ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. júní 2009 um að samþykkja tillögu að endurskoðuðu deiliskipulagi Reykholts í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Hildigunnur Haraldsdóttir

86/2013 Brekkutún

Með
Árið 2015, mánudaginn 26. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 86/2013, kæru á þeirri ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kærir Árni Friðriksson arkitekt, f.h. T, Brekkutúni 13, Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs um viðbyggingu við Brekkutún 13. Skilja verður málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. júlí 2013 um að hafna því að veita megi byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur, og að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. ágúst 2014.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 26. febrúar 2013, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir sólskála á vesturhlið íbúðarhússins við Brekkutún 13, stækkun hússins á þremur öðrum stöðum og byggingu glerþaks ofan á viðbætur. Heildarstækkun yrði 36,1 m2 og myndi nýtingarhlutfall hækka úr 0,52 í 0,6 skv. uppdráttum, dags. 19. febrúar 2013. Byggingar-fulltrúi vísaði erindinu til skipulagsdeildar til ákvörðunar um grenndarkynningu.

Á fundi skipulagsnefndar 5. mars 2013 var umsóknin tekin fyrir og var samþykkt, með vísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna hana. Grenndarkynning fór fram frá 14. mars til 18. apríl 2013 og bárust athugasemdir frá lóðarhöfum að Brekkutúni 11. Á fundi skipulagsnefndar 7. maí s.á. var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar um innsendar athugasemdir við grenndarkynningu, dags. sama dag. Var skipulags- og byggingar¬deild falið að vinna áfram að málinu í samráði við málsaðila.

Á fundi skipulagsnefndar 23. júlí 2013 var erindi kæranda lagt fram að nýju í breyttri mynd, en sólskálinn hafði þá verið minnkaður um 50 cm á breiddina og lengdur um 1,25 m til norðurs. Áætluð heildarstækkun hússins var þá 37,9 m2 í stað 36,1 m2 samkvæmt fyrri tillögu. Skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundinum og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 25. júlí 2013. Var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 26. júlí 2013.

Kærendur skírskota til þess að synjunin byggist einvörðungu á mótmælum íbúa í Brekkutúni 11, en rökin sem mótmælin byggist á standist ekki skoðun. Ekki sé farið í bága við byggingarreglugerð, hvorki varðandi eldvarnarákvæði né fjarlægð milli húsa, og ekki sé um að ræða innsýn umfram það sem almennt sé í íbúðahverfum. Mjög svipuð viðbygging hafi verið leyfð við Daltún 10 auk þess sem samþykktar hafi verið stækkanir við fleiri hús í hverfinu, til dæmis Daltún 6 og 29. Þá telji þau viðbygginguna fyllilega í samræmi við þau sjónarmið sem skipulag hverfisins og húsin þar hafi verið unnin út frá.

Kópavogsbær mótmælir því ekki að umræddar breytingar á húsinu við Brekkutún 13 samræmist ákvæði 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, um bil á milli bygginga. Því sé hins vegar hafnað að innsýn og nánd milli húsa nr. 11 og 13 í Brekkutúni verði ekki umfram það sem almennt megi finna í íbúðarhverfum og einstaklingar þurfi að þola samkvæmt reglum nábýlisréttar. Fjarlægð á milli fyrirhugaðrar viðbyggingar og húss nr. 11 við Brekkutún yrði ekki nema 6,5 m. Ekki sé lagst gegn tillögu um breytingar á hliðum hússins heldur aðeins viðbyggingu á vesturgafli þess, en hún falli ekki vel að ásýnd hverfisins og myndi valda íbúum í Brekkutúni 11 miklum óþægindum. Skipulagsnefnd hafi því ekki talið sig geta samþykkt þann hluta breytinga¬tillögunnar. Ekki hafi borist nýtt erindi frá lóðarhöfum Brekkutúns 13 sem gangi styttra með tilliti til innsýnar og nándar milli húsanna. Þá séu þær viðbyggingar sem samþykktar hafi verið á öðrum lóðum í sveitarfélaginu ekki sambærilegar hvað varði innsýn og nánd. Grenndaráhrif þeirra séu minni og þær geti ekki talist vera fordæmi í þessu tilviki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og stækkun hússins við Brekkutún 13 í Kópavogi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, breyta því, breyta útliti þess eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna. Þó er gert ráð fyrir því þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að grenndarkynningu aflokinni og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr., og er byggingarfulltrúa í samræmi við þá niðurstöðu ýmist heimilt eða óheimilt að gefa út byggingarleyfi. 

Af gögnum málsins verður ráðið að byggingarfulltrúi tók við byggingarleyfisumsókn kærenda og vísaði henni til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu skv. nefndri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Grenndarkynningin fór fram og í kjölfar hennar tók skipulagsnefnd á fundi sínum 23. júlí 2013 afstöðu til erindis kærenda og hafnaði því. Bæjarráð gerði slíkt hið sama á fundi sínum 25. s.m. Verður að líta svo á í ljósi þeirra lagaákvæða sem að framan eru rakin að með afgreiðslu sinni hafi bæjarráð hafnað því að veita mætti umbeðið byggingarleyfi. Ekki liggur hins vegar fyrir í málinu afgreiðsla byggingarfulltrúa á umræddri byggingarleyfisumsókn, en samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki er endanleg ákvörðun um samþykkt eða synjun byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa. Liggur því ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir