Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

60/2016 Lágholt 15 og 16 Stykkishólmi

Árið 2016, föstudaginn 15. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 60/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er bárst  nefndinni 2. júní 2016, kæra E og S, Lágholti 21, Stykkishólmi, ákvörðun Stykkishólmsbæjar og sýslumanns Vesturlands frá 28. apríl 2016 um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Lágholti 15 og mótmæla fyrirhugaðri ákvörðun um útgáfu sams konar leyfis að Lágholti 19. Stykkishólmi.

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndarinnar sem barst nefndinni 2. júní 2016 kæra H og E, Lágholti 17, Stykkishólmi jafnframt ákvörðun um veitingu fyrrgreinds rekstrarleyfis með sömu andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um sams konar rekstrarleyfi að Lágholti 19, Stykkishólmi. Þar sem um er að ræða sama ágreiningsefni í báðum kærumálunum og málatilbúnaður kærenda er á sömu lund, verður greint kærumál, sem er nr. 61/2016, sameinað kærumáli þessu. 

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hins kærða rekstrarleyfis og að fyrirhugað rekstrarleyfi vegna Lágholts 19 verði ekki veitt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. júní 2016.

Málsatvik og rök: Húsið að Lágholti 15 er einbýlishús og stendur á ódeiliskipulögðu svæði sem ætlað er undir íbúðarbyggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Í apríl 2015 sóttu eigendur þess húss um að fá að breyta bílgeymslu í íbúðarherbergi og svo í framhaldi af því að breyta húsinu í gistiheimili/gistiskála. Erindið var grenndarkynnt í nokkur skipti og á sama tíma var sótt um rekstrarleyfi fyrir 14 gesti í nefndu húsi hjá Sýslumanninum á Vesturlandi. Afgreiðsla umsóknar um breytingu hússins dróst á langinn og ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir umsóttum breytingum af hálfu byggingaryfirvalda bæjarins.

Hinn 15. apríl 2016 sendi Sýslumaðurinn á Vesturlandi sveitarfélaginu til umsagnar umsókn um rekstrarleyfi fyrir gististað að Lágholti 15 í flokki II fyrir allt að 6 gesti. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði því erindi með jákvæðri umsögn 19. s.m. Gaf sýslumaður út umbeðið rekstrarleyfi hinn 28. apríl 2016. Þá barst skipulags- og byggingarfulltrúa bréf sýslumanns, dags. 20. apríl 2016 þar sem leitað var umsagnar embættisins vegna umsóknar um rekstrarleyfi til að reka gististað í flokki II að Lágholti 19. Með bréfi, dags. 6. maí 2016 tilkynnti byggingarfulltrúi að ekki væri gerð athugasemd við að umrætt rekstrarleyfi yrði veitt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististað í flokki II að Lágholti 15 og fyrirhugaða leyfisveitingu fyrir slíkan rekstur að Lágholti 19. Samkvæmt upplýsingum úr skrá sýslumanns yfir útgefin rekstrarleyfi hefur ekki verið gefið út leyfi fyrir rekstur gististaðar í flokki II að Lágholti 19.

Í 1.gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir gististarfsemi þá sem um er deilt í máli þessu er tekin af sýslumanni með heimild í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og er ákvörðun hans þar að lútandi kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sbr. 26. gr. þeirra laga. Við málsmeðferð umsókna um slík rekstrarleyfi skal sýslumaður m.a. leita umsagna sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. laga nr. 85/2007. Þær umsagnir verða ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og ber af þeim sökum að vísa þessu máli frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson