Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

57/2016 Skaftáreldahraun

Árið 2016, föstudaginn 8. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 57/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. maí 2016, er barst nefndinni 31. maí s.á., kærir H, Efri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 18. maí 2016 að fresta afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi fyrir vatnaveitingar úr Skaftá út á Skaftáreldahraun, Skaftárhreppi, þar til mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 7. júní 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 12. maí 2016 óskaði kærandi eftir vatnaveitingum út á Eldhraun um Stóra-Brest, Litla-Brest, Skálarstapa og Skálarál. Orkustofnun svaraði beiðni kæranda á þá leið að málsmeðferð umsóknarinnar væri frestað þar til að mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir þar sem umbeðin framkvæmd félli undir lið 10.16 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að meðalrennsli á ári nái ekki lágmarksmagni liðar 10.16 í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og flatarmál vatns nái ekki lágmarksstærð framangreinds liðar og því þurfi ekki að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Af hálfu Orkustofnunar er vísað til þess að um málsmeðferð stofnunarinnar fari samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins og svo hafi verið gert í þessu máli. Í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi Orkustofnun leiðbeint kæranda um að fari meira en 3 km2 lands undir vatn, eða rúmtak vatns sé meira en 10 milljónir m3 á ári, þurfi að liggja fyrir mat á umhverfisáhrifum slíkrar vatnsmiðlunar samkvæmt  lið 10.16 í viðauka I við lög um mat á umhverfisáhrifum. Að mati Orkustofnunar falli vatnsmiðlun undir greindan lið í viðauka 1 og sé hún því matsskyld samkvæmt 5. gr. nefndra laga. Það mat stofnunarinnar byggi á fyrirliggjandi gögnum úr rennslismælingum Vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands frá árinu 2008 auk fjarkönnunargagna um flatarmál þess svæðis er færi undir vatn í Eldhrauni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Orkustofnunar um frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda um vatnsmiðlun en stofnuninni og kæranda greinir á um hvort umbeðin framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt vatnalögum nr. 15/1923 hefur Orkustofnun eftirlit með framkvæmd og veitir leyfi í samræmi þau, sbr. 143. gr. laganna. Skipulagsstofnun annast hins vegar eftirlit með framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og tekur m.a. afstöðu til þess samkvæmt 6. gr. laganna hvort framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Sú ákvörðun sem um er deilt í málinu varðar málsmeðferð þess hjá Orkustofnun en bindur ekki enda á það. Stofnunin hefur ekki heimild til þess að gefa út leyfi til framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum fyrr en slíkt mat hefur farið fram, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, en eins og fyrr er að vikið er það Skipulagsstofnun sem sker úr um það hvort framkvæmd sé háð slíku mati. Bjuggu því efnisleg rök að baki þeirri ákvörðun Orkustofnunar að ljúka ekki afgreiðslu umsóknar kæranda að svo stöddu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson