Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2014 Lindarbraut Seltjarnarnesi

Árið 2016, föstudaginn 22. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 93/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2014, sem barst nefndinni 21. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, „stjórnvaldsákvörðun Seltjarnarnesbæjar sem dagsett er 16. júlí 2014 vegna lóðarmarka, niðurrifs mannvirkja og brunavarna að Lindarbraut 11 Seltjarnarnesi“. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að nefnd afgreiðsla verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.

Málsatvik og rök:
Mál þetta á sér nokkra forsögu en um árabil hefur verið ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 11 og lóðarhafa Lindarbrautar 9 um lóðamörk. Árið 2012 synjaði Seltjarnarnesbær kröfu lóðarhafa Lindarbrautar 9 um að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að fjarlægja eða minnka mannvirki er stæði á lóð Lindarbrautar 11, en væri að hluta inn á lóð nr. 9 við Lindarbraut. Í erindi sínu vísaði lóðarhafi Lindarbrautar 9 m.a. til þess að fyrir lægi álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefnds mannvirkis. Var ákvörðun sveitarfélagsins skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er felldi hana úr gildi. 

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til kæranda, dags. 2. september 2013, var tilkynnt að eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 hefði óskað eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda veitt færi á að koma að sjónarmiðum sínum en jafnframt var óskað upplýsinga um hvort  brunavarnir í húsnæði því að Lindarbraut 11, sem lægi að og yfir lóðamörk aðila, hefðu verið lagfærð. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 væru þau sömu og verið hefði í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu. Væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum vegna brunamála sendar þegar nefndin hefði afgreitt málið. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness, dags. 16. júlí 2014, var skorað á kæranda að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðarmörk Lindarbrautar 11 yfir á lóðina nr. 9. Var sá áskilnaður m.a. gerður að í umsókn væri gert ráð fyrir því að sá hluti mannvirkja sem væri inn á lóð Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk samkvæmt þinglýstum heimildum. Þá var tekið fram að yrði ekki orðið við nefndum tilmælum innan tilgreindra tímamarka yrði málið tekið upp að nýju. Kæmi þá til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 en samkvæmt þeim væri byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað eiganda. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum mannvirkjum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast fjarlægingar mannvirkjanna í heild.

Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur af hálfu kæranda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.

Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun málsins þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða, en ekki hafi verið tekin ákvörðun um dagsektir á hendur kæranda. 

Niðurstaða: Eins og fyrr er rakið er tilefni kærumáls þessa bréf skipulags- og byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 16. júlí 2014 til kæranda þar sem skorað var á hann að sækja um byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum og sá hluti þeirra sem lægi á lóð Lindarbrautar 9, samkvæmt þinglýstum heimildum, yrði fjarlægður. Að öðrum kosti kæmi til greina að beita dagsektum eða verkið yrði unnið á kostnað kæranda skv. 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 en samkvæmt þeim væri byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað eiganda.

Orðalag fyrrgreinds bréfs felur í sér áskoranir á hendur kæranda um framkvæmd tiltekinna athafna og um mögulega framvindu mála ef ekki yrði farið að þeim tilmælum. Í bréfinu er ekki að finna lokaákvörðun máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um að slík ákvörðun verði að liggja fyrir svo mál verði borið undir kærustjórnvald. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson