Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

52/2016 Hellisgata 16

Árið 2016, föstudaginn 8. júlí, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 52/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra G og H, Þrándheimi, Noregi, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að fara í framkvæmdir á lóð þeirra að Hellisgötu 16, Hafnarfirði. Er þess krafist að framkvæmdir verði fjarlægðar og ástandi fasteignarinnar komið í fyrra horf. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfirði 10. júní 2016.

Málsatvik og rök: Húsið að Hellisgötu 16 er fjöleignarhús. Auk íbúðar kærenda er í húsinu íbúð í eigu húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar, skrifstofuhúsnæði í eigu Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og skrifstofa í eigu Verkstjórafélags Hafnarfjarðar. Hinn 24. júní 2004 samþykkti byggingarfulltrúinn í Hafnarfirði umsókn eigenda Hellisgötu 16 um breytingar á nefndri fasteign. Samkvæmt árituðum aðaluppdráttum var m.a. heimilað að byggja stoðvegg úr járnbentri steinsteypu, sem borinn yrði af járnbentum súlum og bita, við efri hluta lóðarmarka umræddrar lóðar. 

Kærendur benda á að þeir hafi fengið upplýsingar um framkvæmdir við mörk lóðar Hellisgötu 16 en þar liggi tröppur upp að íbúð kærenda á annarri hæð hússins. Þeir hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir þeim framkvæmdum. Umfang framkvæmdanna sé slíkt að þær hljóti að vera byggingarleyfisskyldar, sérstaklega í ljósi þess að þær geti haft áhrif á burðarþol fasteignarinnar.

Af hálfu bæjaryfirvalda hefur verið upplýst að umhverfis- og skipulagsþjónusta sveitarfélagsins hafi dregið allar framkvæmdir til baka og allur uppsláttur verið fjarlægður. Hafi þetta verið gert eftir samtal við kæranda sama dag og framkvæmdirnar hafi verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar. Uppsláttur stoðveggja hafi verið í samræmi við aðaluppdrætti sem samþykktir voru í júní 2004 og lengi hafi staðið til að fara í umþrættar framkvæmdir. Það réttlæti þó ekki að þær séu hafnar án samþykki kærenda.

Niðurstaða: Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að kærenda og Hafnarfjarðarbæ, sem eiganda eignarhluta í umræddu húsi, greini á um hvort umdeildar framkvæmdir eigi stoð í áður greindu byggingarleyfi frá árinu 2004 eða hvort um óleyfisframkvæmdir væri að ræða.  Ekki liggur fyrir að bæjaryfirvöld hafi veitt byggingarleyfi eða breytt skipulagi lóðarinnar eftir veitingu byggingarleyfisins frá árinu 2004. Liggur því ekki fyrir í málinu stjórnvaldsákvörðun eða ágreiningsmál á sviði laga um skipulags- og byggingarmál sem borin verður undir úrskurðarnefndina samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  

Framkvæmdaraðili, umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðar, hefur upplýst að öllum framkvæmdum að Hellisgötu 16 hafi verið hætt og uppsláttur fyrir vegg á lóðarmörkum fjarlægður. Þá hafa kærendur, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, selt íbúð sína í umræddu húsi með kaupsamningi dags. 2. júní 2016 og íbúðin afhent kaupanda sama dag samkvæmt þeim samningi. Eiga kærendur af þessum sökum ekki lengur þá lögvörðu hagsmuni tengda greindri fasteign sem sett er að skilyrði fyrir kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga nr. 130/2011 eða að öðru leyti hagsmuna að gæta vegna umdeildra framkvæmda þar sem þær hafa verið dregnar til baka.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
   Ómar Stefánsson