Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2014 Álfhólsvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 um að breyta ekki deiliskipulagi lóðarinnar nr. 22a og b við Álfhólsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2014, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Mótandi ehf., lóðarhafi Álfhólsvegar 22a og b í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 að synja erindi um óverulega breytingu á deiliskipulagi greindrar lóðar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Árið 2008 tók gildi deiliskipulag fyrir lóðina Álfhólsveg 22, er gerði ráð fyrir að bygging á nefndri lóð yrði rifin og að heimilað yrði að reisa í hennar stað tvö tveggja hæða fjölbýlishús, samtengd með bílageymslu neðanjarðar. Mun kærandi hafa eignast lóðarréttindi að umræddri lóð árið 2011 og byggingarfulltrúi samþykkt uppdrætti að húsi á lóðinni í mars og apríl 2013. Á fundi skipulagsnefndar 2. júlí s.á. var lögð fram tillaga kæranda að breytingu á nefndu skipulagi er fól í sér að heimilt yrði að byggja inndregna þakhæð og fjölga íbúðum úr 16 í 18, þ.e. um eina íbúð í hvoru húsi. Samþykkti skipulagsnefnd, með skírskotun til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að grenndarkynna tillöguna og bárust athugasemdir og ábendingar á kynningartíma.

Erindið var lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 5. nóvember 2013, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. sama dag, þar sem m.a. kom fram það mat að fyrirhuguð viðbygging myndi breyta götumynd Álfhólsvegar 16 til 30 umtalsvert á neikvæðan hátt. Jafnframt þætti sýnt að umrædd breyting myndi valda verulegum umhverfisáhrifum í formi aukins skugga á nánar tilgreindar lóðir og ónæði gæti hlotist af auknum fjölda íbúa sem nota myndu svalir á þriðju hæð Álfhólsvegar 22. Þá var tekið fram að aukning um eina hæð teldist ekki veruleg breyting á heildaryfirbragði byggðarinnar þar sem breyting hefði þegar verið gerð á Álfhólsvegi 32. Hafnaði skipulagsnefnd framlagðri tillögu og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 7. s.m. og því vísað til skipulagsnefndar, en fram kemur í bókun að það sé gert í ljósi þess að áhöld séu um að gögn hafi vantað við fyrri afgreiðslu nefndarinnar. Með bréfi kæranda til skipulagsnefndar, dags. 10. s.m., var komið á framfæri athugasemdum við fyrrnefnda umsögn.

Hinn 28. janúar 2014 var málið tekið fyrir í bæjarstjórn og eftirfarandi bókað: „Lagt fram að nýju erindi […] varðandi þakhæð og fjölgun íbúða að Álfhólsvegi 22a og 22b. Á fundi skipulagsnefndar 5.11.2013 var erindinu hafnað. Á fundi bæjarráðs 7.11.2013 var erindinu vísað aftur til skipulagsnefndar. Á fundi skipulagsnefndar 11.11. 2013 var erindið tekið aftur til umfjöllunar og því frestað. Lagt fram að nýju ásamt viðbótargögnum varðandi skuggavarp. Skipulagsnefnd ítrekar bókun sína frá 5. nóvember 2013 um að hafna framlagðri breytingartillögu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarráð vísaði tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsnefndar og hafnar tillögunni með 11 atkvæðum.“

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi við meðferð þess verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Loks sé rökstuðningi í umsögn skipulagsdeildar um erindið verulega áfátt.

Af 44. gr. skipulagslaga verði ráðið að sveitarstjórn skuli afgreiða mál að liðnum kynningartíma tillögu og í gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð komi fram að sveitarstjórn skuli senda hagsmunaaðilum er gert hafi athugasemdir umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu. Hvergi komi fram í gögnum málsins eða bókunum um það að bæjarstjórn hafi samþykkt umsögn um málið, eins og áskilið sé. Þá fari skipulagsnefnd ekki með afgreiðsluvald á erindum sem þessum, enda hafi henni ekki verið falið það vald í samþykkt sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Hafi nefndin því farið út fyrir valdsvið sitt er hún hafnaði breytingartillögu kæranda. Verði ekki séð að úr þeim annmarka hafi verið bætt þótt bæjarstjórn hafi staðfest afgreiðslu nefndarinnar og hafnað að því búnu tillögunni án umræðu og án þess að afgreidd væri umsögn bæjarstjórnar í málinu. Ljóst megi vera að bæjaryfirvöld líti svo á að fyrir liggi lokaákvörðun í málinu og beri af þeim sökum að ógilda hina kærðu ákvörðun. Þá hafi skipulagsnefnd 21. janúar 2014 horft framhjá nýjum gögnum í málinu, þrátt fyrir að fram komi að slík gögn hafi verið lögð fram. Samræmist það ekki rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að taka ekki afstöðu til fyrirliggjandi gagna.

Samkvæmt deiliskipulagi sé nýtingarhlutfall lóðarinnar að Álfhólsvegi 32 án bílageymslu 1,20, en í raun sé það talsvert hærra. Lóð kæranda að Álfhólsvegi 22 sé 3.039 m² og byggingarmagn án bílageymslu 2.067 m² samkvæmt skipulagi. Sé nýtingarhlutfall lóðarinnar miðað við þær forsendur 0,68. Með umsókn sinni hafi kærandi leitað eftir að fá að auka byggingarmagn lítillega til móts við það sem bæjaryfirvöld höfðu samþykkt á nærliggjandi lóð í sama götureit. Hafi ekki verið gætt sjónarmiða um jafnræði þegar afstaða hafi verið tekin til erindis kæranda.

Misræmis gæti í umsögn skipulagsdeildar um áhrif umbeðinnar breytingar á götumynd og umhverfi. Verði að telja að höfundar umsagnarinnar hafi verið sér meðvitaðir um að við mat á áhrifum umsóttra breytinga hefði borið að líta til þess sem þegar hefði verið heimilað í götureitnum en það samræmist ekki þeirri niðurstöðu sem bæjaryfirvöld hefðu síðar komist að í málinu.

Hin kærða synjun sé jafnframt í andstöðu við stefnu gildandi aðalskipulags og Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 um þéttingu byggðar. Umræddur götureitur sé nærri miðbæjarsvæði og sé eðlilegt að horft sé til slíkra svæða við þéttingu byggðar. Megi íbúar við þær aðstæður ávallt vænta einhverra breytinga á skipulagi og megi um það efni vísa til niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 3/1999. Rúmist sú aukning á skuggavarpi, og önnur hugsanleg neikvæð áhrif sem af breytingunni stafi, innan þeirra marka sem nágrannar þurfi að sætta sig við. Þá hafi áhrif vegna aukins skugga og ónæðis sem hlotist geti vegna innsýnar ekki verið rannsökuð sem skyldi, en bent hafi verið á, eftir að bæjarráð vísaði málinu aftur til skipulagsnefndar, að gögn um skuggavarp væru ekki rétt, auk þess sem draga mætti úr mögulegri innsýn með því að færa svalahandrið frá þakbrún og inn á þakflötinn. Samræmist það ekki rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að taka þessar ábendingar ekki til skoðunar auk þess sem það fari gegn meðalhófsreglu sömu laga að taka ekki til athugunar hvort beita mætti vægara úrræði til að koma til móts við sjónarmið nágranna.

Loks sé bent á að umsótt breyting rúmist innan þess nýtingarhlutfalls sem kveðið sé á um í gildandi deiliskipulagi. Umræddar þakíbúðir séu inndregnar og dragi það fyrirkomulag bæði úr sjónrænum áhrifum og skuggavarpi. Geti íbúar á ódeiliskipulögðum svæðum ekki vísað til þess að þeir búi í fastmótuðu umhverfi með jafngildum rökum og íbúar svæða sem hafi verið deiliskipulögð. Megi gera ráð fyrir að með heildstæðu deiliskipulagi fyrir umræddan reit hefði mátt ná betra samræmi og yfirsýn yfir byggingarmöguleika á reitnum í heild og jafnframt betri sátt um skipulagsmál svæðisins. Eigi það hins vegar ekki að bitna á möguleikum kæranda til nýtingar á nefndri lóð að þessa hafi ekki verið gætt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær telur að málsmeðferð við afgreiðslu á erindi kæranda hafi verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Að virtum framlögðum gögnum um skuggavarp hafi skipulagsnefnd talið rétt að synja umsókn kæranda á ný og vísa málinu til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Fyrir liggi að erindið hafi sannanlega verið tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar þar sem tekin hafi verið endanleg ákvörðun af hálfu sveitarfélagsins um synjun.

Bent sé á að við gerð deiliskipulags fyrir umrædda lóð hafi íbúðum verið fækkað um eina og hæð hússins á byggingarreitnum verið lækkuð um eina hæð til að koma til móts við innsendar athugasemdir. Skipulagslegar forsendur í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi hafi ekki breyst í nágrenni skipulagssvæðisins frá þeim tíma. Við mat á því hvort rétt sé að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi beri ekki eingöngu að líta til stefnu um þéttingu byggðar heldur einnig að horfa til grenndaráhrifa. Þá hafi málið verið rannsakað nægilega en í því liggi fyrir teikningar af tillögu um nefnda breytingu, myndir af lóðum og húsum umhverfis Álfhólsveg 22 og ítarleg gögn varðandi skuggavarp.

Hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að fyrirhuguð viðbygging myndi breyta götumynd Álfhólsvegar 16 til 30 umtalsvert á neikvæðan hátt, þar sem stærðarhlutföll breyttust um of og nýbyggingin yrði of áberandi í götumyndinni. Gert væri ráð fyrir því að hámarksvegghæð hússins yrði 9,75 m, hæð á stigahúsi 10,25 m og að auki væri aðkomuhæð um 1,5 m yfir götukóta. Vegghæð Álfhólsvegar 24 sé 5,4 m og mænishæð 6,5 m. Vegghæð Álfhólsvegar 18 sé 5,8 m og mænishæð 7,4 m. Grenndaráhrif fyrirhugaðra breytinga væru með þeim hætti að ekki væri stætt á því að fallast á þær. Aukið skuggavarp yrði í görðum tiltekinna húsa við Álfhólsveg og ónæði gæti hlotist af auknum fjölda íbúa sem nota myndu svalir á þriðju hæð í austurhluta Álfhólsvegar 22b. Útsýni myndi skerðast og áhrif af vindi gætu breyst vegna hækkunar byggingarinnar.

Niðurstaða: Í kjölfar beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Álfhólsvegi 22 ákvað bæjarstjórn að gera tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi nefndrar lóðar. Um málsmeðferð þeirrar skipulagsbreytingar gilda ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.     

Í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga er kveðið á um að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki er skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning er gerð í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að telji sveitarstjórn að gera skuli breytingar á samþykktu deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr., skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í frumvarpi til núgildandi skipulagslaga segir m.a. um greint lagaákvæði: „Lagt er til það nýmæli í 2. mgr. að sett eru fram viðmið í greininni um það hvenær um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða, en við mat á því þarf að skoða að hversu miklu leyti deiliskipulagstillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi og svipmóti viðkomandi svæðis. Sem dæmi um óverulegar breytingar af þessu tagi er þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Slíkar breytingar á deiliskipulagi skulu þannig grenndarkynntar í stað þess að þær verði auglýstar.“

Heimilað nýtingarhlutfall lóðar kæranda að Álfhólsvegi er 0,68 samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í skipulaginu er lóðin talin vera 3.039 m² og miðað við þær forsendur er heimilað byggingarmagn á lóðinni 2.067 m². Heimilt er að reisa á henni tvö tveggja hæða fjölbýlishús, samtengd með bílageymslu neðanjarðar, og sé hvort hús um sig með fjórum íbúðum á fyrstu og annarri hæð. Húsin eru því samtals með 16 íbúðir. Samkvæmt umsókn kæranda til bæjarskipulags Kópavogs, dags. 1. júlí 2013, er núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,60 og byggingarmagn 1.833 m². Í tillögu að breytingu deiliskipulagsins er bæjaryfirvöld höfnuðu var gert ráð fyrir að byggja mætti inndregna þakhæð á húsin, þ.e. annars vegar 189 m² íbúð og hins vegar 224 m² íbúð. Við breytinguna myndu húsin hækka um 2,7 m að hluta. Jafnframt yrði bílastæðum fjölgað um þrjú stæði, sem staðsett yrðu ofan á bílakjallara.

Nokkurs misræmis gætir í upplýsingum um stærð umræddrar lóðar, en í þinglýstum lóðarleigusamningi er lóðin sögð vera 2.850 m², en ekki 3.039 m², eins og fram kemur í deiliskipulagi. Byggingarmagn lóðarinnar miðað við þær forsendur mætti því vera 1.938 m², en ekki 2.067 m², sé miðað við forsendur deiliskipulagsins. Í breytingartillögunni er kveðið á um að nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,74 og byggingarmagn 2.245,4 m². Er það aukning á nýtingarhlutfalli um 8,8% frá áður heimiluðu nýtingarhlutfalli. Sé hins vegar lögð til grundvallar stærð lóðarinnar samkvæmt lóðarleigusamningi hækkar nýtingarhlutfallið í 0,79, sem er aukning um 16,2% frá gildandi nýtingarhlutfalli. Sé litið til eðlis breytinganna má ætla að þær geti haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart næstu lóðum, m.a. með auknu skuggavarpi, auk þess sem fjölgun íbúða í húsunum úr 16 í 18, sem er 12,5% aukning, fylgir aukin umferð.

Ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er undantekning frá þeirri meginreglu 43. gr. laganna að með breytingar á deiliskipulagi skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Af fyrrgreindum lögskýringargögnum við nefnt ákvæði má ráða að skýra verði þessa heimild þröngt.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja umfang og áhrif hinnar kynntu deiliskipulagsbreytingar slík að ekki hafi verið skilyrði til að grenndarkynna hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur hafi borið að fara með hana skv. 1. mgr. ákvæðisins. Sökum þessa annmarka á málsmeðferð verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. janúar 2014 vegna deiliskipulagningar lóðarinnar nr. 22a og b við Álfhólsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

36/2014 Bugðulækur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Rauðalæk 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun handriðs á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17 í Reykjavík. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að hugsanleg ákvörðun byggingarfulltrúans um að heimila uppsetningu timburpalls og timburhandriðs á fyrrgreindu þaki sé hnekkt.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. maí 2014 og í mars 2016.

Málavextir: Á lóðinni Bugðulæk 17 stendur fjölbýlishús, sem samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var reist árið 1959. Bílskúr, sambyggður húsinu á norðurhlið þess, var reistur árið 1965 og tilheyrir eignarhluta 0101. Er bílskúrinn jafnframt sambyggður bílskúrum á lóðum Rauðalækjar nr. 16 og 18. Í ágúst 2009 tilkynnti byggingarfulltrúi þáverandi eigendum umrædds bílskúrs að Bugðulæk 17 að framkvæmdir við byggingu skjólveggs ofan á hann skyldu stöðvaðar, þar sem ekki lægi fyrir leyfi til framkvæmdanna. Í framhaldi af því kom fram að þáverandi eigendur hefðu haft samband við Reykjavíkurborg til að afla sér upplýsinga um hvort leyfi þyrfti til að endurnýja handrið á bílskúrnum, en því hefði verið neitað. Þá var send inn fyrirspurn til byggingarfulltrúa um hvort heimilt væri að endurnýja handriðið, sem verið hefði á bílskúrnum allt frá byggingu hans. Var erindið lagt fyrir skipulagsstjóra, sem gerði ekki athugasemd við greinda framkvæmd, enda yrði sótt um byggingarleyfi, sem síðan yrði grenndarkynnt.

Í október 2010 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir endurnýjun fyrrgreinds handriðs. Var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir frá húsfélaginu Rauðalæk 18. Skipulagsráð tók málið fyrir 24. nóvember s.á. og synjaði erindinu, með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, er taldi að ekki væri æskilegt að samþykkja umsóknina gegn andmælum íbúa að Rauðalæk 18. Þá var umsækjanda bent á að leggja fram sams konar fyrirspurn þar sem dregið yrði úr umfangi afnotaflatar. Í samræmi við það lagði umsækjandi fram nýja fyrirspurn og veitti skipulagsstjóri umsögn um málið 25. febrúar 2011. Niðurstaða hans var sú að í ljósi fyrri umsagnar væri lagt til að umsækjanda yrði heimilt að gera ráð fyrir svölum á þaki sem yrðu 3,5 m að dýpt og inndregnar um 1,5 m frá lóðamörkum. Umsókn um leyfi fyrir endurnýjun á handriði á þaki fyrrnefnds bílskúrs var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. maí 2011. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra, sem tók það fyrir á fundi 20. s.m. og færði til bókar að lagfæra þyrfti uppdrætti þannig að þeir samræmdust þeim skilyrðum er fram hefðu komið í umsögn skipulagsstjóra, dags. 25. febrúar 2011. Byggingarfulltrúi tók málið fyrir að nýju 24. maí s.á. Var afgreiðslu málsins frestað að nýju en m.a. bókað að með vísan til umsagnar skipulagsstjóra væri mögulegt að samþykkja svalir á bílskúrsþaki í samræmi við meðsenda skissu.

Hinn 21. janúar 2014 tók byggingarfulltrúi málið fyrir enn á ný. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og á embættisafgreiðslufundi hans 24. s.m. var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Rauðalæk 16 og 18. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars s.á. var fyrrnefnt erindi tekið fyrir. Var tiltekið í fundargerð að borist hefðu athugasemdir við kynnt erindi frá húsfélaginu Rauðalæk 18 og að lögð væri fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. s.m., en þar var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að umsókn yrði samþykkt. Fært var til bókar að ekki væri gerð athugasemd við nefnda umsögn og var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Umrædd umsókn var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. apríl 2014, hún samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að bílskúrar á lóðum Rauðalækjar 16 og 18 séu báðir með timburþaki. Á öðrum þeirra sé dúkklæðning en á hinum bárujárnsklæðning. Á þakplötu bílskúrs Bugðulækjar 17 sé settur tjörudúkur og timburpallur auk timburhandriðs. Við ákveðnar aðstæður geti skapast veruleg eldhætta sem einnig geti haft mikið fjárhagslegt tjón í för með sér. Sé vísað til 3. mgr. 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, en byggingarfulltrúa hefði verið rétt að framvísa gögnum um samráð við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins vegna mats á eldhættu áður en hin kærða ákvörðun var samþykkt. Einnig sé hætta á að börn slasist vegna umgangs þeirra um ofangreinda bílskúra og sé þak bílskúrs að Rauðalæk 18 tekið að síga vegna þess. Umrætt handrið valdi skuggavarpi í garði Rauðalækjar 18, notkunargildi hans rýrni og gengið sé á hlut íbúa þess húss um rétt til friðhelgi í garði sínum. Handriðið sé til lýta, efnisval þess sé viðhaldsfrekt og verði það fljótt ljótt ásýndum sé viðhaldi ábótavant, en ólíklegt megi telja að tréverki út að lóðamörkum verði viðhaldið.

Hvorki séu sýnd þrep upp á þak nefnds bílskúrs né þaksvalir á samþykktum teikningum frá árinu 1964. Fyrstu framkvæmdir við bílskúrsþakið hafi hafist í miklum flýti árið 2009. Hafi verið reistur 180 cm hár timburveggur á lóðamörkum, en þakið ekki klætt. Skapi ósamþykktar óleyfisframkvæmdir ekki rétt eða hefð samkvæmt lögum. Þá megi á teikningu, dags. 17. desember 2013, sjá að fyrirhugaður timburpallur á þaki bílskúrsins eigi eingöngu að vera innan afmarkaðs timburhandriðs, en pallurinn nái alveg út að lóðamörkum Rauðalækjar 16 og 18. Einnig séu hæðarhlutföll önnur og mikið lægri á teikningu en raunin sé, einkum á austurhlið hússins. Hafi byggingarfulltrúi ekki fylgt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Hagsmunir allra íbúa að Rauðalæk 18 og eigenda bílskúra að Rauðalæk 16 hljóti að vega þyngra en hagsmunir íbúa einnar íbúðar að Bugðulæk 17, sem nú þegar hafi samþykktar svalir á suðurhlið þess húss.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur fram að áður en byggingarleyfi hafi verið samþykkt hafi verið óskað eftir umsögn slökkviliðs, sem ekki hafi gert athugasemd við umsóknina. Framkvæmdin sé ekki áhættusamari m.t.t. eldhættu en sambærileg mannvirki sem ekki séu háð byggingarleyfi, enda sé leyfið bundið við að mannvirkið sé 1,5 m frá lóðamörkum. Skuggavarp muni ekki aukast. Hafi skipulagsfulltrúi gert kröfu um að hið umdeilda handrið færi ekki yfir 1,1 m og væri inndregið. Nái þaksvalir nú yfir mun minni flöt en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Með því móti hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda og tryggt að friðhelgi myndi ekki raskast. Þá megi alltaf gera ráð fyrir að friðhelgi raskist vegna eðlilegrar hagnýtingar á nærliggjandi fasteignum í þéttri borgarbyggð.

Við afgreiðslu umsóknar sé gerð úttekt á framkvæmd og gengið úr skugga um að uppfylltar séu þær öryggiskröfur sem um hana gildi. Verði kærandi að bregðast við meintri slysahættu og koma í veg fyrir að börn komist yfir á bílskúr í hans eigu. Þá hafi verið gerð krafa um að handrið félli vel að húsinu við afgreiðslu umsóknarinnar. Geti byggingarfulltrúi ekki synjað afgreiðslu á þeim forsendum að hugsanlega muni framkvæmdin verða til lýta síðar meir. Jafnframt sé bent á heimild byggingarfulltrúa skv. byggingarreglugerð til að bregðast við ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss sé ábótavant.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir þaksvölum á bílskúr á upphaflegum byggingarnefndarteikningum frá árinu 1964. Hins vegar hafi borgaryfirvöld látið það óátalið til fjölda ára að svalirnar væru nýttar með þeim hætti. Hafi eigendur haft réttmætar væntingar til þess að fá að nýta þakið áfram með sama hætti. Hafi núverandi eigendur keypt fasteignina með væntingum um að leyfi væri til staðar. Það hafi því verið mat embættisins að ekki væri lögmætt að synja umsókninni þó að um óleyfisframkvæmd hefði verið að ræða frá öndverðu. Ekki virðist leika vafi á því að handrið hafi verið um lengri tíma á bílskúrnum þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þess. Þá sé bent á að varakrafa kæranda felist í aðalkröfunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar hann hafi fest kaup á fasteign sinni að Bugðulæk 17 í apríl 2013 hafi komið fram á söluyfirliti að ofan á bílskúr væru stórar svalir með grindverki. Langsótt sé að það geti valdið stórtjóni að grilla innan umrædds handriðs. Handrið til norðurs sé í talsverðri fjarlægð frá þaki bílskúrs að Rauðalæk 18 sem sé einnig einum metra lægra en hið umdeilda þak. Þá hafi tryggingarfélag leyfishafa ekki gert athugasemd við nefnt handrið.

Garður íbúa að Rauðalæk 18 snúi í hásuður og þar af leiðandi komi síðdegissól í garðinn að hluta úr vestri. Verði ekki séð hvernig fyrirhugað handrið muni valda skuggavarpi. Umrætt hverfi sé mjög þéttbýlt og friðsælt og ekki sé langt á milli húsa, garða eða innkeyrsla. Garðurinn að Rauðlæk 18 liggi enn fremur að mjög fjölfarinni gangstétt. Verði handriðið ekki klárað með þeim hætti sem samþykkt sé verði slysahætta líklega viðvarandi. Þá telji leyfishafa enga ástæðu til annars en að viðhalda og ganga vel um eign sína.

Tröppur, sem séu við stigapall við inngang að Bugðulæk 17 og inn á pall bílskúrsins, hafi verið steyptar við byggingu hans. Handrið hafi verið við brún alls þaks bílskúrsins frá þeim tíma og það svæði nýtt af íbúum. Hafi það mátt vera augljóst þegar íbúar að Rauðalæk 18 fjárfestu í sínum eignum. Þá megi finna þess dæmi í hverfinu að handrið séu á þökum bílskúra.

       

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 3. maí 2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 að samþykkja endurnýjun á handriði á þaki bílskúrs að Bugðulæk 17. Á samþykktum uppdráttum segir svo: „Við endurnýjun er settur þakdúkur á steypta þakplötu og timburpallur yfir dúk. Nýtt svalahandrið verður timburgrind með lóðréttri borðaklæðningu á báðum hliðum. Hæð handriðs verður 110 cm frá timburpalli.“ Einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Byggingarfulltrúa er hins vegar að lögum falið að hafa eftirlit með byggingarframkvæmdum og grípa til viðeigandi aðgerða, t.d. ef byggt hefur verið á annan hátt en leyfi stendur til, frágangi eða viðhaldi húss er ábótavant, af því stafi hætta eða ekki hafi verið gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Aðila máls greinir ekki á um að byggingarnefndarteikningar að umræddum bílskúr frá árinu 1964 sýna ekki handrið ofan á honum. Hins vegar kemur fram í gögnum málsins að líklegt sé að handrið hafi verið á þaki bílskúrsins um langt skeið og rennir skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi stoðum undir það. Sama á við um steyptar tröppur upp á þak skúrsins. Þrátt fyrir að gögn málsins beri ekki með sér frá hvaða tíma nefnt þak hafi verið nýtt sem svalir má ætla að sá möguleiki hafi verið fyrir hendi í áratugi. Er ekki um það deilt að leyfi byggingarfulltrúa hefur ekki verið fyrir hendi fyrir slíkri nýtingu, en hún virðist hafa átt sér stað án athugasemda borgaryfirvalda. Í framlagðri umsókn er ekki sótt um leyfi til að nýta umrætt svæði sem svalir, en ljóst er þó að með því að heimila hið umdeilda handrið skapast aðstaða til að nýta þakið til útivistar.

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu. Kom kærandi að athugasemdum af því tilefni. Við yfirferð málsins hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru ekki gerðar athugasemdir vegna hugsanlegrar eldhættu. Þá voru við meðferð málsins gerðar þær breytingar frá fyrri erindum að í stað þess að handrið á þaki nefnds bílskúrs lægi að mörkum lóðar kæranda var það fært innar á þak bílskúrsins, eða um 1,5 m frá lóðamörkum. Er greind breyting til þess fallin að draga úr mögulegum grenndaráhrifum gagnvart kæranda. Verður hvorki séð að umrætt handrið muni auka skuggavarp í garði kæranda né að innsýn muni aukast að marki þegar litið er til staðsetningar útidyra og glugga á húsi leyfishafa, sem snúa að garðinum. Þá verður að líta til þess að almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð.

Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir á næstu lóðir, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að grenndaráhrif í máli þessu, eins og að framan er lýst, séu ekki slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Eins og atvikum er hér sérstaklega háttað, og þar sem ekki verður séð að neinir þeir aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði, verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. apríl 2014 um að samþykkja leyfi til að endurnýja handrið á þaki bílskúrs á lóðinni nr. 17 við Bugðulæk í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

7/2014 Lindargata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kæra Þ, Jöklagrunni 23, Reykjavík, og R, Hólmi, Landbroti, eigendur fasteignanna að Veghúsastíg 9a, að hluta, og Lindargötu 34 og 34a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. apríl 2016, afturkölluðu núverandi eigendur Lindargötu 34 og 34a kæruna fyrir sitt leyti. RR hótel ehf., sem á nú fasteignina að Vegahúsastíg 9a, hefur hins vegar tekið við rekstri kærumálsins er þá fasteign varðar.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda, en því var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 30. júní 2014.

Málavextir: Hinn 21. júní 2013 tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireita 1.152.410-1.152.412, vegna lóðanna nr. 28, 30 og 32 við Lindargötu. Var í henni gert ráð fyrir að nefndar lóðir yrðu sameinaðar, sex bílastæði á jarðhæð húsa samkvæmt gildandi skipulagi yrðu felld niður, byggingarreitir dýpkaðir og nýr byggingarreitur afmarkaður syðst á lóðinni. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að auglýsa umsótta skipulagsbreytingu og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá þáverandi eigendum Vatnsstígs 9a. Hin auglýsta tillaga var síðan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 9. október 2013, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, er lagði til að „flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og að bætt yrði við í skilmála að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið sem sneri að Lindargötu 34. Staðfesti borgarráð greinda ákvörðun 17. s.m.

Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu, sem taldi að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnis breytingarinnar þar sem skýra þyrfti betur atriði um hámarkshæð nýbygginga og bílastæði. Í kjölfar þessa sendi Reykjavíkurborg skýringar og lagfærðan deiliskipulagsuppdrátt til Skipulagsstofnunar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. janúar 2014, kom fram að ósamræmi væri í upplýsingum um hæðir nýbygginga. Taka þyrfti ákvörðun um hver hámarkshæð ætti að vera og senda síðan þeim sem gert hefðu athugasemdir við hæð ný svör með skýringum. Var á ný gerð breyting á uppdrætti deiliskipulagsins. Öðlaðist skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fasteign hans liggi að skipulagsreitnum. Á skýringaruppdráttum deiliskipulagsins sé ekki gerð grein fyrir fasteigninni með nægjanlegum hætti og sé lýsing skipulagsverksins ekki í samræmi við gr. 5.2.3. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ekki hafi verið haft samráð við kæranda, sbr. gr. 5.2.1. í reglugerð, en honum hafi aldrei verið tilkynnt um tillöguna. Þá verði að telja óheimilt, með hliðsjón af gr. 5.3.1. í reglugerðinni, að breyta einstökum reitum deiliskipulags án tillits til heildarhagsmuna viðkomandi hverfis.

Vísað sé til ógildingarúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 105/2005, en flest þau rök sem þar sé byggt á eigi við í máli þessu. Skírskotun til almenningssamgangna og nálægðar við miðbæ séu ekki viðhlítandi rök fyrir því að slakað sé á kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu. Einnig megi draga í efa að fullnægt sé kröfum um greiðar aðkomuleiðir slökkviliðs og sé í því sambandi bent á 3. mgr. í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerðinni. Þá sé ekki ljóst hvernig tryggja skuli aðkomu að bakhúsum á umræddri lóð. Hin kærða ákvörðun þrengi að kostum kæranda til frekari uppbyggingar á lóð hans og geri fasteign hans í raun nær verðlausa. Fylgi heimiluðum byggingum skuggavarp.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar. Farið hafi verið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Eldra deiliskipulag svæðisins frá árinu 2004 hafi gert ráð fyrir að hús á umræddum lóðum myndu víkja og í þeirra stað mætti byggja þriggja hæða hús með risi og kjallara. Við skipulagsbreytingu sé ekki gerð grein fyrir byggingum utan þess svæðis sem breytingin taki til. Tilvitnun kærenda í gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi ekki við um framsetningu deiliskipulagstillögu heldur lýsingu á deiliskipulagstillögu fyrir auglýsingu, sem hér eigi ekki við. Samkvæmt gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð sé samráð við skipulagsgerð bundið við þá aðila sem skipulagið nái til en aðrir eigi þess kost að koma á framfæri athugasemdum við kynningu þess.

Deiliskipulagsbreyting geti eftir atvikum tekið til afmarkaðra reita eða lóða og sé afmörkun þess svæðis sem skipulagsbreytingin taki til ekki andstæð lögum. Forsendur úrskurðar sem kærandi vísi til eigi ekki við í máli þessu. Ekki séu gerðar kröfur í skipulagsreglugerð um fjölda bílastæða. Verði að hafa í huga staðsetningu umrædds svæðis við miðborg og þá stefnu að auka veg almenningssamgangna og stuðla að því með skipulagi að menn gangi eða hjóli milli staða. Ekkert bendi til þess að hin kærða ákvörðun leiði til verðrýrnunar á fasteignum kærenda. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að uppbygging óbyggðra lóða á svæðinu geti aukið verðmæti fasteignanna með styrkingu heildarmyndar götunnar. Tekið sé fram í skilmálum skipulagsbreytingarinnar að aðkoma að bakhúsi og garði sé tryggð og megi þak bakhúss ekki fara upp fyrir vegghæðir aðliggjandi húsa. Við veitingu byggingarleyfa séu uppdrættir yfirfarnir af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með tilliti til brunavarna. Eigi því fullyrðingar um ótrygga aðkomu að bakhúsi og að þrengt sé að möguleikum til uppbyggingar á lóðum þeirra ekki við rök að styðjast. Þá hafi verið gerðar breytingar á tillögunni til að draga úr skuggavarpi.

Málsrök lóðarhafa Lindargötu 28-32: Lóðarhafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
                        ——

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti.

Niðurstaða: Í skilmálum fyrir deiliskipulag Skúlagötusvæðis, sem samþykktir voru árið 2004, var gert ráð fyrir að hús á lóðunum Lindargötu 28, 30 og 32 yrðu rifin eða fjarlægð og að reisa mætti í þeirra stað hús á þremur hæðum, með risi og kjallara. Felur hið kærða deiliskipulag m.a. í sér að fyrrgreindar lóðir verði sameinaðar. Er byggingarheimild sú sama og áður að því viðbættu að nýr byggingarreitur er afmarkaður syðst á lóðinni fyrir einnar hæðar bakhús. Felld eru út bílastæði og hæðir húsa eru leiðréttar frá gildandi deiliskipulagi, miðað við uppmælingu landupplýsingadeildar Reykjavíkurborgar samkvæmt skipulaginu. Við breytinguna verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,84 og með kjallara 2,15.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi ofangreindra lóða var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ekki skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr.  gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem um breytingu á deiliskipulagi var að ræða. Að loknum kynningartíma tillögunnar voru m.a. gerðar þær breytingar á henni „að flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og bætt var við skilmála skipulagsins að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið er snýr að Lindargötu 34. Þrátt fyrir að skipulagsuppdráttur sýni ekki þann hluta hússins að Veghúsastíg 9a, sem víkja skyldi samkvæmt eldra deiliskipulagi, má af framsetningu hans ráða hver afstaða hins breytta skipulagssvæðis var gagnvart nærliggjandi lóðum. Var með því fullnægt ákvæðum í gr. 7.1. í skipulagsreglugerð þar um.

Kærandi vísar til þess að lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við meðferð málsins hjá skipulagsyfirvöldum, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Fallast má á að skortur á sérstöku samráði sé ágalli á meðferð málsins, en þegar litið er til þess að kærandi kom að athugasemdum við auglýsta tillögu verður sá annmarki ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.

Í skilmálum deiliskipulagsbreytingarinnar segir að aðkoma að garði og bakhúsi skuli vera tryggð án þess að farið sé í gegnum íbúðir. Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að fyrir hendi er aðkoma úr vestri að húsum á baklóð hinnar sameinuðu lóðar og verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð um aðkomu að baklóðum og aðgengi fyrir neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gámastæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóðauppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð.

Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða. Hins vegar er í byggingarreglugerð kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða, en ekki er gert ráð fyrir slíkum stæðum í hinni kærðu ákvörðun. Sú vöntun hefur þó ekki áhrif á gildi hennar en fyrir hendi eru ákvæði í byggingarreglugerð þar um sem taka verður tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum.

Loks er ástæða til að benda á að sveitarstjórnir fara með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þau lög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki verður séð að fyrir hendi séu neinir aðrir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar að leiða eigi til ógildingar hennar, verður kröfu kæranda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

106/2014 Austurbrún

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Austurbrúnar 14 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2014, er barst nefndinni 15. s.m., kæra 49 íbúar við Austurbrún og Vesturbrún sömu ákvörðun. Gera allir kærendur þá kröfu að ákvörðun borgarráðs verði felld úr gildi. Þar sem kærurnar lúta báðar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 126/2014, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. október 2014 og 13. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 2. apríl 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás. Í tillögunni fólst breyting á afmörkun deiliskipulagsreitsins og aukning á byggingarmagni lóðarinnar nr. 6 við Austurbrún. Var gert ráð fyrir nýjum byggingarreit á lóðinni fyrir sambýli með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða. Á sama fundi var samþykkt að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var dreifibréfi, dags. 30. apríl 2014, dreift til íbúa þar sem vakin var athygli á umræddri auglýsingu og fresti til að skila inn athugasemdum. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum frá 5. maí  til 16. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum, og var öllum athugasemdum svarað af skipulagsfulltrúa með bréfi, dags. 27. júlí s.á. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. september s.á. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 2. október 2014. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.
 
Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki hafi verið heimilt að fara með breytingu á skipulagi vegna lóðarinnar að Austurbrún 6 líkt og um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss væri að ræða, þar sem greint skipulag taki ekki til lóðarinnar. Ekki sé hægt að breyta deiliskipulagi svæðis sem aldrei hafi verið deiliskipulagt. Breyting á deiliskipulagi eigi að taka til lóðar eða svæðis innan deiliskipulagssvæðis en ekki utan þess. Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem fastmótuð byggð og hafi íbúar því mátt treysta því að ekki kæmi umfangsmikil nýbygging á skipulagssvæðið. Ef gerðar séu breytingar á fullbyggðu og fastmótuðu hverfi þurfi að standa til þess ríkar málefnalegar ástæður. Hin kærða skipulagsbreyting muni hafa áhrif á alla heildarmynd hverfisins, þrengja mjög að og takmarka útsýni.

Að auki samræmist fjöldi bílastæða ekki stefnu aðalskipulags um bílastæði. Ákvæði um fjölda bílastæða hafi lengi verið bundin í skipulags- og byggingarreglugerðum og verði að miða við að a.m.k. eitt stæði eigi að fylgja hverri íbúð auk stæða fyrir fatlaða. Í húsi því sem fyrir sé á umræddri lóð séu 72 íbúðir en 40 bílastæði og sé augljóst að ekki hafi verið farið eftir greindum reglum. Nú þegar sé mikill bílastæðaskortur á lóðinni nr. 6 við Austurbrún og megi gera ráð fyrir að starfsfólk og gestir í nýju sambýli muni nýta sér gestastæði við Austurbrún 8-14. Einnig sé bent á að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7, sem sé yfir nýtingarhlutfalli lóða í nágrenninu. Sé frekari nýting á lóðinni fordæmisgefandi en með fyrirhugaðri breytingu hækki nýtingarhlutfall í 0,81.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er ekki fallist á að ólögmætt hafi verið að breyta deiliskipulagi með því að stækka skipulagssvæðið um eina lóð þótt æskilegra hefði verið að deiliskipuleggja reitinn Vesturbrún og Austurbrún í heild sinni. Umrædd lóð liggi alveg að mörkum deiliskipulagsvæðisins og allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi.

Í nýlegu aðalskipulagi sé m.a. lögð áhersla á þéttingu byggðar. Hin kærða skipulagsbreyting sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag. Að auki sé á það bent að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Helstu málefnalegu ástæður fyrir hinni kærðu skipulagsbreytingu megi finna í stefnumörkun um þéttingu byggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og bent sé á að mikill skortur sé á húsnæði fyrir hreyfihamlaða einstaklinga í borginni. Með heimilaðri byggingu sé verið að koma til móts við þarfir þessa hóps með framboði á sérhönnuðu húsnæði í gróinni íbúðarbyggð, með lágmarks tilkostnaði, þar sem öll grunnþjónusta sé fyrir hendi. Með þessu sé verið að gæta almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. 

Heildarmynd hverfisins muni ekki skerðast og sé lögð áhersla á að fyrirhuguð bygging taki mið af aðliggjandi byggingum. Ekki liggi fyrir endanleg útfærsla byggingarinnar heldur sé skýringarmynd með umræddri breytingartillögu aðeins til viðmiðunar. Heildarfjöldi bílastæða á lóðinni fari úr 44 í 49. Um sé að ræða sambýli fyrir fjölfatlaða einstaklinga sem aki almennt ekki bíl og séu því háðir akstursþjónustu. Enn fremur sé bent á að íbúar og gestir að Austurbrún 6 hafi aðgang að bílastæðum meðfram Austurbrún til jafns við aðra íbúa í hverfinu. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7 en meðalnýtingarhlutfall lóða á öllu svæðinu sé 0,6.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að reynslan sýni að bílastæði við húsið að Austurbrún 6 séu vannýtt. Bendi mælingar til þess að eitt bílastæði dugi fyrir hverja fjórar íbúðir. Samkvæmt því dugi 17 bílastæði fyrir 71 íbúð. Sé fullyrðingu kærenda um bílastæðaskort því hafnað.

Það hafi í för með sér jákvæð samlegðaráhrif að reka fleiri en eina húseign á samliggjandi lóðum. Eigi það m.a. við um viðhald lóða, bílastæða, eftirlit og viðhald með húsum. Jafnframt sé bent á að undanfarin ár hafi það verið haft að leiðarljósi að dreifa og blanda félagslegu húsnæði sem mest um ólík hverfi borgarinnar.

Niðurstaða: Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að deiliskipulagssvæði reits 1.381, Laugarás, er stækkað um eina lóð, þ.e. lóðina nr. 6 við Austurbrún. Á þeirri lóð er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit, þar sem fyrirhuguð er bygging sambýlis með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða einstaklinga. Húsið verði að hámarki 600 m2 og nýtingarhlutfall hækki úr 0,7 í 0,8. Að auki er gert ráð fyrir sjö bílastæðum, þar af fjórum fyrir hreyfihamlaða. 

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal það að jafnaði taka til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Segir síðan í 1. mgr. 43. gr. laganna að sveitarstjórn sé heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi telji hún þess þörf. Hin kærða skipulagsbreyting felur m.a. í sér að ódeiliskipulagðri lóð er aukið við svæðið sem gildandi deiliskipulag tekur til. Í greinargerð frumvarps þess er varð að núgildandi skipulagslögum er tekið fram að með því að miða við að deiliskipulag taki til svæða sem mynda heildstæða einingu sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir. Hins vegar er hvorki að finna í lögum né reglugerðum bann eða takmarkanir á því að stækka svæði gildandi deiliskipulags, líkt og felst í hinni kærðu ákvörðun.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði ÍB24, Laugarás. Er því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu svæði og að yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt bæði í húsagerð og byggingarstíl. Meðal helstu markmiða aðalskipulagsins er þétting byggðar og verði a.m.k. 90 % nýrra íbúða innan núverandi þéttbýlismarka. Þá sé markmiðið að auka fjölbreytni og blöndun innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða, eins og unnt sé. Jafnframt er tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Að framangreindu virtu verður ekki annað séð en að hin kærða skipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, sé jafnframt fullnægt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var tillagan kynnt nágrönnum á svæðinu, hún síðan auglýst, athugasemdum svarað, samþykkt tillaga send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimilað að byggja einlyft hús að hámarki 600 m2 fyrir sambýli sex fjölfatlaðra einstaklinga. Á sömu lóð er þegar fyrir 13 hæða fjöleignarhús. Umrætt svæði einkennist af fjölbreyttum húsagerðum og er þar m.a. að finna einbýlishús og háreist fjölbýlishús. Í því ljósi verður ekki séð að umdeilt hús breyti nokkru um yfirbragð núverandi byggðar. Málefnalegar ástæður liggja að baki umræddri skipulagsbreytingu, en með henni er að því stefnt að bregðast við húsnæðisskorti fyrir tiltekinn þjóðfélagshóp og auka hagkvæmni í rekstri með samnýtingu þjónustu sem þegar er fyrir hendi í húsi því sem fyrir er á títtnefndri lóð.

Ekki er í núgildandi lögum eða reglugerðum á sviði skipulags- og byggingarmála kveðið á um  lágmarksfjölda almennra bílastæða á lóð, en þar sem eru 5-12 íbúðir eru á lóð þurfa að vera tvö stæði fyrir hreyfihamlaða sbr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er framangreindu skilyrði um lágmarksfjölda stæða fyrir hreyfihamlaða fullnægt í umdeildri skipulagsbreytingu. Jafnframt er tekið fram í b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi skuli hverju sinni setja skilmála um fjölda bílastæða. Í umræddri skipulagsbreytingu er tilgreindur fjöldi almennra stæða, sem og fjöldi stæða fyrir hreyfihamlaða, og samræmist hún því greindu ákvæði skipulagsreglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða skipulagsbreyting sé haldin þeim annmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

42/2014 Snjallsteinshöfði

Með
Árið 2016, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að gefa út starfsleyfi til Eldfelds ehf. fyrir rekstur loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2014, er barst nefndinni 15. s.m., kæra Á, Vöðlum, Rangárþingi ytra, og M og Ó, bæði til heimilis að Grásteini, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 29. apríl 2014 að veita Eldfeldi ehf. starfsleyfi til reksturs loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 13. júní 2014, 19. apríl 2016 og 25. s.m.

Málavextir: Með umsókn, dags. 5. desember 2013, sótti Eldfeldur ehf. um starfsleyfi fyrir rekstri minkabús með allt að 1000 dýrum að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra. umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti vegna umsóknarinnar undanþágu frá þágildandi reglum um fjarlægðarmörk í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, en þar sagði að óheimilt væri að hafa loðdýrabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem næmi 500 metrum. Undanþágan var veitt vegna fjarlægðar á milli loðdýrahúsa og íbúðarhúss að Vöðlum, en hún er 470 metrar. Jafnframt veitti ráðuneytið undanþágu vegna fjarlægðar á milli íbúðarhúss að Snjallsteinshöfða 2 og loðdýrabúsins, en fjarlægð þar á milli er innan við 300 metrar. Eru bréf ráðuneytisins dags. 6. febrúar og 30. apríl 2014.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands fékk staðfestingu á því með tölvupósti 16. janúar 2014 að samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 væri spilda sú sem fyrirhuguð loðdýrahús stæðu á skilgreind sem landbúnaðarsvæði og samræmdist loðdýrabú með 1000 dýrum þeirri landnotkun. Starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins framkvæmdi úttekt á væntanlegu búi 25. febrúar s.á.

Auglýsing um starfsleyfi til kynningar vegna loðdýrabús að Snjallsteinshöfða birtist í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands, 6. mars 2014. Þar kom m.a. fram að starfsleyfið væri til kynningar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og á skrifstofu Rangárþings ytra og að frestur til að skila inn athugasemdum væri til 4. apríl s.á. Skiluðu kærendur inn athugasemdum við starfsleyfisdrögin.

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 29. apríl 2014 var ákveðið að gefa út starfsleyfi vegna nefnds loðdýrabús og var leyfið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 5. maí s.á. Var leyfið gefið út til fjögurra ára, eða til 5. maí 2018. Eftir að kærendum hafði verið kynnt ákvörðunin fóru þeir fram á rökstuðning fyrir henni og var sá rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 14. maí 2014..

Málsrök kærenda:
Í kæru kemur fram að í nálægð við loðdýrabúið að Snjallsteinshöfða 3 séu ýmist staðsett íbúðarhús eða búið að skipuleggja frístundabyggð. Til dæmis sé hús eins kæranda að Vöðlum um 470 metra frá loðdýrabúinu, deiliskipulögð frístundabyggð á jörðinni Árbakka um 280 metra frá því og íbúðarhús kærenda að Grásteini um 1.080 metra frá búinu. Kærendur hafi því ríka ástæðu og lögvarða hagsmuni af því að búið sé ekki starfrækt án þess að skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt. Loðdýrabú geti haft margvísleg áhrif á nærliggjandi svæðum, m.a. geti skapast aukin hætta á að vatnsból mengist og hætta á að vatn fyrir dýr spillist. Þá sé ávallt hætta á að minkarnir sleppi út en í nálægð við búið séu hænur, húsdýr og heimilisdýr. Auk þessa hafi kærendur unnið að friðun á tjörnum á svæðinu, m.a. á þeirri tjörn sem sé rétt fyrir neðan loðdýrabúið, og varpfuglar hafi komið á hverju ári og fest rætur sínar á svæðinu. Af öðrum áhrifum af völdum minkabúsins megi nefna verulega lyktarmengun og mengun vegna dreifingar skíts úr búinu en um meðferð loðdýraskíts gildi strangari kröfur en um annan húsdýraáburð. Jafnframt þurfi að hafa í huga meindýravarnir, þá sérstaklega hvað varði flugur, og að endingu sé hugsanleg smithætta frá búinu er geti t.d. skaðað nýköstuð folöld.

Kærendur telji að starfsemi loðdýrabúsins muni hafa í för með sér hömlur á framtíðarmöguleika þeirra til nýtingar þess lands sem sé á áhrifasvæði búsins. Slík takmörkun muni eðlilega hafa í för með sér skert verðmæti þeirra jarða og þar með tjón fyrir kærendur. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærendur hafi verulega lögvarða hagsmuni í málinu.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að fyrir hafi legið að fjarlægð á milli íbúðarhúss að Vöðlum og loðdýrahúsa rekstraraðila stæðist ekki fjarlægðarmörk skv. þágildandi 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, en 470 m væru á milli húsanna. Sótt hefði verið um undanþágu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna þessa og hún verið veitt með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. febrúar 2014, og áréttuð með bréfi, dags. 30. apríl s.á.

Jafnframt hafi við útgáfu starfsleyfisins legið fyrir afstaða skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins um að starfsemin væri í samræmi við aðalskipulag, sem sé nægilegt skv. b. lið gr. 10.2 í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar um úttekt Matvælastofnunar varðandi þeirra þátt í eftirliti með rekstri loðdýrabúsins samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, lögum nr. 38/2013 um búfjárhald og þágildandi reglugerð um aðbúnað og meðferð minka og refa nr. 165/2007, en það séu atriði er varði húsakost, aðbúnað, öryggisþætti, t.d. að bú séu vörsluheld, og velferð dýranna. Í fyrrgreindri reglugerð sé skýrt tekið fram að Landbúnaðarstofnun (nú Matvælastofnun) og héraðsráðunautur skuli setja búinu skrifleg fyrirmæli um slíkt og það sé því ekki á ábyrgð heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, eða heilbrigðiseftirlits í þeirra umboði.

Megintilgangur starfsleyfisskilyrða fyrir loðdýrabú og eftirlits með þeim sé að draga úr mögulegri mengun af völdum atvinnurekstrarins í umhverfi sínu. Matvælastofnun hafi aðrar skyldur og sé heilbrigðiseftirlitinu einungis heimilt að setja starfseminni skilyrði útfrá skilgreindu valdsviði sínu. Við ákvörðun um útgáfu starfsleyfis verði stjórnvöld að treysta því að önnur stjórnvöld framfylgi þeim lögum og reglum sem þeim beri og í þessu ákveðna máli hafi legið fyrir upplýsingar um eftirlit Matvælastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi tjarnir í nágrenni framkvæmdaraðila ekki verið friðaðar og engin hverfisvernd nálægt búinu. Heilbrigðiseftirlitið telji að þrátt fyrir útgefið starfsleyfi muni varpfuglar halda áfram að koma að Vöðlum og að tjörn í nágrenni loðdýrabúsins.

Hvað varði athugasemdir um mögulega spillingu vatnsbóla og drykkjarvatns dýra þá sé vatnsveita sveitarfélagsins á svæðinu og neysluvatn fullnægjandi samkvæmt mælingum heilbrigðiseftirlitsins. Engin vatnsból séu merkt í nágrenni búsins á aðalskipulagi og önnur starfsleyfisskyld vatnsból séu ekki á skrá heilbrigðiseftirlitsins. Eftirlitið telji að litlar líkur séu á neikvæðum áhrifum frá starfseminni á drykkjarvatn dýra, enda óheimilt að dreifa skít á stöðum þar sem hann geti mengað ár, læki eða vatnsból, sbr. grein 2.3 í skilyrðum hins umdeilda starfsleyfis.

Varðandi mögulegar hömlur á nýtingarmöguleikum á landi því sem sé á áhrifasvæði framkvæmdaraðila sé fallist á að starfsemin muni mögulega hafa hamlandi áhrif á notkun þess svæðis sem sé innan 500 metra radíusar frá loðdýrabúinu. Í þessu máli hafi hins vegar bæði legið fyrir afstaða skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins og undanþága umhverfis- og auðlindaráðuneytis og því ekki á valdi heilbrigðiseftirlitsins að taka afstöðu til mögulegrar framtíðarlandnýtingar byggðrar á skipulagslegum forsendum.

Varðandi athugasemdir um að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi átt að leita umsagna áður en starfsleyfi sé veitt og láta fylgja með umsagnarbeiðni rökstutt álit á áhrifum hugsanlegar mengunar, sbr. gr. 9 í reglugerð nr. 785/1999, sé bent á að starfsleyfisskilyrðin sem til umfjöllunar séu í málinu séu unnin í samvinnu við Umhverfisstofnun og önnur heilbrigðiseftirlitssvæði. Þau séu því samræmd á landsvísu.

Hvað varði mat á mengun og áhrif á umhverfið skuli það upplýst að áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfis sé tekin geri Heilbrigðiseftirlit Suðurlands áhættumat á umhverfis- og mengunarþáttum og hafi það legið fyrir við ákvörðun  um útgáfu hins kærða leyfis.

Varðandi verulega lyktarmengun og mengun vegna dreifingar skíts frá búinu sé lögð áhersla á kröfur um meðhöndlun skíts og dreifingu hans í samræmdum starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, og sé starfsleyfi í samræmi við þau, eins og áður hafi komið fram. Með þeim skilyrðum sé verið að fyrirbyggja ranga meðhöndlun úrgangs og mögulega mengun af hans völdum. Jafnframt sé ákvæði í starfsleyfisskilyrðunum um að heilbrigðisnefnd geti krafist sértækra aðgerða ef ólykt frá starfseminni valdi óþægindum. Heilbrigðisnefndin telji að ferlið við afgreiðslu hins kærða starfsleyfis hafi verið lögmætt að öllu leyti.

Athugasemdir kærenda við málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi ekki verið heimilt að meta hvaða upplýsingar væri nauðsynlegt að fylgdu með umsókn skv. gr. 10 í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í gr. 10 segi að nánar tiltekin atriði skuli fylgja umsókn eins og við eigi hverju sinni og túlka eigi ákvæðið þannig að það sé skylda allra umsækjenda að láta þau skjöl fylgja sem við eigi um þann rekstur sem þeir séu að sækja um starfsleyfi fyrir. Orðalagið „eins og við á hverju sinni“ sé einungis tilkomið vegna þeirra aðstæðna þegar tiltekin gögn/upplýsingar eigi hreinlega ekki við fyrirhugaða starfsemi. Ef ákvæðinu hefði verið ætlað að veita heilbrigðisnefnd frjálsar hendur um að meta hvaða gögn og upplýsingar hún teldi fullnægjandi væri greinin væntanlega öðruvísi orðuð. Orðalag 10. gr. verði augljóslega að skýra þannig að fara þurfi í gegnum hvern lið ákvæðisins og kanna hvort þau skjöl og upplýsingar sem „eigi við“ fylgi umsókninni. Til að mynda bendi ekkert til að „lýsing á tilhögun innra eftirlits vegna losunar út í umhverfið“, sbr. h-lið gr. 10.2, hafi fylgt umsókn framkvæmdaraðila um starfsleyfi.

Ætíð hafi verið í gildi strangar reglur um minkabú vegna umhverfisáhrifa sem slík bú hafi í för með sér, sérstaklega varðandi staðsetningu, aðbúnað, vörsluheldni búanna og varnir gegn mengun frá slíkum búum. Kærendur telji að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi borið að vísa frá umdeildri umsókn um starfsleyfi vegna ófullnægjandi upplýsinga í umsókninni.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um málið en kaus að gera það ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 29. apríl 2014 að gefa út starfsleyfi til reksturs loðdýrabús.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Fram kemur í gögnum málsins að tæplega 1.100 metrar eru á milli hinna umdeildu loðdýrahúsa að og íbúðarhúss tveggja kærenda að Grásteini. Samkvæmt skilyrðum í hinu umdeilda starfsleyfi er gert ráð fyrir að skít verði dreift utanhúss. Eðli málsins samkvæmt er slík starfsemi til þess fallin að hafa í för með sér lyktarmengun og getur hún borist um langan veg ef veðurfarsskilyrði eru með ákveðnum hætti. Er því ekki hægt að útiloka að umrædd starfsemi geti snert lögvarða hagsmuni kærenda að Grásteini.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér menguner nr. 785/1999.,Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi, þ. á m. loðdýrarækt, sbr. gr. 6.1. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 7/1998 starfa heilbrigðisfulltrúar í umboði heilbrigðisnefndar, sbr. og gr. 6.2 reglugerðar nr. 785/1999.

Við meðferð umsóknar um starfsleyfi er heilbrigðisnefnd fyrst og fremst ætlað að fjalla um mögulega mengun vegna atvinnureksturs sem sótt er um starfsleyfi fyrir en eftirlit með húsnæði, aðbúnaði dýra, öryggisþáttum og smitvörnum er á hendi annarra stjórnvalda. Ber heilbrigðisnefndinni að vinna að markmiðum reglugerðar nr. 785/1999, sem talinn voru upp hér að framan, en í reglugerðinni er að finna ákvæði um hvernig staðið skuli að leyfisveitingum svo að greind markmið um lágmörkun mengunar og samþættar mengunarvarnir verði sem best tryggð, m.a. með samræmdum kröfum og skilyrðum í starfsleyfum.

Rekstur minkabúa er rótgróin atvinnugrein í landbúnaði á Íslandi og möguleg umhverfisáhrif búanna eru talin það fyrirsjáanleg að samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga fyrir loðdýrabú hafa verið útbúin í samræmi við fyrirmæli þar um í gr. 14.2, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Í starfsleyfisskilyrðunum er tekin afstaða til þess hvernig best verði staðið að viðkomandi starfsemi með tilliti til mengunarvarna, m.a. eru þar ákvæði um meðferð og eyðingu dýrahræja og meðhöndlun á dýraskít, hálmi og heyi úr loðdýrabúum. Þar eru jafnframt ákvæði um að standa skuli þannig að dreifingu á úrgangi úr búi að ekki sé hætta á mengun í vatnsbólum eða í yfirborðsvatni og að tryggt sé að dreifingin valdi ekki öðrum óþægindum eða ama s.s. vegna lyktar eða óþrifnaðar. Er sérstaklega tekið fram að ef í ljós komi að loftmengun eða ólykt frá starfseminni valdi fólki á nærliggjandi landareignum óþægindum sé heilbrigðisnefnd heimilt að krefjast sérstakra aðgerða. Hefur viðkomandi heilbrigðiseftirlit eftirlitsskyldu með því að starfsleyfisskilyrði séu uppfyllt.

Þótt samræmd starfsleyfisskilyrði liggi fyrir er jafnframt þörf á því að heilbrigðisnefnd taki sjálfstæða afstöðu til þess hvort umsókn framkvæmdaraðila og fyrirliggjandi gögn uppfylli þau skilyrði sem sett eru í reglugerð nr. 785/1999 og meti hvort starfsleyfi verði veitt á grundvelli þeirra. Fyrir liggur að undanþága var veitt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna fjarlægðarmarka í þágildandi 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Áður en starfsleyfið var veitt gerði starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins úttekt á fyrirhugaðri starfsemi rekstraraðila og jafnframt var gengið úr skugga um að starfsemin væri í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag er ekki til fyrir svæðið. Var það mat heilbrigðisnefndar að framangreindar upplýsingar væru nægjanlegar til að skilyrði gr. 10.2 í reglugerð nr. 785/1999 væru uppfyllt og verður fallist á það mat, sérstaklega með tilliti til þess sem áður sagði um þau samræmdu starfsleyfisskilyrði sem um ræðir í málinu.

Drög að starfsleyfinu voru auglýst 6. mars 2014 og voru til kynningar til 4. apríl s.á., í samræmi við fyrirmæli gr. 24 í reglugerð nr. 785/1999, og loks var starfsleyfið gefið út til fjögurra ára, sbr. fyrirmæli gr. 12.1, þar sem segir að sé starfsleyfi gefið út án þess að fyrir liggi deiliskipulag skuli það ekki gefið út til lengri tíma en fjögurra ára.

Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir, málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt að öðru leyti til útgáfu hins kærða starfsleyfis. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að gefa út starfsleyfi til Eldfelds ehf. fyrir rekstur loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

31/2016 Hótel Orustustaðir

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 31/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og leigutakar jarðarinnar Hraunbóls í Skaftárhreppi þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Orustustaði, Skaftárhreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Hinn 26. október 2015 samþykkti sveitarstjórn Skaftárshrepps deiliskipulag fyrir Orustustaði í Skaftárhreppi. Tók skipulagsbreytingin gildi 17. febrúar 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærendur krefjast frestunar réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar á tilteknu svæði. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem gert er ráð fyrir í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

123/2014 Skipasund

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Skipasundi 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2014, er barst nefndinni 4. desember s.á., kærir Á, Skipasundi 41, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. janúar 2014.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja svalir með tröppum niður í garð við húsið að Skipasundi 43, breyta staðsetningu kofa og færa innkeyrslu og byggingarreit fyrir bílskúr á lóðinni. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á fundi sínum 11. s.m. að grenndarkynna umsóknina. Eftir grenndarkynninguna var málið á dagskrá skipulagsfulltrúa, sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs á fundi hinn 5. september 2014. Umhverfis- og skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 10. s.m. Á fundinum lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. þar sem fram komnum athugasemdum var svarað og mælt með því að umsóknin yrði samþykkt með tilgreindum skilyrðum. Engar athugasemdir komu fram á fundinum við umsögnina og var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti umsóttar breytingar á fundi hinn 16. september 2014.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að útfærsla svala með stiga niður í garð, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, geri það að verkum að þaðan sé horft beint inn í stofu og sólstofu kæranda. Viðbygging við hús kæranda hafi verið hönnuð með stórum gluggum til austurs þar sem ekki hefði verið um innsýn að ræða, en með tilkomu nefndra svala og stiga yrði staðan önnur. Kærandi hafi ekki mótmælt þessum framkvæmdum enda talið einfalt að hindra þessi áhrif með útfærslu mannvirkisins og hækkun skjólveggjar upp í 1,5 m. Raunin hafi hins vegar orðið sú að horft sé frá svölunum og stiganum inn í stofu og sólstofu kæranda. Óbreytt ástand muni verða kæranda til ama og leiða til þess að fasteign hans falli í verði. Loks sé farið fram á að smáhýsi sem standi of nálægt umræddum lóðamörkum verði fært til samræmis við ákvörðun byggingarfulltrúa og ákvæði byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að að tekið hafi verið tillit til fram kominna athugasemda kæranda við grenndarkynningu fyrirhugaðra breytinga að Skipasundi 43. Sá hluti skjólveggjar er snúi að fasteign kæranda hafi verið hækkaður í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka innsýn í stofu og borðstofu kæranda. Ekki verði talið að mannvirkið hafi slíka röskun í för með sér gagnvart kæranda að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi  en um 12 m séu milli umræddra svala og húss kæranda. Heimilaðar svalir hafi ekki meiri grenndaráhrif en að jafnaði megi búast við þegar breytingar séu gerðar á húsum í þéttbýli. Skúr sá sem standi á nefndri lóð sé innan við 10 m2 að stærð og sé ekki byggingarleyfisskyldur. Skúrinn beri þó að staðsetja minnst þrjá metra frá lóðamörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Andmæli byggingarleyfishafa: Skírskotað er til þess að framkvæmdir eins lóðarhafa geti ekki takmarkað eða komið í veg fyrir framkvæmdir á nærliggjandi lóðum. Hinar kærðu breytingar séu óverulegar í samanburði við það sem samþykkt hafi verið á lóð kæranda. Vegna athugasemda kæranda hafi byggingarleyfishafi orðið við tilmælum skipulags- og byggingarsviðs um að hækka hluta skjólveggjar, sem snúi að lóð kæranda, í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka beina sýn inn um stofuglugga á húsi kæranda. Sú hlið húss kæranda sem snúi að lóð byggingarleyfishafa sé með glugga er nái frá gólfi til lofts og blasi sú hlið hússins við frá lóð leyfishafa án tillits til umdeildra framkvæmda. Bent sé á að uppbyggð verönd sé á húsi kæranda með sýn yfir á lóð leyfishafa. Smáhýsi á lóð leyfishafa verði fært þrjá metra frá lóðamörkum, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, og til að jafnræðis verði gætt sé farið fram á það að íverustaður sem kærandi hafi komið fyrir við lóðarmörk leyfishafa verði færður.

Niðurstaða:  Smáhýsi það sem kemur við sögu í máli þessu er ekki byggingarleyfisskylt, sbr. g-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hins vegar verður samkvæmt nefndu ákvæði að liggja fyrir samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar fyrir stöðu slíks húss innan þriggja metra frá lóðamörkum. Kærandi hefur lýst sig samþykkan staðsetningu hússins eins og hún er sýnd á fyrirliggjandi uppdrætti, sem staðfestur hefur verið af byggingarfulltrúa, og leyfishafi hefur lýst því yfir að húsið verði ekki staðsett nær lóðarmörkum kæranda en í þriggja metra fjarlægð. Með hliðsjón af þessum málsatvikum, og þar sem ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varðandi staðsetningu smáhýsisins sem borin verður undir úrskurðarnefndina skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður ekki fjallað frekar um þann þátt málsins.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að hönnun svala við hús byggingarleyfishafa að Skipasundi 43, sem kærandi telur að muni hafa óæskileg grenndaráhrif gagnvart sinni fasteign að Skipasundi 41 vegna innsýnar.

Húsið að Skipasundi 43 er kjallari, hæð og ris. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum eru umræddar svalir 13,6 m2 að flatarmáli og nemur gólfflötur þeirra við gólf fyrstu hæðar hússins, og er í um 2,3 m hæð frá lóðaryfirborði. Snýr skammhlið svalanna, sem er um 2,4 m að breidd, að lóð kæranda og er skjólveggur á þeirri hlið 1,5 m á hæð, en 1,1 m á öðrum hliðum svalanna. Svalirnar og stigi frá þeim niður á lóð eru úr timbri og munu vera í um 12 m fjarlægð frá húsi kæranda. Á árinu 2004 var heimiluð rúmlega 100 m2 viðbygging við hús kæranda, sem liggur í átt að lóðamörkum umræddra lóða. Er hús kæranda nú 181,1 m2 en hús byggingarleyfishafa 144,9 m2. Báðar lóðir eru jafn stórar, eða 549 m2 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Nýtingarhlutfall lóðar kæranda er því mun hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Fyrrgreindar svalir eru ekki óvenjulegar að gerð og hafa ekki meiri grenndaráhrif en almennt má búast við að fylgi svölum við sambærileg hús. Liggur fyrir að skjólveggur sem snýr að lóð kæranda var hækkaður til að draga úr innsýn í hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum  ágöllum að leitt geti til ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

29/2016 Smárinn

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 29/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Nýi Norðurturninn ehf., eigandi Hagasmára 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2015 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Smárann vestan Reykjanesbrautar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 9. nóvember 2015 samþykkti skipulagsnefnd tillögu að breytttu deiliskipulagi fyrir Smárann vestan Reykjanesbrautar. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarráði 12. s.m. og af bæjarstjórn 24. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi 9. júní 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi skírskotar til þess að verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og umfjöllun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar við afgreiðslu á hinni kærðu ákvörðun. Af þeim sökum beri að fella skipulagsbreytinguna úr gildi. Kærendur eigi lögvarða hagsmuni að gæta í málinu og sé því gerð sú krafa að engar framkvæmdir verði heimilaðar eftir hinu samþykkta deiliskipulagi á meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að í hinni kærðu ákvörðun felist engin heimild til að hefja framkvæmdir. Þær séu hvorki hafnar né yfirvofandi og beri því að hafna fram kominni stöðvunarkröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til breyttrar nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis í með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

110/2014 Hringbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 1. júní 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Víðimel 58, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. september 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79. Gerir kærandi þá kröfu að samþykki fyrir breytingum á innra skipulagi hússins “ í þeim tilgangi að breyta því úr venjulegu íbúðarhúsnæði í gistihús, verði felld úr gildi.”

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. desember 2014.

Málsatvik og rök:  Hinn 13. maí 2014 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að hækka þak og byggja kvisti, grafa frá kjallara og innrétta tvær íbúðir í húsi á lóð nr. 79 við Hringbraut. Við breytingarnar stækkaði húsið um 31 fermetra. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 16. s.m. að grenndarkynna erindið og bárust athugasemdir frá nágrönnum, þar á meðal kæranda. Skipulagsfulltrúi tók erindið fyrir að lokinni grenndarkynningu 8. ágúst 2014 og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Málið var á dagskrá ráðsins 13. s.m. sem gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 6. ágúst 2014. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 16. september 2014 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 18. s.m. Byggingarleyfi var síðan gefið út 17. október 2014.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með heimiluðum breytingum á húsinu við Hringbraut 79, sem tilheyri grónu íbúðarhverfi, sé  farið á svig við gildandi lög og reglugerðir um íbúðarhúsnæði og skipulag íbúðarhverfa í þeim tilgangi að breyta húsinu í  hótel eða gistiheimili. Samþykktar teikningar beri með sér að ekki sé gert ráð fyrir að búið verði í húsinu, sem eftir breytingar uppfylli ekki kröfur um íbúðarhúsnæði þar sem á teikningum sé ekki að finna annað eldhús en eldhúskrók í kjallara hússins. Hins vegar sé gert ráð fyrir sjö baðherbergjum. Þurfi ekki að velkjast í vafa um tilgang breytinganna og fráleitt að halda því fram að hið kærða leyfi feli í sér að breyta húsinu úr þriggja í tveggja íbúða hús. Þar sem ekki verði búið í húsinu verður ekki rekin þar heimagisting sem háð sé öðrum skilyrðum en gistiheimili og hótel. Með byggingarleyfinu sé farið á svig við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og gengið gróflega á rétt kæranda sem næsta nágranna. Húsið að Hringbraut 79 standi á horni þar sem fjöldi gangandi og hjólandi skólabarna fari um og með nýjum inngangi hússins að Hofsvallagötu sé verið að fórna öryggi á gangstéttinni og á nýrri hjólreiðabraut. Þurft hefði að leita umsagnar Hofsvallagötunefndar og Melaskóla um þá ákvörðun. Aukin ásókn ferðamanna hafi verið í leiguherbergi í íbúðarhverfum með tilheyrandi röskun og verðfalli fasteigna nágranna vegna hávaða og mengunar frá umferð þegar rútur sækji fólk og farangur á öllum tímum sólarhrings. Framganga borgaryfirvalda í máli þessu sýni að ekki sé staðið vörð um hagsmuni íbúa þegar atvinnustarfsemi eins og útleiga herbergja hafi forgang fram yfir umferðaröryggi og heimili húseigenda á staðnum. Með sömu þróun muni rútur og fjallajeppar leggja undir sig götur íbúðarhverfa í eldri hluta borgarinnar. Hér séu undir hagsmunir allra íbúa í hverfinu og borgarbúa í heild.

Borgaryfirvöld benda á að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið fallist á að innrétta tvær íbúðir í stað þriggja í húsinu að Hringbraut 79 en ekki hafi verið samþykkt gistiheimili í umræddu húsi. Í byggingarreglugerð sé fjölda eldhúsa eða salerna ekki takmörk sett og uppfylli samþykktir uppdrættir ákvæði reglugerðarinnar um íbúðir. Í 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 sé heimagisting skilgreind svo að um sé að ræða gistingu á heimili leigusala og sé þar átt við einkaheimili eða lögheimili leigusala. Túlka verði nefnt lagaákvæði á þann veg að það sé skilyrði að eigandi búi í hinu leigða húsnæði ásamt þeim er greiði endurgjald fyrir gistinguna. Leiga á séreign sem leigusali búi ekki í, þó í sama húsi sé, falli ekki undir hugtakið heimagisting í lögunum heldur sé þá um útleigu á íbúð að ræða.    Ekki sé áskilið  leyfi skipulagsyfirvalda fyrir heimagistingu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að með umræddum breytingum aukist slysahætta vegna innkeyrslu að bílskúrum frá Hofsvallagötu enda engin breyting þar á frá áður samþykktum teikningum. 

Niðurstaða: Upplýst er að eftir veitingu hins kærða byggingarleyfis var tekin fyrir umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. febrúar 2015 um byggingarleyfi samkvæmt nýjum uppdráttum að breytingum á húsinu að Hringbraut 79.  Var sú umsókn samþykkt á þeim fundi með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 26. s.m. Hið nýja byggingarleyfi er í stórum dráttum sama efnis og hið kærða byggingarleyfi en heimilaðar voru breytingar á innra fyrirkomulagi húss og ytra útliti þess frá því sem ráð var fyrir gert í hinu fyrra leyfi.  Liggur því fyrir að samþykkt hefur verið nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79 en sú byggingarleyfisákvörðun hefur ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hið nýja byggingarleyfi óhaggað allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson

 

111/2015 Kötlunesvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2015, kæra á álagningu fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna áranna 2014 og 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kæra S, á ákvarðanir Langanesbyggðar frá 26. febrúar 2014 og 8. febrúar 2015 um álagningu fráveitugjalda á fasteign þeirra Kötlunesveg 3, Langanesbyggð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Langanesbyggð 5. janúar 2016 og 30. og 31. mars s.á.

Málavextir: Kærendur eiga fasteignina Kötlunesveg 3 á Bakkafirði sem tilheyrir sveitarfélaginu Langanesbyggð. Sveitarfélagið lagði fráveitugjald á eignina fyrir árið 2014, kr. 10.418, og fyrir árið 2015, kr. 10.058. Kærendur kæra álagninguna á þeim forsendum að fasteignin sé ekki tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða húsin í þorpinu við Bakkafjörð vera tengd sameiginlegri fráveitu að frátöldum húsum sem standi við Kötlunesveg. Þau hús hafi hvert um sig eigin fráveitulögn, sem lögð sé stystu leið frá viðkomandi húsi og fram á nærliggjandi sjávarbakka, eða niður fyrir hann þar sem aðstæður leyfi. Þetta eigi við um fasteign kærenda, sem standi við Kötlunesveg 3, en þeir hafi sjálfir þurft að annast og kosta lagfæringar á fráveitulögninni frá húsinu þegar upp hafi komið bilanir eða stíflur.

Þrátt fyrir framangreint krefjist sveitarfélagið þess að kærendur greiði fráveitugjald og haldi því fram að hús kærenda sé tengt fráveitukerfi sveitarfélagsins. Þessi staðhæfing sé röng og líti kærendur svo á að gjaldtakan sé óheimil skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Málsrök Langanesbyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna kveði á um einkarétt sveitarfélags til þess að koma á fót og reka fráveitu. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna sé sveitarfélögum heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Langanesbyggð innheimti fráveitugjald af kærendum í samræmi við framangreint ákvæði þar sem fasteign þeirra að Kötlunesvegi 3 sé tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins, hafi verið það um árabil og kærendur hafi greitt gjöld í samræmi við það án athugasemda um langa hríð.

Um sé að ræða lagnir sem lagðar hafi verið af Skeggjastaðahreppi á sínum tíma og tilheyri nú Langanesbyggð, eftir sameiningu Skeggjastaðahrepps og Þórshafnarhrepps. Þá liggi lagnirnar um land sem sé í eigu sveitarfélagsins og fullyrðingu kærenda um að fasteign þeirra sé tengd fráveitukerfi í eigu og umsjón kærenda sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um réttmæti ákvörðunar Langanesbyggðar um að leggja fráveitugjald á fasteign kærenda að Kötlunesvegi 3, Langanesbyggð.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Samkvæmt gögnum málsins fór álagning fyrir árið 2014 fram 26. febrúar það ár. Kæra í málinu er dagsett 3. desember 2015 og var þá rúmlega 21 mánuður liðinn frá álagningu. Með vísan til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður sá hluti kærunnar því ekki tekinn til efnismeðferðar og er honum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Álagning fyrir árið 2015 fór fram 8. febrúar það ár. Var því meira en mánuður liðinn frá álagningu þegar að kæra var lögð fram í málinu. Kærendum var þó ekki leiðbeint um kæruleið eða frest til að leggja fram kæru, eins og skylt er skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur sendu sveitarfélaginu bréf, dags. 31. ágúst 2015, þar sem þeir fóru fram á leiðréttingu á fráveitu- og sorpgjöldum. Var það ekki fyrr en með svarbréfi Langanesbyggðar, dags. 4. nóvember s.á., sem kærendum var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem kæra í málinu kom fram innan mánaðar eftir að kærendum var leiðbeint um kæruleið, eða 3. desember s.á., þykir sá hluti kærunnar er varðar álagningu fyrir árið 2015 vera tækur til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Í 2. mgr. segir að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu. Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 skal sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt er skv. tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.

Eins og skýrt kemur fram í tilvitnuðum lagaákvæðum telst rekstur fráveitu til grunnþjónustu innan sveitarfélags sem því er einu ætlað að koma að, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Samkvæmt upplýsingum frá Langanesbyggð rekur sveitarfélagið fráveitu á Bakkafirði, m.a. þann hluta sem liggur frá húsum við Kötlunesveg. Samkvæmt uppdrætti sem lagður hefur verið fram ná lagnir út fyrir lóðarmörk fasteignar kærenda og í sjó fram. Með vísan til ákvæða þeirra sem áður voru rakin um skyldur og einkarétt sveitarfélags til reksturs fráveitu verður talið að fráveitulagnir frá fasteign kærenda séu hluti af fráveitukerfi sveitarfélagsins, hvað sem líður því álitaefni hver kostað hafi fráveitulögn frá húsi kærenda. Var sveitarfélaginu því rétt að innheimta fráveitugjald vegna húss kærenda.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Samkvæmt 9. gr. samþykktar nr. 992/2012 um gatnagerðargjald, stofngjald fráveitu, byggingarleyfisgjald, gjöld vegna skipulagsvinnu, afgreiðslu- og þjónustugjöld og gjaldskrá vatnsveitu Langanesbyggðar, sbr. 1. gr. samþykktar nr. 1005/2012 um breytingar á framangreindri samþykkt, er árlegt fráveitugjald 0,225% af heildarálagningarstofni. Álagningarstofn vegna umræddrar fasteignar fyrir árið 2015 er kr. 4.470.000 og álagt fráveitugjald því kr. 10.058.

Miða skal við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. Lagðar hafa verið fram afkomutölur fráveitu Langanesbyggðar fyrir árið 2015 og samkvæmt þeim eru tekjur kr. 6.220.297 en rekstrarkostnaður kr. 7.280.077. Reksturinn er því neikvæður um kr. 1.059.780. Álögð gjöld eru samkvæmt framangreindu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna ársins 2014, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3 vegna ársins 2015.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              __________________________                
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson