Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2016 Unnarbraut

Með
Árið 2016, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2016, kæra vegna dráttar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar á afgreiðslu erindis um að koma húsinu á lóðinni Unnarbraut 32 í upprunalegt horf eftir framkvæmdir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 27. apríl 2016 um að koma fasteigninni að Unnarbraut 32 aftur í fyrra horf í kjölfar framkvæmda. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Seltjarnarnesbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 5. ágúst 2016.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eigenda neðri hæðar hússins sem beindu fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingar væru fólgnar, en samþykki kærenda sem meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými. Fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera og bæta þyrfti áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda en án árangurs.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2016, fóru kærendur fram á það við byggingarfulltrúa að hlutast til um það að koma umræddum kjallara í upprunalegt horf. Var skorað á byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum í því skyni. Var og tekið fram að framkvæmdir hefðu verið unnar í óleyfi, án samþykkis kærenda, og hefðu þær valdið skemmdum á sameiginlegu burðarvirki hússins. Með bréfi, dags. 26. maí s.á. gaf byggingarfulltrúi umsækjanda byggingarleyfis kost á að tjá sig um erindi kærenda og benti jafnframt á heimildir byggingarfulltrúa skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að knýja á um aðgerðir og úrbætur. Í svarbréfi umsækjanda frá 8. júní s.á. kom fram að sumarið 2014 hefði orðið vart við umfangsmiklar rakaskemmdir og sveppamyndun sem ættu upptök sín út frá botnplötu í kjallara hússins. Hefði þurft að bregðast skjótt við. Jafnframt kom fram að vilji væri til þess að fallast á bróðurpart þeirra krafna sem fram kæmu í bréfi kærenda í góðri sátt og án afskipta sveitarfélagsins. Loks var bent á nauðsyn þess að settar yrðu jarðvatnslagnir undir kjallarann og vísað þar um til sérfræðiálits byggingartæknifræðings og húsasmíðameistara sem fram kæmi í greinargerð um regnvatnslagnir í húsinu, en nefnd greinargerð hafði áður borist embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi framsendi svarbréfið til kærenda með tölvupósti 9. júní 2016 með beiðni um að athugað yrði hvort ekki væri grundvöllur til sátta. Hinn 1. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur árétta að kæra þeirra snúi að óleyfisframkvæmdum sem þurfi að koma í upprunalegt horf. Jafnframt hvort störf byggingarfulltrúa í ferlinu hafi verið lögum samkvæmt. Kærendur hafi ekki getað nýtt sér sinn hluta kjallarans og séu allar fyrirhugaðar framkvæmdir þeirra í bið vegna þessa máls. Raki hafi myndast hjá kærendum og aukist hratt eftir að hitablásara hafi verið komið fyrir í kjallaranum í lok árs 2015. Burðarsúlur í kjallara beri auk þess merki um að átt hafi verið við þær. Ítrekað sé að samþykki kærenda hafi ekki legið fyrir og svo hafi verið frá upphafi málsins.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að frá því að þetta mál hafi komið upp hafi mikið verið reynt að ná sáttum milli aðila. Á tímabili hafi verið fenginn lögfræðingur til sáttargerðar. Til séu margir tölvupóstar og minnispunktar sem sýni að sveitarfélagið hafi lagt mikið á sig og eytt miklum tíma í þessum tilgangi, en það ekki haft erindi sem erfiði. Allan tímann hafi þáverandi og núverandi byggingarfulltrúa verið kunnugt um stöðu mála og vonast eftir því að aðilar gætu náð sáttum. Það hafi líka verið stefnan í þessu máli hjá byggingarfulltrúa að beita sem mildustum stjórnvaldsaðgerðum og best væri ef aðilar næðu sáttum án afskipta sveitarfélagsins.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Forsaga þessa máls varðar þegar gerðar og fyrirhugaðar framkvæmdir í kjallara Unnarbrautar 32. Kærendur, sem eiga íbúð í nefndu húsi, krefjast þess að erindi þeirra til byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2016, um að kjallara hússins verði komið í upprunalegt horf, verði tekið til afgreiðslu hjá embættinu.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Svo sem fram hefur komið beindi byggingarfulltrúi þeirri fyrirspurn til kærenda hvort grundvöllur væri til sátta sama dag og kæra í máli þessu barst nefndinni, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að kærendur settu fram kröfur sínar með formlegum hætti. Á því tímabili var einnig gætt andmælaréttar umsækjanda og allur dráttur á afgreiðslu málsins því óverulegur í þeim skilningi. Hins vegar verður af gögnum málsins ráðið að byggingarfulltrúi hefur frá árinu 2014 án árangurs reynt að ná sáttum milli aðila, en allt frá þeim tíma hafa samskipti átt sér stað milli kærenda, byggingarleyfisumsækjanda, bæjarstjóra og byggingarfulltrúa. Með hliðsjón af því og þar sem mál þetta hefur verið kært til úrskurðarnefndarinnar verður að telja ólíklegt að sættir muni nást milli aðila. Eins og atvikum er háttað verður því að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, enda ekki séð að efni séu til þess að slá á frest ákvörðun um erindi kærenda. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að taka erindi kærenda, dags. 27. apríl 2016, til efnislegrar afgreiðslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Hólmfríður Grímsdóttir

59/2016 Kólumbusarbryggja

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 30. desember 2022, sjá hér .

Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2016, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2016, er barst nefndinni 1. júní s.á., kærir Móabyggð ehf., Skeifunni 17, Reykjavík, þá ákvörðun Snæfellsbæjar frá 5. mars 2016 að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna fasteignarinnar Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Snæfellsbæ 13. júní 2016.

Málavextir: Fasteignin Kólumbusarbryggja 1 í Snæfellsbæ er 8.128 m² límtrésgrindarhús á steyptum undirstöðum og stendur á 62.000 m² lóð. Kærandi keypti eignina af þrotabúi fyrri eiganda á seinni hluta ársins 2015 og var ætlun hans að rífa húsið. Skilyrði af hálfu Snæfellsbæjar fyrir veitingu leyfis til niðurrifs eru m.a. þau að álögð fasteignagjöld fyrir árið 2015 verði greidd, m.a. kr. 689.700 í fráveitugjald. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2016, fór kærandi fram á það við sveitarfélagið að gjöld þessi yrðu felld niður þar sem hvorki væri búið að leggja lagnir né tengja þær og engin starfsemi færi fram í húsinu. Með bréfi, dags. 5. mars s.á., hafnaði Snæfellsbær framangreindri kröfu kæranda þar sem lagnir væru í steyptum plönum við húsið, vatn væri tengt að húsvegg og frárennslislagnir væru komnar inn fyrir vegg þess. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun eins og að fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður fasteignina Kólumbusarbryggju 1 vera skráða á byggingarstigi 3 í fasteignaskrá Þjóðskrár. Sé ýmsum frágangi við þak og veggi ólokið og hafi gólfplata ekki verið steypt. Fasteignin hafi ekki verið tekin í notkun, enda bíði hún niðurrifs. Ekki hafi verið komið á tengingum, hvorki við vatnsveitu né fráveitu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið skorti lagastoð fyrir álagningu fráveitugjalds, sem sé þjónustugjald, því þrátt fyrir að búið sé að leggja lagnir að húsi þurfi að vera komin á tenging við vatns- og fráveitukerfi sveitarfélagsins. Það sé ekki í þessu tilviki og því sé engin þjónusta innt af hendi sem koma þurfi endurgjald fyrir.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu Snæfellsbæjar er bent á að sveitarfélagið hafi á sínum tíma fengið beiðni um að vatn yrði tengt við vinnuaðstöðu sem reist hafi verið vegna byggingar Kólumbusarbryggju 1 og hafi verið orðið við því.

Lagnir séu í steyptum plönum við húsið, vatn sé tengt að húsvegg og frárennslislagnir séu komnar inn fyrir vegg. Lagnir séu þannig komnar bæði fyrir utan og innan hús og sé sveitarfélaginu þannig fullkomlega heimilt að leggja á fráveitugjöld. Ljóst sé að vatni frá plönum sé safnað saman í þar til gerð ræsi og þurfi vatnið leið til að komast af svæðinu. Jafnframt hafi sveitarfélagið sett niður rotþró til að taka við frárennsli frá vinnubúðum og hafi sú framkvæmd verið kostuð af sveitarfélaginu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á niðurfellingu fráveitugjalda fyrir fasteignina Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ, vegna ársins 2015.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Bréf frá Snæfellsbæ til kæranda, þar sem tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun, er dags. 5. mars 2016. Ber kærandi það fyrir sig að bréfið hafi aldrei borist honum heldur hafi honum orðið kunnugt um ákvörðunina með bréfi, dags. 2. maí s.á., frá yfirfasteignamatsnefnd vegna máls sem kærandi reki fyrir henni. Hafi umrætt bréf frá Snæfellssbæ til kæranda verið á meðal gagna þess máls. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til að véfengja staðhæfingu kæranda í þessu efni og verður því að miða við að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 2. maí 2016. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 1. júní s.á. og telst því vera fram komin innan lögbundins kærufrests.

Uppbygging og rekstur fráveitu telst til grunnþjónustu í sveitarfélagi og mikilvægt er að festa ríki um þá þjónustu, eins og ákvæði laga nr. 9/2009 bera vott um. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og í 2. mgr. kemur fram að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu og hefur það einkarétt á þeirri starfsemi samkvæmt 9. mgr. 4. gr. nefndra laga. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.

Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu fráveitugjalda fyrir árið 2015 á því að húsið sé á því byggingarstigi að engar fráveitulagnir séu fyrir hendi og því hafi skilyrði laga fyrir álagningunni aldrei verið uppfyllt. Samkvæmt gögnum frá Snæfellsbæ eru frárennslislagnir á plönum fyrir utan húsið og einnig komnar inn fyrir húsvegg. Hefur sveitarfélagið því uppfyllt lagalega skyldu sína til að gera kæranda kleift að tengjast fráveitukerfi þess, en skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 9/2009 er eigendum húseigna þar sem fráveita liggur skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Í samræmi við áður tilvitnaða 1. mgr. 14. gr. nefndra laga var álagningin því lögmæt og var sveitarfélaginu heimilt að hafna því að fella hin álögðu gjöld niður.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

 

75/2016 Leirdalur

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um að samþykkja að breyta einbýlishúsum á lóðum nr. 29-37 við Leirdal í tvíbýlishús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m, kæra 40 íbúar við Leirdal, Hamradal og Hraundal, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 8. mars 2016, sem staðfest var í bæjarstjórn 16. s.m., að heimila lóðarhafa Leirdals 29-37 að hafa á lóðunum tvíbýlishús í stað einbýlishúsa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. júní 2016, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir á nefndum lóðum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. júlí og 5. ágúst 2016.

Málsatvik og rök:
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti 8. mars 2016, með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, umsókn lóðarhafa Leirdals 29-37 um heimild til þess að breyta fokheldum einbýlishúsum lóðanna í tvíbýli og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 16. s.m. Hinn 7. apríl s.á. ritaði hópur íbúa í nágrenni Leirdals bréf til bæjaryfirvalda þar sem þeir lýstu andstöðu við breytingar á lóðunum að Leirdal 7-37 og kröfðust þess að ákvörðunin yrði afturkölluð. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa þess efnis að skipulagi lóðanna Leirdalur 7-27 yrði breytt og þar gert ráð fyrir tvíbýlishúsum í stað einbýlishúsa. Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði umsókninni, m.a. með hliðsjón af undirskriftalistum íbúa Leirdals og Hamradals, þar sem lagst var alfarið gegn umræddum breytingum. Ráðið tók þó fram að endurskoðun deiliskipulagsins væri í undirbúningi.
 
Hinn 20. júní 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að úthluta lóðunum Leirdal 7-27 til lóðarhafa lóða nr. 29-37 með þeim fyrirvörum að fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Tillaga að þeirri deiliskipulagsbreytingu hefur ekki verið lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Kærendur telja að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs eigi ekki að fá að standa þar sem ein forsenda þess að fasteignareigendur á svæðinu hafi keypt eða byggt þar hús hafi verið sú að hverfið væri skipulagt sem einbýlishúsahverfi. Þá sé um fordæmisgefandi ákvörðun að ræða og ekki sé hægt að samþykkja svo stórtækar breytingar án grenndarkynningar. Bílastæðafjöldi við lóðirnar dugi ekki til þegar fjöldi íbúða sé tvöfaldaður og umferð muni koma til með að aukast um helming, sem auki slysahættu.

Sveitarfélagið telur að umþrættar breytingar komi öllum til góða, þar sem umrædd hús hafi staðið fokheld í átta ár, öllum til ama, og engar horfur á að þau seldust sem svo stór einbýli á næstu árum. Tekið hafi verið tillit til þess að engar breytingar yrðu á útliti og stærð húsa eða nýtingarhlutfalli lóða. Þá hafi ekki enn verið sótt um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum.

Lóðarhafi gerir kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma er kæranda mátti vera kunnugt um viðeigandi ákvörðun. Hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2016 og hafi kærufrestur því runnið út mánuði síðar, eða 9. apríl s.á. Í öllu falli sé ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs í síðasta lagi 7. apríl 2016 þegar þau hafi undirritað mótmælabréf í kjölfar ákvörðunar ráðsins, sem leiði til þess að kærufrestur hafi runnið út í síðasta lagi 7. maí 2016. 

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að veita lóðarhafa Leirdals 29-37 heimild til að breyta fokheldum einbýlishúsum á þeim lóðum í tvíbýli, en samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins frá september 2005 er gert ráð fyrir einbýlishúsum á umræddum lóðum. Hin kærða ákvörðun var tekin með stoð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er skipulagsnefnd veitt heimild til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins eða umsækjanda.

Í málinu liggur fyrir að tillaga að breyttu deiliskipulagi Leirdals 29-37 hefur hvorki verið samþykkt af sveitarstjórn né birt í B-deild Stjórnartíðinda og ekki hefur verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umdeildum breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki telst lokaákvörðun í skilningi ákvæðisins, ekki borin undir kærustjórnvald. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

48/2016 Flatahraun

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 48/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. maí 2016, er framsent var af innanríkisráðuneytinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með bréfi, dags. 9. s.m., kærir G, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að leggja á gjöld vegna stöðuleyfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 6. júlí og 23. ágúst 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, tilkynnti Hafnarfjarðarbær hlutaðeigandi þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 20. janúar s.á. að tekið yrði upp gjald fyrir stöðuleyfi vegna gáma, skv. 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað nr. 1244/2015 er birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt bréfinu skyldi ársgjald vegna stöðuleyfis fyrir 20 feta gám eða minna vera kr. 31.780 og fyrir 40 feta gám eða minna kr. 63.559.

Kærandi kveður gjald það sem Hafnarfjarðarbær hafi ákveðið að innheimta vegna stöðuleyfa vera skatt þar sem engin þjónusta komi fyrir. Þar af leiðandi sé um ólögmæta skattheimtu að ræða. Hann sé með 20 feta gám sem sé 15 m² smáhýsi staðsett á lóð en um sé að ræða hjóla- og verkfærageymslu sem undanþegin sé byggingarleyfi.

Hafnarfjarðarbær kveður heimild til töku gjalds fyrir stöðuleyfi vera í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé óheimilt að láta hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings og stór samkomutjöld standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra hluta. Aftur á móti sé unnt að sækja um stöðuleyfi fyrir ofangreinda lausafjármuni sé ætlunin að þeir standi lengur utan slíkra geymslustaða.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýst um um lögmæti gjalds fyrir stöðuleyfi, sbr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1244/2015 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað, er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun kærandi ekki hafa sótt um slíkt stöðuleyfi og hefur hann því ekki verið krafinn um hið kærða gjald.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Eins og áður hefur verið rakið liggur engin ákvörðun fyrir í máli þessu um álagningu gjalda á kæranda á grundvelli hinnar umdeildu gjaldskrár. Verður því að telja að kæran beinist að lögmæti hennar. Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir útgáfu stöðuleyfa. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Slík gjaldskrá felur í sér heimild til innheimtu gjalda samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem þar koma fram. Þótt gjaldskráin geti haft verulega þýðingu fyrir þá aðila er þar falla undir, verður ekki talið að setning hennar ein og sér skapi almennt þá sérstöku lögvörðu hagsmuni að það veiti einstökum aðilum, sem mögulega verður gert að greiða gjöld samkvæmt henni, stöðu aðila máls.

Verður  með vísan til alls þess sem að framan er rakið ekki talið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

53/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, 220 kV háspennulínu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 2. og 14. júní 2016.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, sem haldinn var 28. apríl 2016, var samþykkt umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Kom fram að framkvæmdin væri matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar meðfylgjandi. Samkvæmt fundargerð var sótt um leyfið á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert væri ráð fyrir háspennulínum og einnig væri gert ráð fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Loks kom fram að náðst hefði samkomulag við landeigendur þeirra lendna sem fyrirhuguð lína myndi liggja um. Var skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og var það gefið út 1. júní 2016.

Kærandi telur mál þetta hafa almenna þýðingu fyrir náttúru Íslands og orðspor landsins, alla Íslendinga, erlenda ferðamenn og vísindamenn er heimsæki Ísland. Hagsmunirnir séu stórfelldir en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna veruleg og óafturkallanleg spjöll á.

Með bréfi Þingeyjarsveitar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2016, er tilkynnt að ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 28. apríl 2016 hafi verið afturkölluð á sveitarstjórnarfundi 8. júní s.á. Í bókun sveitarstjórnar komi fram að ástæða afturköllunar sé sú að ekki liggi fyrir bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi umsókn um framkvæmdaleyfið. Jafnframt hafi verið bókað að lagt væri fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu. Í ljósi þessa beri að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið tók sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þá ákvörðun hinn 8. júní 2016 að afturkalla hina kærðu ákvörðun sína frá 28. apríl s.á. að veita framkvæmdaleyfi vegna lagningar Kröflulínu 4 innan sveitarfélagsins.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Á þessi heimild við um kæranda og kæruefnið. Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður kærumáli þessu þegar af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

 

116/2014 Skipholt

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 um að veita leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2014, er barst nefndinni 19. s.m., kærir húsfélagið Skipholti 50C þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, um að synja kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis, sem tilkynnt var í bréfi dags. 20. október 2014, verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 24. júní 2015.

Málavextir: Lóðirnar Skipholt 50C og 50D hafa sameiginleg lóðamörk og er kvöð á lóðunum um aðkomu að bílastæðum þeirra beggja. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 7. október 2014 var tekin fyrir umsókn húsfélags Skipholts 50D um leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörkin í þá veru að bílastæðum og aðkomu á milli húsanna yrði hliðrað um einn metra til vesturs, innar á lóð Skipholts 50C. Var erindið samþykkt. Hinn 10. s.m. sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa þar sem þess var krafist að samþykkt byggingarfulltrúa yrði dregin til baka. Var þeirri kröfu hafnað með bréfi embættisins, dags. 20. október 2014. 

Málsrök kærenda: Kærandi telur að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin á röngum forsendum og sé ólögmæt þar sem samþykki húsfundar kæranda hafi ekki legið fyrir, líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Sameign verði ekki ráðstafað af húsfélagi nema allir eigendur séu því samþykkir. Sama gildi um verulegar breytingar á sameign og hagnýtingu hennar. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulega breytingu þar sem bílastæðum á lóð hússins við Skipholt 50C fækki samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, auk þess sem vegstæði sé fært langt inn á lóð hússins. Þá sé um að ræða breytingu á hagnýtingu sameignar hússins. Bílastæði á lóðinni séu sameiginleg og óskipt og verði þeim ekki skipt eða breytt nema allir eigendur samþykki. Slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir heldur hafi verið lagður fram tölvupóstur sem beri það með sér að málefnið kunni að hafa verið rætt á stjórnarfundi húsfélagsins en aldrei á almennum húsfundi. Verk og valdsvið stjórnar húsfélags sé að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúti að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar, sbr. 1. mgr. 70. gr. fjöleignarhúsalaga.  Um meiri háttar framkvæmdir sé að ræða sem fjalla beri um og taka ákvörðun um á húsfundi. Umdeilt byggingarleyfi sé byggt á ófullnægjandi gögnum auk þess sem umsækjandi leyfisins hafi vísvitandi haldið gögnum frá embætti byggingarfulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni, en að öðrum kosti að kröfu kæranda verði hafnað.

Bent sé á að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að við afgreiðslu erindisins hafi legið fyrir fullnægjandi samþykki stjórnar húsfélags, en samkvæmt 71. gr. fjöleignarhúsalaga sé húsfélag skuldbundið út á við með undirritun meirihluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Stofni stjórnarmenn til skuldbindinga sem falli utan heimilda þeirra og valdsviðs samkvæmt lögum eða ákvörðun húsfundar séu þeir ábyrgir og eftir atvikum bótaskyldir gagnvart húsfélaginu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í tölvupósti hafi verið greint frá því að daginn áður hafi kærandi haldið stjórnarfund og þar hafi tillagan að breytingu á bílaplaninu verið samþykkt. Hafi því verið litið svo á að umrædd breyting hafi verið samþykkt af báðum húsfélögunum.

Samþykki kæranda hafi verið fullnægjandi, sbr. 71. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Jafnframt hafi kærandi greitt án fyrirvara helming kostnaðar við verkið. Hljóti það að vera hafið yfir allan vafa að húsfélagið teljist hafa samþykkt umrædda breytingu. Þótt eigendur einhverra eignarhluta í húsinu kunni að hafa verið mótfallnir breytingunni eða snúist hugur síðar geti það ekki leitt til þess að samþykki fyrir framkvæmdinni teljist hafa fallið niður. Geti kærandi ekki einhliða rift gerðu samkomulagi.

Afstaða kæranda sé á misskilningi byggð. Virðist hann telja að hin kærða ákvörðun breyti lóðarmörkum með einhverjum hætti. Hins vegar sé óumdeilt að lóðir húsanna séu samnýttar fyrir bílastæði og umferðarreinar en vegna þess gildi einu hvort akreinar séu að meira eða minna leyti innan eða utan marka lóðar tiltekins húss.

Niðurstaða: Frestur til að bera mál undir úrskurðarnefndina er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Óski aðili eftir endurupptöku máls innan kærufrests skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur það í för með sér að kærufrestur rofnar, en heldur síðan áfram að líða eftir tilkynningu til aðila um ákvörðun stjórnvalds um að hafna endurupptöku máls. Telja verður kæranda aðila máls í skilningi greinds ákvæðis enda snertir hin kærða ákvörðun með beinum hætti hagsmuni eigenda lóðarinnar Skipholts 50C.

Kæranda barst tilkynning frá leyfishafa hins kærða byggingarleyfis um hina kærðu ákvörðun 9. október 2014 og fór hann fram á endurupptöku málsins með bréfi til byggingarfulltrúa 10. s.m. Kæranda var tilkynnt um höfnun erindisins með bréfi, dags. 20. október 2014, og barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu 19. nóvember s.á. Samkvæmt framangreindri 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga barst kæran innan tilskilins frests og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Með hinu kærða byggingarleyfi var aðkomunni við lóðamörk Skipholts 50C og 50D að bílastæðum beggja lóðanna hliðrað um einn metra inn á lóð Skipholts 50C og við þá hliðrun fækkaði bílastæðum á þeirri lóð um tvö. Í málinu er um það deilt hvort lögmætt samþykki eigenda Skipholts 50C hafi legið fyrir við samþykkt byggingarleyfisins.

Samkvæmt 30. gr. fjöleignarhúsalaga verða ekki gerðar breytingar á sameign nema með samþykki allra eigenda eða a.m.k. 2/3 hluta þeirra. Jafnframt verður sameign ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema með samþykki allra eigenda og gildir sama um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar.

Með hinu kærða byggingaleyfi er kvaðabundinni aðkomu að bílastæðum á lóðum Skipholts 50C og 50D hliðrað innar á lóð Skipholts 50C og bílastæðum fækkað frá því sen áður var á þeirri lóð. Samkvæmt framangreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga eru breytingar þær sem hér um ræðir, á lóð í óskiptri sameign, háðar samþykki sameigenda á húsfundi, sbr. 39. gr. laganna. Slíkt samþykki lá ekki fyrir við samþykkt stjórnar húsfélags kæranda. Við hina kærðu ákvörðun var því ekki fylgt fyrirmælum 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að umsókn þurfi að fylgja samþykki meðeigenda í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, ef við á.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun haldin slíkum ágalla að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 um að veita leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

97/2016 Laxeldi í Arnarfirði

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2016, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. maí 2016 um að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Geiteyri ehf., Síðumúla 34, Reykjavík og Akurholt ehf., Aratúni 9, Garðabæ, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. maí 2016 að gefa út rekstrarleyfi til handa Arnarlaxi hf. vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum rekstrarleyfisins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 19. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Arnarlax hf. sótti hinn 12. mars 2015 um breytingu á rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Óskaði fyrirtækið eftir því að framleiðslumagn þess yrði aukið um 7.000 tonn, en gildandi rekstrarleyfi þess veitti heimild til framleiðslu á allt að 3.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Arnarfirði á ári.

Kærendur taka fram að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal og eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki árinnar og villtum lax- og silungsstofnum hennar, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um útgáfu rekstrarleyfisins 14. júní 2016 í kjölfar fyrirspurnar þeirra um hvort leyfi hefði verið gefið út. Matvælastofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti áður en hún hafi gefið út rekstrarleyfið í kyrrþey. Leyfisútgáfan hafi ekki verið auglýst og tækifæri til að setja fram athugasemdir ekki verið veitt. Stofnunin hafi þannig virt að vettugi andmælarétt kærenda og annarra hagsmunaaðila.

Af hálfu Matvælastofnunar kemur fram að umsókn leyfishafa hafi verið unnin í samræmi við lög nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi. Athugasemdir kærenda við verklag stofnunarinnar séu á misskilningi byggðar og beri að hafna kröfu þeirra um ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi vísar til þess að kæran hafi ekki borist innan lögmælts kærufrests og því beri að vísa henni frá, skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Rekstrarleyfið hafi verið gefið út 6. maí 2016. Það hafi byggt á útgáfu starfsleyfis 15. febrúar s.á. sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars s.á. Lögum samkvæmt séu umsóknir um rekstrarleyfi og starfsleyfi afgreiddar samhliða og sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar- útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en kærendur eru ekki slík samtök.

Í kæru vísa kærendur til þess að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi. Um er að ræða laxveiðiá sem rennur til sjávar á sunnanverðu nesinu. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Arnarfirði á Vestfjörðum, fjarri nefndri á. Verður ekki séð með vísan til þessa að kærendur hafi hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Slíkir hagsmunir nægja ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni, svo sem áður hefur komið fram.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

95/2016 Þeistareykjalína 1 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
 
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. apríl 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016.

Málavextir: Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Er álit Skipulagsstofnunar um það mat frá 24. nóvember 2010. Sama dag lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum háspennulína (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, jarðstrengs (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur farið fram.
 
Fyrirhugað er að leggja 220 kV loftlínu, Þeistareykjalínu 1, frá Þeistareykjum í Þingeyjarsveit að Bakka við Húsavík. Kærð er veiting framkvæmdaleyfis fyrir þann hluta línunnar er leggja skal innan Þingeyjarsveitar, en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. júní 2016, í máli nr. 54/2016, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um stöðvun framkvæmda við þann hluta línunnar sem fyrirhugað er að leggja í Norðurþingi.

Frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjum er áætlað að leggja Kröflulínu 4, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu, og voru framkvæmdir við línuna í Skútustaðahreppi stöðvaðar að hluta með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 30. júní 2016, í máli nr. 46/2016. Kæra vegna samþykkis Þingeyjarsveitar á framkvæmdaleyfi vegna þess hluta Kröflulínu 4 sem þar er fyrirhugaður hefur einnig borist nefndinni og er það mál nr. 96/2016.

Umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Þeistareykjalínu 1 var lögð fram á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 7. apríl 2016. Bókað var að nefndin legðist ekki gegn framkvæmdinni þar sem hún væri í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 og uppfyllti skilyrði 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda, sbr. álit Skipulagsstofnunar frá 24. nóvember 2010. Framkvæmdin væri matsskyld samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar meðfylgjandi. Sótt væri um leyfið á grundvelli Aðalskipulags Þingeyjarsveitar 2010-2022, þar sem gert væri ráð fyrir háspennulínum. Væri einnig gert ráð fyrir framkvæmdinni í aðalskipulagi nágrannasveitarfélaganna, Norðurþings og Skútustaðahrepps. Á fundi sveitarstjórnar 13. apríl 2016 var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar staðfest og framangreind umsókn samþykkt. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 28. s.m. Leyfið var afturkallað með bréfi, dags. 25. maí 2016, en gefið út að nýju 14. júní s.á. Auglýsing þess efnis var birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaði. Var framkvæmdaleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar 12. júlí 2016, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur nauðsynlegt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði strax í sumar með efnistöku, vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Hagsmunirnir séu stórfelldir, en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna á óafturkallanleg spjöll. Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á náttúruminjaskrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu séu fleiri brennisteinshverir en þar. Fyrirhuguð línuleið liggi um vesturjaðar þess svæðis, sem sé á náttúruminjaskrá, og hluti áhrifasvæðis línunnar vestan Þeistareykja fari inn á suðvesturhorn svæðis sem sé á náttúruminjaskrá. Að auki muni hluti línanna liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum og í Þeistareykjahrauni, sem njóti einnig sérstakrar verndar sem eldhraun skv. a-lið 2. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðin séu lítt röskuð og hafi mjög hátt verndargildi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum frá 2010.

Fram komi í leyfisbeiðni að undirstöður undir hvert mastur verði 100-200 m². Sé því um töluvert svæði að ræða, auk þess svæðis sem fari undir línuvegi. Allt þetta rask sé svo mikið í tilfelli Þeistareykjahrauns og Þeistareykja að sveitarstjórninni hefði borið að rannsaka málið ítarlega og sjálfstætt áður en hún tók ákvörðun, m.a. með könnun á því hvort ekki væri hægt að flytja þá orku sem um ræði með öðrum og betri aðferðum með tilliti til umhverfis, þar með talið að skoða til hlítar þann kost að leggja jarðstreng í stað loftlína, bæði með tilliti til áhrifa á umhverfi og kostnaðar. Þá komi fram í leyfisumsókn að fyrirhugað sé að leggja línuvegi en engar upplýsingar sé að finna þar um heildarvegalengd þeirra. Einnig komi fram að efnistaka muni fara fram að einhverju leyti í nýjum námum.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað. Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðalskipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar, er birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sé þar gerð grein fyrir Þeistareykjalínu 1 og legu hennar, að því marki sem hún liggi innan deiliskipulagssvæðisins sem sé 76,5 km² að stærð. Að því marki sem Þeistareykjalína 1 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Sjónarmið sem kærandi setji fram vegna stöðvunarkröfu sinnar feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að verulegu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, við gerð aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjasvæði og mats á umhverfisáhrifum framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð. Engar forsendur séu til að fallast á stöðvunarkröfu vegna óvissu um verndargildi einstakra hluta svæðisins þar sem það hafi ítrekað verið til umfjöllunar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað. Málsatvikum og málsástæðum sé ítrekað blandað saman við atriði sem ekki hafi nokkra þýðingu fyrir úrlausn málsins. Kærandi slíti atriði úr samhengi og á köflum sé örðugt að átta sig á því hvort hann sé að byggja á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum eða mati á umhverfisáhrifum háspennulína. Þá sé mikið um staðhæfingar sem ekki séu á rökum reistar og málsatvikalýsingu sé verulega ábótavant. Með öllu þessu sé dregin upp röng mynd af málinu og það slitið úr samhengi.

Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi sem hafi staðið í um áratug og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Auk þess sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og unnin hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Enn fremur hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun leyfishafa og loks hafi verið samþykkt sérstakt deiliskipulag fyrir Þeistareykjavirkjun. Framangreindir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum við fyrirhugaðar framkvæmdir auk þess sem álit lögbundinna umsagnaraðila liggi fyrir. Leyfishafi hafi fylgt öllum lögbundnum ferlum og hafi lögvarða hagsmuni af því að niðurstöður skipulagsákvarðana séu virtar og á þeim byggt, líkt og gert hafi verið við útgáfu framkvæmdaleyfis Þingeyjarsveitar.

Yrði fallist á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða myndi það hafa í för með sér tafir á framkvæmdum sem myndu valda leyfishafa verulegu tjóni, sem og öðrum aðilum sem hagsmuna hafi að gæta. Telji leyfishafi hvorki vera laga- né efnisrök til þess að unnt sé að verða við slíkri kröfu. Þá yrði slík niðurstaða í ósamræmi við bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 46 og 54/2016.

Athugasemdir kæranda við greinargerðir Þingeyjarsveitar og leyfishafa: Kærandi kveður málið snúast fyrst og fremst um það hvaða kröfur skuli gerðar til sveitarfélags, sem leyfisveitanda fyrir meiriháttar framkvæmdum, varðandi rannsóknarskyldu þess, þýðingu annmarka á umhverfismati og þess hvort að lögmætisregla hafi ekki verið virt við ákvarðanatökuna.

Ekki sé fallist á að einu mikilvægu almannahagsmunirnir í málinu séu efnahagslegir hagsmunir í þrengri merkingu og að ferðaþjónusta skipti ekki máli í því uppgjöri. Um langtíma verndarhagsmuni varðandi náttúru Íslands sé að tefla, sem vegist á við skammtíma fjárhagslega hagsmuni. Verndarhagsmunir séu almannahagsmunir sem m.a. náttúruverndarlög nr. 60/2013 byggist á, sem og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Lög nr. 105/2006 gildi um framkvæmdaráætlun Landsnets og hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar borið að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða þeirra laga áður en hin kærða ákvörðun væri tekin.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá 24. nóvember 2010, sem áður hefur verið nefnt, kemur fram að stofnunin telji „að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns.“

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, en skv. 3. mgr. 37. gr. þeirra laga ber að forðast að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggja fyrir, en í 68. gr. er fjallað um gerð skipulagsáætlana. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skal gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. laganna.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt a-lið 2. mgr. lagagreinarinnar njóta m.a. eldhraun, sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr. laganna. Sömu verndar njóta m.a. hverir og aðrar heitar uppsprettur, ásamt lífríki sem tengist þeim, sbr. b-lið nefndrar 2. mgr. Í 3. mgr. 61. gr. er tiltekið að forðast beri að raska m.a. jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda eftir atvikum að leita umsagna. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Fyrirhugað er að Þeistareykjalína 1 muni liggja frá tengivirki við Þeistareyki í Þingeyjarsveit um Jónsnípuskarð að Höskuldsvatni í Norðurþingi. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem úrskurðarnefndin hefur aflað munu framkvæmdir hefjast sumarið 2016 og mun stefnt að því að ljúka þeim í október s.á. Verður því að telja þær yfirvofandi. Af framangreindu áliti Skipulagsstofnunar er ljóst að hún telur að neikvæðra og óafturkræfra áhrifa muni gæta á línuleiðinni innan Þingeyjarsveitar, en hún mun vera 7,7 km löng. Er þar einkum um að ræða áhrif á jarðmyndanir sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Í fundargerðum sveitarstjórnar og skipulags- og umhverfisnefndar er ekki að finna tilvísun til þeirra laga, en vísað er til þess að ekki sé lagst gegn framkvæmdinni, m.a. þar sem hún sé í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022. Náttúruverndarlögin tóku gildi í nóvember 2015 og er því lítið farið að reyna á framangreind lagaákvæði, en í máli þessu mun m.a. reyna á túlkun þeirra. Kanna þarf til hlítar málsatvik, s.s. hvort og þá með hvaða hætti mat skv. 4. mgr. 61. gr. og rökstuðningur skv. 5. mgr. 61. gr. hefur farið fram og mun úrskurðarnefndin þurfa að kynna sér mikið magn gagna í því skyni. Jafnframt verður að telja að það gæti dregið úr þýðingu þess að fjalla efnislega um málið hafi ætluð óafturkræf neikvæð áhrif á umhverfið átt sér stað áður en efnisleg úrlausn úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir í málinu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Að teknu tilliti til legu línunnar og álits Skipulagsstofnunar kemur ekki til álita að stöðva framkvæmdir að hluta þrátt fyrir að leyfishafi hafi ríkra hagsmuna að gæta. Rétt þykir hins vegar að benda á að leyfishafi getur krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                     Ómar Stefánsson                                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

96/2016 Kröflulína 4 Þingeyjarsveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, Þórunnartúni 6, Reykjavík, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 13. júní 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 14. júlí og 16. ágúst 2016.

Málavextir: Samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 fór fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, stækkun Kröfluvirkjunar og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur. Er álit Skipulagsstofnunar um það mat frá 24. nóvember 2010. Sama dag lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum háspennulína (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, jarðstrengs (132 kV) frá Bjarnarflagi að Kröflu; Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Fallið hefur verið frá byggingu álvers á Bakka, en mat á umhverfisáhrifum vegna kísilmálmverksmiðju við Bakka hefur farið fram.

Fyrirhugað er að leggja 220 kV loftlínu, Kröflulínu 4, frá Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi að Þeistareykjum í Þingeyjarsveit. Kærð er veiting framkvæmdaleyfis Þingeyjarsveitar fyrir lagningu þess hluta línunnar er leggja skal innan Þingeyjarsveitar, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 30. júní 2016, í máli nr. 46/2016, voru framkvæmdir í Skútustaðahreppi stöðvaðar við línuna að hluta.

Frá Þeistareykjum að Bakka við Húsavík er áætlað að leggja Þeistareykjalínu 1, einnig fyrir 220 kV rekstrarspennu. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 30. júní 2016, í máli nr. 54/2016, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um stöðvun framkvæmda við þann hluta línunnar sem fyrirhugaður er í Norðurþingi. Nefndinni hefur einnig borist kæra vegna samþykkis Þingeyjarsveitar á framkvæmdaleyfi vegna þess hluta línunnar sem þar er fyrirhugaður, og er það mál nr. 95/2016.

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 28. apríl 2016 var samþykkt umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins var jafnframt falið að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sem hann og gerði 1. júní s.á. Á fundi sveitarstjórnar 8. s.m. var framangreind ákvörðun frá 28. apríl afturkölluð. Var bókað að fyrir lægi álit lögmanns um að ákvörðunin gæti verið ógildanleg vegna þess galla á málsmeðferð að ekki hefði verið gerð sérstök bókun um framkvæmdaleyfisumsóknina í skipulags- og umhverfisnefnd. Var jafnframt lagt fyrir nefndina að taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu.

Fundur var haldinn í skipulags- og umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar 9. júní 2016 og var m.a. bókað að sótt væri um framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni Kröflulínu 4 á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin væri matsskyld skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og væri matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar fyrirliggjandi. Gert væri ráð fyrir framkvæmdinni í Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022. Lýsing mannvirkja vegna útgáfu framkvæmdaleyfis væri tekin saman f.h. Landsnets hf. og væri vísað til hennar um frekari skýringar og lýsingar á framkvæmdinni, þ.m.t. 6. kafli lýsingarinnar, þar sem fjallað væri um mótvægisaðgerðir og skilyrði sem Skipulagsstofnun teldi að setja þyrfti fyrir leyfisveitingunni, sbr. mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Nefndin hefði kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar „Háspennulínur (220 kV) frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík, Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Þingeyjarsveit og Norðurþingi“. Einnig hefði komið til skoðunar álit Skipulagsstofnunar vegna sameiginlegs mats álvers á Bakka, háspennulína, virkjana í Kröflu og á Þeistareykjum. Nefndin tæki undir álit Skipulagsstofnunar, m.a. um skilyrði leyfisveitingar, og vísi sérstaklega til stefnu Þingeyjarsveitar samkvæmt aðalskipulagi, sbr. t.d. kafla 4.1 um framtíðarsýn og meginmarkmið, sem rökstuðnings fyrir þeirri afstöðu.

Í bókun sinni áréttar skipulags- og umhverfisnefnd að skilyrði 13. og 14. gr. skipulagslaga, hvað varði framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, séu uppfyllt. Við fyrri málsmeðferð hafi verið aflað umsagna sem kveðið sé á um í 2. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, þ.e. við mat á umhverfisáhrifum og samþykkt deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar. Afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulaginu, sem taki til Þeistareykja, sem séu á náttúruminjaskrá, og afstaða skipulags- og umhverfisnefndar til álits Skipulagsstofnunar feli í sér að sérstök afstaða hafi verið tekin við leyfisveitinguna í skilningi 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Þá séu ekki forsendur til grenndarkynningar. Nefndin telji að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022, sbr. einnig svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum.

Á fundi sínum 13. júní 2016 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Kröflulínu 4. Tekið var fram að skipulags- og umhverfisnefnd hefði fjallað um fyrirliggjandi framkvæmdaleyfisumsókn og að í bókun nefndarinnar kæmi fram rökstudd afstaða um umsóknina. Þá staðfesti sveitarstjórn bókun skipulags- og umhverfisnefndar um málið í heild og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið, sem hann og gerði 14. júní 2016. Auglýsing þess efnis var birt í Morgunblaðinu 15. s.m., en mun ekki hafa verið birt í Lögbirtingablaði. Framkvæmdaleyfið var kært til úrskurðarnefndarinnar 12. júlí 2016, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur nauðsynlegt að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða til að koma í veg fyrir óafturkræfa röskun á hinu fyrirhugaða framkvæmdasvæði strax í sumar með efnistöku, vegagerð og gerð undirstaða undir háspennumöstur. Hagsmunirnir séu stórfelldir en um sé að ræða svæði sem fyrirhugað sé að vinna óafturkallanleg spjöll á. Fyrirhugað sé að Kröflulína 4, auk Þeistareykjalínu 1, muni liggja yfir hverfisverndað svæði á Þeistareykjum, í Þeistareykjahrauni og við Þríhyrninga, vestan Kröflustöðvar. Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum sé á náttúruminjaskrá vegna fjölbreyttra jarðhitamyndana, gufu- og leirhvera, útfellinga í norðurhlíðum Bæjarfjalls og við Bóndhól. Á hverasvæðinu sé jafnframt að finna sérstæðar jarðhitaplöntur. Aðeins á einum stað á landinu sé að finna fleiri brennisteinshveri. Kærumál þetta fjalli fyrst og fremst um Þeistareykjasvæðið og verndargildi þess, en um sé að ræða svæði sem sé verndað samkvæmt náttúruverndarlögum. Sömu röksemdir eigi við um stöðvun framkvæmda við Kröflulínu 4 í Þingeyjarsveit og eigi við um stöðvun framkvæmda við sama verk í Skútustaðahreppi. Um sömu framkvæmd sé að ræða og því ekki unnt að láta við það sitja að stöðva hana aðeins innan sveitarfélagsmarka Skútustaðahrepps.

Hinn 12. febrúar 2016 hafi leyfishafi gefið út opinbera tilkynningu um tilboð er borist hefðu í undirbúningsvinnu, þar sem fram hafi komið að henni skyldi að því er varði Kröflulínu 4 vera lokið 1. ágúst s.á. Hinn 7. apríl sl. hafi verið tilkynnt að samið yrði við verktaka vegna undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4 á næstu dögum. Fram hafi komið að fyrirhugað væri að hefja jarðvegsframkvæmdirnar í aprílmánuði og hefjast handa við reisingu háspennumastranna sjálfra í sumar. Í umsókn leyfishafa komi fram að mikilvægt sé að hefja framkvæmdir sem fyrst. Fyrirhugað sé að ljúka Kröflulínu 4 á undan Þeistareykjalínu 1 eftir því sem næst verði komist.

Málsrök Þingeyjarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað. Aðalskipulag Þingeyjarsveitar 2010-2022 hafi verið staðfest 20. júní 2011. Þar sé fjallað um framkvæmdina og landnotkun innan sveitarfélagsins vegna hennar skilgreind. Í aðalskipulaginu sé vísað sérstaklega til svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Þá hafi verið samþykkt deiliskipulag vegna Þeistareykjavirkjunar er birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2012. Deiliskipulagið taki til skipulagssvæðis umhverfis Þeistareykjavirkjun og sér þar gerð grein fyrir Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 og legu þeirra, að því marki sem þær liggi innan deiliskipulagssvæðisins, en það sé 76,5 km². Að því marki sem Kröflulína 4 liggi innan Þingeyjarsveitar á hverfisverndarsvæði sé sá hluti hennar innan nefnds deiliskipulagssvæðis.

Sjónarmið sem kærandi setji fram vegna stöðvunarkröfu sinnar feli að verulegu leyti í sér upptalningu á upplýsingum um stöðu Þeistareykja, og annarra svæða sem kærandi vísi til, gagnvart náttúruverndarlögum og verndargildi þeirra. Að miklu leyti hafi þær upplýsingar og greining á þeim einmitt orðið til í undanfarandi málsmeðferð vegna svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum, aðalskipulags Þingeyjarsveitar, deiliskipulags fyrir Þeistareykjavirkjun og umhverfismats framkvæmda á svæðinu, auk rannsókna tengdum nýtingu og mannvirkjagerð. Engar forsendur séu til að fallast á stöðvunarkröfu vegna óvissu um verndargildi einstakra hluta svæðisins þar sem það hafi ítrekað verið til umfjöllunar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað. Málsatvikum og málsástæðum sé ítrekað blandað saman við atriði sem ekki hafi nokkra þýðingu fyrir úrlausn málsins. Kærandi slíti atriði úr samhengi og á köflum sé örðugt að átta sig á því hvort hann sé að byggja á sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum eða umhverfismati háspennulína. Þá sé mikið um staðhæfingar sem ekki séu á rökum reistar og málsatvikalýsingu sé verulega ábótavant. Með öllu þessu sé dregin upp röng mynd af málinu og það slitið úr samhengi.

Umrædd framkvæmd hafi sætt vönduðum undirbúningi, sem hafi staðið í um áratug, og farið eftir öllum lögboðnum ferlum. Þannig sé byggt á staðfestu svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Auk þess sé framkvæmdin í samræmi við staðfest aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem hlut eigi að máli og unnin séu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Þá hafi framkvæmdin sætt sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Enn fremur hafi Orkustofnun samþykkt kerfisáætlun leyfishafa og loks hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir Þeistareykjavirkjun. Framangreindir ferlar skapi öllum rétt til að koma ítrekað á framfæri athugasemdum fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir auk þess sem álit lögbundinna umsagnaraðila liggi fyrir. Leyfishafi hafi fylgt öllum lögbundnum ferlum og hafi lögvarða hagsmuni af því að niðurstöður skipulagsákvarðana séu virtar og á þeim byggt, líkt og gert hafi verið við útgáfu framkvæmdaleyfis Þingeyjarsveitar.

Yrði fallist á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða myndi það hafa í för með sér tafir á framkvæmdum, sem myndi valda leyfishafa verulegu tjóni, sem og öðrum aðilum sem hagsmuna hafi að gæta. Telji leyfishafi hvorki vera laga- né efnisrök til þess að unnt sé að verða við slíkri kröfu. Yrði slík niðurstaða í ósamræmi við bráðabirgðaúrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 46 og 54/2016.

Athugasemdir kæranda við greinargerðir Þingeyjarsveitar og leyfishafa: Kærandi kveður málið snúast fyrst og fremst um það hvaða kröfur skuli gerðar til sveitarfélags, sem leyfisveitanda fyrir meiriháttar framkvæmdum, varðandi rannsóknarskyldu þess, þýðingu annmarka á umhverfismati og þess hvort að lögmætisregla hafi ekki verið virt við ákvarðanatökuna.

Ekki sé fallist á að einu mikilvægu almannahagsmunirnir í málinu séu efnahagslegir hagsmunir í þrengri merkingu og að ferðaþjónusta skipti ekki máli í því uppgjöri. Um langtíma verndarhagsmuni varðandi náttúru Íslands sé að tefla, sem vegist á við skammtíma fjárhagslega hagsmuni. Verndarhagsmunir séu almannahagsmunir, sem m.a. náttúruverndarlög nr. 60/2013, byggist á sem og lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Lög nr. 105/2006 gildi um framkvæmdaráætlun Landsnets og hafi sveitarstjórn Þingeyjarsveitar borið að ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða þeirra laga áður en hin kærða ákvörðun væri tekin.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, en slík stöðvun framkvæmda er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá 24. nóvember 2010, sem áður hefur verið nefnt, kemur fram að stofnunin telji „að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði á þeim kafla þar sem háspennulínur munu liggja frá tengivirki á Hólasandi, um Þeistareyki og um Jónsnípuskarð. Sérstætt náttúrufar er við Þeistareyki og er svæðið á náttúruminjaskrá og hluti þess nýtur einnig hverfisverndar samkvæmt Svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025. Einnig eru Þeistareykir vel grónir í samanburði við hraun í nágrenninu og þar vaxa jurtir, sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Skipulagsstofnun telur að þó Landsnet muni stýra framkvæmdum þannig að þær dragi úr neikvæðum áhrifum á sérstætt landsvæði við Þeistareyki muni framkvæmdir engu að síður hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á svæðið við Þeistareyki. Skipulagsstofnun telur ljóst að háspennulínur og slóðir um Þeistareykjahraun muni liggja um sérstæð eldvörp, gervigíga og hrauntraðir í hrauninu. Þá munu mannvirkin skipta hrauninu í tvo nokkuð jafna hluta og við það breytist heildarsýn hraunsins varanlega og einnig samfelld heildarsýn hrauna til suðurs frá Höfuðreiðarmúla, meðfram Lambafjöllum og langleiðina niður á Hólasand. Því telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar muni hafa verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslagsheild Þeistareykjahrauns.“

Jarðhitasvæðið á Þeistareykjum er á C-hluta náttúruminjaskrár, sbr. 33. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013, en skv. 3. mgr. 37. gr. þeirra laga ber að forðast að raska svæðum eða náttúrumyndunum sem skráðar hafa verið á C-hluta nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi verið leitað. Skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki, vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun. Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag þar sem umsagnir skv. 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggja fyrir, en í 68. gr. er fjallað um gerð skipulagsáætlana. Við afgreiðslu umsókna um leyfi skal gæta ákvæða 4.-6. mgr. 61. gr. laganna.

Í 61. gr. laga nr. 60/2013 er fjallað um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Samkvæmt a-lið 2. mgr. lagagreinarinnar njóta m.a. eldhraun, sem myndast hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma, sérstakrar verndar í samræmi við markmið 3. gr. laganna. Sömu verndar njóta m.a. hverir og aðrar heitar uppsprettur, ásamt lífríki sem tengist þeim, sbr. b-lið nefndrar 2. mgr. Í 3. mgr. 61. gr. er tiltekið að forðast beri að raska m.a. jarðminjum sem taldar séu upp í 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til. Skylt sé að afla t.d. framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem hafi í för með sér slíka röskun og beri leyfisveitanda eftir atvikum að leita umsagna. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal við mat á leyfisumsókn líta til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. og jafnframt huga að mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Loks skal leyfisveitandi skv. 5. mgr. 61. gr. rökstyðja sérstaklega þá ákvörðun að heimila framkvæmd fari hún í bága við umsagnir umsagnaraðila.

Í gögnum með umsókn um framkvæmdaleyfi það sem um er deilt kemur fram að í mati á umhverfisáhrifum háspennulína sé fjallað um fimm háspennulínur frá Kröflu og að Bakka með mismunandi nöfnum. Vegna umsóknarinnar sé fjallað um Kröflulínu 4 sem samheiti yfir Kröflulínu 4 og Hólasandslínu 2 sem fjallað hafi verið um í mati á umhverfisáhrifum. Frá Hólasandi mun línan liggja norður yfir Neðra-Bóndhólshraun, í átt að Kvíhólafjöllum, austan megin við Borgarhraun. Við Kvíhólafjöll stefnir línan í norður meðfram Bæjarfjalli að fyrirhuguðu tengivirki við Þeistareyki. Sá hluti línunnar sem liggur innan Þingeyjarsveitar mun vera 11,8 km langur. Samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér munu framkvæmdir hefjast sumarið 2016 og mun stefnt að því að ljúka þeim í október s.á. Verður því að telja þær yfirvofandi. Af framangreindu áliti Skipulagsstofnunar er ljóst að hún telur að neikvæðra og óafturkræfra áhrifa muni gæta á línuleiðinni innan Þingeyjarsveitar. Er þar einkum um að ræða áhrif á jarðmyndanir sem njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Í bókun sveitarstjórnar vegna samþykkis á framkvæmdaleyfinu er tekið fram að rökstudd afstaða skipulags- og umhverfisnefndar til leyfisumsóknar liggi fyrir. Í bókun nefndarinnar, sem staðfest var af sveitarstjórn, er tiltekið að aflað hafi verið umsagna sem kveðið sé á um í 2. mgr. 68. gr. náttúruverndarlaga, við mat á umhverfisáhrifum og samþykkt deiliskipulags vegna Þeistareykjavirkjunar. Þá er tekið fram að afgreiðsla Þingeyjarsveitar á deiliskipulaginu, sem taki til Þeistareykja, sem séu á náttúruminjaskrá, og afstaða skipulags- og umhverfisnefndar til álits Skipulagsstofnunar feli í sér að sérstök afstaða hafi verið tekin við leyfisveitinguna í skilningi 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga. Náttúruverndarlögin tóku gildi í nóvember 2015 og er því lítið farið að reyna á framangreind lagaákvæði, en í máli þessu mun m.a. reyna á túlkun þeirra. Er ljóst að úrskurðarnefndin mun m.a. þurfa að taka afstöðu til þess hvort tilvísanir þessar fullnægi skilyrðum náttúruverndarlaga hvað varðar mat skv. 4. mgr. 61. gr. og rökstuðning skv. 5. mgr. 61. gr. Það verður ekki gert fyrr en með lokaúrskurði í málinu og mun úrskurðarnefndin þurfa að kynna sér mikið magn gagna í því skyni. Svo sem áður hefur komið fram mun umdeild lína liggja að tengivirki við Þeistareyki. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð um stöðvun framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 í Þingeyjarsveit, en hún liggur frá nefndu tengivirki. Verður að telja að það gæti dregið úr þýðingu þess að fjalla efnislega um málið ef heimilað verður að raska umhverfinu við Þeistareyki, hvað varðar lagningu annarrar línunnar á meðan stöðvaðar eru framkvæmdir við hina línuna, áður en efnisleg úrlausn úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir í málinu. Verður því fallist á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Að teknu tilliti til legu Kröflulínu 4 innan Þingeyjarsveitar og staðhátta þar þykir hins vegar rétt að stöðva framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi að hluta með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ríkra hagsmuna leyfishafa. Þrátt fyrir að fram komi í  áliti Skipulagsstofnunar að neikvæð áhrif komi fram allt frá Hólasandi telur úrskurðarnefndin að þeirra muni einkum gæta við Þeistareyki, á því svæði sem deiliskipulag Þeistareykjavirkjunar tekur til. Eru framkvæmdir við þann hluta línunnar sem um skipulagssvæðið mun liggja því stöðvaðar. Rétt þykir að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir, en hann getur jafnframt krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir á grundvelli ákvörðunar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4, að því er tekur til framkvæmda innan skipulagssvæðis deiliskipulags Þeistareykjavirkjunar, Þingeyjarsveit, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. apríl 2012, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                  Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

84/2014 Brekkugata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. júlí 2014, er barst nefndinni 29. s.m., kærir E, Brekkugötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars. Er gerð sú krafa að gerð verði deiliskipulagsbreyting á umræddu svæði þannig að lóðin Brekkugata 13 verði stækkuð til suðurs. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfirði 20. ágúst 2014 og 4. ágúst 2016.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar 5. mars 2013 var samþykkt deiliskipulagslýsing fyrir óskipulagt svæði í Suðurbæ Hafnarfjarðar. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 13. s.m. Hinn 27. september s.á. var á fundi skipulags- og byggingarráðs samþykkt að halda kynningarfund fyrir íbúa. Var hann haldinn 22. október s.á. og íbúum gefinn kostur á að skila inn athugasemdum til 20. nóvember s.á. Bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 11. mars 2014 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Suðurbæjar með áorðnum breytingum og var afgreiðslan staðfest af bæjarstjórn 19. s.m. Var skipulagstillagan auglýst í fjölmiðlum 27. s.m. með athugasemdafresti til 10. maí s.á. Barst ein athugasemd á kynningartíma og var hún frá kæranda. Henni var svarað með bréfi, dags. 22. maí 2014. Nýtt deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars var svo samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 23. maí 2014 og staðfest af bæjarstjórn 28. s.m. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að það svæði sem hið kærða deiliskipulag taki til nái að hluta inn á lóð í hans eigu. Hann hafi komið á framfæri athugasemdum við tillöguna, en ekki hafi verið komið til móts við þær með fullnægjandi hætti.

Deiliskipulagið geri ráð fyrir breyttum mörkum lóðar kæranda, án þess að leitað hafi verið samráðs eða samþykkis hans. Hafi hann með bréfi, dags. 18. nóvember 2013, mótmælt áformum um skipulagið, sem kynnt hafi verið á kynningarfundi, og lýst sig til viðræðu um breytingu á lóðarmörkum með þeim hætti að lóðin yrði stækkuð til suðurs í þeim tilgangi að að koma þar fyrir bílskúr. Deiliskipulagið hafi hins vegar verið auglýst óbreytt þrátt fyrir andmælin. Lóð kæranda sé skert til austurs og þær viðbætur sem skipulagið geri ráð fyrir hafi áður verið hluti af lóðinni. Kærandi hafi fyrir löngu hefðað afnotarétt til þess svæðis og röng skráning eða afstöðumynd breyti því ekki. Sé því ekki hægt að telja það svæði til stækkunar á móti þeirri skerðingu sem skipulagið geri ráð fyrir.

Skerðing á fasteignaréttindum geti haft veruleg áhrif á afnotamöguleika og verðmæti fasteigna. Þurfi stjórnvöld að gæta hófs við slíkar aðgerðir og alls ekki ráðast í slíkar skerðingar nema á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi verið færð fyrir umræddri skerðingu eða gerð grein fyrir því hvaða almannahagsmunir búi henni að baki. Sé slík skerðing í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Jafnframt hafi verulega skort á samráð við kæranda við gerð skipulagstillögunar, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, auk þess sem athugasemdum kæranda hafi ekki verið svarað á fullnægjandi hátt.

Rannsókn málsins hafi verið ábótavant, en bygging bílskúrs innan lóðar kæranda sé útilokuð. Til þess þyrfti að rjúfa stoðvegg á lóðarmörkunum sem sé mjög afgerandi hluti hönnunar hússins, lóðarinnar og heildarmyndar eignarinnar. Auk þess sé lóðin mjög brött á umræddum stað. Þá myndi götumynd svæðisins gerbreytast. Minnt sé á að samkvæmt deiliskipulaginu sé Brekkugata á svæði í flokki I samkvæmt stefnumörkun um húsvernd og sé í skipulaginu jafnframt að finna ráðagerð um friðun húss kæranda.

Málsrök Hafnarfjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að því sé ranglega haldið fram að lóðin Brekkugata 13 minnki samkvæmt hinu kærða skipulagi. Hið rétta sé að lóðin muni stækka um u.þ.b. 9 m2. Samkvæmt nýju skipulagi sé heimilt að byggja bílskúr innan núverandi lóðarmarka og sé það tæknilega mögulegt. Götumynd svæðisins gerbreytist ekki við þá ráðstöfun. Um augljósa villu sé að ræða í greinargerð deiliskipulagsins þar sem fram komi að hús kæranda sé í „sveitserstíl“. Sá stíll eigi eingöngu við um timburhús. Hús á aðliggjandi lóð sé í þeim stíl og sé átt við það í greinargerðinni.

Því sé hafnað að skort hafi á samráð við kæranda, en honum hafi verið kynnt öll gögn er málið varði. Jafnframt eigi kærandi engan sérstakan lögboðinn rétt til lóðarstækkunar þótt heimilt sé að sækja um slíkt. Fari það eftir mati sveitarstjórnar á hverjum tíma hvort fallist sé á slíka stækkun. Byggingarreitur fyrir bílskúr sé inni á lóð kæranda samkvæmt hinu kærða skipulagi og því sé ekki sérstök þörf á lóðarstækkun.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við framangreint tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að kveða á um að gerð skuli tiltekin breyting á hinu kærða deiliskipulagi.

Sveitarstjórnir annast deiliskipulagsgerð og bera ábyrgð á henni skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórnum er því gefið víðtækt vald til ákvarðana um skipulag. Þó ber sveitarstjórnum m.a. að fylgja þeim markmiðum greindra laga sem eru tíunduð í 1. gr. þeirra. Þar er m.a. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnu samkomulagi eða eftir atvikum eignarnámi, séu skilyrði fyrir hendi. Gildistaka skipulagsáætlana getur hins vegar í einhverjum tilvikum haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum og kveða lögin á um rétt til bóta að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ágreiningsefnið í máli þessu lýtur að breytingu á mörkum lóðar kæranda, sem hann telur skerða eignarrétt sinn, en úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum fyrir dómstólum.

Í almennum skilmálum deiliskipulagsins segir að markmið þess sé að stuðla að heildstæðu byggða- og götumynstri í grónu hverfi og tryggja að nýbyggingar og viðbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir er. Áhersla sé lögð á heildarmynd og mælikvarða hins byggða umhverfis. Jafnframt segir að við gerð deiliskipulagsins hafi verið farið yfir lóðarsamninga á svæðinu og tillögur gerðar að breytingum á lóðarmörkum þar sem það þyki til bóta eða sé í samræmi við núverandi notkun. Einnig hafi stærðir lóða verið leiðréttar þar sem nú sé unnt að gera nákvæmari mælingar en áður. Breyting á stærðum lóða á deiliskipulagssvæðinu kemur fram í töflu í greinargerð skipulagsins. Fjöldi lóða eru stækkaðar, oft allnokkuð. Það verður þó ekki annað séð af gögnum málsins en að málefnaleg rök hafi búið þar að baki. Skal og á það bent að kærandi á ekki lögvarinn rétt til stækkunar lóðar sinnar og fyrir liggur að eftir sem áður er lóð hans ein af stærstu lóðunum á deiliskipulagssvæðinu.

Umrætt svæði, Suðurbær sunnan Hamars, er í hinu umdeilda deiliskipulagi skilgreint sem íbúðarsvæði, að undaskildum þremur lóðum sem tilheyra þjónustustofnunum, og samrýmist það landnotkun svo sem hún er ákveðin í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Verður ekki annað séð en að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við markmið og stefnu þágildandi aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Loks var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Gerð var deiliskipulagslýsing og haldinn íbúafundur til að kynna forsendur hennar. Deiliskipulagstillagan var síðan auglýst, athugasemdum kæranda svarað, samþykkt tillaga send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Í athugasemdum kæranda kom fram að vilji hans stæði til þess að fá landspildu sunnan við lóð sína undir bílskúr. Í svari sveitarstjórnar við þeim athugasemdum er tekið fram að nýtt deiliskipulag gerði ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr innan núverandi lóðar og þætti ekki ástæða til að minnka opið svæði til hliðar við hana. Auk þessa voru settar fram ábendingar um núverandi lóðarmörk og tekið fram að deiliskipulagið gerði ráð fyrir breyttum lóðarmörkum, en jafnframt að lóðarleigusamningi yrði ekki breytt nema kærandi óskaði þess. Þá hafði kærandi komið að athugasemdum í framhaldi af íbúafundi og bærinn átt við hann tölvupóstsamskipti í kjölfarið. Samkvæmt framangreindu verður að telja að fullnægjandi samráð hafi verið haft við kæranda þótt ekki hafi verið fallist á kröfur hans. Ekki verður heldur fallist á að svörum til hans hafi verið ábótavant eða að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Halli á lóð kæranda kemur ekki í veg fyrir að hann geti nýtt sér heimild til að byggja þar bílskúr og hefur sveitarstjórn með deiliskipulagsgerðinni tekið afstöðu til þess að yfirbragði götumyndarinnar verði ekki raskað til muna með þeirri breytingu.

Í greinargerð sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar, eins og rakið er í málsrökum, kemur fram að augljós villa sé í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi þar sem húsnúmer hafi víxlast. Þykja þessi mistök ekki þess eðlis að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geti til ógildingar hennar. Er kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. maí 2014 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Suðurbæ sunnan Hamars.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson