Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2015 Kríunes

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir E, , þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 1. febrúar 2016.

Málavextir: Á lóðinni Kríunesi við Elliðavatn er nú starfrækt hótel. Þar er einnig aðstaða til fundahalda og bátaleiga er á staðnum. Árið 2001 var samþykkt breyting á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness, er fól í sér heimild til stækkunar heimagistingar sem þar var þá starfrækt. Auk þess var gert ráð fyrir glerhýsi sem nýtast myndi sem almennt þjónusturými. Samþykkt var önnur breyting á nefndu skipulagi árið 2003, er gerði ráð fyrir kjallara undir hluta hússins, stækkun núverandi íbúðar þess og gerð þriggja annarra. Að auki var gert ráð fyrir sólskála. Starfsemi yrði óbreytt, þ.e. heimagisting með átta herbergjum, fundaaðstaða og bátaleiga. Enn var gerð breyting á umræddu deiliskipulagi árið 2009, en þá var samþykkt viðbygging við kjallara hússins. Mun heildarflatarmál hússins hafa verið 1.354 m² eftir stækkun þess.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 20. apríl 2015 var samþykkt að auglýsa tillögu lóðarhafa um breytt deiliskipulag umræddrar lóðar, er gerði m.a. ráð fyrir stækkun hússins og fjölgun hótelherbergja vegna aukinnar heilsutengdrar ferðaþjónustu á staðnum. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 28. s.m. Tillagan var auglýst til kynningar um miðjan maí 2015 og veittur frestur til 2. júlí s.á. til að skila inn athugasemdum. Hinn 1. júlí 2015 var haldinn kynningarfundur með íbúum í nágrenni Kríuness og í kjölfar þess var frestur til að koma að athugasemdum framlengdur til 4. ágúst s.á. Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsnefndar 24. s.m., ásamt framkomnum athugasemdum og greinargerð lóðarhafa. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til skipulags- og byggingardeildar. Málið var að nýju á dagskrá skipulagsnefndar 14. september 2015, þar sem tillagan var samþykkt ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar um málið, dags. sama dag. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu á fundi 22. s.m. Tillagan var í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin
ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt hennar. Birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. nóvember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hluti hússins að Kríunesi hafi verið byggður út fyrir byggingarreit sem markaður hafi verið í deiliskipulagi, samþykktu árið 2003. Sé hin kærða ákvörðun aðlöguð þeim framkvæmdum. Jafnframt sé vakin athygli á því að svo virðist sem búið sé að reisa nyrsta hluti viðbyggingar D. Sú bygging sé reist í óleyfi og hafi hún verið í notkun nú á annað ár. Sé þess óskað að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort m.a. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið fylgt við meðferð málsins. Þá hafi ekki verið tekið tillit til framkominna athugasemda.

Málsrök Kópavogsbæjar: Sveitarfélagið fer fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Að auki hafi hún verið ítarlegri en kveðið sé á um í lögum þar sem haldinn hafi verið samráðsfundur með íbúum í nágrenninu og athugasemdafrestur framlengdur. Hvorki sé verið að breyta lóðarmörkum né stofna nýja lóð undir stækkun hússins að Kríunesi. Sé téð ákvörðun í fullu samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024, en þar sé umrætt svæði skilgreint sem svæði fyrir verslun og þjónustu. Hvað varði þær framkvæmdir sem kærandi tiltaki sé bent á að þær hafi verið heimilaðar með eldri breytingu á deiliskipulagi Kríuness og séu í samræmi við hana.

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi tekur fram að hann hafi fundað í tvígang með kæranda máls þessa. Á fundunum hafi verið farið yfir teikningar og gengið um lóðina til að skoða staðsetningu fyrirhugaðra bygginga. Hafi kærandi ekki séð að þær myndu skerða útsýni frá heimili hans, enda verði stærstur hluti bygginganna neðanjarðar. Kærandi hafi bent á að hugsanlega myndi umferð aukast. Telji lóðarhafi að svo verði ekki þar sem fundarsalir verði færri en nú sé og herbergi fleiri. Þýði þetta minni umferð við hótelið en áður.

Niðurstaða: Samkvæmt hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu er markmið hennar að styrkja heilsutengda ferðaþjónustu að Kríunesi. Heimilar skipulagið að núverandi húsnæði verði stækkað, aðstaða bætt og gistirýmum fjölgað, en minni áhersla verði lögð á fundaaðstöðu og afþreyingu fyrir fyrirtæki og hópa en fyrir sé.

Gerir skipulagið ráð fyrir 80 m² viðbyggingu, merktri D á skipulagsuppdrætti, á einni hæð við norðausturhluta byggingarreitar. Auk þess er ráðgert að stækka veitingasali með 200 m² viðbyggingu, merktri E, í suðausturhorni byggingarreits, sem tengjast mun 800 m² viðbyggingu, merktri F, á einni hæð, en sú bygging er að stærstum hluta niðurgrafin. Þar er gert ráð fyrir 16 hótelherbergjum, ásamt setustofu sem tengjast mun aðalhæð hússins. Stendur nefnt jarðhýsi mest 1,1 m yfir gólffleti aðalhússins og verður það klætt torfi. Framan við hvert herbergi er lítil niðurgrafin verönd er snýr að Elliðavatni. Með innri breytingum á húsinu er gert ráð fyrir alls 30 hótelherbergjum, auk séríbúðar. Á vestanverðri lóðinni er gert ráð fyrir tveimur sérstæðum húsum. Annars vegar hesthúsi, sem er 90 m² nýbygging á einni hæð, merkt G, og hins vegar áhalda- og tækjahúsi, sem er 50 m² nýbygging á einni hæð, merkt H. Fram kemur í skipulaginu að eftir breytinguna verði brúttóflatarmál bygginga samtals 2.875 m².

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er lóðin Kríunes skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði og er það breyting frá Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 þar sem hluti lóðar Kríuness var á íbúðarsvæði. Gerir skipulagið m.a. ráð fyrir hótelum, gistiheimilum og skemmtistöðum á verslunar- og þjónustusvæðum og er það í samræmi við c-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Meðal markmiða aðalskipulagsins á þeim svæðum er að stuðla að nýsköpun í atvinnumálum og skapa umhverfi og tækifæri fyrir frumkvöðla til að setjast að með starfsemi sína innan bæjarmarkanna. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við stefnu aðalskipulags, að þessu leyti, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, sé jafnframt fullnægt.

Tillaga að deiliskipulagi Kríuness var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hún var kynnt nágrönnum á svæðinu og tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags- og byggingardeildar, sem síðar var samþykkt af skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Lutu athugasemdir meðal annars að því að aukin umferð yrði í kjölfar stækkunar á Kríunesi og að öryggi vegfaranda yrði ábótavant. Var á það bent í nefndri umsögn að gerðir hefðu verið lóðarleigusamningar um byggingarlóðir í landi Vatnsenda við Elliðavatn, í nágrenni Kríuness, en í þeim hefði sérstaklega verið tekið fram að frekari gatnagerðarframkvæmdir og lýsing á svæðinu væru á ábyrgð leigutaka. Lagði skipulags- og byggingardeild jafnframt fram tillögu til umræðu um gönguleiðir, lýsingu og aðgerðir til að draga úr umferðarhraða. Eftir að bæjarstjórn hafði samþykkt deiliskipulagstillöguna var hún send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda, eins og fyrr segir.

Hin kærða ákvörðun felur í sér töluverða aukningu á byggingarmagni umræddrar lóðar. Þrátt fyrir það verður ekki talið að samþykkt breyting muni að marki raska grenndarhagsmunum kæranda, svo sem vegna skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar eða annars ónæðis. Er enda talsverð fjarlægð í næstu íbúðarhús, þ. á m. hús kæranda, auk þess sem fjölgun hótelherbergja um 16 felur ekki í sér meiri umferðaraukningu en búast má við á skilgreindu þéttbýlissvæði.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. september 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæði milli vatns og vegar, vegna Kríuness í Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson